131. löggjafarþing — 103. fundur
 5. apríl 2005.
umræður utan dagskrár.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[13:32]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Samkvæmt tæplega ársgamalli þingsályktunartillögu um áætlun í jafnréttismálum eru eftirtalin verkefni á herðum allra ráðuneyta:

1. Jöfnun á kynjahlutfalli í nefndum, ráðum og stjórnum.

2. Skilgreining á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna.

3. Fræðsla um jafnréttismál fyrir stjórnendur og starfsmenn ráðuneytanna.

4. Jafnréttisáætlanir og jafnréttisnefndir ráðuneytanna.

5. Skipun tengiliða jafnréttismála í öllum undirstofnunum ráðuneyta.

6. Jafnréttissjónarmið tryggð við stöðuveitingar.

7. Staða kvenna í ráðuneytunum og undirstofnunum þeirra.

Auk þess ber landbúnaðarráðuneytinu að taka þátt í grasrótarverkefni kvenna, Lifandi landbúnaður – Gullið heima.

Í svari við nýlegri fyrirspurn minni um stöðu jafnréttismála í landbúnaðarráðuneytinu kemur fram að kynjahlutfall í 56 nefndum, ráðum og stjórnum á vegum þess er afar ójafnt, þ.e. 217 karlar á móti 40 konum. Fjórar konur hafa verið ráðnar til starfa en 23 karlar. Ekki hefur verið gerð framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og ekki er að sjá að aðrar skyldur sem þingsályktunin leggur ráðuneytinu á herðar hafi heldur verið uppfylltar. Þó má ljóst vera að á því er einmitt mikil þörf.

Nokkrir frumkvöðlar meðal kvenna í bændastétt hafa á undanförnum árum unnið að auknu jafnrétti innan stéttarinnar. Það hefur ekki verið létt verk og lítinn stuðning að fá frá samtökum bænda en meðal árangurs má þó telja að á síðasta búnaðarþingi var samþykkt jafnréttisáætlun í fyrsta sinn í sögu samtakanna. Víst er að mikið verk er fyrir höndum að vinna það mikla karlavígi sem félagsstarf innan Bændasamtaka Íslands er en það er jafnframt til mikils að vinna að virkja konur í bændastétt til félagsstarfa.

Jafnréttismálum á Íslandi er víða ábótavant og eru þau því miður í sumum tilfellum á leið til verri vegar eins og í fleiri löndum þar sem íhaldsöfl ráða ríkjum. Þessa dagana stendur yfir þing Alþjóðaþingmannasamtakanna þar sem Ísland er vítt og fær atkvæðavægi sitt skert um 30% vegna þess að sendinefnd landsins er aðeins af öðru kyninu. Þetta er í samræmi við samþykkt Sameinuðu þjóðanna sem hefur að markmiði minnst 30% hlut kvenna á þjóðþingum.

Á fundum Evrópusambands sveitarstjórnarmanna hefur aðeins einu sinni setið kona fyrir Íslands hönd. Þar er Ísland líka lesið upp og vítt árlega fyrir slælega frammistöðu í jafnréttismálum. Enginn minnist nokkru sinni á þessar staðreyndir, enda passa karlarnir upp á þagnarsamsærið. Þeir telja það sér í hag.

Landbúnaðargeirinn er líklega á ýmsa lund íhaldssamari en aðrar atvinnugreinar og á meðan sjálft ráðuneytið stendur sig jafnilla og raun ber vitni er kannski ekki von á góðu. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

Telur ráðuneytið sig geta stutt jafnréttisbaráttu kvenna í landbúnaði? Ef svo er, með hvaða hætti?

Hefur ráðherra hugsað sér að nýta sér þau ráð sem tiltæk eru til að jafna stöðu karla og kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins?

Til hvaða ráða hyggst ráðherra grípa til að bæta úr því ófremdarástandi sem nú ríkir í þeim málum innan ráðuneytis hans?

Hefur landbúnaðarráðherra hugsað sér að framfylgja þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum frá 28. maí 2004? Ef svo er, þá hvernig?



[13:36]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr: „Telur ráðuneytið sig geta stutt jafnréttisbaráttu kvenna í landbúnaði? Ef svo er, með hvaða hætti?“

Ég vil í upphafi segja að konur eru máttarstólpar í íslenskum landbúnaði, félagslífi og félagsstarfi sveitanna og verða störf þeirra seint ofmetin. Hins vegar endurspeglast mikilvægi kvenna fyrir atvinnugreinina ekki í stöðu þeirra í félagsstarfi landbúnaðarins. Er það miður og eitthvað sem nauðsynlegt er að bæta úr.

Landbúnaðarráðuneytið hefur stutt dyggilega við bakið á jafnréttisbaráttu kvenna í landbúnaði. Á nýliðnu búnaðarþingi hvatti ég þingið til að vinna að aukinni þátttöku kvenna í félagsmálum bænda. Það þyrfti að breyta þeirri staðreynd að af fulltrúum bænda á búnaðarþingi væru einungis níu konur en 40 karlar. Til að sjónarmið beggja kynja öðlist brautargengi í félagsmálefnum bænda þarf að hvetja konur til virkrar þátttöku í félagsmálum og karlar þurfa auðvitað að hvetja konur og styðja þær til þeirra starfa.

Landbúnaðarráðuneytið hefur stutt Kvenfélagasamband Íslands í fjölþættu starfi þess að jafnréttismálum innan lands sem utan og m.a. styrkt alþjóðlegt starf sambandsins í þágu dreifbýliskvenna. Landbúnaðarráðuneytið hefur jafnframt stutt með mjög virkum hætti við starf Lifandi landbúnaðar sem er grasrótarhreyfing kvenna í íslenskum landbúnaði. Eitt af meginverkefnum grasrótarhreyfingarinnar er félagsleg efling kvenna í bændastétt, að fræða þær, styðja og hvetja til eflingar atvinnu í sveitum. Hef ég átt marga góða fundi með þessari mikilvægu hreyfingu kvenna í íslenskum sveitum.

„Hefur ráðherra hugsað sér að nýta sér þau ráð sem tiltæk eru til að jafna stöðu karla og kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins?“

Þegar skipað er í nefndir, ráð og stjórnir er mikilvægt að tryggja að samsetning þeirra endurspegli sem best þá efnahagslegu hagsmuni sem þeim er ætlað að fjalla um. Ráðuneytið hefur ekki í hendi sér hvernig hinir ýmsu aðilar sem tilnefna í nefndir og ráð á þess vegum haga tilnefningum sínum. Tilnefningar frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum í landbúnaði bera því miður þess enn merki að landbúnaður er allnokkurt karlaveldi eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns. Hef ég ekki í hyggju að ráðskast með tilnefningar annarra aðila. Aðilar sem tilnefna í nefndir eru gjarnan minntir á ákvæði 20. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þess efnis að í „nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar“.

Hvað þriðju spurninguna varðar, „Til hvaða ráða hyggst ráðherra grípa til að bæta úr því ófremdarástandi sem nú ríkir í þeim málum innan ráðuneytis hans?“, vil ég segja, hæstv. forseti, að fjöldi kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum landbúnaðarráðuneytisins hefur aukist til muna í ráðherratíð minni. Ekkert ófremdarástand ríkir í jafnréttismálum landbúnaðarráðuneytisins. Samsetning nefnda, ráða og stjórna ræðst ekki af afstöðu minni eingöngu, heldur einnig vali þeirra aðila sem tilnefna einstaklinga til þeirra trúnaðarstarfa sem um er að ræða hverju sinni. Tilnefningar í nefndir, ráð og stjórnir bera þess vissulega merki að félagsleg staða kvenna innan landbúnaðarins er ekki sú sem hún ætti að vera í dag. Þar þarf að bæta úr.

„Hefur landbúnaðarráðherra hugsað sér að framfylgja þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum frá 28. maí 2004? Ef svo er, þá hvernig?“

Já, landbúnaðarráðuneytið hefur unnið að og mun áfram vinna að því að framfylgja þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára sem samþykkt var í maí 2004. Sérstakt verkefni landbúnaðarráðuneytisins sem þar er tilgreint er verkefnið Lifandi landbúnaður – Gullið heima, eins og fyrr hefur verið greint frá.

Ég vil segja að hvað varðar verkefni allra ráðuneyta má tiltaka að ráðuneytið hefur frá samþykkt þingsályktunartillögunnar leitast við að jafna kynjahlutfall í nefndum, ráðum og stjórnum eftir því sem kostur hefur gefist. Jafnréttisfulltrúi starfar innan landbúnaðarráðuneytisins en hann fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði þess og stofnana- og stjórnsýslusviði ráðuneytisins. Landbúnaðarráðuneytið hefur ekki unnið eigin jafnréttisáætlun. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Klukkan hefur truflað mig. Hún hefur gefið rangar vísbendingar um hvað ræðu minni liði þannig að ég vil fá að klára.

Sérstaklega hefur verið leitast við að gæta jafnréttissjónarmiða við ákvörðun launa (Forseti hringir.) og við stöðuveitingar hjá ráðuneytinu. Af tíu háskólamenntuðum sérfræðingum sem ráðnir hafa verið til hinna ýmsu starfa …

(Forseti (SP): Forseti verður að benda hæstv. landbúnaðarráðherra á að hann hefur ákveðinn tíma til umfjöllunar um málið eins og aðrir hv. þingmenn.)

Ég þekki það, hæstv. forseti, en klukkan var að rokka til á milli tveggja, þriggja og fjögurra mínútna.

(Forseti (SP): Ég hygg ...)

Hæstv. forseti. Ég er að ljúka máli mínu.

Frá því að ég tók við störfum hafa átta starfsmenn af tíu háskólamenntuðum sérfræðingum verið konur. Heildarfjöldi starfsmanna ráðuneytisins er nú 22, þar af 14 konur, af 13 starfsmönnum með háskólamenntun eru sjö konur en sex karlar þannig að ég vil segja, hæstv. forseti …

(Forseti (SP): Forseti vekur athygli hæstv. landbúnaðarráðherra á því að hann hefur tækifæri til að koma þessum upplýsingum að seinna í umræðunni.)

Ég þakka fyrir, hæstv. forseti. Mér þótti samt mikilvægt umræðunnar vegna að koma þeim fram í fyrstu ræðu.

(Forseti (SP): Forseti vill af þessu tilefni brýna hv. þingmenn í því að það er ákveðinn tími sem menn hafa til umræðu og biðja þá að virða þau mörk.)

Klukkan verður þá að vera í lagi.



[13:42]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka frummælanda fyrir að taka upp þessa utandagskrárumræðu um jafnréttismál í landbúnaði. Tilefnin eru ærin þó að svör hæstv. landbúnaðarráðherra við fyrirspurn hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur um jafnréttisáætlun og skipan í stöður innan landbúnaðarráðuneytisins gefi ein og sér ástæðu til að skoða málin mjög alvarlega. Það er ljóst að mikill kynjahalli er við ráðningu starfsmanna og við skipan í nefndir og ráð á vegum landbúnaðarráðuneytisins hvort heldur er í fastanefndir eða tímabundnar nefndir. Af öllum samanlögðum nefndarskipununum eru 217 karlar á móti 40 konum. Bændasamtökin eiga sjálf þarna hlut að máli þar sem þau eða búnaðarsamtökin hafa ekki gætt jafnréttissjónarmiða við tilnefningu í ráð og nefndir.

Af vettvangi Bændasamtaka Íslands og búnaðarsambandanna er svipaða sögu að segja og því ekki að undra að konur í landbúnaði hafi nú tekið sig saman og myndað grasrótarhreyfingu til að bæta stöðu kvenna. Samtakamáttur kvenna skilaði sér inn á nýliðið búnaðarþing með samþykkt jafnréttisáætlunar Bændasamtaka Íslands.

Konur í sveitum landsins hafa frá aldaöðli staðið jafnt að verkum og karlar þótt verkaskipting hafi lengst af verið hefðbundin eftir kynjum. Stöðu kvenna í landbúnaði má að mörgu leyti líkja við stöðu heimavinnandi húsmæðra fyrr á tíð. Störf þeirra og þekking eru ekki metin að verðleikum, eru ekki sýnileg í opinberum tölum og lífeyrisréttindi allt of margra eru takmörkuð.

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að kanna hvort starfshættir opinberra stofnana sem ætlað er að styðja við atvinnulífið vinni á einhvern hátt gegn konum eða stuðli að ójöfnuði gegn þeim. Bent hefur verið á eðlislægt vandamál innan stjórnkerfisins, þ.e. að karlar tilnefni karla, og hefur þessu vandamálið verið líkt við andlega samkynhneigð.



[13:44]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að gætt sé jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins og er landbúnaður þar engin undantekning á. Jöfn áhrif kvenna og karla til ákvarðanatöku og stefnumótunar í samfélaginu er það sem við flestöll viljum sjá í verki. Á búnaðarþingi sem var haldið í síðasta mánuði var í fyrsta skipti samþykkt jafnréttisáætlun Bændasamtakanna og er það ekki síst vegna baráttu kvenna sem hafa stofnað með sér grasrótarsamtökin Lifandi landbúnaður. Eru markmið þeirra samtaka að stuðla að öflugri, litríkari og meira lifandi landbúnaði en verið hefur og að konur verði sýnilegra og virkara afl. Það er mikil þekking sem með þeim býr og þær hafa stuðlað að því að efla félagslegt hlutverk kvenna í landbúnaði.

Á árinu 2003 voru samtals 4.152 einstaklingar skráðir bændur. Þar af voru karlar 2.714 og konur 1.438, þ.e. karlar 65%, konur 35%. Konur ættu því miðað við þessar tölur að hafa betri stöðu hvað varðar hlutföll í nefndum í dag en raun ber vitni. Ef grannt er skoðað getum við trúlega séð, ef við lítum yfir nöfn þeirra karla sem eru í nefndum á vegum landbúnaðarins, sömu nöfnin koma upp aftur og aftur. Þar er ekki breiddin.

Það er aðeins ein kona í stjórn Bændasamtaka Íslands. Þær ættu í réttu hlutfalli að vera a.m.k. þrjár, ef ekki fjórar. Í skýrslu um eignarhald kvenna í atvinnurekstri og landbúnaði kemur fram að þátttaka í félagsstörfum í landbúnaði er 21%, í sveitarstjórnum 19%. (Forseti hringir.) Þegar konur eru spurðar að því hvað valdi segja þær oft og tíðum: Það er tímaleysi, það er áhugaleysi og þær fá ekki hvatningu.



[13:47]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Konur eru líka menn, segir einhvers staðar, og eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir benti á núna rétt áðan geta bændur líka verið konur. Hins vegar kemur það skýrt fram í svari hæstv. landbúnaðarráðherra til málshefjanda, hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, að landbúnaðarráðuneytið er því miður svarti sauðurinn í jafnréttismálum þegar kemur að flóru íslenskra ráðuneyta. Aðeins fjórar konur voru skipaðar í stöður á vegum ráðuneytisins frá árinu 1999 til ársloka 2004 af 27 umsækjendum. Þetta eru aðeins 18%.

Ef við lítum á starfandi nefndir og ráð á vegum ráðuneytisins eru konur þar aðeins 18% aðalmanna. Þegar kemur að varamönnum er hlutfallið aðeins skárra, þó ekki nema 31% konur.

Sú meginregla gildir á Íslandi að allir skuli jafnir fyrir lögum óháð kynferði. Jöfn staða kynjanna hefur verið stjórnarskrárbundin á Íslandi frá árinu 1995, auk þess sem við höfum sérstök jafnréttislög sem hafa verið hér í gildi frá árinu 1976.

Fyrir nákvæmlega ári ræddum við þingsályktunartillögu frá hæstv. félagsmálaráðherra um jafnréttismál. Þar kom í raun og veru mjög skýrt fram það sem ég sagði áðan að landbúnaðarráðuneytið er því miður svarti sauðurinn í þessum málum. Þetta er eitt af fáum ráðuneytum þar sem engin jafnréttisáætlun er til staðar. Það er einungis landbúnaðarráðuneytið, Hagstofan og sjávarútvegsráðuneytið sem geta státað af þessum vafasama heiðri.

Svona má áfram lengi telja. Við ræddum þetta svo sem í þaula í fyrra, við minntumst á þetta þá í ræðum, því miður er ekki að sjá að landbúnaðarráðuneytið hafi gert mikla bragarbót síðan þá (Forseti hringir.) og það ber að sjálfsögðu að harma.



[13:49]
Lára Stefánsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir hæstv. landbúnaðarráðherra hálfvanmáttugur í stuðningi sínum. Árangurinn er harla lítill og ég held að hann hafi komist að sumu leyti að lykilástæðunni þegar hann talaði um efnahagslega hagsmuni. Konur eru bændur og það er mjög mikilvægt starf að vera bóndi. Ég get ekki séð neina stóra efnahagslega mismunandi hagsmuni á konum í sveitum eða annars staðar, en það sem blasir hér við er að staða þeirra er engan veginn eðlileg í ákvarðanatöku, stjórnsýslu, menntun eða öðru.

Ég varð dálítið hissa þegar hæstv. landbúnaðarráðherra talaði um sérstakar framfarir í ráðuneyti sínu. Ég horfi á að á sama tíma, frá árinu 1999, hefur hans ágæta ráðuneyti skipað fjórar konur og 23 karla í stöður. Þetta finnst mér ekki kraftmikið í þessum hluta. Ég held að það vanti að taka konur sem eru bændur alvarlega.

Konur sem eru bændur hafa vit á rekstri bús síns, mjólkurframleiðslu, fjárrækt og öðru slíku. Ég tel mikilvægt að hæstv. ráðherra taki sérstakt frumkvæði og sýni árangur í því að breyta stöðunni. Ég trúi því að sé það gert af alvöru og festu sjáist einhverjar afleiðingar af því að konur séu fullgildir þátttakendur í þessari atvinnugrein.



[13:51]
Katrín Ásgrímsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það má kannski segja að umræðan hér endurspegli ákveðin tímamót í jafnréttisumræðunni. Þau tímamót felast í því að jafnréttisumræðan er komin á skrið innan Bændasamtaka Íslands. Eins og hér hefur komið fram var nýverið samþykkt jafnréttisáætlun hjá Bændasamtökunum og þar er í fyrsta sinn lögð áhersla á þessi mál á þeim vettvangi.

Það er óhætt að segja að ímynd bændasamfélagsins hafi verið mjög karllæg. Karlmenn hafa almennt verið skráðir fyrir búum, þó að það sé að breytast. Þeir hafa einmitt almennt setið í stjórnum búnaðarfélaganna og búgreinasambanda. Það er því afar mikilvægt að frá Bændasamtökunum komi jafnréttisstefna og að fulltrúar bænda hafi þessa samþykkt á bak við sig því að frá þeim koma gjarnan tilnefningar í opinberar nefndir og ráð.

Þessi umræða er mikilvæg fyrir bændastéttina. Það er mikilvægt að sjónarmið kvenna skili sér inn í ákvarðanatöku og stefnumótun stéttarinnar í heild á beinan hátt. Það er mikilvægt að þeir sem fjalla um málefni sveita landsins endurspegli það fólk sem stendur þar fyrir rekstri. Sú er jú oftast raunin að í sveitum landsins standa hjón almennt hlið við og hlið á jafnréttislegum grundvelli að rekstri búanna. Ef til vill er það þar sem jafnréttið skiptir höfuðmáli.

Staða jafnréttismála hjá þeim stofnunum ríkisins sem snerta landbúnað endurspeglar að hluta stöðuna innan bændastéttarinnar. Nýsamþykkt jafnréttisáætlun Bændasamtakanna ætti að vera hvetjandi og auðvelda ríkisvaldinu að stuðla að frekara jafnrétti í nefndum og störfum sem falla undir landbúnaðarráðuneytið.



[13:53]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Á vefritinu bondi.is eru oft lífleg skoðanaskipti. Nú nýverið birtist þar einmitt bréf frá Guðrúnu Lárusdóttur, bónda og húsfreyju í Keldudal, sem ég ætla að leyfa mér að vitna í, með leyfi forseta:

„Tryggingafélagið eða starfsmaður þess neitaði að tryggja mig sem bónda. Ég er sko húsfreyja og mín störf væru ekki nærri því eins hættuleg eins og störf bóndans og ef ég færi að tryggja mig sem bónda þá mundi ég verða að greiða miklu hærri iðgjöld og mundi verða bara óhagkvæmara.

Fasteignamatið sendi snepil þar sem taldir voru upp ábúendur á bænum. Þar voru taldir karlarnir en konurnar vantaði. Ég hringdi og óskaði skýringa á þessu en konan í símanum sagði að hún hefði þessar upplýsingar undirritaðar af bændunum. Sem sagt komið frá mínum manni, en hann hefur nú ekki enn fengist til að viðurkenna að hann hafi gert það. Svo tók hún fram að svona væri þetta oft, en þeir hjá Fasteignamatinu vissu vel að það væru líka oftast einhverjar konur sem byggju á jörðunum en þær væru bara ekki fundnar í Fasteignamatinu.

Lífeyrissjóður bænda flutti allar mínar lífeyrisgreiðslur yfir á eiginmanninn í nokkur ár eða þar til ég rak augun í það á yfirlitinu að sá lífeyrir sem ég greiddi skilaði sér ekki þrátt fyrir það að ég sendi mánaðarlegt yfirlit yfir greiðslur í sjóðinn, sundurliðað eftir greiðendum. Já, þetta var sko mín sök náttúrlega, ekki satt?

Já, það eru einmitt svona mörg atriði sem eru oft einmitt mín sök. Skattstjórar ráðleggja stundum að greiða konum laun frekar en að láta þær vera hluta af búrekstrinum og þá missa þær lífeyrisgreiðslurnar á meðan eða geta átt það á hættu nema þá að passa vel upp á þetta.“ (Forseti hringir.)

Frú forseti. Í mörgum atriðum er einmitt kerfislægt (Forseti hringir.) gengið á rétt kvenna (Forseti hringir.) og þær þurfa að sækja hann og passa upp á hann sjálfar, (Forseti hringir.) frú forseti, eins og þú stýrir fundi vel.

(Forseti (SP): Forseti þakkar góð orð hv. þingmanns.)



[13:56]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Þessi umræða utan dagskrár er athygliverð og ágæt. Sem innlegg í hana vil ég nefna að konur á Íslandi hafa örugglega ekki haft meiri áhrif á nokkurn atvinnuveg hér á árum áður en einmitt landbúnaðinn þegar heimilin voru stór, stórfjölskyldan, mikil umsvif heima á heimilunum. Þá voru það konurnar sem höfðu hvað mest áhrif í þeirri atvinnugrein sem við erum að ræða um, landbúnaðinum. Þetta veit auðvitað hæstv. landbúnaðarráðherra betur en allir aðrar. Hins vegar hafa konur kannski ekki notið þess í umræðunni hversu mikið þær hafa haft um landbúnaðinn að segja.

Nútíminn er annar, það eru nýir tímar og við þurfum að huga að ýmsum þáttum rétt eins og hv. þm. Jón Bjarnason nefndi áðan. Hann kom inn á einmitt þessi réttindi, og skyldur þá um leið, sem hafa af hálfu ríkisins ekki fallið að því rekstrarformi sem landbúnaðurinn hér hefur verið rekinn á undangengna áratugi, þ.e. að við rekum landbúnaðinn almennt á kennitölu bóndans sem í fleiri tilfellum er karlmaður. Ég hef talið að einkahlutafélag væri heppilegra rekstrarform í landbúnaðinum. Þá skila sér hlutir eins og kvóti, fasteignamat, lífeyrissjóðsgreiðslur, virðisaukaskattur, tryggingafélög og fleiri þættir samfélagsins. Þetta rekstrarform, eins og það er nú, hentar ekki einni kennitölu. Þess vegna er miklu auðveldara og einfaldara að nota rekstrarformið einkahlutafélag. Ég hvet bændur (Forseti hringir.) til að fara þá leið og þá fá konur beinni aðild að rekstri sínum.



[13:58]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mér finnst það ekki boða gott að hæstv. ráðherra telji ekki að ófremdarástand ríki í þessum málefnum innan ráðuneytis hans. Hæstv. ráðherra er algjörlega ráðalaus og kannski kærir hann sig ekkert um að beita neinum ráðum og styggja þar með karlana, vini sína.

Það er nefnilega til ráð, frú forseti. Þegar stofnun er beðin um að tilnefna einn einstakling í stjórn eru miklar líkur á því, og nær undantekningarlaust, að karl sé tilnefndur, og kona í besta falli sem varamaður. Ráðið er einfalt, virðulegi ráðherra og frú forseti, og ég ætla að biðja hæstv. ráðherra að taka vel eftir. Ráðið er að biðja um tvær tilnefningar fyrir hvert sæti, sína tilnefninguna af hvoru kyni. Síðan verður það á valdi ráðuneytisins hvorn einstaklinginn það velur eftir því hvernig á að raða niður í nefndina. Þannig er hægt að ná fram jafnrétti, og þannig á að vinna.

Það er rétt sem fram kom hér áðan að það er mikilvægt að Bændasamtökin sýni frumkvæði. En það er landbúnaðarráðuneytið sem hefur skyldum að gegna og þeirri skyldu hefur ráðuneytið ekki sinnt vel eins og tölurnar í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni sýna. Verkin sýna merkin, frú forseti.



[14:00]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega minna á og ítreka að landbúnaðarráðuneytið hefur gætt þess mjög, bæði innan sinna veggja og brýnt þá sem eiga að skipa í stöður, að skipa konur. Ég vil segja að af tíu háskólamenntuðum sérfræðingum sem ráðnir hafa verið til hinna ýmsu starfa innan ráðuneytisins í minni tíð hafa verið ráðnar átta konur, átta konur af tíu háskólamenntuðum fulltrúum sem hafa verið ráðnir.

Heildarfjöldi starfsmanna ráðuneytisins er nú 22, þar af 14 konur. Af 13 starfsmönnum með háskólamenntun eru sjö konur en sex karlar svo að menn átti sig á þessari stöðu. Hitt er svo sameiginlegt vandamál sem mér finnst að landbúnaðurinn allur standi frammi fyrir, ekki síst hinn gamli gróni landbúnaður. Ég var á aðalfundi Mjólkurbús Flóamanna, míns gamla vinnustaðar, fyrir stuttu síðan. Þar voru 40 fulltrúar, þar af ein kona. Þannig er þetta í afurðasvæðageiranum.

Ég var aftur á móti á aðalfundi Félags ferðaþjónustubænda í gærkvöldi. Þar var mikið jafnræði með körlum og konum þannig að í hinum nýju búgreinum virðast konurnar koma mjög sterkar til starfa.

Við fylgjum auðvitað jafnréttisáætlun okkar og höfum gert það. Eins og ég hef getið hef ég mjög starfað með grasrótarhreyfingu kvenna, Lifandi landbúnaður – Gullið heima. Þetta er verkefni og vinna sem við þurfum að halda áfram. Ég er sannfærður um að landbúnaðurinn verður sterkari ef fleiri konur koma til starfa á öllum sviðum atvinnugreinarinnar, bæði á búnaðarþingi, í forustu, í félagssamtökum bænda o.s.frv. Það er mikið verkefni og ég trúi því að konurnar muni sækja þar fram og að körlum beri að styðja þær til starfa. Það styrkir íslenskan landbúnað best.