131. löggjafarþing — 86. fundur
 9. mars 2005.
Háskóli á Ísafirði.
fsp. KHG, 522. mál. — Þskj. 791.

[15:37]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Herra forseti. Fyrir liggja ákveðnar staðreyndir. Í fyrsta lagi að það er stefna ríkisstjórnarinnar að byggja upp byggðakjarna á Vestfjörðum og að Ísafjörður verði þar þungamiðja.

Í öðru lagi að störfum á Vestfjörðum hefur fækkað mjög mikið á síðustu árum, á árunum 1990–1997 fækkaði störfum um 19%.

Í þriðja lagi er fjöldi opinberra starfa á Vestfjörðum með því lægsta sem gerist á landinu og þyrfti að fjölga störfum á vegum hins opinbera um 130 á Vestfjörðum til þess að fjöldi þeirra næði sama hlutfalli og er á landinu í heild.

Í fjórða lagi liggur fyrir að menntunarstigið er lágt, sérstaklega þar sem ekki eru starfandi háskólar.

Í fimmta lagi liggur fyrir að hlutfall dagskólanemenda af Vestfjörðum er það lægsta á landinu og að óvíða eru fleiri fjarnemendur en einmitt þar, en talið er að um 160 manns sem búsettir eru á Vestfjörðum stundi háskólanám með fjarnámssniði.

Öll þessi atriði leiða okkur að því að stofnun háskóla á Ísafirði mundi gagnast vel til að styrkja byggðina þar, efla Ísafjörð sem byggðakjarna, sem er stefna ríkisstjórnarinnar, og verða þjóðinni í heild til heilla þar með.

Síðastliðið sumar tók ungt fólk á Vestfjörðum sig saman um táknræna stofnun háskóla á Vestfjörðum og sýndi þar með hug sinn til málsins, en unga fólkið er afl komandi tíma og unga fólkið á Vestfjörðum gerir kröfu um háskóla á Ísafirði.

Morgunblaðið tók málið upp í leiðara síðasta sumar, þann 18. júlí, og þar segir, með leyfi forseta:

„Við athöfnina á Ísafirði voru flestir þingmenn Norðvesturkjördæmis staddir. Þeir eiga nú að taka höndum saman, taka unga fólkið á orðinu og vinna að stofnun Háskóla Vestfjarða.“

„Nú verður horft til þingmanna þessa landshluta um að taka við því merki, sem vestfirskt æskufólk hefur hafið á loft og bera það fram til sigurs.“

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram þá fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um hvort hún muni beita sér fyrir stofnun háskóla á Ísafirði og slást í för með okkur sem viljum taka áskorun Morgunblaðsins.



[15:40]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur lagt fyrir mig fyrirspurn þess efnis hvort ég muni beita mér fyrir stofnun háskóla á Vestfjörðum.

Til að svara þeirri spurningu er nauðsynlegt að líta til forsögu málsins sem er í stuttu máli sú að í maí 2004 kynnti ég í ríkisstjórn niðurstöðu vinnuhóps á vegum menntamálaráðuneytisins um uppbyggingu háskólanáms á Vestfjörðum. Niðurstaða vinnuhópsins varð sú að við uppbyggingu háskóla og rannsóknastarfsemi á Vestfjörðum væri ákjósanlegasta leiðin að stofna Þekkingarsetur Vestfjarða sem byggði á þeirri starfsemi í rannsóknum og háskólakennslu sem þegar væri fyrir hendi og áformuð væri á Vestfjörðum. Má segja að niðurstaða vinnuhópsins byggi á þeim hugmyndum sem heimamenn höfðu sett fram í gegnum tíðina og er svipað upp á teningnum austur á Egilsstöðum.

Nánar tiltekið gerðu tillögur nefndarinnar ráð fyrir að skapaður yrði sameiginlegur vettvangur fyrir rannsóknastofnanir, fjarkennslu og staðbundna kennslu á háskólastigi, símenntun og undirbúningsnám á einum stað í fjórðungnum. Með þessu fyrirkomulagi væri komið á æskilegum sveigjanleika í skipulagi og starfsháttum auk þess sem það gæfi kost á virku samstarfi við rannsóknastofnanir og háskóla í landinu við uppbyggingu þekkingarstarfsemi á Vestfjörðum.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í maí 2004 að taka undir tillögur vinnuhópsins um uppbyggingu Þekkingarseturs Vestfjarða jafnframt því sem ráðuneytið yrði þess hvetjandi að stuðla að eflingu rannsókna á Vestfjörðum og að háskólar og rannsóknastofnanir á þeirra vegum tækju upp samstarf við þekkingarsetrið.

Í framhaldi af þessu skipaði ég starfshóp til að undirbúa stofnun Þekkingarseturs á Vestfjörðum. Hópurinn fékk það verkefni að gera tillögur um það hvernig best yrði staðið að stofnun setursins, skipulagi og uppbyggingu á starfsemi þess. Gengið var út frá því að allt nám við setrið yrði á vegum og ábyrgð viðurkenndra háskóla og að þeir ættu jafnframt beina aðild að stjórn þekkingarsetursins. Starfshópurinn vann enn fremur tillögur að skipulagsskrá fyrir þekkingarsetrið sem nú liggur fyrir að muni hefja starfsemi sína í haust.

Í sl. viku kynnti ég tillögur nefndarinnar á ríkisstjórnarfundi og mælti með því að gengið yrði til þess að stofna Þekkingarsetur Vestfjarða með formlegum hætti. Málið hefur hlotið jákvæðar undirtektir í ríkisstjórn enda eru tillögurnar algjörlega í samræmi við þá umræðu sem fram hefur farið í vísinda- og tækniráði og rétt að geta þess að vísinda- og tækniráð er undir forustu forsætisráðherra. En í síðustu ályktun vísinda- og tækniráðs, þ.e. frá desember 2004, er sérstaklega vikið að stofnun þekkingarsetra á landsbyggðinni.

Þekkingarsetur á Vestfjörðum verður öflugur samstarfsvettvangur um háskólamenntun, símenntun og rannsóknir. Aðild að þekkingarsetrinu munu eiga háskólar sem bjóða þar fjarnám og staðbundið nám, rannsókna- og þjónustustofnanir, fyrirtæki og sveitarfélög á Vestfjörðum. Þekkingarsetrið verður sjálfseignarstofnun sem gerir samstarfssamninga við háskóla og rannsóknastofnanir innan lands og utan sem stuðla að auknu námsframboði á Vestfjörðum og rannsóknum sem byggja á sérstöðu Vestfjarða. Allir háskólar í landinu, rannsóknastofnanir með starfsemi á Vestfjörðum, sveitarfélög og aðrir aðilar fyrir vestan hafa samþykkt aðild að setrinu.

Meginmarkmið mitt með skipun starfshóps var að styrkja og efla háskólamenntun og rannsóknir á Vestfjörðum. Á Ísafirði hefur á undaförnum árum byggst upp mikilvæg kjarnastarfsemi um háskólamenntun og rannsóknir á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og rannsóknastofnana. Ég tel mikilvægt að byggja á þeim grunni sem fyrir er og skapa sveigjanleika fyrir starfsemi sem tengist háskólamenntun, rannsóknum, símenntun og þjónustu við atvinnulíf.

Til að geta boðið upp á fjölbreytt framboð af háskólanámi sem er viðurkennt í öðrum háskólum og alþjóðlega er nauðsynlegt að hafa virka aðild háskóla í landinu að starfseminni og tryggja námsframboð með fjarnámi. Með samstarfi við rannsóknastofnanir sem fyrir eru á svæðinu er stuðlað að því að tengja saman rannsóknir og háskólamenntun og skapa frjóan grundvöll fyrir virka þekkingarstarfsemi.

Ég tel, herra forseti, að með stofnun Þekkingarseturs á Vestfjörðum sé nauðsynlegur grunnur lagður að framsækinni háskólastarfsemi á Vestfjörðum. Það er einmitt markmið sem ríkisstjórn Íslands stefnir að.



[15:45]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég verð að segja að svör ráðherra hæstv. valda mér vonbrigðum. Ég veit að það er ekki eining um það á Vestfjörðum að fara þá leið sem hæstv. ráðherra lýsti. Vilji Vestfirðinga er að þeir fái sinn eigin háskóla og hafandi reynt hve mikilvægt það er fyrir byggðarlag að hafa háskólastarfsemi, eins og við höfum upplifað í Skagafirði með Hólaskóla, þá skil ég mætavel óskir Vestfirðinga og styð þá eindregið í kröfum sínum og eindregnum óskum um að stofnaður verði sjálfstæður háskóli á Vestfjörðum. Það hefur sannast í starfsemi Hólaskóla að hægt er að reka fullkomlega góða rannsókna- og vísindastarfsemi í lítilli stofnun. Ráð lítilla skóla er einfaldlega það að taka upp samstarf við aðra skóla og stofnanir.

Ég ítreka að ég óska þess (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra hlusti á óskir heimamanna, (Forseti hringir.) ekki einungis þeirra sem sitja í nefndum fyrir hana.



[15:47]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hún var eftirminnileg, þverpólitísk samstaða ungs fólks á Vestfjörðum í fyrrasumar þegar ályktað var um stofnun háskóla á Ísafirði. Ég tek undir þá kröfu og styð heils hugar að stofnaður verði háskóli á Ísafirði sem hvíli á sérkennum og sérstöðu byggðarlagsins. Ég tel að stofnun þekkingarseturs sé allt of stutt skref, nema það sé fyrsta skref í átt að stofnun háskóla á Ísafirði.

Það er nauðsynlegt að ganga alla leið og stofna sérstakan háskóla. Einungis þannig næst markmiðið um að skapa samfélag í kringum það sem skilar sér til byggðarlagsins eins og að er stefnt. Stofnun háskóla á Ísafirði væri eitt af stærstu skrefunum sem hægt væri að taka til að efla varanlega og verulega byggð á Vestfjörðum. Það skref verður aldrei tekið með því að stofna þekkingarsetur. Það verður einungis tekið með því að stofna sérstakan háskóla á Ísafirði. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem talað hafa í þá veru og (Forseti hringir.) unga fólkinu á Vestfjörðum.



[15:48]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég hef barist með Vestfirðingum fyrir stofnun sjálfstæðs háskóla á Ísafirði. Þau áform sem hæstv. menntamálaráðherra kynnir núna hljóta að valda miklum vonbrigðum. Þar er ekki aðeins gengið á svig við þau loforð sem gefin hafa verið um stofnun háskóla á Ísafirði heldur er ætlunin einnig að stofna sjálfseignarstofnun. Ríkið þorir ekki einu sinni að axla eiginlega ábyrgð í stofnun þessa skóla. Hvar er samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins sem dundi yfir okkur í fjölmiðlum þar sem meira að segja var vitnað í formanninn, að hann styddi það að stofnaður yrði háskóli á Vestfjörðum? Það kemur fram í fréttum að engu orði hafi verið vikið að stefnu Framsóknarflokksins í ríkisstjórn í síðustu viku þegar ráðherra kynnti þetta mál þar.

Herra forseti. (Forseti hringir.) Hér flæmast menn undan. Við heimtum sjálfstæðan háskóla.



[15:49]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég held að það dyljist engum að Vestfirðingar vilja að stofnaður verði háskóli á Vestfjörðum sem staðsettur yrði á Ísafirði. Það er vilji íbúanna. Hvort ráðherra hafi tekist að fá ákveðinn hluta þeirra sem hún vinnur með til að fallast á að lendingin yrði þekkingarsetur, um það skal ég ekki dæma en það er alla vega kostur númer tvö í mínum huga. Ég átta mig ekki á því hvers vegna er ekki stefnt að stofnun háskóla og rektor ráðinn til að leiða stofnun skólans inn í framtíðina og þróun hans. Ég hefði talið að það væri vænsti kosturinn. Það er örugglega sá kostur sem heimamenn sækjast eftir í þessu máli.



[15:50]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Fyrirspurnin var einföld en svarið nokkuð langt og innihald þess í raun að það eigi ekki að stofna háskóla á Vestfjörðum heldur koma á samstarfi rannsóknastofnana við háskóla annars staðar. Það er náttúrlega þvert á það sem stendur í flokkssamþykkt Framsóknarflokksins. Það er tímanna tákn að hér mæta eingöngu til umræðunnar þingmenn stjórnarandstöðunnar og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Mér virðist það sýna hvernig þetta mál er í pottinn búið.

Í raun skulda þeir flokkar sem fara með völd núna Vestfirðingum störf. Það leikur enginn vafi á því. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa komið á kvótakerfi og hrifsað störfin í burtu af Vestfjörðum. Það er kominn tími til að þeir skili einhverjum störfum vestur.



[15:51]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skyldi taka þann kost að skapa sjálfseignarstofnun utan um þekkingarfyrirtækið sem hún hyggst setja á fót vestur á fjörðum. Það er ánægjuefni að ráðherranum skuli þykja það rekstrarform hentugt til að reka þekkingarstarfsemi af þessu tagi. Við höfum nýlega fengið að heyra nokkuð aðra sögu af því rekstrarformi, sjálfseignarstofnunum, varðandi starfsemi á háskólastigi.

Til að meta hugmyndir ráðherra vildi ég gjarnan að hún upplýsti hve myndarlega hún hyggst standa að þessu? Hversu mikið fé á að setja vestur til að gera þetta? Hve mörg stöðugildi á að setja í þessa nýju stofnun? Hvaða umfang á að vera á þessu? Maður þarf að geta áttað sig á því hvaða hugur fylgi hér máli. Þá tel ég mikilvægt að nefndar verði upphæðir og fjöldi nýrra starfa vestur á fjörðum, sem sannarlega hljóta að skipta máli, samanber ræðu hv. fyrirspyrjanda.



[15:53]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni fyrir innlegg þeirra.

Svör ráðherrans eru í raun eftirfarandi:

Það sem gera á er ekki háskóli.

Það sem gera á verður ekki með kennslu.

Það sem koma á á fót á að koma í veg fyrir samkeppni á háskólastigi vegna þess að aðrir háskólar eiga að stjórna því hvað verður gert.

Það sem gera á er Fræðslumiðstöð Vestfjarða í nýjum búningi, gamalt vín á nýjum belg, sem hefur tvö markmið. Fyrst og fremst á stofnunin að einbeita sér að þörfum þeirra sem afla sér menntunar á framhaldsskólastigi og í öðru lagi, eins og segir í viðskiptaáætlun sem kynnt var í gær, með leyfi forseta:

„Háskólasetrið mun keppast við að búa svo vel að nemendum háskólanna að það þyki betri kostur að stunda fjarnám heldur en að flytja búferlum til þess að sækja hefðbundið háskólanám. Metnaðurinn felst í því að styrkja fjarnámsmöguleika Vestfirðinga fyrst og fremst.“

Þetta, virðulegi forseti, þótt ég voni að úr þessu muni rætast, er ekki grunnur að háskóla. Þetta er ekki grunnur að háskólastarfi heldur fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að háskóli geti risið á Vestfjörðum, ætli menn að aka þessa braut áfram. Þessi vegur er háll sem áll og mjög auðvelt að enda ofan í fjöru, aki menn eftir þessum vegi eins og ætlað er. Vestfirðingar vilja háskóla. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti.



[15:55]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur flutt þingsályktunartillögu, m.a. um stofnun háskóla Vestfjarða. Þar segir m.a.:

„Sérhæft námsframboð skólans mótist af sérstöðu svæðisins með tilliti til umhverfismála, ferðamála, sjávarútvegs og tónlistarlífs, en í upphafi verði lögð áhersla á almennar undirstöðugreinar, svo sem fræðileg vinnubrögð, sálfræði, siðfræði, félagsfræði, aðferðafræði og tölfræði.“

Eins og þessi tillaga er sett fram, herra forseti, er í raun ekkert samhengi á milli þeirra undirstöðugreina sem lagt er til að skólinn hefji starfsemi með og þeirra sérhæfðu námsleiða sem kæmi til greina að skólinn tæki upp á sína arma síðar meir.

Síðan er rétt að vekja athygli á því, herra forseti, sem fram kemur í athugun Byggðarannsóknastofnunar Íslands, í skýrslu frá mars 2004. Þar segir um greiningu á þörf fólksins, einstaklinganna fyrir vestan, gagnvart háskólanámssetri á Vestfjörðum, að þátttakendur langaði fyrst og fremst að sækja í eftirfarandi nám: viðskiptagreinar, raungreinar og verkfræði, heimspekigreinar, iðngreinar, uppeldisgreinar, heilbrigðisgreinar, félagsvísindi og listgreinar.

Ég fæ ekki séð, herra forseti, að þessi upptalning á löngunum og þörfum Vestfirðinga gagnvart háskólanámi séu í nokkru samræmi við þær hugmyndir sem hv. þingmaður setti sjálfur fram í þingsályktunartillögu sinni. Það verður því miður að segjast eins og er, að það vantar samræmi á milli þeirrar tillögu sem hv. þingmaður bar fram á sínum tíma og þeirra þarfa og langana sem Vestfirðingar vilja uppfylla með námi á Vestfjörðum.

Ég held að sú leið sem við förum sé raunhæf leið til að efla og styrkja háskólastarfsemi á Vestfjörðum, koma upp staðbundnu námi á Vestfjörðum og efla fjarnámið sem hefur verið mjög giftudrjúgt fyrir Vestfirðinga, staðið vel fyrir sínu og fjölgað námsleiðum og tækifærum fyrir Vestfirðinga. Við stefnum að því að efla háskólastarfsemi á Vestfjörðum. Ég hefði frekar beðið um að hv. þingmenn færu nú héðan úr þingstóli, úr þessum svörtu fötum og litu björtum augum til framtíðar Vestfirðinga. Þetta getur verið fyrsta skrefið að stórum og öflugum háskóla síðar meir.