131. löggjafarþing — 104. fundur
 6. apríl 2005.
Hlutur húsnæðiskostnaðar í neysluverðsvísitölu.
fsp. JBjarn, 527. mál. — Þskj. 801.

[12:02]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Verðbólga mælist yfir viðmiðunarmörkum Seðlabankans hvern mánuðinn á fætur öðrum og verðbólguspár og verðbólguvæntingar eru á uppleið. Þetta gerist þrátt fyrir verulegar hækkanir bankans á stýrivöxtum og það að hækkandi raungengi krónunnar að undanförnu ætti að skila sér verulega í lækkandi verðlagi á innfluttri vöru. Forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru miðaðar við að verðbólga fari ekki yfir ákveðin viðmiðunarmörk Seðlabankans og því ljóst að vaxandi verðbólga nú kann að reynast afdrifarík hvað varðar stöðugleika á vinnumarkaði.

Gengi krónunnar hefur styrkst mikið að undanförnu, raungengisstig er verulega hátt og hlýtur að teljast langt yfir jafnvægismörkum. Gengisvísitalan fór nú og hefur verið fyrir neðan 110 stig, hún er í 108 og 107. Bandaríkjadollari hefur kostað í kringum 61 kr. Tap útflutningsgreina er tilfinnanlegt, einkum ef þær selja vörur sínar að öllu eða verulegu leyti í Bandaríkjadollurum. Ljóst er að þeim mun lengur sem þetta ástand varir og útflutnings- og samkeppnisgreinar þurfa að búa við svo óhagstæð skilyrði þeim mun meiri verða áhrifin.

Verulegur hluti verðlagshækkana að undanförnu á rót sína að rekja til mikilla hækkana á fasteignamarkaði. Þróun fasteignaverðs er lögð til grundvallar við útreikninga á vísitölu neysluverðs. En á það hefur verið bent að slík viðmiðun geti verið gölluð. Snögg hækkun á fasteignaverði þýðir auðvitað ekki að allir geti selt fasteignir sínar á hinu nýja og háa verði tafarlaust en eignaaukningin hefur hins vegar áhrif á mat fólks á eignastöðu sína og eyðslugetu. Enn fremur er ekki víst að þættir sem koma ættu til lækkunar eins og veruleg lækkun vaxta geri það eins og útreikningum er háttað í dag. En í því tilviki mun að ég best veit verða stuðst við allt að fimm ára meðaltöl í vöxtum á húsnæðismarkaði í vísitölunni. Ástæða er því til að ætla að hækkun húsnæðiskostnaðar sé ýkt upp eins og stendur og valdi því að verðbólgan mælist mun meiri en ella. Víða annars staðar er stuðst við þróun húsaleigu í verðmælingum af þessu tagi en ekki fasteignaverð og er lagt til að breytingar í þá átt verði undirbúnar hér. Víst er að húsaleiga endurspeglar betur raunverulegan kostnað af því að búa í húsnæðinu og er betri og hugsanlegar viðmiðanir á þessu sviði til að ganga inn í vísitölu neysluverðs. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra og ábyrgðarmann efnahagsmála:

1. Er fyrirhugað að endurskoða hlutfall húsnæðiskostnaðar við útreikning á vísitölu neysluverðs?

2. Kemur til greina að Seðlabankinn miði við aðra vísitölu en núverandi neysluverðsvísitölu við framfylgd þess verðbólgumarkmiðs sem honum hefur verið sett lögum samkvæmt?



[12:05]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Jón Bjarnason, hreyfir hér mikilvægu máli sem hefur verið mjög til umræðu undanfarið og ég gerði m.a. að umtalsefni á ársfundi Seðlabanka Íslands. Húsnæðiskostnaður í vísitölu neysluverðs, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, er útreiknuð stærð og endurspeglar vægi þess kostnaðarliðar í útgjöldum heimilanna. Sá liður breytist mánaðarlega í takt við fasteignaverð og langtímaraunvexti. Mikil hækkun húsnæðisverðs að undanförnu hefur valdið því að hlutfall húsnæðiskostnaðar hefur hækkað, frá því að vera um það bil 12% af heildarframfærslukostnaði í ársbyrjun 1998 í tæplega 20% í ársbyrjun 2005.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar byggjast útreikningsaðferðirnar á almennt viðurkenndum alþjóðastöðlum sem ekki stendur til að breyta. Hins vegar er mismunandi aðferðum beitt, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, við útreikninginn eftir löndum og reyndar erum við ein á báti hvað þessa aðferð varðar. Það þýðir einfaldlega að verðbólgumælingin hjá okkur er ekki nákvæmlega eins og hjá öðrum þjóðum. Mér hefur hins vegar skilist að Evrópuþjóðir stefni almennt að því að taka upp svipaðar aðferðir og við notum innan fárra ára.

Í seinni lið fyrirspurnarinnar er spurt hvort til greina komi að Seðlabankinn miði við aðra vísitölu en núverandi neysluverðsvísitölu við framfylgd þess verðbólgumarkmiðs sem honum hefur verið sett. Ég hef áður sagt að mér finnst vel koma til greina að rýmka þau ákvæði yfirlýsingar Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar frá árinu 2001 um að verðbólgumarkmið bankans skuli einungis taka mið af 12 mánaða breytingu vísitölu neysluverðs. Í þessu felst engin slökun gagnvart peningamálastjórn Seðlabankans. Þvert á móti tel ég að bankinn eigi að horfa á sem flesta mælikvarða við vaxtaákvarðanir sínar jafnt verðmælikvarða eins og hann gerir og aðra efnahagslega mælikvarða, þar með talin þróun fasteignaverðs. Ég tel hins vegar að verðmælikvarði sem sýnir 4,7% árshækkun þegar þróun fasteignaverðs er meðtalin er helmingi minni hækkun að henni frátalinni sé ekki endilega besti mælikvarðinn á almennt þensluástand í efnahagslífinu. Þess vegna vil ég beita mér fyrir því eins og fram kom á ársfundi Seðlabankans að fram fari sérstök skoðun á því hvort sú viðmiðun sem Seðlabankanum er gert að lúta hvað varðar verðbólgumarkmið sé of þröng og mun ég ræða það við Seðlabankann frekar á næstunni.



[12:09]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Það er mikilvægt að í forsendum vísitalnanna felist ekki sérstakt sjálfskaparvíti fyrir okkur. Nú hef ég skilið það svo að á flokksstjórnarfundi Framsóknarflokksins hafi verið ályktað almennt gegn verðtryggingunni og vil ég því nota tækifærið og inna ráðherrann eftir því hvort hann hafi einhverjar fyrirætlanir um að draga úr vægi verðtryggingarinnar eða taka einhver skref til að minnka vægi hennar í efnahagslífinu og fylgja fram stefnuyfirlýsingum flokksstjórnarfundarins eða hvort þessi mál séu yfir höfuð ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar.



[12:10]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin og finn að hann deilir þessum áhyggjum með mér og reyndar fleirum í umræðunni um verðbólguþróunina og hvernig fasteignaverð er reiknað inn í vísitöluna. Það er ekkert smámál ef vísitalan hækkar tvöfalt meira en eðlileg ástæða væri til vegna skyndibólna á fasteignamarkaði. Verðbólgan hækkar skuldir heimilanna og skuldir húseigenda, þannig að það er ekki bara hin ímyndaða eignaaukning sem kemur vegna hækkunar á fasteignaverði heldur hækka skuldirnar líka á móti og þar af leiðandi greiðslubyrðin. Og þrátt fyrir hina miklu hækkun stýrivaxta hjá Seðlabankanum, sem bitnar hart á atvinnulífinu, á einstaklingum sem verða að leita að fjármagni á skammtímamarkaði eða skammtímalánum fer verðbólgan svona upp. Það verður því að horfa til allra leiða til að verðbólgan mælist ekki hærri en raunverulegt efnahagsástand gefur til kynna.

Ég geri mér grein fyrir mikilvægi húsnæðiskostnaðarins í vísitölunni og það er alls ekki verið að gera því skóna að draga eigi úr vægi hennar. Hins vegar getur húsnæði sem markaðsvara, sem farin er að ganga á markaði til að kaupa og selja til fjárhagslegs ávinnings, ekki verið raunsannur mælikvarði á húsnæðiskostnað sem við hugsum til, til þarfa einstaklingsins og fjölskyldnanna í landinu. Því fagna ég því (Forseti hringir.) ef hæstv. ráðherra ætlar að beita sér fyrir endurskoðun á þessu.



[12:13]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Þegar litið er til allra þeirra þátta sem skipta máli í þessu samhengi er ljóst að þrátt fyrir hækkun vísitölunnar hefur greiðslubyrði lána vegna húsnæðismála verið að léttast. Vextir hafa lækkað, lánstími hefur lengst og þar af leiðandi hefur greiðslubyrðin verið að léttast. Auðvitað hefur þetta bætt hag almennings í landinu. Það liggur líka fyrir að hækkandi fasteignaverð eykur eignir Íslendinga þannig að þeir eiga meira í húsnæði sínu en áður var. Líta þarf til allra þessa þátta þegar litið er til hags fólks í þessu samhengi.

Út af fyrirspurn hv. þm. Helga Hjörvars liggur fyrir að menn hafa á undanförnum árum verið að draga úr vægi verðtryggingarinnar. Verðtrygging hefur minnkað verulega á styttri lánum en ekki á langtímalánum. Það er stefna flokks míns og ég tel að það sé stefna allra flokka hér á landi að fjármagnsmarkaður á Íslandi geti verið með svipuðum hætti og gengur og gerist í löndunum í kringum okkur og það er að mínu mati mikilvægt og nauðsynlegt að enn frekar dragi úr gildi verðtryggingarinnar eins og er víðast hvar í kringum okkur. Hins vegar er þetta spurning um traust á íslensku efnahagslífi, traust á fjármagnsmarkaði. Við höfum hingað til varlega stigið skref í þessa átt. Ég tel að við eigum að halda því áfram og það muni fyrst og fremst ráðast af því trausti sem íslenski fjármálamarkaðurinn og íslenska efnahagslífið býr við og sem betur fer hefur það farið mjög vaxandi, sérstaklega í tíð núverandi ríkisstjórnar.