131. löggjafarþing — 121. fundur
 3. maí 2005.
Lífeyrissjóður bænda, 2. umræða.
stjfrv., 696. mál (hækkun iðgjalds, aldurstenging réttinda o.fl.). — Þskj. 1054, nál. 1227.

[12:20]
Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd og er það að finna á þskj. 1227.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti, Sigurbjörgu Björnsdóttur frá Lífeyrissjóði bænda og Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands. Umsagnir sem bárust nefndinni um málið voru jákvæðar.

Í frumvarpinu er lagt til að víkka úrræði stjórnar Lífeyrissjóðs bænda til að mæta breyttri stöðu sjóðsins. Tryggingafræðileg úttekt hefur sýnt að staða sjóðsins hefur versnað mjög á síðustu árum og að framtíðarskuldbindingar hans eru mjög þungar, svo sem lýst er í athugasemdum við frumvarpið. Þá eru einnig lagðar til breytingar sem taka mið af búvörusamningi. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Gunnar Birgisson, Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Una María Óskarsdóttir, Ögmundur Jónasson og Helgi Hjörvar.



[12:22]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég setti nafn mitt undir nefndarálitið með því frumvarpi sem hér var talað fyrir á þeirri forsendu að það er stjórn lífeyrissjóðsins sem fer þess á leit við Alþingi að við veitum þarna ákveðnar lagaheimildir.

Þess er einnig að geta að umsagnaraðilar um frumvarpið úr heimi lífeyrissjóðanna hafa verið jákvæðir en mig langar að gera af þessu tilefni grein fyrir afstöðu minni til þeirra atriða sem verið er að óska eftir heimild til að breyta. Með þessari lagasetningu erum við í rauninni ekki að taka ákvörðun um hvað gert verður, aðeins að opna á heimild, m.a. til að aldurstengja lífeyrisgreiðslur. Þetta er nokkuð sem hefur verið á döfinni hjá ýmsum lífeyrissjóðum síðustu árin. Ákvörðun hefur verið tekin í nokkrum stórum lífeyrissjóðum og í desember á síðasta ári gerði Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins samkomulag sín í milli um að stefna í þessa átt með alla lífeyrissjóði sem Alþýðusambandið hefur innkomu í.

Ég fyrir mitt leyti hef miklar efasemdir um þau hyggindi sem hér eru sögð búa að baki og fyrir það fyrsta hef ég gagnrýnt vinnulagið. Menn hafa sagt að ef lífeyrissjóður eða stórir lífeyrissjóðir verða aldurstengdir með þessum hætti mun þrýstingur aukast á aðra lífeyrissjóði að fara sömu leið. Ég held að nokkuð sé til í þessu, einfaldlega vegna þess að ef hreyfanleiki er á milli sjóðanna, ég tala ekki um ef hann er aukinn frá því sem nú er, getur myndast mjög mikið misvægi. Þá er hætt við því t.d. að ungt fólk leiti inn í lífeyrissjóði þar sem aldurstenging er fyrir hendi en leiti eftir því að skipta yfir í sjóði sem eru byggðir á meðaltali á efri árum þegar iðgjöldin yrðu orðin rýrari í hinum aldurstengda sjóði sem einstaklingurinn var í fyrir. Þetta er fyrsta atriðið sem ég vil nefna að breyting á einum stað er mjög líkleg til að valda þrýstingi á breytingar á öðrum stöðum einnig. Þess vegna hefði verið æskilegra og er æskilegt vegna þess að ekki er búið að taka þessa ákvörðun í öllum lífeyrissjóðunum sem Alþýðusambandið á innkomu í, það er ekki enn búið að gera það, ekki er búið að hrinda þessum tilmælum í framkvæmd að minnsta kosti, þá er einboðið að menn setjist saman, fulltrúar allra lífeyrissjóðanna og þeirra samtaka sem koma að lífeyrissjóðunum og ræði hvað hyggilegt er að gera í þessum málum. Meðal þeirra efnisatriða sem ég mundi vilja vekja athygli á í slíkri umræðu, og hef reyndar þegar gert á opinberum vettvangi, er að spyrja í fyrsta lagi: Hvað er það sem kallar á þessa breytingu? Hvað nákvæmlega er það sem kallar á þessa breytingu? Er verið að verja lífeyrissjóðinn á einhvern hátt með slíkum breytingum eða er það rétt sem sumir halda fram að heildarpakkinn eigi að vera svipaður að verðmæti í aldurstengdu kerfi og í meðaltalskerfi? Hvað er hið rétta í þessu efni? Er það rétt sem margir hafa haldið fram að ekki sé munur á þessu tvennu, kostnaðinum, þannig að það sé í rauninni ekki verið að verja lífeyrissjóðinn í fjárhagslegu tilliti þannig? Ef hitt er hins vegar upp á teningnum, ef hitt vakir hins vegar fyrir mönnum að verja fjárhagslega hagsmuni sjóðsins á einhvern hátt, þá þarf að ræða það og sýna fram á á hvern hátt það er gert.

Ef hið fyrra er rétt í málinu, að heildarverðmæti þessara tveggja kerfa, aldurstengds og óaldurtengds kerfis sé svipað, þá þarf að skoða hinar pólitísku afleiðingar, hinar félagslegu afleiðingar slíkra kerfisbreytinga. Ég spyr t.d.: Hvernig kemur svona lagabreyting út fyrir konur sérstaklega? Það er staðreynd að konur eru bundnar yfir börnum og búi í ríkari mæli en karlar, þrátt fyrir skref sem verið er að reyna að stíga í jafnréttisátt þá er staðreynd að konan, móðirin, er í ríkari mæli en karlinn bundin yfir heimili og þar af leiðandi frá vinnu á þeim árum sem lífeyrisiðgjöldin væru hvað verðmætust. Reyndar er í barneignarorlofi greitt inn í lífeyrissjóði, það er staðreynd þannig að það kemur á móti. En engu að síður þegar heildardæmið er gert upp er þetta konum í óhag.

Í annan stað spyrjum við um fólk sem fer í langskólanám. Fólk sem er í langskólanámi kemur seint inn í lífeyrissjóðina og er þar ekki á þeim árum sem iðgjöldin yrðu allra verðmætust. Þetta er því langskólagengnu fólki og langskólamenntun í óhag að fara inn á þessa braut, þ.e. að aldurstengja lífeyrisiðgjöldin. Eins og kunnugt er byggir hugsunin á því að iðgjöld sem eru greidd inn á unga aldri eða á fyrstu starfsárum einstaklingsins eru í lífeyrissjóðnum í mjög langan tíma og hlaða þar upp vöxtum og skapa arð í heimi fjármálanna þannig að fyrir bragðið verða þau dýrmætari í sjóðnum og menn vilja reikna þetta síðan inn í réttindin sem einstaklingurinn fær. Eldri manneskja sem borgar á fullorðinsárum í lífeyrissjóð á sína eign eða framlag sitt skemur í sjóðnum, það ávaxtast í skemmri tíma og þess vegna á að meta það minna, meta slík lífeyrisiðgjöld minna.

Ég hef um þetta mjög miklar efasemdir og legg áherslu á að umræða um þetta hefur ekki farið fram nema í mjög litlum og lokuðum hópum. Stjórnir lífeyrissjóða og fámennir hópar hafa rætt þetta. Ég get hins vegar sagt frá því að í BSRB, þar sem ég þekki nokkuð vel til, hefur verið stofnað til mikillar umræðu um þetta mál. Lífeyrismál eru þar uppi á borði — reyndar á það við um verkalýðshreyfinguna í heild sinni — mjög oft á fundum. Eftir að þessari hugmynd var hreyft, um aldurstengingu lífeyrisréttinda og samningurinn gerður sem ég vitnaði í, í desember síðastliðnum, hefur orðið lífleg umræða um þetta innan BSRB. Þar eru miklar efasemdir um að fara þessa leið. Hvatt hefur verið til þess að verkalýðshreyfingin og samtök atvinnurekenda taki upp viðræður og endurskoði fyrri ákvarðanir hvað þetta snertir.

Á þessu vildi ég einfaldlega vekja athygli við umræðuna, þótt í þessu frumvarpi felist engin ákvörðun um að Lífeyrissjóður bænda fari inn á þessa braut. Í því felst engin ákvörðun um slíkt. Með því er einvörðungu verið að afla lagaheimildar til að ráðast í þessa breytingu. Stjórn sjóðsins óskar eftir því, Landssamtök lífeyrissjóða mæla með því að við samþykkjum frumvarpið og ég mun greiða atkvæði með því. En ég vildi engu að síður koma þessari ábendingu á framfæri.

Einnig hefur verið rætt um að lífeyrissjóðurinn hafi heimild til að breyta kjörunum. Þetta er nokkuð sem margir lífeyrissjóðir hafa staðið frammi fyrir og að þessu leyti standa lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna betur, að réttindin þar eru föst stærð en iðgjöldin eru breytileg. Þá er hugsunin sú að launamaðurinn, og síðar lífeyrisþeginn, viti að hverju hann gengur en síðan verði að stilla iðgjöldin eftir atvikum eftir því hvernig tekst að ávaxta pundið í lífeyrissjóðunum.

Að sjálfsögðu eru deildar meiningar um það í verkalýðshreyfingunni og í þjóðfélaginu almennt hve mikla fjármuni eigi að leggja í sparnað. Sumir leggja áherslu á að fá meira í vasann meðan einstaklingurinn er starfandi og þá fari minna til efri áranna. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að leggja mikið til hliðar, leggja mikla peninga til efri áranna þannig að fólk geti notið þeirra með sæmilega traustan fjárhag. Mér finnst það skipta mjög miklu máli og ég er á þeirri skoðun. En ég virði hitt sjónarmiðið að sjálfsögðu, að það eigi ekki að leggja of mikið í sparnað en beina þeim mun fleiri krónum niður í vasa launamannsins á meðan hann er í starfi.

Ég vík að þessu vegna þess að sumir lífeyrissjóðir eiga hreinlega ekki annarra kosta völ en að skerða réttindi. Þau standa frammi fyrir atvinnurekendavaldi sem hefur mjög eindregið lagst gegn því að iðgjöldin í lífeyrissjóðina séu hækkuð. Ég nefni t.d. Lífeyrissjóð sjómanna og fleiri lífeyrissjóði. Þá er niðurstaðan sú, gegn slíkri afstöðu, að skerða verður kjörin.

Ég er reyndar á þeirri skoðun að til séu þeir lífeyrissjóðir sem ríkisvaldinu beri að veita aðstoð og hugsa þá sérstaklega til Lífeyrissjóðs sjómanna. Mér verður hugsað til málflutnings og málafylgju hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins, sem barist hefur fyrir því þing eftir þing að ríkisvaldið komi inn með fjárstuðning í Lífeyrissjóð sjómanna. Hann hefur í því sambandi minnt á, og fengið stuðning okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði við það, að upp úr 1980 voru gerðir kjarasamningar við sjómenn sem kváðu m.a. á um stuðning við lífeyrissjóðinn en það hafi ekki verið efnt. Þess vegna er ærið tilefni til að taka það mál upp, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur ítrekað gert á þingi. Ég segi aftur að við höfum stutt það mjög eindregið.

Síðan er til önnur leið fyrir ríkisvaldið að koma að lífeyrissjóðunum og veita þeim stuðning. Það tengist örorkunni. Ástandið er vissulega misjafnt en í öllum lífeyrissjóðum vegur örorkan sífellt þyngra í útgjöldum lífeyrissjóðanna. En sérstaklega í þeim lífeyrissjóðum þar sem fólk starfar við erfið og hættuleg störf, þar sem menn slasast í starfi, er þessi byrði orðin mjög mikil. Í Lífeyrissjóði sjómanna, ég held að ég muni það rétt, eru t.d. á milli 40 og 50% af öllum greiðslum úr sjóðnum í örorkubætur.

Hafa ber í huga að fjöldi þeirra sem sækja um örorkubætur og þurfa að fara á örorkubætur fer mjög vaxandi. Um þetta var nýlega birt skýrsla og þetta hefur verið talsvert í fréttum. Ástæðuna fyrir þessu telur Öryrkjabandalagið — og ég er sammála því mati — að ástandið á vinnumarkaði eigi þar drjúgan hlut að máli. Vinnumarkaðurinn er orðinn miklu erfiðari og grimmari en áður var. Það sem meira er, þótt atvinnuleysi á Íslandi sé ekki hlutfallslega mikið í samanburði við það sem gerist í mörgum öðrum löndum, þá liggjum við í kringum 2–4%, um 3%. Það er mikið á Íslandi, landi sem vart þekkti atvinnuleysi nánast frá lokum seinna stríðs og fram á tíunda áratuginn, að undanskildum síðustu árum sjöunda áratugarins þegar síldin brást og margir voru knúnir til að flýja land, a.m.k. tímabundið. En þá var atvinnuleysi aldrei meira en í hæsta lagi 0,5–1% sem var yfirleitt tímabundið, um nokkurra mánaða skeið.

Þetta hefur verið að breytast. Núna höfum við um 3% viðvarandi atvinnuleysi. Hvað þýðir það? Það þýðir að fólk, sem í reynd hefur misst orkuna til að vinna og er öryrkjar í læknisfræðilegum skilningi, þráast við. Það vill halda sér á vinnumarkaði, vill ekki fara á örorkubætur, vill vera áfram í starfi en sér enga glætu. Það gefst að lokum upp vegna þess að það er búið að vera lengi á atvinnuleysisbótum og gefst hreinlega upp. Ég held að þetta séu staðreyndirnar í málinu.

Hvað gerist þá? Í mjög mörgum tilvikum fær fólk þá greiðslur úr tryggingakerfinu og úr lífeyrissjóðunum. Þannig er það. Verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á að samtök á vinnumarkaði, verkalýðshreyfing, atvinnurekendur og ríkisvald, taki upp viðræður um þetta efni og þá hugsanlega breytta aðkomu ríkissjóðs og ríkisins að því að fjármagna örorkubætur, a.m.k. að að hluta til taki ríkið á sig greiðslur sem lífeyrissjóðirnir greiða núna. Ég ítreka að sérstaklega á þetta náttúrlega við um tiltekna sjóði sem þurfa sárlega á aðstoð ríkisins að halda til þess að forða megi því að almenn réttindi í lífeyrissjóðunum verði skert.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Það sem ég hef sagt hér er í óbeinum tengslum við frumvarp þetta. En tilefnið er það að Lífeyrissjóður bænda hefur leitað eftir lagaheimild til þess að gera tvennt, að taka upp aldurstengd iðgjöld og opna á möguleika á að breyta réttindum. Ég styð frumvarp á þeirri forsendu að stjórn Lífeyrissjóðs bænda óskar eftir því og umsagnaraðilar mæla með því. En sjálfur hef ég miklar efasemdir um að þessum heimildum verði beitt. Það er önnur saga.



[12:42]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið haldin mjög lærð ræða með ágætri yfirferð yfir málefni lífeyrissjóðanna. Það er mjög fróðlegt að hlusta á hv. þm. Ögmund Jónasson sem er lífeyrissjóðunum vel kunnugur og maður lærir mikið af því að hlusta á hann fara yfir þessi mál.

En það var mjög athyglisvert sem kom fram í ræðu hv. þingmanns í sambandi við örorkubætur, að þær séu orðnar um helmingur greiðslna úr lífeyrissjóðum. Það vekur mann til umhugsunar. Eins ræddi hann um ástandið á vinnumarkaðnum og hvort það væri vegna þess að vinnumarkaðurinn sé grimmari núna en áður. En gæti það ekki líka verið, hv. þingmaður, að það sé vegna þess að áður fyrr vildi fólk ekki skrá sig atvinnulaust þótt það væri atvinnulaust? Allt umhverfið hefur breyst og það þykir ekki nein skömm lengur að skrá sig atvinnulausan, sem þótti skömm áður fyrr. Fólk vildi ekki viðurkenna það. Nú eru þessi réttindi svo sjálfsögð að fólk leitar eftir þeim án þess að skammast sín fyrir það. Sem betur fer er kominn annar hugsunarháttur í þeim efnum.

Það er nánast ekkert atvinnuleysi hér á landi. Í fyrsta skipti, frá því að ég fór að skipta mér af pólitík, þá er staðan sú í Vestmannaeyjum að þar er verið að hugsa um að sækja fólk annað til að vinna af því að þar er nánast ekkert atvinnuleysi. Auðvitað vitum við að það er alltaf einhver ákveðinn hluti af fólki sem er á atvinnuleysisbótum sem ætti kannski frekar að vera á örorkubótum. Ég held að við eigum að gera meira af því, í stað þess að setja ungt fólk á örorkubætur, að hjálpa því til að leita sér að vinnu og þjálfa það til starfa. Ég held að það verði aldrei gert of mikið af því að hjálpa fólki til sjálfsbjargar.



[12:44]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála þeirri grundvallarafstöðu að það sé aldrei of mikið gert af því að hjálpa fólki til sjálfsbjargar. Bæði er mikilvægt að aðstoða fólk sem er atvinnulaust við að fá starf og einnig er mikilvægt að leggja áherslu á endurhæfingu, að fólk sem fer á örorku verði ekki afskrifað þar til eilífðarnóns. Í sumum tilvikum kunna aðstæður, heilsufar að breytast eða að hægt er að finna lækningu o.s.frv.

Það er líka alveg rétt sem hv. þingmaður benti á, að afstaða fólks til margvíslegra bóta hefur breyst að því leyti að fólk lítur á þær sem sjálfsögð og eðlileg réttindi. Það á eflaust einnig við um atvinnuleysisbæturnar. En ég held, varðandi örorkuna og atvinnuleysisbætur, að það sem fyrst og fremst vakir fyrir því fólki sem er á mörkum þess að geta unnið og þess að heilsan bresti, sé hið almenna viðhorf á Íslandi, að vilja helst halda sér sem lengst inni á vinnumarkaði. Þegar vinnumarkaðurinn gerist grimmari og óbilgjarnari er fólki hins vegar þröngvað til þess að gefast hreinlega upp og lýsa sig sjúkt og óvinnufært.



[12:46]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér fer fram afskaplega áhugaverð umræða. Ég var nýverið á ráðstefnu í Kaupmannahöfn um veikindafráveru starfsfólks, sem var mjög áhugaverð. Þar kom fram að veikindaforföll starfsmanna á vinnumarkaði, t.d. í Noregi og í Svíþjóð, eru gríðarlega mikil. Ein af ástæðunum er t.d. sú að það er mjög erfitt að segja fólki upp. En hér á Íslandi er vinnumarkaðurinn sveigjanlegri þannig að fólk á auðveldara með að ná sér í vinnu og skipta um vinnu. Fólk er frekar veikt í hinum löndunum, frekar en að leita sér að öðrum starfa. Það þorir ekki út á vinnumarkaðinn. Sem betur fer eru Íslendingar mjög vinnusamir og flestir ná sér í vinnu mjög fljótt af því að vinnumarkaðurinn á Íslandi er mjög sveigjanlegur. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Af því að ég minntist á þessa ráðstefnu þá kom þar auðvitað fram, sem við vitum, að Íslendingar vinna allra þjóða mest og allra þjóða lengst. Það er líka mjög merkilegt og skemmtilegt við Íslendinga hvað þeir vinnusamir og hafa mikla ánægju af vinnu sinni. Þess vegna ættum við alltaf að líta til þess að fólk fái að vinna meðan það hefur ánægju og þrek til að starfa. Þess vegna eru sveigjanleg vinnulok afskaplega mikilvæg, bæði að fólk geti hætt fyrr ef það kýs en eins að halda áfram lengur því að nú verður margt fólk 80–100 ára gamalt og hefur oft fullt vinnuþrek langt yfir sjötugt.



[12:48]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sveigjanleiki í hinum síðastnefnda skilningi er jákvæður, sveigjanleg starfslok er nokkuð sem samtök launafólks hafa rætt mikið um. Það er athyglisvert að í þeirri umræðu komu upp mismunandi viðhorf milli ungs fólks og eldra fólks. Unga fólkið vill gjarnan hafa lágan lífeyrisaldur en þegar komið er á þennan aldur leggur fólk áherslu á sveigjanleg starfslok og að það geti hætt síðar.

Varðandi sveigjanleika á vinnumarkaði þá vil ég nú ekki hafa hann of sveigjanlegan og ekki of mikla teygju í reglunum, a.m.k. þegar kemur að réttindum launafólksins. Þar má ekki verða meiri sveigja, t.d. eins og lagt var til fyrir ekki svo ýkja löngu, að hægt væri að segja fólki upp skýringalaust o.s.frv. Ég veit hins vegar að það er ekki það sem hv. þingmaður meinti, alls ekki.

Ég held að það sem skiptir máli á Íslandi sé að afstaðan til vinnunnar hefur verið mjög jákvæð. Ég tel mikilvægt að varðveita þann jákvæða anda. Þess vegna er dapurlegt að okkur takist ekki að ráða bót á atvinnuleysinu, útrýma atvinnuleysi. Ég held að skýringin á því að hlutfallslega færra fólk er öryrkjar hér á landi en t.d. á hinum Norðurlöndunum sé atvinnuþátttakan, að við höfum búið við góða atvinnuþátttöku og lítið atvinnuleysi í langan tíma. Þar með hafa fleiri rúmast á vinnumarkaði. Þetta samhengi allt þarf jafnan að hafa í huga.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætar ábendingar.



[12:50]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér málefni sem snýr að einum lífeyrissjóði, Lífeyrissjóði bænda. Ég ætla hins vegar í þessari ræðu að fjalla almennt um stöðu lífeyrissjóðsmála og víkja m.a. að máli sem við lukum umræðu um áðan, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Ég ætla að leyfa mér í upphafi máls að fullyrða að með því sem við erum að gera í dag á Alþingi, þ.e. ef við samþykkjum þessi tvö frumvörp, þá séum við að framlengja ákveðna mismunun milli fólks. Ég veit ekki hvort sú mismunun kemur til af því að misjöfn viðhorf séu til kynja í þjóðfélaginu sem lengi hafi viðgengist. Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga er upprunninn í kvennastétt, hjúkrunarfræðingar hafa lengstum verið konur og makar hjúkrunarfræðinga lengst af verið karlmenn. Í lögunum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga er ákvæði sem segir að makar hjúkrunarfræðinga fái 70% makalífeyri en ekki 50% eins og við erum að tala um í sambandi við Lífeyrissjóð bænda og eins og reglurnar eru í Lífeyrissjóði sjómanna. Hvað þá að talað sé um það sem nú er búið að setja inn í samþykktir sumra lífeyrissjóða, að makalífeyrir sé að fullu greiddur í þrjú ár, síðan að hálfu í þrjú ár og síðan sé því lokið. Þannig er það í sumum lífeyrissjóðum.

Ég held að það sé ágætt að við förum svolítið efnislega í þessa umræðu. Við erum að tala um að lífeyrisréttur fólks í þessu landi er lögbundinn misjafn. Ég ætla að halda því fram í þessari umræðu að í þessu tilfelli sé hann lögbundinn eftir kynjum. Það er greinilegt að menn hafa horft á maka hjúkrunarfræðinganna og tryggt þeim betri lífeyri en almennt er í lífeyriskerfinu með því að tryggja þeim 70% réttindi. Ég ætla að lesa hvernig um málið er búið í 11. gr. laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Ég ætla að taka það fram að ég vildi ekki taka þessa umræðu áðan í umræðum um réttindi í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga því að þá hefðu menn sjálfsagt talið að ég legðist gegn þeim réttindum. Þess vegna tek ég þessa umræðu hér.

Í 11. gr. áðurnefndra laga segir, með leyfi forseta:

„Nú andast sjóðfélagi og lætur hann eftir sig maka á lífi og á þá makinn rétt til lífeyris úr sjóðnum eftir að iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið.“

Allt í lagi með þetta. Síðan segir:

„Upphæð makalífeyris er helmingur af áunnum ellilífeyrisrétti hins látna sjóðfélaga. Makalífeyrir hækkar síðan um 20% af launum þeim er hann miðast við ef hinn látni sjóðfélagi hefur verið í fullu starfi við starfslok,“

Síðan segir:

„Viðbótarlífeyrir þessi greiðist þó einungis ef hinn látni sjóðfélagi hefur uppfyllt eitt af þremur eftirgreindum skilyrðum:

1. Hann hafi verið í starfi er veitti honum aðild að sjóðnum við andlátið.

2. Hann hafi hafið töku lífeyris fyrir andlátið og upphaf lífeyristöku hans hafi verið í beinu framhaldi af starfi sem veitti honum aðild að sjóðnum.

3. Hann hafi greitt iðgjöld til sjóðsins sem nemur iðgjaldagreiðslum af fullu starfi í 15 ár eða meira og ekki greitt iðgjald til annars sjóðs eftir að greiðslum til þessa sjóðs lauk.“

Að þessum skilyrðum uppfylltum á maki hjúkrunarfræðings 70% lífeyrisrétt. Við erum ekki að tala um það varðandi Lífeyrissjóð bænda, því miður. Mér býður í grun að þessi ákvæði hafi kannski verið sett inn á sínum tíma vegna þess að menn hafi litið til þess að makar hjúkrunarfræðinga væru yfirleitt karlmenn. Ég vek athygli á þessu og tel fulla ástæðu til að ræða þetta mál gaumgæfilega en þó er ekki um það að ræða að ég sjái neina ástæðu til þess að draga úr réttindum í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. En ég efast mjög um það, virðulegur forseti, að það sé nokkur sanngirni í útfærslunni á Lífeyrissjóði bænda, á Lífeyrissjóði sjómanna né mörgum öðrum lífeyrissjóðum.

Ég ætla að nefna eitt nýlegt dæmi úr Lífeyrissjóði sjómanna. Ég ætla ekki að nefna nafnið. Fyrir örfáum vikum lést sjóðfélagi í Lífeyrissjóði sjómanna fyrir 60 ára aldur. Sá einstaklingur hafði í fjöldamörg ár verið einn af mestu aflaskipstjórum þessa lands. Vegna þess að hann hafði ekki náð 60 ára aldri voru ekki komin til greina þau réttindi að fá lífeyri úr Lífeyrissjóði sjómanna enda maðurinn í fullu starfi. Hann hafði sem sagt greitt í lífeyrissjóðinn af háum launum sínum sem skipstjóri í áratugi og maki hans á núna rétt á að fá hluta af þeim lífeyrisgreiðslum sem hann hafði áunnið sér. Makinn fær samkvæmt því, ef ég man rétt, fullan lífeyri í þrjú ár og hálfan lífeyri í þrjú ár, að því gefnu að hjónin hafi ekki átt barn undir 18 ára aldri við andlát makans.

Þetta er sem sagt staðan og þá renna öll önnur réttindi sem einstaklingur hefur áunnið sér í lífeyrissjóðinn. Þetta held ég að menn þurfi að fara að endurskoða. Í þessu frumvarpi, um Lífeyrissjóð bænda, erum við m.a. að fjalla um að setja inn:

„Upphæð elli- og örorkulífeyris skv. 9. og 10. gr. er hundraðshluti af grundvallarlaunum, sbr. 1. mgr., samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum. Upphæð makalífeyris skv. 11. gr. skal vera 50% lægri.“

Við erum sem sagt að lögbinda að eiginkonur bænda, ef karlinn fellur frá, fái 50% lægri lífeyri en makinn hafði áunnið sér. En raunin er sú, virðulegur forseti, að hjá þeirri starfsstétt sem við ræðum hér um, bændum, hefur fólk yfirleitt unnið saman að bústörfunum. Ég verð að viðurkenna að ég þekki þau mál ekki nákvæmlega en ég tel reyndar að það hafi verið afar misjafnt hvernig bændur fóru að því að telja fram tekjur sínar og greiða í lífeyrissjóð. Ég held að það hafi verið afar misjafnt. Mér býður í grun að margar eiginkonur bænda eigi lítinn lífeyrisrétt sjálfar í lífeyrissjóði, þó að ég viti það ekki. Þá erum við að horfa til þess að viðkomandi konur, ef við tölum um kvenkyns makann í þessu tilfelli, eigi margar hverjar lítinn lífeyrisrétt og jafnvel minni lífeyrisrétt en bændurnir, sem eiga þó tiltölulega lítinn lífeyrisrétt. Það hefur komið fram í svari við fyrirspurn hv. þm. Drífu Hjartardóttur á Alþingi. Talnaglöggir menn á Alþingi hafa talið að meðallífeyrir bænda úr lífeyrissjóði sé um 15–17 þús. kr.

Eiginkonurnar eiga eftir fráfall makans að fá 50% af því, hæstv. forseti. Finnst hæstv. forseta og þingmönnum að hér sé um að ræða mikið réttlætismál þar sem ríki jafnræði með konum og körlum? Er það svo? Á ég að trúa því að í þingsalnum muni konur greiða þessu ákvæði atkvæði? Eigum við að trúa því eftir alla jafnréttisumræðuna? Ég tók þátt í jafnræðisumræðu sem hæstv. forseti, sem nú situr í forsetastól, stóð fyrir fyrir nokkru. Við ræddum um jafnréttismál (Forseti hringir.) og ég tel að hér séum við líka, hæstv. forseti, að ræða málefni sem snúa að jafnrétti fólks. (Forseti hringir.)

(Forseti (JBjart): Forseti hafði ætlað sér að gera hlé á þessum fundi í um 30 mínútur til klukkan hálftvö. Forseta heyrist að þingmaðurinn sé ekki nálægt því að ljúka máli sínu þannig að honum stendur til boða að halda ræðunni áfram að loknu matarhléi.)

Ég þigg það, virðulegi forseti. Það má kannski bjóða upp á kaffihlé líka.



[13:02]Útbýting: