131. löggjafarþing — 89. fundur
 15. mars 2005.
umræður utan dagskrár.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:02]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það vakti óneitanlega athygli þegar af því fréttist að formlegur starfshópur sem hafði með höndum undirbúning ályktunar um Evrópumál fyrir flokksþing framsóknarmanna á dögunum legði til að, með leyfi forseta, „stefnt skuli að því að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið á kjörtímabilinu og niðurstöður þeirra bornar undir þjóðaratkvæði í næstu alþingiskosningum“, hvorki meira né minna. Slík tillaga og kannski ekki síður slík vinnubrögð voru auðvitað alveg sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn er í stjórnarsamstarfi þar sem byggt er á allt annarri stefnu samkvæmt stjórnarsáttmála. Sem sagt, formaður Framsóknarflokksins er forsætisráðherra í ríkisstjórn með allt aðra stefnu, en formlegur undirbúningshópur í hans eigin flokki leggur engu að síður fram slíka ályktun.

Vandi manna er sá í svona tilvikum og alveg sérstaklega þegar Framsóknarflokkurinn á í hlut að menn vita ekki hvort þeir eiga að taka hlutina alvarlega. Hvað er í alvöru frá þessum flokki og hvað er frá auglýsingastofunni? Var þessi Evrópulopi beint af spunarokkum vikapiltanna í kringum forsætisráðherra og til þess ætlaður fyrst og fremst að draga athyglina frá valdabaráttu og innanflokksátökum og tryggja að ekki yrði rætt of mikið um óþægileg mál eins og Írak eða einkavæðingu Landssímans á flokksþinginu — eða hvað? Á hverju á að taka mark? Samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, valdi greinilega a.m.k. á yfirborðinu hvað sem menn hugsa með sjálfum sér þar á bænum, þann kost að líta á þetta sem grín, ekki sem slit á trúlofun eða tilkynningu fyrir fram um að trúlofuninni verði slitið eftir tvö ár.

Utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, ákvað að treysta á lestrarkunnáttuna og fannst lítið til koma. Nú fór það að vísu svo að hvorki meira né minna en einar fimm útgáfur þurfti til að koma útþynntri ályktun saman. Fimmta útgáfan tengdist því að ýmist var talað um hugsanlegar viðræður eða hugsanlegan undirbúning viðræðna eða eitthvað því um líkt, sem sagt lausnarorðið mikla „hugsanlega“ var á einhverju flakki í textanum. En engu að síður kom hæstv. forsætisráðherra rogginn af flokksþinginu sínu með þennan Evrópubútung sinn útvatnaðan og talaði um tímamót.

Forsætisráðherra hefur einnig verið drjúgur yfir þeirri athygli sem þetta Evrópuútspil hefur vakið í nágrannalöndunum. Bondevik hefur legið í símanum og Anders Fogh viljað um fátt annað tala. Reyndar er merkilegt hvernig stanslaust er reynt að tala eins og Evrópumálin standi einhvern veginn allt öðruvísi í Noregi en þau gera í reynd. Staðreyndin er sú að grundvöllur núverandi stjórnarsamstarfs þar er eins og allir vita að Norðmenn hreyfi sig ekki í málinu og í samstarfsgrundvelli stjórnarandstöðuflokkanna, þ.e. sósíalíska Vinstri flokksins og Verkamannaflokksins sem hafa fullan hug á því að fella ríkisstjórnina og taka við er ljóst að aðildarumsókn er ekki inni í myndinni. Það er því ekkert sem bendir til þess að hreyfing verði á þessum málum í Noregi á næsta kjörtímabili hvernig sem stjórnarmynstur verður þvert á það sem framsóknarmenn og reyndar fleiri reyna iðulega að halda fram.

Ég held að það sé ekki að ófyrirsynju að hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, skýri fyrir Alþingi stöðu þessara mála í ríkisstjórn sinni og flokki og ég hef því lagt fyrir hann eftirfarandi spurningar:

1. Ef tímamót voru fólgin í samþykkt nýlega afstaðins flokksþings Framsóknarflokksins um Evrópumál, í hverju fólust þau tímamót og hvaða áhrif hefur atburðurinn á stöðu Evrópumála í núverandi stjórnarsamstarfi? Ég meina, annaðhvort er þetta eitthvað eða ekki.

2. Með hvaða hætti hefur forsætisráðherra kynnt erlendum starfsbræðrum sínum, t.d. í Noregi og Danmörku, þessi tímamót ef hann telur svo vera?

3. Hvaða viðhorf hefur forsætisráðherra til starfa Evrópustefnunefndar sem forveri hans skipaði og hvenær telur hann æskilegt að nefndin ljúki störfum eða skili áfangaskýrslu?

4. Munu fulltrúar Framsóknarflokksins í Evrópustefnunefnd tala þar fyrir því í kjölfar ályktunar flokksþingsins að umsókn um aðild að Evrópusambandinu verði lögð inn þegar á næsta kjörtímabili? Svar við þessari spurningu verður upplýsandi gagnvart þeim vanda okkar að reyna að átta okkur á því: Gerðist eitthvað þarna eða ekki?



[14:07]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar er afskaplega skýr. Þar kemur fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Samskiptin við Evrópusambandið verði áfram treyst á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og annarra samninga sem Ísland á aðild að. Fylgst verði grannt með samrunaferlinu í Evrópu og áhrifum þess á íslenska hagsmuni.“

Í framhaldi af þessu hefur verið skipuð nefnd allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi um Evrópumál. Það starf gengur afskaplega vel og er mjög merkilegt undir forustu hæstv. dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar. Þar hafa mörg mál verið rædd á níu fundum nefndarinnar og fram undan eru fundir þar sem mörg önnur mál verða rædd, m.a. hugmyndir um uppsögn EES-samningsins, áhrif inngöngu Noregs í ESB á EES-samninginn, hugsanlega inngöngu Noregs. Þannig er verið að fjalla um málið og fara vel ofan í það og ætti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekki að þurfa að spyrja um það vegna þess að fulltrúi frá stjórnmálaflokki hans á aðild að nefndinni.

Hins vegar hlýtur það að vera mjög eðlilegt að hver og einn stjórnmálaflokkur fjalli um þetta mál á sínum vettvangi. Framsóknarflokkurinn telur það skyldu sína að fjalla um mál sem varða framtíðina miklu eins og samskiptin við Evrópusambandið og við gerum það alveg án tillits til þess þó að Vinstri grænir telji enga ástæðu til þess frekar en mörg önnur viðkvæm mál sem varða framtíðina. Við skiptum okkur ekkert af því. Það er hins vegar afar þakkarvert hvað flokkur Vinstri grænna hefur afskaplega mikinn áhuga á störfum Framsóknarflokksins. Sérstaklega virðast þeir hafa áhuga á störfum okkar á þeim sviðum sem þeir vilja helst ekki fjalla um, sérstaklega að því er varðar ýmis mál er varða framtíðina.

Hv. þingmaður spyr: Hver eru þessi tímamót? Ég skal gjarnan svara því. Það hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum í mínum flokki, Framsóknarflokknum, að þar hefði verið fjallað um Evrópumál með þeim hætti sem var gert á flokksþingi okkar. Þar kom margt ungt fólk sem vildi ræða þessi mál og gerir þá kröfu að þau séu rædd opin í flokknum. Er eitthvað óeðlilegt við það?

Í ályktun flokksins kemur fram að hugsanlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið verði undirbúnar. Þar er minnst á aðild að Evrópusambandinu. Það er í fyrsta skipti sem það er gert á vettvangi flokksins. Það liggur sem sagt ljóst fyrir að flokkurinn sem slíkur útilokar það ekki að til aðildar geti komið í framtíðinni án þess að það hafi verið tímasett. Ég veit að Vinstri grænir útiloka það algerlega og ég held að þeir séu einir íslenskra stjórnmálaflokka sem útiloka það og þurfa þess vegna ekki að ræða málið. Ég veit ekki til þess að neinn annar íslenskur stjórnmálaflokkur útiloki það. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon verður að hafa þolinmæði gagnvart öðrum flokkum, að þeir ræði þessi mál á sínum vettvangi vegna þess að þeir flokkar telja það vera skyldu sína.

Ég átti hins vegar alls ekki von á því að hv. þingmaður sæi ástæðu til að koma hér upp til að gera flokksþing framsóknarmanna að sérstöku umræðuefni. En ég get glatt hann með því að flokksþing framsóknarmanna er ekki á dagskrá þegar ég ræði við starfsbræður mína á Norðurlöndunum. Það er aldrei dagskrárliður. Ég get fullvissað hann um það. En hitt er svo annað mál að ágætur vinur minn til langs tíma, Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, hringdi í mig vegna þessara mála og ég upplýsti hann um þau eins og mér bar að sjálfsögðu skylda til.

Ég hef rætt þessi mál jafnframt við forsætisráðherra Danmerkur, ekki á grundvelli flokksþings framsóknarmanna heldur á grundvelli þess umboðs sem ég hef sem forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn sem ég er í. En auðvitað er það svo og ég veit að hv. þingmaður veit það að þessi mál koma til tals með margvíslegum hætti í spjalli manna. Og það er út í hött hjá hv. þingmanni að koma með þá túlkun að þessi mál séu ekki á dagskrá í Noregi og þess vegna eigi þau ekki að vera á dagskrá á Íslandi. Það var nánast það sem hann sagði áðan. Auðvitað eru þessi mál á dagskrá í Noregi hvort sem þingmönnum líkar það betur eða verr og ef það er afsökun Vinstri grænna fyrir því að taka þau ekki á dagskrá sína er það mikill misskilningur.



[14:13]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Herra forseti. Umræðu hefur skort um kosti og galla Evrópusambandsaðildar fyrir Ísland og þess vegna eru væntingar bundnar við Evrópustefnunefndina sem opnar vonandi umræðu um þessi mál. Við höfum meðtekið yfir 4.000 ESB-gerðir á Alþingi. Þær voru 1.500 þegar við urðum aðilar að EES. Er betra að leiða tilskipanir gagnrýnislaust í lög en að fá aðild og fulla þátttöku í vinnuferli ESB-tilskipana? Sú spurning er aldrei rædd af alvöru á Alþingi.

Tilskipanir ESB eru forsögn og þær á ekki að taka upp í lög frá orði til orðs. Valkostir eru gefnir en við innleiðum þá jafnvel alla og dæmi eru um að gengið hafi verið of langt í innleiðingu tilskipana í lög. Ríkisstjórninni hafa reyndar verið kynnt þau mál. Alþingi er háð þekkingu ráðuneyta og stjórnsýslan er hvað hreyknust þegar tekst að vinna allt hratt og vel á meðan stóru ríkin taka sér tíma og tryggja vandlega skoðun mála með aðkomu þjóðþinganna. Alþingi á að vita að tækifæri felast í því hvernig tilskipun er innleidd. Þjóðþingin geta orðið hornsteinar í samrunaferlinu í Evrópu því þar eru sett allt öðruvísi lög sem miða öll að framtíðarmarkmiðum og því hvernig innri markaðurinn á að þróast. Þróun hans er mikilvægasta atvinnumál okkar Íslendinga og snýst ekki bara um stórfyrirtæki. Hún hefur mikla þýðingu fyrir litlu fyrirtækin í landinu. Íslenskur vinnumarkaður hefur blómstrað undanfarinn áratug af því Íslendingar nýttu sér tækifærin í EES-samningnum. Og Samfylkingin hefur valið upplýsta faglega umræðu um Evrópusambandsaðild sem flokkurinn allur hefur átt kost á þátttöku í og Samfylkingin hefur ákveðið að leggja hugsanlegan samning fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.



[14:15]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég þakka þetta tækifæri til að ræða málefni nefndar um Evrópumál sem forsætisráðherra skipaði 14. júlí sl. Nefndin tók til starfa 28. júlí og hefur haldið níu fundi. Í nefndinni sitja fulltrúar frá öllum þingflokkum. Ég tel að nefndarstarfið hafi gengið ákaflega vel og þau markmið nefndarmanna hafi náðst að þar geti farið fram umræður um málefni sem tengjast Evrópusambandinu og hagsmunum okkar Íslendinga á þann veg að sem gleggstra upplýsinga sé aflað. Gert er ráð fyrir að halda tíu til tólf fundi í nefndinni á þessu ári og hafinn er undirbúningur að ferð hennar til stofnana Evrópusambandsins og EFTA í Brussel.

Nefndin starfar samkvæmt verkefnaáætlun sem hún samþykkti og hún byggist m.a. á skipunarbréfi nefndarinnar. Nefndin hefur nú þegar fjallað um framkvæmd EES-samningsins, Ísland og sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, hvort og þá hvers konar undanþágur væru veittar í aðildarsamningum að Evrópusambandinu og hvað aðild mundi kosta ríkissjóð til lengri og skemmri tíma litið. Einnig hefur verið fjallað um hverjir séu kostir og gallar evrunnar fyrir Ísland.

Á fundi nefndarinnar hafa komið fulltrúar og sérfræðingar, m.a. frá utanríkisráðuneytinu og Seðlabankanum, til þess að svara spurningum nefndarmanna. Nefndin hefur ekki tekið ákvörðun um hvort það sé á hennar vegum að semja skýrslur um einstök mál en hún mun að sjálfsögðu gera það ef nauðsyn krefst. Það er markmið nefndarinnar að starfa á þessu kjörtímabili. Enginn tímarammi er settur í skipunarbréfi nefndarinnar en hún hefur mörg málefni enn til úrlausnar og umræðu og mun að sjálfsögðu kynna störf sín þegar þar að kemur með skýrslum eða álitsgerðum.

Ég vil ítreka það að starf nefndarinnar gengur ákaflega vel og ég tel að hún sé mjög heppilegur vettvangur fyrir stjórnmálaflokkana til að ræða þessi mikilvægu málefni.



[14:17]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er víða verið að skoða mál er varða hugsanlega aðild einhvern tíma í náinni framtíð að Evrópusambandinu. Á vegum forsætisráðherra var skipuð sérstök Evrópunefnd eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Í skipunarbréfi þeirrar nefndar var m.a. lagt upp með að skoða hver yrðu áhrif hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu og áhrif evrunnar á Íslandi svo eitthvað sé nefnt, auk þess sem hæstv. dómsmálaráðherra vék hér að um störf nefndarinnar.

Vonandi verður starf nefndarinnar markvisst og árangursríkt og áhugavert og fróðlegt það sem hún kemur til með að láta frá sér.

Þetta er hin opinbera stefna sem ríkisstjórnin vinnur með hér á landi. Það liggur hins vegar fyrir að Framsóknarflokkurinn hefur tekið málefni Evrópusambandsins sérstaklega til umfjöllunar og hugsar sér að skoða þau mál mjög náið í framtíðinni. Það hefur verið upplýst hér af hæstv. forsætisráðherra að sú stefnumótun hefði engin áhrif á stefnumótun ríkisstjórnarinnar og væri m.a. ekki rædd við erlenda sendimenn sem hann ætti viðræður við.

Frjálslyndi flokkurinn ítrekaði nýlega afstöðu sína um Evrópusambandið á landsþingi sínu og við ályktuðum um að aðild væri engan veginn tímabær. Við töldum að EES-samningurinn dygði Íslendingum vel og þar eigum við sameiginlega hagsmuni með Noregi. Við sögðum einnig að eftir inngöngu tíu nýrra aðildarríkja í Evrópusambandið væri skynsamlegt að sjá hver þróunin yrði. Á meðan samstaða er um samninginn með Norðmönnum og Íslendingum er ákvörðun um umsókn að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) ástæðulaus að okkar mati.



[14:19]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að efast um að nokkur stjórnmálaflokkur hér á þingi hafi farið eins rækilega í saumana á Evrópumálum og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur gert. — Nú hlæja menn.

Þegar raforkutilskipunin kom til umræðu hér voru það þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem stóðu vaktina, hinir voru allir sofandi og tóku ekki einu sinni til máls í umræðunni. Það var löngu síðar sem þeir vildu þá Lilju kveðið hafa og snerust á sveif með okkur, m.a. varaformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. (Gripið fram í.) Þetta er bara staðreynd. Ég spyr: Hve margir þingmenn hafa lagst yfir þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem nú er í smíðum? Við höfum gert það mjög rækilega og þannig gæti ég nefnt fjölmörg önnur dæmi. — Ég held að menn ættu að spara þennan hlátur.

Eðlilegt að Evrópumálin séu á dagskrá, segir hæstv. forsætisráðherra. Það er alveg rétt, en menn verða þá að tala þannig að skiljist hvað þeir meina, að ekki þurfi pólitíska djúpsálarfræðinga til að lesa í yfirlýsingar þeirra. Sú er raunin með það sem kemur frá Framsóknarflokknum nú um stundir, mjög mótsagnakenndar yfirlýsingar þótt allir finni að hæstv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins vilji helst halda sem fyrst til Brussel. Hann veit hins vegar að kjósendur Framsóknarflokksins munu ekki fylgja honum þangað og þess vegna er þessi loðmulla í boði.

Menn hafa tvær nálganir. Annars vegar hina statistísku eins og Samfylkingin, sem telur bara tilskipanirnar og segir: Það eru 4.000 tilskipanir og þess vegna hljótum við að fara til Brussel og hafa áhrif. Þetta er tittlingaskítur sem menn sameinast um, embættismenn semja um og engar deilur eru um. Málin snúast hins vegar um hin stóru lýðræðislegu spursmál, hvernig við eigum að skipuleggja samfélag okkar. Þá er spurningin ekki bara sú: Eigum við að fara í Evrópusambandið eða standa fyrir utan? Við þurfum að skoða (Forseti hringir.) EES-samninginn líka og íhuga rækilega (Gripið fram í.) hvort segja eigi honum upp, t.d. ef þjónustutilskipunin nær óbreytt fram að ganga.



[14:22]
Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Við heyrðum hér sjálfskipaðan djúpsálarfræðing þingsins ljúka ræðu sinni. Það var sögulegt upphaf að utandagskrárumræðu sem hófst hér með fleiri „efum“ og „mundi“ og „skyldi“ en ég hef nokkru sinni heyrt áður í utandagskrárumræðu á Alþingi eins og kom fram hér hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ef öll þessi ef og kannski og skyldi og einlægur, mér liggur við að segja sjúklegur, áhugi hans á Framsóknarflokknum væri tekið burt úr ræðunni ímynda ég mér að hún fjalli eitthvað um Evrópusambandið, hvort við viljum ganga inn í það eða hvort við viljum ekki ganga inn í það.

Að sjálfsögðu getur enginn hér inni svarað þessari spurningu afdráttarlaust, eins og hér hefur komið fram, einfaldlega vegna þess að við höfum ekki svörin á reiðum höndum. Það eru ýmsar grundvallarspurningar sem menn velta fyrir sér. Hvað þýðir það fyrir langtímahagsmuni okkar sem þjóðar, hvað með EES-samninginn, hverju töpum við af fullveldinu, hvað er fullveldi á tímum alþjóðavæðingar, hvað um sjávarútveg, landbúnað o.s.frv.?

Þessi vinna hefur ekki farið fram nema að litlu leyti. Málið er einfaldlega ekki orðið nógu þroskað til að menn geti tekið eindregna afstöðu. Þess vegna er mjög mikilvægt að halda áfram vinnunni sem er í gangi í þeirri nefnd sem hér hefur komið til tals með langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Um það fjallar þessi nefnd og þar hefur margt verið gert og enn fleira á eftir að gera. Í þessari umræðu er það auðvitað skylda okkar að vera gagnrýnin en jafnframt opin fyrir kostum þess og göllum. Það er skylda okkar að hafa þetta mál á dagskrá.

Forpokuð afstaða Vinstri grænna í þessu máli, eins og ávallt þegar alþjóðamál ber á góma, kemur að sjálfsögðu ekki á óvart. Þeir minna mig stundum í alþjóðaumræðu á blinda dráttarjálka sem ekkert vilja (Forseti hringir.) sjá og þaðan af síður heyra og heimurinn siglir fram hjá þeim.



[14:24]
Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi verið full ástæða til þess að taka þessa umræðu upp og inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort eitthvað hafi gerst á flokksþingi Framsóknarflokksins á dögunum. Mér er skapi næst að halda að það svar hafi ekki enn þá komið. Það liggur að vísu fyrir hér skrifaður texti um hugsanlegt þetta og hugsanlegt hitt. Það liggur jafnframt fyrir að varaformaður flokksins, sem er núna flúinn úr salnum, sló þetta allt saman kalt strax að kvöldi síðasta dags flokksþingsins. Það liggur líka fyrir að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem var hér líka áðan, tók upp þykkjuna fyrir formann sinn og skammaðist út í Davíð Oddsson utanríkisráðherra, formann hins stjórnarflokksins, þegar hann vefengdi að um tímamót væri að ræða í sögu þessarar umræðu. Þar er þögnin hrópandi.

Eftir stendur því spurningin: Fæddist lítil mús eða gerðist eitthvað sem tímamót mætti telja hvað varðar afstöðu Framsóknarflokksins til Evrópumála?

Það er alveg kýrskýrt að stefna Samfylkingarinnar liggur fyrir og um hana þarf enginn að velkjast í vafa. Við höfum spurt flokksmenn okkar svo þúsundum skiptir í beinni kosningu hvaða leið þeir vilja fara og þeir hafa sagt það að stórum meiri hluta að þeir vilji sækja um aðild en hafa hins vegar klár markmið í farteskinu. Ef viðunandi samningar nást ekki þá er það svo, ef þeir nást mun þjóðin taka endanlegu afstöðu. Þetta eru bara klár og kvitt skipti.

Ég kalla eftir því: Er nokkur von til þess að svör á borð við þessi fáist hjá Framsóknarflokknum? Að ég tali nú ekki um Sjálfstæðisflokkinn, sem er vanur því að lúta forsjá okkar jafnaðarmanna í utanríkismálum þegar til stykkisins kemur, samanber EES-samninginn.



[14:26]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Gagnstætt því sem haldið hefur verið fram hafa fá mál verið jafnmikið rædd hér á landi eins og staða Íslands í Evrópusamstarfinu. Þetta kom í rauninni mjög vel fram þegar Evrópustefnunefndin, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, fór yfir þá vinnu sem unnin hefur verið á þessum vettvangi. Þá kom í ljós að búnar höfðu verið til ótölulegar skýrslur, m.a. af hálfu hins opinbera, um marga þætti sem lutu að þessu máli. Það hefur með öðrum orðum verið reynt mjög markvisst að varpa ljósi á þetta mál og á Alþingi hafa farið fram ótal umræður um það.

Við vitum líka að gerð var alvarleg tilraun til þess að gera Evrópumálin að einu aðalkosningamálinu fyrir síðustu kosningar. Það mistókst vegna þess að kjósendur höfðu einfaldlega ekki áhuga á málinu. Þetta mál er með öðrum orðum í prýðilegum farvegi. Afstaða ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er alveg ljós. Við byggjum á þessu samstarfi, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði, á vettvangi hin Evrópska efnahagssvæðis sem hefur dugað okkur vel og er í fullu gildi.

Það liggur líka fyrir að núna er fyrir frumkvæði ríkisstjórnarinnar verið að vinna að þessu máli áfram í góðu samstarfi fulltrúa allra stjórnmálaflokka og þar er verið að varpa betra ljósi á málið og þess vegna er það að mínu mati í prýðilegum farvegi.

Því er oft haldið fram að við höfum ekki aðgang að ákvarðanaferlinu innan Evrópusambandsins. Það er einfaldlega rangt. Við sjáum að við höfum margvíslegan aðgang í þeim efnum. Því er líka haldið fram að við séum bundin á klafa Evrópusambandsins vegna þess að við þurfum að taka sjálfvirkt yfir allar gerðir sambandsins. Búið er að sýna fram á að það er líka rangt.

Hægt að sýna fram á að þetta er meira og minna hræðsluáróður. Hér á landi er haldið fram einhvers konar grýluumræðu að nú sé það að bresta á að Noregur fari inn í Evrópusambandið og þá verðum við skilin eftir fyrir utan. Það liggur fyrir að það er rangt. Í Noregi er því haldið fram að nú séu Íslendingar alveg að detta inn í Evrópusambandið og þá þurfi Norðmenn að fara að hugsa sinn gang. Við vitum að svo er ekki. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þessi mál eru í góðum farvegi og það er engin ástæða til neins upphlaups í þessum efnum.



[14:28]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það er full þörf á því að ræða Evrópumálin fordómalaust. Frjálslyndi flokkurinn hefur allan vara á sér við aðild að Evrópusambandinu. Margir, sumir a.m.k., virðast standa í þeirri trú að hér verði sæluríki við það eitt að ganga í Evrópusambandið og jafnvel jól alla daga, og ef minnst er á ýmis vandkvæði, svo sem sameiginlega fiskveiðistjórn, þá er viðkvæðið: Það er hægt að fá undanþágu frá þessu eða hinu. Staðreyndin er sú að í viðræðum við embættismenn Evrópusambandsins hefur ítrekað komið í ljós að það verður erfitt að fá undanþágu og jafnvel ómögulegt. Það er staðreyndin sem blasir við.

Ýmsir ungir framsóknarmenn, sem hæstv. forsætisráðherra hefur vitnað til, segja einfaldlega að þetta skipti engu máli. Fiskimiðin séu hvort eð er komin á hendur örfárra fyrirtækja — um þetta má lesa á heimasíðu Framsóknarflokksins — og hvers vegna ekki að gera þau bara að söluvöru fyrir Evrópuþjóðirnar? Þetta er viðhorf ungra framsóknarmanna.

Við í Frjálslynda flokknum teljum að hægt sé að fara aðra leið en að fá undanþágur. Það er einfaldlega að breyta fiskveiðistjórninni þannig að eignarrétturinn á auðlindinni verði færður, þetta verði nýtingarréttur sem tengdur verði sjávarbyggðunum. Stjórn á fiskimiðunum muni þá skipta æ minna máli og þá verði mögulega hægt að skoða aðildarviðræður af einhverri alvöru.



[14:30]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, formanni Evrópustefnunefndar, fyrir málefnalegar og greinargóðar upplýsingar um störf nefndarinnar. Hitt verð ég að segja að ósköp finnst mér dapurlegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki eiga rismeira erindi í ræðustól á Alþingi til að ræða hugðarefni sín, Evrópumálin, en að fara þar fyrst og fremst með gamlar klisjur og ónotast út í Vinstri hreyfinguna – grænt framboð og fara enn með gömlu plötuna um að við séum algerlega á móti umræðum um þessi mál og viljum hana ekki.

Hvað er ég að gera hér, herra forseti? Er ég ekki að beita mér fyrir umfjöllun um Evrópumál? Er ég ekki að bjóða hæstv. forsætisráðherra upp á tækifæri til að skýra áherslur sínar, tala fyrir hönd ríkisstjórnar og flokks síns? Hvernig notar hæstv. forsætisráðherra ræðu sína? Að uppistöðu til í þessi gömlu ónot en svarar nánast í engu beinum spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Það er mjög dapurlegt. Það er ekki aðferðin til þess að glæða þessa umræðu lífi, hafa hana uppbyggilega og málefnalega að nota ræðutíma sinn eins og hæstv. forsætisráðherra gerði áðan.

Varðandi Noreg sagði ég ekki að Evrópumál væru þar ekki á dagskrá eða til umræðu. Auðvitað eru þau það eins og þau eru hér. Ég fylgist mætavel með stjórnmálaumræðu í Noregi gegnum aðild mína að Norðurlandaráði, gegnum sambönd mín við systurflokka okkar í Noregi o.s.frv. Hitt sagði ég og við það stend ég að aðstæður í norskum stjórnmálum eru þannig að það er ekki líklegt að skipta máli hvor blokkin verður ofan á í kosningunum í haust; núverandi ríkisstjórnarblokk eða stjórnarandstaðan. Það eru yfirgnæfandi líkur á því að á næsta kjörtímabili verður óbreytt ástand, að Evrópumálin eða aðild eða umsókn verði ekki í stefnu þeirrar stjórnar sem þar situr.

Þess vegna finnst mér líka að menn eigi að láta af þeim ósið að reyna að toga umræðuna áfram í löndunum á víxl með því að segja okkur ýkjusögur af því að nú séu Norðmenn alveg að fara inn í Evrópusambandið eða öfugt.



[14:32]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kvartar yfir því að honum sé svarað á vettvangi Alþingis. Hann kemur hér upp til að tala um starf Framsóknarflokksins, lýðræðislegt starf innan flokksins með niðrandi hætti, sakar mig svo um það að fara með einhverjar háðsglósur um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Ég gerði það ekki. Ég sagði það sem rétt er að svo virtist vera að þetta væri ekkert vandamál hjá stjórnmálaflokki hans. Þeir teldu að þetta væri allt saman ljóst.

Ein yfirlýsing var afskaplega merkileg í þessari umræðu og langmerkilegasta yfirlýsingin sem gefin var. Það var hv. þm. Ögmundur Jónasson sem það gerði. Ég heyrði ekki betur en hann segði að rétt væri að segja EES-samningnum upp ef tiltekin tilskipun yrði innleidd.

Nú vill svo til að deilur eru um þá tilskipun en við verðum hins vegar að búa okkur undir að niðurstaða komi einhvern tíma um þá tilskipun, ekki endilega í því formi sem hún er í dag og þá er það stefna eins stjórnmálaflokks á Alþingi að segja samningnum upp. Og ég heyrði ekki betur en hann hefði viljað segja samningnum upp út af raforkutilskipuninni. Að vísu er því haldið fram skipti eftir skipti á Alþingi að það hefði … (Gripið fram í: Það er misskilningur.) Þá er að misskilningur, ég tek það þá til baka, en því er haldið fram skipti eftir skipti á Alþingi að það hefði verið hægt að fara fram hjá þeirri tilskipun. Það er rangt og það er ljótur leikur að halda því fram í sambandi við raforkumálin á Íslandi en þetta gerir Vinstri hreyfingin – grænt framboð skipti eftir skipti að þeir halda slíku fram sem stenst ekki því miður og það er ljótur leikur að halda því fram á almennum fundum að við hefðum getað náð einhverri allt annarri niðurstöðu en við fengum í því máli.