131. löggjafarþing — 111. fundur
 14. apríl 2005.
Breytt hlutföll aldurshópa eftir árið 2010, fyrri umræða.
þáltill. ÍGP, 249. mál. — Þskj. 267.

[18:15]
Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 267, 247. máli þingsins, og hún fjallar um könnun á áhrifum breyttra hlutfalla aldurshópa eftir árið 2010.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi skorar á ríkisstjórnina að koma á fót vinnuhópi sérfræðinga sem kanni áhrif fyrirsjáanlegra breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar eftir árið 2010 á eftirlauna- og lífeyrismál og á heilbrigðiskerfið. Nefndin skili áliti innan árs.“

Í greinargerð segir að frá árinu 1970 til 1995 fjölgaði Íslendingum 65 ára og eldri úr 5,9% þjóðarinnar í 11,3%, þ.e. á árabilinu 1970–1995 er fjölgunin úr 5,9% í 11,3%. Í spá, sem gerð hefur verið um hlutfall þessa aldurshóps til ársins 2030, kemur fram að veruleg fjölgun verður frá árinu 2010 og árið 2030 verður hlutfallið orðið 19%. Þarna er um gríðarlega fjölgun að ræða. Þessi fjölgun hefur miklar þjóðfélagsbreytingar í för með sér. Ætla má að kostnaður heilbrigðiskerfisins aukist verulega og útgjöld vegna eftirlauna og lífeyris hækki umtalsvert. Þá fækkar mjög í hópi vinnandi fólks.

Af þessum sökum hafa víða á Vesturlöndum verið gerðar miklar rannsóknir á þeim breytingum á aldursskiptingu sem eru fyrirsjáanlegar næstu áratugi og stafa af því að sífellt fleiri ná háum aldri, m.a. vegna framfara í læknisfræði og betri aðbúnaðar, sem ber að sjálfsögðu að gleðjast yfir.

Umræðan um vandamál er fylgja breyttri aldursskiptingu þjóðarinnar snertir ýmsa viðkvæma þætti í lífi aldraðra. Enginn má skilja þá umræðu svo að verið sé að hnýta í aldraða. Tillagan er miklu heldur lögð fram til að tryggja afkomu aldraðra og þjónustu samfélagsins við þá. Flestir eiga fyrir höndum að ná háum aldri og þurfa að gera sér grein fyrir þeim breytingum á eigin lífi og í þjóðfélaginu sem fram undan eru. Vaxandi kostnaður heilbrigðisþjónustunnar og lífeyriskerfisins er vandi þjóðarinnar allrar. Umræðan um framtíðina þarf að miða að því að leita sameiginlegra lausna og að kynna sér hvað aðrar þjóðir hafa gert og reynt í þessum efnum. Að vísu virðist nokkuð djúpt á lausnum en þó hafa komið fram ýmsar tillögur sem vert er að gaumgæfa.

Sú staðreynd blasir við meðal margra auðugra þjóða að þeir sem komast á eftirlaunaaldur 65 ára geta búist við að lifa áfram í 15–20 ár, en fyrir u.þ.b. 100 árum hefðu fæstir náð þeim aldri sem eftirlaun eru nú miðuð við.

Þrátt fyrir stöðugt hærri meðalaldur verður ekki hjá því komist að líkaminn slitni með aldrinum, sama hvað við reynum að lifa skynsamlega og hversu góð heilbrigðisþjónustan er. Kvillarnir herja mismikið á fólk og eftir því sem það nær hærri aldri aukast líkurnar á þörf fyrir samfélagslega aðstoð. Kostnaður þjóðfélagsins við þá aðstoð verður meiri eftir því sem fjölgar meira í þessum hópum enda eru þessi mál til skoðunar í flestum vestrænum löndum því háöldruðum mun fjölga gífurlega á næstu árum og áratugum.

Á síðari hluta síðustu aldar hefur verið stefnt að því að lækka eftirlaunaaldurinn. Stundum er talið eftirsóknarvert að komast á eftirlaun. Eftirlaunakerfið hefur hins vegar reynst nokkuð dýrt og stjórnvöld hafa víða borið sig illa hvað það varðar. Flestum er ljóst að kostnaðurinn á eftir að aukast gríðarlega. Á næstu 30–40 árum munu hlutföll aldurshópa breytast æ meira sökum hærri lífaldurs og færri barnsfæðinga. Ekki verður undan því vikist að skoða áhrifin á eftirlauna- og heilbrigðiskerfi víða um heim. Reiknað hefur verið út að árið 2030 geti staðan orðið þannig í iðnvæddum ríkjum að aðeins verði tveir vinnandi menn fyrir hvern eftirlaunaþega og aldurshópar komi til með að takast á um skiptingu fjármagns og fjármögnun félagslegrar aðstoðar verði erfið. Einnig hefur verið bent á að breyttri aldursskiptingu fylgja pólitískar breytingar. Aldraðir hafa víða styrkt mjög stöðu sína með hvers konar félagsstarfsemi sem hefur það meginmarkmið að hafa áhrif á ákvarðanir löggjafarvaldsins í málefnum aldraðra og er það vel.

Ýmsir vilja draga úr alvarlegum afleiðingum breyttrar aldursskiptingar sem verður enn meiri og áberandi nú eftir aldamót, en svartsýnar spár hafa haft þau jákvæðu áhrif að stjórnvöld og einstaklingar hafa farið að skoða áhrif breytinganna og leita leiða til að bregðast við þeim.

Þegar þess er gætt að íbúar auðugra landa lifa nú 20–30 árum lengur en fyrir einni öld verður að huga að breytingum á lífeyris- og heilbrigðismálum langt fram í tímann, en forsenda fyrir því að það sé hægt er að sjá áhrifin fyrir og gera viðeigandi ráðstafanir. Því er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að koma á fót vinnuhópi sem kanni þessi mál. Það hlýtur að vera skylda komandi kynslóða að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.



[18:22]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi við að þessi tillaga, sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason flytur, nái fram að ganga. Ég tel mikla nauðsyn á að skoða hvernig framtíðin lítur út að því er varðar aldursskiptingu þjóðarinnar, lífskjör hennar, eftirlaun og atvinnuþátttöku.

Ég tel vert að spyrja hvort eðlilegt sé, hafi fólk til þess eðlilega starfsorku, að eftirlaunaaldur færist endilega mikið niður. Það er algjörlega rétt sem hér hefur verið bent á, að ef ellilífeyrisþegum sem hættir eru að starfa, hættir að taka þátt í atvinnulífinu, fjölgar mikið á komandi árum — og það eru allar líkur á því eins og hv. þingmaður sagði, að ellilífeyrisþegum fjölgi mikið á komandi árum — þá kann það að verða þjóðfélaginu þungt að rísa undir því að tryggja öldruðum eðlilega og sjálfsagða framfærslu á efri árum.

Því hefur verið haldið fram að réttindi lífeyrisþeganna væru að aukast það mikið að margir ellilífeyrisþegar muni margir hverjir lifa sín bestu ár á ellilífeyrisárunum, að afkoma þeirra verði það vel tryggð í lífeyrisréttindum þeirra. Ég hef nokkrum sinnum í þessum ræðustól leyft mér að draga í efa þá framtíð sem lýst var í erindi Ásmundar Stefánssonar, um ellilífeyrisþegann sem hefði það ofboðslega fínt, að hún væri jafnnálægt okkur í tímanum og þar var talið.

Vissulega er það svo að hluti þjóðfélagsþegnanna aflar sér mikils og góðs ellilífeyris. En við megum ekki gleyma því að hluti af þjóðfélagsþegnunum býr við mjög slök lífeyrisréttindi. Það þarf ekki annað en að vitna til bændastéttarinnar í því sambandi, sem hefur mjög slök lífeyrisréttindi. Við höfum að vísu gert talsvert í að bæta stöðu lífeyrisþega á undanförnum árum með auknum lífeyrissparnaði, bæði með því að greiða meira í sameiginlega sjóði, samtryggingarsjóði okkar, og eins með því að taka upp séreignarsparnað sem fylgir hverjum og einum. En eins og menn vita eru hinir almennu lífeyrissjóðir samtryggingarsjóðir og ef fólk verður öryrkjar þá er það metið eins og það hafi greitt áfram í lífeyrissjóðinn. Það fær síðan áunnin réttindi þó að það geti ekki starfað.

Tilhneigingin hefur verið sú að opna meira og meira á það í þjóðfélagi okkar að menn geti hafið töku ellilífeyris yngri, ættu val um það og er allt gott um það. En við þurfum þá að hugleiða vandlega hvort þeir fjármunir sem fólk hefur varið inn í lífeyriskerfið beri uppi þá aukningu. Margir lífeyrissjóðir hafa t.d. boðið það að fólk byrjaði yngra töku lífeyris en þá sé lífeyrir skertur. Það hefur m.a. verið gert í Lífeyrissjóði sjómanna, sem gefur öllum sjóðfélögum í dag kost hefja töku ellilífeyris frá 60 ára aldri en þá með 24% skerðingu. Á móti er þeim líka gert kleift að fresta töku ellilífeyris fram til 70 ára aldurs og vinna sér inn meira en ella væri.

Þetta eru auðvitað allt útfærsluatriði en ég tel mjög nauðsynlegt að við reynum að kortleggja vandamálið eins vel og við höfum tölur til og þekkingu á þeirri þróun sem hér verður. Mér virðist ljóst að miðað við lífeyriskerfi okkar muni Íslendingar sennilega standa betur en margar aðrar þjóðir í nágrenni við okkur vegna þess hvernig lífeyriskerfi hefur þó verið uppbyggt á undaförnum árum og áratugum. Þetta segi ég þó með þeim fyrirvara að hópar í þjóðfélagi okkar eiga ekki mikil lífeyrisréttindi. Ég nefndi bændur og auk þess húsmæður sem hafa unnið heima og þótt þær konur séu mikið til komnar á vinnumarkaðinn í dag. Þá má nefna fólk sem af einhverjum orsökum hefur ekki mikið starfshlutfall, er með tímabundna örorku, varanlega örorku o.s.frv. og vinnur sér ekki inn mikil lífeyrisréttindi. Slíkt þarf vissulega að skoða.

Síðan má ekki gleyma því að almannatryggingakerfi okkar er þannig uppbyggt að lífeyrisréttindi skerða bætur almannatrygginganna og það misjafnlega eftir því hvers konar flokka við erum að tala um. Það er ekki sama hvernig tekjurnar sem ellilífeyrisþeginn fær eru, t.d. lífeyristekjur, atvinnutekjur eða fjármagnstekjur. Skerðingin eru mismunandi eftir því um hvað er að ræða. Almenna reglan er 45% skerðing. Ef fólk fær 10 þús. kr. úr lífeyrissjóði, þá skerðast bæturnar um 4.500 kr. nema þegar um fjármagnstekjur er að ræða, þá er fyrst deilt í með tveimur og síðan kemur skerðing. Oftast nær skerðast allar bætur, tekjutrygging, heimilisuppbót o.s.frv. og hverfa alveg. Grunnlífeyririnn stendur eftir gagnvart lífeyristekjunum en hverfur hins vegar við atvinnutekjur sem eru komnar eru upp fyrir rúmlega 250 þús. kr., þá eru allar bætur úr almannatryggingum horfnar.

Allt þetta dæmi þarf að vera undir þegar málið er skoðað. Það þarf að skoða aldurssamsetninguna, reglurnar sem við vinnum með, hvernig þær muni koma við breytta aldurshópa í framtíðinni og hvernig þær muni vinna. Eiga reglurnar að vera eins og þær eru í dag eða öðruvísi? Við í Frjálslynda flokknum teljum að þær eigi að vera öðruvísi. Við höfum lagt fram sérstakt mál um hvað eigi að gerast með lífeyri undir 50 þús. kr. úr lífeyrissjóði, að hann eigi ekki að skerða neinar bætur o.s.frv. Við höfum talið að þannig gerðum við brú til þess tíma er ellilífeyrisþegar fara að hafa það mikinn lífeyri að þeir geti lifað algjörlega af lífeyrislaunum sínum.

Við höldum að það séu áratugir í það enn þá, því miður, að ellilífeyrisþegar eignist svo mikinn lífeyri í lífeyrissjóði að þeir geti lifað af lífeyrissjóðnum einum. Þess vegna held ég að eðlilegt sé að skoða einmitt útfærslu eins og þá sem við höfum lagt til, þar sem 50 þús. kr. út úr lífeyrissjóði skerða engar bætur og eru síðan stighækkandi upp í 100 þús. kr., sem fara þá að skerða með 45% reglu eins og nú er.

Þetta vildi ég sagt hafa. Ég lýsi yfir stuðningi við tillöguna og held að hún sé afar nauðsynleg og þakka hv. þingmanni fyrir að hafa lagt hana fram.



[18:30]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil halda áfram þaðan sem frá var horfið hjá fyrrverandi ræðumanni, hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og þakka flutningsmanni fyrir þingsályktunartillöguna, um könnun á áhrifum breyttra hlutfalla aldurshópa eftir árið 2010. Ég held að þetta sé mjög skynsamleg tillaga og lýsi yfir furðu á því í upphafi máls míns að ríkisstjórnin skuli ekki hafa fundið hjá sér þörf eða fundið fyrir þeirri skyldu sem hlýtur að hvíla á henni að þessi mál verði skoðuð einmitt af vinnuhópi sérfræðinga hvernig stöðu þessara mála mun verða háttað eftir árið 2010, þ.e. eftir fimm ár, þegar hippakynslóðin svokallaða fer að komast á eftirlaunaaldur. Það er ansi stór torfa þar af Íslendingum sem syndir um og verður eldri og eldri með hverjum deginum sem líður. Þar hygg ég að muni byrja að rísa mjög stór alda sem mun ganga yfir á mörgum, mörgum árum, því mjög stórir árgangar koma þar á eftir. Til að mynda held ég að minn árgangur, 1964, sé einn efnilegasti árgangur sem fram hefur komið í íslenska stofninum. (Gripið fram í: Það árið?) Það árið? Nei, nánast frá upphafi vega, en nóg um það. Við eldumst að sjálfsögðu líka, fólk af minni kynslóð.

Þetta mun hafa gríðarlega mikil áhrif og við verðum að fara að velta því mjög alvarlega fyrir okkur hvernig við ætlum að taka á þessu. Ég hef fylgst nokkuð með umræðunni í nágrannalandi okkar, Noregi. Umræðan hefur verið í gangi þar í mörg ár. Norðmenn gerðu sér grein fyrir því fyrir mörgum árum að þetta mundi einmitt fara að gerast um 2010, 2020, að þá kæmi þessi mikla bylgja yfir og þeir eru fyrir löngu farnir að undirbúa sig fyrir þetta, farnir að ræða það í fúlustu alvöru: Hvernig ætlum við að halda uppi heilbrigðiskerfinu, félagslegri þjónustu og öðrum nauðsynlegum samfélagslegum þáttum til að taka við þessum fjölda?

Þar eru menn jafnvel farnir að tala um að leyfa fólki að halda áfram að vinna þó að það sé komið á eftirlaunaaldur til þess að það geti þá m.a. bæði haldið betur heilsu, því að menn fallast á það að margir, bara ef þeir fá að vinna, fá að hafa eitthvað við að vera, að þá verði heilsufar þeirra miklu betra fyrir vikið. Ég hygg að það sé mikið til í því. Einnig að fá þetta fólk sem gæti aflað sér tekna, ef það vill vinna á annað borð eftir að það er komið á 65 ára aldurinn, hefur til þess heilsu og vilja, að þá að sjálfsögðu mun það hjálpa til við að halda uppi byrðum samfélagsins. Þetta eru Norðmenn að skoða í fullri alvöru.

Þeir eru líka þegar farnir að skoða og velta því fyrir sér hvað muni gerast til að mynda í kringum árið 2010, því ég sé að þá reikna þeir með því að hinn stóri skari af eftirlaunaþegum sem verður búinn að leggja til hliðar mikinn sparnað, til að mynda í formi hlutabréfa sem fólk hefur verið að kaupa sér í hlutabréfasjóðum, að þegar þetta fólk kemst allt saman á eftirlaunaaldurinn muni það fara að selja í unnvörpum. Norðmenn hafa í dag áhyggjur af því að þá muni gengi á hlutabréfamörkuðum taka mikla dýfu vegna aukins framboðs á bréfum. Umræðan í Noregi er komin á þetta stig, þar eru menn farnir að tala á þessum nótum núna árið 2005, þeir velta þessu mikið fyrir sér. Það er löngu tímabært að við Íslendingar förum einnig að gera það og þess vegna held ég að þingsályktunartillagan sé mjög þarft og gott innlegg í þá umræðu. Hún kemur reyndar mjög seint fram, það er mælt fyrir henni mjög seint. Ég veit ekki hvort það næst að afgreiða hana út frá þessu þingi en ég tel að það væri mjög þarft verk að gera það þannig að vinnan hæfist sem fyrst og álit nefndarinnar lægi fyrir innan árs og gæti orðið grundvöllur fyrir umræðu og jafnvel áætlanagerð og frjóa hugsun varðandi það hvernig íslenska velferðarþjóðfélagið ætlar að taka á því þegar hinir stóru árgangar komast á eftirlaunaaldur.

Ég lýk því orðum mínum með sama hætti og fyrri ræðumaður. Ég þakka flutningsmanni fyrir að hafa borið fram þingsályktunartillöguna og vona svo sannarlega að hún verði samþykkt með glans.



[18:36]
Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum Magnúsi Þór Hafsteinssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir góðar undirtektir. Hér er að mínu mati um afar brýnt mál að ræða og skiptir miklu máli að undirbúa þjóðfélagið undir hinar miklu breytingar. Ég hef reyndar flutt tillöguna áður og þá var um örlítinn misskilning að ræða því nokkrir aldraðir höfðu samband við mig og töluðu um að ég vildi fækka öldruðum o.s.frv. Það var um misskilning að ræða. Tillagan er fyrst og fremst hugsuð til þess að mæta þessari þörf og bæta kjör aldraðra og huga að þeim miklu breytingum sem verða. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar batnar vonandi hagur ellilífeyrisþega í komandi framtíð, en til þess að hann geti batnað verðum við að undirbúa samfélagið okkar með ákveðnum hætti.

Það er líka hárrétt sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar að ákveðnar stéttir hafa mjög lélegan lífeyri, t.d. bændur, húsmæður og margir, margir fleiri. En ég hvet, eins og fram kemur í tillögunni, ríkisstjórnina til að skoða þessi mál ofan í kjölinn og undirbúa samfélagið undir þær gríðarlegu breytingar sem eiga sér stað, þjóðin er alltaf að eldast og færri og færri vinnandi hendur sem standa undir þjóðfélaginu