131. löggjafarþing — 89. fundur
 15. mars 2005.
Lokafjárlög 2002, 1. umræða.
stjfrv., 440. mál. — Þskj. 660.

og 

Lokafjárlög 2003, 1. umræða.
stjfrv., 441. mál. — Þskj. 663.

[14:44]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvörpum til lokafjárlaga fyrir árin 2002 og 2003. Frumvarpið fyrir árið 2002 var lagt fram á Alþingi á síðasta þingi og var þá vísað til fjárlaganefndar eftir 1. umr. en ekki náðist að afgreiða málið. Var það lagt fram að nýju í desembermánuði sl. á þskj. 660.

Frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2003 var einnig lagt fram fyrir áramótin, á þskj. 663, en hefur hins vegar verið prentað upp og gerðar á því ýmsar breytingar sem ég mun víkja nánar að innan tíðar.

Vík ég þá að efni lokafjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2002. Framsetning á talnaefni þess er í samræmi við fjárlög og fjáraukalög þess árs og niðurstöður ríkisreiknings fyrir sama ár og er frumvarpið með sama sniði og fyrri lokafjárlagafrumvörp. Við samningu frumvarpsins var stuðst við sömu vinnureglur um uppgjör og ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok og verið hefur. Frumvarpið er lagt fram í samræmi við lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, til staðfestingar á ríkisreikningi fyrir árið 2002.

Samkvæmt 45. gr. fjárreiðulaganna skal í frumvarpi til lokafjárlaga leita heimilda til uppgjörs á gjöldum umfram fjárheimildir og ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá yfir geymdar afgangsfjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins.

Í 37. gr. laganna er heimild til að geyma ónotaðar fjárveitingar í lok reikningsárs til næsta árs og með sama hætti að draga umframútgjöld fyrra árs frá fjárveitingum ársins. Samkvæmt lögunum skal einnig gera grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.

Efnisatriði frumvarpsins eru í stórum dráttum á þá leið að í 1. gr. er leitað heimilda til að breyta fjárveitingum í sama mæli og reikningsfærðar ríkistekjur til fjármögnunar á verkefnum hafa vikið frá áætlunum fjárlaga. Þar er þá um það að ræða að stofnanir eða verkefni sem fjármögnuð eru með hlutdeild í ríkistekjum fái meiri eða minni heimildir til ráðstöfunar á tekjunum eftir því hvort þær hafa reynst vera meiri eða minni en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til niðurfellingar á stöðu fjárheimilda í árslok, einkum vegna verkefna þar sem útgjöld ráðast af skuldbindingum samkvæmt öðrum lögum en fjárlögum eins og á við um almannatryggingar, vaxtagjöld og lífeyrisskuldbindingar. Þar er þá um að ræða afgangsheimildir eða umframgjöld sem ekki flytjast milli ára og koma þar með ekki til breytinga á fjárheimildum ársins á eftir.

Í fylgiskjali 1 með frumvarpinu er birt yfirlit yfir stöðu fjárheimilda í árslok, ónotaðar fjárveitingar og umframgjöld sem færast til næsta árs. Í fylgiskjali 2 er birt yfirlit yfir talnagrundvöll frumvarpsins í heild. Yfirlitið sýnir uppruna allra fjárheimilda ársins 2002 fyrir ríkissjóð í heild og einstök viðfangsefni. Í yfirlitinu koma einnig fram gjaldfærð útgjöld í reikningi og staðan í árslok, þ.e. mismunur fjárheimildanna og reikningsfærðra útgjalda.

Eins og áður er komið fram eru í 1. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á fjárheimildum ráðuneyta vegna frávika í mörkuðum tekjum og öðrum rekstrartekjum miðað við fjárlög en nánari skipting á stofnanir og verkefni er sýnd í sundurliðun 1. Um er að ræða breytingar í samræmi við reikningsniðurstöður ársins 2002 þar sem almennt er gert ráð fyrir að útgjaldaheimild hækki hafi lögboðnar ríkistekjur til fjármögnunar á viðkomandi verkefni reynst vera vanáætlaðar í fjárlögum, en lækki hafi tekjurnar verið ofáætlaðar. Með öðrum orðum fær þá viðkomandi verkefni fjárheimild til ráðstöfunar í samræmi við endanlegt uppgjör á tekjunum sem það er fjármagnað með.

Sem dæmi um þetta má nefna markaðsgjald sem færist á tekjuhlið ríkissjóðs en er ráðstafað til Útflutningsráðs. Hins vegar er í ýmsum tilvikum gert ráð fyrir að fjárheimildir verkefna haldist óbreyttar frá því sem ákveðið hefur verið í fjárlögum og fjáraukalögum þótt tekjur hafi vikið frá áætlun. Þetta á t.d. við um rekstur stofnana þar sem umfang starfseminnar breytist lítið eða ekkert þótt tímabundnar sveiflur verði á mörkuðum tekjum af eftirlits- eða skráningargjöldum og öðru slíku.

Í 2. gr. frumvarpsins er sótt um heimildir til uppgjörs á ónotuðum fjárveitingum og umframgjöldum ráðuneyta sem falla niður og flytjast því ekki til næsta árs. Nánari skipting á því er sýnd í sundurliðun 2. Sú afgreiðsla er hefðbundin og hefur verið með svipuðum hætti um langt árabil. Meginviðmiðunin er sú að felld er niður staða fjárheimilda á þeim liðum þar sem útgjöld ráðast fremur af lögum en fjármálastjórn tiltekins stjórnsýsluaðila svo sem lögboðnar greiðslur velferðarkerfisins eða þá að útgjöld liðarins ráðast af hagrænum og kerfislægum þáttum, eins og t.d. lífeyrisskuldbindingar. Eins falla niður fjárheimildastöður verkefna sem er lokið.

Ég hef nú farið nokkrum orðum um lokafjárlagafrumvarp fyrir árið 2002 og hlutverk þess í tengslum við lögin um fjárreiður ríkisins. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður ríkissjóðs árið 2002 og vísa ég í því sambandi til greinargerðar í fjáraukalögum og ríkisreikningi ársins um meginatriðin í framvindu ríkisfjármálanna og helstu frávik á tekjum og gjöldum. Ég tel ekki ástæðu til að fara yfir einstök atriði í frumvarpinu sem varða uppgjör samkvæmt fyrirliggjandi reikningi en sný mér nú að frumvarpi til lokafjárlaga fyrir árið 2003.

Ég gat þess áðan að frumvarpið hefði verið prentað upp og gerðar á því ýmsar breytingar. Þessar breytingar eru í samræmi við skoðun vinnuhóps sem farið hefur yfir mismunandi framsetningu á stöðu liða í lokafjárlögum og reikningi. Í kjölfar breytinga sem gerðar voru á framsetningu fjárreiðna ríkissjóðs árið 1998 reyndist vera nokkrum erfiðleikum bundið að setja fram ríkisreikning og lokafjárlög samhliða með nýjum hætti. Ríkisreikningur hefur verið lagður fram með tölum um fluttar heimildastöður frá fyrra ári og breytingum fjárheimilda vegna ríkistekna áður en þær hafa verið endanlega ákvarðaðar með afgreiðslu á frumvarpi til lokafjárlaga. Á þessu tímabili, þ.e. frá 1998 til og með 2002, hefur endanlegt uppgjör lokafjárlaga í ýmsum tilvikum orðið annað en gert var ráð fyrir í reikningi og þannig myndast mismunur á fjárheimildum sem ákvarðaðar eru með lögunum og fjárheimildum sem birtar hafa verið áður í yfirlitum ríkisreiknings.

Með breytingum sem gerðar hafa verið á því frumvarpi sem ég mæli nú fyrir og gerðar verða í næsta ríkisreikningi er gert ráð fyrir að komið verði á samræmi á milli fluttrar stöðu fjárheimilda til ársins 2004 og upphafsstöðu höfuðstóls í efnahagsreikningi stofnana það ár. Uppbygging þessa frumvarps er að öðru leyti svipuð og verið hefur undanfarin ár og uppgjör og ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok byggist á sömu vinnureglum og áður og ég hef rakið fyrr í ræðu minni.

Í fylgiskjali 2 með frumvarpinu er birt yfirlit yfir talnagrundvöll frumvarpsins í heild. Yfirlitið sýnir uppruna allra fjárheimilda ársins 2003 fyrir ríkissjóð í heild og einstök viðfangsefni, þ.e. flutta stöðu fjárheimilda frá fyrra ári, fjárveitingar í fjárlögum og fjáraukalögum, millifærðar heimildir innan ársins og loks breytingar á fjárheimildum vegna frávika ríkistekna og sérstakar breytingar vegna samræmingar við ríkisreikning samkvæmt þessu frumvarpi til lokafjárlaga. Í yfirlitinu koma einnig fram gjaldfærð útgjöld í reikningi og staðan í árslok, þ.e. mismunur fjárheimildanna og reikningsfærðra útgjalda.

Heildarfjárheimildir ársins 2003 námu 284,5 milljörðum kr. en útgjöld samkvæmt reikningi urðu tæpir 280,4 milljarðar kr. Fjárheimildastaða í árslok var því jákvæð um 4,1 milljarð kr. nettó. Í frumvarpinu er að vanda lagt til að staða fjárheimilda í árslok verði annaðhvort felld niður, eins og kemur fram í 2. gr., eða flutt til næsta árs, eins og kemur fram í fylgiskjali 1.

Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á fjárheimildum stofnana og verkefna vegna frávika á ríkistekjum þeirra frá áætlun fjár- og fjáraukalaga samanber skiptingu í sundurliðun 1. Nánar tiltekið er hér leitað eftir heimild Alþingis fyrir breyttum fjárheimildum til ráðstöfunar á mörkuðum skatttekjum og öðrum rekstrartekjum stofnana og verkefna, ýmist í samræmi við það hverjar tekjurnar urðu samkvæmt uppgjöri eða hver fjárþörfin reyndist vera. Almennt er gert ráð fyrir að útgjaldaheimild hækki hafi lögboðnar ríkistekjur til fjármögnunar á viðkomandi verkefni reynst vera vanáætlaðar í fjárlögum, en lækki hafi tekjurnar verið ofáætlaðar. Hins vegar er gert ráð fyrir að fjárheimildir fjárlaga og fjáraukalaga haldist óbreyttar í tilvikum þar sem ekki er beint samband milli útgjalda stofnunar eða verkefnis og fjármögnunar á þann hátt að sveiflur í tekjum hafi beinlínis áhrif á kostnað.

Í 1. gr. er lagt til að fjárheimildir hækki um liðlega 8 milljarða kr. nettó samkvæmt þessu uppgjöri á fjármögnun verkefna með ríkistekjum. Sú fjárhæð innifelur einnig nokkrar leiðréttingar á útreikningi fjárheimilda vegna ríkisteknafrávika í lokafjárlögum áranna 2000, 2001 og 2002, eins og nánar er tilgreint í greinargerð frumvarpsins.

Í 2. gr. frumvarpsins er sótt um heimildir til uppgjörs á ónotuðum fjárveitingum og umframgjöldum ráðuneyta sem falla niður og flytjast því ekki til næsta árs. Nánari skipting á niðurfelldum stöðum fjárheimilda er sýnd í sundurliðun 2. Í 2. gr. er sótt um niðurfellingu á 5.746,5 millj. kr. útgjöldum umfram fjárheimildir á rekstrargrunni en á greiðslugrunni nemur niðurfellingin 2.109,7 millj. kr. Þessi mikli munur milli rekstrargrunns og greiðslugrunns stafar að stærstum hluta af niðurfellingu 5.393,5 millj. kr. gjöldum umfram áætlun á liðnum Afskriftir skattkrafna og 1.159,6 millj. kr. afgangi á liðnum Lífeyrisskuldbindingar umfram áætlanir, en í hvorugu tilvikinu hefur það áhrif á útgreiðslur.

Í þessu frumvarpi er ein lagagrein til viðbótar, 3. gr., ásamt nánari skiptingu í sundurliðun 3 sem ekki hefur verið í fyrri frumvörpum og ætti ekki að þurfa að vera í frumvörpum framtíðarinnar. Þar eru á ferðinni sérstakar einsskiptisbreytingar á fjárheimildum til að samræma stöðuna í frumvarpinu og ríkisreikningi.

Í fyrsta lagi er þar um að ræða ákvörðun ríkisreikningsnefndar um að uppsafnaður endurmatsreikningur vegna verð- og gengisbreytinga á peningalegum eignum, skammtímakröfum og skuldum fyrri ára yrði færður í rekstrarreikning frá og með ríkisreikningi 2002. Tilgangurinn með því var að færa reikningsskil stofnana nær því sem tíðkast hjá fyrirtækjum á almennum markaði. Á móti þurfa þá að koma samsvarandi breytingar á fjárheimildum viðkomandi stofnana.

Í öðru lagi er í greininni lagt til að fjárheimildum tveggja stofnana sem fluttar voru úr B- og C-hluta í A-hluta verði breytt til samræmis við stöðu höfuðstóls sem þær fluttu með sér yfir í A-hlutann.

Í þriðja lagi eru í þessari grein aðrar einsskiptisbreytingar af ýmsum toga sem miða að því að samræma stöður í lokafjárlögum á ríkisreikningi. Samtals nema þessar breytingar liðlega 960 millj. kr. á rekstrargrunni. Þær koma að stærstum hluta fram í fjármögnun sem viðskiptahreyfingar gagnvart ríkissjóði þar sem greiðsluheimildir breytast með þessu einungis um rúmlega 370 millj. kr.

Í fylgiskjali 1 með frumvarpinu er í samræmi við ákvæði 37. og 45. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, birt yfirlit yfir stöðu fjárheimilda í lok ársins 2003, ónotaðar fjárheimildir og umframgjöld sem færast til ársins 2004. Gert er ráð fyrir að í heildina flytjist um 9,8 milljarðar kr. jákvæð fjárheimildastaða milli áranna. Ráðstafanir á stöðu fjárheimilda í árslok byggja á viðmiðunarreglum þar sem einkum er litið til þess hvort útgjöldin eru bundin, t.d. af lagaákvæðum, eða eru frekar á ábyrgð tiltekins stjórnsýsluaðila. Í sumum tilvikum kann að vera álitamál hvort eðlilegt sé að fella niður stöður einstakra fjárlagaliða eða flytja þær til næsta árs og við gerð sérhvers lokafjárlagafrumvarps eru þessi tilvik metin sjálfstætt. Niðurstaðan ræðst m.a. af því hvort talið sé að viðhafa megi einhverja stýringu á útgjöldum liðarins þrátt fyrir að tilefni útgjaldanna séu þess eðlis að þau teljist lögbundin. Tilgangurinn með yfirfærslum á stöðunni milli ára er einkum sá að hvetja ráðuneyti og stofnanir til aðhalds og styrkari fjármálastjórnar til lengri tíma litið. Það er því áformað að leitast við að fækka þeim liðum þar sem staðan er felld niður að jafnaði, a.m.k. í þeim tilfellum þar sem mögulegt er talið að gera ráðstafanir til að bregðast við frávikum í útgjöldum. Gera verður ráð fyrir að þessi mál séu stöðugt til skoðunar.

Ég hef nú, herra forseti, farið yfir helstu þætti þessa frumvarps. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður ríkissjóðs fyrir árið 2003 og, eins og varðandi hið fyrra frumvarp, vísa ég í því sambandi til greinargerðar í fjáraukalögum á ríkisreikningi ársins um meginatriðin í framvindu ríkisfjármálanna og helstu frávik á tekjum og gjöldum. Þá hefur Ríkisendurskoðun einnig lagt fyrir Alþingi skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings fyrir bæði árin 2002 og 2003 og um þær skýrslur hefur verið fjallað í fjárlaganefnd. Ég tel því hvorki ástæðu til að fara frekar yfir einstök atriði þessa frumvarps né hins fyrra og legg til að báðum frumvörpunum verði vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins.



[14:59]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framlagningu frumvarps til lokafjárlaga fyrir árið 2003 vegna þess að það er á mjög góðum tíma, enekki fyrir frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2002 þar sem nokkuð langt er um liðið.

Þó er sá kostur við það að fá þetta í einu að menn geta borið fjárlögin saman. Ég rak augun í það að staða í árslok 2002 stemmdi ekki við ,,flutt frá fyrra ári“ í 2003. Eftir smásamanburð og svolítinn lestur sá ég að 1. og 3. gr. eru teknar með í stöðunni 2003 en ekki 2. gr.; niðurfelling fjárheimilda. Það skýrir þennan mun. Í framtíðinni væri skemmtilegra að hafa þetta samanburðarhæft þannig að menn sæju það hvort fyrir sig.

Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. fjármálaráðherra fyrir lokafjárlögin 2003. Það er mjög ánægjulegt að menn séu komnir með þennan aga á ríkisfjármálum að vera komnir með ríkisfjárlögin strax núna.



[15:00]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir þessar þakkir. En þannig er nú, eins og ég gat um, að lokafjárlagafrumvarp fyrir árið 2002 var lagt fram á fyrra þingi eins og ætlast er til. En það náðist ekki að afgreiða það. Í því efni er ekki við undirritaðan að sakast og reyndar engan mann því aðstæður voru þannig að það var ekki unnt að ljúka því máli.

Það er hins vegar rétt að núna með þessum tveimur frumvörpum, ef tekst að afgreiða þau fyrir vorið, er búið að koma þessum málum loksins á réttan kjöl miðað við það sem gert er ráð fyrir í lögunum um fjárreiður ríkisins frá 1997. Það hefur tekið þennan tíma vegna þess að menn hafa verið að fóta sig í nýju umhverfi. En næsta haust á að vera hægt að leggja fram lokafjárlagafrumvarp síðasta árs. Þannig verður það vonandi í framtíðinni að á haustin í kjölfar framlagningar fjárlagafrumvarps fyrir komandi ár, fjáraukalagafrumvarps fyrir yfirstandandi ár, komi jafnframt lokafjárlagafrumvarp sem geri upp árið þar á undan. Þá verðum við komin með þetta allt saman í réttan farveg hvað tímasetningar varðar og er ég að sjálfsögðu mjög ánægður með það.



[15:02]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það væri mjög ánægjulegt ef menn gætu séð í fyrsta lagi á einni síðu fjárlögin eins og þau eru lögð fram og síðan breytingar sem Alþingi gerir á þeim fjárlögum, sem sagt frumvarp til fjárlaga, breytinguna sem Alþingi gerir á fjárlögunum og fjárlögin sjálf þar í kjölfarið, síðan fjáraukalög og millifærslur og lokafjárlög og að þetta stemmi og menn geti séð á einu blaði hvernig til hefur tekist við gerð fjárlagafrumvarpsins sem er jú alltaf áætlun. Menn þurfa að hafa það alltaf í huga. Menn eru að spá. Þetta er spádómur. Auðvitað er það metnaður sérhvers fjármálaráðherra og ég veit að hæstv. fjármálaráðherra alveg sérstaklega hefur mikinn metnað í því að reyna að spá rétt. Mér finnst að menn ættu að geta séð á einu blaði hvernig til hefur tekist þegar lokafjárlög eru afgreidd.



[15:03]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum nú saman frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2002 og 2003. Því miður er ekki hægt að taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal að það sé rétt að óska hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega til hamingju með að við séum nú að ræða frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2003. Eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á sjálfur í andsvari hefur verið stefnt að því mjög lengi að lokafjárlög næstliðins árs séu lögð fram að hausti. Í raun hefðum við átt að ræða lokafjárlög fyrir árið 2003 í haust samhliða fjárlögum fyrir árið 2005 og fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2004. Þannig er óskastaðan. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra, eins og fram kom, stefnir að því að svo verði næsta haust.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er afar æskilegt að því skikki verði á komið og mér sýnist flest benda til þess að það eigi að vera hægt. Ég held því að sé rétt að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með það að nú er sannarlega möguleiki á því að þessi taktur verði tekinn upp í haust. Það eru meiri líkur á því nú heldur en nokkurn tímann áður — það held ég að mér sé óhætt að fullyrða — þrátt fyrir að í nokkur ár, skulum við hafa það, hafi nú gjarnan það verið orðað svo að vonandi verði hægt að gera þetta næsta haust eins og við stefnum enn einu sinni að að verði á hausti komanda.

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að við ræddum hér í vor, nánar tiltekið 15. apríl, lokafjárlagafrumvarp fyrir árið 2002. Þar með var lokið 1. umr. um frumvarpið og það var sent til fjárlaganefndar en kom aldrei þaðan út af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekki að lengja umræðuna með að fara yfir. Það var sem sagt þá, fimmta árið í röð frá því ný lög um fjárreiður ríkisins tóku gildi, sem verið var að fjalla um lokafjárlög og þau voru þá á svipuðu róli og við erum núna með lokafjárlög fyrir árið 2003. Ég held að rétt sé að taka undir það að nauðsynlegt er að ræða þessi lokafjárlagafrumvörp saman og eins það að lokafjárlög 2002 biðu í raun eftir lokafjárlögum fyrir 2003. Ég vísa til þess sem hæstv. fjármálaráðherra sagði m.a. um þá vinnu sem fram hefur farið og kemur fram m.a. í 3. gr. lokafjárlaga fyrir árið 2003 sem væntanlega þarf ekki að endurtaka.

Við eigum sem sagt von á þessu næsta haust og ég trúi ekki öðru en fjárlaganefnd nái að ljúka störfum varðandi það að fara yfir þessi frumvörp til lokafjárlaga bara fyrir árin 2002 og 2003 fyrir vorið þannig að hægt verði á hausti komanda að fjalla hér um lokafjárlög fyrir árið 2004. Ríkisreikningur hefur verið í nokkuð góðum takti. Honum hefur verið dreift á Alþingi nokkurn veginn á réttum tíma þó ætíð megi deila um hvort hugsanlega megi færa það örlítið framar þannig að meira svigrúm skapist til þess að ganga frá lokafjárlögum því strembið er að ljúka þeim fyrr en reikningurinn liggur fyrir.

Ástæða er til þess, herra forseti, að vekja athygli á orðalagi í 45. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar.“

Það er það sem við erum að fjalla um núna. Við erum raunverulega að staðfesta ríkisreikninginn þá bæði fyrir árið 2002 og 2003.

Það er hins vegar spurning um þetta orðalag og það er kannski fleira í þessum annars ágætu lögum sem við þyrftum að gefa okkur tíma til þess hugsanlega að endurskoða og velta fyrir okkur vegna þess að mér sýnist ljóst að ríkisreikninginn megi leggja fram fyrr á Alþingi en lokafjárlögin þannig að það þurfi ekki endilega að gerast samhliða, enda hefur það aldrei gerst frá því þessi lög komu til. Það er spurning hvort þetta orðalag megi ekki lagfæra örlítið þannig að menn séu ekki með það svona stíft niður neglt að frumvarp til lokafjárlaga skuli fylgja ríkisreikningnum. Þannig hefur það ekki verið og ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að þannig sé það. Hins vegar er augljóst að við þurfum að staðfesta ríkisreikninginn með því að samþykkja lokafjárlögin.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra þá hefur Ríkisendurskoðun lagt fram skýrslur um endurskoðun ríkisreikninga beggja þessara ára. Það er mikið efni í þeim skýrslum falið eins og í ríkisreikningunum og frumvarpinu til lokafjárlaga. En meginhluti þess alls er að sjálfsögðu þess eðlis að farið verður yfir það nákvæmlega í fjárlaganefnd og hlutir skoðaðir og af eðli máls leiðir að um þau mál er ekki hægt að fjalla hér í miklum smáatriðum vegna þess að hér er auðvitað um sögu að ræða, þ.e. þetta er allt saman liðið og þessu verður ekki breytt. En í þessu efni eins og svo mörgu öðru má oft af sögunni ýmislegt læra.

Hv. þm. Pétur Blöndal rifjaði það upp fyrir okkur að fjárlögin eru að sjálfsögðu áætlun eða spádómur um framtíðina. Það er eðlileg krafa af hans hálfu að frumvarpi til lokafjárlaga fylgi tafla eða yfirlit yfir hvernig til hefur tekist og hvar ákvarðanir hafa verið teknar í ferlinu. Þetta höfum við nú fengið og fáum væntanlega í fjárlaganefndinni þannig að hugsanlegt er að það megi líka fylgja nefndaráliti þegar það kemur til þingsins í 2. umr. Það væri ekkert óeðlilegt við það þannig að hægt væri að fara yfir þetta. En það er einmitt þessi hluti sem er eðlilegt að við horfum til til þess að læra af, til að geta bætt hugsanlega áætlunargerðina. Við höfum nokkuð oft í umræðum um fjárlög hvers árs bent einmitt á að verulega megi taka til varðandi margt í áætlunargerðinni. Þar blasir fyrst við, og við sjáum það þegar við skoðum þessa pappíra, hvort sem það er ríkisreikningurinn eða frumvarpið til lokafjárlaga, að ansi mikið er um margs konar færslur fram og til baka. Það hlýtur að vera eðlilegt að við veltum fyrir okkur því hvort þarna megi ekki vanda betur til þannig að fækka megi eitthvað, mér liggur við að segja og segi hreinlega að það megi fækka blaðsíðunum því það er ekki eins og þetta sé á einstaka liðum heldur er fer fjöldi blaðsíðna í þessum pappírum okkar í þetta.

Ef við horfum til ársins 2003 sjáum við t.d. að frumvarpinu fylgir yfirlit yfir flutning á fjárheimildum á milli ára, þ.e. bæði skuldum og inneignum. Flutningur milli ára er tæplega 36 milljarðar kr. þegar lagt er saman, þ.e. þegar lagt er saman bæði inn og út, þ.e. þegar við erum að tala um bæði það sem flutt er á milli ára vegna þess að menn hafa farið fram yfir eða vegna inneigna sem menn hafa átt.

Hins vegar hefðu auðvitað ýmsar af þessum upplýsingum átt að liggja fyrir og það hefði hugsanlega mátt vera nær raunveruleikanum en þarna er. Um það má alltaf deila en ég held við hljótum að horfa til þeirra liða sem þarna eru stærstir þegar kemur að fjárlögum næsta árs. Þarna eru stærstir liðir t.d. lífeyrisskuldbindingar sem við höfum nú tekið hér nokkrum sinnum umræðu um að eigi að stærstum hluta til að vera fyrirsjáanlegir og það eigi að vera hægt að áætla fyrir þeim eins og flestum öðrum liðum í fjárlögum. Það kemur hins vegar fyrir einstaka sinnum að ekki er allt séð fyrir.

Gleggsta dæmið um þetta eru líklega kjarasamningar grunnskólakennara, en vegna samnings sem gerður var á milli ríkisins og sveitarfélaganna eru raunverulega teknar ákvarðanir um það í kjarasamningum grunnskólakennara og launanefndar sveitarfélaga hversu miklar lífeyrisskuldbindingar fylgja þeim pakka á ríkissjóð. Því er erfitt út af fyrir sig fyrir ríkissjóð að sjá það fyrir. En oft og tíðum eru nú þessir samningar gerðir á þeim árstíma að það ætti nú að vera hægt að koma þeim að, eigum við að segja, fyrr en verið hefur.

Afskriftir skattkrafna eru líka árlegur liður og eitthvað af því ætti að vera fyrir séð eða að það mætti taka upp önnur vinnubrögð varðandi skattkröfurnar. Þarna virðast ár eftir ár vera settar inn tölur sem nær allir ef ekki allir vita að eru víðs fjarri raunveruleikanum.

Árið 2003 voru umframgjöld tæplega 13 milljarðar kr. en afgangsheimildir tæplega 23 milljarðar kr. Þegar þetta er saman lagt þá eru þetta um 36 milljarðar kr. Þetta er auðvitað kannski í hnotskurn vandinn sem við sjáum líka þegar við veltum fyrir okkur því hvernig haldið er utan um ríkisfjármálin. Þessar tölur segja okkur að ekki er tekið á fjárhagsvanda fjölmargra stofnana. Þetta er keimlík umræða því sem við höfum verið með hér við fjárlagagerðina, þ.e. vandi þessara stofnana er óleystur ár eftir ár.

Hins vegar viljum við meina að þetta sé ekki í anda fjárreiðulaganna þar sem beinlínis er gert ráð fyrir því að þessi flutningur tengist flutningi einstakra verkefna milli ára en ekki hallarekstri sem byggist oft og tíðum á röngum grunni. Kannski er meginmálið í þessu að það þarf að skoða stofnanir sem ár eftir ár telja sig sinna lögbundnum verkefnum, telja sig leggja sig fram við að viðhalda sparnaði og sýna það í verki með ýmsum aðgerðum. En þrátt fyrir það eru stofnanir reknar með halla ár eftir ár. Svo kemur að því að þær eru skoðaðar svona ein og ein og þá yfirleitt er þetta leiðrétt. Að bjóða stofnunum upp á slíkar vinnuaðstæður er ekki gott og ekki til fyrirmyndar af þeirri einföldu ástæðu að stofnanirnar eiga að búa við eðlilegt fjárhagslegt umhverfi. Það er ekki hægt að segja að þær geri þegar svona er að verki staðið.

Við viljum meina að andi fjárreiðulaganna segi að á þessum vanda eigi að taka í fjárlögum og það á að upplýsa þar ástæður hallarekstrarins þannig að hægt sé að grípa inn í. Þar verður náttúrlega t.d. að skoða rekstrargrunninn sérstaklega og meta hvort hann sé vanáætlaður.

Við megum heldur ekki gleyma hinni hliðinni, þ.e. uppsöfnuðum fjárheimildum. Það eru nokkur dæmi um að stofnanir hafi skilað afgangi ár eftir ár og þar virðist vera sjálfvirk færsla á milli ára. Hæstv. ráðherra kom reyndar inn á það í ræðu sinni, og ég tek undir það, að það eigi að skoða sjálfstætt hverju sinni. Í þeim tilfellum á það ekki að ganga sjálfvirkt heldur hlýtur að þurfa að grandskoða það. Það má hins vegar ekki vera svo stíft að ekkert megi færa á milli ára því að vitanlega á að verðlauna stofnanir fyrir það þegar þær standa sig vel. Verkefnin líka staðið þannig að eðlilegt sé að færa afganginn á milli ára. Ég ítreka að þetta þarf að skoða vandlega og ég tel ekki ganga, eins og virðist blasa við, að ákveðnar stofnanir séu aðþrengdar á meðan aðrar virðast hafa rúmar fjárheimildir ár eftir ár.

Herra forseti. Hér er ekki hægt að fara í nákvæmar efnislegar umræður vegna þess að eðli málsins er þannig. Þó eru ýmsar athugasemdir úr skýrslu Ríkisendurskoðunar sem rétt er að vekja örlitla athygli á. Ég ætla að stikla á stóru því að tíminn líður hratt og ekki mikið eftir af ræðutíma mínum. Í athugasemdum Ríkisendurskoðunar varðandi endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2003 er m.a. á bls. 61 fjallað um fjárhagslega stöðu nokkurra háskólastofnana. Þar koma fram nokkuð sláandi tölur sem hljóta að vekja athygli og verða sérstaklega skoðaðar í fjárlaganefnd, ekki síst þegar við getum tengt þetta saman við ríkisreikning og frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2004 við undirbúning fjárlaga, þ.e. í fjárlagavinnunni fyrir næsta ár. En hér segir, með leyfi forseta:

„Fjárhagsstaða nokkurra háskólastofnana var slæm í árslok 2003. Tekjuhalli Háskólans á Akureyri nam 134 millj. kr. á árinu og var eigið fé skólans neikvætt um 127 millj. kr. í árslok. Tekjuhalli af rekstri Tækniháskóla Íslands nam 65 millj. kr. og var eigið fé neikvætt um 127 millj. kr. í árslok. Tekjuhalli af rekstri Raunvísindastofnunar Háskólans nam 21 millj. kr. og var eigið fé neikvætt um 25 millj. kr. í árslok.“

Því miður, herra forseti, held ég að lítil breyting hafi á orðið varðandi flestar eða a.m.k. tvær þessara stofnana. Hins vegar vitum við að Tækniháskóli Íslands hefur nú verið afhentur öðrum aðilum. Við gerum ráð fyrir því að sá hali sem þar hefur myndast verði klipptur af, það hefur komið fram í máli hæstv. menntamálaráðherra. Við munum væntanlega sjá það framkvæmt í fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár.

Í sömu skýrslu er einnig rætt um framhaldsskólana og þar segir, með leyfi forseta:

„Fjárhagsstaða margra framhaldsskóla var slæm í árslok 2003. Neikvætt eigið fé Menntaskólans á Akureyri nam 39 millj. kr., Menntaskólans í Kópavogi 133 millj. kr., Fjölbrautaskólans í Breiðholti 74 millj. kr., Fjölbrautaskólans í Ármúla 69 millj. kr., Flensborgarskóla 56 millj. kr.“ — Þannig má áfram telja en ég nefni hér aðeins helstu tölurnar. — „Verkmenntaskólans á Akureyri 97 millj. kr. … Menntaskólans að Laugarvatni 34 millj. kr.“

Þetta, herra forseti, nefni ég til að rökstyðja það sem ég nefndi áðan með að því miður virtust ákveðnar stofnanir ár eftir ár búa við sömu þrengingar. Hér nefni ég bæði háskólana og framhaldsskólana og umræðan um þessa skóla er öllum kunn. Hún hefur verið árleg og því miður virðist ekki mikið gerast í því máli, þrátt fyrir að ýmsar nefndir séu settar niður til að skoða grunn þessara stofnana og reyni að finna leiðir til úrbóta.

Frá Ríkisendurskoðun kemur einnig mjög athyglisverð athugasemd varðandi utanríkisráðuneytið, réttara sagt um sendiráðin sem hafa nú hafa öll verið sett undir einn fjárlagalið sem heitir Sendiráð Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun hefur komið þeim sjónarmiðum á framfæri við ráðuneytið að framangreind breyting dragi úr gegnsæi upplýsinga og að líklegt sé að ábyrgð forstöðumanna minnki.“

Herra forseti. Þessi athugasemd er býsna merkileg í ljósi þess að yfirlýst stefna stjórnvalda er sú að gegnsæið eigi að vera sem allra mest og ábyrgð forstöðumannanna eigi að aukast. En þarna er þveröfug niðurstaða og eðlilegt að við veltum því fyrir okkur í þeirri vinnu sem fram fer í fjárlaganefnd.

Það vakti sérstaka athygli mína sem fram kemur á bls. 68, þar sem fjallað er um Suðurlandsskóga, nokkuð sem ég hélt að væri löngu liðið. Við þekkjum að það var nokkuð stundað á árum áður, vegna þess að þá voru þrengingar sumra ríkisstofnana með þeim hætti að ein aðferð þeirra til að fjármagna halla sinn eða hluta rekstrarins var yfirdráttur á bankareikningi. Ég hélt, herra forseti, að það væri liðin tíð. Ríkisendurskoðun bendir hins vegar á að því miður hafi þetta gerst hjá Suðurlandsskógum á árinu 2003. Það er nokkuð sem við hljótum að velta fyrir okkur.

Það vakti ekki síður athygli mína sem sagt er á bls. 69 varðandi Hólaskóla. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við endurskoðun á ársreikningi Hólaskóla gerði Ríkisendurskoðun fyrirvara í áritun vegna þess að í bókhaldi skólans er færð inneign vegna virðisaukaskatts að fjárhæð liðlega 14 millj. kr. en um er að ræða rangfærslur frá árunum 2002 og fyrr og ítrekar Ríkisendurskoðun að leysa þarf upp reikninginn. Þá hafa ríkisskattstjóri eða skólinn ekkert aðhafst vegna gjaldabreytinga að fjárhæð 13,7 millj. kr. sem Ríkisskattstjóraembættið boðaði á árinu 2001 á uppgjöri skólans á virðisaukaskatti vegna áranna 1998 og 1999. Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að niðurstaða fáist í þetta mál sem fyrst. Einnig er ekki ennþá lokið afstemmingu nokkurra af eldri viðskiptastöðum og sjóðstöðu frá fyrri tíma. Unnið er að þessu hjá skólanum.“

Herra forseti. Þarna er um að ræða skuldbindingar frá árunum 1998 og 1999, nú þegar fjallað er um árið 2003 sem við gerum að vísu ekki fyrr en árið 2005. Þetta bendir okkur hins vegar á að það bíður okkar greinilega töluverð vinna í fjárlaganefnd við að fara yfir þau frumvörp sem hér eru til umræðu, frumvörp til lokafjárlaga fyrir árin 2002 og 2003.



[15:23]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það voru athyglisverðar upplýsingar sem fram komu hjá hv. þingmanni um Suðurlandsskóga, sem hafa tekið lán á yfirdrætti.

Nú segir í 40. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr.:

„Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Þetta er sem sagt óheimilt samkvæmt stjórnarskrá, ekki bara lögum. Samkvæmt stjórnarskrá er óheimilt að skuldbinda ríkissjóð með því að taka lán á yfirdrætti eða með öðrum hætti. Ég vildi gjarnan heyra frá hv. þingmanni hvort þetta sé algengt.



[15:24]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki í aðstöðu til að fullyrða um eitt eða neitt í þeim efnum en ég nefndi þetta vegna þess að það vakti athygli mína. Ég trúi ekki öðru en að þetta sé einsdæmi og að þar hljóti að vera einhver skýring á. Eins og hv. þingmaður bendir á er það brot á öllum reglum, getur maður sagt, að hlutirnir séu framkvæmdir með þessum hætti.

Ég tel sjálfgefið að við munum í fjárlaganefnd óska skýringa á þessu. Ég trúi ekki öðru, eins og ég sagði áðan, en að þetta sé einsdæmi og á þessu sé einhver skýring sem réttlæti þetta á einhvern hátt. En eins og ég nefndi í ræðu minni þá hélt ég, og býst við að hv. þingmaður hafi líka staðið í þeirri trú, að þetta væri ekki lengur til staðar. En fyrir nokkrum árum var þetta því miður algengara en það hefði átt að vera. Þetta er auðvitað brot á öllu og þannig á ekki að reka ríkisstofnanir. Fyrir slíku þarf auðvitað heimildir.

Þetta er kannski hluti af því sem við höfum oft bent á, að það þarf að auka virðingu allra fyrir fjárlögum. En til þess að við náum því þarf áætlunargerðin að vera þannig að menn treysti henni og að áætlunin sé í samræmi við það sem stofnunum er ætlað að gera.

En ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er alvarlegt mál. Það var þess vegna sem ég vakti athygli á þessu. Þetta vakti sérstaka athygli mína af því að ég hafði staðið í þeirri trú að þetta væri löngu liðin tíð.



[15:25]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að meira hefði verið um þetta í eina tíð og það má vel vera. Stundum heyrir maður fréttir af því að sveitarfélög, verktakar og aðrir bjóðist til að lána ríkissjóði, Vegagerðinni og öðrum, til að fara út í framkvæmdir sem þá langar til að fara í og skuldbinda þar með ríkissjóð. Ég vil að menn taki mjög fast á slíkum hugmyndum vegna þess að þeim fylgir ekkert annað en aukið agaleysi. Það kemur í veg fyrir að menn fylgi þeim aga sem fjárlögin eiga að veita.



[15:26]
Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum nú um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2002 og eins fyrir árið 2003. Hæstv. fjármálaráðherra gerði ágætis grein fyrir því í framsögu sinni af hverju þau frumvörp eru bæði til umræðu á sama tíma. Eins fór hv. þm. Einar Már Sigurðarson yfir það í ræðu sinni og sé ég ekki ástæðu til að dvelja við það.

Ég var ekki kominn til þings þegar fjárlagafrumvörp fyrir árin 2002 og 2003 voru samþykkt. Ég er því ekki gagnkunnugur þeim umræðum sem fram fóru um þau í fjárlaganefnd á þeim tíma. Ég verð þó að segja að við það að lesa í gegnum frumvörp til lokafjárlaga, bæði fyrir árið 2002 og eins fyrir árið 2003, er ég nú ekki frá því að ég hafi rekist á nokkra kunningja frá því í fjárlagagerð fyrir árin 2004 og 2005, sem ég vann að sem fulltrúi í fjárlaganefnd.

Við það að skoða frumvörpin, eins og þau liggja fyrir, virðist mér sem vinnubrögð við gerð fjárlaga hafi lítið breyst frá því á árinu 2002 og 2003 til dagsins í dag. Það er rétt, eins og fram kom í máli hv. þm. Péturs Blöndals, að fjárlög eru alltaf áætlun, eins nákvæm áætlun og menn telja sig geta gert á þeim tíma er hún er lögð fram. Ég hef verið talsmaður þess í fjárlaganefnd að við skoðuðum möguleikann á að breyta talsvert vinnubrögðunum við að gera þá áætlun sem fjárlögin eru.

Ég hef velt upp ýmsum spurningum og hugmyndum um hvort ekki væri hægt að beita aðferðum við áætlunargerð fjárlaga í ætt við það sem stærri fyrirtæki og jafnvel sveitarfélög í landinu eru farin að temja sér. Þar reyna menn að læra af því hve vel tekst að áætla þann raunveruleika sem síðan verður en halda ekki inni nánast innbyggðum skekkjum í áætlunum sínum, sem mér virðist því miður oft á tíðum bera við í fjárlagafrumvörpum frá einu ári til annars. En menn hljóta að reyna, við áætlunargerð eins og fjárlagagerðina, að áætla sem réttast á alla fjárlagaliði og fara þar sem næst raunveruleikanum.

Ég veit að forstöðumenn ríkisstofnana reyna árlega að leggja fram eins vandaðar áætlanir og þeir treysta sér til að gera og byggja oft og tíðum á þeim grunni sem þeir hafa frá árinu áður og reynslu sinni frá árunum þar á undan. Ég get alveg skilið forstöðumennina þegar þeir sjá kannski ár eftir ár tölur í fjárlagafrumvörpunum sem eru kannski ekki í miklum dúr við það sem þeir hafa lagt fram byggt á reynslu fyrri ára, að þá hljóta vinnubrögð við áætlunargerð að slakna frá því sem áður var og menn fara að slugsa meira við áætlunargerðina en annars hefði verið.

Ef við skoðum aðeins hvernig til hefur tekist við að áætla á einstaka liði í fjárlögum, bæði árið 2002 og 2003, af því að við ræðum þessi ár saman, eru í báðum frumvörpunum töflur um hvernig staða fjárheimilda í árslok skiptist annars vegar í afgangsheimildir og hins vegar í umframgjöld eftir ráðuneytum. Ef vel tekst til við áætlanir ættu afgangsheimildir ekki að vera svo afskaplega miklar og umframgjöldin heldur ekki svo afskaplega mikil frá þeirri áætlun sem menn leggja fram. En á árinu 2002 voru samtals afgangsheimildir allra ráðuneyta tæpir 23 milljarðar kr. Þá veltir maður fyrir sér: Hvernig gekk að áætla gjöldin? Samtals umframgjöld á sama ári voru 33 milljarðar kr. Staðan í árslok var því neikvæð miðað við það sem áætlað hafði verið tæplega 10,5 milljarðar kr.

Þetta gerðist á árinu 2002. Maður hlýtur því að ætla að menn reyni að læra af þessu og skoði hvað var áætlað vitlaust og hvernig menn geti breytt vinnubrögðum sínum. En sama tafla fyrir árið 2003, og það er að mörgu leyti gott að ræða þetta saman til að geta einmitt farið í þennan samanburð, segir okkur að samtals afgangsheimildir það ár eru 32 milljarðar kr., voru 23 árið áður. Umframgjöldin eru tæplega 28 milljarðar kr. en höfðu verið 33 milljarðar kr. Þarna er því alveg auðséð þegar við berum þetta saman að áætlunargerðin breytist ekki mikið frá ári til árs, menn eru ekki að skila sér fram frá einu ári til annars.

Ef maður skoðar einstaka liði og einstök ráðuneyti í þessum tveimur töflum, nánast af handahófi, voru umframgjöld á árinu 2002 hjá menntamálaráðuneytinu 2.929 millj. kr., tæpir 3 milljarðar kr. Árið eftir eru umframgjöldin hjá menntamálaráðuneytinu 2.929 millj. kr. Ef ég ætla að vera nákvæmur var það fyrra árið 2.929,1 en 2.929,5 árið eftir. Umframgjöldin hjá ráðuneytinu árin 2002 og 2003 eru því nákvæmlega sama talan.

Ef við tökum viðskiptaráðuneytið sem dæmi voru á árinu 2002 afgangsheimildir þar 181,9 millj. Árið 2003 187,5 millj. Ef við skoðum umframgjöld í sama ráðuneyti á árinu 2002 voru þau 39,9 millj. en 38,9 millj. árið eftir. Þetta segir manni að það gæti verið að verið sé að nota sömu forsendur nánast frá ári til árs, jafnvel þó menn nái ekki að áætla nægilega nákvæmt miðað við þann raunveruleika sem við blasir.

Eitt af því sem við höfum gagnrýnt í fjárlagaumræðunni er sú staðreynd að hvort sem stofnanir hafa verið með halla ár eftir ár eða afgangsheimildir ár eftir ár, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór yfir í ræðu sinni, virðist vera afskaplega seint við brugðið. Afgangsheimildir safnast upp frá ári til árs og halli í öðrum stofnunum einnig án þess að verulega sé í það rýnt og reynt að bregðast við. Í báðum frumvörpunum til lokafjárlaga segir um þetta efni, undir kaflanum Ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok, með leyfi forseta:

„Tilgangurinn með yfirfærslum á stöðu heimilda milli ára er einkum að hvetja ráðuneyti og stofnanir til aðhalds og styrkari fjármálastjórnar til lengri tíma litið. Gerist það með því móti að útgjöld umfram fjárveitingar eru ekki hvort tveggja í senn heimiluð og felld niður við áramót,“ — eins og áður tíðkaðist — „heldur koma umframgjöld almennt til lækkunar á fjárveitingum næsta árs. Hafi t.d. meiru verið ráðstafað til rekstrarumsvifa stofnunar en ákveðið var með fjárlögum losnar stofnunin ekki undan þeirri fjárhagsstöðu við áramót, heldur verður hún að vinna hana upp af framlögum komandi ára. Á sama hátt er afgangur á framlögum vegna tafa á framkvæmd verkefna eða hagræðingar í rekstri ekki felldur niður í árslok, heldur nýtist sú fjárheimild til verkefna stofnunar árið eftir.“

Þarna segir með mjög skýrum orðum að stofnanir sem hafa rekið sig með halla draga þann halla með sér yfir áramót og ekkert óeðlilegt við að það gerist. Ég skil alveg að menn losni ekki undan halla á rekstri bara við að það komi áramót. En þegar þetta gerist ár eftir ár og jafnvel svipaðar tölur í halla á hverju ári hljóta menn að fara að skoða rekstur stofnananna og velta fyrir sér: Er reksturinn og umfang hans of mikill miðað við þær fjárveitingar sem viðkomandi stofnun fær? Ef svo er, er reksturinn sá sem við viljum sjá eða getum við skorið hann niður þannig að fjárveitingar dugi fyrir þeim rekstri sem við viljum sjá? Ef niðurstaðan er sú að reksturinn er eins og hann á að vera samkvæmt lögum og eins og við viljum sjá hann verða menn að skoða það með jákvæðu hugarfari hvort ekki þurfi að bæta við fjárheimildum til að halda uppi þeim rekstri sem við viljum sjá.

Ég ætla aðeins að bera saman úr fylgiskjali 2 í báðum frumvörpunum. Þar er farið yfir stofnanir og fjárlagaliði og hver staða þeirra var í upphafi árs 2002 og hver hún var í lok árs 2002. Og af því að við erum með bæði lokafjárlögin hér erum við með upphafsstöðu árið 2003 og lokastöðu árið 2003 þá blasir við að hallinn flyst nánast óbreyttur milli ára.

Ég tók nokkur fjárlaganúmer, nokkra liði, til að bera saman og byrjaði í æðstu stjórninni og skoðaði embætti forseta Íslands. Í upphafi árs 2002 var halli á því embætti 5,1 millj. Hann hafði aukist í 19,5 millj. í lok ársins 2002 og í lok árs 2003 hafði hann aukist í 37 millj. kr. Fjárveitingar beggja ára voru mjög keimlíkar og ekki brugðist við á neinn hátt við hallarekstrinum, heldur heldur hann áfram og síðan geta menn skoðað hvernig þetta þróast á árinu 2004.

Ef við skoðum framhaldsskólana og tökum nánast af handahófi Menntaskólann á Akureyri, þá var hann í halla upp á 54 millj. í upphafi árs 2002. Hann var kominn í halla upp á 60 millj. í lok árs sem var þá upphafsstaða næsta árs og í lok árs 2003 í halla upp á 104 millj. kr. Hallinn eykst því um u.þ.b. 50 millj. á hverju ári og lítið við því brugðist.

Fjárveitingar ársins 2002 voru 274 millj. í almennan rekstur þessara skóla, en á árinu 2003 var eingöngu áætlað 267 millj. í almennan rekstur, eða talsvert lægri upphæð þrátt fyrir hinn mikla hallarekstur.

Menntaskólinn á Laugarvatni var með upphafsstöðu upp á 40 millj. í mínus í almennan rekstur. Staðan í lok árs 2002 var 60 millj. í mínus og nánast sama tala í árslok 2003. Sá skóli fékk mjög svipaðar fjárveitingar bæði árin, munaði 2 millj. kr. Þannig er hægt að lesa sig í gegnum framhaldsskólana sem við höfum oft og iðulega talað um að við verðum að fara að velta því fyrir okkur með hvaða hætti við áætlum fjármuni til framhaldsskóla. Einnig er hægt að fara yfir heilbrigðisstofnanirnar í landinu sem er annar pakki sem við höfum oft talað um úr þessum ræðustól. Það er mjög svipað upp á teningnum þar. Af því að málið er mér skylt í mínu kjördæmi skoðaði ég þrjár heilbrigðisstofnanir í Suðurkjördæmi.

Heilbrigðisstofnunin í Vestmannaeyjum byrjaði árið 2002 með 8 millj. í halla. Í lok árs 2002 var hún komin með 50 millj. í halla og í lok árs 2003 62 millj.

Heilbrigðisstofnunin á Selfossi byrjar aftur á móti í plús. Hún á inni og byrjar í plús á árinu 2002 upp á tæpar 11 millj. Hún er komin í halla í lok árs upp á 2,6 millj. og í lok árs 2003 halla upp á 25 millj.

Við sjáum því með því að bera saman þessar tölur að það er ekki verið að bregðast við annaðhvort með því að breyta umfangi rekstrar til að rekstur sé meira í dúr við þær fjárveitingar sem fyrir hendi eru eða að breyta fjárveitingum til að sá rekstur sem menn vilja sjá geti farið fram. Þegar þetta gerist ár eftir ár hlýtur maður að spyrja hvort við verðum ekki með einhverju móti að fara að taka okkur tak og segja: Við munum og verðum að skoða ákveðnar stofnanir sem þannig háttar til um eftir ákveðinn tíma, ekki að þetta geti gengið í tvö til fimm ár og síðan veit enginn neitt og enginn ræður við neitt þegar upp er staðið.

Þegar ég rúllaði í gegnum þetta þá skoðaði ég til gamans liði sem maður áttar sig kannski ekki alveg á. Einn af þeim liðum er undir landbúnaðarráðuneyti og heitir Niðurgreiðslur á ull. Hvernig skyldi sá fjárlagaliður líta út frá ári til árs? Maður hefði kannski haldið, miðað við að við vitum hve margar kindur eru í landinu og um það bil hver ullin á þeim er, að auðvelt væri að áætla í þennan lið. En niðurgreiðslur á ull í upphafi árs 2002 var í mínus upp á 61,4 millj. kr. Í árslok hafði hallinn aukist í 65 millj., sem var þá upphafsstaða ársins 2003 og í lok árs 2003 var liðurinn neikvæður upp á 70 millj. kr.

Hvað er að fara í þennan lið? Hver er skekkjan? Á árinu 2002 voru fjárveitingar til niðurgreiðslu á ull tæpar 247 millj., 255 millj. árið 2003. Þarna fyndist mér, af því þetta er tiltölulega einfalt dæmi og ekki ýkja flókinn rekstur á bak við áætlanirnar, heldur tiltölulega einfalt að áætla, að menn ættu taka sér tak og velta fyrir sér af hverju þetta sé svona og spyrja: Erum við að áætla of mikið? Erum við að áætla of lítið, eða hvernig stendur liðurinn? Í stað þess að láta liðinn danka frá ári til árs þannig að hallinn eykst stöðugt á fjárlaganúmer eða fjárlagalið.

Annað sem ég hef rætt við fjárlagagerð áranna 2004 og 2005 eru hinar endalausu afskriftir skattkrafna og hef oft tekið umræðu um það hvort þetta væru raunverulegar skattkröfur sem verið væri að afskrifa af því enginn vildi borga þær, en það er ekki svo, heldur áætla þeir áætlanir skattstjóra á gjaldendur sem ekki hafa skilað t.d. virðisaukaskattsskýrslum eða skattskýrslum. Við sem höfum aðstoðað fólk við að telja fram og annað þvíumlíkt vitum að áætlanirnar eru oft út úr öllu korti og í engum takt við raunveruleikann.

Hvernig áætla menn afskriftirnar á skattkröfum? Gert var ráð fyrir að afskrifa þyrfti 4 milljarða af skattkröfum árið 2002, en reyndin varð sú að afskrifaðar skattkröfur eru 9,8 milljarðar. Það munar tæplega 6 milljörðum kr. á þessum eina lið. Þá hefði maður haldið miðað við það sem ég sagði áðan að menn ætluðu sér að læra af þessu, annaðhvort með því að taka á áætlununum og segja: „Við áætlum ekki með þessum hætti. Þetta er rangt. Við verðum að breyta vinnubrögðum okkar.“ Eða menn settu í fjárlög næsta árs: „Jæja, við gerum ráð fyrir að við þurfum að afskrifa einhverjar 8–10 milljarða kr. af hinum vitlausu áætlunum sem settar eru fram.“ En hvað gerist? Afskriftir skattkrafna í fjárlögum ársins 2003 eru 4 milljarðar kr. Nákvæmlega sama tala og árið áður. Hver er raunin samkvæmt frumvarpinu til lokafjárlaga? Jú, reikningurinn sýnir 9.394 millj., nánast sömu tölu og árið áður. Mismunur upp á 5,4 milljarða kr. Aftur erum við að gera þetta. Ég man eftir því að ég tók einmitt þessa sömu umræðu við fjárlög ársins 2004 .

Því lýsi ég eftir því, herra forseti, að menn í fjárlaganefnd í fullri samvinnu og sátt við embættismenn fjármálaráðuneytisins og hæstv. fjármálaráðherra reyni að fara í dæmi sem eru alveg hrópandi og liggja skýr fyrir og velti fyrir sér hvort þar sé verið að áætla með einhverjum vitrænum hætti eða ekki.

Það er ekki við því að búast og verður aldrei við því að búast að þeir sem eiga að starfa eftir fjárlögum, sem eru lög eins og öll önnur lög í landinu, ef þau eru ekki eins nákvæm og rétt eins og hægt er á hverjum tíma er ekki við því að búast að menn virði þau, enda sjáum við þegar við skoðum umframútgjöld að menn virða ekki fjárlögin sem við setjum á hverju ári og kannski skiljanlegt í ljósi þess sem ég hef farið yfir og sagt hér.

Við í fjárlaganefnd eigum að sjálfsögðu eftir að taka þessi tvö frumvörp til umfjöllunar. Hér er eingöngu 1. umr. Ég verð að segja að ég hlakka til að grafa ofan í lokafjárlögin því þar er mikið af skemmtilegu efni til að skoða.



[15:46]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hvort ég get tekið undir það síðasta sem hv. þingmaður sagði, að þetta sé allt hið skemmtilegasta, en sumt af því er það vissulega. Við lok umræðunnar vil ég hins vegar eingöngu þakka þeim tveimur þingmönnum sem hér hafa talað fyrir alveg ágætar ábendingar um þessi mál. Þetta er nákvæmlega umræða af því tagi sem ég tel að hér eigi að fara fram, gagnrýnin en gagnleg um vinnubrögð og um það hvernig best sé að haga þessum málum framvegis.

Það má auðvitað segja að það ferli sem hófst með breyttri framsetningu og öðru í fjárlögum 1998 sé enn í gangi, þ.e. við erum ekki alveg búin að fóta okkur á öllu því sem þá var ákveðið en menn eru sem óðast að komast til botns í flestum atriðum. Ég vona að fjárlaganefndin muni taka þessi mál núna, þessi tvö frumvörp, til athugunar og afgreiðslu og jafnframt fara vel yfir þær ábendingar sem hv. þingmenn komu hér með. Ég heiti fyrir mitt leyti fullum stuðningi starfsmanna minna og ráðuneytisins við þá yfirferð.