131. löggjafarþing — 120. fundur
 2. maí 2005.
happdrætti, 2. umræða.
stjfrv., 675. mál (heildarlög, EES-reglur). — Þskj. 1028, nál. 1252, brtt. 1253.

[17:48]
Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um happdrætti.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga aðila m.a. frá dómsmálaráðuneytinu sem og ýmsa hagsmunaaðila sem leitað var til og ýmist veittu umsagnir umbeðið eða óskuðu eftir því að fá að koma á fund nefndarinnar og hreyfa sjónarmiðum sínum vegna málsins.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um happdrætti. Lengi hefur verið rætt um endurskoðun núgildandi laga um happdrætti og hlutaveltur, nr. 6/1926, og styrkingu lagagrundvallar happdrættisrekstrar. Eftirlitsstofnun EFTA hefur m.a. gagnrýnt það fyrirkomulag að hér skuli happdrættisstarfsemi bundin við íslensk fyrirtæki. Með frumvarpinu er komið til móts við þessar athugasemdir og í 3. gr. þess segir að leyfi til að reka happdrætti eða hlutaveltu megi einungis veita félagi, samtökum eða stofnun sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, að öðrum nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Ekki er þó hróflað við þeirri meginreglu að happdrættisstarfsemi sé háð leyfi dómsmálaráðuneytisins og áfram er gert ráð fyrir sérlögum um peningahappdrætti og vöruhappdrætti, svo sem lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, lögum um Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, lögum um Happdrætti fyrir Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, lögum um getraunir, lögum um talnagetraunir, og lögum um söfnunarkassa.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem ég ætla að fara yfir.

Í 2. gr. sem fjallar um starfrækslu happdrætta segir að óheimilt sé að reka happdrætti nema með leyfi ráðherra eða öðruvísi sé mælt fyrir í lögunum. Nefndin telur rétt að mælt sé fyrir um í lögunum sjálfum hver sé tilgangur þeirrar meginreglu að banna happdrættisstarfsemi, en ráða má bæði af frumvarpsákvæðum og greinargerð með frumvarpinu að hann sé að halda uppi allsherjarreglu og hamla gegn skaðlegum áhrifum á almenning.

Í samræmi við þetta er í breytingartillögu á þskj. 1253 lögð til breyting við 2. gr. eins og þar segir að 1. málsl. 1. mgr. orðist svo: „Til þess að halda uppi allsherjarreglu og hamla gegn skaðlegum áhrifum á almenning er óheimilt að reka happdrætti nema með leyfi ráðherra eða öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum þessum.“

Í 3. gr. er að finna ákvæði um leyfisveitingar til reksturs happdrættis og segir í 2. mgr. að leyfi fyrir happdrætti megi ekki veita sama aðila oftar en tvisvar sinnum á hverju almanaksári. Nefndin leggur hins vegar til að heimilt verði að veita sama aðila happdrættisleyfi allt að þrisvar sinnum á sama almanaksári. Þótt það hafi ekki komið fram hjá umsagnaraðilum að með því að takmarka leyfisveitingu við tvö skipti árlega taldi nefndin rétt að ráðherra hefði svigrúm til að veita þriðja leyfið þar sem þær aðstæður gætu komið upp að það gæti komið sér vel. Það kom reyndar fram á fundum með hagsmunaaðilum að þær kringumstæður gætu skapast í starfsemi þeirra að sérstakt tilefni gæfist til að vera með viðbótarhappdrætti og þykir ekki annað eðlilegt en að ráðherra hafi það svigrúm sem slíkt getur kallað á til að heimila þriðja leyfið á sama almanaksárinu. Nefndin bendir á að með þessari breytingu er einungis verið að heimila leyfisveitingu og hún muni áfram fara eftir mati hverju sinni.

Nefndin leggur til tvær breytingar á 5. gr. frumvarpsins. Annars vegar leggur nefndin til að ákvæði 1. mgr. um að happdrættisleyfi sé heimilt að binda því skilyrði að útgjöld til auglýsinga verði ekki umfram ákveðið mark verði fellt brott. Með hliðsjón af því að frumvarpið tekur einkum til smærri happdrættanna sem ekki verja miklu fé til auglýsinga telur nefndin óþarft að hafa ákvæði sem þetta í lögunum. Nefndin telur hins vegar eðlilegt að þetta verði aftur tekið til athugunar við endurskoðun sérlaga um peningahappdrætti sem boðað hefur verið að verði tekin til endurskoðunar næsta haust. Þetta er í sjálfu sér í samræmi við umfjöllun í greinargerð sem fylgir frumvarpinu þar sem fram kemur að þessari reglu væri einkum beint að því happdrætti sem rekið væri samkvæmt sérlögunum, en ég hygg að það hafi verið orðað þannig í greinargerðinni að það væri heppilegt að hafa ákvæði þessa efnis í almennu lögunum. Eftir að hafa fengið ábendingar frá hagsmunaaðilum er nefndin þeirrar skoðunar að rétt sé að fella þetta brott enda eru aðstæður mjög mismunandi hjá einstökum leyfishöfum og í sumum tilvikum kann ákvæðið eins og það birtist í frumvarpinu að vera nokkuð íþyngjandi. Um þetta var þó nokkuð erfitt að spá vegna þess að gert var ráð fyrir að ráðherrann fengi þarna opna heimild til að setja reglur án þess að það væri nægilega gagnsætt að mati nefndarinnar hvað lagt yrði til grundvallar þegar mörkin yrðu ákvörðuð í þessu efni.

Nefndin leggur til að sölutímabil happdrættis megi að hámarki vera þrír mánuðir í stað tveggja mánaða samkvæmt frumvarpinu. Á móti verður felld brott heimild til að framlengja sölutímann um einn mánuð ef sérstakar ástæður mæla með því, þ.e. frumvarpið gerði ráð fyrir að almenna reglan væri tveir mánuðir með þeirri undantekningu þó að hægt væri að sækja um viðbótarsölumánuð. Nefndin telur rétt að almenna reglan verði þrír mánuðir og gerir tillögu um að möguleikinn á framlengingu verði felldur niður. Þetta er gert með hagsmuni smærri happdrættanna í huga sem selja einkum miða með því að ganga í hús, en slíkt ferli getur tekið nokkurn tíma. Með breytingunni er því eytt óvissu um það hvort leyfi til sölu fyrir þriðja mánuðinn fáist. Þá bendir nefndin á að hjá umsagnaraðilum kom almennt fram að þriggja mánaða sölutímabil væri nægilega langt.

Í 7. gr. frumvarpsins er ákvæði um að hlutfall verðmætis vinninga af heildarsöluverði útgefinna miða í hverjum einstökum happdrættisflokki skuli að lágmarki vera 35%. Athygli nefndarinnar var vakin á því að þessi breyting gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þá fjáröflun sem smærri happdrættin standa fyrir og jafnframt fyrir þá aðila sem vegna sérstöðu sinnar eru meira háðir auglýsingum um sína starfsemi en aðrir. Því telur nefndin rétt að þetta hlutfall verði lækkað niður í það sem tíðkast hefur til langs tíma, eða 16,67%.

Nefndin áréttar að ákvæði 10. gr. frumvarpsins varðandi sérstakan kostnað sem stofnað er til vegna eftirlits er heimildarákvæði og ljóst að kostnaði við eftirlit verður ekki velt yfir á leyfishafa nema að gefnu tilefni. Um þetta sköpuðust nokkrar umræður í nefndinni og þótti dálítið óljóst í hvaða tilvikum leyfishafar mættu gera ráð fyrir að stofnað yrði til sérstaks kostnaðar sem þeim yrði gert að greiða. Eftir að hafa farið yfir þetta atriði með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins varð það niðurstaða nefndarinnar að hreyfa ekki við texta frumvarpsins en árétta það í nefndarálitinu að sérstakur kostnaður sem stofnað er til vegna þessa eftirlits, verði hann umtalsverður, verði ekki velt yfir á leyfishafana nema sérstakt tilefni hafi verið til eftirlitsins. Með því er átt við að allt reglubundið eftirlit mundi ekki falla undir þessa reglu, þ.e. þá reglu að hægt sé að velta kostnaðinum yfir á leyfishafana. Þetta undirstrikast eða ætti að vera nokkuð ljóst með því að í 10. gr. er fjallað um sérstakan kostnað og þar með telur nefndin að tryggt sé að þar sé ekki átt við allan venjulegan kostnað.

Þá leggur nefndin áherslu á að við endurskoðun sérlaga um peningahappdrætti sem boðuð er í greinargerð með frumvarpinu verði sérstaklega tekið til skoðunar hverjir skuli bera ábyrgð á fyrirbyggjandi aðgerðum gegn spilafíkn og hvernig þeirri ábyrgð verði háttað.

Loks beinir nefndin því til dómsmálaráðuneytis að æskilegt sé að í reglugerð sem fyrirhugað er að sett verði samkvæmt lögunum verði það gert að skilyrði að vinningshlutfall í hverju happdrætti fyrir sig komi fram á öllum útgefnum miðum. Þetta er atriði sem kom fram í umfjöllun um frumvarpið í nefndinni og varð það sameiginleg niðurstaða nefndarinnar að beina því til dómsmálaráðherra sem væntanlega getur tekið það til skoðunar hvort þessi útfærsla er möguleg, þ.e. að á hverjum seldum miða komi fram hvert vinningshlutfallið er. Nefndarmenn voru almennt sammála um að það væri framfaraspor ef hægt væri að koma slíkri reglu á.

Með þeim breytingum sem ég hef nú gert grein fyrir leggur nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.



[17:59]
Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu nefndarálit um frumvarp til laga um happdrætti. Var einhugur í allsherjarnefnd um það nefndarálit sem hér liggur fyrir og þær breytingartillögur sem hv. formaður nefndarinnar gerði grein fyrir.

Yfirleitt koma happdrætti til umræðu í hv. allsherjarnefnd einu sinni á ári og það tengist þá oft fjárlögum og því einkaleyfi sem verið hefur á peningahappdrættum en þetta mál er fyrst og fremst um leyfisskyld happdrætti. Hér er líka um að ræða tilskipun frá EES og í rauninni Eftirlitsstofnun EFTA eða ESA en verið er að setja þetta mál í það horf að ESA uni því og við séum að gera eins og á að gera. Komið er til móts við þá gagnrýni sem fram hefur komið með þeim tillögum sem er að finna í frumvarpinu.

Við fengum marga gesti á fund nefndarinnar eins og hv. formaður skýrði frá og áttum mjög góðar samræður við þá. Ýmsar tillögubreytingar sem frá þeim komu höfum við gert að okkar og er það fyrst og fremst að hnykkja á tilgangi slíkra laga sem hér eru til umræðu.

Einnig var talsvert rætt um leyfin fyrir happdrættin. Þau góðgerðarfélög sem eru með happdrætti, hvort sem það eru Gigtarfélagið, Krabbameinsfélagið, skátarnir eða Blindrafélagið svo eitthvað af því sé nefnt, þurfa að sækja um leyfi fyrir hverju og einu happdrætti. Talað er um að veita þau í mesta lagi tvisvar á ári en síðan var opnað fyrir það með breytingartillögu að ef eitthvað sérstakt standi til, eins og afmælisár eða eitthvað slíkt, sé möguleiki fyrir þriðja skiptinu líka inni í myndinni.

Í upphaflega frumvarpinu var rætt um 35% vinningshlutfall og við það gerðu allir sem til okkar komu miklar athugasemdir. Það kom kannski ekki nægilega fram af hverju sú tala var fundin út frekar en einhver önnur. Nefndin kemur því með breytingartillögu um að það verði í rauninni eins og það var áður, að vinningshlutfallið verði tæp 17% og jafnframt að það komi fram á miðunum. Þarna er verið að tala um ákveðið lágmark en það er ekkert sem segir að þeir sem eru með happdrætti geti ekki haft vinningshlutfallið hærra, þannig að það truflar ekki.

Ég hef verið ein af þeim, ásamt eflaust mörgum fleiri, sem eru þeirrar skoðunar að gera þurfi heildarendurskoðun á öllum þessum málum og hafa peningahappdrættin og allt slíkt í einum lagabálki. Það er ekki núna. Við höfum líka talað um að afla tölfræðilegra upplýsinga bæði um hlutfall vinninga og hvernig þessi mál öll ganga fyrir sig en það bíður betri tíma þegar við ræðum þessi mál aftur.

Það skiptir líka mjög miklu máli, eins og eflaust verður rætt aðeins á eftir, að vernda þá sem haldnir eru spilafíkn. Það kom fram að kannski er eðli þeirra happdrætta sem hér um ræðir ekki slíkt að sá hópur mundi sækja mjög í þau. Talsvert var rætt um happdrætti á netinu og hvernig hægt væri að sporna við þeim en það er mál sem verður að skoða síðar.

Það voru líka áhyggjur af því að ef t.d. Alþjóða rauði krossinn kæmi hingað færu happdrætti eða peningar að fara úr landi. Það er líka leiðrétt í þessum lögum. Einnig komu upp ýmsar spurningar varðandi t.d. það sem er verið að draga um hjá útvarpsstöðvunum og hvort það teldist til happdrætta eða ekki. Niðurstaðan varð sú að gera ákveðnar breytingar til samræmis við umsagnir og það sem gestir komu á framfæri við nefndina.

Afstaða nefndarmanna var eindregin og við stöndum öll að því áliti og þeim breytingartillögum sem hér hefur verið gerð grein fyrir.



[18:04]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli hv. formanns allsherjarnefndar ríkti bæði vilji og skilningur nefndarmanna á þeim umsögnum og athugasemdum sem við fengum til nefndarinnar frá hagsmunaaðilum sem reka happdrætti. Það er því ljóst að nefndin tók inn talsvert mikið af breytingum og breytingartillögum sem frá þeim aðilum komu og er það auðvitað vel. Við fengum fjölda gesta á okkar fund og fór fram afar fróðleg umræða. Margar af þeim athugasemdum sem nefndinni bárust lutu ekki beinlínis að ákvæðum þessa frumvarps heldur miklu frekar að ákvæðum í öðrum lögum, þ.e. sérlögum um peningahappdrætti sem eru til endurskoðunar í dómsmálaráðuneytinu, eins og hæstv. dómsmálaráðherra gat um í flutningsræðu sinni og sömuleiðis er tíundað í greinargerð með frumvarpinu.

Það má auðvitað til sanns vegar færa sem fram hefur komið að ákveðin rök eru fyrir því að setja öll lög um happdrætti í einn lagabálk. Þá er ég með í huga heildarlög þar sem fram kæmu t.d. heildarviðhorf löggjafans til happdrætta. Þar yrði skilgreind þörfin fyrir opinbert utanumhald og sömuleiðis þörfin fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir gegn spilaáráttu eða spilafíkn og hömlur gegn því að hægt sé að höfða til barna, fatlaðra eða þeirra sem sárlega eru peningaþurfi um ríkidæmi og lausn allra fjárhagserfiðleika með þátttöku í happdrætti.

Um eitt þessara atriða fjallaði nefndin dálítið og ég er afar ánægð með að inn í nefndarálitið skuli hafa ratað eftirfarandi setning, með leyfi forseta:

„Þá leggur nefndin áherslu á að við endurskoðun sérlaga um peningahappdrætti sem boðuð er í greinargerð með frumvarpinu verði sérstaklega tekið til skoðunar hverjir skuli bera ábyrgð á fyrirbyggjandi aðgerðum gegn spilafíkn og hvernig þeirri ábyrgð verði háttað.“

Það er auðvitað mjög mikilvægt að sérstaklega í þeim happdrættum sem alið geta á spilafíkn sé tiltekið á hvern hátt hið opinbera ætlar að koma til móts við þarfir þeirra sem eiga um sárt að binda eða rata í erfiðleika vegna spilafíknar. Ljóst er að spilafíkn er vaxandi vandamál ekki bara hér á landi heldur alls staðar í kringum okkur og sömu lögmál virðast gilda um hana hér og annars staðar. Hins vegar verður að segjast eins og er að ekki eru allar tegundir happdrættis jafnhættulegar í þessum efnum. Það má segja að flokkahappdrættin sem sjaldan er dregið í, happdrætti sem hafa fyrst og fremst vörur sem vinninga eru kannski ekki svo aðlaðandi fyrir spilafíkla, hafa ekki neina beina þýðingu við myndun þessarar áráttu. Hins vegar má segja að skafmiðahappdrættin, bingóin, tombólurnar og svo öll peningahappdrættin, lottóið og slíkt falli frekar að þeim skilmálum eða þeim atriðum sem þurfa að vera til staðar þegar áhrif spilafíknar eru til skoðunar. Segja má um sérstök ákvæði um ábyrgðina á fyrirbyggjandi aðgerðum að kannski sé eðli málsins samkvæmt réttara að slík ákvæði komi inn í þau lög sem eru nú til endurskoðunar heldur en akkúrat þetta frumvarp sem hér er fjallað um.

Í umsögn um frumvarpið frá Samtökum áhugafólks um spilafíkn er getið um þessi atriði og eitt af þeim atriðum sem kemur fram í umsögninni varðar það að auðvitað þurfi að vera ljóst hvers konar tegundir happdrættis það eru sem þessi lög ná raunverulega yfir. Samtökin benda okkur á að nauðsynlegt sé að taka af allan vafa um það í reglugerð og við tökum undir það í nefndarálitinu. Samtök um spilafíkn segja að það að tala eingöngu um happdrætti sem almennt hugtak valdi ákveðnum ruglingi þar sem tilboð til almennings um að græða stórfé á margvíslegan annan hátt en eftir hefðbundnum happdrættisleiðum virðist eiga að falla undir þessi lög nema um þau gildi sérlög. En þá spyr maður sig hvort þessi lög gildi um bingó, tombólur og ýmiss konar skafmiða. Þetta er að mati þeirra sem standa að Samtökum áhugafólks um spilafíkn of óljóst og ýtir að þeirra mati undir þörf fyrir einn heildstæðan lagabálk.

Ég tel eðlilegt að starfsfólk dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem hefur þessi mál til skoðunar taki mið af þessari umsögn og öðrum þeim sem komu til nefndarinnar við umfjöllun málsins því að hér eru afar þarfar ábendingar sem skiptir máli að komist í hendur þeirra sem eru að endurskoða lögin.

Það er grafalvarlegt mál hversu spilafíknin hefur náð tökum á mörgu fólki og mörgum á Íslandi ekki síður en í nágrannalöndum okkar og það er auðvitað eðlilegt að opinberir aðilar viðurkenni þá ábyrgð sem á þeim hvílir í þessum efnum og tryggi að forvarna sé gætt og þær séu unnar skipulega og í opinni samvinnu við þá sem standa t.d. að þessum samtökum áhugamanna um spilafíkn því það er ákall um það í samfélaginu að út í slíkar forvarnir sé farið og það finnst mér vera rétti vettvangurinn að gera þegar við erum að fjalla um happdrætti og lagaramma um þau.

Að öðru leyti má segja að góð sátt hafi verið um málið í nefndinni. Ég fagna því og finnst að vinnan í nefndinni hafi leitt það af sér að með breytingartillögunum sem við leggjum fram held ég að við séum með nokkuð skothelt frumvarp sem hv. formaður nefndarinnar lagði til áðan að verði samþykkt og ég sé ekki að meinbugir verði á því hjá löggjafarsamkundunni.