131. löggjafarþing — 109. fundur
 13. apríl 2005.
Geðheilbrigðisþjónusta í fangelsum.
fsp. MF, 561. mál. — Þskj. 848.

[14:40]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að um margra ára skeið hefur verið sláandi skortur á aðstöðu fyrir fanga með geðræn vandamál í fangelsum landsins. Þeir fangar sem eiga við verulega geðræn vandamál að stríða og þyrftu á sjúkrahúsvist að halda fá sjaldnast vistun á geðdeildum. Forstjóri Fangelsismálastofnunar og Fangelsismálastofnun hafa sent ítrekað bréf til heilbrigðisyfirvalda og beðið um úrbætur í málefnum þessara fanga þar sem talið er að 6–8 fangar séu mjög alvarlega veikir hverju sinni og þurfi á sérvistun að halda.

Einnig hefur komið fram ályktun frá Fangavarðafélagi Íslands þar sem bent er á þörf fyrir úrræði fyrir fanga sem eiga við veruleg geðræn vandamál að stríða og síðast í gærkvöldi var viðtal við Bjarnþóru M. Pálsdóttur, sem er varaformaður Fangavarðafélags Íslands, þar sem hún talar um skort á meðferð fyrir fanga. Þá er fyrst og fremst verið að tala um fíkniefnavandamál en það er líka kunnara en frá þurfi að segja að þeir sem hafa lengi neytt sterkra fíkniefna eiga oftar en ekki við geðræn vandamál að stríða. Þess vegna hefur orðið þessi skortur á úrræðum fyrir fanga sem dvelja til að mynda á Litla-Hrauni eða í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þar sem þeir dvelja allt að sex mánuðum án þess að fá þjónustu við hæfi, hvorki meðferð við fíkniefnaneyslu við komu í fangelsið né viðunandi meðferð vegna geðrænna vandamála sem fylgja fíkniefnaneyslunni. Eins er með kvennafangelsið þar sem hefur þurft að vista fanga með geðræn vandamál þó að engin aðstaða sé til þess.

Fyrir stuttu síðan var einn fangi fluttur frá kvennafangelsinu að Litla-Hrauni í einangrunarvistun, m.a. vegna þess að sá einstaklingur á við verulega mikil geðræn vandamál að stríða. Það virðist hins vegar ekki vera lausn fyrir þann fanga að vera vistuð á Litla-Hrauni og varla í samræmi við þá sjúkdómsgreiningu sem hún hefur fengið hjá læknum fangelsis.

Ég spyr hæstv. ráðherra:

Hefur verið brugðist við óskum Fangelsismálastofnunar um úrbætur í geðheilbrigðisþjónustu innan fangelsanna? Ef svo er, á hvern hátt? Ef ekki, hvenær má vænta úrbóta?



[14:43]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um viðbrögð við óskum Fangelsismálastofnunar um úrbætur í geðheilbrigðisþjónustu innan fangelsanna. Hv. þingmaður vekur máls á mjög mikilvægum þætti. Sem kunnugt er er heilbrigðisþjónusta við fanga á Íslandi á ábyrgð heilbrigðisyfirvalda. Undanfarin ár hefur margt verið gert til að bæta þessa þjónustu, bæði hina almennu læknisþjónustu í fangelsum sem og geðheilbrigðisþjónustu við fanga.

Heilbrigðisvandamál fanga eru að sjálfsögðu af ýmsum toga en einungis hluti þeirra verður leystur innan veggja fangelsanna með þeim úrræðum sem þar bjóðast. Fangar njóta því einnig annarra úrræða heilbrigðisþjónustunnar utan fangelsa eftir því sem atvik og sjúkdómar krefjast. Þjónustusamningar eru við þær heilbrigðisstofnanir sem nálægar eru fangelsunum svo sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands vegna þjónustu við fangelsið að Litla-Hrauni og heilsugæslustöðin á Akureyri vegna þjónustu við fangelsið þar.

Af hálfu heilbrigðisstarfsmanna, Fangelsismálastofnunar og annarra aðila, svo sem erlendra eftirlitsnefnda sem og umboðsmanns Alþingis, hefur verið lögð áhersla á að auka þjónustu geðlækna. Við fangelsið á Litla-Hrauni hefur verið fjórðungsstaða geðlæknis en annars staðar hefur sú þjónusta verið keypt eftir þörfum fangelsanna, svo sem á Akureyri.

Ég get upplýst Alþingi um það að ég hef nýlega heimilað Heilbrigðisstofnun Suðurlands að auka verulega þjónustu geðlæknis við fangelsið á Litla-Hrauni með því að veita stofnuninni heimild til að auglýsa eftir sérfræðingi í geðsjúkdómum í hálfa stöðu til viðbótar við þá fjórðungsstöðu sem fyrir var. Geðlæknisþjónustan þrefaldast frá því sem nú er. Í tölum þýðir þetta að á þessu ári voru fjárveitingar auknar um 18 millj. kr. til að efla heilbrigðisþjónustu við fanga og auk þess voru veittar 4,8 millj. kr. til réttargeðdeildarinnar að Sogni til að standa undir viðbótarstöðu geðlæknis. Birtist einmitt auglýsing um lausa stöðu geðlæknis við Heilbrigðisstofnun Suðurlands síðasta sunnudag í Morgunblaðinu og á Starfatorgi.

Frekari aukning á þjónustu við fanga mun verða í sífelldu endurmati. Einkum hafa sjónir manna beinst að vandamálum fíknar og geðsjúkdóma og mun af hálfu ráðuneytisins áfram verða unnið að því að bæta eftir fremsta megni þessa þjónustu í fangelsum landsins.

Virðulegi forseti. Ég vona að ofangreindar upplýsingar þar sem fram kemur að um þreföldun geðlæknisþjónustu á Litla-Hrauni er að ræða svari spurningum hv. þingmanns.



[14:46]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn og eins svör hæstv. ráðherra. Það er augljóst að verið er að vinna í þessum mikilvægu málum en það þarf meira til og það þarf að vinna áfram af krafti að því að bæta þar úr því að þörfin er fyrir hendi, m.a. þörf fyrir lokaða geðdeild fyrir sakhæfa fanga, utan fangelsismúranna eins og sagt er. Það þarf líka að koma á mjög markvissri meðferð fanga sem eru í neyslu fíkniefna og áfengis og hefja meðferðina um leið og fangar koma inn þannig að þeir geti nýtt afplánunartímann til að eiga svo einhverja möguleika á að koma út sem betri og þarfari þegnar.

Hvað varðar þetta mál í heild — er tími minn útrunninn.



[14:47]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég tek þá upp þráðinn. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að hreyfa þessu máli og ég hlýt jafnframt að lýsa ánægju minni með aukinn skilning fangelsisyfirvalda á að taka á heilbrigðisvanda sem fangar standa frammi fyrir við afplánun refsingar. Það má sjá m.a. í skýrslu fangelsisyfirvaldanna um markmið Fangelsismálastofnunarinnar.

Það er einkum vandi tveggja hópa fanga sem þarf sérstaklega að huga að. Annars vegar eru þeir sem eiga við vímuefnavanda að stríða og hins vegar hinir sem eru með geðræn vandamál. Það er mikil þörf á frekari úrræðum varðandi vímuefnameðferð en hún stendur föngum einkum til boða við lok refsivistar. Í ljósi þess að fangelsi á að vera betrunarvist væri nær að bjóða föngun upp á afeitrun og meðferð vegna vímuefnavanda við upphaf meðferðar og styðja þá til þess að halda sig frá vímuefnum meðan á refsivist stendur. Á það þarf að leggja áherslu og það eitt gæti leyst ýmsan annan vanda í fangelsum.

Jafnframt er vandi — nú er minn tími búinn og þá stoppa ég.



[14:48]
Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að vekja máls á þessu máli og ágætt svar hæstv. heilbrigðisráðherra.

Á undanförnum missirum hefur verið talsverð umræða um málefni fanga og er það vel, einnig starfsmanna fangelsanna en þeir sinna auðvitað mjög mikilvægu starfi sem ber að virða og hlúa að engu síður en innra starfi í fangelsunum. Eins og kom fram áðan í umræðunni þarf hið innra starf í fangelsunum að vera mjög uppbyggilegt og raunar þarf að vera um betrunarvist að ræða. Hér kom fram í svari hæstv. ráðherra sem hefur sýnt þessum málaflokki mikinn áhuga að fjármagn er að aukast í geðheilbrigðisþjónustu.

Það ber að þakka og einnig ber að styrkja samstarf Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, réttargeðdeildarinnar að Sogni og fangelsisins að Litla-Hrauni. Þetta eru stofnanir sem eiga og geta mjög vel unnið saman. (Forseti hringir.)



[14:49]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að bera fram þessa fyrirspurn í dag og jafnframt þakka ég hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hvað hann hefur mikinn skilning á þessum málum. Eins ber að fagna auknum skilningi fangelsisyfirvalda yfirleitt því að þar finnst mér mikil breyting vera orðin á, mjög jákvæð.

Ég fagna því einnig að staða geðlæknis við Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur nú verið auglýst og það mun nýtast fangelsinu að Litla-Hrauni afskaplega vel, og Sogni líka, og allt mun þetta geta unnið saman.

Ég vil líka taka undir með þeim sem hafa rætt um skort á úrræðum varðandi vímuefnaneyslu. Það er mjög mikilvægt að taka á þeim málum strax í upphafi um leið og fangi er vistaður, að hann fari þá strax í meðferð. Það hlýtur að spara þegar til lengri tíma er litið.



[14:50]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að boða þessa þjónustuaukningu en ekki síður hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að ganga eftir því og fyrir óþrjótandi áhuga hennar og baráttu fyrir málefnum fanga.

Staða fangelsismála hefur því miður um langt skeið verið okkur til vansa og við verið áminnt af alþjóðlegum eftirlitsaðilum í því efni. Ég held að það sé einmitt endurhæfingarhugsunin og úrræðin og meðferðin sem við þurfum í miklu ríkari mæli að beita í fangelsunum, til þess ekki síst að rjúfa þann vítahring sem afbrotaferillinn getur orðið ungu fólki. Til að það verði þeim ekki ævilangt hlutskipti og baggi þarf að rjúfa þann vítahring með meðferðum og með endurhæfingu fyrst og fremst.



[14:51]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa gagnlegu umræðu og þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að hefja hana. Það sem mig langaði að koma fram með, leggja inn í umræðuna, er að fyrir þinginu liggur frumvarp til laga um fullnustu refsinga — það er í allsherjarnefnd — þar sem vel er farið yfir þau mál og komið inn á m.a. það hvernig vistunaráætlanir á að gera fyrir fanga, taka tillit einmitt til fíkniefnavandamála þeirra fanga sem fara inn í fangelsin.

Svo vil ég minna á að næstkomandi föstudag er einmitt ráðstefna um þennan málaflokk á Hótel Örk sem væri mjög gagnlegt fyrir þingmenn sem hafa áhuga á að fylgjast með.



[14:53]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög ánægjulegt hversu margir hafa tekið þátt í þessari umræðu, hversu margir þingmenn taka til máls, vegna þess að oft og tíðum er þetta málaflokkur sem ekki margir sýna áhuga. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en þó að það séu vissulega spor í rétta átt að auka þjónustuna um hálfa stöðu á Litla-Hrauni, það skiptir auðvitað verulegu máli, skiptir enn meira máli aðgangur fanga að leguplássum utan fangelsis, þegar við alvarleg geðræn vandamál er að stríða. Á það hefur bæði Sigurður Guðmundsson landlæknir bent og einnig núverandi forstöðumaður Fangelsismálastofnunar sem hefur sinnt þessum málum mjög vel. Hann segir m.a. í bréfi sem sent var til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis að komið hafi upp dæmi þar sem föngum sem eiga við geðræn vandamál að stríða hafi verið vísað frá geðdeildum. Hann rekur sögu fanga sem síðasta sumar hafi verið í miklum geðsveiflum og ítrekað reynt sjálfsvíg. Að mati læknis taldist ástand hans orðið mjög ótryggt og var hann því sendur á bráðageðdeild Landspítalans. Um klukkustund síðar var fanginn sendur í Hegningarhúsið og vistaður í einangrun af öryggisástæðum. Hann var síðan sendur á réttargeðdeildina að Sogni og jafnframt segir fangelsismálastjóri að dæmi séu um að föngum sem sendir séu á geðdeild hafi verið snúið við á tröppunum og þeir sendir aftur í fangelsi eftir nokkrar klukkustundir.

Við vitum hvaða afleiðingu slík meðferð hefur haft og þurfum svo sem ekki að rekja þau dæmi hér úr ræðustól. En það er mikil nauðsyn á því að tryggja leguplássin, til þess þarf fjármagn og því fjármagni er best varið við frekari uppbyggingu að Sogni. Það liggja fyrir teikningar, það kostar um 29 millj. kr. að bæta þar pláss þannig að húsnæðið geti tekið 7–8 fanga.



[14:55]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og ég þakka fyrir þá almennu umræðu sem hefur verið um þetta mál. Það er rétt að það hefur verið í opinberri umræðu að undanförnu í meira mæli en áður hefur verið, og er það vel.

Ég endurtek að ég bind miklar vonir við þá auknu þjónustu sem aukin geðlæknaþjónusta hefur í för með sér á Litla-Hrauni. Við munum að sjálfsögðu fylgjast með, eins og kom fram í svari mínu, hvaða þjónusta hentar best í fangelsunum. Skírskota ég þá til þess tillöguflutnings sem var nefndur hér.

Varðandi svo legupláss utan fangelsa þegar alvarlegir hlutir steðja að höfum við átt viðræður við forsvarsmenn geðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss um þau mál. Þær viðræður fóru fram nýverið og við munum reyna að fylgjast með því eftir föngum að þar verði aðgangur. Það er alveg rétt að við þurfum að marka þessari starfsemi stað og vonandi kemur sá dagur að við getum byggt við á Sogni. Það eru áform þar um og það er ein af þeim leiðum sem til greina koma í því máli.

Þó að ég geti ekki sagt um það á þessari stundu hvenær það verður er það eitt af mögulegum úrræðum en ég legg áherslu á það í lokin að allar þær stofnanir sem vinna á þessu sviði hafi sem best samstarf.