131. löggjafarþing — 116. fundur
 20. apríl 2005.
Æskulýðsmál.
fsp. UMÓ, 782. mál. — Þskj. 1160.

[18:01]
Fyrirspyrjandi (Una María Óskarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Æskulýðsmál eru málaflokkur sem því miður hefur ekki hlotið mikla umræðu á hinu háa Alþingi. Lög um æskulýðsmál eru frá árinu 1970 og því orðin 35 ára gömul. Það segir sig sjálft að þessi lagabálkur er orðinn úreltur og full þörf er á að endurskoða hann. Því vil ég beina nokkrum spurningum um málið til hæstv. menntamálaráðherra.

Hvað líður endurskoðun nýrra æskulýðslaga sem nefnd um endurskoðun þeirra átti að skila til ráðherra 1. september 2004? Enn fremur leikur mér forvitni á að vita hvert hlutverk æskulýðsráðs eigi að vera í framtíðinni og hvernig velja eigi í það ráð. Eins og menn vita er unnið gott æskulýðsstarf hér á landi. Nefna má starf frjálsra félagasamtaka eins og ungmennafélaganna í landinu, öflugt skátastarf, tómstundastarf, félagsmiðstöðvar sem starfræktar eru í sveitarfélögum og svo mætti áfram telja. Þessir aðilar hafa lagt metnað sinn í að byggja upp öflugt æskulýðsstarf og fylgja takti tímans án þess að grundvallarreglur um uppeldi og góð samskipti séu fyrir borð bornar. Framboð, framþróun og fjölbreytni í æskulýðsstarfi eru ekki síður mikilvæg en framboð, framþróun og fjölbreytni í íþróttastarfi.

Hæstv. forseti. Þegar unnið er að endurbótum laga um æskulýðsmál skyldi maður ætla að heppilegast væri að leita liðsinnis, skoðana og reynslu þeirra aðila sem sinna því mikilvæga æskulýðsstarfi sem fram fer hér á landi. Því vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvaða samvinna hafi verið höfð við sveitarfélögin í landinu við endurskoðun laganna. Þá vil ég einnig spyrja um starf æskulýðssjóðs og vil fá að vita hver skipar stjórn sjóðsins og eftir hvaða vinnureglum er farið við þá skipun. Einnig vekur það eftirtekt að eftir því sem ég best fæ séð hafa úthlutanir úr æskulýðssjóði til kristilegs starfs verið 30 af 57 eða 52,6% úthlutana sjóðsins frá því að hann var stofnaður 2004. Hvers vegna er það svo?



[18:03]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður og fyrirspyrjandi hefur beint til mín fimm spurningum er lúta að íþrótta- nei, æskulýðsmálum og æskulýðsstarfi.

Varðandi fyrstu spurninguna: „Hvað líður endurskoðun laga um æskulýðsmál?“ er rétt að geta þess að síðla árs 2003 var skipuð nefnd á vegum ráðuneytisins sem fékk það hlutverk að gera tillögur um nýja löggjöf um æskulýðsmál. Í erindisbréfi nefndarinnar var m.a. tekið fram að nefndin hefði til hliðsjónar við vinnu sína skýrslu og tillögur nefndar sam vann úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi fyrir ráðuneytið.

Nefndin hefur skilað mér tillögum sínum um frumvarp að nýjum æskulýðslögum með ítarlegri greinargerð. Nefndina skipuðu bæði fulltrúar ráðuneytisins sem sinna æskulýðsmálum en jafnframt fulltrúar þeirra sem best þekkja til æskulýðsmála hér á landi, eins og til að mynda Ásta Möller, varaþingmaður og formaður nefndar sem vann skýrsluna um úttekt á á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks, Stefán Bjarkason, framkvæmdastjóri í Reykjanesbæ, og Ólafur Jóhannsson sóknarprestur.

Frumvarp um ný æskulýðslög eru nú til frekari skoðunar innan ráðuneytisins en þau munu ekki verða lögð fyrir yfirstandandi þing.

Önnur spurningin er: „Hvert á hlutverk æskulýðsráðs að vera og hvernig á að velja í ráðið?“ Hlutverk þess er samkvæmt tillögum nefndarinnar nokkuð breytt frá núgildandi lögum og meiri áhersla er nú lögð á stefnumarkandi og ráðgefandi hlutverk þess gagnvart málaflokknum og er starfsemi æskulýðsráðs afmörkuð betur en áður. Skal ráðið vera stjórnvöldum til ráðgjafar í æskulýðsmálum, gera tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum, veita umsagnir um mál er varða æskulýðsstarfsemi, leitast við að efla æskulýðsstarfsemi félaga, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga og stuðla að samvinnu þessara aðila um æskulýðsmál, efna til funda og ráðstefna um æskulýðsmál, taka þátt í erlendu samstarfi í æskulýðsmálum, stuðla að þjálfun og menntun félagsforustufólks og leiðbeinenda og stuðla að æskulýðsrannsóknum auk annarra þeirra verkefna sem fjallað er um í lögunum nú þegar eða sem ráðuneytið hugsanlega kann að fela þeim. Æskulýðsráð skal skipað tíu fulltrúum, sex skulu valdir af fulltrúum æskulýðssambanda, tveir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ráðherra skipi síðan tvo menn, formann og varaformann. Hefð hefur skapast um að fulltrúar æskulýðsfélaga hafi verið tilnefndir á fundi æskulýðsráðs og hefur það fyrirkomulag gefist ágætlega að mínu mati.

Varðandi þriðju fyrirspurnina: ,,Hvaða samvinna hefur verið höfð við sveitarfélögin um endurskoðun laganna?“ þá er rétt að geta þess að við undirbúning að frumvarpinu hafði nefndin náið samráð við öll helstu samtök á sviði æskulýðsmála auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk þess sem drög að frumvarpinu voru kynnt þeim á formlegum fundi. Þá sat í nefndinni Stefán Bjarkason sem starfar að æskulýðsmálum fyrir Reykjanesbæ.

Fjórða fyrirspurnin er: „Hver skipar stjórn æskulýðssjóðs og eftir hvaða vinnureglum er farið við þá skipun?“ Samkvæmt reglum um æskulýðssjóð, nr. 113/2004, er stjórn sjóðsins skipuð sömu mönnum og skipa Æskulýðsráð ríkisins. Það skipa frá 1. janúar 2005 Júlíus Aðalsteinsson formaður, skipaður án tilnefningar, en aðrir aðalfulltrúar eru Eyrún Björk Jóhannsdóttir, Stefán Már Gunnlaugsson og Einar Lee, skipuð samkvæmt kosningu kjörfundar æskulýðssamtaka, og Stefán Bjarkason, skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er síðan hlutverk mitt samkvæmt reglum sjóðsins að úthluta styrkjum úr sjóðnum að fengnum tillögum stjórnar.

„Hvers vegna hafa 30 af 57 úthlutunum úr æskulýðssjóði runnið til trúarlegs starfs frá því að sjóðurinn var stofnaður 2004?“ spyr hv. þingmaður. Samkvæmt reglum sjóðsins er það hlutverk æskulýðssjóðs að styrkja sérstök verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka sem unnin eru fyrir börn og ungmenni og/eða með virkri þátttöku þeirra, þjálfun æskulýðsleiðtoga og leiðbeinenda til virkrar þátttöku í æskulýðsstarfi, nýjungar og tilraunir í félagsstarfi barna og ungmenna og samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka á sviði félagsstarfa. Styrkir eru ekki veittir til árvissra eða fastra atburða í félagsstarfi svo sem þinga, móta eða þess háttar atburða eða ferðahópa. Umsóknir í æskulýðssjóð og sem falla undir reglur sjóðsins hafa verið hlutfallslega fleiri frá kristilegum æskulýðsfélögum. Til að mynda voru við síðustu úthlutun alls 39 umsóknir sem féllu undir reglurnar. Þar af voru umsóknir frá kristilegum æskulýðsfélögum rúmlega helmingur þeirra eða alls 20 umsóknir. Við úthlutun fengu 16 kristileg samtök styrkveitingu, þ.e. 41%, og önnur samtök því 59% svo sem skátar, Félag framhaldsskólanema, samráðshópur ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna, björgunarsveitir o.fl.



[18:08]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mismæli hæstv. ráðherra í upphafi eru eiginlega talandi dæmi um hve íþróttir eru ofarlega í huga fólks þegar máli er vikið að tómstundum ungmenna. Ég ætla ekki að kasta rýrð á íþróttastarf, ég hef stutt það dyggilega og staðið að sjálfboðaliðastarfi og geri enn, en sem kennari fyrr á árum varð ég auðvitað mjög oft vör við að íþróttir höfða ekki til allra. Það eru ekki allir sem geta stundað íþróttir og hafa ekki áhuga á þeim og þess vegna vil ég nota þetta tækifæri til að leggja áherslu á hversu mikilvægt það er að veita markvissan stuðning til fjölbreytts annars konar tómstundastarfs því að við vitum það allar sem hér erum hversu tómstundir eru mikilvægar fyrir heilbrigði og farsælt uppeldi barna.



[18:09]
Fyrirspyrjandi (Una María Óskarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hún upplýsti áðan að nefnd sú sem ætlað var að endurskoða æskulýðslög hafi skilað frumvarpi ásamt greinargerð.

Ástæður fyrir spurningum mínum eru m.a. þær að ég hef verið að reyna að spyrjast fyrir um frumvarpið og þessa endurskoðun. Eftir því sem ég best veit hafa þeir aðilar sem sitja í æskulýðsráði hvorki upplýsingar um hvert efni frumvarpsins er né greinargerðar með því og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að ráðherrann upplýsi mjög fljótlega hvernig þetta frumvarp er úr garði gert. Hún sagði áðan að frumvarpið væri breytt og ég spurði þeirrar spurningar hvaða samvinna hefði verið höfð við sveitarfélögin um þetta mál. Ég tel að sveitarfélögin og fulltrúar þeirra þurfi að vita hvernig ætlunin er að breyta æskulýðslögum vegna þess að starfið í sveitarfélögunum í þessum geira er mjög umfangsmikið.

Varðandi fjórðu spurninguna sem ég spurði, um æskulýðssjóðinn, þá kemur það fram á vef ráðuneytisins að í stjórn æskulýðssjóðs sitji þeir sem eru í æskulýðsráði. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef skipa þrír aðilar þessa stjórn og það er ekki samkvæmt þeim reglum sem gilda eiga um stjórn sjóðsins. Þeir gera tillögur til ráðherra hverjir fá úthlutað úr sjóðnum.

Ráðherra upplýsti að umsóknir vegna trúarlegs starfs væru mjög margar í sjóðinn. Ég vil aftur á móti segja að þó að umsóknir vegna trúarlegs starfs séu margar í sjóðinn finnst mér skipta mjög miklu máli að úthlutanir úr honum nái til breiðari hóps umsækjenda og vil því með þessum orðum skora á ráðherra að upplýsa sveitarfélög og alla þá aðila sem starfa í æskulýðsgeiranum um þetta frumvarp. Einnig mælist ég til þess við hæstv. ráðherra að úthlutanir úr æskulýðssjóði nái til breiðari hóps í framtíðinni.



[18:11]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Mismæli og ekki mismæli í upphafi máls míns. Vissulega eigum ekki að skammast okkur fyrir að tala um íþróttir og æskulýðsmál í sömu andrá. Það er nú einu sinni svo að íþróttir eru tómstundir en aftur á móti er það ekki svo að allar tómstundir séu íþróttir og við verðum að hafa það í huga. Við vitum mætavel að íþróttir falla ákveðnum hópum en svo eru aðrar tegundir tómstunda sem henta öðrum betur. Við verðum einfaldlega að taka tillit til þess í okkar kerfi að bjóða tækifæri fyrir alla sem taka tillit til þarfa einstaklingsins hverju sinni. Ég held að okkur hafi tekist að byggja upp slíkt kerfi og er þá sérstaklega með sveitarfélögin í huga.

Ég vil undirstrika að nefndin hafði mjög náið samstarf við sveitarfélögin og það var líka starfsmaður sveitarfélaganna í þeirri nefnd sem skipuð var og falið var það hlutverk að móta tillögur fyrir nýtt frumvarp til æskulýðslaga. Við erum að fara vel yfir það. Mikið samráð var haft og margir fundir haldnir. Þegar frumvarpið kemur síðan til kasta þingsins verða þessir aðilar að sjálfsögðu kallaðir aftur fyrir nefndina og það fá allir greiðan aðgang að því að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri við þá sem fara yfir málið á hinu háa Alþingi þannig að allra eðlilegra leikreglna er gætt.

Varðandi umsóknir og þá sem sækja um styrki þá held ég að rétt sé að hafa það hugfast, hvort sem það er í æskulýðssjóðnum eða annars staðar í hinu margháttaða og oft flókna og allt of flókna sjóðakerfi ríkisins, að enginn má ganga að því gefnu að menn eigi sérstakt tilkall til þess fjármagns sem í sjóðum ríkisins er hverju sinni. Að sjálfsögðu ber okkur sem förum með stjórnun og stefnumótun að hafa það hugfast að fara reglubundið yfir úthlutanir og yfir þær reglur sem einstaklingar og lögaðilar þurfa að fara eftir varðandi umsóknir.