131. löggjafarþing — 104. fundur
 6. apríl 2005.
Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri.
fsp. JBjarn, 611. mál. — Þskj. 914.

[14:41]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini spurningu minni til hæstv. landbúnaðarráðherra varðandi stöðu og framtíð sláturhússins á Kirkjubæjarklaustri. Slátrun hefur verið rekin á Kirkjubæjarklaustri um langt skeið. Vinnustaðurinn hefur verið einn sá stærsti í byggðarlaginu og skipt afar miklu máli, bæði í atvinnulegu tilliti og einnig hvað varðar þjónustu við bændur og íbúa svæðisins.

Samkvæmt upplýsingum sem heimamenn Skaftárhrepps gáfu okkur í landbúnaðarnefnd í byrjun febrúar stendur til að sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri verði lokað, jafnvel frá og með næsta hausti. Það er Sláturfélag Suðurlands sem á og rekur húsið en sláturfélagið er í sjálfu sér í eign bænda á Suðurlandi.

Mikið hefur verið gert af því á undanförnum árum að úrelda sláturhús og loka atvinnustöðum í byggðarlögum í krafti hagræðingar. Ríkisvaldið hefur gengið þar inn með fjármagn, m.a. til að úrelda burt atvinnutækifærin. Sumpart hefur það verið til góðs en í öðrum tilvikum hefur verið dregið í efa hvort það hafi verið til góðs. Það er a.m.k. ljóst að sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri hefur skipt gríðarlega miklu máli á svæðinu. Það kom fram á fundinum með fulltrúum Skaftárhrepps að Sláturfélag Suðurlands hefði lítið samband haft við heimamenn varðandi þá ákvörðun en Sláturfélagið mun hafa sótt um úreldingarfé til að loka húsinu.

Í skýrslu sem hefur verið unnin að beiðni Skaftárhrepps, um áhrif sláturhússins á Kirkjubæjarklaustri á atvinnulíf og búsetu í Skaftárhreppi, kom fram að um 30 manns hafa haft þar atvinnu auk þjónustuaðila sem því tengjast. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra:

1. Hve mörgu fé hefur árlega verið slátrað í sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri sl. fimm ár og hve mörg ársverk hafa tengst þeirri starfsemi?

2. Hversu mikið er ráðgert að greiða Sláturfélagi Suðurlands fyrir að loka sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri og hefur sú greiðsla verið innt af hendi?

3. Kemur til greina að ráðherra afturkalli fjárveitingu ríkisins til úreldingar sláturhússins og veiti sveitarfélaginu hana þess í stað til atvinnuuppbyggingar?

4. Kemur til greina að ráðherra beiti áhrifum sínum til að tryggja áframhaldandi rekstur sláturhússins, sem ég veit að hugur heimamanna stendur til?



[14:44]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrsta spurning er um hversu mörgu fé hafi verið slátrað í sláturhúsinu síðustu árin. Árið 2000 voru það 21 þús. fjár, 26 þús. árið 2001, 27 þús. árið 2002, 27.400 árið 2003 og 27.894 árið 2004.

Samkvæmt upplýsingum frá Sláturfélagi Suðurlands eru ársverk ekki nákvæm upp á klukkustund þessi ár en talið er að ársverkin hafi verið 4,7—5,2. Ég vil auðvitað taka fram að það er varla hægt að reikna þetta upp í ársverk. Þessir peningar hafa auðvitað verið fólkinu sem þar vinnur mjög dýrmætir peningar. Sveitafólkið hefur haft þarna vinnu við sláturhúsið og hefur munað um þær tekjur. Þannig er erfitt að miða bara við ársverkin sem ekki eru mörg.

Hversu mikið er ráðgert að greiða Sláturfélagi Suðurlands o.s.frv. fyrir þetta? Úreldingarbætur Sláturfélags Suðurlands vegna úreldingar á Kirkjubæjarklaustri námu 24,6 millj. og fór sú greiðsla fram í byrjun þessa árs.

Kemur til greina að ráðherra afturkalli fjárveitingu til ríkisins og greiði sveitarfélögum? spyr hv. þm. Nei, slíkt væri brot á reglum nr. 651/2003, um úreldingu sláturhúsa á árunum 2003 og 2004. Ef brugðið verður út frá áður settum reglum um úreldingu hefur jafnræði þeirra sem sóttu um úreldingu verið skert, sennilega með ólögmætum hætti. Ekki er hægt að breyta fyrir fram settum forsendum fyrir úreldingu sláturhúsa eftir á, einum aðila í hag eða einu sveitarfélagi í hag. Verði slíkt gert er jafnræðisregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem ég veit að hv. þingmenn þekkja, brotin og ríkissjóður kann þar með að verða dæmdur bótaskyldur fyrir hugsanlegu tjóni annarra sláturleyfishafa. Ég veit að hv. þingmenn vilja ekki þannig sé brotið gegn lögum eða reglugerðum þannig að þetta kemur ekki til greina.

Hv. þm. spyr: Kemur til greina að ráðherra beiti áhrifum sínum til að tryggja áframhaldandi rekstur sláturhússins? Ég átti fund bæði með stjórn og framkvæmdastjóra Sláturfélags Suðurlands og enn fremur með sveitarstjórn Skaftárhrepps og gerði þeim grein fyrir þessum úreldingarreglum og því fé sem veitt væri til þessa verkefnis. Ég gerði þeim grein fyrir því að þetta væri einungis ákvörðun félags þeirra, Sláturfélags Suðurlands og að það ætti rétt lögum samkvæmt á að sækja um úreldingarbætur, það væri Sláturfélag Suðurlands sem úrelti þetta hús en ekki landbúnaðarráðherra. Það er alfarið Sláturfélag Suðurlands sem tekur þessa ákvörðun og gerir það á sínum forsendum og ég vona að hún sé tekin út frá hagsmunum félagsins. Ég get ekki tekið þá peninga og rétt öðrum. Það er annað mál hvað menn geta gert í byggðamálum í gegnum Byggðastofnun eða slíkt batterí, sem sinnir þeim verkefnum til að koma til móts við stöðuna í því sveitarfélagi.

Það var á erfiðum tímum í sauðfjárræktinni að farið var út í úreldingu sláturhúsa. Það er kannski til marks um þróunina á því sviði að fyrir nokkrum árum rak Sláturfélag Suðurlands líklega 7–8 sláturhús. Nú rekur það eina starfsstöð á Selfossi og telur sig bæði geta staðið vörð um hærra verð til bændanna og lægri sláturkostnað sem skili sér til bændanna með þeim hætti. Ég er sannfærður um að úrelding sláturhúsanna, þær aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í til að bæta bændum þeirra erfiðu kjör, þ.e. 170 millj. kr. til úreldingar sláturhúsanna og 140 millj. kr. til að bæta stöðu sauðfjárbænda á þessum tíma, hafa haft prýðileg áhrif á stöðu þeirra. Nú er staðan sú að sala á lambakjöti hefur ekki verið meiri í mörg ár. Þróunin í lambakjötinu er ör í þeim starfsstöðvum sem ekki bara slátra og setja inn á frysti heldur slátra, vinna afurðina, koma henni á markað o.s.frv. Það er því mikil þróun í þessari grein. Ég er sannfærður um að þessi úrelding og þær aðgerðir sem sauðfjársamningurinn, það sem unnið hefur verið að á vegum Bændasamtakanna og ekki síður sláturleyfishafanna, hefur skilað sér í batnandi stöðu sem þingmenn nefna oft í þessum stól og fagna með landbúnaðarráðherra yfir því að bjartara skuli fram undan.



[14:49]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri er hér til umræðu og það fer ekkert á milli mála að það hefur haft afar mikla þýðingu, bæði fyrir sveitarfélagið og eins fyrir þá sem hafa haft þar atvinnu. Eins og fram hefur komið er það alfarið ákvörðun Sláturfélags Suðurlands að taka þátt í úreldingu sláturhúsa og ég tek undir með hæstv. landbúnaðarráðherra að það er ekki hægt að taka afturvirka ákvörðun í þessu sambandi, það gengur einfaldlega ekki. Það var því alfarið ákvörðun Sláturfélagsins að fara í þessa aðgerð, eins og fram hefur komið bæði með fundum þingmanna kjördæmisins og landbúnaðarnefndar en að sjálfsögðu þarf eitthvað annað að koma til fyrir þetta samfélag. Það er mjög mikilvægt að ríkið komi að því í gegnum t.d. Byggðastofnun og atvinnuþróunarsjóð og ég vil benda á að það eru mikil sóknarfæri og margir möguleikar á Klaustri (Forseti hringir.) og með tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs.



[14:50]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er alltaf sárt þegar störfum fækkar á landsbyggðinni og ekki síst í sauðfjárræktarhéraði eins og í Skaftafellssýslum. En heimurinn er harður hvað þetta varðar og þetta er þáttur í atvinnuháttabreytingu, þ.e. hagræðingarkrafan. Lenging sláturtíma upp í 5–6 mánuði á ári gerir það að verkum að það er hagkvæmara fyrir viðkomandi fyrirtæki að sameina vinnslu sína, sláturtíma og vinnslu á þessum afurðum, og þess vegna er þessi leið farin.

Benda má á að Sláturfélag Suðurlands er eitt elsta sláturfélag á landinu og úrvinnslufélag á þessu sviði og hefur aldrei annað en staðið við skuldbindingar sínar við bændur. Heimamenn á Kirkjubæjarklaustri og nágrenni eru áræðnir, hafa tekið höndum saman og eru að leggja í starf samhliða og með Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands um atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Mér finnst góður tónn í fólkinu miðað við þær aðstæður sem það býr við núna.



[14:52]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri hefur verið lokað og það er því miður staðreynd. Ég var fyrr í vetur staddur á fundi með íbúum Kirkjubæjarklausturs og þar var einnig hæstv. landbúnaðarráðherra staddur. Það var mjög forvitnilegt að koma á þann fund og það var mjög áhugavert og skemmtilegt að finna að þrátt fyrir þetta hefur fólk alls ekki gefist upp. Við skulum ekki gleyma því að þetta er lítil byggð á milli sandanna. Hún er viðkvæm fyrir áföllum og ég tel mjög brýnt að lögð verði mikil áhersla á það að þeirri vörn sem þarna er núna verði á ný snúið í sókn. Ég hygg, og deili held ég þeirri skoðun með fjölmörgum íbúum á Kirkjubæjarklaustri og í nágrannasveitum, að sóknarfærin liggi að stórum hluta til í ferðaþjónustu og ég tel að það sé skylda okkar, ekki síst þingmanna kjördæmisins, að sjá til þess að þá verði hlúð að vaxtarbroddum og nýsköpun í þeim atvinnuvegi til framtíðar.



[14:53]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir sagði áðan að það væri alfarið ákvörðun SS að leggja niður þessa starfsemi. Ég er ekki sammála þessu. Það er inngrip hins opinbera að borga peninga til að úrelda sláturhús. Nú ætla ég ekki að dæma um hvort það er skynsamlegt að leggja þetta sláturhús niður en ég get ekki séð annað en að þegar menn ákveða að nota peninga frá ríkinu til að koma á nánast skipulagslausu ástandi í sláturhúsamálum eins og raun ber vitni — það er þannig orðið núna að menn eru keyrandi sauðfé endanna á milli í þessu landi, miklu lengri vegalengdir en skynsamlegt er, vegna þess að ríkið er búið að grípa inn í með því að borga peningalausum sláturhúsum peninga til að leggja niður starfsemina. Hæstv. landbúnaðarráðherra er bara kátur og ánægður með þetta og montinn af þessu. Mér finnst full ástæða til að menn (Forseti hringir.) endurskoði þá ferð sem farið var í.



[14:54]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég var á ferð á Kirkjubæjarklaustri í síðustu sláturtíð og gerði mér þá vel grein fyrir því hve mikið vægi þessi vinnustaður hefur fyrir sveitarfélagið og það fólk sem þar býr. Því átti ég kannski von á að hæstv. landbúnaðarráðherra mundi reyna að taka þetta mál fastari tökum en síðan varð.

Svæðið sem sláturhúsið þjónustaði er eftir því sem ég best veit riðulaust svæði. Því velti ég fyrir mér hvort ekki hefði verið rétt að taka það inn í myndina þegar ákvörðun var tekin um að loka þessu sláturhúsi, þá til verndunar svæðisins vegna þess að öll þessi keyrsla á sláturfé út og suður hlýtur að skapa meiri hættu hvað riðusmit varðar. Er ekki um sérstöðu þarna að ræða varðandi þetta sláturhús og þetta svæði og hefði því ekki verið hægt að taka á úreldingu þessa sláturhúss með öðrum hætti en hinna sem ráðherrann vísaði hér til? Hefði ekki verið hægt að vísa til riðuleysis svæðisins þegar menn voru að velta fyrir sér jafnræði milli sláturhúsa?



[14:55]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er mjög sérstakt að heyra málflutning stjórnarsinna sem láta í veðri vaka að þetta sé eingöngu á ábyrgð Sláturfélags Suðurlands. Auðvitað er það ekki. Hér er dæmi um ríkishagræðingu kvótaflokkanna. Það er sorglegt að horfa upp á að búið sé að taka 170 millj. kr. af skattfé landsmanna til að fara í einhverja ríkishagræðingu. Það sem er skrýtnast við þetta hjá þessum kvótaflokkum til sjávar og sveita er að engir útreikningar liggja að baki, hv. þm. Drífa Hjartardóttir. Það eru engir útreikningar sem liggja að baki ákvörðuninni. Menn tala um það eins og það sé jákvætt. Það er ömurlegt að heyra að flokkur einkaframtaksins skuli vaða hér fram með buddu almennings og greiða fólki og loka fyrir því starfsstöðvum. Þetta er ömurlegt.



[14:57]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil í þessari umræðu víkja sérstaklega að þeim miklu flutningum sem fara fram á sauðfé á milli landsvæða eftir að sláturhúsum hefur fækkað sem raun ber vitni. Það er að mínu viti mikið áhyggjumál. Ég held að ég hafi réttar upplýsingar um að þess séu jafnvel dæmi að 48 klukkustundir hafi liðið frá því að fé er tekið af bæ og þangað til því er slátrað, stór hluti af því hafi farið í flutningstíma og tafir og síðan bið eftir því að hafin væri slátrun í viðkomandi sláturhúsi. Þetta held ég að sé mjög varhugavert og það snýr auðvitað að dýravernd.

Það sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á er flutningur á flutningstækjum sem fara bæði af riðusvæðum og inn á ósýkt svæði og síðan aftur til baka o.s.frv. Þarna held ég að liggi mikil hætta og við þurfum sérstaklega að huga að því hvort ekki þurfi að gæta vel að verkum á þessu sviði.



[14:58]
Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að hvert starf í sveitarfélagi eins og Vestur-Skaftafellssýslu skiptir gríðarlega miklu máli. Það þekkjum við sem höfum verið þingmenn á þessu svæði að heimamenn hafa unnið mjög vel í sláturhúsinu sínu á Klaustri. Nú er hins vegar búið að loka því og það er staðreynd máls. Það var mjög mikið barist fyrir því að reyna að halda þessu sláturhúsi. Það er alveg staðreynd þó að hér inni séu einhverjir að tala um riðu og ýmislegt annað sem ég vona að landbúnaðarráðherra lýsi betur á eftir því að hann hefur lengri tíma.

Sláturfélag Suðurlands rekur þetta fyrirtæki. Það var líka mikil umræða á Hvolsvelli á sínum tíma þegar lagt var niður sláturhús þar en byggð upp kjötvinnsla í staðinn. Margir bændur voru á móti því þá en þetta skiptir það samfélag miklu máli. Við eigum að styðja samfélögin í Vestur-Skaftafellssýslu. Hvert starf skiptir máli. Við eigum að horfa til framtíðar og ég treysti m.a. landbúnaðarráðherra til að berjast fyrir því að bændur geti selt afurðir á búum sínum þannig að við eigum að byggja upp. Við eigum ekki að horfa til baka, við eigum að horfa fram á veginn.



[14:59]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þykist vita að á Kirkjubæjarklaustri og í Skaftárhreppi sé dugnaðarfólk sem muni vinna áfram að uppbyggingu atvinnulífs. En þá ákvörðun að loka sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri tel ég afar ófaglega tekna. Það hefur komið fram frá heimamönnum að lítið samráð hafi verið haft við þá um þessa lokun.

Í öðru lagi fer þetta fjármagn sem varið er til að loka húsinu ekki inn í samfélagið, ekki inn í héraðið til að byggja upp nýtt atvinnulíf, heldur fer það út. Sláturfélag Suðurlands skilaði góðum hagnaði síðasta ár, og það er vel.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Var farið ofan í forsendur þessarar beiðni frá Sláturfélagi Suðurlands til að loka sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri? Skriflegri fyrirspurn um hvernig laun heimamanna skiptast á hin ýmsu sláturhús í landinu getur ráðuneytið ekki svarað og segist ekki hafa gögn um það sem eru þó grundvallarforsendur fyrir því að taka ákvörðun um hvar eigi að hagræða og hvar eigi að loka sláturhúsum. Sú ákvörðun að loka sláturhúsinu er engan veginn á faglegum forsendum unnin að mínu mati. Það ber að harma.

Ráðherra hefur síðan í hinu orðinu uppi umræðu um að hann vilji efla úrvinnslu og vinnslu og slátrun á búfé í heimabyggð. Ekki er þetta liður í því, eða er það? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra þá að koma til móts við þá yfirlýsingu sína? Ég tel, frú forseti, að það beri að harma vinnubrögð eins og hér eru höfð í frammi og þau eru á ábyrgð stjórnvalda að hluta til því að þau setja fjármagnið til úreldingar. Þeirra er að meta hvort ástæða sé til og réttmæt krafa að loka. Ég tel að það hafi ekki verið gert í þessu tilviki (Forseti hringir.) og ekki hafi verið réttmæt krafa að loka þessu húsi.



[15:01]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Það er auðvitað eðlilegt að tilfinningar skapist í kringum ákvarðanir sem þessar. Það er alltaf sárt þegar vinnustaður sem lengi hefur verið, þó hann starfi ekki nema fimm, sex vikur á hausti, hverfur.

Auðvitað er það rétt sem hér hefur komið fram að gulrótin í málinu er hagræðing í sláturiðnaði til að bæta kjör sauðfjárbænda og þeirra í Skaftafellssýslu líka. Ríkið ber því að því leyti ábyrgð, eins og fram kom hjá hv. þingmönnum, að það hefur sett gulrótina fram til að hagræða og bæta kjör sauðfjárbænda, sem kannski kemur síðan hinum megin frá að þeir sem unnu í húsinu hafa ekki tekjurnar áfram nema þá að fara lengra til að sækja sér vinnu. Allt er þetta rétt hjá hv. þingmönnum og þetta skapar auðvitað tilfinningar sem eðlilegar eru.

Varðandi útreikningana fór fram mikil vinna og skýrsla var gerð og hv. þingmenn geta kynnt sér þær án þess að fullyrða um að engar forsendur séu til staðar og að engar rannsóknir hafi farið fram. Sláturfélag Suðurlands átti rétt á úreldingunni og nýtti sér hana. Ég er sannfærður um að Sláturfélag Suðurlands hefði ekki rekið húsið áfram hvort sem þessi peningur hefði komið eða ekki, eins og það hefur kynnt málið fyrir mér og fyrir heimamönnum. Sláturfélag Suðurlands er sterkara í dag en fyrir fimm árum og er sterkara í dag út af úreldingum bæði á Laxá og þessari stöð. Það er því þeirra mál.

Ég verð að segja fyrir mig að mér fannst margir hv. þingmenn horfa til framtíðar, tala um uppbyggingu á mörgum sviðum í Vestur-Skaftafellssýslu, það má ekki rugla heimavinnslu afurða saman við sláturhúsið, það er allt annað mál, hv. þm. Jón Bjarnason. Svo gerist það alltaf í umræðum sem þessum að menn koma eins og þeir séu í norðanvindi og stórhríð. Sumir þingmenn eru alltaf í norðanvindi og stórhríð, neikvæðir, öfugir og tala með þeim hætti að það er engin leið að sætta sig við málflutninginn. (Forseti hringir.)

En ég þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni alveg sérstaklega fyrir bjartsýna ræðu. Hún kom þó frá Frjálslynda flokknum.