131. löggjafarþing — 111. fundur
 14. apríl 2005.
álbræðsla á Grundartanga, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 707. mál (fasteignaskattur). — Þskj. 1065.

[14:03]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum. Umræðan hefur dálítið mikið spunnist um álbræðslu yfirleitt og áhrif hennar á atvinnulífið. Ég tek undir með sumum að þetta er afskaplega góð framkvæmd og gleðilegt að menn skuli vera að auka við álbræðsluna á Grundartanga. Ég er einnig sammála því að álbræðslan borgar miklu hærri laun en ferðaiðnaðurinn og ekki er vitað um mikla svarta atvinnustarfsemi í greininni.

Það sem ég ætlaði að ræða var hið furðulega orðalag á breytingartillögunni sem er í samræmi við furðulegt orðalag í lögunum er hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þá skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi fasteignaskatt sem skal vera 0,75% af 6.219 millj. kr. sem er áætlað verðmæti bygginga sem þarf til aukinnar álframleiðslu um 130 þús. lestir, miðað við byggingarvísitölu í desember 2004 (304,8).“

Maður kynni að halda að þetta væri dæmi í grunnskóla, að læra að reikna prósentur. Ég hef reiknað þetta út. Þetta eru 46.642.500 og ég hefði talið að það ætti að standa þarna. Síðan stendur að borga eigi 0,75% af 1.007 millj. kr., sem er áætlað verðmæti bygginga vegna aukinnar álframleiðslu upp í 40 þús. lestir, miðað við byggingarvísitölu o.s.frv. Þarna er aftur eitthvert reikningsdæmi. Samanlagt eru þetta 54.195 þús. kr. Maður hefði talið að það lægi nokkurn veginn hreint fyrir.

Ef maður les orðalagið þar sem stendur: „Þá skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi …“ Þá er ekki alveg á hreinu hvort það eigi að borga hvorum um sig eða báðum sameiginlega, en mér skilst að hreppamörkin fari í gegnum kerskálann.

Þegar maður les framhaldið stendur að greiða skuli gjaldið þegar viðkomandi framkvæmdum er lokið og það skuli hækka miðað við byggingarvísitölu. Ég ætla að gera athugasemd við það, frú forseti, vegna þess að eftir stjórnarskrárbreytinguna 1995 er ekki talið heimilt að hafa breytilega skatta á Íslandi, heldur þurfi að ákveða þá með lögum á hverju ári, vegna þess að í nýju ákvæði í stjórnarskránni stendur að skatta skuli ákveða með lögum og ekki megi framselja það vald, hvorki með verðtryggingu eða á annan hátt til framkvæmdaraðila. Þetta vildi ég benda á.

Svo er dálítið ankannalegt, frú forseti, að frumvarp sem varðar eingöngu skattlagningu fari í iðnaðarnefnd en ekki í efnahags- og viðskiptanefnd sem er sú nefnd þingsins sem fjallar um skattamál, en það er víst siður að lög sem varða samninginn um álbræðslu á Grundartanga fari í iðnaðarnefnd.



[14:07]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún hefur í raun orðið lengri en þetta litla frumvarp gefur tilefni til, en ekkert nema gott um það að segja að hv. þingmenn hafi áhuga á að fjalla um álverið á Grundartanga sem er hið merkasta fyrirtæki sem hefur staðið sig vel og skapað mörg störf og er orðið nokkurs konar óskabarn þjóðarinnar, þó svo það hafi ekki allt gengið sérstaklega auðveldlega þegar áform voru uppi um að stofnsetja fyrirtækið eins hv. þm. Guðjón Guðmundsson rifjaði ágætlega upp, sem man vel þá daga og líka ég. Við skulum ekki orðlengja um það. Aðalatriðið er að fyrirtækið hefur staðið sig og er í mikilli uppbyggingu.

Ég get greint frá því að sá áfangi sem nú er í uppbyggingu frá 90 í 180 þús. tonn mun ljúka á næsta ári. Síðan er stækkun álversins upp í 220 þús. tonn og þeim áfanga mun ljúka að 2/3 árið 2006, en að 1/3 2007. Einnig er verið að tala um stækkun í 260 þús. tonn sem yrði fjórði áfangi og sá síðasti, sem ég tel rétt að tala um í dag. Á árinu 2008 til 2009 verður sá áfangi tilbúinn til framleiðslu.

Það kom líka fram fyrirspurn um það hver kostnaður væri við virkjanir vegna stækkunar úr 180 þús. tonnum í 260 þús. tonn. Ég held að það megi skjóta á að það geti verið 18–20 milljarðar kr.

Vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og ítrekað var af hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur varðandi þær tekjur sem sveitarfélögin hafa af fasteignagjöldum og hvort ég muni beita mér fyrir því að allt atvinnusvæðið fái tekjurnar, þá fer ég ekki með málefni sveitarfélaga, en allir þekkja að það er vilji hæstv. félagsmálaráðherra að það verði af sameiningu sveitarfélaga og tillögur uppi í þeim efnum sem íbúarnir taka afstöðu til samkvæmt lögum. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn hafa tekið þá afstöðu að þeir telji að þessi mál eigi að ákvarðast á hv. Alþingi en ekki af hálfu íbúa sveitarfélaganna, ég get spurt beint að því hvort það sé skoðun þeirra. En ég vil ekki fara dýpra í mál sem aðrir ráðherrar fara með.

Síðan eru það skattalögin sem ég fer náttúrlega ekki heldur með og hv. þingmenn þekkja allt saman held ég.

Minnst var á skipasmíðaiðnaðinn. Hv. þingmaður Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, kom inn á þau mál og svaraði því ágætlega hvernig skipasmíðastöðvarnar hafa verið að fá verkefni sem tengjast uppbyggingu í áliðnaði, sem er gríðarlega mikilvægt.

Ég vil hins vegar mótmæla því sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að stefna ríkisstjórnarinnar hafi á sínum tíma verið sú að stækka álverið á Grundartanga og fórna Þjórsárverunum í því skyni. Það stóð aldrei til. Þjórsárverin eru ofar í landinu en það lón sem þá var til umræðu hefði náð yfir.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um að það hafi tapast tækifæri og glatast vegna þeirrar þenslu sem er tengd uppbyggingu álvera. Hann færði náttúrlega engin rök fyrir máli sínu, heldur kastaði þessu bara fram. Ég ætla ekki að fullyrða um að það hafi ekki getað verið í einhverju tilfelli, en ég vil hins vegar halda því til haga að það hafa líka skapast gríðarlega mörg tækifæri tengd áliðnaðinum. Ég heimsótti m.a. í fyrradag myndarlegt hugbúnaðarfyrirtæki á Íslandi, TM Software, sem áður hét Tölvumyndir. Þar var mér greint frá því að fyrsta alvöruverkefnið sem það fyrirtæki fékk og gerði það að verkum að það náði að byggjast upp á þeim tíma var verkefni sem tengdist álverinu í Straumsvík. Þetta er því bara eitt dæmi um að uppbyggingin hefur skapað gríðarleg tækifæri fyrir aðrar greinar eins og t.d. hugbúnaðargeirann. Þess vegna verðum við að varast það að stilla hlutum þannig upp að það sé annaðhvort eða þegar við tölum um atvinnumál okkar Íslendinga, því sannleikurinn er sá að það er bæði og. Þetta styður hvert annað.

Ég hef ekki fleira um þetta að segja, nema það sem fram kom í lokin af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals varðandi það að málið fari til hv. iðnaðarnefndar. Mál sem varða samninga um stóriðju hafa verið hjá iðnaðarnefnd … (Gripið fram í.) Ég var að koma hlaupandi inn þegar hv. þingmaður talaði þannig að ég átta mig ekki alveg á, hann hefur sennilega lagt til að þetta færi til efnahags- og viðskiptanefndar. (Gripið fram í: … benti á það.) Bentir þú á það, já.

Það sem ég ætlaði að segja var að þau mál sem hafa verið til umfjöllunar og tengjast áliðnaðinum og samningum um uppbyggingu stóriðju hafa verið hjá iðnaðarnefnd fram til þessa. Ég held að ástæða sé til þess að þetta mál sé þar líka og fái umfjöllun í þeirri nefnd þó það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er í raun skattamál. Það felst ósköp lítið og pent skattamál í frumvarpinu.

Mér er líka kunnugt um að efnahags- og viðskiptanefnd hefur heilmörg verkefni þannig að ég held að það sé ekkert til þess að vera að sækjast sérstaklega eftir að fá frumvarpið, þó það sé einfalt í sniðum, og ég held mig við þá tillögu að málið fari til hv. iðnaðarnefndar.



[14:13]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar um tímasetningar á stækkun álversins og mundi líka vilja fá að heyra hvað stækkanirnar munu kosta. Hæstv. ráðherra minntist einnig á virkjanaframkvæmdir og væntanlega lagnir tengdar þeim. Ég náði ekki alveg hver kostnaðurinn var við þetta, mér heyrðist það vera 18–20 milljarðar en ég mundi vilja heyra aðeins nákvæmar hvað hún var að tala um þar og á hvaða tímabili það kæmi.

Frumvarpið og skattarnir er eðlileg afgreiðsla miðað við þær lagalegu forsendur sem eru fyrir áframhaldandi starfsemi álversins og er ekki gerður neinn ágreiningur um það út frá þeim lögum sem Alþingi hefur samþykkt. En mér finnst eðlilegt að það sé á hreinu hvaða stærðir við tölum um og vil því fá nákvæmar um það hvaða stærðir við erum með í kostnaði á uppbyggingu álversins og virkjananna, vegna þess að í forsendum fjárlaga fyrir árið 2005 stendur, með leyfi forseta:

„Hins vegar er að svo stöddu hvorki reiknað með seinni áfanga stækkunar Norðuráls né byggingu rafskautaverksmiðju á Katanesi.“

(Gripið fram í.) Stækkunin er því ekki í forsendum fjárlaga. Hins vegar er þar gert ráð fyrir gengisvísitölu upp á 125 á árinu 2005, en hún er líklega nær því (Forseti hringir.) að verða 110 ef við horfum fram á veginn. Það er því ábyrgðarleysi að átta sig ekki á því hvaða áhrif slíkar stærðir hafa á efnahagslífið.



[14:16]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan er verið að tala um að virkjanakostnaður vegna stækkunar upp í 260 þús. tonn geti verið á bilinu 18–20 milljarðar kr., þetta er svona skot í raun miðað við það sem áður hefur þekkst. En ég fjalla ekki um kostnað fyrirtækisins við uppbygginguna. Þetta er fyrirtæki sem er á einkamarkaði og skráð fyrirtæki þannig að ég tel ekki ástæðu til að ég sé að fjalla um þá hluti og það sagði ég þegar í upphafi í andsvari að ég gæti gefið hér upplýsingar að svo miklu leyti sem ég teldi ástæðu til.



[14:17]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það skipti gríðarlegu máli með svona framkvæmdir á hvaða tíma þær gerast. Hvort sem það er viðkomandi aðili fyrirtækis sem stendur að þeim eða ríkið, þá hefur það áhrif inn í efnahagslífið og það ætti hæstv. ráðherra að vita.

Í forsendum fjárlaga sem ég er hér með fyrir þetta ár er greint frá því að ekki er gert ráð fyrir þessum seinni stækkunum í þeim forsendum. Hins vegar er gert ráð fyrir gengisvísitölunni 125 í forsendum fjárlaga. Hún er nú niður undir 110. Rökin er m.a. færð fyrir því, það eru stóriðjuframkvæmdirnar. Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að stýrivextir Seðlabanka fari hæst í 7,5%, þeir eru nú þegar komnir yfir 10%.

Að mínu viti verður því ekki hjá því komist að horfa á tímasetningar á svona stórum verkum með hliðsjón af efnahagsástandinu á hverjum tíma, annað væri fullkomlega óábyrgt. Eins og stendur í forsendum fjárlaga er minnst á þessa miklu þenslu sem skapist af stóriðjuframkvæmdunum og segir þar að þegar sé hafin tilfærsla á útgjöldum og verulega verði dregið úr framkvæmdum á næstu og þarnæstu árum. Sem við upplifum að er fyrst og fremst í vegaframkvæmdum. Þetta stendur allt hér á prenti í forsendum fjárlaga, frú forseti.



[14:19]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lítið og pent skattamál, sagði hæstv. ráðherra. Já, þetta er skattamál og ég færði það í tal í ræðu minni að ástæða væri til að skoða þessa hluti og benti á að t.d. Skilmannahreppur hefur 57% af tekjum sínum af fasteignagjöldum og bæti því núna við að næsti hreppur við hliðina, Innri-Akraneshreppur, hefur 4% af tekjum sínum af fasteignagjöldum.

Þó að hæstv. ráðherra hafi nefnt að það væri ekki á hennar verksviði hvað varðar sameiningu sveitarfélaga er það þó óumdeilt að hæstv. ráðherra er byggðamálaráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra þess vegna: Finnst ráðherranum það eðlilegt að ríkið reki þá stefnu sem hefur verið uppi undanfarin ár, sem felst í því að koma á stóriðju í landinu og að skattlagning á mannvirki slíkra stórfyrirtækja sé með þeim hætti að sveitarfélög á sama atvinnusvæði skuli sum fá miklar fúlgur fjár til sín vegna slíkrar starfsemi en önnur ekki neitt, þó að þjónustan sé kannski sótt til þeirra?

Ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra hljóti að þurfa að skoða þessi mál upp á nýtt út frá þeim forsendum að þarna er verið að mismuna sveitarfélögum. Eins og í þessu tilfelli hefur þeim sveitarfélögum sem liggja sitt hvorum megin við þessar verksmiðjur, þ.e. Innri-Akraneshreppi og Skilmannahreppi, verið mismunað svo gríðarlega eins og ég nefndi áðan. Annað fær 4%, hitt 57% af sínum tekjum af þeim mannvirkjum sem eru þarna á verksmiðjusvæðunum.



[14:21]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get talað skýrt í þeim efnum, að mér finnst það mjög gallað fyrirkomulag að þetta skuli geta verið með þessum hætti. Þó að ég, eins og ég sagði áðan, fari ekki með sameiningu eða málefni sveitarfélaga þá get ég haft þá skoðun. Ég hef orðið fyrir barðinu á þessu fyrirkomulagi, ef þannig má að orði komast, víðar en hér á Vesturlandi. Hið sama gerðist náttúrlega fyrir austan þótt þar hafi orðið sameining sveitarfélaga. En því miður, vil ég segja, hafnaði Fljótsdalshreppur sameiningu þannig að hann situr eftir með stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar og það finnst mér óæskilegt. Mér finnst að hrepparnir allir, öll sveitarfélögin fyrir austan sem hafa hagsmuni af Kárahnjúkavirkjun, hefðu átt að sameinast í myndarlegt stórt sveitarfélag á Héraði.

En þetta er svona og ég get ekkert annað en vonað að úr rætist og ég heyri að við erum sammála, ég og hv. þingmaður, hvað þetta varðar.



[14:22]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti gott að heyra hvernig hæstv. ráðherra svaraði. Ég tel reyndar að það sé einboðið að menn skoði möguleikana á að breyta þessu. Þeir eru tveir að mínu viti. Önnur leiðin er sú að sjá til að sveitarfélög sameinist. Þá leið hef ég margoft bent á. Ég hef lagt til að íbúalágmarkið verði hækkað upp í þúsund. Það mundi leysa vandamálið á öllum stöðunum þar sem vandinn er. Það hefur hins vegar ekki hlotið náð fyrir augum þingmanna í sölum Alþingis.

Hin leiðin er að endurskoða skattlagningu með svipuðum hætti og gert var áður, þ.e. að þessi sérstöku fyrirtæki verði þá skattlögð svipað og með landsútsvari áður og þeim fjármunum verði deilt út með einhverjum tilteknum hætti sem verði til þess að þeir lendi á þeim atvinnusvæðum þar sem þeir eiga heima. Mér fyndist það að sækja vatnið yfir lækinn að fara þá leið. Ég tel að það að sveitarfélögin taki atvinnusvæðin yfir sjálf miklu eðlilegri niðurstaða og að stjórnvöld eigi að bera ábyrgð á því að það gerist. Það er hægt og ég legg það eindregið til að menn horfi fast á þá leið.