131. löggjafarþing — 99. fundur
 30. mars 2005.
Atvinnubrestur á Stöðvarfirði.
fsp. SigurjÞ, 496. mál. — Þskj. 758.

[14:05]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Það er ótrúlegt að verða vitni að því hvernig ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur grafið undan byggðum í landinu. Byggðirnar á sunnanverðum Austfjörðum hafa verið leiknar grátt og það sýna m.a. tölur frá Hagstofunni.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki látið sér nægja það kvótakerfi sem hefur grafið undan byggðunum og er algerlega árangurslaust. Það skilar nú helmingi minni þorskafla á land en fyrir daga þess. Nei, Framsóknarflokkurinn hefur látið til sín taka á fleiri sviðum. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur t..d sett svo strangar reglur um slátrun búfjár að þær leiddu til lokunar sláturhússins á Breiðdalsvík. Hæstv. landbúnaðarráðherra treystir sér hins vegar ekki til að standa við þær reglur sjálfur heldur hefur kennt Evrópusambandinu um sem eru hrein og klár ósannindi.

Hæstv. iðnaðarráðherra hækkaði nýlega rafmagnsreikninginn á þeim sem hita hús sín með raforku og ég veit ekki hvað verður næst hjá Framsóknarflokknum. Ég spyr.

Nú verður Stöðvarfjörður fyrir barðinu á óréttlátu og lélegu fiskveiðistjórnarkerfi. Í framhaldinu er rétt að spyrja frú byggðamálaráðherra hæstvirta hver viðbrögð hennar séu við þeim válegu tíðindum. Ég var á formlegum fundi, sögulegum, fyrir hádegi og þá var að heyra á hæstv. forseta Halldóri Blöndal að honum fyndist þessi fyrirspurn léttvæg. Hann leiðréttir mig ef ég fer rangt með. Ég var staddur á Stöðvarfirði í síðustu viku og ræddi bæði við sveitarstjóra og starfsfólk í frystihúsinu þar. Á því fólki var annað að heyra en að ástandið væri léttvægt. Fólk hefur verulegar áhyggjur af atvinnumálum á Stöðvarfirði og þess vegna væri mjög fróðlegt að fá að heyra afstöðu stjórnarflokkanna. Andvaraleysi þeirra er algert í málinu.

Hæstv. byggðamálaráðherra ritaði á heimasíðu sína þá skoðun að hvorki væri forsvaranlegt né hagkvæmt að róa frá hverju byggðarlagi. Það væri verið að föndra við byggðirnar með slíku háttalagi. Því erum við í Frjálslynda flokknum algerlega ósammála vegna þess að við trúum því að það séu bæði líffræðileg og síðan ýmis hagræn rök fyrir því einmitt að róa frá stöðum eins og Stöðvarfirði í stað þess að vera með eyðibyggðastefnu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í fiskveiðistjórn.

Stjórnvöld bjuggu til kerfi sem leikur þessar byggðir illa. Þessi sömu stjórnvöld skulda íbúunum einhver svör og aðgerðir til að bregðast við þeim vanda sem uppi er.



[14:08]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ljóst er að áform Samherja um að hætta fiskvinnslu á Stöðvarfirði eru áfall fyrir heimamenn, enda 35 stöðugildi í húfi. Greinilegt er hins vegar að heimamenn ætla að snúa vörn í sókn og er m.a. hafin vinna við verkefni sem kallað er Þróunarverkefni á Stöðvarfirði en það er samvinnuverkefni Austurbyggðar, Þróunarstofu Austurlands og Samherja hf. Verkefnið felst í því að fara yfir samsetningu byggðar og meta þau atvinnutækifæri og sóknarfæri sem kunna að leynast á Stöðvarfirði. Kynntu forsvarsmenn Austurbyggðar þessa vinnu á fundi sem haldinn var með þingmönnum Norðausturkjördæmis í síðustu viku en á þeim fundi var farið yfir stöðu atvinnumála á Stöðvarfirði. Ekki lágu fyrir neinar lausnir eftir fundinn, enda var hann fyrst og fremst hugsaður til upplýsinga og undirbúningsvinnu við að fjölga þar atvinnutækifærum. Hefur starfshópurinn þegar hafið greiningarvinnu og áformað er að taka viðtöl við alla starfsmenn Samherja á Stöðvarfirði, alla þá sem eru í atvinnurekstri á Stöðvarfirði og alla þá sem hafa komið fram með viðskiptahugmyndir sem nýst gætu staðnum. Er áformað að finna með þessari greiningarvinnu hvar sóknarfæri Stöðfirðinga liggja. Hugmyndir að margvíslegum atvinnurekstri eru þegar komnar fram og mun starfshópurinn vinna að því að veita góðum hugmyndum brautargengi.

Iðnaðarráðuneytið mun fylgjast grannt með þeirri vinnu sem unnin er í samstarfshópnum og hef ég boðið fram beina þátttöku ráðuneytisins í starfinu. Áætlað er að hópurinn skili tillögum strax á næstu mánuðum.

Það er sérlega ánægjulegt að Þróunarstofa Austurlands kemur öflug að verkefninu. Stoðkerfi núverandi byggðaáætlunar byggist m.a. á öflugum frumkvöðlastuðningi á landsbyggðinni. Við framkvæmd byggðaáætlunar er mikil áhersla lögð á að ýta undir nýsköpun sem hefur skilað sér í mörgum spennandi verkefnum og skapað ný atvinnutækifæri í heimabyggð.

Þá ber að fagna því að Samherji hf. skuli ætla að axla samfélagslega ábyrgð á ástandinu. Viðræður hafa farið fram milli forsvarsmanna Samherja og heimamanna um mögulega þátttöku fyrirtækisins í atvinnuuppbyggingu á staðnum. Þar má nefna atriði eins og að halda áfram vinnslu í samstarfi við heimamenn, byggja upp aðra atvinnustarfsemi á Stöðvarfirði, greiða fyrir samgöngum í önnur byggðarlög, t.d. með almenningssamgöngum, tryggja endurmenntun starfsmanna til að auðvelda aðkomu þeirra að nýjum störfum o.s.frv. Ljóst er að mikill metnaður er til staðar á staðnum til að ná árangri í þeirri vinnu sem nú er hafin. Stöðvarfjörður er á atvinnusvæði þar sem framtíðarhorfur eru að mörgu leyti bjartar. Með tilkomu jarðganga á næstu mánuðum mun fjarlægðin frá Stöðvarfirði til Reyðarfjarðar verða svipuð og fjarlægðin frá Reyðarfirði til Egilsstaða og frá Reyðarfirði til Norðfjarðar. Með byggingu og rekstri Fjarðaáls munu tækifæri til atvinnu- og nýsköpunar aukast til muna og sú þróun mun gagnast Stöðfirðingum.

Þótt ekki líti vel út með atvinnumál á Stöðvarfirði sem stendur er sóknarhugur í heimamönnum og ég bind miklar vonir við að gott samstarf skapist milli Samherja og heimamanna um aðgerðir til að snúa ástandinu við og mun iðnaðarráðuneytið verða tilbúið til að koma að þeirri vinnu. Nú er leitað leiða til að finna fleiri tækifæri til atvinnuuppbyggingar og er ljóst að sú mikla samheldni og jákvæðni sem einkennir þá vinnu mun að öllum líkindum skila sóknarfærum og nýjum störfum.

Ég tel að sú vinna sé til mikillar fyrirmyndar og vonast til að hún skili nýjum störfum á Stöðvarfjörð.



[14:12]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er augljóst að brýn þörf er á víðtæku og samstilltu átaki í atvinnumálum í Austurbyggð eins og nú stendur. Heimamenn hafa líka sannarlega tekið sér fyrir hendur að vinna saman, sveitarstjórn, Þróunarstofa Austurlands og það fyrirtæki sem nú kemur til með að loka fiskvinnslu sinni á Stöðvarfirði, þ.e. Samherji. Þessir aðilar hafa unnið saman að því að finna ný tækifæri og hafa sýnt alveg ótrúlega góða vinnu, unnið mjög vel saman og það kemur fram í erindi sveitarstjórnar Austurbyggðar til okkar þingmanna að menn líta að mörgu leyti mjög björtum augum til framtíðar.

Jarðgöng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar koma í not í haust og þá mun þetta atvinnusvæði stækka og eflast sem er mjög til hagsbóta fyrir alla suðurfirði.



[14:14]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn hv. þingmanns beinir í fyrsta lagi sjónum okkar að stöðu sjávarbyggða og óöryggi vegna núverandi fiskveiðistjórnar, þ.e. með frjálsri sölu og leigu á kvóta. Engin sjávarbyggð getur verið örugg með að halda löndun og vinnslu í núverandi kerfi, þ.e. vinnu við fiskvinnslu.

Í öðru lagi beinir hún sjónum okkar að mikilvægi þess að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi og forðast að öryggi heilla byggðarlaga byggi á einni eða einhæfri atvinnugrein eins og verið hefur í mörgum sjávarbyggðum.

Í þriðja lagi að mikilvægi menntunar sem hægt er að stunda frá heimabyggð og því að jaðarsvæði stóriðju geta orðið illa úti og ekki notið jákvæðrar þróunar. Það beinir augum einnig að mikilvægi góðra samgangna til að stækka atvinnusvæði.

Ég beini þeim óskum (Forseti hringir.) til Austurbyggðar og þeirra verkefna sem fram undan eru að þau gangi eftir og að sveitarfélagið fái góðan stuðning til að vinna að málum sínum.



[14:15]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fulltrúar allra flokka er eiga þingmenn í kjördæminu funduðu með sveitarstjórn Austurbyggðar, fulltrúa frá Þróunarstofu Austurlands og Samherja og var sá fundur málefnalegur og góður. Það er til mikillar fyrirmyndar hvernig þessir aðilar hafa haldið á málum og eru allir tilbúnir að axla samfélagslega ábyrgð í þessu erfiða máli. Ég geri ekki lítið úr því sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson kom inn á áðan, eðlilega hefur fólk miklar áhyggjur af framtíð sinni þar sem fyrirhugað er að fyrirtæki loki.

Það kemur samt ekki á óvart að það skuli vera hv. þingmaður Frjálslynda flokksins sem fer offari í málinu og ég mótmæli orðum hv. þingmanns um andvaraleysi hæstv. ráðherra. Verið er að vinna faglega í málinu og vonandi næst farsæl lausn. Málin leysast ekki með upphrópunum, heldur með samvinnu allra aðila.



[14:16]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér þykir hún afskaplega ömurleg og snautleg, sú vörn sem þingmenn Framsóknarflokksins og hæstv. byggðamálaráðherra viðhafa í þessu máli, dyggilega studd af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki boðlegt að koma hingað og lýsa því yfir að verið sé að vinna einhverja áætlun varðandi einhvers konar nýsköpun fyrir þorp eins og Stöðvarfjörð.

Hvers vegna byggðist Stöðvarfjörður upp? Jú, hann byggðist upp á fiskveiðum og því ætti hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir að geta gert sér grein fyrir. Framtíð Stöðvarfjarðar mun áfram byggjast á fiskveiðum en framtíð Stöðvarfjarðar mun ekki verða tryggð nema íbúum Stöðvarfjarðar verði veittur sjálfsagður réttur til nýtingar á sinni fremstu auðlind sem er jú fiskurinn í sjónum.

Það hlýtur að vekja undrun að hæstv. byggðamálaráðherra sem sjálf er frá Grenivík, sjávarþorpi við Eyjafjörð, skuli ekki gera sér grein fyrir jafneðlilegri og sjálfsagðri staðreynd.



[14:17]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að Stöðfirðingar ætluðu að fara úr vörn í sókn með Samherja og var mjög ánægð með það. Það er Samherji sem er að leggja niður þarna starfsemi. Með því að einkavæða aðganginn að auðlindinni hefur fólki verið fyrirmunað í þessum litlu sjávarþorpum að hefja útgerð og grundvellinum undir þeim byggðum sem um er að ræða hefur raunverulega verið kippt burt.

Það er þetta sem hefur auðvitað gerst og það er á því sem þarf að taka, það þarf aftur að verða til einhvers konar atvinnufrelsi fyrir fólkið í þessum sjávarbyggðum. Annars munu þær aldrei rétta úr kútnum — nema þeim verði breytt í eitthvað allt annað en þær eru. En er það skynsamlegt? Ég tel ekki. Ég tel að það sé full ástæða til þess að það séu sjávarbyggðir allt í kringum landið eins og hafa verið.



[14:19]
Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þingmenn kjördæmisins áttu fyrir tæpum hálfum mánuði ágætan fund með fulltrúum frá Þróunarstofu Austurlands, sveitarstjórn Austurbyggðar og fulltrúum Samherja um atvinnuástandið á Stöðvarfirði þar sem farið var yfir sviðið og þau nýju viðhorf sem eru nú að verða til á Austurlandi með jarðgöngum og stóriðju við Reyðarfjörð.

Mér þótti athyglisvert að hv. þm. Jóhann Ársælsson skyldi hafna því að sjávarbyggð gæti breyst og byggt sig upp með öðrum hætti. Akranes er dæmigerð sjávarbyggð sem nú blómstrar vegna hinnar miklu iðnaðaruppbyggingar sem þar hefur verið, sementsverksmiðju, járnblendiverksmiðju, álverksmiðju. Hið sama verður auðvitað upp á teningnum á Miðausturlandi, álverið þar mun setja svip sinn á atvinnulífið.

Það sem ég hafði hins vegar orð á í morgun, til þess að það valdi ekki misskilningi, er að það sé athyglisvert að sjá hér fyrirspurn um (Forseti hringir.) atvinnubrest á Stöðvarfirði vegna þeirrar uppbyggingar sem þar er. (Forseti hringir.) Þá verður manni hugsað til annarra sjávarbyggða um landið en ég veit að hv. þm. Sigurjón Þórðarson skilur ekki mælt mál.



[14:20]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Á þingmönnum hv. stjórnarliðsins er að heyra að allt sé til fyrirmyndar, bæði framganga Samherja og síðan þessi verkefni sem eru í gangi hjá Þróunarstofu Austurlands. Það er verið að kanna samsetningu byggðar, það er verið að leita eftir sóknarfærum. En ég fór austur og ég sá að byggðin var í kringum 250 manns. Ég sá hvaða sóknarfæri eru á einmitt þessum stað, og það er sjávarútvegur. Það þarf auðvitað að veita þessum byggðum á ný atvinnuréttindi. Það þarf ekki að búa til einhver „dúblídúbl“-verkefni sem ekkert innihald er í. Við höfum séð það, því miður, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, því að hér hafa verið sett niður verkefni af ekki ómerkari mönnum en sjálfum hæstv. forsætisráðherra. Hann hleypti af stokkunum verkefni á vegum Íslenskrar miðlunar og lofaði þar, að sögn heimamanna sem ég heimsótti í síðustu viku, miklum verkefnum frá ríkinu. Hverjar voru efndirnar? Það var allt svikið, því miður.

Þess vegna er orðið tímabært að stjórnarliðar svari því hvað eigi í rauninni að gera. Á að koma með einhver verkefni til að drepa málum á dreif, eins og Íslensk miðlun var, og lofa jafnvel einhverju og einhverju sem síðan er svikið, eins og verkefnum frá ríkinu, eða á eitthvað raunverulegt að koma? Það stendur óvart í flokkssamþykktum Framsóknarflokksins að það ætti að tryggja byggð í sjávarbyggðunum, og því var fólkinu lofað fyrir síðustu kosningar. Síðan er það allt gleymt eftir kosningar og hæstv. byggðamálaráðherra segir á heimasíðu sinni að það sé af og frá, það sé bara verið að föndra við byggðir þegar talað er um að tryggja sjávarbyggðunum atvinnuréttindi. Við erum (Forseti hringir.) algerlega ósammála þessu í Frjálslynda flokknum, hæstv. forseti.



[14:22]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins eiga mikið ólært í pólitík. Hér kom annar þingmaður flokksins og sagði að ekki væri boðlegt að segja að verið væri að vinna að málum. (Gripið fram í.) Ég hefði haldið að einmitt aðferðin til þess að ná niðurstöðu væri að vinna í málum, og það er verið að gera í þessu tilfelli.

Það sem er gott er að horft er með jákvæðu hugarfari fram á veginn af íbúum Stöðvarfjarðar og þannig er það yfirleitt sem mál leysast. Það sagði forsvarsmaður sveitarfélagsins, að mál leysist frekar með jákvæðu hugarfari en neikvæðu.

Hv. þingmaður básúnar hér að Framsóknarflokkurinn sé að eyðileggja allt með sjávarútvegsstefnunni og hann sé að eyðileggja allt með því að leggja niður sláturhús (Gripið fram í.) og sé að hækka raforkureikningana — en hvað með álverið? Hv. þingmaður nefndi ekki álverið þar sem Framsóknarflokkurinn var vissulega í forustu. Það er verið að byggja álver á Austurlandi ef hv. þingmaður skyldi ekki vita það, og það vill svo til að Framsóknarflokkurinn var þar í forustu. Það vill svo til að Frjálslyndi flokkurinn studdi hvorki Kárahnjúkavirkjun né álversuppbygginguna. Þetta er nú flokkurinn sem þykist öllu geta bjargað. Ég held að hv. þingmaður ætti aðeins að hugsa sig tvisvar um áður en hann kemur hér upp í stólinn með stóru orðin sín.

Svo talar hann um það að Framsóknarflokkurinn reki eyðibyggðastefnu. (SigurjÞ: Já. …) Það er ég sem hef orðið hérna. Vegna þess sem ég skrifaði á heimasíðu mína — ég er stolt af því sem ég skrifa þar, og hv. þingmaður vitnar æðioft í það — vil ég segja að ég hef haldið því fram að það sé ekki aðferðin að skipta kvótanum niður á byggðarlögin og síðan eigi þau að vinna úr honum. (Gripið fram í.) Við verðum að reka sjávarútveginn sem alvöruatvinnustarfsemi og það erum við að gera í dag. Það er gott mál að Samherji, það fyrirtæki sem hv. þingmaður sjálfsagt hefur ekki mikið álit á, er að vinna með heimamönnum að lausn mála. Það er reyndar nýjung að svo sé og ég er mjög ánægð með það sem verið er að vinna að (Forseti hringir.) en mun halda áfram að fylgjast með.