131. löggjafarþing — 86. fundur
 9. mars 2005.
Kostnaður við breikkun Suðurlandsvegar.
fsp. BjörgvS, 574. mál. — Þskj. 862.

[15:05]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í nýlegum tölum frá Vegagerðinni að aukning umferðar um Suðurlandsveg hefur verið mikil á undanförnum árum, heil 70% á rúmum áratug og í kringum 10% milli áranna 2002 og 2003. Vegurinn kallar því á úrbætur og til framtíðar litið er besta niðurstaðan að breikka veginn frá Rauðavatni til Selfoss, t.d. með þriggja akreina vegi, tveir plús einn eins og það er kallað og þekkt er í Svíþjóð, sem er álitinn hagkvæmur og góður kostur í vegagerð almennt.

Til að nefna fleiri töluleg dæmi um hve brýnar þessar framkvæmdir eru hefur meðalumferð um Hellisheiði á dag á síðustu 12 árum aukist um 70%. Árið 1992 var meðalumferðin á dag, heilsárstala með öllum toppum sínum og lægðum, rúmlega 3.200 bílar. Árið 2004 er fjöldi þeirra bíla sem fara yfir Hellisheiði hins vegar tæplega 5.640 bílar, aukningin um 70%. Í fyrra, milli áranna 2003 og 2004, var aukningin á þessari leið tæp 8% og tæp 12% á leiðinni milli Hveragerðis og Selfoss undir Ingólfsfjalli. Aukin umferð á svæðinu helst að sjálfsögðu í hendur við þá miklu íbúasprengingu sem hefur orðið þar, mikinn fjölda sumarhúsa og fleiri eigenda heilsárshúsa af höfuðborgarsvæðinu á Suðurlandsundirlendinu á síðustu árum auk þess sem ferðamönnum sem þangað sækja fjölgar á hverju ári.

Það er mikil samstaða um þetta mál meðal sunnlenskra stjórnmálamanna, þingmanna og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem hafa sett þetta mál efst á forgangslista sinn, þ.e. að vinna að þessum úrbótum og byggja þriggja akreina veg á þessari leið.

Tel ég forvitnilegt að fá það fram hjá hæstv. ráðherra hvaða kostnaður gæti hugsanlega legið að baki þessum framkvæmdum og spyr hann:

1. Hver er áætlaður kostnaður:

a. við að tvöfalda Suðurlandsveg frá Rauðavatni að Selfossi,

b. við að leggja þríbreiðan veg frá Rauðavatni að Selfossi,

c. við að lýsa Suðurlandsveg frá Rauðavatni að Selfossi?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að breikkun og lýsing Suðurlandsvegar verði tekin upp í samgönguáætlun?



[15:08]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er spurt: „Hver er áætlaður kostnaður við að tvöfalda Suðurlandsveg frá Rauðavatni að Selfossi?

Svar mitt er þetta: Leiðin frá Rauðavatni að Selfossi er um 45 km löng. Miðað við reynslutölur Vegagerðarinnar frá Reykjanesbraut má áætla að kostnaðurinn við hvern kílómetra við tvöföldun sé a.m.k. 100 millj. kr. Heildarkostnaður yrði því um 4,5–5 milljarðar kr.

Ef farið verður í að tvöfalda veginn væri eðlilegt að gera þá kröfu að öll vegamót verði mislæg eins og á Reykjanesbrautinni. Einnig þyrfti þá að fækka vegamótum miðað við það sem nú er, sem mundi þá kalla á gerð einhverra hliðarvega. Gert er ráð fyrir að mislæg krossgatnamót kosti um 200–300 millj. kr. en mislæg T-gatnamót um 150–200 milljónir. Á leiðinni frá Rauðavatni að Hveragerði virðist í fljótu bragði þurfa að gera a.m.k. fimm mislæg T-gatnamót um 150–200 milljónir. Á leiðinni frá Rauðavatni að Hveragerði virðist í fljótu bragði þurfa að gera a.m.k. fimm mislæg T-gatnamót sem gætu kostað 750–1.000 millj. kr. Frá Hveragerði að Selfossi þyrftu sennilega að vera þrenn mislæg gatnamót og tvenn mislæg T-gatnamót sem gætu kostað 900–1.300 millj. kr. Samtals má því áætla að kostnaður við Suðurlandsveg frá Rauðavatni að Selfossi gæti orðið á bilinu 6–7 milljarðar kr.

Þá er spurt um kostnað við að leggja þríbreiðan veg frá Rauðavatni að Selfossi.

Svarið er svohljóðandi: Í áætlunum Vegagerðarinnar hefur verið gert ráð fyrir að tvöfalda þyrfti veginn frá Rauðavatni að Hafravatnsafleggjara en svokallaður tveir plús einn vegur mundi duga austan við Hafravatnsveg. Ekki væri þó óeðlilegt að gera ráð fyrir tvöföldun á veginum milli Hveragerðis og Selfoss í framtíðinni. Frá Rauðavatni að Hafravatnsvegi eru 3,4 km. Kostnaður við tvo plús tvo veg þar gæti verið um 400 millj. kr. Frá Hafravatnsvegi að Selfossi eru um 22 km, sem ekki eru með þremur akreinum nú þegar. Kostnaður við að breikka veginn um eina akrein hefur verið áætlaður um 750 millj. kr. og er þá ekki gert ráð fyrir miðjuvegriði en það er talið auka öryggi vegarins verulega. Talið er að kostnaður við miðjuvegrið sé um 10 millj. kr. á kílómetra eða um 400 millj. kr. alla leiðina. Þessu til viðbótar koma breytingar á ræsum og brúm sem gætu kostað um 200 millj. kr. Einnig þyrfti að gera ráð fyrir lagfæringum á þeim hluta vegarins sem í dag er þrjár akreinar, sem eru um 17 km. Fækka þyrfti vegamótum og lagfæra á leiðinni, annaðhvort með stefnugreiningu eða hringtorgum. Samtals gæti þurft að leggja 6–7 stefnugreind gatnamót og þrjú hringtorg. Kostnaðurinn við það gæti verið 250–300 millj. kr. Samtals gætu þær vegabætur því kostað um 2 milljarða kr.

Benda má á að á heimasíðu Vegagerðarinnar er að finna nýlega skýrslu um samanburð á arðsemi 2+1 og 2+2 vega, annars vegar milli Reykjavíkur og Selfoss og hins vegar milli Reykjavíkur og Borgarness.

Í c-lið spurningarinnar um kostnaðinn er spurt hvað kosti að lýsa Suðurlandsveg frá Rauðavatni að Selfossi?

Svar mitt er þetta: Eins og kom fram í fyrirspurn um sama efni, samanber þskj. 723, mál 471, var á árinu 2001 áætlaður kostnaður við veglýsingu meðfram hringveginum milli Breiðholtsbrautar og Hveragerðis um 360 millj. kr. á verðlagi desember 2001. Út frá því má álykta að kostnaður við að lýsa einnig upp veginn milli Hveragerðis og Selfoss sé um 100 millj. til viðbótar. Árlegur rekstrarkostnaður við lýsingu frá Rauðavatni að Selfossi gæti verið um 20 millj. kr. á ári.

Þá spyr hv. þingmaður: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að breikkun og lýsing Suðurlandsvegar verði tekin upp í samgönguáætlun?

Svar mitt er þetta: Endurskoðun samgönguáætlunar er nú að mestu lokið. Mjög mörg verkefni bíða úrlausnar á sviði vegamála sem flest eru aðkallandi, ýmist út frá öryggissjónarmiðum, hagkvæmni, greiðari samgöngum eða umhverfissjónarmiðum. Við að ákveða í hvaða verkefni verður farið við næstu endurskoðun samgönguáætlunar verður tekið mið af öllum þessum sjónarmiðum en að sjálfsögðu er mikill vilji til þess að bæta úr. Við stöndum í miklum framkvæmdum og vegabótum vítt og breitt um landið. Vandi okkar er sá að velja og hafna og ráðast í þær framkvæmdir sem eru mikilvægar.

Í þessu sambandi minni ég á að við gerum ráð fyrir því að létta á umferð um Hellisheiði með uppbyggingu Suðurstrandarvegar og með uppbyggingu vegar um Gjábakka. Það dregur væntanlega úr umferðarþunga á Hellisheiðinni. Þannig er unnið að mörgum mikilvægum úrbótum á þessu svæði og nauðsynlegt að minna á það hér. En mér er jafnframt ljóst að við þurfum að tryggja sem best uppbyggingu vegarins yfir Hellisheiði í þágu umferðaröryggis.



[15:13]
Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá fyrirspurn sem hér var borin fram af hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni.

Ég bendi á að Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa unnið gríðarlega gott verk við forgangsröðun í samgöngumálum á þessu svæði. Í skýrslu þeirra varðandi þennan vegarkafla leggja þau afar mikla áherslu á að hann hafi forgang á svæðinu sem um ræðir. Það er mjög ánægjulegt og gott til þess að vita að sveitarstjórnarmenn hafi þar náð fullri samstöðu um þetta mál.

Ég tek undir þá skýrslu sem SASS hafa lagt fram í þessu máli. Jafnframt vil ég geta þess að þegar ég keyrði til höfuðborgarinnar í morgun voru komin tæki að hinum nýja kafla sem er verið að byrja á, frá Skíðaskálabrekku og niður fyrir Kaffistofu. Það er framkvæmd sem mun kosta tæpar 300 millj. kr. og mun skipta afar miklu máli.



[15:15]
Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi fór vel yfir umferðarþungann sem er á þessum vegi og hvernig hann hefur aukist undanfarin ár. Umferðarþunginn er eitt þegar við ræðum um vegaframkvæmdir og umferðaröryggismál eru annað. Það má segja að á undangengnum árum hafi verið unnið markvisst að því að eyða svokölluðum svörtum blettum í vegakerfinu og gengið nokkuð vel. Samgönguyfirvöld hafa verulega tekið til hendinni þegar kemur að umferðaröryggi.

Þegar við horfum á Suðurlandsveginn hljótum við að hafa þetta í huga og velta fyrir okkur þegar við sjáum þann þunga sem orðinn er á þeim vegi og þau slys sem einnig hafa orðið þar hvort ekki sé að því komið að bæta þennan veg verulega frá því sem nú er. Ég vona satt að segja að hæstv. samgönguráðherra sé mér sammála þegar hann fer í samgönguáætlun um að fáar framkvæmdir sé nauðsynlegri en sú sem hér um ræðir.



[15:16]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa tímabæru fyrirspurn. Ég vildi bara vekja athygli á því þar sem ég á mjög oft leið þarna um að á brautinni eru ákveðnir slysakaflar. Ef þetta verður ekki tekið inn á samgönguáætlun er afar brýnt að taka kaflann við Lækjarbotna, kaflann við Litlu kaffistofuna, Kambana og Skíðaskálabrekkurnar sem eru mjög sviptivindasamar og alvarlegar. Þar verða alvarlegu slysin. Fari þetta ekki inn á vegáætlun hygg ég að taka eigi þessa kafla sérstaklega í gegn og tvöfalda þá eða þrefalda og setja vegrið á milli akreina. Ég hef ekki tölur í höndunum en ég hef reynslu af að fara þarna, bæði að vetrarlagi og sumri, mörgum sinnum á ári og ég veit af þessum hættum sem þarna eru verulegar.

Ég vek athygli á því líka að sumarbústaðaeigendur fyrir austan fjall eru farnir að fara miklu meira að vetrarlagi í bústaði sína. Koma þar til hitaveituframkvæmdir o.fl.



[15:17]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem hér komu þó að ekki kæmi ótvírætt fram hjá honum að við mættum njóta þess að sjá þetta inni á samgönguáætlun. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, bæði Gjábakkavegurinn og Suðurstrandarvegurinn munu létta á umferðinni. Engu að síður reiknar Orkuveitan, vegna framkvæmda sinna á Hellisheiði og Hellisheiðarvirkjun sem nú stendur fyrir dyrum, með því að fá í heimsókn 250–300 þús. manns á ári. Það er ekki lítil aukning. Þessi umferð mun ekki fara um Gjábakkaveg eða Suðurstrandarveg.

Auk þess má benda á það að stór hluti þeirra sem stunda atvinnu á Árborgarsvæðinu og svæðinu þarna í kring stundar atvinnu í Reykjavík og það fólk mun nota Hellisheiðina áfram, eins og reyndar þeir sem fara austur fyrir í Rangárvallasýsluna. Við leggjum mikla áherslu á það, þingmenn Suðurkjördæmis, að þessi framkvæmd fari inn á samgönguáætlun.



[15:18]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör og hv. þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni, ekki síst hv. þm. Atla Gíslasyni sem ég held að sé sumar- eða heilsárshúseigandi á þessu svæði og þekkir þetta ágætlega af eigin raun. Það kom glöggt fram í umræðunum að mikil samstaða er um þessar framkvæmdir meðal sveitarstjórnarmanna og alþingismanna á þessu svæði og brýnt að framkvæmdirnar fari inn á samgönguáætlun þegar hún verður endurskoðuð. Umferðaröryggi og hagkvæmni ráði för, sagði hæstv. ráðherra, og ég tek eindregið undir það með honum. Enginn velkist í vafa um að hvort tveggja er til staðar þegar að þessum framkvæmdum kemur, þörf á auknu öryggi og mikil hagkvæmni af framkvæmdunum, þar sem umferð um þennan veg er svo mikil sem nú og áður hefur verið rakin.

Aukningin er líka mikil á milli ára þannig að þetta hlýtur að teljast til brýnustu framkvæmda í samgöngumálum okkar á næstu missirum. Það er ánægjulegt að sjálfsögðu að náðst hefur jafneindregin samstaða og náðst hefur meðal sveitarfélaga á Suðurlandi sem settu þetta í forgang á þingi sínu í fyrrahaust og samstaða órofa einnig um það meðal þingmanna kjördæmisins. Það ætti að vera hvati að því að málið fái byr og að við sjáum á næstu árum að úr verði bætt og verstu og hættulegustu kaflarnir á veginum verði lagfærðir þannig að vel þyki og vel verði úr bætt.

Ég þakka aftur hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Eftir liggur að áætlun um mögulegan kostnað liggur fyrir og þá sérstaklega hlýtur að standa eftir hvað varðar þriggja akreina veg, tveir plús einn, sem virðist vera mjög hóflegur kostnaður á bak við. Hann ætti að geta orðið sá kostur sem sameinast verður um.



[15:20]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það fer auðvitað ekki á milli mála að þingmenn hafa mikinn áhuga á úrbótum í samgöngumálum og það er af hinu góða. Samgönguráðherra gleðst yfir því að eiga svo marga bandamenn.

Mér fannst hv. þingmenn tala eins og ekkert væri verið að gera, ekkert stæði til. Hv. þm. Kjartan Ólafsson vakti athygli á því að vinnuvélar eru á þessu svæði og að nýbúið er að bjóða út verkið frá Litlu kaffistofunni og upp í Skíðaskálabrekku þannig að það verður náttúrlega geysileg bragarbót og mikil viðbót. Mér fannst bæði fyrirspyrjandi og hv. þingmenn aðrir tala eins og ekkert stæði til og það þyrfti að berja samgönguráðherrann til að koma einhverju inn á vegáætlun. Ég bið þingmenn um að gleyma ekki því sem þeir hafa þegar samþykkt að gera.

Auðvitað hljóta menn að velta fyrir sér forgangsröðun í samgöngumálum. Ég hef beint fyrir framan mig hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sem leggur til að a.m.k. 15 jarðgöng verði grafin á næstunni, jafnvel 20, og þá sjá menn að af mörgu er að taka. Þess vegna verðum við að velja og hafna. Bent hefur verið á að þingmenn Suðurkjördæmis lögðu ofurkapp á Suðurstrandarveginn. Þá lá það fyrir að gera þyrfti úrbætur á Hellisheiðinni. Ég man ekki eftir því að á þeim tíma sem Suðurstrandarvegurinn var í umræðunni hafi þær hörðu kröfur verið uppi af hálfu þingmanna Suðurkjördæmis að meiri ástæða væri til þess kannski að fara í veginn um Hellisheiði á undan því að endurbyggja Suðurstrandarveginn. Við erum (Forseti hringir.) í óskaplega þröngri stöðu. Hv. þingmenn, (Forseti hringir.) m.a. hv. þingmenn Suðurkjördæmis, verða að muna eftir þessu.