131. löggjafarþing — 114. fundur
 20. apríl 2005.
Vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra.
fsp. AKG, 680. mál. — Þskj. 1034.

[15:06]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Eins og flestum er kunnugt er Norðurland vestra meðal þeirra svæða á landinu sem eiga í hvað mestri vök að verjast varðandi íbúaþróun, og brýn þörf er á að skipulega verði gengið til verka í uppbyggingu nýrra atvinnugreina. Raunin er að í hvert sinn sem auglýst er starf fyrir menntaða einstaklinga á Norðurlandi vestra, en það er því miður allt of sjaldan, sækja fjölmargir um, jafnt frá höfuðborgarsvæðinu sem annars staðar.

Nýlega var t.d. auglýst ráðgjafarstarf á Sauðárkróki þar sem 60 sóttu um og annað starf á Hvammstanga sem sex vel hæfir einstaklingar sóttu um. Það er því ekki þannig að menntað fólk vilji ekki búa úti á landi, heldur vantar störf fyrir það. Þar á hið opinbera að koma að, bæði með því að beina starfsemi opinberra stofnana út á landsbyggðina, úthluta verkefnum og styðja heimamenn í viðleitni þeirra við að auðga starfaflóruna. En mér er kunnugt um að þar er við ramman reip að draga og þó að stundum séu höfð uppi góð orð og jákvætt viðmót þegar erindi eru borin upp er látið þar við sitja. Til dæmis hafa Blönduósingar gengið bónleiðir til búðar í viðleitni sinni til að byggja upp þjónustu við matvælaiðnað. Þeim er alls staðar vel tekið í stjórnsýslunni og þeir fara á hvern fundinn á fætur öðrum — en þar við situr. Þannig mega hlutir ekki ganga fyrir sig, frú forseti. Það er lítilsvirðing við fólk að virða hvorki þarfir þess né aðstoða það þegar það reynir að klóra í bakkann og snúa við óheillaþróun í kapp við tímann.

Gerður hefur verið byggðaþróunarsamningur við Vestfirði, vaxtarsamningur við Eyfirðinga og nú síðast vaxtarsamningur við Sunnlendinga. Ég minni enn á þau orð núverandi forsætisráðherra fyrir um ári síðan að röðin væri komin að Norðurlandi vestra. (Gripið fram í: Norðvesturkjördæmi.) Norðvesturkjördæmi, sagði hann, já. Ég spyr því hæstv. iðnaðarráðherra og byggðamálaráðherra:

1. Er fyrirhugað að gera vaxtarsamning fyrir Norðurland vestra, svipaðan þeim sem gerður hefur verið fyrir Vestfirði og verið er að gera fyrir Suðurland og Vestmannaeyjar? Ef svo er, hvenær?

2. Hefur komið fram ósk frá Norðurlandi vestra um gerð vaxtarsamnings?



[15:09]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Við gerð vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðisins var við það miðað að starfsemi hans næði ekki einungis til Eyjafjarðarsvæðisins, heldur einnig til annarra svæða á Norðurlandi, þar með talið til Norðurlands vestra. Þegar unnið var að þeim samningi komu m.a. að því starfi aðilar á vestanverðu Norðurlandi þar sem ekki var ætlunin að takmarka starfsemina við Eyjafjarðarsvæðið, heldur skyldi starfsemin ná beint eða óbeint til Norðurlands í heild enda byggir eðli og starfsemi vaxtarsamninga á öflugu samstarfi á tiltölulega stórum svæðum.

Markmið vaxtarsamninga er að efla byggðarkjarna með því að byggja á styrkleikum svæða og skilvirku samstarfi einkaaðila og opinberra aðila. Útfærslan er að erlendri fyrirmynd og nokkuð nýstárleg. Áhersla er lögð á samkeppnishæfni atvinnulífs þar sem byggt er á markaðstengdum aðgerðum, stefnumörkun fyrir vaxtargreinar á svæðinu, samstarfi aðila á viðkomandi sviði með netsamstarfi, klösum og stuðningsverkefnum.

Eitt meginatriðið í starfsemi vaxtarsamninga er að efla samstarf á viðkomandi svæði. Því er afar mikilvægt að fyrirtæki og aðilar á Norðurlandi vestra, sem og Norðurlandi sem vilja taka þátt í starfsemi vaxtarsamnings Eyjafjarðar, komi þeim áhuga á framfæri. Gert er ráð fyrir því í vaxtarsamningi Eyjafjarðar að nýir aðilar geti komið að stjórn þess samnings sé fyrir því áhugi, svo sem á Norðurlandi vestra. Þess má geta að aðilar á Norðurlandi, t.d. Ferðamálasamtök Norðurlands sem ná til alls Norðurlands, og háskólinn á Hólum taka þegar þátt í starfsemi vaxtarsamnings. Starfsemi hans verður kynnt frekar á öllu Norðurlandi á næstunni.

Á næstunni er einnig fyrirhugað að kynna vaxtarsamninginn á Norðurlandi vestra og þá möguleika sem hann opnar fyrir aðila á svæðinu. Af framangreindum ástæðum er ekki gert ráð fyrir sérstökum vaxtarsamningi fyrir Norðurland vestra þar sem þegar er gert ráð fyrir slíkum möguleika innan vaxtarsamnings Eyjafjarðar. Slíkt kallar á samræmingu, samvinnu og samninga milli atvinnuþróunarfélaga á svæðinu við vaxtarsamning Eyjafjarðar. Þessu til viðbótar er þess að geta að það er mun meiri ávinningur fyrir minni svæði að tengjast vaxtarsamningum nærliggjandi svæða, stærri svæða, og nýta sér ávinning af slíku starfi en með gerð smárra vaxtarsamninga á afmörkuðum svæðum, enda umfang og stjórnun slíkra samninga nokkuð viðamikið. Komi fram að eftirspurn eftir þjónustu vaxtarsamningsins verði meiri en ráð er fyrir gert í upphafi munu stjórnvöld endurmeta stöðu, rekstur og stuðning við starf á þessu sviði.

Hvað varðar svar við síðari spurningunni er það að segja að formlegt erindi um það efni hefur ekki borist ráðuneytinu en þessi mál og önnur tengd hafa verið rædd óformlega á fundum, m.a. við stjórn Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Ráðuneytið er hins vegar ávallt til viðræðu um atriði er styrkt geta stöðu Norðurlands vestra á þessu sviði ef eftir því verður óskað.



[15:12]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er eitt vandamál við það að hafa vaxtarsamning fyrir þessi svæði sameiginleg. Það vill þannig til að Tröllaskagi liggur þarna á milli. Samgöngur yfir eða í gegnum eru ekki mjög góðar. Ég tel reyndar að ef menn hefðu einhverja áætlun í hendi sér um það hvernig ætti að bæta þær samgöngur gæti kannski orðið líklegra að menn fyndu leið til að koma sér niður á vaxtarsamning sem mundi skipta miklu máli. Ég er á þeirri skoðun að skoða þurfi vandlega að tengja saman Skagafjörð og Eyjafjarðarsvæðið með betri samgöngum en gert er ráð fyrir núna. Það ætti að taka inn í þessa hluti og ef menn sæju fram á það væri örugglega hægt að finna leiðir til að vinna saman fram að þeim tíma sem samgöngur batna á svæðinu.



[15:14]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að bera þessa fyrirspurn fram og tek undir þau sjónarmið sem fram koma í fyrirspurninni.

Ég hef eins og hv. þingmaður Jóhann Ársælsson verulegar efasemdir um að við núverandi aðstæður sé mögulegt að líta svo á að Skagafjörður og Eyjafjörður séu eitt atvinnusvæði. Ég held að huga þurfi að endurbótum á samgöngum til að gera slíkt mögulegt og það er sorglegt til þess að vita að Héðinsfjarðargöng munu ekkert leggja af mörkum til að gera Eyjafjörð og Skagafjörð að einu atvinnusvæði. Ég hygg að það væri skynsamlegt að skoða möguleika svæðisins á Norðurlandi vestra til orkuframleiðslu og notkunar þeirrar orku með stóriðju og ég hygg að iðnaðarráðuneytið gerði vel í því að styrkja þann möguleika sem liggur í augum uppi á álveri við Húnaflóa með orkuframleiðslu úr Skagafirði og Húnavatnssýslunum.



[15:15]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er ekki verra en vant er þegar rætt er við hæstv. byggðamálaráðherra um Norðurland vestra. Hún beinir alltaf sjónum að Eyjafjarðarsvæðinu en fyrirspurn mín laut ekki einungis að Skagafirði, hún lýtur að Norðurlandi vestra og ég ætla að benda hæstv. ráðherra á að það eru greiðari samgöngur suður til Reykjavíkur úr Vestur-Húnavatnssýslu en til Akureyrar enda sækja Húnvetningar þjónustu sína þangað.

Það er að sjálfsögðu gott mál og sjálfsagt og menn gera það að eigin frumkvæði að vinna saman að þeim málum þar sem það er æskilegt og eðlilegt, eins og t.d. í ferðamálum og starfsemi háskólana, í menntamálum að ýmsu leyti, en að öðru leyti þarf að sinna þessu kjördæmi sérstaklega, og ekki hvað síst Húnavatnssýslunum þar sem atvinnulíf er mjög bágborið, meðaltekjur líklega þær lægstu á landinu enda sauðfjárrækt mjög mikil. Það eina sem getur komið þessu svæði til bjargar er að ríkisvaldið aðstoði sveitarfélögin við uppbyggingu atvinnulífs. Þar hefur skollaeyrum verið skellt við og fólk í rauninni dregið á asnaeyrunum með því að taka því ljúflega á fundum en gera svo ekki neitt.

Þetta er ósvinna, hæstv. forseti, og það er óskiljanlegt að byggðamálaráðherra skuli ekki láta sig varða öll svæði landsins jafnt, heldur verða ber að því hvað eftir annað að beina sjónum einungis að örfáum stöðum á landinu — og alltaf sömu stöðunum.



[15:17]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta vera fullyrðingar sem eiga ekki rétt á sér. Hv. þingmaður heldur því fram að ég geri byggðarlögum mishátt undir höfði og sniðgangi sérstaklega ákveðið kjördæmi, eða mér finnst hún vera að segja það. Því fer bara víðs fjarri.

Það er hins vegar mikilvægt að sveitarfélögin á viðkomandi svæðum standi sig og að þau hafi eitthvert frumkvæði gagnvart ríkisvaldinu ef þau hafa áhuga á samstarfi við það. Þegar um það hefur verið beðið af hálfu sveitarfélaga á þessu svæði að eiga fundi með okkur í iðnaðarráðuneytinu hefur að sjálfsögðu verið orðið við því. Það er ekki lengra síðan en í gær að ég átti fund með sveitarstjórnarmönnum úr Húnavatnssýslu þannig að það stendur ekki á því. Það vil ég að sé algerlega klárt.

Ég ítreka að það er ekki endilega það besta fyrir Norðurland vestra að farið verði í vaxtarsamningsvinnu fyrir það svæði einangrað. Það er það sem ég vil leggja mikla áherslu á. Það starf býður upp á að það séu sterkir aðilar í hópnum og þó svo að Tröllaskagi sé erfiður yfirferðar, bæði hvað varðar samgöngur og andlega, er það þannig með þetta samstarf eins og klasasamstarf að það er ekki spurning um að keyra á milli svæða. Þetta er samstarf sem á sér að miklu leyti stað um netið. Svo vil ég líka taka fram að því miður hafa fyrirtæki og aðilar á gamla Norðurlandi vestra verið mjög óduglegir að sækja um styrki, t.d. í sjóðinn Átak til atvinnusköpunar.