131. löggjafarþing — 119. fundur
 29. apríl 2005.
Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra, ein umræða.

[13:31]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar í máli mínu um munnlega skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að drepa á fáeina punkta, bæði það sem hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni og einnig annað sem ég tel að þurfi að ræða. Vonandi fást einhver viðbrögð við því. Ég vona að hæstv. utanríkisráðherra sjái sér fært að vera við umræðuna, hann er væntanlega á leiðinni.

Með skýrslu hæstv. utanríkisráðherra fylgdi skjal sem ber yfirskriftina Stefnumið Íslands í þróunarsamvinnu 2005–2009. Enginn þeirra þingmanna sem talað hefur í umræðunni til þessa hefur gert skjalið að umræðuefni, en ég leit svo á að það væri uppistaðan í því sem hæstv. utanríkisráðherra væri að segja og skjal sem að sjálfsögðu þyrfti að ræða á þingi en ekki bara í hv. utanríkismálanefnd.

Frú forseti. Án nokkurs vafa er brýnasta verkefni stjórnmálamanna á okkar dögum að leysa stóran hluta mannkyns úr viðjum fátæktar, en rúmur milljarður jarðarbúa skrimtir á innan við 70 kr. á dag. Hlutverk Íslands í þessu efni er jafnmikilvægt og annarra vestrænna ríkja þótt stærri séu. Ríki heims hafa enda sett sér markmið sem miða að því að útrýma fátækt, tryggja að mannréttindi séu virt og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Þessir þrír þættir; mannréttindi, útrýming fátæktar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda, verða ekki aðskildir.

Svo að markmiðunum sem ríki heims hafa sett sér í þúsaldaráætlun Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt voru árið 2000 og einnig samþykktum Beijing-ráðstefnunnar um réttindi kvenna verði náð á fyrri hluta þessarar aldar verða aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hvert og eitt að gera framkvæmdaáætlanir um hvernig þau hyggist leggja sitt af mörkum. Íslensk stjórnvöld þurfa að mínu viti að vinna slíka framkvæmdaáætlun, tímasetja markmið hennar og ráðstafa fjármunum til hennar að sjálfsögðu. Slík áætlun ætti að vera grunnur að samvinnu okkar við fátæk ríki og grundvöllur málflutnings Íslands hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Slík áætlun á einnig að stefna að því að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna, sem við höfum samþykkt að undirgangast, að hlutfall vergrar þjóðarframleiðslu sem fer til þróunarsamvinnu verði 0,7%.

Mikilvægt er einnig að stjórnvöld efli skilning almennings á orsökum fátæktar og þekkingu almennings á aðstæðum fólks í snauðustu löndum heims. Með fræðslu má opna augu fólks fyrir nauðsyn þess að allir axli ábyrgð á því að útrýma örbirgð, enda eru örlög fólks hinum megin á hnettinum samtvinnuð okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Afnám misréttis gegn konum gengur eins og rauður þráður í gegnum þau markmið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér á nýrri öld. Hlutskipti kvenna og baráttan fyrir fullum mannréttindum þeirra verður að vera kjarninn í utanríkisstefnu Íslendinga, því annars nást aldrei háleit markmið sem sett hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða annars staðar.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur í tæpan aldarfjórðung unnið að tvíhliða verkefnum með fátækustu ríkjum heims, flest hafa verið í Afríku. Nú hyggst stofnunin færa út kvíarnar til Srí Lanka og Nikaragúa. Ásamt því að auka framlög til verkefna á vegum ÞSSÍ er einnig tímabært að huga frekar að fjölhliða verkefnum á þessu sviði. Í því skyni þarf að efla samstarf ÞSSÍ og frjálsra félagasamtaka og gera nauðsynlegar breytingar á lögum um þróunarsamvinnu. Einnig þarf að huga betur að beinum framlögum til verkefna á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna, eins og kemur reyndar fram í stefnumörkun þeirri sem hæstv. ráðherra lagði fyrir, því sú reynsla sem býr meðal starfsfólks og stofnana Sameinuðu þjóðanna nýtist mjög vel.

Á grundvelli framkvæmdaáætlunar í þróunarsamvinnu, sem ég hef lagt til að stjórnvöld eigi að semja, eiga stjórnvöld að marka stefnu um þátttöku okkar í starfi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins einnig. Mikilvægt er að Ísland veiti þeim stofnunum aðhald og verði málsvari þeirra sem ekki eiga sæti í stjórnum þeirra og eiga oftar en ekki undir högg að sækja gagnvart Alþjóðabankanum eða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er hlutverk okkar, frú forseti, að sjá til þess að rödd þeirra veiku, rödd þeirra fátæku, heyrist innan þeirra stofnana eins og annars staðar á alþjóðlegum vettvangi.

Í stefnumiði því sem hér liggur fyrir um þróunarsamvinnu segir, með leyfi forseta: „Hvað ein þjóð aðhefst hefur áhrif á aðrar.“

Það er hverju orði sannara og óhætt að fagna því að þetta stefnumið skuli hafa verið lagt fram til kynningar þannig að hv. þingmenn geti farið yfir og væntanlega rætt ítarlegar og betur á fundum hv. utanríkismálanefndar.

Ég verð þó að segja og ítreka það sem ég hef áður sagt að stefnumið í slíku stefnuplaggi þarf að fylgja einhvers konar framkvæmdaáætlun sem er bæði tölusett og tímasett og setur stjórnvöldum skýr verkefni og markmið til að vinna eftir. Þetta snýst ekki bara um betri vinnubrögð, þetta snýst einnig um að allir viti hvað er í gangi. Þannig er líka auðveldara að hafa yfirsýn og veita stjórnvöldum sannarlega aðhald í þeim verkefnum sem þau starfa að.

Ég hef, ásamt þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi, lagt fram tillögu til þingsályktunar um skipan nefndar um mótun stefnu á sviði þróunarsamvinnu Íslands við önnur ríki. Tillagan var einnig lögð fram í fyrra og er nú lögð fram aftur nokkuð breytt, en því miður hefur ekki unnist tími til að mæla fyrir henni á hinu háa Alþingi í vetur. Þar leggja flutningsmenn til við stjórnvöld að sett verði á fót sérfræðinganefnd sem vinni út frá tilteknum markmiðum sem að mörgu leyti samrýmast þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í stefnumiðum um þróunarsamvinnu, þó e.t.v. séu áherslurnar ekki alveg þær sömu. Þó eru þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna meðal annars lögð til grundvallar; nauðsyn þess að efla menntun, mannréttindi og frelsi kvenna og stúlkubarna um allan heim, nauðsyn þess að efla heilsugæslu og samvinnu við frjáls félagasamtök.

Mér þætti ráð að sú tillaga sem hér liggur fyrir fengi afgreiðslu á hinu háa Alþingi í vetur þannig að hægt væri að vinna frekar það stefnumið sem hér liggur fyrir um þróunarsamvinnu og setja niður framkvæmdaáætlun til langs tíma, hvort sem það eru næstu fjögur ár eða jafnvel næstu tíu ár, þannig að fyrir liggi nákvæmlega hvernig Ísland og íslensk stjórnvöld hyggist standa að þessu. Það er margt gott sem fram kemur í því stefnuplaggi sem hæstv. ráðherra hefur lagt fyrir, en að mínu viti er það ekki nógu ítarlegt að því leyti að það er svolítið abstrakt og það er ekki sagt um það nákvæmlega hvernig við ætlum að ná markmiðunum, en m.a. með því að útfæra þetta nýtum við líka þá fjármuni betur sem við verjum til þróunarsamvinnu. Ég hygg að við í þessum sal séum öll sammála um að nýta þurfi þá vel, ekki síst í ljósi þess að nú hafa stjórnvöld lofað og staðið við að hækka framlög til þróunarsamvinnu og þau munu hækka umtalsvert á næstu árum. Ég tel mjög brýnt að þeim fjármunum sé vel varið og að um það sé þverpólitísk samstaða hvers konar verkefni og hvers konar vinnu við förum í, því eins og allir vita erum við náttúrlega að ráðstafa skattfé Íslendinga í samvinnuna.

Svo það gleymist ekki í umræðunni er í þingsályktunartillögunni, sem ég hef gert að umræðuefni og þingmenn úr öllum flokkum flytja með mér, lagt til að stefnan verði sett á að framlag Íslands nái 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2015, eftir tíu ár. Þá mundum við halda svipuðum hraða í aukningu framlaga eins og verið hefur á undanförnum missirum og árum næstu tíu árin. Auðvitað þýðir það að vinna þarf mjög vel í því hvers konar verkefni við tökum að okkur. Það hittir þannig á að það er sama árið og aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hyggjast ná þúsaldarmarkmiðum sínum og ég hygg að það væri vel við hæfi að við næðum markmiðinu á sama tíma.

Hæstv. utanríkisráðherra gerði Íslensku friðargæsluna að umræðuefni. Mig langar að víkja lítillega að henni en hún hefur áður verið rædd í dag. Í stefnumiðum um þróunarsamvinnu er talað um að þróa þurfi leiðir í friðargæslunni og samvinnunni. Hvort það þýðir að þróa eigi frekar leiðir í þær áttir sem hæstv. utanríkisráðherra hefur tilkynnt okkur í dag, þ.e. að auka þátttöku Íslands í friðargæsluverkefnum sem krefjast vopnaburðar og eru á stríðssvæðum skal ég ekki segja, en vil hins vegar taka það fram við umræðuna að eins og komið hefur á daginn í fréttaflutningi gengur ekki að þeir sem við sendum af landi brott til verkefna sem þessara, hættulegra verkefna, séu ekki nógu vel tryggðir. Ég veit að verið er að vinna í þessu og að hæstv. ráðherra hefur lýst skoðun sinni á því, en það má benda á það í umræðunni að m.a. fyrir hjálparstarfsmenn á vegum Alþjóða Rauða krossins er keypt sérstök trygging sem hægt er að kaupa hjá tryggingafélögum um allan heim býst ég við. Hún er auðvitað dýr og mikil, en það er trygging sem tryggir fólk sem starfar á átakasvæðum. Það segir sig sjálft að það þarf að gera það líka fyrir íslenska friðargæsluliða. Ég held að það hafi kannski minnst með það að gera í hvaða stéttarfélagi þeir eru, þetta er bara spurning um að staðið sé þannig að flutningunum og störfum þeirra að sómi sé að og öll réttindi fólksins séu tryggð.

Einnig vil ég víkja að umhverfismálunum, frú forseti. Þau hafa verið gerð lítillega að umræðuefni í dag. Nú hefur komið á daginn í nýlegri könnun sem gerð var hér á landi að 75% Íslendinga, ¾ hlutar þjóðarinnar, hafa áhyggjur af hugsanlegum og yfirstandandi loftslagsbreytingum. Þetta er mjög hátt hlutfall. Fólki er greinilega ofarlega í huga staða umhverfismála og ástandið á jörðinni, ekki bara í okkar nánasta umhverfi heldur um allan heim. Ég held að fólk skynji almennt mjög ríka ábyrgð okkar á því hvernig fram vindur, bæði í samningum um umhverfisvernd, á alþjóðlegum vettvangi og einnig hér heima fyrir um hvernig við getum tekið á því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda til þess að vinna gegn loftslagsbreytingum.

Í ljósi þessarar niðurstöðu er óneitanlega ankannalegt að lesa það sem birt er á heimasíðu ráðuneytisins og ræður þeirra sem þar starfa og tala fyrir hönd Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Það er eins og menn vilji draga úr því að loftslagsbreytingar hafi þau áhrif sem þau eru í raun hafa og vísindamenn um allan heim hafa staðfest, m.a. í miklum skýrslum á borð við þá sem unnin var á vegum Norðurskautsráðsins á síðasta ári. Íslendingar höfðu m.a. forgöngu um gerð hennar. Nú eru sendiherrar Íslands farnir að tala um „mögulegar loftslagsbreytingar“, svo ég þýði nú beint úr ensku. Ég velti því fyrir mér hvort þeir hafi verið að lesa skáldsögur eftir Michael Crichton eða einhverja fleiri um að kannski sé þetta bara ekki að gerast, á meðan vísindalegar sannanir benda til annars. Ábyrgð okkar er engu minni en ábyrgð annarra þjóða í því að vinna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Það verðum við að gera.

Ég sé, frú forseti, að tími minn er því miður á þrotum. Mig langar í blálokin að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um hugsanlegan vopnaviðskiptasáttmála. Ég veit að Ísland styður gerð hans en ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvað hafi verið gert frá því að stuðningi var lýst yfir við gerð slíks sáttmála í desember 2003. Hvað hefur verið gert á vegum ráðuneytisins til þess að vinna að því að fá aðrar þjóðir með í það mikilvæga verkefni að tempra vopnaviðskipti?



[13:47]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér þau atriði sem hæstv. utanríkisráðherra fór yfir í ræðu sinni. Af mörgu er að taka í þeim efnum. Einnig mætti koma inn á talsvert af þeim atriðum sem hæstv. ráðherra nefndi ekki.

Ég ætla að byrja á að víkja að því sem hann sagði um fríverslun. Það er ljóst af máli hans að hann metur fríverslun og gildi hennar mikils. Það má taka undir það að ákveðnu marki. Í mínum huga eru hliðarnar á fríverslunarsamningum gjarnan tvær. Það er jú vitað að félagsleg réttindi verkafólks eiga til að verða undir þegar hin frjálsu viðskipti flæða yfir álfurnar. Það er þekkt hvernig stórfyrirtæki og fjölþjóðlegir auðhringar nýta sér aðstæður í fátækari ríkjum til að hámarka gróða sinn en það er eðli máls samkvæmt oft á kostnað þeirra fátæku ríkja sem hafa talið sig auka hagsæld sína með því að opna dyr sínar fyrir auðhringunum. En þeir eiga það til að plata ríkisstjórnir til að gera hluti eins og að einkavæða almannaþjónustu á borð við rafveitur og vatnsveitur.

Frú forseti. Það er skoðun mín að íslensk stjórnvöld þurfi að opna augu sín fyrir þessari neikvæðu hlið á fríversluninni. Þau þurfa að eyða meiri orku í að skoða og gagnrýna slíkt framferði, fremur en að dásama fríverslun gagnrýnislaust og einhliða. Í mínum huga ber okkur skylda til að láta okkur einhverju skipta félagsleg réttindi verkafólks í þeim löndum sem við stundum viðskipti við. Ég efast um að í þeim fríverslunar- og viðskiptasamningum sem hæstv. utanríkisráðherra gerði að umtalsefni í ræðu sinni sé slíkra réttinda getið að nokkru marki. Eða hvað sjá íslensk stjórnvöld fyrir sér í þessum efnum? Er t.d. ætlunin að halda slíku til haga af hálfu EFTA-landanna gagnvart, eigum við að segja, Tælandi eða Kína, sem hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni? Það væri gaman að fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvort slíkt sé á döfinni, að það eigi að gera einhverjar athugasemdir varðandi réttindi verkafólks, t.d. í Kína sem hæstv. ráðherra bindur miklar vonir við að við getum átt öflug viðskipti við í framtíðinni.

Þá er þess líka að gæta, frú forseti, að Doha-samningarnir, á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, hafa verið harðlega gagnrýndir á alþjóðlegum vettvangi. Gagnrýnendur þeirra hafa verið sammála um að þeir samningar muni yfirleitt gagnast þeim best sem eru best settir fyrir. Hæstv. ráðherra talaði um að þeir komi smærri ríkjum afar vel. Það kann vel að vera að það eigi við um smærri ríki í löndum Evrópu en ég veit að það á ekki við um öll ríki veraldarinnar. Það á alls ekki við um mörg ríki Afríku eða Asíu. Fulltrúar frá þeim löndum, kannski ekki endilega ríkisstjórnunum en jafnvel frá frjálsum félagasamtökum, hafa lýst verulegum efasemdum um að samningarnir sem eru nú í burðarliðnum í samningalotunni sem hófst í Doha komi til með að nýtast fátækari ríkjum í þessum álfum.

Ég leyfi mér, frú forseti, í þessu sambandi að vitna til orða indverska arkitektsins, rithöfundarins og mannréttindafrömuðarins Arundhati Roy sem hefur ritað margt og mikið um misnotkun vestrænna ríkja á fátækari ríkjum veraldar, svo sem Indlandi. Í bók sinni Power Politics fjallar hún um skeytingarleysi Vesturlanda gagnvart menningu fátækra ríkja veraldar og þörf t.d. Indverja til að afsanna stöðugt skilgreiningu Vesturlandabúa á sér. Þar segir hún eitthvað ógnvænlegt lúra út við sjóndeildarhringinn; það sé ekki stríð, ekki þjóðarmorð, ekki þjóðernishreinsanir, ekki hungursneyð og ekki farsóttir, heldur eitthvað sem hafi á sér andlit hversdagslegra viðskipta. Það skorti dramatíska ásjónu þjóðarmorðanna og hungursneyðarinnar. Það sé litlaust fyrirbæri, búi til lélegt sjónvarpsefni, sýsli með hluti eins og störf, peninga, vatnsbirgðir, rafmagn og landeyðingu, en það hafi líka að gera með tilfærslu eigna á skala sem eigi sér fáar hliðstæður í veröldinni. Þetta fyrirbæri, sem lúrir þarna og ógnar við sjóndeildarhringinn í augum Arundhati Roy, er alþjóðavæðingin, alþjóðavæðing stórfyrirtækjanna og ríku Vesturlandanna, sem að hennar mati eru eingöngu að hugsa um eigin hag.

Frú forseti. Í mínum huga leikur ekki nokkur vafi á því að við eigum að hlusta á rödd Arundhati Roy og annarra mannréttindafrömuða sem fjalla um þessi mál frá sjónarhóli hinna fátæku ríkja, sem þetta fólk þekkir vel af eigin raun og sér hvert stefnir í þessum efnum. Það er ekki allt gott eða jákvætt sem er að gerast í þessum efnum. Íslensk stjórnvöld bera að mínu mati skyldur að þessu leyti. Við þurfum að opna augu okkar fyrir þessum neikvæðu hliðum. Við þurfum að úttala okkur um þær, hafa þessi sjónarmið á hreinu og hafa þau með í ræðum okkar, líka þegar hæstv. utanríkisráðherra flytur ræður sínar í lokuðum sal á Alþingi Íslendinga. Þessi rödd berst líka út í samfélagið. Það skiptir máli að við tölum hreint út í þeim efnum.

Eitt af því sem mér er hugleikið um þessar mundir, af því ég hef getið um mannréttindamálin, eru málefni Mannréttindaskrifstofu Íslands. Við höfum átt nokkrar snerrur um þau mál. Ég hef gagnrýnt íslensku ríkisstjórnina fyrir að vera að gera hrapalleg mistök í því hvernig fjárveitingum til Mannréttindaskrifstofunnar er nú háttað. Ég ítreka að mér finnst það fullkomlega óeðlilegt, og ekki bara mér, að ríkisstjórnin skuli leyfa sér að ætla að vera ritstjóri mannréttindaverkefna á þeim nótum sem hún ætlar sér greinilega með því að auglýsa eftir verkefnum mannréttindasamtaka og ætla að setja upp einhverjar kríteríur sem fjárveitingum verði stýrt eftir. Það er ljóst, af þeim fjárveitingum sem hafa gengið, bæði frá dómsmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu, til mannréttindamála á þessu ári að Mannréttindaskrifstofa Íslands er ekki í náðinni. Þeirra verkefni fá ekki náð fyrir augum hæstv. ráðherra.

Mér finnst það miður og mikil synd að svo skuli vera, sérstaklega þegar litið er til þess að hæstv. ráðherrar fara fögrum orðum um félagasamtökin sem starfa á vettvangi mannréttindamála á Íslandi. Það gera þeir. En Mannréttindaskrifstofa Íslands er regnhlíf þessara frjálsu félagasamtaka sem starfa á sviði mannréttindamála. Mannréttindaskrifstofa Íslands starfar eftir þeim línum sem þau einstöku félagasamtök leggja. Hún hefur ákveðið skilgreint verksvið sem er almennara heldur en hinna einstöku félaga og félagasamtaka. Hún samræmir að hluta til störf þeirra. Hún stendur fyrir ráðstefnum og málþingum og síðast en ekki síst skoðar hún með gagnrýnum huga það sem íslensk stjórnvöld gera í mannréttindamálum, ekki hvað síst hér innan lands.

Hæstv. ráðherra á ekki að kveinka sér undan því þótt hér komi þingmenn og haldi því fram að framferði stjórnvalda í garð Mannréttindaskrifstofunnar litist af hefnigirni. Það vita allir sem vilja vita að Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gagnrýnt íslensk stjórnvöld fyrir frumvörp sem hafa verið lögð fram á síðustu árum, t.d. útlendingalögin. Stjórnvöld fengu á sig mjög harkalega gagnrýni og urðu líka að bakka með ýmislegt sem þau settu fram í því frumvarpi. Þannig hlýtur að vera eðlilegt að menn varpi fram þeirri spurningu og vilji þá fara aftur til fyrra horfs, þ.e. þess horfs sem eðlilegt hlýtur að teljast í þessum efnum, hvort Alþingi eigi ekki sjálft að veita Mannréttindaskrifstofu fé til starfa síns en ekki einstakir ráðherrar. Mannréttindaskrifstofa Íslands á ekki að vera sett undir ritstjórn hæstv. utanríkisráðherra eða hæstv. dómsmálaráðherra. Hún á að fá óumdeilda fjárveitingu frá 63 þingmönnum í þessum sal. Hún á að fá að stjórna sjálf, í gegnum þau félagasamtök sem að henni standa, þeim verkefnum sem hún tekur að sér.

Þetta held ég að stjórnvöld eigi að hafa ofarlega í huga, ekki hvað síst í ljósi þess að nýlega voru send til okkar, frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, tilmæli um að standa okkur betur í að hrista af okkur slyðruorðið í nokkrum tilteknum atriðum er varða mannréttindamál.

Eins og þeim sem hér sitja er kunnugt er mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna m.a. með það verkefni að skoða hvernig ríkisstjórnir aðildarríkjanna standa sig í mannréttindamálum. Við fengum senda skýrslu frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna nú á dögunum nú nýlega. Ég hef kannað það í dómsmálaráðuneytinu en það er ekki búið að láta þýða hana þannig að ég hef ekki opinbera þýðingu á þessari skýrslu. Í henni er að finna nokkrar ávirðingar sem hæstv. ríkisstjórn þarf auðvitað að taka hjarta sínu nær og skoða. Hún þarf að taka sig á í mörgum málum. Ég get nefnt hér, þótt henni sé hælt fyrir ákveðna hluti líka, t.d. að Jafnréttisstofu hafi verið komið á laggirnar og að við reynum að standa vörð um kynbundinn launamun og fleira, að í skýrslunni eru nokkrar ávirðingar sem við þurfum að svara, t.d. þær að íslensk stjórnvöld hafa enn ekki hirt um að lögleiða samning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem hefur verið ákveðin krafa um frá mannréttindasamtökum á Íslandi að þau geri og er orðið sannarlega tímabært.

Jafnvel þó að við höfum talið okkur hafa lögleitt mannréttindaákvæði og mannréttindasáttmála Evrópu þá segir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna að nokkur ákvæði í samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi séu annars eðlis og taki á öðrum málum en mannréttindasáttmáli Evrópu, þannig að hér sé enn verk að vinna fyrir íslensk stjórnvöld.

Sömuleiðis er átalin skilgreining íslensku hegningarlaganna á hryðjuverkastarfsemi. Hún er sögð ónákvæm. Hún er sögð mjög víðtæk. Í þessari skýrslu segir að lögmætum og eðlilegum aðgerðum í lýðræðisríki geti stafað ákveðin hætta af þeim ákvæðum sem íslenska ríkisstjórnin hefur fært hér í lög. Þá er t.d. verið að tala um þátttöku í venjulegum mótmælagöngum og eðlilegum mótmælaaðgerðum. Fyrir þetta er íslenska ríkisstjórnin átalin. Það hefur svo sem verið nefnt áður í þessum sal að þetta ákvæði, sem sett var í lög á sínum tíma varðandi hryðjuverkastarfsemi, sé ámælisvert og þurfi að taka til endurskoðunar. Hér er það staðfest.

Sömuleiðis gerir þessi skýrsla nauðganir að umfjöllunarefni. Menn gera athugasemdir við það að fjöldi tilkynntra nauðgana á Íslandi sé mikill samanborið við fjölda málssókna vegna nauðgana. Nefndin minnir á að þó að sekt verði að vera hafin yfir vafa til að sakfelling geti átt sér stað þá eigi vafinn ekki að vera hindrun í kæruferlinu sjálfu. Það er jú í verkahring okkar að standa vörð um slíka hluti. Það skiptir verulegu hluti að ríkisstjórnin skoði hvers vegna dæmdum málum í nauðgunarmálum fjölgar ekki þegar við sjáum að nauðgunarmálum sem koma inn á borð til lögregluyfirvalda fjölgar. Þeim hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum en enn stendur fjöldi dóma í stað. Þetta gerir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna að umtalsefni í skýrslu sinni.

Nefndin fagnar þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í því augnamiði að styðja við þolendur heimilisofbeldis en lýsir áhyggjum af því að þeim sé kannski ekki nægilega vel fylgt eftir. Þar gera menn sérstaklega að umtalsefni nálgunarbannið og spyrja sig hvort ákvæðið sem við höfum í íslenskum lögum varðandi nálgunarbann sé nægilega virkt og hvort því sé nægilega vel fylgt eftir að það virki sem skyldi.

Nefndinni er kunnugt um þær breytingar á almennum hegningarlögum sem ætlað er að taka á mansali en hún lýsir áhyggjum af því að það virðist vera vaxandi mansal á Íslandi, bæði að Ísland sé það sem kallað er transit-land fyrir mansal og líka eru vísbendingar um að stúlkur sem dansa hér í nektarklúbbum séu tengdar einhverjum glæpahringjum sem stundi mansal til kynlífsþrælkunar. Auðvitað verða íslensk stjórnvöld að hlusta á þessa nefnd sem hefur yfirsýn yfir það sem er að gerast í veröldinni og hefur uppi ákveðið eftirlitshlutverk í þessum efnum. Ég brýni hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnina alla til þess að taka þau tilmæli sem koma frá mannréttindanefndinni alvarlega og sjá til þess að þetta mál verði skoðað ofan í kjölinn og þessum atriðum öllum svarað á málefnalegan hátt hið allra fyrsta.

Virðulegur forseti. Ég sé að ég hef ekki tíma fyrir meira í þessari ræðu í þessari lotu. Ég geyma því fleiri hugmyndir sem ég hafði hugsað mér að reifa til seinni ræðu minnar.



[14:02]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gagnrýndi alþjóðavæðinguna. Fyrir u.þ.b. 20–30 árum var atvinnuleysi í Indónesíu um 50% og þeir sem voru atvinnulausir fengu engar bætur enda ekkert velferðarkerfi þar. Þeir lifðu sem sagt við engar tekjur og voru skínandi fátækir og algjörlega háðir neyðarhjálp fjölskyldumeðlima. Síðan var erlendu fjármagni hleypt inn í landið og nú er nokkuð mikil atvinna í Indónesíu, þar er reyndar enn þá dálítið atvinnuleysi en miklu minna en var. Fólkið fær laun, þó að þau séu reyndar mjög lág á okkar mælikvarða, og það getur lifað. Er þetta eitthvað slæmt í huga hv. þingmanns?

Hv. þingmaður minntist ekkert á Írak og ég saknaði þess. Vill hv. þingmaður enn þá að Saddam Hussein sé við völd og gerir hún lítið úr þeim kosningum þar sem fólk í Írak, almennir borgarar, lögðu sig í lífshættu til að kjósa?



[14:03]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er það ekki slæmt að atvinnuleysi í Indónesíu sé minna nú en það var (Gripið fram í.) og það kann að vera að hluta til afleiðing alþjóðavæðingarinnar. Ég sagði heldur ekki að hún væri alslæm. Ég sagði hins vegar að á henni væru tvær hliðar og við yrðum að opna augu okkar fyrir skuggahliðinni, við mættum ekki alltaf tala eins og allt væri í lukkunnar velstandi í alþjóðavæðingunni því það er ekki svo. Þar eru ámælisverðir hlutir í gangi, misnotkun stórfyrirtækja, eða vill hv. þingmaður að stórfyriræki komist upp með að einkavæða rigningarvatnið eins og gerst hefur í Suður-Ameríku? Finnst hv. þingmanni í lagi að stórfyrirtæki fari svo gjörsamlega út yfir öll velsæmismörk að fátækt fólk í Brasilíu hafi ekki tök á því að drekka vatn? Finnst honum það í lagi? Mér finnst það ekki. Þetta er líka afleiðing alþjóðavæðingar.

Málið er að það eru tvær hliðar á alþjóðavæðingunni. Mér finnst hæstv. ríkisstjórn horfa einhliða á þessi mál og hafa tilhneigingu til að loka augunum fyrir skuggahliðinni. Það vil ég ekki gera, ég vil vinna að því að hæstv. ríkisstjórn opni augu sín fyrir skuggahliðum alþjóðavæðingarinnar.

Varðandi söknuð hv. þingmanns eftir Íraksumræðu þá get ég glatt hann með því að ég á eftir seinni ræðu mína og ef hann hefur biðlund til að sitja í salnum getur hann heyrt sjónarmið mín í þeim efnum. Um það hvort ég hefði viljað að Saddam Hussein sæti enn að völdum þá vísa ég þeirri spurningu á bug, hún er fullkomlega ómálefnaleg. Það sem ég hef ævinlega sagt um Írak er að þar hefði átt að fara að alþjóðlegum samþykktum. Þær voru ekki um það að Saddam Hussein héldi áfram völdum, en þær voru heldur ekki um það að Bandaríkin og Bretland réðust þangað inn til að murka lífið úr óbreyttum borgurum eins og þeir eru búnir að vera að gera.



[14:05]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Afleiðingar alþjóðavæðingar eru í stórum dráttum mjög jákvæðar alls staðar. Vissulega eru til gallar á því eins og öðru og vissulega þarf að standa vörð um að þeir komi ekki upp. Varðandi regnvatn einhvers staðar, það er náttúrlega bara spurning um lagasetningu í viðkomandi landi og hefur ekki nokkurn skapaðan hlut með alþjóðavæðingu að gera. Menn geta lagt undir sig auðlindir og allt mögulegt burt séð frá alþjóðavæðingunni.

Hins vegar um það að ummæli mín um Írak séu ómálefnaleg. Það var jú þannig að menn höfðu beðið Saddam Hussein kurteislega að víkja frá völdum í heilan áratug. Í heilan áratug var búið að samþykkja hverja ályktunina á eftir annarri og aldrei gerðist neitt. Það væri örugglega enn þá svo og þessi maður hefði örugglega ekki orðið við þeirri kurteislegu beiðni að láta af völdum núna frekar en þá. Þetta er því ekki ómálefnaleg spurning og ekki ómálefnaleg ummæli. Ég veit ekki betur en hv. þingmaður hafi aftur og aftur gagnrýnt innrásina í Írak og það segir okkur að ef sú innrás hefði ekki verið framkvæmd væri Saddam Hussein þar enn þá við völd.



[14:06]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er erfitt að eiga málefnaleg skoðanaskipti við hv. þingmann um þetta mál þegar hann hangir í því að þetta sé spurning um hvort ég sé stuðningsmaður Saddams Husseins eða ekki. Ég er ekki stuðningsmaður Saddams Husseins og hef aldrei verið. Ég hef aldrei stutt neina harðstjóra, hvorki í huga mínum né hjarta, og það kem ég vonandi aldrei til með að gera. Þannig horfi ég á málin. Það breytir hins vegar engu um ólögmætt árásarstríð Breta og Bandaríkjamanna í Írak og sjónarmið mín og skoðanir mínar á því árásarstríði. Ég veit t.d. að konur undir stjórn Saddams Husseins höfðu það ekkert mjög skítt. Þær gátu unnið, þær gátu farið í háskóla, þær gátu keypt bíla, en þær geta það ekki í dag. Þær eru bundnar inni á heimilum sínum og þora ekki út fyrir hússins dyr af ótta um líf sitt og barnanna sinna. Þær eru fangar í eigin landi með börnin sín og fjölskyldur sínar að reyna að sjá fyrir þeim og það eru afar veikburða tilburðir. — Hv. þingmaður hristir höfuðið og skælbrosir yfir þessu, en þetta er bara málið eins og það er í dag. Ég hef upplýsingar mínar frá alveg áreiðanlegum heimildum, frá konum sem búa og starfa í Írak. Hv. þingmaður þarf því ekkert að skælbrosa eða hrista höfuðið yfir þessu. En þetta sem ég segi nú er heldur ekki stuðningsyfirlýsing til Saddams Husseins.



[14:08]
Sólveig Pétursdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður Kolbrún Halldórsdóttir talaði um það áðan að konur hefðu notið meiri réttinda þegar Saddam Hussein var við völd. Hvaðan hefur hún þær upplýsingar? Við getum jú sagt sem svo að það hafi verið ákveðið jafnrétti í Írak á þeim tíma vegna þess að allir voru kúgaðir jafnt, jafnt konur sem karlar. En hvers vegna eru konur inni á heimilum í dag? Það er ekki vegna þess að það sé stefna stjórnvalda sem eru kosin á lýðræðislegan hátt. Það er vegna hryðjuverkamanna sem hafa þessi áhrif á borgara í Írak. Þess vegna þarf að taka til höndum og hjálpa fólkinu í þessu ríki við uppbyggingu á borgaralegu samfélagi og efla lýðræði.

Ég stóð hér aðallega upp vegna þess að mér fannst mjög sérstakt hvernig hv. þingmaður talaði um mannréttindamál og spyr hvort hún telji að íslensk stjórnvöld taki ekki alvarlega þær athugasemdir sem hún fór hér yfir, og hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því mati sem er almennt á Íslandi á alþjóðavettvangi, þ.e. að Ísland sé lýðræðisríki þar sem mannréttindi eru höfð í hávegum. Það er það álit sem við njótum. Hún nefndi sérstaklega mál eins og t.d. nauðgunarmál í sambandi við skýrsluna þar sem fjölgað hefur mjög kærum til lögreglu. Ég tel að ástæðan sé sú að við höfum verið með opna umræðu á Íslandi og leitað eftir úrræðum til að taka á þessum málum og sem betur fer hefur það orðið til þess að fórnarlömb í slíkum málum þora að kæra þessi mál. Svo er aftur annað mál ástæðan fyrir því hvers vegna dómar eru færri. Við vitum vel að sönnunarbyrði í slíkum málum er erfið og vissulega þarf að halda áfram að skoða þau mál, (Forseti hringir.) en það er líka verið að gera það.



[14:10]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að íslensk stjórnvöld taki ekki alvarlega þær ábendingar sem koma frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Ég sagði ekkert um það í ræðu minni að ég teldi að þau kæmu ekki til með að taka þær alvarlega. Ég benti bara á að það eru tilefni til þess að gefa íslenskum stjórnvöldum ábendingar og tilmæli af því tagi sem ég fór yfir í ræðu minni. Það hlýtur að vera vegna þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki að öllu leyti staðið sig nægilega vel á hinn alþjóðlega mælikvarða í þeim mannréttindamálum sem þessi nefnd er að skoða. Þessi nefnd skoðar mannréttindamál í öllum ríkjum veraldarinnar, bæði þeim fátæku og þeim ríku. Ríki fá auðvitað mislanga lista af ávirðingum frá þessari nefnd. Ég geri ekki ráð fyrir að listinn sem við fáum sé mjög langur en í mínum huga er hann alvarlegur af því að við eigum að standa okkur betur en svo að við séum yfir höfuð að fá einhverjar ákúrur frá nefndinni. Í mínum huga stendur íslenska ríkisstjórnin sig ekki nægilega vel í mannréttindamálum meðan hún fær tveggja blaðsíðna lista frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um áminningar. Af hverju er ríkisstjórnin ekki búin að lögleiða samninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi? Henni hefur áður verið bent á að það þurfi að gera. Ég held að margt megi betur fara í þessum efnum jafnvel þó að við njótum ákveðins álits hvað þetta varðar í alþjóðasamfélaginu.

Varðandi hins vegar stöðu kvenna í Írak þá var hv. þingmaður á sama fundi og ég með Eve Ensler sem kom hingað til lands fyrir skemmstu og sagði okkur ákveðnar sögur frá fyrstu hendi af konum í Írak. Ég held að það sem ég sagði varðandi stöðu þeirra nú og fyrr sé alveg í takt við það sem hún sagði okkur, þannig að við höfum tekið þessa umræðu annars staðar en í þessum sal. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef, sem koma úr fleiri en einum ranni, þá tel ég mig ekki fara með neitt fleipur (Forseti hringir.) í því sem ég sagði í ræðu minni.



[14:13]
Sólveig Pétursdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þori að fullyrða að við stöndum okkur mjög vel á Íslandi í samanburði við önnur ríki í mannréttindamálum. Við tökum þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum, við skilum reglulega skýrslum um framkvæmd mannréttindasamninga sem við erum aðilar að.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega mansalsumræðuna áðan. Ef við lítum aðeins á hvað hefur verið gert hér á landi í þeim efnum þá er það ábyggilega meira en gert hefur verið í flestum ríkjum. Hún nefndi sérstaklega ákvæði í hegningarlögum. Það er sérstakt ákvæði sem gerir mansal refsivert í íslenskum hegningarlögum. Við erum líka aðilar að Palermo-samningnum sem er mjög mikilvægur í því að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, sem mansalið einmitt er, og það skiptir mjög miklu máli að hafa samhæfða lögfræðilega skilgreiningu á þessum glæp þannig að hægt sé að berjast gegn honum.

Við tókum þátt í norrænu samstarfi sem fjallaði sérstaklega um baráttu gegn mansali. Gefnar voru út tvær skýrslur um þessi mál, bæði í sambandi við vændi og mansal sem er auðvitað oft tengt saman. Í seinni skýrslunni var líka komið með margvíslegar tillögur til úrbóta sem unnið hefur verið að. Ég vil vísa þessari umræðu á bug og endurtaka að ég tel að við stöndum okkur mjög vel í þessum málum og að Ísland sé í hávegum haft sem lýðræðisríki þar sem mannréttinda er gætt í hvívetna.



[14:14]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað ekkert óeðlilegt við það að hv. þingmaður, formaður utanríkismálanefndar, reyni að verja ríkisstjórnina í þessum efnum og halda fram ágæti hennar hvað þetta varðar og ég dreg ekkert úr því að við höfum gert ýmislegt, við erum búin að vera dugleg að ýmsu leyti. En að sumu leyti höfum við ekki gengið nægilega langt að mínu mati. Þar er t.d. mansalið eitt atriði í þessum efnum.

Við vitum núna eftir upplýsingar frá lögreglu að erlendum konum fjölgar á nuddstofum sem kenna sig við erótík, þeim fjölgar í dansklúbbunum sem eru enn þá til staðar illu heilli og bara þetta eru vísbendingar um að mansalið geti verið hér án þess að við vitum af því eða án þess að við opnum augu okkar fyrir því. Í mínum huga er því ekki verið að gera nægilega mikið meðan við höfum vísbendingar af þessu tagi.

Eitt af því sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna bendir okkur á er að við þurfum að taka okkur á í þessu efni. Það nægir ekki að hafa þá grein sem sett var inn í hegningarlögin, það þarf meira til. Eitt af því sem við þurfum að gera er að opna augu okkar fyrir því að það þarf að tengja vændi og mansal saman. Í hvaða tilgangi eru konur seldar á milli landa? Í þeim tilgangi að stunda vændi. Íslensk stjórnvöld hafa lokað augum sínum fyrir því og halda að hægt sé að fjalla um mansal sem einangrað fyrirbæri en í mínum huga er það alls ekki hægt.

Varðandi Palermo-samninginn, það er alveg rétt, við erum aðilar að honum og við hv. þingmaður höfum átt orðaskipti um hann áður í þessum sal. En hvers vegna erum við ekki búin að lögleiða hann? Hvers vegna er ekki búið að innleiða ákvæði Palermo-samningsins í íslensk lög? Það er ein af þeim ávirðingum sem íslenska ríkisstjórnin á fyllilega skilið að fá úr þessum ræðustóli. Ég krefst þess að íslenska ríkisstjórnin fari að lögleiða Palermo-samninginn. Það þýðir ekkert að veifa honum og monta sig af honum ef hann fær ekki lagagildi á Íslandi.



[14:17]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera um margt athyglisverð umræða hér í dag og ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir góða og gagnmerka ræðu. En ég verð að segja nákvæmlega eins og er að þessi síðasta umræða er búin að vera um margt athyglisverð.

Það er náttúrlega alveg ótrúlegt og ég held að það hljóti, virðulegi forseti, að vera séríslenskt að til séu stjórnmálamenn í hinum vestræna heimi og þó víðar væri leitað sem eru að reyna að gera sérstakan kvenréttindafrömuð úr Saddam Hussein. Það liggur alveg fyrir að báðir alþýðubandalagsflokkarnir, Vinstri grænir og Samfylkingin, hafa gert þetta hér úr þessum ræðustóli og annars staðar. Hér talaði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir um það hreinlega að þetta hefði nú verið betra þegar Saddam Hussein hefði verið hvað varðaði konur í Írak og sagði að konur gætu ekki farið núna út úr húsi í Írak.

Virðulegi forseti. Ég vil benda á að í nýrri ríkisstjórn Íraks eru sjö konur. Og ég vil benda á að milljónir manna hættu lífi sínu við að fara út úr húsi til að greiða atkvæði í síðustu kosningum í Írak, bæði karlar og konur. Ég held að stjórnarandstöðunni væri nær að tala ekki eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði og nefndi — ég skrifaði það niður eftir honum — að kosningarnar í Írak hefðu verið í skötulíki, þegar milljónir manna hættu lífi sínu þar sem búið var að hóta því og að einhverju leyti var framkvæmt að þeir sem tækju þátt í kosningunum mundu jafnvel gjalda þess með lífi sínu af hálfu hryðjuverkamanna. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom hér upp og sagði að þetta hefðu verið kosningar í skötulíki. Í sama andsvari talaði hann um að hann bæri virðingu fyrir fólki. (ÖJ: Það ber enginn virðingu fyrir hernámi.) Sá aðili, virðulegi forseti, sem segist bera virðingu fyrir fólki og kallar það að það hætti lífi sínu fyrir einhverjar kosningar í skötulíki, ég segi að slíkur málflutningur gangi ekki upp. Kaldi raunveruleikinn er sá að ef alþýðubandalagsflokkarnir hefðu haft sitt fram væri Saddam Hussein enn þá við völd í Írak, það liggur alveg fyrir.

Í ræðu hæstv. utanríkisráðherra er farið yfir nokkra þætti, m.a. öryggismálin. Nú er það ekki svo að sá sem hér stendur sakni kalda stríðsins, því fer víðs fjarri, en það liggur hins vegar alveg fyrir að þær ógnir sem við stöndum frammi fyrir í dag, þó að þær séu allt öðruvísi, eru í raun engu minni en þær voru þá. Það var að mörgu leyti einfaldara að átta sig á ógninni þegar kalda stríðið var, en núna stöndum við frammi fyrir því að með tiltölulega lítilli fyrirhöfn geta aðilar, hópar, komið sér upp kjarnorkuvopnum og öðrum gereyðingarvopnum og hika ekki við að beita þeim gegn saklausu fólki eins og við þekkjum.

Ég styrkist alltaf í þeirri trú minni, það tengist því að hér var rætt um þróunarmálin, og ég tek undir það með þeim þingmönnum sem talað hafa úr flestum flokkum og sömuleiðis hæstv. utanríkisráðherra, að það er afskaplega mikilvægt og er siðferðileg skylda okkar að reyna að bæta hag þeirra jarðarbúa sem hafa hvað minnst, því að það er svo sannarlega stór hluti þeirra sem hefur það skelfilegt. Og það er skelfilegt á okkar tímum að horfa fram á að jafnvel milljónir manna á ári hverju deyi úr hungri og hafi ekki í sig og á. (Gripið fram í.)

En ég styrkist í þeirri trú minni að mjög erfitt sé að koma á öryggi og friði í heiminum og mannsæmandi lífskjörum nema mannréttindi séu virt í viðkomandi löndum. Það er auðvitað umhugsunarefni og við hljótum að líta til þess sem kemur fram í ræðu hæstv. ráðherra, og ég vil leyfa mér að vitna í, með leyfi forseta:

Þar segir: „Það veldur áhyggjum þegar horft er til pólitískrar og efnahagslegrar þróunar víða um heim á undanförnum áratugum hversu ríkin í Afríku sunnan Sahara hafa almennt staðið í stað eða þeim jafnvel hrakað þrátt fyrir stórfellda þróunaraðstoð. Árið 1990 höfðu 227 milljónir Afríkubúa undir einum bandaríkjadal til framfærslu á dag en áætlað er að árið 2015 verði fjöldinn að óbreyttu komin í 340 milljónir.“

Þetta segir okkur að augljóslega er ekki sama hvernig staðið er að málum og við sjáum svo sem mýmörg dæmi víðs vegar um heiminn um að það fer mjög mikið eftir því hvernig stjórnarfar er í viðkomandi landi og hvernig menn haga sér líka í innanlandsmálum hvernig til tekst. Við sjáum ýmis dæmi um ríki sem hafa verið á fátækum svæðum sem hafa samt sem áður komið málum þannig fyrir að þeim hefur vegnað vel.

Ég lít svo á að það sé líka siðferðileg skylda okkar, fyrir utan að það er okkar hagur eins og allra, að stuðla að fríverslun í heiminum. Ég er afskaplega sáttur við það að sjá og geta tekið einhvern veginn þátt í því á vettvangi EFTA, þar sem ég sit í þingmannanefnd EFTA, að EFTA hefur verið kröftugt og sérstaklega á síðustu missirum í að klára fríverslunarsamninga við ýmis lönd. Í ræðu hæstv. ráðherra er einmitt farið yfir hvað EFTA hefur verið að gera í Asíu. Svo sannarlega finnst mér líka mikið fagnaðarefni að við séum að tengjast vinum okkar og frændum Færeyingum styrkari böndum með fríverslunarsamningi. Ég tel að því meiri samskipti sem við höfum við þessa vini okkar, Færeyinga og Grænlendinga, því betra og við eigum alveg sérstaklega að rækta samskipti okkar við þær góðu þjóðir. Þó svo að við eigum eðli máls samkvæmt ekkert að binda okkur við það, við eigum að hafa góð samskipti við allar þjóðir, en það að rækta frændsemina við þessar þjóðir finnst mér vera mjög mikilvægt. (Gripið fram í: Hvað með Kanada?)

Ég tel, og það kemur fram í ræðu hæstv. ráðherra, að grundvöllurinn að velgengni okkar á undanförnum árum og við getum í rauninni litið á meira en undanfarin ár, við höfum tilhneigingu til þess að gleyma að um aldamótin 1900 vorum við fátækasta þjóð í Evrópu að því er talið var, en núna stöndum við hins vegar í allt öðrum sporum. Við höfum gert þetta m.a. með ákveðnum breytingum á íslensku efnahagslífi og breytingum sem ég vonast til að gangi aldrei til baka, þ.e. með auknu frjálsræði í efnahagslífinu, lækkun skatta, einkavæðingu og öðru slíku. Það er okkar lán að við höfum haft stjórnmálamenn sem hafa þorað að koma þeim breytingum áleiðis.

Ég sé fram á að næstu skref hjá okkur, þó að við séum ekkert búin hvað það varðar, þá held ég að það væri markmið í sjálfu sér að við reyndum að skilgreina betur viðskiptastefnu Íslands og á einhverju árabili mundum við halda áfram að lækka tolla og vörugjöld, eins og þó hefur verið gert, og jafnvel að hafa það sem markmið að afleggja þá á sem flestum vöruflokkum algjörlega. Ég held að það mundi bara ýta undir viðskipti og hagvöxt hér og þá held ég að ekki sé nauðsynlegt að binda okkur við samninga Alþjóðaviðskiptastofnunar, WTO, eða aðra þá viðskiptasamninga sem við gerum því að það er hagur þeirrar þjóðar sem opnar lönd sín fyrir viðskiptum að gera slíkt. Þá er ég ekki að vísa til þess að það eigi við alla hluti. Stærsti hlutinn af vörugjöldum er af ökutækjum, bensíni og dísilolíu, sömuleiðis áfengisgjald og tóbaksgjald. Ég átta mig alveg á því að það gilda öðruvísi hugmyndir á bak við þau gjöld. Til dæmis eru áfengis- og tóbaksgjöld partur af öðrum hugmyndum, heilbrigðisforsendum og öðru slíku, og ætla ég ekki að ræða það nú. Sömuleiðis veitir okkur ekki af fjármunum sem við nýtum af vörugjöldum af ökutækjum og eldsneyti til að byggja upp vegakerfi okkar, því að þó að við höfum náð byltingu á undanförnum árum hvað það varðar er enn þá mjög mikið eftir. Við erum fámenn þjóð í stóru landi og þar eru stór verkefni fram undan og ég sé ekki að þau klárist á næstu árum þótt við héldum áfram með sama krafti og við höfum gert fram til þessa.

Ég held að mjög æskilegt sé að við ræðum á vettvangi þingsins hvernig við viljum standa okkur í þróunaraðstoð og hvernig við viljum standa að henni. Það er augljóst að ekki hefur allt gengið upp hjá Vesturlöndunum hvað það varðar. Ég vitnaði í klásúlu úr ræðu hæstv. ráðherra sem er bara ein enn staðfestingin á því að þrátt fyrir að menn hafi staðið að aðstoð hefur það ekki skilað sér. Það er auðvitað til lítils ef það skilar sér ekki til þessa fátæka fólks í þessum heimshlutum og við verðum því að vera gagnrýnin á það hvernig við stöndum að þróunaraðstoð.

Á síðasta þingi fór ég til New York í aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna og fylgdist þar með störfum þingsins. Það var um margt mjög athyglisvert. Það var t.d. mjög athyglisvert að heyra fulltrúa frá Afríku ræða þar þessi mál. Mér er minnisstætt þegar fulltrúar þeirra ríkja héldu þar miklar ræður sem í stuttu máli gengu út á að það þýddi lítið að vera að hugsa um einhverja þróunaraðstoð, hún væri góð og blessuð og sjálfsagt og mikilvægt að standa að henni, en vesturveldin, ríku þjóðirnar þyrftu að opna markaði sína ef ætti að koma málum þannig fyrir að menn gætu lifað sómasamlegu lífi í þessum löndum og að þær þjóðir yrðu efnahagslega sjálfstæðar í raun.

Við þurfum ekki annað en að líta til okkar eigin lands og setja okkur í þau spor að við sem erum fyrst og fremst útflutningsþjóð, þó svo að við séum að skjóta styrkari stoðum undir efnahagslífið og fleira, byggjum enn þá afkomu okkar að mjög stórum hluta á útflutningi á matvælum, í þessu tilviki fiski, og við værum ekki með þau lífskjör sem við erum með í dag ef markaðir hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við væru lokaðir fyrir vörur okkar, það er bara svo einfalt. Ef menn væru með gríðarlega tolla og vörugjöld á þeim vörum þá væri erfitt að halda uppi lífskjörum hér á Íslandi. (Gripið fram í.) Það liggur þess vegna alveg fyrir að við þurfum að líta gagnrýnin á slíka þætti hjá okkur. Ég efast ekki um að alger samstaða er meðal þingmanna og þjóðarinnar að reyna að hjálpa vinum okkar sem búa víðs vegar um heiminn og búa við mismunandi lífskjör, sum mjög slæm, en það er ekki sama hvar það er gert og hvernig. Einn þáttur í því að bæta lífskjör þeirra er að opna markaði okkar fyrir þeirra vöru. Við eigum eðli málsins samkvæmt að huga að því hvernig við getum haft gott fordæmi í þeim efnum. Ég átta mig alveg á að þar koma inn mörg sjónarmið og í mörg horn er að líta í því efni, en maður mundi ætla að það að lækka innflutningshöft, hvaða nöfnum sem þau nefnast, á ýmsum vörum, ég tala nú ekki um á vörum sem eru ekki einu sinni framleiddar hér á landi, hlyti að vera skref í rétta átt, bæði gott fyrir íslenskt efnahagslíf og svo sannarlega mundi það hjálpa því fólki sem stendur að framleiðslu á slíkum vörum.



[14:31]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er leiður plagsiður hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að leggja okkur, sem höfum leyft okkur að andæfa innrásinni í Írak, orð í munn. Hér kemur hv. þingmaður gapandi upp í ræðustól og heldur því fram að ég hafi sagt að Saddam Hussein hafi verið afskaplegur kvenréttindafrömuður. Hvenær sagði ég það? Ég sagði það ekki. Ég hef aldrei hugleitt það að hann hafi verið kvenréttindafrömuður, mér dettur það ekki í hug. Ég veit alveg við hvaða misrétti konur í arabalöndunum búa. Hins vegar leyfði ég mér að segja að konur í Írak kvarta undan ástandinu sem er í dag og segja fullum fetum: Við höfðum það ekki svona slæmt meðan Saddam Hussein var við völd, áður en innrásarherir Bandaríkjamanna og Breta ruddust hér inn. Það er ekki þar með sagt að þær hafi haft það afskaplega gott. Það sagði ég ekki. En í dag er það þannig að konur hætta sér ekki út á götur, þær vilja ekki sjá börnin sín úti á götum, þær eru fangar inni á eigin heimilum.

Þannig er það. Ástandið fyrir þessar konur hefur ekki skánað. Það hefur versnað. Ég var ekki að tala um neitt annað í andsvari mínu áðan við hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur því enga ástæðu til að leggja meira út af orðum mínum eða leggja mér orð í munn á þann hátt sem hann gerði hér áðan.

Hvers vegna þurfa almennir borgarar í Írak að hætta lífi sínu þó að þeir fari út að kjósa? Hvers vegna er það? Það er vegna þeirrar ógnaraldar sem þar ríkir nú. Sú ógnaröld er hönnuð og sköpuð af innrásarliðinu breska og bandaríska undir stjórn Bush og Blairs. Það er ekki lengra síðan en örfáir dagar að íröksk þingkona — hv. þingmaður vill gera mikið úr að nú séu sjö konur á írakska þinginu — var myrt á heimili sínu.

Konum í Írak er ekki óhætt.



[14:34]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að því sé til haga haldið sagði ég að sjö konur væru í íröksku ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) Bara til að upplýsa hv. þingmann gat fólk ekki, hvorki konur né karlar, kosið í landi Saddams Husseins. Svo einfalt er það. Það liggur alveg fyrir hreint og klárt að ef alþýðubandalagsflokkarnir á þingi hefðu haft sitt fram, Vinstri grænir og Samfylkingin, væri Saddam Hussein enn þá við völd. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hér kemur hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir upp, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og þau eru að reyna að sannfæra okkur um það með einstöku dæmum að konur hafi haft það betra þegar Saddam Hussein var við völd. Ef hv. þingmenn vilja gera það gera þeir það bara. Það er ekkert flóknara. En ég held að það sé ekki til neitt skýrara dæmi um það hversu vonlítill málflutningur þeirra er. Ef þau halda hér ræðu eftir ræðu þar sem þau leggja áherslu á að konur hafi haft það miklu betra hjá Saddam Hussein leyfi ég mér að halda því fram að þau séu að reyna að gera Saddam Hussein að ákveðnum kvenréttindafrömuði. Svo einfalt er það. (Gripið fram í.)

Ég vil benda á það, sem er frekar augljóst, að konur jafnt sem karlar í Írak eru í fyrsta skipti að fá rétt til að kjósa. Þrátt fyrir að hryðjuverkamenn hafi hótað að drepa þau ef þau mundu kjósa komu þau milljónum saman til að kjósa. Milljónum saman.



[14:36]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Konur í Írak eins og allir aðrir borgarar í Írak vildu breytt líf, vildu nýtt líf, vildu bætt líf, en þær hafa ekki fengið það. Borgararnir hafa ekki fengið lýðræði. Þeir hafa ekki fengið öryggi. Þeir hafa ekki fengið það sem bandalagsþjóðirnar voru að lofa upp í ermarnar á sér að fólk mundi fá. Óöldin sem ríkir í stríðinu í Írak er þvílík að fólki er ekki lengur óhætt. Eins og ég er búin að segja hér aftur og aftur vogar fólk sér ekki út á götu og ef það gerir það samt á það á hættu að týna lífinu.

Þó svo að það fái að kjósa einhverja ríkisstjórn sem er með herkjum hægt að skrapa saman á þessum nótum sem gert hefur verið er ekki þar með sagt að menn séu hér bara í lukkunnar velstandi og allt sé orðið fínt og gott. Menn mega ekki láta eins og svo sé. Það er oft og tíðum eins og hv. þingmaður og aðrir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins haldi að nú sé bara beinn og breiður vegur í Írak og lýðræðið handan við hornið. Það er ekki þannig.

Það sem hefði þurft að gera í Írak var ekki að ráðast inn með menn gráa fyrir járnum á þeim nótum sem gert var. Það er hægt að beita öðrum aðferðum. Meðal annars hafa konur í Írak bent á það að aðrar aðferðir hefðu verið farsælli til að koma Saddam Hussein frá völdum en með aðferðum herjanna sem vinir hv. þingmanns beittu.

Svo vil ég bara að lokum segja, virðulegi forseti, að það að hv. þingmaður skuli standa í ræðustóli árið 2005 og tala um alþýðubandalagsflokkana á þingi lýsir engu öðru en hans eigin skringilegheitum, vil ég segja, því að sjálf hef ég aldrei verið í neinum flokki sem heitir þessu nafni. Ég er í flokki sem heitir Vinstri hreyfingin – grænt framboð. (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmann að kenna mig við þann flokk og engan annan því að í engum öðrum flokki hef ég setið en þeim.



[14:38]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af þessu varðandi alþýðubandalagsflokkana. Ég skil vel að hv. þingmenn séu viðkvæmir fyrir því að þeir séu kenndir við þann flokk. Ég er stundum kallaður íhaldsmaður og þá er verið að vísa til þess að fyrirrennarar Sjálfstæðisflokksins voru Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn og þeir sameinuðust árið 1929. Ég upplýsi það hér með að ég var aldrei í Íhaldsflokknum en það er ekkert til að skammast sín fyrir að vera tengdur þeim flokki.

Hins vegar liggur alveg fyrir að bæði Vinstri grænir og Samfylkingin eru komin frá Alþýðubandalaginu en ég skil vel að það sé viðkvæmt að minnast á það. Ég hef ekki tíma í andsvarinu til að fara yfir það allt saman — þótt ég hefði allan sólarhringinn mundi það ekki nægja mér.

Ég hef gaman af því hvað hv. þingmaður er algjörlega með það á hreinu hvaða skoðanir konur í Írak hafa, hvorki meira né minna. Ég man ekki hversu margar milljónir þær eru. Þær augljóslega tala allar einum rómi. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er algjörlega með það á hreinu hvaða skoðun það er.

Ef menn trúa því, virðulegi forseti, að það hefði verið hægt að tala Saddam Hussein til og biðja hann kurteislega um að hætta að stýra landinu er það auðvitað bara þannig. Ég hef sjálfur ekki nokkra trú á því að svo hafi verið. Ég veit ekki hvaða öðrum aðferðum var hægt að beita til að koma honum frá. Ég veit ekki til þess að neinn hafi komið með slíkar hugmyndir sem væru framkvæmanlegar.

Virðulegi forseti. Enginn hefur haldið því fram að allt sé slétt og fellt og orðið eitthvað fullkomið í Írak. Því ferð víðs fjarri. Við skulum vona að þessi fyrstu skref sem voru stigin í lýðræðisátt — ég vil ekki gera lítið úr lýðræðinu í Írak og mér þykir algjör vansæmd við þetta fólk sem var að hætta lífi sínu með því að taka þátt í kosningum að gera það. Þetta er mjög merkilegt skref.



[14:40]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér upp í tvennum tilgangi, í fyrsta lagi að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir málefnaleg ummæli um nauðsyn þróunarsamvinnu. Það styður það sem áður hefur verið sagt í dag í þessari umræðu og einnig væntanlega þau stefnumið sem hæstv. utanríkisráðherra lagði fram.

Hv. þingmaður gerði einnig að sérstöku umtalsefni það sem hæstv. ráðherra hafði áður sagt um pólitískt ástand og ástandið í sunnanverðri Afríku, Afríku sunnan Sahara eins og stundum er sagt. Vissulega er það ekki gott. Þar hefur spilling vaðið uppi, kúgun, harðstjórar og þar fram eftir götunum, því miður, í allt of mörgum löndum. Eitthvert versta dæmi sem við höfum um það núna er Robert Mugabe sem einu sinni var frelsishetja en hefur núna kúgað þjóð sína til ólífis, liggur mér við að segja.

Það er önnur ástæða, frú forseti, fyrir ástandinu í þessum löndum, alnæmisfaraldurinn. Hann herjar á Afríkubúa með þeim áhrifum og þeim árangri — sem náttúrlega er ekki árangur — að það er eins og að stríð herji í hverju landi vegna þess hverjir falla fyrir alnæminu. Það er unga fólkið og það eru foreldrarnir. Það eru milljónir munaðarlausa barna í Afríku sunnan Sahara. Það er talið að núna sé 15 milljón börn í Afríku undir 18 ára aldri munaðarlaus vegna alnæmisins og að þau verði árið 2010 a.m.k. 18 milljónir, munaðarlausu börnin. Það eru 25 milljónir sýktar af HIV-veirunni. Það sem er verst í þessu, þó að það sé með örfáum undantekningum, er að ekki hefur verið gripið til aðferða sem duga, því miður.



[14:43]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir andsvar hennar. Það er í sjálfu sér erfitt að svara því þar sem það var ekkert í því sem ég var sérstaklega ósammála. Ég held að við séum sammála um þetta verkefni sem fram undan er. Við Íslendingar þurfum að leggja lóð okkar á vogarskálarnar.

Þetta sem hv. þingmaður nefndi varðandi alnæmisfaraldurinn er skelfilegra en orð fá lýst. Án þess að ég ætli að reyna að gera mig að nokkrum sérfræðingi í því veit ég bara það litla sem ég hef lesið um þær aðstæður og ástæður sem eru vægast sagt hrikalegar. Þessi álfa hefur stundum verið kölluð, svo að ég vísi í ensku, virðulegi forseti, „the lost continent“ sökum þess hve hægt hefur gengið þrátt fyrir ýmsa tilburði til að laga ástandið þar. Ég fór einu sinni til Suður-Afríku þegar ég var í stjórn aþjóðasamtaka ungra mið- og hægrimanna. Einhverra hluta vegna var mér falið að fylgjast með Afríku og hjálpa þar til við að stofna samtök. Bara það að fylgjast með, það að hitta þetta fólk og heyra frá fyrstu hendi, ræða hlutina í heimalandi þess, varð mér mjög minnisstætt. Þó að ekki væri annað en bara að kveikja á sjónvarpinu og fylgjast með fréttatímanum og sjá hvað var í gangi þar, í samanburði við það sem maður sér í öðrum löndum, er lífsreynsla út af fyrir sig. Það eru svo ofsalega mörg vandamál sem þarf að taka á í þessum heimshluta. Þó að sem betur fer sé líka vin í eyðimörkinni eru stór verkefnin þar.



[14:46]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að andsvör megi einnig nota til uppbyggilegra ummæla og umræðu á hinu háa Alþingi og vona að ég hafi ekki rangt fyrir mér í því. Það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði í sínu svari undirbyggir það sem reynt hefur verið að benda á í þessari umræðu um nauðsyn ekki bara þróunarsamvinnunnar heldur þess að verkefnavalið sé gott og framkvæmdaáætlunin liggi fyrir. Það eru mörg verkefni, mjög mörg verkefni.

Baráttan gegn útbreiðslu alnæmis er eitt af því mikilvægasta sem við getum unnið að og það er án nokkurs vafa það verkefni sem, held ég, leggur ríkustu skyldur á herðar alþjóðasamfélagsins nú um stundir því þessi faraldur eirir engum og hann kemur verst niður á þeim sem minnst mega sín eins og tölurnar um munaðarlaus börn í sunnanverðri Afríku segja okkur. Ég vil hvetja hv. þingmenn — við höfum held ég öll fengið skýrslu frá UNICEF sem ber heitið Barnæskunni ógnað eða Childhood under threat — að kynna sér umfjöllunina um alnæmi og áhrif þess á barnæsku afrískra barna og taka svo vandaða afstöðu til þess hvaða verkefni við eigum að styðja helst í þróunarsamvinnu við önnur lönd.



[14:46]Útbýting:

[14:47]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur hér lagt fram sína árlegu munnlegu skýrslu um utanríkismál, farið þar víða um, en ekki djúpt kannski í hvern hlut fyrir sig frekar en við er að búast í stuttri skýrslu eins og þessari.

Ég ætla á þeim skamma tíma sem gefinn er til að ræða efni skýrslunnar aðallega að fjalla um tvö atriði hennar, annars vegar Íslensku friðargæsluna og kannski helst stöðu þeirra einstaklinga sem gegna þar störfum og hins vegar langar mig að fara aðeins yfir og ræða við hæstv. utanríkisráðherra um viðræður okkar eða viðræðuleysi við stjórnvöld í Bandaríkjunum um varnarsamninginn milli Íslands og Bandaríkjanna og um starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Það fylgir því alltaf ákveðin eftirvænting á hverju ári þegar utanríkisráðherra leggur fram skýrslu sína hér að sjá á hvaða málefni og hvaða hluti hæstv. ráðherra leggur áherslu og kannski ekki síður vekur oft athygli það sem ekki er í skýrslunni. Maður veltir þá fyrir sér af hverju ekki er farið dýpra í sum mál en raun ber vitni.

Ég ætla að byrja á því, frú forseti, að fara aðeins í gegnum það sem snýr að Íslensku friðargæslunni í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Það kemur fram í henni að nú eigi að senda hóp íslenskra friðargæsluliða til starfa í norður- og vesturhluta Afganistans. Það kom líka fram að unnið er að því að semja frumvarp til laga um Íslensku friðargæsluna og búa til siðareglur fyrir liðsmenn hennar. Í skýrslunni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Eftir að síðustu starfsmenn Íslensku friðargæslunnar fara frá alþjóðaflugvellinum í Kabúl eftir rúman mánuð, mun Ísland hefja þátttöku í endurreisnarsveitum í norðurhluta Afganistans með Norðmönnum og Finnum og í vesturhlutanum með Litháum, Lettum og Dönum. Gert er ráð fyrir að framlag Íslands á hvorum stað verði tveir sérbúnir jeppar og átta til níu manns.“

Það kemur líka fram, og hæstv. ráðherra nefnir það í þessum kafla og í því samhengi sem hér er verið að tala um, að unnið sé að því að semja frumvarp til laga um Íslensku friðargæsluna. Ég verð að segja alveg eins og er að það er í raun óskiljanlegt miðað við hvernig Íslenska friðargæslan hefur verið að þróast að ekki sé fyrir löngu búið að leggja fram slíkt frumvarp til að ná utan um starfsemi friðargæslunnar eins og hún er. Það hlýtur að vera óþolandi staða fyrir þá sem starfa í friðargæslunni að vita í raun ekki með skýrum hætti um sína stöðu, um sína stöðu gagnvart lögum, um til hvers er af þeim ætlast og eftir hvaða reglum þeir eiga að starfa.

Mér finnst, frú forseti, í raun með ólíkindum að heyra nýjustu fréttir um að liðsmenn friðargæslunnar séu ekki tryggðir á eins yfirgripsmikinn og góðan hátt og mögulegt er við störf sín erlendis í öllum aðstæðum, alltaf, alls staðar, nýjustu fréttir um að friðargæsluliðar sem særðust í Chicken Street í Kabúl þurfi nú að reyna að sækja tryggingar til Tryggingastofnunar ríkisins og upplifa þar höfnun vegna þess að þeir hafi ekki verið tryggðir í frítíma eins og það er kallað. Ég efast ekkert um að starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins reyna að fylgja þeim reglum sem þeim hafa verið settar og þeir þurfa að vinna eftir sérstaklega ef það er rétt sem fram hefur komið í fréttum að utanríkisráðuneytið virðist hafa látið Tryggingastofnun í té þá túlkun að liðsmenn friðargæslunnar hafi verið í fríi við þær aðstæður sem þeir lentu í.

Ég verð að segja, frú forseti, að hæstv. utanríkisráðherra verður að taka strax á þessu máli, eyða allri óvissu þessara manna um eðlilegar bætur fyrir líkamstjón og miska. Svona mál eiga að mínu viti ekkert erindi í hinu almenna tryggingakerfi Tryggingastofnunar ríkisins. Þrátt fyrir góð orð hæstv. ráðherra hér við skýrsluflutning sinn um að þetta mál þyrfti að skoða, þetta mál væri í farvegi þá er ekki hægt að mínu viti að beina þessum mönnum í þann farveg að sækja um, eins og hver annar sem orðið hefur fyrir vinnuslysi, til Tryggingastofnunar ríkisins og láta jafnframt fylgja miða um að þeir hafi nú ekki verið í vinnunni heldur í fríi. Síðan þurfa þeir að sæta því að reyna að sækja sinn rétt frekar til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Mér finnst þetta í raun lýsa virðingarleysi fyrir þeim störfum sem þetta fólk er að inna af hendi fyrir okkur hina á erlendri grundu við hættulegar aðstæður. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. utanríkisráðherra taki á þessu máli. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra segi eins og hann hefur áður sagt: „Svona gera menn ekki.“ Hæstv. ráðherra hefur örugglega það afl og þá stöðu sem þarf til þess að koma þessum málum í eðlilegt horf og það strax þannig að það þurfi ekki að velkjast í almannatryggingakerfinu með öllum þeim málum sem þar eru.

Annar kafli í ræðu hæstv. ráðherra sem ég bíð alltaf spenntur eftir er kaflinn um varnarsamvinnuna við Bandaríkin og hvernig gengur í þeim viðræðum sem fyrir dyrum hafa staðið við Bandaríkjamenn um framtíð varnarsamningsins.

Ég bað hæstv. ráðherra um utandagskrárumræðu 16. nóvember í fyrra þar sem ég óskaði eftir því að ræða við hæstv. ráðherra um framtíð varnarsamningsins og hvernig gengi að eiga samskipti við Bandaríkjamenn út af honum. Hæstv. ráðherra hefur ekki enn séð sér fært að eiga þessa umræðu við mig utan dagskrár og þar sem þingið er að verða búið og því fer að ljúka innan nokkurra daga sé ég mér ekki annan kost færan en að ræða þetta að einhverju leyti nú undir skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Ég verð þó að segja eins og er að ég skil það betur nú en áður þegar ég sé skýrslu hæstv. ráðherra og átta mig á því hversu hrikalega lítið er í raun að frétta af þessum málum að hann hafi ekki viljað taka þessa umræðu á Alþingi vegna þess að í raun hefur ekkert verið að gerast og ekkert er að frétta. Ég skil ekki endalaust langlundargeð og mér liggur við að segja undirlægjuhátt íslenskra stjórnvalda gagnvart bandarískum stjórnvöldum í þessu máli þegar ekkert er að gerast.

Við stöndum nú hér 29. apríl árið 2005. Þá segir í skýrslu hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Um nokkra hríð hefur staðið til að viðræður hæfust milli Íslands og Bandaríkjanna um varnarmálin, en það hefur dregist. Því valda tafir sem hafa orðið á undirbúningi bandarískra stjórnvalda fyrir viðræðurnar. Sem fyrr liggur til grundvallar af Íslands hálfu að hér á landi þurfi að vera lágmarksvarnarviðbúnaður. Jafnframt eru stjórnvöld reiðubúin að semja um það við Bandaríkjamenn hvernig Íslendingar geti tekið meiri þátt í kostnaði við rekstur Keflavíkurflugvallar.“

Þetta er í raun kaflinn um varnarsamvinnuna eða varnarsamninginn og hver staðan er í honum.

Mig langar, með leyfi forseta, að fara aftur til 29. apríl ársins 2004, þ.e. akkúrat eitt ár frá deginum í dag, en þá spurði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hæstv. þáverandi utanríkisráðherra hvort eitthvað væri að frétta af þessum viðræðum við Bandaríkjamenn eða viðræðuleysi eins og hv. þingmaður kallaði það. Þá svaraði hæstv. þáverandi utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson að því miður biðum við enn eftir frekari viðbrögðum Bandaríkjamanna í málinu. Þegar maður les svar hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra við spurningu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þá er það nánast það sama og stendur núna í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar. Á heilu ári virðist afskaplega lítið hafa gerst, alla vega sem hægt er að segja frá eða setja niður á blað.

Ég hef oft tekið þetta málefni upp í ræðustól Alþingis og reynt með öllum mögulegum hætti að særa fram einhver svör um það hvernig gangi að semja við Bandaríkjamenn og þegar færi hefur gefist til eða einhverjir þeir áfangar orðið að maður hefur haldið að nú færu hlutirnir að gerast þá hef ég yfirleitt reynt að ýta við því að spyrja á Alþingi og reyna að fá svör. Þetta gerðist eftir fundinn sem hæstv. þáverandi forsætisráðherra sem nú er utanríkisráðherra átti með Bush Bandaríkjaforseta sumarið 2004. Þá voru menn bjartsýnir á að nú færi þetta að gera sig og það væri búið að ræða þetta við Bush, hann vissi nákvæmlega um hvað málið snerist og nú færu hlutirnir að gerast. En það gerðist ekki neitt annað en að ákveðið var að ræða þetta við utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem þá var Colin Powell.

Þann 2. nóvember sama ár spurði varaþingmaður af Suðurnesjum, hv. þm. Böðvar Jónsson, hæstv. utanríkisráðherra hvort nokkuð væri að frétta af þessu máli og sagði þá að í síðustu viku hefðu borist fréttir af því að verið væri að flytja mikið af hergögnum úr landi og óskaði eftir því að hæstv. utanríkisráðherra svaraði hvort nokkuð væri að frétta af samningum við Bandaríkjamenn. Þá svaraði hæstv. ráðherra því að hann hefði átt fund með forseta Bandaríkjanna meðan hann hefði starfað sem hæstv. forsætisráðherra og þar hefði verið ákvarðað að málin skyldu ganga til utanríkisráðherra Bandaríkjanna Colins Powells og hæstv. utanríkisráðherra upplýsti að hann mundi hitta hann að máli 16. þess mánaðar, þ.e. í nóvember 2004, og sagði svo, með leyfi forseta:

„Vona ég að á þeim fundi megi takast að færa þetta mál í fastari farveg þannig að úr óvissu gagnvart varnarstöðunni dragi og að vissa ríki í þeim efnum sem allra fyrst.“

Þetta var 2. nóvember árið 2004 og þetta voru þær væntingar sem hæstv. utanríkisráðherra fór með út til fundar við Colin Powell. Eftir þann fund þegar ljóst var að málið hafði lítið þokast var það að frétta af því að embættismenn þjóðanna ættu að taka upp samningaviðræður í janúar á þessu ári, í janúar árið 2005. En þegar ekki var útlit fyrir að hæstv. utanríkisráðherra vildi taka við mig utandagskrárumræðu um þessi efni þá fór ég í óundirbúna fyrirspurn þann 22. nóvember og spurði hæstv. utanríkisráðherra hver hefði orðið niðurstaða af fundinum við Colin Powell og sagði þá að ég teldi mig tilneyddan til þess að spyrja þessara spurninga í óundirbúinni fyrirspurn vegna þess að fréttirnar af fundinum hefðu verið svona í véfréttastíl, að þar hefði verið sagt að telja megi, að mönnum finnist og menn voni og treysti o.s.frv.

Spurningin til hæstv. utanríkisráðherra á þessum tíma, 22. nóvember, var: Hvað er í raun að frétta af þessum fundi? Megum við vænta þess á næstunni að fá einhverjar frekari fréttir en verið hafa af fundinum eða er niðurstaðan svo óljós að ekki sé hægt að skýra frá með beinum hætti einhverri niðurstöðu af fundinum annarri en þeirri að menn ætli að tala saman aftur í janúar?

Hæstv. ráðherra svaraði því til að fundurinn hefði verið mjög eðlilegt framhald af fundinum sem hann átti með Bush. Ákveðið hefði verið að færa málið á nýjan leik í farveg á vettvangi utanríkisráðuneytanna en það hefði verið á vettvangi forsætisráðherra og forseta Bandaríkjanna.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að fundurinn með Powell hefði verið mjög jákvæður, afar góður og mikilvægur fundur og gengið mjög í rétta átt. Niðurstaða hans var sú að nú hæfust embættismannaviðræður á þeim grundvelli sem við höfum rætt, sagði hæstv. utanríkisráðherra, að loftvarnir verði tryggðar en jafnframt ákveðið með hvaða hætti eðlilegt þætti að íslensk stjórnvöld kæmu inn í rekstrarþætti Keflavíkurflugvallar vegna breytts umfangs borgaralegrar starfsemi á flugvellinum. Hæstv. utanríkisráðherra sagði þá að málið væri komið í heilbrigðari farveg.

Þetta var, eins og ég sagði áður, 22. nóvember 2004. Viðræður á embættismannastigi áttu að hefjast í janúar á þessu ári. Nú er að nálgast 1. maí. Við fáum skýrslu frá hæstv. utanríkisráðherra sem segir ekki neitt annað en að viðræður hafi í raun ekki enn þá hafist.

Ég verð að segja, frú forseti, að niðurstaða mín, eftir að hafa farið í gegnum þessar umræður og það sem sagt hefur verið og skrifað um samningaviðræður um varnarsamning við Bandaríkin, þá er bara ekkert að gerast. Þar er ekkert að gerast sem hægt er að setja fingurinn á og segja að við séum að þokast eitthvað nær því að ná niðurstöðu við ríkisstjórn Bandaríkjanna. Óvissan hefur í raun aldrei verið meiri því að það er dregið verulega úr starfsemi varnarliðsins. Það er gert án þess að samráð sé haft við íslensk stjórnvöld því að í hvert skipti sem spurt er koma þau af fjöllum, að það hafi ekki verið með þeirra vilja, vitund eða í samningum við þau sem ákveðið hefði verið að hætta þessari starfsemi, draga úr henni eða segja upp þessum fjölda starfsmanna. Því hlýt ég að nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. utanríkisráðherra enn einu sinni, í fullri vinsemd: Er ekki von til þess að eitthvað fari að þokast í niðurstöðu um varnarsamninginn, framtíð hans og framtíðarumsvif á Keflavíkurflugvelli?



[15:02]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi, um Íslensku friðargæsluna og tryggingamál þeirra, þá hefði hann ekki þurft að spyrja þannig ef hann hefði verið viðstaddur í þingsalnum þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson spurðist fyrir um þessi atriði. Ég svaraði því mjög afdráttarlaust og þegar hv. þingmaður spyr um þau atriði þá vísa ég til þeirra svara gagnvart því sem hann spurði síðan um hér í sinni ræðu.

Varðandi viðræður, viðræðuleysi og slappan framgang stjórnvalda, eins og það var efnislega orðað af hv. þingmanni, um varnarviðbúnað í Keflavík verð ég að minna hv. þingmann á það að það var nú svo að Bandaríkin tilkynntu einhliða í maí fyrir tveimur árum, árið 2003, að þoturnar og þar með hugsanlega, ef sú yrði niðurstaðan, allur varnarviðbúnaður mundi hverfa innan mánaðar frá Keflavík. Viðbrögð íslenskra yfirvalda urðu til þess að af þeim fyrirætlunum varð ekki og hefur ekki enn orðið. Það er enginn vafi í mínum huga um að hið sérstaka og nána samband sem náðst hafði milli íslenskra og bandarískra yfirvalda, ekki síst við bandaríska forsetann, varð til þess að sú varð niðurstaðan og einmitt sú afstaða sem ríkt hefur til að mynda af hálfu þess sem hér stendur í þeim efnum.

En hv. þingmaður sem nú talaði hefur nýlega lýst því yfir í blaðagrein að hann styðji til formennsku í Samfylkingunni formann sem lengi hefur haft á sinni stefnuskrá að varnarliðið skuli hverfa frá Keflavík. Hann hefur lýst því yfir í blaðagrein að hann styðji til formennsku í Samfylkingunni formannsefni sem lengi hefur haft á sinni stefnuskrá — ég hef oft heyrt hana leggja það til — að varnarliðið skuli hverfa úr Keflavík. Það er mjög fróðlegt að sjá að hv. þingmaður skuli gera það.



[15:05]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Æ, ég varð fyrir vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra. Varðandi fyrri hlutann og friðargæsluna þá sat ég úti á skrifstofu minni með opið sjónvarp og hlustaði á orðaskipti hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara því með skýrum hætti hvernig tryggingamálum þeirra manna sem særðust við skyldustörf úti í Kabúl væri háttað. Ég heyrði ekki annað en að sagt væri að það mál væri í farvegi. Það virðist vera í þeim farvegi að búið er að vísa því til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Þessir menn virðast sem sagt ekki njóta annarra eða betri trygginga en aðrir ef um vinnuslys er að ræða, jafnvel þótt þeir séu sendir á ófriðarsvæði til að gegna þar störfum, þar sem líf og limir eru í hættu nánast allan daginn.

Það er rétt sem kemur fram hjá hæstv. utanríkisráðherra. Það var ótrúleg yfirlýsing sem kom frá bandarískum stjórnvöldum rétt fyrir kosningar, um að þeir ætluðu bara að hætta öllum varnarviðbúnaði. Þvílíkt virðingarleysi gagnvart íslenskum stjórnvöldum sem artað höfðu þennan varnarsamning öll þessi ár, með gagnkvæmri virðingu og í gagnkvæmu samstarfi, að stjórnvöld í Bandaríkjunum létu sér detta í hug, tíu dögum fyrir kosningar á Íslandi, að tilkynna til stjórnvalda að nú væru þeir bara hættir. Verið bara bless. Hæstv. utanríkisráðherra, sem þá var forsætisráðherra, tók vel á því máli, ég hef aldrei dregið úr því. En það verður að halda áfram. Það þýðir ekki að stoppa og halda þessu máli algjörlega í limbói. Menn verða að ljúka málinu á einhvern hátt. Þessi óvissa er óþolandi með öllu. Óvissan er verst. Menn geta ekkert brugðist við ef þeir vita ekki hvað er fram undan.

Ég ætla ekki að svara fyrir formannskandídat í Samfylkingunni, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, en oft hef ég nú heyrt hana tala á öðrum nótum en hæstv. utanríkisráðherra heldur fram úr ræðustól Alþingis.



[15:07]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki mikið fyrir að mæla til útgjalda en ég legg til að sjónvarpstæki á skrifstofu hv. þingmanns verð bætt. Það virðist a.m.k. eitthvað að talinu sem kemur út úr því apparati. Ég svaraði hv. þm. Ögmundi Jónassyni með mjög afgerandi hætti hvað þetta efni varðar.

Varðandi varnarmálin og þá þætti hefur tekist að koma þeim að á æðstu stöðum í Bandaríkjunum og það hefur öllu máli skipt. Það hefur verið gert í beinum samtölum, ekki bara einu sinni heldur oftar en einu sinni, við forseta Bandaríkjanna. Það hefur verið gert með atbeina tveggja aðalritara Atlantshafsbandalagsins fyrir atbeina íslenskra stjórnvalda. Það hefur síðan verið gert með símtölum og samtölum við núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Það hefur verið gert með símtölum og samtölum við fyrrverandi og núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Að halda því fram að ekki hafi verið unnið að þessu máli af festu og einurð, þó að ekki hafi það enn verið leiddar til hafnar þær viðræður sem við væntum að gætu hafist í janúar síðastliðnum. Það eru sannarlega ekki merki um að við höfum ekki haldið stíft og hart á málum.

Það vekur hins vegar undrun að hv. þingmaður skuli ekki hafa áhyggjur af því að formannskandídat í Samfylkingunni, sem hv. þingmaður styður, skuli ætíð, jafnan og alltaf hafa lýst því yfir að hún telji að varnarviðbúnaðurinn í Keflavík sé gamall. Það var ekki á þeim tíma sem hún studdi friðarhreyfingarnar og starfaði á vettvangi Alþýðubandalagsins og Kvennalistans. Það var ekki á þeim tíma. Það hefur jafnan verið og síðast í umræðunni í kringum kosningarnar, sem hv. formannsefni var forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Hún hlýtur að vekja athygli á Suðurnesjum, þessi afstaða hv. þingmanns í framboðsmálum til formennsku í Samfylkingunni.



[15:09]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt, að það hefur vakið athygli á Suðurnesjum að sá sem hér stendur styðji Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í formannsslag í Samfylkingunni. Það má kannski segja að hæstv. utanríkisráðherra hafi að einhverju leyti sett fót undir þau orð sem ég lét frá mér í blaðagrein, þ.e. að andstæðingar Samfylkingarinnar ættu ekki að ráða því hvern við kysum sem formann í Samfylkingunni heldur ættum við, sem værum flokksbundin í þeim flokki og hefðum kjörgengi og atkvæðisrétt, að gera upp við okkur hvern við vildum hafa sem formann en láta sem vind um eyru þjóta orð andstæðinga okkar úr öðrum flokkum um það hvað þeim hugnaðist í þessum efnum.

Ég hef unnið með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í framtíðarhópnum um stefnumótun Samfylkingarinnar. Ég hef engar áhyggjur af stefnu Samfylkingarinnar í öryggis- og varnarmálum og engar áhyggjur af stefnu Samfylkingarinnar í málefnum varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli því að ég veit að sú stefna gengur ekki gegn hagsmunum Suðurnesja.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði: Hvað er þingmaðurinn að fara? Er ekki verið að vinna, er ekki verið að gera eitthvað? Ég er búinn að eiga bein samtöl við Bush oftar en einu sinni, tala við tvo aðalritara, núverandi og fyrrverandi aðalritara NATO, búinn að eiga samtöl og símtöl við fyrrverandi og núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Colin Powell og Condoleezzu Rice.

Ég spyr á móti: Getur verið ásættanlegt, eftir að málið er búið að vera á þessu háa stigi allan þennan tíma, að það gerist ekki neitt? Sjáum við fram á að sú afstaða sem bandarísk stjórnvöld lýstu þegar þau sögðu án fyrirvara: Við erum farin, verið þið bless, að sú afstaða sé kannski ákveðið virðingarleysi við Íslendinga og það virðingarleysi haldi áfram (Forseti hringir.) í þeim samræðum sem nú eru í gangi?



[15:11]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra skýrsluna sem hann gaf þinginu í dag og tækifærið sem við, hv. þingmenn, höfum til að ræða heilan dag um utanríkismál. Þau samskipti og þau viðskipti sem við eigum í dag eru ekki lengur aðeins innan lands heldur erum við á flestum sviðum tengd þeim málaflokki sem segja má að séu utanríkismál, þ.e. öll samskipti okkar Íslendinga við aðrar þjóðir, það er bæði hvað varðar samningsbundna aðild, t.d. að Norðurlandasamvinnunni, EFTA, EES, Sameinuðu þjóðunum og svo NATO, svo ég nefni hina stærri samninga, svo og aðild okkar að mikilvægum alþjóðasamtökum sem eru hluti af umhverfi okkar eins og kemur fram að hluta til í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra.

Hvað varðar NATO vil ég lýsa því yfir að ég fagna því að mín kynslóð nái hugsanlega að upplifa að herinn á Keflavíkurflugvelli fari alfarið og þótt fyrr hefði verið. Ég hefði viljað sjá það gerast í opnum samningum og tímasettum þannig að allir viti að hverju er gengið, hvenær flugvélar færu o.s.frv. Menn vissu hvenær búast mætti við því að síðasti hermaðurinn yfirgæfi völlinn. Það er mjög mikilvægt. Ég tel það ámælisvert að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa unnið að kröftugri og markvissri uppbyggingu á svæðinu með tilliti til þess að allur þessi fjöldi hermanna, starfsmanna og maka þeirra á hersvæðinu er að hverfa. Það verður að koma eitthvað í þeirra stað eigi ekki að verða atvinnuhrun og erfiðleikar á Suðurnesjum. Það er því fagnaðarefni að svo vel skuli ganga hjá flugfélögum okkar. Ferðalöngum til landsins hefur fjölgað mikið sem hefur sjálfkrafa fjölgað atvinnutækifærum á þessu svæði, en það hefur ekki verið með atbeina ríkisstjórnarinnar eða í tengslum við brottför hersins. Ég tel að þarna þurfi fleira að koma til. Við verðum að læra af reynslunni, að byggja ekki framtíðaruppbyggingu í atvinnumálum á Suðurlandi eingöngu við flugafgreiðsluna, þótt hún sé mun fjölbreyttari en þjónustan við herinn, heldur verði fleiri stoðir settar undir atvinnu á Suðurlandi.

En það er fleira en þessir mikilvægu samningar og samtök sem við erum bundin. Í utanríkismálum verðum við einnig að fylgjast með þróun heimsviðskiptanna, hvernig þau breytast nú mjög hratt og hvernig við þá sem þjóð stillum okkur inn á þá alþjóðavæðingu sem siglir fyrir fullum byr um heiminn og hvort við tökum þessu sem sjálfsögðum hlut, eða allt að því eins og náttúruhamförum, að ekki sé hægt að komast undan alþjóðavæðingunni. Eða sláum við varnagla og vökum fyrir því að undir merkjum alþjóðavæðingarinnar hafa alþjóðleg stórfyrirtæki í dag mjög mikil völd, bæði viðskiptalega og ekki síður að þau hafa getað sett sig niður eftir vild til að nýta ódýran vinnukraft? Þau leita inn á svæði þar sem ríkisstjórnir eru veikar og löggjafinn er veikur, þar sem þau hafa í skjóli stærðarinnar og styrkleika síns getað stundað, mörg hver, mannréttindabrot eins og fyrirtækið Nike, sem framleiðir fótboltaskó, hefur orðið að viðurkenna að hafa gert. Það eru fleiri slík stórfyrirtæki sem framleiða góða og ódýra vöru sem við kaupum inn til landsins en þessu lága verði hafa því miður fylgt ýmsir svartir blettir sem ég tel að við þurfum að vera miklu meira vakandi fyrir en við höfum verið fram til þessa. Þessi fyrirtæki nýta sér veik kjara- og félagsleg réttindi verkafólks á þessum svæðum.

Ég tel að í þessu ljósi verðum við að gæta þess að standa vörð um íslenska framleiðslu og samkeppni íslensks iðnaðar og þá í samkeppni við innflutning á vörum frá láglaunasvæðum. Nú ber á óróleika innan Evrópusambandsins vegna þessa þar sem það er ljóst að iðnaður í mörgum Evrópulöndum er hreinlega að hrynja og brotna niður vegna lágvöruframleiðslu frá þróunarríkjum eða Asíuríkjum og síðasta dæmið er vefnaðarvara sem er hreinlega að hverfa úr framleiðslu í Evrópu. Þetta er nokkuð sem að öllum líkindum er erfitt að varast en við þurfum að vera vakandi yfir og standa þannig að íslensku framleiðslunni að hún geti sem lengst og best staðið í samkeppni í alþjóðavæðingunni sem nýtir sér að hægt er að fá fólk til að vinna fyrir minna en dollar á dag.

Í ræðu hæstv. utanríkisráðherra, sem ég hef hér undir höndum, er víða komið við og erfitt að gera því öllu skil. Með tilliti til þess sem ég var að rekja hér varðandi hin alþjóðlegu stórfyrirtæki vil ég ítreka að við þurfum að standa vörð um sjálfbæra þróun og af því tilefni þarf að líta á sjávarútveginn hér á landi. Ég get ekki tekið undir orð hæstv. utanríkisráðherra þegar hann segir að reistar hafi verið traustar stoðir undir sjávarútveginn. Eins og ástandið er í efnahagsmálum þjóðarinnar í dag eiga mörg fyrirtæki hreinlega í miklum rekstrarerfiðleikum og sum hver eru allt að því á barmi gjaldþrots vegna sterkrar stöðu krónunnar. Þetta er vonandi tímabil sem stendur stutt yfir en við getum greinilega ekki talað um sjálfbæra þróun í sjávarútvegi okkar eins og hann er stundaður í dag.

Það eru tvö atriði sérstaklega sem ég vil nefna, ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins og stuðningur okkar við innrásina í Írak. Eins og hér hefur komið fram var ég í því þingmannaliði sem heimsótti Palestínu um páskaleytið. Það var vikuferð og kynnisferð sem hafði djúpstæð áhrif, a.m.k. á mig og ég held á okkur öll. Þegar ég lít til baka tel ég að hvað mest áhrif hafi haft á mig að vera búin að fylgjast með ástandinu inni á þessu svæði í fréttum og af greinaskrifum. Þrátt fyrir að hafa heyrt af ástandinu á þessu svæði hafði ég ekki gert mér grein fyrir því hversu alvarlegt það er. Þá vil ég líta til palestínsku þjóðarinnar, og ég er ekki að gera lítið úr aðstæðum þeirra sem búa í Ísrael því að þar er líka mikil spenna og óróleiki og vanlíðan, en aðstæður palestínsku þjóðarinnar eru algjörlega óviðunandi eins og þær eru í dag.

Að sitja í herteknu landi þar sem fólki er gert ómögulegt að stunda búskap, eiga viðskipti, ferðast á milli, fá nauðsynlega þjónustu öðruvísi en að vera innan afmarkaðra lokaðra svæða eða þurfa að fara yfir vegi sem eru vaktaðir eða komast ekki yfir vegi af því að það er búið að girða þá af til að tryggja öryggi þeirra sem búa á landtökusvæðunum er skelfilegt. Allt þetta gerir fólki, sem óskar þess heitast að lifa eðlilegu lífi, ómögulegt að framfleyta sér, enda er 60–70% atvinnuleysi og hver kynslóðin á fætur annarri vex upp við mikið andlegt og oft og tíðum líkamlegt ofbeldi. Það getur ekki annað en leitt af sér enn meira ofbeldi og þá er ég að hugsa um svæðið í heild því að þetta er púðurtunna sem springur ef friðarferli er ekki sett í gang.

Ég tel að þetta svæði sé í raun og veru lykillinn að heimsfriði. Ef þarna brjótast út meiri átök en verið hafa og friðnum verður ógnað mun það hafa áhrif á öll nærliggjandi ríki.

Í þessu sambandi er vert að geta þess að inni í Jerúsalem er gamla borgin, gamla Jerúsalem, innlimuð borgarmúrunum og innan þessa litla svæðis, borgarmúranna, eiga fulltrúar hinna kristnu kirkjudeilda, múslimar og gyðingar sín svæði. Þetta jafnvægi hefur ríkt í gegnum aldirnar en nú er það að riðlast og ef það gerir það, sem allt bendir til að sé farið af stað, mun ófriðarástand breiðast út um allan heim. Þarna er vagga íslamstrúarinnar og hinnar kristnu trúar og ef hún ruggar mun öll heimsbyggðin rugga.

Sömuleiðis tel ég mikilvægt að við séum mjög gagnrýnin á alla íhlutun í innanríkismál sjálfstæðra ríkja þegar í hlut eiga hvort heldur er alþjóðleg stórfyrirtæki eða afskipti stórveldanna. Þá vil ég nefna sérstaklega Bandaríkin. Helsta hvataþjóð þess að fara með árás inn í Írak var sú bandaríska. Það er ljóst að vinnslan við olíubirgðir heimsins hefur þegar náð hámarki að dómi margra sérfræðinga og það er talið að ekki séu til neinar nýjar verulegar lindir sem hægt er að ganga í. Þetta mun hafa víðtæk áhrif á alla heimsbyggðina, og heimsbyggð án olíuvinnslu mun hafa áhrif á öll samskipti. Olía og drykkjarvatn munu verða rótin að innrásum og stríðsátökum komandi ára. Því er enn mikilvægara að vera vakandi fyrir þeirri ástæðu sem gefin er upp varðandi afskipti af innanríkismálum þjóða sem búa (Forseti hringir.) yfir auðlindum og því nauðsynlegt að stuðla að sjálfbærri þróun um allan heim.



[15:27]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hóf ræðu sína á því að minnast þess að 1. apríl voru 150 ár síðan Íslendingar fengu fullt verslunarfrelsi. Það er rétt sem fram kom að Jón Sigurðsson forseti lagði mikla áherslu á verslunarfrelsi og kynnti sér allt sem hann komst yfir viðvíkjandi verslunar- og hagsögu Íslands. Jón Sigurðsson hamraði stöðugt á að einokunarverslun væri til ills. Hæstv. utanríkisráðherra ætti að íhuga þessi varnaðarorð Jóns Sigurðssonar gagnvart einokunarverslun og frjálsum viðskiptum.

Við í Frjálslynda flokknum gerum okkur fulla grein fyrir gildi frelsis og heiðarlegrar samkeppni á sviðum viðskipta. Á Íslandi eru því miður nýleg dæmi um samráð og samráðssvik stórra fyrirtækja sem ógna hag almennings. Svikasamráð olíufélaganna er landsmönnum í fersku minni. Ekkert hefur verið gert til að efla Samkeppnisstofnun þrátt fyrir að upp hafi komist ítrekað um samráð.

Hvers vegna ætli það sé? Ætli það sé vegna þess að þessi svikasamráð séu svo nátengd stjórnarflokkunum, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum? Það skyldi aldrei vera. Fyrir þessu þingi liggur nefnilega frumvarp sem á að veikja Samkeppnisstofnun, ekki styrkja. Þrátt fyrir mikil hættumerki leggja stjórnarflokkarnir fram frumvarp sem mun veikja Samkeppnisstofnun ef það verður að lögum. Mér finnst það íhugunarvert og vil minna enn á ný á orð Jóns Sigurðssonar forseta um að koma beri í veg fyrir einokun og tryggja verslunarfrelsi.

Það er rétt að stjórnvöld hafa minnkað höft á ýmsum sviðum viðskiptalífsins og ber að þakka það. Hins vegar ber að minnast á að sömu stjórnvöld hafa þanið út ríkisútgjöld og fest höft, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi og fjötrað þessar atvinnugreinar. Það er með ólíkindum. Þeir stjórnmálamenn sem hafa gengið hvað harðast fram eru einmitt oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson og hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson. Nú hefur miðstýringaráráttan og haftastefnan gengið svo langt fram að bændur eru sviptir atvinnufrelsi í eigin landi og á eigin jörðum. Það er með ólíkindum að flokkur sem kennir sig við frelsi og ber á borð hér skýrslu þar sem hann þakkar afrakstur stefnu síðustu ára aukins frelsis skuli hefta bændur landsins svo mjög að þeir geti ekki einu sinni sótt vinnu í jarðir sínar. Mér finnst það skrýtið. Þetta á ekki saman. Menn mega ekki nýta auðlindir í fjöruborði sínu fyrir þessum flokkum.

Fyrr í umræðunni kom berlega fram hve hæstv. utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, virðist vera illa upplýstur bæði um átakanlegt ástand á herteknum svæðum Ísrael í Palestínu og um undirstöðuatvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn. Í ræðu ráðherrans var því haldið fram að með núverandi kvótakerfi Sjálfstæðisflokksins væri fiskur veiddur og seldur samkvæmt eftirspurn á mörkuðum. Þetta er einfaldlega alrangt hjá hæstv. ráðherra og ég furða mig á því að hann sé svona illa upplýstur og skuli bera þetta á borð hér á hinu háa Alþingi. Til þess að upplýsa hæstv. ráðherra og hann komi ekki með þvílíka vitleysu enn á ný hingað í þessa sali skal það tekið fram að einungis fimmti hver þorskur fer á fiskmarkað innan lands, 20%, og einungis 7% af karfaaflanum fer á fiskmarkaði.

Staðreyndin er sú að stefna Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegi hefur beðið skipbrot, staðreyndirnar tala sínu máli. Í nýlegri opinberri skýrslu frá því í nóvember sl. kemur fram að á því tímabili sem var til skoðunar hefur framleiðni dregist saman eða staðið í stað í fiskveiðum og fiskiðnaði. Öllum er ljóst að kvótakerfinu hefur algjörlega mistekist við að byggja upp þorskstofninn og er nýleg vitneskja úr togararalli því miður enn ein vitneskjan um hve stefna Sjálfstæðisflokksins er vonlaus, enda er heildarveiði þorskafla á því tímabili sem flokkurinn hefur stjórnað veiðum á síðustu tólf árum aldrei verið minni, hæstv. ráðherra. Hún hefur aldrei verið minni frá því að Íslendingar fengu fullveldi árið 1918.

Þá hef ég einnig farið yfir það tímabil þar sem nasistar komu í veg fyrir veiðar, þeir hafa verið hér fyrr í umræðunni. Það er mjög mikið áhyggjuefni að kafbátahernaður nasista virðist ekki hafa megnað að koma í veg fyrir veiðar í sama mæli og fiskveiðistefna Sjálfstæðisflokksins. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti. vill biðja hv. þingmann að gæta að orðum sínum.)

Ég skal gera það. Ég biðst afsökunar ef ég hef gengið of langt, frú forseti.

Hvers vegna er ég að bera þetta á borð í umræðu um utanríkismál? Ástæðan er sú að hæstv. ráðherrar og stjórnvöld hafa verið að draga upp einhverja glansmynd af þessari stefnu sem er svo vitavonlaus sem raun ber vitni. Því miður hef ég ekki verið að ýkja, þetta eru bara hreinar og klárar staðreyndir sem ég hef borið hér á borð. Ég hef m.a. beint þeirri spurningu að ráðherrum hversu háum fjárhæðum hafi verið varið til að kynna þessa vonlausu stefnu erlendis. Ég hef því miður ekki fengið svör við því, enda virðast þetta vera mjög viðkvæmar upplýsingar. Það er áhyggjuefni í alþjóðasamstarfi að Íslendingar séu að útbreiða þessa vitleysu og í rauninni er þetta ljótur leikur hjá stjórnvöldum að gera þvílíkt, að draga upp falska mynd.

Á dögum Jóns Sigurðssonar voru vissulega meiri höft á verslun en að sama skapi má segja að meira atvinnufrelsi hafi verið í sjávarútvegi og landbúnaði. Atvinnugreinarnar hafa verið fjötraðar af núverandi stjórnarflokkum og engum vafa undirorpið í mínum huga að það verður mjög erfitt fyrir landbúnaðinn að bregðast við alþjóðaviðskiptaskuldbindingum framtíðarinnar vegna þess að landbúnaðarkerfið er í beingreiðslum og skuldbindingar um að það verði að draga saman. Næstu ár verða erfið fyrir landbúnaðinn og sérstaklega fyrir kerfið og menn verða að fara að horfa fram á veginn og skoða þær tillögur sem Frjálslyndi flokkurinn hefur lagt fram í landbúnaðarmálum, þ.e. að koma fremur á grænum styrkjum og fjölskylduvænum byggðastyrkjum í stað þess að vera að tengja styrki til landbúnaðarins í framleiðslustyrki. Það gengur einfaldlega ekki.

Ég hef fulla trú á því að ef við förum réttar leiðir hvað varðar landbúnaðinn á hann góða framtíð fyrir sér, en þá þarf hann að losna úr þessu miðstýrða kvótakerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn virðast vera einhuga um að koma landbúnaðinum í. Þá getur landbúnaðurinn farið að framleiða hágæðavöru á alþjóðamarkað í stað þess að vera bundinn niður og niðurnjörvaður í einhverja lítra og kílógrömm sem má framleiða á hverju býli. Þessi búskapur minnir óneitanlega á áætlunarbúskap sem var stundaður austur frá, frú forseti, fyrir nokkrum áratugum.

Ég get tekið undir ýmislegt í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og ég get tekið undir að mikilvægt sé að horfa til þess að bíða eftir því hvað kemur út úr Evrópunefndinni sem var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka hér á þinginu og nota þá vinnu sem þar verður unnin til þess að taka upplýsta ákvörðun um framtíðarskipan sambands Íslands og Evrópusambandsins.

Ég get einnig tekið undir þá skoðun sem fram kemur að við eigum að horfa út fyrir Evrópusambandið og út til annarra landa og ekki eingöngu að binda sjóndeildarhring okkar við Evrópusambandið. Einnig er vert að taka undir það að við eigum að leggja mun meiri áherslu á nágrannaþjóðir okkar, samstarf við Færeyinga og Grænlendinga og reyna einnig að læra af ýmsum góðum hlutum sem þeir hafa fram að færa.

Frú forseti. Það sem ég vil einnig minnast á er mikil útþensla utanríkisráðuneytisins. Vissulega hafa ríkisútgjöld þanist gríðarlega út á síðustu árum sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Á föstu verðlagi frá árinu 1998 virðist vera samkvæmt upplýsingum frá upplýsingaþjónustu Alþingis sem útgjöld til utanríkisráðuneytisins hafi aukist um 2,3 milljarða. Mér finnst það vera mjög háar upphæðir. Auðvitað eru ýmis verkefni þar ágæt og að horft sé til mannréttindamála og þess háttar víðs vegar um heiminn, mér finnst það vera jákvætt, því að vissulega er víða pottur brotinn hvað varðar mannréttindi víða um heim. En það er mjög sérstakt að sömu stjórnvöld sem leggja svo mikla áherslu á mannréttindastarf víða um heim þoli ekki umræðu um mannréttindi og eitt og annað sem því viðkemur á Íslandi, þola ekki upplýsta gagnrýni og reyna að koma í veg fyrir hana með því að stoppa opinber fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands, um 75%, það hefur komið fram. Mér finnst að menn eigi einmitt þá frekar, og ég vona að menn sjái að sér, að hæstv. utanríkisráðherra sjái að sér í þessu máli og þakki fyrir gagnrýni á þessu sviði þannig að Ísland verði leiðandi á þeim sviðum. Og þegar menn senda fulltrúa — sendiherrum hefur fjölgað mikið á síðustu árum, um 70%, ef ég man rétt — þegar þeir senda þessa ágætu sendiherra út um víðan völl þá geti þeir sagt að hlutirnir séu til fyrirmyndar heima hjá sér, að það sé til fyrirmyndar á Íslandi og þar sé starfandi mannréttindaskrifstofa sem er gagnrýnin og menn verði einfaldlega að þola þá gagnrýni.

Ég sé að tími minn er að renna út. Hæstv. utanríkisráðherra segir að það kosti 600 milljónir að sækja um aðild að öryggisráðinu. Ég hef reynt að fá þetta fram og ég þakka fyrir að þær upplýsingar séu loksins komnar fram hérna á þinginu. Ég beindi þessari spurningu um miðjan nóvember, ef ég man rétt, til hæstv. utanríkisráðherra en hann hefur ekki séð sé fært einhverra hluta vegna að svara henni. En ég verð að segja að mér finnst þessum fjármunum mjög illa varið og ég tel að Íslendingar ættu að verja þeim miklu frekar til annarra verkefna. Það segi ég vegna þess að ég tel að við höfum einfaldlega ekki mikið vit á því sem fram fer og þeim ákvörðunum sem öryggisráðið á að fjalla um. Öryggisráðið á einmitt að fjalla um hættuástand, taka ákvörðun um hvort fara eigi með ófriði á hendur öðrum þjóðum. Það verður að segjast eins og er að við erum tæplega 300 þúsund og það eru ekki margir sérfræðingar á því sviði. Við eigum miklu frekar að horfa til þeirra verkefna sem við ráðum við og getum lagt þjóðum heimsins lið í stað þessa að vera að þvælast í einhverjum verkefnum eins og í öryggisráðinu þar sem við verðum að treysta á okkar ágætu bandamenn, Bandaríkjamenn. Því miður hefur stjórnarstefnan þar síðustu árin ekki verið til þess fallin að afla okkar þjóð vinsælda víða um heim, því miður, frú forseti.



[15:43]
Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum utanríkismál og hæstv. utanríkisráðherra hefur flutt Alþingi munnlega skýrslu sína um framvindu utanríkismála eða framvindu mála sem íslensk utanríkisþjónusta hefur beitt sér fyrir og staðið að og tekið þátt í á alþjóðavettvangi.

Það er náttúrlega augljóst mál að þegar við hlýðum á þá ræðu og skýrslu utanríkisráðherra speglast þar bæði áhersla og stefna núverandi ríkisstjórnar í utanríkismálum, að sjálfsögðu. Sum þau atriði sem hæstv. utanríkisráðherra hefur dregið hér upp í utanríkismálum ganga svo sannarlega í berhögg við t.d. stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í utanríkismálum og einmitt þar speglast þær andstæður.

Þó eru ákveðin atriði í ræðu utanríkisráðherra sem ég vil hér taka undir. Ég styð vissar áherslur sem þar eru dregnar fram, m.a. í ferðamálum og á alþjóðavettvangi. Þar er einmitt lögð áhersla á og áréttað hið gríðarlega mikilvægi ferðaþjónustunnar í íslensku efnahagslífi. Þar er minnst á að um 15% af nettógjaldeyristekjum þjóðarinnar komi frá ferðaþjónustunni og allar líkur benda til að forsendur séu fyrir því að þær bara haldi áfram að aukast, og nokkuð með svipuðum hraða og á síðustu árum.

Ég tek undir þær áherslur sem þar eru dregnar upp og harma reyndar að á fjárlögum þessa árs skuli hafa verið skornar niður á annað hundrað milljónir króna fjárveitingar til markaðssetningar í ferðamálum erlendis. Það er ekki alveg í takt við áherslur hæstv. utanríkisráðherra. Engu að síður er þó ástæða til að taka undir þau orð sem sett eru fram í ræðu ráðherrans.

Annað atriði sem er minnst á í ræðu hæstv. utanríkisráðherra er að unnið sé að fríverslunarsamningum við Færeyjar. Í undirbúningi er samningur við Grænland um fríverslun. Eins og hæstv. ráðherra tók fram í ræðu sinni er ávallt gleðiefni að ganga frá jákvæðum samningum sem báðir aðilar eru ánægðir og sáttir með við nágranna okkar eins og Færeyinga og Grænlendinga. Ég tek heils hugar undir þær áherslur sem hæstv. utanríkisráðherra dregur fram varðandi Færeyjar og Grænland.

Ýmis fleiri atriði getur líka verið ástæða til að fara jákvæðum orðum um, herra forseti, en ég ætla þó að víkja hér að öðru.

Ég sagði í upphafi að það væri mikill munur á ákveðnum meginatriðum í utanríkisstefnu þessarar ríkisstjórnar og þeirrar stefnu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur í utanríkismálum. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum þar sem rakin eru grunnatriði í utanríkisstefnu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill hafa sem hornstein fyrir utanríkismál á vegum íslensku þjóðarinnar. Með leyfi forseta langar mig til að vitna hér aðeins í tillögu til þingsályktunar sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa flutt. Þar segir:

„Alþingi ályktar að hagsmuna Íslands verði best gætt með því að landið varðveiti sjálfstæði sitt og fullveldi og standi utan ríkjasambanda en hafi við þau sem besta samvinnu með sérsamningum án aðildar. Þannig verði sjálfstæð og óháð staða landsins nýtt til að treysta samskiptin við ríki, bandalög og markaði beggja vegna Atlantshafsins og við aðra heimshluta. Sérstök áhersla verði lögð á þátttöku í vestnorrænu og norrænu samstarfi og aðra svæðisbundna samvinnu í okkar heimshluta, þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna, starfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og starfi Evrópuráðsins.

Vegna EES-samningsins og annarra framtíðarsamskipta við Evrópusambandið verði af Íslands hálfu leitast við að þróa þau í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu.“

Í ályktun okkar var einnig einmitt lagt til að kosin yrði nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka til að vinna með ríkisstjórninni við nánari útfærslu slíkrar stefnumótunar. Hvort sem var vegna þessarar áherslu í tillögu okkar eða með öðrum hætti til komið ákvað núverandi utanríkisráðherra, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, að skipa nefnd á ákveðnu sviði utanríkismála, þ.e. varðandi tengsl og samskipti Íslands við Evrópusambandið, bæði í nútíð og framtíð, hvað gæti best beðið okkar þar.

Ég tel að sú tillaga að skipa þá nefnd hafi verið einmitt mjög gott innlegg í þróun og stefnumörkun í íslenskum utanríkismálum.

Ég leyfi mér í þessu sambandi að benda á að það er skoðun mín, og fleiri þingmenn Vinstri grænna hafa einmitt lagt hana fram, að telji menn að EES-samningurinn sé orðinn íþyngjandi, óþægilegur eða þjóni ekki hagsmunum okkar á viðunandi hátt eigum við að sjálfsögðu að kanna hvort þróa megi þann samning upp í tvíhliða samning milli Íslands og þá Evrópusambandsríkjanna, sem og þá að þróa tvíhliða samninga við önnur ríki heimsins. Þeir samningar yrðu gerðir á forsendum samningsaðilanna sem þar ættu hlut að máli og ég tel að gæti orðið farsælt.

Ég vil síðan aðeins víkja að öðru atriði í utanríkismálunum. Nokkrir sem hafa tekið til máls í þessari umræðu hafa lýst för sinni til Palestínu og Ísraels nú nýverið. Ég verð að segja hér að þessi ferð var mjög áhrifarík, fyrst og fremst að koma til þessa ríkis, Palestínu-/Ísraelsríkis, sem ég las um sem barn, eins og fleiri. Jafnhliða sem við lásum Íslandssöguna, um Snorra Sturluson og landnámið og alla Íslandssöguna, lásum við biblíusögurnar, og Hebron, Betlehem og Dauðahafið voru nánast alveg jafnnærri okkur og Reykholt og Skálholt, a.m.k. lásum við það jöfnum höndum og hrifumst með. Þess vegna var afar áhrifaríkt að koma á þessar slóðir og finna að maður á vissan hátt þekkti sig.

Það var líka áhrifaríkt að ferðast á meðal þessara þjóða, bæði á meðal palestínsku þjóðarinnar og þeirrar ísraelsku. Þá rifjaðist upp forsagan um stofnun Ísraelsríkis sem gerðist í lok síðustu heimsstyrjaldarinnar, þegar henni lauk og þjóðir heimsins voru að gera upp þau dapurlegu og hryllilegu atriði í þeirri harmsögu allri, seinni heimsstyrjöldinni, sem voru helförin gegn gyðingum. Þá var ákveðið að stofnað skyldi Ísraelsríki árið 1948 og Sameinuðu þjóðirnar beittu sér fyrir því árin 1947 og 1948.

Árið 1947 er hið palestínska land afhent Sameinuðu þjóðunum og eftir umfjöllun þar lögðu Sameinuðu þjóðirnar til stofnun tveggja ríkja á þessu landi, Ísraelsríkis og Palestínu. Nágrannalöndin voru náttúrlega ekki hrifin af þessari skipan og upphófust þá deilur og stríð sem standa enn. Í stríði tapa alltaf allir.

Þegar við vorum að ferðast um hið palestínska ríki sáum við hvernig þessu hertekna landi hefur verið skipt upp í svæði með múrum, það var verið að múra einstaka borgir inni. Jarðirnar voru fyrir utan múrana. Í einni borg sem við komum var bara eitt meginhlið sem var vaktað en annars var hún alveg hringgirt. Íbúarnir voru afgirtir frá fjölskyldum sínum sem voru utan múranna, frá löndum sínum og jörðum og atvinnu sinni. Fólkið sem var utan múranna var afgirt frá því að sækja skóla, sjúkrahús eða aðra almenna þjónustu og þá fylltist maður að sjálfsögðu mikilli depurð, ekki síst þegar rökin sem leidd eru fyrir þessu eru þau að þetta þurfi að gera í öryggisskyni. Í öryggisskyni þarf að ryðja land meðfram þessum gríðarlega háa múr, a.m.k. 400 metra land beggja megin við múrinn, þar sem enginn má koma. Þar var svokallað öryggissvæði. Ef menn missa boltann sinn inn á þau svæði eiga þeir á hættu að verða skotnir eins og nýlegt dæmi í fréttum sannar. Þá verður maður dapur og mjög sorgmæddur.

Þegar við komum inn í Jerúsalem og fórum þar inn í þann borgarhluta sem Ísraelsmenn ráða og inn í stórverslun sem þar var, miklu stærri en við þekkjum hér, voru þar vopnaðir verðir við allar dyr. Til að komast inn í þessa verslun þurftum við nánast að afklæðast og allt var gegnumlýst. Bara Ísraelsmönnum var hleypt inn í þessa verslun og svo öðrum þeim sem voru talið óhætt að sleppa þarna inn, eins og í þessu tilfelli okkur Íslendingunum. Inni í versluninni voru alls staðar hermenn með alvæpni. Allt þetta var gert í öryggisskyni og til að vernda friðinn.

Friður — undir þessum kringumstæðum getur aldrei orðið friður. Við upplifðum þennan gríðarlega ótta sem alls staðar var, meðal Ísraelsmanna og Palestínumanna. Palestínumenn hafa ekki einu sinni yfir landi að ráða. Það er verið að tala um heimastjórn Palestínu í ákveðnum borgum en landinu ráða Ísraelsmenn og þeir ráða hvenær þeim þóknast að taka af þeim þetta sjálfstjórnarvald, ef það má kalla það svo, sem er bara sjálfstjórnarráð.

Bæjarhlutar Palestínumanna voru lokaðir og fólk stóð í biðröðum til að komast út og inn úr bænum sínum. Þeir urðu kannski að bíða klukkutíma eða lengur og máttu ekki fara á bílnum sínum yfir.

Herra forseti. Þetta öryggi sem er nú í Ísrael og Palestínu er ógnun við heimsfriðinn. Að byggja upp öryggi með þessum hætti getur aldrei leitt til friðar. Bygging þessara múra í Ísrael og Palestínu er mér hryllingur. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hér: Hafa Íslendingar (Forseti hringir.) mótmælt á alþjóðavettvangi byggingu þessara aðskilnaðarmúra í Palestínu og Ísrael (Forseti hringir.) sem er ein mesta ógnunin við heimsfriðinn að mínu mati, a.m.k. á þessu svæði?



[15:58]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í annað sinn í dag, fór yfir nokkur atriði í fyrri ræðu minni, átti sitthvað ósagt.

Fyrst langar mig til að víkja að tveimur þáttum sem hafa komið til umræðu síðan ég stóð í pontu. Annars vegar átti ég ósagt nokkur orð við hv. formann utanríkismálanefndar þingsins, Sólveigu Pétursdóttur, en hún sagði í ræðu sinni eða í andsvari við mig að það skyti skökku við að Vinstri hreyfingin – grænt framboð bæri fyrir brjósti hag friðargæslunnar, en þá hafði ég rætt sérstaklega tryggingar þeirra einstaklinga sem urðu fyrir sprengju í Kabúl ekki alls fyrir löngu og hefur verið til umræðu í fjölmiðlum. Ég tók þetta mjög óstinnt upp og sagði að við hefðum alla tíð borið hag þessara einstaklinga fyrir brjósti, við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og frábið mér svona tal. Ég ætla að gera þetta mál upp hér og nú.

Hv. þingmaður sagði, með leyfi forseta:

„Það ber nýrra við að talsmaður Vinstri grænna skuli bera hagsmuni Íslensku friðargæslunnar fyrir brjósti.“

Ég andmælti þessu.

Síðan sagði hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, með leyfi forseta:

„Mér finnst furðulegt þegar hv. þingmaður reynir að halda því fram að hér sé um útúrsnúning að ræða. Hann er þá sjálfur með útúrsnúninga þegar hann talar um að hægt sé að skilja að málefni einstaklinga og réttindamál þeirra og svo starfsemi Íslensku friðargæslunnar.“

Hæstv. forseti. Ég tel að hægt sé að skilja þetta tvennt að. Við höfum á málefnalegum forsendum andmælt þátttöku okkar í svokölluðu „friðargæslustarfi“ í Afganistan — sem ég set rækilega innan gæsalappa — annars vegar og hins vegar fjallað um hagsmuni þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.

Hæstv. utanríkisráðherra var mjög afdráttarlaus í yfirlýsingum sínum í dag hvað varðar réttindamál einstaklinganna og er ég sammála því sem fram kom hjá honum, að við aðstæður af því tagi sem hér er um að ræða er að sjálfsögðu ekki hægt að greina á milli þess sem fólk gerir í afmörkuðum vinnutíma og hins sem er utan vinnutímans. Auðvitað rennur þetta allt saman í eitt. Ég fagnaði því þá og geri enn og ítreka að jákvætt er að utanríkisráðuneytið sé með þetta mál til frekari skoðunar á þessum forsendum.

Hitt atriðið sem ég vildi víkja að voru athugasemdir hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Hann harmaði að ég skyldi ekki hafa dvalið lengur við ástandið í Írak í ræðu minni, en ég hef ekki úr meiri tíma að moða en aðrir þingmenn, 15 mínútum, og þarf að koma víða við. Hann gagnrýndi í ræðu sinni síðan að ég hefði talað um að kosningarnar í Írak hefðu verið í skötulíki og vafasamt að tala um þær í sama orðinu og lýðræðislegar kosningar eins og við þekkjum til. Ég stend að sjálfsögðu fyllilega við þetta. Staðreyndin er sú engu að síður, eins og hann benti á, að margar milljónir manna tóku þátt í kosningunum en þeim var að sjálfsögðu mjög ábótavant. Það er ekki hægt að halda frjálsar kosningar í hersetnu landi. Ég nefni það eitt að í borginni Falluja, þar sem einhverjir alvarlegustu stríðsglæpir hernámsliðsins voru framdir, voru engar kosningar haldnar. Þar var ekkert fólk á kjörskrá, enda hafði fjórðungur úr milljón íbúa borgarinnar verið hrakinn á brott og hefur núna í seinni tíð verið að flytja smám saman til baka, sennilega innan við 100 þúsund manns. Þetta er aðeins eitt dæmi.

Talið er að af 27 milljónum sem menn ætla að byggi Írak hafi 13 milljónir skráð sig á kjörskrá og þar af var kjörsókn 58% og þá erum við að tala um 7,5–8 milljónir manna. Auðvitað var það mikill fjöldi fólks sem tók þátt í þessum kosningum, ég ætla ekki að gera lítið úr því, enda efast ég aldrei og hef aldrei efast um vilja þeirrar þjóðar, almennings í því landi til að búa við frelsi og lýðræði, að sjálfsögðu ekki.

En ég gæti nefnt fjöldann allan af dæmum um kosningarnar þar sem þeim var ábótavant. Það er alkunna að kjörsóknin var mest í Kúrdahéruðunum norðan til og á svæðum sjíta-múslima í Suður-Írak, en í miðhluta landsins sem er að mestu byggður súnní-múslimum var kosningaþátttakan lakari, bæði vegna þess að fjöldi þeirra sniðgekk kosningarnar og sums staðar kom skálmöld í veg fyrir að hægt væri að halda kjörfund yfirleitt. Svo er þess að geta að í norðurhlutanum, þar sem kosningaþátttaka var allmikil í Kúrdahéruðunum og í þeim héruðum þar sem Kúrdar eru ráðandi, gerðu þeir sig því miður seka um að koma í veg fyrir að fjöldi fólks af öðrum þjóðarbrotum gæti notið kosningarréttar, en talið er að kosningarréttur hafi verið hafður af á milli 200 og 400 þúsund Assyríumönnum sem búa á þessu svæði og fleiri hópa mætti einnig nefna.

Þessa get ég vegna þess að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson óskaði sérstaklega eftir því að ég tjáði mig nánar um kosningarnar í Írak og hvað byggi að baki staðhæfingum mínum um að kosningarnar hefðu verið í skötulíki. Ég ítreka að í hernumdu landi er ekki hægt að halda frjálsar kosningar og það sannaðist í Írak. Síðan er það allt annar handleggur að fjöldi manns tók þátt í þessum kosningum og er það lýsandi vitnisburður um hvað fólkið vill að sjálfsögðu, en þessu tvennu getum við ekki ruglað saman.

Síðan langar mig til að víkja að nokkrum þáttum í ræðu hæstv. utanríkisráðherra og þá fyrst kannski að víkja að niðurlagsorðum ræðunnar.

Hann segir þar, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Sem endranær er það tilgangur íslenskrar utanríkisstefnu og markmið utanríkisþjónustunnar að gæta hagsmuna og velferðar lands og þjóðar.“

Að sjálfsögðu. Þetta hef ég engar efasemdir um.

Síðan heldur áfram, með leyfi forseta:

„Það verður áfram best gert í samstarfi við bandamenn og önnur lýðræðisríki um að tryggja frið og frelsi í heiminum.“

Það er nú þetta með bandamennina okkar. Ég veit ekki til hverra hæstv. utanríkisráðherra er að vísa, væntanlega til NATO-ríkjanna og hinnar vígfúsu sveitar sem stóð að baki Bandaríkjamönnum við innrásina í Írak, að baki þeim Bush og Blair, forsætisráðherra Bretlands. Í þeim hópi má nefna fjölda ríkja, Erítreu, Albaníu, Makedóníu, Rúanda, Georgíu, Úkraínu og Úganda. Eða það mætti nefna hjálparkokkana frá innrásinni í Afganistan eins og Úsbekistan, Túrkmenistan, Pakistan og aðra útverði mannréttinda í Mið-Asíu.

En þess má geta, svo ég taki eitt dæmi um mannréttindi og af því að vísað er til þess í samhenginu „frelsisbarátta“ að World Press Freedom setti upp lista 167 ríkja með tilliti til mannréttinda og þar kom bandaríki hæstv. utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, Erítrea númer 163 af 167 þegar meta átti frelsi og mannréttindi þar innan borðs. En nóg um þetta.

Það er vikið að Doha-lotunni og fagnað samningum um þjónustu og sagt að vonir standi til að þeim samningum eða Doha-lotunni ljúki og hugsanlega á þessu ári. Þessir samningar hafa gengið í rauninni afskaplega illa, sigldu í strand fljótlega eftir Doha-fundinn í Katar. Þá endurskoðuðu menn hernaðarlist sína, hvernig þeir ættu að haga sér gagnvart almenningi í heiminum sem hefur reist miklar mótbárur gegn þessum samningum og það var ákveðið að fara með þær inn í leynilegan farveg, sveipa þær leynihjúp eins og kostur væri þannig að einstök ríki reistu kröfur á hendur öðrum og héldu fullri leynd yfir því. Evrópusambandsríkin afsöluðu sér samningsumboði í hendur framkvæmdanefndar bandalagsins, sem hélt mjög leynilega á sínum málum. Upplýst hefur verið um þetta annað veifið hvaða kröfur framkvæmdanefndin hefur verið að reisa á hendur öðrum ríkjum í heiminum. Það varð mikið uppistand í Bretlandi þegar í ljós kom að krafan var sett á einkavæðingu vatns, m.a. í þróunarríkjunum.

Við höfum eflaust verið tilneydd til að taka þátt í þessu leynimakki. Samtök launafólks hafa gert sitt til að reyna að fá málin fram í dagsljósið og ég verð að segja að starfsmenn utanríkisráðuneytisins sem sinna þessum málum hafa gert það mjög vel miðað við þann ramma sem þeim er settur að þessu leyti. En ég vil ítreka að mér finnst fráleitt og óásættanlegt að alþjóðasamningar fari fram með þessum hætti þar sem verið er að taka á grundvallarmálum sem snerta hagsmuni okkar og þjóðarhag.

Síðar í ræðu hæstv. utanríkisráðherra er fjallað um velheppnuðu kosningarnar í Írak og Kabúl og síðan er komið inn í gereyðingarvopnin og þar er bent á þá hættu sem stafar af Norður-Kóreu og Íran, að þessar þjóðir séu hugsanlega að brjóta alþjóðlegar skuldbindingar um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Það er alvarlegt mál, ég tek undir það, það er alvarlegt mál. Okkur ber að vinna að því að reyna að draga úr hættunni á útbreiðslu kjarnorkuvopna og það er rétt sem segir í ræðu hæstv. ráðherra að „gereyðingarvopn í höndum skálkastjórna og annarra óábyrgra ríkja er mesta öryggisógn sem steðjar að mannkyninu um þessar mundir ásamt hættunni á að hryðjuverkamenn eignist slík vopn.“

Ég vil bæta fleirum í þennan hóp sem ég tel að í hugmyndum hæstv. ráðherra rúmi ekki Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir sem hafa þessi vopn undir höndum og vil minna á að Bandaríkjamenn eru eina þjóðin í heiminum sem hefur beitt kjarnorkuvopnum gegn annarri þjóð. Það var gert í ágúst 1945 gegn Japan, drápu í sprengingunum á Nagasaki og Hírósíma 100 þúsund manns og mörg hundruð þúsund manns örkumluðust og dóu síðan í kjölfarið og áhrifanna gætir enn. Og Bandaríkjamenn verja þessa gjörð sína enn þá.

Síðan er ástæða til að minna á að Bandaríkjastjórn sagði upp ABM-samningum, Anti-Ballistic Missile Treaty, sem var gerður 1972. Bandaríkjamenn eða Bush gerði það á fyrstu metrunum í embætti sínu og síðan hafa þeir lagst gegn samningum um bann við tilraunum gegn kjarnorkuvopnum. Þessu hefur hæstv. utanríkisráðherra engar áhyggjur af og ekki heldur tilraunum sem gerðar hafa verið á vegum annarra ríkja, Ástralíu, Suður-Kóreu. Ég er upplýstur um það af hálfu sérfræðinga íslenska ríkisins að þar sé ekki saman að jafna því sem sé að gerast í Íran. Það má vel vera, ég ætla ekki að fella neinn dóm um það, en hitt veit ég að menn leggja það ekki að jöfnu í sínum pólitísku dómum þegar í hlut eiga ríki sem eru hliðholl Bandaríkjunum og önnur.

Þá kem ég að því sem ég því miður hef allt of lítinn tíma til, það er öryggisráðið. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sé sammála mér að því leyti að við gætum varið þeim fjármunum sem eiga að fara í tilraunir okkar til að komast í öryggisráðið og tilkostnað í tengslum við það betur til annarra mála. Það er t.d. unnið að hafbotnssáttmála fyrir Sameinuðu þjóðirnar, við höfum sett framlag og vinnu inn í það verkefni. Eigum við ekki frekar að nota þessa peninga á sviði af þessu tagi, efla rannsóknir hér heima við háskóla og aðrar rannsóknarstofnanir í stað þess að vera að streða þetta að komast inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna? Værum við ekki að verja peningum okkar á markvissari hátt til að láta gott af okkur leiða á alþjóðavettvangi með þeim hætti? Það væri fróðlegt að heyra svar hæstv. utanríkisráðherra um það efni.



[16:14]Útbýting:

[16:14]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að koma hér upp í dag öðru sinni til að fjalla aðeins nánar um ræðu hæstv. utanríkisráðherra sem hann flutti í morgun um utanríkismál. Það er nú þannig til háttað á minni skrifstofu að sjónvarpið virkar og ég hef því getað fylgst með umræðum í dag og mér hafa þótt þær bæði áhugaverðar og fyrir margt athygliverðar. Það hefur kannski blásið mér í brjóst, veitt mér innblástur til að koma hingað í annað sinn, ég skal ekki um það segja.

Hæstv. utanríkisráðherra hóf ræðu sína hér í morgun m.a. á því að tala um Evrópusambandið og þar hygg ég nú, þó að við séum ósammála um ástandið í Palestínu, að við séum nokkuð sammála um pólitíkina varðandi Evrópusambandið. EES-samningurinn hefur verið okkur til gæfu og ég sé enga ástæðu til þess að við Íslendingar séum neitt að daðra við inngöngu í þetta samband.

Mig langar núna, af því að rétt vika er til þingkosninga í Bretlandi, til að vekja athygli á því að Íhaldsflokkurinn, þ.e. systurflokkur eða bróðurflokkur hæstv. utanríkisráðherra í Bretlandi, hefur meitlað og mótað nýja stefnu í sjávarútvegsmálum. Innan Íhaldsflokksins eru öfl sem eru mjög ósátt, og hafa ávallt verið, við aðild Breta að Evrópusambandinu. Gríðarleg óánægja ríkir á Bretlandseyjum, bæði í Skotlandi og líka sunnar í Bretlandi, með hina svokölluðu sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Breski Íhaldsflokkurinn hefur farið í þessa kosningabaráttu núna með svokallaðan grænan pappír sem hann kynnti fyrr í vetur. Sá inniheldur nýja fiskveiðistefnu, nýja fiskveiðipólitík sem breskir íhaldsmenn vilja innleiða á Bretlandseyjum.

Sú pólitík líkist mjög þeirri sem við í Frjálslynda flokknum höfum verið að boða, líkist mjög þeim áherslum sem við höfum viljað leggja á fiskveiðistjórnarmál, sjávarútvegsmál hér á Íslandi. Það er náttúrlega fyrir marga hluti nokkuð athyglivert að einmitt Sjálfstæðisflokkurinn skuli í lengstu lög halda áfram að verja þá sjávarútvegsstefnu sem fylgt hefur verið hér á landi í tvo áratugi þrátt fyrir að það hafi sýnt sig að hún hafi ekki skilað því sem hún átti að skila. Ég get alveg sagt: Því miður. Ég ætla ekki að segja að menn hafi ekki lagt af stað með góðar áætlanir og fögur fyrirheit en því miður hefur fæst af því gengið eftir. Ég held að við verðum bara að fara að viðurkenna það. Sérstaklega í ljósi nýjustu fregna af ástandi og horfum þorskstofnsins verðum við að fara að viðurkenna að þetta hefur alls ekki gengið upp hjá okkur. Við erum ekki á þeirri vegferð sem við ætluðum í þegar við lögðum af stað fyrir rúmlega 20 árum.

En nóg um það, virðulegur forseti, ég ætla ekki að eyða dýrmætum mínútum í að þvarga yfir þessu, það verður að bíða betri tíma, en mig langar aðeins til að fara yfir helstu atriðin í nýrri sjávarútvegsstefnu breska Íhaldsflokksins okkur öllum til upplýsingar. Það kerfi byggist sem sagt á því að breskir íhaldsmenn vilja hverfa frá kvótastýrðum fiskveiðum í botnfiski, eins og við viljum gera í Frjálslynda flokknum, þeir vilja taka upp sóknarstýrt fiskveiðikerfi. Þeir vilja líka leggja blátt bann við brottkasti á fiski og það höfum við að sjálfsögðu hér við Ísland líka þó að það hafi reyndar verið vandamál um margra ára skeið. Þeir vilja leggja áhersluna á lokun veiðisvæða til að vernda fiskstofna og það er liður í því sem við í Frjálslynda flokknum höfum boðað ásamt því að vera með sóknarstýrt kerfi, þ.e. að við getum lokað ákveðnum svæðum til að vernda fiskstofna eða hluta fiskstofna, til að mynda hrygningarstofn fyrir veiðum þegar hann er að hrygna. Þeir vilja líka loka svæðum tímabundið og það er að sjálfsögðu aðferð sem okkur hugnast. Þetta eru aðferðir sem hafa verið notaðar hér á Íslandi, þ.e. lokun svæða til lengri tíma og síðan til skemmri tíma í bland við kvótakerfið hér á landi.

Breskir íhaldsmenn leggja áherslu á að notuð séu veiðarfæri sem hafa góða kjörhæfni, geta þá veitt ákveðnar tegundir eða ákveðna stærð af fiskum. Þetta höfum við haft hér líka í kvótakerfinu. Við í Frjálslynda flokknum viljum leggja svolítið öðruvísi áherslur á þessi mál en gert hefur verið í fiskveiðistjórn hér við land fram til þessa, m.a. leggja meiri áherslu á svokallaðar krókaveiðar þegar verið er að veiða tegundir botnfiska. Ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Íhaldsmennirnir vilja leggja áherslu á að það verði lágmarksstærðir á fiski, að menn hafi einhver viðmiðunarmörk eins og við höfum reyndar hér í kvótakerfinu. Þeir vilja að sjálfsögðu að bátar verði háðir veiðileyfum og það viljum við einnig í Frjálslynda flokknum þó að við viljum hafa þetta tiltölulega rúmt í minnsta flotanum enda teljum við að minnstu bátarnir í strandveiðiflotanum verði aldrei nein ógn við neina fiskstofna. Það eru aðrir þættir eins og veðurfar og þess háttar sem hafa hömlur.

Þetta eru helstu liðirnir í nýrri fiskveiðistefnu breskra íhaldsmanna. Það sem skilur fyrst og fremst á milli þess sem við höfum hér við land og þess sem þeir vilja innleiða við Bretlandsstrendur er að þeir vilja afnema kvótastýringuna og telja að það sé miklu vænlegra fyrir breskt þjóðfélag og þá sérstaklega sjávarbyggðirnar því að fiskveiðar hafa þrátt fyrir allt verið mikilvægar á ákveðnum svæðum við Bretlandseyjar. Þó að þær skipti mjög litlu máli í heildartilliti fyrir þjóðfélagið allt eru þær mjög mikilvægar til að mynda í Norðaustur-Skotlandi, í sjávarbæjunum þar. Þangað hef ég komið og einmitt orðið var við þessa miklu óánægju, ekki síst með árangursleysi fiskveiðistjórnar Evrópusambandsins sem er algjör hryllingur og hefur verið lengi, það vitum við. Ég bið bara allar góðar vættir að hjálpa mér ef sú fiskveiðistjórn ætti eftir að hellast yfir okkur hér á Íslandi því að þó að það hafi verið slæmt hér yrði það enn verra ef Evrópusambandið kæmist með puttana í það, það er alveg á hreinu.

Það er sem sagt mikil óánægja með árangursleysið en líka er mikill ótti við það að þjóðir sunnan úr álfunni, sunnan úr Evrópu, sæki norður á bóginn og leggi undir sig mið heimamanna. Þetta er raunveruleg og mjög alvarleg hætta sem blasir við fólki á Bretlandseyjum, þ.e. að þjóðir eins og Spánverjar og Portúgalar sem búa yfir miklum fiskveiðiflotum sæki norður á bóginn. Mér hefur verið tjáð það í þessum sjávarútvegsbæjum að það sé stöðugur þrýstingur af hálfu þessara þjóða að fá að komast norður á bóginn, komast í Norðursjóinn, fá að veiða norður af Bretlandseyjum allt upp að færeysku lögsögunni og jafnvel enn lengra. Bretar eiga mjög í vök að verjast, Skotar einkum og sér í lagi, andspænis þessum þrýstingi frá Evrópusambandinu.

Í það heila, virðulegi forseti, fagna ég því að það er ekkert að sjá í þessari ræðu sem gefur tilefni til að óttast að ríkisstjórnin ætli neitt að fara að daðra við aðild að Evrópusambandinu.

Tíminn líður hratt, herra forseti. Mig langaði til að koma inn á annað mál. Það eru náttúrlega ótal mörg athygliverð mál sem hæstv. utanríkisráðherra minntist á í ræðu sinni í morgun sem hefði verið gaman að ræða svolítið nánar. Ég kom aðeins inn á ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs í fyrri ræðu minni. Það er eitt mál einkum og sér í lagi sem mig langar til að ræða, sem enginn hefur minnst á fram til þessa, og það eru þau atriði sem hæstv. utanríkisráðherra kom inn á í lokaorðum sínum. Þar er á ferðinni stórmál, mjög ánægjulegt að ríkisstjórnin skuli hafa hafið vinnu við það að undirbúa málsókn okkar fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag gegn Noregi vegna hins svokallaða Svalbarðamáls. Þetta hygg ég, virðulegi forseti, að sé kannski eitt mikilvægasta utanríkismál okkar Íslendinga um þessar stundir. Ég er í raun og veru ekki í neinum vafa um það. Þarna eru í húfi alveg gríðarlegir hagsmunir, framtíðarhagsmunir, fyrir okkur Íslendinga. Norðmenn eru að reyna að slá eign sinni á gríðarlega stórt svæði, bæði landsvæði og hafsvæði norðaustur af okkur, og á þessum svæðum eru miklar auðlindir, ekki bara fiskstofnar heldur líka olía og gas.

Norðmenn gera sér mjög vel grein fyrir því að þarna eru miklar auðlindir. Nýverið kom út stór og viðamikil skýrsla á vegum utanríkisráðuneytisins í Noregi, skýrsla upp á einar 130 blaðsíður. Það var nefnd sérfræðinga sem skilaði af sér vinnu sem hófst fyrir réttu einu og hálfu ári, að ég hygg, og þar er einmitt bent á það að á þessum svæðum sé að finna mikilvægar auðlindir með tilliti til olíu, kola og einnig gass.

Það er mín bjargfasta trú og skoðun að við Íslendingar eigum að sýna Norðmönnum fulla hörku í þessu máli og eigum að halda áfram ótrauð að undirbúa málsókn fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag gegn Norðmönnum því að ég hygg að við munum ekki vinna þetta mál öðruvísi en fyrir dómstólum. Það er alveg fullreynt, að ég tel, að Norðmenn muni nokkuð gefa eftir. Þeir hafa verið vanir að beita fyrir sig klókindalegri pólitík sem gengur út á það að ávinna sér eins konar hefðarrétt, fara hljóðlega um í von um að engir mótmæli svo alvarlega að eftir verði tekið. Þetta hefur tekist ágætlega fram að þessu. Þeir hafa náð eins konar þegjandi samkomulagi við Rússa sem virðast jafnvel vera með þeim í einhverju samkrulli um þessi mál sem síðan gengur þá út á það að halda hinum fyrir utan. Evrópusambandið virðist ekki hafa sýnt þessu mjög mikinn áhuga, enda hefur kannski Evrópusambandinu verið mútað með veiðikvótum í Barentshafi í gegnum árin. Þá standa einungis eftir Íslendingar og ég hygg að það hljóti að verða hlutverk okkar að fá skýra niðurstöðu í þetta mál, mjög skýra niðurstöðu um það hver eigi í raun og veru tilkall til yfirráða á Svalbarða og hafsvæðinu þar allt í kring.

Hæstv. utanríkisráðherra talar nokkuð skýrt um þetta mál í ræðu sinni, mun skýrar og ítarlegar um þetta mál en mörg önnur mál sem hann kom inn á þar á undan. Ég verð að segja að ég hef líka fylgst með fréttum það sem af er degi og mér finnst undarlegt að enginn fréttamiðilll skuli hafa greint frá þessu starfi og lagt áherslu á það að beina kastljósinu einmitt að þessu máli. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt og stórt mál. Það passar líka vel inn í árstíðina, nú er að koma vor og síldin að ganga hér yfir. Enn er ógengið frá samningum um skiptingu síldarinnar við Evrópusambandið, Norðmenn og Færeyinga, og það er að sjálfsögðu einnig mjög stórt utanríkismál því að þessi síldarstofn er í mjög örum vexti, verð á síld afskaplega hagstætt um þessar mundir og þarna því um gríðarleg verðmæti að ræða.

Í það heila, virðulegi forseti, fer þessari umræðu að ljúka reikna ég með. Ég vil að lokum lýsa undrun minni á því að við höfum ekkert séð til ferða þingmanna Famsóknarflokksins í þessari umræðu í dag. Ég held að Framsóknarflokkurinn eigi eina fjóra fulltrúa í utanríkismálanefnd Alþingis, enginn þeirra hefur sést við umræður í dag. (Gripið fram í.) Mér þykir þetta mjög skrýtið því að fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra er jú formaður Framsóknarflokksins og ég hygg að það hefði ekki skaðað að hv. þingmenn Framsóknarflokksins, hins ríkisstjórnarflokksins, hefðu komið hingað, látið ljós sitt skína og tekið þátt í umræðum og þá um leið að sjálfsögðu staðið fyrir máli sínu. Utanríkismálin eru mjög mikilvægur málaflokkur, þar er af mörgu að taka og það er hægt að hreyfa við ótal mörgum mikilvægum þjóðþrifamálum í umræðu á svona degi. Þetta hygg ég að sé alvarlegur afleikur hjá vinum okkar í Framsóknarflokknum. Við skulum bara vona að þeir sitji á skrifstofum sínum og að sjónvarpstækin þeirra séu í lagi þannig að þeir hafi þá a.m.k. vitað hvað fór hér fram og hvernig púlsinn er í utanríkismálaumræðu (Gripið fram í: Sammála því.) á Íslandi í dag.

Það er engin ástæða fyrir stjórnmálaflokk að hætta að fylgjast með utanríkismálum þó að hann ráði ekki lengur yfir utanríkisráðuneytinu.



[16:28]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið við lok þessarar umræðu til að þakka mönnum fyrir málefnalega umfjöllun um þau efni sem hér hafa verið til umfjöllunar. Auðvitað hefur sitt sýnst hverjum eins og verða vill um ýmis málefni en þó er það svo að einnig hefur verið allgóð sátt um stór atriði sem skipta miklu fyrir hag og heill íslensku þjóðarinnar.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að fríverslun við Kanada og spurðist fyrir um hvers vegna tafist hefði að fjalla um það mál og hvort Norðmenn hefðu staðið þar í vegi. Það er alveg rétt að það hefur tafist að ljúka fríverslunarsamningi við Kanada, fyrst og síðast vegna þess að það hefur valdið erfiðleikum hjá Kanadamönnum sjálfum. Það hefur með vissum hætti tengst áhyggjum sem þeir hafa haft af skipasmíðaiðnaði sem þeir töldu að stæði höllum fæti gagnvart áður ríkisstyrktum iðnaði af því tagi hjá Norðmönnum. Við höfum reynt að vinna sérstaklega ákveðið að þessu máli og við teljum að nú séu glufur að opnast. Nýlega kom út skýrsla um utanríkisviðskiptamál í Kanada þar sem lýst er framtíðarmarkmiðum og fyrirætlunum og í henni er talað um að ganga þurfi frá samningi sem legið hefur fyrir um EFTA-ríkin. Um þessar mundir virðist því vera ákveðinn áhugi á málinu af hálfu Kanada og við skulum vonast til að það geti gengið eftir.

Varðandi það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á í sínum tveimur ræðum — ég fjallaði aðeins reyndar í andsvörum um ákveðna þætti í fyrri ræðu hans og mun því ekki endurtaka það — hann vék að kosningum í Írak, og orðalag hans um að þær kosningar væru í skötulíki fannst mér ganga fulllangt. Fannst mér reyndar að hann drægi nokkuð úr því orðalagi í seinni ræðu sinni og viðurkenndi að þátttakan hefði verið athyglisverð, a.m.k. að svo stór hópur manna við þessar aðstæður tæki þátt, þó að hann benti á að á ýmsum svæðum í landinu hefðu verið annmarkar og verr gengið en á öðrum. Hann dró fram skýringar á þeim þáttum sem ég út af fyrir sig get flestar tekið undir. Menn þekkja þá þætti sem þar réðu mestu um að kosningaþátttaka var dræmari en til að mynda í meginatriðum í Norður-Írak og Suður-Írak, auk þess sem kynþáttaskipting var augljóslega fyrir hendi í kosningunum.

Reynsla mín af að taka þátt í umræðum eða vera viðstaddur umræður um þessar kosningar er að fulltrúar þjóða sem höfðu til að mynda miklar efasemdir um framgöngu hinna staðföstu þjóða í Írak og miklar efasemdir um að tímabært hefði verið eða fullreynt á því stigi sem innrásin var gerð í Írak, að tímasetningin hefði verið rétt, undirbúningur nægur, röksemdir fullnægar eða lögmæti í lagi, svo að nokkrir þættir séu nefndir til sögunnar, hafa á þeim fundum sem ég hef séð til þeirra bersýnilega undrast hversu mikil þátttakan í kosningunum var og hversu ákveðið fólk gekk þar fram. Þrátt fyrir hótanir og ógnanir af margvíslegu tagi var það tilbúið til að sýna að það hefði tekið þátt í kosningunum, veifaði blámerktum fingrum — lítill hluti af bláu hendinni — í gleði sinni yfir þessum kosningum og því að fá að taka þátt. — Þetta var nú óþarft innskot hjá mér og átti ekki við.

Auðvitað er það svo, og maður skilur það vel, að þetta fólk sem er ekki mikið öðruvísi en við þrátt fyrir annan aðdraganda að tilverunni um langa hríð hefur glaðst yfir því að fá tækifæri til að hafa bein áhrif á þróun mála hjá sér.

Hv. þingmaður nefndi reyndar til sögunnar fréttir, eins og hann sagði, um starfandi forsætisráðherra í Írak að hann hefði sjálfur og persónulega líflátið menn í fangelsum. Eftir því sem ég best veit voru þetta sögusagnir sem hvergi hafa fengist staðfestar. Kannski er fullmikið sagt að kalla þetta fréttir en slíkar sögusagnir voru á kreiki.

Vegna þess sem hv. þingmaður nefndi um Íraksstríðið og taldi til ýmsar þjóðir sem honum fannst bersýnilega ekki mikið koma til — þótt hann segði það ekki — hefði hann mátt nefna aðrar þjóðir fyrst honum bersýnilega þótti þær virðulegri og voru ónefndar, eins og Danmörk, Pólland, Ítalía, Spánn, Ástralía, Bretland, Ísland o.s.frv. Það er reyndar athyglisvert, þrátt fyrir að ekki sé auðvelt að taka ákvörðun í ofsafengnum umræðum, taka þátt eða styðja aðgerð af þessu tagi, nauðsynlega aðgerð af þessu tagi, að kjósendur hafa þrátt fyrir allt — ef Spánn er undanskilinn og þar voru þessar sérstöku aðstæður, sprengiárás fáum dögum fyrir kosningar — blásið þeim stjórnum sem hafa tekið þessar erfiðu ákvarðanir byr í seglin í kosningunum á eftir, svo sem í Danmörku og Ástralíu. Svo virðist líka vera að gerast í Bretlandi þrátt fyrir ýmsa erfiðleika hjá Blair. Það er athyglisvert að þessar þjóðir fá byr og á Íslandi var styst í kosningarnar en ríkisstjórnin sem var í hópi hinna staðföstu ríkja hélt velli. Allt er þetta a.m.k. athyglisvert.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um gereyðingarvopnin og notkun Bandaríkjamanna á sprengjum hljótum við öll að harma það sem gerðist í Nagasaki og Hiroshima og þau hörmungarörlög sem saklausir borgarar í stórum stíl urðu fyrir þar á einu lifandi augabragði og þeir sem fjær stóðu í áratugi þar á eftir. Það fólk dó ekki til einskis, þó að við hörmum örlög þess, vegna þess að menn sáu a.m.k. þann hrylling sem þessar sprengjur geta valdið og eru þær þó smásmíði á við þau vopn sem eru fyrir hendi í dag af sama tagi. Því var haldið fram að hörmungarnar í langvarandi bardögum hús úr húsi, götu úr götu í Japan, miðað við hörku sem þar hefði verið sýnd, hefðu verið mannfrekari og óhuggulegri. Ég hygg að það hafi verið rök Bandaríkjamanna sem hafa varið þær óhuggulegu sprengingar sem þarna urðu, eða eigum við að segja réttlætt þær sem er ekki auðvelt mál að gera. Eins og við hörmum örlög þessa fólks, saklausra borgara oftast nær í þessum tilvikum, langflestum tilvikum, er það svo að sá viðbjóður sem þessar sprengjur eru kristölluðust með þeim hætti að ég vona að slíkum vopnum verði aldrei beitt í henni veröld.

Þegar við tölum um skálkaríkisstjórnir og þess háttar benti hv. þingmaður á að það er kannski flókið að draga þjóðir í dilka. Menn kunna að hafa skoðanir á því en hafa þá kannski í því sambandi reynt að halda sig við ríkisstjórnir sem verða að fara að lögum og lýðræði og lúta niðurstöðum kosninga. Það er a.m.k. sá hemill sem hefur að okkar mati verið drýgstur í slíkum efnum.

Við sáum að þó að Saddam Hussein beitti ekki kjarnorkuvopnum, hefði ekki yfir þeim að ráða, beitti hann öðrum sambærilegum vopnum gagnvart börnum og konum í Kúrdistan, í héruðum Íraks, með ægilegum afleiðingum. Það höfum við séð gerast. Afleiðingar þess fyrir hann voru engar innan lands. Ekkert lýðræðisríki, enginn lýðræðislegur foringi hefði nokkru sinni haft afl til þess og staðið eftir án þess að vera fangelsaður í kjölfarið. Á þessu er ákveðinn munur.

Ég vona að ég hagi ekki orðum mínum með þeim hætti að ég sé að réttlæta nokkurn skapaðan hlut af þessu tagi. Vel má vera að mér hafi fipast eitthvað orðalagið, en hv. þingmenn vita að það var ekki meiningin á neinn hátt.

Varðandi öryggisráðið sem hv. þingmaður nefndi þá hef ég farið yfir það í þessari umræðu vegna þess að þetta er heilmikil ákvörðun. Það má segja að ég beri fyrir mitt leyti ekki síðri ábyrgð á því en aðrir í stjórnarliðinu, jafnvel meiri býst ég við sem forsætisráðherra þegar á stað var haldið, að það var gert og að þessu stefnt. Á því hefur út af fyrir sig ekki orðið breyting. Það hefur hins vegar gerst að nú horfum við fram á það að þetta er ekki eins létt leið og við kannski vonuðumst til að hún yrði. Við leituðum eftir því við Austurríkismenn að ná samkomulagi við þá, að þeir gætu fært sig aftar þannig að slagurinn yrði auðveldari. Við erum nýbúin að fá upplýsingar um að Kanada ætlar ekki að styðja okkur í þessari baráttu. Það voru heilmikil vonbrigði, Kanada mun styðja Austurríkismenn.

Fyrstu vangaveltur í ráðuneytinu um kostnað voru miklu hærri en þær tölur sem við erum að horfa á núna. Auðvitað má segja að það sé ákveðin tilhneiging við fyrsta mat að hengja alla pinkla sem hægt er á aðgerðir af þessu tagi. Vel má vera að sú kostnaðaráætlun sem nú hefur verið gerð geti staðist. Ég tel þó rétt að setja þann fyrirvara að sagan kennir okkur að þegar ekki verður lengur aftur snúið með baráttu af þessu tagi og hún harðnar getur maður þurft að segja: Nú, ef við setjum ekki í þetta 100, 200, 300, 700 milljónir í viðbót tapast þær 300, 400, 500 milljónir sem við höfum þegar sett í dæmið. Hvað gera menn þá? Ég er ekki að segja að ég muni standa frammi fyrir því, aðrir menn en ég kunna að standa frammi fyrir því verkefni. En það væri mjög kjánalegt á þessu stigi málsins að ræða ekki þau mál opinskátt. Ég gerði það í utanríkismálanefnd og ég hef viljað gera það hér.

Síðan kemur spurningin sem var beint til mín af hálfu hv. þingmanns, hvort þessum peningum yrði ekki betur varið í aðra þætti. Um það má vissulega deila eins og alla aðra forgangsröðun en ef við verjum í þetta 500–600 milljónum og komumst ekki einu sinni inn er þeim peningum væntanlega illa varið miðað við flest önnur verkefni. Ef við eyðum í þetta mörg hundruð milljónum, 400, 500, 600 milljónum, og komumst síðan ekki einu sinni inn í öryggisráðið til að halda þar uppi reisn sjálfstæðra þjóða — sem við viljum gjarnan keppa að og ég tel að sé göfugt markmið í sjálfu sér — er erfitt fyrir mig að standa hér og segja: Þeim peningum var ekki illa varið miðað við ýmis önnur mikilvæg verkefni og útgjöld sem við vildum gjarnan fara í.

Tíminn líður. Varðandi það sem hv. þingmaður sem hér talaði síðast, Magnús Þór Hafsteinsson, sagði um fiskveiðistefnu íhaldsmanna í Bretlandi verð ég að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér þá stefnu sérstaklega. Er hún mér ókunnug. Á hinn bóginn verður að segja það eins og er með fullri virðingu fyrir þeim flokki, Íhaldsflokknum í Bretlandi, að hann hefur ekki góða sögu í sjávarútvegsmálum gagnvart Evrópusambandinu. Í plöggum sem voru gerð opinber eftir 30 ár kemur fram að Edward Heath, sem var leiðandi í baráttunni fyrir inngöngu í Evrópusambandið, hélt meðvitað fram glansmynd gagnvart fiskveiðibæjum í Bretlandi þegar hann var að tryggja inngöngu í Evrópusambandið. Það hefur nú verið upplýst að þarna var haldið að mönnum glansmynd gegn betri vitund þannig að sá ágæti flokkur, með fullri virðingu fyrir honum, á ekki glæsta fortíð í sjávarútvegsstefnumálum þegar Evrópusambandið á í hlut. Það verður bara að segja það eins og er.



[16:43]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er það misskilningur að ég hafi verið að draga eitthvað í land varðandi ummæli mín um kosningarnar í Írak þegar ég sagði að þær hefðu verið í skötulíki. Auðvitað mætti hafa miklu stærri orð um það. Það kom mér ekki á óvart að kosningaþátttaka var mikil og að fólk vildi kjósa. Það er bara lýðræðislegur vilji friðelskandi fólks að koma á eðlilegu stjórnarfari. Það má segja að ef þátttakan var 7,5–8 milljónir hafi hún verið mikil miðað við aðstæður að þessu leyti. Samanborið við það sem gerist í okkar heimshluta er þetta hins vegar ekki mikið. Það er talið að 13 milljónir hafi verið á kjörskrá og 58% þeirra hafi kosið en langt undir helmingi kosningarbærra manna tók þátt í kosningunum.

Um lygarnar og ósannindin í tengslum við árásina á Írak og hernámið og stríðsglæpina, pyntingar í fangelsum o.s.frv., má hafa langt mál. Sömuleiðis um Allawi forsætisráðherra. Það eru ekki sögusagnir, þetta voru fréttir sem voru sagðar í fjölmiðlum á Vesturlöndum, þegar hann myrti nokkra unglinga í fangelsi í Írak en það hefur ekki þótt þess virði að kanna á okkar bæjum.

Ég vil víkja aðeins að umræðunni um kjarnorkuvopn. Ég ætla ekki að leggja neinn annan skilning í orð hæstv. ráðherra en ég tel að búi að baki þeim eins og þau eru meint frá innstu hjartans rótum. Hættan við kjarnorkuvopn, hver svo sem hefur þau á hendi, er einmitt sú að menn telji sig vera að koma í veg fyrir aðra og stærri ógæfu með að beita þeim. Þess vegna eru þau ekki aðeins hættuleg í höndum þeirra sem maður telur vera skálka, heldur í höndum allra.

Mér var það mikið áhyggjuefni, og meira en það, það var hálfgert (Forseti hringir.) áfall þegar ég heyrði fulltrúa bandaríska (Forseti hringir.) sendiráðsins í Reykjavík lýsa því að þetta hefði verið heppilegt og að það væri engin eftirsjá (Forseti hringir.) yfir því á þeim bænum að hafa beitt þessum vopnum.



[16:45]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Vandamálið varðandi kjarnorkuvopnin og útbreiðslu þeirra er, ef það gengur eftir, að ríki sem eru skuldbindandi aðilar að samningi um takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna geta án stórra vandkvæða brotið gegn þeim samningi. Þá er hætt við því að önnur ríki gangi hinn sama veg. Síðan er þá hættan í framhaldinu að eftir því sem þessum ríkjum fjölgi geti kjarnorkuvopn borist þaðan í einni eða annarri mynd, svokallaðar skítugar sprengjur eða hvað það er kallað, til aðila sem kannski ólíkt ríkjum væru tilbúnir til að beita þeim vopnum gegn saklausum almenningi, til að mynda á Vesturlöndum. Það er hætta sem hlýtur að vera raunveruleg.

Hitt er svo annað mál að ríki taka auðvitað eftir því að þau virðast njóta meiri virðingar ef þau eiga kjarnorkuvopn. Ef þau eru búin að koma sér upp þeim vopnum er afskaplega flókið og erfitt að koma því til leiðar að þau haldi þeim vopnum ekki lengur. Það var mikið áfall þegar bæði Pakistanar og Indverjar sprengdu kjarnorkusprengjur fyrr en menn höfðu búist við að fyrir lægi að þeir hefðu komið sér upp slíkum vopnum. Eftir að það hefur gerst er flókið að stemma stigu við útbreiðslu þeirra eða aukningu, hvað þá að ganga til baka. Það hefur þó tekist eftir hrun Sovétríkjanna með samningum eins og gagnvart Úkraínu. Það tókst líka í Suður-Afríku þar sem þessum vopnum var sannanlega eytt en það er ekki auðvelt í framkvæmd.



[16:47]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir að mér finnst áhyggjuefni að ríki skuli ætla að brjóta samkomulag sem þau hafa gerst aðilar að um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Ég legg þó jafnframt áherslu á að ég hef áhyggjur af kjarnorkuvopnum, hver svo sem hefur þau á hendi, og minni á að eitt ríki í heiminum hefur beitt þessum vopnum, Bandaríkin. Þau viðhalda enn þeirri kenningu að það sé réttlætanlegt að beita kjarnorkusprengjunni og segja að beiting hennar í Japan árið 1945 hafi orðið til góðs. Menn sem hugsa á þennan veg, eða gera það einu sinni, gætu gert það aftur.

Staðreyndin er sú að Bandaríkjamenn eru að segja sig frá samningum sem gerðir hafa verið á liðnum árum og áratugum, t.d. ABM-samningnum sem gerður var 1972, og hafa hafið áætlanir sem kenndar voru við stjörnustríð fyrr á tíð, um vopnvæðingu úti í himingeimnum. Bandaríkin neita að gerast aðilar að samningi um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn.

Bandaríkjastjórn sú sem nú stýrir því mikla og volduga ríki hlýtur að vera okkur ekki síður áhyggjuefni en skálkarnir sem hæstv. utanríkisráðherra nefnir svo, og reyndar set ég þann stóra skálk George Bush rækilega inn í þann hóp og undir þá skilgreiningu.