131. löggjafarþing — 104. fundur
 6. apríl 2005.
umræður utan dagskrár.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:00]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér er tekið til umræðu mikilvægt mál sem snertir mjög byggðamál í landinu.

Við í Frjálslynda flokknum höfum eins og kunnugt er lagt mikla áherslu á augljóst samhengi byggðaröskunar og kvótakerfisins, sem hefur skilað helmingi minni þorskafla eftir upptöku þess en fyrir, og þess gagnsleysis sem í því felst. Einnig höfum við bent á það að búið er að svipta jarðir landsins útræðisréttinum.

Í þessari umræðu ætlum við að beina sjónum okkar að öðrum þáttum, að því hvort vöxtur hins opinbera hafi átt þátt í hinni gríðarlegu byggðaröskun sem hefur átt sér stað í stjórnartíð stjórnarflokkanna.

Í nýlegri skýrslu Vífils Karlssonar, dósents í Viðskiptaháskólanum á Bifröst, er fjallað um gríðarlega mismunun á því hvar hið opinbera aflar tekna annars vegar og hins vegar hvar hið opinbera ver tekjunum. Í skýrslunni kemur fram að á árinu 2002 hafi um 27% af tekjuskatti komið frá öðrum landsvæðum en skattumdæmum Reykjavíkur og Reykjaness og enn fremur færir skýrsluhöfundur veigamikil rök fyrir því út frá útreikningum tryggingagjalds að einungis 15% þess fjár sem var aflað á þessum svæðum sé aftur varið þar. Einungis hluta þess skattfjár sem er aflað á landsbyggðinni er varið á landsbyggðinni. Með öðrum orðum gefur skýrslan það til kynna að það sé beint fjárstreymi af landsbyggðinni í formi skatta til höfuðborgarsvæðisins.

Þessi umræða er mjög þörf, sérstaklega í ljósi þess að margir virðast lifa í þeirri trú að sí og æ sé verið að sólunda skattfé höfuðborgarbúa út á land. Nú í hádeginu var t.d. verið að kynna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þar sem fram kemur að helmingur tekna bænda komi af opinberu fé. Vissulega er orðið tímabært að endurskoða hvernig framleiðslutengt styrkjakerfi landbúnaðarins er en það er ekki sanngjarnt að láta að því liggja í umræðunni að allt það fé komi af höfuðborgarsvæðinu eða þá að allt það fé sem er notað til rafhitunar á húsnæði komi af höfuðborgarsvæðinu. Hið sama má segja um umræðu um fjárframlög til Byggðastofnunar. Ætíð er látið liggja að því að peningar streymi af höfuðborgarsvæðinu og út á landsbyggðina. Raunin er önnur. Í það minnsta gefur þessi skýrsla tilefni til þess að álykta að fjársteymið sé í hina áttina.

Í skýrslunni er fjallað um þann gríðarlega vöxt sem hefur orðið á umfangi hins opinbera en hlutur þess nálgast að vera helmingur af vergri þjóðarframleiðslu. Jafnframt er fjallað um þann þátt sem mögulegan orsakavald byggðaröskunar, þ.e. að umsvif hins opinbera sem eru að mestu á höfuðborgarsvæðinu og ofvöxturinn sem hefur orðið í bákninu í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, að það er orðið allt að helmingur af vergri þjóðarframleiðslu, valdi byggðaröskuninni.

Ef farið er yfir árangur núverandi stjórnvalda í byggðamálum er augljóst að hann er enginn. Í raun hefur verið rekin byggðaeyðingarstefna. Það er búið að koma á kvótum og höftum á atvinnuvegi landsbyggðarinnar og síðan er búið að blása ríkisbáknið út. Allt þetta leggst á eitt um að láta landsbyggðinni blæða.

Ef stjórnvöld ætla að ná raunverulegum árangri í byggðamálum og fjalla um málaflokkinn með vitrænum hætti verða þau að hafa einhver viðmið og mælistærðir. Ótrúlegur fjöldi skýrslna hefur verið framleiddur þar sem ekkert mat er lagt á fækkun eða fjölgun starfa á landsbyggðinni og heldur ekki hvaða störfum fækkar og hverjum fjölgar.

Í lokin vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. forsætisráðherra:

1. Mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að frekari athugun fari fram á því hvort stöðugur vöxtur hins opinbera hafi verið einn veigamikill orsakavaldur í þeirri byggðaröskun sem hefur orðið í valdatíð stjórnarflokkanna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks?

2. Mun ríkisstjórn Íslands beita sér fyrir því að fylgst verði með því hvar á landinu vöxtur hins opinbera verður og beiti sér fyrir því að landsbyggðin fái nú sinn skerf af umsvifum hins opinbera?



[13:05]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur að ekki hafi orðið mikil fjölgun í opinberum störfum úti um land á undanförnum árum. Nýlegar tölur sem ég hef þar um sýna að í opinberri stjórnsýslu hefur t.d. fjölgað um 7% á árunum 1998–2003. Þar af hefur fjölgað um 2% á höfuðborgarsvæðinu en 12% utan höfuðborgarsvæðisins.

Í fræðslustarfsemi hefur á þessum árafjölda fjölgað um 31%, sem er mjög mikið. Á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað í fræðslustarfsemi um 34% en um 25% utan þess. Í heilbrigðis- og félagsmálum hefur fjölgað á þessum árum um 15% á landsmælikvarða. Þar af hefur fjölgað um 13% á höfuðborgarsvæðinu en hins vegar um 17% utan höfuðborgarsvæðisins. Tæplega 30% á vinnumarkaði eru í opinberri þjónustu, bæði á og utan höfuðborgarsvæðisins.

Ég hef ekki átt þess kost að fara nákvæmlega yfir þá skýrslu sem hér er vitnað til. Mér sýnist þó augljóst að þar sé unnið út frá svokölluðu tryggingagjaldi en það vill svo til að allar opinberar stofnanir sem eru með starfsemi víða úti um land skila þessu tryggingagjaldi til skattstofunnar í Reykjavík og virðist sem skýrsluhöfundur gangi út frá því að viðkomandi starfsemi sé þar.

Á undanförnum árum hefur verið farið út í fjölmörg verkefni á þessu sviði, stofnanir hafa ýmist verið fluttar í heilu lagi eða að hluta. Ég minni á Landmælingar Íslands, Byggðastofnun og hluta Íbúðalánasjóðs. Ég minni á stofnanir á vegum samgönguráðuneytisins og núna síðast á vegum sjávarútvegsráðuneytisins þegar ákveðið var að flytja hluta af starfsemi Fiskistofu og Veiðieftirlitið út á land.

Hér hefur því margt verið gert. Skipuð var sérstök nefnd af forsætisráðherra sem hefur átt reglulega fundi með ráðherrum, farið yfir þessi mál í þeim tilgangi að fjölga verkefnum og störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Það sem einkum hefur verið lögð áhersla á í því sambandi er að styrkja þær stofnanir sem eru til staðar úti á landsbyggðinni, m.a. með því að færa til þeirra verkefni, t.d. frá öðrum stofnunum og ráðuneytum. Í því sambandi má nefna menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, rannsóknastofnanir, embætti sýslumanna og skattstofur. Mikil áhersla hefur verið lögð á að fjölga störfum sem krefjast háskólamenntunar og þar hefur athyglin sérstaklega beinst að einum byggðarkjarna í hverjum landsfjórðungi sem síðar með margfeldisáhrifum getur haft jákvæð áhrif á störf og búsetu í nálægum byggðarlögum. Í því sambandi ber einkum að hyggja að menntastofnunum og sjúkrahúsum. Það hefur verið farið út í eflingu menntastofnana víðs vegar um landið og aldrei hefur jafnmikið gerst og á undanförnum árum í þeim efnum.

Það er ekki þar með sagt að þessum verkefnum sé lokið og að nóg hafi verið að gert. Hér er um sífelld verkefni að ræða en við verðum líka að gæta þess þegar þessi mál eru dæmd að gífurlegar breytingar hafa orðið á þjóðfélaginu, á okkar þjóðfélagsgerð. Það má segja að byggðin hafi færst miklu meira saman á undanförnum árum en nokkru sinni fyrr. Aðrar kröfur eru gerðar til þjónustu, menntunar og annarra atriða sem skipta máli í sambandi við það hvar fólk velur sér búsetu.

Ég tel að þessi skýrsla gefi ekki alveg rétta mynd af ástandinu en það er sjálfsagt að fara betur yfir þau mál og ræða þau. Hér er beitt stærðfræðilegum aðferðum sé ég við lauslegan lestur á þessari skýrslu. (Forseti hringir.) Þessi mál eru til stöðugrar athugunar og umræðu og verða það áfram.



[13:10]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Hér er bryddað upp á afar mikilvægu og stóru máli og full ástæða er til þess að hæstv. forsætisráðherra kanni vel og gefi sér betri tíma til að fara yfir þá skýrslu sem hér liggur til grundvallar. Það er nefnilega augljóst mál að þar eru vísbendingar um að þrátt fyrir að hér hafi lengi verið við lýði byggðastefna um að fjölga eigi opinberum störfum á landsbyggðinni og auka þar hlut hins opinbera hefur árangurinn verið býsna lítill. Það eru vísbendingar um að hann hafi ekki bara verið lítill, heldur hafi í raun og veru hin opinbera stefna unnið gegn því stefnumiði sem gjarnan hefur verið sett fram í byggðastefnum.

Það segir okkur að ekki er nóg að setja saman fallegar skýrslur eða falleg markmið á blað ef ekki er litið heildstætt á málin. Það blasir við þegar þessi skýrsla er lesin að tekjur ríkisins eru hlutfallslega meiri af landsbyggðinni en þeir fjármunir sem þangað fara. Þetta hefur m.a. þær afleiðingar að höfuðborgarsvæðið hefur vaxið hraðar en ella hefði verið. Um leið og Reykjavík eða höfuðborgin er miðstöð þjónustu og verslunar sogar að sjálfsögðu það svæði að sér fjármagn af landsbyggðinni. (Gripið fram í.)

Ef til staðar væri heildstæð stefna hefðu menn að sjálfsögðu beint þessu opinbera fjármagni meira út til landsbyggðarinnar með fjölgun starfa og flutningi stofnana vegna þess að þá hefði það fjármagn líka farið í gegnum hagkerfi höfuðborgarsvæðisins og dregið mjög úr þessum mismunandi vexti eftir svæðum.

Það sem er athyglisvert við skýrsluna og við höfum því miður fengið allt of lítið af dæmum um er að þarna er verið að beita svokallaðri svæðishagfræði. Það er nútímaleg fræðimennska að skoða þetta þannig vegna þess að eins og við vitum eru hagkerfin orðin meira og minna samliggjandi eftir löndum og það er oft og tíðum meiri samræming innan svæða en jafnvel í heilum löndum. Þess vegna er ástæða til að hvetja (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra til að fara enn betur yfir málið.



[13:13]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þetta er út af fyrir sig athyglisverð skýrsla sem hér er til umræðu en þegar ég er búinn að fara aðeins yfir stærðfræðiformúlurnar hef ég, eins og hæstv. forsætisráðherra, áhyggjur af því að grunnupplýsingarnar séu kannski ekki alveg þess eðlis að hægt sé að taka þær vísbendingar sem þarna eru sem heilagan sannleik. Þær þarf að skoða betur.

Ég verð hins vegar að taka undir með hv. málshefjanda að stöðugur vöxtur hins opinbera er áhyggjuefni. Engum þarf þó að koma á óvart að hlutfall opinberra starfa sé hærra á höfuðborgarsvæðinu. Eins og kom þó fram hjá hæstv. forsætisráðherra hefur þetta verið að breytast til batnaðar og má auðvitað enn breytast. Að því er unnið. Við í sjávarútvegsráðuneytinu höfum unnið markvisst að því á undaförnum árum, bæði með breytingum á starfsemi stofnana okkar og eins með því að taka upp ný verkefni hjá útibúum stofnananna úti á landi. Þannig hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins verið breytt á þann veg að þjónusturannsóknir hafa verið einkavæddar að miklu leyti og störfin orðið eftir á þeim stöðum úti á landi þar sem þau fóru fram áður. Til viðbótar hefur útibúunum verið breytt í rannsóknarútibú og vænti ég mikils af þeirri breytingu í framtíðinni. Áhrifin eru aukin störf á þeim stöðum sem þar er um að ræða.

Við höfum tekið upp ný störf á Akureyri, bæði hjá RF og í Verðlagsstofu. Það síðasta eru svo ný störf hjá Veiðieftirliti Fiskistofu sem koma munu til í Vestmannaeyjum í bakreikningum á næsta ári og flutningur Veiðieftirlitsins út á land í útibú, í Vestmannaeyjum, á Höfn, í Stykkishólmi, Grindavík og viðbót á Akureyri. Af þessu má sjá að ríkisstjórnin vinnur mjög skilvíslega að þessu máli og ég geri ráð fyrir því að tölurnar í næstu framtíð verði áfram jákvæðar.



[13:15]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að full þörf sé á þessari umræðu og ekki bara umræðu, heldur vönduðum rannsóknum til að undirbyggja betur vitræna og upplýsta umfjöllun um þessi mál. Ég þekki ekki þær tölur sem hæstv. forsætisráðherra vitnaði til um að búskapurinn hefði eitthvað lagast eða þróast landsbyggðinni í hag hvað varðar opinber störf þar annars vegar samanborið við höfuðborgarsvæðið hins vegar. Ég man þó eftir næstsíðustu — eða var það kannski þarnæstsíðasta? — byggðaáætlun inni í hverri voru háleit markmið um að fjölga störfum á landsbyggðinni sérstaklega og umfram það sem gerðist hér á höfuðborgarsvæðinu. Þegar það tímabil var gert upp var niðurstaðan sú að öll fjölgun opinberra starfa í landinu var á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðin hélt sjó með óbreyttan fjölda. Svo mikið man ég. Hvort þetta var næstsíðasta eða þarnæstsíðasta byggðaáætlunartímabil læt ég liggja milli hluta.

Tvennt held ég að skipti hér miklu máli, annars vegar hve mikið er gert til að jafna aðstæður og reyna að tryggja sæmilegt jafnvægi í byggðaþróun. Staðreyndin er sú að þegar Ísland er skoðað hefur byggðaröskun á Íslandi orðið meiri en í nokkru öðru vestur-evrópsku landi fyrir utan stríðstíma. Það er staðreynd. En aðgerðir opinberra yfirvalda til jöfnunar í þessum efnum eru mun minni að umfangi en í mörgum nágrannalöndum. Noregur, Skotland, norðurhéruð Svíþjóðar og Finnlands, á öllum þessum svæðum er mun meira gert til að vega upp aðstöðumuninn og jafna skilyrðin.

Svo er það spurningin: Hvernig nýtist það fé sem menn leggja þarna af mörkum? Miðsækni hinnar opinberu þjónustu er staðreynd, við þekkjum hana, og það er full ástæða til að fara í þetta uppgjör og skoða það, líka innan skattkerfisins. Ég nefni til sögunnar einn skatt sem landsbyggðin ber af mun meiri þunga en höfuðborgarsvæðið, virðisaukaskattinn sem leggst ofan á endanlegt vöruverð (Forseti hringir.) að meðtöldum flutningskostnaði, hægari vöruveltu og öllu því á landsbyggðinni. (Forseti hringir.) Það er víða sem svona uppgjör mætti fara fram.



[13:17]
Gunnar Örlygsson (Fl):

Frú forseti. Ég vil taka undir ýmislegt í máli hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar í þessum málum og ber þar helst að nefna þá útþenslu og þann vöxt sem hefur einkennt ríkisbáknið á undanförnum árum. Í því tilliti má til að mynda benda á yfirstjórn landbúnaðarins á Íslandi. Ef ég man rétt erum við með 12 stofnanir um íslenskan landbúnað, 55–60 nefndir og svo má áfram telja. Í raun má segja að yfirstjórn landbúnaðar á Íslandi endurspegli það atvinnuástand sem einkenndi íslenska þjóð um miðja síðustu öld. Áfram er hægt að telja og ég spái því að á næstu árum, hvort sem verður í stjórnartíð núverandi stjórnarflokka — þó svo að ég efist um það — muni ýmislegt breytast er varðar ríkisbáknið í heild sinni. Má þar nefna Íbúðalánasjóð, ríkisfjölmiðlana, heilbrigðiskerfið og svo má lengi telja.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra kom því að í máli sínu að hann óttaðist og hugnaðist ekki sú þróun sem orðið hefur á vexti hins opinbera á umliðnum árum. Tek ég undir orð hans. Í því ljósi vil ég benda á, frú forseti, nýlega ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra um að bæta við starfsstöð Fiskistofu í Vestmannaeyjum. Það er kannski góðra gjalda vert en að sama skapi samhliða slíkum breytingum hefði maður haldið að í þessum eftirlitsiðnaði okkar mundi þá fækka störfum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum mun samt ekki draga úr starfsemi Fiskistofu í Reykjavík þrátt fyrir þessa viðbót ráðherra í Vestmannaeyjum. (Gripið fram í: Hvaða bull …?) Þetta er samkvæmt þeim fregnum sem ég hef frá liðsmanni hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Í annan stað, frú forseti, vil ég benda á þann möguleika að í ljósi (Forseti hringir.) verkefnabreytinga milli ríkis og sveitarfélaga má búast við því að misræmi í opinberri þjónustu muni breytast til betri vegar á næstu missirum.



[13:20]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft við mjög athyglisverðu máli. Sú skýrsla sem hefur verið vitnað til í umræðunni leiðir enn og aftur í ljós að opinber störf í ríkisrekstrinum eru hlutfallslega miklu fleiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Það er því miður gömul saga og ný. Það þarf því að vinna áfram að því að rétta þennan hlut. Ríkisstjórnin hefur verið að vinna að því eins og hæstv. forsætisráðherra benti á áðan þó að vissulega mætti ganga betur á sumum sviðum í þeim efnum.

Ég fagna hér, hæstv. forseti, sérstaklega útspili hæstv. sjávarútvegsráðherra varðandi fjölgun starfa á vegum Fiskistofu á landsbyggðinni. Það vill einmitt svo til að starfsemi þeirrar stofnunar snýr að því að hafa eftirlit með atvinnugrein sem nær eingöngu er starfrækt á landsbyggðinni. Ég tel að hér sé um þjóðhagslega hagkvæman flutning að ræða.

Hæstv. forseti. Í ljósi þeirrar staðreyndar að opinber störf á vegum ríkisins eru hlutfallslega færri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, sem endurspeglast svo í þeirri umræðu sem við höfum hér uppi, hvernig er þá hægt að sætta sig við það að undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar, sjávarútvegurinn, sé sérstaklega skattlögð umfram aðrar atvinnugreinar með hinu svokallaða veiðigjaldi án þess að þeir fjármunir skili sér aftur til sjávarbyggðanna í formi uppbyggingar atvinnulífs og nýsköpunar?

Það er algjört grundvallaratriði í þessari umræðu, og endurspeglast hér, að ríkisstjórnin verður að beita sér fyrir því að veiðigjaldið renni aftur til sjávarbyggðanna. Margar þær byggðir heyja nú ákveðna vörn og ég fagna því sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að veiðigjaldið sé m.a. ein leiðin til að efla þessar byggðir. Ég fagna því og fagna svari hæstv. forsætisráðherra í þessum efnum.



[13:22]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er kannski ráð áður en hv. þingmenn tala sig til meiri hita í þessu máli að átta sig á því að hér býr ein þjóð í einu landi, a.m.k. síðast þegar ég gáði.

Hér hefur verið tekin til umræðu ákveðin rannsókn tiltekins fræðimanns við Viðskiptaháskólann á Bifröst þar sem hann beitir sjónarhorni svæðishagfræði svokallaðrar á umsvif og umfang hins opinbera sl. 20–30 ár. Þetta eru vissulega mjög fróðlegar niðurstöður, ekki síst vegna þess að þær leiða auðvitað það í ljós sem allir vita sem með þessu hafa fylgst að hið opinbera hefur vaxið hratt og mikið hér á landi á undanförnum áratugum.

Ef menn vilja setja það í pólitískt samhengi skulu menn líka hugsa til þess hverjir hafa verið hér í ríkisstjórn meira og minna síðustu þrjá áratugina. Það er Framsóknarflokkurinn. Mér telst svo til að hann sé búinn að vera í ríkisstjórn nærri því allt mitt líf, frá 1971–1978, 1980–1991 og svo frá 1995 til dagsins í dag. Þetta eru á síðustu 35 árum tæplega þrír áratugir líklega og hæstv. forsætisráðherra er búinn að vera hér á þingi næstum allan þennan tíma. (Gripið fram í.) Það þarf kannski að setja þessa hluti í pólitískt samhengi byggðastefnunnar um það hvaða árangur hún hefur borið eða hvort hún hafi í raun verið til. Það hefur verið mikið um hana talað og mörgu lofað, en hefur hún í raun verið til?

Það er kannski sú spurning sem hæstv. forsætisráðherra ætti að nota þessa umræðu til að svara.



[13:24]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í skýrslu Vífils Karlssonar er dregið fram hagfræðilíkan þar sem hann spyr: Er landfræðilegt misræmi í öflun og ráðstöfun opinbers fjármagns eftir landshlutum? Í ljós kemur töluvert misræmi á þeim hagfræðilegu forsendum sem fram koma í skýrslunni og því er full ástæða til að skoða málið frekar eins og skýrsluhöfundur reyndar bendir á í niðurstöðum sínum.

Eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra fór yfir áðan er hægt að gera verulegt átak í að færa til opinber störf. Hann hefur sýnt að vilji er allt sem þarf. Þetta er frábært átak hjá honum og hans verður lengi minnst í umræðunni vegna þessa.

En af hverju skyldu þjónustufyrirtæki ríkisins beina starfsemi sinni eða kaupum á þjónustu út á land? Í fyrsta lagi koma þar til byggðalegar forsendur. Í öðru lagi að veita þjónustu í nærumhverfi þeirra sem hana nýta. Í þriðja lagi að nýta staðarþekkingu og í fjórða lagi að nýta það trausta og stöðuga vinnuafl sem til staðar er.

Þau einkafyrirtæki sem hafa fært starfsemi sína eða hluta hennar út á land hafa nefnt það sem aðalatriði að til starfa hefur valist stöðugt, traust og gott vinnuafl. Kostnaður við starfsþjálfun hefur því verið mun minni en ella og gæði vinnunnar þar af leiðandi mun meiri. Til þessara þátta horfa einkafyrirtæki, og því skyldu ríkisfyrirtæki ekki horfa til þeirra líka? Það er tregðulögmál sem illt er að skilja en þeir ríkisforstjórar sem sjá ljósið eiga heiður skilinn.



[13:26]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra vitnaði í einhverjar tölur sem ég veit ekki hvaðan koma. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti greint okkur frá því vegna þess að þessa umræðu um byggðamál skortir fagmennsku og að það séu einhverjar rannsóknir á bak við hlutina.

Að vísu olli hæstv. forsætisráðherra mér talsverðum vonbrigðum með að lesa þessa skýrslu Vífils Karlssonar bara lauslega. Ég tel að skýrslan sé þess verð að fara gaumgæfilega í gegnum hana. Auðvitað geta verið einhverjir hnökrar á henni, ekki ætla ég að þvertaka fyrir það. Hingað kom í fyrrahaust skýrsla um framvindu byggðamála frá hæstv. byggðamálaráðherra, hæstv. frú Valgerði Sverrisdóttur, og það er ein ömurlegasta skýrsla sem ég hef lesið. Ef hæstv. forsætisráðherra ætlar að fara í gæðaeftirlit með byggðaskýrslum ætti hann einmitt að byrja hjá sinni eigin ríkisstjórn. Það er alveg svakalegt að lesa skýrslur um byggðamál þar sem ekki koma fram neinar mælistærðir, ekkert um íbúaþróun og ekkert um fjölgun eða fækkun starfa. Þetta er borið hér á borð og menn eiga að fjalla um það. Þess á milli gefur hæstv. byggðamálaráðherra Valgerður Sverrisdóttir út svona glansbæklinga sem ekkert er á bak við, er eingöngu upptalning héðan og þaðan á einhverjum verkefnum.

Það er orðið löngu tímabært að ríkisstjórnin noti síðustu tvö ár sín til að fara í raunverulega vinnu í byggðamálum og reyni að bæta fyrir misgjörðir sínar. Þetta er, eins og kom fram hér hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, svakalegt ástand og eitt af þeim verkefnum sem menn ættu að sinna af kostgæfni en ekki renna rétt lauslega yfir, frú forseti.



[13:28]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Mér finnst hv. þm. Sigurjón Þórðarson ræða þessi mál af mikilli léttúð. (MÞH: Nei.) Mér finnst ástæða til að fara yfir þær gífurlegu framfarir sem hafa orðið í þessu landi á undanförnum árum og áratugum sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var að rifja hér upp á allri sinni ævi. (Gripið fram í.) Það er ekki að ástæðulausu hvað hv. þingmaður er sældarleg og lítur vel út. Hún hefur lifað hér afar góðu lífi undir styrkri stjórn þeirra stjórnmálaflokka sem hér hafa farið með völd. (Gripið fram í.) Mér finnst mikilvægt að hv. þingmaður bendi á það, því að það er rétt. (Gripið fram í: Hún býr …)

Hér hafa að sjálfsögðu orðið gífurlegar framfarir. Við skulum minnast þess að Ísland er í útjaðri Evrópu og við erum í samkeppni við öll önnur lönd í Evrópu og víðar í heiminum. Aðalatriðið er það að við stöndum okkur í þeirri samkeppni. Það höfum við vissulega gert og við erum í fremstu röð meðal þessara þjóða.

Auðvitað hafa orðið hér miklar breytingar, breytingar á búsetu og líferni, og þær hafa haft mikil áhrif á þjóðfélagið. Hugsið ykkur allar samgöngubæturnar sem hafa orðið á undanförnum árum og þær miklu breytingar, a.m.k. frá því að ég man eftir mér og ég man nú aðeins lengur en hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, (Gripið fram í.) heldur lengur. Þegar ég man fyrst eftir mér á suðausturhorni landsins komust menn ekki einu sinni austur á land, hvað þá til Reykjavíkur, þannig að mér finnst stundum að menn mættu muna betur þær gífurlegu breytingar og framfarir sem hafa orðið í þessu landi í stað þess að staglast stöðugt á því, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson, að hér hafi ekkert gerst. Hann hefur verið mjög utan gátta greinilega, hv. þingmaður.