131. löggjafarþing — 109. fundur
 13. apríl 2005.
Sjúkrahússbyggingar í Fossvogi.
fsp. ÁMöl, 512. mál. — Þskj. 781.

[14:27]
Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Það var mörgum gleðiefni þegar hæstv. utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, tók af skarið í janúarmánuði sl. og setti fram hugmyndir um að nota mætti hagnað af sölu Símans til að flýta uppbyggingu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að bráðaþjónusta sjúkrahússins verði rekin á einum stað við Hringbraut sem er framtíðaruppbyggingarsvæði spítalans. Ég tel þó að flestir hafi gert sér grein fyrir að bið getur orðið á að þessi áform gætu ræst þar sem kostnaður við byggingu nýs spítala er mikill eða áætlaður rúmir 36 milljarðar kr.

Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar á síðustu vikum, m.a. um samkeppni um skipulag á lóð LSH, eru því ánægjulegri fyrir bragðið og ljóst að framtíðardraumarnir eru ekki eins fjarri og margir höfðu talið.

Starfsemi LSH fer fram víða á höfuðborgarsvæðinu. Stærstu byggingarnar utan Hringbrautar eru á Landakoti, á Kleppi og í Fossvogi og reyndar er það svo að þegar rætt er um að flytja starfsemi spítalans á einn stað er almennt verið að ræða um bráðastarfsemina og hafa því Landakot og Kleppsspítali verið utan við umræðuna. Ekki hef ég heyrt hugmyndir um að leggja niður starfsemi á þessum tveim byggingum þegar nýr spítali hefur risið en hæstv. heilbrigðisráðherra leiðréttir mig þá ef það er misskilningur minn.

Hins vegar er ljóst að starfsemi sem nú fer fram í Fossvogi verður flutt á Hringbrautina. Borgarspítalinn í Fossvogi, sem nú er undir LSH, er eitt best búna sjúkrahús landsins og með þeim yngstu. Spítalinn tók formlega til starfa á árinu 1968 og hefur á síðustu árum verið mikið endurnýjaður. Til dæmis hafa skurðstofur gjörgæsludeild og aðrar bráðadeildir verið endurnýjaðar frá grunni á síðustu árum. Ljóst er að mikið fjármagn er bundið í sjúkrahúsinu.

Tilefni spurningar minnar í dag er viðtal sem birtist við starfandi forstjóra LSH, Jóhannes Gunnarsson, fyrir nokkrum vikum. Þar var hann spurður að því hvað yrði gert við Borgarspítalann í Fossvogi. Hann svaraði því til að ráðgert væri að selja spítalann og lóðina sjálfa. Satt að segja hafði ég aldrei áður heyrt þessu fleygt fram og því þótti mér áhugavert að heyra hugmyndir hæstv. heilbrigðisráðherra um örlög spítalans og hvernig hann hefur hugsað sér að fylgja þeim eftir. Hvaða hugmyndir liggja að baki svari forstjóra LSH? Hafa áhugasamir kaupendur gefið sig fram? Að því gefnu að sjúkrahúsið verði áfram nýtt til að veita heilbrigðisþjónustu, hvaða hugmyndir hefur hæstv. ráðherra um hvers konar þjónusta verði þar veitt? Mun hæstv. ráðherra taka jákvætt í að veita rekstrarleyfi til einkaaðila með rekstur sjúkrahúss í Fossvogi?

Ljóst er að verðmæti sjúkrahússbygginga í Fossvogi miðast m.a. við hvaða starfsemi mun fara þar fram eftir að hann verður seldur og í hve miklum mæli hægt er að nýta þá fjárfestingu sem liggur í spítalanum. Því er skynsamlegt að gera áætlanir um nýtingu sjúkrahússins í framtíðinni og miða viðhald á byggingum og tækjum við slíkar áætlanir. Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra um hugmyndir hans um ráðstöfun sjúkrahússbygginga í Fossvogi.



[14:30]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Möller hefur beint til mín eftirfarandi fyrirspurn:

„Hvaða hugmyndir eru uppi um ráðstöfun sjúkrahússbygginga í Fossvogi, áður Borgarspítalans, þegar starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss hefur verið sameinuð á einn stað við Hringbraut?“

Þann 27. apríl 2004 undirritaði ég fyrir hönd ríkisins ásamt borgarstjóra Reykjavíkurborgar samning þar sem fjallað er m.a. um lóðir á vegum Landspítalans í Fossvogi. Í samningnum segir að þær lóðir sem Landspítali – háskólasjúkrahús hafi umráð yfir í Fossvogi komi með samkomulagi um hlut Reykjavíkurborgar að öðru leyti en því að aðalbyggingu spítalans verður afmörkuð lóð sem nánar er skilgreind í samningnum. Þá segir að verði tekin ákvörðun um flutning þeirrar starfsemi sem nú fer fram í aðalbyggingu sjúkrahússins í Fossvogi í tengslum við uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut muni Reykjavíkurborg ekki standa í vegi fyrir því að eignin verði nýtt með öðrum þætti en í þágu heilbrigðisþjónustu. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um ráðstöfun sjúkrahússbygginganna í Fossvogi en nokkrar hugmyndir hafa verið til umræðu. Það er rétt að taka fram að um hugmyndir er að ræða, og ég ítreka það þar sem enn hefur ekki verið tekin formleg ákvörðun um framkvæmdir. Það er afar brýnt að fara ekki fram úr sjálfum sér í því sambandi.

Í fyrsta lagi hafa þær nefndir sem ég hef skipað til að fjalla um uppbyggingaráformin gert ráð fyrir að eignir Landspítalans á höfuðborgarsvæðinu verði seldar og söluandvirðið nýtt til uppbyggingar sjúkrahússins. Ljóst er að þarna er um mikil verðmæti að ræða og vel má hugsa sér að húsnæði Borgarspítalans gamla geti nýst fyrir aðra starfsemi en heilbrigðisþjónustu.

Í öðru lagi hefur verið til lauslegrar skoðunar hvort nýta mætti húsnæðið í Fossvogi fyrir öldrunarþjónustu en það mundi koma í góðar þarfir. Húsnæðið er 28 þús. fermetrar og var B-álma þess hönnuð sem öldrunarlækningadeild. Í húsnæðinu mætti koma fyrir á þriðja hundrað legurýmum auk margvíslegrar þjónustu fyrir hina öldnu einstaklinga.

Í þriðja lagi hafa verið nefndar hugmyndir um nýtingu Borgarspítalans gamla sem miðstöðvar fyrir endurhæfingarstarfsemi og mun húsnæðið henta nokkuð vel fyrir slíkt hlutverk.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að hér er aðeins um lauslegar hugmyndir að ræða og í raun ekki farið að gera neinn formlegan samanburð á þeim, möguleikum sem til greina kæmu, enda er það vart tímabært. Núgildandi áætlanir gera ráð fyrir sölu Borgarspítalans en aðstæður í samfélaginu á þeim tíma þegar byggingar tæmast og losna munu ráða miklu um nýtingu eignarinnar. Ljóst er að húsnæðið í Fossvogi mun verða notað fyrir starfsemi spítalans um nokkurn tíma enn, þangað til starfsemin verður öll flutt í hinar nýju byggingar sem vonandi munu rísa við Hringbrautina, en aftur vil ég taka það fram að gefnu tilefni að enn hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um framkvæmdir þótt verið sé að undirbúa málið um framkvæmdir við byggingu spítalans. Vonandi kemst skriður á það mál eins og hefur verið á undanförnum vikum og mánuðum.



[14:34]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi fá að blanda mér aðeins inn í umræðuna um framtíð sjúkrahússbyggingarinnar í Fossvoginum sem hér er til umræðu. Ég tek undir þær hugmyndir sem hér hafa komið fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra um hvernig nýta mætti það húsnæði. Það er alveg ljóst að varðandi öldrunarþjónustuna þarf að bæta talsvert þar úr. Það eru biðlistar og legurými vantar. Það hefur komið fram hjá ráðherra að það er hugsanlega hægt að koma fyrir 300 legurýmum þarna og hugsanlega væri hægt að hafa líka endurhæfingarrými á spítalanum þannig að greinilega skapast miklir möguleikar við flutning spítalans alls að Hringbraut.

En það væri ágætt ef ráðherrann gæti upplýst um hvaða hugsanlega verð væri hægt að fá fyrir það húsnæði sem spítalinn á. Mér heyrðist ráðherrann vera að koma inn á að það yrði selt.



[14:35]
Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem gefa til kynna að þær hugmyndir sem eru uppi um framtíðarnýtingu Borgarspítalans eru ekki langt komnar. Þó nefndi hæstv. ráðherra að byggingarnar gætu verið notaðar fyrir ýmsa aðra starfsemi heilbrigðisþjónustu en það segir sig náttúrlega sjálft að þá nýtist fjárfestingin afskaplega lítið. Þær gætu nýst til öldrunarþjónustu sem er í rauninni ágæt hugmynd því eins og komið hefur fram er töluverður skortur á hjúkrunarrými fyrir aldraða. Á hinn bóginn segir það sig sjálft að þetta húsnæði er ekki mjög hentugt fyrir öldrunarstofnanir með hliðsjón af þeim kröfum sem við gerum núna í dag, bæði um minni stofnanir og einnig vegna þeirrar áherslu að við viljum frekar styðja fólk til að vera heima eins lengi og hægt er.

Ég spurði hæstv. ráðherra sérstaklega hvort honum fyndist koma til greina að skoða þennan spítala sem einkaspítala. Ég vona að ég fái einhver svör frá hæstv. ráðherra í seinni ræðu hans varðandi það atriði því það er alveg ljóst að samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum mun framkvæmd við nýjan spítala hefjast árið 2009 og þar sem verið er að tala um að færa bráðaþjónustuna fyrst, leggja áherslu á að byggja undir hana, er ljóst að það verður fljótlega af því að flytja starfsemi úr Borgarspítala inn í hinn nýja spítala. Það er ekki seinna vænna að gera áætlanir um hvað verður um þessa stóru stofnun. Þótt það fari kannski aðeins inn í aðra sálma er samt alveg ljóst að ef það kemur til greina af hálfu ráðherra að ganga til samninga við einkaaðila um rekstur þessa spítala (Forseti hringir.) vill maður vita á hvaða forsendum slíkt skyldi gert.



[14:37]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi var spurt hvaða verð mætti hugsanlega fá fyrir eignir Landspítala – háskólasjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef ekki svör við því hér en það er ljóst að þær eignir eru mjög verðmætar, m.a. Vífilsstaðalandið og fleiri eignir sem mikil verðmæti eru í.

Varðandi svo seinni spurningu hv. fyrirspyrjanda um hvort ég væri tilbúinn til að ganga til samninga um rekstur einkaspítala er ég tilbúinn til að skoða allar hugmyndir. Það færi auðvitað eftir eðli máls en ég vil undirstrika í því sambandi að sameining spítalanna á sínum tíma varð til þess að sameina hátækniþjónustuna og það er viðurkennd staðreynd að upptökusvæði hátæknispítala er talið t.d. erlendis fjölmennara en við erum, við Íslendingar. Ég hef heyrt þær kenningar að það þurfi 700 þús. manna upptökusvæði fyrir einn hátæknispítala þannig að ég sé ekki að við mundum ganga til samkomulags um tvo spítala af því tagi.

Ég er tilbúinn til að skoða allar hugmyndir auðvitað en ég vil undirstrika að hér er um langtímamál að ræða og það er ekki komið að því á næstu mánuðum að þetta verði að veruleika. Þarna er verið að tala um að byrja, ef vel væri, árið 2009 (Forseti hringir.) en þetta tæki nokkurn tíma.