131. löggjafarþing — 101. fundur
 1. apríl 2005.
ferðamál, fyrri umræða.
stjtill., 678. mál (heildartillaga 2006--2015). — Þskj. 1032.

[14:19]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um ferðamál.

Ferðaþjónustan er mjög vaxandi atvinnugrein hér á landi og því brýnt að henni sé mótuð skýr stefna til framtíðar af hálfu stjórnvalda. Atvinnurekendum og neytendum sé þannig ljóst á hverjum tíma hverjar séu helstu áherslur hins opinbera gagnvart framtíðaruppbyggingu greinarinnar. Það skiptir miklu máli fyrir ímynd lands og þjóðar hvaða mynd íslensk ferðaþjónusta skapar með þjónustu sinni.

Árið 1996 kom út stefnumótun samgönguráðuneytisins í ferðamálum til ársins 2005. Síðan þá hefur átt sér stað mikil þróun í greininni. Vöxtur hefur aukist talsvert meira en ráð var fyrir gert, fyrirtæki hafa sameinast, önnur hætt rekstri og ný verið sett á laggirnar, auk þess sem hagsmunasamtök ferðaþjónustunnar voru stofnuð. Breytingar hafa átt sér stað á sviði farþegaflugs, bæði innan lands og til og frá landinu. Reiknað er með frekari breytingum þar og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.

Stóraukin notkun internetsins, breytingar í fjarskiptatækni og þróun kauphegðunar ferðamanna kallar á breytingar á þeim innviðum sem ferðaþjónustufyrirtæki treysta á. Þá hafa markaðs- og landkynningarmál verið tekin nýjum tökum sem hefur skilað miklum árangri.

Umhverfismál hafa öðlast hærri sess í allri umræðu um ferðamál, enda hefur mikil þróun átt sér stað og mikil vinna verið lögð í þann málaflokk innan ferðaþjónustunnar og utan. Hið sama má segja um gæðamál. Einnig á þetta við um menntamálin en þar er frekari samræming á námsframboði í þágu ferðaþjónustunnar talin nauðsynleg. Skilgreina þarf betur menntunarþörfina, samstarf opinberra og einkaaðila og hlutverk stjórnvalda í fjármögnun, uppbyggingu og vöruþróunarverkefnum. Þá hefur aukning orðið á framlögum hins opinbera til íslenskrar ferðaþjónustu og nýrra leiða verið leitað til að ná hámarksárangri greinarinnar.

Einstökum aðgerðum í markaðsmálum hefur verið ýtt úr vör á ýmsum markaðssvæðum sem virðast hafa skilað umtalsverðum árangri, samanber að ferðamönnum sem sóttu Ísland heim fjölgaði um 69% tímabilið 1995–2004 en sambærileg aukning í heiminum öllum var um 24% samkvæmt opinberum upplýsingum.

Samgönguráðuneytið hefur nú látið vinna sérstaka ferðamálaáætlun fyrir tímabilið 2006–2015 og henni er ætlað að taka við af þeirri stefnumörkun sem unnin var á sínum tíma. Þingsályktunartillagan sem hér er lögð fram byggir á þessari ferðamálaáætlun sem jafnframt er lögð fyrir þingmenn til kynningar en hún er unnin af stýrihóp sem samgönguráðherra skipaði haustið 2003 til að vinna að gerð ferðamálaáætlunar fyrir Ísland fyrir tímabilið 2006–2015.

Við undirbúning og gerð þingsályktunartillögunnar var m.a. byggt á skýrslum sem unnar hafa verið um heilsutengda ferðaþjónustu, menningartengda ferðaþjónustu, skýrslu um auðlindina Ísland sem skilgreindi meginsegla sem draga til sín ferðamenn og skýrslu um framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu. Allar þessar skýrslur og greinargerðir voru unnar á síðasta kjörtímabili og hafa nýst við stefnumörkun og markaðsaðgerðir stjórnvalda sem unnar hafa verið í góðu samstarfi við samtök aðila í ferðaþjónustu.

Stýrihópurinn sem vann að gerð þingsályktunartillögunnar hafði samráð við sérstakan vettvang hagsmunaaðila og leitaði þar m.a. sjónarmiða og tillagna varðandi starf hópsins. Við vinnslu áætlunarinnar var byggt að miklu leyti á skýrslum, úttektum og greinargerðum sem gerðar hafa verið á vegum ráðuneytisins og annarra aðila. Þá var og rætt við marga aðila sem vinna að ferðamálum og tengdri starfsemi.

Sett var upp vefsvæði fyrir verkefnið í því augnamiði að auðvelda samskipti, gera grunngögn aðgengileg á einum stað og gera vinnu við áætlunina gagnsærri. Þannig var upplýsingatæknin notuð til hins ýtrasta. Einnig voru haldin málþing með aðilum hagsmunavettvangsins um starf stýrihópsins.

Í þessari þingsályktunartillögu er áhersla á eftirfarandi meginmarkmið:

1. Náttúra Íslands sem menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála.

2. Tryggð verði samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni.

3. Álagi vegna ferðaþjónustu verði jafnað á landið og íbúa þess og verði innan þolmarka í samræmi við niðurstöður rannsókna.

4. Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar verði byggð upp og varin.

Enn fremur verði unnið að eftirfarandi markmiðum eins og fram kemur í tillögunni:

1. Ferðaþjónustunni verði sköpuð rekstrarskilyrði sambærileg við rekstrarskilyrði í samkeppnislöndunum.

2. Ísland verði í forustu í umhverfisvænni ferðaþjónustu.

3. Fylgt verði eftir uppbyggingu þjóðgarða með því að stuðla að ferðaþjónustu sem samþættir útivist og náttúruvernd.

4. Ábyrgð ferðamanna og fyrirtækja í ferðaþjónustu verði aukin í umhverfismálum.

Til að ná markmiðum í ferðamálum gerir þingsályktunartillagan ráð fyrir að beitt verði sérstökum aðgerðum sem m.a. varða rekstrarumhverfi greinarinnar, kynningarmál, nýsköpun, menntun, rannsóknir, gæðamál og öryggismál.

Í greinargerð með tillögunni er síðan farið ítarlega út í þau markmið og þær leiðir sem nauðsynlegar teljast til að ná þeim meginmarkmiðum sem fram eru sett í tillögunni.

Verði þingsályktunartillagan samþykkt er sérstök aðgerð á framkvæmdaáætlun til ársins 2010 þegar undirbúin. Hún er þó að miklu leyti bundin af þeim fjárveitingum sem fást til verkefnanna en byggist að sjálfsögðu fyrst og fremst á framgangi og fjárfestingu hagsmunaaðila í greininni.

Þingsályktunartillagan sem hér er mælt fyrir er lögð fram í þeim tilgangi að varða leið ferðaþjónustunnar sem er sú atvinnugrein sem hefur vaxið hvað mest á Íslandi. Það er von mín að með samþykkt hennar geti Alþingi og opinberir aðilar hlúð að því mikilvæga starfi sem einstaklingar og fyrirtæki standa fyrir.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. samgöngunefndar og síðari umræðu.



[14:28]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Engum sem fylgst hefur með málefnum ferðaþjónustunnar blandast hugur um það að ýmislegt þarf að breytast og á mörgu þarf að taka til að efla umgjörð og umhverfi þessarar mikilvægu atvinnugreinar okkar Íslendinga þó svo að harðast hafi kannski verið gengið gegn henni með virkjanaframkvæmdum á síðustu árum.

Mig langaði að spyrja hæstv. samgönguráðherra sérstaklega að einu. Nú hafa forustumenn og talsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar kvartað undan háu áfengisgjaldi á léttvín og bjór og ítrekað lagt fram óskir um að leitað verði leiða til að lækka áfengisgjaldið á þessar vörur þannig að ferðamönnum bjóðist þær á sambærilegu verði og gerist og gengur í nágrannalöndunum. Verð á léttvíni og bjór sem er t.d. mikil neysluvara með mat hjá mjög mörgum útlendingum þarf að verða lægra.

Í tillögunni sem við ræðum í dag um ferðamál segir t.d., með leyfi forseta:

„Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar.

1. Opinber gjöld af aðföngum og búnaði til ferðaþjónustu verði sambærileg við gjöld í samkeppnislöndum.“

Einnig segir síðar í þessu ágæta plaggi um leiðir til að bæta rekstrarumhverfið:

„Skattlagning verði endurskoðuð.

Opinber gjöld vegna aðfanga og búnaðar til ferðaþjónustu verði sambærileg og í samkeppnislöndum okkar.“

Eins og forustumenn ferðaþjónustunnar hafa lagt þetta upp hallar á samkeppnishæfi Íslands sem ferðamannalands vegna hins háa gjalds á léttvín og bjór og það fælir útlendinga jafnvel frá. Út spyrst hve himinhá verðlagningin er á þessa vöru. Þó hefur einnig komið fram að stór hluti þess er líka mikil álagning veitingamanna en það þarf að sjálfsögðu að skoða líka.

Því spyr ég hæstv. samgönguráðherra hvort hann leggi sama skilning í þennan lið í tillögunni hvað varðar opinber gjöld af aðföngum til að bæta rekstrarumhverfið. Mun hann beita sér fyrir því að gjald á léttvín og bjór lækki eins og talsmenn og forustumenn ferðaþjónustunnar hafa hvatt mjög til á liðnum missirum til að bæta einmitt rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar?



[14:30]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að þetta atriði væri nú ekki það sem stæði upp úr í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. áfengisgjald á léttvín og bjór. Engu að síður er ástæða til þess að fara yfir spurningar hv. þingmanns.

Vegna þessarar gagnrýni og vegna athugasemda um hátt áfengisverð á Íslandi lét ég gera úttekt á því sérstaklega vegna þess að komið höfðu athugasemdir um hátt áfengisgjald. Vissulega er áfengisgjald hátt á Íslandi samanborið við ýmis önnur lönd. Engu að síður hefur áfengisgjald á léttvín og bjór ekki hækkað mjög lengi í takt við verðlag þannig að í raun hefur það hægt og bítandi með verðlagsþróun verið að lækka.

Í þessari úttekt sem ég lét gera kom fram að áfengisgjaldið skiptir engum sköpum um verðlagningu á áfengi á veitingastöðum. Álagning veitingahúsanna ræður þar för. Ég vil hins vegar ekki kveða upp neinn dóm um það að verðlagning á áfengi á íslenskum veitingastöðum sé óeðlilega há. Eins og veitingamenn hafa vakið athygli á er oft og tíðum verið að veita margs konar aðstöðu og þjónustu sem veitingamenn verða að fá endurgjald fyrir og verða þess vegna að verðleggja sína þjónustu í samræmi við það. Það kemur fram í formi verðs á þessum vínum.

Ég tel því að þetta sé fjarri því að vera vandamál af þeirri stærðargráðu að það þurfi að taka upp sem sérstakt mál í tengslum við þessa umræðu. (Forseti hringir.) Ég tel miklu mikilvægara að takast á við mörg önnur atriði.



[14:32]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu þurfum við að ræða fjöldamargt í sambandi við ferðamál á Íslandi og þetta er kannski ekki það sem stendur hæst upp úr. En þetta er eitt af því og þetta er mál sem að mati forustumanna ferðaþjónustunnar hefur staðið upp úr. Þeir hafa skrifað mjög um þetta í íslensku dagblöðin og fjallað mjög um það á sínum fundum og þeir hafa fullyrt og haldið því fram að háir skattar á léttvín og bjór standi í veginum fyrir því að þessi vara sé á ásættanlegu verði fyrir ferðamenn. Áfengisverðið er hérna gríðarlega hátt á veitingastöðunum mörgum. Forustumenn ferðaþjónustunnar hafa haldið því mjög fram að þetta sé vandamál, þetta þvælist fyrir ferðaþjónustunni, þetta þvælist fyrir uppbyggingu hennar og þetta sé eitt af því í rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar sem verði að breyta og taka á.

Hæstv. samgönguráðherra er augljóslega á annarri skoðun. En hann getur ekki drepið málinu á dreif með því að honum finnist það ekki það sem ræða ber í þessu máli. Við ráðum að sjálfsögðu hvað við ræðum hér í þessari áætlun og þetta er eitt af því sem er komið inn á og er átt við með orðunum „Opinber gjöld af aðföngum“ ef vænta má með hliðsjón af þeirri umræðu sem farið hefur fram af þeim sem að ferðaþjónustunni standa. Þó svo að hæstv. ráðherra ferðamála hafi ekki tekið undir það samkvæmt því sem fram kemur hjá honum og svari hans hér þá er þetta eitt af þeim málum sem hafa staðið upp úr hjá þeim sem berjast fyrir bættu rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar enda þarf að lyfta grettistaki á mörgum sviðum til að rekstrarumhverfi hennar sé viðunandi eins og fram kom á dögunum þegar fjallað var um að arðsemi af þessari atvinnugrein er nánast engin. Auðvitað þarf að breyta mörgu, menntunarmálum, gæða- og öryggismálum og fjölda mörgum öðrum málum. En þetta er eitt af því sem þarf að koma fram í þessari umræðu.



[14:34]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það fer ekkert á milli mála að það þarf að leita allra leiða til að bæta afkomu í íslenskri ferðaþjónustu. Þess vegna m.a. er nú tillagan flutt. Stóra og mikilvæga málið í því samhengi er að lengja ferðamannatímann til þess að nýta fjárfestingu í ferðaþjónustunni betur, í hótelum og veitingastöðum og öllum þjónustuþáttum þessarar greinar. Stóra málið er því að fá ferðamenn til þess að koma til landsins allan ársins hring.

Ég endurtek að ég tel ekki rétt að áfengisgjaldið ráði úrslitum í afkomu íslenskrar ferðaþjónustu. Það er ekki þannig. Hér er lögð áhersla á að við reynum að skapa íslenskri ferðaþjónustu sambærileg rekstrarskilyrði. Það kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að að því beri að stefna sem mest. Sem dæmi um skattlagningu aðfanga minni ég á að opinber gjöld vegna innflutnings á rútum til landsins sem notaðar eru til þess að flytja ferðamenn um landið hafa verið lækkuð stórlega. Það hefur leitt til þess að endurnýjun þess flota hefur verið heilmikil sem betur fer. Það er dæmi um aðgerð sem ég tel að hafi verið afskaplega vel heppnuð og er partur af því sem hér er verið að tala um, þ.e. að skapa þessi rekstrarskilyrði og sem m.a. snýr að skattlagningu og opinberum gjöldum af greininni.

Að öðru leyti undirstrika ég það að þetta er mikilvæg umræða sem þarf að fara fram gagnvart (Forseti hringir.) atvinnugrein sem hefur vaxið mjög mikið og við eigum mikla möguleika á að auka enn frekar.



[14:36]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. samgönguráðherra og ferðamálaráðherra til hamingju með að hafa lagt fram þessa þingsályktunartillögu. Hún er einn fyrsti formlegi ramminn um þennan atvinnuveg í heild eða a.m.k. tilraun til þess að taka á honum heildstætt á Alþingi og er sjálfsagt að lýsa yfir ánægju með það.

Ég vil líka taka undir þær grunnáherslur sem eru lagðar fram í þessari þingsályktunartillögu t.d. í meginmarkmiðunum, með leyfi forseta:

„1. Náttúra Íslands, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála. …

4. Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar verði byggð upp og varin.“

Þetta einnig, með leyfi forseta:

„2. Ísland verði í forustu í umhverfisvænni ferðaþjónustu. …

Kynningarmál.

1. Áfram verði unnið að uppbyggingu ímyndar Íslands og hún varin með því að leggja áherslu á eftirfarandi þætti í kynningarstarfi ferðaþjónustunnar:

a. einstaka og fjölbreytta náttúru,

b. umhverfisvernd“.

Það má eiginlega segja að þessir grunnþættir séu eins og rauður þráður í gegnum þessa þingsályktunartillögu eins og eðlilegt er og jafnframt áhersla hæstv. ráðherra á þennan vaxandi atvinnuveg.

En ég spyr ráðherrann. Nú höfum við ráðherra iðnaðar- og atvinnumála sem ríður um héruð og boðar virkjanir og stóriðju í hverju fallvatni og hverri náttúruperlunni á fætur annarri. Er ráðherrann einn í þessari ríkisstjórn um þennan ágæta áhuga sinn og ágætu markmið sem hér eru sett fram eða getum við sett einhver bönd t.d. á iðnaðarráðherrann til að koma í veg fyrir að hún eyði íslenskum náttúruperlum og vinni gegn (Forseti hringir.) hagsmunum íslenskrar ferðaþjónustu eins og hún er berlega að gera?



[14:39]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fjalla um stjórnartillögu þannig að ríkisstjórnin stendur öll að baki henni einhuga mjög og það er ríkur vilji stjórnarflokkanna til þess að standa vel að þessum málum og tryggja framgöngu og afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu.

Ég vil ekkert um það segja hvort koma þurfi böndum á einstaka ráðherra. En ég tel að allt fram að þessu hafi verið býsna góð sambúð milli ferðaþjónustuaðila og þeirra sem virkja fallvötn og nýta orkulindir landsins. Ég held því t.d. að uppbygging á hálendinu, vegir og troðningar í tengslum við virkjanaframkvæmdir o.s.frv., hafi nýst ferðaþjónustunni afskaplega vel. En þetta þarf auðvitað að fara saman. Þess vegna er svo rík áhersla í þessari stjórnartillögu lögð á náttúruna. Við kynnum Ísland sem land þar sem náttúran er í fyrirrúmi og varðveisla hennar og við viljum nýta okkur það með því að kalla til okkar góða gesti sem vilja njóta íslenskrar náttúrufegurðar. Það er, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, meginþráður þessarar tillögu. Ég fagna þeim ágætu undirtektum sem komu fram í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar við þessa tillögu.



[14:41]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekkert að biðja hæstv. ráðherra að reyna að verja iðnaðarráðherrann eða stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, alls ekki. Ég styð ráðherrann heils hugar í þeirri stefnumörkun sem hér er lögð fram sem gengur þvert á stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Mér finnst það bara gott. Einn aðalvandi ferðaþjónustunnar, eins og hæstv. ráðherra tæpti á í ræðu sinni, er afkoman, fjárhagurinn. Og hver er mesta ógnin við ferðaþjónustuna núna? Það er gengisþróunin, það er hið háa gengi íslensku krónunnar og lágt engi á erlendum gjaldmiðlum hér. Af hverju stafar þessi gengisþróun? Af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Sú stefna ríkisstjórnarinnar snertir því ferðaþjónustuna á tvennan hátt; annars vegar með því að ráðast á náttúruperlurnar og hins vegar með því að stóriðjustefnan hefur áhrif á gengið og skerðir þannig afkomu og samkeppnismöguleika í þessari stóru grein sem vex hratt og skilar mestum þjóðhagslegum ábata.

Ég vil líka benda hæstv. ráðherra á fjárlögin. Því miður er dregið úr framlögum til ferðamála á fjárlögum þessa árs frá því sem var áður á um annað hundrað milljóna króna, að mig minnir, sem var ætlað í markaðsátak og í langtímaáætlun eða fjögurra ára áætlun um fjármagn til ferðamála er heldur dregið úr því í þeim fjárlögum sem við nú störfum eftir. Sama má segja um niðurskurð á vegamálum eða vegáætlun sem er grunnþáttur fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu.

Ég bara trúi því og treysti og hef heyrt hæstv. ráðherra lýsa því að hann sé ekki sáttur við að vera settur svona undir hnífinn sem einmitt bitnar á uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann einhverja von til þess að vinna þessu máli enn þá meira fylgi innan ríkisstjórnarinnar hvað (Forseti hringir.) varðar fjárlög, framlög á fjármunum til (Forseti hringir.) grunnþátta ferðaþjónustunnar og bættra samgangna?



[14:43]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er af mörgu að taka ef ætti að svara út í hörgul öllum atriðum sem hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á í stuttri ræðu og vonandi gefst færi á að gera það í öðru en andsvari hér.

Fyrir það fyrsta vil ég undirstrika það sem ég sagði fyrr að hingað til hefur farið afskaplega vel á með þeim sem stunda nýtingu auðlinda okkar, orkulinda, og þeirra sem stunda ferðaþjónustu og vonandi verður svo áfram.

Aðeins út af afkomu greinarinnar þá er í sumum þáttum ferðaþjónustunnar betri afkoma núna en nokkru sinni fyrr. Lít ég þar t.d. til langstærsta ferðaþjónustufyrirtækisins, Flugleiða, sem eitt sinn hét svo. Staða þess fyrirtækis hefur aldrei verið betri. Staða flugfélaganna sem stunda innanlandsflug hefur aldrei verið betri en um þessar mundir. Engu að síður er staða fyrirtækja, minni fyrirtækja sérstaklega út um landið sem sinna þessari þjónustu allt árið, ekki nógu góð. Eina ráðið og það allra mikilvægasta og besta er að standa þannig að landkynningu og markaðsmálum og uppbyggingu þjónustunnar að ferðamenn séu hér sem mest allt árið eins og ég nefndi fyrr.

Hvað varðar niðurskurð þá ber ekki á nokkrum samdrætti í innflutningi ferðamanna til Íslands. Við höfum því staðið þannig að málum, hæstv. forseti, landkynningarmálum og uppbyggingarmálum, að það koma fleiri og fleiri ferðamenn og aldrei fleiri en nú og aukningin er sýnilega strax verulega á þessu ári. Stefna ríkisstjórnarinnar og stefna samgönguráðherrans sem ferðamálaráðherra er því að mínu mati alveg hárrétt. Við erum á réttri leið. (Forseti hringir.) Við munum að sjálfsögðu standa að uppbyggingu samgöngumannvirkjanna eins og við höfum verið að gera (Forseti hringir.) og leggja meira til þeirra en nokkru sinni áður.



[14:45]Útbýting:

[14:46]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna sömuleiðis framkomu þessarar þingsályktunartillögu um ferðamál. Ég er í öllum aðalatriðum ákaflega sáttur við þær áherslur sem hér eru lagðar í þeim meginmarkmiðum sem ferðamálin eiga að þróast eftir eða stefna beri að á umræddu tímabili, 2006–2015. Vandinn er ekki sá að þar séu menn ekki í sjálfu sér að beina sjónum að réttum hlutum heldur miklu fremur hitt hvernig menn nái þeim markmiðum fram. Hvar er afl þeirra hluta sem gera skal í formi fjárveitinga eða beinna aðgerða?

Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein. Hún er um þessar mundir og hefur verið nokkur undanfarin ár næstöflugasti gjaldeyrisaflandi þjóðarinnar á eftir sjávarútveginum. Ferðaþjónustan náði þessum sess fyrir nokkrum árum og hefur haldið honum, er ýmist í öðru sæti eða við hliðina á stóriðjunni þrátt fyrir þann vöxt sem þar hefur verið. Og þó svo að stóriðja eða álframleiðsla fyrst og fremst kunni tímabundið að fara fram úr ferðaþjónustunni sem brúttó gjaldeyrisaflandi inn í þjóðarbúið óttast ég ekki uppgjörið þegar kemur að nettóskilunum og ekki síst því hvernig afraksturinn í þessum tveimur greinum dreifist með mismunandi hætti um þjóðarlíkamann. Ferðaþjónustan er satt best að segja ákaflega góð atvinnugrein hvað það varðar að hún nýtir innviði samfélagsins, hún styrkir ýmsa aðra starfsemi og bætir rekstur í samgöngukerfinu og þjónustu sem kemur landsmönnum sjálfum víða til góða, og virðisaukinn verður að langmestu leyti eftir hér innan lands.

Hún er atvinnuskapandi og það er rangt sem oft er haldið fram að í ferðaþjónustu séu eingöngu láglaunastörf og í ferðaþjónustunni sé allt gert upp með bullandi tapi. Hvort tveggja eru að vísu lífseigar goðsagnir en það eru goðsagnir. Það er líka mikið um ágætlega launuð störf og hálaunastörf í ferðaþjónustu. Ekki þykir dónalegt að vera flugstjóri á millilandaþotu eða rekstrarstjóri í stórri einingu í ferðaþjónustunni þó að vissulega séu líka störf í lægri launaendanum.

Ég er mjög ánægður með þá áherslu sem hér er víða lögð í meginmarkmiðum og víðar í tillögunni á náttúru Íslands, á umhverfisvæna ferðaþjónustu og á að varðveita ímynd landsins. En spurningin er þá aftur um það: Eru innstæður fyrir þessu og hvað erum við að gera þessi árin til að undirbyggja og standa við þessi fyrirheit? Auðvitað þýðir ekki annað en horfast í augu við stóriðjustefnuna og þær mótsagnir sem fólgnar eru í því annars vegar að vera að reyna að hlúa að þessari mikilvægu vaxtargrein og hins vegar því að skemma fyrir, eyðileggja svæði á landinu sem hafa mikið aðdráttarafl og alveg sérstaklega að skaða ímynd landsins.

Það þýðir ekkert annað en orða það eins og það er, að það er auðvitað staðreynd að Kárahnjúkavirkjun með þeirri gríðarlegu neikvæðu athygli sem hún hefur vakið á alþjóðavettvangi er mjög slæmt innlegg í annars að mestu leyti jákvæða landkynningu Íslands í heiminum undanfarin ár. Það get ég sjálfur mjög vel borið um. Þau skipta tugum viðtölin sem ég hef verið beðinn um á undanförnum mánuðum og missirum af erlendum fjölmiðlum um það mál. Af ýmsum ástæðum og skiljanlegum sjálfsagt, verandi formaður í umhverfisverndarflokki, hefur oft verið leitað til mín um að færa fram gagnstæð sjónarmið og andæfa stefnu stjórnvalda í þeim efnum. Þar hafa mörg af helstu stórblöðum heimsins og tímaritum verið með ítarlega umfjöllun sem hefur svo sannarlega ekki verið góð landkynning, ekki góð auglýsing nema síður sé. Þetta verða menn að horfast í augu við.

Varðandi rekstrarafkomu ferðaþjónustunnar var réttilega bent á það af hv. þm. Jóni Bjarnasyni að gengisþróunin um þessar mundir er ákaflega erfið ferðaþjónustunni sem og öðrum útflutnings- og samkeppnisgreinum. Iðnrekendur sem selja framleiðslu sína inn í ferðaþjónustuna fóru að taka eftir því strax á síðasta sumri að ört hækkandi raungengi krónunnar fór að draga úr viðskiptum. Þetta hafa fleiri en einn og fleiri en tveir staðfest í mín eyru sem eru að framleiða minjagripi eða prjónavörur eða annað slíkt til sölu í ferðaþjónustunni.

Hitt er annað mál að staða Íslands er svo sterk vegna þess sem við höfum upp á að bjóða, vegna landsins sjálfs, sem er auðvitað meginaðdráttaraflið að það vegur upp þessa þætti og gerir gott betur. Þegar menn hafa áhyggjur af háu verði á brennivíni eða á bjór og léttvíni deili ég þeim áhyggjum ekki. Ég vísa þar einfaldlega til hins mikla vaxtar í ferðaþjónustunni. Hún er að vaxa meira en nokkur önnur atvinnugrein og miklu meira en ferðaþjónustan á heimsvísu þrátt fyrir hið háa bjórverð og léttvínsverð.

Eigum við þá að álykta sem svo að ef við lækkum bjórinn og brennivínið vaxi hún enn þá meira? Munu ferðamenn þá fara að streyma til Íslands í enn auknum mæli bara til þess að drekka hér ódýran bjór? Ég held ekki. Ég held að það sé mikill misskilningur og við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því.

Auk þess er það ekki þannig að áfengisstefna þjóðarinnar eigi að ráðast af því hvað gæti dregið að landinu fleiri ferðamenn. Þeir eru satt best að segja að hellast yfir okkur í það miklu magni að það er frekar áhyggjuefnið hvernig við ætlum að takast á við það á komandi árum að taka á móti öllum þeim mikla fjölda sem hingað streymir. Þar kemur t.d. að því, að ég tel, að bæta þurfi við þriðju áætluninni sem er sérstök áætlun, framkvæmdaáætlun um aðgerðir á sviði umhverfismála sem miðar við að Ísland ráði við ferðamannafjöldann árið 2008, 2010, 2012 og 2015. Hvenær sem þeir nú verða 500 þúsund, 800 þúsund eða 1 milljón er algjörlega augljóst mál að nú þarf, og það er brýnt, að ráðast í viðamiklar aðgerðir til að dreifa álaginu, til að betur sé hægt að taka á móti ferðamönnunum á vinsælustu stöðunum. Þetta kostar fjármuni í göngustígagerð og öðrum slíkum hlutum, annars er illa að fara. Ég kem nokkuð reglulega á hverju ári á marga helstu ferðamannastaði sumarsins, Landmannalaugar, Herðubreiðarlindir, Dimmuborgir o.s.frv. og fylgist með því hvernig ástandið er að versna vegna þess að ekki er nógur viðbúnaður til að mæta álaginu.

Ég vil segja um megináherslur í kynningarmálum að ég hef efasemdir um þá miklu áherslu sem þar er lögð bara á okkar heimshluta, þ.e. Norður-Ameríku, Bretland, norræn lönd og meginlönd Evrópu. Að sjálfsögðu eigum við að leggja þar mikla áherslu en ég held að framtíðin liggi líka í Japan, Indlandi, Ástralíu og Nýja-Sjálandi og fleiri löndum sem við erum núna að tengjast betur með beinum samgöngum og langdrægari og hraðfleygari flugvélum. Beint flug Flugleiða til San Francisco opnar möguleika á flugi til Ástralíu og Nýja-Sjálands með einni millilendingu og það gæti þjónað báðum löndum vel að efla markaðsstarf til dæmis þar.

Ég fagna áherslu á samstarf við Vestnorræna svæðið en spyr þar aftur: Hvað ætla menn þá að gera? Eru menn t.d. tilbúnir því að gera samstarfssamning við Grænland um að Ísland leggi af mörkum fjármuni til uppbyggingar í grænlenskum samgöngum þannig að tengslin milli Íslands og Grænlands geti orðið greiðari, að Keflavík geti orðið tengipunktur fyrir millilandaflug Grænlendinga þannig að ekki bara ferðaþjónustan á austurströndinni og Suður-Grænlandi tengist um Ísland heldur líka allt millilandaflug þeirra? Það mundi þjóna báðum löndunum mjög vel, það er ég sannfærður um, og þröskuldarnir þar eru fyrst og fremst tilteknar dýrar (Forseti hringir.) framkvæmdir í samgöngumálum sem Grænlendingar ráða illa við einir og óstuddir (Forseti hringir.) og ég teldi alveg sjálfsagt mál að við Íslendingar (Forseti hringir.) stæðum betur við bakið á þeim.



[14:54]
Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get á vissan hátt deilt áhyggjum með hv. þingmanni varðandi umgengni við náttúru Íslands. Í máli hans áðan kom fram að hann hefði miklar áhyggjur af stóriðjustefnu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og talaði um að hann hefði verið kallaður í mjög mörg viðtöl vegna hennar, en síðan í næstu setningu talaði hann um áhyggjur sínar af því að allt of margir ferðamenn kæmu hingað til Íslands.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hefur hann í fórum sínum upplýsingar um að dregið hafi úr komu ferðamanna til Íslands, m.a. vegna þess að verið er að virkja við Kárahnjúka? Mér fannst á vissan hátt gæta ákveðins tvískinnungs í máli hans. Annars vegar hafði hann miklar áhyggjur af náttúru Íslands vegna stóriðjustefnunnar og svo í næstu andrá talaði hann um að við þyrftum að gæta vel að því að ekki kæmu allt of margir ferðamenn til Íslands, en kúrfan hefur sýnt að æ fleiri ferðamenn hafa áhuga á að sækja Ísland heim. Ég tel það auðvitað mjög gott vegna þess að ferðaþjónustan skiptir mjög miklu máli, ekki einungis á höfuðborgarsvæðinu heldur á landinu öllu.

Ég get líka tekið undir orð hans varðandi Grænland og Færeyjar. Við eigum að kappkosta að vera í sem allra mestum samskiptum við þau lönd og í raun og veru aðstoða hvert annað í ferðaþjónustunni. En mér fannst þarna koma fram annars vegar þessar miklu áhyggjur af stóriðjustefnunni og hins vegar því að við fengjum allt of marga ferðamenn hingað til landsins.



[14:56]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áhyggjur af stóriðjustefnunni af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að ég vil ekki skemma landið. Í öðru lagi vegna þess að hún er efnahagslegt glapræði eins og við erum að upplifa núna með ákaflega neikvæðum ruðningsáhrifum þeirra miklu fjárfestinga í formi verðbólgu, þenslu, hás gengis og óviðunandi afkomu útflutnings- og samkeppnisgreina.

En ég hef í þriðja lagi áhyggjur af stóriðjustefnunni vegna þess að hún stórskaðar ímynd Íslands sem ferðamannalands og sem framleiðanda hágæðamatvöru. Þetta skaðar þá ímynd hreinleika og ósnortinnar náttúru sem er okkur ákaflega verðmæt í undirstöðuatvinnugreinum okkar, bæði matvæla, stóriðjunni og ferðaþjónustunni.

Ég sagði reyndar ekki að of margir ferðamenn væru að koma til Íslands. Ég sagði að áhyggjuefnið væri frekar það hversu ört ferðaþjónustan er að vaxa og hversu hratt ferðamönnunum fjölgar í þeim skilningi að við höfum aðstöðu og viðbúnað til að taka vel við þeim. Ég bið hv. þingmann að leggja mér ekki orð í munn eða snúa út úr máli mínu. Ég ætla ekki að fara að gagnálykta af orðum hv. þingmanns áðan á þann veg að hann telji að stóriðjustefnan sé góð af því að hún muni fæla frá ferðamenn, en það væri alveg jafnréttmætt og að hv. þingmaður las út úr ummælum mínum einhverjar miklar mótsetningar.

Ég er mjög hlynntur því að við eflum og byggjum upp ferðaþjónustuna. Ég tel hana ákaflega góða atvinnugrein, eins og skýrt kom fram í máli mínu, dreifa afrakstri sínum vel um þjóðarlíkamann. Hún á að skapa landinu öllu mikla möguleika. Sérstaklega í framtíðinni sé ég fyrir mér að uppbygging ferðaþjónustunnar verði í mjög miklum mæli úti um landið og í þeim héruðum sem hingað til hafa ekki verið miklir þátttakendur í ferðaþjónustunni ósköp einfaldlega vegna þess að það mælir allt með að við stuðlum að því að svo verði. Ég kem kannski inn á það í síðari ræðu minni — og bið ég nú virðulegan forseta að taka mig niður á mælendaskrá — hvað við þurfum að gera að mínu mati til að ná þeim markmiðum fram að dreifa álaginu af ferðaþjónustunni. Það mun ekki gerast sjálfkrafa, sérstaklega vegna þess að hún er skipulagslega og rekstrarlega þannig upp byggð (Forseti hringir.) í núinu að hún á sér öll (Forseti hringir.) tengipunkt á suðvesturhorni landsins.



[14:59]
Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að hreinleikinn skiptir okkur mjög miklu máli. Ég veit að hv. þingmaður hefur ferðast vítt og breitt um heiminn og Ísland auðvitað í heild og það eigum við sammerkt.

En það sem ég las út úr ræðu hans eða áhyggjum af þessari svokölluðu stóriðjustefnu, þ.e. að við erum að framleiða hér ál sem er notað að hluta til í ferðaþjónustu vítt og breitt um heiminn, til flugvéla- og bílaframleiðslu o.s.frv. En við þurfum vissulega að gæta að því ferðaþjónustan skiptir Ísland gríðarlega miklu máli og sem betur fer hefur þessi svokallaða stóriðjustefna ekki skaðað okkur, a.m.k. ekki enn sem komið er, varðandi komu ferðamanna til Íslands. En við þurfum auðvitað að gæta að því á öllum þeim vettvangi. Við framleiðum hágæðamatvöru, sama hvort við tölum um kjöt, fisk, grænmeti eða hvað eina, við vitum að við erum með hágæðamatvöru sem tengist ferðaþjónustunni okkar. Við eigum að byggja upp sem fjölbreytilegast atvinnulíf á Íslandi og ferðaþjónustan er stór þáttur í því.



[15:00]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi áhrifin af stóriðjustefnunni og umræðunni sem orðið hefur t.d. um Kárahnjúkavirkjun held ég að of snemmt sé að gefa sér að þau áhrif séu öll komin fram. Sú umræða er enn í gangi og það eru enn að birtast greinar, þetta er að síast út í umfjöllun á alþjóðavettvangi. Ég held að það væri fróðlegt fyrir hv. þingmann, ef hann hefur ekki kynnt sér það nú þegar, að fara inn á síður þar sem eru listar yfir alla umfjöllun sem um þetta hefur verið í erlendum fjölmiðlum. Fyrir nokkru sá ég slíkan lista og mér brá í brún þegar ég sá hversu mörg, mörg hundruð stórblaða, tímarita og sjónvarpsstöðva hafa sérstaklega fjallað um þetta mál, jafnvel nýlega, eru með fréttaskýringar eða umfjöllun um þetta. Áhrifin eru þar af leiðandi að mínu mati alls ekki komin fram.

Áhrif af svona löguðu leggjast að sjálfsögðu saman. Ef við höldum áfram á þeirri braut og áfram verða harðvítugar deilur í landinu um mjög umdeildar framkvæmdir leggst það við. Þá fer ímynd landsins smátt og smátt að breytast meira og meira.

Það hefur líka einfaldlega verið þannig að við höfum verið heppin hvað það snertir að ýmislegt annað hefur lagst með okkur í ferðaþjónustunni á síðustu missirum. Hlutir eins og ófriður, pestir eða hryðjuverk í öðrum heimshlutum hafa frekar beint ferðamönnum til landa eins og Íslands þar sem menn telja sig örugga, jafnvel gera ósköp einfaldlega miklir sumarhitar á meginlandi Evrópu eða Ameríku það fýsilegt að ferðast norður í svalann o.s.frv. Það hefur því margt orðið til þess að við höfum verið „heppin“ í þeim efnum.

Ég tel að eitt allra mesta verðmætið sé hálendið, víðernin og myndirnar þaðan. Það dregur mjög marga að og er stimplað sterkt inn í ímynd ekki bara ferðamannanna heldur (Forseti hringir.) þeirra sem bjóða þjónustuna. Þess vegna er mikið í húfi þar (Forseti hringir.) sem við þurfum að gæta að.



[15:02]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þessi tillaga til þingsályktunar um ferðamál er komin fram í þinginu og vil geta þess að ég tel að viðhöfð hafi verið góð vinnubrögð við vinnslu málsins. Margir voru kallaðir til og sett var á góð og mikil vinna þar sem menn gátu komist að verkefninu í gegnum vefsvæðin. Notuð voru nútímaleg vinnubrögð við vinnuna og haldin voru málþing og fleira í þá veru til að koma verkinu í þetta form.

Vissulega er ferðaþjónustan okkur ákaflega mikilvæg og það eru mjög mörg sóknarfæri fyrir okkur í ferðaþjónustunni. Stefnumótunin sem fyrir var er frá 1996 og vissulega hefur mjög margt gerst og mjög mikil þróun og breyting orðið í ferðaþjónustu frá þeim tíma vegna tækniþróunar, tilkomu internetsins o.fl. Nú er það jafnvel orðin undantekning að menn fari í gegnum ferðaskrifstofur þegar þeir ætla að ferðast heldur er farið inn á netið og fólk sér sjálft um ferðamál sín og er sín eigin ferðaskrifstofa. Þar vil ég líka nefna flugið. Menn eru farnir að kaupa farseðla sína í gegnum netið o.s.frv.

Hér væri náttúrlega hægt að taka á ýmsu við umræðuna en mig langar að nefna nokkur atriði. Ég vil nefna vistvæna þáttinn sérstaklega því að ég hef lagt þó nokkuð til málanna í sambandi við vistvæna ferðaþjónustu, var með þingsályktun um græna ferðamennsku sem þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, tók síðan upp og gerði sérstaklega að stefnu sinni. Það eru mjög margir ferðamenn náttúruunnendur sem leggja mikið upp úr því að það sé vistvæn ferðaþjónusta á þeim stöðum sem þeir ferðast um.

Ég vil líka taka undir hve mikilvægt er að lengja ferðatímabilið. Það hefur reynst okkur erfitt hve stuttan ferðaþjónustutíma við höfum en við eigum auðvitað að geta nýtt veturinn því að náttúra Íslands býður upp á að hægt sé að laða að ferðamenn á nánast öllum árstímum og við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á það.

Sömuleiðis varðandi markaðsátak þá þarf það að vera víðar en á þeim stöðum sem við erum með í dag. Þjóðirnar í kringum okkur hafa lagt mjög upp úr því að ná ferðamönnum langt að og eins og bent var á fyrr í umræðunni fer að verða auðveldara fyrir okkur að fá ferðamenn frá Asíu, Ástralíu og langar leiðir að vegna góðra tengsla okkar við umheiminn í gegnum flugfélögin okkar.

Einnig er mjög mikilvægt þegar menn fara í markaðsátak að raunveruleikinn sé í takt við það sem verið er að kynna. Að hin fagra ímynd landsins og áherslan sem lögð er á náttúru og menningu verði ekki til þess að menn verði fyrir vonbrigðum þegar þeir koma til landsins.

Varðandi ímyndina var talað um Kárahnjúkavirkjun áðan og orkustefnuna og ég get tekið undir að örugglega eru áhrif þeirrar virkjunar ekki öll komin í ljós. Það sem ég hef áhyggjur af er að hún muni eyðileggja fyrir okkur landið til lengri tíma litið, sérstaklega leirburðurinn sem mun koma til vegna orkuversins. Óttast ég mjög að það muni eyðileggja verulega fyrir okkur, en ég ætla ekki að vera með bölsýni í þessu ágæta þingmáli.

Mig langar að nefna annað og það eru hvalveiðarnar. Hv. þm. Mörður Árnason óskaði eftir skýrslu um áhrif hvalveiða á ferðaþjónustuna og þar með ímynd Íslands. Ég held að í framhaldi af þeirri vinnu sem vinna þarf í sambandi við ferðamálin þurfi að gera úttekt á þeim málum þar sem óvilhallir aðilar vinna verkið. Ferðamálaráð vann skýrsluna sem var pólitískt skipað og formaður þess einnig, sem hefur ákveðnar skoðanir í sambandi við hvalveiðarnar og ferðaþjónustuna. Ég held að mjög mikilvægt sé að við fáum óvilhalla úttekt á því hvaða áhrif hvalveiðarnar hafa á ferðaþjónustuna og ímynd okkar sem ferðaþjónustulands.

Í sambandi við þingsályktunartillöguna þurfum við auðvitað að huga að því hvernig við ætlum að ná markmiðunum þar og það er auðvitað viðkomandi ráðherra að sinna því hvernig hann hyggst ná þeim markmiðum sem sett eru hér fram.

Mig langar að nefna eitt í viðbót og það eru leiðbeiningar á erlendum tungumálum. Á síðasta þingi var samþykkt þingsályktunartillaga mín og fleiri um að bæta vegamerkingar og koma með leiðbeiningar á erlendum tungumálum sem virðist oft hafa vantað nokkuð upp á. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvað þeirri vinnu líður sem óskað var eftir eða Alþingi samþykkti í þeirri þingsályktunartillögu og hvort menn séu farnir af stað með að auka kynningar, leiðbeiningar og merkingar á erlendum tungumálum.

Mig langar einnig að nefna öryggismálin, en ég kom einmitt að því við gerð þingmálsins að leggja áherslu á hve mikilvægt væri að öryggi ferðamanna væri tryggt. Við þurfum að vera með bæði gott eftirlit með þeim sem veita þjónustuna og að allir hafi tilskilin leyfi, en það þarf líka að vera auðvelt að komast að ferðamanninum þegar hann er á ferð um landið. Þá vil ég nefna neyðarnúmerið, sem ég hef áður nefnt í þingsölum, að við þurfum að hafa það þannig að það sé ekki bara 112 sem svari neyðarhringingu heldur líka númer sem erlendir ferðamenn þekkja og nota heima fyrir, þannig að neyðarlínan svari einnig því númeri ef upp koma vandræði, þ.e. 911. (Forseti hringir.)

Ég er greinilega búin með tímann minn og hefði gjarnan viljað koma að mörgum öðrum þáttum. Það getur vel verið að ég komi í aðra ræðu. En mig langar í lok ræðu minnar að fá svör frá hæstv. ráðherra um þau atriði sem ég nefndi.



[15:11]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem rætt hafa um þessa tillögu til þingsályktunar um ferðamál að framlagning hennar er mikið fagnaðarefni. Það hefur klárlega skort skýran markmiðaramma utan um uppbyggingu ferðaþjónustunnar sem hefur vaxið feikilega ört á liðnum árum og er orðin ein af helstu atvinnugreinum okkar. Hins vegar er mjög margt sem þarf að lagfæra og breyta til að ramminn sé með þeim hætti að ferðaþjónustan geti dafnað áfram sem öflug atvinnugrein, sérstaklega úti á landi þar sem hefðbundinn landbúnaður hefur átt undir högg að sækja eða lagst af í talsverðum mæli, búin þjappast saman og breytast. Uppgangur ferðaþjónustunnar hefur því verið mikil vítamínsprauta í sveitirnar og hinar dreifðu byggðir. Hægt er að nefna mjög mörg góð dæmi um það hvernig uppbygging ferðaþjónustunnar hefur tekist vel til víða úti á landi. Segja má hún sé undirstaða byggðar nú á einstökum svæðum eins og hefðbundnu búnaðargreinarnar voru áður. Ferðaþjónustubúskapur hefur sums staðar tekið við og er orðinn að undirstöðu samfélaga víða.

Tækifærin eru mjög mikil og hægt að efla ferðaþjónustuna mjög. Auðvitað þarf að skapa ferðaþjónustunni þau skilyrði að þetta sé ekki þvílík áhættufjárfesting að það sé nánast fyrir ofurhuga eina að fara út í umfangsmikinn ferðaþjónusturekstur. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra og annarra sem hér hafa talað þarf að sjálfsögðu fyrst og fremst að lengja tímann. Því fylgir ýmislegt annað.

Það sem ég vildi nefna á þeim stutta tíma sem ég hef er að það þarf að sjálfsögðu að huga sérstaklega að menntun starfsfólks í ferðaþjónustunni. Það helst mjög í hendur við lengingu á ferðaþjónustutímanum því þar sem greinin hefur mestan part verið starfrækt yfir sumartímann, fjóra, fimm mánuði á ári, hefur hún byggst mjög upp á ungu fólki sem er að vinna í skólahléum sínum og útlendingum.

Ég kom inn í eldhús á virðulegu og stóru hóteli á Suðurlandi um daginn, Hótel Örk í Hveragerði, þar sem þorri mannskapsins var útlendingar, fólk sem hafði starfsleyfi og var að vinna hér, fólk af ótrúlega mörgum þjóðernum, ég man ekki hvað yfirmaðurinn nefndi að það væru mörg þjóðerni þar við störf. Það þarf því, um leið og ferðaþjónustutíminn er lengdur, að mennta mannskapinn og koma þar með á miklu meiri festu í starfsmannaveltuna þannig að hún sé ekki með þeim hætti að inn komi ungt fólk sem hefur litla þekkingu og stoppar mjög stutt við. Það þarf töluvert meira af fagfólki til að bera uppi ferðaþjónustuna sem mundi að sjálfsögðu sjálfkrafa efla ferðaþjónustuna verulega, bæta alla þjónustu og allt umhverfi í kringum ferðamennina, bæði útlenda og innlenda. Menntun starfsfólks mundi tvímælalaust auka verulega á festuna og tryggja að upp kæmu hópar af fagfólki í ferðaþjónustu sem héldi sig við sitt fag og sem gerði það að verkum að auðveldara væri að lengja ferðaþjónustutímann.

Fjarnámið skiptir þarna miklu máli um leið og það er mjög mikilvægt að fjölbrautaskólarnir um allt land taki upp áfanga í styttri námsbrautum, að búnar verði til styttri námsbrautir og sérstök fög utan um hvers konar þjónustu, eins og við höfum rætt áður á hinu háa Alþingi í vetur í sambandi við þingsályktunartillögu um eflingu starfsnáms, að efla starfsnámið og fjölga styttri námsbrautum þannig að réttindanám hvers konar standi fólki til boða og það verði hvatt til þess að stunda það. Vísir að því er í mörgum skólum, í Verkmenntaskólanum á Akureyri og í fjölbrautaskólum víða um land er vísir að slíkum brautum þar sem vel hefur til tekist og hefur alveg án nokkurs vafa bætt ferðaþjónustuna og eflt umhverfi hennar. En það þarf að auka menntunina eins og lagt er til í tillögunni og efla ferðaþjónustumenntunina mjög mikið og eins og þar segir: „Gæði menntunar skal tryggja með sérhæfingu menntastofnana þar sem við á.“ Og þá vildi ég sérstaklega nefna fjarnámið. Símenntunarstöðvarnar og fræðslunetin víða um land hafa opnað fólki úti um hinar dreifðu byggðir ótrúlega mörg ný tækifæri til að bæta við menntun sína, endurmenntast og menntast í nýjum greinum án þess að þurfa að flytja búferlum. Það gerir miklum fjölda Íslendinga í raun og veru kleift að menntast og stunda nám, fólki sem á einfaldlega ekki kost á að taka sig upp eða stunda námið annars staðar. Þessar símenntunarstöðvar og fræðslunet skila hundruðum fólks á hverju ári í gegnum hvers konar nám og fjarnám í háskólanámi til dæmis.

Ekki er nógu vel búið að símenntunarstöðvunum, t.d. búa símenntunarstöðvarnar á Suðurlandi og Suðurnesjum við það vegna einhverrar óljósrar skilgreiningar að fá helmingi lægri fjárframlög en t.d. símennntunarstöðvarnar á Vesturlandi og Austurlandi. Er ég þó ekki að segja að símenntunarstöðvarnar þar fái of mikið, alls ekki, þær eru vel að því komnar og eru öflugar í takti við það. En það þarf að auka framlög til hinna símenntunarstöðvanna þannig að þær geti t.d. sinnt fjarnámi og aukinni menntun í ferðaþjónustu. Sérstaklega þarf að búa þannig um hnúta að þær fái greitt fyrir fjarnámið á háskólastigi en í dag inna þær það að af hendi án þess að fá nokkuð fyrir það. Þær eru illa haldnar fjárhagslega, eins og t.d. fræðslunet Suðurlands sem rekið hefur verið með halla núna tvö ár í röð að forsvarsmenn þar eru alvarlega að hugsa um að leggja af framboð, hætta að bjóða fólki upp á að stunda fjarnám í háskólanámi einfaldlega af því að símenntunarstöðin fær ekki greitt fyrir það og þar af leiðandi er ekki hægt að halda því úti þó svo að það sé að mörgu leyti að verða undirstaða stöðvarinnar.

Það yrði stórt skref aftur á bak ef fræðslunetið yrði neytt til þess að hætta að bjóða upp á háskólanámið og væri að mörgu leyti alvarlegt áfall fyrir það sem við erum að ræða hér, að efla menntun í ferðaþjónustunni. Ferðaþjónustan er borin uppi af fólki um allt Ísland, hringinn í kringum Ísland, fólki úti um hinar dreifðu byggðir sem sér hana sem nýjan atvinnumöguleika eftir að hinar hefðbundnu greinar hafa lagst af. Þess vegna þurfum við að standa vel að menntunarframboðinu, sérstaklega í gegnum fjarnámið og símenntunarstöðvarnar. Ég vona að hæstv. samgönguráðherra og aðrir sem fjalla um málið hér taki þátt í að beita sér fyrir því að umhverfi þeirra verði eflt. Það verði gert þannig að þær búi við mun betra fjárhagslegt atlæti og geti staðið undir þeim kröfum sem við eigum og þurfum að gera til þessara nýju menntastofnana sem opnað hafa hinum dreifðu byggðum ótrúlegan fjölda tækifæra til að skapa ný tækifæri í hvers konar uppbyggingu á smáiðnaði og þjónustu og ekki síst hvað varðar uppbyggingu ferðaþjónustunnar.



[15:19]
Lára Stefánsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju minni með þá þingsályktunartillögu sem hér er fram komin.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að ræða í þessu samhengi. Ég er ánægð með áhersluna á menningu og náttúru í þessu umhverfisvæna samhengi, sem er nokkuð auðveld söluvara eða auðvelt fyrir Íslendinga að selja. Það sem ég vildi er að við horfðum á ferðamennskuna meira sem atvinnugrein, þ.e. atvinnugrein þar sem öllum upplýsingum er haldið til haga um þessa tilteknu grein og arðsemi hennar á einum stað þannig að okkur sé ljóst hvað er að gerast. Ég tel að þær upplýsingar liggi svo víða, hjá svo mörgum stofnunum og hjá svo mismunandi ráðuneytum, að okkur sé ekki alltaf alveg ljóst hver staða atvinnugreinarinnar er, hver arðsemi hennar er og hver staða hennar til atvinnusköpunar er í landinu.

Ég tek undir það sem hér hefur áður komið fram að fyrir okkur landsbyggðarmenn er þetta gríðarlega mikilvæg atvinnugrein og getur á mörgum stöðum þar sem fámennt er jafnvel gert fólki kleift að búa þar sem það vill búa.

Næst vil ég fjalla aðeins um símenntun eða menntun í þessu samhengi og þá sérstaklega að ekki er boðið upp á slíka menntun. Má þar nefna starfsnám og fjarnám, en nauðsynlegt er að þessi endurmenntun sé fyrir hendi. Eitt vildi ég nefna í sambandi við háskólanám að t.d. í Háskólanum á Akureyri er talsverð þróun í tengslum við Norðurslóðir, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar o.fl., og á þessu er mikill alþjóðlegur áhugi. Að í tengslum við ferðamennsku og þessar hugmyndir verði beinlínis nám á erlendri tungu fyrir útlendinga til að koma og stunda nám í því sem er dálítið sér hjá okkur og gæti tengst ferðaþjónustunni til að efla kynningu og annað í því samhengi. Það eru atriði sem mér finnst að skoða mætti.

Fram kemur fram að stefna skuli að því að tryggja aðgengi að háhraðaneti við fjarnám. Við fyrstu sýn er mér er ekki alveg ljóst af því sem hér kemur fram hvort verið er að tala um háhraðanet fyrir nemendur og kennara eða fyrir símenntunarmiðstöðvar. En ég held að það verði í auknum mæli einstaklingar sem halda kannski úti ferðamennsku í litlum dal eða litlum firði sem vilja stunda fjarnám en hafa ekki aðgengi að háhraðaneti eða gott aðgengi að interneti til að þeir geti það. En það tengist svo auðvitað því — svo að ég hangi aðeins á netinu — að ferðaþjónusta í dreifðum byggðum hafi öruggt aðgengi að netinu til að dreifa upplýsingum sínum til annarra. Það skiptir líka verulegu máli.

Hvað varðar samgöngur og að reyna að dreifa ferðamennskunni um landið þá tel ég mikilvægt að millilandaflug sé ekki einvörðungu frá á einum stað heldur að hægt sé að tryggja að ferðamenn geti komið til landsins á fleiri stöðum, t.d. til Akureyrar eins og hægt var um tíma eða til Egilsstaða eins og líka hefur verið hægt, þ.e. að ferðamaðurinn geti ákveðið hvers konar ferð hann er að fara í með vali sínu á lendingarstað í landinu. Ég held að það sé líka atriði.

Um gögn og gagnasöfnun um ferðamennsku þá hefur verið minnst á upplýsingar á netinu og annað slíkt. Þegar ég var á ferð um Jórdaníu fyrir hálfum mánuði, ég var í vinnu þar, fékk ég allt í einu auglýsingar og kynningar um í hvaða háskóla ég gæti farið, hvaða blöð ég ætti að lesa og þar sem ég var með farsíma frá öðru landi komu þær kynningar á ensku en ekki arabísku. Ég tel gríðarlega mikilvægt að skrásetja staði á Íslandi, menningu og minjar í gagnagrunn sem hægt væri að sækja sér upplýsingar í gegnum farsíma á ferð um landið, þannig að ég geti tekið upp símann minn — öll tækni er fyrir hendi í dag, menn vita hvar ég er með farsímann hverju sinni — og spurt: Hvar er næsti veitingastaður? Hvað er merkilegt að sjá hér? Að jafnvel farsíminn viti á hverju ég hef mestan áhuga og geti sagt: Hér er merkur listamaður sem þú hefðir kannski gaman af að kynna þér. Þetta færi fram á töluðu máli og ég þyrfti ekkert að komast í tölvu- og itnernetsamband. En það byggist auðvitað á því að ég hafi farsímasamband þar sem ég ferðast, grunnatriði eins og gagnaflutningasamband og farsímasamband skipta meginmáli í þessu samhengi.

Í dag er kleift að hringja í eitt símanúmer og biðja á töluðu máli um mynd af þeim fjallvegi sem maður er að fara um. Það hjálpaði mér um daginn þegar ég þurfti að fara yfir Víkurskarð í tvísýnu veðri að ég gat fengið mynd af veginum í símann minn og séð að öllu var óhætt. Ég held að hægt sé að kynna ýmsa slíka hluti með því að eiga í gagnasafni myndir sem hægt er að senda í síma og annað og að skrásetja gögn miðað við þá tegund ferðahópa sem hingað koma. Til dæmis gæti ljósmyndari sem hefur áhuga á ljósmyndum bara sem tómstundagamni fengið upplýsingar á ferð sinni um það sem tengist því og gæti verið áhugavert. Eða fuglaskoðunarmenn, þeir sem hafa áhuga á tónlist, sögu eða myndlist. Við þekkjum bækurnar um sögurnar við þjóðveginn o.fl., að þetta sé líka í gagnagrunni og að sé hægt að nálgast það með þessum hætti.

Síðan má auðvitað minnast hér á varúðarráðstafanir, að það er ekkert auðvelt að ná í ferðamenn og þá er þessi tækni líka alveg kjörin til að koma boðum til manna, að þeir geti skráð sig inn í þar til gerðan grunn, af því að auðvitað viljum við ekki kæfa fólk með alls konar auglýsingum. Ég var t.d. ekkert hrifin af öllum SMS-skeytunum sem komu til mín, hvort sem ég var í Amman eða í norður- eða suðurhluta Jórdaníu. Það verður því að hafa á þessu skynsamleg mörk og ekki kaffæra fólk með þessu.

Hvað varðar varúðarráðstafanir, merkingar og annað þá finnst mér að við ættum að taka tillit til hvert er móðurmál þeirra nýbúa sem helst búa hér á landi og að þeir hafi möguleika á að nálgast upplýsingar á tungumáli sínu.

Varðandi rannsóknir sem er síðasta atriðið sem ég vildi tiltaka þá kemur fram að hlúð verði að hvers kyns grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum. Ég spyr hæstv. samgönguráðherra hvort hér sé verið að tala um styrki, hvort hér sé verið að tala um frumkvæði eða annað slíkt á þessu sviði. Einnig væri gaman að vita hvort verið væri að huga að lausnum viðlíka þeim sem ég hef verið að nefna í öðrum atriðum.



[15:27]
Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Herra forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um ferðamál og aldrei þessu vant er mikli eindrægni og samstaða í þingsalnum.

Ferðaþjónusta skiptir Ísland og Íslendinga gríðarlega miklu máli. Í þingsályktunartillögunni er tekið á flestum þeim þáttum sem skipta máli í ferðaþjónustu og ber að fagna henni sérstaklega og þakka hæstv. samgönguráðherra og því fólki sem unnið hefur að tillögunni. Hún markar ákveðna stefnu sem er eins konar varða á vegferð okkar í þessum málum.

Það er af mjög mörgu að taka þegar fjallað er um ferðamál og einn þáttur sem er eiginlega grunnþátturinn í ferðamálum er auðvitað samgöngumálin sem eru ákveðin undirstaða, flug til Íslands, siglingar til Íslands, vegakerfið, merkingar eins og talað hefur verið um, og síðan öll fjarskiptin sem eru ákveðinn grunnur að því að ferðamenn sæki Ísland heim, og að fyllsta öryggis sé gætt í hvívetna. Þjónustan skiptir auðvitað alltaf mjög miklu máli og henni hefur fleygt fram á Íslandi undanfarin missiri.

Hér koma líka fram meginmarkmið í ferðamálum, við erum að ræða meginmarkmið í ferðamálum á tímabilinu frá 2006–2015 og það er einmitt mjög jákvætt að horfa svo langt fram í tímann því að ferðaþjónusta og ferðamál eru afar spennandi atvinnugrein. Hún er spennandi fyrir það unga fólk sem bæði stundar nám og starfar við þjónustu hvað þetta varðar og hún er líka spennandi fyrir eldra fólkið sem hefur verið að byggja upp ferðaþjónustu vítt og breitt um landið.

Auðvitað hefur ferðaþjónustan líka mjög margar hliðargreinar. Margfeldisáhrif hennar eru gríðarleg. Nefna má handverk og hvers konar listsköpun, matvælaframleiðslu, ýmiss konar farþegaflutninga, rútur, bílaleigur og fararstjórn, gistingu, veitingarekstur og margt fleira. Þessi mál hafa verið að þróast mjög ört á Íslandi á undanförnum árum. Fjölbreytnin hefur aukist gríðarlega mikið og það er eitt af því sem útlendingar sækja mjög í þegar þeir koma til Íslands, þ.e. sérstöðuna.

Ég var á mjög merkilegri ferðamálaráðstefnu ekki alls fyrir löngu á Hvolsvelli þar sem vítt og breitt var rætt um ferðaþjónustu í landinu. Þá kom í ræðustól þýsk kona sem nú er búsett á Íslandi. Hún er hagfræðingur, vann hjá Benz-verksmiðjunum og fór yfir það þegar hún tekur á móti þýskum ferðaþjónustuaðilum. Þeir eru auðvitað, eins og við öll, með mismunandi þarfir og mismunandi áherslur. Ein ágæt kona sem borðar einungis grænmeti var svolítið að horfa í kringum sig þarna á þessum slóðum og sá íslensku sauðkindina þar sem hún beit gras einhvers staðar úti í haga og reyndar einhvers staðar til fjalla. Þessi ágæta grænmetisæta fór að velta fyrir sér hvað sauðkindin væri í raun og veru frjáls á Íslandi. Sumum finnst hún reyndar of frjáls á köflum, þ.e. þeir sem eru í skógrækt og öðru slíku, af því að hún á það til að skaða plöntur. En þessi ágæta þýska kona sem var gestkomandi á Íslandi hafði séð fyrir sér allt framleitt kjöt sem dýr í búri. Þarna gat hún allt í einu farið að hugsa sér að bragða á íslensku lambakjöti sem hún og gerði. Henni þótti það býsna gott þannig að hún fór að fá áhuga fyrir sauðkindinni, fór að hafa áhuga fyrir því hvað væri gimbur og hvað væri hrútur. Það eru auðvitað ákveðnar aðferðir við að finna út hvað er hrútur og hvað gimbur og í bréfi sem hún sendi að Herjaðarhóli í Rangárþingi ytra sagði að henni, þessum þýska gesti, hefði eiginlega þótt hvað skemmtilegast á Íslandi að finna út hvað væri hrútur og hvað gimbur. Við sjáum það, herra forseti, að það sem okkur þykja ótrúlega sjálfsagðir hlutir finnst útlendingum spennandi og merkilegt.

Annað sem ég hef haft talsverðar áhyggjur af varðandi ferðaþjónustu á Íslandi er hvalveiðarnar. Áðan var fullyrt í ræðustól að Ferðamálaráð væri einhuga í þeim efnum. Það er ekki þannig. Auðvitað hefur Ferðamálaráð áhyggjur af hvalveiðum eins og aðrir. Ekki það að hvalurinn sé endilega svo merkileg skepna, heldur er búið að markaðssetja hvalinn þannig að hann sé einhver óskaplega merkileg skepna og það er til fullt af börnum úti í heimi sem aldrei kemst í snertingu við dýr, við náttúruna. Þá verða allt í einu einhver kvikindi eins og Keikó, eða hvað þau heita nú, óskaplega merkileg í augum barnanna. Þess vegna hef ég alla tíð haft miklar áhyggjur af hvalveiðum. Þær mega ekki skaða okkur varðandi ferðamál. Þær tölur sem við höfum séð sýna að þær virðast ekki hafa skaðað okkur enn sem komið er.

Þetta eru atriði sem mér finnst full ástæða til að nefna. Við þurfum að fara gríðarlega varlega hvað þetta varðar. Þetta á líka auðvitað við um markaðsmál á fiskafurðum og öðru slíku þannig að hérna verðum við að stíga varlega til jarðar. Það er engin ástæða til að fullyrða, eins og gert var úr þessum ræðustól, að Ferðamálaráð væri einhuga í þessum efnum.

Annað sem ég vildi nefna sem skiptir mjög miklu máli í ferðaþjónustunni er hið íslenska hráefni, á hvern hátt við markaðssetjum matvælin sem við erum að framleiða. Ég hef barist fyrir því að aðstoða íslenska matreiðslumeistara og reyndar kjötiðnaðarmeistara líka því að engir eru betur til þess fallnir en íslenskir matreiðslumeistarar og kjötiðnaðarmeistarar að markaðssetja þessa vöru fyrir okkur. Við vitum það og erum sammála um að hún er gríðarlega heilnæm en það er ekki sama á hvern hátt við matreiðum þetta íslenska hráefni handa gestum sem hingað koma. Þetta eru grundvallaratriði sem ber að skoða og þarna eigum við gríðarlega mikla möguleika sem vert er að benda á.

Ég gleðst líka yfir því að fjölbreytni í samgöngum til Íslands hefur aukist. Flugleiðir standa sig gríðarlega vel í þessari þjónustu og það gerir Iceland Express líka. Þetta skiptir okkur miklu máli og það er auðvitað mjög margt sem benda má á í þessu sambandi sem ég vildi nefna. Ég nefni samstarf við Vestur-Norðurlönd, þ.e. Grænland og Færeyjar, þessar þjóðir sem eru okkur svo skyldar.

Svo er annað sem ég vil vekja athygli á, spurningunni um hverjir vinna við ferðaþjónustu. Á dögunum var ég að skoða mig um á Keflavíkurflugvelli, skoðaði starfsemina þar, og þá kemur í ljós að þeir sem vinna þar teljast ekki vinna við ferðaþjónustu, heldur við verslun, viðskipti o.s.frv. Þarna eru atriði sem (Forseti hringir.) vert er að benda á.



[15:36]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um ferðamál sem hæstv. samgönguráðherra flytur. Ég hef áður komið því að í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra að ég telji það mjög lofsvert framtak, löngu tímabært í sjálfu sér, að skilgreina og búa út ramma fyrir ferðaþjónustu í landinu.

Eins og hér hefur komið fram, bæði hjá hæstv. ráðherra og í umræðunni, eru ferðamálin, ferðaþjónustan, sá atvinnuvegur sem vex hvað hraðast og hvað jafnast hér á landi og hefur gert á undanförnum árum og áratugum, og það er ekkert sem bendir til annars en að hún geti vaxið áfram. Hún er líklega nú þegar orðin annar eða þriðji mikilvægasti atvinnuvegurinn í að skaffa gjaldeyristekjur til þjóðarbúsins og hún hefur líka þá sérstöðu að hún tekur ekki til sín mikið af innfluttu hráefni til að búa til vörur og þjónustu úr. Hún byggir á staðbundnum verðmætum vítt og breitt um landið. Það er löngu tímabært að marka henni stöðu og þá er líka hægt á grundvelli þeirrar vinnu að gera kröfur til þess að hún hafi forgangsrétt að ákveðnum náttúruverðmætum eða öðru sem hana snertir og þá jafnframt að hún fái sess þegar verið að skipuleggja atvinnu- og efnahagsmál þjóðarinnar til lengri tíma. Á það hefur skort.

Eins og hér hefur rækilega komið fram í umræðunni hefur skort á að tekið væri tillit til mikilvægis og möguleika ferðaþjónustunnar í íslensku atvinnulífi. Það hefur meira verið látið reka á reiðanum og látið ráðast hvernig til tækist. Sú þingsályktunartillaga sem hæstv. ráðherra hefur hér mælt fyrir er tímabært og lofsvert framtak til þess að vinna í að skapa ferðaþjónustunni umgjörð og þá jafnframt möguleika á forgangskröfu til þeirra þátta sem byggja hana upp sem atvinnuveg.

Ég minntist í andsvari mínu á þá grunnþætti í umgjörð ferðaþjónustunnar sem eru í þessari þingsályktunartillögu. Það er vel til fundið að hafa á þeim lista sem starfshópur ráðherrans hefur gert að umgjörð þingsályktunartillögunnar punkt númer eitt náttúru Íslands, menningu þjóðarinnar og fagmennsku. Raunar má segja að allir liðirnir sem taldir eru upp þar á eftir séu bara til að undirstrika og útvíkka þann þátt sem settur er númer eitt, náttúru Íslands og menningu þjóðarinnar.

Hér hefur líka verið getið um hvernig ráðherra lét vinna þessa þingsályktunartillögu. Bakgrunnurinn í vinnunni er sá að kallaðir voru til hinir ýmsu aðilar í samfélaginu sem tengjast ferðaþjónustunni og framtíðarmöguleikum hennar og þeir settust niður með starfsmönnum ráðuneytisins til að setja þessa stefnumörkun fram. Ég tel einnig að þessi vinnubrögð af hálfu ráðherrans séu til fyrirmyndar — án þess að það megi hæla ráðherranum allt of mikið, hann á náttúrlega eftir að standa við þetta allt saman. Það er mjög mikilvægt að í grein sem þessari sem snertir svo mjög alla landsmenn, náttúruna og framtíðina sé unnið að málum á víðtækum grunni. Að minnsta kosti birtist okkur þessi vinna með þeim hætti, og þingsályktunartillagan er því gott veganesti í því sem hér er verið að leggja upp með, að skapa ferðaþjónustunni ákveðna umgjörð.

Ég treysti því að hv. formaður fjárlaganefndar, sem hér gekk í salinn, muni beita sér fyrir því með okkur öðrum í fjárlaganefnd að ferðamálin fái aukinn fjárstuðning af hálfu ríkisins til að byggja upp þá grunnþjónustu sem ríkinu ber skylda til að gera.

En það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ég kom að því í andsvari mínu við hæstv. ráðherra að hvort tveggja verður ekki gert hér, að byggja upp mikla ferðaþjónustu á grundvelli íslenskrar náttúru og íslenskrar menningar og ætla að taka sömu náttúru, beisla hana í stórvirkjanir og reisa síðan álver, stóriðjuver, sem keyra efnahagslífið á hlið eins og við stöndum nú frammi fyrir. Það er því til upplýsingar fyrir hæstv. samgönguráðherra, sem hér flytur þessa ágætu þingsályktunartillögu um náttúru Íslands og umhverfisvernd, sem það er sagt að samtímis ríður hæstv. iðnaðarráðherra eða keyrir um héruð, héruð sem eru að byggja sig upp í ferðaþjónustu, búa náttúruperlur sínar þannig út að þær geti nýst sem best, vernda þær til uppbyggingar ferðaþjónustu, og segir: Heyrðu, við skulum taka þessar náttúruperlur, búa hér til virkjun og svo fáið þið álver.

Það væri fróðlegt ef hæstv. samgönguráðherra gæti upplýst hversu mikla peninga hæstv. iðnaðarráðherra fær til að reka áróður fyrir stóriðju sinni miðað við þá peninga sem hæstv. samgöngu- og ferðamálaráðherra fær til sinnar uppbyggingar. Ég held að þar skeiki nokkrum hundruðum milljónum króna.

Þess vegna styð ég hæstv. samgönguráðherra á allan hátt í að keyra áfram þá stefnu að byggja Ísland upp sem ferðamannaland á grundvelli ósnortinnar náttúru (Forseti hringir.) og jafnframt að stöðva hæstv. iðnaðarráðherra í að ráðast á sömu náttúruperlur til að byggja upp stóriðju.



[15:44]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér vannst ekki tími til að koma inn á nokkur atriði í fyrri ræðu minni. Reyndar er ekki svo óskaplega langt síðan að umhverfismál sem slík komust fyrir alvöru og með formlegum hætti á dagskrá ferðaþjónustunnar eða að farið var að huga að sambúð þessara þátta, atvinnugreinarinnar sem slíkrar annars vegar og síðan umhverfisverndar og nauðsyn þess að hlúa að náttúrunni og varðveita hana. Mikið vatn hefur til sjávar runnið frá því sú umræða fór af stað að einhverju marki fyrir um 15 árum síðan. En nú þykja þau mál sjálfsögð og er vel.

Langstærsta aðgerðin sem fyrirhuguð er í þessu efni er stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, þ.e. hins stóra þjóðgarðs eða verndarsvæðis sem umlykur Vatnajökul og nær jafnvel frá strönd til strandar, frá Skeiðarársandi í suðri, norður um Vatnajökul og svæðið norðan hans og allt til sjávar við botn Öxarfjarðar. Hluti af því yrði friðlýsing á Jökulsá á Fjöllum, sem er sem betur fer að verða nokkuð óumdeilt að stefna beri að, mál sem ég hef barist fyrir lengi og flutt tillögur um á þingi. Reyndar liggur ein slík enn fyrir þinginu til umfjöllunar.

Í öðru lagi vildi ég nefna fyrirbærið svarta atvinnustarfsemi eða leyfislausa starfsemi og skattsvik og að slíkt beri að uppræta. Það er að sjálfsögðu gott að menn hafi hug á því. Það er enginn vafi á því að ferðaþjónustan er ein þeirra greina sem gæti orðið undirorpin því, ef ekkert er að gert og er það örugglega í einhverjum tilvikum nú þegar, að þar gæti tilhneigingar til að reyna flytja inn ódýrt vinnuafl og nota í óþrifalegustu og óvinsælustu störfin. Það á sama hátt óþolandi að sumir greiði sína skatta og sínar skyldur og standi skil á öllu til samfélagsins á meðan aðrir gera það ekki og hafa samkeppnisforskot sem því nemur.

Í þriðja lagi, og það sem ég ætlaði nú aðallega að gera að umtalsefni, er mikið hugðarefni mitt sem er hér nefnt á nokkrum stöðum. Það er um mikilvægi þess að dreifa álagi af ferðaþjónustu um landið og byggja upp heilsársferðaþjónustu. Þetta tvennt hangir í mörgum tilvikum saman. Staðreyndin er sú að virkustu aðgerðirnar til að byggja upp heilsársferðaþjónustu eru í mörgum tilvikum einnig til þess fallnar að dreifa ferðaþjónustunni um landið. Þá á ég sérstaklega við að stórbæta samgöngur og tryggja heilsárssamgöngur sem nái m.a. til perlna, þess aðdráttarafls sem menn velja hér að kalla „segla“ ef ég les rétt í innan gæsalappa að vísu, sem mér finnst heldur leiðinleg orðanotkun. Menn mættu glíma við að reyna að finna eitthvað skemmtilegra en þetta eðlisfræðilega fyrirbæri sem dregur að sér ferðamenn svipað eins og segull dregur að sér stálflísar. Hér er auðvitað átt við fyrirbæri með sérstakt aðdráttarafl, sem laða til sín ferðamenn og þá jafnt vetur sem um sumar. Reyndar er engin ástæða til að ætla annað en að ferðamennskan á Íslandi geti í fyllingu tímans jafnvel enn þá frekar orðið á veturna en á sumrin. Það er reynslan þar sem mönnum hefur tekist virkilega vel til á norrænum svæðum, jafnvel hánorrænum slóðum eins og í Norður-Finnlandi, að það reynist einfaldlega auðveldara að selja veturinn en sumarið. Hann er sérstakari. Það er meira nýnæmi í því fyrir ferðafólk af suðlægum slóðum að komast í frost og fimbulkulda, upplifa snjó og norðurljós frekar en sumarið, jafn sérstakt og það getur þó verið á okkar slóðum með miðnætursólinni og öllu því.

Ég held að til að dreifa álaginu og byggja upp heilsársþjónustu þurfi í fyrsta lagi að stórbæta samgöngur. Það þarf að treysta heilsárssamgöngur á þeim svæðum og jafnvel inn til landsins á köflum þannig að menn geti nýtt það aðdráttarafl sem svæðin hafa upp á að bjóða. Þeir kostir eru þegar til staðar á suðvesturhorni landsins, þar er hinn frægi Gullfoss-Geysis-hringur og menn komast vestur að Snæfellsjökli, í Bláa lónið og í hvað það nú er sem hér dregur að. En því miður vantar þetta sums staðar annars staðar. Í öðru höfuðvígi ferðaþjónustunnar, sem er Miðnorðurland og Mývatnssveit, er mönnum ákaflega miklar takmarkanir settar vegna þess að miklar náttúruperlur eins og Dettifoss, sem hefur nú ekki síður aðdráttarafl á vetri en sumri, er lítt aðgengilegur á löngu tímabili.

Ef menn ætla í alvöru að dreifa ferðaþjónustunni um landið, þá verður að brjóta upp hinn miðlæga suðvesturhorns-strúktúr í ferðaþjónustunni. Það gengur ekki að 95–98% af öllum ferðamönnum komi og fari um sama millilandaflugvöllinn á Reykjanesi. Það verður að ná upp valkostum sem bjóða ferðamönnum upp á fjölbreyttari ferðamöguleika, fjölbreyttari aðkomu eða brottför frá landinu. Með öðrum orðum beint flug eða tengingar t.d. á höfuðflugvellina á Norðurlandi og Austurlandi. Því fyrr sem það gerist því betra. Stjórnvöld eiga að beita sér í þeim efnum. Það dugir ekki að selja ferðaþjónustu rekstraraðilum, þó mikilvægir og stórir séu og geri margt mjög vel eins og Flugleiðir eða Icelandair eða hvað á að kalla það í dag, sjálfdæmi í þeim efnum. Ef þröngir rekstrarhagsmunir slíkra aðila ráða einir ferðinni er hætt við því að menn missi sjónar á öðrum hlutum eins og heildarhagsmunum af því að dreifa ferðaþjónustunni.

Ég tel brýnt að ráðast í þetta verkefni ef við eigum að ráða við 500–800 þús. ferðamenn til og frá landinu innan örfárra ára. Við eigum að bjóða upp á fjármagn á tilteknu árabili til markaðssetningar á beinu flugi til og frá Akureyri og Egilsstöðum. Ef það dugar ekki til eiga menn að mínu mati einfaldlega að hugleiða að bjóða slíka þjónustu út og sá sem býður hagstæðast í það haldi uppi tilteknu framboði á flugi, t.d. frá stöðum eins og Kaupmannahöfn og London. En það þyrfti að fá tiltekinn stuðning til þess á meðan það er byggt upp. Það þýðir ekki neitt að reyna að segja mér þá draugasögu í björtu að hægt sé að hafa yfir á milli 30 og 40 flug á viku í sumar til Kaupmannahafnar en ekki eitt einasta til Akureyrar. Hvers vegna skyldi ekki með réttri markaðssetningu vera hægt að tengja hlutina þannig saman að menn eigi þann valkost að lenda í Keflavík, hefja ferð sína á suðvesturhorninu, enda á Akureyri eða Egilsstöðum og fljúga þaðan út úr landinu eða öfugt? Auðvitað væri það hægt ef menn settu það inn í sitt víðtæka markaðsnet. Ég skora á samgönguráðherra og á nýja stjórnendur Flugleiða, þó með mikilli virðingu fyrir þeim sem þar eru að láta af störfum, vinum mínum þar, að gera skurk í þessum efnum. Það er löngu tímabært að láta ekki útlendinga gera tilraunir sem síðan mislukkast til að fljúga frá Akureyri og Egilsstöðum. Við eigum að gera það sjálf.



[15:52]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég sá ástæðu til að kveðja mér hljóðs til að lýsa einfaldlega yfir ánægju minni með að loks skuli mælt fyrir þingsályktunartillögu um ferðamál, með þeirri áætlun henni fylgir, á hinu háa Alþingi. Ég var fulltrúi flokks míns í hópi stjórnmálamanna, sem í voru fulltrúar allra flokka á þingi, sem komu að vinnunni við gerð þessarar áætlunar og við höfðum einnig auga með því þegar fylgiskjalið var útbúið. Ég fæ nú ekki betur séð en það starf hafi lukkast ágætlega.

Ég skal gjarnan viðurkenna að ég hef ekki lesið fylgiskjalið, mér hefur ekki gefist tími til þess, en þessi skýrsla, í öllu sínu veldi, kom ekki í pósthólf mitt fyrr en nú í morgun, af einhverjum ástæðum. Ég vil nota tækifærið til að lýsa furðu yfir því en nóg um það.

Það er enginn vafi á því að ferðaþjónustan gefur okkur tækifæri til mikillar sóknar inn í framtíðina á næstu árum. Það er augljóst að ef okkur á að takast vel upp þá verðum við að halda vel á spilunum. Ég vona sannarlega að skýrsla þessi hjálpi okkur við það. Hér hafa aðrir þingmenn flutt ágætar ræður og minnst á þætti sem ég hafði hugsað mér að koma að. Ég lýsi mig efnislega sammála mörgu af því sem sagt hefur verið og sé í raun enga ástæðu til að endurtaka það í mörgum orðum. Það má náttúrlega minna á þætti eins og mikilvægi góðra samgangna, að við höldum þar áfram uppbyggingu til að tryggja aðgengi að ferðamannastöðum. Við verðum einnig að halda áfram uppbyggingu á ýmiss konar þjónustu, aðstöðu og þannig má lengi telja. Að sjálfsögðu megum við ekki gleyma kynningarþættinum.

Mig langar einnig að nota smáræði af tíma mínum til að minna á mikilvægi þess, virðulegi forseti, að landið er nú lítils virði sem ferðamannaland ef ekkert í því fólkið. Þetta höfum við í Frjálslynda flokknum margoft sagt. Það hefur að hluta til verið ástæðan fyrir því að við höfum barist mjög hatrammlega fyrir hagsmunum hinna dreifðu byggða á Íslandi. Það er ekki síst vegna þess að okkar sannfæring er sú að landið sé lítils virði, m.a. með tilliti til uppbyggingar ferðaþjónustu, ef engin búseta er í landinu. Erlendir ferðamenn koma ekki bara til að skoða náttúru landsins heldur líka til að kynnast lífsháttum okkar og menningu, til að sjá okkur Íslendinga í okkar eigin umhverfi. Okkur, íbúum þessa lands, þykir margt í umhverfi okkar sjálfsagt og eðlilegt sem hinu glögga gestsauga þykir í raun alveg stórmerkilegt, alls konar hversdagslegir hlutir.

Ég var á fundi í kjördæmi mínu fyrir nokkrum vikum, austur á Kirkjubæjarklaustri. Þar horfði fólk til framtíðar atvinnuuppbyggingar á staðnum, m.a. vegna þess að þar verður sláturhúsinu lokað í vetur. Þar var auðheyrt að fólk horfði einmitt mjög til uppbyggingar ferðamála og skyldi engan undra því að þar er mjög fagurt umhverfi, margar náttúruperlur og ætti heldur betur að vera hægt að gera skurk í að auka ferðaþjónustu á því svæði.

Ég man að þar stóð upp leiðsögumaður sem hafði haft lifibrauð sitt af því að vera leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi í mörg ár. Hann benti t.d. á að eftirsóknarvert þætti að geta farið með ferðamenn á íslenskan bóndabæ, hversdagslegan íslenskan sveitabæ, ósköp venjulegan, sýnt þeim slíkan sveitabæ en ekki einhverja fegraða mynd af einhverjum sveitabæ fyrir túrista. Þá væru menn ekki að tala um einhvern húsdýragarð heldur ósköp venjulegan sveitabæ þar sem hundurinn liggur á hlaðinu, hænurnar vappa um, kýr eru á beit, bóndinn gengur til mjalta o.s.frv. Það þykir erlendum ferðamönnum forvitnilegt.

Leiðsögumaðurinn sagði líka aðra sögu. Hann sagði frá því að hann væri nýkominn úr ferð með hóp af frönskum ferðamönnum og hann hefði farið með þá austur á Skeiðarársand. Hann sagðist hafa selt þeim kvöldið áður hlut sem hann hafði aldrei selt fyrr. Hvað var það? Það var ekki neitt. Hann seldi þeim ekki neitt. Hvernig fór hann að því? Jú, hann bað rútubílstjórann að beygja út af veginum, keyra inn á sandinn, stöðva rútuna þar, drepa á henni og slökkva öll ljós. Svo gekk hann út með ferðamennina, út í myrkrið og þögnina, út í auðnina þar sem ekki var stingandi strá, ekkert líf, enginn fugl, bara vindurinn, tunglið, stjörnurnar á himinhvolfinu og svo auðnin allt í kring. Fyrir þessa erlendu ferðamenn var þetta stórkostleg upplifun, að fá að upplifa ekki neitt. Fyrir að fá að upplifa ekki neitt voru þessir ferðamenn reiðubúnir að greiða, bæði fyrir leiðsögn og aðra þjónustu, vegna þess að hin ósnortna náttúra, þögnin og það sem við getum kallað ekkert er að verða nokkuð sjaldgæft úti í hinum stóra heimi. Menn þurfa að leggja mikið á sig í Evrópu til að finna staði, ef þeir eru þá yfir höfuð til, staði sem til að mynda jafnast á við Skeiðarársand. Öræfi Íslands, ósnortin náttúra sem okkur kann að virðast hrjóstrug, nauðaómerkileg og jafnvel ljót, kann að vera stórmerkileg upplifun í augum erlendra gesta sem koma hingað til að heimsækja okkur.

Virðulegi forseti. Mér datt í hug að segja þessa litlu sögu auk þess að reyna að koma ýmsu öðru að. Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra um þetta að sinni. Ég reikna með að þessi þingsályktunartillaga fari til umfjöllunar í þingnefnd, að einhverjar umsagnir komi um hana og hún verði vonandi afgreidd frá hinu háa Alþingi áður en þingi lýkur um miðjan maí.



[16:00]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það eru aðeins örfá atriði sem ég vil bæta við í máli mínu. Ég tel að gera þurfi því frekari skil í þingsályktunartillögunni eða stefnumörkuninni hver þáttur ríkisins í að byggja upp grunnforsendur og grunnstuðning fyrir ferðaþjónustuna eigi að vera. Minnst er á menntun og rannsóknir en ferðaþjónustan er þannig grein að mjög mikilvægt er að henni sé skapaður mjög öflugur og góður sameiginlegur grunnur. Verið er að stofna upplýsingamiðstöð um ferðaþjónustu sem mér finnst vera einn þáttur sem hið opinbera getur vel staðið að, þ.e. fjölþættri upplýsingaþjónustu sem öllum nýtist. Byggður hefur verið upp stór og sterkur samfélagslegur grunnur í menntun, rannsóknum og markaðsmálum í sambandi við aðra atvinnuvegi í gegnum áratugina, eins og landbúnað og sjávarútveg, en ferðaþjónustan er ung og hana vantar þennan grunnstuðning. Ég tel að ríkið ætti að koma á mjög styrkan og myndarlegan þátt þar inn í.

Þegar maður hugsar til þess sem gerst hefur í stóriðjunni undanfarið þar sem verið er að setja milljarða af opinberu fé til að byggja upp þá grein sem gengur þvert á hagsmuni ferðaþjónustunnar fer maður að hugsa um hve hlutur ferðaþjónustunnar er lítill í því sambandi. Ég tel því að við þurfum að marka ákveðnar þátt og stuðning ríkisins í hinum almennu grunnþáttum sem allir njóta í sambandi við uppbyggingu ferðaþjónustunnar.

Það er ekki hægt annað en að ítreka þær andstæður sem eru á ferðinni. Hæstv. iðnaðarráðherra er t.d. að boða fund á Norðurlandi um stóriðju á grundvelli mikilla fjármuna sem hún hefur til að laða að fólk til að reyna að fá það til að trúa á þetta hugðarefni sitt. Ímyndið þið ykkur að í Skagafirði, sem hefur verið að byggja upp mjög sterka ímynd fyrir hreina og öfluga náttúru og náttúrufegurð, væri búið að stífla Héraðsvötnin, byggja verksmiðju í sjónlínu við Drangey og þegar maður kæmi á Vatnsskarðið horfði maður á blámóðuna sem stendur oft upp af þeirri verksmiðju. Hvernig færu Skagfirðingar að því, ég tek sem dæmi að syngja „Skín við sólu Skagafjörður“ með stífluð Héraðsvötnin, uppfyllt lónin og blámóðu álverksmiðjunnar í sjónlínu við Drangey og Málmey? Sjáið þið þetta fyrir ykkur? Ég held að enginn Skagfirðingur vildi að þetta væri sú sýn sem við blasti þegar þeir kæmu á Vatnsskarðið. Ég skora því á hæstv. ráðherra ferðamála að berjast fyrir þeim sjónarmiðum sem ferðaþjónustan byggir á.

Ég minni á að þetta fer saman við þær áherslur sem fram komu á aðalfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvest. nú nýverið. En þeir leggja til, með leyfi forseta:

„að hafin verði stórsókn í uppbyggingu í kjördæminu sem sérstöku ferðaþjónustusvæði. Gerð verði sérstök áætlun til næstu fimm ára sem hafi það að markmiði að treysta grunnstoðir ferðaþjónustunnar á svæðinu. Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem vex hvað hraðast og skilar mestri árlegri aukningu í nettógjaldeyristekjum til þjóðarbúsins. Ferðaþjónustan er orðin ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar og skilar 40–50 millj. kr. í gjaldeyristekjur á ári og gert er ráð fyrir þreföldun ferðamanna til landsins á næstu árum. Styrking ferðaþjónustunnar er eitt nærtækasta verkefnið til að auka fjölbreytta atvinnu á svæðinu sem heild og til þess að svo megi vera þarf að styrkja grunnstoðir og markaðsstarfið en þar vantar fjármagn.“

Í ályktun Vinstri grænna í Norðvest. eru jafnframt raktir hinir miklu möguleikar í náttúruarfi, menningu og sögu. Nefna má jökulvötnin í Skagafirði með heimsfrægum fljótasiglingum, jöklaferðir, gjöfular veiðiár, eyjar og lífríki Eyjafjarðar, Vestfjarða og þjóðgarða á Snæfellsnesi svo nokkuð sé nefnt. Þetta eru þær áherslur sem ég held að íbúar vítt og breitt um landið vilji sjá í ferðaþjónustu sinni og fyrir atvinnulíf sitt til framtíðar en ekki stóriðju og álglýju sem hæstv. iðnaðarráðherra gengur nú um og predikar.



[16:05]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir ágætar undirtektir við þingsályktunartillöguna sem hér er til umræðu og góð orð um hana. Vegna ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar í lokin mætti halda að það væri mjög langt síðan hann hefði komið í Skagafjörð eða á það svæði, (Gripið fram í: Hann var þar í gærkvöldi.) hvað þá að hann fylgist með því sem er að gerast þar og hefur verið að gerast því að satt að segja eru önnur svæði ekki öflugri á sviði ferðaþjónustunnar en einmitt Skagafjarðarsvæðið og þau áform um bættar samgöngur í nágrenninu þar allt um kring eru auðvitað lykillinn að því að geta nýtt þá feiknalega merkilegu menningartengdu ferðaþjónustu sem þar hefur verið byggð upp í gegnum tíðina, á Hofsósi, á Hólum, Glaumbæ o.s.frv. Ég vil minna hv. þingmann á þetta alveg sérstaklega og bið hann um að það verði tekið upp í næstu ályktun sem hann stendur fyrir.

Að öðru leyti þakka ég honum og öðrum hv. þingmönnum fyrir ágætar undirtektir og afar málefnalega umræðu.

Ég vil nefna örfá atriði hér. Fyrst varðandi það sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir spurðist fyrir um sérstaklega sem eru bættar merkingar á vegakerfi landsmanna sem auðvelduðu erlendum ferðamönnum. Ég vísa til þess að Vegagerðin hefur verið að vinna að og undirbúa bættar merkingar á þjóðvegakerfinu. Fyrstu skrefin í því eru m.a. kynnt í nýlegu hefti fréttabréfs Vegagerðarinnar. Allt er það tengt því að auka umferðaröryggi og ég hef lagt ríka áherslu á að svo verði. Ég tel eðlilegt að sérstaklega sé litið til ábendinga hv. þingmanns og tel að það væri mjög gagnlegt að hv. samgöngunefnd færi yfir þá þætti í umfjöllun sinni um þingsályktunartillöguna.

Fleiri en einn þingmaður nefndu það sem mikilvægan lið í að efla ferðaþjónustuna og innflutning ferðamanna til landsins að fjölga þeim alþjóðaflugvöllum sem geta staðið fyrir þeirri þjónustu að taka á móti flugvélum í millilandaflugi. Það er mjög erfitt fyrir okkur þingmenn að ráða miklu þar um að öðru leyti en því að bæta þar aðstöðuna, að flugbrautir séu nægilega langar þannig að ekki sé horfið frá þess vegna. Ég tel eðlilegt að það verði skoðað og lagt mat á það hvort ekki sé eðlilegt að lengja flugbrautirnar bæði á Egilsstöðum og Akureyri í þeim tilgangi að tryggja þessa möguleika ef rekstraraðilar í fluginu sjá sóknarfæri þar að lútandi. Ég tek því undir þær ábendingar.

Hins vegar verðum við náttúrlega að minnast þess að það búa ekki margar milljónir á Íslandi og ýtrustu hagkvæmni þarf að beita í rekstri í millilandaflugi svo það sé eins sterkt og það þarf að vera til að tryggja góðar samgöngur. En ég tel að ef rekstrarlegar forsendur eru fyrir því að fljúga til annarra flugvalla en Keflavíkurflugvallar sé það auðvitað skoðunar virði þeirra sem sjá um slíkan rekstur.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti ágæta ræðu og málefnalega um tillöguna og vakti m.a. athygli á nauðsyn þess að móta stefnu um hvernig tryggja megi að stóraukinn fjölda ferðamanna skerði ekki og skaði náttúruna. Ég tek undir að huga þarf að því og er verið að gera það. Verið er að bæta stöðuna á fjölförnum ferðamannastöðum og árlega höfum við lagt háar fjárhæðir í að koma upp göngustígum og móttökuaðstöðu á fjölförnum ferðamannastöðum til þess einmitt að tryggja þetta. Ég tel því að sú áætlun sem hv. þingmaður nefndi sé í gangi. Alþingi samþykkir árlega framlög til uppbyggingar á fjölförnum ferðamannastöðum sem er afar nauðsynlegt og við þurfum að huga að því áfram.

Hv. þingmaður nefndi einnig áherslur í markaðssetningu og áherslur á tiltekin svæði. Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni er áfram gert ráð fyrir að leggja megináherslu á markaðssvæðin Norður-Ameríku, Norðurlöndin, Mið-Evrópu og Bretland en ég tel jafnframt að við þurfum að horfa víðar um. Við höfum verið að festa rætur á markaðssvæðum eins og Japan og þurfum að huga að Kína og fleiri löndum þar sem er mikill vöxtur í atvinnulífinu og miklir möguleikar á markaðssetningu í ferðaþjónustunni. Ég tel að þrátt fyrir að sérstaklega sé litið til þeirra markaða sem ég nefndi áður hefur stefna Ferðamálaráðs verið að huga að þessu og samgönguráðuneytið hefur veitt tiltekna styrki til aðgerða eins og í Japan og Kína sem er liður í því að standa með þeim sem eru að reyna að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland á þeim svæðum. Ég tek því undir með hv. þingmanni að þetta eru verkefni sem við þurfum einnig að huga að.

Hvað varðar samstarfið við Grænland er alveg rétt að það er mikilvægt. Við höfum veitt sérstaka styrki til flugs milli Íslands og Grænlands og Alþingi hefur samþykkt þær fjárveitingar. Við höfum verið í mjög góðu samstarfi við Grænlendinga að markaðssetja það héðan, en það er nokkur vandi á höndum því að flugfélögin okkar geta ekki tekið það upp hjá sér að fara að fljúga til Grænlands vegna þess að samningar eru ekki í gildi um það á milli þjóðanna. Þeir hafa ekki náðst. Það er nokkur einokun á flugi til Grænlands sem hv. þingmaður þekkir. En ég tek undir að við þurfum að vinna að því að efla samstarfið og höfum verið að gera það. Við buðum m.a. á sínum tíma styrk til að koma upp flugbraut á tilteknum stað í Grænlandi sem ekki varð af vegna þess að heimamenn voru ekki reiðubúnir til að leggja í þær fjárfestingar, það var nærri Scoresbysundi. Það er því af ýmsu taka en þetta eru viðfangsefni sem ég tel eðlilegt að litið verði til og ágætt að umræða fari fram um það í tengslum við þingsályktunartillöguna.

Hvað varðar heilsárssamgöngur sem hv. þingmaður nefndi stendur margt til bóta í þeim efnum. Það er auðvitað lykill að því að hægt sé að selja tiltekna þjónustu út um landið að samgöngurnar séu í lagi allan ársins hring og þarf ekki að hafa mörg orð um það.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi komið inn á þau atriði sem ég vildi sérstaklega nefna vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið. Ég vil endurtaka þakkir til þingmanna fyrir málefnalegar umræður og vænti þess að hv. samgöngunefnd fjalli rækilega um tillöguna og að hún verði afgreidd fyrir þinglok.