131. löggjafarþing — 102. fundur
 4. apríl 2005.
Þróunarsjóður sjávarútvegsins, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 387. mál (gildistími laganna). — Þskj. 1039, nál. 1009.

[17:00]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (frh.):

Hæstv. forseti. Ég vék að því í ræðu minni áðan að þróunarsjóðurinn hefði haft það verkefni á sínum tíma að úrelda fiskiskip og því væri það verðugt verkefni fyrir sjóðinn, sem reyndar var samþykkt á hv. Alþingi með samhljóða atkvæðum þingmanna fyrir u.þ.b. fimm árum, að hluti fjármuna hans færi í að varðveita brot af fiskiskipaflotanum sem til minja og varðveislu á atvinnusögu okkar mætti telja. Hef ég m.a. minnt á nokkur söfn og nokkur þeirra skipa sem varðveitt hafa verið hér á landi. Því til viðbótar er einnig rétt að nefna að sem betur fer eru enn nokkur af þessum eldri skipum í notkun og á floti. Sumum þeirra hafa verið fengin ný og verðug verkefni. Má þar t.d. nefna útgerð á Húsavík fyrir hvalaskoðun þar sem gerðir hafa verið upp eldri trébátar sem sérstaklega eru nýttir til að sýna ferðamönnum lífríki sjávar, hvali og annað sem lífríkið hefur upp á að bjóða. Hefur það gefist vel og verið mikil þátttaka í þeim ferðum og því sem boðið hefur verið upp á.

Það er auðvitað ekki aðeins á Húsavík sem slíkt hefur verið gert, það hefur einnig verið gert í Hafnarfirði og á fleiri stöðum í landinu að nýta gömul skip til slíkra verkefna og er það vel. Það er sjálfsagt að reyna að koma að því að styrkja slík verkefni í byrjun meðan verið er að koma þeim rekstri sem skipin geta nýst til á þann rekspöl að vel megi duga til framtíðar. Þannig mætti bæði finna eldri skipum ný verkefni og einnig varðveita söguna. Ég held að það sé mjög vel til fundið og sé eitt af þeim verkefnum sem við getum litið til þegar við tölum um að fjármuni vanti til þess að nýta eldri skip og sögulegar minjar í skipum sem ástæða væri til að varðveita.

Því miður er það svo, virðulegi forseti, að við urðum fyrir miklum skaða hvað varðar varðveislu sögunnar þegar bruni varð í Þjóðminjasafninu þar sem safnið missti stóran hluta af bátasafni sínu sem snýr að róðrabátum og smærri skipum sem safnið hafði talið sérstaka ástæðu til að varðveita. Er því enn meiri ástæða til að reyna að gera vel í því sem við getum verið sammála um að sé til að varðveita söguna og málinu til framdráttar að öllu leyti í framtíðinni sögulega og atvinnulega séð.

Þess vegna held ég að sú tillaga sem hv. Alþingi samþykkti á sínum tíma og 49 þingmenn greiddu samhljóða atkvæði eigi fullan rétt á sér. Ég tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra og aðrir stjórnarliðar væru menn að meiri ef þeir staðfestu þann vilja sinn sem fram kom í sölum Alþingis þegar þingsályktun um að þróunarsjóðurinn fengi m.a. hlutverk í þessu efni með fjármunum sem yrðu eftir við uppgjör hans var samþykkt, og samþykktu þá breytingartillögu sem flutt er af minni hlutanum í sjávarútvegsnefnd um að marka fjármuni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins þar sem menn geta sótt um til hafrannsókna.

Þó að meginhluti fjárins renni til Hafrannsóknastofnunar er samt eitthvað af fjármununum ætlað til annarra verkefna. Undir það tek ég og held að það sé eðlilegt og skynsamlegt sjónarmið að setja málið upp með þeim hætti og fagna því að það skuli þó vera niðurstaða um það hjá meiri hlutanum.

Hæstv. forseti. Ég ætla að enda ræðu mína á að lýsa því yfir að ég yrði mjög undrandi ef sú niðurstaða birtist í atkvæðagreiðslunni á hv. Alþingi að sömu þingmenn og greiddu tillögunni atkvæði fyrir fimm árum, þegar talað var um lægri fjárhæðir í þróunarsjóðnum en nú eru til staðar, legðust gegn þeirri breytingartillögu sem minni hlutinn flytur sem tryggir það fjármagn sem menn töldu að fara ætti til hafrannsókna og væri eign sjóðsins, þegar eign sjóðsins nú er meiri og auðvelt að verða við þeirri stefnumótun sem Alþingi samþykkti þá um varðveislu eldri skipa og sögu þeirra. Ég yrði afar undrandi ef þingmenn greiddu ekki slíkri tillögu atkvæði með hliðsjón af því að þeir studdu málið áður þegar fjárhagurinn var þrengri og málið jafnvel erfiðara viðfangs en nú er.

Ég held að hæstv. sjávarútvegsráðherra væri maður að meiri ef hann gengi fram fyrir skjöldu í þessu máli og féllist á að fara með málið með þeim hætti sem minni hlutinn leggur til í sérstakri breytingartillögu, og gengist fyrir því að málinu yrði lent með sátt og fullum sóma, af því að Alþingi væri þá að framkvæma samþykktir sínar og fylgja eftir stefnumótun sinni, að framkvæmdarvaldið féllist á það en beitti ekki í raun og veru ofríki með því að ganga yfir samþykktir Alþingis eins og núna stefnir í.



[17:07]
Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson fór yfir þetta mál og gerði það af mikilli þekkingu sem eðlilegt er því að hann hefur verið mjög tengdur því alveg frá upphafi. Við 2. umr. málsins hafði hv. þingmaður fjarvistarleyfi og því saknaði ég hans í þeirri umræðu en nota nú tækifærið hér til að spyrja hv. þingmann spurninga sem ég gat ekki fengið svör við í 2. umr.

Ég vil taka fram strax í upphafi, frú forseti, að mér er umhugað um virðingu Alþingis og mér er umhugað um að framkvæmdarvaldið geti ekki leyft sér að hunsa vilja Alþingis þegar hann liggur fyrir, án þess að Alþingi grípi í taumana og reyni a.m.k. að móast við.

Því langar mig að spyrja hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að hann ásamt fleirum hafi lagt fram frumvarp til laga um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins skyldi veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa og það hefði farið í gegnum 1. umr. á Alþingi og verið vísað til sjávarútvegsnefndar. Hvort það sé réttur skilningur hjá mér að sjávarútvegsnefnd hafi að eigin frumkvæði ákveðið að afgreiða frumvarpið ekki út úr nefndinni heldur breyta því í tillögu til þingsályktunar um nánast sama efni. Ég sé þegar ég kynni mér skjölin að það kom tillaga frá nefndinni, frá sjávarútvegsnefnd í heild sinni, þar sem nefndin flytur tillögu til þingsályktunar um að ríkisstjórninni sé falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skuli að varðveislu gamalla skipa og nefnir sérstaklega Þróunarsjóð sjávarútvegsins í því sambandi.

Ég hafði ekki tekið sæti á Alþingi þegar þetta var og langar því að spyrja hv. þingmann: Er það réttur skilningur hjá mér að svona hafi ferill þessa máls verið? Og gæti hv. þingmaður í stuttu andsvari farið aðeins yfir þær umræður og væntingar sem sjávarútvegsnefnd hafði til þessa máls þegar það var afgreitt hingað inn sem þingsályktunartillaga?



[17:09]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson fór nánast yfir það hvernig þetta mál bar að. Það er hárrétt að fyrst kom fram frumvarp sem við fluttum, þingmenn að mig minnir bara úr öllum flokkum, ég skal þó ekki fullyrða að það hafi náðst samstaða í öllum flokkum, um að sett yrðu lög um að ákveðið fjármagn úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins rynni til gamalla skipa. Umræða fór fram og málinu var vísað til sjávarútvegsnefndar. Niðurstaðan í sjávarútvegsnefnd varð sú að í stað þess að afgreiða frumvarpið samþykkti nefndin í heild sinni að frumkvæði þáverandi formanns, Kristins H. Gunnarssonar, að leggja fram þingsályktunartillögu sem nefndin flytti og þáverandi formaður sjávarútvegsnefndar mælti fyrir, um að fjárveitingar yrðu fengnar úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins til þess að varðveita gömul skip og styrkja m.a. byggðasöfnin út um landið og Þjóðminjasafnið til að viðhalda þeirri sögulegu hefð sem við eigum í skipum og skipasmíði og atvinnuháttum.

Tillagan var lögð fram í þinginu og var samþykkt þar sem þingsályktun frá sjávarútvegsnefnd og var meiri hlutinn sammála minni hlutanum. Þáverandi formaður sjávarútvegsnefndar, Kristinn H. Gunnarsson, mælti fyrir tillögunni og hún var samþykkt með 49 atkvæðum sem ályktun Alþingis um að hluti af fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins yrði beinlínis notaður í þetta verkefni. Þannig var ferill málsins og við vorum út af fyrir sig algerlega sáttir við að ljúka því þannig og töldum að málið væri í góðum farvegi og um það yrði leitað sátta og réttrar meðferðar af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar.



[17:12]
Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin sem voru kannski eins og ég átti von á vegna þess að ég reyndi að kynna mér, þegar ég gekk frá nefndarálitinu ásamt fleirum í minni hluta sjávarútvegsnefndar, hvernig þessi mál hefðu gengið fyrir sig.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það voru þingmenn úr öllum flokkum sem fluttu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og var hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson 1. flutningsmaður þess. Aðrir hv. þingmenn voru Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Steinar Jóhannsson og Hjálmar Árnason, þ.e. þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi fluttu þetta frumvarp til laga sem síðan var vísað til sjávarútvegsnefndar. Þar áttu sæti margir af flutningsmönnum þess á þeim tíma. Maður verður því eiginlega kjaftstopp og hissa þegar maður sér hvernig framkvæmdarvaldið leyfir sér síðan að fara með þingsályktun frá Alþingi, þingsályktun sem í raun er ekkert hægt að hártoga eða mistúlka því að hún er ákaflega skýr og segir nákvæmlega til um hvað ráðherrunum er falið að gera. En á fimm árum hefur þeim hæstv. ráðherrum ekki tekist að fara eftir tillögunni og nú er talað um að leggja niður þróunarsjóðinn án þess að það verði gert.

Mig langar að spyrja hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson í ljósi þess hvernig málið hefur þróast frá upphafi. Fyrst var það lagt fram sem frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, fór síðan til umfjöllunar í sjávarútvegsnefnd og kom þaðan út sem tillaga til þingsályktunar sem allir sjávarútvegsnefndarmenn voru sammála um og fékkst afgreitt á Alþingi með 49 greiddum atkvæðum. Enn hefur ekkert gerst og nú á að leggja niður þróunarsjóðinn án þess að gera nokkurn skapaðan hlut. Lítur ekki hv. þingmaður á þetta sem svik við það sem lofað var á sínum tíma? Er ekki í raun verið að teyma hv. þingmenn á asnaeyrunum í þessu máli?



[17:14]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er algjörlega réttur skilningur hjá hv. þingmanni að stefnumótunin var afar skýr og það var beinlínis tilgreint að fé skyldi renna til þessara verkefna úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins.

Til viðbótar því sem áður hefur komið fram í umræðunni er rétt að upplýsa að þrisvar að mig minnir hefur verið spurt um meðferð þessa máls. Í eitt skiptið svaraði hæstv. forsætisráðherra fyrir málið vegna þess að þá beindust spurningarnar til hans um hvernig fylgt væri eftir samþykktum þingsins almennt.

Þar kom fram að málið væri falið menntamálaráðherra og ætlast til að sjávarútvegsráðherra og menntamálaráðherra fyndu lausn á málinu sameiginlega. Þrátt fyrir það og þessa eftirgangsmuni og síðan umræður núna nýlega um Þróunarsjóðinn og fjárveitingu varðandi hann og fyrirspurnir, hefur niðurstaðan orðið sú að hæstv. sjávarútvegsráðherra leggst gegn málinu. Ekki er hægt að draga neina aðra niðurstöðu af því hvernig málið er en þá að hæstv. ráðherra leggist gegn því að í þetta sé merkt fé. Ég furða mig satt að segja á því hvað ráðherranum gengur til í þessu máli. Ég er helst farinn að hallast að því að hæstv. ráðherra líti svo á að af því hann átti ekki frumkvæði að málinu þá skuli það ekki ganga í gegn frekar en önnur góð mál sem stjórnarandstaðan á frumkvæði að. Þetta er sem sagt hið virka lýðræði undir stjórn forseta þingsins í hv. Alþingi. Þetta er hið virka lýðræði þar sem ekkert er gert með samþykktir Alþingis.



[17:16]
Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Við ræðum nú í 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 152 frá því í desember 1996, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Þó að komið sé í 3. umr. lít ég þannig á að talsvert sé órætt í þessu máli og vísa í því sambandi til ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar áðan um hvernig málið er til komið sem við erum að leggja áherslu á og hvernig sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin hunsar vilja Alþingis í málinu.

Mér þætti gott ef frú forseti gæti kannað fyrir mig hvort sjávarútvegsráðherra er í húsinu — og sé að hann birtist nú í salnum — því ég átti þess ekki kost að eiga orðastað við hæstv. ráðherra í 2. umr. því hann var þá með fjarvistarleyfi og ég var með fjarvistarleyfi í 1. umr. Ég vil því nota þetta tækifæri nú til að leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra og fagna því að hann skuli vera í salnum til að ræða þetta við okkur.

Eins og áður kemur fram er verið að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins með frumvarpi því sem hér um ræðir. Þegar verið er að leggja niður sjóði eins og þennan, alveg á sama hátt og ef menn leggja niður lögaðila eða fyrirtæki, hljóta menn að verða að skoða hvaða eignir eru í sjóðnum, hvaða skuldir þarf að gera upp á móti og hvort einhverjar kvaðir hvíli á sjóðnum sem uppfylla þarf áður en hægt er að leggja sjóðinn niður með lögum.

Maður veltir því fyrir sér hvort það hafi verið gert í þessu tilviki vegna þess að þingsályktunartillaga var samþykkt á Alþingi um að Þróunarsjóðurinn eigi að taka þátt í ákveðnu verkefni, að hæstv. ráðherra virðist ekki líta á það sem kvöð á Þróunarsjóðnum að gera það. Ákvörðun Alþingis um að sjóðurinn eigi að taka þátt í að vernda gömul skip og báta skiptir hæstv. ráðherra engu máli þegar ákveðið er að koma með frumvarp um að leggja niður þennan sama sjóð. Slík vinnubrögð mundu menn ekki leyfa sér við það að leggja niður fyrirtæki. Svona vinnubrögð mundu menn ekki leyfa sér við það að leggja niður félagsskap, sameignarfyrirtæki eða hvaða annan félagsskap sem um ræðir. Ég átta mig ekki alveg á hvernig á því stendur að inn í sali Alþingis getur komið frumvarp til laga um að leggja niður sjóð sem að mínu viti ákveðnar kvaðir hvíla á, kvaðir um að taka þátt í að vernda gömul skip og báta.

Búið er að fara yfir það áður í umræðunni að á 125. löggjafarþingi á árinu 1999–2000 samþykkti Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum tillögu til þingsályktunar sem þá var á þingskjali 1186 og flutt var af sjávarútvegsnefnd í heild sinni um varðveislu báta og skipa. Með þeirri þingsályktunartillögu var ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki m.a. þátt í.

Í þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Leggur nefndin áherslu á að málinu verði lokið af hálfu ríkisstjórnarinnar á þessu ári.“ — Þ.e. á árinu 2000.

Þetta er niðurstaðan í greinargerð sem fylgdi þingsályktunartillögu frá sjávarútvegsnefnd allri um að sjávarútvegsnefnd leggi áherslu á að þessu máli sem um ræðir verði lokið af hálfu ríkisstjórnarinnar strax á árinu 2000. Nú er komið árið 2005 og enn hefur ekkert gerst og enn á ekkert að gera til að uppfylla þá þingsályktunartillögu sem þarna var samþykkt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðandi Þróunarsjóðinn og það að leggja hann niður: Telur hæstv. ráðherra enga kvöð liggja á Þróunarsjóð sjávarútvegsins um að taka þátt í að vernda gömul skip og báta eftir að Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu akkúrat um það efni?

Ég tel mikilvægt að við fáum svar við þeirri spurningu, þannig að við fáum það bara kvitt og klárt hvort ráðherrann hæstv. telur sig ekkert þurfa að gera með þann vilja Alþingis sem þarna kemur fram í þingsályktunartillögu, eða hvort hann telji að ríkisstjórnin eigi með einhverjum öðrum hætti að uppfylla hana og þá á annan hátt en kemur fram í tillögunni, því tillagan segir algjörlega skýrt að Þróunarsjóður sjávarútvegsins eigi að koma að þessu verkefni.

Það verður að segjast alveg eins og er að mjög illa er staðið að verndun gamalla skipa og báta hjá okkur og á það við í raun um sjóminjar almennt, ekki bara skip og báta, heldur er ótrúlega illa staðið að því að vernda minjar um atvinnusögu í sjávarútvegi. Við horfum á söfn sem tengjast öðrum atvinnugreinum byggð upp á metnaðarfullan og framsækinn hátt en þegar kemur að því að vernda gömul skip og báta eða vernda atvinnusögu okkar í sjávarútvegi virðist ekki vera sami metnaður uppi þó að sem betur fer hafi ákveðnir einstaklingar og sveitarfélög reynt að taka frumkvæðið í því og af veikum mætti oft tekist að gera það alveg ótrúlega vel.

Að mínu viti er full ástæða til, frú forseti, að gera bragarbót þar á. Það sem yfirleitt vantar svo hægt sé að ráðast í svona verkefni eru fjármunir. Nú var búið að eyrnamerkja fjármuni úr ákveðnum sjóði til þess að ráðast í þetta verkefni og það eina sem virðist skorta til að það geti orðið að veruleika er vilji hjá hæstv. ríkisstjórn til að framkvæma vilja Alþingis. Það er alveg sama þó að Alþingi hafi lýst vilja sínum til að gera sérstakt átak í þessu máli, framkvæmdarvaldið þumbast við og virðist ætla að komast upp með að hunsa vilja Alþingis.

Ég trúi því ekki að meiri hluti þingmanna sé svo miklar lyddur að þeir þori ekki að standa við sannfæringu sína og áður yfirlýstar skoðanir í þessu máli. Það liggur algjörlega fyrir að það er meiri hluti hér á Alþingi fyrir því að taka hluta af fjármunum Þróunarsjóðs til þessa verkefnis.

Það er búið að fara vel yfir það fyrr í umræðunni hver ferill þessa máls er. Fyrst lagt fram lagafrumvarp sem fer eftir 1. umr. til sjávarútvegsnefndar. Það kemur úr sjávarútvegsnefnd sem þingsályktunartillaga sem nefndin öll í heild sinni flytur. Varaformaður nefndarinnar mælti fyrir málinu á Alþingi, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Það sést á þeirri umræðu að algjör sátt var um málið. Ekki urðu miklar umræður um það og ekki talin þörf á því að vísa þeirri þingsályktunartillögu aftur til sjávarútvegsnefndar vegna þess hve sáttin var mikil í málinu.

Lítið er gert með þá sátt hjá framkvæmdarvaldinu þó að hún komi fram með þessu móti á hinu háa Alþingi. Þegar greidd voru atkvæði greiddu 49 þingmenn atkvæði með málinu, einn sat hjá og 13 voru fjarstaddir. Af þeim sem greiddu atkvæði með málinu eru enn 34 þingmenn á þingi í dag. Einnig hafa komið inn nýir þingmenn, eins og sá sem hér stendur sem hefur fullan hug á því að standa við þessa þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti. Það er því mjög stór meiri hluti fyrir þessu máli á Alþingi, þ.e. ef þeir þingmenn sem greiddu því atkvæði sitt á sínum tíma eru trúir sinni fyrri skoðun um að Þróunarsjóðurinn eigi að taka þátt í að fjármagna varðveislu gamalla skipa og báta.

Við heyrðum hæstv. forsætisráðherra í umræðunni um sölu Símans tala um að stjórnarandstöðuþingmenn hlypu eftir kjaftasögum og fyrirsögnum í blaði. Það sem ég er að lýsa hér er engin kjaftasaga, frú forseti, og engin fyrirsögn í blaði. Hér er staðfestur vilji Alþingis á ferðinni en það virðist ekki einu sinni duga til.

Rýnum aðeins í þessa atkvæðagreiðslu á sínum tíma.

Átta núverandi hæstv. ráðherrar greiða tillögunni atkvæði sitt. Með leyfi forseta ætla ég að rúlla yfir hverjir það voru. Hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, sagði já. Hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, sagði já. Hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, sagði já. Hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jón Kristjánsson, sagði já. Hæstv. umhverfisráðherra, Sigríður A. Þórðardóttir, sagði já. Hæstv. samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, sagði já. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sagði já. Hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, sagði já. Sjávarútvegsráðherra var fjarstaddur þegar þetta átti sér stað. (Gripið fram í: Hann var með leyfi.) Það voru 13 þingmenn (Gripið fram í: Hann var með leyfi.) með fjarvistarleyfi væntanlega á þessum tíma og greiddu þar af leiðandi ekki atkvæði í þeirri atkvæðagreiðslu en, frú forseti, átta hæstv. ráðherrar sem nú sitja í ríkisstjórn greiddu atkvæði með því að Þróunarsjóður sjávarútvegsins ætti að taka þátt í að varðveita gömul skip og báta.

Hvað hefur breyst? Það sem hefur breyst er að nú vill hæstv. sjávarútvegsráðherra leggja niður Þróunarsjóðinn fyrr en ráð var fyrir gert og það hefur breyst að meiri peningar eru til í uppgjöri á Þróunarsjóðnum en áður var ráð fyrir gert. Aðstæður eru sem sagt betri til að uppfylla vilja Alþingis en áður var, átta núverandi hæstv. ráðherrar voru á þessari skoðun á sínum tíma. Það er ekkert sem hefur gerst í málinu sem ætti að hafa breytt þeirri skoðun. Ég lýsi bara eftir skoðun þessara hæstv. ráðherra, hvort hún hafi breyst eða hvort hún er enn sú sama og hún var. Takist ekki að fá þá hér í 3. umr. til að lýsa skoðun sinni verður væntanlega hægt að kalla eftir þeirri skoðun með nafnakalli í atkvæðagreiðslu um tillögu minni hlutans sem hér liggur fyrir.

Hæstv. menntamálaráðherra ber faglega ábyrgð á málinu, sagði hæstv. sjávarútvegsráðherra við atkvæðagreiðslu um málið í 2. umr. Þar sagði hæstv. sjávarútvegsráðherra, með leyfi forseta:

„Hv. þingmaður hefur borið á mig tvennar ásakanir í umræðu um atkvæðagreiðsluna. Annars vegar þá að ég hafi ekkert gert í því að sinna þingsályktunartillögunni. Það vill hins vegar þannig til að þingsályktunartillögunni var vísað til hæstv. menntamálaráðherra, ekki til sjávarútvegsráðherra. Það er því ekki á starfssviði sjávarútvegsráðherra að sinna málinu enda er varðveisla gamalla skipa ekki á verksviði sjávarútvegsráðuneytisins.

Í öðru lagi bar hv. þingmaður á mig þær sakir að hann hefði ekki getað rætt þessi mál við mig við umræðu í þinginu, en við 1. umr. var einmitt umræða um hvernig ætti að ráðstafa þessu.“

Það er gott að hafa hæstv. sjávarútvegsráðherra hér til að geta þá tekið þessa umræðu í 3. umr., en það væri einnig gott, frú forseti, að hafa hæstv. menntamálaráðherra hér ef hægt er að kalla hana til þings, því að samkvæmt því sem hæstv. sjávarútvegsráðherra segir er það á verksviði hæstv. menntamálaráðherra að sinna þessu máli. — Ber nú vel í veiði. Ég var að fá upplýsingar um að sitjandi starfandi hæstv. menntamálaráðherra er núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, þannig að væntanlega getur hann svarað fyrir báða þessa ráðherra á eftir.

Að öllu gamni slepptu segir í nefndaráliti minni hluta sjávarútvegsnefndar sem hér var lagt fram við 2. umr., með leyfi forseta:

„Á 125. löggjafarþingi, 1999–2000, samþykkti Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum tillögu til þingsályktunar sem flutt var af sjávarútvegsnefnd um varðveislu báta og skipa. Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki m.a. þátt í. Í ljósi þess hve Alþingi hefur með skýrum hætti látið í ljós vilja sinn til að ráðstafa a.m.k. hluta af fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins til þessara verkefna telur minni hlutinn einsýnt að Alþingi hrindi þeim vilja sínum í framkvæmd við afgreiðslu þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar. Er það í raun ámælisvert hvernig ríkisstjórnin hefur með aðgerðaleysi sínu frá því að framangreind þingsályktunartillaga var samþykkt kosið að virða vilja Alþingis að vettugi í þessu máli. Er framlagning þessa frumvarps nú enn fremur staðfesting á því að aldrei hefur staðið til af hálfu ríkisstjórnarinnar og sjávarútvegsráðherra að virða vilja Alþingis í málinu. Hvað sem því líður liggur nú beint við að Alþingi árétti og staðfesti vilja sinn með skýrum og skuldbindandi hætti. Gerir minni hlutinn það því að tillögu sinni að hluti eigna Þróunarsjóðsins renni til varðveislu gamalla báta og skipa.“

Full ástæða er til að ræða aðeins betur við hæstvirta ráðherra akkúrat um það sem fram kemur í þessu nefndaráliti. Það er full ástæða til að inna ráðherrana eftir því hvers vegna ríkisstjórnin fer ekki að vilja Alþingis og hvort þeir telji verjandi í ljósi þess að vilji Alþingis liggur eins skýrt fyrir og raun ber vitni að sniðganga hann með því að gera ekki ráð fyrir því við niðurlagningu Þróunarsjóðsins að hluti þeirra fjármuna sem í honum eru renni til varðveislu gamalla báta og skipa. Þetta er grundvallarspurning að mínu viti um hvort vegi þyngra, vilji Alþingis eins og hann kemur fram hér í atkvæðagreiðslum eða vilji einstakra hæstv. ráðherra eða framkvæmdarvaldsins ef þeir telja sig ekki þurfa að fara eftir því sem samþykkt er á Alþingi.

Rifjum aðeins betur upp þessa atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillöguna. Eins og áður hefur komið fram greiddu átta hæstv. ráðherrar þingsályktunartillögunni atkvæði sitt. Nokkuð stór hópur hv. stjórnarþingmanna sem sögðu já sitja enn á þingi. Þeir eru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Einar Kristinn Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson, Gunnar I. Birgisson, Halldór Blöndal, Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz og Kristinn H. Gunnarsson. Það þarf nú ekki marga hv. þingmenn með hryggbein til þess að tillaga minni hlutans verði samþykkt á Alþingi. Við þurfum ekki alla þessa þingmenn sem sögðu já. Við þurfum ekki alla þessa hæstv. ráðherra sem sögðu já. Við þurfum handfylli stjórnarþingmanna með bein í bakinu til þess að standa að virðingu Alþingis til þess að tryggja að sú tillaga sem hér var lögð fram um að Þróunarsjóðurinn taki þátt í þessu verkefni sem Alþingi hefur ályktað um verði að veruleika, handfylli af stjórnarþingmönnum með hryggbein. Eru þeir til? Ég veit það ekki.

Ég vil leyfa mér við þessa umræðu að lýsa eftir skoðun þeirra hv. þingmanna sem ég var að lesa hér upp. Hver er þeirra skoðun í dag? Hefur hún breyst? Ef hún hefur breyst, af hverju hefur hún þá breyst? Hvað hefur breyst í málinu? Ef hún hefur ekki breyst, ætla þeir þá að greiða atkvæði með tillögu minni hlutans þegar hún kemur til atkvæða hér á eftir eða á morgun, ef það verður svo?

Þessir hv. þingmenn skulda þessu verkefni, varðveislu gamalla báta og skipa, skýringu á því ef þeir hafa skipt um skoðun eða þá að þeir skulda þessu verkefni það að standa hér með bein í baki og greiða atkvæði á sama hátt og þeir gerðu fyrir fimm árum því ekkert hefur breyst í málinu nema að hæstv. ráðherrar þumbast við og vilja ekki fara að vilja Alþingis.

Meira að segja væri nóg, frú forseti, að þeir stjórnarþingmenn sem enn eru á þingi og sátu í sjávarútvegsnefnd á þeim tíma sem þetta var lagt fram, þ.e. eru flutningsmenn að þessari þingsályktunartillögu, mundu standa með þeirri tillögu sem þeir fluttu á Alþingi. Það þarf ekki meira. Bara þeir. Og hverjir eru þeir sem enn sitja á þingi, hv. stjórnarþingmenn sem lögðu fram þessa þingsályktunartillögu sem hér á að hunsa? (Gripið fram í.) Þeir eru hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, hv. þm. Hjálmar Árnason, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Það þarf nú ekki marga til viðbótar. Spurningin er hvort þeir ætla að heykjast á því að fylgja eftir máli sem þeir sjálfir voru flutningsmenn að. Það var hlegið hér að hv. þingmanni, man ég, fyrst eftir að ég byrjaði á þingi fyrir að hann greiddi atkvæði á móti máli sem hann hafði flutt sjálfur. Menn sögðu: „Þetta hefur aldrei gerst. Þetta er hlægilegt, hneisa.“ Muna hv. þingmenn eftir þessu? Hvað er að gerast hér? Nákvæmlega það sama. Ef þeir hv. þingmenn sem fluttu þessa þingsályktunartillögu ætla að greiða atkvæði með því á morgun eða seinni partinn í dag að þróunarsjóðurinn verði lagður niður án þess að fjármunir komi úr honum til að tryggja þessu verkefni fjármuni þá eru þeir að gera nákvæmlega það sama og ég var hér að lýsa. Þá eru þeir að greiða atkvæði gegn sinni eigin þingsályktunartillögu sem þeir voru meðflutningsmenn að.

Tillaga minni hluta sjávarútvegsnefndar liggur frammi í þessu máli. Við ákváðum að láta ekki greiða um hana atkvæði í 2. umr. Við drógum hana til baka til 3. umr. í þeirri von að einhverjir stjórnarþingmenn sýndu að þeir hefðu bein í baki til þess að standa hér óstuddir og greiða atkvæði. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Efnismálsliðir 1. gr. orðist svo: Lögin gilda til 1. október 2005. Skulu 400 millj. kr. af eignum sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma laganna renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna. Andvirði eigna sjóðsins sem eru umfram 400 millj. kr. skal renna í ríkissjóð og því ráðstafað til varðveislu gamalla báta og skipa.“

Tillagan gengur einfaldlega út á það að virða þessa þingsályktunartillögu eins og hún var samþykkt í sölum Alþingis fyrir fimm árum.

Frú forseti. Vonandi er meiri hluti fyrir þessari tillögu á hinu háa Alþingi. Ég tel að full ástæða sé til þess að hv. þingmenn sýni framkvæmdarvaldinu að vilji þingsins gengur fyrir þrjósku einstakra hæstv. ráðherra til að framkvæma það sem samþykkt er á Alþingi. Það er ekki oft sem við fáum jafnlýsandi dæmi um yfirgang framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi og þeim ákvörðunum sem hér eru teknar. Ef þessi tillaga verður ekki samþykkt þá er ekki oft sem við fáum jafnlýsandi dæmi um aumingjaskap hv. þingmanna gagnvart ráðherrum ríkisstjórnarinnar.



[17:37]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir mjög athyglisverða og upplýsandi ræðu. Ég er ekki viss um að það beri að kalla þetta aumingjaskap í umræddum þingmönnum. Ég er ekki sammála því. Ég vil miklu frekar tala um óheilindi eða óheiðarleika. Við höfum einmitt orðið vör við það að þessir sömu þingmenn hafa gengið á bak orða sinna í sóknardagamálinu. Þetta eru sömu mennirnir. Ég vil byrja á að minnast á Einar Odd Kristjánsson. Hann gekk á bak orða sinna. Á fundi fyrir vestan lofaði hann að halda í sóknardagakerfið. Það er eins og þessir ágætu þingmenn, Einar K. Guðfinnsson, Kristinn H. Gunnarsson og ekki má gleyma hv. þm. Hjálmari Árnasyni, telji að orð sem þeir segja í umræðu um sjávarútvegsmál skipti bara engu máli og það þurfi ekkert að halda þau. Það er því ekki endilega um aumingjaskap að ræða. Ég er ósammála hv. þm. Jóni Gunnarssyni hvað það varðar. Ég vil miklu frekar telja þetta vera alger óheilindi og í rauninni svik við kjósendur.

Ég hef orðið var við að sumir þessara þingmanna hafa ekki séð sóma sinn í því að biðjast afsökunar og hafa jafnvel skrifað, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason, ómerkilega grein á netmiðil þar sem hann segir að hann styðji sóknardagakerfið eða vilji setja botn í það og að búið sé að samþykkja tillögu um að gera úttekt á kostum og göllum færeyska kerfisins, sóknardagakerfisins, sem við í Frjálslynda flokknum styðjum. Þess vegna finnst mér í raun að ekki eigi að kalla þá aumingja eða tala um aumingjaskap heldur miklu frekar að um óheilindi sé að ræða.



[17:39]
Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kallaði það í ræðu minni aumingjaskap ef hv. þingmenn treysta sér ekki til að standa á skoðun sinni verði þeir fyrir einhverjum þrýstingi frá hæstv. ráðherrum um að sú skoðun sem þeir hafa haft eða kannski héldu að þeir hefðu haldi ekki, þ.e. ef einhver hæstv. ráðherra andar á þá og segir þeim að þeir eigi ekki að hafa þessa skoðun. Þetta kallaði ég aumingjaskap. Ég vil nú ekki taka undir orð hv. þingmanns um að kannski sé rétt að kalla þetta óheiðarleika. Við getum svo sem verið eitthvað ósammála um túlkun orða í íslensku máli. En ég er alveg sannfærður um það og stend á því hvar sem ég kem og hvar sem ég er að verði tillaga minni hlutans um þingsályktunartillögu sem hér var samþykkt um að Þróunarsjóðurinn tæki þátt í að varðveita gamla báta og skip algjörlega hunsuð, eins og lítur nú út fyrir samkvæmt þeim umræðum sem fram hafa farið á þingi, þá kalla ég það aumingjaskap, í fyrsta lagi þeirra hv. þingmanna sem fluttu þingsályktunartillöguna, í öðru lagi hv. þingmanna sem greiddu þingsályktunartillögunni sitt atkvæði á sínum tíma og í þriðja lagi hæstvirtra ráðherra sem greiddu sömu tillögu sitt atkvæði á þeim tíma vegna þess að enginn þessara hv. þingmanna og hæstv. ráðherra hafa séð ástæðu til þess að koma og upplýsa þingheim um hvað hafi breyst, þ.e. ef eitthvað hefur breyst. Það væri þó heiðarlegt af þeirra hálfu að koma í ræðustól og segja: Ég get ekki staðið við þá skoðun sem ég hafði fyrir fimm árum. Ástæðan fyrir því er þessi eða hin. En það eru engar slíkar skýringar. Um leið og þetta mál er tekið fyrir í sölum Alþingis þá eru allir þessir þingmenn á braut horfnir. Enginn hv. þingmaður sem greiddi þessari þingsályktunartillögu atkvæði sitt er hér í salnum til að taka þátt í þessari umræðu — enginn hv. stjórnarþingmaður, vildi ég sagt hafa, sem greiddi þessari þingsályktunartillögu atkvæði sitt — telur að hann skuldi Alþingi skýringu á því hafi hann skipt um skoðun. Nei, frú forseti. Þeir láta ekki sjá sig við þessa umræðu.



[17:42]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni um að það er náttúrlega óþolandi að menn komi ekki hér og útskýri þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um hvort um sé að ræða annars vegar aumingjaskap, sem ég er ósammála, eða óheilindi, sem ég tel miklu líklegra. Þessir ágætu hv. þingmenn hafa orðið uppvísir að þvílíkum vinnubrögðum áður. Mér finnst að þeir ættu sóma síns vegna og einnig fyrir umræðuna í samfélaginu að koma hér og útskýra hvað þeir vilja. Eru sjávarútvegsmál það léttvæg að þegar þau eru rædd megi bara einfaldlega ætíð ganga á bak orða sinna og lofa einhverju fögru rétt fyrir kosningar eins og hv. þm. Hjálmar Árnason hefur orðið uppvís að? Ef við tölum um óheilindi þá tel ég að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi nú toppað allt hvað varðar óheilindi þegar hann, frú forseti, sveik öryrkja í sjálfu Þjóðmenningarhúsinu. Er þetta í rauninni það sem Framsóknarflokkurinn telur við hæfi? Við í Frjálslynda flokknum og í stjórnarandstöðunni fordæmum þessi vinnubrögð, að menn geti gengið hér á bak orða sinna hvað eftir annað og síðan þegar þeir eru spurðir á hinu háa Alþingi um afstöðu sína og hvað hafi breyst þá flýja þeir salinn. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum, frú forseti.



[17:43]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Út af fyrir sig stendur ekki deila um að það verði gert. Hins vegar hefur aðalumræðuefnið verið ályktun Alþingis fyrir fimm árum, um að nýta beri hluta af fjármunum þróunarsjóðs til varðveislu gamalla skipa og báta. Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að menn bentu á þá fjármögnun? Jú, ástæðan er sú að sá sami sjóður var árum saman markvisst notaður í þeim tilgangi að láta fleygja á hauga og brenna, saga niður og höggva í spón, síðustu trébátana á Íslandi. Það var ekki fyrr en eftir umræður á Alþingi, harðar umræður um þessar aðferðir, að menn sáu loks að sér. Þá hættu menn að skylda útgerðarmenn, sem vildu af einhverjum ástæðum nálgast þá fjármuni sem hægt var að fá úr Þróunarsjóði, til að taka þessi skip úr notkun. Þá var tekið af ákvæði um að menn væru skyldugir til að eyða þessum skipum og mætti ekki einu sinni hafa þau til skemmtunar, hvað þá meira.

Býsna margir bátar voru eyðilagðir á þessum tíma. Þar fóru mikil verðmæti í súginn. Ég minni á að þetta gerðist á umbreytingatímum í skipasmíði og framleiðslu skipa á Íslandi. Við höfðum gert út trébáta á Íslandsmið. Vertíðarbátar okkar voru trébátar fram eftir allri síðustu öld. Stálskipin hófu innreið sína eitthvað að ráði um miðja öldina, auðvitað fyrst með togurunum og síðan var stærri og stærri hluti skipanna smíðaður úr stáli eftir því sem leið á öldina. En áfram var haldið að framleiða tréskip til að gera út fram á 8. áratuginn, a.m.k. að einhverju marki. En það liðu ekki mörg ár milli þess að menn hættu að framleiða þessa báta þar til þeir hófust handa, líkt og ég nefndi áðan, að ganga í að höggva þessi skip í spað. Kvað svo rammt að þessu á tímabili að tiltölulega nýlegum bátum, algerlega óskemmdum var eytt með þessum hætti. Að vísu voru dæmi um að skipum væri komið úr landi. Eitthvað tókst að selja lítils háttar af bátum hingað og þangað í löndin í kringum okkur en þeir voru örfáir.

Eins og ég sagði áðan urðu mörg slys, einmitt á þeim skipum sem hefðu átt að varðveita minninguna um verkþekkingu þessara tíma, eintök sem kostaði í sjálfu sér afar lítið að halda við inn í framtíðina vegna þess að þau voru í svo góðu ásigkomulagi. Þetta var hlutverk þróunarsjóðs, sjóðsins sem hér um ræðir. Því var ekki að ástæðulausu að menn ákváðu að benda á fjármögnun úr þessum sjóði. Það var einmitt vegna fyrra hlutverks sjóðsins að bent var á þessa leið til að skila að einhverju leyti til baka því sem þessi sjóður hafði unnið í tjónum hvað varðaði varðveislu skipa og báta á Íslandi. Það er eiginlega ótrúlegt að þeir sem vildu gera þessa hluti voru forsvarsmenn útgerðar á Íslandi. Þeir stjórnuðu þessari ferð og í sölum Alþingis var alltaf eins og mikill vilji til að fara að eins og þeir ágætu forsvarsmenn útgerðar á Íslandi höfðu viljað. Því miður var það gert allt of lengi. En eftir að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson ásamt fleirum flutti frumvarp til laga um þetta mál, sem fór í sjávarútvegsnefndina, varð niðurstaðan í sjávarútvegsnefndinni sú að flytja þingsályktunartillögu sem búið er að lýsa mjög skýrt og vel hvernig átti að virka. Skýr vilji Alþingis kom fram um að hluti af þeim fjármunum sem yrðu til þegar þróunarsjóður yrði lagður niður, skyldi nýtast til að varðveita gömul skip og báta. Að mínu viti var það jafnframt friðþæging fyrir það hvernig opinberir fjármunir höfðu fram að því verið notaðir að þessu leyti.

Hvað gerist svo? Þetta mál fer auðvitað til ríkisstjórnarinnar og þar ákváðu menn að menntamálaráðherrann skyldi sjá um þetta málefni. Gott og vel. Allt í lagi með það. En nú birtist sjávarútvegsráðherra með frumvarp um að leggja niður þróunarsjóð og í því er ekki nokkur skapaður hlutur um það sem Alþingi ályktaði um á sínum tíma. Hann yppir bara öxlum og segir: Málið kemur mér ekki við, þetta er á verksviði menntamálaráðherra. Mér kemur málið ekkert við.

Þetta er ekki boðlegt og er fyrst og fremst óvirðing við Alþingi og ákvarðanir Alþingis. Ef ríkisstjórnin taldi best og skynsamlegast að fjármagna varðveislu gamalla skipa og báta öðruvísi en Alþingi samþykkti að gert yrði með þingsályktun þá átti ríkisstjórnin að leggja til, um leið og helst áður en niðurstaða fengist um að þeir vildu ekki nota til þess fjármuni úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins, hvernig ætti að standa að fjármögnuninni í staðinn þannig að Alþingi stæði þá frammi fyrir því að ríkisstjórnin hefði nýja tillögu í málinu. Sú tillaga liggur ekki fyrir og Alþingi hefur því enga möguleika á að meta það hvort hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hvernig skuli standa að þessum málum séu fullnægjandi, miðað við það sem menn höfðu ætlað sér með tillögunni. Ég verð að segja að mér finnst löngu nóg komið af því að ríkisstjórnin niðurlægi Alþingi með þessum hætti. Mér finnst það komið langt út fyrir eðlileg mörk að almennir þingmenn skuli láta bjóða sér slíkt þegar fyrir liggja þingsályktanir um hvað Alþingi vill, að ríkisstjórnin skuli voga sér að koma með niðurstöðu eins og þessa inn án þess að fram komi hvað eigi að koma í staðinn og Alþingi geti metið það sé sambærilegt við það sem menn ætluðu áður.

Það er dapurlegra en tárum taki hvernig komið er fram við Alþingi þegar ríkisstjórnin á í hlut. Við höfum svo séð ýmis dæmi um að mönnum finnist í lagi að láta meiri hlutann sem fylgir ríkisstjórninni ganga nauðugan til atkvæðagreiðslna. Ég trúi því ekki að nokkur maður komi viljugur í sali Alþingis til að rétta upp hönd með þessu frumvarpi, sömu menn og samþykktu þingsályktunartillöguna áður. Ekki trúi ég því að menn séu viljugir að skipta um skoðun á máli eins og þessu án þess að nokkuð liggi fyrir um hvernig eigi að standa að málinu að öðru leyti. Þetta eru auðvitað ekki vinnubrögð sem er hægt að sætta sig við. Hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að brjóta odd af oflæti sínu, sem ég vil kalla það því að mér finnst það frumhlaup hjá honum að koma með mál inn í Alþingi ofan í þessa þingsályktunartillögu. Hann ætti að brjóta odd af oflæti sínu og fallast á þá tillögu sem hér liggur fyrir, sem er málamiðlunartillaga. Í frumvarpinu sem hæstv. ráðherra lagði fram var gert ráð fyrir að hægt yrði að ná 300–400 millj. kr. inn í sjóðinn hjá sjávarútvegsráðuneytinu. Við leggjum hreinlega til að hærri talan sé notuð, þ.e. 400 millj. kr., og það sem eftir verði, sem að vísu eru líkur á að verði umtalsverðir fjármunir, fari í ríkissjóð og verði ráðstafað með þeim hætti sem Alþingi hefur ályktað. Þetta er málamiðlunartillaga.

Mér fyndist hæstv. ráðherra fullsæmdur af því að ganga til móts við tillögu þessa vegna þess að hann er í verulega vondum málum að mér finnst. Það að ætlast til þess að samherjar hæstv. ráðherra á þingi, sem höfðu áður samþykkt þessa þingsályktunartillögu sem hér er margumrædd, mæti í þingsal til að greiða atkvæði með þeirri niðurstöðu sem kom úr nefndinni finnst mér óbilgirni af hinu versta tagi. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að hugsa sig vandlega um undir þessari umræðu og koma til móts við þá sáttatillögu sem hér liggur fyrir. Hann væri maður að meiri ef hann gerði það.

Það er vont að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki vera hér. Mér fyndist undarlegt ef hæstv. menntamálaráðherra hefði ekki barist fyrir því, úr því að hún fékk það verkefni í sinn hlut að fást við þessa þingsályktunartillögu, þeim verkefnum sem henni fylgja, varðveislu báta og skipa, og um leið þeim vilja Alþingis að a.m.k. hluti af fjármunum þróunarsjóðs yrðu notaðir í því skyni. Hæstv. menntamálaráðherra ætti að grein fyrir því hvað hún hefur gert til að sjá til þess að ná þeim fjármunum í verkefnið. Því verður vart trúað að hæstv. menntamálaráðherra hafi ekki reynt að nálgast þá fjármuni sem hún hefur bent á að nota skuli í þessu skyni. Hvers konar gæsla væri það ef hæstv. menntamálaráðherra hefði ekki gert þetta? En það vill þannig til að nú býr í sama manninum forsvarið í sölum Alþingis fyrir bæði menntamálaráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Ég veit svo sem ekki hvað hæstv. sjávarútvegsráðherra er fær um að segja þar sem ég geri fastlega ráð fyrir því að hæstv. menntamálaráðherra hafi sóst eftir þessum fjármunum. Hafi niðurstaðan orðið eins og hér liggur fyrir, að hæstv. menntamálaráðherra hafi ekki borið neitt úr býtum, þá er hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki rétti maðurinn til að segja frá þeim viðskiptum. En hafi hæstv. menntamálaráðherra ekkert gert til að nálgast þá fjármuni sem Alþingi lagði til að yrðu notaðir í þessu skyni þá hefur hún hreinlega brugðist skyldum sínum.

Ég held að menn verði að koma því á hreint hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig. Alþingi getur ekki sætt sig við vinnubrögð eins og þessi, að það sé ekki tekið mark á ályktunum þess, að hæstv. ráðherra geti fimm árum síðar lagt fram lagafrumvarp þar sem ekki er nokkurn skapaðan hlut tekið mark á því sem Alþingi samþykkti.

Ég ætla ekki að hafa ræðu mína mikið lengri, hæstv. forseti. En mér finnst þessi umræða snúast um tvennt. Hún snýst um varðveislu gamalla skipa og það að fá fram árangur í því máli í samræmi við þingsályktunartillögu Alþingis. Það er löngu kominn tími til að menn standi myndarlegar að þeim málum en gert hefur verið. En umræðan snýst að mínu viti ekki síður um virðingu Alþingis, um að menn hunsi ekki tillögur sem hér eru samþykktar. Hæstvirt ríkisstjórn ætti að gæta virðingar Alþingis alla daga og ætti ekki að ganga gegn virðingu Alþingis eins og gert er með þessu frumvarpi hæstv. ráðherra, vinnubrögðum við það frumvarp og þeirri niðurstöðu sem nú virðist komin í málið.



[17:59]Útbýting:

[18:00]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti og hv. Jórsalafari. Málið sem hér er til umræðu er um að leggja skuli Þróunarsjóð sjávarútvegsins niður og það fjármagn sem í sjóðnum er skuli renna í ákveðinn sjóð og til ákveðinna verkefna.

Forsaga sjóðsins hefur verið rakin ítarlega og verkefni hans í gegnum tíðina. Sjóðnum hefur m.a. verið beitt til að úrelda skip, úrelda fiskvinnsluhús og hefur að flestra dómi verið beitt ótæpilega. Stundum hefur sú hagræðing sem ætlunin var að ná í gegnum þá úreldingu snúist í andhverfu sína, enda getur sú stefna að úrelda atvinnutækifæri fólks, úrelda vinnustaði fólks, leggja þá niður án þess að byggðarlagið fái einu sinni aftur það fjármagn sem verið er að verja í slíka úreldingu ekki verið happasæl stefna. Ég held að forsaga sjóðsins og allur ferillinn eigi sér ákveðna sorgarsögu gagnvart mörgum atvinnustöðum, mörgum fiskiþorpum meðfram ströndum landsins þar sem honum hafi verið beitt með ótæpilegum hætti og menn vildu að hefði ekki verið gert.

Þess vegna er kannski ekki til of mikils mælst að hluti af fjármagni sjóðsins sem hér um ræðir verði varið til að varðveita báta og önnur tæki sem tilheyrðu veiðum þeirra báta sem sjóðnum var beitt til að úrelda á sínum tíma, sem er stór hluti af atvinnulífi þjóðarinnar og menningarsögu. Ekki síst vegna þess að Alþingi hefur ályktað afdráttarlaust í þá veru, eins og hér hefur verið rakið ítarlega, bæði með þingsályktunartillögu sem lögð var fram á 125. löggjafarþingi 1999–2000 á þskj. 1186. Þar var samþykkt tillaga til þingsályktunar um varðveislu báta og skipa. Í texta þeirra tillögu stendur m.a., með leyfi forseta:

„Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.“

Þingsályktunartillagan var samþykkt af öllum viðstöddum þingmönnum við atkvæðagreiðslu sem afdráttarlaus vilji frá Alþingi. Svo nú, þegar við stöndum frammi fyrir að þetta geti gerst er eins og allir sem stóðu að þeim meiri hluta og eru áfram í meiri hluta á Alþingi hlaupi frá þeim ákvörðunum sínum, hlaupi frá þeirri viljayfirlýsingu Alþingis, geri ekki neitt með hana heldur setji undir sig hausinn og keyri áfram þá tillögu að þegar sjóðurinn verði lagður niður renni fjármagnið í Verkefnasjóð sjávarútvegsins — sem hefur ekki skilgreint og hefur ekki heimild til að leggja fram fé til verkefna eins og verndun á þessum skipum.

Þess vegna tel ég vinnubrögðin af hálfu Alþingis, eins og nú virðist stefna í af hálfu meiri hlutans, gagnvart þessum málum tveimur, þingsályktunartillögunni frá 1999 og málinu hér um að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins, vera þinginu til skammar. Hæstv. ráðherra hefur alls ekki svarað því með hvaða hætti hann ætlar að verða við þeirri einróma samþykkt Alþingis frá 1999 um að þróunarsjóðurinn komi að því að varðveita báta og skip sem honum var einmitt beitt til að úrelda á sínum tíma og er mikilvægur þáttur í atvinnusögu þjóðarinnar. Það er vitað mál að það er ekki gert að gagni nema til komi einhver slík heildstæð fjárveiting til að hægt sé að gera það átak sem þarf, sem svo er hægt að fylgja eftir með minna fjármagni seinna meir.

Hinn þáttur málsins er sá að ég er þeirrar skoðunar, og styðst þar við túlkun á fjárreiðulögum, að almennt eigi ekki að setja fjármagn með þessum hætti í einhverja afmarkaða sjóði á vegum ráðherra eða ráðuneytis. Hin almenna regla á að vera sú og er sú að við sölu eigna ríkisins eða við að leggja niður sjóði á vegum ríkisins, sem af einhverjum ástæðum var stofnað til, að fjármagn þeirra eigi að renna í ríkissjóð. Síðan er það Alþingis að taka ákvörðun um hvernig ráðstafa eigi fjármagninu á hverjum tíma eins og öðru fjármagni sem ríkissjóður fær. Það að ætla að fara að binda hér með þessum hætti að fjármagn úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins renni í einhvern annan sjóð á vegum ráðuneytisins, sjóð sem ekki hefur neina skipulagsskrá en veltir þó hundruðum milljónum króna eða milljarði algjörlega á ábyrgð ráðherra og einhverra sérvalinna er fráleitt. Sá sjóður hefur ekki neina formlega skipulagsskrá og ekki er kosið í hann sérstaklega stjórn eftir því sem ég veit best. Síðan á að fara að eyrnamerkja fjármagn úr sjóðum sem þessum til A-hluta stofnana eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu upphaflega og er reyndar enn þá bundið í þeirri einu samþykkt sem lýtur að Verkefnasjóði sjávarútvegsins, að hann skuli fyrst og fremst leggja fjármagn til Hafrannsóknastofnunar. Það er alveg fráleitt að vera að binda með þessum hætti og eyrnamerkja fjármagn til einstakra stofnana, A-hluta stofnana á vegum ríkisins, sem eiga að fá fjármagn sitt á fjárlögum.

Það er því með tvennum hætti verið að fara á svig við lög, annars vegar lög um fjárreiður ríkisins, þar sem verið er að setja fjármagn í annan sjóð, fjármagn sem á að renna beint í ríkissjóð og ríkissjóður á að ráðstafa því til hafrannsókna eða annarra verkefna eftir því sem Alþingi ákveður. Það ætti að vera hægt að treysta Alþingi til að verja þessu fé á sem ábatasamastan hátt fyrir samfélagið, eða er Alþingi ekki treyst?

Hinn þátturinn er sá: Við höfum þingsályktunartillögu um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins skuli koma að varðveislu báta og skipa. Nú er verið að leggja hann niður, síðustu forvöð, ágætisforvöð úr því að þetta er í þessum farvegi, að taka 100–200 millj. kr. sem mætti vera til að styðja og gera myndarlegt átak í að varðveita þessi skip.

Frú forseti. Ég vildi láta þessa skoðun mína koma fram og tel að hæstv. ráðherra væri maður að meiri að koma og tilkynna að hann vildi leggja til að afgreiðslu málsins við 3. umr. yrði frestað og ráðherra fengi tækifæri til að taka málið aftur inn og skoða það með nefndinni — því eins og við vitum virðast ráðherrarnir ráða öllu á þinginu — og koma með málið aftur í viðunandi búning þannig að það geti orðið Alþingi til sóma en ekki meiri hlutanum og ríkisstjórnarvaldinu til skammar eins og við horfir ef þetta fer fram óbreytt.



[18:10]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki stillt mig um að koma aðeins upp og kveðja mér hljóðs um þetta mál eftir að hafa hlýtt á ágætar ræður sem þingmenn fluttu nú síðdegis þar sem m.a. hefur verið farið yfir eldri frumvörp og þingsályktunartillögur sem lagðar voru fram fyrir Alþingi fyrir nokkrum árum, því ég skoðaði nefnilega þessa sögu nokkuð grannt fyrir tæpu ári þegar fjallað var um sama frumvarp, þ.e. um að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Mig langar að nota tækifærið nú og fara aðeins yfir þetta þannig að það sé kannski svolítið á hreinu hvað hefur verið að gerast.

Það er rétt sem fram hefur komið að á 125. löggjafarþingi 1999–2000 var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92 frá 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Flutningsmenn frumvarpsins voru hv. þingmenn Guðjón A. Kristjánsson, Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Steinar Jóhannsson og Hjálmar Árnason. Tökum eftir því að hér voru á ferðinni margir stjórnarþingmenn.

Þetta var mjög einfalt og stutt frumvarp og 1. gr. þess hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þróunarsjóður sjávarútvegsins skal veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa. Fjárhæð styrks skal nema 50.000 kr. á hverja rúmlest skips sem tekið er til varðveislu eftir 1. janúar 1990.“

Fram kom í greinargerð með frumvarpinu að það skorti mjög fjármagn til varðveislu gamalla fiskiskipa sem menn vildu gjarnan eiga og vernda til framtíðar einmitt til að varðveita merka sögu í sjávarútvegi okkar. Skip sem tilheyrðu kannski tímabili þegar þjóðin var að komast til bjargálna, skip sem kannski réðu úrslitum um að byggðir lifðu af eða lognuðust út af, skip sem veittu mörgum fjölskyldum tækifæri til að koma undir sig fótunum. Einnig skorti fjármagn til að varðveita ýmiss konar búnað, margar minjar sem enn eru til og voru til víða um land, jafnvel húsakost, en það voru einmitt peningar úr þróunarsjóði sem voru notaðir til að bæði úrelda skip en líka einmitt hús sem höfðu verið notuð í tengslum við sjávarútveg.

Það er að sjálfsögðu alveg ljóst að við Íslendingar höfum alls ekki verið nógu dugleg að varðveita þessar minjar. Þó að víða megi finna gamla muni úr sjávarútvegi á byggðasöfnum hingað og þangað hefði að sjálfsögðu mátt gera miklu, miklu betur. Ég óttast mjög og reyndar veit það, eins og margir hafa rakið fyrr í dag, að margar merkar minjar hafa því miður endað á öskuhaugum og bálköstum síðustu árin.

Frumvarpið sem lagt var fram á 125. löggjafarþingi dagaði uppi. En nokkrum mánuðum síðar kom fram, eins og bent var á áðan, þingsályktunartillaga sem fór fyrir þingið á vordögum árið 2000, fyrir fimm árum. Þar var á ferðinni allt of sjaldgæft fyrirbæri sem fólst í því að sameinuð sjávarútvegsnefnd stóð að þeirri þingsályktunartillögu sem þá var, hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson, Jóhann Ársælsson, Árni R. Árnason, Kristinn H. Gunnarsson, Svanfríður Jónasdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón A. Kristjánsson, Vilhjálmur Egilsson og Hjálmar Árnason.

Sú þingsályktunartillaga, um varðveislu báta og skipa frá sjávarútvegsnefnd, var náttúrlega merkileg og hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu og byggðasögu. Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.“

Þetta var samþykkt á hinu háa Alþingi 9. maí árið 2000, fyrir rétt tæpum fimm árum. Þingsályktunartillagan fór í gegnum þingið án átaka, varð að þingsályktun og þar með tilmæli til ríkisstjórnarinnar um að undirbúa tillögur um hvernig ætti að standa að varðveislu gamalla skipa og báta, sem eru einmitt mikilvægar minjar um atvinnu- og byggðarsögu. Einnig átti að móta reglur um þessa hluti. En síðan hefur ekkert gerst. Það var ekkert gert við þessa þingsályktunartillögu og á meðan hefur dýrmætur tími liðið og minjar farið í súginn.

Ég hygg að síðar meir, þegar sagnfræðingar framtíðar horfa um öxl og skoða þessa sögu þá verði þetta dæmi þeim mönnum til hneisu sem bera ábyrgð á því að ekkert var gert í þessum málum. Það er ljóst að þær minjar sem hafa eyðilagst á þessu tímabili, minjar sem kannski hefði verið hægt að bjarga ella, hefðu menn hafist handa fyrir fimm árum, eru annaðhvort ónýtar eða stórskemmdar og verða ekki endurheimtar. Þær minjar sem eru ónýtar verða ekki endurheimtar og til þeirra minja sem skemmst hafa á þessum fimm árum þarf núna að verja meiri fjármunum til að koma þeim aftur í sæmilegt horf. Tímans tönn er miskunnarlaus. Þarna tel ég að orðið hafi mikil mistök.

Þetta er að sjálfsögðu bæði stjórnvöldum, ríkisstjórninni, til skammar en þetta er líka mikill álitshnekkir fyrir Alþingi, að löggjafinn hafi verið hunsaður með þessum hætti af framkvæmdarvaldinu og framkvæmdarvaldið skuli komast upp þetta. Það er að sjálfsögðu alvarlegt mál og ætti í raun að kalla á ítarlegri umræðu bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu, hvernig framkvæmdarvaldið, þegar því hentar, hreinlega hunsar þingsályktanir sem afgreiddar hafa verið frá hinu háa Alþingi, oft og tíðum með mikilli fyrirhöfn og kostnaði, fundahöldum í þessum sal og í nefndum. Menn hafa sent inn umsagnir um þessa ályktun og menn hafa komið á fund þingnefnda. Þessu fylgir mikil skriffinnska og svona má lengi telja, en svo er ekkert gert með hlutina.

Ég get nefnt annað dæmi, fyrst hæstv. sjávarútvegsráðherra er í salnum. Hann var einu sinni ungur og efnilegur þingmaður og tók þátt í að leggja fram þingsályktunartillögu árið 1998. Hún fór líka í sömu skúffu hjá ríkisstjórninni sem virðist vera merkt „þingsályktunartillögur sem við ætlum alls ekki að framkvæma“. Þetta var ályktun Alþingis sem fól ríkisstjórninni að skipa nefnd hæfra manna sem átti að gera tillögur um leiðir til að endurreisa urriðastofna Þingvallavatns. Þar voru engir aukvisar á ferðinni. Þar voru hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hv. þm. Árni M. Mathiesen og hv. þm. Guðni Ágústsson. Síðan þetta var hafa tveir flutningsmanna tekið sæti í ríkisstjórn Íslands. En var eitthvað gert með þingsályktunina? Nei, ekki neitt, ekki nokkur skapaður hlutur. Hún fór í skúffuna og hefur legið þar síðan. Um daginn bar ég fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra, sem ber ábyrgð á þessu því að ríkisstjórnin átti að sjá um þetta. Ég var með fyrirspurn til hans og hann svaraði, að ég taldi, með hreinum skætingi og reyndi að snúa þessu út í að ég væri hrifinn af því að skipa nefndir um allt milli himins og jarðar, að þetta væri fremur til vitnis um hvað ég væri mikill nefndasinni, að ég æddi upp á dekk og spyrði ósvífinna spurninga um þingsályktun sem mér kæmi ekkert við. En þó að þetta virðist smámál og menn brosi jafnvel að þessu í dag og þyki þetta í annan þráðinn hálffyndið þá er þetta mjög alvarlegt. Þetta er ekkert til að hlæja að. Varðandi Þingvallaurriðann þá er t.d. ljóst að ef menn hefðu tekið sig saman og gert eitthvað úr þeirri þingsályktun árið 1998 þá væri búið að nota tímann sem farið hefði til spillis til að vinna að raunhæfum tillögum um hvernig megi endurreisa þennan tiltekna urriðastofn. Í honum eru falin mikil verðmæti og ég er fullviss um að hæstv. sjávarútvegsráðherra er mér sammála um það.

Fyrst ég er farinn að tala um þetta mál vil ég líka geta þess að ég hef lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um þennan sama fiskstofn, sem gengur út á að stíflan við Steingrímsstöð verði hreinlega rifin og þessi stofn endurreistur. Ég vona að það fari ekki fyrir þeirri þingsályktunartillögu eins og þeim tveimur þingsályktunum sem ég hef fjallað um, virðulegi forseti. Ég vona að sú þingsályktunartillaga fái a.m.k. meðferð í þinginu og ef hún verði afgreidd verði Alþingi falið, í krafti meirihlutaeignar ríkisins í Landsvirkjun, að sjá til að Landsvirkjun fari í að vinna þetta verk, að fjarlægja þessa stíflu.

Virðulegi forseti. Ég sé í raun ekki mikla ástæðu til að tala mikið lengur um þessa hluti. Ég gæti það ef ég vildi. Mér er umhugað um að við varðveitum gamla báta og fleira þess háttar sem liggja víða um land undir skemmdum. Ég gæti nefnt nokkur dæmi um báta sem eru þess fyllilega virði að þeir verði gerðir upp, þeir verði settir á flot á nýjan leik og þeim siglt okkur til yndisauka og þeir jafnvel nýttir í tengslum við ferðamennsku. Við þurfum á svona skipum að halda. Við þurfum líka á því að halda að varðveita menningarsögu okkar. Það er t.d. afskaplega sársaukafullt að koma í Reykjavíkurhöfn og sjá hvernig Þór, gamla varðskipið okkar, lítur út í dag. Það er sömuleiðis sársaukafullt að horfa upp á það hvernig gömlu hvalbátarnir eru smám saman að grotna niður þar sem þeir liggja við bryggju. Þeir sem eru mjög merkilegir bátar á heimsvísu. Það er einnig mjög sorglegt að koma upp á Akranes og sjá hvernig kútterinn þar er nánast að hverfa ofan í jörðina. Það er kannski svolítið sterkt til orða tekið en í fullri alvöru þá er það skip mjög illa farið af nánast engu viðhaldi frá því að það var dregið á land fyrir nálega aldarfjórðungi. Annar bátur stendur uppi á kambi á Akranesi, Höfrungur, sem er mjög merkilegur, og er sömuleiðis að eyðileggjast.

Eflaust mætti fara í kringum landið og telja til báta og skip sem við hefðum að sjálfsögðu átt að varðveita. Okkur hefði verið sómi af því. Ég hygg að fyrir ímynd íslensks sjávarútvegs hefði verið gott að eitthvað af þessum peningum hefðu verið notaðir, peningar sem nú liggja í Þróunarsjóði, til að varðveita þessa sögu. Stórútgerðir þessa lands hefðu átt að sjá sér hag í að hvísla því í eyru hæstv. sjávarútvegsráðherra að það væri kannski ekki svo vitlaust að eyrnamerkja eitthvað af peningunum í það verkefni að varðveita sögu útgerðar á Íslandi. Þeir sem kunna að eiga eftir að naga sig mest í handarbökin í framtíðinni séu einmitt útgerðarmenn, yfir því að hafa ekki haft rænu eða ráð á því að reyna að varðveita eitthvað af þessum skipum, skipum sem þykja kannski hlægileg og lítil í dag en urðu á sínum tíma til að skapa þeim þá auðlegð sem þeir sjálfir búa við en einnig þá auðlegð sem þjóðin nýtur að hluta.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, taka undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að þessari umræðu verði hreinlega frestað og mönnum verði gefið síðasta tækifærið til að athuga sinn gang. Ég hygg að hér séu menn að gera alvarleg mistök. Eins og ég hef sagt áður og segi enn þá: Við eigum eftir að sjá eftir því að hafa gert þetta. Ég vona að ef hæstv. sjávarútvegsráðherra talar á eftir þá komi hann ekki með þau rök að með því að við mælumst til þess að varðveita gamlar minjar þá séum við sjálfkrafa á móti því að peningar séu settir í hafrannsóknir. Við erum alls ekki á móti því. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er þörf fyrir peninga til hafrannsókna á Íslandi. En ég tel að við ættum að finna þá fjármuni með öðrum hætti en að ganga í þennan sjóð. Ég hygg að það sé auðveldara að finna peninga til hafrannsókna með öðrum hætti en að taka þá úr þessum sjóði, miklu auðveldara en að finna peninga til að nota í varðveislu gamalla minja sem tengjast sjávarútvegi. Við ættum frekar að nota þennan sjóð. Við vitum þó hvar þessi sjóður er og höfum ákveðin yfirráð yfir honum. Alþingi ætti að geta stýrt því fjármagni ef viljinn væri fyrir hendi. Við eigum ekki að láta þetta tækifæri okkur úr greipum ganga.

Fari þetta allt á versta veg heiti ég á þá þingmenn sem á sínum tíma veittu þingsályktuninni brautargengi fyrir fimm árum. Eins og hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi þá sitja margir þeirra enn á þingi og ef það er einhver bógur í þeim ættu þeir að sjálfsögðu að taka undir álit minni hluta sjávarútvegsnefndar í þessu máli og greiða atkvæði gegn því að þetta frumvarp fari í gegn eins og það lítur út núna.



[18:25]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég held að óhætt sé að segja að umræðan hafi farið um víðan völl, meira að segja á Þingvöll. En ég verð í upphafi að segja að enn gengur hv. þm. Sigurjón Þórðarson fram af mér með orðfæri sínu. Með fullri virðingu og allri vinsemd finnst mér það orðfæri sem hann notaði í dag, þegar hann ásakar kollega sína á hv. Alþingi með þeim orðum sem hann notaði, ekki vera við hæfi.

Málefnið sem er til umræðu er lög um Þróunarsjóð sjávarútvegsins frá 1994 og frumvarp til breytinga á þeim lögum. Lögin eins og þau eru í dag standa til þess að þegar sjóðurinn verði gerður upp, að verkefnum hans loknum sem voru skilgreind verkefni, og verði einhver afgangur þá gangi hann til hafrannsókna. Það sem ég legg til með stjórnarfrumvarpinu er að flýta því að sjóðurinn verði gerður upp og að öðru leyti að fara að lögunum eins og þau eru í dag.

Umræðan fór síðan að snúast um varðveislu gamalla skipa og báta, söfn og minjar sem út af fyrir sig er áhugavert umræðuefni en er ekki á starfssviði sjávarútvegsráðuneytisins. Síðan hefur verið vitnað þráfaldlega til þingsályktunar um varðveislu gamalla skipa og báta sem samþykkt var árið 2000 á Alþingi. Hv. þingmenn telja að á þeim grundvelli eigi málaflokkurinn varðveisla gamalla skipa og báta kröfu í það sem eftir stendur af þessum sjóði. Kröfuna byggja hv. þingmenn á aukasetningu í þingsályktunartillögunni. Þingsályktunin gengur út á að fela ríkisstjórninni að undirbúa varðveislu gamalla skipa og báta þar sem m.a.. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt. Ég leyfi mér að líta á það sem einhvers konar tillögu flutningsmanna um hvar ríkisstjórnin eigi að leita fjármuna til að fjármagna það verkefni sem tillagan gengur út á.

Hefði hins vegar verið flutt frumvarp um þróunarsjóðinn til að uppfylla það markmið sem þingsályktunartillagan fjallaði um þá hefði þurft að breyta lögum um þróunarsjóð, skilgreina hlutverk þróunarsjóðs upp á nýtt og taka tillit til þeirra verkefna sem honum hafa verið falin sem var ólokið á þeim tíma er tillagan var samþykkt. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson var þá í smíðum. Það var ekki komið til landsins og ekki komið í notkun. Þá var staða sjóðsins óljós hvað þetta varðar og á þeim tíma engin leið að sjá fyrir að það yrði endilega einhver afgangur af sjóðnum sem gæti runnið til hafrannsókna eins og lögin þá og eins og lögin nú standa til.

Með öðrum orðum hefði þurft að endurskilgreina hlutverk sjóðsins og jafnvel að gera ráð fyrir því að afla honum aukinna tekna til viðbótar við þær tekjur sem hann hafði þá enda var ekki fyrir séð hvernig sjóðurinn ætti að standa skil á sínum málum þegar þar var komið sögu. Hugsanlega hefði þurft að framlengja hlutverk þróunarsjóðsins og halda áfram gjaldtökunni eftir að veiðigjaldið hefur verið tekið upp. En eins og hv. þingmenn vita hefur þróunarsjóðsgjaldið verið lagt af og veiðigjald tekið upp í stað þess. Ég lít því ekki svo á að nein kvöð hvíli á Þróunarsjóði sjávarútvegsins, jafnvel þótt hann sé nefndur í aukasetningu þessarar þingsályktunar, um að hann eigi að taka að sér einhver verkefni tengd gömlum skipum og bátum heldur kveði lögin um þróunarsjóð á um það að verði einhver afgangur þá renni hann til hafrannsókna, að þau lög gildi og eigi að ganga eftir.

Hv. þingmenn hafa því spurt: Hvað hefur menntamálaráðherra, sem þingsályktunartillögunni var vísað til, því að þessi mál heyra undir hann, gert til að uppfylla þessa þingsályktun? Reyndar hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að þeir hafa efasemdir um að ég geti svarað því hér í dag.

Það vill hins vegar þannig til að u.þ.b. tveimur og hálfum mánuði eftir að frumvarpið sem hér er til umræðu var lagt fram, um breytingar á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, svaraði hæstv. menntamálaráðherra fyrirspurn um þetta efni hér í þinginu. Þar kemur fram að menntamálaráðherra skipaði nefnd í framhaldi af þingsályktunartillögunni. Sú nefnd hefur lagt hugmyndir sínar fyrir menntamálaráðherra og í helstu dráttum eru tillögurnar eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Heimilt verði að friðlýsa gamla báta í neyðartilvikum.

Leita þurfi álits „skipavarðveislunefndar“ um stórvægilegar breytingar, förgun eða sölu gamalla báta úr landi, t.d. öllum sem smíðaðir eru fyrir 1940.

Í þjóðminjalögum verði nánari ákvæði um meðferð og varðveislu gamalla báta og skipsflaka.

Stofnaður verði skipavarðveislusjóður með framlögum úr ríkissjóði og lágu gjaldi á alla haffæra báta.

Skipavarðveislunefnd verði sett á laggirnar til að sjá um ofangreind efni.

Eigendum gamalla báta verði gert auðveldara að hirða um þá með lækkun opinberra gjalda gegn því að notkun bátanna verði takmörkum háð (sumarsiglingar, ekki í atvinnuskyni o.s.frv.).“

Í svarinu kemur fram að menntamálaráðherra hafði ráðfært sig við Þjóðminjasafnið og í lokin segir hæstv. menntamálaráðherra að að mörgu sé að hyggja í málinu og þessar tillögur séu til sérstakrar skoðunar og þá ekki síst í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur ákveðið að fram fari endurskoðun á þjóðminjalögum. Það er í þessum farvegi sem málið er hjá hæstv. menntamálaráðherra í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögunnar.

Þar af leiðandi tel ég að engar kröfur séu áhvílandi á þróunarsjóðnum sem snúa að gömlum skipum og bátum og því sé það einfaldlega bæði rétt og réttmætt að þeir fjármunir sem eftir kunna að standa renni til hafrannsókna eins og lögin hafa alltaf gert ráð fyrir, eins og lögin gerðu ráð fyrir þegar verkefnið var skilgreint og eins og þeir sem greiddu gjöldin í sjóðinn gerðu ráð fyrir að fjármunum yrði varið ef eitthvað stæði eftir.

Ef þetta hefði átt að vera einhvern veginn öðruvísi hefði þurft að breyta lögunum um Þróunarsjóðinn, það hefði þurft að skilgreina hann upp á nýtt, jafnvel sjá honum fyrir öðrum tekjum. Ég verð að segja, frú forseti, og ég veit að ég hef sagt það áður úr þessum ræðustóli, að ég undrast það mjög að einmitt þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað skuli leggja til að fjármunir til hafrannsókna verði skornir niður.

Ég veit að þeir tala um að leita eigi þessara fjármuna annars staðar. En hvers vegna er betra að taka fjármuni frá hafrannsóknum og færa þá til gamalla skipa og báta og leita síðan einhverra annarra fjármuna til hafrannsókna? Af hverju ekki bara einfaldlega að leyfa þeim fjármunum sem eiga að fara til hafrannsókna að fara til hafrannsókna og leita síðan með hæstv. menntamálaráðherra að fjármunum til verkefnisins Varðveisla gamalla báta og skipa? Ég get ekki skilið, sérstaklega ekki með tilliti til þess hvernig hv. þingmenn hafa talað á síðustu missirum, hvað þeir hafa talað mikið, oft og í sumum tilfellum hátt um að bæta þurfi hafrannsóknir, að auka þurfi þá fjármuni sem þangað eiga að renna.

Ég hef tekið undir með hv. þingmönnum hvað þetta varðar og er að leitast við að tryggja að þeir fjármunir sem lög standa til að renni til hafrannsókna geri það. Því legg ég til að frumvarpið verði samþykkt eins og það kemur frá meiri hluta hv. sjávarútvegsnefndar.



[18:36]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra að eitthvað í orðfari mínu gengi fram af honum. Ég óska eftir því að hann geri grein fyrir því hvað það var, því að mér er í rauninni alveg óskiljanlegt hvað það ætti mögulega að vera.



[18:36]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir nú eiginlega hálfu verra að ég þurfi að segja hv. þingmanni við hvað ég á. Það sem ég á við er þegar hann er að brigsla mönnum um svik og aumingjaskap og að standa ekki við það sem þeir segja þegar þeir eru að vinna umbjóðendum sínum heilt. Mér finnst slíkar ásakanir ekki eiga við í umræðum á hv. Alþingi.



[18:37]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það virðist vera að hæstv. ráðherra hafi ekki lagt við hlustir vegna þess að ég sagði einmitt að það væri ekki um aumingjaskap að ræða, heldur kallaði ég hlutina einfaldlega sínum réttu nöfnum. Ef menn standa ekki við orð sín og ekki við gefin loforð, hvað er það annað en svik, hæstv. ráðherra? Þetta er bara að tala hreint út um hlutina. Auðvitað eru það svik þegar menn handsala samning eins og hæstv. heilbrigðisráðherra gerði í Þjóðmenningarhúsinu og lofaði öryrkjum 500 milljónum. Það eru svik. Sama er með fjórmenningana sem ég taldi upp í ræðunni fyrr, að þegar þeir lofa sóknarkerfi fyrir kosningar og síðan greiða þeir atkvæði á móti því eftir kosningar. Það eru ekki annað en svik, í mínum huga er það ekkert annað.

Ég taldi þetta einmitt ekki vera merki um aumingjaskap heldur er þetta að standa ekki við orð sín (Forseti hringir.) og þetta er einfaldlega að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.



[18:38]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ekki svik þótt hv. þingmenn komi ekki öllum hugðarefnum sínum fram. Það vita allir sem vilja vita að þeir hv. þingmenn sem hér um ræðir hafa staðið vel fyrir sínum málum og reynt að koma þeim fram en þeim hefur einfaldlega ekki tekist það. Þeir hafa því þurft að gera málamiðlanir og komið þannig hagsmunum umbjóðenda sinna vel fyrir borð.

Síðan varðandi hæstv. heilbrigðisráðherra var það sjálfsagt mismæli hjá hv. þingmanni þegar hann sagði 500 milljónir. Það sem heilbrigðisráðherra skrifaði undir var 1 milljarður og við það stóð hann.



[18:39]
Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég spurði hæstv. sjávarútvegsráðherra nokkurra spurninga í ræðu minni. Ein af þeim var hvort ráðherra liti ekki á þá þingsályktunartillögu sem við höfum verið að ræða sem kvöð á þróunarsjóðnum. Því svaraði ráðherra skýrt, hann telur ekki um það að ræða að þingsályktunartillagan sé nein kvöð á þróunarsjóðnum.

Ráðherrann lætur finnst mér eins og hann þekki ekki forsögu þessa máls. Hæstv. ráðherra gerir sér upp vankunnáttu, og það gera menn stundum þegar þeir standa frammi fyrir hlutum eins og hér, vegna þess að það vill þannig til að lagt var fram frumvarp um breytingu á lögum um þróunarsjóð. Ég veit að lögin um þróunarsjóð segja að þegar hann verður lagður niður eigi þeir fjármunir sem eftir verða, verði þeir einhverjir, að renna til hafrannsókna. En það voru fimm hv. þingmenn sem lögðu fram frumvarp um breytingu akkúrat á þeim lögum.

Það vill svo til að þessir sömu hv. þingmenn eru eða voru allir á þeim tíma í sjávarútvegsnefnd. Þegar málið kemur þangað inn eftir 1. umr. taka þessir hv. þingmenn sig til og breyta málinu í þingsályktunartillögu. Telur hæstv. ráðherra virkilega að allir þessir flutningsmenn frumvarpsins hafi talið sig vera með því að drepa málinu á dreif, tekið það úr sjávarútvegsnefnd til að drepa málinu á dreif?

Hæstv. ráðherra sagði að hv. þingmönnum tækist ekki oft eða ekki alltaf að koma hugðarefnum sínum í framkvæmd. Ég er viss um að þeir hv. þingmenn sem lögðu fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um þróunarsjóð og stóðu síðan allir sem einn að því að leggja fram þingsályktunartillögu um sama mál hafi talið sig hafa komið málum sínum í höfn. Þessir hv. þingmenn hafa ekki trúað því á þeim tíma að verið væri að tæla þá, verið væri að svíkja þá til þess að breyta frumvarpi um breytingu á lögum í þingsályktunartillögu til að hæstv. ráðherra gæti staðið hér fimm árum síðar og sagt: (Forseti hringir.) Ja, þetta er nú bara þingsályktunartillaga.



[18:41]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að gera mér upp neina vankunnáttu og kannast ekki við að nein vankunnátta hafi komið fram hjá mér í málinu. En frumvarp hv. þingmanna sem var vitnað til, sem síðan var breytt í þingsályktunartillögu, snerist ekki um það sem eftir stæði af sjóðnum. Það snerist um starfsemi sjóðsins og hvernig fjármunum og tekjum sjóðsins væri varið. Við erum ekkert að fjalla um það núna.

Nú erum við fjalla um að uppfylla þau lög sem standa til þess að þeir fjármunir fari til hafrannsókna. Síðan er verkefnið Varðveisla gamalla skipa og báta á færi menntamálaráðherra og eins og ég sagði frá hérna áðan hefur hún skýrt frá því í hvaða farvegi það mál er í ráðuneytinu. Það eru ekki þau tengsl á milli þessara tveggja mála sem hér um ræðir.

Fjármunirnir sem eftir standa í þróunarsjóðnum urðu bara til á öðrum forsendum og það er við þær forsendur sem við eigum að standa. Síðan er þingsályktunartillagan annað mál og ég er alls ekki að lýsa mig mótfallinn því að varðveita gömul skip og báta. En það á ekki að rugla því saman við þá fjármuni sem eiga að renna til hafrannsókna og við eigum alls ekki í kappi okkar við að varðveita gömul skip og báta að skerða þá fjármuni sem til hafrannsókna fara. Við skulum frekar vinna að því að fá fjármuni til varðveislu gamalla skipa og báta en halda þeim fjármunum inni sem eiga að fara til hafrannsókna.



[18:43]
Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með svör ráðherrans og hvernig hann tekur á því máli sem hér liggur fyrir.

Hæstv. ráðherra getur kannski upplýst okkur, hann gerði það ekki í svari sínu, hvernig hæstv. menntamálaráðherra hefur sóst eftir þeim fjármunum sem talað var um að ættu að koma úr Þróunarsjóði til að varðveita gömul skip og báta. Hann fór yfir hvað hæstv. menntamálaráðherra hefur gert með nefndarskipan og einhverjar tillögur sem uppi eru í því efni, en hæstv. ráðherra upplýsti okkur ekki um hvernig hæstv. menntamálaráðherra hefur sóst eftir þeim fjármunum sem þingsályktunartillagan gerði ráð fyrir að kæmu m.a. úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins í þetta verkefni.

Reyndar gerði hæstv. ráðherra lítið úr þeirri setningu í þingsályktunartillögunni, kallaði hana aukasetningu. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég áttaði mig ekki á því að þegar maður setur fram þingsályktunartillögur að þar væru aðalsetningar og aukasetningar. Ég hélt að þessi þingsályktunartillaga segði með mjög skýrum hætti að m.a. ætti þróunarsjóðurinn að taka þátt í því að varðveita gömul skip og báta.



[18:44]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lýsa því yfir að ég sé eitthvað sérstaklega sterkur í setningafræði en ég er hins vegar alveg klár á því að þetta er aukasetning samkvæmt setningafræðinni.

Varðandi spurninguna um hvað menntamálaráðherra hefur gert í þessum efnum þá get ég ekki upplýst meira um það en var í svarinu sem hæstv. ráðherra gaf fyrr í vetur, í febrúar, eins og ég sagði tveimur og hálfum mánuði eftir að frumvarpið var lagt fram, en ég geri fastlega ráð fyrir að menntamálaráðherra fylgi málinu eftir eins og kemur fram í svarinu frá því í febrúar.



[18:45]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. sjávarútvegsráðherra minna svolítið á vélarvana skip sem hrekst undan stormi og stórsjó í tilraunum sínum til að reyna að verja þróunarsjóðinn gegn ásælni okkar stjórnarandstöðuþingmanna sem viljum ekki nota allan sjóðinn, alls ekki allan sjóðinn, það er mikill misskilningur ef menn halda það, heldur einhvern hluta af þessum peningum til varðveislu gamalla minja sem tengjast sjávarútvegi. Við erum að tala um sjóð sem er mjög stór. Samkvæmt þeim upplýsingum sem sjávarútvegsnefnd fékk frá starfsmanni sjávarútvegsráðuneytisins er um að ræða sjóð sem hljóðar kannski upp á rúman hálfan milljarð króna, og þó að ekki tækist að fá nema einhverja tugi milljóna króna í það verkefni að varðveita gömul skip og báta og aðrar minjar sem tengjast sjávarútvegi væri hægt að gera alveg ævintýralega hluti fyrir þá peninga. Það er þetta sem við erum að tala um. Við erum ekki að tala um það að taka allan þennan stóra peningahaug og setja hann í fornminjar, langt í frá.

Af því að hæstv. sjávarútvegsráðherra gerir mikið úr því að þetta heyri allt saman undir menntamálaráðuneytið þá finnst mér það ákveðin rökvilla hjá honum því að mig rekur minni til þess að í sjávarútvegsráðuneytinu hafi starfsaðstöðu sagnfræðingur, Jón Þ. Þór, sem hefur skilað mjög merkilegu verki, m.a. verið að rita sögu sjávarútvegsins, og það vill svo til að ég á í safni mínu fyrstu tvö bindin sem komið hafa út í því ritverki og ef ég man rétt skrifar sjávarútvegsráðherra sjálfur innganginn að a.m.k. öðru bindanna þar sem hann talar mjög fjálglega um mikilvægi þess að varðveita sögu sjávarútvegsins. Þarna hefur, alla vega get ég ekki betur séð, sjávarútvegsráðuneytið tekið að sér að halda utan um starf sagnfræðings sem er að rita sögu sjávarútvegsins. Hvers vegna í ósköpunum ætti það þá ekki líka að heyra undir menntamálaráðuneytið ef varðveisla gamalla skipa og báta heyrir undir það sama ráðuneyti?



[18:47]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Myndast hefur sú hefð að ráðuneytin hafa sjálfstæði um það hvort skrifuð sé saga þeirra eða starfsgreina þeirra. Eins og hv. þingmenn muna stóð forsætisráðuneytið fyrir því að saga Stjórnarráðsins var skrifuð á síðasta ári, á 100 ára afmæli Stjórnarráðsins, þannig að það er engin þversögn í því. Hins vegar, eins og kom fram hjá mér fyrr í dag, heyrir varðveisla gamalla skipa og báta undir menntamálaráðuneytið og þar er unnið að því málefni á forsendum þjóðminjalaga og verður eflaust gert áfram.

Það er sjálfsagt rétt hjá hv. þingmanni að hægt er að gera ævintýralega hluti með þessum peningum í sambandi við varðveislu gamalla skipa og báta en það er líka hægt að gera ævintýralega hluti með þeim í hafrannsóknum. Ég held að við ættum að halda okkur við það eins og lögin kveða á um en ekki að skerða þá þvert á aðra hluti sem við höfum rætt í þinginu.



[18:49]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst gæta nokkurs misskilnings í þessu hjá hæstv. ráðherra því að við erum ekki að tala um að taka allar þessar 500–600 milljónir í það að varðveita gamlar minjar, við erum kannski að tala um að taka eitthvert brot af því fé, a.m.k. hef ég skilið það svo. Ég fæ heldur ekki skilið að sjávarútvegsráðuneytið, ef það á annað borð er að sjá til þess að saga sjávarútvegsins sé færð til bókar, geti þá ekki beitt sér fyrir því, ef vilji væri fyrir hendi, að það mál sem við höfum verið að reyna að tala fyrir í dag nái fram að ganga. Það þarf ekkert annað til en viljann. Ég kaupi það ekki að menn skjóti sér undan þessu með því að vísa í að málið heyri undir menntamálaráðuneytið, vísa í þjóðminjalög og vera með einhvers konar þvergirðingslegan og ferkantaðan hugsunarhátt. Þetta er bara spurning um vilja. Enn og aftur heiti ég á hæstv. ráðherra að sjá til þess að taka tillit til þessara sjónarmiða.



[18:50]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einfaldlega að vísa til þess undir hvern verkefnið heyrir í Stjórnarráðinu vegna þess að verið er að ásaka mig um vanrækslu, verið er að ásaka mig um að hafa ekki fylgt eftir þingsályktuninni. Þingsályktuninni var ekki vísað til mín, henni var vísað til annars hæstv. ráðherra og sá ráðherra vinnur í málinu.

Varðandi það hvort sjávarútvegsráðherra gæti ekki lagt málinu lið, þ.e. að varðveita gömul skip og báta. Að sjálfsögðu gæti sjávarútvegsráðuneytið gert það og er alls ekkert ólíklegt að það geri það. Ég vil hins vegar ekki gera það á kostnað hafrannsókna. Ég vil að þeir fjármunir sem við höfum ákveðið á hv. Alþingi að renna eigi til hafrannsókna geri það. Ég vil ekki skerða þá, ég tel að þörf sé fyrir þá í hafrannsóknir.



[18:51]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég sé mig tilknúinn að koma aftur í ræðustól og ræða þetta mál nokkru nánar en gert var í dag, m.a. út frá þeim orðum sem komu fram í máli hæstv. ráðherra áðan.

Í fyrsta lagi vil ég upplýsa, hæstv. forseti, að sú þingsályktunartillaga sem málinu var breytt í af sjávarútvegsnefnd á sínum tíma var gerð með fullum vilja og vitund allra sjávarútvegsnefndarmanna, menn ræddu það einnig við fulltrúa frá þróunarsjóðnum — ef ég man rétt mættu þeir á fund nefndarinnar eða hvort það barst minnisblað frá þróunarsjóðnum— og síðan fram komu upplýsingar frá starfsmanni sjávarútvegsráðuneytisins, á minnisblaði sem átti uppruna sinn hjá starfsmanni þróunarsjóðsins, um að fjármunir í sjóðnum yrðu örugglega meiri en menn hefðu gert ráð fyrir vegna þess að þar hefðu komið til inngreiðslu eða innlausnar hlutdeildarskírteini sem menn höfðu áður talið verðlaus og voru tengd hlutafjársjóði atvinnutryggingardeildar sjávarútvegsins. Þegar farið var að sameina fyrirtæki var kvöð um að innleysa þessi skírteini og þróunarsjóðnum var falið að innheimta þetta fé og þar af leiðandi komu fjármunir í sjóðinn sem menn höfðu kannski áður talið að þyrfti að afskrifa og var jafnvel búið að afskrifa. Ég skora á hæstv. sjávarútvegsráðherra, áður en við ljúkum umræðunni, að fá þessar upplýsingar svart á hvítu. Þær eru örugglega til í ráðuneytinu, hjá starfsmanni sjávarútvegsráðuneytisins sem útvegaði mér þær á sínum tíma eftir að ég fór fram á að upplýsingarnar lægju fyrir í þinginu. Ég get svo sem fundið þær ef okkur tekst að verða sammála um að fresta umræðunni og koma henni í þann farveg að við séum tilbúnir að finna sátt í málinu .

Ég held hins vegar að túlkun á meðferð málsins megi ekki fara í þann farveg sem mér fannst hæstv. sjávarútvegsráðherra hálfpartinn beina því, að þar væri aðalsetning og síðan einhver sérstök aukasetning í þingsályktuninni um þetta. Þingsályktunin er heildstæð. Hún er ekki löng, hún er bara rétt rúmlega þrjár línur. Ég held að hæstv. ráðherra geti varla gert svo lítið úr okkur sem störfuðum í sjávarútvegsnefnd á þessum tíma að ætla að við höfum ekki vitað hvernig lögin um Þróunarsjóð sjávarútvegsins voru. Okkur var algerlega ljóst hvaða hlutverk Þróunarsjóður sjávarútvegsins hafði. Frumvarpið sem við lögðum fram, fimm þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkunum, um fjármögnun úr sjóðnum vegna þess að þar væru til meiri fjármunir en menn höfðu gert ráð fyrir byggði m.a. á því að okkur var algerlega ljóst hvernig þróunarsjóðurinn starfaði og að þar væru til fjármunir. Þess vegna var sömu þingmönnum algerlega ljóst, að viðbættum þeim sem í sjávarútvegsnefnd voru, hvaða efni stæðu til þess að breyta málinu í þingsályktunartillögu vegna þess að fjármunirnir væru til staðar. Hins vegar með því að breyta málinu í þingsályktunartillögu væri málinu veitt í þann farveg að sjávarútvegsráðherra gæti haft áhrif á það, m.a. hvaða fjárveitingar yrðu settar út í þessu skyni en um það hafði birst ákveðin tillaga í frumvarpinu á sínum tíma þar sem miðað var við brúttórúmlestir skipa og styrk í því sambandi miðað við ákveðið ár, sem mig minnir að hafi verið 1990. Enda þótt ráðherra reyni að verja skoðun sína í málinu og ekki eigi að taka tillit til þingsályktunarinnar má hann ekki ætla okkur hv. þingmönnum það að við höfum ekki vitað hvernig lögin um Þróunarsjóð sjávarútvegsins voru. Okkur var það algerlega ljóst. Við töldum í raun og veru að með því að breyta málinu í þingsályktunartillögu og öll nefndin væri sammála um það og formaður nefndarinnar, starfandi á þeim tíma, flytti málið með samþykki allra sjávarútvegsnefndarmanna og málið þyrfti ekki að fara aftur til nefndar vegna þess að menn væru algerlega sammála, væri ígildi þess að um væri að ræða skýran vilja sem þyrfti ekki frekari umfjöllun. Við værum búnir að skoða málið frá öllum hliðum og með því að breyta því í þingsályktunartillögu væri í raun og veru verið að færa ráðherra það vald að hafa áhrif á þróun málsins án þess að hafna því, en það finnst mér ráðherra gera. Ráðherra hafnar málinu.

Með þingsályktuninni var auðvitað verið að færa honum það vald að hafa áhrif á afgreiðslu málsins og móta m.a. tillögur um hvaða upphæð hann gæti hugsanlega fallist á að varið yrði í þetta verkefni úr þróunarsjóðnum, þ.e. að í því sambandi yrðu mótaðar reglur um fjármögnun og m.a. að Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki þátt í því. Með því að breyta málinu í þingsályktunartillögu var ráðherra auðvitað gefið það vald að hafa áhrif á hversu miklir fjármunir rynnu í verkefnið, hvenær þeim yrði varið til þess, og ég hef kannski leyft mér að skilja ráðherra þannig undanfarin ár, frá árinu 2000 þegar tillagan var samþykkt en þar sagði m.a. í greinargerð, ef ég man rétt, að ríkisstjórninni sé falið að taka tillit til þessarar samþykktar þegar á því ári. Ég er ekki með hana fyrir framan mig, virðulegi forseti, en það var árið 2000 sem tillagan var samþykkt, 9. maí 2000, ef ég man rétt. Þar af leiðandi var ráðherra gefið þetta svigrúm að móta tillögur eða reglur. Ég hef leyft mér að skilja það svo að á því ári, árinu 2000, hafi menn ekki náð saman um þá niðurstöðu og lét því kyrrt liggja allt það ár en spurði hins vegar um það á árinu 2001 í lok þings, ef ég man rétt, hvert málið væri að þróast og fékk þá svör frá hæstv. forsætisráðherra um meðferð þingsályktana almennt. Ég held að þau séu til í sérstöku þingskjali sem hæstv. forsætisráðherra lét útbúa þar sem m.a. var vitnað til þess að menntamálaráðherra fengi málið til skoðunar, og að sjálfsögðu þar sem málið sneri að Þróunarsjóði sjávarútvegsins hafði hæstv. sjávarútvegsráðherra veruleg tök á því að hafa mótandi áhrif á niðurstöðu tillögunnar.

Það hvarflaði aldrei að okkur sem afgreiddum þessa tillögu út úr sjávarútvegsnefnd að niðurstaðan yrði sú að svigrúmið sem sjávarútvegsráðherra fékk með tillögunni yrði svo notað til þess að hafna málinu algjörlega. Það er algjör rangtúlkun á vilja sjávarútvegsnefndar og rangtúlkun á vilja Alþingis og sjávarútvegsráðherra kemst bara ekki upp með að halda málinu í þeim farvegi og með þeim rökstuðningi. Við verðum þá að ræða það inn í nóttina eða daginn á morgun ef við ætlum að fara í þá umræðu.

Hæstv. ráðherra vék líka að því að ekki yrði fyrirséð um að fé yrði afgreitt úr þróunarsjóði. En eins og ég hef áður nefnt lágu þær upplýsingar fyrir þegar á árinu 2000 að það væru örugglega meiri fjármunir til í þróunarsjóðnum en menn hefðu gert ráð fyrir.

Hæstv. ráðherra vék einnig að auðlindagjaldinu og að það tæki við þegar þróunarsjóðurinn yrði lagður niður. Ég veit ekki hvort ég skildi ráðherrann rétt í sambandi við það, en ég spyr: Er hæstv. ráðherra að ýja að því að í auðlindagjaldinu verði sett ákveðin fjármögnun til varðveislu gamalla skipa? Á maður að skilja ráðherrann þannig? Ég hef ekki getað heyrt það á ráðherranum í dag að hann vilji leggja tillögunni lið eins og hún er fram sett eða breytingartillögu minni hluta sjávarútvegsnefndar um að 400 millj. yrðu markaðar í verkefnasjóðinn og þaðan til hafrannsókna. Það gætu verið mótaðar reglur til framtíðar um það sem út af stæði í samræmi við þingsályktunartillöguna um hvenær og hvernig það yrði greitt út og í hvaða verkefni. Sjávarútvegsráðherra gæti tekið upp samstarf við menntamálaráðherra um það. Mér fannst reyndar hálfpartinn að hæstv. ráðherra væri að lýsa því áðan að hann vildi hugsanlega taka upp eitthvert samstarf um varðveislu gamalla skipa og gæti hugsað sér eitthvert fjármagn í því sambandi. Þess vegna spyr ég: Var hæstv. ráðherra að ýja að því að um það gæti e.t.v. verið flötur að eitthvað af fjármagninu lægi til hliðar og um það yrði samið að það færi í þetta verkefni og ráðherrann gæti haft áhrif á það?

Ef það er eingöngu metnaður ráðherrans að hann geti fengið að úthluta einhverju fé, hvort sem það er í gegnum verkefnasjóðinn eða frá sjálfum sér og ráðuneytinu til varðveislu gamalla skipa, geri ég ráð fyrir að við hv. þingmenn sem viljum málinu framgang mundum sætta okkur við það ef það fullnægir metnaði ráðherrans. Þó veit ég það ekki. En ég vona að málið snúist ekki um það hjá hæstv. ráðherra heldur snúist það almennt um að vilja koma að málinu þó að hann sé búinn að koma sér í þá leiðinlegu stöðu að vera á móti mjög þörfu og góðu máli og hefur reynt að misskilja það og leggja út af því með þeim hætti að þetta sé alls ekki verkefni sjóðsins og engar kvaðir eða kröfur séu á þróunarsjóðnum í þá veru.

Þegar hv. Alþingi hefur samþykkt þingsályktun sem allir eru sammála í atkvæðagreiðslu og vitnað er til þess í þingsályktun að þróunarsjóður komi m.a. að þeim verkefnum og taki þátt í þeim tel ég algjörlega skýrt að búið sé að samþykkja kröfur eða kvaðir á þróunarsjóðinn. Ég get ekki skilið málið öðruvísi. Ef það er ekki réttur skilningur held ég að við þurfum æðioft að fara nákvæmar ofan í efni þingsályktunartillagna í framtíðinni, ef það þýðir ekki neitt þó að sagt sé í þingsályktun að fé skuli renna úr fjárlögum eða fé skuli renna einhvers staðar annars staðar frá úr einhverjum sjóðum sem eru til staðar, og þeir eru nú fjölmargir í þjóðfélaginu, eða úr ákveðnum verkefnum sem tekið hefur verið frá til ákveðinna verkefna. Ef það þýðir ekki neitt þurfa starfsmenn þingsins að leiðbeina okkur alveg upp á nýtt og sérstaklega hæstv. forseta við samningu þingsályktunartillagna. Þá gengur ekki að hafa þær svona. Þá þurfum við að fá nýja kennslustund í meðferð þingsályktunartillagna. Ég kem því formlega á framfæri við forsetaembættið að það dugar ekki að hafa textana eins og þeir eru vegna þess að sjávarútvegsráðherra skilur þá alls ekki eins og við hin.

Ég veit að starfsfólk þingsins er algjörlega í stakk búið til að leggja okkur lið í því að orða þetta með þeim hætti að hæstv. sjávarútvegsráðherra geti skilið þetta og er viss um að okkur muni takast það. Ráðherrann er langskólagenginn maður en ég veit náttúrlega að hann var á öðru sviði en skipasviði þegar hann var að læra. Það var meira um líffræði og jafnvel færanlega hluti eins og lifandi skepnur o.s.frv. En ráðherra er bráðskarpur maður og getur örugglega skilið málið eins og við skiljum það og viljum meina að þingsályktunartillagan sé. Þess vegna held ég að ef svo er komið fyrir okkur að ráðherra skilur tillöguna alls ekki eins og við samþykktum hana þurfum við að vanda okkur í framtíðinni varðandi þingsályktanir að þessu leyti.

Hæstv. ráðherra minntist á að við hefðum talað um tekjur úr þróunarsjóðnum til varðveislu gamalla skipa á þeim tíma þegar frumvarpið kom fram. Ég er því miður ekki með þingmálið fyrir framan mig en í meðfylgjandi greinargerð var sérstök upptalning á þeim fjármunum sem talið var að væru að koma í þróunarsjóð eða væru komnir þangað sem var áður búið að afskrifa í reikningum sjóðsins. Það tengdist þeim sjóði sem kallaður var hlutafjársjóður, ef ég man rétt, og var ætlaður til að leggja fyrirtækjum sem voru í erfiðleikum stödd til aukið hlutafé og rekstrarfé.

Hæstv. forseti. Ég vona svo sannarlega að þessi ræða mín valdi því ekki að ráðherra verði meira á móti málinu en áður. Hann hefur verið frekar í bakkgír með málið. Ég átta mig hins vegar ekki á því hvers vegna hann vill ekki taka upp viðræður við hæstv. menntamálaráðherra um málið, en það eru hæg heimatökin núna þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra gegnir menntamálaráðherrahlutverkinu. Ég ráðlegg honum, af því að klukkan er meira en sjö og við frestum sem sagt málinu, að prófa að vakna í nótt og fara öðrum megin fram úr rúminu en í morgun og skoða málið með því sjónarhorni og athuga hvort við getum ekki lent málinu. Ég trúi ekki að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé með neinn illvilja í málinu. Ég held að hann sé haldinn einhverjum misskilningi sem þarf að leiðrétta og hann getur auðvitað áttað sig á þessu í rólegheitum og við þá tekið málið til betri meðferðar.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, skora á ráðherrann í fullri alvöru að skoða málið betur og velta því virkilega vel fyrir sér hvort ekki sé rétt að hann og menntamálaráðherra — sem er sami maðurinn þessa stundina — skiptist svolítið á skoðunum um hvernig lenda mætti málinu.

Ég ræddi þetta mál aðeins við hæstv. menntamálaráðherra um daginn og gat ekki annað heyrt á henni en hún hefði mikinn áhuga á því að koma málinu í höfn og að sjálfsagt væri að sækjast eftir einhverjum fjármunum frá meðráðherranum, sjávarútvegsráðherra í þessu tilviki. Ég veit ekki hvort hún hafi mætt mjög neikvæðri afstöðu og þar af leiðandi sé málið komið í einhvern allt annan farveg en ég taldi að það væri í.

Ég tel hins vegar að sú breytingartillaga sem minni hlutinn kemur fram með sé mikil sáttaleið í málinu og sé enga ástæðu til annars en að hæstv. ráðherra skoði þá tillögu með miklum velvilja. Hann kæmist frá málinu með fullum sóma með því að taka tillit til þeirrar tillögu og ég legg til að hann beiti sér fyrir því að við náum góðri og jákvæðri lendingu í málinu þannig að allir megi sæmilega sáttir upp standa.



[19:10]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Árið 2000 gat engum verið ljóst hver niðurstaða í þróunarsjóðnum yrði ef hann yrði lagður af árið 2005. Alþjóðafjármálin, gengi gjaldmiðla og tekjur sjóðsins sveiflast allt of mikið til að það hafi getað verið ljóst þá. Hafi einhverjir tjáð sig um það þá hefur það verið byggt á jákvæðum spám og verið spá ein.

Varðandi það hvað hæstv. menntamálaráðherra hefur í huga get ég ekkert útlistað það meira en hún hefur gert í ræðu á þinginu og get ekki útfært þær gjaldtökuhugmyndir sem þar voru nefndar neitt frekar, en þær hafa ekki verið nefndar í tengslum við auðlindagjaldið eða veiðileyfagjaldið.

Síðan er það auðvitað misskilningur hjá hv. þingmanni að telja að ég sé eitthvað á móti því að varðveita gömul skip og báta. Ég er einfaldlega á móti því að rýra þá fjármuni sem renna eiga til hafrannsókna. Ég tel að hafrannsóknir okkar séu það mikilvægar að þeim veiti ekki af þeim krónum sem við á hv. Alþingi höfum ætlað til þeirra mála.



[19:12]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í andsvarinu upplýstist að ekkert liggur fyrir um að verið sé að finna fé í verkefni sem snúa að varðveislu gamalla skipa á milli hæstv. sjávarútvegsráðherra og hæstv. menntamálaráðherra.

Við höfum nokkrir þingmenn í dag minnst á nokkur verkefni sem þurfa talsverða fjármuni ef vel á að takast til við að endurbyggja skip og halda þeim við til framtíðar. Við höfum m.a. nefnt kútter Sigurfara, en það þarf mikla fjármuni til að gera hann upp og koma honum í það stand að hann verði sýningargripur til framtíðar og megi varðveita á sem bestan hátt. Ef hann yrði algjörlega endurbyggður væri jafnvel æskilegast að varðveita hann á floti til langframa. Hins vegar þarf það kannski ekki ef talsverðir fjármunir fást úr þróunarsjóðnum, ef það yrðu t.d. afgangs rúmar 100 millj. umfram 400 millj. væri hægt að gera verulegt átak í að bjarga því sem bjargað verður varðandi varðveislu gamalla skipa og í framtíðinni eftir að slíkt fjármagn væri fengið. En ekki held ég að það yrði auðsótt í fjárlögum og hefur ekki reynst vera það. Þar hafa menn verið að sletta ½ milljón og 1 milljón o.s.frv. í einstök dæmi og allt gott um það að segja. En ef það fengjust einu sinni virkilegir fjármunir til að gera bragarbót á þeim skipum sem verið er að varðveita gæti verið að slíkar fjárveitingar, sem fjárveitinganefnd hefur verið að setja í þetta á undanförnum árum, dygðu til viðhalds í framtíðina þegar búið væri að gera átak. Ég lýsi vonbrigðum yfir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi ekki tjáð sig um vilja til að koma að málinu með (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra.



[19:15]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra talaði eins og þingsályktunartillagan sem títt hefur verið nefnd í dag væri marklaus, skipti engu máli. Sú þingsályktunartillaga var hugsuð út frá því að þegar að því kæmi að þessi sjóður yrði lagður niður og lögum yrði breytt á Alþingi tækju menn tillit til þingsályktunartillögunnar og það er nákvæmlega það sem hæstv. ráðherra stendur núna fyrir, þ.e. að breyta lögum til að leggja niður þennan sjóð. Það var þá sem þessi þingsályktunartillaga átti í raun og veru að gilda, fara að virka ef menn væru ekki búnir fyrr að marka einhverjum fjármunum farveg úr sjóðnum til þessara hluta sem gat auðvitað líka gerst ef menn hefðu unnið hratt í þessu máli. En fyrst og fremst voru menn að hugsa til loka sjóðsins eða það var a.m.k. mín skoðun á þeim tíma sem við fjölluðum um þetta, að menn væru að hugsa fyrst og fremst til loka sjóðsins þegar að þessu kæmi. Hæstv. ráðherra tók einhvern veginn þannig til orða áðan að ekkert samband væri milli þessara mála, þ.e. þess þingmáls, frumvarps sem nú liggur fyrir og þingsályktunartillögunnar.

Ég get ekki sætt mig við svona málflutning frá hendi hæstv. ráðherra því viljinn í þingsályktunartillögunni er ekkert vafamál. Það liggur algerlega í augum uppi hvað menn ætluðu sér og auðvitað er hægt að taka undir með hæstv. ráðherra að menn vilji, og hafi margsagt það í sölum Alþingis, styðja við það að meiri fjármunir séu til hafrannsókna. En viljinn til að taka á þessu máli liggur líka fyrir. Hann liggur fyrir í þingsályktunartillögunni.

Hæstv. ráðherra talaði eins og hann hefði enga ábyrgð á þessu máli. Hann er þó í ríkisstjórninni og hún hlýtur sem slík að bera ábyrgð á að framkvæma þingsályktunartillögur. Menn hljóta að þurfa að sameinast um að gera hlutina með skynsamlegum hætti þegar þeir hafa verið samþykktir á Alþingi. Þingsályktunartillagan liggur fyrir, henni er vísað til menntamálaráðherra til að framkvæma hana. Það er alger lágmarkskrafa að fyrir liggi hvernig menn ætla að uppfylla það sem í þeirri þingsályktun var þegar að lokum kemur eins og nú er, þ.e. að loka þessum sjóði. Ég ætla bara að segja að mér finnst Alþingi vera gerð mikil niðurlæging með þessari meðferð mála. Það er ekki boðlegt að svona sé farið með vilja Alþingis eins og hér stendur til að gera.

Þá kem ég að hlut hæstv. menntamálaráðherra í málinu. Hæstv. sjávarútvegsráðherra vitnaði í svör hæstv. menntamálaráðherra um það í hvaða farvegi þetta mál væri. Ég ætla svo sem ekkert að setja út á þann farveg sem hæstv. ráðherra hefur í nánd nema að einu leyti að svo virðist ekki vera að hæstv. menntamálaráðherra hafi fylgt þeim vilja Alþingis eftir sem kom fram í þingsályktunartillögunni og sóst eftir þeim fjármunum sem gert var ráð fyrir í þingsályktunartillögunni að yrðu til staðar. Það finnst mér vera til minnkunar hæstv. menntamálaráðherra að notfæra sér ekki þá möguleika sem eru til staðar í samkvæmt ályktun Alþingis til að tryggja fjármuni í þetta verkefni.

Ég ætla svo sem ekki að setja út á eða gera einhverjar sérstakar athugasemdir við það hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur mikinn eða lítinn vilja til að standa að varðveislu gamalla skipa. Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að hafa mikinn vilja til þess. Mér finnst að þeir sem báru ábyrgð á þeim lögum sem voru um Þróunarsjóðinn og fylgdu eftir þeim vilja sem var í þeim lögum, sem var fylgt fram með því að bera á bálið hin bestu skip, höggva í spón og saga niður, mér finnst að þeir sem bera ábyrgð á þeirri vegferð allri eigi að finna til þeirrar ábyrgðar og ættu að ganga manna fremstir í því að reyna að bjarga því sem bjargað verður af því sem eftir er af þeim fulltrúum þessarar gömlu skipahefðar á Íslandi. Og það eru mörg verkefni sem þarna eru til staðar og eru í raun og veru að glatast að hluta til, drabbast niður, sem verður ekki til annars en að kostnaðurinn verður enn þá meiri en hann annars yrði við það að koma þeim í það ástand sem þau þyrftu að komast í. Við sjáum þetta allt í kringum okkur. Í heimabæ mínum standa t.d. tvö skip sem eru mjög góðir fulltrúar þess tíma sem þau voru notuð á. Kútter, sem var gríðarlega merkilegt skip á sínum tíma í upphafi síðustu aldar og skip, Höfrungur, sem var smíðað á Akranesi upp úr miðri síðustu öld og var í raun og veru fjölveiðiskip þess tíma, notað á vertíðum, notað við öll hugsanleg veiðarfæri, notað til síldveiða á sumrum. Skipið var íslensk hönnun og smíðað af Íslendingum, var happaskip og það er auðvitað alger fásinna að ekki skuli vera sá manndómur í okkur Íslendingum, að það skuli vera þannig að þessi fulltrúi þessa tíma sem Höfrungur er skuli ekki vera kominn fyrir löngu í almennilega varðveislu til framtíðar. Það eru auðvitað fleiri sem ættu þar að koma til, t.d. arftaki þess fyrirtækis sem átti þetta mikla happaskip og naut þess í gegnum áratugi hvað afraksturinn af rekstri þess skips var góður og hve vel hafði tekist til á allan hátt með smíði þess skips og eiginleikar þess voru rómaðir.

Ég er vissulega að tala um skip sem ég þekki en það er fullt af skipum í kringum landið til enn þá sem betur fer. Þau fóru ekki öll á bálið. Menn sáu að sér áður. Menn tóku kröfuna af um að höggva skyldi þessi skip í spón eða setja þau á bálið, höfðu hana ekki lengur að kvöð á útgerðarmönnum sem sóttust eftir fjármunum úr þróunarsjóði.

Þessi tillaga, breytingartillagan frá minni hluta sjávarútvegsnefndar, fer kannski eitthvað í taugarnar á hæstv. ráðherra en hún er í raun og veru mjög sanngjörn miðað við þær hugmyndir sem hæstv. ráðherra hafði á bak við lagafrumvarp sitt. Hæstv. ráðherra gerði ráð fyrir að hafa um 300–400 milljónir upp úr krafsinu þegar hann lagði fram frumvarp sitt. Breytingartillagan gengur út á að hæstv. ráðherra fái öllum sínum óskum fullnægt, hann fái 400 milljónir, hann fái hærri töluna en ef eitthvað verður eftir fram yfir það megi nýta það í öðru skyni. En það er ekki nóg, hæstv. ráðherra finnst það ekki nóg. Hann verður að fá það allt saman. Það veit svo sem enginn hvað það verður. En við sem erum í nefndinni töldum eftir samtal við þá sem best vita um ástand þessa sjóðs að einhverjir fjármunir yrðu eftir fram yfir þessar 400 milljónir og töldum að skynsamlegt væri og sanngjarnt að gera tillöguna með þeim hætti að hæstv. ráðherra fengi efri mörkin á draumum sínum uppfyllt en afgangurinn, ef hann yrði til staðar, væri þá til ráðstöfunar. En þetta dugar ekki hæstv. ráðherra. Honum finnst að hann verði að fá þetta allt saman og lemur okkur hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar með því að við séum á móti hafrannsóknum, af því að við viljum að staðið verði við þessa þingsályktun Alþingis. Mér finnst það ekki sanngjarnt og ég ætla að endurtaka það enn einu sinni, mér finnst það niðurlægjandi fyrir Alþingi að menn skuli ekki fara eftir þeim ályktunum sem þar eru gerðar og þó svo að hæstv. ráðherra finnist lög standa ofar en þingsályktanir verða menn að skoða málið í ljósi þess hvernig að þeim var staðið. Lögin um Þróunarsjóðinn voru til staðar þegar þingsályktun var sett og þingsályktun er auðvitað gerð löngu eftir að þróunarsjóðslögin tóku gildi þannig að Alþingi var í raun að lýsa vilja sínum á mjög skýran hátt þrátt fyrir lögin um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Ef ráðherra ætlar að halda sig við skýringar sínar á þessu máli er hann í raun og veru að segja að þeir sem samþykktu þessa þingsályktunartillögu, 49 þingmenn í sölum Alþingis, þar af átta ráðherrar, hafi ekkert í sinn haus vitað. Þeir hafi verið að samþykkja einhverja vitleysu, það hafi ekkert verið að marka þetta. Það er ekki nema von að menn verði argir í sölum Alþingis þegar á að ræða mál þar sem svona er í pottinn búið.

Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti eins og nú háttar, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að brjóta odd af oflæti sínu. Hæstv. ráðherra hlýtur að vera það ljóst að Alþingi gerði þessa ályktun með fullu ráði og rænu og Alþingi var ekki að gera þetta að gamni sínu heldur var vilji á bak við tillöguna. Það á auðvitað að virða þann vilja.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég trúi því ekki að þessi niðurstaða sem hæstv. ráðherra stendur að verði samþykkt í þinginu. Það er auðvitað niðurlægjandi fyrir þingið að gera það og þegar hv. þingmenn, stjórnarliðar, mæta í þingsal og þurfa að svara því við nafnakall hvort þeir séu tilbúnir að samþykkja þessa niðurstöðu verða þeir auðvitað minntir á áður en það nafnakall fer fram um hvað málið snýst. Það snýst um að þeir sem voru í þingsal á sínum tíma þegar þingsályktunartillagan var samþykkt snúi við blaðinu og taki aðra afstöðu en þeir höfðu þá. Og það snýst um það, ef niðurstaðan verður sú sem hæstv. ráðherra vill, að hér verði einu sinni sýnt fram á hvaða ofurtök ríkisstjórnin hefur á stjórnarliðinu. Það sé bara eins og sprellikarlar, hægt sé að kippa í spottann þegar ríkisstjórninni dettur það í hug. Þegar einhverjum hæstv. ráðherra dettur í hug að fara með mál í gegnum Alþingi skiptir engu máli þó að þingmenn hafi greitt atkvæði einhvern tíma öðruvísi áður. Ef ráðherra vill skal handleggurinn upp og á takkann, þann græna.

Háttvirtur formaður sjávarútvegsnefndar hefur ekki komið mikið til umræðu í dag. Hann mun ekki hafa verið einn af þeim sem greiddi atkvæði með málinu á sínum tíma. Hann sat þá í ríki sínu í Vestmannaeyjum. En hann ber ábyrgð í þessu máli, formaður sjávarútvegsnefndar. Hann ber sko sannarlega ábyrgð í þessu máli vegna þess að sjávarútvegsnefndin sjálf sameinaðist um þingsályktunartillöguna. Þótt hv. formaður sjávarútvegsnefndar hafi ekki verið í henni þá þá ætti hann að bera virðingu nefndarinnar fyrir brjósti og ekki ganga fram eins og þræll hæstv. sjávarútvegsráðherra í sal Alþingis, bara með það sem hann vill.

Það vantar eitthvað upp á að menn standi í lappirnar í sölum Alþingis. Mér finnst að stjórnarliðar þurfi að hugsa sitt mál betur. Það er ekki vansalaust hve oft þeir eru látnir greiða atkvæði, augljóslega gegn vilja sínum. Það getur ekki verið, t.d. í þessu tilfelli, að svo margir séu viljugir til að greiða atkvæði öðruvísi en þeir greiddu atkvæði fyrir fimm árum. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur ekki með neinum hætti útskýrt hvað breyttist. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson spurði vendilega um hvað hefði breyst. Hæstv. ráðherra útskýrði það ekki svo að neitt hefði breyst. Ekki gat ég skilið það. Enda hefur nákvæmlega ekkert breyst annað en að nú, kannski svolítið fyrr en menn reiknuðu með, er komið að því að leggja niður sjóðinn. Ekki geta það verið rök fyrir því að fara ekki að vilja Alþingis. Það get ég ekki ímyndað mér.

Ég held að hæstv. forseti Alþingis hljóti að vera hugsi yfir þessu öllu saman. Hann hlýtur að bera virðingu Alþingis fyrir brjósti og hæstv. forseti Alþingis ætti alltaf að vera í brjóstvörninni fyrir virðingu Alþingis. Hann ætti auðvitað að hafa miklar áhyggjur af því ef hægt gengur að fylgja eftir niðurstöðum sem orðið hafa á Alþingi, ályktunum Alþingis. Hann hlýtur að hafa miklar áhyggjur af því ef menn ætla að hunsa þann vilja sem Alþingi hefur staðfest hér í þingsal.

Það hlýtur að vera komið að því að menn fari að ræða þessi mál. Mér finnst þetta mál prýðilegt dæmi til að menn fari yfir það hve langt er hægt að ganga gegn því sem hefur verið samþykkt í þessum þingsal. Ég sagði fyrr í dag að ég tel að það hefði verið allt annað ef ríkisstjórnin, og þá menntamálaráðherrann og sjávarútvegsráðherra, hefðu báðir mætt með hugmyndir um hvernig eigi að uppfylla þessa þingsályktun, ef það hefði legið fyrir með hvaða hætti menn ætluðu að gera það. Þá hefðu menn getað metið það í þingsal hvort vilja Alþingis væri með því fullnægt. Þær upplýsingar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur komið með í umræðuna í dag benda alls ekki til þess að botn hafi fundist í það með hvaða hætti eigi að fjármagna varðveislu gamalla skipa og báta, eins og lögð voru drög að að yrði gert með áðurnefndri ályktun.

Hæstv. forseti. Ég man eftir þó nokkuð mörgum umræðum í sölum Alþingis frá því að lögin um þróunarsjóð voru með þeim hætti sem ég nefndi fyrr í ræðu minni, þ.e. meðan kvaðir voru á útgerðarmönnum sem fengu fjármuni úr sjóðnum um að þeir skyldu eyða þessum skipum. Þessum ákvæðum var fylgt býsna hart eftir. Það voru meira að segja sett upp heilu portin til þess að safna bátum í og því fylgt eftir að búið væri að saga nógu mikið úr eða kveikja í skipunum sem ætti að borga út, að örugglega væri búið að tortíma þeim þannig að ekki væri hægt að gera við þau. Þetta var ótrúleg hugmynd sem þar var fylgt eftir. Mér finnst að þeir sem bera ábyrgð á því ferli þurfi að koma til skjalanna og standa sig betur en þeir hafa gert fram að þessu í að bjarga því sem bjargað verður.

Þessi saga verður örugglega skrifuð einhvern tíma. Hún verður ekki þeim mönnum til frægðar sem þar báru ábyrgðina. Það var aldrei þörf á að gera hlutina með þessum hætti. Meira að segja þó að menn hefðu skrifað upp á allt sem þarna var gert þá var nóg að koma í veg fyrir að skipin fengju veiðileyfi. Það þurfti ekki að gera kröfu um að eyðileggja þau. En nei, nei, það var ekki nóg. Það varð að tortíma þeim.

Þarna var þjónað hugmyndum manna sem höfðu of mikil völd í þjóðfélaginu á þessum tíma og þeir fengu sitt fram. En auðvitað var ábyrgðin ekki hjá þeim. Ábyrgðin var hér í sölum Alþingis og getur aldrei verið annars staðar. Henni verður ekki kastað á menn úti í bæ. Hún á heima hér. Það er að mínu viti þess vegna sem þessi þingsályktun var samþykkt í sölum Alþingis. Ég taldi mig a.m.k. standa að þingsályktun sem orðið hefði til vegna þess að mönnum fyndist ástæða til — þar sem þessi vitleysa, þessi herför gegn skipum og bátum var ákveðin hér — að í þessum sama sal kæmu menn til baka með einhverja björgun. Til þess var þessi þingsályktun að mínu viti. Hún var til að bæta svolítið fyrir þessi alvarlegu brot.

En hæstv. sjávarútvegsráðherra virðist á annarri skoðun. Hann hefur þó verið á Alþingi allan þennan tíma og ber ekki minni ábyrgð en aðrir á þessu, á þessari herför, þessari eyðingarferð sem fram fór. Hæstv. forseti Alþingis ber líka ábyrgð. Mér finnst að hann hljóti að hafa áhyggjur af því að því sé ekki fylgt eftir sem Alþingi samþykkti fyrir fimm árum hvað þetta varðar. Ef menn ætla sér síðan að hlaupa frá þeirri samþykkt alfarið, eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra vill, þá hlýtur hæstv. forseti að hafa áhyggjur af því. Hann er auðvitað í forsvari fyrir virðingu Alþingis og hugsar um hana alla daga.

Ekki veit ég hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem hefur þó sýnt okkur þá virðingu að vera viðstaddur þessa umræðu og hlusta á það sem hér hefur verið sagt, hefur tekið mikið mark á orðum okkar. Svo var ekki að heyra á síðustu ræðu hans. En mér finnst að hann ætti að gera það. Mér finnst að hann eigi að viðurkenna ábyrgð sína á herförinni gegn gömlum skipum og bátum í landinu. Hann samþykkti hana og fylgdi henni eftir. Ég veit ekki betur en að hann hafi gert það nauðungarlaust. Hann hefur a.m.k. aldrei, svo ég viti til, talað um annað. Hann leiðréttir mig þá ef ég fer með rangt mál hvað það varðar.

En hvernig sem fortíðin er hjá hæstv. ráðherra þá finnst mér að hann, sem maður sem getur ráðið einhverju hvað þetta varðar, eigi að ganga fram og sýna að þeir sem stóðu fyrir þessu öllu saman séu tilbúnir að leggja eitthvað á sig til að bjarga því sem bjargað verður. Það var það sem menn ætluðu sér með títtnefndri þingsályktun.

Það er mikill skaði að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki vera hér. Hún hefði þurft að fara betur yfir það hver ætlunin væri að gera í málinu. Það er undarlegt ef hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki haft áhuga á að sækjast eftir þeim fjármunum sem Alþingi benti ráðherra á að nýta í þessu skyni. Mér finnst hæstv. menntamálaráðherra alls ekki hafa staðið sig í stykkinu ef hún hefur ekki gert það. Orð hæstv. sjávarútvegsráðherra benda ekki til þess að hæstv. menntamálaráðherra hafi gert harða hríð að því að nálgast fjármuni í Þróunarsjóði, sem var þó meira en ástæða til að gera. Ég lít a.m.k. á það sem skyldu hæstv. menntamálaráðherra að nýta sér þá möguleika sem fyrir hendi eru til að fylgja eftir ályktunum Alþingis. Í sjálfri ályktuninni er gert ráð fyrir því að einhverjir fjármunir komi úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins og þá hlýtur hæstv. menntamálaráðherra að fylgja því eftir. Ráðherra á auðvitað ekki að gefa það eftir að fá eitthvað gegnum þá ályktun í það verkefni sem hæstv. ráðherra er ætlað að vinna að. Það hefði þess vegna verið full ástæða til að hæstv. menntamálaráðherra hefði verið hér og gefið skýrslu.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem gegnir nú starfi menntamálaráðherra, hlýtur, ef sá möguleiki hefur verið fyrir hendi undir umræðunni núna, að hafa haft samband við hæstv. menntamálaráðherra og spurt hvort hæstv. menntamálaráðherra vildi koma einhverju á framfæri um hvað hann hefði verið að sýsla varðandi fjármögnun þess verkefnis sem fólst í þingsályktuninni. Menn vilja fá útskýringu á því af hverju menntamálaráðherra hefur ekki sóst eftir fjármunum til verkefnisins. Ég fer fram á það að hæstv. sjávarútvegsráðherra leiði okkur í allan sannleika um þetta úr því að hann er í hlutverki menntamálaráðherra. Ég tel að það sé full ástæða til þess.

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi komið því á framfæri sem ég vildi segja. Ég tel að það sé full ástæða til þess að ræða málið eins og gert hefur verið í dag. Ég held reyndar að við í sölum Alþingis höfum ekki staðið okkur nægilega vel á undanförnum árum í að ræða um þau málefni sem búa að baki, þau menningarverðmæti sem um er að ræða og það mikla slys og ótrúlega skilningsleysi á þessum menningarverðmætum sem herförin, sem fjármunir úr þróunarsjóði voru notaðir til, hafði í för með sér. Ég held að nú ætti að vera komið að þeirri stundu að þeir sem mesta ábyrgð bera á þeirri herför leggi sitt af mörkum og sjái til þess að gert verði átak sem eitthvað munar um. Sú tillaga sem núna liggur fyrir frá minni hluta sjávarútvegsnefndar er tilraun til að tryggja fjármuni í slíkt átak en ekki síst til að bjarga Alþingi frá þeirri niðurlægingu að ályktanir þess séu virtar að vettugi.



[19:46]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hversu lengi hann hyggist halda áfram umræðunni.

Einnig vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann geti hér úr ræðustóli lagt okkur hv. þingmönnum til leiðbeiningu í umræðum um þetta mál. Mér finnst það hafa komið fram í umræðunum í dag að með þingsályktanir eins og við höfum verið að ræða hér bæri lítið að gera, að ekki þyrfti sérstaklega að gæta þess að þær gengju fram eftir efni sínu. Þar sem ég veit að hæstv. forseti er með þingreyndustu mönnum og þekkir þingsköp og alla málsmeðferð inn og út þá vil ég beiðast þess að hann upplýsi okkur hv. þingmenn um hvað honum finnist um það ef sú staða kemur upp að við ljúkum máli þessu án þess að samþykktin sem gerð var hér á hv. Alþingi með samhljóða atkvæðum 49 þingmanna fái með neinum hætti afgreiðslu.



[19:47]
Forseti (Halldór Blöndal):

Af þessu tilefni vil ég segja að ég hafði hugsað mér að ljúka þessu máli.

Svo er um þingsályktanir að þær beinast að öllu jöfnu til einstakra ráðherra. En að sjálfsögðu getur Alþingi endurskoðað afstöðu sína og hrundið fyrri ályktun með annarri nýrri eins og hv. þingmanni er kunnugt.



[19:48]
Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú veit ég svo sem ekki hversu margir eru á mælendaskránni. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forseti ætli að halda umræðunni áfram. En ég hefði áhuga á því að vita hve lengi hæstv. forseti ætlar að gera það. Varla getur það nú verið mjög lengi því að ekki hefur verið gert ráð fyrir að hér verði kvöldfundur. Mig langar því að spyrja hæstv. forseta hversu lengi umræðan eigi að standa. Mun henni ljúka hversu lengi sem hér verður talað í þessum ræðustól?

(Forseti (HBl): Ég hafði sagt að ég hafði hugsað mér að ljúka umræðunni, hv. þingmaður. Það eru tveir hv. þingmenn á mælendaskrá og ég hygg að það eigi að vera unnt að ljúka umræðunni í kvöld. Það eru mörg mál sem bíða afgreiðslu og gott ef hægt verður að ljúka þessu máli.)

Hæstv. forseti. Mér finnst það ekki góð framkoma við hv. þingmenn ef ekki er gert ráð fyrir því þegar menn ætla hér að hafa kvöldfundi. Mér finnst þess vegna að þegar það stendur til þá eigi að koma því á framfæri þannig að þingmenn geti mætt hér til þeirrar umræðu sem er ef það á að hafa hana fram eftir kvöldi og menn geti gert ráð fyrir því.

Það er líka þannig að ekki hefur verið gert ráð fyrir neinu matarkyns fyrir þingmenn. Það er nú ekki venja heldur að hér séu langir fundir fram eftir kvöldi án þess að þannig sé fyrir hlutunum haft. Hæstv. forseti er að taka upp ný vinnubrögð ef hann ætlar ekki að gera vel við sína þingmenn. Hann hefur fram að þessu gert það og ég hef svo sem litla ástæðu til að halda að hann ætli að bregða þeim vana sínum, en spyr að því svona í leiðinni.



[19:50]
Forseti (Halldór Blöndal):

Nú er það svo að tveir hv. þingmenn eru á mælendaskrá en fyrir liggur að hæstv. ráðherra getur ekki verið við á morgun. Ég hafði haldið að þessir tveir hv. þingmenn kysu að beina máli sínu til ráðherra frekar en að halda ræðu sína á morgun þegar hæstv. ráðherra getur ekki verið við. Nú veit ég ekki hvað þeir segja um það sem ekki hafa talað sig dauða.



[19:51]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Undir þessum lið um fundarstjórn forseta vil ég vekja athygli hæstv. forseta á því að sú þingsályktun sem komið hefur hér mikið inn í umræðuna í dag og verið bitbein í þessari umræðu dálítið var samþykkt með því fororði að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar en ekki einstaks ráðherra og hefði átt að framkvæmast sem slík eftir efni sínu. Við höfum hins vegar kannski fullan skilning á því í hv. Alþingi að málið geti verið með þeim hætti vegna stöðunnar í Þróunarsjóðnum að menn vilji hinkra með niðurstöðu málsins.

Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta þingsins að menntamálaráðherra komi hér til umræðunnar á morgun. Þar sem sjávarútvegsráðherra er nú bæði sjávarútvegsráðherra og menntamálaráðherra í dag þá fáum við væntanlega menntamálaráðherra hér á morgun ef hann víkur af þinginu annarra starfa vegna og þá gætum við átt málefnalega umræðu við hæstv. menntamálaráðherra um þetta mál. Það væri fróðlegt að fá það upplýst hvort málið sé þannig í pottinn búið að hæstv. menntamálaráðherra verði hér viðstaddur umræðuna ef hún gæti haldið áfram á morgun, hæstv. forseti.



[19:53]
Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að við erum hér að tala við 3. umr. og þetta mál fellur ekki undir hæstv. menntamálaráðherra.



[19:53]
Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér er svolítill vandi á höndum. Ég vil byrja á að þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir að vera hér við umræðuna. En nú er ég næstur á mælendaskrá og eftir að ég hef talað þá má ég ekki tala meira í þessu máli.

Ég hefði viljað eiga möguleika á því að eiga orðastað við hæstv. menntamálaráðherra og þá í framhaldi af orðum hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hefur vísað ábyrgð á parti þessa máls til hæstv. menntamálaráðherra jafnvel þó að það frumvarp sem við erum að ræða hér heyri ekki undir þann hæstv. ráðherra.

Það sem ég þyrfti helst á að halda fyrir seinni ræðu mína í þessu máli, af því að nú er þetta 3. umr. eins og hæstv. forseti hefur bent á, er að geta átt orðastað við báða hæstv. ráðherrana á þessum fundi

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að það mál sem við fjöllum um hér fellur ekki undir hæstv. menntamálaráðherra. Það er af þeim sökum fullkomlega óeðlilegt að setja fram slíkar kröfur. Ég vil beina því til hv. þingmanns að vera þinglegur í sinni ræðu.)

Virðulegi forseti. Ég vil víkja aðeins að hinum hlutanum sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vísaði til virðulegs forseta um það hvernig eigi að taka ályktunum þingsins, þingsályktunum sem hér eru samþykktar. Ég vil eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vísa þá til mikillar þingreynslu hæstv. forseta og ekki síður til þess að sú þingsályktunartillaga sem hv. þingmaður vísaði til kom hér til afgreiðslu og hæstv. forseti greiddi þeirri þingsályktunartillögu atkvæði sitt á þeim tíma. Ég spyr hvort það sé yfirleitt venja að flokka texta þingsályktunartillögu í aðalsetningar sem fara á eftir og aukasetningar sem enginn þarf að fara eftir. Ástæðan fyrir þessari spurningu er einfaldlega sú að hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði hér í umræðunni um þá þingsályktunartillögu sem verið er að vísa hér til um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins, sem nú á að fara að leggja niður, ætti að taka þátt í að fjármagna varðveislu báta og skipa, að þetta væri bara aukasetning þar sem þróunarsjóðurinn væri nefndur og því bæri ekki að taka það þannig að það þyrfti í sjálfu sér að fara eftir því.



[19:57]
Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á að hann er hér kominn í efnislegar umræður. Hv. þingmaður kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta og ég vil biðja hv. þingmann að fara að þingsköpum. Hv. þingmaður hefur beðið um orðið. Það er eðlilegt að hv. þingmaður geymi almennar (Gripið fram í.) vangaveltur til þess ... Nóttin er löng og ég vil biðja hv. þingmann að taka tillit til þess sem forseti segir. Það er hlutverk forseta að halda hér uppi röð og reglu. Ég vil biðja hv. þingmann að taka tillit til þess. Umræðutíma hv. þingmanns er lokið.



[19:57]
Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur komið fram að á Alþingi hefur verið samþykkt tillaga til þingsályktunar um að veita skuli fjármagn úr sjóði sem hér er verið að samþykkja að leggja niður án þess að brugðist hafi verið við samþykkt þingsályktunartillögunnar.

Þegar umræðu um þetta mál lýkur, ef henni lýkur með þessum hætti eins og hér er stefnt að, og það verður samþykkt þá er í sjálfu sér tillagan til þingsályktunar sem Alþingi samþykkti á 125. löggjafarþingi marklaus þannig að þá ... (Forseti hringir.)

(Forseti (HBl): Ég vil benda hv. þingmanni, sem er kurteis maður, á að hann kvaddi sér hljóðs til að tala um fundarstjórn forseta. Nú hefur hv. þingmaður dottið í þá gryfju að hefja efnislegar umræður og mér virðist sem hv. þingmaður vilji ekki taka tillit til orða forseta. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hyggist hlýða ábendingum forseta eða ræða um efnisatriði málsins.)

Ég þakka fyrir góðar ábendingar hæstv. forseta. Beiðnin snýr að því að forseti fresti nú fundi.

(Forseti (HBl): Ég hef áður sagt að ég hafi hugsað mér að ljúka umræðunni.)

Já. Þá eru það ábendingar þingmannsins til forseta að hann endurskoði þá afstöðu sína og í ljósi einmitt stöðu málsins, þ.e. að hér er verið að ganga mjög á rétt Alþingis ef frumvarpið verður samþykkt án þess að vilji Alþingis sem kemur fram í þingsályktunartillögu sem hér hefur verið rætt oft um (Forseti hringir.) nái fram að ganga. Ábending mín til hæstv. forseta er sú að hann endurskoði afstöðu sína um frestun fundar og fresti fundi þannig að hægt verði að fara betur ofan í málið.



[19:59]
Forseti (Halldór Blöndal):

Forseti á erfitt með að sjá hvernig Alþingi getur samþykkt frumvarp gegn vilja sjálfs sín (JBjarn: Það er vandi ...) eins og hv. þingmaður hafði sagt. (JBjarn: Það er vandi forseta greinilega að ráða fram úr þessum vanda.)



[20:00]
Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að ræða fundarstjórn forseta. Ég velti fyrir mér hvort ekki gildi sömu reglur um alla þingmenn í þingsal þegar kemur að fundarstjórn hæstv. forseta. Ég kem upp til að spyrja viðbótarspurningar við spurningu sem forseti svaraði hér öðrum hv. þingmanni og gerði engar athugasemdir við að sá hv. þingmaður bæri þá spurningu hér upp. Þess vegna taldi ég í sakleysi mínu að mér væri óhætt að koma hér í sama stól og bera upp sams konar spurningu eða spurningu sem var viðbót við spurningu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar.

(Forseti (HBl): Ég gaf hv. þingmanni orðið til þess að hann geti borið fram þá spurningu.)

Þakka þér fyrir, virðulegur forseti. Ég var að velta fyrir mér, í ljósi þingreynslu forseta, hvort hægt væri að vísa til þess í þingsályktunum sem þingið hefði samþykkt með miklum meiri hluta að þar væri einhver partur sem ekki bæri að taka mark á, að þar væru einhverjar aukasetningar eins og í þeirri þingsályktun sem menn hafa verið að ræða hér og skiptir miklu máli í þessari umræðu, því að eftir að búið er að samþykkja lög um að leggja niður þróunarsjóðinn gerist ekkert meira varðandi það. Ef hæstv. forseti getur svarað þessari viðbót við spurningu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar þætti mér vænt um það og vísa þá kannski til þess að það skiptir máli upp á framhald umræðunnar og þar af leiðandi fundarstjórn, hvort hv. menntamálaráðherra verður hér í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast.



[20:02]
Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg sáttur við að hæstv. forseti ætli að láta umræðuna ganga fram eftir kvöldi án þess að mönnum verði gefinn kostur á að gera hlé og fá einhverja næringu. Ég mótmæli því líka að farið sé í kvöldfundi fram eftir nóttu eins og hæstv. forseti lét í veðri vaka áðan án þess að gert sé ráð fyrir því. Ekki var gert ráð fyrir neinum kvöldfundi í dag og er það brot á þeim hefðum sem hæstv. forseti hefur virt fram að þessu að láta það ekki berast ef gert er ráð fyrir kvöldfundum. Mér finnst hæstv. forseti vera að þjóna svolítið geðslagi sínu ef hann tekur einhverjar skyndiákvarðanir um að hafa kvöldfundi algjörlega án þess að vita hversu lengi þeir muni standa og án þess að láta þingmenn með nokkrum hætti vita af því. Mér finnst það ekki góð fundarstjórn hjá hæstv. forseta ef það er reyndin að svo sé og mælist til þess við hæstv. forseta að hann hugsi sinn gang hvað þetta varðar. Hér eru þingmenn á mælendaskrá og þingmenn sem eiga eftir möguleika til að ræða málið betur og hér er fullkominn ágreiningur um framgang mála.

Hæstv. ráðherra sem verið hefur við umræðuna í dag hefur ekki gefið kost á neinu samkomulagi. Mér finnst full ástæða til að þetta mál fái meiri umræðu í framhaldinu og þeim þingmönnum sem ekki hafa haft hugmynd um að til stæði að hafa kvöldfund verði gefinn kostur á því að koma hér til skjalanna því það eru margir sem hafa áhuga á málinu. Það veit ég vel um.



[20:04]
Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að við stöndum hér og ræðum málefni þróunarsjóðsins er sú að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem gerir ráð fyrir að sjóðurinn verði lagður niður fyrr en gildandi lög gera ráð fyrir. Með öðrum orðum: Lagatextinn um þróunarsjóðinn er ekki óumbreytanlegur eins og hæstv. ráðherra virðist kjósa að halda fram nánast hér úr ræðustól. Hann talar eins og ekki sé hægt að breyta lögunum sem kveða á um að fjármunir þróunarsjóðs eigi að renna til hafrannsókna á sama tíma og hæstv. ráðherra leggur sjálfur fram frumvarp til laga um breytingar á þeim sömu lögum sem eru talsverðar. Ekki átti að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins fyrr en árið 2009. Ef hæstv. ráðherra kæmi ekki fram núna með frumvarp um að flýta niðurlagningu sjóðsins værum við ekki að ræða það hvernig gengi að láta þróunarsjóðinn standa sína plikt gagnvart þeirri þingsályktun sem samþykkt var á sínum tíma. Við stæðum kannski hér og veltum því fyrir okkur hvað hæstv. ráðherrar menntamála og sjávarútvegs ætluðu að gera á næstu árum, 2006, 2007, 2008 og 2009, ef sjóðurinn ætti að starfa til ársins 2009. Hve miklir fjármunir ættu að renna á þessum árum í það verkefni sem hæstv. sjávarútvegsráðherra upplýsir að sé á könnu hæstv. menntamálaráðherra, hve miklir fjármunir ættu að renna í að gera það sem fram kemur í tillögum þeirrar nefndar sem skipuð var í framhaldi af þingsályktuninni?

Eftir því sem hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði liggja núna fyrir hjá hæstv. menntamálaráðherra tillögur nefndar sem leggur til ákveðna hluti til að vernda gömul skip og báta, en fjármununum sem fylgja áttu, m.a. úr þróunarsjóðnum sem nú er verið að leggja niður, er í raun verið að koma undan til að þeir lendi ekki í því skelfilega verkefni, virðist manni, sem er að vernda gamla báta og gömul skip.

Frumvarpið sem við ræðum nú í 3. umr. gerði ráð fyrir að sjóðurinn yrði lagður af 1. júlí árið 2005. Sjávarútvegsnefnd gerði breytingartillögu sem segir að betra sé að bíða til 1. október á þessu ári. Ástæðan var sú að ekki er búið að gera upp sjóðinn og menn töldu að lengri tíma þyrfti til að gera upp allar eignir hans og greiða upp skuldir þannig að það lægi alveg hreint fyrir hvaða fjármuni sjóðurinn hefði.

Það er sem sagt lagt til að breyta því frumvarpi sem hæstv. ráðherra lagði fram og telur óumbreytanlegt, sjávarútvegsnefnd lagði til breytingartillögu við frumvarpið við 2. umr. og hefði alveg eins getað, eins og við ætluðum okkur í minni hlutanum, komið með tillögur um að Alþingi virti þann vilja sem fram kom þegar þingsályktunin var samþykkt, og eyrnamerkt ákveðna fjármuni úr sjóðnum fyrst fara á að leggja hann niður, í það verkefni að vernda gömul skip og báta.

Á sínum tíma þegar lögin um þróunarsjóðinn voru sett var Verkefnasjóður sjávarútvegsins ekki til. Það stóð ekkert í þeim lögum að þeir fjármunir sem eftir yrðu árið 2009 ættu að ganga í einhvern sjóð sem héti Verkefnasjóður sjávarútvegsins, hann var ekki til þá. Það stóð jú að þeir ættu að renna til hafrannsókna en ekki í gegnum einhvern sjóð sem vistaður er í sjávarútvegsráðuneytinu þar sem þrír starfsmenn ráðherra eru í sjóðstjórn og nánast innanhússmál í hvað þeir peningar færu sem koma í þennan Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Hæstv. ráðherra stóð ekki við það loforð sem hann gaf sjávarútvegsnefnd á sínum tíma varðandi þennan sjóð, að okkur yrðu kynntar reglur um úthlutanir úr honum áður en þær yrðu settar og að við fengjum að vita eitthvað um hverjir ættu að tilnefna eða hverjir ættu að koma í stjórn sjóðsins áður en til þess kæmi. Bæði þessi loforð sem gefin voru á fundum sjávarútvegsnefndar um Verkefnasjóð sjávarútvegsins voru svikin. Við nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd stóðum frammi fyrir gerðum hlut. Búið var að setja ákveðnar reglur um hvernig úthlutanir úr verkefnasjóðnum færu fram og búið var að tilnefna þrjá starfsmenn ráðuneytisins í stjórn sjóðsins. Nú er verið að veita enn meiri peninga í þennan verkefnasjóð en gert var ráð fyrir áður að færu þangað. Það er ekki lítil breyting. Samt sé ég ekki að hæstv. ráðherra beri neinn kinnroða fyrir því að koma fram með þessa breytingu á lögum um þróunarsjóðinn.

Í frumvarpinu eins og ráðherra lagði það fram við 1. umr. var gert ráð fyrir að andvirðinu yrði varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar. Með öðrum orðum eins og ráð var fyrir gert í þróunarsjóðslögunum, að það væri Hafrannsóknastofnun sem fengi þessa peninga beint til sín og þeir gengju síðan til hafrannsókna á vegum þeirrar stofnunar. Meiri hluti sjávarútvegsnefndar, og reyndar tók minni hlutinn undir það í áliti sínu, taldi að hægt væri að breyta þessu og lagði til breytingartillögu sem gerir ráð fyrir að andvirðinu verði varið til hafrannsókna en ekki til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar.

Aftur er gerð breyting á því frumvarpi sem ráðherra lagði fram. Aftur gerir sjávarútvegsnefnd breytingu á því frumvarpi og hæstv. ráðherra kippir sér ekkert upp við það. En þegar menn draga upp þingsályktunina sem samþykkt var á 125. þingi 1999–2000 og benda á að þarna sé ákveðin kvöð sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins þurfi að uppfylla, þá snýst hæstv. ráðherra öndvert við og segir: Það er ekki hægt að standa í því að breyta einhverju sem stóð í lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

Ég verð að segja alveg eins að þó að ég hafi ekki setið lengi á þingi þykja mér það öfug rök að koma fram með breytingar sjálfur, sjávarútvegsnefnd kom fram með breytingar eftir yfirferð sína, og þegar menn draga upp kvöð sem hvílir á sjóðnum og benda á það þá segir hæstv. ráðherra: Þetta kemur mér ekki við, það er annar ráðherra sem á að sjá um þetta. Haldið þið að við getum tekið eitthvað af þeim peningum sem áttu að fara til hafrannsókna og sett í eitthvert svona verkefni? Nei, mér finnst við eigum ekki að gera það.

Með öðrum orðum: Hæstv. ráðherra segir, þegar hann lýsir þessu yfir, að vilji hans, skilningur hans eigi að vera umfram skilning og vilja Alþingis.

Það er kannski óþarfi að eyða löngu máli í að fara yfir hlutverk þróunarsjóðsins — ég eyddi löngu máli á síðasta þingi í að fara yfir reikningsskil og eignir og annað því um líkt hvað sjóðinn varðar og ætla ekki að fara að gera það aftur nú — en sjóðurinn hefur starfað frá árinu 1994. Hlutverk hans var að veita styrki til úreldingar á fiskiskipum og einnig að kaupa fasteignir sem nýttar voru í fiskvinnslu og framleiðslutæki sem fylgdu þeim. Það sem við sáum einna helst var að hann var að greiða úreldingarstyrki til að minnka sóknargetu flotans, eins og það var kallað á þeim tíma, til að fækka skipum og gera greinina arðbærari fyrir þau skip sem eftir yrðu. Það verður reyndar að segjast eins og er að þrátt fyrir að mörg skip hafi verið úrelt minnkaði aldrei sóknargeta flotans. Þau skip sem komu ný inn í flotann voru með mun meiri sóknargetu en þau skip sem út féllu. Ég held að sóknargeta flotans hafi aldrei verið meiri en nú um stundir.

Sjóðurinn hafði á árunum 1994–1997 atbeina að því að 459 skip voru afskráð, 459 fleytur. Við sem vorum í greininni á þessum tíma munum hvernig farið var með þau skip og þá báta sem verið var að úrelda. Eyðileggingaræðið var algjört. Tortryggnin gagnvart því að þessar fleytur yrðu dregnar aftur á sjó síðar til að veiða fisk var slík að það varð með öllum ráðum að eyðileggja þessi skip þannig að það væri algjörlega hundrað prósent tryggt að þau gætu aldrei farið á sjó aftur, hvað þá farið að veiða fisk. Hvernig var þessum skipum eytt? Þau voru söguð niður. Ef það voru plastbátar voru þeir sagaðir niður þannig að þeir gætu aldrei verið settir saman aftur. Þeir voru eyðilagðir á þann hátt að ekki var hægt að bjarga þeim. Hluti þeirra var reyndar seldur úr landi til þróunarlanda, aðallega smábátar. Svo voru það gömlu eikarskipin, gömlu trébátarnir sem báru uppi vertíðarflotann á suðvesturhorni landsins og voru þar í hverri höfn fjölmargir og af öllum stærðum og gerðum.

Ég man eftir því sem strákur við höfnina í Sandgerði að það var ekki lítið af þessum bátum þar. Ég man líka alltaf eftir því þegar sýnt var í sjónvarpi þegar verið var að eyðileggja eikarbát, fallegan eikarbát í eikarlit og fánalitunum eins og oft var með þessa eikarbáta. Þetta var ekki stór bátur, 12–15 tonna bátur, það var sýnt í sjónvarpi þegar verið var að eyða þeim bát og það var gert með öxum. Hann var hogginn niður, bátur sem ekkert var að, til að koma í veg fyrir að hann gæti nokkurn tíma farið á sjó aftur. Sjóði sem hefur staðið fyrir slíkum hlutum, sjóði sem hefur staðið fyrir því að hvetja til, borga fyrir og stuðla að því að þjóðarverðmæti séu eyðilögð á þann hátt sem ég var að lýsa hér, ber að gera eitthvað í því þegar menn segja að við þurfum að reyna að bjarga því sem eftir er, við verðum að reyna að bjarga einhverju af þessum þjóðararfi sem við eigum þó hér enn þá.

Með öðrum orðum er verið að breyta lögum um þróunarsjóð á Alþingi. Verið er að breyta því frumvarpi sem ráðherra lagði fram í upphafi umræðunnar. Það eru engin rök að ekki sé hægt að taka tillit til þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti með 49 atkvæðum og breyta lögunum með tilliti til hennar. Það eru falsrök að halda því fram að þar sem um þingsályktunartillögu sé að ræða þurfi ekki að taka mikið mark á henni. Sérstaklega, eins og ég lýsti í fyrri ræðu minni, þegar við horfum til þess hvernig þingsályktunartillagan verður til. Hún verður til í framhaldi af því að menn leggja fram lagafrumvarp um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, nákvæmlega það sama og verið er að gera hér. Sjávarútvegsnefnd, menn úr öllum flokkum, taldi sig vera að tryggja það með þingsályktunartillögunni að fjármunir frá þróunarsjóði mundu renna til þessa verkefnis, að vernda gömul skip og báta. En ef þetta er réttur skilningur voru þeir einfaldlega vélaðir til að breyta frumvarpi í þingsályktunartillögu sem hæstv. ráðherrar telja að þeir þurfi ekki að fara eftir eða taka neina ábyrgð á.

Það eru hæg heimatökin hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að spyrja núverandi ráðuneytisstjóra sinn, Vilhjálm Egilsson, um það með hvaða hætti frumvarpinu var breytt í þingsályktunartillögu, því samkvæmt gögnum þingsins sat Vilhjálmur Egilsson í sjávarútvegsnefnd á þeim tíma sem þetta var gert. Það eru því hæg heimatökin að forvitnast um það frá fyrstu hendi frá ráðuneytisstjóra sjávarútvegsráðuneytisins hvernig farið var að því að breyta frumvarpinu þegar það kom inn eftir 1. umr. í sjávarútvegsnefnd í þá þingsályktunartillögu sem borin var upp á þingi og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Við sem höfum lesið í gegnum umræðurnar sem urðu í kringum þingsályktunartillöguna vitum alveg hvað um var að vera. Umræðurnar gefa algjörlega til kynna hver vilji sjávarútvegsnefndar var á þessum tíma og hver vilji þingsins var. Menn þurfa ekki að velkjast í vafa um það sem lesa í gegnum umræðuna sem varð um þingsályktunartillöguna á sínum tíma. Því verð ég að segja að ég verð fyrir vonbrigðum þegar hæstv. ráðherra kemur og gerir lítið úr, að mér finnst, þingsályktunartillögunni, segir að hún sé ekki á sínu forræði, hún sé hjá menntamálaráðherra, henni beri að uppfylla þingsályktunartillöguna og gerir síðan lítið úr, eins og ég ræddi um við hæstv. forseta um fundarstjórn forseta, setningu í texta þingsályktunartillögunnar sem segir að Þróunarsjóður sjávarútvegsins eigi m.a. að taka þátt í að fjármagna vörslu gamalla skipa og báta.

Ef þetta er ekki algjörlega skýrt þá veit ég ekki hvernig menn eiga að orða tillögur sem fara fyrir þingið til að það fari alls ekki á milli mála hvað menn meina. Ég reikna með að þeir 49 þingmenn sem samþykktu þingsályktunartillöguna á sínum tíma, og hæstv. forseti er í hópi þeirra þingmanna, hafi vitað nákvæmlega hvað þeir voru að samþykkja. Það fer ekkert á milli mála þegar maður skoðar tillöguna og umræðurnar að hv. þingmenn voru að samþykkja að hluti af fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins færi í það verkefni að vernda gömul skip og báta. Allt annað eru hártoganir. Allt annað eru reykbombur sem verið er að skjóta á loft til að reyna að fela hvað verið er að gera. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér hvort það er vísvitandi verið að leggja niður sjóðinn núna áður en einhverjir fjármunir renna úr honum til þessa verkefnis sem um ræðir, til að ekki þurfi að koma til þess að sjóðurinn taki þátt í verndun gamalla skipa og báta.

Ég á bágt með að trúa því að menn séu í alvöru að koma fjármunum sjóðsins undan því verkefni. Ég neita að trúa því, en þannig lítur það út, vegna þess að sjóðurinn á að starfa til 2009. Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra: Á hverju liggur? Ég veit að það kostar að reka sjóðinn á hverju ári, en sjóðurinn hefur ekki lokið hlutverki sínu. Úr því ekki má taka hluta af þeim fjármunum sem eftir verða við uppgjör og færa í þetta verkefni sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir hefur sjóðurinn ekki lokið hlutverki sínu. Hann hefur m.a. það hlutverk samkvæmt þeirri þingsályktunartillögu sem samþykkt var að taka þátt í fjármögnun á varðveislu gamalla skipa og gamalla báta. Undan því verður ekki vikist og mér þykir hálfhlálegt að horfa á með hvaða hætti hæstv. ráðherra reynir að þyrla upp ryki þannig að það felist í orðræðunni og umræðunni hvað verið er að gera.

Fjárlaganefnd þingsins á hverju ári hefur reynt að taka þátt í verkefninu. Á hverju ári er styrkt endurbygging á örfáum bátum, yfirleitt smábátum, og ekki gert ráð fyrir að fjárlaganefnd geti vísað fjármunum í stór verkefni sem mörg hver kalla á mikla fjármuni, heldur má segja að hér sé af veikum mætti verið að styrkja þá viðleitni, aðallega einstaklinga og félagasamtaka vítt og breitt um landið, að reyna að bjarga litlum bátum sem eru að verða eyðileggingu að bráð. Það hefur tekist mjög vel víða með það, en þetta er bara brot af þeirri þörf sem fyrir hendi er og það er okkur til skammar með hvaða hætti við stöndum að varðveislu þeirra gömlu minja sem sjóinn varða. Hér er tækifæri. Hér er tækifæri til að gera átak í þessum málum án þess að finna hjólið upp á nýtt, vegna þess að þingsályktunartillagan liggur fyrir. Vilji Alþingis er skýr og ekki neinum vandræðum undirorpið að framkvæma þann vilja Alþingis sem hér hefur komið fram með mjög skýrum hætti.

Einnig er rétt að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju liggur á að klára umræðuna án þess að hæstv. menntamálaráðherra geti tekið þátt í henni? Það er ekki búið að gera sjóðinn upp enn þá. Við vitum ekki hver endanleg niðurstaða verður í eignum sjóðsins. Því verki lýkur ekki fyrr en einhvern tímann á næstu vikum. Það liggur ekki á þess vegna að klára málið núna einn, tveir og þrír. Gert var ráð fyrir því í frumvarpi ráðherra að sjóðurinn yrði lagður niður 1. júlí. Það er öllum orðið ljóst að það gengur ekki og var breytingartillaga samþykkt eftir 2. umr. um að það yrði 1. október. Þeim mun frekar liggur okkur ekki á að drífa málið af með þeim látum að ekki gefist kostur á því að ræða við þá ráðherra sem búið er að vísa á í umræðunni að hafi með þau málefni að gera sem hér um ræðir.

Getur verið að við séum að verða vitni að einhverri togstreitu á milli ráðherra og milli ráðuneyta? Við vitum að ráðherrar og ráðuneyti reyna að fá ramma sína víkkaða og stækkaða á hverju ári. Við vitum að menn eru ekki tilbúnir að setja mikla fjármuni í verkefnið. Getur verið að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé að segja: Hæstv. menntamálaráðherra hefur með þetta að gera þrátt fyrir að það standi í þingsályktunartillögunni að þróunarsjóðurinn eigi að koma að því. Við skulum líta fram hjá því, tökum alla peningana í verkefni sem heyra undir sjávarútvegsráðuneytið beint, pössum að ekkert af peningunum fari út úr sjávarútvegsráðuneytinu og höldum þeim öllum þar. Hæstv. menntamálaráðherra verður svo bara að eiga við það að uppfylla þingsályktunartillöguna og reyna að koma fyrir þing með hugmyndir um með hvaða hætti eigi að vera hægt að fjármagna það. Getur verið að þetta sé kveikur að því að nú vilja menn leggja niður þróunarsjóðinn og gera það hratt áður en sjóðurinn fer að leggja nokkra fjármuni til verndunar gamalla báta og skipa?

Eins og áður hefur komið fram hjá mér var hæstv. forseti einn af þeim þingmönnum sem samþykkti þingsályktunartillöguna og ég vona að hæstv. forseti hafi ekki breytt um afstöðu til málsins frekar en aðrir hv. þingmenn sem greiddu þingsályktunartillögunni atkvæði sitt á sínum tíma. Því hvað hefur breyst á þeim fimm árum frá því þingsályktunartillagan var samþykkt? Hefur þörfin minnkað fyrir að vernda gömul skip og báta? Nei, ég held að hún hafi aukist frekar en hitt, því eftir því sem tíminn líður þeim mun brýnni verður þörfin á því að vernda þau skip sem um ræðir. Ég held því að þörfin hafi ekki minnkað heldur frekar aukist ef eitthvað er. Eru fjármunirnir í þróunarsjóðnum minni en menn gerðu ráð fyrir? Er það þess vegna sem ekki má taka fjármuni þaðan í þau verkefni sem Alþingi ætlaði þeim að fara í? Nei, það er ekki svo. Það eru meiri fjármunir í Þróunarsjóði sjávarútvegsins en gert var ráð fyrir þegar tillagan var samþykkt á sínum tíma.

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, eru uppi þær aðstæður að það er auðveldara að uppfylla vilja Alþingis nú en fyrir fimm árum vegna þess að það eru meiri fjármunir fyrir hendi í sjóðnum en áður.

Hvað getur valdið því að framkvæmdarvaldið ætlar að komast upp með að hunsa tillögu sem samþykkt var á Alþingi með mjög miklum meiri hluta? Ég verð að taka undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað og lýst undrun sinni á því hvernig hv. stjórnarþingmenn greiða atkvæði oft á tíðum. Það er eins og einhverjir einn eða tveir megi eingöngu hugsa fyrir hjörðina og síðan verði hjörðin að fylgja. Þetta er náttúrlega þekkt í hjarðhegðun hjá sauðfé að það eru forustusauðir fyrir hjörðum. Þegar forustusauðurinn tekur stefnuna lúta allir hinir sauðirnir höfði og elta hann hvert sem hann fer, burt séð frá því hvert hann er að fara. Þeir eru ekkert að hugsa um það. Þeir eru með forustusauð og honum fylgja þeir hvert sem hann fer, í hvaða veðri sem er, við hvaða aðstæður sem er. Jafnvel er dæmi um að jarmandi sauðir sem lúta höfði á eftir forustusauð hlaupa á eftir honum fyrir björg, af því að forustusauðurinn klikkaði einhverra hluta vegna og hljóp fyrir björg, þá fer öll hjörðin þangað. Manni dettur þetta stundum í hug þegar maður sér með hvaða hætti hv. stjórnarþingmenn greiða atkvæði á Alþingi. Nei, ekki lyfta upp höfðinu, það gæti vakið athygli ef ég er með einhverja aðra skoðun en hjörðin. Ekki lyfta upp höfðinu. Lúta höfði og rétta upp höndina eins og allir hinir. Þannig get ég kannski komist til einhverra metorða. Þannig verð ég kannski einhvern tímann alvöru stjórnmálamaður.

Ég held að hæstv. sjávarútvegsráðherra yrði maður að meiri að taka á málinu með okkur, viðurkenna að við það að leggja fram frumvarp um niðurlagningu Þróunarsjóðs sjávarútvegsins hafi honum einfaldlega sést yfir það að á sjóðnum hvíldi ákveðin kvöð sem Alþingi var búin að setja á hann. Nú þegar búið er að fara yfir það mál og rifja upp með hvaða hætti það kom til og með hvaða hætti það var afgreitt sé rétt að taka sér tíma í að kanna með hvaða hætti þróunarsjóðurinn geti tekið þátt í því verkefni. Það er mér að meinalausu að sú breytingartillaga sem minni hlutinn stendur fyrir við 3. umr. sé þess vegna hent út í hafsauga ef mönnum líður betur með það að meiri hlutinn komi með einhverja breytingartillögu, bara að hún tryggi að Alþingi fari að þeim vilja sem lýst var í atkvæðagreiðslu þegar greidd voru atkvæði um þingsályktunartillögu um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins ætti að taka þátt í að vernda gömul skip og gamla báta.

Við megum ekki, alþingismenn, láta spyrjast um okkur að það skipti í raun og veru engu máli hvað sé verið að samþykkja hér svo fremi að það eru ekki lög, að Alþingi geti í sjálfu sér ekki treyst því að þegar búið er að vísa máli til ákveðins fagráðherra verði því fylgt eftir, vilji Alþingis komi fram.

Ég trúi því ekki, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að allur sá fjöldi hv. þingmanna sem greiddi þingsályktunartillögunni atkvæði á sínum tíma sé búinn að skipta um skoðun. Ég trúi því ekki að þeir allir muni lúta höfði og rétta upp hönd, eða ýta á takka eins og við gerum hér í sölum Alþingis, ég trúi því ekki, það yrði að mínu viti endanleg staðfesting á því að framkvæmdarvaldið telur sig ekki þurfa að fara mikið eftir því sem samþykkt er hér á Alþingi nema að það séu lög. Hrein og klár yfirlýsing um það.

Rök um að ekki sé hægt að taka þetta inn í þá breytingu sem við erum að gera á lögunum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins halda ekki. Þau eru bara bull. Við erum hér til að breyta lögunum. Við stöndum í umræðu um það að breyta lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Við virðumst geta breytt þeim á allan hátt annan en þann að fara að vilja þingsins. Það er ekkert því til fyrirstöðu að breyta lögunum þannig að vilji þings nái fram að ganga. Ekki neitt.



[20:32]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil nú spyrja að því hvort standi til að gefa okkur óbreyttum þingmönnum matarhlé. Ég sá að forseti kom hér í salinn 10 mínútur yfir sjö, hafði vonandi notið góðs matar með fjölskyldu sinni og situr hér vel saddur og ánægður. Ég lýsi því hins vegar yfir, virðulegur forseti, að ég tel að það sé komin þörf á það að ég fái að komast nálægt matborðinu núna. Ég óska eftir því að virðulegur forseti fresti fundi um stundarsakir.

(Forseti (HBl): Fundinum er frestað um hálftíma til að hv. þingmenn geti fengið sér kvöldverð.)