131. löggjafarþing — 87. fundur
 10. mars 2005.
framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins, fyrri umræða.
stjtill., 617. mál. — Þskj. 921.

og 

breyting á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna, fyrri umræða.
stjtill., 614. mál (eftirlitsstofnun og dómstóll EFTA). — Þskj. 918.

[11:18]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar og samninga EFTA-ríkjanna um framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins en með henni er leitað eftir heimild Alþingis til að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130 og 178/2004 og samning frá 24. september 2004 og samning 3. desember sama ár um viðeigandi breytingar á bókun 4 við samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

Eins og hæstv. forseti gat um mæli ég jafnframt fyrir annarri þingsályktunartillögu sem ég hef einnig lagt hér fram um heimild til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 og samning EFTA-ríkjanna frá 4. júní 2004 sem er einnig um breytingu á bókun 4 við samninginn um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

Tilvitnaðar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og samningar EFTA-ríkjanna miða allar að því að fella inn í regluverk EES-samningsins og fylgisamninga hans umfangsmiklar breytingar sem orðið hafa á framkvæmd samkeppnisreglna Evrópusambandsins að undanförnu eins og nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við þingsályktunartillögurnar.

Hið almenna markmið þessara breytinga er að draga úr miðstýringu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sviði samkeppnismála og auka hlutdeild samkeppnisyfirvalda og dómstóla í aðildarríkjunum í beitingu þeirra samkeppnisreglna sem hingað til hefur eingöngu verið á færi framkvæmdastjórnarinnar að beita. Til að tryggja fullt samræmi og einsleitni í framkvæmd þessara reglna verður framkvæmdastjórninni þó áfram heimilt að beita sjálf þessum sömu reglum og skulu úrlausnir hennar hafa ákveðinn forgang fram yfir úrlausnir samkeppnisyfirvalda og dómstóla í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Þegar þessi tilhögun er síðan spegluð yfir í EES-samninginn og samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls verður það til þess að fela verður Eftirlitsstofnun EFTA og eftir atvikum EFTA-dómstólnum sams konar valdheimildir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gagnvart aðildarríkjum sínum. Af því leiðir að íslenskum stjórnvöldum og dómstólum getur í ákveðnum tilvikum verið skylt að taka mið af ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA og eftir atvikum EFTA-dómstólsins.

Þar eð slík takmörkun á valdheimildum dómstóla snertir í raun sams konar álitaefni og fjallað var um af fjórmenninganefndinni sem skipuð var í tengslum við lögfestingu EES-samningsins með lögum nr. 2/1993 fór ég þess á leit við Davíð Þór Björgvinsson, þáverandi prófessor í lögum, síðastliðið haust að hann léti mér í té álitsgerð um valdheimildir löggjafans með tilliti til þessara skuldbindinga og innleiðingar þeirra í íslenskan rétt. Álitsgerð hans er birt í heild sinni sem fylgiskjal með annarri af þeim þingsályktunartillögum sem ég mæli hér fyrir, en einnig voru niðurstöður hans birtar í athugasemdum við frumvarp til nýrra samkeppnislaga sem hæstv. viðskiptaráðherra mælti fyrir á þriðjudaginn var og miðar m.a. að því að gera á íslenskum lögum nauðsynlegar breytingar til að umræddar Evrópusambandsgerðir verði innleiddar hér.

Sá munur er á álitaefninu nú og þegar EES-samningurinn var lögfestur að ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins á sviði samkeppnismála hafa verið fullnustuhæfar í aðildarríkjum samningsins og bindandi fyrir aðila þar án nokkurs atbeina innlendra dómstóla, þ.e. án þess að þeir hefðu lögsögu um þau. Framsal valds að þessu marki var á sínum tíma talið heimilt að áliti þeirra sérfræðinga sem þáverandi utanríkisráðherra kvaddi þá til.

Með þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar á EES-samningnum og fylgisamningum hans er hins vegar gert ráð fyrir að íslenskir dómstólar fái lögsögu í slíkum málum, þ.e. málum sem þeir hafa áður ekki haft heimildir til að leysa úr. Að því leyti má segja að skemur sé gengið í valdaframsali en samkvæmt gildandi reglum. Á hinn bóginn er nú gert ráð fyrir að íslenskir dómstólar geti í þágu samræmis við úrlausn slíkra mála innan Evrópska efnahagssvæðisins verið bundnir af ákvörðun sem Eftirlitsstofnun EFTA og eftir atvikum EFTA-dómstóllinn hafa tekið í sama máli. Að þessu leyti er gengið lengra í takmörkun á valdheimildum dómstóla í málum sem þeir hafa annars lögsögu í og valdaframsali til alþjóðastofnunar en áður hefur séð stað í íslenskum rétti. Þess verður ekki jafnað til þess þegar erlendum úrlausnum, þar með talið úrlausnum alþjóðlegra stofnana, er veitt aðfararhæfi hér á landi né heldur verða þær taldar felast í þeim enda hafa slíkar fullnustuheimildir aldrei verið skýrðar svo að þær skerði sjálfstæði íslenskra dómstóla. Það gerir 27. gr. samkeppnislagafrumvarps hæstv. viðskiptaráðherra hins vegar óneitanlega þótt í takmörkuðum mæli sé og skerðir með beinum hætti sjálfstæði dómsvaldsins þar sem dómari verður þegar tiltekin skilyrði eru fyrir hendi bundinn af ákvörðunum annars aðila þegar hann kveður upp sinn dóm.

Í áliti nefndar þáverandi hæstv. utanríkisráðherra frá 1992 var sérstök áhersla lögð á að ákvæði EES-samningsins eða fylgisamninga hans hefðu ekki þessi eða sambærileg áhrif á sjálfstæði íslenskra dómstóla og voru það talin mikilvæg rök þegar komist var að þeirri niðurstöðu að lögfesta mætti EES-samninginn að óbreyttum stjórnlögum. Sú tegund framsals sem nýskipan samkeppnismála á Evrópska efnahagssvæðinu gerir kröfu til kallar því fram nýmæli í íslenskum lögum sem ég taldi ekki stætt á að leggja til án þess að fram færi vandað og yfirvegað mat á því hvort það rúmist innan þeirra valdheimilda sem löggjafanum eru dregnar í stjórnarskrá okkar og stjórnskipun að óbreyttu. Í því skyni leitaði ég sem fyrr segir til prófessors Davíðs Þórs Björgvinssonar sem nú er dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og hefur ritað doktorsritgerð um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og íslenskan landsrétt. Álitsgerð hans er þannig uppbyggð að fyrst er gerð grein fyrir þeirri sérstöðu sem 27. gr. frumvarps hæstv. viðskiptaráðherra hefur í samanburði við þau ákvæði EES-samningsins sem talin hafa verið fela í sér framsal ríkisvalds og ég hef hér vikið að.

Þá er fjallað með nokkuð almennum hætti um fullveldishugtakið enda er það jafnan fyrirferðarmikið í umræðu um mögulegar heimildir löggjafans til að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana. Í framhaldi af því er fjallað um hin almennu lögfræðilegu og réttarpólitísku rök sem telja verður mikilvæg við úrlausn þess álitsefnis. Þá er gerð grein fyrir fræðikenningum og lagaframkvæmd á Íslandi um þetta efni og á þeim grundvelli færð fyrir því lögfræðileg og réttarpólitísk rök að í gildi sé að íslenskum rétti venjuhelguð regla sem felur það í sér að hinum almenna löggjafa sé að ákveðnum skilyrðum uppfylltum heimilt að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli til alþjóðastofnana án þess þó að slík regla sé orðuð í stjórnarskrá og ekki hafi með neinum beinum hætti reynt á gildi hennar fyrir íslenskum dómstólum.

Í niðurstöðum álitsgerðarinnar er síðan leitast við að meta hvort 27. gr. frumvarps viðskiptaráðherra rúmist innan þeirra heimilda sem löggjafinn er talinn hafa samkvæmt þessari reglu. Með þessu móti er í raun lagður sams konar mælikvarði á heimild til valdaframsals og áður hefur verið notaður bæði þegar EES-samningurinn var lögtekinn 1993 og reyndar einnig síðar við mat á heimildum til þátttöku í Schengen-samstarfinu 1999. Þannig er tryggt að ákveðið samræmi verði í mati löggjafans á inntaki valdheimilda sinna að þessu leyti.

Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að halda því til haga að niðurstaða álitsgerðarinnar er allt að einu undir því komin að til sé að íslenskum rétti regla af því tagi sem þar er lögð til grundvallar. Um þetta hefur hins vegar verið ágreiningur jafnt meðal stjórnmálamanna sem lögfræðinga auk þess sem inntak slíkrar reglu er óljóst og ytri mörk heimils framsals eru alls ekki skýr. Af þeim sökum felst ákveðin áhætta í því að byggja framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana á þessari reglu.

Sé tekið mið af sjónarmiðum um breytilega skýringu stjórnarskrárinnar sem fela í sér allmikið svigrúm fyrir hinn almenna löggjafa til að skýra og beita stjórnarskránni í samræmi við ríkjandi viðhorf í stjórnmálum í víðum skilningi, almenna þjóðfélagsþróun og þróun alþjóðasamskipta, má færa fyrir því veigamikil rök að löggjafanum sé játuð heimild til framsals ríkisvalds innan þeirra marka sem þessi regla setur. Slíkt fyrirkomulag er auðvitað haganlegt og skynsamlegt ef tekið er mið af þróun mála í alþjóðasamskiptum og alþjóðaviðskiptum. Í því sambandi er mikilvægt að löggjafinn hafi möguleika á að tryggja réttarstöðu íslenskra þátttakenda í slíkum viðskiptum og tryggja þeim nauðsynlega réttarvernd á þeim vettvangi sem eðlilegastan má telja þegar eðli alþjóðlegra viðskipta er haft í huga.

Á hinn bóginn hefur í dómum Hæstaréttar Íslands síðastliðinn áratug eða svo gætt ákveðinnar tilhneigingar til að þrengja valdheimildir löggjafans umfram það sem ætla mætti að felist í hinum hefðbundnu sjónarmiðum, m.a. þegar löggjöf varðar efnahagsleg og félagsleg réttindi sem getið er í stjórnarskrá. Stundum hafa niðurstöður hans komið bæði stjórnmálamönnum og fræðimönnum í lögfræði nokkuð á óvart ef tekið er mið af hefðbundnum sjónarmiðum um skýringu stjórnarskrárinnar. Endurteknir árekstrar löggjafarvalds og dómsvalds af þessu tagi leiða til þess að ekki er mögulegt að spá með neinni vissu fyrir um það hver afstaða íslenskra dómstóla kann að verða til þess álitsefnis sem hér er tekist á við eins og réttilega er bent á af hálfu þess álitsgjafa sem leitað var til í þessu skyni.

Sá vafi sem uppi er um inntak valdheimilda löggjafans að þessu leyti sýnir okkur e.t.v. betur en annað fram á hversu brýnt er að fjallað sé um og leyst úr álitamálum um meðferð valdheimilda ríkisins í samskiptum við aðrar þjóðir og fjölþjóðlegar stofnanir í víðara samhengi. Ég bind því vonir við að nefnd sú sem hæstv. forsætisráðherra hefur skipað til að endurskoða stjórnarskrána taki þetta atriði til umfjöllunar enda fellur einmitt það ákvæði stjórnarskrárinnar sem varðar samninga við önnur ríki innan þeirra marka sem umboð nefndarinnar var einkum bundið við.

Meðan ekki er tekin um það önnur ákvörðun hlýtur það hins vegar að vera Alþingis sem æðsta handhafa löggjafarvalds og valdamestu stofnunar ríkisins að áskilja sér svigrúm til að móta inntak þessara samskipta í framkvæmd og beita þeirri reglu sem hér hefur verið talin gilda á þann hátt að íslenska ríkið geti áfram verið virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi.

Með þessum orðum legg ég til, virðulegi forseti, að þingsályktunartillögum þessum verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.



[11:30]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá greinargerð sem hann kynnti hér við fyrri umr. um þessar þingsályktunartillögur. Ég held að það sé afar mikilvægt að þegar verið er að stíga skref til að framselja vald íslenskra stofnana, ekki síst dómstóla, fari fram um það umræða á Alþingi, bæði þannig að þingmenn átti sig á því um hvaða valdaframsal er að ræða, hvort það sé nauðsynlegt og hversu langt eigi að ganga í þeim efnum. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að fá fram umræðu um þá þætti hér við þinglega meðferð málsins. Því er ekki að leyna að framsal dómsvalds eins og gert er ráð fyrir í þingsályktunartillögunum og því frumvarpi sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur lagt fram hefur valdið mér og fleiri alþingismönnum nokkurri umhugsun. Þegar tillögur í þessa átt komu fyrst fram á síðasta þingi í frumvarpi frá hæstv. viðskiptaráðherra vildum við sem þá sátum í efnahags- og viðskiptanefnd staldra við og kanna málin betur.

Nú hefur utanríkisráðuneytið látið gera greinargerð um þessa þætti, fengið til þess virtan fræðimann á sviði lögfræði og það verður auðvitað afar mikilvægt innlegg í umræðuna og þá umfjöllun sem á eftir að eiga sér stað hér í þinginu. Fyrir það ber að þakka. Þau atriði að framselja ákveðinn hluta ríkisvaldsins til alþjóðlegra stofnana gengur auðvitað gegn ákveðnum prinsippum. Hins vegar kunna að vera praktísk og skynsamleg rök fyrir því að gera það í takmörkuðum mæli. Þessa þætti er sjálfsagt og mikilvægt að skoða.



[11:32]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli mínu þegar ég mælti fyrir málum þessum tveimur er það mat okkar sem berum málið fram að hinn endanlegi dómari í málinu meðan stjórnskipunarlög eru ekki tæmandi í þessu efni hljóti að verða þingið sjálft. Ráðuneytið taldi jafnframt að það væri skylda þess að auðvelda þinginu málsmeðferðina með því að vinna fyrir sig fram með þeim hætti að fá vandaða og ítarlega álitsgerð frá virtum lögfræðingi til þess að það viðhorf mætti liggja fyrir þegar málið kæmi til meðferðar þingsins.

Sjónarmið álitsgjafans liggja fyrir en þó er augljóst að hann vekur athygli á því að ekkert er endanlega fullljóst og ákveðið í þessum efnum meðan ekki liggur fyrir afstaða dómstólanna, sérstaklega þegar haft er í huga að Hæstiréttur hefur haft tilhneigingu til þess á síðustu missirum og árum að þrengja þær heimildir sem þingið hefur örugglega talið sig hafa haft þegar sjónarmið af þessu tagi hafa verið uppi. Ég hygg reyndar að þessi aðgerð ráðuneytisins sé í samræmi við það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir var að hvetja okkur til, að undirbúa og skapa skilyrði fyrir vandaðri málsmeðferð fyrir mál af þessu tagi á hv. Alþingi.



[11:34]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikilvægt sem fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra að mat í þessum efnum hlýtur að liggja hjá hv. Alþingi. Það er mikilvægt að Alþingi taki upplýsta ákvörðun í þessu efni eftir umræðu.

Eiginlega er um tvö atriði að ræða í þessu, annars vegar kannski það tiltekna mál sem hér um ræðir, þær tilteknu heimildir sem er verið að framselja, og þegar efnisatriði málsins eru skoðuð má velta fyrir sér hversu praktískt það er, þ.e. hversu mikið muni á þetta reyna í framkvæmd. Rök hafa verið færð fyrir því að þetta kunni að verða tiltölulega ópraktískt, þ.e. að lítið muni á það reyna. Hins vegar er prinsippið í málinu þess eðlis, spurningin um framsal fullveldis svo mikilvæg, að hjá því verður ekki komist að þær nefndir þingsins sem um málið fjalla fari gaumgæfilega ofan í efnisatriði þess.



[11:35]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta álitaefni er líka enn þá áhugaverðara fyrir þá sök að þó að við vitnum til fjórmenninganefndarinnar sem í voru hinir virtustu lögfræðingur sem töldu EES-samninginn, undirritun hans og ákvörðun um hann ekki stangast á við stjórnskipun landsins voru aðrir lögfræðingar sem tilkallaðir voru, af þáverandi stjórnarandstöðu einkum og sér í lagi, virtir og ágætir, gagnstæðrar skoðunar. Það er reyndar oft eðli lögfræðinnar að menn tefla fram tveimur eða þremur sjónarmiðum.

Ég hef sjálfur lengi verið þeirrar skoðunar að þetta hafi verið takmarkað tilfelli og verið á mörkunum og svo hafi reyndar í þróun málsins komið á daginn að þetta hafi verið jafnvel nær þeim mörkum en ég átti von á á þeim tíma. En a.m.k. hingað til, allt frá 1992, hefur hæstiréttur landsins ekki kveðið upp neinn dóm í neinu máli sem lýtur að því að EES-samningurinn hafi brotið í bága við íslensku stjórnarskrána.



[11:36]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg ljóst að þær ákvarðanir sem hér á að staðfesta eru bæði mikilvægar og stórpólitískar. Það er greinilegt að brugðist hefur verið við í utanríkisráðuneytinu eins og kemur fram í framsögu hæstv. utanríkisráðherra. Ég tek undir að mér finnast það góð vinnubrögð að kalla eftir greinargerðum frá fagfólki eins og hér var gert. Mér finnst líka athyglisvert að hæstv. utanríkisráðherra talar hér um að Alþingi verði að skoða það hvort það áskilji sér ákveðið svigrúm.

Varðandi það sem kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra um álit fjórmenninganna á sínum tíma, af því að ég var í utanríkismálanefnd á þeim tíma sem var verið að vinna við EES-samninginn og var í þeirri sumarlöngu vinnu sem þá fór fram, er ég þeirrar skoðunar að sá samningur sem er við lýði í dag og hefur orðið til hægt og sígandi á þessum árum sé nokkuð öðruvísi en sá samningur sem við skoðuðum þá. Það breytir því ekki að við verðum að viðhafa mjög fagleg vinnubrögð.

Hér vil ég vekja athygli á því að þegar er búið að mæla fyrir frumvarpi hæstv. viðskiptaráðherra og ég skil hæstv. utanríkisráðherra þannig að þau efnisatriði sem koma fram hér í þessari tillögu til þingsályktunar, þau sem eiga að fara í lög, sé að finna í því frumvarpi. Ég óska eftir að fá það staðfest af því að ég var ekki á Alþingi við þá umræðu. Ég var við skyldustörf á vegum Alþingis á vettvangi norræns samstarfs. Þarna höfum við a.m.k. möguleika á því að vinna þetta saman og mér finnst spurning hvort efnahags- og viðskiptanefnd og utanríkismálanefnd eigi að eiga sameiginlegan fund með þeim fræðingum sem ástæða er til að ræða við um þessi mál til að tryggja sem besta samfellu í vinnu þingsins.



[11:38]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það ekki mitt að segja fyrir um það með hvaða hætti nefndir vinna að málinu, þær hafa allt það svigrúm sem þær hafa í því efni og mundu ekki taka því vel, hygg ég, ef þær fengju einhver fyrirmæli úr ráðuneyti um það efni. Sjálfstæði þingsins sér um þá þætti og ég treysti nefndunum fyllilega til að fjalla um þau atriði.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þessi álitaefni koma mjög við sögu einmitt í því frumvarpi sem nú er til meðferðar og hæstv. viðskiptaráðherra hefur mælt fyrir. Þeim sjónarmiðum sem ég var að gera grein fyrir var fylgt eftir enda fylgdi greinargerðin einnig því máli til þingsins.

Út af fyrir sig hefði verið hugsanlegur kostur í málinu að Stjórnarráðið sem slíkt legði endanlegt mat á álitsgerð lögvísindamannsins, af eða á þegar ákvörðun er tekin um framlagningu mála. Ég hygg þó að það sé meira í samræmi við stjórnskipunarhefðir okkar að fela þinginu það vald en ekki Stjórnarráðinu, hins vegar koma öllum upplýsingum á framfæri við þingið þannig að það hafi alla burði til að fjalla faglega um efnið, eins og hv. þingmaður leggur áherslu á. Ég held að forsendur séu vel fyrir hendi til þess að gera það. Út af fyrir sig hefði þingið getað kallað eftir slíkum álitsgerðum en þá hefði það kallað á meiri tíma og annað þess háttar. Þess vegna var sjálfsagt að undirbúa það fyrir fram.



[11:40]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því, það þarf að fara yfir það í utanríkismálanefnd hvernig þau ákvæði sem er að finna hér hafa skilað sér inn í frumvarp viðskiptaráðherra. Ég vil líka nefna það í tilefni af orðum mínum hér við umræðu fyrsta málsins að hér finnst mér spurning hvort bæði þessi mál hefðu átt að vera á dagskrá sama dag, fyrst tillagan sem hæstv. utanríkisráðherra mælir fyrir og síðan frumvarp viðskiptaráðherra. Ég held að það hefðu verið góð vinnubrögð.

Ég endurtek að mér finnst mjög gott að það var kallað eftir að fá álit en mér finnst líka alveg nauðsynlegt að nefndir þingsins kalli til aðra sérfræðinga út af þessu máli. Það er hárrétt að það er ekki hæstv. utanríkisráðherra eða Stjórnarráðsins að hafa skoðun á því hvernig Alþingi vinnur málið. Í þessari umræðu erum við þingmenn e.t.v. líka að koma skilaboðum til formanns utanríkismálanefndar sem situr hér á forsetastóli og fylgist með umræðum.



[11:41]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa farið yfir málið með þeim hætti sem hann gerði, ég held að það hafi verið ákaflega upplýsandi fyrir okkur sem á hlýddum og mikilvægt að fá þá leiðbeiningu. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, þau mál sem hér voru rædd varðandi samkeppnislög og óréttmæta viðskiptahætti tengjast því sem nú er rætt. Þess vegna er spurning mín sú hvort ekki sé eðlilegt í ljósi þess sem hæstv. utanríkisráðherra hefur farið yfir með þeim hætti sem hann gerði og þeirrar vinnu sem lögð hefur verið í skoðun á þessu máli að þessi mál séu krufin dálítið meira áður en við förum að setja ný samkeppnislög eða nýja lagagerð um þá þætti.

Þar af leiðandi kemst ég kannski frekar að þeirri niðurstöðu að það sé ástæða til að flýta sér hægt og klára alla umfjöllun um það sem geta verið vafaatriði eins og hæstv. utanríkisráðherra fór yfir málið. Það ber auðvitað að þakka að sú álitsgerð var unnin sem hann óskaði eftir og verður málunum vafalaust til framdráttar.

Þetta vildi ég sagt hafa í tilefni þessarar umræðu og tel að hér hafi verið vel að málum staðið til upplýsingar fyrir okkur, óbreytta þingmenn.



[11:43]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið opinberlega, ég hef ekki haft tækifæri til þess áður, og óska hv. þingmanni til hamingju með endurkjör sem formaður í flokki hans.

Jafnframt vil ég svara því játandi sem hv. þingmaður nefndi, það er full ástæða til þess við meðferð þessara mála núna í þinginu að þingmenn sökkvi sér niður í þessi stóru prinsippatriði. Þau geta átt við við aðrar aðstæður og þess vegna held ég að það sé hollt og gott að þingmenn ígrundi þessar spurningar mjög rækilega við meðferð málsins. Tilefnið er augljóst og liggur fyrir þannig að ég tek undir með hv. þingmanni að það er sjálfsagt að gera það. Ég skal ekki segja um hvort það þurfi að leiða til þess að málið fái ekki framgang á þessu þingi, það verður að vera mat þingsins, en við höfum fyrir okkar leyti reynt þó að stuðla að því að flýta þeirri umfjöllun með því að hafa til staðar grundvallarupplýsingar til að auðvelda þingmönnunum verk sitt.



[11:44]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér ræðum við mjög athyglisvert og mjög mikilvægt málefni sem er spurningin um framsal fullveldis Íslands. Þetta var rætt ítarlega þegar EES-samningurinn var samþykktur á sínum tíma og þótti sumum þá gengið fram á ystu nöf. Við ræðum hér tvö mál, í fyrsta lagi þær þingsályktunartillögur sem við ræðum nú og síðan var frumvarp til samkeppnislaga rætt á þriðjudaginn. Þar var þetta líka rætt, þ.e. hvort við værum að framselja vald með ákveðnu ákvæði þar.

Mér líst mjög vel á hugmynd hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að þær tvær nefndir sem fjalla um þessi mál fundi saman um þetta, því þetta er það stórt mál. EES-samningurinn er uppsegjanlegur og utanríkisráðherra hæstv. á hverjum tíma getur með atbeina Alþingis sagt þeim samningi upp. Þar af leiðandi ef einhverjum finnst við ganga nærri fullveldinu, þá getum við sagt honum upp.

Það sem mig langar til að stinga upp á að verði athugað er hvort hægt sé að setja í þær greinar þar sem þetta er til umfjöllunar í lagasetningu einhverja samtengingu við samninginn og að þessi viðkomandi ákvæði falli niður ef samningnum verði sagt upp, þannig að það liggi fyrir að það sé alltaf heimilt að segja samningnum upp og þar með detti þetta ákvæði niður og Ísland fái þá óskorað fullveldi ef svo skyldi fara að einhver kæmist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki.



[11:46]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef svo færi að EES-samningnum yrði sagt upp, sem ég mæli nú ekki með, er heldur stoltur af þessu verki margra okkar hér sem komu að málinu, en ef svo færi í framtíðinni að það yrði gert, þá standa þau lög engu að síður sem sett hafa verið á grundvelli samningsins. En þá hefði aftur sú aðstaða skapast að Alþingi gæti án þess að brjóta samninga við erlenda aðila breytt slíkum lögum. En lögin stæðu eftir sem áður og þau mundu ekki falla úr gildi og það er ekki hægt að setja neitt ákvæði að mínu viti í tengslum við lagasetningar sem væru þess eðlis að viðkomandi lög mundu falla úr gildi ef samningnum yrði síðar meir sagt upp. Það yrði þá bara verkefni þess þings sem þá sæti að vega það og meta hvort slík löggjöf ætti að standa eða ekki.



[11:47]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mörg þeirra laga sem sett hafa verið hafa verið til afskaplega mikilla bóta fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt þjóðlíf á margan hátt. Hins vegar þar sem vísað er í ákveðnar stofnanir Evrópusambandsins þá mundi ég vilja skoða hvort ekki sé hægt lagatæknilega að hafa slíkt framsal eða slíka tilvísun tengda samningnum. Það er það sem ég átti við, að þar sem vísað er til stofnana Evrópusambandsins og þar sem þær hafa áhrif og beint vald inn á íslenskt atvinnusvæði og lögsögu, að þar sé sett inn ákvæði, skilyrt ákvæði, að það ákvæði laganna gildi á meðan samningurinn er í gildi. Þetta er náttúrlega spurning um lagatækni og ég varpa því fram hvort slíkt væri mögulegt.