131. löggjafarþing — 92. fundur
 17. mars 2005.
sveitarstjórnarlög, 1. umræða.
stjfrv., 639. mál (kjördagur, sameining sveitarfélaga). — Þskj. 969.

[10:31]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hinn 27. maí 2004 var samþykkt á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum. Þar var m.a. kveðið á um að atkvæðagreiðslur um sameiningu sveitarfélaga víða um land skyldu fara fram vorið 2005 á grundvelli tillagna sameiningarnefndar sem skipuð var haustið 2003.

Það frumvarp sem ég mæli nú fyrir felur í sér að atkvæðagreiðslur um sameiningu sveitarfélaga fari fram laugardaginn 8. október 2005 í stað 23. apríl næstkomandi, eins og gert er ráð fyrir í framangreindum lögum. Frumvarpið er samið samkvæmt tillögu sameiningarnefndar og að höfðu samráði við sveitarstjórnarmenn víða um land.

Ástæðan fyrir því að færa þarf kjördag til haustsins er tvíþætt: Annars vegar tók lengri tíma en gert var ráð fyrir að ná samkomulagi í tekjustofnanefnd um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og því hefur dregist að sameiningarnefnd gæti lagt fram endanlegar tillögur sínar. Er nú ljóst að ekki er nægur tími til stefnu til að tillögurnar geti hlotið nauðsynlega kynningu og umfjöllun í viðkomandi sveitarfélögum fyrir kjördag. Hins vegar er ástæðan sú að undirbúningur atkvæðagreiðslu um tillögur sameiningarnefndar er kominn misjafnlega vel á veg á einstökum svæðum.

Þótt í frumvarpinu sé gert ráð fyrir því sem meginreglu að atkvæðagreiðsla fari fram 8. október næstkomandi er lagt til að samstarfsnefnd á hverju svæði verði heimilt að láta atkvæðagreiðsluna fara fram fyrr ef það er mat nefndarinnar að sameiningartillaga muni hljóta næga kynningu meðal íbúa fyrir kjördaginn. Skal samstarfsnefndin kynna félagsmálaráðuneytinu þá ákvörðun sína svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 20. maí 2005 þannig að ráðuneytið geti gert ráðstafanir til að láta utankjörfundaatkvæðagreiðslu hefjast tímanlega fyrir kjördag. Gert er ráð fyrir að slík ákvörðun þurfi samþykki aukins meiri hluta nefndarmanna og að samráð verði haft við félagsmálaráðuneytið áður en tillaga þess efnis verði borin upp til atkvæða.

Kjördagur sá sem lagður er til í frumvarpinu er valinn með hliðsjón af því að upphaflegar tillögur sameiningarnefndar voru kynntar í lok september 2004 og síðan þá hefur átt sér stað mikil umræða um tillögurnar. Verður að ætla að sveitarstjórnum sé með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu veittur nægur tími til að kynna tillögur nefndarinnar og undirbúa atkvæðagreiðslu um þær.

Í frumvarpinu er lagt til að heimiluð verði ein undantekning frá framangreindri frestun, þ.e. að atkvæðagreiðsla um sameiningu Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar, Hvítársíðuhrepps, Kolbeinsstaðahrepps og Skorradalshrepps fari fram þann dag sem samstarfsnefnd kjörin af sveitarstjórnum þessara sveitarfélaga hefur þegar ákveðið. Markvisst hefur verið unnið að undirbúningi sameiningar þessara sveitarfélaga allt frá árinu 2003 og er ekki talin ástæða til að fresta atkvæðagreiðslu um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna þrátt fyrir ákvæði 1. gr. frumvarpsins. Er því lagt til að íbúar hinna fimm sveitarfélaga gangi að kjörborðinu hinn 23. apríl næstkomandi til að greiða atkvæði um sameiningu þeirra.

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að nota þetta tækifæri til að gera Alþingi grein fyrir gangi átaks um eflingu sveitarstjórnarstigsins en atkvæðagreiðslur um tillögur um sameiningu sveitarfélaga sem frumvarpið fjallar um eru þáttur í því verkefni. Eins og kunnugt er er um samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga að ræða sem hófst að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vinna við átakið sem hefur staðið frá því á haustmánuðum 2003 er nú vel á veg komin. Tekjustofnanefnd komst í vikunni að niðurstöðum og leggur fram tillögur um umtalsverðar breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga. Sameiningarnefnd hefur einnig lokið gerð tillagna um breytingar á sveitarfélagaskipan og verður fjallað um þær á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á morgun.

Verkefnisstjórn átaks um eflingu sveitarstjórnarstigsins kynnti hugmyndir um tilfærslu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga í apríl 2004. Frá þeim tíma hefur verið unnið að athugun á kostum og göllum þess að flytja verkefni á sviði velferðarmála frá ríki til sveitarfélaga en ákvörðun um það hvort af slíkum flutningi verður á einu eða öðru sviði liggur ekki fyrir á þessari stundu frekar en gert var ráð fyrir í upphafi.

Í upphafi var gert ráð fyrir að ákvörðun um hugsanlegan verkefnaflutning lægi fyrir haustið 2005 þannig að þau mál eru í eðlilegum farvegi.

Síðastliðið haust var kynnt áfangaskýrsla um flutning heilbrigðis- og öldrunarþjónustu til sveitarfélaganna og ítarleg vinna við stöðumat og þjónustu við fatlaða stendur nú yfir í félagsmálaráðuneytinu.

Tillögur tekjustofnanefndar verða nánar útfærðar fyrir lok aprílmánaðar næstkomandi í yfirlýsingu um breytingar á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Stefnt er að því að endurskoðun á samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga verði lokið fyrir sama tíma. Auk tillagna um breytingar á tekjustofnum leggur nefndin til ýmsar breytingar á samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Má þar nefna tillögu um að öll lagafrumvörp og reglugerðir sem varða sveitarfélögin verði kostnaðarmetin og reglur þar um taki gildi strax á næsta ári. Þarna er að mínu mati um mikilvæga og varanlega aðgerð að ræða sem mikilvægt er að fylgt verði vel eftir.

Einnig er lagt til að skipaður verði starfshópur sem er ætlað að kanna hvort lög og reglur sem settar hafa verið á undanförnum árum hafi að geyma of strangar og kostnaðarsamar kröfur gagnvart sveitarfélögunum og gera tillögur um breytingar þar sem við á. Það er að mínu viti einnig mikilvægt.

Loks er lagt til að hafin verði vinna við endurskoðun sveitarstjórnarlaga sem miða að því að tryggja vandaða fjárstjórn sveitarfélaganna og er gert ráð fyrir að sérstaklega verði litið til reynslu Norðurlandanna af eftirliti með sveitarfélögum í því sambandi.

Tekjustofnanefnd leggur til eftirfarandi breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga, en ég tek fram að þær eru kynntar með þeim fyrirvara að þær hljóti samþykki ríkisstjórnar og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga:

1. Viðbótarframlag komi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á árunum 2006–2008. Tillagan skilar sveitarfélögunum 700 millj. kr. ár hvert eða alls 2,1 milljarði kr. á árunum 2006–2008. Settar verða reglur um úthlutun þessara fjármuna og mun félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga eiga samvinnu um efni þeirra. Framlaginu er ætlað að jafna aðstöðumun þeirra sveitarfélaga sem talin eru í mestri þörf m.a. vegna erfiðra ytri aðstæðna.

2. Undanþágur frá greiðslu fasteignaskatts, samanber 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, verði afnumdar frá og með 1. janúar 2006 í samræmi við tillögur nefndar frá desember 2001. Álagning fasteignaskatts komi til framkvæmda í áföngum á árunum 2006–2008. Tillagan skilar sveitarfélögunum 200 millj. kr. árið 2006, 400 millj. kr. árið 2007 og 600 millj. kr. í árlegar tekjur frá og með árinu 2008. Samtals gerir þetta 1,2 milljarða kr. árin 2006–2008 en varanlega 600 millj. kr. á ári frá þeim tíma.

Tekið skal fram að ofangreindar fjárhæðir miðast við fasteignamat ársins 2005. Árleg hækkun fasteignamats og fjölgun fasteigna ríkissjóðs leiðir til hækkunar á þessum fjárhæðum en álagningarprósentan mun ekki lækka að sama skapi. Eftir er að reikna út hver álagningarprósentan þarf nákvæmlega að vera. Um er að ræða nýjan álagningarflokk, C-flokk. Áfram er gert ráð fyrir að kirkjur og safnaðarheimili, safnahús og hús erlendra ríkja verði undanþegin fasteignaskatti. Í tillögunni er ekki tekin afstaða til hugsanlegra breytinga á álagningu fasteignaskatts af virkjanamannvirkjum.

3. Varasjóði húsnæðismála verði heimilað að auka rekstrar- og söluframlög vegna félagslegra íbúða í eigu sveitarfélaga og aðstoða við úreldingu þeirra. Framlögin koma til greiðslu á árunum 2005, 2006 og 2007. Tillagan skilar sveitarfélögunum 280 millj. kr. á ári eða samtals 840 millj. kr. á árunum 2005–2007. Starfshópur er að störfum sem mun útfæra nánar ráðstöfun þessara fjármuna. Með úreldingu húsnæðis sem stendur autt eða er óíbúðarhæft er unnt að draga úr áframhaldandi þörf sveitarfélaga fyrir rekstrarframlög til félagslega húsnæðiskerfisins. Fjármögnun mun koma af höfuðstól varasjóðs viðbótarlána. Rétt er að taka fram að ráðstöfunin kemur til viðbótar framlögum til félagslega húsnæðiskerfisins samkvæmt gildandi samkomulagi um varasjóð húsnæðismála en gert er ráð fyrir að það samkomulag verði framlengt um þrjú ár.

4. Gildandi lög um fjárhagslegan stuðning við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga verði framlengd til ársins 2008. Sameiginlega verði farið gagnrýnið yfir kröfur um fráveituframkvæmdir sveitarfélaga og kannaðar leiðir til að draga úr kostnaði. Tillagan skilar sveitarfélögunum 200 millj. kr. á ári eða samtals 600 millj. kr. á árunum 2006–2008. Framlögin koma til greiðslu í hlutfalli við fráveituframkvæmdir sveitarfélaganna á árunum 2006–2008 og eru þau liður í að ljúka átaki í fráveitumálum sveitarfélaga. Jafnhliða verður farið yfir hvort unnt sé að finna leiðir fyrir fámenn sveitarfélög og byggðarkjarna til að koma fráveitumálum í viðunandi horf án óheyrilegs kostnaðar.

5. Lög um skráningu og mat fasteigna á tekjustofnum sveitarfélaga verði breytt þannig að greiðsla fasteignaskatts hefjist frá næstu mánaðamótum eftir að eign er fyrst metin fasteignamati. Jafnframt verði unnið að endurskoðun á fasteignamati landa og jarða og lagaákvæðum er það varðar. Tillagan skilar sveitarfélögum allt að 200 millj. kr. í varanlegan tekjuauka á ári, samtals 600 millj. kr. á árunum 2006–2008. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp á vorþingi með það að markmiði að ákvæði um upphaf greiðslu fasteignaskatts taki gildi sem fyrst. Fasteignamat landa og jarða verði tekið til endurskoðunar af Fasteignamati ríkisins og því verki lokið eins fljótt og auðið er.

6. Skipuð verði nefnd sem hafi það hlutverk að endurskoða reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga einkum með tilliti til breytinga á sveitarfélagaskipan. Nefndin taki mið af sjónarmiðum sem fram hafa komið við vinnu sameiningarnefndar og tekjustofnanefndar. Stefnt er að því að nefndin ljúki störfum fyrir 1. október á þessu ári.

Tillagan hefur á þessu stigi ekki bein fjárhagsleg áhrif fyrir sveitarfélögin. Það er hins vegar ljóst að endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með tilliti til breytinga á sveitarfélagaskipan er forsenda þess að unnt sé að leggja fram vitrænar tillögur um varanlegar breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga. Vinna tekjustofnanefndar hefur leitt í ljós að aðstöðumunur sveitarfélaga er mjög mikill og breytingar á ráðstöfun fjármuna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skipta illa stödd sveitarfélög meira máli en almennar breytingar á tekjustofnum á borð við hækkun útsvarsprósentu. Í fylgiskjali leggur tekjustofnanefnd til ákveðnar forsendur sem hún telur að eigi að hafa að leiðarljósi í endurskoðunarvinnunni.

Hæstv. forseti. Viðræður um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga hafa verið langar og strangar. Niðurstaðan sem nú hefur náðst er að mínu mati vel ásættanleg fyrir sveitarfélögin. Þegar tillögurnar eru skoðaðar í heild tel ég óhætt að fullyrða að komið hafi verið til móts við sjónarmið bæði þéttbýlissveitarfélaga og dreifbýlissveitarfélaga en áherslan í starfi nefndarinnar var þó ótvírætt á að jafna aðstöðumun sveitarfélaga til tekjuöflunar. Sérstakt framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og aðgerðir til að taka á rekstrarvanda félagslega húsnæðiskerfisins skipta þau sveitarfélög mestu máli. Stærri sveitarfélögin munu aftur á móti fá varanlega tekjuaukningu vegna fækkunar undanþágna frá fasteignaskatti.

Heildaráhrifum tillagnanna er best að lýsa með því að ræða annars vegar varanleg áhrif þeirra og hins vegar tímabundin áhrif, þ.e. tekjuauka og önnur fjárhagsáhrif fyrir sveitarfélögin á því tímabili sem um er að ræða eða 2005–2008. Ef við tölum fyrst um varanlegu áhrifin er gert ráð fyrir að tekjuauki sveitarfélaga af fasteignaskatti verði í kringum millj. kr. á ári, þ.e. 600 millj. kr. vegna fækkunar undanþágna á fasteignum ríkisins og 200 millj. vegna annarra lagabreytinga. Tímabundin áhrif eru hins vegar mun meiri eða um 4,7 milljarðar kr. á framangreindu tímabili.

Ráðstafanir sem miða sérstaklega að því að taka á aðstöðumun sveitarfélaga, t.d. vegna fólksfækkunar og tekjusamdráttar sem henni fylgir eru árlegt 700 millj. viðbótarframlag í jöfnunarsjóði í þrjú ár og heimildir til að taka á vanda félagslega húsnæðiskerfisins. Við þetta verður svo að bæta að fyrir dyrum stendur endurskoðun á reglum jöfnunarsjóðs og vænti ég þess að þar muni sérstaklega verða tekið á aðstöðumun sveitarfélaga, t.d. sameinaðra sveitarfélaga með marga byggðakjarna og sveitarfélaga sem glíma við neikvæð áhrif byggðaþróunar. Ég tel að vinna tekjustofnanefndar hafi leitt í ljós að slíkar breytingar á jöfnunarkerfinu séu sú aðgerð sem mestum árangri muni skila til að taka varanlega á málefnum sveitarfélaga sem eiga í fjárhagsvanda, miklu fremur en hugsanleg heimild til að hækka útsvarið eins og stundum hefur verið rætt.

Auk hinna eiginlegu tillagna tekjustofnanefndar, hæstv. forseti, er í fylgiskjali með tillögum nefndarinnar raktar ýmsar breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem orðið hafa vegna lagabreytinga og annarra ástæðna á undanförnum mánuðum. Þær helstu eru eftirfarandi:

1. Samkomulag sem fram kemur í viljayfirlýsingu frá 17. september 2004 um að allt að 2,4 millj. kr. skuli varið til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga.

2. Brottfall á skyldu sveitarfélaga til að greiða framlag í varasjóð viðbótarlána sem felur í sér sparnað um 300 millj. kr. á ári fyrir sveitarfélögin.

3. Heimild varasjóðs húsnæðismála til að ráðstafa raunvöxtum af höfuðstól sjóðsins til að bæta tekjutap af sölu sveitarfélaga á félagslegum íbúðum. Þessi ráðstöfun skilar sveitarfélögunum um það bil 60 millj. kr. á ári.

4. Brottfall framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til Lánasjóðs sveitarfélaga og til stofnframkvæmda sveitarfélaga með færri en 2.000 íbúa. Þessar breytingar gera jöfnunarsjóðnum mögulegt að færa um það bil 460 millj. kr. á ári til annarra verkefna.

Varanleg heildaráhrif framangreindra breytinga eru um 750 millj. kr. á ári en tímabundin áhrif á árunum 2005–2008 meira en 4 milljarðar kr.

Hæstv. forseti. Eins og ég hef rakið er ljóst að tímabundin áhrif tillagna tekjustofnanefndar og annarra breytinga á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga eru mjög mikil. Varanleg áhrif í formi tekjuauka og útgjaldasparnaðar fyrir sveitarfélögin eru rúmlega 1,5 milljarðar kr. á ári og tímabundin áhrif eru tæpir 9 milljarðar kr. á því tímabili sem um ræðir, 2005–2008. Að vísu ber að hafa í huga að ekki er í öllum tilfellum um fjármuni úr ríkissjóði að ræða heldur er einnig um að ræða heimildir til ráðstöfunar eiginfjársjóða í eigu sveitarfélaganna og tilfærslu fjármuna milli verkefna.

Margar þessara tillagna kalla á lagabreytingar og vænti ég þess að ekki muni reynast fyrirstaða hér á Alþingi við að færa sveitarfélögunum aukna fjármuni miðað við yfirlýsingar stjórnarandstöðunnar á undanförnum mánuðum. En ég endurtek og ítreka að þær tillögur sem eru kynntar fyrir Alþingi í dag gera samtals ráð fyrir tæplega 9 milljarða kr. tekjuauka fyrir sveitarfélögin.

Hæstv. forseti. Í tillögum sameiningarnefndar er gert ráð fyrir því að flest sveitarfélög í landinu myndi heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði og verði nægilega öflug til að sinna helstu lögbundnu og venjubundnu verkefnum sveitarfélaganna. Nefndin leggur áherslu á að sem flestir íbúar landsins fái tækifæri til að taka afstöðu til hugsanlegra sameininga á sínu svæði og ef allar tillögur nefndarinnar ganga eftir mun meiri hluti sveitarfélaga hafa fleiri en þúsund íbúa og í aðeins níu sveitarfélögum yrðu íbúar færri en 500 í stað 51 sveitarfélags í dag. Tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir að í landinu verði 46 sveitarfélög frá og með sveitarstjórnarkosningunum 2006 en þau eru nú 101 talsins.

Mikilvægt er að sveitarstjórnir sem ekki hafa enn tilnefnt fulltrúa í samstarfsnefnd í samræmi við tillögur sameiningarnefndar geri það hið fyrsta til að samstarfsnefnd geti tekið ákvörðun um kjördag. Rétt er hins vegar að undirstrika, hæstv. forseti, að í frumvarpi því sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir að 8. október sé sá kjördagur sem miða ber við ef ekki er tekin ákvörðun um að kosning fari fram fyrr. Hvorki samstarfsnefndin né félagsmálaráðuneyti geta þannig tekið ákvörðun um að kosning um tillögur sameiningarnefndar fari fram eftir þann dag sem fram kemur í lagagreininni.

Um önnur atriði en þau sem hér hafa sérstaklega verið tíunduð vísa ég til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.



[10:47]
Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skiljanlega var ekki hátt risið á hæstv. félagsmálaráðherra þegar hann gerði grein fyrir stöðu mála hvað varðar átak í eflingu sveitarstjórnarstigsins. Í fyrsta lagi er sameiningarkosningum frestað til haustsins, í öðru lagi liggur ekkert fyrir um áform um verkefnatilfærslu og í þriðja lagi fæddist nákvæmlega ekki nokkur skapaður hrærandi hlutur í tekjustofnanefndinni svokölluðu.

Hæstv. ráðherra hælir sér af því að nota peninga sveitarfélaganna sjálfra í varasjóði íbúðalána, sér til tekna. Hann hælir sér af því að endurgreiða virðisaukaskatt af framkvæmdum vegna fráveituframkvæmda sem hafa staðið í heil 10 ár, telur sér það til tekna. Hann hælir sér af því að ríkissjóður ætli loksins að fara að greiða skatta af íbúðarhúsnæði í sveitarfélögum sínum — en ekki samkvæmt almennum reglum, nei, samkvæmt sérreglum ríkissjóðs. Hann hælir sér af því að nú eigi að fara að kostnaðarmeta áhrif laga, frumvarpa og reglugerða sem snerta sveitarfélög beint eða óbeint. Ákvörðun um þetta lá fyrir árið 2000, herra forseti, í þeirri tekjustofnanefnd sem þá starfaði en ekkert hefur gerst í tíð forvera hæstv. félagsmálaráðherra né hans sjálfs. Nú á að nota þetta loforð enn og aftur.

Herra forseti. Þetta er satt að segja dapurleg niðurstaða og ég hef allan skilning á því að hæstv. ráðherra — sem kemur fyrir þingheim eftir tveggja ára setu á ráðherrastóli og skilar þessu — tali hvorki hátt né mikið.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er enn þá lykilatriði. Það er einasta leiðin sem menn finna til að nálgast þetta, að bæta í sjóðinn tímabundið, þennan sjóð sem núna telur í kringum 10 milljarða kr. Enn og aftur á að leggja til atlögu við það að endurmeta og laga til regluverk sjóðsins sem ég þori að fullyrða að aðeins kannski 5 eða 10 einstaklingar kunna skil á. Slík er flækjan þar á bæ.

Nei, herra forseti, ég vorkenni hæstv. félagsmálaráðherra (Forseti hringir.) vegna þessarar niðurstöðu.



[10:49]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég frábið mér vorkunnsemi hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Það er ekki lágt risið á þeim sem hér stendur. Ég er satt best að segja þvert á móti mjög ánægður með þá niðurstöðu sem náðst hefur. Ég tel að það skipti verulega miklu máli fyrir sveitarfélögin að hafa úr að spila á næstu þremur árum 9,5 milljörðum kr. meira en þau hafa haft. Er það ekki allnokkur árangur, hv. þingmaður? Ætli það skipti ekki sveitarfélögin töluverðu máli að hafa úr þessum fjármunum að spila?

Ætli það skipti þau ekki líka töluverðu máli að hafa varanlega, þegar þessu tímabili lýkur, úr 1,5 milljörðum meira að spila en þau hafa haft? Ég hefði haldið það. Og ég hefði haldið að það skipti þau sveitarfélög mestu máli sem hafa það hvað verst að verið er að auka framlög í jöfnunarsjóð, það er verið að létta álögum af sveitarfélögunum, koma stórkostlega til móts við þau við rekstur félagslega íbúðakerfisins. Þetta eru atriðin sem þung áhersla var lögð á af hálfu sveitarstjórnarmanna.

Það er auðvitað þannig að það næst ekki saman um öll atriði, ýtrustu kröfur, þegar menn leggja upp í vinnu sem þessa. En ég er ánægður, hæstv. forseti, ég tel þetta góða niðurstöðu, það er hátt á mér risið og það er engin ástæða til að vorkenna þeim sem hér stendur.



[10:50]
Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði nú reiknað með því að hæstv. ráðherra sem hefur setið á Alþingi í tvö ár og er hátt á risið, að eigin sögn, hefði þó samvisku til að fara hér satt og rétt með. Auðvitað eru hin varanlegu áhrif af kerfisbreytingum eingöngu þau að ríkið ætlar að fara að borga fasteignaskatta sem verða 600 millj. kr. og að hér á að gera lagabreytingar sem gera sveitarfélögum kleift að innheimta fasteignaskatta af íbúðum sínum í samræmi við eðlilegar leikreglur. Það eru hinar varanlegu breytingar.

Kerfisbreytingar á tekjustofnum sveitarfélaga eru engar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, og ég vona að hann svari af heiðarleika: Telur hann þessar breytingar vera góðan grunn til þess að fara í raunverulega verkefnatilfærslu? Trúir hann því sjálfur og getur hann horft hér framan í okkur og sagt: „Já“? Ég bíð spenntur.



[10:51]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég trúi því að hér sé lagður varanlegur og góður grunnur að áframhaldandi samstarfi ríkis og sveitarfélaga og vonandi verkefnatilfærslu.

Ég vil benda hv. þingmanni á að stór hluti þeirrar kaupmáttaraukningar sem almenningur í landinu hefur fengið á undanförnum árum er fólginn í skattalækkunum, ekki endilega kauphækkunum, heldur skattalækkunum. Hvað þýðir það? Það þýðir auknar ráðstöfunartekjur. Það er það sem málið snýst fyrst og fremst um. Hversu mikið eykst ráðstöfunarfé sveitarfélaganna á því tímabili sem um ræðir? 9,5 milljarða kr. Það er það sem mestu máli skiptir, hæstv. forseti.



[10:52]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var erfitt hjá hæstv. ráðherra að standa hér og þurfa að viðurkenna fyrir þingheimi að staðan í sameiningarmálum sveitarfélaga sé sú sem hann hér lýsti.

Verkaskiptanefnd, engar tillögur. Samt var lögð á það veruleg áhersla þegar þetta fór af stað að það ætti að efla sveitarstjórnarstigið, það ætti að byrja á því að ákveða hvaða verkefni ætti að færa, svo mundu menn velta fyrir sér hvað sveitarfélögin þyrftu að vera stór til þess að geta sinnt þeim og hvaða tekjur þau þyrftu að hafa til að geta sinnt þeim verkefnum sem mundu flytjast frá ríki til sveitarfélaga.

Nú eru engar tillögur uppi um neinn flutning á verkum frá ríki til sveitarfélaga. Samt á að fara að sameina sveitarfélögin, bara til að sameina þau, og tillögur sem lesnar voru hér upp í belg og biðu frá tekjustofnanefnd eru afskaplega rýrar í roðinu þegar maður rýnir í þær betur en hér var gert.

Níu milljarðar, segir hæstv. ráðherra og hreykir sér af því. Af hverju notaði ekki hæstv. ráðherra 10 ár eða 20 til að margfalda þessa hungurlús sem hann er hér að tilkynna um til þess að þetta yrðu einhverjir tugir milljarða sem hann gæti tilkynnt til þingheims? Hér er verið að reyna að leggja saman margra ára hugsanleg framlög miðað við þær tillögur sem fyrir liggja.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er sátt um þær tillögur sem hann var að lýsa? Er tekjustofnanefndin sammála um að leggja þessar tillögur svona fram? Er full sátt milli ríkis og sveitarfélaga um að svona verði þetta og ekki öðruvísi?

Síðan las hæstv. ráðherra upp úr greinargerð að mikilvægt væri að sveitarstjórnir sem ekki hafa enn tilnefnt fulltrúa í samstarfsnefnd í samræmi við tillögur sameiningarnefndar geri það hið fyrsta. Hvaða tillögur sameiningarnefndar? Ég veit ekki um neinar tillögur sameiningarnefndar eins og á Suðurnesjum þaðan sem ég kem. Hvernig í ósköpunum eiga sveitarstjórnir að geta tilnefnt fulltrúa í samstarfsnefndir þegar ekki koma fram neinar tillögur? Þetta er allt eins hjá hæstv. ráðherra eins og hann fór yfir þetta hér og alveg til skammar.



[10:54]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara rétt til að upplýsa hv. þingmann, sem raunar er einnig sveitarstjórnarmaður, að þá stóð ekki til að endanlegar tillögur um verkefnatilfærslur milli ríkis og sveitarfélaga lægju fyrir fyrr en í haust. Það hefur alla tíð legið fyrir, undirskrifað af fulltrúum bæði ríkis og sveitarfélaga, aldrei staðið annað til. Hins vegar komu fram ákveðnar hugmyndir frá verkefnisstjórn verkefnisins, og kom fram í ræðu minni áðan, sem hafa verið til sérstakrar umfjöllunar, ekki síst í heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytum. En tillögur verkefnisstjórnar lutu ekki síst að því að færa ákveðin verkefni á sviði velferðarmála frá ríki til sveitarfélaga.

Hins vegar hefur líka legið fyrir að það er alveg sérstakt verkefni og því þurfa að fylgja tekjustofnar. Því hef ég marglýst yfir bæði hér á Alþingi, hæstv. forseti, og annars staðar á opinberum vettvangi.

Hv. þingmaður spyr af hverju ég hafi ekki margfaldað með 20 eða 30. Það sem við erum hér að ræða og ég var að kynna eru tvíþættar áherslur, annars vegar varanlegur tekjuauki fyrir sveitarfélögin, sem verður 1,5 milljarðar kr. á ári að liðnum þessum þremur árum, hins vegar sérstök átaksverkefni, m.a. með sérstakri innspýtingu í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga upp á 700 millj. kr. á ári. Það samkomulag tekur til þriggja ára. Þess vegna er margfaldað, hæstv. forseti, með þremur en ekki 20 eða 30.

Hv. þingmaður spurði einnig hvort full sátt væri í tekjustofnanefnd um þessa niðurstöðu. Hv. þingmanni er fullljóst að svo er ekki. Einn fulltrúi sveitarfélaganna í tekjustofnanefndinni skilaði séráliti og við því er í sjálfu sér ekkert að segja. Það er ágæt sátt um niðurstöðuna.

Ég tel, hæstv. forseti, að auðvitað liggi alveg fyrir að hvorugur aðila sé fullkomlega ánægður enda er það yfirleitt ekki þannig þegar tekist er á um hlutina. Menn ná ákveðinni niðurstöðu sem ég tel ásættanlega og raunar mjög góða fyrir sveitarfélögin.



[10:57]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra er að tala við hv. þm. Hjálmar Árnason. Hann ætti kannski að spyrja hann meðan hann er að tala við hann þarna í dyrunum hvort það hafi ekki verið kynnt þannig á Suðurnesjum á kynningarfundi sem verkefnisstjórn stóð fyrir, sem hv. þm. Hjálmar Árnason er formaður fyrir, að fyrst yrði farið í að ákveða hvaða verk ætti að flytja, síðan mundu menn velta fyrir sér hvaða stærð þyrfti að vera á sveitarfélögum til að taka við þeim verkefnum og svo í síðasta lagi hvaða fjármunir þyrftu að fylgja til að sveitarfélögin gætu sinnt þeim.

Það var svardagi af hálfu formanns verkefnisstjórnar að svona yrði farið í málið og ekki öðruvísi, og rétt væri hjá hæstv. ráðherra að spyrja þingmanninn um það.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji þær tillögur sem hann var að kynna okkur að tekjuskiptum eða auknum tekjum sveitarfélaga nægja sveitarfélögunum til að komast út úr þeim hallarekstri sem þau hafa verið í. Ég veit ekki betur en að á árinu 2003 hafi hallarekstur sveitarfélaga verið yfir 3 milljarðar kr. og það sem hér er verið að kynna eru 1,5 milljarðar í besta falli á næsta ári upp í þann halla.



[10:58]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru mér ákveðin vonbrigði að hv. þingmaður skuli ekki fylgjast betur með í þessu máli og þessu verkefni en raun ber vitni. Eins og ég sagði áðan hefur alla tíð legið fyrir að endanlegar tillögur um verkefnatilflutning frá ríki til sveitarfélaga ættu ekki að liggja fyrir fyrr en næsta haust. Hins vegar eru komnar fram fyrir sennilega einu og hálfu ári, eða a.m.k. ári, hugmyndir frá verkefnisstjórn þessa verkefnis um vænleg verkefni til að færa á milli ríkis og sveitarfélaga. Þar er um að ræða ákveðna þætti í heilbrigðisþjónustunni, öldrunarþjónustunni, málefnum fatlaðra o.fl. (Gripið fram í.) Það er unnið að útfærslu þessa, hversu miklar tekjur þurfi þá til og fleira í þeim dúr.

Ég bið hv. þingmann um að fylgjast betur með (JGunn: Þið gáfuð …) til að geta tekið þátt í þessari umræðu af einhverju viti.



[10:58]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að fjallið hafi tekið jóðsótt og lítil mús fæðst, sennilega bara andvana. Það er ansi kyndugt að horfa á ráðherrann kynna þessa tillögu sem er ekki neitt neitt. Hér stendur formaður verkefnisstjórnar, hv. þm. Hjálmar Árnason, (Gripið fram í.) hér sitja meðreiðarsveinar hæstv. félagsmálaráðherra sem hafa farið um landið til að kynna hinar stóru og miklu tillögur. Hjá Framsóknarflokknum hefur verið talað um Kasper, Jesper og Jónatan sem meðreiðarsveina hæstv. forsætisráðherra. Mér sýnast Rip, Rap og Rup vera hér nú sem hafa farið með þessar miklu tillögur sem eru svo ekki neitt neitt.

Hér er komið nokkrum dögum fyrir sameiningarkosningar og boðað að þeim skuli frestað til 8. október. Það er talað um tekjustofnana, þar átti heldur betur að taka til hendinni en ekkert er gert af neinu viti. Ég hvet hæstv. félagsmálaráðherra til að nota þá aðferð sem hv. þm. Jón Gunnarsson hvatti hann til áðan. Nota frekar 20 ár til að margfalda hvað þetta er mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélögin í landinu, jafnvel 30 ár. Þá eru þetta stórkostlegar tölur. Þá kemur ekki berrassaður félagsmálaráðherra í ræðustól til að segja hvað er verið að lagfæra.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða orð á að nota yfir þetta en mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra miðað við það sem hér er verið að gera, fresta þessu fram á haustið, þessum stórkostlegu tillögum sem hafa verið boðaðar um allt land: Er þetta nokkuð annað en klúður?



[11:00]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykja rök Samfylkingarinnar orðin harla þunn þegar það helsta sem hv. þm. Kristján Möller getur fundið sér til að ræða í ræðustól er að tala niður til embættismanna félagsmálaráðuneytisins. Lítið lagðist fyrir kappann. Ef ég ætti að leggja mat á vinnu þeirra þá mundi ég ekki kalla þá Rip, Rap og Rup heldur vitna í heilaga ritningu og kalla þá vitringana þrjá, hv. þingmaður. Mér þykir lítið leggjast fyrir kappann að finna þau helstu í rök í þessu máli að tala niður til starfsmanna félagsmálaráðuneytisins. (Gripið fram í: En hvað með klúðrið?)

Það sem hér er um að ræða, hæstv. forseti, er að fresta sameiningarkosningu til að gera sveitarfélögunum kleift að undirbúa kosninguna með þeim hætti sem nauðsynlegt er. Það var lagt upp með að þessi kosning færi fram á vordögum. Það var líka lagt upp með að samstaða tækist í tekjustofnanefnd fyrr en varð. Það tókst hins vegar ekki. Hv. þingmaður getur kallað það klúður mín vegna. Það skiptir mig ekki nokkru máli. Það sem skiptir mig máli er að það fáist niðurstaða í þetta mál, niðurstaða í takt við það sem lagt var upp með. Ég vonast til að það geti orðið og vonast til að sveitarfélögin haldi áfram að stækka og eflast, haldi áfram að taka sér fleiri, öflugri og verðugri verkefni. Ég er sannfærður um að það er leiðin til að viðhalda byggð í landinu og eins og ég hef áður sagt tel ég að þetta sé eitthvert almesta byggðaverkefni sem við höfum lagt upp í.



[11:02]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það lagðist lítið fyrir kappann, hæstv. félagsmálaráðherra í þessari ræðu. Ekki bætti hann úr.

Má ég minna á það, virðulegi forseti, að hæstv. félagsmálaráðherra er fyrrverandi. varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sem bæjarfulltrúi í Hveragerði. Hæstv. félagsmálaráðherra talaði, meðan hann var ekki þingmaður og ekki félagsmálaráðherra, sem varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sveitarfélögin í landinu hefðu verið hlunnfarin um 1,5 milljarða á ári vegna breytinga á skattkerfi þegar mönnum var gert kleift að breyta rekstri sínum úr einkarekstri yfir í einkahlutafélög. Þetta voru orð hæstv. félagsmálaráðherra meðan hann var í hinum fötunum.

Nú er hann hins vegar kominn í ríkisstjórn þar sem hann þarf m.a. að semja við hæstv. fjármálaráðherra og þá leggst lítið fyrir kappann. Hæstv. félagsmálaráðherra kemur hingað berrassaður með nánast ekkert til að redda sér frá því klúðri sem þessi frestun er.



[11:03]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka fram að ég klæddi mig í morgun rétt eins og alla aðra daga áður en ég fór í vinnuna þannig að þetta líkingamál hv. þingmanns finnst mér harla hallærislegt, satt best að segja.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að sá sem hér stendur var áður sveitarstjórnarmaður og m.a. varaformaður Sambands ísl. sveitarfélaga. Það er kannski ekki síst í því ljósi, í ljósi þeirrar forsögu sem ég hef lagt mikla áherslu á að þetta verkefni fengi framgang. Ég hef skilning á því að efla þarf sveitarfélögin og þau þurfa að stækka, þurfa að sameinast, til að geta tekist á við þau verkefni sem þeim eru ætluð, ég tala nú ekki um frekari verkefni. (Gripið fram í: …tekjustofna fyrst og fremst.)

Tekjustofnar sveitarfélaganna aukast stórkostlega með því samkomulagi sem ég hef hér kynnt. Það er niðurstaða málsins og það sem skiptir mestu máli.



[11:04]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum. Það má segja að innihald frumvarpsins sé ekki ýkja mikið en það tengist býsna stóru máli. Hér er fyrst og fremst lagt til að sú dagsetning sem ákveðin var í lögum sem samþykkt voru fyrir tæpum tveimur árum um það að sameiningarkosning ætti að fara fram 23. apríl 2003 fari þess í stað fram 8. október árið 2005.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er ástæðunnar fyrir þessari seinkun er ekki að leita í störfum sameiningarnefndar sem hefur fjallað um sameiningu sveitarfélaga heldur í þeirri vinnu sem fram hefur farið í svokallaðri tekjustofnanefnd sem hefur tekið mun lengri tíma en áætlað var. Í raun má segja að sameiningarnefnd hafi verið búin að ljúka störfum sínum innan þess tímaramma sem gefinn var. Sá sem hér stendur, sem hefur tekið nokkurn þátt í því starfi, getur staðfest að þar hefur verið nokkuð góð samstaða um öll mál og vinnuferlið verið hið eðlilegasta, enda má segja að samsetning þeirrar nefndar sé til mikillar fyrirmyndar og hópurinn náð vel saman.

Vandinn í tekjustofnanefndinni hefur verið sá að þar var samsetningin allt önnur. Þar voru eðlilega aðilar frá sveitarfélögum en hins vegar fulltrúar ríkisvaldsins, eingöngu embættismenn sem væntanlega hafa þurft að bera flestallt undir þá sem þeir hafa umboðið frá. Ég hygg að það skýri mjög hve illa starfið hefur gengið í þeirri mikilvægu nefnd. Það liggur ljóst fyrir að sameining sveitarfélaga hlýtur að taka mið af niðurstöðu tekjustofnanefndar. Sagan segir okkur að meginvandamálið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hefur tengst tekjustofnunum. Það var miður að tekjustofnanefndin skyldi samansett eins og raun ber vitni. Þar hefðu þurft að vera fulltrúar pólitískra afla, þ.e. sækja eftir tilnefningum frá þingflokkum eins og gert var í sameiningarnefndinni. Ég er sannfærður um að þá hefði starf nefndarinnar gengið betur fyrir sig og niðurstaða samninganna orðið stærri og tryggari til framtíðar en við fáum að heyra í ræðu hæstv. ráðherra nú.

Því miður verður að benda á að tekjustofnanefnd hefur starfað, að vísu misjafnlega vel þann tíma, í á annað ár. Það er sama hversu mikið hæstv. ráðherra reynir að gera úr niðurstöðum nefndarinnar, auðvitað er niðurstaðan vonbrigði. Þau vonbrigði spretta ekki af því að aðeins sé tekið á bráðavanda og aðeins áfangi í rétta átt heldur vegna þess að tíminn var ekki nýttur til að skoða tekjustofnana frá grunni, endurskoða grundvöll tekjustofna sveitarfélaganna. Ég er sannfærður um að ef svo hefði verið gætum við stigið miklu stærra skref núna til að tryggja það mikilvægasta í þessu öllu, þ.e. traust á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaga. Sá grundvöllur er nauðsynlegur ef við ætlum að ná árangri í sameiningu sveitarfélaga. Það er t.d. ljóst að þegar þetta traust er ekki til staðar verða tillögur um sameiningu sveitarfélaga ekki stærri en raun ber vitni. Auðvitað hefði þurft að stíga miklu stærra skref en tillögur sameiningarnefndar taka mið af stöðu mála í dag og hvað raunhæft geti talist miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Tekjustofnanefnd hefur að sjálfsögðu ráðið mestu um þetta. Það er engin tilviljun að það þurfti á haustdögum að semja sérstaka viljayfirlýsingu um starfið í nefndinni til að koma henni af stað aftur. Hún var raunverulega komin í strand. Ég hef oft sagt það í þessum ræðustól að ég er sannfærður um að metnaður hæstv. ráðherra er mikill í þessum efnum. Núna er það að vísu ekki eins og það var um daginn, að hæstv. ráðherra sat einn á ráðherrabekkjunum. Hér er annar hæstv. ráðherra líka. En ég held því miður að hæstv. ráðherra hafi verið býsna einangraður í ríkisstjórninni við þetta mikilvæga verkefni og skort hafi skilning í ríkisstjórninni á því hve mikilvægt verkefnið er. Þess vegna eru tillögur tekjustofnanefndar ekki stórfenglegri en þetta.

Auðvitað er hægt að segja að tillögurnar séu ákveðinn áfangi en fleira jákvætt verður vart sagt um þessar tillögur. Þær eru því miður enn einu sinni smáskammtalækningar. Þar er tekið á bráðavanda sem safnast hefur upp vegna þess að menn hafa ekki tekið á honum jafnharðan eins og menn hefðu átt að gera. Það á að taka nokkur ár í að leysa bráðavandann, gera sérstakt átak núna á árunum 2005–2008 til að taka á bráðavandanum. En varanlega lausnin á þessu máli er ekki til staðar. Þar er eingöngu talað um að árlegur ábati sveitarfélaganna verði um 1,5 milljarður kr. Það er auðvitað ekki viðsættanlegt til framtíðar. Ég óttast, frú forseti, að tillögur tekjustofnanefndar tryggi ekki þá sátt sem nauðsynleg er til að við náum þeim mikilvæga áfanga í að efla sveitarstjórnarstigið að sveitarfélögin verði stærri og öflugri. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að það er vissulega er einn angi af byggðamálunum. Og líklega væri það eitt stærsta byggðamálið og raunhæfasta til að efla byggðirnar og styrkja landsbyggðina. En þá þurfum við að tryggja traust milli sveitarstjórnarstigsins og ríkisvaldsins. Ég óttast að þessar tillögur nái ekki að byggja upp slíkt traust. Við munum því ekki ná eins stórum og miklum áfanga í sameiningu sveitarfélaga og við þyrftum að gera.

Það er einnig nauðsynlegt að velta aðeins fyrir sér verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og þeirri ágætu verkefnisstjórn sem hafði umsjón með því verki. Vissulega er það rétt hjá hæstv. ráðherra að nokkrir málaflokkar hafa verið ræddir og ýmislegt verið reifað í þeim efnum. Jafnframt höfðu allir þann skilning á því máli að einhverjar áfangaskýrslur mundu koma áður en endanleg niðurstaða fengist í málið. Þær áfangaskýrslur hafa hins vegar ekki komið. Það hefur ekki náðst neitt samkomulag um neitt annað en að láta málið bíða. Þetta er grundvöllur þess að við getum skapað sveitarstjórnarstiginu viðunandi stöðu, þ.e. að það liggi fyrir hvaða verkefni við ætlum að flytja. Hvaða tekjur þurfa að fylgja með og hve stór þurfa sveitarfélögin þá að vera? Við vitum, þrátt fyrir að við ætlum, miðað við tillögur sameiningarnefndar, að fækka sveitarfélögum úr 101 í 46, að áfram verða til staðar lítil sveitarfélög sem ekki hafa burði til að taka við frekari verkefnum. Sum hver þeirra eiga nóg með það sem þau hafa nú.

Frú forseti. Hægt væri að hafa langt mál um svo mikilvægt efni, eflingu sveitarstjórnarstigsins. Vissulega væri full ástæða til að taka það fyrir lið fyrir lið. En vegna þess að hæstv. félagsmálaráðherra valdi þá leið að kynna í fyrsta skipti niðurstöður tekjustofnanefndar, þ.e. samkomulag sem þar virðist hafa orðið án þess að full samstaða sé um það, þá er auðvitað nauðsynlegt að ræða það nánar. Það sem ég gerði áðan er ég lýsti yfir vonbrigðum mínum með að tíminn, á annað ár, skuli ekki hafa verið nýttur til að stokka upp tekjustofnana. Mér skilst að öllum tillögum frá fulltrúum sveitarfélaganna um grundvallarbreytingar á því hafi í raun og veru verið hafnað af fulltrúum ríkisvaldsins. Fróðlegt væri ef hæstv. félagsmálaráðherra gæti fært rök fyrir því að fulltrúar ríkisvaldsins hafi hafnað öllum slíkum breytingum. Það hlýtur að vera nauðsynlegt, ef við ætlum að skapa frið til framtíðar, að annað form sé á þessu en er í dag.

Það er einnig óviðunandi að engin leið önnur skuli finnast en sú sem allt of oft hefur verið farin áður, að láta fjármuni eingöngu renna inn í jöfnunarsjóð. Því miður verður að taka undir það sem hér hefur komið fram, að reglur þar eru orðnar svo flóknar að það finnast ekki margir á landinu sem skilja þær til hlítar. Þeir virðast örfáir, ef þeir eru þá til, sem skilja þær algerlega til hlítar. Það er óviðunandi fyrir sveitarfélög, sem þurfa eins og aðrir aðilar að gera rekstraráætlanir fram í tímann, að búa við það ár eftir ár að geta ekki áætlað tekjur sínar úr jöfnunarsjóði og þar af leiðandi ekki gengið almennilega frá fjárhagsáætlunum sínum.

Það er þó eitt sem ekki má gleymast í umræðunni að það er augljóst mál, og það hafa allir fulltrúar samþykkt í tekjustofnanefndinni, að fjárhagslegur vandi er til staðar hjá sveitarfélögum, ella hefði nefndin ekki starfað og ella hefði nefndin ekki komist að þeim niðurstöðum sem hún hefur þó komist að.

Það er athyglisvert sem hæstv. ráðherra byrjaði á að vekja athygli á og eins og fram kom í andsvari áðan er það býsna gamalt mál, þ.e. að öll lagafrumvörp eigi að vera kostnaðarmetin. Hæstv. ráðherra hefði frekar átt að gera okkur grein fyrir því hvernig á því standi að það hefur ekki verið svo undanfarin ár. Ég er sannfærður um að ef þannig hefði verið að verki staðið hefði vinnan í tekjustofnanefndinni verið miklu léttari vegna þess að þá hefði verið hægt að koma til móts við sveitarfélögin jafnóðum, m.a. þegar ýmis skattalagafrumvörp voru í vinnslu í þinginu.

Annað sem hæstv. ráðherra fjallaði reyndar ekki mikið um en ég tel vera nokkuð mikilvægt varðar endurskoðun sveitarstjórnarlaga. Fróðlegt væri ef hæstv. ráðherra gæti farið nánar út í hverju er verið að velta fyrir sér þar. Er verið að velta fyrir sér að sveitarstjórnarlögin verði endurskoðuð með það fyrir augum að efla sveitarfélögin, að stækka sveitarfélögin, að skapa einhvern grunn í lögunum til þess, auka t.d. hvata til að sveitarfélögin verði stærri eða er verið að velta fyrir sér heildarpakkanum um hvernig við viljum sjá sveitarfélögin eftir einhvern ákveðinn árafjölda?

Ég sagði áðan að það væri sorglegt að menn fyndu ekki aðra boðlega leið en þá að auka ætíð fjármuni í jöfnunarsjóð. Þess vegna er nauðsynlegt þegar verið er að ákveða að bæta 700 millj. kr. á ári í sjóðinn að heyra frá hæstv. ráðherra hvort farið hafi verið nokkuð nánar í það hvernig úthluta eigi peningunum. Það er afar sérkennilegt og við höfum séð það því miður allt of oft að ákveðin upphæð er send í jöfnunarsjóðinn en svo er eins og enginn viti hvernig hún var fundin og hvernig eigi að fara með hana. Það er auðvitað eðlilegra að fyrst sé ákveðið hvað eigi að gera og síðan sé upphæðin fundin sem þarf til að framkvæma það sem menn vilja. En þannig hefur það ekki verið og væri fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherra geti upplýst okkur um það hvort nákvæmlega sé ákveðið hvernig 700 millj. skuli skipt á milli sveitarfélaganna, eða hvort þetta sé hin hefðbundna aðferð við að bæta fjármunum í jöfnunarsjóð, að einhver upphæð er fundin í reikningsdæmi og svo þurfa menn að finna út úr því hvernig henni verður dreift.

Einnig er athyglisvert með fasteignaskattinn að þar skuli þetta eiga að gerast í þremur áföngum og byrjað með 200 millj., svo 400 millj. og síðan 600 millj. sem síðan eigi að halda áfram. Hvaða reglur gilda um þetta? Liggur fyrir nákvæmlega á hverju ári á hverju eigi að byrja og hvernig þetta eigi að þróast og hvað skuli nákvæmlega undanskilið? Hæstv. ráðherra nefndi virkjanir. Það vekur auðvitað undrun mína að þrátt fyrir hina miklu vinnu á annað ár skuli menn ekki hafa fundið neina niðurstöðu í þeim efnum. Eins og við vitum hafa sveitarfélögin gert mjög háværar kröfur um að ekki sé gert upp á milli framkvæmda við virkjanir. Við vitum að greidd eru gjöld af ákveðnum hluta, þ.e. stöðvarhúsunum, meðan virkjanir gera það ekki. Við höfum mjög gott dæmi um þetta austur á landi þegar gömlu sveitarfélagamörkin voru. En þrátt fyrir hin nýju sveitarfélagamörk fær aðeins eitt sveitarfélag tekjur af virkjuninni þar sem stöðvarhúsið er, en það sveitarfélag sem leggur til allt vatnið, leggur til grunninn að öllu saman, fær ekkert fyrir mannvirkið sem þar er. Þetta er afar ankannalegt og það er sérkennilegt þegar menn á annað borð eru að taka á þessu að ekkert skref hafi verið stigið varðandi þetta.

Segja má að það sé fastur liður þegar eitthvað er gert í tekjustofnum sveitarfélaga að tekið sé á hinum félagslegu íbúðum og auðvitað ekkert nema gott um það að segja en eins og við vitum eru fjármunirnir komnir frá sveitarfélögunum þannig að þetta er ákveðin hringekja sem þarna á sér stað. Hins vegar er gleðilegt í þessu að settar séu reglur varðandi hinar nýju fasteignir því að þær reglur sem hafa gilt eru algerlega úreltar og væntanlega verið að stíga skref þar. En þrátt fyrir að ákveðin jákvæð skref séu stigin er heildarniðurstaðan sú að allt of stutt skref er stigið, hér er fyrst og fremst um bráðabirgðaráðstafanir að ræða sem koma því miður ekki nægjanlega til móts við sveitarfélögin, því að eins og fram hefur komið og við vitum voru þau rekin með um 3 milljarða halla árið 2003 og jafnvel með meiri halla árið 2004. Hér er hins vegar eingöngu talað um 1,5 milljarða til varanlegra bóta í fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og það er einfaldlega allt of lítið skref.

Frú forseti. Rétt að lokum vil ég aftur nálgast málið út frá því lagafrumvarpi sem hér liggur fyrir. Verið er að fresta hinni mikilvægu kosningu um sameiningu sveitarfélaga. Með þeim tillögum sem hæstv. ráðherra kynnti, en ég vil hafa þann fyrirvara á að ég hef ekki séð þær í endanlegum búningi og eingöngu hlýtt á hæstv. ráðherra og þess vegna ekki náð öllum tillögunum í smáatriðum, en því miður sýnist mér að þær tillögur séu ekki til að auka líkur á því að við náum að stíga nægilega stórt skref í sameiningu sveitarfélaga.

Eins og ég sagði áðan hefur samstarfið og vinnan í sameiningarnefndinni verið mjög gott. Tillögur sameiningarnefndar taka mið af því ástandi sem er í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og hvernig verkefnum um eflingu sveitarstjórnarstigsins hefur miðað. Mér finnst þeim hafa miðað of hægt, þ.e. á öðrum vígstöðvum en í sameiningarnefndinni. Það sem ég óttast fyrst og fremst er að þrátt fyrir að tillögur sameiningarnefndarinnar geti ekki talist mjög róttækar þó gerð sé tillaga um að menn fækki sveitarfélögunum um helming óttast ég að tillögur tekjustofnanefndar, ef ekki verða gerðar einhverjar verulegar breytingar á þeim á næsta stigi sem mér skilst að eigi að vera í lok aprílmánaðar, muni tillögurnar því miður jafnvel setja ýmsar tillögur sameiningarnefndar í loft upp. Það er ótti sem mér finnst að hæstv. ráðherra eigi að taka alvarlega og eigi að beita áhrifum sínum til að nota það svigrúm sem þó er til loka aprílmánaðar, til að reyna að stíga stærra skref, vegna þess að ég er sannfærður um og hef sagt það áður í umræðum um þessi mál að efling sveitarstjórnarstigsins er eitt af stærstu málum í íslensku samfélagi í dag og það má ekki stíga feilspor á þeirri leið. Þess vegna verða allir að leggjast á eitt við að reyna að bæta þær tillögur sem hér liggja fyrir. Ef það er hægt þegar samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga verður endurskoðaður og þegar gerð verður ný yfirlýsing um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga er það tækifæri sem verður að nota, vegna þess að það er þá það eina sem eftir er til að tryggja að sveitarstjórnarmennirnir komi með okkur. Og þannig verður það að vera, enda er þetta samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldsins og algerlega nauðsynlegt ef við ætlum að ná árangri í sameiningu sveitarfélaga að þeir tveir aðilar standi saman og vinni saman að verkinu. Þess vegna verður að nota þann stutta tíma sem þó er eftir til að byggja upp þetta mikilvæga traust á milli ríkisvaldsins og sveitarstjórnanna svo við getum tryggt að sveitarstjórnarmennirnir nái árangri. En sveitarstjórnarmennirnir verða að vera með í för og bera fyrst og fremst fram tillögurnar um sameiningu sveitarfélaga. Ef ekki er ég hræddur um að verkefnið hafi mistekist.

Ég vil endurtaka að ég er sannfærður um að hæstv. félagsmálaráðherra hefur haft fullan hug á því að láta verkefnið takast. Ég held því miður að meðreiðarsveinar hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni hafi ekki veitt honum nægan stuðning til verksins. En ég veit, frú forseti, að ýmsir aðilar í öðrum flokkum eru reiðubúnir til að standa við bakið á hæstv. ráðherra við allar góðar tillögur við að efla sveitarstjórnarstigið. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að leita þar sem stuðninginn er að finna en ekki berja hausnum við steininn þar sem menn hafa greinilega engan áhuga á verkefninu.



[11:25]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum nýtt frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum. Frumvarpið lýtur að mjög ákveðnu máli, þ.e. að fresta kjördegi varðandi sameiningu sveitarfélaga, en eins og þingmenn heyra af umræðunni snýst aðalumræðan um allt annað mál, sem er mjög eðlilegt, eða um tekjustofna ríkis og sveitarfélaga.

Aðdragandinn er sá að ákveðið var að gera átak til að efla sveitarstjórnarstigið í landinu og eins og hér hefur margoft komið fram var það gert að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sett var því í gang umfangsmikil vinna um átakið vegna óska Sambands íslenskra sveitarfélaga, þ.e. sveitarstjórnarmannanna, um að efla sveitarstjórnarstigið. Settar voru upp dagsetningar og ákveðinn taktur var í vinnunni, nefndarskipanir og annað en nú hefur komið í ljós að fresta þarf ákveðnum hlutum af mjög eðlilegum ástæðum. Ég tel að frumvarpið hljóti að fá víðtæka samstöðu í þinginu af því að það leiðir af sjálfu sér að fresta þarf dagsetningum á sameiningarkosningum sökum þess hvað komið er nálægt þeim í tíma í augnablikinu. Í dag stendur í bráðabirgðaákvæði III í núgildandi lögum að kjósa eigi 23. apríl 2005 og það er of skammur tími til stefnu, eins og fram hefur komið.

Ástæðurnar eru auðvitað þær að það tók lengri tíma en gert var ráð fyrir að ná saman í tekjustofnanefndinni um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og af þeim sökum hefur dregist að sameiningarnefnd kynni endanlegar tillögur sínar. Það er því mjög eðlilegt að fresta þurfi kosningum og ég á von á því að menn geti náð saman um það. Það er brýnt að ná lögunum í gegn á tiltölulega skömmum tíma svo menn geti farið að undirbúa að setja samninganefndirnar af stað og auglýsa þá dagsetningu sem menn velja á hverju svæði fyrir sig varðandi kosningar um sameiningu sveitarfélaga. Það má því segja að því fyrr sem við náum málinu í gegn í þinginu því betra.

Frumvarpið er alls ekki stórt í sniðum heldur einungis þrjár greinar og skýrir sig að mestu leyti sjálft.

Á morgun mun sameiningarnefnd kynna tillögur að breyttri sveitarfélagaskipan á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga og ég bíð mjög spennt eftir að fá að sjá þær tillögur. Fyrir nokkrum árum þegar sú er hér stendur var í sveitarstjórn voru sveitarfélögin á Íslandi í kringum 200 og á þeim tíma voru sveitarfélögin t.d. í Færeyjum um 50 talsins, að mig minnir, og maður hló að því að það væru 50 sveitarfélög í Færeyjum. En það er alveg jafnmikið hlátursefni að það voru 200 sveitarfélög á Íslandi á þeim tíma. Það eru auðvitað allt of mörg sveitarfélög. Í dag eru sveitarfélögin í kringum 100. Það eru líka allt of mörg sveitarfélög og samstaða um að fækka þeim. Menn hafa nefnt ýmsar tölur í því sambandi. Ég vil sérstaklega vekja athygli á yfirlýsingu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar en mér skilst að hann hafi séð fyrir sér að sveitarfélögin á Íslandi gætu verið 12–14. Ég held að það sé nokkuð langt gengið og ímynda mér að ef það yrði niðurstaða yrði líklega um að ræða þrjú stjórnsýslustig á Íslandi, þ.e. það yrði einhver neðri stjórnsýsla fyrir neðan þessi 12–14 sveitarfélög sem yrðu svo geysilega stór. Ég á því ekki von á því að við sjáum 12–14 sveitarfélög á Íslandi í nánustu framtíð, en þetta kom alla vega fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir stuttu í umræðum einhvers staðar opinberlega.

Í haust voru kynntar tillögur að 39 sveitarfélögum frá sameiningarnefnd. Ég fór á kynningarfundinn og leist vel á þær tillögur en mér skilst að á morgun verði kynntar tillögur sem sýna 46 sveitarfélög. Þau eru því orðin aðeins fleiri en það er auðvitað stórkostlegur árangur ef það næst í gegn í kosningum að ná sveitarfélögunum úr um það bil 100 niður í 46. Það er helmingsfækkun þannig að þá erum við komin mjög langt á leið með að ná fram ásættanlegri stærð af sveitarfélögum miðað við nútímann.

Í vinnu sameiningarnefndar var það skoðað á sínum tíma hvað sveitarfélögin þyrftu að vera stór til þess að vera sæmilega lífvænleg. Auðvitað er mjög erfitt að slá einhverri tölu á það. Það voru færð viss rök fyrir því að íbúatalan 1.500 væri nægileg til að geta borið þau verkefni sem sveitarfélögin sinna í dag, og var þá sérstaklega tilgreint að íbúatalan 1.500 gæti t.d. staðið ágætlega að barnaverndarmálum, félagsþjónustu o.s.frv.

Það er mjög mikilvægt að sameiningaráformin geti komist til framkvæmda sem fyrst og því er mikilvægt að við samþykkjum þetta frumvarp sem fyrst svo hægt sé að fara að auglýsa útlínur að nýjum sveitarfélögum og leyfa fólkinu síðan að taka upplýsta ákvörðun í framhaldi af því.

Menn spyrja af hverju verkefninu hafi seinkað og það er ósköp eðlilegt. Ef við horfum til baka þá er alveg ljóst að það að færa verkefni á milli ríkis og sveitarfélaga er mjög flókið mál og það á að vera flókið mál. Eðli málsins samkvæmt hlýtur það að vera flókið. Við höfum ákveðna reynslu af því og ég vil nefna hér sérstaklega reynsluna af færslu grunnskólans frá ríkinu til sveitarfélaga sem menn voru sammála um að fara í. Þá var samið um tilfærslu á tekjustofnum og á þeim tíma var þokkaleg sátt um að þeir tekjustofnar sem fóru yfir væru eðlilegir og réttlátir. Auðvitað voru einhverjar raddir uppi um að þetta væru allt of litlir peningar, það koma alltaf einhverjar slíkar raddir upp, en alla vega náðust samningar.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og sveitarfélögin hafa að mörgu leyti borið sig illa undan því hvað grunnskólinn hefur kostað þau mikið. Þau hafa líka mjög mörg verið að setja miklu meira fjármagn í grunnskólann en lög gera ráð fyrir, þannig að hluti af ástæðunni fyrir umkvörtunarefni sveitarfélaganna er að vissu leyti þeim sjálfum að kenna. Til dæmis er ljóst að sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarinnar sem maður hefur heimsótt sem þingmaður á því svæði eru að setja mun meira fjármagn í grunnskólann en lög gera ráð fyrir og krafist er af þeim. Þau gera það af fúsum og frjálsum vilja af því að þau vilja keppa um íbúa sín á milli og bjóða þar af leiðandi upp á glæsilegt skólastarf. Þetta er mjög vandmeðfarið.

Það var líka mjög mikil vinna í gangi í tíð fyrrverandi félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, og þá munaði litlu að málefni fatlaðra yrðu færð yfir til sveitarfélaganna. Búið var að vinna mjög mikið í því máli en það strandaði að lokum einmitt á fjármagni. Þetta er því mjög flókið. Kannski má segja að fyrstu plön varðandi taktinn í því að efla sveitarfélögin núna í því átaki sem hér er til umræðu hafi að mörgu leyti verið bjartsýn, þannig að mér finnst ekki skrýtið að það þurfi að fresta þessu aðeins. Aðalatriðið er að verkefnið haldi áfram og leiði til góðrar niðurstöðu. Ef tekst að fækka sveitarfélögunum um helming þá er strax geysilega miklum árangri náð þar, hvað þá ef tekst að færa til verkefni líka og bæta tekjustofnana.

Það eru mörg mál sem hafa komið hér til umræðu og ég ætla að minnast í örfáum orðum á nokkur þeirra. Komið hefur fram að öll lagafrumvörp og reglugerðir sem snúa að sveitarfélögunum verði kostnaðarmetin og það á að gerast strax á næsta ári. Búið er að gera tilraunir í þessu sambandi bæði hjá umhverfisráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu. Þetta er nokkuð flókið, ég verð að viðurkenna það, og á sínum tíma fundum við fyrir því í umhverfisráðuneytinu að það er mjög erfitt að nálgast þetta verkefni af því að það er svo erfitt að meta kostnaðinn þegar maður veit ekki hvaða lausnir sveitarfélögin sjálf ætla að fara í. Það er mjög erfitt að meta kostnaðinn af því vegna þess að sveitarfélögin hafa að vissu leyti fengið frjálsar hendur um hvernig þau leysa verkefnin. En ég tel eðlilegt að þetta verði gert og menn verða þá bara að sjá kostnaðarmatið hlaupa á einhverju bili til að reyna að nálgast sannleikann varðandi það.

Það var líka athyglisvert að koma á upp starfshóp sem á að athuga hvort gerðar hafi verið of kostnaðarsamar kröfur til sveitarfélaganna og ég tel eðlilegt að það verði gert. Einnig á að endurskoða lögin um sveitarfélögin til þess að tryggja vandaða fjárstjórn. Það er mjög eðlilegt að það sé gert af því að við vitum að þó að sveitarfélögin reyni að standa sig vel þá er mjög brýnt að reglur varðandi fjárstjórn séu mjög góðar. Það er eðlilegt að menn líti til Norðurlandanna í því sambandi eins og komið hefur fram að gert verði. Ég styð það alveg eindregið.

Ég vil líka nefna hér aðeins vinnu tekjustofnanefndar. Það hefur komið fram að sú vinna hefur sýnt fram á að það er mjög mikill aðstöðumunur á milli sveitarfélaga, þau eru mjög ólík í eðli sínu. Sú sem hér stendur býr í sveitarfélaginu Seltjarnarnesbæ sem er minnsta sveitarfélag í landinu, 2 ferkílómetrar, og þar er bara uppselt. Þar er búið að byggja nánast alls staðar sem hægt er að byggja, fyrsta sveitarfélagið sem lendir í landþröng. Þar búa í kringum 4.500 íbúar en þar eru afar fá atvinnutækifæri. Það er mjög eðlisólíkt mörgum öðrum sveitarfélögum í landinu og maður skilur auðvitað að það gilda allt önnur lögmál um tekjustofna í slíku sveitarfélagi heldur en í mörgum öðrum sveitarfélögum.

Á sínum tíma þegar aðstöðugjaldið, sem tekið var af fyrirtækjum, var fellt niður og útsvarið var hækkað — það var sett gólf á útsvarið á sínum tíma — þá stórgræddi Seltjarnarnesbær. Það var vegna þess að það tapaðist svo lítið þegar aðstöðugjöldin voru felld niður, aðstöðugjöldin voru svo lítil af því að þar voru svo fá fyrirtæki. Á sama hátt hækkuðu tekjurnar, þær jukust svo mikið af því að útsvarið var hækkað og það býr frekar tekjuhátt fólk í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið græddi — og ég vil leyfa mér að nota orðið græddi — af því að tekjurnar jukust um 10% bara við þetta. Á hverju ári fékk Seltjarnarnesbær 10% í kassann út af þessari breytingu á meðan flest sveitarfélög fóru hugsanlega mun verr út úr þessu þótt ekkert þeirra tapaði kannski beint á breytingunni. En vegna eðlismunar sveitarfélaganna er auðvitað mjög mikilvægt að skoða tekjustofnana sem geta að einhverju leyti verið sveigjanlegir og þess vegna kemur jöfnunarsjóðurinn inn. (Gripið fram í.) Ég heyri að sumir hafa mikið horn í síðu jöfnunarsjóðsins en auðvitað er hann réttlætanlegur af því að það er svo mikill eðlismunur á sveitarfélögunum.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur farið hér í greinargóðu máli yfir þær tekjur sem nú munu færast bæði á milli ríkis og sveitarfélaga og innan sveitarfélaganna. Upphæðin hleypur á u.þ.b. 9 milljörðum samtals og stjórnarandstaðan hefur talað um að þetta sé hungurlús. Ég mótmæli því, ég tel ekki að þetta sé hungurlús, að ekki sé hægt að tala um upphæð sem hleypur á milljörðum sem einhverja hungurlús. Menn verða að muna að það fjármagn sem fer frá ríki til sveitarfélaga er ekki fjármagn sem verður til í einhverju ráðuneyti eða dettur af himnum ofan, þetta eru auðvitað skattpeningar borgaranna. Okkur ber skylda til að fara vel með þetta fjármagn og nota það á skynsamlegan hátt.

Miðað við þær tillögur sem liggja fyrir sé ég ekki annað en að þetta séu skynsamlegar tillögur og það sé vel hægt að líta á þær sem mjög gott skref inn í það átak sem við erum að vinna í, þ.e. að efla sveitarfélögin. Þetta er mjög gott skref. Ég sé í séráliti Lúðvíks Geirssonar, bæjarstjóra í Hafnarfirði, að hann talar um að þetta sé áfangi … (Gripið fram í.) Nú, ég hélt að búið væri að birta það. Þá er best að vitna ekki í það ef svo er ekki, en alla vega skilst mér að sérálitið sé nokkuð á þeim nótum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa talað hér þannig að það fer alveg saman. En ég skal ekki vitna í það ef það er ekki orðið opinbert enn þá.

Það er skiljanlegt að mörgum þingmönnum sé heitt í hamsi og það er vegna þess að þeir eru margir sveitarstjórnarmenn sjálfir og þekkja þetta mál mjög vel og hafa margoft farið í gegnum þessa umræðu. Auðvitað vilja allir sveitarstjórnarmenn hafa góða tekjustofna, að sjálfsögðu. (Gripið fram í.) — Er þetta orðið opinbert? Það er nú gott. Þá er best að ég vitni í hið opinbera sérálit Lúðvíks Geirssonar. Í því séráliti segir hann að þetta sé ákveðinn áfangi, þ.e. þessi niðurstaða tekjustofnanefndar, en er ekki ánægður með niðurstöðuna samt og hefði viljað sjá miklu meira o.s.frv. Þetta er á svipuðum nótum og þingmenn hafa talað hér. Ég tel að þetta sé mjög góður áfangi og okkur ber skylda til þess að nýta fjármagnið skynsamlega, þetta eru skattpeningar borgaranna. Við vitum að það eru mörg verkefni sem þarf að leysa í samfélaginu, svo sem í vegamálum, í heilbrigðismálunum, í menntakerfinu o.s.frv. Við gætum nýtt þessar krónur margoft ef allir fengju það sem þeir vildu en þannig er nú ekki raunveruleikinn. Ég tel að þær upphæðir sem hér hefur verið sagt frá og kynntar séu ásættanleg niðurstaða.

Ég tel að við getum skoðað þetta mál nokkuð hratt í félagsmálanefnd vegna þess að frumvarpið er ekki umfangsmikið. Það er reyndar mjög skýrt og einfalt í sniðum. Þó að menn séu mjög ósáttir við niðurstöðu í öðrum málum sem snúa að þessu eins og í tekjustofnamálunum, ég heyri að stjórnarandstaðan er ekki sátt við það, þá tel ég að það eigi ekki að hafa áhrif á vinnslu málsins í félagsmálanefnd af því að allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að það þarf að fresta kosningunum og það er öllum í hag, líka þeim sem ósáttir eru við niðurstöðu tekjustofnanefndar.

Það er eitt atriði í frumvarpinu sem ég mun láta skoða sérstaklega í félagsmálanefnd og það kemur fram hér í b-lið 1. gr., en þar segir:

„Við málsgreinina bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. þessarar málsgreinar getur samstarfsnefnd, sbr. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum, ákveðið með auknum meiri hluta atkvæða og að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið að atkvæðagreiðsla fari fram fyrir þann tíma, enda sé það mat nefndarinnar að tillaga um sameiningu viðkomandi sveitarfélaga fái næga kynningu meðal íbúa fyrir kjördag.“

Það kemur fram hér að hægt sé með auknum meiri hluta atkvæða að ákveða kjördag fyrir 8. október, þ.e. að flýta kjördegi, og það getur vel verið að einhverjir vilji gera það. Mér finnst mjög gott að það hafi orðið niðurstaða í lagasmíðinni að binda hann ekki algjörlega við einn dag, 8. október, heldur gefa þetta svigrúm. Þetta er mikið valfrelsi eins og einhver sagði og bætti svo við að orðið „valfrelsi“ væri ómögulegt orð, það væri mikið val eða mikið frelsi en ekki valfrelsi. En það sem ég var að velta fyrir mér eru orðin „með auknum meiri hluta“ af því að í athugasemdum við frumvarpið stendur:

„Skal nefndin hafa samráð við félagsmálaráðuneytið um þá ákvörðun og skilyrði er að slík samþykkt hljóti stuðning aukins meiri hluta nefndarmanna, þ.e. tvo þriðju hluta greiddra atkvæða.“

Ég hef velt því fyrir mér hvort nægjanlegt sé að orða þetta svona í lagagreininni „með auknum meiri hluta“ eða hvort þar þurfi að standa með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða. Ég mun láta skoða það sérstaklega í félagsmálanefnd en það má vera að þetta sé almennt gert svona í öðrum lögum þar sem þarf aukinn meiri hluta þó að það sé afar sjaldgæft að þess þurfi. En mun ég láta skoða þetta sérstaklega.

Það er vilji minn að ná þessu máli í gegn helst fyrir páska. Það væri auðvitað mjög æskilegt ef hægt væri að koma því til nefndar sem fyrst, á mánudaginn eða á hefðbundnum tíma á þriðjudaginn, fá þangað gesti, taka málið til skoðunar og afgreiða það strax út úr nefnd þannig að hægt væri að gera það að lögum jafnvel fyrir páska eða strax á fyrsta degi eftir páska. Ég byggi þá skoðun mína á því að það er mjög mikilvægt fyrir alla aðila að þeir fari sem fyrst að undirbúa þessar kosningar og að hægt sé að senda bréf til sveitarfélaganna, til þeirra nefnda sem eiga að sjá um kosningarnar. Það er mjög brýnt að skapað verði rými til að senda þetta sem allra fyrst. Ég beini því til stjórnarandstöðunnar að íhuga það hvort hún sé ekki sammála því mati að æskilegt sé að klára þetta sem fyrst af því að ég tel að það séu ekki pólitískar átakalínur um frestunina. Það eru pólitískar átakalínur um allt annað sem snýr ekki að þessu frumvarpi.



[11:45]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að það er engin ástæða út af fyrir sig til þess að tefja þetta mál hér í þinginu. Málið sem slíkt er afskaplega einfalt, og eðlilegt að reynt verði að hraða því í gegn eins og kostur er.

Mér fannst hins vegar, og það vakti athygli mína, ekki koma fram í máli hv. þingmanns nægilegur metnaður varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins. Hv. þingmaður vitnaði til orða, í viðtal væntanlega sem haft var við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, varðandi þá framtíðarsýn hans að við gætum séð á landinu 12–14 sveitarfélög. Ég held að það sé nákvæmlega sú framtíðarsýn sem við eigum að horfa til, að fækka sveitarfélögunum svo mikið, en vissulega þarf þá að gera ýmsar breytingar. Þá yrði eðlilegt að horfa til þess að settar yrðu — ja, menn hafa leikið sér með alls konar orð á því — hreppsstjórnir, þorpsstjórnir, hverfastjórnir, eða hreppsnefndir sem er hið gamla heiti sem við gætum þá endurlífgað, um ákveðna málaflokka á ákveðnum svæðum.

Það eru ýmsar leiðir til þess ef við viljum í raun og veru efla sveitarfélögin. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að það kom fram að þegar hv. þingmaður var sveitarstjórnarmaður hefðu sveitarfélögin verið rúmlega 200. Ef tillögur sameiningarnefndar ganga fram erum við búin að fækka þeim niður fyrir 50. Ef við náum því fram er ekkert voðalega langt í að við getum farið í 12–14. Það er kannski ekkert lengri tími en liðinn er frá því að hv. þingmaður var í sveitarstjórn, það er álíka hlutfall þarna á milli.

Ég held, og ég held að það hafi komið fram í máli hv. þingmanns, að með því að taka þessi litlu hænufet sem við höfum verið að gera allt of oft á undanförnum árum, bæði varðandi sameiningu sveitarfélaga og síðan þegar við lendum í tekjustofnunum, lendum við í vanda. Hv. þingmaður tók ágætt dæmi um það að við lendum alltaf í slíkum vanda eins og var með aðstöðugjaldið. Aðstæður sveitarfélaganna eru svo mismunandi, og ef við ætlum okkur í raun og veru að leysa þennan vanda með tekjustofnana til framtíðar þurfum við að horfa til þess að fækka sveitarfélögunum í 12–14, 10–15. Það er tala af þeirri stærðargráðu sem ég held að við þurfum að stefna að ef við ætlum okkur að leysa þetta flókna mál sem hárrétt er hjá hv. þingmanni að er mjög flókið, sérstaklega þegar við tökum skrefin svona lítil og smá.



[11:47]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé mjög mikill metnaður á ferðinni og það að ná sveitarfélögunum ofan í u.þ.b. 50 er geysilega öflugt og mikið skref. Ég tel ekki hægt að segja sem svo að það sé línuleg nálgun í málinu, þ.e. að á ákveðnu árabili fækki sveitarfélögunum bara um helming, þ.e. úr 200 í 100, úr 100 í 50, úr 50 í 25, og svo í hvað? (Gripið fram í.) Já, nákvæmlega. Ég sé ekki hlutina í þessu einfalda ljósi.

Ef við mundum fækka sveitarfélögunum ofan í 12–14 án þess að við sæjum verulegar breytingar í búsetu á Íslandi tel ég að með svo fáum sveitarfélögum, 12–14 á Íslandi, værum við komin með þriðja stjórnsýslustigið. Ég er ekki talsmaður þess og ég hef ekki heyrt frá Samfylkingunni að hún vilji þriðja stjórnsýslustigið.

Það eru þrjú stjórnsýslustig í nágrannalöndum okkar, það eru lén í Noregi, fylki í Svíþjóð og ömt í Danmörku. Ef við höfum 12–14 sveitarfélög, og þá höfum við þessar þorpsstjórnir eða hreppsstjórnir sem hv. þingmaður Einar Már Sigurðarson lýsti hérna áðan, erum við komin með svona þrjú stjórnsýslustig. Ég er sem sagt ekki fylgjandi því. Það eru einhver takmörk fyrir því hvað við getum farið neðarlega í fjölda sveitarfélaga miðað við núverandi íbúamynstur og það íbúamynstur sem við sjáum fyrir okkur næstu — ja, ég þori varla að segja áratugina, maður veit ekki hvað hlutirnir breytast hratt, en næstu árin. Ég tel óraunhæft að tala um svona fá sveitarfélög, 12–14, það er bara óraunhæft. Þá lendum við í stökustu vandræðum með stjórnsýsluna þannig að ég tel ekki réttlætanlegt að gera það.

Ef það gengur hins vegar mjög illa að sameina sveitarfélögin þurfa menn auðvitað að fara að skoða hvort eigi að fara að setja lög. Ég vona að sveitarfélögin samþykki þær góðu tillögur sem verða sýndar á morgun.



[11:49]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það hvað hv. þingmaður horfir skammt og virðist ekki komast út úr því sem er í dag. Það er töluvert ferli að geta komið sér út úr nákvæmlega því sem er að gerast í dag og horfa svolítið vel til framtíðar um það hvernig við viljum hafa hana. (SF: Hvaða ár?) Það er ekkert vandamál, við getum verið að tala um 10 ár þess vegna, eitthvað svoleiðis, sem við erum að spekúlera í fram í tímann, en ekki á morgun, ég er alveg sannfærður um að þetta þarf að gerast á lengri tíma. Við þurfum samt að byrja á því að stefna að hlutunum og það er það sem ég er að tala um.

Ég tek ekki undir með hv. þingmanni að það sé eitthvert vandamál að vera með það fyrirkomulag í því munstri sem við höfum því að það eru ýmsar leiðir í því að auka íbúalýðræðið. Ég sé þetta í tengslum við það að færa stórlega verkefnin frá ríkisvaldinu til sveitarfélaganna. Um það snýst málið. Við getum tekið dæmi úr grunnskólanum, hv. þingmaður nefndi hann, það er algjörlega borðleggjandi í dag að framhaldsskólinn á að vera hjá sveitarfélögunum. Framhaldsskólinn er í dag orðinn raunverulega svipaður því sem grunnskólinn var fyrir ekkert mjög löngu. Þetta er nærþjónusta sem á heima hjá sveitarfélögunum (Forseti hringir.) en það er ekki hægt að færa hann til sveitarfélaganna af því að sveitarfélögin eru allt of lítil til að taka við honum.



[11:50]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel bara að þetta skapi þrjú stjórnsýslustig. Hv. þingmaður nefndi 12–14 sveitarfélög eftir 10 ár. Ég tel að það sé algjörlega óraunhæft.

Ef verkefni eru færð til sveitarfélaga, sem stefnt er að, til þessara fáu, 12–14, mundu þorpsstjórnirnar eða hreppsstjórnirnar sem hv. þingmaður bendir á, vilja fá eitthvert vald til sín. Annars væri valdið svo langt frá fólkinu og þá erum við komin með þrjú stjórnsýslustig sem ég tel mjög óæskilegt í okkar landi. Ég sé ekki slíka framtíð fyrir mér.

Ég vil nota tækifærið hérna og þakka hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni fyrir að hafa lýst því yfir að stjórnarandstaðan, a.m.k. Samfylkingin, sem talsmaður hennar, sjái ekki ástæðu til að tefja þetta mál hér í vinnslu þingsins, það sé bara sjálfsagt að flýta því í gegn. Ég vænti þess þá að við getum sameinast um það og gert þetta að lögum, helst fyrir páska eða strax eftir þá.



[11:52]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér talaði hv. þingmaður sem hefur reynslu af því að vera í sveitarstjórn og reka sveitarfélag og ég verð að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með þá ræðu sem hér var flutt.

Í fyrsta lagi fjallaði hv. þingmaður um tillögur tekjustofnanefndar sem við heyrðum hér í fyrsta skipti í morgun, og sá ástæðu til að segja okkur hér í þingheimi að peningar yxu ekki í ráðuneytum. Ég held að flestir geri sér grein fyrir því að það gera þeir ekki. Hv. þingmaður sagði að það yrði að nýta fjármuni ríkisins skynsamlega, við yrðum að gera okkur grein fyrir því að þetta væru skattpeningar borgaranna, og ég gat helst skilið á hv. þingmanni að það væri ekki skynsamleg ráðstöfun að sveitarfélögin fengju tekjur úr hinum sameiginlega sjóði til að standa undir þeim lögboðnu verkefnum sem þau eiga að sinna. Verð ég að segja að ég var ansi hissa á að heyra svona fornaldarlegt sjónarmið en það er sjónarmið sem hefur kannski talsvert verið uppi í tekjustofnanefndinni hjá fulltrúum ríkisins, að þeir séu að verja einhverja fjármuni sem ríkið eigi fyrir þessum sveitarfélögum sem endilega vilja komast yfir peningana.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um nauðsyn þess að efla sveitarstjórnarstigið og allir eru sammála um það. Hv. þingmaður fellur í þá gryfju að halda að efling sveitarstjórnarstigsins snúist eingöngu um að fækka sveitarfélögum. Ég get alls ekki verið sammála hv. þingmanni um það. Ég held að efling sveitarstjórnarstigsins hljóti að snúast um það að færa verkefni til sveitarfélaganna og fjármuni sem duga til þess að reka þau verkefni þannig að sveitarfélögin verði sterkari heildir og sterkari rekstrareiningar en þau eru í dag. Ég veit engin dæmi þess að ef sameinuð eru tvö eða fleiri veik sveitarfélög sem eru rekin með halla á stóru landsvæði verði þau eitthvað sterkari eða öflugri bara við það að sameinast. Ég þekki engin slík dæmi.



[11:54]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri að Jón Gunnarsson hefur eitthvað misskilið ræðu mína eða snýr út úr viljandi. Þegar ég segi að ekki sé einhver stór pottur fullur af peningum sem hægt er að nota eins og maður vill án þess að hugsa um þá sem skattpeninga borgaranna er ég ekki þar með að segja að það sé ekki skynsamlegt að sveitarfélögin fái fjármagn. Ég bara átta mig ekki á því hvernig hv. þingmaður gat heyrt það út úr orðum mínum. Ég sagði einmitt að ég fagnaði tillögum hæstv. félagsmálaráðherra sem fela í sér margra milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég fagnaði því þannig að ég er alls ekki á móti því að sveitarfélögin fái aukið fjármagn. Ég átta mig ekki á hvernig hv. þingmaður gat heyrt það út úr ræðu minni, alls ekki.

Menn þurfa hins vegar að semja og það er það sem verið er að gera. Það er auðvitað eðlilegt að sveitarfélögin sæki á ríkið og það er eðlilegt að ríkið verjist líka. Menn verða að mætast einhvers staðar á miðri leið og það er það sem er verið að reyna. Nú er komin lausn varðandi þessa tekjustofna og ýmis lagafrumvörp eiga eftir að fara í gegn sem snúa að þessu samkomulagi.

Ég hef heldur aldrei sagt, mér dettur ekki í hug að segja það, að efling sveitarstjórnarstigsins felist bara í því að fækka sveitarfélögum. Það er alls ekki þannig, það er miklu meira. Það felst líka í því að færa verkefni og tekjustofna á milli. Það er verið að skoða það einmitt í þessari verkaskiptanefnd.

Þetta eru alls ekki einföld mál. Hins vegar er ég alveg viss um að með því að fækka sveitarfélögum á Íslandi eflast þau. Það er samt ekki þannig að það sé bara það, það þarf miklu meira til. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það að sameina tvö mjög veik sveitarfélög hefur ekkert upp á sig. Það þarf að skoða verkefnin og tekjustofnana en við erum með of mörg sveitarfélög í dag og ég veit að Samfylkingin er sammála því.



[11:56]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé að ég og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir verðum bara að setjast niður yfir ræðu hennar þegar búið verður að skrifa hana upp og fara yfir hvað ég hef misskilið í henni. Ég kannast ekki við að ég hafi í sjálfu sér misskilið þá ræðu og mér fannst hv. þingmaður staðfesta það í andsvari sínu þegar hún talaði um að hér væri um að ræða milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég lít ekki á þetta sem milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég lít á þetta sem tekjur fyrir sveitarfélögin og þarna held ég að skilningur okkar á því sem um er að ræða kristallist kannski, þ.e. í orðanotkun í sambandi við tekjur til sveitarfélaga og skiptingu opinberra tekna milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég sat fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í haust og þar komu fram mjög sterkar kröfur um hvað þyrfti til til að sveitarfélögin yrðu rekstrarhæfar einingar. Þær tillögur sem hér liggja fyrir eru í engum dúr við þær sjálfsögðu óskir og kröfur sem komu fram á fjármálaráðstefnunni og ég verð afskaplega hissa ef einhverjir fulltrúar sveitarfélaganna sem þar töluðu og voru í þessari nefnd ætla að styðja þessar tillögur, og spyr hv. þingmann: Telur hún nægjanlega að gert nú?



[11:57]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þm. Jóni Gunnarssyni líður betur með það að ég segi að þetta séu milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð og á sama tíma milljarða tekjur fyrir sveitarstjórnir get ég alveg gert það. Mér finnst það bara ekki skipta öllu máli.

Hv. þingmaður spurði hvort mér þættu þessar tillögur ásættanlegar eða gæti lifað við þær, og ég segi já. Mér finnst þessar tillögur góðar. Það er mjög erfitt að breyta tekjustofnum, við vitum það, og það hefur gengið mjög illa að gera það vegna eðlis sveitarfélaga. Ég lýsti hérna hvernig Seltjarnarnes fékk 40 millj. kr. aukreitis í vasann þegar aðstöðugjaldinu var breytt, 40 millj. á ári á meðan önnur fóru allt öðruvísi út úr því.

Niðurstaðan sem var fengin núna er sú að þéttbýlu sveitarfélögin fá ákveðna hluti í gegnum fasteignaskattana en dreifbýlu sveitarfélögin fá fjármuni í gegnum jöfnunarsjóðinn og húsnæðiskerfið. Það var reynt að finna leið þannig að allir fengju eitthvað.



[11:59]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem er til umfjöllunar ætti ekki að þurfa að valda miklum deilum og sjálfsagt er að það hljóti afgreiðslu hið allra fyrsta. Það fjallar í raun ekki um annað en að slá á frest kosningu um sameiningu sveitarfélaga. Ástæðan er að hluta til sleifarlag ríkisstjórnarinnar við sameiningarvinnuna og undirbúningsvinnuna, enda segir í greinargerð m.a., með leyfi forseta:

„Ástæðan fyrir því að færa þarf kosningadag fram til haustsins 2005 er tvíþætt: Annars vegar tók lengri tíma en gert var ráð fyrir að ná samkomulagi í tekjustofnanefnd um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og því dróst að sameiningarnefnd kynnti endanlegar tillögur sínar.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar er ástæðan sú að undirbúningur atkvæðagreiðslu um tillögur sameiningarnefndar er kominn misjafnlega vel á veg á einstökum svæðum.“

Við þessu er ekkert að segja. Þetta eru staðreyndir máls og að sjálfsögðu er eðlilegt að menn samþykki þessar breytingar á sveitarstjórnarlögum þar sem gert er ráð fyrir að fresta þessari kosningu. Um það ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð.

Menn hafa hins vegar haft nokkuð mörg orð í tengslum við þessa umræðu og ástæðan er að sjálfsögðu sú að þetta er hluti af mun stærra máli. Allar götur frá því í ágúst árið 2003 hefur í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar verið unnið að sameiningu sveitarfélaganna í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga sem einnig hefur sett sér það markmið að stuðla að slíkri sameiningu. Því miður verður að segjast eins og er að aðkoma ríkisstjórnarinnar að sameiningarferlinu hefur ekki verið sem skyldi. Að sjálfsögðu hefur þar sumt verið ágætlega gert en í öðrum efnum illa og sumt er mjög ámælisvert.

Það er tvennt sem ég vildi vekja máls á í sambandi við þá umræðu og má sameina það undir heitinu reglustikuaðferðin. Menn hugsa þessi sameiningarmál mjög í svart/hvítu. Það er annaðhvort eða. Menn sjá ekki möguleika á millistigum. Ég ætla að taka dæmi. Það er rætt um að sameina nánast allt Snæfellsnesið í eitt sveitarfélagi. Það er nokkuð sem ég hef ákveðnar efasemdir um. Ég hef hlustað á sveitarstjórnarmenn á Snæfellsnesi setja fram rökstuddar efasemdir hvað þetta snertir. Þá spyr maður sjálfan sig: Hvers vegna eru ekki skoðaðar millileiðir, vegna þess að það gefur augaleið að í sumum tilvikum getur það verið til hagsbóta fyrir sveitarfélögin að sameinast um tiltekin rekstrarverkefni, hugsanlega sem lúta að sorphirðu svo maður taki dæmi héðan af höfuðborgarsvæðinu eða almenningssamgöngum? Hér hafa menn myndað byggðasamlög um slík verkefni og spurning er hvort slíkt væri ekki hægt á Snæfellsnesi svo annað dæmi sé tekið þannig að við stillum fólki ekki upp gagnvart valkostinum annaðhvort eða. Reyndar tel ég að byggðasamlagsrekstrarformið sé að mörgu leyti gallað og það ætti að vera úrlausnarefni fyrir Alþingi að finna fyrirtæki eða rekstrarfyrirkomulag sem sameinaði í eitt kosti hlutafélagsins og kosti ríkisreksturs. Byggðasamlagið gerir það ekki að öllu leyti.

Það áhersluatriði sem ég vildi setja fram hér er þetta: Við eigum ekki að stilla fólki upp gagnvart valkostinum annaðhvort eða. Það er hægt að fara ýmsar millileiðir. Í þessu samstarfi hefur sú hugsun hins vegar ekki fengið að njóta sín. Menn hugsa þetta allt samkvæmt reglustiku og stundum og í allt of ríkum mæli úr fjarlægð, því miður.

Hitt atriðið sem fellur undir reglustikuaðferðina er sýnu verra. Það er sú valdstjórnarárátta sem er augljós í öllu þessu ferli, að slá á puttana á fólki með reglustiku. Þetta er augljóst í öllu þessu ferli. Hvernig gerist það? Í fyrsta lagi er sameiningarnefndinni sem hefur undirbúning að sameiningu sveitarfélaga með höndum og undirbúning að kosningum með höndum fært mjög mikið og lögbundið vald í hendur. Hún stillir upp valkostum sem fólk síðan stendur frammi fyrir. Ef fólkið ekki kýs í samræmi við þær niðurstöður sem sameiningarnefndin vill fá þá eru höfð uppi sömu vinnubrögð og tíðkast í Evrópusambandinu gagnvart kjósendum, að það er bara kosið þangað til rétt niðurstaða er fengin.

Í lögum um sveitarstjórnarmál segir, með leyfi forseta:

„Sameiningarnefnd getur ákveðið að leggja fram nýja tillögu um sameiningu sveitarfélaga ef tillaga nefndarinnar er felld í atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðsla um þá tillögu skal fara fram á tímabilinu október 2005 til janúar 2006 og skal gera nýja kjörskrá ...“

Með öðrum orðum, ef fólkið kýs ekki í samræmi við það sem sameiningarnefndin ákveður þá er bara gert hið sama og laxveiðimaður gagnvart laxinum. Hann þreytir hann þangað til hann er öruggur um að ná honum á land. Þetta er hugsunin. Því miður hef ég orðið var við það einnig innan stjórnsýslunnar og innan stjórnmálanna að þeir sem ekki makka rétt fá að gjalda þess. Þeir fá að gjalda þess í framkvæmdum á vegum ríkisins á því svæði sem um er að ræða. Þetta er því miður staðreynd, nokkuð sem fram hefur komið þegar félagsmálanefnd Alþingis hefur verið kynnt þessi mál. Þetta er valdstjórnarhlið þessa máls sem ég tel afar vafasama.

Síðan er hitt. Ég gat um það áðan að átaksverkefni ríkisstjórnarinnar sem nú stendur yfir og hófst í ágústmánuði árið 2003, því fyrr hefur verið reynt að sameina sveitarfélög, byggði því miður á mjög vafasömum vinnubrögðum. Það var tekin ákvörðun um það, pólitísk ákvörðun um að halda tveimur þingflokkum utan þeirrar vinnu, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokknum. Þeir áttu að vísu að fá að sitja á áhorfendabekkjunum, í áhorfendastúkunni. Þeir máttu fylgjast með. En þeir áttu ekki að koma að nefndarvinnunni á jafnræðisgrunni. Um þetta fóru fram bréfaskriftir á milli þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs annars vegar og ríkisstjórnarinnar og sérstaklega hæstv. félagsmálaráðherra hins vegar. Hæstv. ráðherra hafnaði aðkomu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eða þingflokks hennar að þessari vinnu á jafnræðisgrundvelli. Hún mátt fylgjast með, en svona á svipuðum nótum og við erum að fá að fylgjast með því sem nú er að gerast, þ.e. að menn dreifa hér gögnum nánast um leið og Alþingi er skýrt frá málinu. Þar vísa ég í gögn sem koma frá tekjustofnanefnd.

Hins vegar verð ég að segja að mér finnst það miklum mun betra að hæstv. félagsmálaráðherra skuli þó hafa þann hátt á, og það finnst mér gott, að kynna Alþingi þessar tillögur áður en hann mætir til leiks hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og leggur þær þar á borðið. Þetta er að sjálfsögðu sú röð sem á að hafa á hlutunum, að kynna fyrst á Alþingi það sem heyrir Alþingi til.

Það er svo önnur saga og annað mál hvernig til hefur tekist í þessu starfi, hve óhönduglega hefur tekist til í öllu þessu starfi og hve miklum sjónhverfingum og blekkingum er beitt þegar ríkisstjórnin er að kynna sínar tillögur. Ég hef ekki mikla áhyggjur af því sannast sagna hvernig sú orðræða fer fram hér og nú vegna þess að við erum að tala um hluti sem snerta hag sveitarfélaganna og þeirra sem búa víðs vegar um landið svo mikið að fólk mun finna á eigin skrokki hver alvara er að baki þeim hástemmdu yfirlýsingum sem hér komu úr munni hæstv. félagsmálaráðherra um bættan hag sveitarfélaganna. Ég hef því miður miklar efasemdir um að það sem hér er verið að færa fram skipti sköpum. Ég vísa m.a. í varnaðarorð sem komið hafa frá gagnrýnum aðilum innan tekjustofnanefndar.

Við erum hér með sérálit bæjarstjórans í Hafnarfirði, Lúðvíks Geirssonar, þar sem kemur fram mjög hörð gagnrýni, mjög hörð málefnaleg gagnrýni á þær hugmyndir sem tekjustofnanefnd hefur sent frá sér. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

„Mikill einhugur hefur ríkt meðal sveitarstjórnarmanna um að afar brýnt sé að ná fram sanngjarnri leiðréttingu á tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaganna þannig að fjárhagsstaða sveitarfélaganna sé bætt og þeim tryggður aukinn og traustur tekjugrundvöllur.“

Þetta er rétt. Um þetta eru sveitarfélögin í landinu öll sammála. Við fengum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga á ráðstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar þessi vinna var að hefjast. Þá voru reistar kröfur af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem eru ekki í nokkru einasta samræmi við það sem við erum að sjá núna koma frá ríkisstjórninni. Þetta er staðreynd. Þess vegna furða ég mig á þeim linkulegu viðbrögðum sem koma víða úr þeim ranni nú. En sem betur fer eru til menn sem standa vel í lappirnar og ég er að vitna hér í álitsgerð frá Lúðvíki Geirssyni og geri það enn, með leyfi forseta:

„Það samkomulag sem nú liggur fyrir er ákveðinn áfangi en hann er langt í frá ásættanleg lausn og fullnægir engan veginn réttmætum og sanngjörnum kröfum sveitarfélaganna í landinu um leiðréttingu og jöfnuð. Enn er langt í land að tekið sé af alvöru á þeim víðtæka vanda og þröngu fjárhagsstöðu sem sveitarfélögin búa almennt við, m.a. vegna tekjuskerðingar af skattkerfisbreytingum og margvíslegum kostnaðarauka á síðustu árum, í mörgum tilfellum vegna einhliða ákvarðana ríkisvaldsins. Í þessum tillögum er engin grundvallarbreyting sem máli skiptir til að tryggja tekjugrundvöll sveitarfélaganna til framtíðar. Rétt er í því sambandi að vekja athygli á því að fulltrúar ríkisins taka það sérstaklega fram að þessar tillögur séu það ýtrasta sem hægt er að ganga á því tímabili sem um er að ræða. Þetta er skýr yfirlýsing um að hér er enn og aftur um skammtímalausnir að ræða.“

Ég er að vitna í greinargerð frá bæjarstjóranum í Hafnarfirði þar sem hann gagnrýnir harðlega vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og að hér sé einvörðungu verið í rauninni að pissa í skóinn sin. Hann segir að þetta séu skammtímalausnir, hér sé ekki hugað að framtíðarlausnum.

Hann heldur áfram, með leyfi forseta:

„Að mati undirritaðs geta sveitarfélögin ekki gengið frá þessu samningaborði nema tryggð sé árleg föst tekjuaukning fyrir utan aðrar leiðréttingar og tímabundnar aðgerðir sem þetta samkomulag felur í sér. Aðeins með þeim hætti er tryggð lágmarksleiðrétting á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.“

Síðan er vitnað í hvernig samningaviðræðurnar hafi staðið með hléum í ríflega ár og að nánast allar tillögur um úrlausnir af hálfu ríkisvaldsins hafi byggst á skammtímalausnum í stað þess að af sanngirni sé tekið og heildstætt á almennum tekjugrunni sveitarfélaganna og horft um leið til framtíðarskipunar sveitarstjórnarmála í landinu.

Ég vitna enn í bæjarstjórann, með leyfi forseta:

„Þetta er ekki niðurstaða sem sveitarstjórnir munu sætta sig við heldur enn ein bráðabirgðalausnin sem því miður mun ekki koma samskiptum ríkis og sveitarfélaga í það eðlilega og réttláta horf sem nauðsynlegt er. Má búast við í kjölfar þessa að sveitarfélögin endurmeti afstöðu sína til að taka við frekari verkefnum af ríkinu við svo búið. Með vísan til þessa get ég ekki samþykkt eða skrifað upp á þessar tillögur.“

Hér vitnaði ég í greinargerð bæjarstjórans í Hafnarfirði sem gagnrýnir mjög harðlega það sem frá ríkisstjórninni er að koma.

Í athugasemdum með frumvarpi ríkisstjórnarinnar er vísað í samningaferlið og átak hennar til að sameina sveitarfélögin. Þar segir, með leyfi forseta:

„Átakið felur einkum í sér þrennt: Að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga,“ — þetta þekkjum við — „að fækka fámennum sveitarfélögum með sameiningu sveitarfélaga“ — þetta þekkjum við — „og aðlaga tekjustofna sveitarfélaga breyttum verkefnum og breyttri sveitarfélagaskipan.“ Þetta þekkjum við einnig.

Hvernig er eðlilegt að forgangsröðin verði í þessu efni? Að sjálfsögðu þarf að byrja á því að skilgreina hvað menn vilja að verði hjá sveitarfélögunum, að skilgreina og kanna fjárþörf sveitarfélaganna. Það þekkjum við. Við þekkjum þá þörf. Síðan þarf á varanlegan hátt að tryggja þeim tekjustofna.

Hverjir skyldu hafa lagt fram tillögur í því efni? Hverjir skyldu hafa gert annað og meira en að standa hér í ræðustól og gagnrýna aðra? Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Við höfum margoft sett fram tillögur um hvernig við viljum standa að þessum málum. Við fluttum nú síðast frumvarp sem gerði ráð fyrir því að styrkja sérstaklega tekjustofna sveitarfélaganna til frambúðar. Þegar ríkisstjórnin ákvað að lækka tekjuskattshlutfallið um 2 prósentustig lögðum við fram tillögu um að heimildir sveitarstjórna til hækkunar útsvars yrðu rýmkaðar sem þessu næmi og þannig yrðu færðar frá ríki til sveitarfélaga tekjur sem kæmu til móts við þær þarfir sem sveitarfélögin hafa.

Þetta er ein tillaga af mörgum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett fram, raunhæfum tillögum til að treysta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Við teljum að ríkisstjórnin hafi staðið að verki á óábyrgan hátt. Það eru miklar sjónhverfingar, mikil leiktjöld, en þegar til kastanna kemur er innihaldið afar rýrt. Auk þess leyfi ég mér að ítreka að valdstjórnarleg aðkoma ríkisvaldsins að sameiningu sveitarfélaga er ekki til þess fallin að skapa það andrúmsloft sem leiðir til þess að fólk leiti hagkvæmustu lausnanna. Ég held ekki.

Ég held líka að við höfum í of ríkum mæli, þá beini ég því til okkar allra, hugsað þessi mál í svart/hvítum lausnum. Það eru til millilendingar, millilausnir. Sveitarfélög geta haft samstarf og samráð sín í milli um tiltekna þætti þótt þau gangi ekki í einu og öllu í sömu sængina. Þar vísa ég til samstarfsverkefna sem m.a. hefur verið stofnað til hér á höfuðborgarsvæðinu og víða um landið. Ég spyr: Hvers vegna reyna menn ekki slíkar lausnir annars staðar — ég nefndi áðan Snæfellsnesið — í stað þess að þröngva mönnum öllum í sama mótið?



[12:18]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, vinstri grænir hafa lagt fram tillögur varðandi tekjustofna sveitarfélaga. Ef allt hefði verið eðlilegt og okkur hefði tekist að ræða þau mál, vegna þess að það mál var á dagskrá, hefðum við getað gert það í fyrradag.

Frumvarp vinstri grænna er mjög skýrt. Þar kemur fram hinn pólitíski vilji vinstri grænna um það hvernig eigi að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Hér er gert ráð fyrir því að taka aftur skattalækkunina sem almenningur í landinu fær með aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Hugmynd vinstri grænna er einfaldlega sú að hækka útsvarið um 1 prósentustig. Hvaða áhrif ætli það mundi hafa? Með þeirri aðgerð væri verið að auka muninn á milli stöðu sveitarfélaganna í landinu. Þetta er aðferð til þess að búa til auknar tekjur fyrir stóru sveitarfélögin en þetta mundi engu skipta fyrir þau litlu.

Þetta er þess vegna algjör gervitillaga, tillaga sem er hins vegar mjög í anda hugmyndafræði vinstri grænna um aukna skattheimtu. Það er eina leiðin sem þeir sjá. Þeir hafa ekki þá pólitísku sýn að horfa til þess að vandi sveitarfélaganna í landinu er mismunandi. Þeir horfðu auðvitað út frá sjónarhóli sínum héðan af höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefði verið mjög fín tillaga til að auka tekjur stóru sveitarfélaganna með hærri tekjurnar en það er alveg deginum ljósara að þetta hefði engu breytt fyrir minni sveitarfélögin, hefði hins vegar haft það í för með sér að svigrúmið til að koma til móts við sjónarmið minni sveitarfélaganna hefði verið minna vegna þess að auðvitað er ekki hægt að ganga þannig frá málum að skattbyrði almennings í landinu sé endalaust aukin né heldur að ganga þannig frá málum að endalaust sé gengið í ríkissjóð. Vinstri grænir voru með þessu fyrst og fremst að reyna að slá ryki í augu fólks með því að þau létu í veðri vaka að þau væru einhverjir sérstakir talsmenn sveitarfélaga. Það eru þau ekki, þau voru talsmenn sumra sveitarfélaga en alls ekki allra.



[12:20]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að gera eina játningu. Hún er þessi: Ég skil hugaræsing hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Ég skil þennan hugaræsing vegna þess að ég veit að við höfum komið við mjög snöggan blett. Hv. þingmaður er landsbyggðarþingmaður. Hann veit að mörg sveitarfélög á landsbyggðinni búa við mjög þröngan kost. Ríkisvaldið hefur neitað að koma til móts við þau. Hann veit það líka að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram fjölmargar tillögur um hvernig megi gera þetta. Hann nefnir eina, og ég nefndi hana áðan líka, sem er að beina tekjuskattslækkuninni inn í útsvarshækkun hjá sveitarfélögunum. Ástæðan fyrir því að við vorum andvíg þessari skattalækkun var tvíþætt: Annars vegar töldum við ekki rétt við þær aðstæður sem við búum við núna að ráðast í skattalækkanir og hins vegar töldum við að samneyslan mætti ekki við því. Ef skattalækkun verður til þess að menn þurfa að draga úr samneyslu, rekstri heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa, skóla o.s.frv., bitnar það á íbúunum. og einkum þeim tekjulægstu.

Við höfum sett fram aðrar tillögur um hlutdeild sveitarfélaganna í föstum tekjustofnum. Við höfum nefnt þá í tillögusmíði okkar og þingmálum. Ég skil, hæstv. forseti, að hér skuli maður þenja sig mjög upp því að við höfum komið við snöggan blett. Það væri óskandi ef hægt væri að virkja þennan hugaræsing inn í jákvæðan tillöguflutning af hálfu hv. þingmanns í stað þess að agnúast út í okkur.



[12:22]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, tillaga vinstri grænna kom við snöggan blett hjá mér vegna þess að ég hafði satt að segja í mikilli einlægni minni trúað því að þegar vinstri grænir kæmu fram með tillögur til lausnar vanda sveitarfélaganna væru þau að horfa til þess vanda sem sárastur væri í þjóðfélaginu, þ.e. vanda minni sveitarfélaganna sem hafa mátt búa við minnkandi tekjur. Það sýnir kannski best hversu bláeygur maður er, þrátt fyrir að ég hafi marga fjöruna sopið í íslenskum stjórnmálum er ég enn svo bláeygur.

Ég átti satt að segja ekki von á því að það yrðu vinstri grænir sem fyrstir manna kysu að leggja fram tillögu sem fyrst og fremst kæmi að gagni þeim sveitarfélögum sem hafa fengið stórauknar tekjur á síðustu árum og búa auðvitað ekki við nokkurn einasta vanda. Lengi má hins vegar manninn reyna. Hér liggur það fyrir að gjörvallur þingflokkur vinstri grænna hefur sameinast um tillögu um að auka ójafnræðið (Forseti hringir.) milli sveitarfélaganna í landinu. Þá höfum við það. Þá vitum við það (Forseti hringir.) og hana nú.



[12:23]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, og hann veit náttúrlega betur. Hann veit að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið að tillögusmíði á Alþingi sem miðar að því að koma til móts við þau sveitarfélög sem standa sérstaklega illa. Við erum flokkur tekjujöfnunar og ekki aðeins þegar litið er á einstaklingana í samfélaginu, heldur einnig byggðafélögin, sveitarfélögin í landinu. Við erum flokkur raunhæfrar byggðastefnu. Okkur hefur einmitt verið legið á hálsi fyrir að vilja standa fyrir skattheimtu til að skjóta inn í samneysluna til jöfnunar í samfélaginu. Við höfum verið gagnrýnd fyrir það, fyrir að vera skattaflokkur.

Nú segja menn skyndilega: Ja, þið viljið ekkert gera fyrir þá sem standa höllum fæti. Hver er eiginlega (Forseti hringir.) brúin í málflutningi Sjálfstæðisflokksins og hv. þm. (Forseti hringir.) Einars K. Guðfinnssonar? Ég kem ekki auga á hana. (Gripið fram í.) Hún er ekki heyrð.



[12:24]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að tillögur vinstri grænna um hækkun útsvars koma einmitt stærri sveitarfélögum til góða en alls ekki þeim minni. Þess vegna skýtur skökku við að hv. þingmaður skuli tala um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð sem einhvern mikinn jöfnunarflokk.

Í ræðu hv. þingmanns áðan var mikið svartnættið um þessa stöðu, um eflingu sveitarstjórnarstigsins og sameiningu sveitarfélaga. Hv. þingmaður sá í rauninni aðeins einn jákvæðan punkt, þá staðreynd að hæstv. ráðherra skuli kynna tillögurnar á hv. Alþingi áður en þær fara formlega fyrir sveitarfélögin.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson notaði þau orð að ríkisstjórnin misbeitti valdi, notaði eiginlega svívirðilega valdníðslu við sameininguna, þessar sameiningarhugmyndir. Ég á dálítið erfitt með að koma því heim og saman, m.a. vegna þess hvernig staðið hefur verið að sameiningarhugmyndum þar sem fjölmenn nefnd hefur farið um allt land, átt mjög náið og gott samstarf og samráð við sveitarstjórnarmenn af öllu landinu og byggir tillögur sínar á því, upphaflegar tillögur sínar. Þær voru sendar sveitarfélögunum. Það komu viðbrögð við þeim og sameiningarnefnd tók tillit til þeirra. Þetta er hin lýðræðislega leið, öfugt við það sem t.d. er gert í Danmörku og kemur fram í frumvarpi frá Samfylkingunni um að ákveða þetta bara með einu pennastriki hér. Mér finnst þetta ekki ganga upp hjá honum.

Þegar hv. þingmaður segir að það sé lítið í þeim tillögum sem hér eru til umræðu, finnst honum þá 9,5 milljarðar til sveitarfélaga vera lítið?



[12:26]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um skattahugmyndir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem stjórnarsinnar eru að gera lítið úr og snúa út úr. Í greinargerð með þeirri tilteknu tillögu okkar segir, með leyfi forseta:

„ Því fer fjarri að flutningsmenn telji þá ráðstöfun sem frumvarpið gengur út á einhverja allsherjarlausn. Æskilegast væri að breytingar af þessu tagi væru liður í heildarendurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem nauðsynlega þarf að fara fram og er forsenda þess að hægt sé í framhaldinu að ráðast í áfanga til eflingar sveitarstjórnarstiginu.“

Síðan gerum við grein fyrir þeim hugmyndum sem við viljum að séu teknar til skoðunar á því, ekki bara varðandi útsvarið, en ég legg áherslu á að hugmyndir okkar um að beina heimild til útsvarshækkunar til sveitarfélaganna voru settar fram eftir að ljóst var að ríkisstjórnin ætlaði að hrinda í framkvæmd hugmyndum sínum um tekjuskattslækkun. Hugmyndir okkar hafa hins vegar byggt á öðrum þáttum sem við höfum gert rækilega grein fyrir, föstum tekjustofnum sem við viljum að sveitarfélögin fái aðkomu að.

Varðandi valdstjórnina vísaði ég í fyrsta lagi í skipan nefndarinnar þar sem tveimur tilteknum þingflokkum var haldið fyrir utan starfið, máttu ekki koma inn á jafnræðisgrunni, máttu bara sitja í áhorfendastúkunni.

Í öðru lagi vísaði ég í sveitarstjórnarlög um heimildir nefndarinnar til að láta fara fram atkvæðagreiðslu þangað til „rétt“ niðurstaða væri fengin.

Í þriðja lagi sagði ég að látið hefði verið að því liggja í mín eyru af hálfu stjórnsýslunnar að þau sveitarfélög sem ekki mökkuðu rétt væru látin gjalda þess í framkvæmdum á vegum hins opinbera. Ef þetta er ekki valdníðsla og ef það er ekki slíkur andi sem hér svífur yfir vötnunum veit ég ekki hvað á að kalla það.



[12:28]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Einhver kjaftagangur sem hv. þingmaður heyrir einhvers staðar úti í bæ getur ekki talist valdníðsla af hálfu ríkisstjórnar. Það sem skiptir mestu máli er að í fáum málum hefur verið unnið jafnlýðræðislega og í þessu. Það eru fulltrúar frá sveitarfélögum og frá pólitískum flokkum, að vísu ekki Vinstri grænum en það gefur hv. þingmanni tæpast tilefni til að álykta sem svo að hér sé um valdníðslu af hálfu ríkisstjórnar að ræða. Hvergi og líklega ekki í nokkru máli hefur verið haft jafnmikið samráð við sveitarstjórnarfólk og í þessu máli, enda er tillaga sameiningarnefndar mjög einróma.

Hvað varðar tekjuskiptinganefndina hefur það tekið langan tíma af því menn hafa verið að semja. Menn hafa komist að samkomulagi eins og er hægt að ná í þessu. Það er að vísu einn úr tekjuskiptinganefndinni sem skilar séráliti en í þessu mikla deilumáli um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er það (Forseti hringir.) í rauninni mesta furða að menn skuli hafa náð svona (Forseti hringir.) mikilli sátt.



[12:30]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einn eða fleiri. Við hljótum að sjálfsögðu að meta þau rök sem fram eru sett. Ég var að vísa í röksemdir, ég var að vísa í málefnalega afstöðu sem þarna kemur fram. Ég tel að Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, færi mjög góð rök fyrir máli sínu og ástæðulaust að menn geri lítið úr málflutningi hans. Menn geta verið ósammála rökum hans. Það er allt annar handleggur.

Síðan frábið ég mér þetta orðalag, kjaftháttur úti í bæ. Ég er að vísa í það sem fram kom á fundi félagsmálanefndar Alþingis af hálfu aðila úr stjórnsýslunni. Ég er að vísa í anda sem svífur yfir vötnum í þessari sameiningarvinnu. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að nefndin hefur rætt við sveitarstjórnarmenn. Að sjálfsögðu er hún að leita eftir lausnum til að ná fram sínu fyrir fram gefna markmiði. Ég hef hins vegar efasemdir um (Forseti hringir.) vinnubrögðin og lýðræðislega aðkomu og valdstjórn þessarar nefndar og löggjafar.



[12:31]
Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það stakk mig töluvert að heyra hv. þm. Ögmund Jónasson tala um valdstjórnaraðferðir við sameiningu sveitarfélaga. Ég hef tekið þátt í störfum sameiningarnefndar og þekki alveg hvernig þau störf voru unnin þar. Þar var haft náið samstarf við sveitarstjórnarmenn um allt land, haldnir fjölmargir fundir til þess að fá fram afstöðu manna í þessu máli. Síðan munu íbúar viðkomandi sveitarfélaga einfaldlega taka afstöðu til þeirra tillagna sem lagðar verða fram. Ég vil líka minna á að lögð hefur verið mikil áhersla á það af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga nú um nokkurn tíma, í nokkur ár, að fækka sveitarfélögum með sameiningu. Menn hafa jafnvel gengið svo langt, sumir á þeim bænum, að lýsa því yfir að gera ætti það með lögum. Hér er verið að gera þetta eins lýðræðislega og mögulegt er með því að leggja fram þessar tillögur. Meira að segja er það svo að sum sveitarfélög hafa óskað eftir því á síðari stigum að koma inn í tillögur sem verið er að vinna með og við því hefur verið orðið.

Við þekkjum það, eins og hér hefur komið fram, að t.d. í Danmörku hafa menn farið þá leið að setja lög um sameiningu sveitarfélaga. Hér hefur ekki verið vilji til þess að fara slíka leið, að vísu hefur Samfylkingin lagt fram tillögur um að fara þá leið. Ég vil meina að slíkar aðferðir væru frekar valdstjórnaraðferðir en sú aðferð sem farin er hér.

Ég skil ekki alveg hvað hv. þingmaður á við þegar hann segir að þreyta eigi menn til niðurstöðu þar til að rétt niðurstaða fáist. Ég óska eftir því að hv. þingmann útskýri hvað hann á við og hvað sé rétt niðurstaða og af hálfu hverra. Vegna þess að ég get alls ekki séð, miðað við hvernig þessi mál eru unnin, að þetta eigi við nokkur rök að styðjast. Mér þætti vænt um að heyra frekari rök hjá hv. þingmanni fyrir þessum fullyrðingum, annars vegar með valdstjórnaraðferð og hins vegar hvað hann á við með réttri niðurstöðu.



[12:33]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hin rétta niðurstaða er tillaga sameiningarnefndar. Ég er að vísa í lagatextann. Ég er að vísa í sveitarstjórnarlögin, ákvæði sem fest voru í lög í fyrravor þess efnis að sameiningarnefndin hefur lögum samkvæmt mjög víðtækt umboð til að skipa málum. Hún leitar hugmynda hjá sveitarstjórnarmönnum, það er hinn lýðræðislegi þáttur málsins, gott og vel, en hún hefur það vald lögum samkvæmt að ákveða hvert ferlið er. Ef sú niðurstaða fæst ekki í kosningum sem hún vill ná fram hefur hún lögbundið vald til að efna til kosninga að nýju. Það er þetta sem ég er að vísa í.

Varðandi valdstjórnina er ég líka að vísa til hins nánast ósagða opinberlega en þess sem látið er liggja að, andans sem svífur yfir vötnum, að þeir sem ekki makka rétt verði látnir gjalda þess í framkvæmdum á svæðinu.

Ég vil gjarnan taka það fram að ég er persónulega almennt fylgjandi því að stækka og efla einingar á sveitarstjórnarstiginu. Mér finnst hins vegar ekkert einhlítt í því efni. Mér finnst ekkert einhlítt í því að Grundarfjörður, svo dæmi sé tekið, sé sameinaður Ólafsvík. Mér finnst það ekki liggja í augum uppi. Þegar ég heyri íbúa, t.d. þaðan, færa rök fyrir því að heppilegra fyrirkomulag væri samvinna og samstarf á vissum sviðum um tiltekin verkefni þá finnst mér þetta vera málefnaleg og sannfærandi aðkoma að málinu. Við eigum ekki að hugsa þessi mál með reglustiku um of, eða í svart/hvítu og annaðhvort eða. Það kunna að vera ýmsar millilausnir til og varasamt er að reyna að keyra málin í gegn með valdi.



[12:35]
Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Enn talar hv. þingmaður um vald, lögboðið vald. Ég vil bara ítreka það enn og aftur hvernig málið hefur verið unnið og að mínu mati með fullkomlega lýðræðislegum hætti. Hv. þingmaður talar um að sameiningarnefnd hafi mikið vald og geti gert frekari tillögur ef tillögur verða felldar í fyrstu umferð og það er rétt, en ég fullyrði að slíkar tillögur, ef til þess kæmi, yrðu unnar með sama hætti og verið hefur.

Ég ítreka að hér er um lýðræðislega leið að ræða. Það eru íbúarnir í viðkomandi sveitarfélögum sem ráða þessu en ekki sameiningarnefndin, hlutverk hennar er að koma með tillögur. Hún hefur gert það með eins góðum hætti og mögulegt hefur verið, en það eru íbúarnir sem ráða. Við vitum að í ýmsum sveitarfélögum eru skiptar skoðanir um þetta. En svona er þessu farið.

Síðan talaði hv. þingmaður um að menn eigi að makka rétt. Ég veit að hann getur útskýrt frekar hvað hann á við með því. Mér finnst það hanga svolítið í lausu lofti hvað hann á við og hann (Forseti hringir.) þarf að færa frekari rök fyrir þessari fullyrðingu sinni.



[12:36]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að makka rétt þýðir, í málflutningi mínum núna, að fara að vilja sameiningarnefndar og greiða atkvæði í samræmi við þær tillögur sem hún leggur fyrir íbúana. Þegar það hefur verið sagt í mín eyru í félagsmálanefnd, af aðilum innan stjórnsýslunnar, að þau byggðarlög sem ekki greiða atkvæði í þá veru kunni að gjalda þess í opinberum framkvæmdum, þá finnst mér það vera valdstjórn. Mér finnst það vera andinn sem svífur yfir vötnunum sem ekki er lýðræðislegur og ekki ásættanlegur. Tala ég nógu skýrt? Þarf að skýra þetta eitthvað frekar? Ég held að þeir sem á hlýða eða þeir sem koma til með að sjá þessi orð, viti nákvæmlega hvað ég á við.



[12:38]
Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Í rauninni er verið að fjalla hér um afskaplega lítið mál, þ.e. frumvarpið snýr einungis að því að fresta atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga sem lögum samkvæmt á að fara fram 23. apríl. Af ástæðum sem raktar hafa verið í umræðunni í dag er talið skynsamlegt, og það byggir á tillögu sameiningarnefndar, að láta þá atkvæðagreiðslu fara fram 8. október en heimila þó þeim sveitarfélögum sem það kunna að vilja að efna til sameiningarkosningar fyrr. Flóknara er frumvarpið ekki.

Eins og vænta mátti hleypur umræðan um þetta einfalda frumvarp út um víðan völl, enda er um stórmál að ræða. Ég tel þó nauðsynlegt enn einu sinni til upprifjunar að minna á hver verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er í dag. Eins og margsinnis hefur komið fram eru 70% opinberra stjórnsýsluverkefna í höndum ríkisins og um 30% í höndum sveitarfélaganna. Þetta er öfugt hlutfall við það sem við sjáum í öðrum ríkjum, nágrannaríkjum okkar, og þá hljótum við að spyrja hvaða áhrif það hafi á samfélagið hjá okkur. Segja má að það hafi þau áhrif m.a. að lýðræðisleg ákvarðanataka er minni hérlendis en í nágrannaríkjum okkar vegna þess að ákvarðanatakan er miðstýrðari hér þar sem um 70% verkefnanna eru í höndum ríkisins. Er það líklega ein ástæða þess að stjórnsýslan hefur vaxið svo mikið í kringum höfuðborgina sem raun ber vitni þar sem höfuðstöðvar ríkisins eru þar. Því fylgja störf og þar fram eftir götunum. Valddreifing hér er því í rauninni miklu minni en menn eiga að venjast í nágrannaríkjum okkar og hefur þar af leiðandi mikil áhrif á alla þjónustu.

Á sama tíma hafa kröfur samtímans um almannaþjónustu farið mjög vaxandi sem betur fer. Sveitarfélögin vilja bregðast við kröfum samtímans og vilja hækka þjónustustigið hjá sér og sækjast jafnvel eftir verkefnum til ríkisins til þess að geta sinnt þessari þjónustu o.s.frv. Það er líklega í ljósi þess sem farið er af stað með átak um að efla sveitarstjórnarstigið með það í huga að draga úr þessu hlutfalli, 70:30, og færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Það er líklega af þessum ástæðum sem menn velta upp hugmyndinni um að stækka sveitarfélög til þess að gera minnstu sveitarfélögin betur í stakk búin til að taka við verkefnum. Sveitarfélag með um 40 íbúa er ekki mjög burðugt til að taka við stórum verkefnum og bæta þjónustu íbúa sinna. Það liggur í augum uppi.

Það er væntanlega með það í huga að auka tekjur sveitarfélaga með verkefnum sem Samband íslenskra sveitarfélaga tekur frumkvæðið. Það er rétt að árétta það að að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga er lagt upp í þessa för, upphaflega til að sameina sveitarfélög af þeim ástæðum sem ég hef nefnt hér, og það er sambandið sem leitar til félagsmálaráðuneytisins um að fara í þetta átak. Síðan fer það átak af stað eins og hér hefur komið fram.

Það er jafnframt ákveðið að fara þá lýðræðislegu leið að skipa sérstaka sameiningarnefnd, skipa sérstaka tekjuskiptingarnefnd og verkefnisstjórn til þess að vinna þetta á sem lýðræðislegastan hátt. Ég segi það enn og aftur að fá mál hafa líklega fengið jafnlýðræðislega umfjöllun og þau mál sem sameiningarnefndin hefur unnið. Haldnir hafa verið fundir sem líklega skipta hundruðum með fulltrúum allra sveitarstjórnarmanna í landinu þar sem sameiningarnefnd hlustaði á hljóðið í sveitarstjórnarmönnum, heyrði óskir þeirra og byggði tillögur sínar á því. Lengra er gengið, sveitarstjórnarmönnum er gefinn kostur á því að bregðast við þeim hugmyndum og sameiningarnefnd tekur tillit til ýmissa ábendinga um fyrstu hugmyndirnar.

Þess vegna er alrangt að halda því fram eins og hér hefur verið gert að um einhverja misbeitingu valds eða ofríki af hálfu ríkisvaldsins sé að ræða. Það er beinlínis rangt því að líklega hafa fá mál fengið jafnlýðræðislega umfjöllun og meðferð eins og sameiningarmálið.

Núna heyrist manni hins vegar á ýmsum hv. þingmönnum sem hér hafa talað í morgun að öllu sé ruglað saman, og a.m.k. tveir ef ekki þrír fulltrúar Samfylkingarinnar sem hér töluðu virðast vera að drekkja sér í því að blanda öllu hugsanlegu saman og reyna að búa til einhverjar deilur. Ég skil það hins vegar svo að talsmaður Samfylkingarinnar í þessu máli, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, tali á öðrum nótum, enda hefur hann fylgt þessu máli frá upphafi og þekkir það betur.

Það liggur alveg ljóst fyrir að deilur á milli ríkis og sveitarfélaga hafa staðið í áratugi og þær munu halda áfram, deilur um hvernig skipta eigi kökunni, hvernig skipta eigi skattpeningunum á milli ríkis og sveitarfélaga vegna verkefna sem þessi tvö stjórnsýslustig framkvæma. Þær deilur verða aldrei settar niður í eitt skipti fyrir öll. Þess vegna á það ekki að koma neinum á óvart að mál tekjustofnanefndar hafi dregist. Það hefur dregist vegna þess að þetta er stórt mál og þetta er viðkvæmt mál. Það eru skiptar skoðanir milli ríkis og sveitarfélaga um það hvernig deila eigi kökunni, það er ekkert nýtt. Sú deila mun halda áfram.

Því er það alveg með ólíkindum að hér hafi a.m.k. tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar komið upp og haldið því fram að það sé ekkert í þeirri niðurstöðu sem fékkst hjá tekjustofnanefndinni. Hún er ekki sammála. Það hefur komið fram. Einn nefndarmanna, bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Lúðvík Geirsson, Haukamaður með meiru, skilar séráliti. Hann er ekki sammála því sem aðrir skrifa undir.

Það er beinlínis rangt og beinlínis fölsun að halda því fram, eins og hv. þm. Kristján L. Möller gerði, að í tillögunum sé ekkert sem snertir fjármuni. Fyrir liggur að á þremur árum þýðir þetta tilfærslur fjármuna til sveitarfélaga, viðbót upp á 9,5 milljarða. Menn geta farið í alls konar leikfimiæfingar og margföldunaræfingar en þetta eru þær tölur sem liggja á borðinu, 9,5 milljarðar. Og það sem meira er, það eru 1,5 milljarðar varanlega eftir þetta þriggja ára tímabil. Þess vegna er beinlínis rangt að koma í ræðustól og segja að í tillögunum sé ekkert.

Það eru auðvitað engir alveg sáttir um þetta, hvorki ríki, sveitarfélög né sveitarfélögin innbyrðis. Þetta er samt verulegur árangur sem hlýtur að verða horft á jákvæðum augum í því skrefi að efla sveitarstjórnarstigið.

Jafnframt liggja fyrir mjög skýrar tillögur um með hvaða hætti sameiningarnefnd telur skynsamlegast að láta atkvæðagreiðslu meðal fólksins fara fram um sameininguna. Enn komum við að rangindum sem flutt hafa verið í þessum ræðustól í umræðunni í dag, um að verið sé að beita valdi gagnvart þegnum landsins. Ég hef nefnt hvernig sameiningarnefndin vann og út á hvað ganga tillögur hennar? Þær ganga út á að láta fólkið í sveitarfélögunum taka hina endanlegu ákvörðun. Þannig var lagt upp með verkefnið og þannig verður því lokið. Það er lýðræðislegasta leiðin sem til er, að íbúarnir fái að kjósa um með hvaða hætti þeir vilja skipa sveitarfélögum sínum.

Grundvallarspurningin sem menn verða að svara er hvort menn vilji horfa á það sem Samband íslenskra sveitarfélaga lagði af stað með í upphafi ferðarinnar, sem var einungis að sameina sveitarfélög. Inn í það dróst að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga og inn í það kom líka að færa tekjur frá ríki til sveitarfélaga. Ef menn ætla hins vegar að standa hér áfram og blanda þessu öllu saman og beina athyglinni frá því sem er kjarni málsins tel ég að menn séu beinlínis að vinna gegn einni stærstu stjórnsýslubreytingu sem Alþingi hefur rætt um og farið í gegnum, þá eru menn að vinna gegn því að efla sveitarstjórnarstigið. Þá eru menn að vinna gegn því að hækka þjónustustig og vinna gegn því að auka lýðræði í landinu með því að færa sveitarfélögunum aukin verkefni og þar með að lyfta þjónustustiginu.

Ég hvet því til þess í umræðunni, sem mun örugglega standa fram eftir degi, að menn horfi á upphaf verkefnisins og horfi á það sem blasir við, það sem liggur á borðinu en fari ekki að rugla saman óskyldum hlutum eins og borið hefur á í umræðunni.



[12:49]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var svolítið skrýtin ræða hjá hv. þingmanni. Hann byrjaði á að segja að málið sé lítið sem við fjöllum um, einungis væri verið að fresta sameiningarkosningu sveitarfélaga frá því í apríl fram í október og að þetta þyrfti ekki að taka langan tíma. Mér virtist helst á hv. þingmanni að ekki mætti ræða hvað lægi að baki því að við stöndum hér og þurfum að fresta atkvæðagreiðslunni sem átti að fara fram 23. apríl.

Sannleikurinn er sá að vandræðagangurinn við að koma sameiningarátakinu á hefur verið slíkur að það hefur alls ekki tekist undir verkstjórn hv. þm. Hjálmars Árnasonar að koma mönnum þannig saman að hægt sé að kjósa í apríl eins og um var talað.

Hv. þingmaður talaði mikið um lýðræðislega umfjöllun og að mikið hefði verið fundað með sveitarstjórnarmönnum og á þá hlustað. Menn hefðu hlerað hljóðið í þeim og byggt tillögur sínar á því. Síðan fengju sveitarfélögin að gefa álit á þeim tillögum og þetta væri eins lýðræðislegt og vera mætti og fullt tillit tekið til þess sem sveitarfélögin væru að tala um.

Það er oft gott þegar maður heyrir slíkar fullyrðingar að setja andlit á bak við það sem verið er að gera. Ég þekki náttúrlega best til á Suðurnesjum og hv. þingmaður líka. Á hvaða hljóði frá hvaða sveitarstjórnum var byggt í upphafi að leggja til að öll sveitarfélög á Suðurnesjum sameinuðust í eitt sveitarfélag? Og eftir að sú tillaga kom fram og sveitarfélögin höfðu gefið álit sitt á henni, hver verður niðurstaðan? Verður niðurstaðan eitthvað í dúr við það sem sveitarfélögin hafa verið að tala um, að Sandgerðingar vilja ekki sameiningarkosningu, Garðurinn vill ekki sameiningarkosningu, Grindavík vill ekki sameiningarkosningu og Vatnsleysustrandarhreppur vill sameiningarkosningu við Hafnarfjörð? Nú höfum við ekki tillögurnar í höndunum og getum þar af leiðandi lítið rætt um þær, en gott væri ef verkefnisstjórinn gæti sagt okkur hverjar tillögurnar eru varðandi Suðurnes.



[12:51]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er leitt að heyra að það er eins og hv. þingmaður hafi ekki enn skilið út á hvað málin ganga og er hann þó hvort tveggja í sveitarstjórn og alþingismaður.

Hv. þingmaður spurði um hvaða tillögur væru uppi varðandi sameiningu á Suðurnesjum. Fyrir liggur samkvæmt skoðanakönnun sem gerð hefur verið að um 70% þjóðarinnar er almennt hlynnt sameiningu og stækkun sveitarfélaga. Minnstur stuðningur er við það á Suðurnesjum. Hins vegar verður tillaga sameiningarnefndar lögð fram og um hana munu íbúar í þeim sveitarfélögum sem hér hafa verið nefnd taka hina endanlegu ákvörðun. Það er lýðræðisleg leið.

Af því hv. þingmaður ber við fákunnáttu um hvað standi í sameiningartillögunum hlýtur maður að spyrja hvort samgangur á milli einstakra þingmanna Samfylkingarinnar sé lítill, því að a.m.k. tveir þingmenn Samfylkingarinnar hafa tekið virkan þátt í störfum sameiningarnefndar og það er á tillögum þeirra eins og nefndarinnar allrar sem tillögurnar eru birtar. Ég hvet því hv. þingmann til að snúa sér til félaga sinna í Samfylkingunni sem örugglega munu glaðlega upplýsa hann hvernig sameiningarnefndin hefur unnið, á hverja hún hefur hlustað og hverjar tillögur hennar eru.

Hv. þingmaður gerir mikið úr vandræðagangi. Ég er ekki sammála því að þetta sé vandræðagangur. Það eru miklir fjármunir í húfi í skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga. Menn hafa einfaldlega verið að semja um það milli ríkis og sveitarfélaga. Það hefur tekið lengri tíma en ætlað var, en þó liggur ákveðin niðurstaða fyrir núna þó ekki allir séu sammála um hana. Það er mikill áfangasigur og 9,5 milljarðar til sveitarfélaga hlýtur að teljast áfangasigur.



[12:53]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eftir því sem ég best veit hefur sameiningarnefndin ekki skilað neinum tillögum enn þá og fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni hafa ekki upplýst um hvaða tillögur verða fram settar, því mér skilst að þeir séu bundnir trúnaði um tillögurnar þangað til þær eru lagðar fram.

Fram kom í ræðu hv. þingmanns að verið væri að fara í að sameina sveitarfélög að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er alveg rétt, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur verið áhugasamt um að efla sveitarstjórnarstigið og stækka sveitarfélögin. En að eingöngu hafi komið fram ósk um það frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að sameina sveitarfélög og það sé ástæðan fyrir því að við séum að fara af stað með sameiningarátakið, ég er fákunnandi ef eingöngu hefur verið beðið um það af hálfu Sambandi íslenskra sveitarfélaga á Íslandi að sameina sveitarfélög. Ef ekkert hefur verið minnst á að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga og ekkert verið kvartað yfir þeirri tekjuskiptingu sem nú ríkir verð ég að segja eins og er að fulltrúar okkar í Sambandi íslenskra sveitarfélaga í viðræðum við ríkið standa sig ekki ef þeir koma ekki fram þeirri óánægju sem er í grasrótinni með tekjuskiptinguna og ef þeir koma ekki fram þeirri óánægju sem er í grasrótinni með verkaskiptinguna.

Hv. þingmaður sagði að 70% af verkefnum væri hjá ríki og 30% hjá sveitarfélögum og menn yrðu að gera átak í að breyta því. Ég hélt að það væri það sem menn ætluðu að gera í átakinu, því það eitt að stækka sveitarfélög sem eru í rekstrarlegum vanda, eiga ekki tekjur, hafa ekki tekjur fyrir gjöldum og safna halla frá ári til árs, það að sameina þau í stærra sveitarfélag að öllu óbreyttu eflir ekki sveitarstjórnarstigið. Það getur ekki eflt sveitarstjórnarstigið að steypa saman skuldugum og veikum sveitarfélögum án þess að nokkuð sé gert í tekjuskiptingu og án þess að nokkuð sé gert í verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þessu hlýtur hv. þingmaður að vera mér sammála um.



[12:55]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur það margoft komið fram í umræðunni, en samt rétt að nefna það einu sinni enn, að tekjustofnanefnd tók sér góðan tíma. Hvers vegna tók hún sér góðan tíma? Vegna þess að menn voru að ræða um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þar voru skiptar skoðanir en enginn hefur haldið því fram að sveitarfélögin séu ofhaldin af stöðu sinni. Þess vegna tók það langan tíma. Þess vegna liggur fyrir að sveitarfélögin fá 9,5 milljarða innspýtingu á næstu þremur árum og það sem meira er, á hverju ári eftir það 1,5 milljarða til viðbótar. Það er ákveðin niðurstaða sem er fengin með þessu þó auðvitað hafi sveitarstjórnarmenn viljað sjá meira. Þetta er þó sú niðurstaða sem blasir við og er mjög merkilegur áfangi.

Hvað varðar tillögur sameiningarnefndar hefur verið margfarið yfir það að þær voru unnar afskaplega lýðræðislega. Það verður því miður að segja að of margir sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum létu hjá líða að svara sameiningarnefnd og láta hana vita af afstöðu sinni. Hins vegar verða tillögurnar kynntar. Meginatriðið í þessu er auðvitað að íbúar sveitarfélaganna fá að segja skoðun sína, væntanlega að lokinni ítarlegri kynningu á kostum og göllum sameiningarinnar. Íbúarnir eiga að taka þá ákvörðun en ekki einstakir sveitarstjórnarmenn sem kunna að horfa á málið öðrum augum en hinn almenni íbúi í sveitarfélögunum.

Menn verða hins vegar að horfa á heildarmyndina. Verkefnið heitir: Að efla sveitarstjórnarstigið. Færa verkefni frá ríki til sveitarstjórna (Forseti hringir.) og gera sveitarstjórnarstigið öflugra.



[12:57]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í Suðurnesjaumræður, þær eru of viðkvæmar til þess að ég fari að skipta mér af þeim. En ákveðinn þáttur í ræðu hv. þingmanns vakti sérstaka athygli mína er varðaði áherslur hans á það hvernig verkefni skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga. Þar er hárrétt áhersla og einnig sú ábending hv. þingmanns að ákvarðanir hér væru miðstýrðari en víða annars staðar og valddreifing þar af leiðandi minni.

Þetta er kjarni málsins. Þetta er hið stóra verkefni og það sem við þurfum að horfa á til framtíðar. Þess vegna vil ég vekja sérstaka athygli á þessu því mér fannst áherslur í ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, samflokksmanns hv. þingmanns, vera nokkuð aðrar þar sem hv. þingmaður var miklu fastari í nútímanum en horfði ekki með sama hætti til framtíðar og hversu mikilvægt það væri einmitt að snúa hlutföllunum við.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt mat að til þess að við náum þeim markmiðum fram þurfum við að stíga miklu stærri skref. Nú er ég auðvitað að reyna að leiða umræðuna svolítið inn í framtíðina, en ég vil að við stígum miklu stærri skref en við raunverulega náum að gera tillögur um í þessum áfanga þannig að við getum snúið hlutföllunum við og fært stór og mikil verkefni til sveitarfélaganna, stækkum þau um leið og breytum í grundvallaratriðum tekjustofnum þeirra. Ég held að þetta leysist ekki öðruvísi og spyr hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um að þetta sé sú framtíðarsýn sem við eigum að hafa gagnvart þessum málum og spyr hv. þingmann jafnframt að því hvort hann sé ekki líka sammála mér um að full ástæða sé til þess, þó það sé ekki nema í þingflokki framsóknarmanna, að ræða þessi mál svolítið nánar.



[12:59]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta hefur verið og mun verða rætt í þingflokki framsóknarmanna eins og hjá Samfylkingunni. Ég tek undir þau framtíðarsjónarmið sem talsmaður Samfylkingarinnar nefndi. Það er akkúrat framtíðin sem við eigum að horfa á, horfa á eflingu sveitarstjórnarstigsins með því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Til þess að það sé hægt verðum við að stækka sveitarfélög eins og margsinnis hefur komið fram. Til þess að það sé hægt þarf líka að finna réttan verðmiða á þau verkefni sem fara frá ríki til sveitarfélaga.

Nú hefur komið fram í máli stjórnarmanna hjá Sambandi sveitarfélaga að tekjuskiptingin, í kjölfar þess að grunnskólinn fór yfir, hafi verið rétt þótt ýmsir hafi fullyrt að svo væri ekki. Talsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga fullyrða að svo hafi verið þegar upp var staðið. Til þess að verkefnin geti farið yfir þá þurfa sveitarfélögin að vera af þeirri stærðargráðu að þau ráði við verkefnin. Tekjuskiptingin þarf að vera óumdeild og að því hafa menn unnið.

Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra liggja fyrir hjá ríkisstjórninni tillögur verkefnisstjórnar, sem m.a. formaður Sambands sveitarfélaga situr í, um hvaða verkefni mætti flytja frá ríki til sveitarfélaga. Ég tel að nái þau að verða að veruleika og færast yfir til sveitarfélaganna eins og gerast á í náinni framtíð samkvæmt upphaflegu plani þá sé um mikla byggðaaðgerð að ræða. Við erum að tala um að efla sveitarstjórnarstigið og auka þjónustustig innan sveitarfélaganna með þessu. Þeirri skoðun deili ég með hv. þingmanni.



[13:01]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að hv. þingmaður hafi svipaða framtíðarsýn og ég varðandi framtíð sveitarfélaganna og verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er líka að hluta til þess vegna held ég sem menn settu upp það ferli sem við ræðum um núna, þ.e. að horfa á þetta heildstætt: sameiningu sveitarfélaga, tekjustofna og verkefnaflutning. Það er auðvitað ekki hægt að neita því að það veldur vonbrigðum að hinir þættirnir, þ.e. tekjustofnarnir og verkefnaflutningurinn, skuli ekki vera kominn lengra og hafi ekki náð vissum áfanga sem settur sé fram í skýrslu eða öðru slíku þannig að menn gætu skoðað myndina í heild sinni.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að menn blönduðu hér öllu saman en það er eðlilegt að menn blandi þessu saman vegna þess að þetta sameiginlega hlýtur að vera það sem byggir upp traustið á milli aðilanna, eins og ég reyndi að sýna fram á í ræðu minni að væri grundvöllurinn að því að ná þessum markmiðum.

Ég sagðist óttast og hafa áhyggjur af því að þær tillögur sem nú liggja fyrir séu því miður enn einu sinni bráðabirgðaredding og að þar sé tekið lítið skref til framtíðarinnar varðandi tekjustofnana. Ég óttast að það hafi áhrif á sameiningarferlið og á þær tillögur sem sameiningarnefndin leggur fram. Ef við náum ekki sveitarstjórnarmönnunum með þá er borin von að við náum því markmiði sem sett er í þeim tillögum.

Ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að eðlilegt sé að nýta þann tíma sem fram undan er til að endurskoða og skapa vonandi nýjan grundvöll í lok apríl. Væri ekki eðlilegt að við horfðum til að þar yrðu stigin einhver skref þannig að við næðum a.m.k. að tryggja samstöðu um að láta þær tillögur sem sameiningarnefndin hefur lagt fram fylgja með þannig að við fáum sveitarstjórnirnar í lið með okkur við að berjast fyrir þeim?



[13:04]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ég geti deilt þeirri skoðun með hv. þingmanni að það er mikilvægt að vanda sig í þessu. Þess vegna hefur verkefnið tekið lengri tíma en ætlað var, af því að menn vanda sig.

Það hefur komið mér á óvart, og örugglega líka hv. þingmanni, að hin formlegu samskipti ríkis og sveitarfélaga í gegnum tíðina, í áratugi, hafa ekki verið mjög formleg og ekki sem skyldi. Eitt af því sem fram kemur í tillögunum er að menn eru staðráðnir í að koma því á með formlegri hætti, bæta þessi samskipti til að byggja upp traustið. Þegar það traust hefur verið skapað eru samskiptin orðin eðlilegri og meiri sveigjanleiki í samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga.

Varðandi verkefnatilflutninginn þá liggja tillögur verkefnisstjórnar á borði ríkisstjórnarinnar. Það var aldrei gert ráð fyrir því að þau kæmust strax á, fyrst yrðu sveitarfélögin stækkuð og síðan yrðu verðmiðarnir fundnir. Hins vegar er unnið að því sérstaklega í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti að undirbúa flutning á þessum velferðarpakka sem er gífurlega stór með það í huga að færa hann frá ríkinu og yfir til sveitarfélaga. Sérstök nefnd innan heilbrigðisráðuneytisins skoðar þann þátt og sérstakur verkefnisstjóri innan félagsmálaráðuneytisins skoðar þeirra þátt. Sú vinna er öll í fullum gangi. Ég trúi því að þegar sameiningarferlinu lýkur, ég trúi ekki öðru heldur en tekjuskiptingardeilurnar þær verði settar niður þótt þær haldi áfram, fari menn á fullu í að færa verkefnin yfir. Þar með styrkjum við byggðir landsins, einstök sveitarfélög og hækkum þjónustustig við almenning í landinu.