131. löggjafarþing — 106. fundur
 7. apríl 2005.
útflutningur hrossa, 1. umræða.
stjfrv., 727. mál (hámarksaldur útflutningshrossa). — Þskj. 1085.

[17:25]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 55/2002, um útflutning hrossa, á þingskjali 1085 sem er 727. mál þessa þings.

Hæstv. forseti. Sú breyting sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu á 1. gr. laga nr. 55/2002, um útflutning hrossa, felst í því að ákvæði um hámarksaldur hrossa sem leyfilegt er að flytja úr landi er fellt brott. Ákvæðið þykir ekki hafa neina þýðingu lengur í ljósi þess að ítarleg skoðun fer fram á öllum hrossum fyrir útflutning sem framkvæmd er af eftirlitsdýralækni. Líkamlegt ástand hross á að ráða því hvort það telst hæft til útflutnings en ekki aldur þess. Gert er ráð fyrir að það sé því alfarið á færi eiganda hrossins að ákveða hvort hann vilji flytja hrossið út þótt það sé eldra en 15 vetra ef það á annað borð uppfyllir önnur skilyrði sem lögin mæla fyrir um. Sú mismunun sem nú er í lögunum, þ.e. að heimilt sé að flytja úr landi merar sem eru eldri en 15 vetra en ekki geldinga, þykir heldur ekki standast nánari skoðun þar sem ákvæðið um hámarksaldur útflutningshrossa var í upphafi sett út frá dýraverndarsjónarmiðum, þar sem í upphafi var ekki talið réttlætanlegt að leggja langan flutning á gömul hross sjóleiðina til. Nú eru nær öll hross hins vegar flutt út flugleiðis, annað heyrir til algerra undantekninga. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram á þessu þingi.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og landbúnaðarnefndar.



[17:27]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að bera upp örlitla fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra varðandi þetta frumvarp. Í fyrsta lagi vil ég segja það að ég er sammála efni frumvarpsins.

Spurningin lýtur að athugasemdum frumvarpins. Þar kemur fram að eftirlitsdýralæknar skoði hrossin áður en þau eru flutt út og það er vel. Þar með fylgja hrossunum vottorð frá viðkomandi dýralæknum og það er gott.

Nú langar mig að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort ekki sé rétt að taka það upp að hér verði búin til handbók með íslenska hestinum þannig að þeir erlendu kaupendur sem fá íslenskan hest fái handbók með hestinum sem geti um meðferð, fóðrun, getu hestsins o.s.frv. Ég þekki það af eigin raun að margir í þessum viðskiptum hafa rætt um að það vanti svona „manual“ sem við köllum, líkt og fylgir heimilistækjum, bílum og hvað það nú er sem við kaupum, að með þurfi að fylgja leiðbeiningar. Ég held að það væri ekki síður mikilvægt en sú litla lagabreyting sem þarna kemur fram.



[17:29]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vill svo til að þetta er í góðum farvegi í dag. Hver sá hestur sem fluttur er út fer með hestavegabréf með sér þar sem tilgreindar eru allar upplýsingar, heilbrigðisástand, ætternið og sagan. Ég held að þetta sé í mjög fullkomnum farvegi. Þar fyrir utan eru öll folöld örmerkt í dag. Ég held að hestamenn hafi komið þeim málum í mjög gott form sem er mikilvægt fyrir atvinnugreinina og þá gæðastýringu sem þeir vinna eftir. Ég vil því segja við hv. þingmann að þetta hestavegabréf sé mjög gott og segi alla þá sögu sem segja þarf.



[17:30]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Með reglulegu millibili, mjög reglulegu, koma fram frumvörp á Alþingi um hross. Þetta kemur fram í fjárlögum. Þar er verið að dæla út mörg hundruð milljónum í hross. Ég vil kalla þetta hrossakaup og finnst undarlegt dekur löggjafans eða stjórnvalda við eigendur hrossa. Hér hafa meira að segja verið sett lög um útflutning hrossa. Maður spyr sig: Af hverju ekki lög um útflutning katta eða hunda, kúa eða kinda? (Gripið fram í: Þau eru ekki flutt út.) Þau er ekki flutt út, segir hv. þingmaður. Það skyldi nú ekki vera að þurfi að setja lög um það svo þau verði flutt út?

Það sem er undarlegt í þessu er að þau lög um útflutning hrossa, sem ég var að líta á og eru níu greinar, fjalla annars vegar um gæðastýringu eða gæðaeftirlit með atvinnugreininni sem atvinnugreinin gæti að sjálfsögðu sett upp sjálf. Talað er um örmerkt hross og frostmerkt. Það gæti greinin gert sjálf ef menn vilja fá gott verð erlendis ef þeir flytja hrossin út. Talað er um hestavegabréf. Þau mundu bara fylgja eins og farmbréf með annarri vöru. Talað er um að greiða 500 kr. í stofnverndarsjóð. Þarna er dulbúin skattlagning líka inni í þessu. Ég get nú ekki séð að nokkurn einasta mann muni neitt um þennan fimm hundruð kall og kostar sennilega meira að innheimta hann heldur en hann gefur. Þetta eru sem sagt gæðaeftirlitskröfur sem greinin gæti sjálf sett upp.

Svo eru náttúrlega dýraverndarsjónarmið um að undir fjögurra mánaða aldri megi ekki flytja út hross. Ég geri ráð fyrir að það falli undir dýravernd. Fylfullar hryssur má ekki senda úr landi ef þær eru gengnar meira en sjö mánuði með. Þetta mundi falla undir dýravernd. Einnig flutningsfar fyrir hross svo og öll aðstaða, svo sem rými og loftræsting o.s.frv. Þetta fellur allt saman undir dýravernd. Hvað eru menn með lög sérstaklega fyrir hross?

Í lögum um dýravernd sem ég leit líka á, nr. 15/1994, er fjallað um að umhverfisráðuneytið eigi að hafa eftirlit með dýravernd og setja um það reglugerðir. Það gæti svo gott sem sett reglugerðir sem eru nákvæmlega eins og þessi lög um aðbúnað hrossa þegar þau eru flutt út, aldur þeirra og hvort þau séu fylfull eða ekki.

Ég skil ekki að setja þurfi allt í lög, sérlög um útflutning hrossa.



[17:33]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það kann rétt að vera. Auðvitað á ekki að setja alla hluti í lög. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni. Hér er verið að fella úr gildi ákveðinn þátt í lögum. Hv. þingmaður kallar þetta hrossakaup og skilur þetta nú lítið, en þetta snýr, eins og hv. þingmaður sagði, dálítið að dýravernd eins og komið hefur fram. Einhvern tímann voru hross aðallega flutt með skipum. Það er búið að flytja héðan út hross í hundruð ára, það var ekki alltaf einfaldur hlutur. Þessi lög hafa verið markvisst í endurskoðun. Nú fara allir hestar út með flugi eða oftast og að mestu í dag. Þarna er verið að skapa jafnræði. Hvað önnur dýr varðar verða þau einnig að uppfylla ákveðna skilgreiningu, a.m.k. þess lands sem er verið að flytja þau til.

Hins vegar hvað hestana varðar er íslenski hesturinn, sem ég veit að hv. þingmaður veit, mikið dýrmæti og er ræktaður í tugum þjóðlanda. Íslenskir hestamenn setja sér miklar gæðakröfur og hafa verið að vinna í því. Þeim finnst líka mikilvægt að þeir hestar sem fara úr landi skaði ekki ímynd greinarinnar eða landsins sem þeir koma frá, þannig að um þetta gilda núorðið einföld lög. En eins og ég sagði í ræðu minni er verið að einfalda hlutina og fella úr gildi lög sem ekki eiga við lengur.



[17:35]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að verið er að fella út eitt lítið ákvæði um 15 vetra hámarksaldur hrossa sem flutt eru úr landi, að nú má sem sagt flytja út eldri.

Spurning mín til hæstv. ráðherra, fyrst hann er kominn í andsvar, er hvort ekki megi fella þessi lög úr gildi með tilvísun til þess að greinin setji sér sjálf gæðaeftirlit eins og aðrar greinar í útflutningi eða í framleiðslu yfirleitt og hvort megi ekki vísa til dýraverndarsjónarmiða varðandi þau atriði sem snúa að dýravernd.

Síðan er þarna eitt dálítið skrýtið atriði sem ég skil ekki, um kynbótahross, að tilkynna eigi Bændasamtökum Íslands það án tafar ef slíkt hross er flutt úr landi. Svo er ekki sagt neitt meira hvað Bændasamtökin eigi að gera með það, að vita að þetta ágæta hross á að fara úr landi. Ég skil ekki alveg til hvers er verið að tilkynna þetta. Þetta er skrýtið ákvæði.

Að öðru leyti eru lögin öll varðandi gæðaeftirlit eða dýravernd. Ég legg til að þau verði felld úr gildi.