131. löggjafarþing — 116. fundur
 20. apríl 2005.
Framkvæmd vegáætlunar.
fsp. AKG, 737. mál. — Þskj. 1099.

[17:32]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom í fyrirspurn minni áðan hafa vaknað hjá mér spurningar um nýtingu fjár á vegáætlun. Vegáætlun er gerð til margra ára í senn en eftir sem áður virðast vera einhverjir hnökrar á undirbúningi framkvæmda þegar til kastanna kemur og framkvæmdir tefjast því oft og iðulega.

Nú geta auðvitað legið ástæður til þess að framkvæmdir tefjist án þess að Vegagerðin fái nokkuð við það ráðið, eins og t.d. smíði brúar yfir Gönguskarðsá við Sauðárkrók, sem hæstv. ráðherra minntist á áðan. Þar hefur meiri hluti sjálfstæðismanna og vinstri grænna ekki getað komið sér saman um hvaða legu innkeyrsla í bæinn á að hafa og hafa vísað málinu sennilega fimm sinnum aftur til skipulags- og samgöngunefndar. En það er sennilega og vonandi einstakt stjórnleysi í einu bæjarfélagi.

Það verður hins vegar að velta því fyrir sér hvort Vegagerðin er að einhverju leyti undirmönnuð, hvort ný lög, t.d. um umhverfismat, geri það að verkum að breyta þurfi vinnulagi til þess að fjármagn geti nýst sem mest á því ári sem heimild fæst til að nýta það, t.d. með því að hafa tilbúin verk á nokkurs konar varaframkvæmdalista eða hvað annað sem hægt er að taka til bragðs.

Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra:

1. Hvaða kröfur eru gerðar til stöðu undirbúnings vegaframkvæmda þegar fjárheimilda er leitað?

2. Eru verk á vegáætlun þar sem undirbúningi er lokið og verkin tilbúin til útboðs án þess að fjárheimild liggi fyrir?

3. Hefur komið til álita að breyta forgangsröðun verkefna þegar verk tefjast?

4. Hvað tekur undirbúningur fyrir nýframkvæmdir hjá Vegagerðinni að jafnaði langan tíma, annars vegar fyrir lagningu vega, hins vegar brúarsmíð?



[17:34]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr: „Hvaða kröfur eru gerðar til stöðu undirbúnings vegaframkvæmda þegar fjárheimilda er leitað?“

Svar mitt er þetta: Að lágmarki þarf að liggja fyrir skilgreining verkefnisins áður en verk er sett inn á vegáætlunarhluta samgönguáætlunar. Fyrir verk sem eru á tveimur fyrri árum áætlunar er æskilegt að fyrir liggi frumhönnun eða verkhönnun, sem væri auðvitað æskilegt ef það er hægt.

Í annan stað er spurt: „Eru verk á vegáætlun þar sem undirbúningi er lokið og verkin tilbúin til útboðs án þess að fjárheimild liggi fyrir?“

Svar mitt er þetta: Fjárheimildir eru gefnar út fyrir verk sem eru með fjárveitingu á vegáætlun viðkomandi árs. Undantekning frá þessu er ef áætlanir benda til þess að kostnaður við verkið verði meiri en fjárveiting.

Í þriðja lagi er spurt: „Hefur komið til álita að breyta forgangsröðun verkefna þegar verk tefjast?“

Svar mitt er þetta: Fyrir kemur að framkvæmdaröð sé breytt ef verk með fjárveitingu á vegáætlun dregst af einhverjum ástæðum.

Í fjórða lagi er spurt: „Hvað tekur undirbúningur fyrir nýframkvæmdir hjá Vegagerðinni að jafnaði langan tíma, annars vegar fyrir lagningu vega, hins vegar brúarsmíð?“

Svar mitt er þetta: Undirbúningur vegna nýframkvæmda Vegagerðarinnar tekur eðli málsins samkvæmt mjög mislangan tíma eftir stærð og eðli verks. Ekki er unnt að gefa upp neinn „eðlilegan tíma“, meðaltíma í því sambandi. Þetta á bæði við um vega- og brúargerð. Almennt má segja að þessi tími hafi verið að lengjast að undanförnu vegna krafna um meira og flóknara samráð við ýmsa aðila og á það ekki síst við um þegar slíkar framkvæmdir eru inni í þéttbýli þar sem búið er að skipuleggja og byggja kannski þétt upp að viðkomandi vegarstæði. Þá þarf að taka tillit til mjög margra þátta, svo sem eins og hljóðvistar, þar sem upp hefur komið mjög aukin krafa til veghaldara um hljóðvistaraðgerðir í tengslum við hönnun vega í þéttbýli.



[17:37]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við höfum verið að leggja á það mikla áherslu á undanförnum árum að takast á við ýmsar lagfæringar á vegakerfinu sem einkum snúa að einbreiðum brúm, hættulegum köflum, svokölluðum svartblettum, o.s.frv.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég undrast svolítið hversu hægt okkur miðar þó að vissulega sé verið að vinna við einbreiðar brýr og annað slíkt. Þarna er oft á tíðum ekki um framkvæmdir að ræða sem kalla á mjög mikið fé og heldur ekki mjög flókna hönnun þegar verið er að skipta út einbreiðum brúm, búa til ræsi eða jafnvel nýjar brýr þar sem er um tiltölulega litlar framkvæmdir að ræða. Ég undrast það að við skulum ekki fara hraðar (Forseti hringir.) í þessum verkum.



[17:38]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Manni finnst eiginlega undarlegt að þegar verk tefjast skuli ekki vera farið í önnur verk sem liggur fyrir að verður að vinna í framhaldinu.

Ég ætla að taka sem dæmi aftur brúna yfir Gönguskarðsá við Sauðárkrók. Þetta þref og þjark er búið að standa yfir allt þetta kjörtímabil. Búið var að taka ákvörðun á síðasta kjörtímabili um legu brúarinnar eins og hún mun væntanlega liggja eftir þær mörgu hringferðir sem við vorum að lýsa áðan.

En það er ekki einungis þetta verk sem er eftir til að þessi mikla vegabót sem Þverárfjallsvegur er nýtist að fullu, heldur á líka eftir að ljúka hluta vegarins, þ.e. eftir að komið er niður í Gönguskörð og til Sauðárkróks. Þar er vegurinn enn þá niðurgrafinn og snjóar oft í hann fyrir utan að þarna er aurbleyta og hann hefur reynst hættulegur á sumrin og auk þess stórskemmt bíla. Þess vegna fyndist manni þetta alveg dæmigerð framkvæmd sem ætti að fara í í staðinn fyrir að bíða alltaf eftir að pólitíkusarnir á Sauðárkróki geti komið sér saman.

Það er skoðun mín að það ætti að reyna taka til endurskoðunar vinnulagið við framkvæmdir hjá Vegagerðinni með það í huga að hafa ætíð til reiðu verkefni sem hægt er að fara í ef verk tefjast af fyrirsjáanlegum eða ófyrirsjáanlegum orsökum.



[17:40]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Trúlega hefur rótin að þessari fyrirspurn verið margumræddur vegur um Þverárfjall og Gönguskörð. En ég vil að gefnu tilefni vegna ræðu hv. þingmanns segja að það væri ekki skynsamlegt að fara af stað með framkvæmdir á öðrum pörtum þessa vegar vegna þess að flöskuhálsinn um fullkomna nýtingu þessarar leiðar var brúin þarna um og vegurinn sem liggur niður að þéttbýlinu. Það var svo mikill munur á þessum tveimur leiðum að ekki var hægt að taka neinar ákvarðanir um aðrar framkvæmdir að mínu mati án þess að fyrir lægi endanleg lega þessa vegar.

Nú liggur þetta fyrir og verður ekki aftur snúið. Ég er mjög sáttur við þá niðurstöðu, tel að þar hafi verið valin besti kosturinn, og kannski var ástæða til þess að þreyja þorrann og góuna og þvermóðska samgönguráðherrans hafi leitt til þess að loksins fékkst niðurstaða um að fara þá leið sem er best fyrir byggðina en umfram allt best fyrir vegfarendur, og þar ofan í kaupið ódýrari svo nemur 30–40 milljónum. Niðurstaðan er því fengin og vonandi verður hægt að bjóða þetta verk út strax og búið er að vinna hönnun en þegar búið er að taka ákvörðun um hvar brúin á að liggja þarf að hanna mannvirkið og ekki verður það boðið út fyrr en því verki er lokið.

Niðurstaða er fengin. Það er aðalatriðið í mínum huga.