131. löggjafarþing — 121. fundur
 3. maí 2005.
Lífeyrissjóður bænda, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 696. mál (hækkun iðgjalds, aldurstenging réttinda o.fl.). — Þskj. 1054, nál. 1227.

[14:28]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum. Hér hafa orðið allmiklar umræður um stöðu Lífeyrissjóðs bænda sem slíks og stöðu hans líka gagnvart öðrum lífeyrissjóðum í landinu. Þær breytingar sem hér er verið að gera eru í sjálfu sér ekki neitt stórvægilegar sem slíkar. Það er verið að auka heimildir sjóðsins bæði til þess að innheimta iðgjöld og einnig til að rýmka útgreiðslur eða greiðslu lífeyris. Ég kem hér fyrst og fremst til þess að taka undir og vekja ítrekaða athygli á stöðu lífeyrissjóðsins, þ.e. hversu hann er í raun veikur. Það ætti ekki að þurfa að koma á óvart. Staðreyndin er sú að í gegnum árin hafa lífeyrissjóðsgreiðslurnar og greiðslur í Lífeyrissjóð bænda verið hluti af samningi á milli ríkisvaldsins og Bændasamtakanna. Afurðaverð til bænda og einnig verð á landbúnaðarvörum til neytenda hefur lengst af verið samningsatriði, annars vegar á milli ríkisins og bænda og líka verið hluti af því að stýra kaupgjaldi og verðlagi í landinu. Oft hefur verið gripið inn í verðlagsforsendur á landbúnaðarvörum þegar hefur átt að hafa áhrif á verðbólgu, slá á verðbólgu, stýra kaupmætti þannig að laun og verðlagsmyndun í landbúnaði hefur oft verið hluti af miklu stærra dæmi. Lífeyrissjóður bænda sem slíkur er því bara eitt afsprengi af því ráðslagi sem hefur verið um áratuga bil. Auk þess hefur staða bænda verið sú að þeir eru í öðru orðinu atvinnurekendur þó svo að gerður hafi verið þessi samningur við ríkið um verð og að hluta til kaup og kjör í landbúnaði.

Ég er að leiða líkur að því að staða Lífeyrissjóðs bænda hvíli á félagslegri ábyrgð, á ábyrgð ríkisins þannig að hin erfiða staða lífeyrissjóðsins nú kemur í sjálfu sér ekkert á óvart, alls ekki, og það er í rauninni skylda ríkisins, skylda samfélagsins að taka á vanda þess lífeyrissjóðs þannig að hann geti veitt þeim þegnum landsins sem eiga rétt í sjóðnum sambærileg lífeyriskjör og annars staðar tíðkast í samfélaginu.

Mér sýnist því vera mjög brýnt að taka mál Lífeyrissjóðs bænda upp í stærra samhengi en hér er verið að gera og finna honum öruggan framtíðarsess, framtíðarstöðu. Það er einmitt vikið að því í greinargerð með þessu frumvarpi að aldurssamsetning sjóðfélaga sé með þeim hætti að stór hluti sjóðfélaga er í eldri kantinum. Tiltölulega stór hluti er þegar kominn á þann aldur að mega þiggja lífeyri úr sjóðnum eða er að komast á þann aldur að svo fari þannig að hinn hlutinn sem er áfram stór og virkur greiðandi í sjóðinn verður hlutfallslega minni. Þetta er líka vandi þessa sjóðs og speglar ákveðna samfélagsbreytingu í landinu sem hefur að hluta til verið drifin áfram með stjórnvaldsákvörðunum í breyttu atvinnu-, efnahags- og búsetumynstri beint og óbeint. Þess vegna er hin erfiða staða sjóðsins og viðfangsefni hans ekki eingöngu mál bænda heldur ekki síður mál samfélagsins alls.

Þess vegna vildi ég segja hér að það er mjög brýnt að málefni sjóðsins séu tekin upp í heild sinni til þess að finna honum varanlegan sess og varanlega framtíð. Þó að verið sé að leggja inn í hann einhverjar lítils háttar upphæðir til styrktar sjóðnum er það engan veginn fullnægjandi til þess að hann fái staðið undir því hlutverki og því verkefni sem honum er falið.

Hér hefur verið rætt um rétt á makalífeyri t.d. Kveðið er á um að lífeyrisréttindi maka skuli einungis vera um 50% af reiknuðum réttindum aðalsjóðfélaga. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom einmitt inn á það að þau séu miklu lakari en gerist hjá ýmsum öðrum sjóðum. Nú er í sjálfu sér ekki verið að breyta því í þessu frumvarpi heldur er þetta nú þegar svo í gildandi lögum. Þar stendur í 13. grein, með leyfi forseta:

„Upphæðir makalífeyris skv. 11. gr. skulu reiknaðar á sama hátt en með margföldunarstuðli sem er 50% lægri.“

Þessi ákvæði um 50% yfirfæranlegan makalífeyri eru nú þegar í gildandi lögum. Engu að síður er fyllilega ástæða til að það sé skoðað og hefði verið alveg fyllilega tilefni til þess að gera það nú um leið og verið er að breyta þessum ákvæðum sjóðsins sem við erum hér að fjalla um því að sé þarna á ferðinni misrétti eða með öðrum orðum sé þarna ekki um jafngild réttindi maka að ræða og tíðkast í öðrum sjóðum þá er sjálfsagt, finnst mér, að það sé kannað hvernig megi leiðrétta það.

Frú forseti. Ég ætla annars ekki að fara neitt ítarlega í þessi atriði. Það hefur verið gert mjög rækilega hér. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í efnahags- og viðskiptanefnd sem hefur fjallað um þetta mál þar hélt hér mjög ítarlega ræðu þar sem hann fór í gegnum lífeyrissjóðsmálin almennt og síðan sértækt hvað laut að Lífeyrissjóði bænda. Ég hef því engu við það að bæta öðru en þessu að ég tel mjög brýnt að lög um Lífeyrissjóð bænda séu tekin upp í heild sinni og skoðuð með það að markmiði að réttur sjóðfélaga þar sé fyllilega sambærilegur við það sem gerist hjá bestu lífeyrissjóðum landsins. Vinnandi stéttir samfélagsins, hvort sem það eru sjómenn, verkamenn, bændur, iðnverkafólk, skrifstofufólk eða hverjir sem eru, allir eiga að hafa góð lífeyrisréttindi og við þurfum ekki síst að taka á réttindum bænda og bændafólks í þessum efnum. Ég ítreka það að ég tel að það eigi að endurskoða sem allra fyrst lög um Lífeyrissjóð bænda í þessu augnamiði. En það ætti jafnvel að kanna núna milli 2. og 3. umr. hvort við hefðum átt líka að skoða þessi 50% ákvæði um rétt makalífeyris og breyta því þá í þessari meðferð ef það þætti mögulegt og rétt. Það er mjög slæmt ef um mikinn mismun á réttindum fólks er að ræða hvað þetta varðar á milli einstakra sjóða.



[14:39]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram ágæt og fróðleg umræða um lífeyrismál almennt en tilefnið er þingmál sem lýtur sérstaklega að Lífeyrissjóði bænda. Sannast sagna hafði ég ætlað að sýna fyrirhyggju með því að kveðja mér hljóðs af því að ég sá að hv. þm. Pétur H. Blöndal var kominn á mælendaskrá og taldi líklegt að ég hefði einhverju þar við að bæta. En hann sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar ætlar greinilega að hafa síðasta orðið og er ekkert nema gott um það að segja. Það má vel vera að ég eigi eftir að koma upp í andsvari við hann.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar um mikilvægi þess að huga að málefnum Lífeyrissjóðs bænda. Lífeyrissjóðurinn hefur staðið höllum fæti og það er mjög mikilvægt að hið opinbera komi að stuðningi við þann lífeyrissjóð og löggjafanum ber að skoða alla lagaumgjörð sem snerta réttindi og kjör íslenskra bænda. Ég vil taka undir þau orð og þá hvatningu hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Annað sem hann sagði og ég er einnig alveg sammála er að það er nauðsynlegt að stefna að því að jafna lífeyriskjörin í landinu en þó þannig, og á það legg ég ríka áherslu, að þessi jöfnun eigi sér stað upp á við, að kjör þeirra sem eru lakari verði færð að því sem best gerist í landinu og þá er ég kannski fyrst og fremst að horfa til opinbera lífeyriskerfisins.

Það urðu mikil átök um lífeyrismál á níunda áratugnum og fram yfir miðjan tíunda áratuginn, en þá var sett ný rammalöggjöf um lífeyrissjóði og lífeyrissjóður opinberra starfsmanna fór einnig inn í nýtt lagaumhverfi. Gamli tíminn er því smám saman að fjara út, þ.e. B-deild svokölluð í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, en nýtt fyrirkomulag er tekið við sem byggir á sömu grunnprinsippum, grunneigindum og aðrir lífeyrissjóðir í landinu. Þannig gerist það að þróunin er öll í sömu átt en barátta launafólks fyrir traustum lífeyrissjóðum hefur orðið þess valdandi að lífeyrisréttindin hafa almennt verið bætt en ekki úr þeim dregið eins og margir hafa viljað.

Um það stórmál sem komið er að hér, aldurstengingu lífeyrisréttinda, átti ég kannski það eitt ósagt í fyrri ræðu minni að ég hef grun um að þeir sem vilja færa lífeyriskerfið í átt að einstaklingsbundnum samningum séu áhugasamir um þessar breytingar. Hvers vegna? Vegna þess að við færumst nær því að horfa á iðgjöld, ávöxtun og réttindi hvers einstaklings. Við stígum ekki það skref til fulls að sjálfsögðu með slíkri breytingu, aldurstengingu lífeyrisréttinda. Við erum þar fyrst og fremst að tala um hópa. En verður og yrði þar látið staðar numið? Einhvern tíma hefur verið vísað í það að konur lifa almennt lengur en karlar. Eiga þær fyrir bragðið að hafa rýrari lífeyrisrétt? Nei, ég held ekki. Það er nefnilega viljinn í landinu að halda samtryggingarkerfinu sem traustustu.

Margir séreignarhyggjumenn, þeir sem vilja fara með lífeyriskerfið í áttina að séreignarsparnaði, telja sig mjög klóka fyrir sína eigin hönd, að þeir tryggi sjálfum sér betri réttindi. Þetta er alrangt. Þeir eru hins vegar afskaplega velviljaðir afkomendum sínum. Þeir munu sjálfir fá minna í sinn hlut þegar þeir komast á lífeyri, einfaldlega vegna þess að þeir fá í sinn hlut réttindi sem sá sem fellur frá skilur eftir. Þess vegna er samtryggingin traustari og þess vegna verður lífeyrir til þeirra sem lifa hærri. Í séreignarkerfinu skilja menn þetta eftir inn á séreignarreikningum og þegar þeir falla frá þá fá afkomendur þeirra að njóta þess.

Séreignarfyrirkomulagið rýrir ellilífeyri þeirra sem fara á ellilífeyri en fyrir bragðið skilja þeir hugsanlega meira eftir til afkomenda sinna. Menn eru því ekkert afskaplega klókir fyrir eigin hönd þegar allt kemur til alls. Þessi hugsun, að sundurgreina einstaka hópa og síðan einstaklinginn, hnígur öll í þessa átt. Ég hef um þetta miklar efasemdir.

Varðandi makalífeyrisréttinn þá hefur hann tekið breytingum. Hann breyttist t.d. í opinbera kerfinu og eins er það reyndar með barnalífeyrinn. Þær breytingar voru að mörgu leyti til góðs tel ég hafa verið. En sú leið sem var farin í opinbera kerfinu, í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins varðandi makalífeyri, var að þar var sett eins konar sólarlag inn í kerfið, eins konar brú á milli kynslóða. Þar hugsuðu menn sem svo:

Við erum að fara inn í samfélag þar sem báðir aðilarnir, karlinn og konan, eru útivinnandi. Það er af sem áður var, að konur væru heima og nytu ekki lífeyrisréttinda. Þetta er að breytast og fyrir bragðið voru menn reiðubúnir að breyta makalífeyrisréttinum en viðurkenndu að þarna væri ekki saman að jafna eldri kynslóðinni og hinni yngri.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta núna. Ég beini þeim varnaðarorðum til allra þeirra sem véla um málefni lífeyrissjóðanna að taka ekki ákvarðanir um aldurstengingu lífeyrisréttindanna án þess að um það fari fram mjög ítarleg umræða.

Af því ég sé að framkvæmdastjóri Sjúkraliðafélags Íslands er á þingpöllum þá vil ég hrósa því félagi og málgagni þess fyrir rækilega og vandaða úttekt á lífeyrismálum. Þar er sérstaklega vakin athygli á aldurstengingu lífeyrisréttinda og farið mjög kerfisbundið í þá umræðu. Í blaðinu er m.a. rætt við Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, og fleiri aðila. Þar er hreyft umræðu sem ég tel að eigi að fara fram í þjóðfélaginu almennt. Við höfum tekið hana upp á vettvangi samtaka launafólks, verið með ágæta umræðu innan BSRB, en hún er rétt að hefjast og henni er sannarlega ekki lokið af okkar hálfu.



[14:48]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um Lífeyrissjóð bænda. Margt hefur komið fram í þessari umræðu og umræðan er ágæt í sjálfu sér. Það er þeim ljóst sem hafa hlustað á umræðuna að það hafa komið upp vandamál með lífeyrisréttindi bænda sem hafa aðild að þeim sjóði. Þar kemur margt til, eins og við þekkjum. Reglurnar og lögin um sjóðinn voru með þeim hætti að menn borguðu ekki inn af fullum launum. Það var ákveðið þak á inngreiðslum til sjóðsins og auk þess fækkar í þessari atvinnugrein þannig að það eru færri sem borga í sjóðinn og mun fleiri sem þiggja greiðslur úr sjóðnum. Það er margt fleira sem mætti tína til sem gerir það að verkum að þessi sjóður er í þeirri stöðu sem raun ber vitni. Það er mjög slæmt mál. Ég tek undir það.

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson, þar sem hann nefndi áðan að stjórnvöld bæru vissa ábyrgð, sem ég tek undir. En spurning mín til hans er: Með hvaða hætti og hvernig fyndist honum að stjórnvöld ættu að taka á með þessari ágætu atvinnugrein og hvað er til úrlausna í sjálfu sér?

Ég vil að það komi fram að ég er ekki sammála hv. þingmanni um að það sé ekki rétt og eðlilegt og æskilegt fyrir bændur að greiða samhliða í frjálsa lífeyrissjóði. Ég vil hvetja menn til þess þrátt fyrir að þeir séu bundnir samkvæmt lögum því að vera í Lífeyrissjóði bænda og borga þar inn. Ég hvet bændur samt sem áður til að borga í frjálsa sjóði og hafa þar aukasjóð þegar fram í sækir.



[14:50]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að lýsa því almenna viðhorfi að lífeyrisréttindi bænda séu ekki einvörðungu á þeirra ábyrgð heldur beri samfélagið allt ábyrgð á málum þeirra.

Hvaða leiðir nákvæmlega skuli fara til að treysta lífeyriskjör bænda og lífeyrissjóði þeirra kann ég ekki að nefna en ég get hins vegar nefnt leiðina sem má fara að því marki. Hún byggir að sjálfsögðu á nánu samstarfi og samvinnu við samtök bænda. Ég held að þar eigi að hafa sömu vinnureglu og við viljum hafa í Samtökum launafólks, að efnt sé til náins samráðs með bændum og fulltrúum þeirra og síðan ríkisvaldinu um leiðir að þessu marki. Ég tel reyndar að skoða þurfi margt í kjaraumhverfi bændastéttarinnar. Þetta væri vissulega einn mjög mikilvægur liður í slíkri endurskoðun.



[14:52]
Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Hér hefur að mörgu leyti farið fram fróðleg umræða um lífeyriskerfið almennt og það er mjög gott, að þetta skuli vera rætt og ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir frumkvæðið að því.

Síðustu skoðanaskiptin sem fóru fram í andsvörum voru mjög athyglisverð. Þar kom fulltrúi ríkisstarfsmanna, formaður BSRB, og vildi endilega hækka öll réttindi uppávið, hvað sem það kostaði. Ríkið borgar. Einn af landsbyggðarþingmönnum bænda vill líka bæta kjör bænda (JBjarn: Þingmaður þjóðarinnar.) hvað sem það kostar og láta guð almáttugan borga, þ.e. ríkið. Nú er það svo, (Gripið fram í.) herra forseti, að það er yfirleitt hinn almenni launþegi sem greiðir alla skatta og skyldur í þessu þjóðfélagi. Ef við ætlum að velta einhverjum byrðum yfir á ríkið þá verður það hinn almenni launþegi, félagsmaður í ASÍ og félagsmaður í BSRB, hinn almenni launþegi sem greiðir það og jafnvel þótt fyrirtæki sé látið greiða það. Á endanum kemur það fram þannig að ráðstöfunarlaunin verða lægri.

Það er nefnilega þannig að guð almáttugur hefur ekki haft það fyrir sið að borga fyrir ríkið á Íslandi. Almenningur í landinu greiðir það allt saman. Menn hafa bæði gert kröfu á ríkið fyrir hönd sjómanna og bænda og ég veit ekki hvað. Þetta er voðalega auðvelt en það er í rauninni krafa BSRB á ASÍ-félaga að borga nú brúsann. Þannig er nú það.

Það hefur lítið verið rætt um það að þjóðin verði langlífari. Það kostar alla þjóðina 1% í hærra iðgjaldi í lífeyrissjóði sem reyndar er að forminu til greitt af atvinnurekendum. En þeir gætu að sjálfsögðu hækkað öll laun í landinu um þá krónutölu ella. Svo er aukinn örorkulífeyrir sem kostar þjóðina annað prósent. Þjóðin er núna farin að borga 2% af öllum launum vegna lengri lífaldurs og örorku. Þetta kemur niður á fólki sem er að vinna, eignast börn og koma sér upp húsnæði.

Það sem við ræðum hér er í fyrsta lagi möguleiki stjórnar Lífeyrissjóðs bænda til að hækka iðgjaldið upp í eitthvað hærra á sjóðfélaga, þ.e. bændur, og möguleiki stjórnar til að hækka iðgjaldið úr 6% í eitthvað hærra fyrir launagreiðandann, sem er merkilegt nokk hjá bændum ríkissjóður. Það byggir á búvörusamningum. Ríkið borgar 250 millj. kr., eins og kemur fram í frumvarpinu, á ári inn í Lífeyrissjóð bænda sem atvinnurekandi. Mjög merkilegt.

Í frumvarpinu er jafnframt getið um það að þetta skuli nota til að gera stjórninni kleift að taka upp aldurstengd lífeyrisréttindi. Hvað þýðir það? Það er kannski það sem við ættum að ræða nákvæmast hvað þýða aldurstengd lífeyrisréttindi?

Þannig er að iðgjald sem tvítugur maður borgar stendur í 45 ár á vöxtum hjá lífeyrissjóðnum þar til hann hefur töku ellilífeyris við 65 ára aldur, ef við gerum ráð fyrir því. Iðgjald sem sextugur maður borgar stendur ekki nema í fimm ár, sem þýðir það að réttindin sem ungi maðurinn ætti að fá ættu að vera margfalt hærri en réttindin sem hinn aldraði fengi fyrir sama iðgjald. Það er reyndar um þrefalt hærra sem hinn yngri ætti að fá að öllu jöfnu. Þá væri kerfið í lagi. Hingað til hafa menn haft jafnaðariðgjald fyrir alla aldurshópa. Allir hafa borgað jafnt og fengið sömu réttindi, jafnt hinn sextugi sem hinn tvítugi.

Herra forseti. Sjóðir með mikið af ungu fólki, ég nefni sem dæmi Lífeyrissjóð verslunarmanna en mjög margir byrja í Lífeyrissjóði verslunarmanna ungir og starfa í svona fimm, sex eða tíu ár, og fara svo í aðra sjóði, háskólasjóði og marga aðra, Lífeyrissjóð bænda o.s.frv. Vegna þess arna þá eru réttindin sem þetta fólk fær miklu meiri en rétturinn sem því er gefinn, þ.e. það ætti að fá mikið hærri réttindi. Sá lífeyrissjóður stendur mjög vel og getur borgað hærri lífeyri fyrir sama iðgjald.

Annar sjóður, ég nefni þá Lífeyrissjóð bænda sem dæmi, sem er með mikið af öldruðum félögum, veitir hins vegar of mikil réttindi fyrir sama iðgjald og hann stendur illa. Þá þarf að skerða sjóðfélaga, bara af því þeir eru í lífeyrissjóði með mikið af öldruðum sjóðfélögum. Þetta hef ég í um 20 ár talað um sem tímasprengjuna sem íslenska lífeyrissjóðakerfið býr við. Það að menn skuli hljóta mismunandi lífeyrisrétt á endanum eftir því hvað fólkið við hliðina á því í lífeyrissjóðnum er gamalt. Það gengur ekkert upp.

Hugsum okkur bónda sem vinnur á býli sínu og hann er giftur konu sem við skulum segja að vinni í kaupfélaginu. Konan borgar í Lífeyrissjóð verslunarmanna, þar sem er mikið af ungu fólki, og karlinn borgar í Lífeyrissjóð bænda, þar sem mikið er af gömlu fólki. Þau eru bæði skylduð til þess með lögum frá Alþingi að borga í þessa sjóði. Þau hafa ekkert val. Vegna þess hve mikið er af gömlu fólki í Lífeyrissjóði bænda þá þarf að skerða lífeyrisgreiðslur til bóndans, bara af því hann var skyldaður til að borga í þann sjóð. En konan sem borgaði í Lífeyrissjóð verslunarmanna, var skylduð til þess og mátti ekki borga í neinn annan lífeyrissjóð, fær uppbót af því hún er í lífeyrissjóði sem vill svo til að í er mikið af ungu fólki, sem þýðir að hún fær uppbót fyrir sama iðgjald og bóndinn, maðurinn hennar, borgaði inn í Lífeyrissjóð bænda. En greiðslur til bóndans eru skertar. Þetta segir mér að svona kerfi gangi ekki til lengdar, enda sjáum við það núna. Það fer eftir aldurssamsetningu sjóðfélaga hvort lífeyrisréttindi þeirra eru skert eða ekki, en alls ekkert eftir þeirri ávöxtun sem stjórn sjóðsins nær.

Ég minni á það þegar Lífeyrissjóður verkstjóra var sameinaður öðrum sjóðum í Sameinaða lífeyrissjóðinn þá þurfti að skerða réttindin um 25%, það þurfti að skerða lífeyrisréttindi verkstjóra um 25% vegna þess að sjóðfélagar voru flestir orðnir gamlir. Einstaka verkstjóri var ungur en það skipti ekki máli.

Þetta er sú tímasprengja sem menn eru núna að reyna að vinda ofan af með því að taka upp aldurstengd lífeyrisréttindi. Sú umræða kom ekki upp allt í einu eða í lokuðum hópi. Ég veit ekki betur en að ASÍ hafi rætt þetta á mörgum þingum. Þetta er búið að vera í umræðunni hjá Landssamtökum lífeyrissjóða í lengri tíma, enda var þetta vandamál þekkt. Einn lífeyrissjóður hefur haft þetta alla tíð, þ.e. Lífeyrissjóður verkfræðinga. Að meðaltali kemur þetta nákvæmlega eins út en vandinn er sá að við erum með misgamla lífeyrissjóði. Ef þeir væru allir jafngamlir þá gætum við haft þetta meðaliðgjald, eins og verið hefur. Þetta hefur alltaf verið vitað.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hann hreyfði því líka að konur yrðu öðruvísi tryggðar. Vissulega. Konur lifa lengur. Þar af leiðandi er ellilífeyrir þeirra dýrari en ellilífeyrir karlmanna. En makalífeyrir þeirra er hins vegar ódýrari því að makinn er yfirleitt yngri og lifir mikið skemur. Hann er karlmaður yfirleitt, þ.e. maki kvenna. Þannig held ég að þetta upphefjist nokkurn veginn, hvort á móti öðru, þ.e. (Gripið fram í.) ódýrari makalífeyrir kvenna á móti dýrari ellilífeyri.

Langskólagengið fólk, það er rétt, byrjar starfsævina miklu seinna, en oft og tíðum vinna menn með námi og öðlast réttindi þar þann tíma. Á tímabili var líka greitt í lífeyrissjóð af lánunum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ég skil ekki af hverju það var tekið í burtu og af hverju það er ekki tekið upp aftur því ákveðið gat myndast í réttindavinnslu fólks við það að fara í nám.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gat þess að hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vissi lífeyrisþeginn að hverju hann gengi af því að réttindin eru föst en iðgjaldið er breytilegt. En aumingja skattgreiðandinn veit ekki að hverju hann gengur. Það er vitað að ef vextir á fjármagnsmarkaði fara niður fyrir 3,5%, sem stefnir hraðbyri í, til góðs fyrir alla lántakendur í landinu og alla launþega sem eru að fjármagna íbúðarhúsnæði sitt, þá muni þurfa að skerða lífeyri hjá öllum almennu lífeyrissjóðunum því að þeir hafa engan bakhjarl. Það munar gífurlega miklu um það þegar vextir fara niður í 2,5% á markaðnum, það þyrfti því að skerða mjög mikið.

Á sama tíma mun þurfa að hækka iðgjald í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, bara si svona, hækka skattgreiðslurnar á þetta sama fólk í ASÍ. Á sama tíma og verið er að skerða það á að hækka skattgreiðslur til að halda uppi háum réttindum hjá opinberum starfsmönnum. Ég er hræddur um að það sé þriðja tímasprengjan í dæminu, en þær eru nokkrar. Það er t.d. tímasprengja milli A- og B-deildar, því að B-deildarfólkið fær lífeyrisréttindi sem hækka eins og laun, og þau hafa hækkað alveg gífurlega undanfarið, á meðan A-deildarfólkið fær lífeyrisréttindi sem hækka eins og verðlag, miklu minna. Það á eftir að koma í ljós að opinberir starfsmenn uppgötva þetta og það er ein tímasprengjan í viðbót. Það er mikið af svona misræmi í kerfinu.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson talaði mikið um Lífeyrissjóð bænda og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Hann gleymdi að geta þess að örorkulífeyrir hjá opinberu sjóðunum, Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, B-deild, er afskaplega lélegur. Hann miðast nefnilega við áunnin réttindi. Maður sem er búinn að starfa í fimm ár hjá ríkinu og fær 2% fyrir hvert ár fær 10% af launum sem örorkulífeyri, það eru nú öll ósköpin. Sá lífeyrir er skammarlega lakur. En menn hafa ekki viljað snerta á honum vegna þess að þá rugga menn bátnum. Þetta á við um B-deildina.

Hins vegar ef við tökum Lífeyrissjóð sjómanna, maður sem búinn er að starfa sem sjómaður í fimm ár fær framreikning, ef þetta er ungur maður fær hann framreikning til 67 ára aldurs, að mig minnir. Hann fær framreikning til enda starfsævinnar og getur fengið mjög myndarlegan örorkulífeyri, 50–60% af launum, af oft og tíðum mjög háum launum sem greitt er af í Lífeyrissjóð sjómanna. Þetta gleymdi hv. þingmaður að nefna líka. Það er því alls konar misræmi í þessu kerfi fram og til baka.

Mig langar til, herra forseti, að ræða rétt aðeins um samspil Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða. Maður sem fær ekki neitt neins staðar, ekki úr lífeyrissjóði, tekjur eða annað slíkt og býr einn, fær núna í dag — ég fór í Reiknhildi Tryggingastofnunar á tr.is — 104. 445 kr. á mánuði í lífeyri frá TR og síðan er dreginn skattur frá því, þannig að hann er með 93 þús. kr. til ráðstöfunar á mánuði. Þetta er algjört lágmark, þessi maður hefur engar tekjur neins staðar frá.

Ef hann er með meðallífeyri frá Lífeyrissjóði bænda, sem við erum að ræða hér um, þar sem meðalellilífeyrir er 15 þús. kr. og menn hafa verið að býsnast yfir, hann er reyndar mjög lágur, en ef hann er gefinn inn í þetta sama reikniforrit hjá Tryggingastofnun ríkisins 180 þús. kr. á ári fær hann 97.695 kr. á mánuði plús 15 þúsund kr. úr lífeyrissjóðnum, og hann er með 112.695 á mánuði fyrir skatt. Ég vil minna á að það er nokkuð svipað og nokkrir taxtar Eflingar eru fyrir fulla vinnu, þ.e. lífeyrisþegi sem er með meðalellilífeyri frá Lífeyrissjóði bænda er með tekjur á mánuði sem svara til dagvinnulauna samkvæmt taxta Eflingar. Svo geta menn náttúrlega rætt um hvort þau séu ekki lág.

Ef þessi maður fær 50 þúsund kr. á mánuði úr lífeyrissjóði, sem er ekki sérstaklega óalgengt, fær hann frá Tryggingastofnun 82 þús. kr. og hann er með 132 þús. kr. fyrir skatt í tekjur. Þetta vil ég að menn hafi í huga áður en þeir ræða mikið fleira. (ÖJ: Þetta eru bara milljónerar!) Nei, ég segi það ekki, milljónerar, en þeir eru a.m.k. með tekjur sem eru yfir töxtum Eflingar. Og það vill svo til, því miður, að það er fjöldi manns í þjóðfélaginu sem fær taxta Eflingar, þó að þingmenn kannist kannski ekki við það.



[15:05]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef verið að reyna að ráða í þennan málflutning og ég hef velt því fyrir mér hvort hv. þm. Pétur H. Blöndal sé óvenjulega hugrakkur eða óvenjulega dómgreindarlaus maður. Ég hallast helst að hinu síðarnefnda.

Hann stillir dæmi sínu þannig upp að almennt launafólk á ASÍ-markaðnum sé að greiða fyrir launafólkið í opinbera kerfinu. Þetta er hræðilegt ranglæti, segir hann, og úr þessu þarf að sjálfsögðu að bæta.

Nú langar mig til að spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal: Hvernig greiddi hann atkvæði í þingmannafrumvarpinu þar sem hann skammtaði sjálfum sér og ráðherrunum réttindi sem eru ekki að nokkru leyti sambærileg við það sem tíðkast í þjóðfélaginu, hvorki á almennum vinnumarkaði né á hinum opinbera? Ráðherra í ríkisstjórninni ávinnur sér 6% á ári. Fólk í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ávinnur sér 2% af grunnlaunum og í A-deildinni 1,9% af heildartekjum. Í almennum lífeyrissjóðum er þessi ávinnsluprósenta 1,4–1,6%, á því bili. Hana þyrfti að bæta, tel ég, og það þyrfti að hækka einfaldlega iðgjöldin sem þessu nemur vegna þess að ég er því fylgjandi að fólk leggi til efri áranna.

Ég vek athygli á þessu furðulega misræmi í málflutningi hv. þingmanns, þessum furðulega dómgreindarskorti þegar hann setur mál sitt fram. Eða er hv. þingmaður ekki hluti af þessu samfélagi? Eiga að gilda allt önnur rök um hann (Forseti hringir.) og þá sem verma stólana í þessum sal? Hvers vegna þessar kveðjur til almenns launafólks á Íslandi?



[15:07]
Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú taka fram að þetta er ekkert persónulegt. (ÖJ: Nú, ekki persónulegt.) Það getur vel verið að ég sé dómgreindarlaus en ég studdi frumvarpið um Lífeyrissjóð þingmanna á sínum tíma vegna þess að kjör flestra þingmanna eru skert með því, þeir borga hærra iðgjald, 5% í staðinn fyrir 4%, og þetta er ákveðin samræming sem gerir það léttara að breyta lífeyrisréttindum þingmanna yfir í það sem er hjá almennum launþegum. Ég hef í tvígang flutt frumvörp um það að lífeyrisréttindi þingmanna verði eins og hjá almenningi í landinu. (ÖJ: Það er sýndarmennska.) Ég hef í tvígang flutt það frumvarp. Hv. þingmaður hefur aldrei flutt frumvarp um það, aldrei nokkurn tíma. (ÖJ: Sýndarmennska.) Hv. þingmaður hefur aldrei flutt frumvarp um að lífeyrisréttindi þingmanna verði skert eða minnkuð. Ég hef hins vegar flutt um það frumvarp í tvígang og það er engin sýndarmennska. Ég barðist fyrir því að fá það samþykkt og ég mun flytja það væntanlega aftur, þannig að ég vil að þingmenn séu með lífeyrisréttindi eins og almenningur í landinu.

Hins vegar eru öll laun opinberra starfsmanna greidd með sköttum eða útsvari þannig að þau eru greidd af almenningi og fyrirtækjum í landinu og það sem fyrirtækin greiða í skatt geta þau ekki greitt í laun. Við erum því að segja að launafólk í landinu stendur undir skattgreiðslum beint eða óbeint og þegar opinberir starfsmenn búa við þannig kerfi að réttindin eru föst en iðgjaldið breytilegt munu álögur á almenning hækka þegar þarf að skerða lífeyri hjá almennu sjóðunum. Ef ávöxtun á markaði fer niður fyrir 3,5%, sem ég vona að gerist ekki en allt stefnir í, þá fáum við eina tímasprengjuna enn þegar við þurfum að auka álögur á hið vinnandi fólk, fólkið sem er að koma upp börnum og húsnæði og á stundum ekkert voðalega gott og hefur stundum ekki mikil auraráð þegar þarf að hækka álögur á það fólk til að borga hin föstu lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna á sama tíma og lífeyrisréttindi þess eru skert.



[15:09]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi studdi hv. þingmaður frumvarp sem veitti honum sjálfum umframréttindi miðað við aðra í þjóðfélaginu og þykist síðan með sýndarmennskumálatilbúnaði vilja stefna í einhverja allt aðra átt.

Réttindi þingmanna voru ekki skert. Það er valkvætt fyrir hvern og einn að velja það kerfi sem þjónar hans hagsmunum sem best.

Síðan þetta gamaldags viðhorf um opinberan rekstur og opinbera starfsmenn og þá sem sinna öðrum verkum í þjóðfélaginu. Þetta er gamaldags úrelt viðhorf. Það að leggja málin þannig upp að þeir sem sinna starfi í menntakerfinu eða í heilbrigðiskerfinu, að sjúkraliðinn á öldrunardeild Landspítalans sé á framfærslu hjá samfélaginu, hjá fólki sem sinnir öðrum störfum í landinu, þetta er náttúrlega afskaplega niðurlægjandi. Ekki fyrir starfsmanninn, heldur fyrir þann þingmann sem talar svona. Þetta eru úrelt gamaldags viðhorf sem eiga ekki nokkra stoð í veruleikanum.

Við lifum í samfélagi sem skiptir með sér verkum. Sumir starfa á almennum vinnumarkaði, í verslunum, sjómennsku eða í öðrum störfum, aðrir sinna öðrum hlutverkum í heilbrigðisþjónustunni, í skólakerfinu, og þetta á að heyra sögunni til að tala á þennan hátt niður til fólks.

Um efnisþætti sem fram komu hjá hv. þingmanni varðandi starfsaldurstengingarnar eða aldurstengingarnar í lífeyriskerfinu, það er ekki rétt að um þetta hafi farið fram víðtæk umræða. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðskerfanna, lýsti því yfir hjá okkur að hann væri í fyrsta skipti að koma á almennan fund að taka þátt í umræðu um þessi mál þegar hann kom á fund hjá BSRB.

Þegar breyting er gerð á einum stað í kerfinu og hún muni hafa afleiðingar annars staðar í kerfinu, (Forseti hringir.) það er einmitt það sem við erum að vara við. Við erum að hvetja til þess að menn fari ekki á út á þá braut án þess að víðtækt samráð fari fram um það í öllu kerfinu.



[15:12]
Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í tvígang hef ég flutt frumvörp um að lífeyrisréttindi þingmanna verði eins og gerist í almennu sjóðunum en að þeir fái launahækkun sem því nemi. Það að ég studdi frumvarp til þingmanna var að það frumvarp gerir réttindi þingmanna sambærilegri við almenna markaðinn að einhverju leyti og auk þess var ég akkúrat á mörkunum að ég hvorki græddi né tapaði á breytingunni. Yngri þingmenn töpuðu á henni og eldri þingmenn græddu en (ÖJ: En ráðherrar?) reyndar er það valkvætt. Ráðherrar græddu töluvert mikið sumir hverjir.

En ég hef alla vega í tvígang flutt frumvörp um að breyta þessu en hv. þingmaður hefur aldrei flutt frumvarp um þetta og ekki þingsályktunartillögu né nokkurn skapaðan hlut um lífeyrismál. (ÖJ: Sýndarmennska.)

Að þetta sé gamaldags og úrelt sjónarmið, auðvitað vinna opinberir starfsmenn mjög þarft verk og ég er ekkert að gera lítið úr starfi þeirra, alls ekki, þeir vinna sumir hverjir afskaplega vel. (Gripið fram í.) Herra forseti, get ég fengið frið til að halda ræðuna fyrir persónulegum …

(Forseti (BÁ): Ég bið hv. þingmenn að gefa ræðumanni tækifæri til að ljúka máli sínu.)

Að þetta sé gamaldags og úrelt sjónarmið, það er bara þannig að opinberir starfsmenn fá laun sín með skatttekjum, það er sama hvernig menn snúa því og venda. Þeir vinna margir mjög þarft starf og standa virkilega fyrir sínu þannig að þeir þurfa ekkert að skammast sín fyrir það. En þegar menn eru stöðugt að gera kröfur á ríkissjóð um að bæta stöðu Lífeyrissjóðs bænda, bæta stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna o.s.frv. þá verða þeir að átta sig á því að þeir eru að gera kröfu á hinn vinnandi mann hvort sem það er opinber starfsmaður eða ASÍ-maður. (Gripið fram í.)

Um almennan fund, ég veit ekki hvort aðalfundir ASÍ eru almennir fundir, það er kannski einhver lokuð klíka. En þeir hafa verið að ræða um lífeyrismál aftur og aftur og þeir hafa haft í gangi lífeyrisnefndir þannig að mér finnst hv. þingmaður gera heldur lítið úr starfi þeirra.



[15:14]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við þjóðfélagsþegnar greiðum geysilega margt með sköttum, það er einfaldlega svo, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Við kaupum þjónustu opinberra starfsmanna og greiðum hana með þeim tekjum sem ríkið hefur, þar á meðal sköttum. Ég veit ekki betur en að menn séu nokkuð sammála um að við þurfum þá þjónustu sem opinberir starfsmenn veita okkur í þjóðfélaginu, hvort sem það er á heilbrigðissviði eða á öðrum sviðum þjóðfélagsins, menntasviði, almennri opinberri þjónustu, þjónustu sveitarfélaga o.s.frv. Það er bara eins og það er og breytir ekki, finnst mér, umræðunni að við munum alltaf kaupa þjónustuna á því verði sem hún er á.

Það er hins vegar rétt að minna á að fyrr á árum voru laun opinberra starfsmanna yfirleitt lægri en á almenna vinnumarkaðnum. Vegna hvers? Vegna þess að menn sögðu að opinberir starfsmenn — sem rétt var — hefðu miklu betri lífeyrisrétt en aðrir landsmenn. Þetta veit hv. þingmaður alveg jafn vel og ég, að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna voru miklu betur tryggð en annarra launþega.

Við tölum um frumvarpið um Lífeyrissjóð bænda og reynum að tryggja stöðu þeirra. Ég vil spyrja: Hvers vegna setjum við ekki inn 8% í staðinn fyrir 6%, eins og nánast allar aðrar stéttir í þjóðfélaginu hafa verið að semja um? Hvers vegna er það, hv. þingmaður? Við þurfum jú vissulega að taka á stöðu bænda og ég geri mér grein fyrir hvaðan þessi 2% til viðbótar mundu koma. (Forseti hringir.) En þannig er það bara.



[15:16]
Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta síðasta — því að þetta var eiginlega ekki andsvar, þetta var meðsvar — þá kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið að ríkissjóður greiðir 234 millj. á ári í lífeyrissjóðinn, sem eru 40 millj. fyrir hvert prósent, 2% til viðbótar mundu því þýða 80 millj. á ríkissjóð. Og hver skyldi greiða það? Það eru náttúrlega launþegar í ASÍ, sjómenn, bændur og opinberir starfsmenn sem mundu borga þessar 80 millj. (Gripið fram í.) Þetta er hluti af búvörusamningi. Um þetta verður því fjallað í búvörusamningi þegar þar að kemur.

Varðandi það að opinberir starfsmenn hafi haft lægri laun á tímabili, er það rétt. Það var reyndar ekki langur tími, kannski 10–15 ár, en laun þeirra hafa hækkað óskaplega mikið undanfarið, og það er svo sem ágætt nema það eykur kostnað ríkisins mikið. Þau hafa hækkað mikið meira en laun annarra í þjóðfélaginu nema kannski lífeyrisþega.

En að hækka þetta nú þegar upp í 8% mundi þýða 80 millj. á ári á skattgreiðendur, sjómenn, Vestfirðinga og aðra launþega. Við þurfum því að gæta okkar pínulítið í útgjöldunum því að allt er þetta greitt með sköttum og mér sýnist þegar ég tala við kjósendur mína í Reykjavík og úti á landi líka að menn séu ekki voðalega hrifnir af skattbyrðinni sem þeir þurfa að borga.



[15:18]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var gott að hv. þingmaður vék að skattbyrðinni í lok máls síns, því að við vorum einmitt að gera skattalækkanir sem hv. þingmaður var afar ánægður með. Hvernig komu þær út? Þær komu langbest út fyrir þá sem hafa hæstu launin sem þýðir að þeir sem hafa lægri laun bera hlutfallslega hærri skattbyrði.

Ég verð að segja alveg eins og er að það fer svolítið í taugarnar á mér þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal er að tala um að þessi stétt eða hin borgi. Það sem við kaupum í samneyslu fyrir ríkið og greiðum með sköttum eða öðrum kvöðum sem lagðar eru á þegna landsins, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar, er auðvitað allt borgað með sköttum og tekjum. Það er ekki verið að leggja hlutfallslega meira á eina stétt en aðra nema vegna þess að skattkerfið er uppbyggt eins og það er og hv. þingmaður vildi alls ekki hækka persónuafsláttinn til þess að jafna tekjudreifinguna í landinu svo að þeir sem hafa lægri tekjur hefðu það betra en þeir hafa það í dag. Það var farið akkúrat hina leiðina, að fella hátekjuskattinn niður og lækka svo flatt prósentu á skatta. Þannig var verið að lækka sérstaklega skatta hjá þeim sem hafa hærri tekjur. Þetta veit hv. þingmaður prýðilega, töluglöggur maðurinn. Þannig er það bara.

Ég held því að hægt væri að snúa umræðunni yfir í að tala um það sem þeir menn sem ráða hafa verið að aðhafast í þessum þingsal. Þeir hafa verið að færa til álögurnar af hátekjufólkinu yfir á lágtekjufólkið. Það er ekki hægt að mótmæla því, hv. þingmaður.



[15:20]
Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum lagt til ýmsar skattalækkanir eins og t.d. skatta á hagnað fyrirtækja, það var lækkað úr 50% niður í 18% og tekjur ríkissjóðs hafa stórvaxið. (Gripið fram í.) Kakan hefur stækkað svo mikið að ríkissjóður hefur meiri peninga til að borga lífeyri í gegnum Tryggingastofnun o.s.frv. og borga opinberum starfsmönnum hærri laun. Þess er vænst að þegar skattur á einstaklinga verður lækkaður um 4% að hinn venjulegi launþegi, ASÍ-maðurinn, fari loks að koma að góðærinu, að þá muni hvatinn til þess að afla sér hærri tekna með því að stunda menntun eða annað slíkt, skipta um starf, sá hvati verði meiri og kakan muni stækka og tekjur ríkissjóðs muni ekki lækka eins mikið og skattalækkunin gefur til kynna. Þetta er trú okkar og það hefur sýnt sig að hún er rétt. Skattalækkanirnar geta því skilað ríkissjóði meiru vegna þess að kakan stækkar, og það hefur verið stefnan undanfarin ár að gera einmitt það.

En talandi um lífeyrissjóðina og hinar 80 millj. sem hv. þingmaður gerði kröfu um að verði skellt á ríkissjóð sisvona, þá eru það útgjöld og menn þurfa að átta sig á því að öll aukaútgjöld ríkissjóðs þýða meiri skattbyrði svona eða hinsegin, á sjómenn, á Vestfirðinga. Ég held að meðallaun hjá ASÍ-manni séu um 260–270 þús. kr. á mánuði, sá maður fær þegar skattalækkanirnar ná í gegn að fullu 10, 12 þús. kr. meira á mánuði til ráðstöfunar. (Gripið fram í.) Ég er ekki að tala um það, ég er að tala um að hinn venjulegi launþegi hjá ASÍ fær 10–12 þús. kr. meira í ráðstöfun og hann hefur alveg nóg við þá peninga að gera.



[15:22]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum við 2. umr. um Lífeyrissjóð bænda og nefndarálit frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Eins og fram hefur komið lýtur frumvarpið að því að verið er að víkka úrræði stjórnar Lífeyrissjóðs bænda vegna þess hve staða sjóðsins er slæm. Aldursskipting sjóðfélaga er og hefur alltaf verið mjög óhagstæð miðað við flesta aðra lífeyrissjóði og frumvarpið á að koma til móts við þá stöðu þannig að hægt sé að bregðast við henni. Verið er að hækka mótframlag frá ríkinu, eins og fram hefur komið, úr 6% í 7%.

Ég vil lýsa ánægju minni með frumvarpið. Mér finnst það vera liður í réttlætisátt og er ánægð með það sem næst fram með því.

Mig langar til þess að geta um svar sem ég fékk frá hæstv. fjármálaráðherra sem mér finnst mjög mikilvægt að komi fram í umræðunni. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hve margir sjóðfélagar fengju nú greitt úr Lífeyrissjóði bænda.

Svarið er þannig: Árið 2004 fengu að meðaltali 3.668 lífeyrisþegar greiddan lífeyri úr sjóðnum í hverjum mánuði. Þar af fá sumir fleiri en eina tegund lífeyris. Heildarlífeyrisgreiðslur í janúar 2005 námu 57.270 þús. kr.

Einnig var spurt um fjölda sjóðfélaga. Fjöldi virkra eða greiðandi sjóðfélaga á árinu 2003 var 3.530 og þá hafði þeim fækkað úr 4.283 frá árinu 2002. Ástæðu fækkunarinnar má rekja til laga nr. 140/2002, um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda. Samkvæmt þeim var hætt að skipta iðgjöldum sjálfkrafa milli hjóna og sambýlisfólks en við það fækkaði greiðandi sjóðfélögum töluvert. Virkum sjóðfélögum hefur hins vegar fækkað jafnt og þétt mörg undanfarin ár eða um 5–10% á ári. Það var ekki hægt að gefa upp hve margir greiðandi sjóðfélagar voru árið 2004, en þetta er auðvitað afleiðing af því að bændum fækkar ár frá ári og hefur sú þróun verið lengi.

Mig langar líka aðeins að geta um það hvernig lífeyrisgreiðslurnar skiptast. Lífeyrisþegar sem fá eingöngu greiddan lífeyri vegna búskapartíma, þ.e. greitt að fullu úr ríkissjóði, eru 13 karlar, sem fá að meðaltali 14.590 kr., það eru fimm konur sem fá að meðaltali 15.108 kr., eða samtals til beggja kynjanna 14.734 kr.

Í makalífeyri sjóðfélaganna er enginn karl en þar eru 145 konur og þær fá að meðaltali 13.329 kr. Lífeyrisþegar sem fá greitt vegna áunninna réttinda, uppbót vegna búskapartíma þeirra sem fæddir eru 1914 og fyrr meðtalin. Þá kemur í ljós að 1.592 karlar fá meðalgreiðslur 18.049 kr., konur eru 1.065 og meðalgreiðslur þeirra eru 10.751 kr. eða um 5 þús. kr. lægri en karlanna og samtals til beggja kynja um 15 þús. kr.

Makalífeyrir, þar eru karlar 44 sem fá meðalgreiðslur 6.404 kr., konur eru þar 718 og meðalgreiðslur eru 8.446 kr.

Örorkulífeyrir er þannig að flestir fá 0–10 þús. kr. eða 44. Þeir sem fá hæst fá um 52 þús. kr., sem eru þrír talsins. 145 karlar fá örorkulífeyri og meðalgreiðslur til þeirra eru 20.709 kr. Konur eru þar 235 og meðalgreiðsla er 19.235 kr. Samtals fá 380 manns greiddan örorkulífeyri og þetta eru tæpar 20 þús. kr.

Ég vildi koma svarinu sem ég fékk frá fjármálaráðherra að því að ég held að það víkki aðeins út umræðuna sem hér hefur farið fram.

En vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni áðan varðandi skattana vil ég koma því að að við höfum verið að lækka skatta fyrir allan almenning. Allir njóta góðs af skattalækkununum. Kaupmáttur hefur vaxið ár frá ári og ég held að það sé ekki hægt að finna nokkurt annað ríki þar sem fólk hefur það jafngott og við Íslendingar. Það er alltaf verið að reyna að bæta hag þeirra sem standa verst og við því erum við að bregðast með því að bæta Lífeyrissjóð bænda. Eins munum við styrkja hann með sölu á Lánasjóði landbúnaðarins. Allt verður þetta til þess að stuðla að því að bændur fái greiddar sæmilegri eða betri lífeyrisgreiðslur en þeir hafa fengið hingað til.



[15:28]
Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef lesið svarið sömuleiðis og þetta eru skelfilega lágar tölur og væri hræðilegt ef fólkið hefði ekkert annað til að lifa af. En eins og ég gat um áðan er það ekki svo og mér finnst ekki rétt að koma með svona upplýsingar án þess að geta um heildarmyndina, hvað fólk fær til að lifa af í heildina.

Ég gat þess áðan að maður sem býr einn og fær meðallífeyri, sem er 15 þús. kr. á mánuði, fær til viðbótar frá Tryggingastofnun ellilífeyri, tekjutryggingu, tekjutryggingarauka og heimilisuppbót, samtals 97.695 kr. frá Tryggingastofnun ef hann er með 15 þús. kr. úr lífeyrissjóði. Hann fær sem sagt 112.695 kr. á mánuði, rúmar 112 þús. kr. til að lifa af. Það er heildarmyndin og það er það sem menn þurfa að tala um. Menn eiga ekki að tala alltaf um einn og einn þátt, tala t.d. bara um að heimilisuppbótin sé 18 þús. kr., heldur tala um heildarmyndina, það sem fólkið fær í vasann. Svo borga þeir að sjálfsögðu skatt af þessu eins og aðrir launþegar, en við erum að tala um tekjur upp á 112 þús. kr. rúmar á mánuði fyrir bónda sem er einmitt með meðallífeyri, 15 þús. kr. á mánuði.



[15:30]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skoða heildarmyndina, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Við erum auðvitað að skoða heildarmyndina, við erum að ræða um Lífeyrissjóð bænda sem er einn lélegasti lífeyrissjóður landsins.

Ég hef fylgst mjög vel með lífeyrisgreiðslum til bænda í mörg ár og ég hef séð hvað makar bænda fá, ekkjur. Það eru smánarlegar upphæðir eins og ég gat um áðan. Þrátt fyrir að fá viðbót frá ríkinu er þetta ekki til að hrópa húrra fyrir. Þegar búið er að taka skatta af 112 þús. kr. er ekki mikið eftir.

Við verðum líka að átta okkur á því að fólk sem hefur misst heilsuna er á lágum örorkubótum, er kannski með, ég hef séð dæmi um það, 80–90 þús. kr. úr að spila á mánuði, fólk sem er ekki einu sinni orðið sextugt, og það er auðvitað ekki gott, hvorki fyrir sjálfsmyndina né annað, að leggja ekki meira til heimilis síns en það.



[15:31]
Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við verðum alltaf að skoða alla myndina, það sem fólk fær í vasann, ekki bara einstaka þætti. Það kemur fram í þeirri skýrslu sem nýverið var birt um fjölgun öryrkja að þeir eru margir hverjir, sérstaklega hjá lágtekjufólki, með töluvert hærri ráðstöfun en þeir höfðu áður en þeir urðu öryrkjar. Þeir eru með hærri ráðstöfunartekjur, og umtalsvert hærri ef þeir eru með börn, en þeir höfðu sem launþegar áður. Þeir hagnast sem sagt á því fjárhagslega að verða öryrkjar. Það þarf því vissulega að líta á alla heildarmyndina.

Mér skilst að laun bænda margra hverra, sérstaklega sauðfjárbænda, séu ekkert voðalega há, ég hugsa að þeir nái margir hverjir ekki 112 þús. kr. nettó á mánuði þannig að þeir eru kannski að fá í ellilífeyri meira en þeir höfðu áður sem tekjur.



[15:32]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, þetta er einmitt staða margra bænda. Þó að sumir hafi það mjög gott, fá þeir sem bera lakast úr býtum hærri greiðslur mánaðarlega þegar þeir komast á ellilífeyri, ellilaun, og það er bara gott. Verið er að varpa ljósi á hve margir það eru sem fá mjög lítið úr þessum lífeyrissjóði, það er það sem um er að ræða. Við því erum við að bregðast, að bæta Lífeyrissjóð bænda, og það er aðalatriðið að þeir fái aðeins meira úr lífeyrissjóði sínum en þeir hafa gert hingað til. Þetta eru náttúrlega ekki neinar upphæðir þegar litið er á þessar tölur hér og það er engin afsökun þó að fólk fái greitt frá Tryggingastofnun, Lífeyrissjóður bænda er samt mjög lélegur.



[15:33]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef kannski tekið rangt eftir en mér fannst ég heyra að hv. þingmann segja að réttindi í Lífeyrissjóði bænda hefðu hækkað úr 6% í 7%. (Gripið fram í.) Verður samkvæmt þessu, segir hv. þingmaður.

Það er víða búið að semja um þessa breytingu, úr 6% í 7% og síðan í 8% á almenna vinnumarkaðnum. Ég held að það sé rétt sem segir í athugasemdum við frumvarpið að almennt er það svo á vinnumarkaðnum. Á að skilja þessi orð hv. þingmanns þannig að hún hafi vitneskju um að gerður verði samningur milli ríkisins annars vegar og Bændasamtakanna hins vegar um að þessar prósentur hækki úr 6% í 7% og síðan úr 7% í 8%, þannig að það verði þá samræmi á almenna vinnumarkaðnum við það sem sagt er í greinargerðinni? Ef svo er fagna ég því.



[15:35]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég sagði var að með frumvarpinu er verið að hækka mótframlög ríkisins úr 6% í 7%. Til þess að breyta því þarf að gera það í búvörusamningi eða eins og fram kemur í umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins:

„Mótframlag atvinnurekenda í sjóðinn er nú 6% og er greitt af sjóðfélaga eða ríkissjóði sé samið um það í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Ríkissjóður greiðir árlega 234 millj. kr. í lífeyrissjóðinn samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2005 vegna mjólkur- og sauðfjárframleiðslu, eða um 40 millj. kr. fyrir hvert prósent atvinnurekenda.

Verði frumvarpið að lögum leiðir það ekki sjálfkrafa til aukinna útgjalda ríkissjóðs þar sem framlög í sjóðinn eru bundin samningum.“

Nýr mjólkursamningur mun taka gildi 1. september í haust og nú er í smíðum nýr búvörusamningur í sauðfjárframleiðslunni. En ég vil bara ítreka aftur að ég tel þetta til bóta þó að ekki sé farið upp í 8%, en eins og fram hefur komið eru þessar upphæðir fastar í búvörusamningi en það er verið að hækka framlagið.



[15:36]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir er formaður landbúnaðarnefndar og bóndi og starfar innan Bændasamtakanna og veit sjálfsagt vel hvað þar hefur verið rætt. Því fagna ég þeim upplýsingum sem hún veitir hér úr ræðustól um hækkun mótframlags úr 6% í 7% og er vonandi stefnt að því að það verði 8% eins og er almennt stefnt að í kjarasamningum launþega, ég vona sannarlega að þetta sé rétt mat hjá hv. þingmanni en ég sé það hvergi neins staðar í lagatextanum. Hins vegar má lesa í athugasemdum hvað það er á almennum vinnumarkaði og eins má lesa það í umsögn fjármálaráðuneytisins hvað hvert prósentustig kostar, þ.e. 40 milljónir fyrir hvert prósent, og síðan að útgjöld vegna sjóðsins séu bundin samningum.

Ég skil það því svo að um þetta hafi verið rætt og menn telji góðar vonir til þess að þetta verði fest í samningi milli Bændasamtakanna og ríkisins.



[15:37]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður náttúrlega að hafa í huga að búvörusamningur milli Bændasamtakanna eða búgreinanna og ríkisins þarf alltaf að fara til umfjöllunar í hv. Alþingi og samningurinn er ekki endanlega frágenginn fyrr en Alþingi er búið að samþykkja hann.

Ég vil ítreka það aftur að ég tel að frumvarpið, verði það að lögum, sé til mikilla bóta fyrir bændur landsins.