131. löggjafarþing — 106. fundur
 7. apríl 2005.
Lífeyrissjóður bænda, 1. umræða.
stjfrv., 696. mál (hækkun iðgjalds, aldurstenging réttinda o.fl.). — Þskj. 1054.

[11:09]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda sem er að finna á þskj. 1054.

Eins og kunnugt er stendur Lífeyrissjóður bænda frammi fyrir vaxandi vanda gagnvart tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins. Til þess að stjórn hans geti brugðist við þessum vanda eru með frumvarpi þessu lagðar til tvær efnisbreytingar á gildandi lögum um Lífeyrissjóð bænda og er frumvarpið flutt að ósk stjórnar sjóðsins.

Í fyrsta lagi er lagt til að breyta ákvæðum er lúta að iðgjöldum sjóðfélaga og mótframlagi launagreiðenda þannig að hægt verði í samþykktum lífeyrissjóðsins að hækka iðgjöld og mótframlag svo að styrkja megi stöðu hans.

Í öðru lagi er lagt til að opna fyrir möguleika á aldurstengingu lífeyrisréttinda sem mjög hefur rutt sér til rúms eins og menn þekkja í öðrum lífeyrissjóðum. Eins og áður segir er halli á tryggingafræðilegri stöðu Lífeyrissjóðs bænda og kemur þar margt til. Þannig hefur aldursskipting sjóðfélaga ætíð verið sérlega óhagstæð miðað við flesta aðra lífeyrissjóði og lífeyrisbyrði sjóðsins þar af leiðandi verið mjög há. Meðalaldur sjóðfélaga verður hærri með hverju árinu sem líður og greiðandi sjóðfélögum fækkar. Af þessum sökum eru framtíðarskuldbindingar sjóðsins mjög þungar. Lífeyrisþegum sjóðsins fjölgar og eru þeir nú fleiri en greiðandi sjóðfélagar. Lífeyrisbyrði sjóðsins nam í árslok 2004 um 158%, en það þýðir að greiddur lífeyrir er nærri 60 af hundraði hærri en þau iðgjöld sem greidd eru til hans. Sjóðurinn þarf því stöðugt að ganga á eignir sínar og ávöxtun þyrfti að vera mjög góð, betri en hjá flestum öðrum lífeyrissjóðum, til að halda í horfinu.

Talið er að frekari möguleikar til að bæta stöðu Lífeyrissjóðs bænda að óbreyttum lögum séu ekki fyrir hendi. Því er lagt hér til og talið nauðsynlegt að opna fyrir möguleika á hækkun iðgjalds sjóðfélaga, mótframlags launagreiðenda svo og aldurstengingu réttinda, sem er að mati tryggingafræðings sjóðsins orðin óhjákvæmileg.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að væri hér um að ræða hefðbundinn lífeyrissjóð mundi hann ganga í gegnum breytingar af þessu tagi með því að breyta samþykktum sínum eða reglum á ársfundi en þar sem hér er um að ræða sjóð sem um gilda sérstök lög og þar sem ákvæði af þessu tagi er að finna í umræddum lögum er óhjákvæmilegt að verða við óskum stjórnarinnar með því að leggja það fyrir Alþingi að gera þær breytingar sem hér eru lagðar til. Öðruvísi koma þær ekki til framkvæmda.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins.



[11:12]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í mínu stutta andsvari bara þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að koma með fram með þessar breytingar. Ég tel að þær séu til mikilla bóta. Eins og fram hefur komið hafa lífeyrisréttindi bænda verið mjög bágborin og það er kominn tími til að þau verði lagfærð.

Við ræddum það áðan í utandagskrárumræðunni um Lánasjóð landbúnaðarins hvort hægt væri að styrkja lífeyrisréttindi bænda með söluandvirði hans. Ég tel að þetta frumvarp sé mjög til bóta og þakka fyrir það.



[11:13]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum, virðulegi forseti, fyrir undirtektirnar við þetta þingmál. Ég tek undir það að nauðsynlegt er að styrkja þennan lífeyrissjóð eins og hér er verið að gera og að það sé sjálfsagt mál að leita fleiri leiða til að gera það. Meðal annars hefur komið til athugunar, eins og hér var rætt í morgun, hvort hægt sé að nýta fjármuni úr Lánasjóði landbúnaðarins með einhverjum hætti í því skyni, en það er að sjálfsögðu sjálfstætt mál sem ekki verður rætt í þessari umræðu.



[11:14]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nýta mér réttinn til að fara í andsvar og gera litla athugasemd. Hér er verið að breyta lögum um lífeyrissjóð og fram kemur í greinargerð frumvarpsins að sjóðurinn stefni í þrot miðað við stöðuna núna og verið sé að opna möguleikann á að hækka iðgjald sjóðsfélaga, þ.e. hækka iðgjöldin á bændur. Ég saknaði þess svolítið í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að heyra örfá orð um hvernig þetta geti hugsanlega litið út fyrir bændurna. Er líklegt að þeir fari að greiða meira inn? Nú er búið að skerða réttindin talsvert og þau eru komin niður í lágmarksréttindi, eins og ég skil málið. Athyglisvert væri að heyra hvort hæstv. ráðherra geti upplýst þingheim eitthvað örlítið meira um hvernig þetta gæti komið út fyrir bændur í framtíðinni þó að sjálfsögðu sé ekki búið að semja.



[11:15]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki sagt fyrir um það með hvaða hætti stjórn sjóðsins muni nýta þær heimildir sem verið er að veita henni. Hitt veit ég að mótframlag launagreiðanda í sjóðinn kemur ekki frá neinum launagreiðanda heldur frá ríkinu. Þess vegna gilda m.a. um þetta málefni sérstök lög og þess vegna heyrir sjóðurinn ekki undir almenna lífeyrissjóðakerfið sem væri að mörgu leyti eðlilegt. Ríkið greiðir mótframlag vinnuveitandans. Við erum því að skapa svigrúm og ég sem fjármálaráðherra og ábyrgðarmaður ríkissjóðs er að leggja til að veittar verði heimildir til að hægt sé að greiða meira úr ríkissjóði sem mótframlag í sjóðinn ef því er að skipta þegar þar að kemur.

Ég vek svo athygli á því í framhaldi af þessu að sérstök lög voru um lífeyrissjóð sem við afnámum fyrir jól, lögin um Lífeyrissjóð sjómanna, vegna þess að ekki var talið lengur nauðsynlegt eða eðlilegt að um þann sjóð giltu sérstök lög, hann gæti fallið undir almennu lífeyrissjóðalöggjöfina enda var þar ekki um að ræða að þar væri ekki launagreiðandi sem gæti innt af hendi mótframlagið. Það er munurinn.

Vonandi tekst að komast fyrir vind hvað varðar vanda lífeyrissjóðsins. Auðvitað vonum við það öll en þar hefur búið um sig gamalgróinn fjárhagsvandi og, eins og við þekkjum öll, eru greiðslurnar úr lífeyrissjóðnum til bænda, eftirlaunaþega og fyrrverandi bænda, ekki háar eins og fram kom fyrr í vetur á þinginu þegar ég svaraði fyrirspurn frá hv. þm. Drífu Hjartardóttur um það efni.



[11:17]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svörin. Ljóst er að ríkið er að opna í lagaheimild möguleika á að hækka framlag sitt, en það er auðvitað alveg ljóst að það eru ekki stórkostlegar líkur á því að sjóðurinn dafni sérstaklega nema eitthvað mikið komi til af því að nú eru fleiri sem taka lífeyri út úr sjóðnum en greiða í hann. Aldursbreytingarnar í stéttinni eru líka þannig að aldurinn er alltaf að hækka og þeim að fækka sem standa undir sjóðnum á meðan byrðarnar aukast talsvert mikið.

Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki réttur skilningur að líklegast sé að ríkið komi inn með aukið framlag í meira mæli en bændurnir. Það er varla þannig að þeir bændur sem starfa í dag og standa undir sjóðnum fari að setja einhverjar stórar fjárhæðir í sjóðinn. Maður á mjög erfitt með að sjá það. Er það ekki líkleg niðurstaða að ríkið komi með veruleg framlög en bændurnir muni ekki hækka framlög sín svo miklu nemi?



[11:18]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um þetta vil ég engu spá. Ég vil bara segja að við erum að opna heimildir sem getur verið nauðsynlegt að nýta á síðari stigum og þá samkvæmt ábendingum, tillögum eða ákvörðunum á vettvangi sjóðsins. Ég held að nauðsynlegt sé að gera það vegna þess að þessi framkvæmd hefur verið að skjóta rótum í öðrum sjóðum og það hefur ekki verið svigrúm til þess vegna lagaákvæðanna um þennan tiltekna sjóð.



[11:19]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ekki nýtilkomið að Lífeyrissjóður bænda glími við vanda, því miður. Hann er vel kunnur og hefur verið fyrirsjáanlegur eins og þróunin hefur verið innan þeirrar stéttar mörg undanfarin ár og á löngu árabili. Vandinn er að hluta til sértækur. Hann lýtur að sérstökum aðstæðum í landbúnaðinum og á sér sögulegar skýringar og rætur, eins og þetta með aldurssamsetningu stéttarinnar. Það er líka ástæða til að hafa í huga og minnast þess hvernig að rekstri í landbúnaði hefur verið og er enn þá í verulegum mæli staðið, að hjón eða fjölskyldur standa saman að rekstrinum þó að lífeyrisréttindin hafi kannski fram að því síðasta fyrst og fremst verið bundin við bóndann sem skráður hefur verið fyrir búinu.

Að hluta til er vandi Lífeyrissjóðs bænda líka almenns eðlis og tengdur vanda margra annarra lífeyrissjóða. Að sjálfsögðu bætir ekki úr skák fyrir Lífeyrissjóð bænda þær nýju aðstæður sem m.a. nýtt mat á lífslíkum og örorkulíkum sem tekur til lífeyrissjóða almennt frá sl. ári ber með sér. Þann vanda þarf Lífeyrissjóður bænda að takast á við eins og aðrir lífeyrissjóðir.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að leggja áherslu á og hafa í huga ábyrgð og aðild ríkisins að málinu. Eins og fram kom að hluta til í svari hæstv. fjármálaráðherra í andsvari áðan er ríkið í mjög sérstakri stöðu í málinu. Vegna samskipta sinna og samninga við bændur er ríkið í hlutverki launagreiðandans að því leyti að það greiðir mótframlagið og það framlag ríkisins er hluti af samningsbundnum samskiptum ríkisvaldsins og bænda. Ég held að allir hljóti að átta sig á því að á þeim vanda verður ekki tekið og hann verður ekki leystur nema með þátttöku ríkisins á a.m.k. þennan hátt og ef ekki víðtækari. Ég held að fyrir því séu ærin sanngirnisleg og söguleg rök af því að um málefni lífeyrisréttindi stéttarinnar hefur verið búið með mjög sérstökum hætti frá byrjun.

Best væri auðvitað að það horfði til betri tíðar í málefnum Lífeyrissjóðs bænda á komandi árum gegnum það að atvinnugreinin blómgaðist og þar yrðu nauðsynleg og löngu tímabær kynslóðaskipti og endurnýjun í greininni. Mér finnst varla hægt að hafa umræðuna öðruvísi en þannig að minnt sé á þann möguleika að það verði ósköp einfaldlega viðsnúningur í málefnum atvinnugreinarinnar og hún komist út úr þeirri krónísku varnarstöðu sem hún hefur lengi verið í með versnandi aldurssamsetningu og fækkun þeirra sem eru virkir greiðendur iðgjalda í sjóðinn. Það er auðvitað ekki bara lífsspursmál fyrir málið hvað varðar lífeyrisréttindin og Lífeyrissjóð bænda, það er lífsnauðsyn fyrir atvinnugreinina og þó fyrr hefði verið að menn reyni að snúa þar einhverri vörn í sókn. Með því að leggja sitt af mörkum til framsækinnar og uppbyggilegrar atvinnustefnu sem gæti þýtt að landbúnaðurinn gengi í endurnýjun lífdaga, blómgaðist og þar yrðu hressileg kynslóðaskipti á komandi árum gæti því staðan gjörbreyst. Hún þarf að gera það, ekki bara lífeyrissjóðsins vegna heldur landbúnaðarins vegna og byggðarinnar og strjálbýlisins á Íslandi vegna. Það væri langróttækasta og mesta framtíðarlausnin í þessum málum. Það verður gaman að heyra ræður þeirra sem telja sig handhafa þess að vera framsýnir og nútímalegir í þessum efnum. Þá getum við hinir sem eigum að vera fulltrúar hestasláttuvélanna lært af því.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að umræðan áðan og ræður sem ákveðnir hv. þingmenn héldu, t.d. hv. þm. Katrín Ásgrímsdóttir, ung og framsækin kona sem kemur hingað á þing, eru dapurlegar þegar menn ætla að afgreiða sjónarmið einhverra annarra á þann einfalda og ódýra hátt að þeir séu fulltrúar einhverrar fortíðarhyggju og vilji fara aftur í moldarkofana eða nota hestasláttuvélar. Það lá í orðum fleiri en eins og fleiri en tveggja manna. Hafa menn einhver sérstök efni á því að tala t.d. þannig um þann sem hér stendur og skoðanir hans eða það sem ég hef staðið fyrir í gegnum tíðina þegar ég hef skipt mér af málefnum bænda? Ég held ekki. Ég held að fulltrúar kerfisins, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, sem bera nánast óskoraða ábyrgð á því í hvaða stöðu landbúnaður á Íslandi er í dag ættu að líta í eigin barm. Ekki er það ég sem bjó til SÍS-kerfið. Ekki er það ég sem fann upp útflutningsuppbæturnar á sínum tíma og kom landbúnaðinum í þá herfilegu stöðu sem hann var kominn í á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Það var Ingólfur Jónsson á Hellu sem bjó út útflutningsuppbæturnar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins með Alþýðuflokknum sáluga og ég veit ekki betur en Framsóknarflokkurinn hafi farið með landbúnaðarráðuneytið og ráðið meiru um þann málaflokk en nokkur annar stjórnmálaflokkur í samanlagðri Íslandssögunni.

Ég bið því hv. þingmenn að kasta ekki steinum úr glerhúsi. Þó að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum þær hugmyndir að það geti verið fleiri leiðir færar í vanda Lánasjóðs landbúnaðarins en þær einar að einkavæða hann skal enginn tala þannig til okkar að það þýði að við viljum ekki takast á við vandann og horfast í augu við hann.

Hverjir hafa flutt tillögur um að menn leggi grunn að einhverri nýrri framsækinni og uppbyggilegri atvinnustefnu fyrir landbúnaðinn aðrir en við? Hvar eru gjörðir stjórnarflokkanna í þessum efnum? Það er ekki nóg að ráða einn hálfbrjálaðan mann, eins og hæstv. landbúnaðarráðherra orðaði það sjálfur, sem umboðsmann íslenska hestsins. Það er ekki nóg að slá um sig og halda góðar ræður á árshátíðum og þorrablótum og horfa á þá hluti sem eru að gerast í landbúnaðinum og við erum m.a. að horfast í augu við, sem endurspeglast í gríðarlegum vanda Lífeyrissjóðs landbúnaðarins. Af hverju? Af því að uppdráttarsýki er búin að vera í greininni, því miður mjög lengi. Það er rétt. En það hefur lítið lagast og aldurssamsetningin versnar og virkum (Gripið fram í.) greiðendum í sjóðinn fækkar, hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson. Það er alveg sama hvað hæstv. landbúnaðarráðherra heldur margar 17. júní-ræður þar sem allt túnið er þakið blómum og framtíðin er svo falleg að það hálfa væri nóg. (Gripið fram í.) Veruleikinn er eins og hann er og við glímum við hann m.a. í umfjöllun um þetta frumvarp fjármálaráðherra um að taka á vanda Lífeyrissjóðs bænda.

Ég lýsi eftir því að þeir sem telja sig handhafa sannleikans og bjartrar framtíðar í þessum efnum leggi eitthvað á borðið með sér annað en orðagjálfrið. Hvar eru þær raunhæfu tillögur og aðgerðir sem við getum borið von um að þýði t.d. eðlilega endurnýjun og eðlileg kynslóðaskipti í landbúnaðinum? Er núverandi ástand, núverandi verð á kvótum, núverandi uppkaup stórefnamanna á jörðum beinlínis féleg framtíð í þessu samhengi? Halda menn að vænlegt sé fyrir unga bændur að taka við jörðum feðra sinna og byggja þar upp mjólkurbú ef það er rétt að mjólkurkvótinn sé orðinn svo dýr að það sé jafnvel auðveldara að hefja búskap utan kerfisins en að reyna að kaupa sér kvóta? Þannig er veruleikinn. Og hvað er verið að kaupa? Hvað er verið að kaupa þegar menn kaupa mjólkurkvótann? Verið er að kaupa rétt til ávísana frá hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, á grundvelli tímabundins samnings um stuðning ríkisvaldsins við búvöruframleiðsluna. Rétturinn til að fá ávísanir frá hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, gengur kaupum og sölum fyrir ótrúlegar fjárhæðir. Það er snilldarlegt kerfi, er það ekki? Það er snilldarlegt kerfi að menn skuli láta viðskipti með réttinn til ávísanagreiðslna úr ríkissjóði vera orðinn að sjálfstæðu verðmæti í viðskiptum í atvinnugreininni sem hefur þau áhrif m.a. að þröskuldur myndast sem þarf að stíga yfir í hverjum einustu kynslóðaskiptum, því að þegar ungur bóndi, bóndasonur eða bóndadóttir stendur frammi fyrir því að meta: Hef ég möguleika á að taka við búi foreldra minna? Gegn hverju reikna menn dæmið og samanborið við hvað er það borið? Jú, hinn möguleikann, að selja réttinn til ávísana frá hæstv. ráðherra, Geir H. Haarde, meðan hann er í því sæti.

Þetta er fínt kerfi. Þetta er auðvitað að hafa nákvæmlega sömu áhrif nema bara enn þá ýktari í landbúnaðinum eins og stórkvótakerfið hefur í sjávarútveginum þegar menn eru þar að velta fyrir sér: Er grundvöllur fyrir því að taka við bátnum af foreldrum mínum? Ef t.d. einyrkjaútgerð á í hlut standa menn frammi fyrir því að velta því fyrir sér hvort komi betur út, hvort sé raunhæfara, hvort sé betri fjármálastjórn, að reyna þetta áfram eða selja kvótann og fá eina feita ávísun og geta lifað í vellystingum praktuglega eftir það. Hver er útkoman? Í 9 tilvikum af hverjum 10 selja menn og einyrkinn í útgerðinni er að hverfa. Það eru bara trillur og stórútgerðir sem verða eftir. Svona er þetta.

Varðandi hugmyndirnar sem voru ræddar áðan um að Lánasjóður landbúnaðarins verði einkavæddur, það á að kalla hlutina réttum nöfnum, ef hann verður seldur og eigum við að giska á að Kaupþing – Búnaðarbanki gæti slumpast á að bjóða í hann, eigum við að láta okkur detta það í hug? Hafa þeir ekki verið nokkuð fyrirferðarmiklir í því að fara um sveitir og bjóða bændum sem best hafa veð og best eru staddir að taka þá í viðskipti? Jú, eitthvað er um það.

Er það endilega vænlegasta leiðin til þess að ráðstafa söluverðmæti í eitt skipti inn í Lífeyrissjóð bænda, jafnvel þótt það verði umtalsvert og þó að muni um það? En hann verður ekki seldur nema einu sinni og þar með er líka farið það sem hann hefur staðið fyrir, sem er grunnfjármögnunin án tillits til aðstæðna, án tillits til þess hvar menn búa í þessari atvinnugrein.

Hvernig væri nú að skoða þá leið að sameina eða samreka a.m.k. Lífeyrissjóð bænda og Lánasjóð landbúnaðarins þannig að eigið fé lánasjóðsins yrði þar til styrkingar? Það mætti m.a. ná stórfelldum árangri í að draga úr rekstrarkostnaði með slíkri samþættingu. Við skulum ætla að slíkur mun öflugri aðili næði betri kjörum varðandi fjármögnun sína, það er engin ástæða til að ætla annað. Þarna mætti því væntanlega slá margar flugur í einu höggi. Lífeyrissjóðirnir hafa fullar heimildir til að lána sjóðfélögum sínum, þau lán má væntanlega skilgreina þannig að þau gætu í reynd verið ígildi jarðakaupalána til dæmis. Það er ekkert vandamál að ungir sjóðfélagar í Lífeyrissjóði bænda eigi þannig skilgreindan lánsrétt til dæmis. Ef ekki mætti í sjálfu sér halda þessu lagalega aðskildu en samreknu. Það eru auðvitað ýmsar leiðir færar í því, auk þess sem það vill svo til að um Lífeyrissjóð bænda gilda sérlög og ég sé ekki neina ástæðu til þess að aðrir þyrftu að amast við því að í þeim sérlögum væri gengið frá þessu og um þetta búið með sérstökum hætti. Ég sé ekki að það geri neinum neitt. Það eru því miklir möguleikar í að skoða þetta og ég hvet til þess að það verði gert rækilega.

Að mörgu leyti gildir það sama um Lífeyrissjóð bænda og gerði áður um Lífeyrissjóð sjómanna, að ríkisvaldið átti mjög sérstaka aðild að þeim málum. Við vitum það sem þekkjum þá sögu að í gegnum tíðina hefur verið gripið til margvíslegra ráðstafana af hálfu ríkisvaldsins til þess að tryggja betur lífeyrisréttindi sjómanna. Því miður ekki nóg. Því miður stóð ríkið aldrei að fullu við ábyrgð sína á því t.d. þegar menn reyndu á sínum tíma að taka upp 60 ára aldursreglu í Lífeyrissjóði sjómanna. Það stendur enn upp á ríkisvaldið að efna það þannig að sennilega vantar um einn og hálfan milljarð í eigið fé Lífeyrissjóðs sjómanna, sem reyndar er nú að sameinast öðrum, til þess að sjóðnum hafi verið bætt að fullu það sem hann tók á sig vegna áformanna um 60 ára aldurstökurétt.

Menn hafa þó sýnt þessu skilning og viðurkennt þetta í verki með margvíslegum hætti á undanförnum árum. Til dæmis hefur ýmsu skiptagóssi úr fórum sjávarútvegsins verið ráðstafað inn í Lífeyrissjóð sjómanna. Gerðir voru upp gamlir sjóðir og hluta af andvirði þeirra var varið í Lífeyrissjóð sjómanna. Þar með var viðurkennd í verki aðild ríkisins og ábyrgð að því máli. (Gripið fram í: Ekki Fiskveiðasjóður.) Ekki Fiskveiðasjóður að vísu, það er rétt. Það er náttúrlega grundvallarmunur á þeirri ráðstöfun sem yrði í því tilviki ef Lánasjóður landbúnaðarins gengi allur til þess með einhverjum hætti, hvort sem það væri sameining eða söluandvirði, að styrkja Lífeyrissjóð bænda. Það væri miklu ríkari viðurkenning á því að það er sú stétt sem byggt hefur þann sjóð upp og að hann tilheyri þeirri atvinnugrein en var þegar fjárfestingarlánasjóðir hinna atvinnuveganna, iðnaðarins og sjávarútvegsins, voru í raun teknir með öðrum hætti.

Það eru ærin rök fyrir því að takast á við þennan vanda. Ég segi hiklaust að ég fagna því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan, sem á mannamáli þýðir auðvitað að menn horfast í augu við það að lítið verður hægt að gera í þessum efnum nema ríkið komi þar að með beinum eða óbeinum hætti, þ.e. ef bændur takast á við það m.a. með því að hækka iðgjaldagreiðslur sínar í sjóðinn verði ríkið að koma á móti með mótframlögum og hækka þau. Það væri greitt úr ríkissjóði og er þá að sjálfsögðu hluti af hinum samningsbundnu samskiptum ríkis og bænda sem menn eiga að horfa til.

Frú forseti. Við erum á ákveðnu millibilstímabili hvaða varðar uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins í landinu. Það er mikil gæfa fyrir Ísland að eiga samtryggingarlífeyrissjóðina og það var mikið gæfuskref þegar uppbygging þeirra hófst um 1970. En því verki er ekki lokið. Það var ekki fyrr en fyrir tiltölulega fáum árum sem menn náðu í raun og veru utan um það í heild sinni að menn færu að greiða af öllum launum og að allir færu að greiða í lífeyrissjóði. Við eigum enn 15–25 ár í land hvað það varðar að kerfið verði orðið fulluppbyggt og komið í jafnvægi.

Þetta millibilsástand þurfum við að brúa og takast á við, m.a. með aðgerðum til að styrkja stöðu veikustu lífeyrissjóðanna og með því að búa þannig um samspil lífeyrisréttindanna og greiðslna úr almannatryggingakerfinu að öllum verði sköpuð sómasamleg kjör. Við eigum ekki að dæma einhverja einstaka hópa, hvort sem það eru bændur eða sjómenn á tilteknu árabili, til mun verri lífskjara á eftirlaunaaldri en við höfum efni á að búa þjóðinni almennt. Þetta snýst um sanngirni og réttlæti og jöfnuð og alveg sérstaklega er brýnt að menn takist á við þetta hvað varðar bændur sem nú eða á allra næstu árum fara á eftirlaunarétt. Við eigum ekki að horfa upp á það að slíkur hópur komi til með búa við mun lakari lífskjör á ákveðnu tímabili vegna þess að uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins í heild sinni er ekki lokið og það kerfi er ekki komið í jafnvægi. Það kallar á ákveðnar aðgerðir, ákveðnar sértækar aðgerðir, en þær eru liður í almennum hlutum, þær eru liður í því að tryggja almennt betri og jafnari lífskjör í landinu.

Ég trúi ekki öðru en að hér sé fullur pólitískur vilji til að takast á við þessi mál. Þetta eru ekki stórar fjárhæðir sem skekja innviði samfélagsins þó að þarna séu reiddir fram fjármunir sem þarf til að jafna þessa stöðu sæmilega. Það eru öll rök, söguleg, pólitísk og félagsleg til þess að gera það.

Ef við berum þetta saman t.d. við tölurnar sem tengjast því að tryggja réttindi opinberra starfsmanna og það sem ríkið þarf að reiða af mörkum þar og er skylt í þeim skilningi að það er af sögulegum ástæðum sem ríkið ber þá ábyrgð sem þar er um að ræða, um var að ræða hluta af umsömdum kjörum þeirra starfsmanna í gegnum tíðina, þá þurfum við ekki að láta okkur bregða við það sem hér er á ferðinni varðandi Lífeyrissjóð bænda. Það er ekki slíkt stórmál að við getum ekki tekist á við það og klárað það með sómasamlegum hætti. Auðvitað væri verulegur fengur í því ef t.d. með sameiningu eða samrekstri Lífeyrissjóðs bænda og Lánasjóðs landbúnaðarins næðust þeir fjármunir til styrkingar lífeyrissjóðnum og öflugri stöðu þess kerfis í heild sinni, samhliða því að menn væru að spara í rekstrarkostnaði og öðru slíku, að það gæti dugað mönnum.

Ég held að þar gæti líka alveg komið til greina að sortera svolítið upp þau viðfangsefni sem lánasjóðurinn hefur með höndum í dag og að hann dragi sig út af þeim markaði að hluta til. Það gæti vel komið til greina. Til dæmis að eftir stæðu kannski fyrst og fremst grunnlán eins og til jarðakaupa eða sjóðfélagalán sem væru ákveðin grunnfjárfestingarlán nýliða og ungra bænda en menn leituðu síðan til lánastofnana með afganginn.

Að síðustu endurtek ég það, frú forseti, að langróttækasta og varanlegasta lausnin á þessum vanda væri sú að menn tækju höndum saman um að skapa landbúnaðinum skilyrði til þess að blómgast og endurnýjast. Þá leysist þetta í miklu meira mæli af sjálfu sér en nú teiknar til.



[11:39]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér um Lífeyrissjóð bænda, það er göfugt málefni og nauðsynlegt að ræða.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, þegar hann ræðir um þennan málaflokk, hvort hann haldi ekki að hámarksinngreiðslur sem ákveðnar voru í upphafi í þennan sjóð frá hverjum framleiðanda hafi ekki einmitt þau neikvæðu áhrif sem við sjáum núna hvað stöðu sjóðsins varðar, þ.e. bændur borguðu hámarksiðgjald í sjóðinn og ef menn voru með stærri bú en svokallað vísitölubú fengu þeir endurgreiðslu og uppgjör eftir áramót frá sjóðnum. Menn borguðu því aldrei í hann eins og aðrar stéttir í þjóðfélaginu sem borguðu af öllum launum. Þannig var nú málið. Ég held að það hafi heilmikið að segja um hvernig staða þessa sjóðs er í dag.

Það er líka staðreynd að frá því að sjóðurinn var stofnaður upp úr 1970 hefur orðið gríðarleg fækkun bænda og ekki er annað fyrirsjáanlegt en að enn fækki inngreiðendum í sjóðinn. En eftir stendur að það er fjöldi bænda sem þiggur greiðslur úr þessum sjóði. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta sé ekki einmitt sá þáttur sem hefur haft áhrif á hvernig staða sjóðsins er.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór víða í umræðunni um Lífeyrissjóð bænda og kom inn á utandagskrárumræðu um Lánasjóð landbúnaðarins. Ég verð að segja um þá ræðu sem flutt var hér af hv. varaþingmanni Katrínu Ásgrímsdóttur að þar var fjallað um það mál af þekkingu og hún kom inn á kjarna málsins hvað Lánasjóð landbúnaðarins varðar.



[11:41]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, enda veit ég að hann þekkir vel til þess að hluti af vanda Lífeyrissjóðs bænda er að sjálfsögðu fólgin í þessari fortíð eins og reyndar annarra lífeyrissjóða. Að þessu leyti má segja að fyrirkomulagið í Lífeyrissjóði bænda, ef ég man það rétt, hafi ekki verið svo frábrugðið því sem var á meðan menn í öðrum sjóðum greiddu t.d. eingöngu af dagvinnulaunum en ekki af heildarlaunum. Það var ákveðið þak á greiðslunum og menn mynduðu ekki lífeyrisréttindi eða greiddu inn á réttindin í samræmi við heildarlaun sín og heildartekjur. Gott ef sjómenn greiddu ekki á einhverjum tíma bara af tryggingunni. (Gripið fram í: Bara fyrst af hálfri.) Já, eitthvað svoleiðis, bara fyrst af hálfri tryggingunni.

Þetta á sér rætur í því að lífeyrissjóðakerfið fór af stað í slíkum áföngum og það var ekki fyrr en árið 1996 eða 1998 sem við náðum utan um dæmið í heild sinni með endurskoðun löggjafar um lífeyrissjóði og það var virkilega fest í sessi að allir færu, þar með talið sjálfstætt starfandi atvinnurekendur, að greiða í lífeyrissjóði og af öllum launum sínum.

Auðvitað er vandinn líka fólginn í hinum sérstöku aðstæðum í stéttinni, aldurssamsetningunni og slíku. Ég kom nú sæmilega rækilega inn á það, ég held ég þurfi ekki að endurtaka það, og lagði mikla áherslu á að vænlegasta lausnin gagnvart þeim vanda sé að breyta aldurssamsetningunni. Það er að leyfa landbúnaðinum að blómgast, að reyna að hjálpa til við að þar verði endurnýjun og kynslóðaskipti þannig að þessi óhagstæðu hlutföll lagist.

Að lokum varðandi ræðu hv. þm. Katrínar Ásgrímsdóttur, sem ég gagnrýndi, þá var alveg skýrt hvað ég var að gagnrýna. Ég var að gagnrýna ómálefnaleg ummæli hv. þingmanns í garð okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og annað ekki í ræðu hennar. Að öðru leyti var hún að lýsa skoðunum sínum og hún stendur fyrir þeim. Ég tel að vísu að menn hafi í raun oftúlkað þau viðhorf eða þann vilja sem uppi er í Bændasamtökunum þegar menn segja að það sé afstaða samtakana að leggja eigi Lánasjóð landbúnaðarins niður. Ég er ekki sammála þeirri túlkun. Ég tel að afstaða Bændasamtakanna sé sú að þeir vilji leggja búnaðarmálasjóðsgjöldin af (Forseti hringir.) en hafi síðan ekki tekið afstöðu til þess hvað þeir vilja gera með framhaldið.



[11:43]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil minna hv. þm. Steingrím J. Sigfússon á þá miklu atvinnuháttabyltingu sem orðið hefur síðan lífeyrissjóðirnir voru stofnsettir hér á landi. Það er sú breyting, sú mikla atvinnuháttabreyting sem er auðvitað að koma niður á bændum og þeim lífeyrissjóði sem við ræðum hér um.

Það er fækkun í greininni og ekki fyrirsjáanlegt annað en að svo haldi áfram. Það verður ekki fjölgun í bændastéttinni. Ég held að einn þeirra þátta sem bændur þurfa að hugsa um og hafa margir hverjir verið að hugsa um og farið út í, og það er að reka búskap sinn í einkahlutafélagsformi. Þá koma þeir sem sérstakir launþegar að búum sínum og geta farið inn í séreignarlífeyrissparnað og höndlað með mál sín með öðrum hætti en áður hefur verið. Þannig voru málin að bændur þurftu einungis að borga iðgjald í Lífeyrissjóð bænda af veltu svokallaðs vísitölubús eða af launum svokallaðs vísitölubús. Þeir sem voru með stærri bú fengu endurgreitt. Þeir fengu í rauninni ekki að borga í lífeyrissjóðinn af þeim launum sem þeir höfðu af búi sínu. Þess vegna er miklu auðveldara hjá mönnum að hafa reksturinn í einkahlutafélagsforminu og geta þá nýtt sér séreignarsparnaðarreglurnar.



[11:45]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sæmilega upplýstur um atvinnuháttabreytinguna. Ég hef nefnilega búið á Íslandi að frátöldu einu og hálfu til tveimur árum þau 49 ár sem ég hef lifað og tel mig hafa fylgst sæmilega með, þannig að það þarf ekki að halda yfir mér fræðsluerindi um það. Ég tel mig þekkja ágætlega það samfélag sem ég lifi og hrærist í. Við getum hins vegar verið ósammála um einhverja hluti í þessum efnum en við skulum ekki tala hvert við annað eins og sum okkar hafi gengið um með bundið fyrir augu og með tappa í eyrunum frá fæðingu. Það er ekki svo. Ætli ég hafi ekki eitthvað glímt við þessa hluti eins og hv. þingmaður sem líka hefur þurft að vera í forsvari fyrir bændur eða landbúnaðinn á ákveðnum sviðum.

Það er auðvitað alveg rétt og við þurfum ekki að fara betur yfir það að ákveðnar veilur í kerfinu sem enn er við að glíma eiga sér rót í upphafinu. Ég held að við eigum frekar að segja: Fögnum því sem þó hefur áunnist og lofum guð fyrir að við lentum inn á það spor um 1970 að byrja að byggja upp söfnunarsjóði með samábyrgð. Það var gæfuspor fyrir Ísland og ástæða þess að víða um lönd er horft til Íslands og sagt: Sjáið þið hvað þeir eru að gera, hvernig þeir fara að þessu. Þeir koma til með að glíma við breytta aldurssamsetningu í samfélaginu með allt öðrum og árangursríkari hætti en við stöndum frammi fyrir hér í Þýskalandi, Bretlandi, Noregi eða hvar það nú er þar sem menn annaðhvort alls ekki eða miklu seinna völdu þessa gæfulegu leið. Einnig hjálpar það okkur að við erum enn tiltölulega ung þjóð.

Ég skrifa ekki upp á að áframhald þurfi að vera á fækkun í bændastétt eða hjá þeim sem greiða iðgjöld í Lífeyrissjóð bænda þó svo miklar breytingar eigi sér nú stað. Það er ekkert sem segir að byggð í sveitum landsins og ýmiss konar búskapartengd starfsemi, sem ætti að mínu mati að geta gefið mönnum aðild að Lífeyrissjóði bænda og greiðslum þar inn, geti ekki blómgast og það er hún auðvitað að gera á mörgum sviðum eins og í ferðaþjónustu, í sveitum og víðar. Vandinn er sá að samdrátturinn í hinni hefðbundnu starfsemi gerir meira en vega það upp enn sem komið er en breytist vonandi.

Varðandi einkahlutafélögin sé ég (Forseti hringir.) ekki betur en það sé einmitt verið að bregðast við slíkri mögulegri breytingu (Forseti hringir.) í 1. gr. frumvarpsins og opna á að deildaskipta réttindunum þannig að það er vel.



[11:47]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Virðulegur forseti. Við ræðum um Lífeyrissjóð bænda og málefni þeim tengd. Inn í það tengist mál sem tekið var fyrir í utandagskrárumræðu um Lánasjóð landbúnaðarins og það verk að leggja hann e.t.v. niður og jafnvel ráðstafa fjármununum í Lífeyrissjóð bænda.

Til að koma í veg fyrir allan misskilning vegna þess sem ég kann að segja síðar í ræðu minni þá tel ég virkilega þarft verk að takast á við að reyna að laga stöðu bænda í lífeyrismálum og að lífeyrir þeirra verði þeim einhvers virði og skipti máli í framtíðinni. Ég held að rétt sé að við förum þannig í það mál að við skoðum hvernig lífeyrisgreiðslur nýtast lífeyrisþegum í raun. Þegar við skoðum lífeyrismálin í heild sinni skerða greiðslur úr lífeyrissjóði bætur úr almannatryggingum. Segjum sem svo að okkur takist að hækka meðalgreiðslur til bænda með lagfæringum eins og þeim að setja eignir Lánasjóðs landbúnaðarins í Lífeyrissjóð bænda og hækka meðalgreiðslurnar frá því sem nú er, ætli þær liggi ekki einhvers staðar á bilinu 17–25 þús. kr. á mánuði þó ég hafi ekki nákvæmar tölur um það. En í svari sem hæstv. fjármálaráðherra gaf við fyrirspurn hv. þm. Drífu Hjartardóttur kemur fram hvernig dreifing meðalgreiðslna úr Lífeyrissjóði bænda er og tölurnar eru ekki háar. Það eru samtals 954 sem fá 5.330 kr. á mánuði. Það eru 923 sem fá 14.800 kr. á mánuði, 547 sem fá rúmar 24.000 kr. á mánuði og 180 sem fá 34.000 kr. tæpar að meðaltali á mánuði. (Gripið fram í.) Hv. þm. Pétur H. Blöndal upplýsir úr stól sínum að meðaltalið sé 10–15 þús. kr. Það kann vel að vera að það sé rétt ef tekið er tillit til töflunnar sem ég var að lesa upp úr og tölunum svo deilt upp.

Þess heldur er ástæða til að athuga hvað þetta skiptir bændur miklu máli. Segjum að innlögn á fjármunum Lánasjóðs landbúnaðarins mundi hækka meðaltalsgreiðslurnar um helming, þær mundu tvöfaldast og menn væru ekki að fá 15 þús. kr. að meðaltali heldur 30 þús. kr. Þá er reglan sú í almannatryggingakerfinu að sá sem fær greiðslur úr lífeyrissjóði verður fyrir skerðingu í almannatryggingakerfinu eftir 45% reglu. Menn fá því aldrei í eigin vasa nema 55% af því sem úr lífeyrissjóði kemur meðan verið er að skerða bætur almannatrygginga aðrar en grunnlífeyrinn sem situr eftir þegar um lífeyrisgreiðslur er að ræða. Grunnlífeyrinn er um 23 þús. kr. í dag. Þá sitjum við uppi með það að með því að setja auknar greiðslur í Lífeyrissjóð bænda með þessu lagi og með óbreyttu almannatryggingakerfi og óbreyttri skerðingarreglu að helmingurinn af því rynni til ríkisins aftur vegna þess að það kæmi niður á skerðingu bótanna af því að greiðslur til bænda eru hvort sem er svo óskaplega lágar og réttindi þeirra allt of lítil.

Þetta vildi ég segja í upphafi ræðu minnar vegna þess að ég held að nauðsynlegt sé að við gerum okkur grein fyrir hvað við erum að tala um þegar við lýsum vilja okkar til að laga stöðu bænda að því er varðar lífeyrisréttindi þeirra. Ég held að okkur greini ekki á um að vilja takast á við það, þó ég geti sagt það úr þessum ræðustól sem fyrrverandi forustumaður í samtökum sjómanna að ólíkt höfumst við að, ég og hæstv. fjármálaráðherra, þegar við lítum til þess sem við ræddum varðandi Lífeyrissjóð sjómanna á sínum tíma og réttindi þar. Hæstv. fjármálaráðherra vék að því í ræðu sinni áðan að nýlega hefði lögum um Lífeyrissjóð sjómanna verið breytt og þau gerð eins og lögin í almennu lífeyrissjóðunum. Það var ekki einu sinni hægt að halda eftir því að hægt væri að halda lögveði fyrir lífeyrisréttindum inngreiðslum í skipum til að reyna að tryggja að skipinu væri ekki siglt úr landi án þess að upp væri gert í lífeyrissjóð. Stjórnarflokkarnir gátu ekki fallist á að sú trygging sæti eftir til handa sjómönnum. Áður var búið að svíkjast undan því að standa við 60 ára regluna sem var félagsmálapakki frá árum áður. Þar skortir 1,5 milljarða í Lífeyrissjóð sjómanna og þegar Fiskveiðasjóður Íslands var lagður niður fengu sjómenn ekki neitt af þeim fjármunum í lífeyrissjóðinn þó að greitt hafi verið í Stofnfjársjóð fiskiskipa af óskiptu aflaverðmæti áratugum saman.

Ég rifja þetta upp en lýsi því enn á ný yfir til að það valdi ekki misskilningi að ég mun styðja það að reyna að lagfæra stöðu bænda að því er varðar lífeyrissjóði. Ég er hins vegar að benda á að það er ekki beint samhengi milli þess að auka lífeyrisréttindi og auka rauntekjur bændanna vegna þess að ríkið tekur 45% af rauntekjuaukningunni miðað við hversu lágar greiðslur bændur eiga rétt á úr lífeyrissjóði. Það þarf miklu meira en tvöfalda þær til að bændur fari að halda meiru eftir en 55% því að almannatryggingabætur þeirra, ellilífeyririnn, tekjutengingin, sérstök heimilisuppbót og sérstök tekjutrygging skerðast með 45% reglu eins og lögin eru í dag. Um þetta höfum við í Frjálslynda flokknum flutt ákveðið mál í hv. Alþingi, um að réttindagreiðslur úr lífeyrissjóði fólks undir 50 þús. kr. á mánuði skerði engar samsettar lágmarksbætur ellilífeyrisþega. Ef sú regla væri tekin upp mundi auðvitað hver einasti þúsundkall sem settur væri í aukin lífeyrisréttindi stéttar eins og bænda, sem eru með svo lág meðaltalsréttindi í lífeyrissjóði sínum, skipta verulegu máli.

Þetta held ég að við þurfum að hafa hugfast þegar við ræðum hvernig við viljum raunverulega takast á við að laga stöðu bænda að því er varðar stöðu þeirra til ellilífeyris og úr lífeyrissjóði þeirra og ég geri ekki lítið úr því að vandi bænda varðandi lífeyrissjóð þeirra er mikill.

Þegar talað er um að taka upp aldurstengda réttindainnheimtu og aldurstengdar bætur drögum við úr samtryggingu í lífeyrissjóðum. Eins og menn vita höfum við lengst af verið með söfnunarsjóði með algerri samábyrgð en á seinni árum hafa menn verið að setja upp svokallaðar aldurstengdar bætur. Það þýðir að verið er að horfa til þess hvernig greiðslurnar koma inn og verið að draga úr samábyrgðinni.

Ég held að skoða þurfi það sérstaklega þegar við tölum um Lífeyrissjóð bænda, miðað við aldurssamsetninguna sem þar er, hvað það muni þýða gagnvart bændum þegar við förum þá leið sem verið er að leggja til í frumvarpinu að aldurstengja réttindaáhersluna. Við þurfum að skoða það og málið þarf að skoða frá mörgum hliðum.

Eins og fram hefur komið í umræðunni greiða bændur af takmörkuðum upphæðum, þ.e. þeir hafa fengið endurgreiðslur ef þeir hafa verið umfram eitthvað ákveðið. Í upphafi starfstíma lífeyrissjóðanna greiddu aðrar stéttir af minna en heildarlaunum sínum og sjómenn t.d. fyrst af hálfri tryggingu og síðan af heilli kauptryggingu, en kauptrygging var náttúrlega bara brot af launum sjómanna þá. Þannig var staða sjómanna þegar við fórum í okkar harða verkfall 1985 til að fá greiðslu í lífeyrissjóðina af öllum launum. Það þurfti mikið átak til að ná því inn og tókst að semja um það með aðlögun á tveimur árum. Frá 1987 hafa því sjómenn fengið greiðslur í lífeyrissjóði sína af öllum launum.

Hitt er algerlega rétt að þjóðfélagið okkar er að breytast. Við erum almennt komin með séreignarsparnað í lífeyrissjóðum til viðbótar við sameiginlega sparnaðinn. Ég tel að það sé af hinu góða en ég er hins vegar mjög hugsi yfir aldurstengdu réttindunum vegna þess að þau draga úr samhjálparreglunni og gildi söfnunarsjóða með samábyrgð. Ég sé ekki neina útlistingu á því í frumvarpinu hvernig það kemur sérstaklega fram varðandi Lífeyrissjóð bænda sem við fjöllum um. Ég held að nauðsynlegt sé að fá fram ýmsar upplýsingar um aldursdreifingu í Lífeyrissjóði bænda og réttindaáherslu sem mundi breytast. Ég treysti því auðvitað að það mál verði skoðað sérstaklega í nefnd og menn skoði líka alveg sérstaklega þar hvaða raunávinning bændastéttin fengi við að tvöfalda réttindainnvinnslu hennar í lífeyrissjóði jafnvel með því að leggja inn eign Lánasjóðs landbúnaðarins. Hvað mundi gerast miðað við það að ríkið tekur til sín með skerðingu ellilífeyris og samþykktra bóta úr almannatryggingakerfinu 45% af öllum ávinningi sem af þessu yrði.

Þetta þurfa menn allt saman að hafa í huga og hafa undir til að við séum raunverulega að laga stöðu bændastéttarinnar í lífeyrismálum. Það þarf vissulega að gera og ég lýsi mig samþykkan því að vinna að því og reyna að efla stöðu þeirrar stéttar í lífeyrismálum. En ég vil að við skoðum málið algerlega upp úr og niður úr eins og það er í raunveruleikanum og hvernig það tengist m.a. þeim skerðingarreglum sem snúa að almannatryggingakerfinu.

Ég held að við verðum að hafa þetta allt undir því það er til frekar lítils að vera kannski að auka réttindi í Lífeyrissjóði bænda eins og hann er nú um 10 þús. kr. ef af þeim renna svo 4.500 kr. beint til ríkisins aftur vegna skerðingarákvæða á bótum úr almannatryggingasjóðum. Ég ítreka enn á ný að við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram sérstakt mál um að lífeyrisréttindi skerði ekki bætur í almannatryggingakerfinu. Ég held að einmitt það mál gæti skipt afar miklu fyrir stétt eins og bændur sem eru með jafnslök réttindi og sjást á því svari sem ég vitnaði til áðan varðandi stöðu þeirra og greiðslur úr lífeyrissjóðnum eins og þær birtast í dag þar sem upplýst er að enginn fái meira en 42.504 kr. úr sjóðnum, að það sé hæsta greiðslan sem kemur til bænda úr sjóðnum, þ.e. sem tekur til almenns lífeyris en hæsta greiðsla þegar litið er til örorkubóta er tæplega 53 þús. kr. Þessar staðreyndir þurfum við allar að hafa í huga þegar við tölum um stöðu bændastéttarinnar í Lífeyrissjóði bænda sem stendur mjög illa. Við skulum heldur ekki gleyma því að með þessu frumvarpi er verið að heimila viðbótarskerðingar á þeim réttindum sem bændur hafa í dag. Það er m.a. gert með því að skerða réttindi varðandi makalífeyri, stytta hann úr þremur árum í tvö, og með því að lækka margföldunarstuðulinn.

Hins vegar er alveg ljóst að miðað við stöðu sjóðsins, aldursdreifingu og ábyrgð þá er hann mjög illa staddur gagnvart framtíðarskuldbindingum sínum og nær engan veginn að uppfylla hina almennu reglu lífeyrissjóðanna sem sett var í lög um starfsemi lífeyrissjóða á sínum tíma um að lífeyrissjóður þurfi að eiga fyrir skuldbindingum sínum framreiknað miðað við ákveðnar forsendur.

Virðulegur forseti. Ég held að ég láti þetta nægja við 1. umr. málsins en hvet til þess að málið verði skoðað gaumgæfilega. Það verði skoðað mjög vandlega hvað það þýðir þegar greiðslur aukast út úr sjóðnum og hver verður þá raunverulegur ábati bændanna sjálfra. Það þýðir lítið að færa til krónur og aura og eignir ef 45% af því öllu renna aftur í ríkissjóð vegna skerðingarákvæða almannatrygginga.



[12:04]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns eru lífeyrisgreiðslur úr Lífeyrissjóði bænda afskaplega fátæklegar enda hefur lítið verið greitt þangað inn, þ.e. af lágum viðmiðunarlaunum. Þessar greiðslur eru að meðaltali, samkvæmt svari sem liggur fyrir í ellilífeyri, um 15 þús. kr., 15.115 á mánuði. Nú er það svo að í reglum Tryggingastofnunar er ákveðið frítekjumark fyrir greiðslur úr lífeyrissjóði. Ég man ekki nákvæmlega hverjar þær eru en það eru sennilega um 20 þús. kr. á mánuði sem menn mega hafa án skerðingar sem þýðir að velflestir lífeyrisþegar í Lífeyrissjóði bænda eru fyrir neðan þau mörk og langt fyrir neðan þau, sérstaklega þeir sem eru með 5–8 þús. kr. á mánuði. Sérhver viðbót til þeirra kemur þeim því að fullu til góða. Það er því ekki svo að ríkissjóður græði á þessu nema á þeim sem eru yfir þeim frítekjumörkum sem eru í reglum Tryggingastofnunar.



[12:05]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki viss um að nú hafi verið farið algerlega með staðreyndir úr ræðustól, enda væri rétt að það yrði skoðað og ég treysti auðvitað mönnum til þess í nefndinni.

Það er hins vegar rétt að draga eitt atriði inn í umræðuna úr því að menn eru að tala um hvernig horfa megi til þess að menn njóti meira af þeim lífeyristekjum sem þeir fá. Ef þeir fjármunir sem koma úr Lánasjóði bænda yrðu lagðir inn á reikning hvers og eins fengju menn fjármagnstekjur af þeim innstæðum og þegar menn fá fjármagnstekjur skerða þær helmingi minna en lífeyristekjur. Fjármagnstekjur skerðast með 22,5% reglu því að fyrst er deilt í þær með tveimur áður en þær valda skerðingu á bótum úr almannatryggingakerfinu.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að rétt er að skoða þessi mál mjög gaumgæfilega. Ef við höfum raunverulegan vilja til að takast á við það að laga stöðu bænda og framtíðarafkomu þeirra varðandi lífeyri þá skulum við skoða reglur ríkisins eins og þær eru nákvæmlega og hvað kemur bændum best og horfa til þess eða, sem væri enn þá betra, að menn væru tilbúnir að breyta skerðingarreglunum varðandi samsettar lágmarksbætur og menn fengju að halda óskertum bótum almannatrygginga en þyrftu auðvitað að borga skatta af þeim eftir sem áður, en beita ekki skerðingarreglunum fyrst og taka síðan skattana.



[12:07]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum tekið þessa umræðu áður að hækka skerðingarmörkin hjá Tryggingastofnun. Þar rekumst við á þann vanda að ef við gerum það er lífeyrisþeginn oft og tíðum kominn með betri lífskjör en sá sem er vinnandi, sérstaklega fólk með lágar tekjur. Því miður er fullt af fólki í þjóðfélaginu með tekjur undir 120 þús. kr. á mánuði, t.d. þeir sem vinna samkvæmt Eflingartaxta. Það fólk kann að lenda í þeirri stöðu að vera með verri lífskjör en lífeyrisþegar sem voru á þeim taxta og það er talið mjög óeðlilegt, sérstaklega þegar sá sem er með verri lífskjör er að borga lífeyri til hins.



[12:08]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við þessu vil ég eingöngu segja að teljist óeðlilegt að fólk geti haft viðunandi afkomu þá er ég tilbúinn til að standa að breytingu á lögum sem getur tryggt að fólk hafi viðunandi afkomu. (PHB: Og hækka lágmarkslaun?) Það má þess vegna hækka lágmarkslaun, hv. þingmaður.

Hvernig væri nú að við hv. þm. Pétur Blöndal sameinuðumst um að lágmarkslaun yrðu t.d. aldrei lægri en einn þriðji af þingfararkaup. (Gripið fram í.) Væri hv. þingmaður til í það? Ég varpa þessu fram vegna þess að mér finnst ekki hægt að setja málið þannig fram að ekki megi lagfæra stöðu ellilífeyrisþega af því að þeir geti hugsanlega komist einhverjum krónum fram yfir einhvern viðmiðunartaxta sem er langt undir því sem viðurkennt er að hægt sé að komast af með í þjóðfélaginu.



[12:09]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda. Sá lífeyrissjóður á í mjög miklum vandamálum sem tengjast ýmsu. Þau tengjast því að iðgjaldagreiðslur í sjóðinn hafi verið mjög lágar og með ákveðnu hámarki lengi vel og þau tengjast því líka að aldursdreifing sjóðsins er mjög slæm.

Ég hef áður bent á að íslenska lífeyriskerfið, eins gott og það er, hefur í sér ákveðna tímasprengju sem er að lífeyrisréttindin eru óháð aldri, þ.e. menn fá sama rétt fyrir hverjar þúsund krónur sem greiddar eru fyrir tvítugan mann og fyrir sextugan mann þó að réttindin ættu að vera miklu minni fyrir þann sextuga en þann tvítuga vegna þess að iðgjöldin eru miklu skemur á vöxtum.

Margir sjóðir hafa tekið upp aldurstengd lífeyrisréttindi, þeir sem það geta en aðrir munu ekki geta það og þar stöndum við frammi fyrir því að skerða verður rétt hjá þeim sjóðum sem eru með slæma aldursdreifingu, þ.e. það fólk sem við skikkum með lögum frá Alþingi til að borga í lífeyrissjóði sem eru með slæmri aldursdreifingu. Það þarf að sætta sig við skerðingu bara af því að félagar þeirra í sjóðnum eru orðnir gamlir.

Í lögum um lífeyrissjóði er getið um það að ekki megi greiða lægra en eitthvað ákveðið en ekkert er sagt hvað gerist ef sjóðurinn getur það ekki og nú er svo komið með Lífeyrissjóð bænda að hann er að nálgast þetta lágmark og ekkert er í lögunum um hvað gerist ef hann getur ekki staðið við að borga það lágmark sem lögin þó gera ráð fyrir. Þetta er ákveðinn galli við þau lög og mér finnst menn þurfa að ræða hvað gera eigi við þá lífeyrissjóði sem lenda undir þessu lágmarki.

Það eru tvær hættur sem steðja að lífeyrissjóðakerfinu í landinu í heild sinni og þá að Lífeyrissjóði bænda eins og öðrum. Það er fyrst lækkandi ávöxtun. Það er ljóst að lækkandi ávöxtunarkrafa, eins góð og hún er nú fyrir húsbyggjendur og launþega landsins, kemur í bakið á lífeyrissjóðunum. Í reiknigrundvelli þeirra er gert ráð fyrir 3,5% raunávöxtun, þ.e. ávöxtun umfram verðlag. Nú er sú ávöxtun einmitt að nást á markaði, þ.e. vextir eru að fara niður fyrir 4% á mjög tryggum bréfum og það er það sem miða þarf við því að hin bréfin eru ótrygg og geta tapast og spurning hvað gerist með lífeyrissjóðakerfið ef ávöxtunin fer niður fyrir 3,5%. Svo eru það örorkulíkurnar sem ég held að allir ættu að berjast við að reyna að laga sérstaklega ef örorkan er að einhverju leyti kerfislæg, þ.e. ef hún er búin til með kerfinu. Ég hef grun um að það sé gert á þann máta í núverandi kerfi en ég ætla ekki að fara sérstaklega inn á það hérna.

Það er einkenni á Lífeyrissjóði bænda að ríkið greiðir hlut atvinnurekanda sem segir manni að á einhverju stigi hafa bændur í rauninni gerst opinberir starfsmenn og á það hef ég oft áður bent að er mjög hættulegt og alveg sérstaklega hættulegt fyrir bændur því að þeir eiga auðvitað að vera, eðli máls samkvæmt, sjálfstæðir atvinnurekendur. Þeir eru menn sem búa sjálfstætt og það er mjög undarlegt að ríkið skuli greiða iðgjald fyrir þá sem atvinnurekandi því að þeir eru að sjálfsögðu sínir eigin herrar. Þannig hef ég alltaf litið á það. Ég vil að bændur skoði það að reyna að hverfa frá þeirri hugsun að ríkið sé launagreiðandi þeirra og fari að líta á sjálfa sig sem sjálfstæða aðila, sem sjálfstæða atvinnurekendur.

Vandamál Lífeyrissjóðs bænda eru mjög hættuleg fyrir landbúnaðinn í framtíðinni vegna þess að nýir bændur — segjum að kæmi uppsveifla í landbúnaði sem er vissulega að gerast í mjólkurframleiðslunni — eru skikkaðir til að greiða í Lífeyrissjóð bænda, þ.e. taka á sig þær fortíðarskuldbindingar og þann fortíðarvanda sem þar er. Þetta getur orðið til þess að menn vilja hreinlega ekki fara inn í stéttina, þetta getur hamlað því að nýsköpun og nýliðun verði hjá bændum og það er mjög hættulegt. Þetta þurfa menn að ræða líka, hvort rétt sé að skikka menn sem eru að byrja í atvinnurekstrinum til að greiða í Lífeyrissjóð bænda og taka þátt í að leysa þennan vanda sem safnast hefur upp á liðnum árum.

Það er ýmislegt sem hægt er að gera. Menn hafa nefnt hérna Lánasjóð landbúnaðarins sem er furðulegt fyrirbæri sem ég hef nú alltaf gagnrýnt vegna þess að búvörugjaldið leggst á alla bændur, ríka sem fátæka, en lánin fá eingöngu þeir sem hafa veð og hafa tekjur til að borga lánin. Ég hef stundum sagt að þetta sé skattlagning á fátækt, á fátæka bændur, því að þeir verða að borga búvörugjaldið en þeir fá ekki lán af því að þeir hafa ekki nægilegar tekjur eða hafa ekki nægileg veð, nægilegar eignir. Ég er því mjög ánægður með að menn skuli vera að leggja þann sjóð af eða að þróunin skuli vera sú að hann eigi að leggja af.

En að fleiru væri hægt að huga til að setja í Lífeyrissjóð bænda, t.d. Hótel Sögu sem bændur eiga. Ég sé engan annan eiganda að Hótel Sögu því að þeir greiddu þetta á sínum tíma. Ef menn ekki geta fundið hinn raunverulega eiganda sem eru þeir bændur sem á sínum tíma, upp úr 1954 held ég, greiddu ákveðnar greiðslur til Bændasamtakanna til að byggja Hótel Sögu, þá finnst mér eðlilegt að andvirði Hótel Sögu verði látið renna í Lífeyrissjóð bænda.

Sama má segja um KEA. Ef menn finna ekki eigendur að KEA, sem eru náttúrlega bændur í Eyjafirði í mínum huga — það er örugglega hægt að finna þá og dreifa peningunum sem hlutafé til bænda í Eyjafirði — en ef mönnum tekst það ekki finnst mér sjálfsagt að þeir fjármunir sem eru í KEA, sem eru umtalsverðir, renni í Lífeyrissjóð bænda. Ég sé ekki að þetta fé eigi að sigla einhvern veginn sjálfvirkt um efnahagslífið undir stjórn einhverra manna annarra en bænda. Ég vil bara að bændur eigi þetta fé klippt og skorið.

Svo er það Mjólkursamsalan í Reykjavík sem á 5 milljarða eða 6 milljarða í sjóði sem enginn á. Auðvitað eiga bændur í Ölfusinu og á Suðurlandi og Vesturlandi þessa peninga. Takist ekki að finna eigendur að því beint, þ.e. að ákveðinn bóndi í Ölfusinu eigi sínar 3 milljónir eða 4 eða 5 milljónir hjá Mjólkursamsölunni sem hlutafé þá finnst mér rétt að sá sjóður verði settur inn í Lífeyrissjóð bænda. Það eru nú ýmsar matarholurnar til til þess að finna því að ég er á móti þessu fé sem siglir um atvinnulífið undir stjórn einhverra manna — ég hef nefnt þetta með sparisjóðina — sem ráða því og geta notað þetta fé til þess að byggja upp völd og eigin hagsmuni. Ég vil koma þessu fé til eigendanna og það liggur beint við að setja í Lífeyrissjóð bænda þá sjóði sem bændur eiga örugglega. Það er dálítið merkilegt, herra forseti, að slíkt fé virðist hafa myndast aðallega hjá landbúnaði, þetta fé sem enginn á, fé án hirðis sem ég kalla svo.

Við ræddum áðan samspilið við Tryggingastofnun. Það er nú ekki alveg eins slæmt og það lítur út fyrir að vera vegna þess að greiðslur úr Lífeyrissjóði bænda eru svo, ég vil segja, fáránlega lágar. Menn eru að fá kannski 5 þús. kr., 10 þús. kr., 15 þús. kr. og hækkun á þeim greiðslum jafnvel þó þær tvöfölduðust úr 5 þúsund kr. upp í 10 þúsund kall, sem getur munað viðkomandi lífeyrisþega töluverðu — þetta er fólk sem hefur ekki mikið á milli handanna — þær greiðslur skerða ekki tekjutryggingu almannatrygginga vegna þess að þær eru undir lágmarkinu sem menn mega hafa úr lífeyrissjóði. Ég man ekki nákvæmlega hvað það lágmark er en einhvern tíma var það 18 þús. kr.

Hér í þessu frumvarpi er talað um að iðgjaldið í lífeyrissjóðinn eigi að vera að lágmarki 4% og að hægt sé að hækka það. Það verður væntanlega gert með búvörusamningi. Þetta er þá í rauninni krafa á ríkið. Það mun aukast krafa á ríkið og ég vara við því. Ég vara bændur við því að auka enn frekar þá hugsun að þeir séu launþegar hjá ríkinu. Ég minni á að staða bænda hefur batnað mjög mikið undanfarin ár. Hún var mjög döpur fyrir. Sérstaklega hefur staða mjólkurbænda batnað mjög. Kvótinn hefur hækkað í verði, þ.e. að eignir þeirra eru orðnar verðmætari og verða verðmætari með hverju árinu. Síðan hefur verð á jörðum líka hækkað mikið. Það er dálítið undarlegt að tala um að beita félagslegum reglum eða aðferðum til að bæta stöðu fólks sem á kannski tugi eða hundruð milljóna í verðmæti í mjólkurkvóta og í jörðum. Mér finnst því að það þurfi að taka dálítið tillit til þess hvernig eignastaða bænda hefur batnað umtalsvert á undanförnum árum sem betur fer.

Sauðfjárbændur eru náttúrlega enn þá í mjög lakri stöðu. Þeir hafa verið sennilega tekjulægsta stétt landsins, þökk sé margra ára kerfi landbúnaðar sem ég hef margoft gagnrýnt. Sú stefna hefur verið gífurlegt helsi á þessa stétt. En staða þeirra er að batna vegna þess að menn eru að slaka á klónni að mörgu leyti, samanber frjálst framsal og annað slíkt, þannig að mér sýnist að staðan sé að batna og bændur ættu sjálfir að fara að leiða hugann að því að þeir séu ekki launþegar hjá ríkinu og fara að taka yfir hluta eða allt iðgjald launagreiðanda.



[12:21]
Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Í grunninn er ég sammála langflestu sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði í sinni ágætu ræðu. En ég vil spyrja hv. þingmann um tvennt.

Það var mjög athyglisvert sem hann sagði til að mynda um Hótel Sögu, KEA og Mjólkursamsöluna og alla þá milljarða sem eru þar fljótandi undir stjórn annarra en bænda. Ég leyfi mér því að spyrja hv. þingmann hvernig hann sér Alþingi Íslendinga eða framkvæmdarvaldið grípa til aðgerða svo þetta fé fari í réttar hendur.

Hins vegar vil ég spyrja hv. þingmann um þessar 18 þús. kr. sem hann nefndi að væru undanþegnar skerðingu á almannatryggingum, þ.e. fyrstu 18 þúsund krónurnar af lífeyristekjum. Er þetta ekki rangt skilið hjá hv. þingmanni? Er það ekki rétt skilið hjá mér að það sé grunnlífeyrir sem aldrei er skertur sama hversu háar lífeyristekjur einstaklingar hafa, en skerðingarákvæði sem er bundið í lög upp á 45% tekur strax gildi á fyrstu krónum lífeyristekna einstaklinga?



[12:22]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú er mér þannig háttað, mínum gáfum og þekkingu, að ég þarf alltaf að lesa lögin um almannatryggingar til þess að rifja upp hvernig það er. Annaðhvort er ég svona takmarkaður eða kerfið svona flókið. Ég vonast til að það sé þetta seinna. Það er greinilegt að hv. þingmenn þekkja þetta kerfi ekki alveg í hörgul.

Þannig er að tekjur eru mismunandi meðhöndlaðar eftir því hvort það eru launatekjur eða lífeyristekjur og lífeyristekjurnar eru með ákveðnu þaki. Það var einmitt sett til þess að milda samspil lífeyrissjóða og Tryggingastofnunar og þetta mark var 18 þúsund kr. einhvern tíma. Ég þyrfti í rauninni að lesa lögin. Mér gafst ekki tóm til þess eftir að þessi umræða kom upp um samspil Tryggingastofnunar við lífeyrissjóðina. En þannig er að þessar greiðslur úr lífeyrissjóði eru með ákveðnu hámarki án þess að þær fari að skerða. Eftir það skerða þær tekjutryggingu almannatrygginga. Grunnlífeyrir almannatrygginga skerðist ekki vegna greiðslu úr lífeyrissjóði. Hann skerðist hins vegar vegna launatekna þegar þær eru orðnar umtalsvert háar.



[12:23]
Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég get sannarlega tekið undir orð hv. þingmanns. Lífeyrissjóðskerfið og þetta kerfi sem heldur utan um samsettar bætur almannatrygginga er ansi flókið. Um fjórþættar greiðslur er að ræða og hef ég svona af minni reynslu eftir viðtöl við eldri borgara komist að því að fæstir þeirra skilja kerfið og fæstir þeirra gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að fá greitt.

Ég tek undir að það þarf að skoða alvarlega hvort við getum einfaldað greiðslur samsettra bóta almannatrygginga og lög þar að lútandi þannig að skiljist, svo ekki sé talað um leikmenn á löggjafarsamkundunni sjálfri.

Ég minni hv. þingmann aftur á þá athyglisverðu ræðu sem hann flutti hér áðan um þá milljarða sem eru fljótandi í efnahagslífinu og eru í raun í eigu bænda. Ég vitna þá til Hótel Sögu, KEA og Mjólkursamsölunnar og eflaust eru það fleiri fyrirtæki og stofnanir sem ekki er stjórnað af bændum sjálfum heldur einstaklingum sem taka þátt í markaðnum. Ég spyr því hv. þingmann aftur hvernig hann sjái löggjafarsamkunduna eða framkvæmdarvaldið koma inn í þessa umræðu til að þessu fé verði skilað til réttra eigenda.



[12:25]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum náttúrlega með eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og spurningin er hvernig hægt sé að flytja svona eignir til. En það er ljóst að varðandi eignir sem enginn á er auðveldara um vik og alveg sérstaklega þegar hægt er að færa rök fyrir því að ákveðinn þjóðfélagshópur eigi viðkomandi eign, t.d. með því að hafa greitt til eða byggt upp viðkomandi eign, eins og KEA sem er samvinnufélag í eigu bænda eða var það. Þeir sem stýra þessu í dag eru á mjög óbeinan hátt kosnir af þeim sem eru þarna inni, þ.e. bændum. En það gerist með tímanum að þetta fé fjarlægist stöðugt eigendur sína. Það gerðist t.d. hjá Brunabót sem er komin ansi langt frá þeim sem áttu það á sínum tíma, þeim sem voru tryggðir hjá hinu gagnkvæma tryggingafélagi og samkvæmt reglum og lögum um gagnkvæm tryggingafélög áttu þetta fé. En með lögum frá Alþingi var þetta fé tekið af þeim og sett inn í sjálfseignarstofnun sem núna siglir gegnum atvinnulífið undir stjórn einhverra manna. Ég veit ekki hverjir þeir eru og hvernig þeir eru valdir.

Ég held því að ef það er góður vilji til og samstaða meðal bænda og þingmanna þá ætti að vera hægt að flytja þetta fé inn í Lífeyrissjóð bænda sem er líka í eigu þessarar sömu stéttar og hún hefur hag af.



[12:27]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur um margt verið athyglisverð umræða sem hér hefur farið fram og kannski einkanlega sú sem laut að því hvernig beri að ráðstafa fé sem enginn á. Vissulega er rétt að bændur eiga víða miklar eignir sem þeir ekki hafa stjórn á og ef ekki kemur til sérstök aðgerð löggjafarvaldsins þá munu þeir sennilega seint og illa nokkurn tíma ná stjórn á þeim eignum. Þetta er því umræða sem er vel þess virði að taka.

Hins vegar verða menn að hafa í huga í þessu samhengi að ríkisvaldið hefur nú þegar teygt sig inn í svipaða eða sambærilega sjóði. Má þar nefna Iðnlánasjóð og Fiskveiðasjóð sem á sínum tíma runnu mestan part inn í ríkissjóð en ekki til þeirra sem greiddu eða eiginlega bjuggu þessa sjóði til. Við höfum því í fortíðinni fordæmi þess efnis að ríkið hefur tekið til sín slíka sjóði. En hvort það gilda önnur sjónarmið um bændur í þessu tilviki en gerðu á þessum tíma má vel vera og vel má vera að auðveldara sé að sýna fram á eignarrétt bændanna en var í þessu tilviki. Án þess að ég ætli að fara hér út í mikla umræðu um það þá lít ég sjálfur svo á að hið sama eigi nú ekki við um sparisjóðina. Þar hefur okkur hv. þm. Pétur Blöndal greint talsvert á en ég ætla ekki að fara að endurtaka þá umræðu hérna.

Það er hins vegar mjög athyglisvert sjónarmið í ljósi þeirrar stöðu sem Lífeyrissjóður bænda er í að menn skoði og hugleiði hvort rétt sé að styrkja sjóðinn á þennan hátt.

Ég held heldur ekki að í þessari umræðu sé rétt að fara yfir hvers vegna staða bænda er eins og raun ber vitni enda verður það ekki gert hér. Mér þykir hins vegar það frumvarp sem hér liggur fyrir vera einhvers konar tilraun til þess að koma til móts við hina erfiðu stöðu Lífeyrissjóðs bænda og er það í sjálfu sér áhugavert markmið og æskilegt. En ég velti því fyrir mér að þegar maður les þetta yfir og fer yfir þetta þá er dálítið erfitt að átta sig á því hver hinn raunverulegi vandi Lífeyrissjóðs bænda sé. Það kemur ekki hér fram. Það er erfitt að átta sig á því um hvaða fjárhæðir hér er verið að ræða.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson fór ágætlega yfir meðalfjárhæðirnar sem koma út úr þessum sjóði. Það sér hver maður að þær eru ekki háar, sem væntanlega endurspeglar stöðu sjóðsins. En sú hugmynd sem hér er lagt upp með virðist mér, eins og ég fæ skilið hana, sú að opna á heimild sjóðstjórnar til að breyta samþykktum að því er varðar iðgjöld greidd af viðmiðunarlaunum. Mér virðist sem hér eigi að einhverju leyti að opna víxil á ríkissjóð, þ.e. ef stjórn sjóðsins ákveður hækkun á iðgjaldi þá hækkar framlag ríkisins. Ég er dálítið hugsi yfir því hvort hér sé eðlilega að verki staðið, að við veitum stjórn Lífeyrissjóðs bænda opinn víxil, heimild til að taka ákvörðun og ávísa nánast á ríkissjóð. (Landbrh.: Það er búvörusamningurinn.) Það er í gildi búvörusamningur að vísu. En þetta er umhugsunarefni, hvort þetta sé skynsamlegasta leiðin.

Spurningin sem ég vil varpa upp, sem við munum án efa skoða í efnahags- og viðskiptanefnd, er hvort ekki sé æskilegt að leggja hreint mótframlag úr ríkissjóði í sjóðinn til að styrkja hann. Væri það ekki skynsamlegri leið, hreinni og ærlegri? Ég held að ég geti talað fyrir munn allra, a.m.k. innan Samfylkingar, hvað það varðar að menn eru tilbúnir að styrkja þennan sjóð og telja það mjög mikilvægt. Hins vegar þarf að skoða vandlega hvaða leið við förum í þessum efnum. Eins og þetta slær mig virðist ætlunin að reyna að stoppa í gatið, að aðgerðin sé til þess. Reyndar kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að frumvarpið væri lagt fram samkvæmt beiðni stjórnar sjóðsins. Umræðan um þessar hugmyndir hefur því kannski ekki farið fram mikið víðar en þar. En ég held að við þurfum að skoða málið vandlega í efnahags- og viðskiptanefnd. Þar á ég sæti og fæ tækifæri til að skoða hvort aðrar leiðir kunni að vera betri og skynsamlegri.

Ég held að hv. þingmenn geri ekki ágreining um þau markmið sem hér eru uppi. Hins vegar kann að vera rétt að skoða aðrar leiðir, einkum út frá því sjónarmiði hvort hér sé að einhverju leyti opnað á að aðrir en þingið taki ákvörðun um framlag ríkisins í sjóðinn.

Ég ætla ekki að hafa, virðulegi forseti, fleiri orð um þetta mál að þessu sinni. Við munum fara vel og vandlega yfir þetta í efnahags- og viðskiptanefnd og skoða með mjög jákvæðu hugarfari. Það er ekki nokkur spurning. Við reynum þá, ef ástæða þykir til, að skoða hvort aðrar leiðir kunna að vera skynsamlegri en ég hef trú á að þingið muni taka mjög jákvætt á þessu.



[12:33]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum. Með því skal rýmka heimildir sjóðsins til að fá aukin iðgjöld í sjóðinn og einnig gefa möguleika á auknum lífeyrisgreiðslum.

Hér hefur verið rakið, í ræðum hv. þingmanna sem hér hafa talað auk hæstv. fjármálaráðherra, mikilvægi sjóðsins, staða hans rakin og hvernig hefur gengið til. Ég vil sérstaklega vekja athygli á ágætri ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann fjallaði um hvernig þessi sjóður, eins og margir aðrir lífeyrissjóðir í landinu, varð fyrst til með ákaflega takmarkaðri greiðslu inn í sjóðinn og þar af leiðandi takmörkuðum réttindum. Þetta var ekki eini sjóðurinn. Menn hafa líka minnst á Lífeyrissjóð sjómanna og jafnvel fleiri lífeyrissjóði sem urðu til með því að greiðslur inn í sjóðinn voru takmarkaðar, á þær var sett hámark fyrir utan það að þær voru í heild sinni lágar. Það kom mönnum síðan í koll sem treysta þurftu á greiðslur úr sjóðnum til lífeyrisréttinda.

Á þetta bætist einnig að í atvinnugrein eins og landbúnaði hefur þeim fækkað sem vinna í frumþáttum þessarar greinar og eiga aðild að Lífeyrissjóði bænda. Auk þess nær fólk hærri aldri en áður var sem sýnir góða þróun í þjóðfélaginu hvað það varðar. En allt þetta eykur að sjálfsögðu fjárhagsvanda sjóðsins miðað við kröfur sem honum er ætlað að standa undir og væntingar til sjóðsins.

Það er mikilvægt að menn átti sig á því að þetta er samfélagslegt mál, þetta er mál samfélagsins alls. Þetta er ekki bara mál bændastéttarinnar eða þeirra sem nú stunda landbúnað heldur er þetta mál samfélagsins. Því ber að taka eftir. Það er vilji okkar og stefna að allir búi við sem jöfnust lífeyrissjóðsréttindi og þótt það hafi komið tímabil, á upphafsárum sjóðsins eins og margra annarra sjóða og reyndar jafnvel allt fram til þessa, sem einstaklingar hafa greitt mun minna í sjóðinn en æskilegt væri og eiga því minni réttindi en þeim eru nauðsynleg. Það er samfélagsleg staða sem okkur ber öllum skylda til að taka á. Þetta hefur verið rakið ítarlega.

Þetta frumvarp til laga, um að rýmka heimildir sjóðsins sjálfs til að eiga að innheimta iðgjöld, er því góðra gjalda vert en ég hefði viljað sjá gerða ítarlegri grein fyrir stöðu sjóðsins í heild, þeim skuldbindingum og væntingum sem sjóðfélagar bera til hans og við vildum að þeir ættu rétt á. Það hefur ekki komið nægilega vel fram en hér er samt ekki um þær upphæðir að ræða sem ríði neinn baggamun í efnahagslegu tilliti þjóðarinnar og því ætti að skoðast að bein framlög kæmu af ríkisins hálfu inn í sjóðinn, sem jafnframt hefði þá lagastoð að fólki sem á aðgang að sjóðnum væri tryggður ákveðinn lágmarkslífeyrisréttur og umfram hann kæmu ekki skerðingar vegna fjárvöntunar. Þetta finnst mér samfélagsleg skylda. Ég legg áherslu á að við meðferð málsins í hv. efnahags- og viðskiptanefnd verði farið yfir alla þessa þætti og kannað með hvaða hætti samfélagið, ríkisvaldið, geti komið beint að og komið á eðlilegum grundvelli fyrir sjóðfélaga. Það held ég að hljóti að vera eindreginn og afdráttarlaus vilji allra, að þessi sjóður geti staðið við eðlilegar skuldbindingar.

Ég ætlaði að öðru leyti að gera að umtalsefni þær hugmyndir sem hafa verið uppi um að selja Lánasjóð landbúnaðarins, einkavæða hann og selja og láta hann renna inn í Lífeyrissjóð bænda eða gera annað við hann. Mér finnst það allt annað mál og að það eigi ekki að blandast inn í umræðuna um stöðu Lífeyrissjóðs bænda í sjálfu sér eða ábyrgð samfélagsins á þeim sjóði, þeim rétti og þeim kjörum. Það er mjög ósanngjarnt. Lánasjóður landbúnaðarins er stofnaður með allt annað hlutverk og verkefni og hefur verið byggður upp öðruvísi. Einkavæðing hans og sala getur ekki talist liður í að taka á sig eðlilegar samfélagslegar skuldbindingar, eins og Lífeyrissjóður bænda hefur gagnvart samfélaginu að því er mér finnst.

Lánasjóður landbúnaðarins hefur gegnt gríðarlegu hlutverki við að tryggja jöfnuð milli bænda til lánsfjár. Hann á einmitt ríkan þátt í að Ísland hefur byggst upp á síðustu áratugum í landbúnaði sem sjálfseignarbúskapur, þar sem bændur, stórir eða smáir, hafa átt jarðir sínar og framleiðslumannvirki. Þetta hefur ekki síst gerst fyrir tilverknað Lánasjóðs landbúnaðarins. Vissulega var hann byggður upp og studdur á félagslegum grunni (PHB: Andfélagslegum.) ekki andfélagslegum. Sé það löstur að halda í heiðri félagslegum gildum, ef það er gamaldags að halda á lofti félagslegum gildum og láta sér annt um náungann, bæði líf hans og starf, þá vil ég vera gamaldags, herra forseti. Sótt er að félagslegum gildum í þágu græðgi og eiginhagsmuna. Ég tel að það sé ekki þjóðinni til heilla, muni koma okkur í koll og því sé sjálfsagt að spyrna við fæti eins og t.d. í þessari umræðu um einkavæðingu og Lánasjóð landbúnaðarins.

Hins vegar getur vel komið til greina, eins og ég hef lagt til að skoða, hvort Lánasjóður landbúnaðarins, í stað þess að vera felldur gæti verið samrekinn með Lífeyrissjóði bænda. Þannig mætti ná fram hagræðingu í rekstri af beggja hálfu og afmarka lánaflokka lánasjóðsins við tilgreind atriði. Aðrir lífeyrissjóðir eru virkir í að lána sjóðfélögum sínum, t.d. til að koma sér upp íbúðum. Hjá bændum hefur þetta verið með öðrum hætti. Þeir hafa verið skyldugir til að setja að veði, þótt þeir væru að byggja íbúðarhús, hafa þeir veri skyldugir til að setja að veði íbúðarhús sín, öll útihús og jörðina alla. Þar hefur ekki verið neitt val. Hafi þeir ætlað að byggja fjárhús eða fjós hafa þeir líka orðið að veðsetja íbúðarhúsið og jörðina alla. Á því er engin breyting þótt þetta fari í viðskiptabanka, síður en svo. Staða bænda hefur því verið allt önnur en almennra lántakenda varðandi eignarrétt sinn á húsnæði og jarðnæði.

Hvað segðum við ef við ætluðum t.d. að byggja bílskúr í Reykjavík og þá yrði skylt að veðsetja allt land Reykjavíkurborgar fyrir því? Ég held að ýmsum þætti það nokkuð langt seilst. Þess vegna legg ég áherslu á að í umræðunni um Lífeyrissjóðs bænda verði tekið á málum hans út frá hans eigin forsendum og þeim samfélagslegu skyldum sem við öll berum gagnvart sjóðfélögum þar eins og öðrum lífeyrissjóðsþegum í landinu. Vanti fjármagn til að tryggja stöðu Lífeyrissjóðs bænda eða koma honum fyrir með öðrum hætti má vel vera að rétt væri að sameina hann öðrum sterkari lífeyrissjóði en þá er þetta samfélagslegt mál. Það á ekki að tengjast því að þvinga bændur til að láta aðra félagslega uppbyggða sjóði sína, sem hafa verið stofnaðir í allt öðrum tilgangi, renna til að styrkja lífeyrissjóðinn, sem er félagslegt mál.

Herra forseti. Ég vildi koma þessu á framfæri. Ég tel mikilvægt að Lánasjóður landbúnaðarins verði skoðaður sjálfstætt, út frá hagsmunum bænda og hagsmunum samfélagsins í hinum dreifðu byggðum. Mér óar við því ef hann yrði seldur athugasemdalaust til viðskiptabanka sem þar með fær á silfurfati fyrsta veðrétt í nánast öllum jörðum á Íslandi. Ég teldi það reyndar brot á þeim samningum og þeirri umgjörð sett var um lánasjóðinn. Hann var upphaflega rekinn sem deild í Búnaðarbankanum, meðan hann var ríkisbanki. Þá var litið svo á að um samfélagslega ábyrgð væri að ræða. Á þeim grunni voru þessi lán tekin. Eigi nú á einu bretti að kasta þessu á markað, einkavæða lánasjóðinn og samningana sem gerðir hafa verið við bændur um allt land, einkavæða það og selja, þá tel ég það brot á samfélagslegum sáttmála sem gilt hefur um starfsemi sjóðsins og tel það reyndar óásættanlegt.

Varðandi skýrsluna sem hæstv. landbúnaðarráðherra vitnaði til, um verkefni, stjórn, stöðu og framtíð Lánasjóðs landbúnaðarins, verkefnaskýrsluna, þá dreg ég í efa að sú verkefnastjórn hafi verið rétt skipuð. Hún er skipuð tveim mönnum úr ráðuneytinu, framkvæmdastjóra lánasjóðsins og síðan framkvæmdastjóra Stéttarsambands bænda og formanns. Þar hefur verið lagt upp með þær einu forsendur að selja eigi sjóðinn og laða síðan fram röksemdir fyrir því. Aðrir möguleikar, aðrar ábyrgðir eða öðrum skyldum sjóðsins eru mjög lítil skil gerð í skýrslunni og málið lítt reifað að því leyti.

Ég ítreka það, herra forseti, að það hefur verið styrkur íslensks landbúnaðar og íslensks samfélags að búa að félagslegri samhjálp, félagslegum gildum. Þau hafa í raun, gegnum undanfarna áratugi, verið hornsteinn uppbyggingar og framfara sem Ísland býr að. Þó að við fáum, vonandi einhvern skamman tíma, tímabil þar sem allir vilja ásælast eigur annarra og sérstaklega félagslegar eignir þá tel ég að berjast eigi gegn því fremur en að leggjast í strauminn og fljóta niður með galopinn hvoftinn í von um að geta gleypt eitthvað í þeim darraðardansi. Félagsleg gildi hafa verið okkur styrkur hingað til. Þó að sumum finnist, eins og hefur komið fram hjá hæstv. landbúnaðarráðherra og ýmsum öðrum, einkum í stjórnarflokkunum, að þeim finnist félagsleg gildi úrelt og gamaldags þá er ég þeirrar skoðunar að félagsleg gildi, félagsleg samhjálp sé hornsteinn og hafi verið hornsteinn íslensks samfélags. Ef það er gamaldags þá er allt í lagi að vera gamaldags. Ég tel einmitt að framtíðin felist í félagslegu gildum. Á því eigum við að byggja og þess vegna er Lífeyrissjóður bænda hluti af félagslegri ábyrgð samfélagsins. Skorti fjármagn inn í Lífeyrissjóð bænda þá á það koma þá frá samfélaginu í gegnum ríkisvaldið og ekki að blanda því saman við óskyld atriði.