131. löggjafarþing — 99. fundur
 30. mars 2005.
Meðferðarúrræði í fangelsum.
fsp. MF, 612. mál. — Þskj. 915.

[15:02]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fangelsismálastofnun hefur sett fram markmið stofnunarinnar í fangelsismálum og hugmyndir um framtíðaruppbyggingu fangelsa. Þar er fjallað um ástandið eins og það er í dag og þörf á úrbótum. Fangelsismálastofnun telur mikilvægt að sett verði þau markmið að föngum verði tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að fyrir hendi séu aðstæður og umhverfi sem hvetur fanga til að takast á við vandamál sín.

Það er staðreynd að sífellt fleiri einstaklingar sem koma til afplánunar í fangelsum eru háðir fíkniefnum. Eiturlyfjaneysla hefur aukist verulega á síðustu árum og áratugum og afbrotum tengdum eiturlyfjaneyslu hefur fjölgað í takt við það. Margir fangar er við komu í fangelsi í harðri neyslu eða eiga við verulegt áfengisvandamál að stríða. Eiturlyfjaneyslu fylgja síðan oftar en ekki ýmiss konar geðræn vandamál og fangar geta sótt tíma hjá sálfræðingi og þeim gefst kostur á að ljúka síðustu sex vikum afplánunar í vímuefnameðferð.

Í samantekt Fangelsismálastofnunar er bent á að á þessu séu þó annmarkar þar sem sálfræðingar anni vart eftirspurn eftir viðtölum og að vímuefnameðferðir sem bjóðast föngum séu oft og tíðum stuttar og settar fram á röngum tímapunkti, þ.e. í lok afplánunar, en fangar eiga margir við langvarandi vímuefnavanda að stríða við komu í fangelsið.

Í síðustu úttekt Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingum sem gerð var hér kom fram að skortur væri á vímuefnalausri deild í fangelsum. Árið 2000 var áformað að byggja upp slíka deild í fangelsinu á Litla-Hrauni og hafist handa við að þjálfa og mennta fangaverði til starfa, en engin fjárveiting hefur enn fengist í verkefnið þannig að síðan þá hefur ekkert gerst.

Það virkar hálf öfugsnúið að boðið sé upp á meðferð við vímuefnaneyslu við lok afplánunar en ekki strax í upphafi. Það segir sig sjálft að ef boðið væri upp á öfluga meðferð strax og fangi kemur inn og eftirfylgni á meðan á afplánun stendur skilaði meðferðin betri árangri. Þá er einnig ljóst að verulega dragi úr hvatanum til að smygla eiturlyfjum inn í fangelsið þar sem þörfin yrði minni. Síðast en ekki síst yrði þetta til þess að auka möguleikana á að fangar nýttu dvölina til að byggja sig upp til framtíðarþátttöku í þjóðfélaginu. Þetta hefur verið baráttumál Fangelsismálastofnunar en ekki síður aðstandenda fanga.

Ég spyr því hæstv. dómsmálaráðherra:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fangar eigi kost á meðferð við fíkniefnaneyslu strax í upphafi afplánunar?



[15:04]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt fá allir fangar sem óska eftir vímuefnameðferð við upphaf afplánunar slíka meðferð sem felst í afeitrun undir umsjá læknis. Frekari meðferð og aðstoð fagaðila fer síðan eftir stöðu og vilja hvers og eins fanga og möguleikum til að koma við meðferð. Fangelsismálastofnun er t.d. með í undirbúningi að gera samning við vímuefnaráðgjafa sem kæmi reglulega í fangelsi til að vega og meta þörf fyrir áframhaldandi meðferð auk þess sem verið er að kanna hvað unnt er að gera á Litla-Hrauni til að aðstoða þá enn frekar sem eiga við vímuefnavanda að stríða. Rétt er að hafa í huga að haldnir eru reglulegir AA-fundir í fangelsunum auk þess sem nú þegar hafa tólf fangar á þessu ári verið sendir í vímuefnameðferð á meðferðarstofnunum.

Eins og hv. fyrirspyrjanda er einnig vel kunnugt er nú til meðferðar á Alþingi frumvarp til laga um fullnustu refsinga þar sem gert er ráð fyrir að útbúin sé sérstök meðferðar- og vistunaráætlun fyrir fanga við upphaf refsivistar. Raunar hef ég þegar svarað skriflegri fyrirspurn frá hv. þingmanni um það efni. Fangelsismálastofnun hefur þegar hafið undirbúning að gerð slíkra áætlana eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Í slíkri áætlun er m.a. fólgið að metin er staða og þörf fyrir meðferð hjá þeim sem á við vímuefnavanda að etja.

Fangelsismálastofnun er í náinni samvinnu við heilbrigðisyfirvöld við að leggja mat á þörfina fyrir þjónustu geðlækna og sálfræðinga í fangelsunum og kanna nýjar leiðir í þeim efnum eins og auknar hópmeðferðir. Rétt er að hafa í huga í þessu samhengi að samkvæmt gildandi lögum um fangelsi og fangavist sér heilbrigðisráðuneytið um og ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun. Umboðsmaður Alþingis sá nýlega ástæðu til að árétta að þessi ábyrgð liggur hjá heilbrigðisráðuneytinu í bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Það er ljóst af framansögðu að margt er reynt til að aðstoða þá sem eiga við vímuefnavanda að etja og þeir eiga kost á viðeigandi meðferð við upphaf afplánunar. Þetta atriði mun hins vegar styrkjast enn frekar verði frumvarp um fullnustu refsinga að lögum þar sem kveðið er á um meðferðar- og vistunaráætlun í upphafi afplánunar. Fangelsismálastofnun hefur unnið skýrslu um markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna eins og greint er frá í áðurnefndu frumvarpi. Þar hefur að sjálfsögðu verið hugað að þessum atriðum og hvernig best er hægt að tryggja fullnægjandi þjónustu á þessu sviði til framtíðar litið.



[15:07]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það var gott að fá staðfestingu hér á því í svari hæstv. ráðherra að föngum standi til boða meðferð við fíkniefnaneyslu eða áfengisneyslu strax við komu í fangelsi. Ég hélt satt að segja að lítil áhersla væri lögð á það núna heldur frekar á meðferð í lok afplánunar og gott er til þess að vita ef ég hef misskilið það hvernig þetta fer fram í fangelsum landsins eins og á Litla-Hrauni.

Fyrir um það bil viku, ég held síðasta miðvikudag, svaraði hæstv. ráðherra spurningu um hvernig tekist væri á við fíkniefnaneyslu fanga í fangelsum. Þá lagði hæstv. ráðherra verulega áherslu á að verið væri að auka leit að fíkniefnum og herða refsingar fyndust fíkniefni. En nú heyri ég að það kveður við annan tón hjá hæstv. ráðherra og hann leggur á það áherslu að fangar komist í meðferð strax við byrjun afplánunar og er það vel ef orðið hefur áherslubreyting.



[15:08]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og tek undir það að mér finnst mikið framfaraspor að Fangelsismálastofnun ríkisins hefur sett fram mjög skilmerkileg markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna. Einmitt í því plaggi kemur mjög greinilega fram af þeirra hálfu að þeir telja að sú meðferð sem boðið er upp á við komu í fangelsið sé alls ekki fullnægjandi. Þeir segja m.a., með leyfi forseta, að: „... vímuefnameðferðir þær sem bjóðast föngum eru oft og tíðum stuttar og settar fram á röngum tímapunkti fyrir þessa einstaklinga en þeir eiga margir við langvarandi vímuefnavanda að stríða.

Þróunin hefur verið sú sama hér á landi og víðast hvar erlendis, að föngum með alvarlegan fíkniefnavanda hefur fjölgað, svo og óskilorðsbundnum dómum fyrir fíkniefnabrot.“

Jafnframt segir, með leyfi forseta, að stofnunin: „... telur mikilvægt að boðið verði upp á afeitrun, sem er viðurkennd læknis- og hjúkrunarmeðferð og sem hæfist um leið og fangi kemur til afplánunar, svo og skipulagða og árangursmælda vímuefnameðferð sem sé viðhaldið á vímuefnalausri deild í fangelsi.“

Þetta hefur, eins og ég sagði áðan, lengi verið baráttumál þeirra sem þekkja vel til fangelsismála og ekkert síður hefur það verið baráttumál starfsmanna Fangelsismálastofnunar og fangelsanna og svo aðstandenda að koma á þessari skipulögðu meðferð strax við upphaf afplánunar. Ég tel, virðulegi forseti, að stór hluti af því að nýta veruna í fangelsinu sem betrunarvist sé að hjálpa þeim sem möguleiki er á að hjálpa til þess að standa sig betur þegar þeir koma aftur út í lífið og minni á að árið 2000 var hafinn undirbúningur að vímuefnalausri deild á Litla-Hrauni og þjálfun starfsmanna. Síðan stöðvaðist það því miður vegna fjárskorts og segja má að það sé jafnt á ábyrgð Alþingis og ráðuneytis.