131. löggjafarþing — 102. fundur
 4. apríl 2005.
skráning netléna.

[15:03]
Lára Stefánsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra að því hvort hann hyggist beita sér fyrir því að þeir sem eigi lénnöfn á internetinu án séríslenskra stafa geti nýtt sér sama lén með íslenskum stöfum.

Nú ber svo við að margir eiga lén sem gera má ráð fyrir að í væru íslenskir stafir en ekki hefur verið hægt að nýta vegna tækniörðugleika á netinu, eins og Morgunblaðið, RÚV, Reykjavík o.fl. eins og líka ég. Ég á lénið Lara.is og vildi gjarnan nýta Lára.is. Nú er þetta ekki hægt og sérstaklega rukkað fyrir það, og ekki nóg með það heldur er afnotagjald á hverju ári til framtíðar fyrir það að eiga bæði nöfnin. Því vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann vilji beita sér til þess að við getum notað bæði heitin á internetinu, þ.e. með íslenskum bókstöfum og án.



[15:04]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmenn vita og þekkja skiptir orðið mjög miklu máli að eiga greiðan aðgang að því sem við köllum lén. Ekki hafa verið talin nein vandkvæði á að afla sér slíkra kenninafna, ef svo mætti segja, en uppi hafa verið umræður um þetta síðustu vikurnar eins og fram kemur hjá hv. þingmanni.

Í samgönguráðuneytinu hefur ekki verið tekin nein afstaða til þess sem hv. þingmaður nefnir en það er sjálfsagt að fara yfir það mál og skoða rækilega með þeim aðilum sem að þessu koma. Ráðuneytið hefur sem sagt ekki tekið neina afstöðu til þessa vandamáls eins og sakir standa. Það eru vafalaust ríkar ástæður til að fara yfir þetta mál en ég held að það sé ekki neitt stórkostlegt vandamál eins og sakir standa.



[15:05]
Lára Stefánsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hvet hæstv. samgönguráðherra eindregið til að taka þetta mál upp í ráðuneyti sínu og einnig gjarnan taka höndum saman við menntamálaráðherra til að standa vörð um íslenska tungu. Það er hvimleitt að Alþingi heiti althingi á netinu og þurfi að borga sérstaklega fyrir að mega heita Alþingi.

Ég tel þetta brýnt mál. Við sem fjöllum um þessi mál og vinnum við þau teljum brýnt að við leggjum íslenskuna að jöfnu við svokallaða ísl-ensku og getum notað hana á internetinu þannig að það sé eðlilegt fyrir okkur, íslenska nemendur og íslenska þjóð, að nota íslensku á íslensku interneti.