131. löggjafarþing — 120. fundur
 2. maí 2005.
breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn, síðari umræða.
stjtill., 435. mál (vinnutímatilskipunin). — Þskj. 641, nál. 1196.

[10:55]
Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar á þskj. 1196, máli 435, tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2004, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2004 frá 23. apríl 2004, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma

Nefndin fékk til fundar við sig þau Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Gylfa Kristinsson frá félagsmálaráðuneyti, Bjarna Þór Eyvindsson frá Samtökum unglækna, Gunnar Björnsson frá fjármálaráðuneyti, Guðríði Þorsteinsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins.

Vinnutímatilskipunin felur í sér lágmarksreglur um skipulag vinnutíma að teknu tilliti til öryggis og heilbrigðis starfsmanna. Tilskipunin gildir um daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma, árlegt orlof, um hlé og hámarksvinnutíma á viku og tiltekna þætti í tengslum við næturvinnu, vaktavinnu og vinnumynstur. Vinnutímatilskipunin hefur verið innleidd í íslenskan rétt að því er flestar starfsgreinar varðar. Efni vinnutímatilskipunar mun nú taka til allra atvinnugreina ef sérreglur hafa ekki verið settar um þær, svo sem um farmenn.

Innleiðing tilskipunar þessarar kallar á lagabreytingar hér á landi en að meginstefnu til hefur það verið gert nú þegar með breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum, og lögum um orlof, nr. 30/1987, með síðari breytingum. Þá er einnig mögulegt að innleiða efni hennar með kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins.

Við meðferð málsins í nefndinni var einkum rætt um lækna í starfsnámi. Ákvæði vinnutímatilskipunarinnar hefur enn sem komið er ekki verið innleitt hvað lækna í starfsnámi varðar en með samþykkt þessarar tilskipunar er ljóst að grípa verður skjótt til aðgerða. Ljóst er að vinnutími unglækna er oft og tíðum mjög langur sem hlýtur að koma niður á bæði læknum og sjúklingum.

Hins vegar þarf líka að sjá til þess að þeir fái næga starfsþjálfun.

Af þeim sökum telur nefndin brýnt að löggjafinn, stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins bregðist við og geri nauðsynlegar breytingar sem fyrst en tilskipunin virðist veita nokkurt svigrúm hvað nokkrar stéttir varðar, þar á meðal heilbrigðisstarfsmenn.

Hæstv. forseti. Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt og undir nefndarálit þetta skrifa hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Dagný Jónsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Jónína Bjartmarz, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ögmundur Jónasson, en sá síðastnefndi ritar undir nefndarálitið með fyrirvara.



[10:59]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er varla hægt að láta þessa umræðu fara fram án þess að á það verði aðeins drepið hvernig Íslendingar standa að vígi gagnvart innleiðingu þeirra þátta þessarar tilskipunar sem þegar hafa verið til umfjöllunar á Alþingi áður, þá auðvitað sérstaklega hvað varðar málefni lækna í starfsnámi. Þar háttar einmitt svo til um þessar mundir að Ísland er komið í ónáð og hefur nýtt, og meira en nýtt, alla þá fresti sem það hefur til að hrinda þeim hlutum í framkvæmd. Auðvitað hefði verið ánægjulegra ef samhliða þessu máli hefði verið hægt að upplýsa um það hvernig búið væri að hrinda því í framkvæmd og takast á við það á íslenskum heilbrigðisstofnunum, einkum og sér í lagi stóru sjúkrahúsunum þar sem læknar eru í starfsnámi, Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, hvað varðar breytingar á rekstri þar, mönnun deilda og annað því um líkt sem þetta kemur inn á.

Fyrst má segja um þessa vinnutímatilskipun almennt, eða þessar samevrópsku reglur, um ýmis ákvæði sem varða öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, rétt starfsmanna og þar með talið til eðlilegs hvíldartíma, að þarna var á ferðinni samræming á reglum sem voru auðvitað að verulegu leyti til staðar í löggjöf ríkja. Sérstaklega átti það við um Norðurlöndin sem með sinn tiltölulega þróaða vinnumarkað voru í flestum tilvikum jafn vel, og í sumum tilvikum betur, sett en þessi vinnutímatilskipun hafði í för með sér. Sumt af því á sér langan aðdraganda, annað skemmri. Það fór þó auðvitað ekki hjá því að reglurnar höfðu áhrif á einstakar stéttir og hvað Íslendinga varðaði muna menn sjálfsagt umræður um þau áhrif sem þetta hafði á flutningastarfsemi í landinu og hvíldartíma bílstjóra. Auðvitað eru aðstæður hér sérstakar og þetta getur komið mismunandi við eftir starfsgreinum og eftir þeim aðstæðum sem þar er við að búa.

Sjómannastéttin og farmannastéttin eru að hluta til með sérreglur í þessum efnum eins og kunnugt er og þannig mætti fara yfir það hvernig þetta kom við einstaka hópa. Langmestu áhrifin held ég að verði þó að segja að þetta hafði eða átti að koma til með að hafa á t.d. lækna, bæði sérfræðinga í starfi og lækna í starfsnámi. Þegar þessar reglur komu til framkvæmda og ekki voru neinar undanþágur til að styðjast við, hvað varðaði t.d. sérfræðinga á sjúkrahúsum, varð að gera hér talsverðar ráðstafanir sem kostuðu nokkur fjárútlát vegna þess að það vaktakerfi sem hafði verið við lýði án hvíldartíma fékk ekki staðist eftir að hinar nýju evrópsku reglur um hvíldartíma komu til sögunnar. Sérstaklega kom þetta við reksturinn á minni deildum, á fámennum sérhæfðum deildum þar sem kannski 3–4 sérfræðingar gengu vaktir og erfitt var um vik að uppfylla ákvæðin um lágmarkshvíldartíma nema með ráðningu viðbótarstarfsmanna.

Ég minnist þess t.d. að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þurfti að fara í allverulegar breytingar og fá þó nokkrar fjárveitingar til að mæta þessum áhrifum. Það tókst og engum finnst það annað en sjálfsagt í dag að menn tókust á við þessar breytingar og leystu úr þeim. Þeim mun undarlegra er það, frú forseti, að enn er allt í þoku hvað varðar þann þátt málsins hér sem snýr að læknum í starfsnámi, sem sagt læknakandídötum sem lokið hafa grunnnámi í læknisfræði en eru að vinna á spítölunum kandídatsár sitt eða eru lagðir af stað í sérnám sem felst í vinnu á deildum. Sáralítið virðist hafa gerst í þessum málum árum saman og ég held að það hljóti að verða að segjast að þær upplýsingar sem komu fram í utanríkismálanefnd um þetta efni og vörðuðu stöðuna á t.d. Landspítala – háskólasjúkrahúsi vekja verulega undrun í ljósi þess hversu langan tíma menn hafa haft til að búa sig undir og glíma við þetta. Í aðalatriðum virtist mér málið standa á nákvæmlega sama stað og það gerði fyrir tveimur ef ekki þremur árum þegar utanríkismálanefnd var með þessi mál síðast til umfjöllunar af sambærilegum ástæðum, að verið var að innleiða breytingar eða nýja hluti sem vörðuðu vinnutímatilskipunina.

Auðvitað er það alveg út úr öllu korti að menn skuli ekki hafa undirbúið a.m.k. þessar breytingar þannig að fyrir liggi nú áætlun um það hvernig menn vinni sig út úr þessu og komist hjá því að sæta kærum og klögumálum sem er þó í mínum huga ekki aðalatriði þessa máls heldur hitt, að hið forneskjulega fyrirkomulag sem þarna hefur viðgengist er úr takti við allt sem ætti að viðgangast í nútímanum. Það er algerlega fráleit hugsun að þessi einstaki hópur manna, læknar í starfsnámi, sé einhver sérstök vinnudýr sem notað sé út úr umfram eiginlega alla aðra og að öll viðhorf um lágmarkshvíld og að menn séu sæmilega upplagðir í vinnu sinni séu látin lönd og leið í þessu tilviki frekar en öðrum. Það er mjög hlálegt að menn skyldu ráðast í nauðsynlegar breytingar vegna lækna og sérfræðinga en ekki ráða við að gera þetta hvað varðar lækna í starfsnámi.

Í þessu tilviki er væntanlega út af fyrir sig ekki um annað að ræða en að staðfesta þessa ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar og falla frá fyrirvörum hvað hana snertir. Það er samt ómögulegt annað en að nefna þessa stöðu málsins í sömu andrá. Nú man ég ekki alveg nákvæmlega hvar kærumál á hendur Íslandi fyrir vanefndir á þeim þáttum vinnutímatilskipunarinnar sem fyrir lágu eru á vegi staddar en það er gott ef ekki að kærumál sé beinlínis lagt af stað í EES-ferlinu, þ.e. að allar undanþágur, málflutningur og rökstuðningur sé tæmt og ekkert annað eftir en að Ísland fái úrskurð í hausinn. Það þarf ekki endilega að vera heimsendir í mínum huga, sérstaklega ekki ef menn hafa góðan málstað gagnvart því máli sem reynir á fyrir hinu evrópska kerfi, en það er afar dapurlegt að það skuli vera hlutur af þessu tagi sem verður e.t.v. fyrstur til að draga Ísland alla leið á endastöð og að við fáum sem sagt slíkan dóm eða slíkan úrskurð vegna vanefnda á innleiðingu gerðar af þessu tagi.

Ég sé fyrir mitt leyti, frú forseti, kannski ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð en held að það sé alveg óhjákvæmilegt að vakin sé athygli á þessu. Auðvitað væri eðlilegt að hæstv. ráðherrar sem fara með framkvæmd þessara mála hér, svo sem hæstv. félagsmálaráðherra sem fer með vinnuverndarmál og hæstv. heilbrigðisráðherra, gerðu einhverja grein fyrir því hvernig þessi mál eru á vegi stödd og hvernig Ísland hugsar sér að standa að verki í þessum efnum allra næstu mánuðina. Það kom lítið fram um þetta, að segja má ekki neitt, í framsöguræðu formanns utanríkismálanefndar og mér finnst ekki boðlegt að Alþingi fari í gegnum þetta mál án þess að staðan sé rædd og upplýst. Auðvitað væri eðlilegt að þess væri óskað að hæstv. ráðherrar gerðu grein fyrir því hvernig staða málsins er metin af hálfu stjórnvalda og hvað sé að frétta af þeim bænum um þessi mál.



[11:08]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur gert ágætlega grein fyrir sjónarmiðum okkar í þessu máli og hann vék sérstaklega að stöðu unglækna sem hefur verið það sem er einna gagnrýniverðast varðandi vinnutíma og lög og reglur sem um hann gilda. Ég sat fund utanríkismálanefndar þegar þetta mál var afgreitt úr nefnd og gerði það með fyrirvara. Mig langar í örfáum orðum að gera grein fyrir á hverju fyrirvari minn byggist.

Ég sé að utanríkismálanefnd hefur leitað umsagnar ýmissa aðila og fengið aðila á sinn fund til að fjalla um málið. Þar á meðal er fulltrúi unglækna, frá Samtökum unglækna eins og samtökin heita. Síðan er fulltrúi frá fjármálaráðuneytinu, fulltrúi frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og fulltrúi frá Samtökum atvinnulífsins. Ég spyr: Hvernig stendur á því að Alþýðusamband Íslands er ekki fengið til að segja sitt álit, BSRB, BHM og önnur samtök sem hafa látið þessi mál til sín taka? Eðlilegast hefði verið að leita einnig til þessara heildarsamtaka, tel ég vera.

Þessi samtök eiga aðild að ráðgjafarnefnd EFTA og svona málefni fara í gegnum það ferli. Ég þekki það vel því að fulltrúi BSRB á sæti í þeirri nefnd en ég er formaður þeirra samtaka sem kunnugt er og fylgist nokkuð náið með málum. Fulltrúi samtakanna hefur verið að benda á ýmsar breytingar sem hafa átt sér stað á vinnutímatilskipuninni innan Evrópusambandsins sjálfs. Vinnutímatilskipunin á sér alllanga sögu en hér á landi var hún fest í kjarasamninga árið 1997. Hún var innleidd með kjarasamningunum það ár af aðilum vinnumarkaðar og er markmiðið að stuðla að umbótum, einkum að því er varðar vinnuumhverfi til að tryggja aukið öryggi og heilsuvernd starfsmanna. Ákvæðin eru jafnframt í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Menn þekkja margir efni þessara laga en nú er það svo að hjá Evrópusambandinu hafa legið fyrir drög um að breyta vinnutímatilskipuninni og er það gert m.a. með tilliti til dóma sem hafa fallið en tillögurnar sem fram hafa komið eru hins vegar frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en ekki verkalýðssamtökunum. Þau hafa gagnrýnt þær hugmyndir sem uppi eru á vinnuborði framkvæmdastjórnarinnar.

Í gildandi tilskipun er viðmiðunartímabil við útreikning á meðalvinnutíma á viku fjórir mánuðir. Í undantekningartilvikum er heimilt að lengja tímabilið í sex mánuði eða í 12 mánuði en þá með heildarsamningum, þ.e. samningum sem gerðir eru á milli aðila vinnumarkaðarins. Í vinnutímasamningunum frá 1997 var samið um sex mánuði sem meginreglu en jafnframt að það verði heimilt með kjarasamningum að lengja tímabilið í 12 mánuði. Þá þarf staðfestingu heildarsamtakanna til.

Samkvæmt breytingum sem ég gat um og eru komnar frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins yrði meginreglan áfram sú að viðmiðunartímabilið skuli ekki vera lengra en fjórir mánuðir. Hins vegar er lagt til að lengja megi viðmiðunartímabilið í 12 mánuði en það er ekki lengur skilyrði að til þess þurfi samninga aðila vinnumarkaðarins, heldur samráð eða „consultation“ eins og það er orðað á ensku. Það hefur verið gagnrýnt af heildarsamtökum launafólks í Evrópu, ETUC, European Trade Union Confederation, að verið sé að fella niður þennan öryggisþátt þar sem oft hefur verið haldið fram af hálfu vinnuveitenda að samráð þýði ekki það sama og samkomulag.

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því að þessar tilskipanir eru stöðugt að taka breytingum og það er mikilvægt fyrir Íslendinga að fylgjast mjög vel með því sem er að gerast á þessum vettvangi. Við höfum EFTA-nefnd þingsins sem á að sinna slíkum málum en því miður gerðist það í upphafi þess þings sem nú situr að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var settur út úr þeirri nefnd, eða náði öllu heldur ekki kjöri inn í hana, og tel ég það afar slæmt því að reynslan sýnir okkur að frá fulltrúum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs koma oft gagnrýnin sjónarmið auk þess sem við lögðum okkur sérstaklega eftir því að kynna okkur hvað var að gerast á þeim vettvangi sem lýtur sérstaklega að stöðu launafólks. Ég er ekki að gefa það í skyn að aðrir geri það ekki, sinni ekki sínum störfum, ég segi hins vegar að að þarna komu fram mikilvæg viðhorf sem ég óttast að verði ekki kynnt á fundum nefndarinnar eftir að aðild okkar að henni lauk.

Ég styð að öðru leyti þetta þingmál og er einfaldlega að gera almennar athugasemdir um vinnulagið og brýna okkur í því að fylgjast mjög vel og á gagnrýninn máta með því sem er að gerast á vettvangi Evrópusambandsins og snertir okkur sérstaklega.



[11:15]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Nokkur orð varðandi þessa tilskipun, XVIII. viðauka við EES-samninginn, um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna, sem við ræðum hér um og þá sérstaklega út frá vinnutíma unglækna í starfsnámi.

Í raun hefðum við ekki þurft að hafa þessa tilskipun fyrir framan okkur og til afgreiðslu á þinginu til þess að ganga með nokkru öryggi inn í breytingar á vaktafyrirkomulagi, þá sérstaklega á stóru sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem unglæknar eru flestir, mest mæðir á þeim og mest er treyst á vinnuframlag þeirra við allt skipulag og starfshætti sjúkrahúsanna. Það er löngu tímabært að taka það mál sérstaklega til endurskoðunar. Það kostar jú umtalsverða fjármuni en öllum er fyrir löngu orðið ljóst að breyta þarf vöktum unglækna í starfsnámi þannig að þeir fái eðlilega hvíld og vinnuframlag þeirra verði eðlilegt. Þá er ég ekki eingöngu að tala um þeirra eigin heilsu og úthald í námi heldur ekki síður um öryggi sjúklinganna og öryggi allra sem vinna á sjúkrahúsunum. Það segir sig sjálft að illa fyrir kallaðir unglæknar, vansvefta og þreyttir, eru ekki jafnhæfir til að taka erfiðar ákvarðanir og sinna vandasömum verkum, sem gerist oft.

Það er löngu tímabært að fara í þessa vinnu. Ég hefði talið það eðlilegt og heppilegt við þær aðstæður sem nú eru uppi, þar sem mál hafa verið í gangi hvað varðar réttarstöðu unglækna, að upplýst væri við þessa umræðu hver framvinda málsins er, hvenær þeir megi búast við leiðréttingu á vinnutíma sínum og starfstilhögun.

Tilskipunin gæti náð til fleiri starfsstétta og þá er ég að vísa til starfsstétta sem hafa sex tíma vaktir, eru á sólarhringsvöktum og vinna eingöngu sex tíma í senn þannig að eðlilegur svefn næst aldrei, djúpur svefn næst ekki vegna svo örra breytinga. Slíkt fyrirkomulag tíðkast á nokkrum vinnustöðum, eins hjá hinu opinbera. Ég tel að það sé nokkuð sem verður að fara yfir líka, hvernig sex tíma vaktir koma niður á heilsu starfsmanna og vinnu þeirra. Svefn er nauðsynlegur öllum og djúpsvefninn sérstaklega þannig að vinnutilhögun með sex tíma vöktum er til lengri tíma mjög slítandi og heilsuspillandi.

Tilskipunin varðar bæði daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma og einnig vinnuvernd. Varðandi vinnuvernd allra starfandi manna þá minni ég á að þeir ættu að hafa rétt á heilbrigðu vinnuumhverfi, heilbrigðu lofti. Ég hvet til þess að með þessari tilskipun sé horft til reyklausra veitingahúsa og matsölustaða þannig að starfsmenn og þjónar vinni við heilbrigðara andrúmsloft en margir þeirra búa við í dag. Reyklaust umhverfi er hluti af þessu og allir ættu að sitja þar við sama borð og eiga rétt á að vinna í reyklausu umhverfi.



[11:21]
Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þingmanna um málið sem hér er rætt vil ég láta þess getið, m.a. vegna athugasemda hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem gerði athugasemd við val á gestum á fund nefndarinnar, þ.e. að enginn hafi komið frá ASÍ en fulltrúi Samtaka atvinnulífsins hafi mætt, að Alþýðusambandinu var boðið að senda fulltrúa á fundinn þegar málið var til umræðu en gat því miður ekki sent neinn á þeim tíma. Fulltrúi unglækna var boðaður og hélt fram sjónarmiðum unglækna.

Vinnutímatilskipunin eykur réttindi launafólks. Samtök atvinnulífsins gerðu ekki athugasemdir við efni hennar og gera verður ráð fyrir að Alþýðusambandið og fleiri launþegasamtök komi að málinu þegar það verður innleitt í íslenskan rétt með lögum eða kjarasamningum. Við höfum fengið formlegar athugasemdir frá ESA út af þessu máli og ég held að 1. ágúst á síðasta ári hafi verið lokafrestur í þessu máli þannig að við því þarf að bregðast.

Nokkuð hefur verið rætt um málefni unglækna í þessu sambandi. Unglæknum hefur verið haldið utan við vinnuverndarlöggjöfina hingað til, þar sem ekki hefur verið samkomulag um breytingar á vinnufyrirkomulagi. Það var skipuð nefnd af heilbrigðisráðherra fyrir nokkrum árum til að skilgreina lækna í starfsnámi í skilningi vinnutímatilskipunarinnar. Sú skilgreining hefur legið fyrir frá árinu 2003 og mun samræmast efni tilskipunarinnar að mati heilbrigðisráðuneytisins.

Hins vegar hefur verið ágreiningur milli lækna og ráðuneytis um skilgreininguna. Langar vaktir, t.d. sólarhringsvaktir hafa tíðkast lengi, einkum hjá unglæknum. Unglæknar hafa tekið lengstu vaktirnar en sérfræðingar hafa reyndar einnig verið viljugir til þess að taka fleiri og lengri vaktir. En í hnotskurn snýst málið um hvaða þjónustu heilbrigðiskerfið vill veita og með hvaða kostnaði. Hér vegast á sjónarmið um skipulag vinnutíma, lágmarkshvíld og tekjur lækna. Væntanlega þarf einnig að taka tillit til þess að unglæknar fái næga starfsþjálfun; meiri vinnu, meiri þjálfun.

Ef dregið yrði úr vinnu unglækna þyrfti væntanlega að bæta við öðrum læknum sem gætu aukið kostnað heilbrigðiskerfisins ef halda ætti uppi sama þjónustustigi. Þetta mál snýst væntanlega líka um að læknar og stjórnendur heilbrigðisstofnana verða að sætta sig við það að fara eftir vinnutímalöggjöfinni, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þótt kerfið hafi reynst ágætlega áður fyrr hefur vinnuálag á heilbrigðisstofnunum aukist mikið og kröfur til starfsmanna eru miklar. Ef vinnutími er of langur eykst hættan á lakari þjónustu og mistökum.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég vekja athygli á því sem kemur fram í nefndaráliti allra nefndarmanna í utanríkismálanefnd í þessu máli. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Við meðferð málsins í nefndinni var einkum rætt um lækna í starfsnámi en ljóst er að vinnutími unglækna er oft og tíðum mjög langur sem kemur bæði niður á læknum og sjúklingum. Af þeim sökum telur nefndin brýnt að löggjafinn, stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins bregðist við og geri nauðsynlegar breytingar sem fyrst en tilskipunin virðist veita nokkurt svigrúm hvað nokkrar stéttir varðar, þar á meðal heilbrigðisstarfsmenn.“

Þessa athugasemd taldi utanríkismálanefnd rétt að láta koma fram í nefndaráliti.



[11:25]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni, formanni utanríkismálanefndar, fyrir þessi svör og þessar skýringar, sem eru fullnægjandi um sumt en annað tel ég eftir sem áður gagnrýnisvert. Enda þótt fulltrúa Alþýðusambandsins hafi verið boðið að koma til fundar er svo að sjá að önnur heildarsamtök hafi ekki einu fengið málið til umsagnar. Ég tel að svo hafi ekki verið og þeim hafi ekki verið boðið að sækja fund nefndarinnar. Þar vísa ég í BSRB og BHM, þótt mér sé ekki kunnugt um hvort BHM hafi fengið þetta mál til umsagnar.

Málið snertir að sjálfsögðu allan vinnumarkaðinn, bæði í einkarekna og opinbera geiranum. Þetta eru mál sem menn hafa að sjálfsögðu látið sig mjög varða. Ég er því fylgjandi að ákveðinn sveigjanleiki verði í skipulagi vinnunnar. Það er nokkuð sem oft hefur verið íslenska tarnaþjóðfélaginu til góðs, að geta lagað sig að aðstæðum sem uppi eru hverju sinni. En þá er spurningin hvort það sé gert á jafnræðisgrundvelli, að menn semji um málin en sé ekki samkvæmt einhliða valdboði að ofan.

Með þessu er ég ekki að gagnrýna íslensk stjórnvöld en ég vek athygli á því að þær breytingar sem verið er að gera á vettvangi Evrópusambandsins á þessum vinnutímatilskipunum eru ófullnægjandi að mínu mati. Þær byggja á einhliða ákvörðunarvaldi atvinnurekandans þar sem áður hafði verið gert ráð fyrir samkomulagi á milli aðila. Þá er ég að vísa í viðmiðunartímabilið sem vinnutíminn skal grundvallaður á.



[11:27]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég verð að endurtaka að ég er óánægður með að það skuli ekki liggja fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda við afgreiðslu þessara breytinga á vinnutímatilskipuninni eitthvað um hvernig menn hugsa sér framhaldið í þessum efnum, þá alveg sérstaklega hvað varðar unglækna eða lækna í starfsnámi.

Það er að sjálfsögðu alveg rétt að ýmis sjónarmið vakna í því máli, sem lúta bæði að stöðu okkar litlu eða fámennu eininga, sérhæfðum deildum og eins hvað varðar það að menn fái næga starfsþjálfun og reynslu. Þetta snertir einnig ósköp einfaldlega mannlega þætti eins og þá að það kann að vera freistandi fyrir menn að vinna frekar í lengri lotum í senn og fá svo lengri hvíldartíma á milli, fá t.d. heilar helgar o.s.frv. Mér er vel kunnugt um að menn horfa á ýmis vandamál af því tagi sem snúa að báðum aðilum, bæði að stofnunum, spítölunum og líka að unglæknunum sjálfum.

En það er ósköp einfaldlega hvorki málefni Landspítala – háskólasjúkrahúss, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eða annarra slíkra heilbrigðisstofnana eitt og sér né er það alfarið málefni unglæknanna hvernig frá þessu er gengið. Við þurfum að undirbúa það að uppfylla ákvæði þessarar tilskipunar um lágmarkshvíldartíma og um hámarkslengd vinnuviku. Við höfum til þess skamman tíma og erum þegar í ónáð með að gera það þannig að það uppfylli skilyrði þeirrar aðlögunar sem veitt var. Hámarksaðlögunartíminn var settur átta ár og á hann gengur nú. Og þá og því aðeins er aðildarríkjum heimilt að nýta hann að það sé gert í samræmi við þær takmarkanir, þau skilyrði og þau þrep sem innbyggð eru í hann. Því er ekki til að dreifa hjá okkur Íslendingum. Nánast engu hefur verið breytt í þessum efnum enn þá og þarf auðvitað að takast á við það.

Hér eru líka viðkvæmir kjaralegir þættir undir. Að sjálfsögðu hafa læknar ekki hug á því að breytingarnar verði þannig framkallaðar að þær kalli á kjararýrnun. Það hlýtur hver og einn að skilja að markmið þeirra er að um breytingarnar verði samið þannig og frá þeim gengið að þeir haldi launum sínum. Það mun þýða nokkur viðbótarfjárútlát hjá heilbrigðisstofnunum. Það er algerlega óumflýjanlegt, rétt eins og það gerði þegar ákvæði vinnutímatilskipunarinnar voru innleidd hvað varðar lækna og sérfræðinga. Þá stóðu menn einfaldlega frammi fyrir því að það var ekki um annað að ræða en að taka á reksturinn þann kostnað sem þessu var samfara.

Ég hefði talið, frú forseti, æskilegt að heyra eitthvað frá stjórnvöldum um það hvernig málin standa að þessu leyti og hvað menn eru að hugsa sér að gera á næstu mánuðum og vikum. Það má auðvitað segja að það hafi staðið upp á okkur í utanríkismálanefnd að krefja menn betur svara um það og fá meiri upplýsingar um það. Við reyndum það þó upp að vissu marki með viðtölum við forsvarsmenn stofnana og unglækna en það skilaði þessu sem er a.m.k. mat mitt á stöðunni að menn séu ekki hænufeti nær því að hrinda þessu í framkvæmd en þeir voru fyrir tveimur árum. Það er auðvitað alveg óásættanlegt og við hljótum að ætla okkur að fylgja því betur eftir á næsta þingi eða svo að einhver markviss áætlun verði sett í gang um það hvernig breytingunum verður fyrir komið.