131. löggjafarþing — 90. fundur
 16. mars 2005.
Greiðslur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra.
fsp. ÖJ, 618. mál. — Þskj. 926.

[14:02]
Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Um miðjan 10. áratuginn rauf ríkisstjórnin sambandið milli lágmarkslauna og bótagreiðslna úr almannatryggingum gegn háværum mótmælum samtaka öryrkja og eldri borgara, auk verkalýðshreyfingarinnar. Menn töldu þetta óeðlilegt enda stóðu þá fyrir dyrum kjarasamningar sem gerðu ráð fyrir umtalsverðri hækkun lægstu launataxta. Mönnum fannst þetta undarleg ráðstöfun, að svipta lífeyrisþega og öryrkja kjarabótum sem voru fyrirhugaðar og í sjónmáli. Þótt ekki væri fallist á að koma þeim tengslum á að nýju þá fékkst engu að síður í gegn árið 1997 að lögfest var ákvæði, sem er að finna í 65. gr. almannatryggingalaga, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Bætur almannatrygginga … skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Nú hef ég lagst í nokkra útreikninga vegna þessa. Ég get ekki komist að annarri niðurstöðu en að hér séu brotin lög. Það er sama hvernig þetta mál er reiknað. Ég hef stillt því upp á þrjá vegu. Ég hef skoðað hækkun frá desember 2003 til desember 2004, en þá hækkuðu almannatryggingabætur um 3%. Þá var vísitala neysluverðs 3,9% og vísitala launa 6%. Samkvæmt þessum útreikningi hefði átt að hækka bæturnar um 6%.

Ef við lítum hins vegar á aðra reikniaðferð og skoðum janúar 2004 til janúar 2005, þá nam hækkun bóta almannatrygginga 3,5% en vísitala neysluverðs 4% og vísitala launa 6,6%. Ef við skoðum hins vegar ársmeðaltalið, einu tölur sem til eru frá árinu 2003, þá var hækkun bóta 3%, vísitala neysluverðs 3,2% og vísitala launa 4,6%. Þarna hefðu bæturnar átt að hækka um 4,6% í stað þriggja prósenta.

Þess vegna set ég fram eftirfarandi spurningu og beini henni til hæstv. fjármálaráðherra:

Hverju sætir að greiðslur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra hafa ekki fylgt launaþróun eins og kveðið er á um í almannatryggingalögum?



[14:05]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Í fyrirspurninni er forsenda sem ég tel að standist ekki. Þar er fullyrt að greiðslur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra hafi ekki fylgt launaþróun eins og kveðið er á um í almannatryggingalögum. Ég hafna því. Ég tel að það hafi verið farið eftir því ákvæði sem hv. þingmaður vitnaði til, 65. gr. almannatryggingalaganna, í einu og öllu. Menn hafa lagt sig eftir því að framfylgja þessu ákvæði.

Ég náði ekki nákvæmlega þeim tölum sem hv. þingmaður vitnaði til en viðmiðunin hefur verið sú að bæturnar hækki um það sem nemur kjarasamningsbundnum hækkunum hjá almennu verkalýðsfélögunum. Það er ekki miðað við vísitölu launa eða launavísitöluna sem hv. þingmaður notaði í þessum samanburði.

Síðan hafa bótaþegarnir þá tryggingu, sem aðrir í þjóðfélaginu hafa ekki, að ef verðlag hækkar, samkvæmt vísitölu neysluverðs, meira en sem nemur launahækkunum þá beri að hækka bæturnar sem því nemur, þ.e. kaupmáttur bótanna skerðist aldrei eins og gerst getur hjá almennu launafólki. Ákvæðið segir að annaðhvort sé launaþróuninni fylgt eða vísitölu neysluverðs.

Frá því að þetta ákvæði kom í lög 1997 hefur aðeins einu sinni reynt á það vegna þess að sem betur fer fer kaupmátturinn á Íslandi vaxandi frá ári til árs. Árið 2001 voru bætur bættar upp sérstaklega með viðbótarhækkun ofan á almennu launahækkunina frá 1. janúar 2002. Það gerist ef í ljós kemur að bæturnar hafa verið lægri heldur en nemur vísitölu neysluverðs. Þá er ekki annað ráð við því en að bæta það upp eftir á.

Hins vegar vil ég taka fram að þó svo við höfum í þessum efnum miðað við almennar kjarasamningsbundnar launahækkanir á vinnumarkaðnum þá er niðurstaðan sú, ef maður tekur nokkurra ára tímabil, allnokkur ár, að þessar bætur og kaupmáttur þeirra hefur hækkað meira en sem nemur launavísitölunni. Ef maður tekur t.d. raungreiðslur, hve mikið þær hafa hækkað frá árunum 2002–2004, raunverulegar greiðslur að meðaltali til ellilífeyrisþega, þá hafa þær hækkað um 15,3%, á meðan launavísitalan hækkaði um 10,6%. Þetta eru raunverulegar útborgaðar greiðslur. Þar kemur við sögu að það hefur líka verið dregið úr tengingum og skerðingum vegna tekna milli maka o.s.frv. Það kemur fólki til góða.

Ef maður horfir lengra aftur í tímann, t.d. á 10 ára tímabil, þá kemur í ljós að grunnlífeyrir hefur á árunum 1995–2004, hjá hjónum sem bæði eru lífeyrisþegar, hækkað um 84%, á meðan launavísitalan hækkaði um 78,6%. Þannig mætti taka ýmis dæmi. Það er auðvitað ekki tóm til þess í svona fyrirspurn að rekja slík dæmi en sem betur fer hefur tekist að tryggja að kaupmáttur þessara hópa, ellilífeyrisþega og öryrkja, hafi aukist, a.m.k. í takt við það sem almennt gerist og í mörgum tilvikum meira en almennar hækkanir. Þar kemur til skjalanna samkomulag við eldri borgarana og fleiri slíkir þættir, ýmsar greiðslur umfram það sem ákvæði laganna segja beint til um.

Ég tel því að fullyrðingar þingmannsins eigi ekki við rök að styðjast. Ég kann ekki að fara með þær tölur sem hann nefndi máli sínu til stuðnings. Það þyrfti að skoða þær sérstaklega ef eitthvað er hæft í því sem þar kom fram.



[14:11]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Svar hæstv. fjármálaráðherra var illskiljanlegt. Það er því miður staðreynd að aldraðir hafa dregist aftur úr í almennri launaþróun. Það eru ekki bara við í stjórnarandstöðunni sem höldum því fram heldur einnig Landssamband eldri borgara. Skattbyrðin hefur auk þess færst í auknum mæli á þá sem hafa lægri tekjur. Þar skal enn bæta í. Núna á að lækka skattprósentuna í stað þess að hækka skattleysismörk.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sjálfur staðfest það í svörum sínum á Alþingi að ójöfnuður hafi aukist í samfélaginu. Er ekki rétt bara að gangast við því og vera stoltur af verkum sínum? Ef þetta er stjórnarstefnan, er þá ekki eðlilegast að gangast einfaldlega við því í stað þess að þvæla hér fram og aftur? Það var mjög erfitt að skilja tölur hæstv. ráðherra, því miður.



[14:12]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er nú ekki nema von að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að nota alls kyns hugtök og mikið af tölum og aðeins prósentutölur til að reyna að breiða yfir feril sinn þegar lífeyrisþegar eru annars vegar. Það vita auðvitað allir að tekin var pólitísk ákvörðun um að skilja á milli lægstu launa á Íslandi og lífeyrisgreiðslna. Þær krónutölur sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi hér ekki eru lífeyrisgreiðslurnar sjálfar. Fyrir alla nema yngstu öryrkjana eru þær einfaldlega undir 100 þús. kr.

Það er ekki nema von að hæstv. fjármálaráðherra treysti sér ekki til að nefna þá krónutölu, heldur tali bara um prósentur. Hann veit auðvitað að það er langt því frá að vera boðlegt. Hann veit líka að fyrir ekki mörgum árum síðan héngu þessar bætur í lægstu launum í landinu. En núna, vegna þess að slitið var á milli og lífeyrisþegarnir skildir eftir á botninum, eru þessar greiðslur undir lægstu launum sem greiddar eru í landinu. Fátækt þessa hóps og misrétti miðað við aðra hópa í samfélaginu er því orðið meira en við höfum áður þekkt.



[14:13]
Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ef upphæðir grunnlífeyris almannatrygginga og tekjutryggingar, sem eru aðaltryggingabætur almannatrygginga, ættu að ná sama hlutfalli við lágmarkslaun og þær voru í 1991, þegar skerðingar hófust að marki, þyrfti grunnlífeyrir að hækka úr 21.993 kr. í 26.699 kr. á mánuði og tekjutryggingin með eingreiðslum úr 44.909 kr. á mánuði í 52.195 kr. á mánuði. Samkvæmt þessu þyrfti hækkun þessara tryggingabóta að nema 11.900 kr. á mánuði til þess að halda hlutfallinu frá árinu 1991.

Hér vísa ég í svar sem ég fékk við skriflegu erindi til Landssambands eldri borgara sem undirritað er af formanni samtakanna, Benedikt Davíðssyni.

Um svar hæstv. ráðherra vil ég segja þetta:

Í fyrsta lagi þá fagna ég þeirri yfirlýsingu sem frá honum kom, að hann vilji skoða þær tölur sem ég reiddi fram. Hann hafnaði staðhæfingum mínum en sagðist reiðubúinn að skoða þessar tölur.

Ég tel að samkvæmt lagatextanum beri að taka mið af almennri launaþróun. Það er ekki kveðið á um launataxta hjá neinum tilteknum verkalýðsfélögum en það verður að taka mið af almennri launaþróun að mínum dómi til að lögunum verði fullnægt.

Í öðru lagi vísar hæstv. ráðherra í samkomulag sem gert var við Landssamband eldri borgara. Kveðið var á um í því samkomulagi að þær hækkanir, þær eingreiðslur sem þar var samið um skyldu standa utan við hinar lögbundnu hækkanir sem kveðið er á um.

Ég hef nefnt hér tölur með mismunandi reikniaðferðum, mismunandi aðkomu, en í öllum tilvikum er niðurstaðan sú að lög séu brotin á öryrkjum og lífeyrisþegum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þessi mál til skoðunar.



[14:16]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn spurði mig ákveðinnar spurningar. Ég svaraði henni. Í spurningunni er ákveðin fullyrðing sem ég tel að sé röng og tel mig hafa hrakið. Aðrir þingmenn hafa síðan farið að tala um aðra hluti og það gerði þingmaðurinn sjálfur í upphafi því að hann fór að tala um að bæturnar hefðu ekki fylgt lægstu launum. Um það er ekki spurt í þessari fyrirspurn. Þar er heldur ekki spurt um krónutöluhækkanir eða krónutölu, heldur hvort hlutfallshækkanir bótanna hafi hækkað með sama hætti og tiltekin þróun annarra stærða. (ÖJ: Ég sýndi fram á ...) Um það er spurningin, en ég er í og með að svara öðrum þingmönnum sem hér tóku til máls.

Ég tel mig hafa sýnt fram á það, hv. þingmaður, að þessi staðhæfing þingmannsins á ekki við rök að styðjast. Ég er að vísu ekki með upplýsingar fyrir síðustu mánuði sem þingmaðurinn er með, en ég get fullyrt það að ef það er svo að bæturnar hafa hækkað minna á þessu ári eða síðasta ári en sem nemur vísitölu neysluverðs þá ber samkvæmt lagabókstafnum að bæta það upp og það verður að sjálfsögðu gert. Þá er ég að tala um hækkun bótanna annars vegar og vísitöluhækkunina hins vegar, þ.e. vísitölu neysluverðs.

Hins vegar er greinilega ágreiningur um það okkar á milli hvort hækkun bótanna eigi að vera sú sama og almennar umsamdar kauphækkanir eða launavísitalan þar sem tekið er með í reikninginn alls kyns launaskrið sem verður úti á markaðnum, sem ekki er eðlilegt að taka með inn í þetta, og sveiflast fram og til baka milli ára og engin leið er að henda reiður á fyrir fram hver getur orðið. En ég tel að við höfum staðið í einu og öllu við lagaákvæðið alveg frá 1997.