131. löggjafarþing — 89. fundur
 15. mars 2005.
athugasemdir um störf þingsins.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:30]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé mig tilknúinn til að kveðja mér hljóðs undir þessum dagskrárlið til að óska eftir úrskurði hæstv. forseta þingsins í ákveðnu máli. Þegar ljóst varð að ákveðið var að taka tilboði pólskrar skipasmíðastöðvar í viðgerð á tveimur varðskipum kom í ljós á mánudag að þrír hv. þingmenn höfðu óskað eftir að ræða þetta mál á hinu háa Alþingi utan dagskrár, þ.e. hv. þm. Birkir Jón Jónsson við fjármálaráðherra, hv. þm. Jón Bjarnason við iðnaðarráðherra og sá sem hér stendur við hæstv. dómsmálaráðherra.

Á fundi forseta þingsins með formönnum þingflokka í gær var það úrskurður forseta að þetta mál ætti að ræðast við hæstv. iðnaðarráðherra. Nú hefur það hins vegar komið í ljós, virðulegi forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra harðneitar að ræða þetta mál og segir það ekki á sínu sviði. Þess vegna óska ég eftir úrskurði hæstv. forseta um það hvort þetta mál eigi að ræðast við hæstv. fjármálaráðherra eða dómsmálaráðherra. Ég tel nauðsynlegt að fá úr því skorið svo að þetta sé ekki fast í þingtæknilegu þrasi milli ráðuneyta eða ráðherra.

Virðulegi forseti. Það er auðvitað eðlilegt að þetta sé rætt á hinu háa Alþingi. Það kemur í ljós að tilboðið er 44% hærra en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á. Það kemur líka í ljós að það á að vinna þetta á háannatíma þannig að það er kannski eðlilegt að há tilboð berist.

Vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra er hér langar mig að nota þetta tækifæri til að þakka honum fyrir að berjast vel. Hann hefur komið með góðar tillögur um uppbyggingu Landhelgisgæslunnar í ríkisstjórn. Fyrir það ber auðvitað að þakka og hygg ég að allir þingmenn séu þakklátir fyrir það og sammála því verki. Þá vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort málið sé komið á lokastig, hvort Landhelgisgæslan sé virkilega búin að skrifa undir tilboð við hina pólsku skipasmíðastöð.



[13:33]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég get svarað því á þann veg að eins og fram hefur komið í fréttum hefur verið skrifað undir þennan samning af hálfu Ríkiskaupa með aðild Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan hefur komið að þessu sem verkkaupandi og Ríkiskaup hafa síðan séð um þessi útboð og viðræður við þá sem gerðu tilboð. Landhelgisgæslan setti skilyrði varðandi ISO-gæðastaðal þegar verkið fór af stað og taldi að með því væri verið að gera eðlilegar varúðarráðstafanir í alþjóðlegum útboðum af þessu tagi. Síðan varð niðurstaðan sú að þessi krafa yrði ekki til að útiloka neinn, heldur væri tekið til hennar í sérstöku valmódeli sem var lagt fyrir sérfræðinga og féllust þeir á það.

Ég tel að öllum réttum aðferðum hafi verið beitt í þessu máli og þegar niðurstaða fékkst lá ljóst fyrir að vitaskuld yrði skrifað undir samninga af hálfu Landhelgisgæslunnar. Hún á mikið undir að ráðist verði í endurnýjun á þessum varðskipum. Það hefur lengi staðið til og Landhelgisgæslan hefur litið þannig á að hún gæti treyst á það í samskiptum sínum við Ríkiskaup og aðra sem að þessu máli hafa komið að allt stæðist sem þar væri gert. Ef svo er ekki hafa menn náttúrlega tækifæri til að andmæla því og finna að því. Landhelgisgæslunni sem verkkaupanda er að sjálfsögðu kappsmál að fá þetta verk unnið.



[13:34]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill geta þess í ljósi ummæla hv. þm. Kristjáns L. Möllers að forseti telur eðlilegast að utandagskrárumræða um þetta efni verði tekin upp á fundi með formönnum þingflokka síðar í dag.



[13:35]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að frábiðja einhvern úrskurð frá forseta um þetta málefni núna. Tildrögin eru þau að hv. þm. Jón Bjarnason óskaði eftir utandagskrárumræðu um málið og vildi beina fyrirspurn sinni til hæstv. iðnaðarráðherra sem auk þess hefur tjáð sig um þetta mál í fjölmiðlum. Það er eðlilegt. Þetta heyrir undir verksvið hæstv. ráðherra sem auk þess er byggðamálaráðherra landsins. Síðar komu fram óskir frá öðrum þingmönnum, hv. þm. Kristjáni Möller og Birki Jónssyni, til annarra ráðherra. Á fundi formanna þingflokkanna í gær hafði hæstv. forseti þingsins tekið vel í það að umræðan sem hv. þm. Jón Bjarnason hafði óskað eftir færi fram á miðvikudag, á morgun, en jafnframt kom í ljós að hæstv. iðnaðarráðherra hefði efasemdir um að málið heyrði undir sig.

Við vildum hins vegar, og viljum, að þessi umræða fari fram, hvort sem hæstv. iðnaðarráðherra treystir sér til að vera við hana eða ekki. Þetta mál heyrir undir iðnaðarráðuneytið, undir það ráðuneyti sem fer með iðnaðar- og byggðamál, og það er mjög óeðlilegt að stefna því samstarfi sem er innan þingsins um utandagskrárumræður og um þingsköpin almennt í tvísýnu og uppnám eins og hér er verið að gera. Ég lýsi því furðu á þessum vinnubrögðum.



[13:37]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Af því að hv. síðasti ræðumaður tók þannig til orða, hvort sem iðnaðarráðherra treysti sér til að vera við þá umræðu eða ekki, vildi ég bara að hér kæmi fram að vegna þess að hér á að ræða þá ákvörðun að semja við pólska skipasmíðastöð í stað íslenskrar er það mál sem heyrir ekki undir mig. Ég kom ekki að þeirri vinnu. Ég er hins vegar iðnaðarráðherra og fer með málefni skipasmíðaiðnaðarins sem slíks og er tilbúin hvenær sem er að ræða framtíð hans. Þetta er þó afmarkað mál, ég hef ekki komið að ákvarðanatökunni og þar að auki hef ég gagnrýnt hana harðlega og þess vegna er ekki rétt að ég sé til svara fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands í þessu máli.



[13:38]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er eiginlega að vonum að það skuli vera rætt um þrjá ráðherra til svara þegar á að ræða mál skipasmíðaiðnaðarins í landinu. Svoleiðis hefur það alltaf verið. Það hefur aldrei verið neinn raunverulegur málsvari þessa iðnaðar og þess vegna hefur hann drabbast niður. Engin ríkisstjórn hefur staðið við bakið á honum, og iðnaður sem ætti að vera stóriðja á okkar mælikvarða er þess vegna hvorki fugl né fiskur. Ábyrgðin liggur í sölum Alþingis því að tækifærin til þess að þessi iðnaður í landinu sé mikill og mikils virði eru nóg og hafa alla tíð verið.

Vantrúin hefur verið slík á getu þessa iðnaðar til að þjóna landsmönnum að forráðamenn þjóðarinnar hafa ekki viljað leggja honum lið. Forráðamenn útgerðar í landinu hafa t.d. unnið gegn honum. Þannig hefur þetta verið í gegnum tíðina. Það þarf eitthvað meira en mótmæli hæstv. iðnaðarráðherra, þó að ég verði að segja eins og er að mér finnst út af fyrir sig gott ef iðnaðarráðherra ætlar loksins að stíga fram og fara að gera eitthvað. Ég man ekki betur en að svona yfirlýsingar hafi verið gefnar 2001 þegar tvö varðskip fóru til Póllands til endurbóta. Þá átti einmitt að fara í það að taka öðruvísi á málum til að svona verkefni færu ekki úr landi.

Við erum í sömu sporum núna. Nú er búið að taka tilboði en það virðist ekki vera samstaða í ríkisstjórninni um að láta það fara til útlanda. Kannski veit það á að menn ætli að breyta til.



[13:40]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég óskaði eftir umræðu utan dagskrár um málefni skipasmíðaiðnaðarins í ljósi þess sem var að gerast á Akureyri, að tilboði Slippstöðvarinnar hafi verið hafnað og samið við pólska verktaka. Ég óskaði eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra sem fer með iðnaðarmálin, hvort sem okkur líkar betur eða verr, ráðherrann sem fer með samkeppnismálin líka í landinu, hvort sem okkur líkar betur eða verr, ráðherrann sem fer með byggðamálin í þessu landi, hvort sem okkur líkar betur eða verr, yrði hér til svara.

Hundrað manns vinna í Slippstöðinni á Akureyri og þetta snertir samkeppnisstöðu skipasmíðaiðnaðarins, ekki síst af því að hæstv. iðnaðarráðherra hafði gert samkomulag við Samtök iðnaðarins árið 2002 um að tekið yrði upp formlegt samráð á milli Samtaka iðnaðarins og ráðherranna um útboð, framkvæmd á nýsmíði og annað sem lýtur að þjónustu skipasmíðaiðnaðarins. Eins og segir í fréttabréfi Samtaka iðnaðarins virðist þetta samkomulag gersamlega hafa verið virt að vettugi, verið bara pappírsgagn eitt. Þetta samkomulag var þó gert milli hæstv. iðnaðarráðherra og Samtaka iðnaðarins.

Það er kannski ekkert skrýtið að enginn ráðherra vilji svara fyrir þá aðgerð sem þarna er á ferðinni þegar verið er að flytja verkefni úr landi á grundvelli þess að það er hægt að sækja þangað í láglaunastörf. Er það kannski í takt við stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar að ryðja burt þeim iðnaði sem hefur þróast og stendur vel í landinu til að koma stóriðjunni fyrir? Það er sjálfsagt vilji hæstv. iðnaðarráðherra. Af einhverjum ástæðum treystir ráðherrann sér ekki til að taka þessa umræðu hér og enginn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Ég vek athygli á því.



[13:42]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ákaflega sérkennileg þróun í túlkun og framkvæmd þingskapa ef utandagskrárumræður sem beðið hefur verið um með formlegum hætti komast ekki að en menn breyta hins vegar umræðum um þennan lið, Athugasemdum um störf þingsins, í eins konar utandagskrárumræður sem stinga sér þá fram fyrir í röðinni á því formi að bera upp í þeim spurningar til hæstvirtra ráðherra.

Hv. þm. Jón Bjarnason bað fyrstur um umræðu utan dagskrár um þetta mál, um málefni skipasmíðaiðnaðarins vegna þeirra atburða sem þar hafa verið að gerast. Rísi deila um það hvaða ráðherra eigi að vera til svara á að leysa úr henni. Það er auðvitað eðlilegt, eins og hér hefur verið rækilega rökstutt, að hæstv. iðnaðarráðherra svari fyrir þetta mál, iðnaðar- og byggðamálaráðherra. Hefur ekki hæstv. ráðherra verið að tjá sig í fjölmiðlum? Heyrði ég ekki hæstv. ráðherrann í viðtali sennilega norður á Akureyri lýsa því að hún hefði hug á því að reyna að kanna hvort hægt væri að fá þessum samningi rift og verkefnið flutt til Akureyrar? Var það misheyrn? Þá kom hæstv. ráðherra þetta mál við. Hvaða óskaplega fælni er þetta við ræðustólinn nú hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra?

Síðan, virðulegur forseti, er mjög mikilvægt að menn hafi eitt í huga og þá kemur að forsetum, ekki síður en þingmönnum. Það er ekki í valdi ráðherra að stjórna því hvort og þá hvenær umræður utan dagskrár fara fram. Ráðherrar hafa ekki neitunarvald um það hvort þær fara fram. Þá væri illa komið því að þær yrðu fáar, a.m.k. ef núverandi ríkisstjórn hefði slíkt vald í höndum sínum. Það stendur skýrt í 50. gr. að það sé réttur þingmanna að fá tekið fyrir mál utan dagskrár, hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra. Þess vegna er það fullgilt að hv. þm. Jón Bjarnason haldi til streitu kröfu sinni um að á morgun fari fram umræða utan dagskrár um málefni skipasmíðaiðnaðarins. Það má þá verða hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra til háðungar og skammar ef hún þorir ekki að vera hér til svara.



[13:44]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé erfitt að halda því fram að ég fælist þennan ræðustól. Ég stíg a.m.k. býsna oft í hann. Það sem ég er að segja er — ég skil það a.m.k. þannig — að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og eflaust fleiri vilja gagnrýna það að þessi skip, Ægir og Týr, fari til viðgerða í Póllandi. Ef það á að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það er ég ekki sá ráðherra sem á að svara fyrir það. Ég óttast ekki að fara í umræðu um framtíð skipasmíðaiðnaðar á Íslandi. Reyndar liggja fyrir tillögur um það hvernig rétt sé að taka á samkeppnisstöðu iðnaðarins gagnvart öðrum þjóðum og það varðar endurgreiðslu aðstöðugjalds. En ég ber ekki ábyrgð á þessari ákvörðun. Ég er tilbúin að fara í umræðu um skipasmíðaiðnaðinn en ég mun þá gagnrýna þessa ákvörðun alveg jafnt og aðrir í þingsalnum. Svo mikið er víst.



[13:46]
Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Í febrúar 2001 ræddum við á hinu háa Alþingi mál er varðaði varðskip sem voru send til Póllands í viðgerð. Hver var niðurstaðan í því máli? Tilboðsverkið fór 12% fram úr áætlun þannig að innlenda tilboðið sem gert var í Hafnarfirði varð að lokum hagstæðara. Samningsupphæðin við Pólverjana var 60 millj. og þegar búið var að reikna inn hækkunina vegna tilboða og aukaverk var upphæðin orðin 105 millj. Það var allur sparnaðurinn.

Við þá umræðu sagði hæstv. iðnaðarráðherra m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Ég vil fyrst og fremst segja það miðað við þetta allt saman og hvernig þetta mál er vaxið að það er von mín að a.m.k. þetta mál verði til þess að það verði betur og á annan hátt staðið að málum í framtíðinni hvað varðar viðgerðir á varðskipunum og ýmis önnur mál sem snúa að útboðum af hálfu ríkisins. Ég hef þá tilfinningu að hægt sé að ganga lengra í því að vinna verk hér á Íslandi en er í dag.“

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að niðurstaðan frá 2001, í miklu minna verki en verið er að tala um núna, var þessi: 12% fram úr áætlun vegna gengisbreytinga, 45 millj. þegar öll aukaverk voru komin til. Er þetta sýn hæstv. iðnaðarráðherra á íslenskum iðnaði í samræmi við framansagt? Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra: Hefur hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin ekkert lært af málinu og þeirri niðurstöðu sem kom út úr útboðinu 2001? Hvað á þetta að ganga lengi svona?



[13:48]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að við lendum í því aftur og aftur að missa verk úr landi á sviði skipaiðnaðar og viðhalds sem er augljóslega hagkvæmt að vinna innan lands. Það er náttúrlega enn þá undarlegra þegar um er að ræða skip í eigu ríkisins þar sem auðveldlega ætti að vera hægt að leggja mat á það fyrir ríkið hvað fylgir margfeldisáhrifum varðandi unnin verk hér á landi annars vegar og hins vegar þegar farið er með verkefnin úr landi, fyrir utan þá reynslu sem minnst hefur verið á af því sem oftast nær er kallað aukaverk eða viðbótarsamningar um verkhluta. Þessi reynsla af samningum um skipasmíði erlendis er vel þekkt við hver einustu verk sem unnin hafa verið erlendis og ætti ekki að koma neinum á óvart og allra síst stofnun sem á að sjá um útboð eins og Ríkiskaup.

Ég verð að segja að ég furða mig á því að við skulum vera að missa verkið úr landi miðað við þá reynslu sem áður hefur verið uppi varðandi skip Landhelgisgæslunnar og það er með ólíkindum að við skulum standa frammi fyrir því að málum sé svona fyrir komið.

Ég hygg að ekki sé hugsað vel um þennan iðnað hér á landi. Alla vega er það svo að þegar talað er um þetta við ríkisstjórnina vísar hver málinu frá sér. Þetta er dapurlegt.



[13:50]
Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef fullan skilning á því að þeir þrír hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem að málinu koma fælist umræðuna og vilji hvergi koma nærri henni. Hæstv. fjármálaráðherra, sem ber ábyrgð á Ríkiskaupum, hæstv. dómsmálaráðherra, sem er „bara verkkaupi“ eins og hann sagði áðan í ræðustóli og hæstv. iðnaðarráðherra sem er á móti málinu en samt með því. Ég hef allan skilning á því að þeir séu ekki áfjáðir í að taka utandagskrárumræðu vegna þess klúðurs sem uppi er þegar sérfræðingar hafa lýst því yfir að þó að sjálfsögðu hefði átt að fara að lögum og EES-reglum um að bjóða þetta út á svæðinu hefði mátt reikna það þannig að unnt hefði verið að taka tilboði Íslendinga og það orðið hið lægsta þegar allt var með talið. Ég hef því algeran skilning á fælni ráðherrana.

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað, herra forseti, um hver þeirra þori, geti og vilji standa í þessum ræðustól og taka til varna í málinu legg ég til að þeir verði allir viðstaddir utandagskrárumræðu um málið sem yrði í lengra lagi, að þeir standi allir þrír í ræðustól og lýsi viðhorfum sínum á efnisatriðum til málsins. Ef hæstv. ráðherrar deila um hverjir eigi að vera fremstir í þeirri röð gæti starfsaldur til að mynda ráðið, en hér skulu þeir allir vera. Við skulum því ekki, ágætu þingmenn, gleyma okkur í deilu um það hver var fyrstur að hringja í hæstv. forseta, heldur hitt að ráðherrar standi fyrir máli sínu hér. Það er kjarni málsins.



[13:52]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar þingflokksformenn hittu hæstv. forseta að máli í hádeginu í gær lá fyrir að þrír þingmenn úr þremur stjórnmálaflokkum höfðu óskað eftir utandagskrárumræðu við þrjá ráðherra um þrjú umræðuefni sem öll snertu þó skipasmíðaiðnaðinn. Niðurstaða hæstv. forseta var að gera það sem ævinlega hefur verið gert við slíkar aðstæður, að leggja til að sú umræða færi fram á grundvelli þeirrar umræðubeiðni sem fyrst kom fram.

Nú er hins vegar komin upp ný staða og þegar hún lá fyrir lagði hæstv. forseti það til, sem var auðvitað það skynsamlega í málinu, að þingmenn mundu aðeins hægja á sér og að formenn þingflokka mundu setjast aftur niður með forseta og reyna að komast til botns í málinu. Það veldur miklum vonbrigðum að enginn þeirra þingmanna sem hlut eiga að málum þessara umræðubeiðna skyldi taka afstöðu til beiðni hæstv. forseta.

Ber að skilja það þannig að þeir þingmenn sem hér hafa talað séu með þögn sinni varðandi beiðni hæstv. forseta að hafna henni? Ég hvet mjög til þess að við reynum að komast til botns í málinu með því að setjast niður og fara yfir það eins og þingflokksformenn hafa gert og komast að einhverri niðurstöðu. Þess í stað kusu hv. þingmenn að gera hvað? Að hefja efnislega umræðu um þessi þrjú mál sem fyrir lágu í gær. Mér finnst að þar með sé málið orðið nokkuð vandasamara en það var kl. hálftvö því nú erum við komin af stað í efnislega utandagskrárumræðu de facto um skipasmíðamálin. Þess vegna þurfum við að velta því fyrir okkur hvort við eigum að taka upp það sem mér sýnist vera utandagskrárumræða með tilhlaupi þar sem menn koma fyrst til að skapa sér pínulítið svigrúm og pínulitla vígstöðu og fara í efnislega umræðu og hefja síðan utandagskrárumræðu einhverjum dögum seinna. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég hvet til þess að við tökum undir beiðni hæstv. forseta.



[13:54]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór nokkuð vel af stað þegar hann lýsti því sem rétt var að á fundi okkar þingflokksformanna með forseta í gær lágu fyrir þrjár beiðnir um umræðu utan dagskrár um sama mál en hver með sínu heitinu og aðeins ólíkum formerkjum. Niðurstaða forseta var sú að umræðan yrði tekin við hæstv. iðnaðarráðherra og að hv. þm. Jón Bjarnason fengi umræðuna.

Hins vegar lá fyrir í morgun að hæstv. iðnaðarráðherra var ekki tilbúin til að taka umræðuna. Þá stendur eftir að enn eru inni þrjár beiðnir. Ekki hefur verið rætt um hvaða ráðherra tekur að sér að ræða þetta fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við þingmenn og það sem við förum fram á, og ég tek undir þá beiðni sem fram kom hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller, er að fá úrskurð forseta um með hvaða hætti þetta verði tekið fyrir. Úrskurðað hefur verið að hv. þm. Jón Bjarnason er með umræðuna. Hins vegar á eftir að úrskurða um hvaða ráðherra verður til svara og við verðum að fá úr því skorið.

Hæstv. forseti hafði samband við mig í morgun og tilkynnti mér að hæstv. iðnaðarráðherra gæti ekki og mundi ekki taka umræðuna. Það virði ég og fannst eðlilegt að við fengjum þann úrskurð. Herra forseti sagði rétt áðan að við mundum funda í dag um málið og mér finnst það góð niðurstaða.