131. löggjafarþing — 106. fundur
 7. apríl 2005.
Rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys, fyrri umræða.
þáltill. ÞBack, 245. mál. — Þskj. 256.

[13:54]
Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 256 sem er 245. mál þingsins. Þetta er tillaga til þingsályktunar um rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys, og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að við nýframkvæmdir samkvæmt vegáætlun verði gert ráð fyrir rásum fyrir búfénað undir vegi þar sem girt er meðfram vegum en bithagar beggja vegna. Jafnframt verði hafin vinna við gerð slíkra rása undir vegi þar sem umferð er þung og bithagar eru nytjaðir beggja vegna vegar.“

Hæstv. forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar var flutt nokkrum sinnum á síðasta kjörtímabili en varð aldrei útrædd. Því þykir mér rétt að endurflytja tillöguna óbreytta en upplýsingar sem koma fram í greinargerðinni eru uppfærðar eftir því sem hægt hefur verið.

Hæstv. forseti. Það er mjög til bóta hvað varðar þingstörfin að þessi þingsályktunartillaga skuli vera rædd hér í dag þar sem þannig stendur á um störf þingsins og starfsáætlun að á dagskrá eftir helgi á að ræða samgönguáætlun. Við hefðum að vísu óskað eftir því að samgönguáætlun væri aðeins fyrr á ferðinni en það er nú svo að hún er órædd og ekki frágengin þannig að mér finnst eðlilegt að þingsályktunartillagan komi inn í umræðuna um samgönguáætlun og vegáætlun til þess að auka enn frekar á öryggisþætti við vegagerð. Ég veit að verið er að efla þennan þátt í samgönguáætlun en ég tel að ekki sé nóg að gert og að eyrnamerkja þurfi fjármagn til þess að fara í átak til að gera rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys og að hreinlega þurfi að byrja á að kortleggja hringveginn og síðan helstu stofnbrautir til þess að sjá hvar brýn nauðsyn er á að setja slíkar rásir. Allt kostar þetta fjármagn og einnig nýja hugsun þannig að við endurgerð og endurbætur og allar nýframkvæmdir verði þessi þáttur hreinlega tekin inn og rásirnar settar samhliða öllum framkvæmdum.

Mjög erfitt hefur verið fyrir bændur, marga hverja, að fá rásir undir fjölfarna vegi, að ég tali nú ekki um á hringveginum. Eru mörg dæmi þess að það hafi staðið lengi í stappi því að bæði truflar það umferð og ekki síður kostar það töluverðar fjárhæðir víðast hvar að koma hólkunum niður. Það hleypur a.m.k. á einhverjum milljónum króna sem eru það háar upphæðir að óeðlilegt er að ætlast til þess að hver bóndi sjái um slíkar framkvæmdir, enda á það hreinlega að mínu mati að vera hluti af hönnun vegar eða endurbótum þar sem þess er þörf.

Slíkar rásir hafa verið settar upp, bæði við nýframkvæmdir og eins hafa bændur hreinlega farið út í slíkar framkvæmdir alfarið eða að hluta til á sinn kostnað. En eins og ég sagði í upphafi máls míns þarf hreinlega að fara í markvissar aðgerðir og áætlun til að einhver viðhlítandi árangur náist og eins þarf að setja skýrar línur varðandi kostnað af slíkum rásum.

Ég tel að ekki sé eðlilegt að bændurnir sem slíkir þurfi að leggja fram fjármagn í þessu skyni, nema þá að einhverju óverulegu leyti, því ekki er bara verið að tala um hagræði fyrir hvern bónda heldur er þetta fyrst og fremst út frá umferðaröryggi. Það heyrir maður hjá mörgum ferðamanninum sem hingað kemur að þeim finnst undarlegt að keyra um þjóðvegi landsins og þurfa að gæta sín á sauðfé og öðrum búpeningi. En við þetta megum við búa þar til lokið verður við að girða af þjóðvegina, búpeningur verði í hólfum eða að hægt verði að búa þannig að bændur þurfi ekki hreinlega að verða fyrir búsifjum vegna mikils umferðarþunga eða eigi í erfiðleikum með að koma fé, sem í flestum tilfellum eru mjólkurkýr, fram og til baka yfir þjóðvegina þar sem ánauðin er hvað mest af umferðinni. Þar sem stóru kúabúin eru hafa bændur hreinlega þurft að loka veginum með dráttarvélum sitt hvorum megin við reksturinn til að tryggja að bæði skepnur og menn komist yfir veginn. En það hefur ekki alltaf dugað til því að umferðarhraðinn er slíkur að eftir sem áður, þó að reynt sé að gæta varúðar, hafa bílstjórar ekki tekið tillit til þess og því hafa orðið slys.

Ég vil grípa aðeins niður í greinargerðina og nefna nokkrar tölur en yfirlitið nær yfir rétt rúmlega tíu ára tímabil. Ég hef ekki upplýsingar frá árinu 2004 en þær hljóta að liggja núna fyrir þó að þær hafi ekki gert það þegar þingsályktunartillagan var lögð fram. Slys verða af völdum búfjár og fólk hefur slasast. Flest alvarlegu slysin voru árið 2001 en flestir slösuðust árið 2002. Óhöpp án meiðsla hafa aukist úr 59 árið 1994 og voru komin upp í 261 árið 2003. Sem betur fer hafa ekki orðið banaslys af þessum völdum en þegar slys verða er oft mjótt á mununum. Ég tel að vegna slysatíðni, öryggis og vegna búsetu sé nauðsynlegt að eyrnamerkja sérstakt fjármagn og setja upp ákveðna áætlun í öllum umdæmum Vegagerðarinnar til að fara í þetta átak.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Það hefur verið kynnt hér áður og mælt fyrir því. Ég vonast til að þingsályktunartillagan verði til umræðu samhliða samgönguáætlun og síðan í framhaldinu við afgreiðslu fjárlaga til vegagerðar.



[14:04]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér liggur fyrir þingsályktunartillaga um rásir fyrir búfénað til að koma því yfir eða undir vegi til varnar slysum. Það sem ég vildi nefna í þessu sambandi er að nú hefur verið lögð fram samgönguáætlun í þinginu en hefur þó ekki verið rædd enn þá. Þar er eins og endranær gert ráð fyrir ákveðnum fjárlagalið sem er reiðvegafé, sem ætlað er einmitt til þess að koma a.m.k. þeirri tegund búfjár, sem eru hestar og hestamennska, af og frá þjóðvegunum. Það fjármagn hefur nýst gríðarlega vel í þeim tilgangi og þar er m.a. gert ráð fyrir undirgöngum undir þjóðvegi og á því svæði sem ég best þekki til hefur það verið tíðkað að slík undirgöng hafi verið lögð. Má þar nefna undirgöng fyrir búfénað á veginum austan við nýju Þjórsárbrúna og á áætlun er að setja fleiri undirgöng undir þjóðveginn frá Hveragerði að Þjórsárbrú. Ég tel því að þetta sé að nokkru leyti í farvegi.

En þess verður að geta að undirgöng sem þessi eru afskaplega kostnaðarsöm. Mér skilst að það séu rösklega þrjár milljónir á göng ef þetta er gert um leið og vegaframkvæmdin á sér stað. Það væri því verðug spurning fyrir hv. þm. Þuríði Backman að svara hvað þessi áætlun kostaði hugsanlega ef við færum allan hringveginn. Við vitum að þetta er vandamál fyrir þá sem þurfa að koma búfé sínu yfir en það væri gaman að heyra hvort hún hefði áætlaðan kostnað samfara þessu.



[14:06]
Flm. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að vita til þess að uppi séu áætlanir um að fara í sérstaka reiðvegi og gera ráð fyrir undirgöngum þeim tengdum. Þetta er allt af hinu góða.

Þeir fjármunir sem hafa farið í undirgöng, fyrir rásir fyrir búfé eins og ég hef kallað það, hafa verið teknir af svokölluðum öryggisliðum Vegagerðarinnar. Fyrst og fremst er litið á þetta sem öryggisatriði. Það sem ég er að kalla eftir er að kortleggja þurfi í umdæmi Vegagerðarinnar hvert einasta svæði og setja upp áætlun hvar þörfin er, hversu brýn hún er, setja upp áætlun og setja upp forgangsröð þannig að við allar nýframkvæmdir og endurbætur komi þetta sjálfkrafa inn þar sem ekki er á næstunni að forgangsraða slíkum verkefnum.

Mér er því algjörlega ómögulegt að segja til um hvað þetta muni kosta en það væri örugglega hægt að leita eftir því og fá bráðabirgðatölur eða mjög fljótlega útreiknað hjá vegagerðarmönnum og umdæmisstjórum hvað þetta mundi verða í heildina. En þetta þarf að vinna faglega og er ekki eitthvað sem við gerum innan eins tímabils samgönguáætlunarinnar. Svona átak hlýtur að ná yfir lengri tíma. Að mínu mati þarf að vinna mjög markvisst að þessu, en ég get ekki nefnt upphæðir.

Það borgar sig að hafa þetta inni strax við upphaf framkvæmda því að það er mun dýrara og miklu meira óhagræði að því að fara í þessar framkvæmdir eftir á.