131. löggjafarþing — 99. fundur
 30. mars 2005.
Skráning nafna í þjóðskrá.
fsp. KJúl, 204. mál. — Þskj. 204.

[13:52]
Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til ráðherra Hagstofu Íslands um skráningu nafna í þjóðskrá. Ástæðan fyrir því að þessi fyrirspurn er lögð fram er sú að í dag er staðan þannig að þúsundir Íslendinga fá ekki fullt nafn sitt skráð í þjóðskrána hjá Hagstofu Íslands. Þetta hefur verið mörgum til mikils ama.

Í svari hagstofuráðherra við fyrirspurn hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar frá 127. löggjafarþingi um skráningu í þjóðskrá kemur fram að skráningar nafna í þjóðskrá byggjast á starfsreglum Hagstofu Íslands frá því að þjóðskráin varð til árið 1953. Svæðið sem nú gefst til skráningar nafna er einungis 31 stafabil.

Virðulegi forseti. Ég gerði örlitla stikkprufu á nokkrum klassískum íslenskum nöfnum í þjóðskrá og það var býsna fróðleg yfirferð. Þar sá ég t.d. glögglega að um 11,4% allra kvenna sem bera hið rammíslenska nafn Sigríður sem fyrsta nafn fá ekki fullt nafn sitt skráð í þjóðskrá. Þetta er töluvert há tala þar sem rúmlega 4 þús. konur eða stúlkubörn bera nafnið Sigríður á Íslandi.

Hið sama má segja um nafnið Þorgerður, um 10,1% þeirra kvenna og stúlkubarna sem bera það sem fyrsta nafn fá nafnið sitt ekki fullskráð og heil 9% þeirra sem bera karlmannsnafnið Þorvaldur sem fyrsta nafn fá nafnið sitt ekki fullskráð.

Virðulegi forseti. Mér þykja þetta þannig tölur að ég tel mikilvægt að málið verði grandskoðað og því hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. hagstofuráðherra sem hljóðar svo:

1. Stendur til að breyta skráningu nafna í þjóðskrá þannig að allir geti skráð fullt nafn sitt án þeirra takmarkana sem eru nú á heildarlengd nafna?

2. Hefur kostnaður við slíka breytingu á skráningu verið kannaður og ef svo er, hversu mikill yrði hann?

3. Hefur verið kannað hversu langan tíma tæki að gera slíka breytingu?

4. Hversu margir einstaklingar hafa ekki fengið fullt nafn skráð í þjóðskrá?

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan hefur álíka fyrirspurn frá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni verið svarað. Hins vegar eru fjögur ár síðan og ég tel mikilvægt að halda þessu máli vakandi vegna þeirrar gríðarlegu tæknibyltingar sem hefur átt sér stað. Fyrirtæki uppfæra tölvukerfi sín reglulega þannig að ég sé ekkert því að vanbúnaði að við gætum samþykkt að gera slíkar breytingar.



[13:56]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég tala hér sem hagstofuráðherra.

Spurt er hvort til standi að breyta skráningu nafna í þjóðskrá þannig að allir geti skráð fullt nafn sitt án þeirra takmarkana sem nú eru á heildarlengd nafna. Við athugun þessa máls er rétt að hafa í huga að þjóðskráin er í reynd gagnasafn fyrir öll þau atriði sem skrá þarf um einstaklinga samkvæmt gildandi löggjöf, svo sem lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, lögheimilislögum, barnalögum, hjúskaparlögum, lögum um ríkisfang o.fl. Úr þessu gagnasafni eru síðan myndaðar skrár til ýmissa nota. Af notum hins opinbera má nefna áritun skattframtala og álagningarseðla, launaseðla o.fl., útgáfu vottorða og vegabréfa og gerð kjörskrárstofna svo og dreifingu á opinberum pósti. Einkaaðilar hagnýta sér þjóðskrá í margvíslegum tilgangi til að lagfæra eigin skrár um viðskiptamenn, félagsmenn eða skjólstæðinga, til áritunar á eyðublöð eða bréf til dreifingar í pósti.

Við núverandi tæknistig er ekki ástæða til að beita sérstökum takmörkunum við færslur í gagnasöfn. Rými þeirra, geymslugeta og afköst eru orðin svo mikil að kostnaður er tiltölulega lítill. Hins vegar hefur allt fram undir þennan dag þótt nauðsynlegt að taka tillit til þess að mjög mörg tölvukerfi, bæði hins opinbera og einkaaðila, hafa haft sömu takmarkanir á lengd nafna og þjóðskrá. Lengd glugga á umslögum svarar nokkurn veginn til nafnasvæðis þjóðskrár og rými á eyðublöðum er takmarkað. Hagstofan hefur verið hikandi við að láta mjög löng nöfn koma fram í dreifingar- og áritunarskrám þjóðskrár vegna þess að nokkuð yrði um það að nöfn mundu brenglast við yfirfærslu í önnur tölvukerfi og við áritun á póst, opinber gögn, eyðublöð o.fl. Blasað hefur við að klippt yrði aftan af löngum nöfnum við þess háttar yfirfærslur.

Stækkun á nafnasvæði í tölvukerfi þjóðskrár er ekki meiri háttar aðgerð. Ákvörðun um að hverfa frá takmörkunum á lengd nafna í útsendingu á áritunarskrám kann hins vegar að þvinga ýmsa aðila aðra, bæði opinbera og einkaaðila, til að breyta tölvukerfum sínum til samræmis. Þó er líklegt að breyting af þessu tagi valdi minni röskun eftir því sem lengra líður á. Enn fremur er ljóst að högun tölvukerfa í þjóðfélaginu stendur miklu síður í vegi fyrir breytingu á nafnasvæði þjóðskrár en áður var. Nýleg tölvukerfi eru flest mun sveigjanlegri en hin eldri hvað varðar lengd á nafnasvæði eða breytingu á því og samkvæmt eftirgrennslan Hagstofunnar gera sum kerfi beinlínis ráð fyrir lengri nöfnum en nú eru í dreifingarskrám þjóðskrár.

Hagstofan vinnur því nú að undirbúningi breytingar af þessu tagi. Sú tilhögun sem stefnt er að er að þjóðskráin skrái öll nöfn fullum fetum og að þau séu varðveitt þannig í gagnasafni hennar. Hins vegar yrði fólki áfram gefið færi á að stytta nöfn sín eins og mjög margir vilja enn þann dag og þau rituð þannig í skrám til almennrar dreifingar og notkunar í þjóðfélaginu. Með öðrum orðum yrðu þær skrár látnar endurspegla full nöfn í gagnasafninu nákvæmlega nema fólk óskaði sérstaklega eftir styttingu á nöfnunum. Þetta hefur í för með sér að einstaklingar sem bera mjög löng nöfn verða sjálfir að ákveða hvort þeir vilji taka þá áhættu sem þessu fylgir, um að klippt kunni að verða aftan af nöfnum þeirra í öðrum tölvukerfum eða við áritun á eyðublöð, límmiða og þess háttar.

Í öðru lagi er spurt:

„Hefur kostnaður við slíka breytingu á skráningu verið kannaður og ef svo er, hversu mikill yrði hann?“

Sem fyrr segir mun breyting á nafnasvæði þjóðskrár hafa áhrif á breytingu margra tölvukerfa en í mismiklum mæli og á mislöngum tíma. Hjá þjóðskránni sjálfri yrði kostnaðurinn ekki verulegur eða um 1–2 millj. kr. Hins vegar þyrfti að breyta ýmsum kerfum hins opinbera til samræmis og er kostnaður af því mjög óviss. Sama gildir um kostnað einkaaðila. Um hvort tveggja gildir að líklegt er að kostnaður sé því minni sem kerfin eru nýrri. Jafnframt má gera ráð fyrir því að í ýmsum tilvikum megi breyta tölvukerfum eftir því sem endurnýjunarþörf þeirra gefur tilefni til.

Þá er spurt af hv. þingmanni:

„Hefur verið kannað hversu langan tíma tæki að gera slíka breytingu?“

Sjálf breytingin á nafnasvæði dreifingarskrár þjóðskrár þarf ekki að taka langan tíma, e.t.v. nokkrar vikur. Hins vegar þarf að líða nokkur tími frá því að ákvörðun um breytingu er tekin þar til hún kemur til framkvæmda. Ef ákveðið yrði nú á næstunni að gera slíka breytingu má áætla að hún gæti komið til framkvæmda um mitt næsta ár. Skýringin á þessum mismun er sú að það tekur lítinn tíma að breyta tölvukerfi þjóðskrárinnar, aðeins nokkrar vikur, en það er eðlilegt að gefa viðskiptavinum Hagstofunnar aðeins lengri tíma til að laga sig að þeim breytingum.

„Hversu margir einstaklingar hafa ekki fengið fullt nafn skráð í þjóðskrá?“

Svar við því frá Hagstofunni er þetta: Frá ársbyrjun 1997 til ársloka 2004 hafa verið gerðar 58.820 breytingar á nafnaritun í þjóðskrá. Hagstofan hefur ekki haldið sérstaklega utan um fjölda þeirra sem óskað hafa eftir að fullt nafn verði birt í tölvukerfi þjóðskrár en fjöldi þeirra mála er vart meiri en 300–400. Í nær öllum tilvikum hefur náðst sátt við fólk um styttingu fulls nafns í tölvukerfinu. Sú þjóðskrá sem er sýnileg til almennra nota, hvort sem það er á pappír eða í tölvum, hefur aldrei borið með sér fullt nafn viðkomandi nema það rúmist innan nafnasvæðis þjóðskrár og viðkomandi hafi viljað sýna nafnið fullum fetum. Margir kjósa af ýmsum ástæðum að birta ekki fullt nafn sitt og hefur svo verið áratugum saman. Það er því ógerningur að svara þessari spurningu frekar. Þó má bæta við að enginn sjálfráður maður er nafnlaus í þjóðskrá.

Núverandi lög um mannanöfn tóku gildi 1. janúar 1997. Frá þeim tíma til ársloka 2004 hafa fæðst 33.366 börn hér á landi. Þegar Hagstofunni berast fæðingartilkynningar eru börn skráð strax í þjóðskrá sem stúlka eða drengur með kenningu til móður eða föður eftir því sem við á. Eiginnöfn barna eru síðan skráð jafnóðum og þjóðskránni berast tilkynningar um nafngjafir. Þau tilvik sem forsvarsmenn barna hafa ekki sætt sig við styttingu á fullu nafni á þessu tímabili eru teljandi á fingrum annarrar handar.



[14:01]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég flutti þingsályktunartillögu á þessu þingi sem varðar það að taka á að skrá löngu nöfnin í þjóðskrá. Þingmenn úr þremur flokkum lýstu stuðningi við málið enda er það sjálfsagt réttlætismál sem ber að taka á. Það vakti sérstaka athygli mína þegar ég fór yfir það hverjir hefðu sent inn erindi varðandi það þingmál sem liggur hjá hv. menntamálanefnd að umsögn vantar einmitt frá Hagstofu Íslands. Það væri mjög ágætt ef hæstv. hagstofuráðherra gæti ýtt á eftir þeim að senda inn umsögn um þingmálið sem liggur þegar fyrir þinginu.



[14:02]
Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands kærlega fyrir þessi svör sem voru afar jákvæð. Mér heyrist á öllu að þarna sé einhver vinna komin í gang við það að laga þjóðskrána að þeirri framtíðarmúsík í þeim efnum að auka stafabil þannig að fólk geti skráð lengri nöfn. Það er auðvitað ekki hægt að vera með endalaus stafabil skráð í þjóðskrá. Eins og kom fram gera t.d. gluggaumslög ekki ráð fyrir því. Hins vegar snertir þetta augljóslega, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, þúsundir Íslendinga í dag og augljóslega má hækka markið. Það er ekki nema 31 stafabil í dag. Ég er búin að vera að skoða líka gluggaumslög undanfarið eftir að ég las svar hæstv. hagstofuráðherra til hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar á sínum tíma og búin að mæla þetta dálítið út. Ég sé að við megum fjölga bilunum upp í 45–60 stafabil. Röksemdina um að þetta sé erfiðleikum bundið vegna gluggaumslaga tel ég heldur léttvæga.

Eins og kom þó fram í máli hæstv. ráðherra eru tölvukerfi í dag orðin miklum mun sveigjanlegri en þau voru þannig að ég sé ekki að það ætti að vera erfiðleikum bundið fyrir fyrirtæki samhliða eðlilegum uppfærslum á hugbúnaði sínum að keyra inn breytingar eins og að auka stafafjöldann.

Enn og aftur fagna ég þessu svari hæstv. ráðherra og vona að þetta komi til framkvæmda sem fyrst.



[14:04]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Eins og ég sagði í inngangssvari mínu munu nöfn framvegis, þegar þessi breyting hefur verið gerð, verða skráð fullum fetum hjá Hagstofunni í þeirri lengd sem fólk óskar. Það getur a.m.k. um einhverja hríð orðið til þess að nöfn verði stytt hjá öðrum aðilum sem nota þjóðskrána. Þá verður það að ráðast og auðvitað vonum við að það verði í sem minnstum mæli og valdi sem minnstri ánauð.

Vegna þess sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson nefndi áðan tel ég að það sé meira virði að fá þessa niðurstöðu Hagstofunnar sem leysir málið en að fá einhverja umsögn sem kann að vanta í málinu.