131. löggjafarþing — 102. fundur
 4. apríl 2005.
norsk-íslenski síldarstofninn.

[15:20]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það líður nú að vori með betri tíð og blómum í haga og þá rennur enn eina ferðina upp ný síldarvertíð. Stærsti fiskstofn í norðaustanverðu Atlantshafi er nú á leið frá ströndum Noregs í vesturátt, nálgast íslensku lögsöguna óðfluga og það líða ekki margar vikur þangað til ný síldarvertíð hefst. Í vetur höfum við fengið mjög jákvæðar fréttir frá frændum okkar, Norðmönnum, um það að þessi stofn sé í örum vexti. Til að mynda bárust fréttir af því rétt fyrir jól að stærsti árgangur sem mælst hefði frá því að mælingar hófust fyrir 50 árum, þ.e. 2002-árgangur, væri fundinn.

Við höfum einnig heyrt af því að hafið hér í norðaustanverðu Atlantshafi fari mjög hlýnandi og nú síðast um helgina var viðtal við Rögnvald Hannesson, prófessor við Viðskiptaháskólann í Björgvin í Noregi, þar sem hann benti réttilega á það að þetta mundi sennilega allt leiða til þess að göngumynstur til að mynda síldarinnar mundi breytast. Það eru miklu meiri líkur en minni til þess að hún taki upp sitt gamla göngumynstur samfara stækkandi stofnstærð og hlýnandi hafi og fari að færa sig aftur á gömlu sumarsvæðin við norðaustanvert Ísland og undan Norðurlandi.

Mér datt því í hug, virðulegi forseti, að bera þá spurningu upp við hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort uppi væru einhverjar áætlanir um að leggja aukna áherslu á rannsóknir á norsk-íslenska síldarstofninum í vor og í sumar í ljósi þess að stofninn er í örum vexti. Það er alveg augljóst mál að það stefnir jafnvel í síldarstríð við Norðmenn — og hugsanlega einnig við Evrópusambandið og fleiri þjóðir — vegna misklíðar varðandi skiptingu á þessum stofni. Samningaviðræður um skiptingu á stofninum eru mjög erfiðar en eitt af þeim grundvallargögnum sem notuð eru í slíkum samningaviðræðum eru, eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra náttúrlega veit, gögn um útbreiðslu og göngu síldarinnar.



[15:22]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er eins og kom fram hjá hv. þingmanni mjög ánægjuleg þróun hvað varðar íslensk-norsku síldina. Hins vegar eru blikur á lofti, eins og hv. þingmenn vita, um það hvernig eigi að standa að stjórninni. Við höfum fylgst með þróun þessara mála, Hafrannsóknastofnunin fyrir hönd ráðuneytisins og okkar allra að sjálfsögðu. Þar verður auðvitað leitast við að sinna þeim rannsóknum sem taldar eru nauðsynlegar á hverjum tíma. Ekki hafa verið lagðar fram neinar sérstakar áætlanir sem hafa komið til minna kasta vegna þessa einmitt núna. Á sumrin er farið hefðbundið í leiðangra til að mæla og meta uppsjávarstofnana. Auðvitað er grunnurinn að þeim upplýsingum sem hér hafa komið fram þær rannsóknir sem hafa farið fram á undanförnum árum og eru í megindráttum í samræmi við það sem vísindamenn hafa átt von á.

Hvort getgátur Rögnvaldar Hannessonar munu reynast réttar, að hún gangi inn í íslensku landhelgina aftur, taki upp sitt fyrra göngumunstur og eyði meiri tíma hér við fæðuöflun en hún hefur gert að undanförnu og hversu mikið hún mun svo hafa vetursetu, er of snemmt að segja um. Við munum hins vegar fylgjast vel með þessu eins og kostur er á hverjum tíma.



[15:24]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi svör ollu mér vonbrigðum. Ég hefði frekar viljað heyra einhver svör um að búið væri að ákveða að leggja sérstaka áherslu á þessar rannsóknir núna á næstu vikum og mánuðum, til að mynda með því að senda út hafrannsóknaskip til sérstakra leiðangra til að mæta síldinni og fylgjast síðan með henni, göngum hennar og útbreiðslu. Það er alveg ljóst að þessi gögn skipta höfuðmáli í allri okkar röksemdafærslu í sambandi við samningaviðræður við erlendar þjóðir. Við þurfum að bæta samningsstöðu okkar.

Við sáum það nýlega að Norðmenn voru að færa sig upp á skaftið og ætla sér nú að veiða allt að 65% hlutdeild úr þessum stofni, juku hana úr að mig minnir 55% þannig að núna fer í hönd ögurstund hvað varðar nýtingu á þessum stofni. Hér eru milljarða verðmæti í húfi fyrir okkur Íslendinga og þess vegna er mjög áríðandi, eins og ég segi, að við höfum allar klær úti til að afla okkur sem allra bestra gagna til að nota í samningaviðræðum.



[15:25]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að afla gagna um dreifingu síldarinnar og það mun verða gert. Hins vegar er hægt að gera það á ýmsan annan hátt en með því að senda skipin út í sérstaka leiðangra. Auðvitað er obbinn af þeim upplýsingum sem við höfum um fiskstofna okkar kominn úr upplýsingum frá flotanum sjálfum.

Það væri betra að niðurstöður í samningum færu allar eftir þeim vísindagögnum sem við höfum getað lagt fram. Því miður er það ekki þannig. Í þeirri deilu sem við eigum í við Norðmenn hefur mér ekki virst sem rök dygðu sérstaklega vel. Einhver önnur sjónarmið eru þar á lofti og ég held að við þurfum að fara varlega í að treysta á að rök og skynsemi muni duga okkur eingöngu í þeim deilum sem við eigum í í dag. Það hefur ekki reynst svo hingað til.



[15:26]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er mjög varasamt að reiða sig bara á fiskiskipaflotann þegar um það er að ræða að finna heimildir fyrir því hvar síldin er á hverjum tíma. Fiskiskipin hafa ávallt tilhneigingu til að leita á þá staði þar sem síldin er þéttust á hverjum tíma og stunda þar veiðar. Ef þau hafa fundið einhvers staðar stóra og góða torfu eða torfur á tiltölulega litlu svæði er flotinn þar. Hann leitar ekki mikið fyrir utan það.

Það sem við þurfum á að halda er að fara yfir miklu stærra hafsvæði, hafsvæðið á milli Íslands og Jan Mayen, fyrir austan Jan Mayen, norðaustur af Íslandi, lengst norðaustur í höf. Það er það sem við þurfum að gera og til þess þarf að skipuleggja sérstaka leit og víðtækar rannsóknir. Að sjálfsögðu kosta þær peninga, að sjálfsögðu krefjast þær mannafla en það er einfaldlega sá fórnarkostnaður sem við verðum að leggja út.

Varðandi Norðmenn er það einmitt þannig að þó að erfitt sé að tjónka við þá, það er alveg rétt, hafa aðalröksemdir þeirra varðandi skiptingu síldarstofnsins gengið út á það að menn ættu að líta á göngur og útbreiðslu síldarinnar. Hérna fáum við sem sagt vonandi tækifæri til að nota helstu rök þeirra sjálfra gegn þeim sjálfum og þá hljótum við að ná árangri.



[15:28]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það væri eflaust mjög áhugavert að fara í slíka leiðangra sem hv. þingmaður lýsir hér, ekki bara til að skoða síldina heldur útbreiðslu ýmissa annarra stofna, bæði þeirra sem við nýtum og stofna sem við höfum ekki nýtt fram til þessa. (Gripið fram í: Miðsjávar.) Meðal annars miðsjávar, hv. þingmaður. Ég vil hins vegar leyfa mér að efast stórlega um það að niðurstöður slíkra leiðangra verði það innlegg sem leysir það vandamál sem við stöndum frammi fyrir í samskiptum okkar við Norðmenn um síldina.