131. löggjafarþing — 109. fundur
 13. apríl 2005.
Innheimta meðlaga.
fsp. MF, 689. mál. — Þskj. 1047.

[15:32]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Árið 2001 beindi ég fyrirspurn til þáverandi dómsmálaráðherra, hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, um það hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir lagabreytingu sem tryggði betur en nú er að úrskurði um greiðslu á tvöföldu meðlagi yrði framfylgt. Hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra svaraði því til að hún mundi leita til réttarfarsnefndar um það hvort styrkja mætti lög nr. 90/1989, um aðför, til að einfalda innheimtu samkvæmt úrskurði sýslumanns á grundvelli barnalaga, nr. 20/1992, um aukin meðlög, sérframlög og menntunarframlög og leita leiða til að auðvelda þeim foreldrum þar sem um slíka úrskurði hefði verið að ræða hjá sýslumanni að innheimta viðkomandi meðlög. Það eru því miður mýmörg dæmi þess að feður, því í langflestum tilfellum hafa feður fengið þann úrskurð að greiða skuli aukin meðlög, hafi ekki staðið við slíkar greiðslur og einstæðar mæður hafa ekki séð sér fært að ráða sér lögfræðing eða sækja þetta með fulltingi þeirra, oft vegna mjög bágrar fjárhagsstöðu.

Réttarfarsnefnd sendi dóms- og kirkjumálaráðuneyti svar sitt í bréfi, næstum ári eftir að fyrirspurnin var borin fram, með leyfi forseta:

„Með bréfi yðar 6. mars sl. var réttarfarsnefnd falið að kanna hvort og þá hvernig unnt væri að breyta lögum nr. 90/1989, um aðför, til að einfalda innheimtu samkvæmt úrskurði sýslumanna á grundvelli barnalaga nr. 20/1992, um aukin meðlög, sérframlög og menntunarframlög. Nefndin hefur tekið þetta erindi til skoðunar og er álit hennar eftirfarandi:

Réttarfarsnefnd leyfir sér að ganga út frá því að ráða megi af þessum gögnum, þ.e. þeim gögnum sem voru við fyrirspurnina, að hverju erindi þeirra lýtur nánar. Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, samanber 24. gr. barnalaga, er heimilt án undangenginnar dómsúrlausnar eða dómsáttar að gera fjárnám fyrir þeim meðlagsgreiðslum sem um ræðir í erindi yðar. Með þessu nýtur krefjandi meðlags þess réttarfarshagræðis sem frekast getur almennt staðið til boða í núgildandi lögum.“

Niðurstaða réttarfarsnefndar er að ekki sé hægt að breyta lögum um aðför til að auðvelda innheimtuna en hægt sé að breyta ákvæðum laga nr. 54/1971 þannig að Innheimtustofnun sveitarfélaga yrði ekki aðeins heimilt að taka að sér innheimtu þeirra krafna sem henni er í dag, heldur skylt ef eftir því væri leitað, svo og fella niður áskilnað um að hún geri þetta gegn greiðslu. Fyrirspurn mín til ráðherra er: Mun hann beita sér fyrir því að þetta verði gert?



[15:35]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Innheimta meðlagskrafna er samkvæmt lögum á ábyrgð sveitarfélaganna. Það fyrirkomulag byggist á framfærsluskyldu sveitarfélaganna frá fornu fari. Sérstök stofnun, Innheimtustofnun sveitarfélaga, er starfrækt til að annast innheimtuna og endurgreiðir hún Tryggingastofnun ríkisins án sérstakrar þóknunar innheimt meðlög, menntunarframlög og ýmis sérframlög, t.d. vegna ferminga, skírna, tannviðgerða o.fl.

Ég vil, hæstv. forseti, vekja sérstaka athygli á því að Innheimtustofnun annast nú þegar innheimtu hluta þeirra framlaga sem getið er um í fyrirspurn hv. þingmanns án sérstakrar þóknunar. Meðlagstímabilið er mjög langt, þ.e. annars vegar ber að greiða meðlag með börnum frá fæðingu til 18 ára aldurs og hins vegar menntunarframlag frá 18 til 20 ára þegar við á. Innheimtustofnun sveitarfélaga tekst að innheimta um 70% af kröfum hvers árs en eftirstöðvar þarf í flestum tilvikum að innheimta á mörgum árum. Einnig er nokkuð um að meðlagsskuldir einstaklinga hrannist upp og verði skuldaranum hreinlega ofviða.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er samkvæmt lögum sá aðili sem ábyrgist mismun á greiddum meðlögum frá Tryggingastofnun ríkisins og innheimtum meðlagskröfum hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga. Undanfarin ár hafa útgjöld sjóðsins vegna þessa verkefnis því miður farið hækkandi, eða úr tæpum 518 millj. kr. árið 2000 í rúmar 725 millj. kr. árið 2003. Á sl. ári var fjárhæðin þó umtalsvert lægri eða rúmar 644 millj. en áætlun þessa árs gerir ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði Innheimtustofnun 725 millj. kr.

Frá 1. janúar á þessu ári er meðlag með hverju barni 16.586 kr. á mánuði eða rétt rúmlega 199 þús. kr. á ári. Þetta er vissulega ekki mjög há fjárhæð og stendur aðeins undir hluta af framfærslukostnaði en nokkuð er um að foreldrar semji um hærri meðlagsgreiðslur. Innheimtustofnun sveitarfélaga annast hins vegar ekki innheimtu aukins meðlags eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, þ.e. þess hluta meðlagsins sem er umfram áðurgreinda fjárhæð á mánuði. Núgildandi fyrirkomulag varðandi meðlagsgreiðslur og meðlagsinnheimtu tryggir því aðeins greiðslu einfalds meðlags eða sem svarar barnalífeyri almannatrygginga.

Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, að ef Innheimtustofnun sveitarfélaga verða færð aukin verkefni eins og hv. fyrirspyrjandi leggur til mun það leiða til aukinna vanskila hjá Innheimtustofnun. Það er sömuleiðis því miður ákveðin hætta á misnotkun ef hið opinbera, ríki eða sveitarfélög verða gerð ábyrg fyrir aukinni innheimtu meðlaga. Ég tel því ýmis tormerki á því að breyta lögum á þann hátt að hið opinbera taki ábyrgð á innheimtu aukins meðlags. Ef slík breyting ætti að eiga sér stað yrði í fyrsta lagi að semja við sveitarfélögin og fá þau til að taka á sig aukinn kostnað sem óhjákvæmilega mundi hljótast af. Í öðru lagi yrði að finna leiðir til að tryggja að hið nýja kerfi yrði ekki misnotað.

Öðru máli kann að gegna hvað það varðar að Innheimtustofnun verði gert skylt að taka að sér innheimtu aukins meðlags í umboði framfæranda eins og stofnuninni er nú þegar heimilt að lögum. Erindum frá einstaklingum um slíka innheimtu hefur hins vegar fram til þessa alltaf verið hafnað af stjórn stofnunarinnar og rökin fyrir þeirri synjun eru einkum þau að slíkt mundi auka álag á stofnuninni sem þó er ærið fyrir. Í dag annast Innheimtustofnun sveitarfélaga eingöngu innheimtu fyrir opinbera aðila og uppgjör vegna innheimtra krafna fylgir því ekki sérstaklega mikil umsýsla. Ef stofnunin færi að taka að sér innheimtu fyrir einstaklinga, jafnvel svo þúsundum skiptir, er ljóst að hlutverk hennar mundi breytast og slík breyting mundi að öllum líkindum krefjast umtalsverðar fjölgunar starfsmanna með tilheyrandi kostnaði.

Við megum heldur ekki gleyma því, hæstv. forseti, að í dag eru ýmsar leiðir færar aðrar en að fela opinberu fyrirtæki að innheimta meðlagskröfur. Sérhæfð innheimtufyrirtæki bjóða upp á slíka þjónustu og það hlýtur einnig að vera valkostur.



[15:39]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða að úrskurður er felldur um aukin meðlög, sérframlög eða menntunarframlög er það oftast gert vegna þess að fjárhagsstaða viðkomandi einstaklings er mjög bág. Það er líka í þeim tilvikum þar sem um veruleg veikindi er að ræða t.d. þeirra barna sem eru hjá einstæðum foreldrum sem, eins og ég sagði áðan, eru oftast mæður. Ég er með erindi þar sem um er að ræða skuldir upp á fleiri milljónir sem hafa safnast upp þar sem meðlagsgreiðendur hafa ekki staðið við sitt og jafnvel beitt til þess ýmsum ráðum að komast undan því að greiða.

Fram kom hjá hæstv. ráðherra áðan að Innheimtustofnun hefur hafnað öllum þeim erindum sem til hennar hafa borist frá einstaklingum um innheimtu. Þau skipta ekki þúsundum vegna þess að fram kom í fyrirspurn sem ég var með til hæstv. dómsmálaráðherra á sínum tíma að þetta væri ekki svo óskaplega mörg tilvik þegar horft væri til heildarinnar. Því þyrfti að gera þá lagabreytingu að í stað þess að Innheimtustofnun sé heimilt að taka að sér innheimtu þessara krafna verði henni skylt, ef eftir því er leitað, án þess þó að um væri að ræða ábyrgð ríkisins á þeim greiðslum, heldur væri þeim skylt að sjá um innheimtuna í þeim tilvikum þar sem um er að ræða bága fjárhagsstöðu eða mikil veikindi.

Þó að ýmis innheimtufyrirtæki taki að sér slíkar kröfur í dag er það engin lausn að leita til slíkra fyrirtækja fyrir bláfátækt fólk sem leitar eftir því að réttur barna þeirra til þeirra fjármuna sem hafa verið úrskurðaðir sé virtur. Þau hafa ekki efni á því frekar en að leita sér ráðgjafar hjá lögfræðingi. Þess vegna er spurning mín ítrekuð: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir að skoða þessar leiðir og kanna um hve mörg tilvik er að ræða?



[15:41]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan tel ég ýmis tormerki á því að fara þá leið sem hv. þingmaður leggur til, fyrst og fremst vegna þess að það mun væntanlega auka mjög umsvif þeirrar stofnunar sem hér um ræðir með tilheyrandi kostnaði og þá þarf að semja um það sérstaklega við sveitarfélögin.

Ég er hins vegar þannig gerður, hæstv. forseti, að ég vil ekki hafna því með öllu að ræða málið og er alveg tilbúinn til að beita mér fyrir því að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga ræði þessa hugmynd, en ég tel ekki sérstaka ástæðu til að beita mér fyrir því að það verði gert svo því sé skýrt svarað. Ég skal hins vegar beita mér fyrir því að það verði rætt.