131. löggjafarþing — 109. fundur
 13. apríl 2005.
Endurgreiðslur gjalda íslensks skipaiðnaðar.
fsp. GuðjG, 710. mál. — Þskj. 1068.

[14:11]
Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) (S):

Frú forseti. Fyrir um það bil ári síðan skipaði iðnaðarráðherra nefnd undir forustu Baldurs Péturssonar til að endurskoða reglur um endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna nýsmíði og viðgerða skipa. Nefndin skilaði niðurstöðu og tillögum sínum í febrúar sl. og er skýrsla nefndarinnar mjög athyglisverð og vel unnin. Þar kemur m.a. fram að 4,5% endurgreiðslur aðflutningsgjalda skipaiðnaðarins hafa ekki dugað til að jafna mismunun gagnvart erlendum keppinautum og ekki hafi því verið forsendur til að skerða þær endurgreiðslur úr 6,5% í 4,5% eins og gert hefur verið síðustu árin með því að draga frá andvirði skipsskrokka sem smíðaðir voru erlendis við útreikning endurgreiðslnanna.

Þá er bent á að ESB hefur ákveðið að skilgreina skipaiðnað á EES-svæðinu sem hátækniiðnað. Með því fellur hann undir reglu sem heimilar hverju landi að greiða niður 20% þróunarkostnað við hvert skip. Evrópskar samkeppnisþjóðir íslensks skipaiðnaðar hafa nú þegar nýtt sér þessar heimildir með þeim afleiðingum að þær bjóða nú mun lægra verð í smíði fiskiskipa en þær gerðu fyrir ári en skip sem er hannað og smíðað á EES-svæðinu og kostar 400 millj. kr. gæti fengið styrk yfir 60 millj. kr. úr viðkomandi ríkissjóði. Það er augljóst að íslenskar skipasmíðastöðvar ráða ekki við slíka samkeppni, en forsenda heilbrigðrar þróunar atvinnulífs er auðvitað að atvinnugreinarnar keppi á grunni jafnræðis, ekki síst í erlendri samkeppni.

Nefndin setur fram nokkrar tillögur til úrbóta. Í fyrsta lagi að endurgreiðslur aðflutningsgjalda verði þegar hækkaðar í 6% í samræmi við heimildir í reglugerð frá 1985. Í öðru lagi að endurgreiðslur verði leiðréttar frá og með árinu 2002. Í þriðja lagi að treysta lagagrunn frekar á þessu sviði þannig að núverandi tollalögum frá 1987 verði breytt með þeim hætti að í stað niðurfellingar í tolli við innflutning hverju sinni verði heimilt að endurgreiða tiltekið hlutfall söluverðs. Í fjórða lagi að stjórnvöld taki afstöðu til þess á grunni frekari úttektar hvort tekin verði upp endurgreiðsla þróunarkostnaðar líkt og ESB hefur ákveðið en með því yrði lagður grunnur að samkeppnishæfum skipaiðnaði og tengdum greinum. Markmið þessara aðgerða er að það verði fullur jöfnuður við þau lönd innan EES-svæðisins sem stunda smíðar á 20–40 metra fiskiskipum en það eru þær skipastærðir sem íslenskur skipaiðnaður á raunhæfa möguleika á að geta boðið á innlendum og alþjóðlegum markaði ef hann situr við sama borð og keppinautar nágrannalandanna.

Á árunum 1986–2004 fækkaði ársverkum í skipaiðnaði úr 1.000 í 360. Það er líka athyglisvert að einu sinni á þessu tímabili fjölgaði störfum í greininni um 30%, á árunum 1994–1995 en þá beittu stjórnvöld jöfnunaraðgerðum til að jafna mismuninn í starfsskilyrðum við erlenda samkeppnisaðila sem beittu jöfnunarstyrkjum. Ég hef því lagt svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. fjármálaráðherra:

Hvernig og hvenær hyggst ráðherra bregðast við niðurstöðum nefndar sem í febrúar skilaði tillögum sem m.a. fólust í því að hækka endurgreiðslur aðflutningsgjalda til skipaiðnaðarins til að jafna aðstöðu innlendra skipasmíðastöðva í samanburði við erlendar stöðvar?



[14:14]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi lýsa mig samþykkan þeim meginsjónarmiðum sem fram komu í máli hv. fyrirspyrjanda hvað það varðar að það er nauðsynlegt að tryggja að íslenskur skipasmíðaiðnaður, alveg eins og aðrar íslenskar atvinnugreinar, búi við sambærileg samkeppnisskilyrði og almennt tíðkast í öðrum löndum og ekki lakari.

Varðandi spurningu hv. þingmanns vil ég segja eftirfarandi: Um endurgreiðslur tolla vegna skipasmíða og skipaviðgerða gilda nú reglur nr. 172/1985 sem settar eru með stoð í tollalögum sem nú eru nr. 55/1987. Samkvæmt þessum reglum endurgreiddi ríkissjóður skipasmíðastöðvum lengi 6,5% af samningsverði nýsmíða, meiri háttar viðgerða og breytinga á eldri skipum. Árið 1998 lækkaði þessi hlutfallstala í 4,5% ef skrokkur viðkomandi skips er smíðaður erlendis eins og í flestum tilfellum er raunin.

Í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni kemst nefndin sem hana samdi að þeirri niðurstöðu að rétt sé að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 4,5% í 6% og nefndin leggur til að þau fyrirtæki sem notið hafi endurgreiðslu fái afturvirka hækkun aftur til ársins 2002 auk þess sem nauðsynlegt sé að styrkja lagagrundvöllinn fyrir umræddri reglugerð. Nefndin notaðist í vinnu sinni við að meta álögð aðflutningsgjöld við þá reikningsaðferð að leggja mat á öll aðföng sem notuð voru við smíði eins skips, verð aðfanganna og álagða tolla og vörugjöld á aðföngin. Sú reikningsaðferð er gróf viðmiðun þar sem miðað er við smíði eins skips og rekstrarár eins fyrirtækis í skipasmíðaiðnaði.

Það er frá því að segja, virðulegi forseti, að gjaldtaka ríkissjóðs í formi tolla og annarra aðflutningsgjalda hefur lækkað verulega frá 1985 þegar áðurnefndar reglur um endurgreiðslu tolla til skipasmíða voru settar, m.a. vegna alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Sú lækkun hefur að sjálfsögð komið þessari grein eins og öðrum til góða. Í því sambandi má nefna að árið 1986 voru tollar 8% af skatttekjum ríkissjóðs en tíu árum síðar hafði hlutfallið lækkað í 3% og árið 2003 var þetta hlutfall komið niður í 1%. Það er mikilvægt í þessu máli að skilgreina rétt endurgreiðsluhlutfall nákvæmlega vegna þess að greiðslur frá ríkissjóði umfram greidd aðflutningsgjöld, tolla eða vörugjöld, teljast vera ólögmætur ríkisstyrkur í skilningi EES-samningsins.

Til þess að bregðast við niðurstöðum nefndarinnar hefur sérfræðingum fjármálaráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og tollstjórans í Reykjavík verið falið að leggja nákvæmt mat á hvað umrætt endurgreiðsluhlutfall þarf að vera hátt til þess að það feli í sér fulla endurgreiðslu aðflutningsgjalda, þ.e. tolla og vörugjalda, án þess þó að það jafngildi ólögmætum ríkisstyrk í skilningi EES-reglnanna. Þegar þeirri athugun lýkur er stefnt að því að styrkja lagagrundvöll reglugerðarinnar um endurgreiðslu tolla vegna skipasmíða og skipaviðgerða og gera nauðsynlegar breytingar á endurgreiðsluhlutfallinu eftir því sem útreikningar leiða í ljós að upp á kunni að vanta.

Þar með liggur það fyrir af minni hálfu, virðulegi forseti, að verið er að vinna úr niðurstöðum þessarar nefndar. Það er verið að sannreyna þær tillögur og þær upplýsingar sem þar koma fram vegna þess að það er eðlilegt að endurgreiða hér tolla og vörugjöld með þeim hætti sem tíðkast hefur, í þeim mæli sem slíkum gjöldum er fyrir að fara í dag og þá til fulls. Hins vegar verða menn að gæta sín á því að ef lengra er stigið en í raun og veru er innheimt í gjöld af þessari starfsemi erum við komin út á þann vettvang að um gæti verið að ræða ríkisstyrki sem ekki fái staðist okkar alþjóðlegu skuldbindingar á vettvangi EES-samningsins. Það þarf bara að ganga úr skugga um markalínurnar í því efni og gæta sín að fara ekki yfir það strik.



[14:19]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að koma hér upp til að þakka hv. þingmanni fyrir að taka málið upp og svo til að þakka fyrir yfirlýsingu hæstv. ráðherra sem var mjög jákvæð. Ég vil meina að ég hafi aldrei heyrt jákvæðari yfirlýsingu hvað varðar stuðning við skipasmíðaiðnaðinn á Íslandi. Ég ætla sannarlega að vona að staðið verði við að ganga það langt í stuðningi við íslenskan skipaiðnað að menn geti staðið jafnfætis þeim sem eru hérna í kringum okkur, því að þannig hefur það ekki verið í gegnum tíðina. Maður hefur hlustað á yfirlýsingar ráðamanna um að við hefðum ekki efni á slíkum stuðningi. Það er hins vegar svolítið undarlegt vegna þess að þeir sem skoðuðu þetta mál einu sinni komust reyndar að þeirri niðurstöðu að allt að 40% stuðningur við skipaiðnað skilaði sér og meira en það sem hagur fyrir þjóðina þannig að langt má ganga, því þessi iðnaður veltir upp á sig miklum öðrum iðnaði og atvinnutækifærum.



[14:20]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mér finnst eiginlega varla eiga að þurfa að þakka það þó undinn sé bráður bugur að því að lagfæra þetta endurgreiðsluhlutfall þannig að það halli ekki beinlínis á íslenska skipasmíðaiðnaðinn að þessu leyti, að hann sé skattlagður sérstaklega umfram smíðar eða viðgerðir erlendis, en samkvæmt skýrslunni er endurgreiðsluhlutfallið nú of lágt. Við erum eingöngu að tala um þann þátt málsins. Að ýmsu öðru leyti er stutt við þennan iðnað í nágrannalöndunum og hefur lengi verið gert og ég heyrði ekkert um að til stæði að breyta því hér af okkar hálfu. Ég segi nú þakka skyldi það þó fyrr hefði verið að á þessu væri tekið.

En það eru margar skýrslurnar og margar tillögurnar um aðgerðir til stuðnings íslenskum skipaiðnaði frá undangengnum árum m.a. sem hafa legið á borðum hæstv. iðnaðarráðherra sem ekkert hefur verið gert með og ekkert hefur orðið úr. Þetta lítilræði er því sjálfsagt að þakka en ég minni á að það er samt langt í land að Íslendingar hafi hlúð að þessari grein með sambærilegum hætti og nágrannalöndin og allt saman fullkomlega löglegt samkvæmt EES-reglum, samanber úttekt EES á reglum Norðmanna.



[14:21]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er aldeilis gott þegar ráðherrann er tilbúinn til að lagfæra stöðu skipaiðnaðarins og hefði verið þörf á því fyrr. En betra er seint en aldrei og því ber auðvitað að fagna að nú skuli eiga að lagfæra stöðuna og styðja skipaiðnaðinn með sambærilegum hætti og gert er í öðrum löndum. Það hefur ekki verið vansalaust hjá okkur hvernig þróunin hefur verið í skipabyggingum og við höfum auðvitað verið að missa stóran hluta af þekkingunni úr greininni og missa þar af leiðandi verkefni, viðhaldsverkefni sem nýbyggingarverkefni, því að ef engin nýbygging er til þá er hætt við að viðhaldinu hraki einnig. Þetta hangir nefnilega saman og hefur mikil áhrif til atvinnusköpunar og atvinnuumsetningar í landinu og þessu fylgja margfeldisáhrif.



[14:23]
Guðmundur Hallvarðsson (S):

Frú forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar. Það voru vissulega orð í tíma töluð sem hér voru borin fram og svar hæstv. fjármálaráðherra. Við höfum horft allt of mikið til háskólamenntunar á Íslandi en sú mikla þekking og reynsla sem við höfum átt í mörgum iðngreinum samanber skipasmíðar hefur oft fallið í skuggann. Það er einhvern veginn þannig eins og dæmi eru um nú nýlega um Landhelgisgæsluna þar sem tilboða var leitað erlendis og þau tekin, að íslensk útgerð, hvort sem það er kaupskipaútgerð eða fiskiskipaútgerð, gerir kröfur um að eiga greiðan aðgang að járniðnaðarmönnum og slippum ef eitthvað bjátar á. En þess í milli virðist það vera svo að útgerðinni sé nákvæmlega sama um hvort járniðnaðarmenn séu tiltækir eða ekki til viðhalds og viðgerða á þessum skipum, því miður.

Þess vegna fagna ég yfirlýsingu fjármálaráðherra og heiti á hann að koma kröftuglega fram til að efla skipasmíðaiðnaðinn.



[14:24]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni fyrir að bera fram þessa fyrirspurn á Alþingi og jafnframt þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir afskaplega jákvæð svör. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað. Það skiptir máli að jafna aðstöðu innlendrar skipasmíði og það skiptir líka miklu máli að þekking og reynsla í skipasmíði verði áfram hér á landi. Ég ítreka þakklæti mitt fyrir þetta.



[14:24]
Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) (S):

Frú forseti. Ég er ánægður með þessar jákvæðu undirtektir hæstv. fjármálaráðherra. Hann segir reyndar að það þurfi að meta það af einhverri nefnd hvað endurgreiðslurnar þurfi að vera háar en ég minni á að niðurstaða nefndarinnar sem ég vitnaði til er ótvíræð og í þeirri nefnd sat fulltrúi fjármálaráðherra ásamt fulltrúa iðnaðarráðherra og Samtaka iðnaðarins. En ég hvet hæstv. ráðherra til að láta hraða niðurstöðum þannig að þessar leiðréttingar komi sem allra fyrst því að stöðvarnar þurfa á þeim að halda. Það er nauðsynlegt að bæta skerðingu endurgreiðslnanna og með ólíkindum að menn skuli hafa dregið andvirði skipsskrokkanna frá við útreikningana vegna þess að það er auðvitað enginn munur á innflutningi á skipsskrokki og öðrum innflutningi til skipasmíðinnar, þ.e. vélum, spilum, siglinga- og fiskileitartækjum og fleira. Þetta er undarleg aðgerð sem þarf auðvitað að leiðrétta eins og er lagt til í skýrslunni.

Ég vil líka leggja áherslu á að opinberar stofnanir verða að muna eftir þessari iðngrein en ekki setja stein í götu hennar eins og mér finnst að hafi verið gert við ákvörðun um breytingar á varðskipunum en allur aðdragandi og ákvarðanataka í því máli benti til að Ríkiskaup vildu að verkin yrðu unnin erlendis en ekki hérna heima, svo sem eins og fara að gefa einhverjum ISO-staðli vægi í því sambandi vitandi það að íslensku stöðvarnar hafa ekki ISO-staðal og það skiptir engu máli upp á verkið sjálft. Það vita allir að þessar íslensku stöðvar sem buðu í þetta verk, Slippstöðin á Akureyri og Þorgeir og Ellert á Akranesi hafa í gegnum tíðina skilað góðu verki og óþarfi að reyna að leggja stein í götu þeirra.

Á árunum 1988 og 1989 voru leyfðir ríkisstyrkir innan ESB sem gátu numið allt að 28% af smíðaverði skipa og þá hófst þessi mikli samdráttur í skipasmíðunum á Íslandi. Á þeim 18 árum sem síðan eru liðin varð þessi samdráttur allt að 70%. Þetta er auðvitað ekki síst alvarlegt vegna þess að skipasmíðastöðvarnar hafa verið mjög mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir járniðnaðarmenn á síðari hluta síðustu aldar og þessi mikli samdráttur hefur leitt til skorts á járniðnaðarmönnum.

Ég ítreka þakkir til hæstv. fjármálaráðherra og vona að hann hraði niðurstöðu málsins og hún verði sem allra jákvæðust.