131. löggjafarþing — 103. fundur
 5. apríl 2005.
úrvinnslugjald, 1. umræða.
stjfrv., 686. mál (vaxtatekjur og frestun umbúðagjalds). — Þskj. 1044.

[14:24]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Í frumvarpi til laga um breyting á lögum um úrvinnslugjald eru lagðar til tvær breytingar, annars vegar að vaxtatekjur af úrvinnslugjaldi skuli renna til Úrvinnslusjóðs í stað ríkissjóðs og hins vegar er lagt til að fresta um fjóra mánuði gildistökuákvæði sem heimilar gjaldtöku á pappírs-, pappa- og plastumbúðir.

Forsaga þessa máls er að Úrvinnslusjóður hefur til þessa ekki fengið vaxtatekjur af innstæðum sjóðsins heldur hafa þær runnið í ríkissjóð. Úrvinnslusjóður er þannig uppbyggður að vöruflokkum sem greiða inn í sjóðinn er skipt upp í uppgjörsflokka og skal tekjum hvers flokks eingöngu varið til þess að mæta gjöldum þess flokks. Ákvörðun gjaldsins byggir á áætlun um magn og útgjöld og er þess gætt að jafnvægi sé í hverjum uppgjörsflokki. Sé gjaldtaka umfram útgjöld munu vaxtatekjur lækka þá upphæð sem innheimta þarf í framtíðinni af viðkomandi vöruflokki.

Í ljósi þess að úrvinnslugjaldi er aðeins ætlað að standa undir umhverfisvænni endurvinnslu, endurnýtingu eða förgun þeirra vöruflokka sem lagt er á tel ég mikilvægt að vaxtatekjur af úrvinnslugjaldi renni til sjóðsins en ekki í ríkissjóð.

Einnig legg ég til að frestað verði gildistökuákvæði sem heimilar gjaldtöku á pappírs-, pappa- og plastumbúðum um fjóra mánuði, þ.e. til 1. janúar 2006. Rétt er að benda á að innsöfnun á pappírs-, pappa- og plastumbúðum frá heimilum og fyrirtækjum mun hefjast á réttum tíma. Úrvinnslusjóður lagði til þessa breytingu en mat sjóðsins á þörfinni á að fresta gildistöku ákvæðisins byggir á samráði við sérstaka verkefnisstjórn hagsmunaaðila. Verkefnisstjórnin telur að atvinnulífið þurfi lengri aðlögunarfrest til að geta skilað inn upplýsingum um þyngd umbúða í samræmi við það kerfi sem lögleitt hefur verið.

Kerfið gerir ráð fyrir að innflytjendur gefi upp nákvæma þyngd umbúða þegar vara er flutt til landsins. Innflytjendur geta þó ef þeir hafa ekki nákvæmar upplýsingar um raunþyngd umbúða notað tiltekna reiknireglu. Það er mat Úrvinnslusjóðs að gera þurfi tillögur að nýjum og nákvæmari reiknireglum sem verði þá þannig úr garði gerðar að innflytjendur og framleiðendur geti nýtt sér þær í upphafi álagningartímans með meiri sanngirni í álagningu en núverandi kerfi gerir ráð fyrir. Það er alveg ljóst að þetta hefur reynst flóknara en gert var ráð fyrir í upphafi þegar farið var af stað með þetta mál.

Vinna er nú þegar hafin við gerð nýrra reiknireglna sem innflytjendur munu geta nýtt sér þar til þeir hafa fengið nákvæmar upplýsingar um raunþyngd umbúða. Ég stefni að því að leggja fram frumvarp þess efnis fyrir Alþingi í upphafi haustþings 2005.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.



[14:28]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að taka til máls við 1. umr. um þetta frumvarp sem hæstv. umhverfisráðherra hefur mælt fyrir. Hér eru lagðar til tvenns konar breytingar. Sú fyrri verður náttúrlega að teljast tímabær og eðlileg, þ.e. að vaxtatekjur af úrvinnslugjaldi renni í Úrvinnslusjóð. Þó svo að ljóst sé að lög sem þessi séu ekki afturvirk liggur það líka fyrir að vegna þess hvernig fyrirkomulagið hefur verið og það er hefur ekki bara sjóðurinn heldur þeir sem skipta við hann orðið fyrir einhverri skerðingu. Nú á að breyta því og það er óhætt að styðja það. Ég verð þó vegna tillögunnar í 2. gr. frumvarpsins um að gefa aukinn frest til þess að heimila gjaldtöku á pappírs-, pappa- og plastumbúðum að lýsa undrun minni á því að þessi töf skuli verða.

Verkefnisstjórnin sem gerð er að umræðuefni í greinargerðinni hefur vitað það um allnokkurt skeið — það er nokkuð langt síðan það lá fyrir — að þessar breytingar yrðu gerðar með þeim tímafrestum sem kveðið hefur verið á um í bráðabirgðaákvæðum í lögunum. Það verður að teljast mjög miður, frú forseti, að ekki skuli takast að leiða þetta inn 1. september 2005 eins og til stóð, heldur ekki fyrr en um áramót. Við verðum að vona að ekkert nýtt komi til. Hæstv. ráðherra tók sérstaklega fram að málið væri kannski flóknara en menn hefðu gert sér grein fyrir. Reyndar vissu menn frá upphafi að þetta væri flókið, t.d. vegna tollskýrslna og annars, en þegar svo er þarf náttúrlega meiri undirbúningsvinnu og það þarf að gera sér grein fyrir því við hvaða fresti menn eiga að miða við vinnuna. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með að þetta skuli sett fram með þessum hætti.

Ég hefði vænst þess líka að í greinargerðinni væru betri skýringar en fram koma um ástæður tafarinnar. Málið er að vísu flókið en nú þegar hafa menn haft þó nokkurn aðlögunartíma til að koma verkinu á koppinn, búa til reglurnar og gera það sem þarf. Ég vil því nota tækifærið og biðja hæstv. ráðherra um frekari skýringar á því hvers vegna lengja þurfi í þessum fresti og ég spyr líka að því, frú forseti, hvort það sé þá alveg öruggt að verkinu verði lokið þannig að þetta geti gengið í gildi um áramótin eins og hér kemur fram.

Það má heldur ekki gleymast í þessu samhengi, eins og kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytis, að tekjur og gjöld sjóðsins munu lækka um tæplega 80 millj. kr. á yfirstandandi ári vegna þessarar tafar. Það munar um minna en 80 millj. kr. þannig að við hljótum að spyrja, og ég geri það, hvernig á þessu standi og hvers vegna enn þurfi að fresta þegar menn hafa þó vitað það um missira skeið að þetta stæði til.



[14:31]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Inntak athugasemda minna er á svipuðum nótum og hv. síðasta ræðumanns. Hér í þessum sal hefur verið tekist á um úrvinnslugjald aftur og aftur. Það sem við ströndum venjulega á er það að aðilar atvinnulífsins geta ekki komið sér saman um hluti. Ég hef gert við það athugasemdir hér áður og tel mig knúna til að gera það enn einu sinni að svo virðist sem aðilar á vinnumarkaði eða atvinnulífið stjórni þessum lagasetningum okkar um úrvinnslugjald á úrgang og umbúðir.

Ég minnist þess að þegar við settum fyrst þessi lög á 128. löggjafarþingi var mikið um þetta fjallað, að setja úrvinnslugjald á þessa vöruflokka, þ.e. pappírs-, pappa- og plastumbúðir og sömuleiðis veiðarfæri úr gerviefnum. Við ætluðum þá, og það var eining um það í umhverfisnefnd, að sú gjaldtaka hæfist 1. janúar 2004. Síðan það nefndarálit var gefið út, með samþykki allrar umhverfisnefndar, og var náttúrlega samþykkt hér á Alþingi, hefur í tvígang þurft að fresta þessari gjaldtöku af því að atvinnulífið er ekki tilbúið. Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að Úrvinnslusjóðurinn og þessi verkefnisstjórn núna skuli ævinlega geta teymt umhverfisráðherra út í það að biðja um endalausar frestanir.

Við erum með pólitíska stefnumörkun í úrvinnslumálum. Hæstv. umhverfisráðherrar hafa talað fyrir þeirri stefnumörkun af mikilli sannfæringu en þegar til kastanna kemur þurfa þeir svo alltaf að lúffa fyrir atvinnulífinu sem dregur lappirnar í málunum. Mér finnst bara ekki við hæfi að umhverfisráðherrar geti ekki verið harðari af sér við atvinnulífið en raun ber vitni.

Sömuleiðis vil ég rifja upp þá gagnrýni sem ég áður hef komið með á þessi mál almennt. Hún er sú að atvinnulífið hefur allt of mikið vægi í þessum málaflokki. Í öllum stjórnum og stefnumarkandi ráðum sem koma að þessum málaflokki hafa aðilar atvinnulífsins fulltrúa sína, og ég get nefnt þessa verkefnisstjórn sem hér um ræðir sérstaklega sem dæmi um þetta, sömuleiðis náttúrlega stjórn Úrvinnslusjóðsins. Ég vil ítreka það hér og bið hæstv. ráðherra að hugleiða hvort ekki sé mál til komið að breyta vægi atvinnulífsins og efla möguleika frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfisverndar og náttúruverndar og möguleika sveitarfélaganna á að hafa áhrif á þennan málaflokk. Hér hafa verið fluttar breytingartillögur við lagafrumvörp sem hafa fjallað um úrvinnslugjaldið. Þegar þetta fór upphaflega í gegn, lög um úrvinnslugjald, lagði ég fram breytingartillögu um það að stjórnin yrði allt öðruvísi skipuð en nú er. Þar vildi ég fá inn aðila frá Neytendasamtökunum og frjálsum félagasamtökum á sviði náttúru- og umhverfisverndar. Ég held að það sé alveg orðið tímabært fyrir hæstv. umhverfisráðherra að hugleiða virkilega með opnum huga að gera breytingar. Það verður að vera breiðari aðkoma að þessum málaflokki en raun ber vitni, annars virðist atvinnulífið bara hafa þessi mál í hendi sér.

Í desember sl. breyttum við síðast þessum lögum. Þá var talsvert um það fjallað hér að sú tollflokkabreyting sem yrði að gera tæki ákveðinn tíma. Fyrir þeirri breytingu voru hins vegar ákveðnar fyrirmyndir og þær eru mjög vel tíundaðar í greinargerð með frumvarpinu eins og það var lagt fram í haust. Þar erum við að fjalla um aðferðir sem Danir hafa prófað og Íslendingar hafa litið til þeirrar reiknireglu sem Danir hafa notað við það að finna t.d. umbúðamagn ef ekki er vitað hversu mikið það er. Allt þetta er tíundað í greinargerðinni með frumvarpinu eins og það var lagt fram hérna í haust og var samþykkt í desember.

Ég sé ekki á þeim gögnum sem við höfum hvers vegna allt í einu þarf fjóra mánuði í viðbót til að koma þessum breytingum á. Þegar við fengum þetta inn í nefndina fyrr í vetur virtist allt vera vel undirbyggt. Sterk rök voru fyrir því hvers vegna ætti að nota tollflokkanúmerin og hvernig ætti að nota þau. Fyrirmyndirnar voru til staðar, og ég spyr: Af hverju er það allt í einu svona flókið eins og getur að líta núna í athugasemdunum með frumvarpinu, af hverju finna menn upp á því að segja að 15% reglan um umbúðirnar, að það séu 15% af innfluttu magni, sé allt í einu svo ónákvæm að það þurfi að fresta gildistökunni um fjóra mánuði í viðbót?

Nei, virðulegi forseti, mér finnast þetta ekki góð vinnubrögð. Ég minni enn á það að upphaflega gerði Alþingi ráð fyrir því að þessi gjaldtaka gæti hafist 1. janúar 2004 og mér finnst ekki sæmandi að hæstv. umhverfisráðherra dragi svona lappirnar fyrir tilstuðlan aðila atvinnulífsins. Atvinnulífið verður bara að taka sér tak og vinna sín mál, heimavinnu sína, á þeim fresti sem því er gefinn. Við höfum verið rýmileg, við höfum lengt þessa fresti aftur og aftur, en ekki eina ferðina enn. Það bara gengur ekki, virðulegi forseti.



[14:38]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég get tekið undir með þingmönnum hvað það snertir að ég var sjálf undrandi yfir því að beðið skyldi vera um þennan frest. Ég hafði talið þegar við fjölluðum síðast um þessi mál, fyrir síðustu áramót, að það væri alveg ljóst að unnt væri að koma þessari framkvæmd á með sómasamlegum hætti og að aðlögunartíminn væri nægilegur. Það kom mér því jafnmikið á óvart og þeim hv. þingmönnum sem hér hafa gert þetta að sérstöku umtalsefni.

Sú verkefnisstjórn sem hefur metið þetta svo og þekkir málið gjörla telur hins vegar að það sé hreinlega ekki unnt að leggja á þessar umbúðir þegar í raun er vitað að framkvæmdin verður ekki í lagi og að það þurfi lengri tíma. Þetta snýst fyrst og fremst um það að vanda framkvæmdina og ég tel að það væri ábyrgðarlaust af umhverfisráðherra að skella við skollaeyrum þegar þetta liggur fyrir.

Það er engu metnaðarleysi um að kenna að komið er fram með mál af þessu tagi, heldur er hér eingöngu horfst í augu við staðreyndir. Ég vil taka það skýrt fram að ég hef leitað mjög fast eftir því að þetta gangi fram miðað við þann frest sem hér er verið að biðja um og ég legg til samkvæmt þessu frumvarpi. Ég vil gjarnan að það komi skýrt fram af minni hálfu að ég hyggst ekki flytja frumvarp um frekari fresti í þessum efnum hvað þetta tiltekna mál varðar.



[14:40]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ánægð með að heyra að sama pirrings gæti hjá hæstv. umhverfisráðherra gagnvart þessu eins og hjá okkur þingmönnum sem höfum tjáð okkur um þetta.

Ég vil gjarnan fá svör við þeim spurningum sem komu upp í máli mínu, hvort hæstv. ráðherra sjái það ekki sem ákveðna lausn á þessu vandamáli að hleypa fleirum að borðinu. Nú kemur það fram í skjalinu sem við höfum hér fyrir framan okkur með athugasemdunum með þessu frumvarpi að verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum frá Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Félagi fiskframleiðenda ásamt fulltrúum frá Úrvinnslusjóði, sem er eðlilegt, og svo fulltrúum frá tollmiðlurum og þeim sem annast tollagögn. Hér eru engir aðrir en atvinnulífið í sjálfu sér þannig að það situr hringinn í kringum borðið.

Ég hefði talið að fulltrúar atvinnulífsins yrðu beittir einhverjum þrýstingi við þetta borð ef við hefðum þar aðra aðila sem kæmu úr grasrótarsamtökum eins og ég hef nefnt. Ég vildi því gjarnan að hæstv. umhverfisráðherra legðist á sveifina með okkur í því máli að finna lausnir á því að atvinnulífið komist ekki alltaf upp með það að setja fram kröfur og fá þær samþykktar af því að enginn annar situr við borðið.



[14:42]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel raunar alveg ljóst að þeir erfiðleikar sem hafa komið fram við framkvæmdina á þessum ákvæðum laganna séu byrjunarörðugleikar. Við verðum auðvitað að átta okkur á því að þessi lög eru rúmlega tveggja ára gömul. Ég vona svo sannarlega, eins og ég nefndi áðan, að ekki komi til þess að koma þurfi inn með breytingar af þessu tagi hvað eftir annað, á sömu ákvæðum laganna.

Ég tel að við verðum að fá meiri reynslu á þessi lög áður en farið verður að gera einhverjar þær breytingar í þá veru sem þingmaðurinn nefndi. Mér finnst hugmyndin þó allrar athygli verð og engin ástæða til annars en að skoða hana. En ég tel að það þurfi að fá frekari reynslu af þessum lögum áður en farið verður að gera einhverjar grundvallarbreytingar og hleypa þá fleiri aðilum að þessu borði.



[14:43]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sannfærð um að þetta séu eingöngu byrjunarörðugleikar. Ég held að hér sé talsvert í húfi fyrir atvinnulífið. Þó að atvinnulífið í orði kveðnu vilji leggjast á sveif með Alþingi í þessum málum, að koma úrgangsmálum í sæmilegt horf og í það horf sem þau eru komin í í nágrannalöndum okkar, eru talsverðir fjárhagslegir hagsmunir undir. Það kemur fram í umsögn um þetta frumvarp frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að bara með þessari fjögurra mánaða frestun muni tekjur og gjöld Úrvinnslusjóðs lækka um tæplega 80 millj. kr. árið 2005. Það eru talsverðar upphæðir þannig að hér eru verulegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir atvinnulífið. Það er auðvitað þess vegna sem það reynir að fresta þessari gildistöku.

Ég bið bara hæstv. umhverfisráðherra áfram að skoða þetta mál í alvöru og athuga hvort ekki þurfi að hleypa fleiri aðilum að þessu borði. Það kann að vera að það komi upp í umhverfisnefndinni þegar við fjöllum um þetta mál þar að úr því að búið er að opna málið enn eina ferðina höfum við tækifæri til þess að skoða skipun stjórnar Úrvinnslusjóðs og þá þeirrar verkefnisstjórnar sem um þetta mál fjallar. Ég áskil mér allan rétt í nefndinni til að skoða hvort þá komi ekki einhverjar frekari breytingartillögur við þetta mál í meðförum þingsins.



[14:44]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að væntanlega munu koma inn á hverju ári frumvörp um Úrvinnslusjóð að því er lýtur að gjaldtökunni, þannig að árlega er alltaf í tengslum við fjárlagagerðina slíkt frumvarp í umhverfisnefnd.

Hvað það snertir að breyta samsetningu stjórnar sjóðsins, það eru fimm einstaklingar sem sitja í stjórninni, tilnefndir af ýmsum aðilum, tel ég að það eigi alls ekki að fjölga í þeirri stjórn. Ég mundi miklu frekar vilja sjá að þar væri fækkað ef gerðar yrðu einhverjar breytingar á stjórninni.

Aftur á móti hvað snertir verkefnisstjórnina vil ég líka taka fram að hún er ekki lögbundin. Þarna er verið að reyna að leysa þessi mál á praktískan hátt með því að fá til samráðs þá aðila sem sitja í verkefnisstjórninni sem eru þeir sem vita manna best hvernig og hvort framkvæmdin gengur upp samkvæmt því sem lagt var af stað með í upphafi.