131. löggjafarþing — 87. fundur
 10. mars 2005.
athugasemdir um störf þingsins.

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins.

[10:31]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Útvarpsstjóri hefur farið að fyrirmælum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og tilkynnt að hann hafi ráðið þeirra mann í starf fréttastjóra útvarps. Sá maður er góðra gjalda verður en hann var ekki í hópi þeirra fimm umsækjenda sem forstöðumaður fréttasviðs mælti með, að höfðu samráði við starfsmannastjóra og ráðgjafa. Þeir hafa allir miklu meiri starfsreynslu og þekkingu á fréttavettvangi og allir hafa þeir þá stjórnunarreynslu og peningavit sem til þarf í þetta mikilvæga starf.

Fréttastofa útvarps er ein virtasta fréttastofa landsins, ef ekki sú allra virtasta. Hún er kjölfesta í íslenskri fréttamennsku og án undantekningar njóta starfsmenn hennar almennrar viðurkenningar fyrir störf sín. Útvarpsstjóri hefur því miður ekki treyst sér til að standa vörð um hagsmuni almannaútvarpsins, nú þegar þeir rekast á boð stjórnarflokkanna. Athyglisvert er þó að í sérstakri yfirlýsingu lýsir hann hvergi eiginlegum stuðningi við þann sem valinn var, heldur skýtur sér á bak við meiri hluta útvarpsráðs með þeirri skýringu að enginn annar hafi fengið atkvæði í ráðinu. Það er misskilningur hjá útvarpsstjóra því að aðrir útvarpsráðsmenn töldu að sjálfsögðu að útvarpsstjóri ætti að velja einn af umsækjendunum fimm sem hin faglegu rök stóðu með.

Forseti. Hæstv. menntamálaráðherra getur ekki verið hér í dag og svarað spurningum sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hugðist leggja fyrir hana. Mér skilst að sú umræða fari fram á mánudaginn. Staða málsins er þó þannig að það er ekki hægt að láta það liggja í þagnargildi hér í dag.

Ég harma að það skuli vera nauðsynlegt að mótmæla því á Alþingi að stjórnarflokkarnir misnoti með þessum hætti það vald sem þeir fara með á Ríkisútvarpinu í krafti úreltra stjórnarhátta. Ég bendi á það vantraust sem skapast hefur við þessa atburði hjá starfsmönnum gagnvart útvarpsráði og ríkisstjórnarmeirihlutanum, bendi á það uppnám sem nú er orðið í fyrirtækinu, bendi á hina alvarlegu samþykkt fréttamanna frá í gær og bendi á uppsögn eins af reyndustu og hæfustu stjórnendum á Ríkisútvarpinu, Jóhanns Haukssonar.

Í þágu Ríkisútvarpsins og almannahags fer ég fram á það úr þessum ræðustóli hér að sá maður sem brást í stöðu sinni sem þjónn almennings í landinu, útvarpsstjórinn Markús Örn Antonsson, endurskoði ákvörðun sína eða axli ábyrgð á mistökum sínum og undanslætti við flokksræðið á Ríkisútvarpinu og segi af sér störfum.



[10:33]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Meiri hluti útvarpsráðs og útvarpsstjóri hafa ákveðið að virða að vettugi faglegt mat og eðlilegar óskir forsvarsmanna fréttadeildar Ríkisútvarpsins við ráðningu fréttastjóra útvarps. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur af þessu tilefni sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Vinnubrögð útvarpsráðs og útvarpsstjóra eru Ríkisútvarpinu ósamboðin og grafa undan tiltrú á þessa mikilvægu stofnun í þjóðareigu. Þetta mál sýnir þjóðinni eina ferðina enn að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hika ekki við að láta lýðræðisleg og fagleg vinnubrögð lönd og leið þegar meintir flokkshagsmunir og helmingaskipti þeirra í milli krefjast. Það verður að gera þá kröfu til pólitískt kjörinna fulltrúa að þeir rísi yfir þrönga flokkshagsmuni þegar þeim er falið að gæta almannahags.“

Ég vil taka undir áskoranir sem hér hafa komið fram um að útvarpsstjóri endurskoði afstöðu sína.

Fyrir þinginu liggur beiðni frá mér fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að fram fari utandagskrárumræða um Ríkisútvarpið. Ég fór þess á leit við hæstv. menntamálaráðherra að þeirri umræðu yrði hraðað í ljósi þessara atburða og í morgun staðfesti hún að hún væri reiðubúin að láta umræðuna fara fram í byrjun næstu viku. Þá verða þessi mál að sjálfsögðu til umræðu.



[10:35]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ráðning í stöðu fréttastjóra útvarpsins í gær er skýrt dæmi um hið spillta valdaumhverfi sem skapast með íslensku fjórflokkaskipaninni. Þar leitast tveir stjórnmálaflokkar alltaf við að ná saman í stjórnarsamstarfi og deila síðan og drottna í krafti meiri hluta. Þá kemur upp hin svokallaða helmingaskiptaregla þar sem ýmsum gæðum og bitlingum sem í raun tilheyra þjóðinni er skipt á milli gæðinga þeirra stjórnmálaafla sem deila með sér völdum. Þetta býður síðan upp á misbeitingu valds og ýmiss konar spillingu sem eykst í réttu hlutfalli við lengd valdasetu viðkomandi stjórnmálaafla.

Við í Frjálslynda flokknum viljum brjóta upp þetta fjórflokkakerfi til að lýðræðið verði virkara, að hér komi til sögunnar fleiri stjórnmálaöfl þannig að dragi úr hættu á að klíkuskapur, valdagræðgi og spilling ráði för, þvert á hagsmuni heildarinnar sem er þjóðin öll.

Það er búið að vera átakanlegt að horfa upp á hvernig Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa sýnt Ríkisútvarpinu okkar tómlæti í valdatíð sinni sem hefur nú spannað á fimmtánda ár, látið það drabbast niður með lélegum rekstri og dregið lappirnar með að marka því skýra stefnu til framtíðar. Nú þegar loksins sást vonarglæta með væntanlegu frumvarpi menntamálaráðherra, frumvarpi sem virðist geyma margar góðar tillögur um breytta og bætta skipan, gerir meiri hlutinn í útvarpsráði þetta. Gengið er fram hjá fjölmörgum af virtustu frétta- og útvarpsmönnum þjóðarinnar þegar ráða á í stöðu fréttastjóra einnar mikilvægustu fréttastofu landsins. Fréttstofurnar eru niðurlægðar og látið í veðri vaka að hér hafi ekki verið leitað eftir fréttastjóra sem slíkum, heldur eins konar yfirmanni fyrir reksturinn.

Þetta er fásinna. Ég hef sjálfur starfað á fréttastofu útvarpsins og veit um hvað þetta starf snýst. Þetta er lykilstaða á fréttastofunni og það er mikilvægt að í þessa stöðu veljist fólk sem þjóðin treystir, ekki einhver maður úti í bæ sem Framsóknarflokkurinn treystir.



[10:37]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð fyrst og fremst að lýsa ákveðinni undrun á því að þessi umræða skuli eiga sér stað í dag þegar fyrir liggur að forsendur eru til að ræða þetta eftir helgi þegar hæstv. menntamálaráðherra getur verið viðstödd. Eins og fram hefur komið í máli ræðumanna liggur fyrir að menntamálaráðherra var reiðubúin að ræða þetta í gær en vegna misskilnings milli manna gat ekki orðið af þeirri umræðu og varð þá niðurstaða hæstv. menntamálaráðherra og hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að umræðan yrði á mánudaginn. Síðan hefur það einnig gerst að þingflokkur Vinstri grænna hefur óskað eftir utandagskrárumræðu um málið (ÖJ: Það var gert áður.) og eins og kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar hefur menntamálaráðherra fallist á það og fallist á að flýta því. Ég held að það sé í sjálfu sér afskaplega óeðlilegt að fara út í mikla efnislega umræðu um þetta mál að menntamálaráðherra fjarstaddri. Eins og kunnugt er hefur menntamálaráðherra lögmætar fjarvistir í dag.

Ég vil hins vegar segja að mér finnst með ólíkindum hvernig stjórnarandstaðan reynir að gera þetta mál tortryggilegt og setja það í eitthvert pólitískt ljós (Gripið fram í.) þó að um það sé að ræða að mat manna á þeim eiginleikum sem fréttastjóri útvarpsins á að hafa sé mismunandi. Ég bendi á að þær dylgjur sem hafðar hafa verið í frammi um pólitík í þessu máli, meint pólitísk tengsl nýráðins fréttastjóra, hafa ekki verið studdar með neinum rökum. Það er bara fullyrt og fullyrt en ekki gerð nein tilraun til að renna stoðum undir þær fullyrðingar.



[10:39]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hvert er kjörorðið? Okkar fólk í fyrirrúmi. Er það ekki kjörorðið? Þannig er a.m.k. framkvæmdin hjá ríkisstjórnarflokkunum, jafnt í stórum sem smáum embættisveitingum. Þessi leiða venja stjórnarflokkanna er mjög svo niðurlægjandi fyrir fólkið í landinu, það er mitt mat. Það ber að hafna þessari pólitísku aðför sem núna er viðhöfð að hlutleysi Ríkisútvarpsins sem stjórnarflokkarnir eru með. Verklagið er spillt og gengur gegn lýðræðinu. Þessi pólitíska stýring vanvirðir störf og starfsreynslu fréttamanna og gerir lítið úr vinnubrögðum og faglegu mati á störfum þeirra.

Stjórnvöld hafa enn einu sinni orðið ber að flokkspólitískum forgangsráðningum þegar ráðið er í áhrifastöður sem þeim gætu gagnast í pólitískum áróðri og skoðanamyndun. Framkoman og lítilsvirðingin gagnvart starfsreynslu og starfsheiðri fréttamanna á Ríkisútvarpinu er fáheyrð og reynsla þeirra og þekking á starfinu einskis metin. Það er með hreinum ólíkindum ef ákvörðunin verður ekki endurskoðuð. Það ber útvarpsstjóra að gera en ég er svo sem ekki hissa á því þó að sjálfstæðismönnum finnist þetta eðlileg vinnubrögð.



[10:41]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er full ástæða til að ræða þetta mál undir liðnum um störf þingsins því að það er komin upp mjög alvarleg staða í útvarpi okkar allra landsmanna. Félag fréttamanna hefur lýst vantrausti á útvarpsstjóra og hvatt hann til að segja af sér. Ef það er ekki ástæða til að ræða undir liðnum um störf þingsins, þegar sú staða er komin upp, veit ég ekki hvað við ættum að ræða hér.

Þessar aðferðir við ráðningu fréttastjóra útvarpsins minnir á löngu liðna tíma sem maður hélt að væru svo sannarlega liðnir, þessi helmingaskiptaregla stjórnarflokkanna sem tíðkaðist á síðustu öld. Eigum við að búa við þetta í dag? Þar sem komið hefur fram að það eigi að ræða þetta mál eftir helgina vil ég gjarnan að fyrir liggi ákveðnar upplýsingar þegar málið verður rætt á mánudaginn.

Það tók sex mánuði að ráða í þetta starf. Hvernig stóð á því að það tók svo langan tíma að ráða í þessa stöðu? Sérfræðiþjónusta var fengin, verktakafyrirtæki mat umsóknirnar. Hver var niðurstaða þess? Hverjir voru taldir hæfastir? Og var farið eftir því áliti? Ég vil að það liggi fyrir þegar við ræðum þetta mál.

Sömuleiðis óska ég eftir því að það verði upplýst á Alþingi hvað sú ráðgjafarþjónusta kostaði skattborgara. Ég óska eftir því að hæstv. menntamálaráðherra leggi þessar upplýsingar fyrir þingið, sérfræðiþjónustuna, niðurstöðuna, hverjir voru taldir hæfastir og hvað þetta kostaði.



[10:43]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er nú stungin tólg þegar Morgunblaðinu blöskrar svoleiðis pólitísk misbeiting stjórnarflokkanna á aðstöðu sinni í útvarpsráði að það spanderar á það hálfum leiðara. Auðvitað er dapurlegt að þjóðin skuli þurfa að horfa upp á það að þessi glæsilega stofnun okkar, Ríkisútvarpið, sé stórlega löskuð eftir 14 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu. Fjárhagslega er þannig búið að útvarpinu að það er að komast í þrot, eigið fé þess er horfið, en miklu verri eru þó hin pólitísku afskipti, hin pólitíska misnotkun, hið pólitíska einelti sem Sjálfstæðisflokkurinn og nú báðir stjórnarflokkarnir hafa lagt Ríkisútvarpið í. Ýmist er ekki ráðið í stöður mánuðum og missirum saman, og starfsmönnum þannig haldið í óvissu, eða það er staðið að ráðningum eins og raun ber vitni. Setji menn sig nú í spor þess ágæta fólks sem hefur unnið Ríkisútvarpinu árum og áratugum saman af metnaði og dugnaði og staðið sig vel. Það er engin sýnileg ástæða fyrir því að framgangi þess í starfi er hafnað önnur en pólitík. Það má nefna til vitnis innanhússbréf útvarpsstjórans og ummæli ýmissa forkólfa stjórnarflokkanna sem ekki þóknast að störf þeirra séu gagnrýnd eins og kunnugt er.

Það er þannig að flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum hefur verið nánast skilyrði til þess að menn fengju ráðningu í yfirmannastöður í útvarpinu. En nú er komið að Framsókn. Samkvæmt vægri útfærslu á helmingaskiptareglunni er nú komið að Framsókn. Hún vill líka eiga yfirmann einhvers staðar ofarlega í kerfinu til að koma sínu að. Það er með öllu ólíðandi að menn skuli hegða sér svona frammi fyrir opnum tjöldum. Þessar aðferðir við hinar pólitísku ráðningar, framkoma ríkisstjórnarinnar í garð stofnana sem hafa leyft sér að standa fyrir einhverri gagnrýni á verk þeirra er náttúrlega eins og við blasir hverjum manni, ýmist eru þær lagðar niður eða eyðilagðar innan frá.



[10:45]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er miður að leiðtogi ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson, skuli hafa flúið héðan úr salnum þegar þessi umræða hófst og að hér séu ráðherrabekkirnir auðir. Það er Davíð Oddsson sem persónulega og pólitískt ber ábyrgð á Markúsi Erni Antonssyni og Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni, útvarpsstjóra og formanni útvarpsráðs, og pólitískri misbeitingu þeirra á stofnuninni í þessu tilfelli.

Í 75 ár hefur Ríkisútvarpið mátt þola pólitíska misbeitingu en stundum hefur útvarpsstjóri haft dug í sér til að verja stofnunina mestu óhæfunni. Það hlýtur að vera með sorg í hjarta sem við tökum þessa umræðu hér í dag því að öllum almenningi blöskrar auðvitað þessi augljósa misbeiting valds. Hún vegur að grundvallarskyldum samfélagsins, að sjálfri lýðræðisvitund okkar því að þetta er kjarnastofnun lýðræðisins í samfélaginu, fréttastofa útvarpsins, og gildum okkar. Við hljótum að spyrja: Er það svona samfélag sem við viljum búa í þar sem gengið er fram hjá fjöldanum öllum af hæfu fólki? Trúnaður, hollusta, menntun, starfsreynsla, árangur — öllu er vikið til hliðar fyrir sérhagsmuni flokksgæðinganna. Við hljótum á hv. Alþingi að harma það og kalla eftir því að útvarpsstjórinn axli ábyrgð sína á málinu og um leið auðvitað að harma það að sá einstaklingur sem flokksgæðingarnir völdu til þessa starfs þurfi að ganga í gegnum þá raun sem þessir dagar hljóta að vera honum. Það hlýtur að vera mjög erfitt einum manni að vera tekinn fram fyrir jafnstóran hóp af hæfu fólki á jafnhæpnum forsendum.



[10:47]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það vekur athygli að aðeins einn stjórnarliði hefur talað hérna, Birgir Ármannsson, hv. þingmaður, um þingtæknileg efni. (Gripið fram í: Hvar er Framsókn?) Það er alveg rétt hér er enginn framsóknarmaður og hæstv. utanríkisráðherra er genginn úr salnum, formaður Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg rétt hjá Birgi Ármannssyni að það er harmsefni að menntamálaráðherra skuli ekki vera hér. Hæstv. menntamálaráðherra ber ábyrgð á útvarpsstjóranum. Við hér á Alþingi berum hins vegar ábyrgð á útvarpsráði. Stjórnarþingmennirnir á Alþingi bera ábyrgð á stjórnarmeirihlutanum í útvarpsráði.

Það er að vísu rökrétt að ekki skuli vera hér stjórnarliðar og að Davíð Oddsson, hæstv. utanríkisráðherra, skuli ekki einu sinni hafa séð sér fært að vera við umræðuna fyrr en í lok hennar og í byrjun hennar. Það er einskis að vænta af ráðherrum, þingmönnum og spunameisturum stjórnarflokkanna í þessu máli og öðrum. Þeir svífast einskis, þeir hafa sýnt það, og þess vegna bið ég úr þessum ræðustól útvarpsstjórann að hugsa. Markús Örn, hugsaðu, taktu ábyrgð.



[10:49]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki að undra málflutning hv. þm. Marðar Árnasonar sem hér talaði á undan. Þessi málflutningur stjórnarandstöðunnar sem snýr að því að rakka niður hinn nýja fréttastjóra RÚV er alveg með ólíkindum. Ég ætla ekki að fara út í nákvæm málsatriði vegna þess að þau verða rædd hér eftir helgi, enda hafði hv. þm. Ögmundur Jónasson beðið um utandagskrárumræðu um málefni RÚV, fyrstur manna, og fer hún vonandi fram sem fyrst.

Nokkrir hv. þingmenn hafa rætt um flokkspólitíska hagsmuni og er sú umræða með ólíkindum. Hinn nýráðni fréttastjóri RÚV, sem ég hafði ekki heyrt um fyrr en í gær, er sagður tengjast Framsóknarflokknum. Ég lýsi furðu minni á þessum málflutningi. Ég ræddi við framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins í morgun. Þessi maður hefur aldrei verið skráður í flokkinn. Ég hef starfað í flokknum frá árinu 1992 og hef aldrei séð þennan aðila, hvorki á fundum né í starfi flokksins. Málflutningur stjórnarandstöðunnar er órökstuddur varðandi tengsl fréttastjórans við Framsóknarflokkinn. Það er alveg með ólíkindum að hanga í einhverjum svona atriðum og reyna ekki að leita sér upplýsinga um málið.

Við munum vonandi taka málefnalega umræðu um RÚV eftir helgi og ég ítreka að ég vona að hún verði málefnalegri en þetta, að vilja rakka niður einstakan aðila, og menn reyni að leita að rökum fyrir þessum málflutningi.



[10:50]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. RÚV er eign ríkisins en ekki þjóðarinnar. Það er mikill munur þar á. Þjóðin uppgötvar það þegar hún þarf að borga skatta til ríkisins að þetta er ekki sami aðilinn.

Allt tal um það að menn eigi RÚV, það sé eign þjóðarinnar, er náttúrlega alveg út í hött. Ef menn eiga eitthvað geta þeir gert eitthvað við það, selt það eða veðsett. Það geta þeir ekki með Ríkisútvarpið. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Er það Ríkisútvarpið sem á RÚV?) Þess vegna verður RÚV alltaf pólitískt. Það er pólitík sem stjórnar ríkinu og ríkið á RÚV. Umræðan sýnir að margir hv. þingmenn trúa því að fjölmiðlar geti mótað skoðanir fólks. Annars hefðu þeir engar áhyggjur af þessu. Hún sýnir hve mikilvægt er að setja lög um fjölmiðla sem eru kannski í eigu eins aðila. (Gripið fram í.)

Flokkarnir eiga fulltrúa í útvarpsráði, skilst mér, og þar eru tvær persónur sem eru eign Samfylkingarinnar. Þær persónur gerðu ekki neitt. (Gripið fram í: Jú.) Ekki skilst mér það. (Gripið fram í: Jú, jú.)

Svo er annað. Hvernig ætla menn að brjóta upp staðnað kerfi og láta ferska vinda blása um fyrirtækið ef aldrei má ráða fólk nema starfsmennirnir samþykki það, þeir sem eru inni í gamla kerfinu? (Gripið fram í: Nei.) Það er heldur illt. Ég hef lagt til að selja RÚV, þá hefði enginn maður áhyggjur af þessu. Ef fréttastofan yrði slæm eftir það og flytti bjagaðar fréttir hætti maður bara að hlusta á þær. Svo einfalt er það.

Svo hef ég auk þess grun um að hinn nýi fréttastjóri, án þess að ég viti nokkuð um það eða þekki manninn nokkuð, sé samfylkingarmaður.