131. löggjafarþing — 121. fundur
 3. maí 2005.
breyting á ýmsum lögum á orkusviði, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 396. mál (skattskylda orkufyrirtækja, breyting ýmissa laga). — Þskj. 503, nál. 1221.

[20:01]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum á orkusviði sem tengist í raun öðru máli um skattlagningu orkufyrirtækjanna. Frumvarpið er að mörgu leyti nokkuð athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin ætlar með málið í gegnum þingið tiltölulega stuttu eftir að sett hafa verið ný raforkulög í landinu. Við höfum meira að segja nýlega breytt þeim raforkulögum og okkur var sagt hér í þinginu af hæstv. iðnaðarráðherra og fleiri stjórnarliðum að breytingarnar á raforkulögunum, til þess að koma á því sem kallað hefur verið virk samkeppni hér á landi á raforkusviði, yrðu ekki tilefni til neinnar sérstakrar hækkunar á raforkuverði.

Síðan hefur það einmitt komið í ljós sem fylgifiskur raforkulaganna að orkuverð hefur víða breyst verulega og bitnar sérstaklega illa á köldum svæðum landsins þar sem menn þurfa að kynda hús sín með raforku. Sagt var héðan úr þessum ræðustól að lagabreytingarnar mundu ekki kalla fram nein sérstök hækkunartilvik á orkureikningum fólks eða að hámarki 1–3%, vegna þess að það væru engin tilefni til þess að hækka raforku af þeirra völdum. Þess vegna kom það auðvitað mörgum á óvart þegar niðurstaðan varð sú að fólk er að fá orkureikninga sem eru 25% og upp í 40% hærri en þeir voru áður, einkum á þeim svæðum þar sem ekki eru hitaveitur og fólk þarf að kynda hús sín með raforku. Þetta kom ríkisstjórninni í opna skjöldu að nokkru leyti og var reynt að bregðast við þessu með auknum niðurgreiðslum, en það hefur engan veginn dugað til sem sést á orkureikningum fólks. Sú tilfærsla sem orðið hefur bitnar því miður harkalega á neytendum og hún bitnar á þjóðinni misjafnlega eftir landsvæðum og misjafnlega milli dreifbýlis og þéttbýlis. Dregin hefur verið sérstök lína milli dreifbýlis og þéttbýlis miðað við 200 íbúa og í byggðarlögum með undir 200 íbúa er orkuverðið hærra en á þéttbýlli svæðunum.

Það einkennilega við málið er að hjá íbúum sem horfa hver á annan yfir tiltölulega mjóan botn á firði, eins og innst í Ísafirði, í Ísafjarðarkaupstað, breyttist orkureikningurinn hjá öðrum íbúanum sem er sunnan við botn fjarðarins vegna þess að hann hafði tengst annarri dreifingarstöð, en hinn sem er hinum megin við fjörðinn telst í þéttbýli og greiðir allt annað orkuverð. Þetta er eitthvert furðulegasta dæmi sem ég hef heyrt um. Ég þarf eiginlega, til að vera alveg viss, að gera mér ferð á þessi heimili þegar ég kem til Ísafjarðar og spyrjast fyrir um hvort þetta sé svona hjá þessum nágrönnum sem kílómetri skilur að, reyndar sjór þegar flóð er en fjara þegar fjarað er út. Þá er hægt að ganga þvert yfir á milli bæjanna án þess að nota veginn. Ég þarf að spyrjast fyrir um hvort þetta sé virkilega ein af hinum einkennilegu uppákomum sem fylgt hafa breytingum á raforkulögunum.

Það er ekki nema von, hæstv. forseti, að fólkið í landinu uni illa slíkri lagasetningu og slíkri lagabreytingu. Ég hef jafnvel heyrt um að fólk sé að spá í að fá vini og ættingja til að skrá sig í ákveðna heimilissveit, í ákveðnu kauptúni, til að koma tölunni þar upp í 201. Hvað skyldi gerast þá? Þá telst svæðið orðið til þéttbýlis, ef hægt er að koma því svo fyrir.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst afleiðingin af raforkulögunum alveg stórfurðuleg og furðuleg dæmi sem maður heyrir þar um og þarf að sannreyna áður en maður getur fullyrt það nákvæmlega að svona sé í pottinn búið. En þetta held ég að sé sannleikanum samkvæmt.

Nú ræðum við hins vegar frumvarp um breyting á ýmsum lögum á orkusviði, sem er í raun fylgifrumvarp annars frumvarps um skattskyldu orkufyrirtækja. Breytingarnar sem eiga að verða á lögunum eru upptaldar í frumvarpinu, þær eru:

Breyting á orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 10/2001, um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 159/2002, um stofnun hlutafélags um Norðurorku, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 40/2001, um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum.

Við fjöllum því um lög um öll orkufyrirtæki landsins sem hafa á annað borð sérlög um starfsemi sína.

Formaður iðnaðarnefndar greindi frá því í umræðu fyrr í dag að það væri ekkert hættulegt að fara þannig í málin eins og hér er lagt upp með, að innleiða skattskyldu orkufyrirtækjanna. Rökin fyrir því voru þau, og held ég að ég fari nokkurn veginn rétt með, kannski ekki orðrétt, en rökin voru þau að mörg þeirra orkufyrirtækja sem ég hef nefnt og vitnað til væru í það miklum framkvæmdum og væru það skuldsett, væru með það mikinn óuppgerðan kostnað og tap og fjárfestingar að engar líkur væru á því að fyrirtækin færu að borga skatt á næstu árum. Ég held jafnvel að það hafi verið nefnt að það væri ekki fyrr en eftir 2010 sem mörg fyrirtækjanna færu að borga tekjuskatt.

Ég er ekki viss um, virðulegur forseti, að þetta séu réttar upplýsingar eða haldbærar. Mér er nær að halda að fyrirtæki eins og Landsvirkjun, sem er í geysilegum framkvæmdum, muni ekki fara að greiða skatta samkvæmt frumvarpinu á næstu árum. En ég gæti vel trúað því að önnur fyrirtæki færu að gera það mun fyrr en 2010. Ég velti t.d. fyrir mér Orkubúi Vestfjarða sem hefur ekki staðið í neinum sérstökum stórframkvæmdum á undanförnum árum, þó að lagfærð hafi verið stífla við virkjun norður í Steingrímsfirði og vissulega verið unnið að viðhaldi o.s.frv. er ekki hægt að segja að menn hafi staðið þar í mikilli öflun nýrrar raforku með tilheyrandi stíflumannvirkjum og virkjunum.

Ég hygg því að sú lagabreyting sem hér er verið að tala um, um skattskyldu orkufyrirtækja, muni, eins og lögin um raforkulögin sem við kláruðum fyrir áramót, koma mjög misjafnlega niður á íbúum landsins. Með nákvæmlega sama hætti og raforkulögin komu mjög misjafnlega niður á heimilum landsins miðað við hvar þau voru staðsett á landinu og hvort þau voru að nota raforku til húshitunar eða höfðu til þess aðra orkugjafa.

Reyndar er ætlast til þess í frumvarpinu um skattskyldu orkufyrirtækja að skattlagningin nái einnig til orkufyrirtækja að því er varðar heitt vatn. Hér er því verið að búa til nýjan tekjustofn fyrir ríkið.

Ég velti því satt að segja fyrir mér, virðulegur forseti, hvernig hugsunin í skattstefnu ríkisstjórnarinnar er. Ég er alveg steinhættur að botna í því hvernig þetta á að virka, fæ ekkert samhengi í þetta lengur.

Hér á haustdögum var boðuð skattalækkunarstefna, hún var keyrð í gegn, sem sneri að því að lækka tekjuskatt um eitt prósentustig flatt á allar tekjur, sem auðvitað kom þannig út að þeir fengu mestu skattalækkun í krónutölu sem hæstar höfðu tekjurnar en þeir minnst sem lægstar höfðu tekjurnar. Fyrir þessu voru færð ákveðin rök af hendi stjórnarliða sem við keyptum ekki í stjórnarandstöðunni og töldum mikið óráð að fara svona í skattamálin vegna þess að verið væri að auka hlutfallslega skattbyrðina á láglaunafólkinu, það fengi miklu minni lagfæringar en ef við hefðum t.d. hækkað persónuafsláttinn og reynt að hækka skattleysismörkin þannig. Þeir sem lægri hafa tekjurnar hefðu fengið sömu krónutölulækkun með þeirri aðferð eins og þeir sem hærri hafa tekjurnar. Nei, því var hafnað og þessi leið farin.

Síðan ræðum við frumvarpið og tengd frumvörp um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði sem er afleiðing af því að fara á að skattleggja orkufyrirtækin. Hvar skyldi sú skattlagning lenda? Hún lendir ekki sem uppbót í tómum vösum fólks, það er alveg ljóst.

Það gæti endað með því að fólk sem hefur litlar tekjur neyddist til að sækja um félagslega aðstoð vegna þess að þegar tekist hefur að skattleggja orkufyrirtækin til viðbótar við þá kröfu sem var í raforkulögunum að fyrirtækin ættu að skila arði, stighækkandi arði á nokkrum árum, þá mun það koma þannig út að hækkunin sem fyrirtækin setja á raforkuverðið eða hitaorkuna þar sem eru orkuveitur með heitt vatn, sú skattlagning, fer ekkert eftir tekjum. Hún verður miðað við þá notkun sem fólk þarf að nota til að kynda hús sín. Það er auðvitað svo, virðulegur forseti, að sá sem hefur lágu tekjurnar þarf að kynda húsið sitt alveg jafnt og sá sem hefur háu tekjurnar. Þar af leiðandi verður þessi skattlagning með þeim hætti, sem er alveg öfugt við það sem ríkisstjórnin gerði þegar hún kom með flötu skattprósentuna, að nú skulu allir af því að verið er að hækka álögurnar borga jafnt, lágtekjumaðurinn sem kyndir 150 fermetra húsið sitt og hátekjumaðurinn sem kyndir 150 fermetra húsið sitt. Þeir þurfa að nota svipaða orku til að halda húsum sínum heitum séu þeir á sama svæði.

Það er alveg kristaltært, virðulegur forseti, að það kemur miklu meira við pyngjuna hjá lágtekjumanninum að kynda húsið sitt þegar búið er að hækka orkutaxtana til þess að ná inn þeirri arðsemi og tekjum sem gert er ráð fyrir í raforkulögunum með því að bæta skattlagningunni við. Það liggja fyrir yfirlýsingar frá orkufyrirtækjunum um að þau muni hækka taxta sína. Þau eiga ekkert annað svar við þessari skattlagningu.

Við stöndum uppi með það að vera að búa til álögur sem koma í krónutölu jafnþungt niður á lágtekjumanninum og hátekjumanninum. Ef taxtinn fyrir að kynda 150 fermetra hús á mánuði hækkar um 5 þús. kr., þarf sá sem hefur 100 þús. kr. tekjur að borga hækkun sem er þá 5% af tekjum hans, brúttó, til viðbótar við annan orkukostnað, en sá sem hefur hins vegar helmingi meiri tekjur, 200 þús. kr., borgar ekki nema 2,5% í viðbót og þannig auðvitað koll af kolli eftir því sem við förum upp eftir launastiganum og 0,5% hækkun hjá þeim sem hefur milljón á mánuði. Svona er þetta, virðulegur forseti, og það segir sig sjálft að það munar meira um 5 þús. kr. hjá hundrað þúsund króna manninum en hjá tvö hundruð þúsund króna manninum, svo við höldum nú ekki áfram lengra upp.

Með þessum frumvörpum erum við að búa til álagningu sem tekur ekki neitt mið af greiðslugetu fólks eða tekjum þess. Við erum bara að búa til álagningu sem mun leggjast á orkugjaldið hvort sem orkan er í formi raforku eða heits vatns. Þessi skattastefna er látin leggjast af fullum þunga á láglaunamanninn, þ.e. jafnt á alla sama hvaða tekjur menn hafa. En þegar verið var að lækka skattana var séð til þess að hátekjumaðurinn fékk miklu meira, tugum prósenta meira í krónutölu en sá sem lægstar hafði tekjurnar. Þetta er staðreynd þessa máls.

Virðulegi forseti. Ég er því nokkuð hugsandi og hissa á hvers konar ringulreið gildir í þessari stefnu ríkisstjórnarinnar, nema við verðum að líta svo á í stjórnarandstöðunni að þetta sé allt viljandi gert, að það sé alveg sérstakt markmið núverandi ríkisstjórnar að auka álögur á lágtekjufólk í landinu og efla greiðslugetu og afkomu þeirra sem hærri hafa tekjurnar. Skyldi það vera?

Ég átta mig alls ekki á þeirri miklu ákefð sem er í því að koma þessu máli fram ef maður á að taka mark á orðum hv. formanns iðnaðarnefndar um að orkufyrirtækin, flest hver, séu það skuldsett og séu í það miklum framkvæmdum að þau muni hvort sem er ekki borga skatta. Ég held reyndar að það sé ekki rétt. Sum orkufyrirtækin munu byrja að borga skatta og þau munu láta allan kostnað sem á þau fellur, hvort sem það er vegna skatta eða vegna þess að þau þurfa að sýna sérstakan arð og skila honum til ríkisins sem arðgreiðslu, koma fram í orkuverðinu. Það er nefnilega svo að orkufyrirtækin hafa bara tekjur sínar af því sem þau selja, úr orkunni, hvort sem það er raforka eða heitt vatn. Þaðan taka þau tekjurnar og þar myndast tekjugrunnurinn að langmestu leyti. Þó að vissulega muni kannski vera hægt að hagræða einhvers staðar í orkugeiranum munu tekjurnar alltaf koma af sölu raforku og hita. Það er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Þess vegna verð ég, hæstv. forseti, að lýsa mig algjörlega andvígan því sem hér er verið að gera.

Við fluttum um það breytingartillögu í Frjálslynda flokknum að ef ríkisstjórnin ætlaði að keyra þetta mál fram, þá gæfu menn sér a.m.k. tíma og frestuðu virkni laganna fram yfir 2012. Það hefði ekki átt að vera hundrað í hættunni með það úr því að formaður iðnaðarnefndar lýsti því yfir áðan að lögin mundu hvort sem er ekki hafa neina skattavirkni fyrr en eftir 2010. Það hefði verið hægur vandinn að fresta virkni laganna fram yfir 2012 og taka upp þá tillögu sem við lögðum til, að skipa nefnd á árinu 2009 sem færi yfir hvaða áhrif skattlagningin hefði á orkuverð í landinu, að menn reyndu að meta það áður en virkni laganna kæmi til framkvæmda. (Gripið fram í: Hvar er formaður iðnaðarnefndar?) Formaður iðnaðarnefndar er ekki staddur hér, ég veit ekkert hvar hann er. Ég sé hins vegar formann þingflokks framsóknarmanna og býð hann velkominn. Hann hefur hlustað vandlega, ég hef tekið eftir því, og gáði meira að segja í vasa sína áðan þegar ég var að tala um að þetta væru greiðslur sem kæmu úr vösum venjulegs fólks. (JBjarn: Hann var að leita að stefnu Framsóknarflokksins.) Nú, var hann að því, hv. þingmaður? Ég áttaði mig ekki á að hann væri að leita að henni, ég hélt að hann væri að gá að fjárhag sínum.

Þetta er hinn kaldi veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég átta mig ekki á því ofurkappi sem menn leggja á það að koma þessum lögum öllum fram sem tengjast orkuverði og orkulagabreytingunni jafnvel þó að formaður iðnaðarnefndar lýsi því yfir að sennilega muni lögin ekki hafa neina virkni vegna þess að fyrirtækin séu svo skuldsett. Þetta minnir mann næstum á það sem maður gæti ímyndað sér að menn þyrftu að að flýta sér og leggja jafnmikið kapp á og það er ef þeir væru að missa refi sína út úr búum og þyrftu að hlaupa á eftir þeim á fullri ferð til þess að bjarga verðmætum. Það á auðvitað ekki við í þessu máli, hæstv. forseti.

Hvers vegna menn fara svona í þetta mál fæ ég varla skilið. Mig undrar það að við skulum vera að ræða hér viðbótarlagasetningu sem getur haft viðbótaráhrif til þess að hækka orkuverð í landinu og getur haft þau áhrif að við aukum enn þá meira á slaka stöðu þess fólks sem býr á köldustu svæðum landsins og þarf mesta orkunotkunina. Ég hélt að engin þörf væri á því, hæstv. forseti, að reyna frekar á það að skipta þjóðinni í tvo hópa, þá sem búa á heitum svæðum og njóta heita vatnsins og hafa þar af leiðandi hingað til verið með mun lægri orkukostnað af kyndingu íbúða sinna og húsa, og svo hinn hluta landsmanna sem býr á köldum svæðum og þarf að nota nánast eingöngu raforku til að halda húsum sínum heitum. Þetta þýðir einfaldlega að þarna mun bilið enn vaxa og enn aukast kostnaður þeirra sem búa á köldu svæðunum, því það er jú vitað að orkuverð hitaveitnanna, margra hverra, er miklu lægra við kyndingu á húsum en raforkuverðið víða út um land þar sem ekki er kostur á annarri orku.

Ég spyr mig líka að því, hæstv. forseti, hvers vegna þetta var svona mikið kappsmál eins og kom fram í ræðu formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, að þessi lög og tengd lög sem við erum að ræða hér væru bráðnauðsynleg til þess að jafna stöðu þeirra fyrirtækja sem framleiða raforku, jafna stöðu milli þeirra sem eiga einkarafstöðvar og selja inn á landsnetið og annarra stærri fyrirtækja, vegna þess að eins og staðan er í dag borguðu fyrirtækin sem þau lög ná til, og ég taldi upp í þessari ræðu minni, ekki skatta en einkarafveitur borguðu skatta ef þau hefðu þannig afkomu. Það gerist sennilega ekki einn, tveir og þrír, vegna þess að þeir raforkubændur sem hafa verið að koma á fót virkjunum til þess að selja inn á dreifinet orkuveitnanna í landinu, hafa margir verið að fjárfesta mikið og byggja sínar virkjanir og eru vafalaust skuldsettir til einhverra ára þó að ég geri mér vissulega vonir um að innan fárra ára fari þessar virkjanir að mala eigendum sínum gull.

Ef það er svo, sem ég held, að þær virkjanir sem menn eru að setja á fót, einstaklingar eða hlutafélög sem einstaklingar eiga, muni hvort sem er ekki borga skatta á næstu árum vegna fjárfestinga sinna, þá hefði mönnum náttúrlega verið í lófa lagið að koma á jafnrétti milli aðila, meðan verið væri að skoða málin betur og íhuga þau betur en mér finnst vera gert hér með því að keyra lögin í gegn, með því að bæta inn lagagrein sem segði að a.m.k. næstu fimm árin borguðu virkjanir einstaklinga ekki tekjuskatt og þar með hefði mönnum gefist ráðrúm til að skoða þessi mál, fara vandlega yfir þau og reyna að átta sig á hvaða afleiðingar fylgdu þessari skattlagningu á orkufyrirtækin.

Eins og ég sagði áðan óttast ég mjög að þetta komi misjafnlega niður á landsmönnum, það komi verr niður á hinum köldu svæðum landsins en þar sem orkan er ódýrari, þetta muni bætast við orkutaxtana eins og orkufyrirtækin hafa reyndar lýst varðandi frumvarpið um skattskyldu orkufyrirtækja. Ég þykist vita það að formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hafi kynnt sér umsagnir orkufyrirtækjanna varðandi skattskyldufrumvarpið. Þar er því einfaldlega lýst að fyrirtækin muni innan skamms þurfa að setja þessar álögur út í orkuverðið. Ég hefði haldið að við gætum tekið eitthvert mark á því sem í slíkum umsögnum er.

Ef hitt er rétt sem hv. þm. Birkir J. Jónsson sagði áðan, að fyrirtækin væru mörg svo skuldsett og hefðu verið í það miklum fjárfestingum að þau mundu hvort sem er ekki borga tekjuskatt á næstu árum, sé ég ekki heldur hvað okkur liggur svona rosalega mikið á. Af hverju gefum við okkur ekki aðeins tíma til að skoða þessi mál og velta því fyrir okkur: Hafa þau þær afleiðingar að orkuverð hækkar til fólksins til viðbótar við það sem kom með raforkulögunum? Er ekki rétt að við komumst út úr þeim vanda sem vissulega varð til við raforkulögin og kemur misjafnlega niður í dreifbýli og þéttbýli o.s.frv., og tökum okkur einhver ár til að skoða það og alla vega lenda því máli, annaðhvort með auknum niðurgreiðslum eða öðrum lagfæringum sem ásættanlegar gætu talist áður en við förum þá leið sem hér er lögð til?

Þetta vildi ég sagt hafa um málið og ætla ekki að orðlengja þetta mikið meira en tel að öllu jöfnu að málin sem við ræðum og tengjast skattskyldu orkufyrirtækja muni hækka orkuverð í landinu. Það er hlutur sem ég er ekki tilbúinn í, allra síst í ljósi þess sem fylgdi með sem afleiðing af raforkulögunum.

Ég hef orðað það svo, hæstv. forseti, þegar menn eru með þennan flýti í lagabálkunum að snúa raforkunni, orkulögunum og svo núna skattlagningu orkufyrirtækjanna, hvort menn sjáist ekki fyrir. Hvað liggur svona á? Ég hef ekki fengið neinar sérstakar skýringar á því. Enn síður finnst mér hafa komið gildar skýringar eftir að hv. þm. Birkir J. Jónsson sagði okkur í dag að það mundi hvort sem er ekki verða um neinar greiðslur að ræða vegna þess að fyrirtækin væru hvort sem er svo skuldsett og með taprekstur að það yrðu ekki neinar sérstakar skattgreiðslur og þar af leiðandi væri ekkert sem menn mundu setja út í verðlagið.

Þá vil ég enda ræðu mína á því að spyrja enn og aftur hv. formann iðnaðarnefndar: Af hverju liggur svona á að koma frumvarpinu í gegn ef það er satt og rétt sem sagt var í þessum sal í dag að það yrði hvort sem er ekki um neinar skattgreiðslur að ræða vegna skuldsetningar fyrirtækjanna? Ég dreg reyndar í efa að það sé alveg hárrétt því ég held að fyrirtækin séu misjafnlega skuldsett. En ef það er rétt, hv. þingmaður, (Gripið fram í: Ávarpa forseta.) þarft þú að gefa skýringar á því hvað liggur svona á. (Gripið fram í.)



[20:35]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum á orkusviði. Ræðumönnum hefur verið mjög tíðrætt um þá pólitísku stefnubreytingu sem verið er að taka gagnvart orkumálum í landinu. Allt til þess að farið var í markaðsvæðingu og einkavæðingu á raforkukerfinu hefur verið litið á rafmagn og hitaveitu sem hluta af almannaþjónustu í landinu. (Gripið fram í.) Nei, það er alveg hárrétt að framsóknarmenn hafa þarna snúist um sjálfa sig og ég kem að því seinna hversu dapurt það er að upplifa hvernig forusta Framsóknarflokksins hefur snúist gegn grundvallarhugsjónum sínum sem flokkurinn hefur byggt á í áratugi og fer að styttast í heila öld, en nú síðustu árin er verið að ganga gegn þeim hugsjónum sem flokkurinn var upphaflega byggður á, þ.e. á samvinnuhugsjóninni, á því að byggja upp sterka og öfluga almannaþjónustu sem skóp nánast grundvöll fyrir atvinnulíf og gott mannlíf í landinu. Samvinnuhugsjónin, félagshyggjan hefur gert þjóðina svo öfluga, svo efnahagslega stönduga sem raun ber vitni. En forustumönnum Framsóknarflokksins þótti nóg komið og fóru út í markaðsvæðingu og einkavæðingu almannaþjónustunnar og nú tölum við um rafmagnið og hitaveituna.

Sá liður sem nú er tekinn fyrir er skattlagning almannaþjónustunnar, nú skal hún verða skattskyld. Að mati forustumanna Framsóknarflokksins, ekki kjósenda Framsóknarflokksins, a.m.k. ekki þeirra sem studdu hann við síðustu alþingiskosningar, þeir kjósendur voru ekki að kjósa forustu Framsóknarflokksins til þess að ganga svo gegn almannahagsmunum eins og markaðsvæðingu raforkukerfisins, það er alveg víst.

Frú forseti. Þó að það komi ekki beint málinu við er fróðlegt að sjá að í síðustu skoðanakönnun, án þess að ég sé endilega að gera mikið úr skoðanakönnunum, virtist koma í ljós að ráðherrar Framsóknarflokksins, sérstaklega þeir sem bera hvað harðast fram einkavæðingarstefnu flokksins, njóta æ minna fylgis og æ minni stuðnings, ekki bara þjóðarinnar allrar heldur (Gripið fram í.) einnig innan síns eigin flokks. Án þess að ég ætli að fara að gera það að sérstöku umtalsefni gæti það samt verið vísbending um að forustumenn Framsóknarflokksins, þeir sem leiða einkavæðingarstefnu Framsóknarflokksins, njóti ekki til þess stuðnings kjósenda.

Er skemmst að minnast þess, frú forseti, í þessu sambandi líka, til að benda ungum og vonandi vaxandi þingmönnum Framsóknarflokksins á að t.d. í einkavæðingu á öðru almannaþjónustufyrirtæki, Símanum, þar sem teknar hafa verið nokkrar skoðanakannanir síðan 2002 og sumar mjög víðtækar sem hafa sýnt að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er andvígur einkavæðingarstefnu Framsóknarflokksins í Landssímamálinu, milli 70% og 80% af þjóðinni eru andvíg einkavæðingarstefnu Framsóknarflokksins. Nú síðast bæði í könnun Gallups og könnun Félagsvísindastofnunar, sem gerðar voru í mars virtust nærri fjórir af hverjum fjórum framsóknarmönnum vera andvígir einkavæðingarstefnu Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Já, þannig að innan skekkjumarka eru það einungis forustumenn flokksins sem eru að leiða einkavæðingarstefnuna því að um 80% af þeim sem spurðir voru eru andvígir þessu. Fyrir unga þingmenn Framsóknarflokksins hlýtur þetta því að vera eitthvað til að skoða, á hvaða vegferð flokkurinn er.

Við ræðum raforkumálin. Ég held að það séu fá dæmi eins hrapallegs ferils í einkavæðingu almannaþjónustunnar og við höfum upplifað í gegnum rafmagnið. Þegar þetta var keyrt í gegn á síðasta þingi, markaðsvæðing á raforkukerfinu, var þetta dásamað. Þetta skyldi leiða til lækkunar á raforkuverði, þetta skyldi leiða til aukins afhendingaröryggis, þetta skyldi leiða til alls þess góða sem ekki hafði enn gerst. Ég minnist mjög hástemmdra yfirlýsinga frá hæstv. einkavæðingarráðherra og markaðsvæðingarráðherra og byggðamálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra, sem hefur það hlutverk að fara fyrir einkavæðingarvagni Framsóknarflokksins. Þá var þetta það besta af öllu sem hægt var að gera.

Nú, þegar við upplifum fyrsta smjörþefinn af því sem er að gerast í einkavæðingarfasanum, sem kom til framkvæmda um síðustu áramót, þá … (Gripið fram í.) Jú, smjörþefur getur verið ágætur en stundum getur hann líka verið súr. En um síðustu áramót þegar fyrst var að koma til framkvæmda þessi einkavæðingardraumur Framsóknarflokksins mátti sjá fyrirsagnir eins og þessa: „Raforkuverð á landsbyggðinni áhyggjuefni.“ Hér er vitnað í Þorvald Jóhannsson, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Síðan er í grein hans rakin hækkun á rafhitun o.fl.

Hér er líka önnur grein frá þeim tíma þegar stefna Framsóknarflokksins í orkumálum var að koma til framkvæmda. Hér stendur: „Hvenær er lækkun hækkun og hvenær er hækkun lækkun.“ Hér er sjálfsagt verið að vitna í orðaskýringar hæstv. iðnaðarráðherra sem vissi aldrei nákvæmlega hvenær hún var að tala um hækkun og hvenær hún var að tala um lækkun.

Í Morgunblaðinu þann 9. janúar fjallar Kristófer Már Kristinsson um áhrif einkavæðingarstefnu Framsóknarflokksins í raforkumálum. Meira að segja einn af öflugustu forustumönnum Framsóknarflokksins, Alfreð Þorsteinsson, getur þess í viðtali að Orkuveita Reykjavíkur sjái sér skylt að fylgja kröfu um að hækka orkuverð vegna ákvarðana Framsóknarflokksins.

Ég er með fleiri greinar og yfirlýsingar hringinn í kringum landið þar sem fólk ber sig mjög illa undan þessum áhrifum og hvernig stefna Framsóknarflokksins er að koma fram. Nýverið hafði ég samband við sveitarstjórann á Skagaströnd, sem er á svæði þar sem ekki er hitaveita, og hann sagði að hækkun á raforkuverði hjá almennum notendum þar, þótt búið væri að taka tillit til lækkunar vegna endurgreiðslu vegna húshitunar, mundi vera 10%–25%. Hjá mörgum bændum, m.a. þeim sem voru með marktaxta, afltaxta sem sagt var upp og hurfu, er líka um að ræða gríðarlega mikla hækkun í mörgum tilvikum. Þetta er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir þegar stefna Framsóknarflokksins í raforkumálum birtist í raun.

Hæstv. iðnaðarráðherra, sem hefur helst svarað fyrir þessi mál af hálfu Framsóknarflokksins af því að ráðherrann hefur verið sá sem dregið hefur einkavæðingarvagninn, hefur sagt að þetta sé tóm vitleysa og þetta sé allt misskilningur. Upptakan á markaðsvæðingunni eigi ekki að leiða til neinnar hækkunar, samkeppnin og hin nýju rekstrarform eigi að skila þessu margfalt til baka þannig að hækkanirnar séu fullkomlega ástæðulausar.

Frú forseti. Ég get rakið fleiri dæmi um hvernig hin nýja einkavæðingarstefna í orkumálum virkar. Ég hefði viljað heyra frá formanni iðnaðarnefndar sem lýsti því yfir í umræðu í vetur, þegar þessi mál voru til umræðu í lok janúar og byrjun febrúar, að hann ætlaði að taka þessi mál mjög föstum tökum í nefndinni og fara þar í gegnum hvaða forsendur væru fyrir hækkununum, sem margir voru þá að lenda í og gátu ekki fengið svör við, og ætlaði líka að fara í gegnum það hvernig við því yrði brugðist.

Ég hygg að t.d. íbúar á stöðum eins og Skagaströnd, sem ég nefndi áðan, séu orðnir býsna langeygir eftir því til hvaða ráða iðnaðarnefnd með formann sinn í broddi fylkingar ætlar að grípa til að koma í veg fyrir að rafmagn hækki á þeim stöðum sem ég m.a. nefndi vítt og breitt um landið, og skýringar á því hvers vegna rafmagnið hækkar enn. Ég held að það væri mjög mikilvægt áður en þingið fer í sumarhlé að það sé skýrt fyrir fólki, því að þeir reikningar sem hafa verið að berast hafa bæði verið illskiljanlega uppsettir og það eina sem þeir hafa sýnt og fólk tekur eftir er niðurstöðutalan á reikningunum sem sýnir gríðarlega hækkun á rafmagni þvert ofan í gefin fyrirheit. Enda var það alveg ótrúlegur málflutningur þegar því var haldið fram að rafmagnið þyrfti ekkert að hækka, t.d. þegar stofnað var til nýs milliliðar sem skýrður var Landsnet, sem góðu heilli var þó sett þannig í lög, a.m.k. fyrst um sinn, að yrði algerlega í opinberri eigu. Það var ekki ætlun hæstv. iðnaðarráðherra í upphafi. Ætlun iðnaðarráðherrans var að þetta yrði markaðsvætt fyrirtæki. Það var svo af hálfu Alþingis sem það tókst að beygja þá stefnu út í það, a.m.k. fyrst um sinn, að þetta skyldi vera fyrirtæki í opinberri eigu. Ráðherrann hélt því þó fullum fetum fram, og gerir sjálfsagt enn, að það að stofna heilt fyrirtæki, millilið í raforkumálum eins og Landsnet, leiddi ekki til neins aukins kostnaðar. Trúverðugleikinn í málflutningnum hefur því verið alveg með ólíkindum.

Ég held að við hljótum líka að krefjast þess í umræðunni, frú forseti, að gerð verði grein fyrir því áður en þing fer í sumarleyfi hvernig tekið verður á rafmagnsmálunum og þeim hækkunum sem nú dynja yfir. Ég er með viðtal í höndunum sem tekið var við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson í Bæjarins besta 25. janúar sl. sem ber yfirskriftina „Þingmenn verða að vinda sér í að leysa það vandamál sem upp er komið“. Hvers var þá verið að vísa til? Það var verið að vísa til hinna gríðarlegu rafmagnshækkana sem fólk upplifði á fyrstu mánuðum ársins eftir að hin nýja skipan raforkumála kom til framkvæmda. Í viðtalinu rekur þingmaðurinn það hvernig hann upplifir breytingarnar og segir að þetta hafi alls ekki verið eins og gert hafi verið ráð fyrir.

Ég leyfi mér að vitna í orð hv. þingmanns í Bæjarins besta 25. janúar sl., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eins og fram hefur komið í fréttum kynnti Orkubú Vestfjarða nýja gjaldskrá sína í síðustu viku og hækkar raforkukostnaður heimila í dreifbýli um allt að 40–50% eða um 60–70 þús. kr. á heimili. Einar segir að málið hafi verið rætt í stjórnarflokkunum undanfarna daga og það sé óhjákvæmilegt að við því vandamáli sem upp er komið verði brugðist.“

Ég get ekki séð að búið sé að bregðast við því að fullu. Rætt hefur verið um að koma að nokkru til móts við hækkanir við húshitun en þó er það fjarri miðað við það sem er.

Síðan segir áfram í þessu ágæta viðtali við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem hefur réttilega þungar áhyggjur af því sem er að gerast, með leyfi forseta:

„Undanfarin ár höfum við náð ágætum árangri við lækkun húshitunarkostnaðar sem m.a. hefur leitt til þess að þetta mál, sem var mál málanna á stjórnmálafundum þegar ég var að hefja minn pólitíska feril á árunum upp úr 1990, hefur varla verið til umræðu á liðnum árum. Nú gerist það hins vegar að þessum árangri er á einni nóttu stefnt upp í loft og við það verður ekki unað.“

Er það nema von að þingmanninum blöskri að baráttumál félagshyggjumanna — því að það eru félagshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum líka — undanfarna áratugi, eins og það að jafna húshitunarkostnað, gufi upp á einni nóttu með samþykkt þessara nýju raforkulaga, áratuga barátta sem hv. þingmaður rekur.

Áfram segir í viðtalinu við hv. þingmann, sem stendur flest enn óhaggað, ríkisstjórnin hefur ekki breytt svo miklu þar um:

„Það var ekkert sem gaf okkur sem stóðum utan iðnaðarnefndar tilefni til að ætla að þetta yrði niðurstaða málsins og ég veit að svo var einnig um þá er sátu í iðnaðarnefnd. Það er hins vegar svo að verið er að gera gjörbreytingar á raforkukerfinu og hverfa frá möguleikunum á því að jafna orkukostnað innan kerfisins. Afleiðingarnar eru ljósar. Því verða stjórnmálamenn að bregðast við og ég bendi á að til eru 900 millj. á fjárlögum sem ætlaðar eru til jöfnunar á raforkukostnaði til húshitunar. Dugi sú upphæð ekki verður einfaldlega að bæta við hana þannig að tryggt verði að þessi ósköp dynji ekki yfir.“

Þetta segir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og hefur eðlilega þungar áhyggjur af því sem þarna er að gerast.

Að mínu viti er ekki enn búið að taka á þessu máli sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins gerir þarna að svo alvarlegu umtalsefni. Það er ekki búið að taka á því að fullu, fjarri því, alla vega miðað við þær fréttir sem við fáum vítt og breitt af landinu.

Auðvitað hefur rafmagn í sumum tilvikum lækkað á fyrirtækjum í þéttbýli á svæði Rariks sem voru með óhóflega hátt raforkuverð. En það getur ekki verið að ætlunin hafi verið að kerfið leiddi til þess að rafmagn stórhækkaði á öðrum aðilum.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lýkur viðtalinu þannig, með leyfi forseta:

„Það sjá allir að þetta getur ekki gengið. Við getum ekki unað því að verðhækkanir upp á kannski 45% nái fram að ganga. Það eru aðilar sem eru að fá verðlækkanir, sérstaklega atvinnufyrirtækin.“ — Eins og ég nefndi — „Það er auðvitað ávinningur sem ekki má gleyma, en það breytir því ekki að lækkun húshitunarkostnaðar er gamalt baráttumál okkar margra og við getum ekki látið ávinning af margra ára vinnu okkar í þeim efnum þurrkast út á einni nóttu út af einhverjum skipulagsbreytingum sem dúkka upp vegna Brussel-tilskipana.“

Hann vitnar til Brussel-tilskipunarinnar um að hér skuli vera tekinn upp samkeppnismarkaður á rafmagni, hér uppi á þessu eylendi, á þessari eyju, Íslandi, sem er náttúrlega fáránlegt. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bentum á það á sínum tíma og höfum ítrekað bent á það að óvíst er að við hefðum þurft að taka upp þá Evróputilskipun ef við hefðum gáð að okkur í tíma. En stefna Framsóknarflokksins hefur verið sú að ganga hvað harðast í að framfylgja öllum tilskipunum Evrópusambandsins eins og nokkur kostur er og ganga auk þess og draga einkavæðingarvagninn eins hratt og þeir hafa getað. Er það furða þó að hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni blöskri í þessu ágæta viðtali sem var við hann í Bæjarins besta 25. janúar sl.?

Málið sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins varpar þarna upp er enn þá óleyst. Það er ekki enn búið að gefa þeim íbúum landsins sem fá miklu hærri rafmagnsreikninga nú en áður svör um hvernig tekið verður á málum þeirra.

Frú forseti. Þessi vandamál eru komin upp bara vegna fyrsta stigs markaðsvæðingarinnar og lýsa sér með þessum hætti sem ég hér hef rakið. Þau vandamál hafa enn ekki verið leyst, nema þá að það sé bara ætlunin sem mann uggir að fólk taki á sig þessar hækkanir, að þetta sé fórnarkostnaðurinn sem verður að taka fyrir einkavæðingu raforkugeirans sem Framsókn beitir sér svo öfluglega fyrir og til þess að greiða niður orkuverð til stóriðjunnar.

Nú er bara keyrt áfram. Nú stöndum við hér frammi fyrir lögum, breytingum á ýmsum lögum á orkusviði sem verið er að setja samhliða því að verið er að gera orkufyrirtækjum, raforkufyrirtækjum, hitaveitum, skylt að borga skatta, borga tekjuskatta af starfsemi sinni.

Ég hlustaði á viðtal í morgun — mig minnir að það hafi verið í morgun — við mann frá Samtökum iðnaðarins og hann einmitt tók undir þau orð okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að skattar á almannaþjónustufyrirtæki verða ekki endanlega greiddir nema af neytendum. Enginn annar kemur til með að greiða þessa skatta sem lagðir eru á fyrirtækin, enginn annar en neytendur. Því gefur augaleið að hér er enn verið að efna til hækkunar á orkuverði áður en menn eru einu sinni búnir að sjá fyrir endann á því sem var.

Frú forseti. Orkumálastjóri Kaliforníu heimsótti okkur árið 2003. Ég hef áður vitnað í hann. Þá var einmitt frægt að einkavædda raforkukerfið í Kaliforníu hrundi og ríkið varð að leysa það aftur til sín. Hver var ástæðan fyrir því að það hrundi? Jú, í kjölfar einkavæðingarinnar höfðu þeir sem eignuðust það mergsogið það, tekið út úr því fjármagn, höfðu ekki haldið því við. Það gekk í ákveðinn tíma. En það gat ekki gengið endalaust þannig að raforkukerfið hrundi og ríkið varð að leysa aftur til sín þetta einkavædda raforkukerfi. Í viðtali við þennan ágæta mann á Stöð 2 30. ágúst árið 2003 í upphafi einkavæðingar raforkukerfisins hér segir, með leyfi forseta:

„Orkumálastjóri Kaliforníu ræður Íslendingum eindregið frá því að einkavæða orkuiðnað sinn. Hann segir að rafmagnsleysið í Bandaríkjunum á dögunum hafi verið einkafyrirtækjum að kenna.

Hann hefur verið ráðgjafi tveggja bandaríkjaforseta í orkumálum og veitir nú forstöðu sérstakri orkunefnd sem er að bæta úr orkuskorti sem lengi hefur hrjáð Kaliforníu. Freeman hefur ákveðnar skoðanir á hvar orkumálum sé best komið. David Freeman varar Íslendinga eindregið við því að láta Evrópusambandið reka sig út í að einkavæða raforkuna eða orkumál yfirleitt. Hann segir að það sé það sem hafi valdið mestri bölvun í Bandaríkjunum.“

Svo er orðrétt vitnað til Davids Freemans orkumálastjóra í þessu viðtali, með leyfi forseta:

„Það olli okkur vandræðum að heittrúaðir boðberar frjáls markaðshagkerfis og afnáms sérleyfa komu þeirri vitlausu hugmynd inn hjá okkur að sala á raforku gæti farið fram í einkageiranum. Það gekk ekki. Það olli fólki hugarangri þegar í ljós kom að fjárfestingar í dreifikerfum raforku höfðu verið vanræktar. Við vitum öll að dreifikerfi raforku er viðkvæmt en ef rafmagnið fer þá er hægt að koma því aftur á næsta dag. Ég hef á tilfinningunni að núverandi rafkerfi Íslendinga sé mjög gott.“ — Þetta var áður en einkavæðingarferlið fór af stað hér, frú forseti — „Af hverju ættuð þið að einkavæða það? Verð á raforku er mjög hagstætt hér á landi og orkuvinnslan er mjög umhverfisvæn. Það er mér ráðgáta hvers vegna fólk vill laga það sem er ekki bilað.“

Þetta sagði David Freeman orkumálastjóri Kaliforníu í upphafi einkavæðingarferils Framsóknarflokksins á raforkukerfinu hér.

Síðan segir í viðtalinu, með leyfi forseta:

„Freeman hefur ekki sérstakar áhyggjur af því að hryðjuverkamenn ráðist á rafveitukerfið í Bandaríkjunum.“

Hann er spurður að því hvort hryðjuverkamenn geti ekki ráðist á rafveitukerfið í Bandaríkjunum og hvort mikil hætta á því sé yfirvofandi. Þá sagði David Freeman orkumálastjóri Kaliforníu, orðrétt, með leyfi forseta, í þessu viðtali:

„Hryðjuverk eru alþjóðlegt vandamál. Nýlegt rafmagnsleysi var ekki af völdum hryðjuverkamanna. Það þurfti ekki hryðjuverkamenn til að finna út hvernig ætti að loka fyrir rafmagnið til 50 milljóna manna. Við vorum einfær um það með vanrækslu og trassaskap fólks á hinum frjálsa markaði sem trúði því að markaðurinn leysi allan vanda. Stjórnvöld eiga að bera ábyrgðina á rafmagninu.“

Þannig lauk orkumálastjóri Kaliforníu viðtali sínu í ágúst árið 2003 eftir sára reynslu af einkavæðingu raforkukerfisins í Kaliforníu. Þá veltir maður eftirfarandi fyrir sér: Úr því einkavæðing raforkukerfisins í Kaliforníu gekk svona illa hvað mælir þá með einkavæðingu raforkukerfisins á Íslandi, eyríkinu Íslandi? Enda, eins og kemur fram í þessu viðtali, átti hann ekki orð yfir þær fyrirætlanir Íslendinga að einkavæða, markaðsvæða raforkukerfið hér. En því miður lét forusta Framsóknarflokksins sem stýrði einkavæðingu raforkunnar sér ekki segjast. Hún var eins og kerruklár sem er búið að setja á hlífar beggja megin við augun þannig að ekkert sést nema örlítil rás beint fram. Það var hennar vegur í markaðsvæðingu raforkukerfisins og þann kerrugang hélt hún sig við. Nú erum við að uppskera. En þetta er bara byrjunin. Við sem fylgdumst með og tókum þátt í þessari umræðu skildum að hér átti það að fylgja eftir að gera aukna arðsemiskröfu til fyrirtækjanna. Það átti að krefja þau um að setja aukna arðsemiskröfu út í verðlagið. Hún átti að fara stighækkandi, byrja lágt en síðan mátti hækka. Ég minnist þess að í umræðunni í svokallaðri nítján manna nefnd sem ég sat í fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kom fram hjá markaðshyggjumönnunum sem leiddu þessa umræðu af hálfu iðnaðarráðuneytisins og Orkustofnunar að stefna ætti að því að ná svona 12–15% arðsemiskröfu inn í raforkugeirann innan ákveðins tíma og þegar því væri náð væri hægt að fara að tala um að einkavæða og selja fyrirtækin og að þessu skyldi stefnt. En það var ekki aðeins að menn skyldu taka arðsemiskröfuna heldur átti líka að fara í hagræðinguna innan frá og hverjar voru hagræðingarhugmyndirnar? Jú, þær voru að lengja afskriftartímann á mannvirkjunum og sem þýðir að það átti að skera niður viðhaldið og ná þannig meiri peningum út úr fyrirtækjunum. Þetta átti líka markvisst að gera. Við erum bara rétt í byrjuninni. En það alvarlegasta er kannski að fyrirtækin þurftu ekki, það var ekki hægt að leggja þá kvöð á orkufyrirtækin, framleiðslufyrirtækin að sitja með eða vera með orkubirgðir, varabirgðir. Það var ekki hægt að gera það í þessum lögum þegar komið var út í svona samkeppnisumhverfi. Núna eru Landsvirkjun og orkufyrirtækin skyldug til þess að skaffa landsmönnum orku og verða þess vegna að birgja sig upp, eiga raforkubirgðir, orkubirgðir í uppistöðulónum eða á annan hátt til þess að geta mætt breytilegri stöðu í orkunotkun. En með markaðsvæðingu rafmagnsins er þessi krafa tekin af þeim. Aðeins Orkuveita Reykjavíkur hefur sett það í stefnumið sín að einn megintilgangur reksturs Orkuveitu Reykjavíkur sé að skaffa notendum sínum örugga og ódýra orku. Í stefnumörkun og skilmálum Orkuveitu Reykjavíkur er það sett að það sé meginhlutverk Orkuveitu Reykjavíkur að sjá neytendum sínum fyrir öruggri, nægri og ódýrri orku. Þetta ákvæði fékkst ekki sett í raforkulögin hvað varðaði önnur fyrirtæki. En þetta var gert hjá Orkuveita Reykjavíkur og það var ekki hvað síst fyrir tilverknað fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í orkustefnunefnd Reykjavíkur að þetta kom inn og þegar menn sáu þetta svart á hvítu þótti sjálfsagt að þetta væri sett þar inn.

Frú forseti. Ég nefni þetta vegna þess að við erum rétt að byrja á þessu ferli sem við stöndum frammi fyrir í kjölfar ákvörðunar um að markaðsvæða raforkukerfið. Nú þegar stöndum við frammi fyrir þeim vanda að raforkuverð hefur snarhækkað til stórs hóps neytenda og þeim orðum og þeirri kröfu sem m.a. hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins setti fram, og ég hef hér vitnað til, um að þingmenn verði að vinda sér í að leysa þetta vandamál sem upp er komið, er enn þá ósvarað. Ég bíð eftir því að hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, skýri frá því hvernig á þessum málum verði tekið og hvort þetta sé það sem íbúum á Skagaströnd eða annars staðar úti á landi sem eru nú með í höndunum himinháa orkureikninga, verður gert að standa undir. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: ... missir svo marks þegar ...) Hv. þm. hefur áhyggjur af því og ég veit að hv. þingmanni líður illa undir því að hlusta á þetta enda er þetta líka þvert á stefnu Framsóknarflokksins gamla sem ég kynntist í æsku og sem byggði á félagshyggju (Gripið fram í.) og samhjálp. En nú er allt annað upp á teningnum.

Nú komum við að þessum skattamálum. Næsta skrefið er að leggja á skatta, að þessi almannaþjónusta verði að greiða skatta. Hv. þm. Birkir J. Jónsson lýsti hinni nýju stefnu, nýfrjálshyggjunni í Framsóknarflokknum, ágætlega í ræðu sinni fyrr í dag þegar hann sagði að þetta væri svo mikilvægt núna og nauðsynlegt til þess að jafna samkeppnina, þ.e. að leggja skatt á orkufyrirtækin, að láta landsmenn, almenna notendur greiða skatt af ... (Gripið fram í: Fyrirtækin ...) Fyrirtækin greiða skattinn. En eins og ég sagði áðan þá verða það neytendur sem borga hann því fyrirtækin hafa ekki aðra peninga en þá sem koma frá neytendum. Ekki held ég að það sé öðruvísi, frú forseti. Ekki spretta þessir peningar á trjánum.

Maður veltir fyrir sér samkeppnisstöðunni sem hv. þingmaður er að tala um. Þetta er jú almannaþjónusta og kostnaðurinn lendir á neytendum. Varðandi stóriðjuna, sem Framsóknarflokkurinn hefur rekið sem sitt eina og aðalbaráttumál síðustu árin, stóriðja og aftur stóriðja, þá er búið að ganga frá raforku- og orkusamningum til næstu 20, 25, 30 ára. Ekki verður verði á raforku til hennar breytt. Það fer nú að nálgast kannski 70% af raforkuframleiðslunni og jafnvel meira sem bundið er í stóriðju, sem ekki borgar þessa hækkun sem verður af skattheimtunni. Hver er það þá sem borgar? Jú, það eru einmitt bændur, íbúar á stöðum eins og Skagaströnd, íbúar vítt og breitt um landið, sem taka á sig þessa skatta. Það eru þeir sem þessi skattur er lagður á, ekki stóriðjan sem er eins og heilög kýr hjá Framsóknarflokknum.

Má ég þá spyrja, frú forseti, hvort hv. þingmaður og formaður iðnaðarnefndar hafi velt því fyrir sér hvernig er háttað fjármögnun þeirra almannaþjónustufyrirtækja sem verið er að leggja skatt á. Bíddu við, er Landsvirkjun ekki með ríkisábyrgð á öllum sínum skuldbindingum? Er ekki Rarik í eigu ríkisins og þar af leiðandi fullkomlega á ríkisábyrgð? Er ekki Orkubú Vestfjarða á ríkisábyrgð o.s.frv.? Eru ekki þær hitaveitur og orkuveitur í eigu sveitarfélaga með ábyrgð eigenda sinna? Jú, þannig er þessi staða fyrir, sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af og kallar mismunun. Þetta eru nefnilega almannaþjónustufyrirtæki sem hafa verið byggð upp. Í rauninni ætla menn að leggja skatt á ríkisábyrgðina, ekki satt?

Hv. þingmaður hafði þungar áhyggjur af stöðu raforkubænda sem stofna til lítilla virkjana hjá sér, sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðjum mjög eindregið, uppbyggingu vistvænna, sjálfbærra smávirkjana. Við teljum einmitt að koma eigi til móts við þær samkeppnislega og það sé hægt að gera með öðrum hætti. Ég minni á að við beittum okkur mjög fyrir því að staða þeirra yrði jöfnuð hvað varðar innmötunargjaldið, sem sett var inn á Landsnetið, þar sem fyrir lá að gera ætti þeim nánast ómögulegt að selja inn á Landsnetið með því að krefja smávirkjanir um svo há gjöld. Ég veit ekki betur en það hafi verið þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem börðust hvað harðast fyrir því að komið yrði til móts við þá. Þeir hafa bent á að þeir séu líka að keppa við ríkisábyrgðir hjá öðrum raforkufyrirtækjum.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson minntist á það í ágætri ræðu sinni áðan, þar sem hann var að fjalla um þetta mál, að það hefði mátt undanþiggja þessar virkjanir einstaklinga og bænda tekjuskatti um ákveðinn tíma, mönnum væri í lófa lagið að gera það. Það þyrfti ekki að samþykkja hér lög um að gjörbreyta skattaumhverfi almannaþjónustufyrirtækja til að leiðrétta þann mun.

Maður veltir því fyrir sér í þessu samhengi, frú forseti, að það hefur komið fram að stórfyrirtæki eins og Landsvirkjun mun ekki greiða tekjuskatt á næstu árum vegna þess að hún hefur ráðist í svo óhagkvæmar virkjanir sem gætu sligað hana ef ekki kæmu til ríkisábyrgðirnar, gríðarlegur ríkisstuðningur sem skiptir milljörðum króna. Það þarf til að gera Landsvirkjun þetta kleift. Ríkið styrkir Landsvirkjun um milljarða króna. Ef það hefði ekki komið til hefði hún t.d. alls ekki getað farið í þessa fáránlegu framkvæmd, Kárahnjúkavirkjun. Upphaflega var rætt um að stofnað yrði sjálfstætt fyrirtæki um Kárahnjúkavirkjun og hún ætti þá að bera sig á eigin forsendum því að rafmagnið ætti hvort eð er fara til eins fyrirtækis. En svo þegar kom í ljós að það yrði aldrei hægt og mundi aldrei bera sig þá þurfti bæði að halda í ríkisábyrgðina, því að annars hefði hún bara verið óframkvæmanleg, og gera alla notendur í landinu ábyrga og greiða niður þá fáránlegu fjárfestingu.

Nú á til viðbótar að fara að leggja tekjuskatt á fyrirtæki sem munu á næstu árum ekki skila neinum hagnaði. En þau munu skila sínu tapi. Mig langar til að spyrja hv. formann iðnaðarnefndar, af því að ég er ekki alveg inni í því hvernig þetta reiknast út: Hvenær byrjar þetta tap að telja? Frá hvaða ári getur Landsvirkjun skráð eða farið að færa skattskylt tap? Hversu mikið er það miðað við núverandi rekstrarstöðu fyrirtækisins, hversu mikið er árlegt skattskylt tap Landsvirkjunar? Ég hefði viljað fá upplýsingar um það. Þetta skiptir gríðarlegu máli. Þessi lög, komi þau til framkvæmda, ná núna fyrst og fremst til lítilla veitna í eigu sveitarfélaga, lítilla veitna, staðbundinna veitna. Það þykir sérstök ástæða til að láta þær borga nokkur hundruð milljónir króna til ríkisins af starfsemi sinni. Skatturinn mun ekki ná til þessara stóru fyrirtækja sem fá að safna upp tapi. Og þegar einhver annar aðili … (Gripið fram í.) Já, og ekki síst þessi stóru og óhagkvæmu fyrirtæki.

Ég vil fá svar við því, frú forseti: Frá hvaða tíma verður stóru fyrirtækjunum heimilt að færa skattskylt tap og hversu mikið miðað við rekstur, t.d. Landsvirkjunar í dag, miðað við ársreikning síðasta árs? Hversu há er sú upphæð sem Landsvirkjun getur fært sem skattskylt tap og hversu lengi má safna skattskyldu tapi upp? Við þekkjum dæmi um að þegar fyrirtæki er selt þá situr kaupandinn gjarnan uppi með heilmikinn skattskyldan hagnað og getur þá nýtt tapið fyrirtækisins sér til skattfrádráttar. Þess vegna skiptir miklu máli í þessari umræðu, og kannski er verið að gera þetta vegna þess, að gefa fyrirtækjunum færi á að safna tapinu. Hraðinn sem settur er í að keyra þetta mál áfram getur ekki bara verið til þess að ná peningum af nokkrum þeirra sveitarfélaga sem hafa rekið hitaveitur og rafveitur með örlitlum hagnaði, örfáum hitaveitum sem eru þannig reknar. Það getur varla verið markmiðið. Ég leyfi mér að spyrja hv. formann iðnaðarnefndar: Er það bara markmiðið að ná í þau fyrirtæki, ná í skattana frá þeim? Miðað við stöðuna árið 2003 þá eru það Húsavík, Norðurorka, Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja og slíkar hitaveitur sem eiga að borga. Það er verið að elta þau. Þetta skiptir miklu máli.

Hv. þingmaður minntist á að þetta væri til að jafna samkeppnisstöðuna. Hann opnaði þar sýn á áframhaldandi stefnu Framsóknarflokksins í einkavæðingarmálum. Er ekki hægt að segja það nákvæmlega sama um sjúkrahúsin? Sjúkrahúsin hafa að mati Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs verið einn af hornsteinum almannaþjónustunnar. En við vitum líka að það eru til sjálfstætt starfandi læknar, læknar sem hafa tekið sig saman um einkarekstur á ákveðnum þáttum í heilbrigðiskerfinu og hafa sjálfsagt af því hagnað. Það er þá bara eðlilegt, samkvæmt stefnu Framsóknarflokksins, að sjúkrahúsin fari að greiða tekjuskatt, verði skattskyld samkvæmt nákvæmlega sömu röksemd og hv. þingmaður beitti hér gagnvart almannaþjónustunni í raforkumálum. Ég leyfi mér því að spyrja hv. þingmann: Hvenær ætla framsóknarmenn að leggja það til? Verður það á þessu þingi eða því næsta, að sjúkrahúsin verði gerð skattskyld til þess að jafna samkeppnisstöðuna á heilbrigðissviði? Það hlýtur að vera næsta skrefið ef Framsóknarflokkurinn fylgir áfram einkavæðingarstefnu sinni.

Frú forseti. Hvorki í umræðunni né í nefndaráliti frá meiri hlutanum hafa fengist haldbærar skýringar á því hvers vegna eigi að keyra þetta fram. Við vitum af einkavæðingaráráttu Framsóknarflokksins og að þetta er til þess að fullnægja henni en allar þessar aðgerðir í raforkumálum nú á síðustu missirum hafa leitt til þess að víða hefur rafmagnið hækkað og nú á að gera hagnaðinn skattskyldan. (Gripið fram í.) Já, hv. þingmaður er órólegur yfir þessu enda á hann kannski engin rök. Ég bíð spenntur eftir því að heyra svör hv. þingmanns, formanns iðnaðarnefndar, við því sem ég hef hér spurt um.

Ég spyr hvernig og hvenær verði brugðist við þeim gríðarlegu hækkunum sem dunið hafa á stórum hópi landsmanna, hækkunum á rafmagnsverði í kjölfar markaðsvæðingar raforkukerfisins. Því hefur ekki verið svarað. Ég vil fá svör við því hvenær og hvernig verði brugðist við því. Ég sé, frú forseti, að þingmaðurinn dæsir enda býst ég við að flokkur hans hafi lítinn áhuga á því að leysa þar úr.

Síðan ítreka ég spurningar mínar, sem ég hef borið fram, um nánari skýringu á hvers vegna er verið að keyra þetta í gegn. Hvenær mega menn fara að færa rekstrartap og hversu lengi má safna upp skattskyldu rekstrartapi, hve mörg ár líða áður en það fyrnist? Hversu háar upphæðir væri hér um að ræða, t.d. hjá fyrirtækinu Landsvirkjun, miðað við rekstrarafkomu þess fyrirtækis á síðasta ári? Mér finnst þetta skipta miklu máli í því umhverfi sem hérna er verið að búa til. Er verið að búa hér til lög fyrir almannaþjónustufyrirtæki til að safna upp rekstrartapi sem hægt verður að selja öðrum fyrirtækjum sem sitja uppi með hagnað og geta sléttað hann út með rekstrartapinu á móti?

Frú forseti. Ég vík nú að fleiri atriðum í málinu sem er hér til umræðu, um breytingar á lögum varðandi skattskyldu orkufyrirtækja. Ég spyr og ítreka þá spurningu: Hvers vegna á að ráðast fyrst og fremst á örfáar veitur sveitarfélaganna? Er þetta liður í áframhaldandi einkavæðingu almannaþjónustunnar? Hvar verða mörkin dregin næst?

Ég hef áður vitnað til orkumálastjóra Kaliforníu sem varar mjög afdráttarlaust við markaðsvæðingu raforkukerfisins. Hann lýsti henni sem mesta skaðræðisvaldi sem yfir Kaliforníu hefði dunið. Ég ætla að ljúka ræðu minni með því að vitna aftur í orð Davids Freemans orkumálastjóra, það sem hann segir í viðtali við Stöð 2 30. ágúst 2003:

„Af hverju ættuð þið að einkavæða orkukerfið? Verð á raforku er mjög hagstætt hér á landi og orkuvinnslan er mjög umhverfisvæn. Það er mér ráðgáta hvers vegna fólk vill laga það sem ekki er bilað.“

Síðan vitnar hann til þess þegar rafmagnið fór af Kaliforníu og stjórnvöld þurftu að leysa til sín aftur hið markaðsvædda og einkavædda raforkukerfi. Hann segir um það, með leyfi forseta:

„Það þurfti ekki hryðjuverkamenn til að finna út hvernig ætti að loka fyrir rafmagnið til 50 milljóna manna. Við vorum einfær um það með vanrækslu og trassaskap fólks á hinum frjálsa markaði sem trúði því að markaðurinn leysti allan vanda. Stjórnvöld eiga að bera ábyrgðina á rafmagninu.“ Þetta voru lokaorð orkumálastjóra Kaliforníu sem mælti þau eftir að hafa reynt það sem hér um ræðir. En þennan veg skal forusta Framsóknarflokksins arka, þjóðinni til óheilla, frú forseti.



[21:32]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með þessari umræðu, sem hefur staðið síðdegis og fram undir kvöld, um skattlagningu orkufyrirtækja. Þetta frumvarp sem við ræðum nú, um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði, er hluti af pakka sem er markaðsvæðing orkugeirans, orkufyrirtækjanna, skattlagning þeirra og svo breytingar á ýmsum lögum sem af því leiða, samanber það að orkufyrirtækin hafa verið undanþegin slíkum greiðslum. Þetta svið hefur verið undanþegið skatti og satt best taldi ég að um það ríkti algjör samstaða. Ég minnist þess varla að hafa heyrt á það minnst fyrr en nú á síðustu mánuðum eða missirum að eitthvað væri að því fyrirkomulagi að þessi almannaþjónusta væri undanþegin skattgreiðslum, þannig að menn væru ekki að skattleggja sjálfa sig ef svo má að orði komast.

Nú eru breyttir tímar. Að mörgu leyti var sérstaklega athyglisvert í umræðunni í dag að fylgjast með framlagi formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, þegar hann kom í ræðum og andsvörum ákaflega glaðbeittur, brattur mundu menn segja svona á venjulegri íslensku og hnarreistur mætti jafnvel segja svo ekki sé nú sagt sperrtur. En öll þessi orð komu mér í hug þegar ég fylgdist með hv. þingmanni skeiða í ræðustólinn aftur og aftur og halda ræður eða fara í andsvör við aðra ræðumenn. Það skein af hv. þingmanni gleðin og ánægjan með það sem Framsóknarflokkurinn beitir sér fyrir í þessum efnum og það er gott. Það er gott þegar mönnum líður vel og þeir eru sáttir við það sem þeir eru að gera. Það er auðvitað til fyrirmyndar að menn komi hreint til dyranna og sýni fölskvalausar tilfinningar af því tagi sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson gerði í dag. Það er líka gott fyrir kjósendurna því að þá átta þeir sig á því hvað er á ferðinni.

Gleði Framsóknarflokksins yfir því að markaðsvæða og undirbúa að einkavæða þetta svið almannaþjónustu á Íslandi hefur satt að segja verið ákaflega athyglisverð. Við munum að hæstv. iðnaðarráðherra, frú Valgerður Sverrisdóttir, hefur aftur og aftur komið geislandi af gleði í ræðustólinn og lýst því yfir hversu mikið fagnaðarefni henni væri að beita sér fyrir þessu. Síðan vill auðvitað hv. þm. Birkir Jón Jónsson ekki vera minni spámaður. Hann fylgir foringja sínum, hæstv. iðnaðarráðherra, og er ljómandi af ánægju yfir því að leggja sitt lóð á vogarskálarnar, að leggja sína vinnu fram í þessu skyni í þessum leiðangri.

Það er hins vegar allt annað mál hvort þetta á eftir að reynast það mikið þjóðráð sem hv. þingmenn telja. Það er allt annað mál hvort þjóðin mun upplifa þetta með sama hætti og mér býður í grun að svo verði ekki. Það er allt annað mál hvort þetta standist það að vera sett undir mæliker og horft á það í ljósi reynslunnar, hvort sem hún er héðan fengin eða annars staðar frá. Ég hygg að í raun standist þetta mál ekki á einn eða neinn hátt þegar betur er að gáð, nema á þann einan að þetta þjónar markaðsnýfrjálshyggjukreddunni. Þetta er að sjálfsögðu liður í því að umbreyta samfélögunum í anda nýfrjálshyggjunnar þannig að færa til landamærin milli þess sem er hugsað og rekið á félagslegum forsendum og hins sem er í einkageiranum, fyrir fjármagnið, fjármagnseigendurna, til að hagnast á því, til að taka sér arð út úr starfseminni. Það eru þessi landamæri sem hafa verið að færast til.

Stærstu átök stjórnmálanna í heiminum í dag og undanfarin 15–25 ár hafa staðið um nákvæmlega þetta, að fjármagnsöflin, drifin áfram af stórfyrirtækjunum og áhættufjármagninu, hinu hreyfanlega gráa áhættufjármagni heimsins sem vill mikinn gróða hratt, hafa drifið þá pólitík að færa landamærin til að útvíkka þau svið sem markaðurinn hafi til að athafna sig á og taka til sín gróða af. Þetta er angi af þeim slagsmálum.

Ísland fetar með þessu í fótspor ríkja sem hafa sum hver, önnur ekki, farið inn á þessa braut á undanförnum árum. Það er komin reynsla af því hvernig það hefur tekist og hún er vægast sagt blendin. Það er mjög athyglisvert að svo sterkt er þetta trúboð, svo öflug eru þau öfl sem á bak við standa og ýta þessu áfram, að reynslan skiptir engu máli. Ef það er þannig að reynslan er slæm, t.d. af einkavæðingu raforkukerfanna bæði austan hafs og vestan, hvað segja frjálshyggjumennirnir þá? Þá er veruleikinn skakkur en kenningin er rétt. Það er bara veruleikinn sem er skakkur. Það er samt rétt að gera þetta þó að það takist illa og gefi slæma raun, þótt menn verði meira og minna rafmagnslausir og þótt afhendingaröryggið minnki. Þótt verðið hækki þá er þetta samt rétt. Það er vegna þess að það stendur ekki til að efast um kennisetninguna. Hún er heilög. Það er þá bara veruleikinn sem ekki hegðar sér rétt í samræmi við hana. Svo langt getur menn borið í þessum efnum.

Hér er í raun um klassískt svið að ræða sem gefur gott tækifæri til að hugleiða þessi efni, þ.e. framleiðsla, dreifing og sala eða afhending á raforku, til ljósa og húshitunar og almennra nota í samfélaginu, þótt við tökum bara þann þátt og látum stóriðjupakkann liggja á milli hluta í bili. Þetta eru í fyrsta lagi daglegar þarfir sem við öll megum illa án vera í nútímasamfélagi. Það stöðvast nánast allt á nútímaheimili eða í nútímafyrirtæki ef ekkert rafmagn fæst. Það er ekki þægileg staða sem kemur upp um hávetur ef rafmagnið til að halda húsinu heitu eða a.m.k. lýsa það upp kemur ekki. Hvernig er svo sambúð kaupendanna við afhendingaraðilana í þessu tilviki? Jú, hún er þannig að það liggur yfirleitt bara ein raflína inn í húsið, rétt eins og það liggur ein vatnsleiðsla og einn símaþráður. Í hvaða stöðu er þá kaupandinn gagnvart þessum eina aðila sem á lögnina inn í húsið hans, ef í harðbakkann slær og ef búið er að afhenda þetta allt saman einkaaðilum í markaðsvæddu, fullkomlega markaðsvæddu kerfi? Hann reynist ekki vera í merkilegri stöðu til að semja. Hann verður að kyngja því sem að honum er rétt og borga það sem upp er sett. Það er reynslan, að þar sem menn hafa farið offari og einkavætt veituþjónustu eða almannaþjónustu af þessu tagi hefur reynslan orðið mjög blendin og víða mjög slæm. Í fyrsta lagi má einfaldlega sjá það af þeim mælikvarða að menn neyðast yfirleitt til þess að taka á sig miklar hækkanir á verði. Þegar frá líður koma aðrir hlutir til sögunnar eins og græðgin, sem oft er fylgifiskur þessara breytinga hjá þeim sem hafa nýlega keypt til sín úr opinberri eigu veitufyrirtæki af þessu tagi. Þeim liggur svo á að ná hagnaði, ná fjárfestingu sinni til baka og rúmlega það, að þeir sjást yfirleitt ekki fyrir og stytta sér leið í sambandi við það að halda innviðunum við, að endurnýja og fjárfesta til þess að ná fullnægjandi öryggi í kerfinu.

Frægast er nú sennilega dæmið frá Skandinavíu, þegar mönnum lá svo mikið á að græða eftir að búið var að markaðsvæða raforkumarkaðinn þar, er menn gáfu sér ekki tíma til að fylla uppistöðulónin. Mönnum lá svo mikið á að selja rafmagn suður til Evrópu til að græða peninga að þeir máttu ekki vera að því að vorleysingar og sumarregnið fyllti uppistöðulónin. Þeir lögðu upp með þau hálftóm þegar kom fram á vetur. Afleiðingin varð auðvitað orkuskortur og gríðarlegar hækkanir þegar kuldaköst komu um hávetur. Þannig tvöfaldaðist, þrefaldaðist eða fjórfaldaðist allt í einu raforkuverð í Skandinavíu á lausamarkaðnum vegna orkuskorts, af því menn voru á sama tíma bundnir af samningum um að afhenda orku suður á bóginn.

Rafmagnsleysið á austurströnd Bandaríkjanna, hörmungarnar í Kaliforníu, rafmagnsleysið á Kaupmannahafnarsvæðinu, þetta þekkja menn frá nýliðnum missirum og hinar óhemjulegu verðhækkanir á Norðurlöndum. Þannig mætti áfram telja. Eru menn eitthvað að velta þessu fyrir sér hér? Hafa stjórnarliðar komið með einhver málefnaleg rök og farið yfir það hvernig menn ætluðu að reyna að læra af þessum mistökum og koma í veg fyrir að þau endurtækju sig? Nei, það er ekki einu sinni rætt. Það þarf ekki að rökstyðja þetta. Þetta er bara ,,af því bara“. Þetta bara á að gerast.

Ég verð að segja eins og er, að mér finnst þetta á köflum hafa verið einhver aumlegasti málflutningur sem ég hef lengi heyrt. Menn hafi ekki einu sinni borið það við að eiga um þetta sæmilega rökfastar og málefnalegar umræður. Hver eru rökin fyrir því að gera t.d. það sem nú á að leggja ofan á markaðsvæðinguna frá því fyrir áramótin, þ.e. að bæta því við að að skattleggja orkugeirann? Hvað er orkugeirinn hér? Hann er að uppistöðu nánast algerlega opinber fyrirtæki, fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga. Í raun ákveður ríkið að fara að borga sjálfu sér skatt. Þar verður að vísu einhver tilfærsla frá sveitarfélögum til ríkis, að svo miklu leyti sem þessi skattur verður einhvern tímann greiddur. En það er nánast hlálegt þegar menn, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson gerði, færa það fram sem meginröksemdir fyrir þessu að það sé svo ósanngjarnt að einkaaðilar verði að borga skatt en ekki hið opinbera. Bíddu, er það eitthvert vandamál? Er ekki hægt að fara í hina áttina eins og bent hefur verið á? Jú, það hélt ég nú. Auk þess væri hægt að fara margar millileiðir í þessum efnum. Það væri t.d. hægt að hugsa sér að hafa skatta á samkeppnisþáttunum en undanskilja áfram hitt. Hér eru margar leiðir færar hér. En ríkisstjórnin velur þá einföldustu, þá hráustu, þá ódýrustu, að skella þessu öllu saman undir skatt.

Ætli það sé ekki nóg sem orðið er í raforkuverðshækkunum nú þegar út af þessu brölti og eru þó ekki öll kurl komin til grafar. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að raforkuverðið í landinu á eftir að hækka verulega að raungildi á næstu árum vegna hækkaðrar arðsemiskröfu sem er innbyggð í kerfið. Menn eru bara komnir hálfa leið núna og þykir þó nóg um. Að vísu er farið í alls konar skógarferðir og leiðangra til þess að reyna að drepa því á dreif að rafmagnsverðið hafi hækkað með breytingunum um síðustu áramót. En ég held að almenningur verði ekki blekktur í þeim efnum, rafmagnsreikningarnir tala sínu máli. Ég hef ekki enn þá séð einn einasta reikning þar sem einhver umtalsverð lækkun er á ferðinni. Ég sá á einum stað að menn töldu sig vera að fá kannski 5% lækkun. En ég hef séð marga seðla þar sem hækkunin er fleiri tugir prósenta, og á þeim endanum sem er hvað tilfinnanlegastur, hjá t.d. þeim sem kynda upp húsnæði á köldum svæðum í landinu, gamalt fólk sem situr eftir í stórum húsum langt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem færð hafa verið niður til þess að hafa svolítið af þessu fólki í sambandi við endurgreiðslur á raforkuverði.

Það er auðvitað undarlegt að sjá mann eins og hv. þm. Birki J. Jónsson koma hér og bera sig svona vel. Ég tala ekki um ef hann er veikur ofan í kaupið, að hann skuli hafa orku í að koma hér svona glaðbeittur og hnarreistur og vera svona ánægður með þetta allt saman. Ég hélt að það væri meira bein í nefinu á framsóknarmönnum, þá á ég við fyrrum framsóknarmenn og stuðningsmenn úti um landið, að þeir hefðu látið sína menn hafa það og látið sína menn heyra það. Mér var a.m.k. sagt að það hefðu þeir gert í Eyjafjarðarsveit, það hefðu einhverjir framsóknarmenn verið að þvælast þar, og þeir hefðu fengið að heyra að það væri ekki almenn ánægja þar á bæ með raforkureikningana sem frú Valgerður, hæstv. iðnaðarráðherra, væri að senda inn um lúgurnar þessa dagana.

En Framsókn er svona ofboðslega ánægð með þetta, hún er svona hrifin af þessu, hún er svona stolt af þessu, að taka þessa almannaþjónustu, sem svo hefur verið skilgreind alveg fram undir síðustu ár, og færa hana yfir í einkagróðaviðskiptaumhverfið, gera þetta sem sagt að bisness. Í staðinn fyrir þjónustu kemur bisness. Markmiðið verður ekki fyrst og fremst að veita þjónustuna, ekki að njóta arðsins af því að almennir notendur, almenningur og iðnaður t.d., fái þjónustuna á góðu verði, hafi aðgang að henni. Nei. Það er arðurinn til eigendanna, til fjármagnsins sem er bundið í fjárfestingunni sem nú skiptir sköpum.

Er þetta ekki flokkurinn sem sagði einhvern tíma: Fólk í fyrirrúmi? Er það ekki rétt munað. (Gripið fram í.) Já. Það þarf greinilega að fara að hugsa þetta eitthvað upp á nýtt. Er það ekki „fjármagn í fyrirrúmi“ sem ræður og væri réttnefni þegar hlutirnir eru svona hugsaðir? Að þetta sé orðinn gróðavegur þar sem fyrsta boðorð er að skila eigendunum arði. Ég hefði haldið það.

Svo er sagt að þetta sé gert til samræmis. Ég þykist hafa heyrt það rétt í dag að formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir J. Jónsson, talaði sérstaklega um samræmisrökin. Það væri ósanngjarnt að einkaaðilar þyrftu kannski að borga þennan skatt ef opinber orkufyrirtæki gerðu það ekki. Þannig er auðvitað hægt að feta sig áfram þessa slóð. Ef menn ákveða fyrst hvert þeir ætla að fara er enginn vandi auðvitað að búa sér til slík rök. Maður tekur eitt skref og segir svo: Heyrðu, það kallar á það næsta. Heyrðu, við ákváðum að markaðsvæða þetta og þá verðum við auðvitað líka að setja þetta undir skatt.

Við skulum velta fyrir okkur hversu langt menn ætla að fara með þá röksemdafærslu. Það er ákaflega fróðlegt að velta því fyrir sér. Er það þá þannig að á einhverju því sviði sem hefur verið skilgreint sem þjónusta og þar sem veitendurnir eru opinberir aðilar, að um leið og einhver einkarekstur hefur þar göngu sína komi samræmisrökin. Heyrðu, þetta er svo ósanngjarnt. Nú verðum við að setja þetta út yfir hina opinberu þjónustuveitendur líka.

Við getum notað þau rök til þess að segja: Heyrðu, við verðum að taka upp skatta í heilbrigðiskerfinu. Það er kominn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Það eru hér sjálfstætt starfandi sérfræðingar, það eru hérna litlar skurðstofur úti í bæ. Þetta er rekið sem einkahlutafélög. Þau eru lögaðilar og skattaðilar. Bíddu, þetta er ósanngjarnt. Landspítalinn verður að fara að borga skatt.

Hvar ætla menn að stöðva sig af? Hafa framsóknarmenn hugsað þetta alveg til enda? Eru þeir alveg vissir um að þetta sé rétta leiðin og ætla þeir að fara alla leið? Það er alveg ótrúlegt að heyra málflutning af því tagi sem ég hlustaði á í dag úr munni hv. þm. Birkis J. Jónssonar, vegna þess að þetta var hreinn, ómengaður, tær frjálshyggjuboðskapur, þetta var hrein, ómenguð, tær hægri röksemdafærsla. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er þeirrar skoðunar í hjarta sínu, en hann hefur alla vega sótt rökin þangað, það er á hreinu. Kannski er það bara þannig að að sumu leyti. — Ég held reyndar að Framsóknarflokkurinn sé orðinn mesti markaðshyggjuflokkurinn á Íslandi, ég held það. Þá er það bara allt í fína lagi. En það er eins gott að það liggi fyrir og það er eins gott að sá flokkur komist ekki upp með neitt múður og eitthvert tal um fólk í fyrirrúmi ef hann er í raun orðinn helsti hagsmunagæsluaðili og helsti baráttumaður fyrir hreinum, ómenguðum nýfrjálshyggjumarkaði í landinu. Þannig verðum við auðvitað að lesa í hlutina þegar við sjáum að þetta er sá flokkur sem drífur núna áfram einkavæðinguna og er svona glaðbeittur og sáttur við að leggja hvert sviðið á fætur öðru undir.

Hvað er næst á dagskrá, hvað er nú í farvatninu? Það er einkavæðing fjarskiptanna í landinu, almannaþjónustu sem lýtur lögmálum náttúrulegrar einokunar, markaðsráðandi risi sem á grunnnet fjarskiptanna í landinu, Síminn. Er ekki Framsókn alveg jafnhamingjusöm og glöð yfir því að markaðsvæða þetta og setja þær aðstæður í hendur á einkaaðilum að geta skammtað sér alveg óheyrilegan gróða ef mönnum sýnist svo í ljósi þeirrar nánast einokunaraðstöðu sem Síminn auðvitað hefur og kemur til með að hafa um mörg ókomin ár, hvernig sem þróunin verður á fjarskiptamarkaði?

Það er gott að línur séu skýrar í pólitíkinni, um það erum við sammála, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson. (Gripið fram í.) Það er gott að línur séu skýrar í pólitíkinni (Gripið fram í: Við erum sammála um miklu meira en það …) Þess vegna er fínt að Framsóknarflokkurinn hætti að villa á sér heimildir, það er fínt að Framsóknarflokkurinn komi út úr skápnum, (Gripið fram í.) það er fínt að það liggi fyrir að Framsóknarflokkurinn er orðinn mesti hægri flokkur á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er bara þannig. (Gripið fram í.)

Fyrr í umræðunni var vitnað um það að hægri stjórnmálamaður frá Kaliforníu, það voru hér á ferð þingmenn og þar á meðal repúblikani frá Kaliforníu, var langt til vinstri miðað við Framsókn þegar kom að umræðum um einkavæðingu í orkumálum. Hann og orkumálastjóri Kaliforníu báðu Íslendinga þess lengstra orða að fara ekki út í sama fen og þeir hefðu lent í með orkumálin og gæta að sér. (Gripið fram í: Hvað með Samfylkinguna?) Samfylkingin er mjög að þroskast í þessum efnum og komast til réttrar áttar, (Gripið fram í.) það er auðheyrt þó ekki væri nema af frammíköllum sem hér eru.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að víkja að efnisáhrifum frumvarpsins eftir því sem þau verða. Eitt sem hefur verið svolítið kostulegt í umræðunni er að hv. málsvari stjórnarflokkanna hér, sérstaklega Framsóknarflokksins, formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir J. Jónsson, endurtók speki, sem vissulega er rétt að kom fram í umfjöllun iðnaðarnefndar, að það væri með öllu óvíst að stóru orkufyrirtækin, sem auðvitað eru 99% af því sem við tölum um, kæmu til með að borga neina skatta næstu sjö til jafnvel tíu árin. Það er af augljósum ástæðum, ástæðum sem allir sjá. Þau fyrirtæki eru að ráðast í gríðarlegar fjárfestingar um þessar mundir, a.m.k. stóru risarnir þrír. Við vitum líka, þó að um það séu kannski eitthvað deildar meiningar, að arðsemi þeirra fjárfestinga er ákaflega tvísýn. Sérstaklega á það auðvitað við um aumingja Landsvirkjun og Kárahnjúkana.

Þá kemur upp athyglisverður flötur í málinu, sem reyndar hv. þm. Jón Bjarnason nefndi líka: Hver verða raunveruleg áhrif af lagasetningunni nú ef fyrirtækin verða hvort sem er ekki með afkomu næstu árin sem þýða ekki neinar skattgreiðslur? Verða þau kannski fyrst og fremst að safna upp tapi? Gæti það farið svo ef Landsvirkjun býr við gríðarlegt bókhaldslegt tap næstu tvö, þrjú, fjögur, fimm, sex árin — sem mér segir því miður hugur um að kunni að verða — að þá geri hún ekki annað en að safna upp gríðarlega miklu tapi? (Gripið fram í.) Hún hefur nógar afskriftir þó að afkoman væri í sæmilegu lagi. En ef það bætast við neikvæðir fjármagnsliðir í stórum stíl á næstu missirum vegna gengisbreytinga, svo ég tali ekki um, frú forseti, ef álverið lækkaði líka færi að harðna á dalnum.

En þó að ekkert gerist nema líklegar gengisbreytingar er alveg ljóst að útkoman getur orðið gríðarlegt bókhaldslegt tap hjá Landsvirkjun. Verða þá kannski áhrifin af þessu fyrst og fremst þau að mynda innstæður til frádráttar frá mögulegum skattgreiðslum í framtíðinni hjá þessum fyrirtækjum, þegar eða ef afkoma þeirra batnar síðan og þau fara að skila hagnaði? Hverjir eru þá að taka byrðarnar á sig? Það eru skattgreiðendur, því að tímasetningin skiptir auðvitað máli hér. Ef það er alveg fyrirsjáanlegt að fram undan er langt taptímabil hjá stóru orkufyrirtækjunum vegna afskrifta, ég tala ekki um ef við bætist óhagstæð þróun ytri skilyrða eins og þeirra að fjármagnsliðir verði neikvæðir á næstu árum, þá myndast innstæður sem skattgreiðendur í landinu fá á sínar herðar, því að þá skila sér ekki til samneyslunnar þær skattgreiðslur af fyrirtækjunum sem ella hefðu átt að gera þegar þau fara að hafa afkomu.

Er kannski tilgangurinn sá? Getur verið að einhverjir séu jafnvel að hugsa um að Landsvirkjun verði söluvara, hún verði fremur solvent og söluvara árið 2010, ef hún á þá uppsafnaða 15 milljarða eða eitthvað, segjum x, í frádráttarbært tap frá skattgreiðslum? Nú man ég ekki nákvæmlega hvernig fyrningarreglurnar á þessu eru í augnablikinu í lögum um tekju- og eignarskatt, en það er fljótlegt að fletta því upp. Þær hafa verið rýmkaðar á undanförnum árum, a.m.k. hvað tímamörk og því um líkt varðar, þó að skilyrðin hafi verið þrengd sem upphaflega giltu um að menn máttu valsa um með uppsafnað tap á milli fyrirtækja óháð því í hvaða atvinnurekstri þau voru. Tekið var á því smátt og smátt og frægast var auðvitað þegar tekið var á því rétt eftir að framsóknarmenn seldu tap Tímans yfir í annað fyrirtæki rétt fyrir áramótin áður en þetta breyttist. Það væri fróðlegt fyrir hv. þm. Birki J. Jónsson að kynna sér þá sögu til dæmis, af því að hann er svo ánægður með flokkinn sinn og telur hann alltaf hafa hreinan skjöld.

Verði áhrifin einhver verða þau auðvitað í þá átt að tilfærsla verður á tekjum frá sveitarfélögum til ríkis vegna eignasamsetningar fyrirtækjanna og hún er ekki líkleg til að breytast í verulegum mæli á allra næstu árum, það er bara veruleikinn. Það er ósköp einfaldlega þannig að fæst fyrirtækjanna eru þannig stödd að það væri engin minnsta glóra í því að reyna að fara að breyta eignasamsetningu þeirra eða selja þau. Auðvitað getur ríkið verslað við sveitarfélögin um hlut þeirra í Landsvirkjun ef svo bæri undir, en ég hef enga trú á því að Landsvirkjun verði t.d. einkavædd næstu sjö til tíu árin eins og búið er að búa í haginn í því fyrirtæki nú um stundir.

Það langalvarlegasta í sambandi við skattlagninguna og gerir það að verkum að ég hef þurft að klípa mig í handlegginn til að taka þetta alvarlega er auðvitað sú staða sem blasir við hverjum heilvita manni, að einu greiðendurnir, einu þolendurnir í þessu tilviki sem geta orðið eru hinir almennu viðskiptavinir raforkufyrirtækjanna, þ.e. almenni markaðurinn sem stefnir í að verða ekki nema um 20% mælt í orkukaupum í fyrirsjáanlegri framtíð, jafnvel minna. Þetta liggur náttúrlega í því að fyrirtækin eru búin að gera samninga um orkusölu til stóriðju á frægum útsöluverðum, það er hlegið að því úti um alla Evrópu. Norðmenn ætla ekki að ná sér niður þegar þeir heyra hvert verðið til stóriðju á Íslandi er í dag. Það er rétt um þriðjungur af verðinu í Noregi og þar liggur verðið fyrir. Það dytti náttúrlega engum manni í hug á norska Stórþinginu að láta bjóða sér að þau spil væru ekki uppi á borðum. Það er vitað að viðmiðunarverð í slíkum samningum í Noregi í dag og endurnýjun slíkra samninga er yfir 30 aurar norskir á kwst. Það dettur engum minna í hug. Við erum því að tala um u.þ.b. þriðjunginn af því sem viðgengst í Evrópu og innan við helming af því sem er í Bandaríkjunum í þessum verðum. Og þetta er fast, þessu verður ekki hnikað næstu 15, 20, 25 árin, alveg upp undir 30 ár held ég að lengsti samningurinn sem sé í gildi sé núna. Kannski eru í honum endurskoðunarákvæði eftir eitthvað styttri tíma, en ramminn er sem sagt sá að búið er að semja 25 og allt upp í 40 ár fram í tímann um útsöluprísana miðað við heimsmarkaðsverð á áli og það eru engar skattgreiðslur reiknaðar inn í það dæmi, engar. Glænýir samningar á Hellisheiðinni og í Svartsengi taka ekki mið af og reikna ekki með neinum skattgreiðslum.

Hver er þá niðurstaðan? Að svo miklu leyti sem skattana kemur til með að þurfa að greiða á komandi árum lendir það á herðum almenna notendamarkaðarins af því að stóriðjan er undanskilin. Þetta er bara veruleikinn, þeim staðreyndum verður ekki hnikað. Ég bið hv. þm. Birki J. Jónsson að koma og reyna það. Veri hann velkominn. Nei, ætli það megi ekki taka mark á t.d. umsögnum Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja en bæði fyrirtækin hamra sérstaklega á þessu.

Orkuveita Reykjavíkur segir, með leyfi forseta:

„Orkuveita Reykjavíkur er með samninga um orkusölu til stóriðju sem gilda í 20 ár. Samningar þessir hafa verið gerðir fyrir hvatningu ríkisins og engir fyrirvarar af þess hálfu um að gera þurfi ráð fyrir skattlagningu til framtíðar.“

Ríkið er að hvetja fyrirtækin til að fara út í þessi viðskipti og setur enga fyrirvara af sinni hálfu um að fyrirtækin megi búast við breyttu umhverfi. Svo koma menn bara og segja: Ja, samræmisins vegna þarf að setja þetta undir skatt. Það eru rökin, dugar. Það á reyndar að ganga býsna langt í þessum efnum eins og kunnugt er því að það á að leggja skattskylduna á orkufyrirtæki í víðri merkingu, þ.e. þetta á að taka bæði til afhendingar á raforku og heitu vatni.

Það er hlálegt að skoða þetta í samhengi. Ég heyrði hæstv. forsætisráðherra í sjónvarpsfréttum þar sem haft var eftir honum á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í dag. Þar var forsætisráðherra að tala um eftirlegukindur í skattamálum eins og stimpilgjald. Missti hv. þm. Birkir J. Jónsson af leiðtoga sínum í dag þar sem hann var að tala um eftirlegukindurnar í skattkerfinu sem ætti eftir að hreinsa út, eins og stimpilgjald? Hvað segir í athugasemdum við frumvarpið sem hv. þingmaður er svona ánægður með?

Þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu felst að undanþága framangreindra fyrirtækja frá greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarfélaga fellur niður, þ.m.t. greiðsla stimpilgjalds.“

Auðvitað verður að hafa það með. Auðvitað eiga orkufyrirtækin að fara að greiða stimpilgjaldið, skárra væri það, nema hvað? Stimpilgjaldið, þennan fína skatt sem hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson var að tala um í dag. Ekki er því alltaf mikið samræmi í hlutunum, satt best að segja.

Það er tiltölulega auðvelt að sýna fram á þetta, að því miður eru vegna þeirra innbyggðu skekkja — ég vil kalla það meinsemda — sem eru í orkubúskap okkar Íslendinga, sem væri tilefni til að fara í rækilegar rannsóknir á, eru auðvitað alveg háskalegar veilur innbyggðar í kerfið. Hætturnar sem uppbyggingunni eru samfara, eins og því miður var lagt upp með þetta og menn hafa haldið áfram, eru alltaf að aukast vegna þess að þetta er í einum potti. Það á jafnvel að reyna að súrra þetta enn rækilegar saman og koma þessu enn rækilegar á herðar almennings með áformunum sem nú eru fram undan um að sameina Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða í Landsvirkjun. Það er náttúrlega rosalegasta smiðshöggið sem Framsókn ætlar að reka á málið.

Hvað er þar á ferðum? Jú, það er það á ferðum að það á að krækja sér í eigið fé Rariks og Orkubús Vestfjarða og aðganginn að almenna markaðnum sem á bak við fyrirtækin liggur til þess að draga það inn í púllíuna, til þess að hafa það undir líka til að bera herkostnaðinn af lágu verðunum til stóriðjunnar. Þá fyrst er þetta orðið almennilega fullkomnað þegar hægt er að leggja notendamarkaðinn allan eins og hann leggur sig undir í þessu samhengi. Þá verður almenningur fyrst kominn rækilega með þetta á herðarnar og þar með taldir Vestfirðingar, sem nutu þess fram undir síðustu missiri að vera með um 10% lægra raforkuverð en önnur svæði landsins eða Rarik-svæðin, vegna þess að þeir voru nokkuð sjálfstæðir í þessum málum. Þeir þurftu ekki að niðurgreiða ofan í aðra aðila. Og ekki stærri markaður en Vestfirðir með þeim rekstrarkostnaði sem því hlýtur að vera samfara að dreifa orku á slíku svæði og ekki nema með um 40–50% eigin framleiðslu voru samt að ná þessum árangri. Það segir sína sögu.

Fyrirtækið er prýðilega rekið og hefði í fyllingu tímans skilað eigendum sínum vaxandi arði ef menn hefðu ekki verið þeir aumingjar að láta taka það upp í skuldir sveitarfélaganna til að halda þeim á floti og fleyta þeim áfram nokkur ár í viðbót, illa stöddum sveitarfélögum á Vestfjörðum vegna vanda sem spratt af allt öðrum ástæðum, vegna byrða út af félagslegu húsnæði og öðru slíku. Yfirgengileg ráðstöfun. Hvers eiga raforkunotendur á Vestfjörðum að gjalda að þurfa nú að fá á sínar herðar byrðarnar af þessu líka? Hækkanirnar vegna markaðsvæðingar, hækkanir á komandi árum vegna hærri arðsemiskröfu og hækkanir ofan á allt saman vegna þess að nú á að fara að skattleggja orkugeirann. Það er ljóta útreiðin og þetta verður fullkomnað ef Framsókn fær vilja sínum framgengt þegar sameining fyrirtækjanna Landsvirkjunar, Rariks og Orkubús Vestfjarða verður að veruleika. Ég vil enn þá fá að segja „ef“, frú forseti. Ég á eftir að sjá kappana, þingmenn Norðvesturkjördæmis leggjast svo endanlega flata og biðjast afsökunar á tilveru sinni, þá sem tilheyra stjórnarliðinu, að þeir láti það í viðbót við allt annað yfir sig ganga.

Frú forseti. Það fyrirtæki sem mestu máli skiptir í þessu er fyrirtækið Landsvirkjun. Ég er með alveg glænýja ársskýrslu þess fyrirtækis í höndunum, ákaflega fallegt rit. Ég verð að vísu að játa að það er með talsvert öðrum blæ en undanfarin ár vegna þess að a.m.k. síðasta ár og ég held ein tvö, þrjú síðustu ár hefur ársskýrsla Landsvirkjunar verið eins og kynningarrit frá Þjóðminjasafninu. Þá var Landsvirkjun svo mikið í mun að sýna gæsku sína, gjafmildi og velvilja í garð menningar og mannlífs í landinu, þar á meðal stuðning sinn við Þjóðminjasafnið, að þetta var miklu líkara einhverju kynningarrit frá Þjóðminjasafninu en ársreikningi frá Landsvirkjun. Nú er þetta hins vegar skreytt ákaflega fallegum og skemmtilegum vatnslitateikningum sem gefa þessu glaðvært yfirbragð og það er vel.

Það er ástæða til að staldra aðeins við og velta vöngum yfir stöðu þessa risafyrirtækis okkar í orkumálum ef við erum að spá í það hvaða horfur eru í þessum efnum hvað varðar afkomu á komandi árum og hvaða áhrif þetta er líklegt til að hafa. Ekki er gögn um það að sækja í frumvarpið eða fylgiskjöl með því eða nefndarálit meiri hlutans. Nei, frú forseti, því er ekki að heilsa.

Þvert á mótir segir í umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um málið, með leyfi forseta:

„Frumvarpið snýr að tekjuhlið ríkissjóðs en afar erfitt er að áætla hvaða tekjum þessi skattlagning muni skila.“ — Þetta er nokkuð vel að orði komist — „Reikningsskil orkufyrirtækja hafa á ýmsan hátt verið á annan veg en tíðkast í skattskilum almennra fyrirtækja, sérstaklega varðandi eignamat og fyrningar. Samræmd gögn um skattalegt uppgjör fyrir orkufyrirtækin liggja því ekki fyrir. Auk þess gerir frumvarpið ráð fyrir að fram fari skattalegt endurmat á mannvirkjum og öðrum eignum sem mun hafa veruleg áhrif á skattalega niðurstöðu þessara fyrirtækja. “

Þó segir:

„Varla er hægt að reikna með verulegum tekjuskatti frá fyrirtækjum í þessum geira í næstu framtíð ef tekið er mið af afkomu þeirra um langt árabil. Skuldsett orkufyrirtæki sem leggja í mikinn tilkostnað við fjárfestingar á komandi árum samhliða hægfara vexti í tekjustreymi munu væntanlega ekki greiða tekjuskatt um hríð heldur mynda yfirfæranlegt rekstrartap.“

Ja-há. Það er þá sem sagt rétt. Spáin er í raun upp á það að einu áhrifin af þessu þegar kemur að stóru aðilunum fyrst um sinn verði að mynda yfirfæranlegt rekstrartap. Eru þá refirnir skornir til þess? Er þetta kannski þegar allt kemur til alls ekki búhnykkur fyrir ríkissjóð? Er þetta björgunarleiðangur, er það kannski veruleikinn? Það er kannski þörf á. Hvernig ætli málin standi hjá Landsvirkjun með fjárfestingarnar við Kárahnjúka? Hvað ætli milljarðarnir séu margir sem hafa bæst við vegna þeirra aðstæðna sem þar hafa komið upp, vegna þess hversu hroðvirknislega menn stóðu að undirbúningi og hönnun mannvirkja, vegna þess að menn gerðu ekkert með aðvaranir og varnaðarorð um jarðfræðilegar aðstæður í stíflubotninum og fleira í þeim dúr? Víst er að þar eru milljarðar á ferðum.

Það er reyndar fleira, frú forseti, sem gefur manni tilefni til þess að staldra við og velta fyrir sér stöðu fyrirtækisins. Það er skaði að hæstv. iðnaðarráðherra, frú Valgerður Sverrisdóttir, eða hæstv. fjármálaráðherra, sem mætti gjarnan vera við umræðuna, séu ekki einhvers staðar nærri. Ég velti því fyrir mér: Hafa hæstv. ráðherrar rýnt í ársreikninga Landsvirkjunar? Hafa þingmenn gert það? Hafa menn lesið það sem þar kemur fram ef menn vanda sig og reyna að skilja það sem þar er verið að segja? Jú, jú, það er myndarlegur bókhaldslegur hagnaður á árinu, hann er drjúgur, upp á 7 milljarða. En hvað gerist þegar rekstrarhliðin er skoðuð? Handbært fé frá rekstri minnkar um milljarð milli ára. Það er á niðurleið. Bíddu, það geta varla verið góðar fréttir. Það er skammgóður vermir að skila jákvæðum fjármagnsliðum þegar hinar eiginlegu mælieiningar sem segja til um hvað er að koma út úr rekstrinum eru allar í hina áttina. Hvernig verður útkoman miðað við þetta ef fjármagnsliðirnir snúast við? Það er það sem ræður fyrst og fremst hinni bókhaldslegu niðurstöðu hjá fyrirtækinu eins og við sjáum á því að þó að rekstrarhagnaður sé svipaður milli ára hjá samstæðunni 2004 og 2003 upp á 3,5 milljarða er hagnaðurinn eitt árið 1,5 milljarðar en á áttunda milljarð hið næsta, af því að fjármagnsliðir stökkva upp úr 1,2 milljörðum upp í 6,7 milljarða.

En það eru aðrir og enn alvarlegri hlutir, frú forseti, sem ég staldra við þegar ég fletti þessum ársreikningum og ég fer að spyrja mig að því: Bíddu, er eitthvað mikið að, er eitthvað verulega mikið að í þessu fyrirtæki? Hafa menn skoðað bls. 19 í ársreikningum Landsvirkjunar? Hafa menn skoðað það sem þar er sagt um útkomuna á afleiðusamningum fyrirtækisins? Það er ástæða til að gera það. Þetta eru opinber gögn sem liggja fyrir á prenti þannig að það er ekki úr vegi að ræða það í þessu samhengi.

Ég verð að segja alveg eins og er að maður er steini lostinn, trúir varla sínum eigin augum þegar maður les þetta. Þar er nú rætt um að Landsvirkjun, eins og önnur móðins og flott fyrirtæki, geri afleiðusamninga. Það er mikil íþrótt, sérstaklega hjá nýlega útskrifuðum viðskiptafræðingum, svokölluð áhættustýring og afleiðusamningar. Þessir afleiðusamningar eru gerðir vegna þeirra áhættuþátta í rekstri Landsvirkjunar sem eru fyrirferðarmestir. Hverjir eru þeir? Þeir eru vaxtakostnaður eða vaxtabreytingar, það eru gengisbreytingar eða gengisáhætta og það eru breytingar á álverði.

Það kemur í ljós að Landsvirkjun er með afleiðusamninga, er með áhættustýringu og reynir að verja sig, eða þannig er það a.m.k. fram sett á yfirborðinu, gagnvart öllum þessum áhættuþáttum, og það sem reyndar meira er, það er ekki bara í því skyni að draga úr áhættunni sem þessar aðferðir eru notaðar. Það er sem sagt unnið með afleiður hjá fyrirtækinu Landsvirkjun, annars vegar vegna áhættustýringarinnar, þetta sem ég fór yfir áðan, og hins vegar í svokölluðum markaðsviðskiptum sem stunduð eru í hagnaðarskyni, segir hér á bls. 29 í útskýringum við tölulið 17 í ársreikningum Landsvirkjunar.

Hvað er verið að segja þarna? Landsvirkjun er farin að stunda hrein markaðsviðskipti, brask, til þess að reyna að græða á þeim, til hliðar við rekstur fyrirtækisins, til hliðar við það að reyna að verja sig vegna eigin áhættuþátta fyrir áföllum. Það er ekki hægt að lesa annað út úr þessu. Ég spyr: Hvar stendur það í lögum um þetta opinbera fyrirtæki að það eigi að stunda slíka starfsemi? Eru þeir farnir að keppa við fjárfestingarsjóði eða aðra slíka sem eru að leika sér í þessum efnum? Það má spyrja að því. Og hver er þá útkoman?

Það kemur í ljós að þessir samningar sem fyrirtækið hefur gert og er þó dálítið erfitt að lesa saman annars vegar skýringarnar í ársreikningnum sjálfum og hins vegar í einstökum töluliðum, að neikvætt gangvirði þessara afleiðusamninga er í fyrsta lagi neikvætt upp á 2,5 milljarða kr. í árslok 2004 hvað varðar sölutekjur fyrirtækisins. Það þýðir væntanlega á mannamáli að afleiðusamningarnir sem áttu að verja fyrirtækið fyrir miklum sveiflum í álverði hafa kostað fyrirtækið 2,5 milljarða í tekjutapi. Landsvirkjun hefði fengið 2,5 milljörðum meira í tekjur ef þessir samningar hefðu ekki verið fyrir hendi, ef þeim hefði bara verið sleppt. Þannig les ég út úr þessu. En það er ekki bara að menn hafi tapað á þessu því að gangvirði annarra afleiðusamninga í árslok 2004 er líka neikvætt um 340 millj. kr. og þar af námu vaxtaskiptasamningarnir 295 millj. kr. í tap og gjaldmiðlaskiptasamningar og framvirkir samningar um kaup og sölu á gjaldeyri voru neikvæðir um 45 milljónir. Ef maður tekur þessar tölur saman hefur Landsvirkjun tapað þarna 2.840 milljónum, eins og þetta stendur í árslok 2004, á þessum æfingum. Það munar um minna. Það eru engir smáaurar. Einhvern tíma verður það að borgast með einum eða öðrum hætti. Það lendir á einhverjum að lokum.

Þegar farið er í útskýringar við einstaka töluliði hér aftar segir um afleiðuviðskipti að hagnaður eða tap af afleiðusamningnum sé fært í rekstrarreikning. Afleiðusamningar sem notaðir eru til að verja framtíðarviðskipti eru færðir í ársreikninginn á sama tímabili og viðskiptin sem varin eru. Síðan að yfirlit um þessa opnu afleiðusamninga og gangvirði þeirra sé að finna í skýringum nr. 17.

Förum þá í skýringar nr. 17 undir liðnum áhættustýring. Þar kemur fram að Landsvirkjun er að baksa með þetta hvort tveggja, áhættustýringu vegna viðskipta sinna og hins vegar svokölluð markaðsviðskipti. Útkoman er sem sagt sú, þegar þetta er allt saman skoðað, og vitna ég þá beint í útskýringarnar í tölulið 17 á bls. 29 og 30, að í fyrsta lagi segir hér um gjaldmiðlaskiptasamninga að þeir hafi verið gerðir vegna langtímaskulda og sé gangvirðið neikvætt um 287 millj. kr. en bókfærð hrein skuld vegna sömu samninga 278 milljónir. Það munar ekki miklu hvor talan er tekin.

Í öðru lagi segir að vaxtaskiptasamningar hafi verið gerðir og að þeir séu einkum hugsaðir til þess að hverfa frá breytilegum vöxtum í fasta vexti. Hvernig er útkoman þar? Gangvirði þessara samninga er neikvætt um 295 millj. kr. í lok ársins 2004.

Síðan hafa verið gerðir framvirkir samningar um kaup og sölu á gjaldeyri og þar er gangvirðið neikvætt um 36 millj. kr. Og loks, samningar um álverð til þess að verja sölutekjur hafa verið gerðir og er óinnleyst gangvirði þeirra neikvætt um 2.500 millj. kr., 40 milljónir bandaríkjadala í árslok 2004.

Ef maður leggur þessar tölur saman, sem ég skal að vísu taka fram að ég veit ekki hvort er heimilt að gera eins og þær eru settar upp hér samkvæmt orðanna hljóðan í þessum útskýringum en það er erfitt að ráða annað, þá er þessi tala ekki 2.840 milljónir heldur 3.118 milljónir sem þetta stendur neikvætt nú um áramótin í bókhaldi Landsvirkjunar.

Þá fer maður að velta fyrir sér hvað sé á ferðinni. Hverjir báru ábyrgð á þessum gerningum? Hvað er verið að gera inni í þessu fyrirtæki? Ég fer að velta því fyrir mér oftar og oftar eftir því sem fleira og fleira af þessu tagi kemur fram, hvort sem það varðar frammistöðu Landsvirkjunar og sérfræðinga hennar varðandi undirbúning og hönnun mannvirkjanna við Kárahnjúka eða þessar æfingar sem birtast okkur úr rekstri fyrirtækisins í ársreikningunum. Er eitthvað mikið að á þessum bæ? Er eitthvað mjög mikið að?

Nú minnist ég þess ekki að hafa heyrt einhverja stjórnendur, hvorki háttsetta né millisetta stjórnendur, láta af störfum þarna vegna axarskafta eða reginmistaka í starfi. Maður hefði nú látið það hvarfla að sér að einhver hefði orðið að axla svolitla ábyrgð ef útkoman er virkilega sú að upphæð einhvers staðar á stærðargráðunni 2,85 til 3,1 milljarður kr. hefði tapast í þessum æfingum, og algjörlega sýnd veiði en ekki gefin að nokkuð af því náist til baka. Það er auðvitað hægt að hugsa sér það að einhvern tíma skili samningarnir einhverju til baka þegar þróunin snýst við sem þeir áttu að glíma við, en það er lítið í hendi með það. Tímasetning og innihald þessara samninga hefur greinilega ekki verið mjög heppilegt í ljósi þess hvernig þróunin hefur verið.

Það er eins og mig minni að fyrirtækið Landsvirkjun hafi stundum fyrr verið seinheppið í æfingum sínum af þessu tagi. Einhvern tíma man ég eftir því að það kom alveg árabil þar sem Landsvirkjun tókst einhvern veginn alltaf að færa langtímaskuldir sínar á milli gjaldmiðla þannig að hún tapaði á þeim, veðjaði stanslaust á rangan hest í þeim efnum. Gott ef stjórnarformaðurinn var þó ekki jafnframt bankastjóri Seðlabankans á þeim árum. Það var rokkað á milli dollara og punda og svissneskra franka og japanskra jena og það var einhvern veginn eins og mönnum tækist alltaf að tapa á þróuninni. Það er mikið lánleysi ef þetta ætlar að fylgja fyrirtækinu um aldur og ævi og ad infinitum. (Gripið fram í.) Nei, við skulum svo sannarlega vona ekki því það er mikið í húfi, vegna þess að á bak við þetta eru engir nema raforkunotendurnir og skattgreiðendurnir í landinu. Þetta er nefnilega ekki þannig að stjórnendur Landsvirkjunar eða hæstv. iðnaðarráðherra séu að hætta sínu eigin fé í þessu dæmi. Þetta eru fjármunirnir okkar. Það er þjóðin sem skattgreiðendur og það er þjóðin sem eigendur að fyrirtækinu, allur almenningur og íbúar Reykjavíkurborgar og Akureyrar sérstaklega, og það er þjóðin sem raforkunotendur sem eru með alla áhættuna á sínum herðum. Þess vegna kemur það okkur öllum við hvernig þarna er staðið að máli. Það eru sömu aðilar sem verða þolendur gagnvart þeim breytingum sem hér er verið að innleiða.

Frú forseti. Ég sá ástæðu til að fara aðeins yfir þessa hluti og það væri auðvitað ástæða til að gera það betur. Það væri full ástæða til að skoða t.d. stöðu hinna stóru orkufyrirtækjanna með sambærilegum hætti og reyna að velta fyrir sér framtíð þeirra, a.m.k. hljótum við að láta það eftir okkur að fara ofan í saumana á því sem beinlínis er ríkisins í þessum efnum. Ríkið ætti náttúrlega að reyna að átta sig á hvaða gagn það er að gera sér með breytingum af þessu tagi áður en lengra er haldið og hvaða skynsemi og vit og glóra er í því að setja þessa skattskyldu inn einmitt núna, hvaða þörf er á því, hvaða skynsemi er í því og hvaða áhrif og afleiðingar hefur það. Þessu er öllu ósvarað.

Þó er það þannig ef maður leggst í að rýna í hlutina að þá byrjar að skýrast ákveðin mynd. Ég held að sú mynd sé að fyrst og fremst er líklegt að þetta komi til með að skapa fyrirtækjunum, og þá sérstaklega Landsvirkjun, möguleika til þess á tapárunum sem fram undan eru að byrja að safna saman því tapi og eiga það upp í mögulegar skattgreiðslur eða sem gulrót ef kæmi til einkavæðingar fyrirtækisins eftir fimm til tíu ár. Auðvitað er það atriði sem væntanlegir kaupendur kíkja á, hvort fyrirtækið á uppsafnað og geymt, gríðarlegt skattalegt frádráttarbært tap þannig að það geti orðið með myljandi gróða í nokkur ár án þess að borga þurfi af því eina einustu krónu í ríkissjóð. Það er að sjálfsögðu hlutur sem skiptir máli.

Þessar aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar njóta takmarkaðrar hylli meðal þjóðarinnar, það hefur margkomið fram. Hæstv. ríkisstjórn er hér, eins og í reyndar mörgum fleiri tilvikum á undanförnum missirum, í raun og veru að keyra sína leið. Það hefur einhvern veginn smátt og smátt þróast þannig að forkólfarnir í ríkisstjórninni eru alveg hættir að hafa af því miklar áhyggjur hvort þeir séu að ganga gegn þjóðarviljanum. Það er aukaatriði að því er virðist í þeirra máli. Maður veit ekki hvort það er vegna þess að þeir reikna ekki með að verða mjög mikið lengur í embætti og það muni ekki koma að miklum skuldadögum hjá þeim en það gerir það væntanlega hjá flokkum þeirra. Það er margt sem bendir til þess að þeir reikningar verði býsna þungir þegar þar að kemur. Skoðanakannanir sýna a.m.k. ekki neina bullandi, myljandi ánægju með frammistöðu framsóknarráðherranna um þessar mundir.

Hvernig var þetta með Íraksstríðið? Voru ekki 80–85% þjóðarinnar, endurtekið í skoðanakönnunum, algjörlega andvíg stefnu ríkisstjórnarinnar eða formanna stjórnarflokkanna? Jú, mig minnir það. Hvernig er þetta með Símann? Hafa skoðanakannanir ekki endurtekið sýnt að 60–70% þjóðarinnar eru andvíg einkavæðingunni á þeim forsendum sem ríkisstjórnin leggur upp með hana? Hvernig var það í fjölmiðlamálinu? 80% þjóðarinnar voru á móti ríkisstjórninni þar eða a.m.k. 70% Og hvernig ætli það sé í þessum málum? Ætli sé almenn ánægja og hrifning með einkavæðingarbröltið sem hefur leitt til stórhækkunar á raforkuverði og nú á að bæta skattlagningu ofan á það? Nei, ég mundi giska á að það væri svipað, að það væru kannski 20% þjóðarinnar sem bara af trúarástæðum fylgdu stjórnarherrunum í þessu. Ég þori að veðja miklu, að það er a.m.k. örugglega meiri hluti þjóðarinnar andvígur þessu. Það finnur maður hvar sem maður fer að menn eru búnir að fá meira en nóg af þessu.

Framganga ríkisstjórnarinnar og hrokinn í þessum efnum er aldeilis með hreinum ólíkindum. Svo þegar þessi mál eru rædd og menn standa frammi fyrir óvinsældum gerða sinna þá er það allt misskilningur, þá hefur þjóðin ævinlega misskilið það. Hún hefur misskilið þetta svona hrottalega. Nei, það er samt Framsókn sem hefur rétt fyrir sér. Allt hitt er misskilningur.

Þetta er eins þegar hæstv. iðnaðarráðherra er spurður út í vatnalögin og hina hörðu andstöðu, ekki bara okkar í stjórnarandstöðunni heldur flestallra umsagnaraðila um málið. Hvað segir hæstv. iðnaðarráðherra? Misskilningur. Allir hafa misskilið málið. Stjórnarandstaðan, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Bændasamtökin, veiðiréttarhafar o.s.frv. Allir saman misskilið þetta. Eini aðilinn sem hefur skilið þetta rétt er Framsókn. Þetta er alltaf svona. Þannig eru rökin og málflutningurinn.

Þetta er örugglega allt saman allsherjarmisskilningur með skattlagningu orkufyrirtækjanna, er það ekki? Hv. þm. Birkir Jón Jónsson var í fullu fjöri í dag við að útmála hve stórkostlegt þetta væri og þeir sem ekki styddu málið væru á móti atvinnulífinu. Það kom í dag, var það ekki, að þetta væri mikil blessun fyrir atvinnulífið? Það er náttúrlega gamalkunnugur frasi hjá Framsókn að ef menn styðji ekki hvaðeina sem þeir vilja og hve umdeilt sem það er þá séu hinir sömu á móti framförum. Til dæmis eru allir þeir sem ekki skrifa upp á kvótakerfi Framsóknarflokksins í sjávarútvegi vondir menn. Þeir eru á móti sjávarútveginum og á móti landsbyggðinni. Þannig setur Framsókn þetta upp. Ef þjóðin er eitthvað að nöldra þá hefur hún misskilið þetta.

Ég ætla að vona að þjóðin haldi áfram að misskilja þetta, sérstaklega í næstu kosningum. Þá ætla ég að vona að þjóðin misskilji þetta alveg í botn hvað Framsókn snertir og láta hana finna til tevatnsins, hún á ekkert annað skilið.

Ég tel, frú forseti, að þetta stappi nærri því að geta kallast skemmdarverk, skemmdarverk á innviðum íslensks samfélags, að fara út í markaðsvæðingu, og jafnvel að hluta til í framhaldinu í einkavæðingu, og skattlagningu á þeirri almannaþjónustu sem hér á að innleiða. Á sama hátt hika ég ekki við að kalla það skemmdarverk að einkavæða Símann. Það er auðvitað ekki annað en skemmdarverk, að selja undan okkur það sem við höfum haft og getað nýtt til að byggja hlutina upp, jafna aðstöðumun og tryggja landsmönnum öllum tiltekna þjónustu af tilteknum gæðum, með ágætum árangri.

Auðvitað mætti árangurinn vera betri. Hann gæti verið betri, sérstaklega í raforkukerfinu. Ef ekki hefði verið hin óhagkvæma og dýra sambúð almenna notendamarkaðarins við stóriðjuna þá væri augljóst mál og borðleggjandi að rafmagnsverð til almennra notenda á Íslandi gæti verið til mikilla muna lægra en það er í dag. Það sér hver heilvita maður. Það er augljóst. En því miður hafa menn haldið áfram og hlaðið nýjum og nýjum og skuldum á fyrirtækin sem menn halda svo áfram að bogna undan og sér ekki fyrir endann á því. (Gripið fram í.) Það sér ekkert fyrir endann á því, því miður.

Raforkuverð er því miður allt of hátt til almennra notenda á Íslandi. Það er t.d. merkilega dýrt og óhagstætt fyrir almennan iðnað, smærri notendur í iðnaði, að kaupa rafmagn á Íslandi. Það er eiginlega fráleitt að það skuli vera miklu ódýrara að framleiða gufu með svartolíu eða elda á gasi en að kaupa rafmagn á Íslandi, þar sem allar aðstæður eru til þess að raforkuverð sé það langlægsta í heiminum. Það ætti auðvitað að vera það. Finnst hv. þm. Birki Jóni Jónssyni bara allt í góðu lagi með að gera þurfi sérstakar ráðstafanir og nota niðurgreiðslur frá ríkinu til að ná raforkuverði til garðyrkju í landinu niður í það sem það er í samkeppnislöndunum? Það er veruleikinn. Þegar þetta var skoðað af nefnd fyrir um tveimur árum, sem sérstaklega átti að fara ofan í að skoða starfsskilyrði garðyrkjunnar og bera saman við samkeppnislöndin, þá var útkoman sú að það þurfti verulegar niðurgreiðslur eða afslætti til að ná rafmagnsverðinu niður í það sem það var í Hollandi, bara til lýsingar í gróðurhúsum, dælingar eða hvað sem það nú var. Þetta er veruleikinn.

Auðvitað er þetta alveg absúrd. Það hefur nánast ekkert land í heiminum eins góðar aðstæður til að vera með virkilega hagstætt raforkuverð, sérstaklega til almennra notenda, eins og Ísland, vegna hinna geysilegu möguleika sem við höfum til að framleiða rafmagn fyrir okkur sjálf með fjölbreytilegum smærri og meðalstórum virkjunum, sem geta verið mjög hagkvæmar. Þetta vita náttúrlega bændur.

Hvernig stendur á því að það er svona myljandi hagstætt fyrir bændur að ráðast í þá fjárfestingu að reisa litla heimavirkjun þótt samkvæmt kenningunum eigi að vera ákveðin stærðarhagkvæmni í virkjunum? Eftir því sem þær eru minni má búast við að stofnkostnaðurinn sé hlutfallslega hærri, miðað við framleiðsluverðmæti. Það ætti a.m.k. að taka lengri tíma að afskrifa fjárfestinguna áður en hún færi að skila arði. Samt er það svo að langflest dæmi sem maður sér um sæmilega hagkvæma heimarafstöð ganga út á að menn séu komnir á núll eftir um tíu ár. Eftir það fá þeir rafmagnið fyrir brotabrot af því sem þeir yrðu að borga fyrir rafmagn frá samveitum. Það er þannig. Ég hef séð marga svona reikninga og meira að segja staðið í að gera þá sjálfur. Þetta er ósköp venjuleg viðmiðun, að það taki niður í átta og upp í tólf, fimmtán ár, sem menn þurfa þá að reikna sér kannski fullt verð, miðað við það sem þeir borga samveitunum í dag. En eftir það fá þeir svo til ókeypis rafmagn. Það er nánast ekkert fyrirbæri undir sólinni hagkvæmara en velheppnuð rennslisvirkjun sem gengur sjálfvirkt árið um kring án vandkvæða og rekstrarkostnaðurinn er fyrst og fremst fólginn í því að skipta um legur á fimm ára fresti ef allt gengur vel. Eftir að fjárfestingin, stofnkostnaðurinn, er einu sinni afskrifaður getur þetta malað árum og áratugum saman með hverfandi kostnaði. Þannig ætti þetta að geta verið og í raun er það þannig.

Sogsvirkjanirnar, sem eru sem slíkar fyrir löngu afskrifaðar, eru þvílíkar gullkvarnir ef almennir notendur fengju að einhverju leyti að njóta þess — það eru þeir sem hafa afskrifað þær og borgað þær niður — þá gæti rafmagnsverðið verið brot af því sem það er í dag. Við fáum það aldrei. Menn fá það ekki vegna þess að þessu er alltaf sökkt í nýjum skuldum, vegna nýrra stórvirkjana sem ofan í kaupið standa tæplega undir sér eða í besta falli komast í núllið. Þetta er nú kerfið eins og það er, því miður. Það þýðir ekkert fyrir menn að mótmæla því að þetta sé svona.

Hvers vegna hurfu allar hugmyndir um að byggja Kárahnjúkavirkjun í sjálfstæðu fyrirtæki út af borðinu, gufuðu upp eins og dögg fyrir sólu? Fjármálastjóri Landsvirkjunar viðurkenndi hvers vegna það var. Hann sagði auðvitað ósköp einfaldlega að það mundi aldrei ganga upp nema hún yrði byggð inni í stóru púllíunni þannig að allar eignir og tekjur Landsvirkjunar stæðu á bak við fjárfestinguna.

Frú forseti. Ég fer nú að stytta mál mitt hvað úr hverju, a.m.k. í fyrri ræðu minni um þetta frumvarp um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði, sem er hluti af pakkanum um skattskyldu orkufyrirtækja og markaðsvæðingu orkugeirans sem við höfum verið með í höndunum á Alþingi meira og minna undanfarin missiri og er ekki víst að allt sé nú búið enn. Eins og ég segi þá hefur Framsóknarflokkurinn hugsað sér að reka smiðshöggið á þetta, það væri kannski nær að segja náðarhöggið, veita almennum raforkunotendum í landinu náðarhöggið, með því að sameina svo á endanum Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða. Þá fyrst fá menn að finna til tevatnsins og sjálfsagt eiga eftir að gefast ýmis tækifæri til að ræða þessi mál betur og ítarlegar á Alþingi, bæði á þessum vordögum og á næstu þingum. Því miður, liggur mér við að segja, því að það er auðvitað engum sérstakt skemmtiefni að þurfa að hafa þetta í höndunum endalaust. En það er næsta víst, eins og ónefndur íþróttafréttamaður mundi segja, að við eigum eftir t.d. eftir að sjá frumvarpið um sölu og dreifingu á raforku og allan þann pakka inn á þingið aftur og aftur.

Það er ljóst að verðlagning og raforkuverðshækkanir eiga líka eftir að koma við sögu. Ef það reynist ekki haldbær útskýring að reikningarnir, sem hafa verið að koma undanfarnar vikur, eftir fyrstu mánuði eða fyrsta árshluta þessa árs, séu bara eitthvert uppsafn og ekki marktækir, ef þetta reynist nú í alvörunni þannig að í næstu reikningum standi áfram tugprósentna hækkun hjá fjölmörgum notendum raforku, þá hef ég á tilfinningunni að það fari að hvína dálítið í og Framsókn neyðist til þess að hörfa eitthvað undan og játa sig sigraða fyrir dómi reynslunnar í þeim efnum, að þetta hafi ekki verið eins og iðnaðarráðherrann sór og sárt við lagði að þessi breyting væri öllsömul útlátalaus, öllum til góðs og blessunar og engin tilefni til hækkunar á raforkuverði þótt menn færu í þessa markaðsvæðingu. Annað hefur þegar komið á daginn, frú forseti.

Svo langar mig til að spyrja í lok ræðu minnar, frú forseti, hvernig það sé með hæstv. ráðherra. Ef ég man rétt þá ræddum við skattskyldu orkufyrirtækja við 2. umr. án þess að hæstv. iðnaðarráðherra væri við. Getur hæstv. forseti staðfest að það sé rétt munað? Ég sé að það mál er á dagskrá þessa fundar, 3. umr. um það mál. Ég trúi því ekki að ætlunin sé að við ræðum þessi mál til loka á þinginu án þess að hæstv. ráðherrar, helst bæði hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, séu viðstaddir. Ég óska eindregið eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra verði gert viðvart um að áhugi sé á því að þeir séu viðstaddir þessa umræðu eigi hún að standa eitthvað lengur fram eftir kvöldinu.

(Forseti (JBjart): Forseti mun bregðast við ósk hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og koma þeim boðum til beggja hæstv. ráðherra sem þingmaðurinn nefndi.)



[22:42]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það má segja að umræðan um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði hafi orðið töluvert lengri og viðameiri en flestir gerðu ráð fyrir. En ástæða þess er auðvitað sú að hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, hélt ræðu fyrr í dag þar sem farið var víða og skotið í allar áttir. Það er óhjákvæmilegt að mæta þeirri ræðu með viðeigandi hætti. Það kallar á að yfir málið sé farið nokkuð gaumgæfilega. Það er augljóst að hv. þingmaður, þrátt fyrir að vera formaður iðnaðarnefndar, hefur misskilið ýmislegt. Ég hef reyndar þá kenningu að það sem fram kom í ræðu hv. þingmanns hafi lýst því að hv. þingmanni sé ekki jafnrótt varðandi þessi mál og hann lét í skína. Ég skildi mál hans þannig að það væri mikill óróleiki og undirliggjandi óánægja með ýmislegt í framkvæmdinni og það hvernig að þessu öllu saman er staðið, sérstaklega hve hratt þessi mál eru keyrð í gegn og hve illa hefur verið að þeim staðið.

Frú forseti. Ég taldi líklegt að menn hefðu lært ýmislegt af raforkulögunum. Ýmislegt var sagt þegar þau voru keyrð í gegn og talið nauðsynlegt að drífa sig mjög við þá afgreiðslu. Það var gefið í skyn að þau þýddu ekki, þótt þau lög færu í gegn, að orkureikningar landsmanna mundu hækka. Raunin hefur orðið allt önnur og ýmislegt bendir til þess að varanlegar hækkanir séu mun meiri en menn hafa séð að undanförnu. Þetta töldu margir að yrði mönnum lexía þannig að næstu skref yrðu stigin varlega og vandað betur til verka.

Það kom hins vegar fram, m.a. hjá hv. þm. Birki J. Jónssyni, að allar þessar hækkanir væru til skoðunar og menn þyrftu því ekki að hafa af þeim miklar áhyggjur. Ég tel að margir þekki slíkt orðalag, að það þurfi að skoða hluti og ýmislegt hafi komið á óvart en síðan er auðvitað reynt að gleyma öllu saman.

Í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar kom m.a. fram að þeir reikningar sem almenningur hefði fengið að undanförnu gefi til kynna að um verulega hækkun sé að ræða og mun meiri en ýmsir vilja a.m.k. viðurkenna. Einu skýringarnar á því sem borist hafa inn í þingsal eru þær að orkufyrirtækin hafi tekið viðmið af þyngstu mánuðunum og framreiknað þá. Það er eiginlega með ólíkindum að árið 2005 skuli mönnum boðið upp á slíkar skýringar. Það hlýtur að vera einfalt mál að miða við annað en þyngstu mánuði ársins. Öll þessi orkufyrirtæki búa yfir þeirri þekkingu að það ætti ekki að vera mikill vandi að breyta þeim áætlununum miðað við það hvernig árið kemur út í heild sinni. Það má framreikna slíkar niðurstöður á marga vegu ef áhugi er til staðar og í raun er með ólíkindum að menn hafi ekki beitt sér fyrir því. Þess í stað nota menn orðalagið á borð við að þetta sé til skoðunar og almenningur eigi að bíða í rólegheitum eftir því hvernig hlutirnir koma út.

Það var fleira sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Til að byrja með voru helstu röksemdir fyrir því að keyra þyrfti í gegn það frumvarp sem er tengt því sem við erum hér að ræða, þ.e. breytingar á ýmsum lögum á orkusviði sem tengjast beint frumvarpinu um skattskyldu orkufyrirtækja. Meginskýringin sem formaður iðnaðarnefndar gaf á því var að það væru einkafyrirtæki í samkeppni við hin stóru orkufyrirtæki og það væru sérstaklega hinir litlu raforkubændur sem þyrfti að hugsa um í þessu samhengi. Þessu var svarað strax í andsvörum og hv. þingmaður hljóp þá í aðra vörn og var kominn svo langt í vörninni að þessi skattheimta væri nauðsynlegt til þess að verja velferðarkerfið og fullyrti í andsvari við, ef ég man rétt hv. þm. Ögmund Jónasson, að þeir hv. þingmenn báðir tilheyrðu flokkum sem vildu verja velferðarkerfið og þess vegna skildi hv. þingmaður ekki að hv. þm. Ögmundur Jónasson skyldi ekki einnig vera talsmaður þess að umrædd skattheimta á orkufyrirtækin næði fram að ganga, vegna þess að það væri nauðsynlegt til að verja velferðarkerfið. Þetta er eiginlega sú lengsta þrautarganga í vörn fyrir þessum málum sem ég hef heyrt og dæmir sig að sjálfsögðu sjálf.

Hvað með þá fyrstu skýringu að hér væri verið að verja samkeppni í orkuframleiðslu? Það væri þá lágmark að eingöngu væri verið að horfa til raforkuframleiðslunnar sem vissulega er í einstaka tilfellum rekin í samkeppni og einstaka einkafyrirtæki hafa verið að framleiða, en það er ekki látið staðar numið þar heldur er m.a. einnig verið að leggja skatta á framleiðslu á heitu vatni, þannig að hitaveiturnar eru ekki undanskildar. Varla eru þar miklir einkaaðilar eða smábændur að kljást við hin stóru fyrirtæki. Hér er því beintenging við hinn almenna borgara sem mun auðvitað að lokum borga reikninginn. Það hefur komið fram í umsögnum fjölda aðila að þetta mun að sjálfsögðu ekki þýða neitt annað en hærri raforkureikninga og ekki bara það, heldur mun þetta líka skerða verulega tekjur fjölmargra sveitarfélaga, þ.e. þeirra sveitarfélaga sem hafa verið að reka þessi orkufyrirtæki. Þau hafa flest hver getað borgað arð til eigenda sinna, þ.e. sveitarfélaganna, sem þar með hafa getað fært arðgreiðslur til samfélagsþjónustunnar sem þau hafa boðið upp á og þar af leiðandi getað staðið sig mun betur í þjónustunni við íbúa í sveitarfélögunum.

Það er ekki aðeins að þær arðgreiðslur munu minnka og þar af leiðandi minnka tekjur sveitarfélaganna og veikja þau þar með. Þrátt fyrir að nú sé í gangi átak sem kallast efling sveitarstjórnarstigsins er samt sem áður farið svona bakdyramegin gagnvart sveitarfélögunum og tekjur þeirra hreinlega minnkaðar en ekki bara það, heldur liggur það ljóst fyrir að þegar orkureikningarnir hækka enn meir en þeir hafa þó gert nú þegar vegna þeirra laga sem væntanlega verða keyrð hér í gegn í vor, þá er augljóst mál að það takmarkar líka aðra tekjumöguleika sveitarfélaganna, vegna þess að allir eru þessir peningar sóttir í sömu vasana, þ.e. í vasa almennings. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að þetta mál, í ljósi þess sem ég sagði áðan m.a. um raforkulögin, skuli vera svo illa undirbúið og illa unnið eins og kemur í ljós. Meðal annars hafa engar rannsóknir eða kannanir verið á því gerðar hvernig þetta muni koma út varðandi gjaldskrár orkufyrirtækjanna. Það er allt eins í málinu, undirbúningur allur í skötulíki og enginn vilji virðist vera til þess að standa almennilega að málinu.

Ekki nóg með að þessi skattur komi á almenning og ýmsir segja: Ja, það eru nú fleiri kaupendur orkunnar en almenningur. — Mikið rétt. Stærstu kaupendurnir eru stóriðjan, en stóriðjusamningarnir eru gerðir til langs tíma og eru ekki gerðir með neinum fyrirvara um slíka skattheimtu. Orkufyrirtækin eiga því enga möguleika á að leggja álag á þá taxta vegna skattheimtunnar. Þetta mun þar af leiðandi eingöngu leggjast á almenning. Eins og sumir umsagnaraðilar hafa bent á er þetta býsna harkalegt gagnvart þessum fyrirtækjum vegna þess að ýmsir samningar sem gerðir hafa verið hjá orkufyrirtækjunum hafa beinlínis verið gerðir með sérstakri hvatningu stjórnvalda. Stjórnvöld hafa aldrei á það minnst að von sé á því að fyrirtækin þurfi að borga skatta, þess vegna væri auðvitað eðlilegt að hafa slíkan fyrirvara í samningunum. En það er ekki til staðar. Undirbúningurinn að þessu leytinu til er því einnig afar undarlegur.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson kom líka með það að menn þyrftu nú ekki að vera að hafa miklar áhyggjur af þessu, því það hefði komið fram hjá öllum stærstu orkufyrirtækjunum að næstu sjö til tíu árin mundu þau ekki greiða þessa skatta vegna þess að rekstrarlegt tap yrði þann tíma vegna stórframkvæmda og annars þess háttar. (Gripið fram í.) Það er auðvitað sérkennilegt að hv. þm. Birkir Jón Jónsson skuli nota þetta m.a. sem skýringu og ástæðu fyrir því að keyra málið hér í gegn vegna þess að ef þetta er ekki að skila af sér neinu næstu sjö til tíu árin hlýtur maður enn frekar að spyrja: Hvað liggur þá svona á ? Hvaða æðibunugangur er þetta? (LB: Það er ekki nokkur leið að fá svör við þessu nema ...) Það er rétt, hv. þingmaður, það er eiginlega óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forseta hvort a.m.k. framsögumaður nefndarinnar sé ekki hér í húsi. Það er eiginlega alveg lágmarkskrafa að framsögumaður sé til staðar, sem er nú reyndar einhver vara-varaframsögumaður, því ég sé það á nefndarálitinu að formaður nefndarinnar var ekki á fundi nefndarinnar og ef ég man rétt var hann staddur erlendis í opinberum erindagjörðum, það er ekkert við því að segja, en varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, keyrði þetta mál í gegn í nefndinni og er síðan skráður sem framsögumaður, en ég veit ekki betur en hann sé fjarri þingi og ef ég man rétt mælti hv. þm. Kjartan Ólafsson fyrir málinu, þ.e. vara-varaframsögumaður í nefndinni og sýnir hvernig ástandið er orðið hjá stjórnarliðum, að það eru mörg varadekkin sem þarf til þess að hér sé hægt að mæla fyrir málum.

Frú forseti. Er hægt að fá upplýsingar um hvort framsögumaður nefndarinnar er einhvers staðar í kallfæri? (LB: En iðnaðar- og viðskiptaráðherra.) Góðar fyrirspurnir koma héðan úr þingsal ...

(Forseti (JBjart): Forseti hefur þegar óskað eftir því að framsögumaður málsins, hv. þm. Kjartan Ólafsson, komi í þingsal.)

Eru þá góðar líkur á því að hv. þingmaður sé það nálægur að búast megi við honum á næstu mínútum?

Rétt er að upplýsa hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem kallaði hér fram í, um það að ræðumaður sem var næstur á undan mér, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, óskaði einmitt sérstaklega eftir því að kannað væri með hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, hvort það væri ekki tryggt þegar málið um skattskyldu orkufyrirtækja, sem er á dagskrá, kæmi á dagskrá, þá yrðu hæstv. ráðherrar örugglega mættir, því hv. þingmaður rifjaði það upp að 2. umr. um málið hefði farið fram án þess að hæstv. iðnaðarráðherra væri viðstaddur. Ég tel því víst að frú forseti tryggi það að þegar það mál kemur fyrir verði hæstv. ráðherrar hér.

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Kjartan Ólafsson, sem er í forsvari fyrir nefndina í þessu máli, er nú kominn í salinn. Eins og komið hefur fram í máli mínu hefur þetta mál farið töluvert víðar í umræðunni en gert var kannski ráð fyrir í upphafi, ekki vegna þess að hv. þingmaður hafi í framsöguræðu sinni út af fyrir sig kallað á það, heldur gerðist það hins vegar skömmu síðar í umræðunni að hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, sem eins og ég sagði áðan gat ekki verið á þeim fundi nefndarinnar þegar nefndarálitið var afgreitt, fór hér mikinn og kallaði á það að málið yrði rætt nokkuð gaumgæfilega og ýmislegt upplýst í því sem ég hugsa að flestir hv. þingmenn hafi talið að margir vissu en kom síðar í ljós að formaður nefndarinnar hafði eitthvað misskilið.

Ég var þar staddur í ræðu minni þegar ábending kom til mín utan úr sal um að eðlilegt væri að einhver sem hugsanlega gæti svarað spurningum væri viðstaddur. Ég þarf því að endurtaka spurningu mína sem var afskaplega einföld og var um það hvað lægi á í þessu máli öllu saman. Það hafði nefnilega komið fram m.a. í ræðu hv. þm. Birkis J. Jónssonar, formanns iðnaðarnefndar, að samkvæmt upplýsingum sem komu fram á sameiginlegum fundi með iðnaðarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, þá töldu stærstu orkufyrirtækin að þau mundu ekki fara að greiða þessa skatta fyrr en í fyrsta lagi eftir sjö til tíu ár, þ.e. miðað við stöðu þeirra í dag, burt séð frá þeim framkvæmdum sem hugsanlega verða síðan ákveðnar á þeim árum, en bara miðað við það sem búið væri að ákveða í dag væri framkvæmdastaðan þannig að væntanlega yrði halli á þessum fyrirtækjum þennan tíma og þau mundu þar af leiðandi ekki greiða þennan skatt fyrr en í fyrsta lagi eftir sjö til tíu ár. Þess vegna er eðlilegt að maður spyrji ef þetta er nú ein af vörnunum í málinu: Hvað liggur þá á? Hver er ástæðan fyrir því að ekki er hægt að vinna frumvörp almennilega, í fyrsta lagi ekki af ráðuneyti og í öðru lagi ekki af þingnefndum? Æðibunugangurinn er slíkur að t.d. liggur það fyrir að engin vinna hefur verið lögð í að kanna hvaða þýðingu þetta frumvarp eða þessi lög ef þau verða samþykkt hafa á t.d. gjaldskrár orkufyrirtækja. Ekkert slíkt liggur fyrir. Menn verða því að geta sér til um hvernig þetta verður.

Orkufyrirtækin hafa svarað því afskaplega skýrt: Þetta þýðir ekkert annað en hærri reikninga til fólksins. Það er eina leiðin fyrir fyrirtækin til að borga þennan skatt, það er að hækka gjöldin á neytendur, þ.e. almenning, ekki alla neytendur, ekki alla sem fá orku frá fyrirtækjunum. Nei, vegna þess að fyrir liggja samningar við stærstu kaupendur til mjög langs tíma, þar sem enginn fyrirvari er á því að hækka megi þá samninga vegna skattheimtu. Þetta er ekki haft í samningunum vegna þess m.a. eins og komið hefur fram frá fyrirtækjunum, að þeir samningar hafa flestir verið gerðir vegna hvatningar frá stjórnvöldum. Stjórnvöld hafa aldrei á það bent að líkur séu á því að á þessu tímabili muni síðan verða komið aftan að fyrirtækjunum og skattheimtan aukin. Þetta mun því að sjálfsögðu leggjast af fullum þunga á hinn almenna notanda. Það er önnur hliðin í þessu.

Einnig er ástæða til að hv. þm. Kjartan Ólafsson, framsögumaður iðnaðarnefndar, svari því hvernig þetta kemur heim og saman við það metnaðarfulla átak hæstv. félagsmálaráðherra um að efla sveitarstjórnarstigið, þegar einnig er komið aftan að sveitarfélögunum og arðgreiðslur sem þau hafa fengið, þ.e. tekjur sem þau hafa fengið af orkufyrirtækjum sínum, munu augljóslega minnka. Tekjur sveitarfélaganna minnka þar með og um leið minnka möguleikar þeirra á því að sækja meiri tekjur til hins almenna notanda vegna þess að orkureikningarnir verða hækkaðir.

Frú forseti. Fram kemur í ágætu nefndaráliti frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar að það sé sérkennileg tilviljun að þegar þessi skattur er reiknaður út frá þeim tölum sem til eru um útkomu nokkurra veitufyrirtækja sveitarfélaga árin 2002 og 2003 og 18% skatturinn reiknaður á það, þá virðist hann gefa rúmlega milljarð eða tæplega 1,1 milljarð.

Það vill svo til, eins og segir í þessu ágæta nefndaráliti, með leyfi forseta:

„Í ljósi nýgerðs samkomulag ríkis og sveitarfélaga um aukin framlög ríkisins til sveitarfélaga sem nemur rúmum milljarði króna á ári árin 2006–2008 er ljóst að þessi breyting hefði veruleg áhrif á fjármál sveitarfélaganna.“

Hér er því um sambærilega tölu að ræða. Þegar nýbúið er að gera samning við sveitarfélögin um að bæta örlítið fjárhagsstöðu þeirra vegna þess að það er sameiginlegt mat ríkisvaldsins og sveitarfélaganna að það þurfi að gera vegna erfiðrar stöðu sveitarfélaganna er bara mætt næsta dag með eitt lítið frumvarp sem kippir öllu til baka jafnharðan. Það er ekki skrýtið þó það sé ekki mikið traust á milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins, enda hefur það komið fram í máli og umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að þau telji breytingarnar fela í sér meiri háttar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Reyndar fór sambandið fram á sérstakar formlegar viðræður um málið við fulltrúa ríkisins. En svo mikið liggur á að það er ekki einu sinni tími til þess að ræða við fulltrúa sveitarfélaganna um breytingarnar. Sveitarfélögunum er því enn einu sinni gefið langt nef. Þau eru ekki virt viðlits. Nei, það er gerður samningur einn daginn og sama upphæð svo tekin til baka örfáum dögum síðar með einu litlu frumvarpi sem á að keyra í gegn á miklum hraða. Það virðist því algjörlega ljóst að því miður er málið ekki tilbúið til afgreiðslu. Það er vonandi að stjórnarmeirihlutinn átti sig á því áður en þingi lýkur í vor og fresti málinu, þó ekki væri nema fram á haust þannig að tími gæfist til að fara yfir málið, átta sig á því hvað það þýðir, ég tala ekki um að sveitarfélögunum væri sýnd sú virðing m.a. í ljósi þess að það er í gangi hið merka átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins og nýbúið að ganga frá fjármálalegum samningi um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þó sumarið væri ekki nýtt til nema þeirra þátta væri það töluvert skref.

Frú forseti. Það er rétt að minna á það af því ég nefndi það áðan að flestir væntu þess að raforkulögin væru örlítið víti til að varast, þ.e. að menn mundu læra af því hvernig ætti að umgangast þennan markað sem er býsna stór og viðkvæmur og að menn mundu vanda sig miklu meira. Ég tala ekki um í ljósi reynslu ýmissa annarra þjóða, að það tekur nokkurn tíma fyrir raforkumarkaðinn að ná jafnvægi að nýju eftir slíkar breytingar sem gerðar hafa verið og við erum nú að ganga í gegnum. Það er því hægt að sækja reynslu til annarra þjóða. Þess vegna hlýtur það að blasa við að það er óráðlegt að ráðast í aðrar umfangsmiklar breytingar á sama umhverfi orkufyrirtækjanna án þess að öll áhrifin séu komin í ljós og hægt sé að mæta þeim, en ekki sé verið að flækja ástandið með enn fleiri breytingum á meðan þetta gengur yfir og markaðurinn á engan hátt búinn að ná jafnvægi.

Ég sagði áðan að breytingarnar mundu væntanlega hafa þær afleiðingar að allar hitaveitur yrðu skattskyldar, svo og vatnsveitur sem reknar eru á vegum fyrirtækis með sameiginlegan annan rekstur rafveitna, hitaveitna og vatnsveitna, svo sem Hitaveita Suðurnesja og Norðurorka. Þau fyrirtæki lenda í þessu og ljóst hvaða afleiðingar það hefur.

Þess vegna endurtek ég að það er algjörlega með ólíkindum að ekki skuli hafa verið lögð vinna í að kanna hvaða áhrif breytingin hefur á gjaldskrár fyrirtækjanna. Eins og ég sagði einnig áðan hafa orkufyrirtækin bent á þá einföldu staðreynd að þetta hefur hrein og klár áhrif í þá átt að gjaldskráin mun hækka og eingöngu hjá hinum almenna borgara.

Frú forseti. Það er nauðsynlegt að fara einnig yfir nokkrar umsagnir sem bárust í tengslum við frumvarp til laga um afnám undanþágu orkufyrirtækja frá greiðslu tekjuskatts og eignarskatts sem liggur til grundvallar því frumvarpi sem við ræðum nú. Fyrsta umsögn sem ég ber niður í er umsögn Alþýðusambands Íslands. Síðan koma hér umsagnir hver af annarri en fyrstu umsagnirnar eru frá Alþýðusambandi Íslands og BSRB, þ.e. frá langstærstu samtökum launafólks, sem eru þar af leiðandi fulltrúar hins almenna borgara, fulltrúar þeirra sem munu þurfa að greiða reikninginn þegar upp er staðið. Ég leyfi mér að vitna orðrétt í umsögn Alþýðusambands Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í kjölfar síðustu breytinga á raforkumarkaði, sem tóku gildi um síðustu áramót þegar flutningur og dreifing á raforku var aðskilin, urðu miklar hækkanir á raforku. Orkufyrirtækin rökstuddu hækkanirnar með auknum kostnaði sem þau hefðu orðið fyrir við kerfisbreytinguna á raforkumarkaði.“

Það er rétt í þessu samhengi, frú forseti, að rifja það upp að þegar raforkulögin fóru í gegn var almennur rökstuðningur stjórnarmeirihlutans að af þeim breytingum mundi enginn sérstakur kostnaður verða og þar af leiðandi væri alger óþarfi að hækka reikninga til almennings, það mundi ekki gerast. Niðurstaðan varð samt sem áður sú sem sýnir auðvitað hversu illa var staðið að málinu og hve undirbúningurinn var lítill. Enn einu sinni er svo farið af stað og undirbúningurinn sambærilegur, jafnslakur og stjórnarliðar vita ekkert hverjar afleiðingar verða.

Frú forseti. Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir einnig, með leyfi forseta:

„Reynsla annarra þjóða sýnir að það muni taka raforkumarkaðinn allnokkurn tíma að ná nýju jafnvægi. Því er óráðlegt að ráðast í aðrar umfangsmiklar breytingar á umhverfi orkufyrirtækja án þess að áhrif nýrra raforkulaga verði komin í ljós.“

Hér eru aðvörunarorð afskaplega kurteis, en skýr. Það gengur auðvitað ekki að trekk í trekk skuli sömu stjórnvöld koma með frumvörp sem keyrð eru í gegn með miklum hraða, svo miklum hraða að í fyrsta lagi ná ráðuneytin ekki að undirbúa málin fyllilega áður en þau eru lögð fram og í öðru lagi er nefndum ekki gefinn nægilegur tími til að fara yfir ýmsar hliðar málsins til að átta sig m.a. á því hvaða áhrif þetta hefur á gjaldskrá orkufyrirtækja.

Að lokum segir í umsögn Alþýðusambands Íslands, með leyfi forseta:

„Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að erfitt er að leggja mat á áhrif þessara breytinga á raforkuverð og arðsemi orkufyrirtækja. Alþýðusambandið telur það óásættanlegt að ráðist verði í frekari umbreytingar á orkumarkaði án þess að lagt verði mat á áhrif þeirra fyrir neytendur.

Alþýðusambandið leggur því til að frumvarpið verði ekki samþykkt.“

Stærstu samtök launafólks hafa farið yfir málið og áttað sig á því hverjir þurfa að borga reikningana. Niðurstaðan er því einföld: Það á ekki að samþykkja frumvarpið.

Umsögn BSRB er á margan hátt svipuð. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá er rétt að nefna að orkuveitur eru margar í eigu sveitarfélaga sem hafa af þeim arð. Skattlagning orkugeirans eins og frumvarpið gerir ráð fyrir mun veita fjármuni í ríkissjóð.“

Fjármunirnir fara því frá sveitarfélögunum í ríkissjóð. Í kjölfar þess að gerður er samningur við sveitarfélögin um að bæta örlítið fjárhagslega stöðu þeirra eru fjármunirnir teknir til baka á öðrum vettvangi, eins og ég hef áður bent á.

Áfram segir í umsögn BSRB, með leyfi forseta:

„Afleiðingarnar munu verða þær að möguleikar sveitarfélaganna til að beina fjármagni úr orkustofnunum sínum inn í aðra samneyslu á vegum sveitarfélagsins verða minni fyrir vikið.“

Þetta er auðvitað skýrt. Þetta er einfalt. Auðvitað hljóta þeir sem frumvarpið sömdu og þeir sem vilja keyra það í gegn að átta sig á því að þær afleiðingar blasa við, þó svo að vinna sé ekki lögð í að reikna út hversu mikið þetta er, eins og eðlilegt hefði verið, blasir þessi staðreynd auðvitað við.

Þess vegna segir í lok umsagnar BSRB, með leyfi forseta:

„Í samræmi við þetta leggst BSRB gegn samþykkt þessa frumvarps.“

Ég hef vitnað til umsagna stærstu samtaka launafólks, stærstu umbjóðenda þeirra, almennings, sem mun greiða reikninginn. Þau komast að þeirri einföldu en skýru niðurstöðu að það eigi ekki að samþykkja frumvarpið um skattskyldu orkufyrirtækja.

Ekki er hægt að segja að þau samtök séu almennt á móti skattheimtu eða á móti því að ríkisvaldið hafi tekjur og að sveitarfélögin hafi tekjur, vegna þess að þessi samtök leggja líka mjög mikla áherslu á að efla og styrkja velferðarkerfið og vita að sjálfsögðu að til þess þarf fjármagn, en telja eðlilegra að aðrar leiðir séu farnar til þess.

Herra forseti. Ég benti á það áðan að rökstuðningur hv. þm. Birkis J. Jónssonar um að sérstaklega væri verið að hugsa um raforkubændur með allri þessari frumvarpssmíð ætti sér enga stoð. Þetta ætti þá sannarlega ekki við í hitaveitunum ef við gæfum okkur að þetta væri rétt hjá hv. þingmanni og að við værum ekki að kljást við raforkuna. Það hefði því átt að undanskilja þær. En það er ekki aldeilis verið að því. Þetta kemur auðvitað mjög skýrt fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem eru rekstraraðilar hitaveitnanna og hafa eðlilega verulegar áhyggjur af því hvernig málið er að þróast, en því miður — fulltrúar sveitarfélaganna voru ekki virtir viðlits, það var ekkert við þá talað þrátt fyrir að þeir hafi farið fram á að við þá væri rætt til að yfirfara stöðuna í hinum fjárhagslegu samskiptum ríkis og sveitarfélaga því það var ekki svo lítið sem sumir hæstv. ráðherrar hreyktu sér af í þingsal að nú væri enn einu sinni búið að mæta sveitarfélögunum og nú væri framtíðin björt og glæsileg hjá þeim í fjárhagslegu tilliti. (Gripið fram í.) Já. Nei, það er einfalt, það er bara komið með frumvarp skömmu síðar og öllu kippt til baka. Þegar sveitarfélögin vekja athygli á því er enginn tími til þess að ræða við þau einu sinni. Nei, nei, það þarf ekkert við þau að ræða, það liggur svo mikið á að klára málið. Það þarf ekki að reikna neitt út. Það þarf ekki að rökstyðja eitt eða neitt. Nei, það skal bara keyrt áfram veginn greiða án þess að taka tillit til eins eða neins. (Gripið fram í: … bíða í sjö ár …) Það var býsna magnað að hv. þingmaður notaði það sem rökstuðning.

Ég vænti þess að hv. þm. Kjartan Ólafsson muni svara því skilmerkilega á eftir hvers vegna það liggur svona mikið á þrátt fyrir að það virðast ekki koma neinar greiðslur í ríkissjóði, að það reyni ekkert á skattheimtuna miðað við upplýsingar hv. þingmanns, formanns iðnaðarnefndar, fyrr en eftir sjö til tíu ár. (Gripið fram í: Forseti getur …) Já, hv. þingmaður, það er aldrei að vita hvaða upplýsingar leynast á forsetastóli, en það er býsna erfitt að ætlast til þess að framsögumaður iðnaðarnefndar þurfi að vísa til þess hv. þingmanns sem gegnir nú virðulegri stöðu hæstv. forseta til að bjarga sér, en ef svo er bendi ég hv. þm. Kjartani Ólafssyni á það að ég mun ekki gera við það neinar athugasemdir þó hv. þingmaður laumist á bak við mig og hvíslist á við hæstv. forseta ef einhverjar upplýsingar eru þar sem ekki eru fyrir hendi hjá hv. þingmanni og framsögumanni iðnaðarnefndar. Ef hv. þingmaður telur sig þurfa að nálgast upplýsingar til að geta svarað þeim örfáu einföldu spurningum sem ég hef spurt er auðvitað rétt að vekja athygli hv. þingmanns á því að væntanlega eru ýmsar upplýsingar til staðar á forsetastóli.

En ég var að ræða um hitaveitur. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er frekari rökstuðningur fyrir því sem ég sagði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Undir gildissvið laganna falla því ekki aðeins raforkufyrirtæki heldur einnig hitaveitur.“

Það er algjörlega nauðsynlegt að formaður iðnaðarnefndar átti sig á þessu svo okkur verði ekki boðið upp á að hlusta frekar á rökstuðning eins og þann sem við fengum að heyra fyrr í dag um að fyrst og fremst væri verið að jafna samkeppnisstöðu raforkubænda við hin stóru orkufyrirtæki.

Einnig segir í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Sambandið leggst hins vegar alfarið gegn þeirri fyrirætlan sem fram kemur í frumvarpinu að hitaveitur verði skattskyldar með sama hætti og raforkufyrirtæki.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Heitt vatn til húshitunar er almennt það mikið hagkvæmari lausn en aðrir orkugjafar að í reynd verður ekki rætt um samkeppni á þessu sviði.“ — Rökstuðningurinn um að verið sé að jafna samkeppni á því ekki við hér. — „Vegna tiltekinna eðlisþátta, svo sem einkaleyfa og einnig vegna takmarkana sem möguleikar á dreifingu á heitu vatni fela í sér er einnig mjög fjarlægt að hugsa sér samkeppni milli hitaveitna innbyrðis.“ — Það er auðvitað mjög fjarlægt og ógjörningur á flestum svæðum landsins. — „Skattlagning á starfsemi hitaveitna þjónar því engum tilgangi, hvorki samkeppnislegum né öðrum.“

Skattlagningin þjónar engum tilgangi. Þetta er því algjörlega óskiljanlegt og ekki hægt að skilja þetta á neinn annan hátt en að því miður séu vinnubrögðin svo óvönduð að menn hafi ekki skoðað allar hliðar málsins þegar menn bitu það í sig að það þyrfti að drífa þetta í gegn.

Að lokum segir í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Að lokum vill sambandið vekja athygli Alþingis á því að breyting á skattalegri stöðu hitaveitna, sem ekki verður séð að styðjist við nein efnisleg rök, felur í raun í sér meiri háttar breytingu á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Slíkar breytingar þarfnast ítarlegri umræðu við sveitarfélögin en farið hefur fram til þessa.“

Herra forseti. Ef maður á að gera einhverjar athugasemdir við orðalagið, þá er það allt of kurteisislegt. Það er verið að ganga þvert á það samkomulag sem nýlega er búið að gera og sveitarfélögin eru enn einu sinni ekki virt viðlits þegar verið er að hafa veruleg áhrif á fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Það er ánægjulegt að sjá að í dyragættina kemur mikill áhugamaður um samskipti ríkis og sveitarfélaga, sérstaklega í fjárhagslegu tilliti, og sérstakur áhugamaður um eflingu sveitarstjórnarstigsins. (Gripið fram í: Að austan.) Að sjálfsögðu er hv. þingmaður ættaður að austan en búsettur í Vestmannaeyjum og hefur stundum látið í sér heyra um að það sé til skammar hvernig að þessum málum er staðið. Hv. þingmaður gerði ýmsar athugasemdir einmitt við nýjasta samkomulagið sem gert var á milli ríkis og sveitarfélaga, þ.e. sem klínt var faktískt upp á sveitarfélögin því þau höfðu lítið um það að segja, það var bara sagt: Þið fáið þetta eða ekki neitt. Hv. þingmaður ætti að gefa sér tíma á þessum vordögum til að fara nákvæmlega yfir þetta mál og átta sig á því að verið er að gefa sveitarfélögunum kinnhest, stóran og mikinn. Verið er að gera verulega breytingu á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og verið að taka allt það til baka sem þó var rétt til sveitarfélaganna í síðasta samningi.

Herra forseti. Margar fleiri umsagnir hafa borist vegna málsins. Ég hef farið yfir umsagnir annars vegar hinna fjölmennu samtaka launafólks, fulltrúa neytendanna. Fulltrúar rekstraraðilanna, þ.e. sveitarfélögin sem verða auðvitað fyrir gífurlegri skerðingu hafa gert mjög sterkar og alvarlegar athugasemdir. Ég á eftir einn hóp, orkufyrirtækin. Þau gera einnig gífurlegar athugasemdir. (Gripið fram í: En Verslunarráð?) Það er athyglisvert, hv. þingmenn, að ég er ekki með umsögn frá þeim. (Gripið fram í: Þeir eru fylgjandi málinu.) Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að Verslunarráð sé býsna ánægt með þessa skattheimtu, þó að það ágæta ráð virðist almennt vera afskaplega óánægt með skattheimtu er eins og þessi skattheimta sé þeim eitthvað sérstaklega hugleikin. Væntanlega er það byggt á þeim rökum að verið sé að jafna samkeppni, eins og hv. þm. Birkir J. Jónsson hefur haldið fram.

Ég vek athygli á því sem fram kom í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að það er býsna langsótt og flókið og væri fróðlegt að fá Verslunarráð í lið með hv. þm. Birki J. Jónssyni að færa rök fyrir því að það sé myljandi samkeppni í hitaveitum landsins. Það væri gaman að átta sig á því hvar hún á sér stað. (Gripið fram í: … reknar með einkaleyfum.) Þær eru reknar með einkaleyfum og reknar af sveitarfélögunum þannig að þetta er auðvitað býsna langsótt og sérkennilegt. Ég get því eiginlega ekki afsakað þetta á annan hátt en ég hef áður gert, að flumbruhátturinn sé svo mikill að aðilar hafi ekki haft tíma til að fara almennilega yfir málið og átta sig á stærð þess og hvaða afleiðingar það hefur. Enda hefur það komið fram að það hefur ekki verið farið yfir það hvað þetta þýðir í fjármálalegu tilliti og hvaða álögur er verið að leggja á fólk til að standa undir þessu og hversu miklar tekjur sveitarfélögin eru að missa örlítið fram í tímann. Það er ekki ónýtt fyrir menn þegar þeir eru að gera slíkar breytingar að hugsa kannski örlítið meira en bara um gærdaginn, horfa kannski eitthvað fram í tímann. Þessi ákafi er auðvitað (Gripið fram í.) já, sérkennilegur þegar það liggur fyrir í upplýsingum frá formanni iðnaðarnefndar að ekki sé gert ráð fyrir neinum tekjum fyrr en eftir 7–10 ár.

Herra forseti. Ég ætla að víkja örlítið, stuttlega þó, að umsögnum orkufyrirtækja. Hér eru tvær ágætar umsagnir, annars vegar frá Orkuveitu Reykjavíkur og hins vegar frá Hitaveitu Suðurnesja. Ég hef valið kafla úr þeim þannig að það séu engar endurtekningar heldur sitt hvort sviðið.

Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur segir að þeir hafi komið frá sér athugasemdum þar sem orkuveitan hafi lýst sig andvíga markmiðum frumvarpsins og mun ég geta nokkurra þeirra. Það er rétt að geta þess að einnig hefur borist umsögn frá Reykjavíkurborg þar sem hún lýsir yfir stuðningi við umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, þannig að umsögn Orkuveitu Reykjavíkur er í raun einnig umsögn Reykjavíkurborgar. Athugasemdirnar sem orkuveitan gerir þegar hún er að lýsa sig andvíga markmiðum frumvarpsins eru m.a. þessar, með leyfi forseta:

„Skattlagning á orkufyrirtæki mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar verðs þar sem í núverandi gjaldskrá gerir ekki ráð fyrir greiðslu tekju- og eignarskatta. Í athugasemdum við frumvarpið kemur ekki fram hvaða áhrif þessi skattlagning hefur á orkufyrirtækin og ekki kemur fram hvaða breytingar verða á gjaldskrám fyrirtækjanna verði frumvarpið að lögum.“

Athugasemdirnar eru, mér liggur við að segja háðulegar, að það þurfi að koma fram í umsögnum að frumvarpinu fylgi í raun engar upplýsingar um það hvaða áhrif það muni hafa, verði það að lögum.

En áfram segir í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, með leyfi forseta:

„Orkuveita Reykjavíkur er með samninga um orkusölu til stóriðju sem gilda í 20 ár. Samningar þessir hafa verið gerðir fyrir hvatningu ríkisins og engir fyrirvarar af þess hálfu um að gera þurfi ráð fyrir skattlagningu til framtíðar. Arðsemisútreikningar sem gerðir hafa verið í góðri trú vegna stórframkvæmda hafa ekki gert ráð fyrir greiðslu þessara skatta. Forsendur gerðra samninga og arðsemi þeirra raskast verulega verði frumvarp þetta að lögum.“

Hér kemur því mjög skýrt fram frá þessu stóra fyrirtæki að samningarnir sem gerðir hafa verið m.a. um stóriðju gilda í 20 ár, samningar gerðir með sérstökum áhuga og hvatningu ríkisins án þess að látið sé í það skína að hugsanlega muni verða lagður skattur á allt saman.

En áfram heldur umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, með leyfi forseta:

„Orkuveita Reykjavíkur er í eigu fjögurra sveitarfélaga sem hafa haft af henni arð. Möguleikar Orkuveitunnar til arðgreiðslna til eigenda sinna skerðast verulega ef til skattgreiðslna kemur. Ljóst er að sveitarfélögin eru ekki undir þann tekjumissi búin.“

Enn einu sinni eru færð rök fyrir því sem ég hef verið að segja, að sveitarfélögin eru skilin eftir með tekjumissi og það í kjölfar þess að staðið var í samningagerð í hátt á annað ár á milli ríkisins og sveitarfélaga til að bæta örlítið fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna. Nei, sú litla lagfæring skal tekin til baka í frumvarpi í kjölfarið. Og þegar sveitarfélögin óska eftir viðræðum um að fara yfir málið berst ekki einu sinni svar. Við þau skal ekki rætt.

Þá kemur að síðustu umsögn sem ég ætla að gera að umtalsefni í ræðu minni í kvöld frá Hitaveitu Suðurnesja. Hún fjallar m.a. um fyrningu á tapi og kem ég þá aftur að hinni mögnuðu röksemd formanns iðnaðarnefndar um að orkufyrirtækin stóru hefðu sagt að miðað við stöðuna í dag mundu þau væntanlega ekki borga skattinn fyrr en eftir 7–10 ár.

Hitaveita Suðurnesja fer örlítið ofan í það mál og segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt er heimilt að flytja skattalegt tap á milli rekstrarára, þó með þeirri takmörkun að það fyrnist á 10 árum. Mikil sveifla er í afkomu orkufyrirtækja sem oft á tíðum orsakast af miklum gengissveiflum og háum fjármagnskostnaði við byggingu nýrra orkuvera. Við teljum því mikilvægt að skattalegt tap fyrnist ekki.“

Herra forseti. Hér kemur enn ein athugasemdin. Engin rök voru færð fyrir því, a.m.k. ekki á þeim sameiginlega fundi sem við í iðnaðarnefnd sátum með efnahags- og viðskiptanefnd, af hverju ekki væri tekið tillit til þessara óska. Með þeim skýringum sem hér koma fram virðast vera færð nokkuð sterk rök fyrir því að fyrirtækin geti fært þetta á milli vegna þess að það eru svo miklar sveiflur bæði í rekstri og ýmsum viðmiðunum hjá fyrirtækjunum.

Herra forseti. Í lok umsagnar Hitaveitu Suðurnesja, sem verður síðasta tilvitnun mín í kvöld, segir, með leyfi forseta:

„Nokkuð ljóst er að þau gera ákveðnar arðsemiskröfur til fyrirtækisins.“ — þ.e. sveitarfélögin sem eiga Orkuveitu Suðurnesja — „Til að mæta auknum álögum er líklegt að hækka þurfi orkuverð. Að þessu framansögðu er rétt að benda á að Hitaveita Suðurnesja hf. hefur gert samninga um orkusölu til stóriðju til allt að 20 ára. Þegar þeir samningar voru gerðir var ekki gert ráð fyrir í arðsemisútreikningum að breytingar yrðu á skattalegu umhverfi orkufyrirtækja. Af því leiðir að álögur á aðra notendur munu að líkindum aukast og vill Hitaveita Suðurnesja hf. benda á að með nýjum raforkulögum er nýlega búið að auka álögur verulega sem á aðlögunartíma hafa leitt til um 15% hækkunar raforkuverðs og enn meira þegar fram líða stundir.“

Herra forseti. Hér er enn einu sinni bent á að verið er að auka álögur á almenning með öllum þeim breytingum sem gerðar hafa verið og boðaðar eru. Allt fellur þetta því að því sama, þessir merkilegu stjórnarflokkar sem mynda meiri hluta á Alþingi og guma af því að þeir séu sérstakir skattalækkunarflokkar og hafa boðað það í aðdraganda kosninga, hafa komið reglulega inn í þingsali með frumvörp um ákveðnar breytingar á sköttum og hafa eiginlega aldrei vakið athygli nema á annarri hlið þeirra mála, þ.e. þegar þeir hafa boðað einhverjar lækkanir hafa þeir ætíð fylgt því eftir með hækkunum á víð og dreif. Ekki nóg með það, herra forseti, heldur hefur verið á það bent og ég geri ráð fyrir að ekki verði erfitt að benda á það á þessu ári að enn eru hækkanirnar miklu meiri en lækkanirnar. Þessi hækkun nú mun auðvitað bætast í það mikla safn. Þeir stjórnmálaflokkar sem hér mynda meiri hluta og gera ítrekaðar tilraunir til að koma þeim skilaboðum til almennings að þeir séu sérstakir skattalækkunarflokkar, sem þeir eru að vísu til ákveðinna hópa og hafa staðið sig býsna vel í að lækka skatta á þeim sem hafa það hvað best í samfélaginu, eru óvart skattahækkunarflokkar og það er auðvitað sérstaklega athyglisvert í ljósi margra loforða sem gefin voru fyrir síðustu alþingiskosningar.

Herra forseti. Það hefur nokkrum sinnum verið farið yfir þau mál í þingsal og ég geri ráð fyrir að endurtaka þurfi þau áður en þetta ár er úti. Ég ætla ekki að taka þann kafla í kvöld en verði ástæða til þess er auðvitað hægt að gera það í þessari umræðu því að enn á ég eftir aðra ræðu og enn eigum við eftir að ræða frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja. Það gefst því væntanlega tækifæri til að fara betur yfir málið, verði ástæða til þess.

Ég vona, herra forseti, og það verða lokaorð mín, að sú umræða sem átt hefur sér stað eftir að hv. þingmaður, formaður iðnaðarnefndar, mælti hér fyrr í dag verði þó til þess að a.m.k. sá hv. þingmaður hafi fengið töluvert af upplýsingum í umræðunni þannig að væntanlega verða röksemdir hans öðruvísi en þær voru í dag.



[23:32]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað af mikilli gerhygli á ræðu hv. þingmanns sem hefur nú staðið alllengi. Eftir því sem á ræðu hans leið verð ég að játa að mér varð æ órórra vegna þess að ég gat ekki heyrt betur en að hv. þingmaður væri að mæla gegn frumvarpi sem hann sjálfur skrifar hér upp á.

Sannleikurinn er sá að hv. þingmaður las hér upp úr alls konar umsögnum til að gera þetta þingmál allt sem tortryggilegast. Að minnsta kosti hlýt ég, virðulegi forseti, að álykta sem svo að ræða hv. þingmanns hafi fjallað um þetta þingmál, eða getur verið að fliss hans hér hafi gefið til kynna að hann hafi verið að fjalla hér um eitthvert annað mál? Hv. þingmaður notaði sínar mörgu mínútur til að tala gegn frumvarpi sem hann mælir hér sjálfur með. Hér kemur fram í nefndaráliti iðnaðarnefndar sem hv. þingmaður stendur að, með fyrirvara þó án þess að geta um nokkrar breytingartillögur, að hv. þingmaður leggi til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Síðan fylgir hann eftir því sjónarmiði sínu, að málinu skuli siglt til hafnar, með þeim hætti að allur málflutningur hans miðar í rauninni að því að tala gegn frumvarpinu. Ég spyr, virðulegi forseti: Hafa nokkur mistök átt sér stað? Getur verið að það hafi gerst, virðulegi forseti, án þess að öðrum þingmönnum hafi verið gerð grein fyrir því, að annað mál sé hér til umræðu, t.d. frumvarpið um skattskyldu orkufyrirtækja sem hefur orðið dálítið tilefni til umræðu í dag og í kvöld? Getur verið að hv. þingmaður hafi einhverra hluta vegna misskilið að það sé þetta dagskrárefni sem átti að ræða, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði? Getur verið að það hafi hent hv. þingmann, þrátt fyrir sína miklu gerhygli og góðu reynslu og mikinn vilja til að fara efnislega yfir mál, að hafa talað hér í röngu máli, að hann sé að fjalla um allt annað frumvarp en það (Forseti hringir.) sem hér er til umræðu og hér er á dagskrá og (Forseti hringir.) hv. þingmaður er í raun og veru að mælast til að verði samþykkt í nefndaráliti sem hann skrifar upp á?



[23:35]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki hissa á því að hv. þingmanni sé nokkuð órótt. Það er auðvitað eðlilegt. Hv. þingmaður hefur farið mikinn, m.a. gefið til kynna að þau mistök sem gerð voru með raforkulögunum og allar þær hækkanir sem fylgdu þeim, sérstaklega í kringum heimabyggð hans á Vestfjörðum, verði auðvitað ekki liðin og þetta muni allt saman verða lagfært, en það bólar nú ekkert á því.

Ég er hér með merka úrklippu úr viðtali við hv. þingmann þar sem þetta kemur allt mjög glögglega fram. Hann gefur auðvitað til kynna að þetta verði ekki liðið og þessu verði öllu breytt. Viðtalið er frá 25. janúar árið 2005. Það er komið fram í maímánuð og ekkert bólar á einu eða neinu. Það er því afskaplega skiljanlegt að hv. þingmaður vilji dreifa þessu máli í allt aðrar áttir og að menn fjalli ekki um það sem meginmáli skiptir.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við hv. þingmenn, ég og Jóhann Ársælsson, skrifum undir frumvarpið sem hér er til umræðu með fyrirvara. Hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði ágætlega grein fyrir því fyrr í dag. Ég gerði hins vegar grein fyrir því í byrjun ræðu minnar af hverju nauðsynlegt væri að fara örlítið víðar en eingöngu um þetta frumvarp. Fyrirvari okkar var auðvitað sá að ef svo ólíklega vildi til að frumvarpið um lög um skattheimtu orkufyrirtækja færi í gegn — við treystum því hins vegar að ýmsir galvaskir hv. þingmenn af landsbyggðinni sem vakið hafa sérstaka athygli á því hve illa hefur farið á ýmsum sviðum mundu kannski reyna að koma í veg fyrir það — en ef svo ólíklega vill til verður auðvitað að samþykkja hitt frumvarpið, þannig að fyrirvari okkar var afskaplega einfaldur. Hv. þingmaður, formaður iðnaðarnefndar, gaf ástæðu til þess að við færum svolítið víðar yfir þetta mál og gerð var fyllilega grein fyrir því í inngangi ræðu minnar hvernig á því stæði að menn þyrftu að taka þetta svið allt saman fyrir. (Forseti hringir.) En óróleiki hv. þingmanns er mér ekkert undrunarefni.



[23:37]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var einstaklega skemmtileg röksemdafærsla. Hún gengur út á það að ef frumvarp sem hv. þingmaður er á móti verði samþykkt, þá ætli hann í öryggisskyni, til þess að setja á sig bæði axlabönd og belti, að samþykkja allt annað frumvarp (Gripið fram í.) í trausti þess að frumvarpið sem hann er á móti verði samþykkt. Þetta er í raun og veru röksemdafærsla hv. þingmanns.

Ég hélt satt að segja eitt andartak að ég hefði verið að misskilja eitthvað en hv. þingmaður var svo skýrmæltur í þessum efnum að það liggur alveg fyrir að hv. þingmaður var einfaldlega að segja: Ég er algjörlega á móti hinu frumvarpinu sem liggur hér fyrir sem er forsenda þess að eitthvert vit sé í því að samþykkja þetta sem hér liggur fyrir. Engu að síður ætla ég samt sem áður að samþykkja frumvarp sem síðan leiðir af því frumvarpi sem ég er algjörlega á móti.

Þetta er, virðulegi forseti, hryggjarstykkið í málflutningi hv. þingmanns sem hann segir að sé sjónarmið Samfylkingarinnar í þessum efnum. Hv. þingmaður er með öðrum orðum kominn svo gjörsamlega í hring og í gegnum klofið á sjálfum sér í þessu máli að ég held að ég hafi aldrei séð aðra eins pólitíska loftfimleika og hv. þingmaður fór í gegnum núna í kvöld.

Þetta er auðvitað undarlegt vegna þess að hv. þingmaður hafði drjúgan tíma — mér sýndist á klukkunni að hann hefði talað í 50 mínútur — til að gera grein fyrir málflutningi sínum. Hann hefur dregið hann saman í stuttu máli og er ágætt fyrir fólk að átta sig á því að hann er að mæla með samþykkt frumvarps, hann talar að vísu gegn því í umræðunni, sem byggir á því að samþykkt verði frumvarp sem hann er sjálfur á móti. Það er kjarni málsins. Ég geri ráð fyrir að það geti tekið dálítið langan tíma og það kannski skýrir að hv. þingmaður er 50 mínútur að gera grein fyrir því af hverju hann talar gegn frumvarpi sem hann skrifar sjálfur upp á og mælir með að verði samþykkt.



[23:39]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert skrýtið þó að hv. þingmaður vilji ekki skilja þetta mál. Hann er ekki vanur því að menn reyni að liðka fyrir þingstörfum eins og við gerum gjarnan í stjórnarandstöðunni en það þekkja menn ekki ýmsir í stjórnarliðinu, þ.e. með því að afgreiða þetta mál, sem við töldum þó ekki tímabært út af fyrir sig, úr nefndinni. Við vildum ekki gera það að verulegum ágreiningi en höfðum fyrirvara á nefndarálitinu eins og ég sagði áðan.

Óróleiki hv. þingmanns er auðvitað af allt öðrum ástæðum eins og ég vék að áðan. En bara til að menn geti glöggvað sig á hvað það er sem veldur óróleika hv. þingmanns þá segir hér í því merka viðtali sem ég vitnaði til áðan frá 25. janúar á þessu ári, með leyfi forseta:

„Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segist ekki trúa öðru en að Valgerður Sverrisdóttir kunngeri í umræðum á Alþingi tillögu til að sporna við mikilli hækkun á húshitunarkostnaði á landsbyggðinni. Þingmenn verða að vinda sér í að leysa það vandamál sem upp er komið.“ — Svo er talað hér um hvað þetta þýði og síðan er vitnað orðrétt til hv. þingmanns og þar segir, með leyfi forseta:

„Þetta frumvarp átti sér nokkurn aðdraganda. Sett var á fót 18 manna nefnd til þess að útfæra málið frekar. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka komu að málinu svo og ýmsir hagsmunaaðilar. Það varð þokkaleg sátt um niðurstöðu málsins og eina andstaðan kom frá fulltrúum orkufyrirtækja á þéttbýlissvæðum suðvestanlands sem töldu að þessi skipulagsbreyting mundi leggja auknar byrðar á þau fyrirtæki til þess að halda niðri húshitunarkostnaði á landsbyggðinni.“

Svo segir hér skömmu síðar:

„Einar Kristinn segist ekki treysta sér til þess að tímasetja það hvenær málið verði leyst.“ — Svo segir orðrétt: „Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra mun flytja á þingi á fimmtudag skýrslu um málið og ég trúi ekki öðru en að í þeim umræðum verði kunngerðar tillögur í málinu. Það sjá allir að þetta getur ekki gengið. Við getum ekki unað því að verðhækkanir upp á kannski 45% nái fram að ganga. Það eru aðilar sem eru að fá verðlækkanir, sérstaklega atvinnufyrirtæki.“ (Forseti hringir.) — Og svo áfram.

Herra forseti. Ég held að þetta skýri fyllilega óróleika hv. þingmanns.



[23:42]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúinn til þess að kveðja mér hljóðs um fundarstjórn forseta eftir að hafa hlýtt á ræður og andsvör þeirra sem hér voru á undan því að mér virðist á þessum tímapunkti, þar sem við erum að nálgast miðnætti, að menn séu óvissir um hvaða mál sé á dagskrá. Þannig er fyrir komið í þinginu að menn deila um hvaða mál sé á dagskrá og hvers konar ræður séu fluttar. Ég held að það sé orðið mikilvægt, virðulegi forseti, að við reynum að ná betur utan um dagskrána, förum vandlega yfir hana og reynum að átta okkur á hvert við ætlum að halda héðan.

Þá verð ég að segja það einnig eftir að hafa hlýtt á þessa umræðu og kannski ekki síst formann iðnaðarnefndar, hv. þm. Birki Jón Jónsson, sem ekki er lengur í húsinu, þegar hann lýsti því yfir í ræðu sinni að frumvarpið sem við ræðum og þau frumvörp sem hér eru til meðferðar muni ekki hafa áhrif á ríkissjóð næstu 7–10 árin, að við hv. þingmenn hljótum að spyrja: Hvað liggur þá á að ræða þetta mál inn í nóttina, inn í myrkrið á þessum vordögum sem nú eru að ganga í garð?

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, er ekki síður ástæða til að vekja á því sérstaka eftirtekt að í húsinu er ekki lengur nokkur fulltrúi ríkisstjórnarinnar — þá á ég við hvorki formaður iðnaðarnefndar né hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra — til þess að svara þeim spurningum sem vakna í umræðunni. Því hlýt ég að hvetja hæstv. forseta til að skoða það mjög vandlega þar sem þessi umræða hefur staðið í um sjö klukkustundir eða svo hvort ástæða sé til að halda henni mikið lengur áfram. Spurningin er náttúrlega sú hvort áframhaldandi umræða muni upplýsa málið frekar en orðið er, a.m.k. á meðan enginn fulltrúi hv. iðnaðarnefndar eða hæstv. viðskiptaráðherra er á staðnum til að svara þeim spurningum sem vakna.

Ég vil því hvetja virðulegan forseta til að hugleiða það mjög vandlega hvort ekki sé kominn tími á það að við ljúkum þessum fundi og getum þá mætt snemma í fyrramálið til að halda umræðunni áfram og þá í þeirri von að þeim fjölmörgu spurningum sem hér hefur verið vakið máls á verði svarað. Það er vitaskuld tilgangslaust að stjórnarandstaðan haldi umræðunni áfram út í hið óendanlega ef engin verða svörin og engar verða skýringarnar aðrar en þær að þessi frumvörp muni ekki hafa nein áhrif næstu 7–10 árin. Við stöndum hér í pontu í þingsal klukkutíma eftir klukkutíma og fáum engin skilaboð um hvert skuli haldið.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að við látum hér staðar numið þannig að menn komi vel úthvíldir og hressir til frekari umræðu á morgun og hvet hæstv. forseta til að skoða þessar hugmyndir mjög vandlega.



[23:45]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Í tilefni af orðum hv. þingmanns vill forseti geta þess að hér hefur verið og er við umræðuna framsögumaður meiri hluta iðnaðarnefndar sem mælti fyrir nefndaráliti meiri hlutans, hv. þm. Kjartan Ólafsson. Hv. formaður iðnaðarnefndar fór heim fyrir nokkru vegna veikinda. Hæstv. iðnaðarráðherra er kunnugt um að þessi umræða er í gangi þannig að þeim skilaboðum hefur verið komið á framfæri.



[23:45]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni Lúðvík Bergvinssyni og leggja til að við gerum hlé að þessari umræðu. Hún hefur staðið í alllangan tíma og ljóst er að henni er hvergi nærri lokið. Það eru sjö þingmenn á mælendaskrá. Þá vil ég minna á að óskað hefur verið eftir viðveru hæstv. ráðherra, iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur, við þessa umræðu en það bólar hvergi á ráðherranum. En ég skil mætavel að ríkisstjórnin vilji helst láta afgreiða þetta mál í kyrrþey og með sem minnstri sýnilegri umræðu.

Það má heita undarlegt hversu litla umfjöllun þetta mál hefur fengið í fjölmiðlum landsins miðað við hversu grafalvarlegt mál er á ferðinni. Staðreyndin er sú að öll helstu samtök launafólks á Íslandi hafa ályktað gegn frumvarpinu og varað við því. Öll sveitarfélögin í landinu og samtök þeirra vara við þessu frumvarpi. Almannasamtök vara almennt við þessu frumvarpi. Orkufyrirtækin vara einnig við þessu frumvarpi og segja okkur hverjar afleiðingar það muni hafa með hækkandi raforkuverði sem muni fyrst og fremst bitna á almennum neytendum. Eins og við þekkjum er stóriðjan öll í bómull ríkisstjórnarinnar.

Það er þessum aðilum sem hæstv. iðnaðarráðherra, sem er helstu ábyrgðaraðili fyrir þessu frumvarpi með fullri virðingu fyrir formanni og varaformanni iðnaðarnefndar sem hafa verið við umræðuna, sem hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir sýnir vanvirðu með því að vera ekki við umræðuna. Þessi samtök álykta öll gegn frumvarpinu og færa ítarleg rök fyrir máli sínu en hæstv. ráðherra sér ekki ástæðu til að vera viðstödd umræðuna, hvað þá að svara þeirri gagnrýni sem fram er komin.

Hæstv. forseti. Ég ítreka að ég tek undir með hv. þingmanni Lúðvíki Bergvinssyni. Ég tel hyggilegt að láta staðar numið. Klukkan er að nálgast tólf. Það hefur verið boðað til fundar í nefndum þingsins í fyrramálið. Nefndarfundir hófust snemma í morgun. Ég held að hyggilegt væri, líka af þeim ástæðum, að gera hlé á þessum fundi nú. Það eru heppilegri og skynsamlegri vinnubrögð í þinginu að gera svo, fyrir utan þá grófu fyrirlitningu sem hæstv. ráðherra sýnir þinginu (Forseti hringir.) og umsagnaraðilum með því að vera ekki viðstödd umræður um þetta þingmál.



[23:49]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að víkja að vinnulaginu sem nú er notast við. Menn voru flestir á nefndafundum í morgun, hygg ég, um hálfníu. Ef ég veit rétt þá er boðaður fundur í fyrramálið í samgöngunefnd, menntamálanefnd og landbúnaðarnefnd klukkan 8.30.

Umræðan hefur staðið síðan hálfellefu í morgun, erum komin á fjórtánda tímann, hæstv. forseti, og farið að nálgast miðnætti. Mér hefði fundist eðlilegri vinnubrögð að fara að huga að því, og vil mælast til þess við hæstv. forseta að svo verði gert, hvort ekki væri rétt að fara að ljúka þessum fundi, miðað við þá vinnu sem á að leysa af hendi í fyrramálið og þá síðar um daginn. Ég held að það væri rétt, virðulegu forseti.

Ég verð líka að taka undir þær óskir og ábendingar sem hér hafa komið fram, að það er náttúrlega nokkuð sérstakt að haga umræðunni þannig um svo mikið álitamál eins og við erum hér að ræða en ráðherra málaflokksins, raforkumálanna í heild sinni, hæstv. iðnaðarráðherra, láti ekki svo lítið að vera við umræðuna, jafnvel þótt óskað hafi verið eftir því. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort ekki hafi verið komin boð til iðnaðarráðherra um að mæta til umræðunnar. Ég veit að það hafa komið fram óskir um það. Eftir því sem ég best veit var iðnaðarráðherra fyrr í kvöld ekki mjög langt héðan, í Iðnó. Það ætti því varla að vera ofverkið að láta hana vita að menn hafi óskað eftir nærveru hennar.

Ég tel nauðsynlegt að fjalla nánar um málið í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram um þær afleiðingar sem geta orðið af slíkri lagasetningu, m.a. þeim að orkuverð hækki enn í landinu umfram það sem þegar er orðið. Sú hækkun kom ýmsum á óvart á sínum tíma og nú á þetta að bætast við. Miðað við allar viðvaranir sem samtök sem gáfu umsögn um þetta mál, sveitarfélög og orkufyrirtæki, þá held ég að stjórnarflokkarnir hljóti að taka mark á því, þótt þeir taki ekki mikið mark á okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar í þessu máli og láti ekki svo lítið að reyna að svara neinum af spurningum okkar.



[23:52]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill í tilefni af ummælum hv. þingmanns ítreka að boðum hefur verið komið til hæstv. iðnaðarráðherra um að eftir nærveru hennar hafi verið óskað við þessa umræðu.



[23:52]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Varðandi það að boðum hafi verið komið til hæstv. iðnaðarráðherra þá er það gott og vel. En nú er líklega liðin um klukkustund eða svo frá því ég setti þá ósk fram úr ræðustóli, að hæstv. ráðherra yrði kvaddur til umræðunnar ef ætlunin væri að halda henni eitthvað áfram. Það er auðvitað ekki nema hálf sagan sögð, að hæstv. ráðherra hafi verið gert viðvart um að nærveru hennar sé óskað. Ef ráðherra verður ekki við því að koma til umræðunnar þá er bara eitt að gera, þ.e. að fresta umræðunni. Það er algild þingvenja, að ef ráðherrar hafa ekki það við að reyna að greiða götu mála sinna í gegnum þingið, sérstaklega á síðustu dögum, þá þurfi ekki að vorkenna þeim varðandi það hvað verður um þeirra mál. Þeir hafa ekki við neina nema sjálfa sig að sakast ef þeir láta ekki svo lítið sem að sýna sig í þingsal. Þeir eiga auðvitað að sinna þingskyldum sínum eins og aðrir háttvirtir þingmenn.

Ég setti þessa ósk m.a. fram vegna þess að þegar við ræddum þetta mál og tengd mál fyrir nokkrum dögum, rúmri viku síðan, þá var hæstv. iðnaðarráðherra ekki til staðar til þess að eiga mætti við hana skoðanaskipti um þetta stóra mál, skattlagningu orkufyrirtækja og breytingar á ýmsum lögum sem því tengjast. Mér er þetta mjög í minni vegna þess að ég óskaði eftir ráðherranum úr þessum ræðustól og fékk gulan miða í pontuna með fallegri rithönd hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur þar sem hún upplýsti mig um að iðnaðarráðherra væri því miður erlendis og væri með fjarvist. Ég lét mér það lynda, geymdi miðann svona til öryggis og hugsaði: Nú, gott og vel.

En það getur ekki gengið að allur þessi stóri málapakki sem varðar skattlagningu orkufyrirtækja og breytingar á lögum sem honum tengjast fari í gegnum þingið, bæði við 2. og 3. umræðu, án þess að hæstv. ráðherra láti sjá sig. Það gengur ekki.

Varðandi hitt málið, fylgimálið sem er næst á dagskrá, þá gæti hæstv. ráðherra væntanlega vísað til þess að það sé flutt af hæstv. fjármálaráðherra og hafi verið til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd en það á ekki við um þetta mál. Þetta mál varðar hreint og klárt hæstv. iðnaðarráðherra, er bandormur sem varðar breytingar á ýmsum lögum á orkusviði. Það er þess vegna málefnaleg og vel rökstudd krafa sem allar hefðir mæla með að orðið sé við að þessari umræðu sé ekki fram haldið og verði ekki lokið án þess að hæstv. ráðherra sé viðstaddur.

Með fullri virðingu fyrir framsögumanni iðnaðarnefndar sem hér hljóp í skarðið, hv. þm. Kjartani Ólafssyni, þá er nú mannfallið þvílíkt að framsögumaður á nefndaráliti er titlaður varaformaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hann er fjarri góðu gamni, mjög fjarri góðu gamni. (Gripið fram í.) Formaður (Forseti hringir.) iðnaðarnefndar er skriðinn heim lasinn þannig að þetta mannfall meiri hlutans (Forseti hringir.) leiðir sjálfkrafa til þess, að mínu mati, forseti, að við ættum að segja þetta gott í bili.



[23:56]
Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að taka undir það að hæstv. iðnaðarráðherra ætti að mæta til að ræða þessi mál og í raun og veru bæði málin. Þau eru í raun og veru bæði á hans forræði. Þótt það heiti ekki svo að forminu til þá er þetta allt saman tengt þeirri breytingu á raforkusviðinu sem við höfum verið að fjalla um fyrr. Það málefni sem er nú er til umræðu er miklu frekar fylgifrumvarp síðara málsins sem á að ræða á eftir. Kannski hefði verið eðlilegt að menn hefðu rætt þessi mál saman og að hér hefðu þá verið mættir þeir sem til svara ættu að vera, þ.e. hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra einnig, vegna skattamálanna sem hér eru á ferðinni. En þannig er því ekki háttað.

Eins og kom fram áðan eru líka fjarri þeir sem ættu að svara fyrir afgreiðslu málsins úr nefnd, bæði formaður iðnaðarnefndar og varaformaður nefndarinnar, eru fjarri góðu gamni. Ég held þess vegna að nokkur rök séu fyrir því að menn haldi ekki mikið lengur áfram með þá umræðu sem hér fer fram né að taka til umræðu næsta mál á dagskránni í framhaldi af þessu, sem er engan veginn fyrirsjáanlegt því að nokkrir eru enn á mælendaskrá í þessu máli og þá er hitt málið eftir til umræðunnar. Það er þó að mörgu leyti miklu flóknara og viðameira. Þar eru breytingar á lögum á ferðinni en í því máli sem nú er til umræðu er brottfall laga alfarið á dagskránni en það fylgir þá hinu frumvarpinu.

Mér finnst tími til kominn að menn setji botninn í þessa umræðu og finni sér þann tíma sem hentar hæstv. ráðherra eða öðrum þeim sem hér ættu að vera við umræðuna.

Ég sé ástæðu til þess að nefna það, vegna þeirrar umræðu sem fram fór á undan í síðustu ræðum, en hv. þm. Einar Guðfinnsson gerði mikið úr því að afstaða okkar væri undarleg í þessu máli, að við skyldum hafa samþykkt að afgreiða það út úr nefndinni. Það segir ekkert um það að við styðjum málið heldur fyrst og fremst að ef það mál sem á að ræða hér við 3. umr. á eftir þessu máli fer í gegnum þingið þá eru engin rök fyrir öðru en því að þetta mál fái afgreiðslu í þinginu.



[23:59]
Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hafa menn velt því fyrir sér hvort það mundi gera umræðunni gagn eða yrði til að upplýsa hana frekar að halda þessari umræðu áfram. Mitt svar er: Já, ég er sannfærður um það, þegar ég horfi yfir þann glæsilega hóp sem á eftir að tala hér á eftir, að þegar maður verður búinn að hlýða á þær umræður, sem verða kannski eitthvað fram eftir kvöldi og kannski eitthvað fram yfir miðnættið úr þessu, þá við verðum miklu betur upplýst um þetta mikla mál. Þess vegna væri að mínu mati, virðulegi forseti, langheppilegast að við mundum komast að þeirri spaklegu niðurstöðu að hætta að ræða um formið og taka til við að fjalla um efnisatriði málsins að nýju, þannig að við sem hlýðum á en hyggjumst ekki taka þátt í umræðunni getum orðið ögn betur upplýst um það sem hér er um að ræða.

Ég held að það væri ekkert ofverkið okkar að halda því áfram núna fram eftir nóttunni vegna þess að þetta er mál af því taginu sem við höfum verið að ræða hér núna lengi dags. Því væri æskilegt að hafa samfellu í umræðunni þannig að við sæjum svona yfir allt sviðið, fyrir nú utan það að þetta er líka ákveðin aðferð við það að greiða fyrir umræðunni um hitt stóra málið, (Gripið fram í.) skattskyldu orkufyrirtækja. Okkur sem höfum hlustað á umræðuna í dag er ljóst að búið er að fara nokkuð um sviðið í þessum efnum. Það er búið að auðvelda þetta. Þetta er eins konar undanfari eins og talað er um stundum varðandi skíðin. Nú er því miklu auðveldara að fást við umræðuna um hitt málið. Við erum einfaldlega búin að taka úr okkur töluverðan hroll í málinu.

Ég hvet því til þess, virðulegi forseti, að við höldum einfaldlega áfram fram eftir. Eins og við þekkjum sem setið höfum fáein ár á þingi þá er það nú yfirleitt þannig þegar fer að líða nær þinglokum að þá eru haldnir kvöldfundir. Ég held að þetta sé sá fyrsti sem við höfum haldið í þessari lotu og ekkert er við því að gera að við höldum aðeins lengur áfram og tökum til við þetta mál.

Málið hefur verið afgreitt út úr nefndinni í góðu samkomulagi. Hér er um að ræða einróma samþykkt iðnaðarnefndar á málinu. Að vísu eru fyrirvarar þriggja hv. þingmanna. En engir þingmenn lýsa sig andvíga þessu frumvarpi þannig að það á að vera hægt að ljúka þessari umræðu í prýðilegri sátt. Þeir þingmenn sem ég veit að vilja auka við umræðuna með því að halda fáeinar ræður til viðbótar mundu auðvitað gera okkur hinum mikinn greiða með því að þær ræður yrðu nú haldnar og við upplýst um þetta mál.

Það er alveg rétt sem að ... (Gripið fram í.) Ég játa í svari mínu við spurningunni sem borin var fram hér nokkrum sinnum í umræðunni, þ.e.: Mun það upplýsa betur umræðuna að hún haldi núna áfram? Já, það mundi gera það og þess vegna eigum við auðvitað að halda þessari umræðu nú tafarlaust áfram.



[00:02]
Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við höfum rætt hér frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum á orkusviði. Þetta er grundvallarbreyting á þeirri lagaumgjörð sem orkuveiturnar hafa unnið eftir. Mjög skiptar skoðanir eru um ágæti þessara breytinga og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum reyndar þeim mjög andvígir. Þó höfum við varpað fram ákveðnum spurningum. Ég hef borið upp hér beinar spurningar sem lúta að efnisatriðum þessa frumvarps um áhrif á einstakar hitaveitur og rafveitur sem lögin taka til, bæði í nútíð og til lengri tíma. Ég hef ekki fengið svör við þeim enda er kannski bara á valdi ráðherrans að geta svarað þessum spurningum.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur forsjá á þessu máli og þó það hafi komið til þingnefndar — ég er ekki að gera lítið úr hv. nefndarmönnum iðnaðarnefndar — þá eru þarna engu að síður atriði sem hafa grundvallarþýðingu. Því er á engan hátt hægt að ljúka þessari umræðu án þess að ráðherra komi og svari þeim spurningum sem ég hef borið fram.

Hitt frumvarpið sem lýtur að breytingu á skattskyldu orkufyrirtækja er á forræði fjármálaráðherra. Það er eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra verði viðstaddur þá umræðu líka. En núna erum við að ræða lög sem eru á forræði iðnaðarráðherra og þess vegna fer ég fram á það, herra forseti, að þessari umræðu verði frestað ellegar að iðnaðarráðherra mæti hér til að svara. Hins vegar tel ég rétt að málinu verði frestað til morguns þannig að þá verði hægt að fá svör frá iðnaðarráðherra við þeim spurningum sem hérna hafa verið bornar fram. Það er alveg lágmark. Þetta er mjög alvarlegt mál, þ.e. að breyta lögum um margar hitaveitur og rafveitur og er afdrifaríkt fyrir framtíðina. (Forseti hringir.) Þess vegna er í hæsta máta eðlilegt að iðnaðarráðherra verði hér (Forseti hringir.) til svara áður en umræðunni lýkur.



[00:06]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa nokkurri undrun minni á þeim starfsháttum sem forseti stendur hér fyrir í þinginu í kvöld. Það er núna, trúi ég, þrettán og hálf klukkustund síðan settur var fundur í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun. Ég verð að segja að lengri starfsdagur er vart boðlegur nokkrum þingmanni en þrettán og hálf stund við umfjöllun um alvarleg og mikilvæg mál þar sem gerhygli, svo notuð séu orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, er nauðsyn hverjum þingmanni og varla boðlegt að halda þessum fundi miklu lengur áfram, einkum þegar til þess er horft að boðað er til funda í þremur þingnefndum í fyrramálið klukkan hálfníu eða að átta stundum liðnum. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt fyrir okkur sem störfum í þessum sal að háttvirtur forseti, virðulegur forseti, geri okkur grein fyrir því hversu langan starfsdag við eigum hér fyrir höndum, hvort það er ein klukkustund eða tvær eða þrjár eða fjórar eða fimm, eða hvenær umræðu ljúki hér.

Hér hefur sömuleiðis eðlilega verið kallað eftir því að ýmsir hv. þingmenn séu viðstaddir umræðuna, m.a. hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir sem hér er því miður fjarri góðu gamni. Ég verð þó nokkuð að auka á þann lista, virðulegur forseti, því ég er að koma af fundi í borgarstjórn Reykjavíkur. Í borgarstjórn Reykjavíkur kom það í ljós við umræðu um þetta sama mál og hér er á dagskránni að aðeins tveir borgarfulltrúar í Reykjavík, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason, styðja þetta frumvarp. En gervallur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er algerlega andvígur þeim svívirðilegu skattaálögum sem hér er verið að leiða inn á Reykvíkinga enda hafa sjálfstæðismenn í Reykjavík gjarnan staðið dyggan vörð um að Hitaveitan í Reykjavík verði ekki skattlögð og notendur hennar í landssjóð sérstaklega umfram aðra starfsemi.

Ég hlýt að kalla eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason sé hér viðstaddur umræðuna og geri grein fyrir sínum sjónarmiðum og þá ekki síður hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem jafnframt er stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur og hefur sem slíkur undirgengist þá skyldu að gæta hagsmuna Orkuveitu Reykjavíkur í hvívetna, en hefur hér við atkvæðagreiðslu greitt sérstaklega atkvæði með því að skattleggja skuli fyrirtækið um verulegar fjárhæðir sem óhjákvæmilega munu bitna á borgurum í Reykjavík.

Ég kalla eftir því, virðulegur forseti, ef ætlunin er svo fráleit að halda hér áfram umræðunni fram á nótt, (Forseti hringir.) að þessir tveir hv. þingmenn verði kallaðir hér (Forseti hringir.) til umræðunnar og þeim gert viðvart um að þeirra sé hér óskað.



[00:09]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er nokkuð hissa á því að þú verðir ekki við ósk okkar um að fresta fundi.

(Forseti (BÁ): Forseti.)

Já, ég er steinhissa á því að forseti verði ekki við ósk okkar og svari því ekki hversu lengi eigi að halda fundi hér áfram. Mér finnst það bara virðingarleysi við okkur hv. þingmenn að því er ekki svarað hvað þingfundur á að standa hér lengi yfir.

Í öðru lagi er ég steinhissa á því að formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins skuli koma hér upp og taka ekki undir ósk okkar. Hvers vegna er það nú? Jú, það hefur komið fram í umræðunni. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson upplýsti hér að hv. þingmaður, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hafi skrifað merka grein eða verið í viðtali hjá BB þar sem hann segist nú ætla aldeilis að taka á málum og krefja hæstv. iðnaðarráðherra svara. Síðan þegar hann kemur hingað þá virðist hann frekar ganga erinda þess að málið verði afgreitt þannig að hæstv. iðnaðarráðherra svari ekki neinu. Og það er með ólíkindum að hæstv. iðnaðarráðherra sjái ekki sóma sinn í því þegar hér er verið að ræða hennar hjartans mál, að koma á breyttu skipulagi í raforkumálum, að koma hér og útskýra hag þjóðarinnar af því að hér eigi að hækka rafmagnið, hækka álögur á landsmenn. Hvað hefur hæstv. ráðherra að fela? Hvers vegna er hún ekki hér og útskýrir það fyrir þjóðinni? Ég get sagt það að fólk bíður eftir því að fá svör. Það óskar eftir að því verði svarað hvers vegna verið sé að hækka álögur á rafmagnið. Það botnar ekkert í þessu.

Þessari umræðu er framhaldið vegna þess að hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni fá engin svör, herra forseti. Þess vegna er skynsamlegt að fresta umræðunni þannig að það fáist svör, að menn séu ekki hér að tala út í tómið.

Mér finnst það eðlileg krafa og virðing við fólkið í landinu sem fær reikninginn frá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, að það fái einhver svör frá hæstv. ráðherra í stað þess að fá þögnina eina. Ég tel að ráðherrar sem haga sér svona séu í rauninni ekki að þjóna hag fólksins. Ég óska eftir því að þeir komi hér hreint fram og svari því hverra erinda þeir ganga með því háttalagi sínu að svara ekki fyrirspurnum um hækkaða rafmagnsreikninga sem Framsóknarflokkurinn er að senda inn um lúgur landsmanna. Það væri óskandi að hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins greindi okkur nú frá því (Forseti hringir.) hvað það er sem breytir skyndilega afstöðu hans þannig að hann vilji nú (Forseti hringir.) bara hlaupa í gegnum umræðuna án þess að fá nokkur svör. (Forseti hringir.)



[00:13]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hóf þessa umræðu fyrir nokkru síðan þegar ég reyndi að kalla fram viðhorf hæstv. forseta til þess hvort og hvernig hann hygðist halda þessum fundi áfram. Mér þætti óskaplega vænt um ef hæstv. forseti gæti upplýst okkur um hvaða hugmyndir hann hefur um áframhald þessa fundar?

(Forseti (BÁ): Forseti vill geta þess að hann hefur í hyggju að fylgjast aðeins með framvindu umræðunnar til þess að meta það hversu lengi verður haldið áfram hér í nótt og kannski er fullsnemmt að segja um það akkúrat á þessari stundu.)

Virðulegi forseti. Ég get vel skilið að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vilji leiða þessa umræðu inn í nóttina. Hann ræddi um að menn skyldu halda áfram efnisumræðu en tala ekki um formið. Hins vegar skiptir umgjörðin máli vegna þess að þau rök sem við höfum fengið fyrir því að þessi mál eru keyrð áfram eru þess eðlis að við höfum vakið upp spurningar, en engin hafa verið svörin, og kannski ekki síst vegna þess að umgjörð umræðunnar er þannig að þeir sem helst búa yfir svörunum eru ekki viðstaddir umræðuna.

Við hljótum að velta því fyrir okkur að ein grunnsjónarmiðin sem búa að baki þeim hugmyndum sem við hér ræðum eru samkeppni á þessu sviði. En stór hluti þess rekstrar sem nú á að skattleggja byggir á einkaleyfum þannig að enginn er samkeppnin. Hér er einnig um það að ræða að öll helstu samtök launafólks, neytendasamtök, fulltrúar orkufyrirtækjanna og fleiri, mæla gegn þessum álögum. Hér erum við að tala um að hita- og orkureikningar landsmanna og vatnsreikningar hækki — að mati orkufyrirtækjanna, nota bene, því að ríkisstjórnin hefur ekki látið fara fram neitt mat á því hvaða afleiðingar þetta hafi í för með sér — fyrirtækin meta þetta þannig að þetta sé 10–15% hækkun á öll heimili í landinu.

Mér finnst ekkert óeðlilegt að við köllum eftir viðhorfum, sjónarmiðum og rökum fyrir því að fara þessa leið. Þau rök sem er að finna í greinargerðinni og komið hafa fram í umræðunni halda einfaldlega ekki. Við hljótum að halda áfram að kalla eftir upplýsingum sem gera það að verkum að við getum rætt málið á þeim nótum að við áttum okkur á því hvað býr að baki.

Mér finnast, virðulegi forseti, öll rök sem við höfum sett fram hníga að því, það eru málefnaleg sjónarmið, að það sé tilgangslaust að halda umræðunni áfram fyrr en við fáum hv. þingmenn í salinn til að veita okkur svör við þessu. Annars erum við bara, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að tala út í nóttina án þess að upplýsa neitt í umræðunni. Til þess fer umræðan fram að við getum orðið upplýst um mál og til að hv. þingmenn geti tekið afstöðu á grundvelli samvisku sinnar.



[00:16]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um eins konar bandorm um breytingar á raforkulögum, sem er fylgifrumvarp við stjórnarfrumvarp sem gerir ráð fyrir skattlagningu á raforkufyrirtækin í landinu, mjög umdeilt frumvarp sem hefur mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Sá ágæti maður, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, kvaddi sér hljóðs fyrir stundu til að gera lítið úr þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hann telur sig í stöðu til þess, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans, að senda háðsglósur til stjórnarandstöðunnar. Hann segir að hér sé mikið mannval og að farið hafi fram geysilega fróðleg umræða í dag og um að gera að halda áfram inn í nóttina. (EKG: Er það háð?) Þetta er háð, já, vegna þess að við í stjórnarandstöðunni höfum óskað eftir því að þeir sem eru ábyrgir fyrir þessu makalausa lagafrumvarpi sem liggur fyrir þinginu komi og svari fyrir sig, svari þeirri gagnrýni sem fram hefur komið.

Ef það þykir ómerkileg umræða af okkar hálfu, sem ég tel ekki vera, þá á hið sama við um þær umsagnir sem Alþingi hafa borist, frá launafólki, heildarsamtökum launafólks, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, frá einstökum sveitarfélögum og frá orkufyrirtækjunum í landinu. Getur verið að ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum finnist þessir aðilar hreinlega ekki svaraverðir og boðlegt að bjóða upp á umræðu að næturlagi á meðan þjóðin sefur, (LB: Það er betra fyrir þá.) að þannig eigi að afgreiða þetta mál?

Ég skil ósköp vel að þeir sem hafa slæma samvisku og telja sig flytja illt mál vilji helst afgreiða þau í kyrrþey. Ef það er svo að stjórn þingsins ætli að fara að vilja stjórnarmeirihlutans í þessu efni og efna til ófriðar í þinginu þá skulu menn hafa ófriðinn vegna þess að okkur er alvara með að óska eftir að hlé verði gert á þessum fundi. Núna.



[00:19]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Helga Hjörvar, að það mætti gera athugasemdir við og velta fyrir sér vinnulaginu á hinu háa Alþingi. Það vill svo til að við vorum að greiða atkvæði um vinnutímatilskipun Evrópusambandsins, breytingar á henni eða viðauka, á fundi fyrr í dag. Þar er talað um 11 klukkustunda lágmarkshvíldartíma á sólarhring, sem Alþingi hefur samþykkt að landsmenn almennt, að vísu með einni eða tveimur skammarlegum undanþágum þar sem eru unglæknar, skuli njóta.

Það er orðið nokkuð sýnt að ef svo heldur fram sem horfir næst það ekki á þessum sólarhring, að þeir þingmenn sem mættu til funda upp úr átta í morgun og eiga að gera það aftur á svipuðum tíma á þeim degi sem nú er byrjaður fá ekki þann lágmarkshvíldartíma.

Vegna ummæla hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, sem stendur í vörninni fyrir stjórnarliðið, þá get ég sagt fyrir mig, af því að ég er ýmsu vanur í umræðum og fundahöldum á þingi, að mér væri ekki að vanbúnaði að ræða þetta mál áfram inn í nóttina að því tilskildu að umgjörð umræðunnar væri sómasamleg. Hún er það ekki. Nú er liðið hátt á aðra klukkustund frá því að óskað var eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra, ábyrgðaraðili þessa máls, kæmi til umræðunnar. Það bólar ekkert á hæstv. iðnaðarráðherra. Það koma einu sinni skilaboð um hvers sé að vænta í þeim efnum.

Hæstv. iðnaðarráðherra er í borginni, hún var hér handan götunnar í kvöld að bjóða upp á veitingar í Iðnó. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig að það sé sjálfgefið að hæstvirtir ráðherrar taki sér sjálfdæmi um hvenær þeir sinni þingskyldum sínum eða verði við óskum um að mæta til umræðu í málum sem þeir bera ábyrgð á. Svo lengi sem ég verð á þingi mun a.m.k. ég reyna að halda uppi þeirri hefð að ráðherrar standi hér fyrir máli sínu.

Formaður iðnaðarnefndar er farinn heim lasinn. Varaformaður iðnaðarnefndar er í útlöndum. Hér er notast hér við íhlaupaafleysingarframsögumann og því haldið fram að þannig sé sóma meiri hlutans borgið í iðnaðarnefnd. Forseti Alþingis er í útlöndum. Varaforseti Alþingis er ekki hér, (Gripið fram í: Hann er í útlöndum.) er í útlöndum. Með fullri virðingu fyrir forsetunum þá er þetta frammistaðan hjá stjórnarliðinu og meiri hlutanum. Þetta eigum við stjórnarandstæðingar að láta bjóða okkur. Það er auðvitað ekki einasta ástæða til þess. Þetta er engin frammistaða og það er enginn svipur á þessu. Galtómir ráðherrabekkir hér í allan dag (Gripið fram í.) og ekki nokkur einasti ráðherra hefur látið svo lítið sem sjá sig frá því að líða tók á daginn, nema bara þegar farið var í atkvæðagreiðslur sem þurfti að tímasetja mörgum klukkutímum fyrir fram þannig að hæstvirtir ráðherrarnir mættu láta svo lítið að líta við í þinghúsinu.

Nei, herra forseti, það fer að harðna í þessu ef forseti hættir ekki þrjóskunni og hættir þessum fundi, gerir hlé á umræðunni. Ég ráðlegg forseta eindregið að fara að taka svolítið mark á óskum okkar.



[00:22]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Virðulegur forseti svaraði ekki fyrri ræðu minni og ég vil þess vegna nota tækifærið og spyrja virðulegan forseta hvort hæstv. dómsmálaráðherra og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni hafi verið gerð grein fyrir því að nærveru þeirra væri óskað við umræðuna.

(Forseti (BÁ): Forseti hefur ekki gert hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni eða hæstv. dómsmálaráðherra grein fyrir því að nærveru þeirra væri óskað.)

Þá er sú ósk þess þingmanns sem hér stendur áréttuð og eftir því óskað að sá afleysingarforseti sem situr á forsetastóli í útlandafjarveru, hv. 6. varaforseti Alþingis …

(Forseti (BÁ): Ég vil minna hv. þingmann á að sá forseti sem situr í forsetastóli hverju sinni gegnir því embætti, kjörinn af þinginu, og frábið mér að hv. þingmaður tali með þeim hætti sem hann gerði.)

Hæstvirtur forseti og virðulegur forseti er beðinn velvirðingar á þeim orðum sem hér féllu en þau féllu í því andrúmslofti að virðulegur forseti virti ekki þann þingmann sem hér stendur svara um það, í fyrri ræðu sinni um fundarstjórn forseta, um hvenær vinnudegi hans lyki. Virðulegur forseti verður að virða þeim þingmanni sem hér stendur það til vorkunnar í því efni að hann er hér á fjórtánda tíma þessa starfsdags — hér hófust nefndarfundir klukkan hálfníu í morgun — og þykir ekki viðunandi að virðulegur forseti ætli að meta það svona fram eftir nóttunni hversu lengi virðulegur forseti telur eðlilegt að starfsdagur hans standi.

Hér eru nefndarfundir fram undan að átta stundum liðnum. Fyrir hverja stund sem líður á það skerðist svefntími þess þingmanns sem hér stendur og ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég skil ekki hvers konar vitleysa þetta eiginlega er. Hér standa alþingismenn, til þess kjörnir af þjóðinni að fjalla um mikilsverð og áríðandi mál. Það mál sem hér er undir varðar fjárhag hvers einasta heimilis í landinu, varðar skattálögur á hvert einasta heimili í landinu. Málefnaleg umfjöllun um það efni getur ekki farið fram að næturlagi eftir að þingmenn hafa unnvörpum unnið 13 og 14 stunda vinnudag og horfa fram á að hér hefjist nefndarfundir að örfáum klukkustundum liðnum.

Ég ítreka afsökunarbeiðni mína til forseta, á að hafa ávarpað hann óvirðulega, en ég verð að játa að á fjórtánda tíma starfsdags míns er nokkuð farið að hlaupa í skap mitt (Forseti hringir.) ef forseti vill ekki gera mér grein fyrir því hvenær starfsdegi mínum ljúki. (Forseti hringir.) Ég óska þess að virðulegur forseti segi mér það.



[00:26]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Hv. alþingismanni til upplýsingar mun forseti meta það, eins og forsetar þurfa jafnan að gera. Hv. þingmaður ætti að þekkja af störfum sínum í öðrum forsetastóli að ekki er með vissu hægt að segja fyrir um endi umræðu af þessu tagi. Forseti fylgist með og metur hvernig umræðunni vindur fram og tekur ákvarðanir í ljósi þess.



[00:26]
Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú er komið nokkuð yfir miðnætti og sumir af þingmönnum þurftu að mæta til vinnu klukkan átta í gærmorgun. Ég þurfti t.d. að fara á fætur upp úr sex til að geta mætt á fund með þingmönnum Vesturlands í Vegagerðinni. Ég ætla svo sem ekki að kvarta neitt undan því. Mér finnst hins vegar undarlega til orða tekið hjá hæstv. forseta að hann ætli að meta það svona eftir því hvernig fram vindur í þessari umræðu hve lengi verði haldið áfram.

Það er nú greinilegt nokkuð hvernig fram vindur. Málinu vindur nákvæmlega ekkert fram og hefur ekki gert það býsna lengi. Hæstv. forseti hlýtur að hafa verið að meta framvinduna eftir því a.m.k. fram að þessari stundu frá því að umræður um fundarstjórn forseta hófust. Ekki hefur stjórnarandstaðan, sem hefur nánast ein haldið uppi umræðum, verið líkleg til að liðka fyrir framvindu málsins eftir þá umræðu sem hér hefur verið í gangi. Það ætti ekki að vefjast fyrir neinum að skilja að þannig mun það verða.

Það er hlaupin hér stífni í menn út af því hvernig að málum er staðið. Stjórnarliðar hafa ekki viljað mæta til umræðunnar til að fara yfir það og útskýra fyrir mönnum hvers vegna þeir vilja ganga þessa göngu til enda. Í umræðunni hefur verið kallað eftir því ítrekað: Hvers vegna þarf að fara í þessa skattlagningu, áður en menn sjá hvaða áhrif verða af breytingum sem ákvarðanir hafa verið teknar um á raforkusviði? Það er ekki einu sinni hægt að fá svör við því, útskýringar á því af hverju liggi svo á. Helstu útskýringarnar sem fram hafa komið eru þær að það verði engin áhrif af þessu fyrr en eftir einhver ár.

Ef svo er, hvers vegna liggur þá svo mikið á? Hvers vegna má ekki meta stöðuna betur þegar menn sjá hverju fram vindur og hvaða álögur leggjast á fólk vegna breytinganna sem búið er að ákveða? Nei, það á að halda áfram og setja þetta mál í gegn sem þýðir auknar álögur, hærra raforkuverð. Það virðist nokkuð augljóst og varla hægt að mæla á móti því enda segja það allir sem hlut eiga að máli, að þannig muni það fara. En stjórnarliðar virðast ekki (Forseti hringir.) menn til þess að mæta til umræðunnar og útskýra málið þannig fyrir okkur að við skiljum það.



[00:30]
Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil ítreka þá kröfu mína að annaðhvort verði fundinum frestað ellegar hæstv. iðnaðarráðherra mæti hér. Ég bendi á að þessi fundur er fyrst og fremst fundur þeirra sem eru að ræða málið, ekki fundur hinna sem eru staddir einhvers staðar annars staðar. Það hlýtur því fyrst og fremst að þurfa að virða óskir og ábendingar þeirra þingmanna sem eru hér og láta sig málið varða. Ég held að það sé eðlileg krafa að sjónarmið þeirra ráði og forseti taki fyrst og fremst tillit til þeirra.

Ég hef lagt fram beiðni um að ráðherra komi og svari fyrir þetta mál. Rakið hefur verið hversu grafalvarlegt málið er. Það eru grundvallarathugasemdir frá öllum samtökum launafólks í landinu, frá Bændasamtökunum, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og frá fjöldanum öllum af sveitarstjórnum. Við þingmenn eigum að bera ábyrgð á málinu, hvort sem við styðjum það eða ekki. Þingið ber ábyrgð á málinu í heild. Því er það mjög sanngjörn krafa að hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á málinu komi og svari grundvallarspurningum um málið áður en umræðu lýkur.

Ég hef áður bent á ágætisviðtal við hv. þingmann og formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins um vandann sem upp kom varðandi nýskipan raforkumála í janúar og febrúar og er ekki enn leystur. Ég hefði viljað spyrja hæstv. iðnaðarráðherra að því hvenær hún ætli að leysa úr þeim grundvallarvanda sem þar var uppi áður en við tökum á öðru máli sem ráðherrann þarf líka að skýra út, hvernig það kemur niður á neytendum. Eigum við að fá sama svarið þar að afleiðingin hafi komið á óvart eftir á? Ég vil fá svar fyrir fram, alla vega að ráðherrann geti svarað því hverju hún ætlar að svara til fyrir fram og eftir á.

Ég krefst þess, herra forseti, að fundinum verði frestað og orðið verði við óskum þeirra þingmanna sem hér eru virkir og láta sig málið varða.



[00:33]
Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið sagt að gerð hafi verið tilraun til þess af hálfu stjórnarliða að lauma málinu í gegn. Hvernig má það vera? Málið var sett á dagskrá klukkan hálffimm í dag, ég gætti sérstaklega að því áðan. Þá var hábjartur dagur, sól skein í heiði og hvernig áttu menn þá að lauma málinu í gegn? Fjölmiðlar fylgdust með og auðvitað var málið rætt fyrir opnum tjöldum eins og öll önnur mál í þinginu. Við höfum verið að ræða þessi mál í átta tíma síðan þá og þátttakendur í þeirri umræðu hafa m.a. verið formaður iðnaðarnefndar og framsögumaður málsins. Það er því ekki eins og málið hafi verið skilið eftir umkomulaust í þinginu. Það hefur þvert á móti fengið mikla umræðu. Mér varð á að segja að fluttar hefðu verið efnislegar ræður og hér hefði talað mannval mikið og fékk ákúrur fyrir frá hv. formanni þingflokks Vinstri grænna. Ef þetta er eitthvað sem ég get ekki staðið við, að hér hafi verið fluttar efnislegar ræður og verið mikið mannval verð ég auðvitað að standa frammi fyrir því hugsanlega að biðjast afsökunar á því að hafa notað þetta orðfæri um talsmenn stjórnarandstöðunnar. Ef svo er er mér ekki ljúft að biðjast afsökunar á því að hafa kallað hv. þingmenn mannval og ræður þeirra mjög efnislegar. En ef það er bein krafa um að ég biðjist afsökunar og það verði til þess að greiða fyrir þingstörfunum geri ég það auðvitað til þess að hægt sé að halda málinu áfram.

Það hefur líka verið fundið að því sem hæstv. forseti sagði, að hann vildi hlusta á ræður manna til að meta framvinduna. Er þetta ekki dæmi um að hæstv. forseti er að reyna að taka mið af því sem fram kemur í máli hv. þingmanna? Hæstv. forseti er einmitt að reyna að meta stöðuna út frá því sem hv. þingmenn leggja til málsins, hann er auðvitað að leggja sig fram um að ná niðurstöðu í málinu.

Ef hv. þingmenn vilja leggja eitthvað veigamikið mál í umræðuna sem yrði til þess að greiða fyrir umræðunni gerir hæstv. forseti auðvitað rétt í því að reyna að meta stöðuna. Ég treysti hæstv. forseta til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu um það hvernig og hversu lengi við getum haldið umræðunni áfram. Það væri auðvitað langæskilegast og eðlilegast eins og ég færði rök fyrir áðan í ræðu sem ég flutti að við reyndum að taka þessi mál í samfellu og ljúka umræðunni. Ég biðst afsökunar á því að ég kallaði það efnislegar umræður áðan, en ef menn telja að það sé miklu skynsamlegra að ræða þessi mál í tilhlaupum og stökkum er það sjónarmið út af fyrir sig.

Ég tel hins vegar að umræðan hafi orðið til þess að greiða mjög fyrir umræðunni sem á eftir að fara fram um skattskyldu orkufyrirtækja. Það er auðvitað mjög athyglisvert að talsmenn þeirra flokka sem hingað til hafa viljað leggja álögur á atvinnulífið telja að álögur á atvinnulífið að þessu leyti til muni að (Forseti hringir.) lokum koma niður á neytendum. Það verður fróðleg umræða næst þegar við fjöllum um skattamál (Forseti hringir.) atvinnulífsins í landinu.



[00:37]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill geta þess að hann gerir ekki ráð fyrir að lengra verði haldið á mælendaskránni en sem ræðu hv. 10. þm. Norðvest. nemur.



[00:37]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér hafa verið fluttar margar áhugaverðar ræður, þó svo við í stjórnarandstöðunni söknum þess að fá við þeim svör. Ég mun rekja það í ræðu minni hverju þarf að svara í umræðunni. Það er fjölmargt. Það er fyrst og fremst mjög villandi upplýsingagjöf í tengslum við breytingar á raforkuskipulaginu. Ef við ætlum að halda áfram með þetta skipulag verða stjórnvöld að gera betur grein fyrir hinni villandi upplýsingagjöf. Ég vonast til þess að eiga bandamann í hv. þingmanni og formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins í umræðunni, vegna þess að það er nauðsynlegt að fara yfir það.

Þrátt fyrir þau fáu svör sem við höfum fengið frá stjórnarliðum hafa verið fluttar áhugaverðar ræður, eins og áður segir. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson flutti ágæta ræðu um að óvarlegt væri að fara í aukna skattheimtu nú því menn hafa ekki séð fyrir endann á þeim breytingum og þeim hækkunum sem hafa orðið vegna breytts skipulags á raforkumarkaði. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór yfir að markaðsfyrirkomulagið hafi ekki gefist alls staðar vel þar sem það hafi verið reynt og rakti það með ágætum hætti og fór síðan vel yfir það að Framsóknarflokkurinn væri kominn lengst til hægri, væri nánast orðinn öfgasinnaður markaðshyggjuflokkur. Hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon og Jón Bjarnason fluttu einnig ágætar ræður um að mögulega væri verið að markaðssetja fyrirsjáanlegt tap Landsvirkjunar. Þessu þarf að svara.

Einnig hafa aðrir flutt hér ágætar ræður og farið yfir þær umsagnir sem fyrir liggja og stjórnarliðar hafa ekki svarað, svo sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Stjórnarliðar skulda að svara þeim spurningum sem fram hafa komið í umræðunni.

Það er fleira sem þarf að fara yfir. Það er mjög villandi upplýsingagjöf í tengslum við raforkubreytingarnar sem lögfestar voru á 128. þingi. Í fylgiskjali með því frumvarpi voru sett fram skýr markmið þar sem því var lofað að ekki yrði hækkun á raforku til almennings, heldur mundi raforkuverð lækka um 3% á ári á árabilinu 2001–2010. Það hefur ekki verið staðið við þetta, heldur þveröfugt. Við höfum séð hækkun til almennings. Það er áhyggjuefni. Þegar búið er að lofa lækkun með skýrslu sem kom út 1996 og var fylgiskjal við frumvarp á 128. þingi þegar raforkubreytingarnar voru lögfestar, þegar þær ganga ekki eftir og við sjáum hækkun er kominn tími til þess að stjórnvöld svari því hvað fór úrskeiðis.

Ég er með upplýsingar frá Orkustofnun, enn og aftur, frá árinu 2004. Þá er ekki verið að lofa lækkun, heldur eilítilli hækkun. Í ágætri frétt á heimasíðu Orkustofnunar er farið yfir þessi mál. Hæstv. ráðherrar eiga auðvitað að svara því hvað fór úrskeiðis. Fólk á landsbyggðinni og víða um land skilur ekki hvers vegna verið er að hækka rafmagnið þegar breytingarnar eru kynntar fyrst með lækkun, síðan eilítilli hækkun, en þegar það fær reikninginn er tugprósenta hækkun. Þessu þarf hæstv. iðnaðarráðherra að svara.

Ég er með ágæta samantekt frá upplýsingaþjónustu Alþingis þar sem hækkunin er rakin. Á Rarik-svæðinu er liðlega 30% hækkun og 17% hækkun. Stjórnvöld skulda einhver svör af hverju það er hækkun og af hverju það eigi líka að hækka niðurgreiðslur á rafmagni í ofanálag. Það á ekki einungis að færa kostnaðinn á þá sem greiða orkureikningana, heldur einnig á alla skattborgara til að hækkunin fari ekki upp úr öllu valdi og valdi mjög mikilli óánægju, meiri en almenningur þolir. Það er búið að reyna á þanþol almennings.

Því miður svarar hæstv. ráðherra í raun eingöngu með útúrsnúningum og einhverju sem ekkert mark er á takandi. Lofað var að skýra iðnaðarnefnd frá því hverjar hækkanirnar eru í raun og veru og útskýra fyrir fólki raforkureikninga sem eru algerlega óskiljanlegir. Ég tel að það sé öllum fyrir bestu, sérstaklega hæstv. ráðherra, að koma hreint fram og greina frá því hver áhrifin eru í raunveruleikanum í stað þess að fara inn í sumarið án þess að svara öllum þessum spurningum. Það er hreinn og klár dónaskapur við kjósendur og lýðræðið að vera sífellt að lofa jafnvel lækkun, svo er óveruleg hækkun, nánast ekki nein og jafnvel lækkun á sumum svæðum og þegar til á að taka standa neytendur uppi með hækkun.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðuna mikið lengri en vonast til þess að hæstv. ráðherra mæti til leiks þegar við ræðum fleiri frumvörp sem varða hina breyttu skipan raforkumarkaðarins. Ég ítreka að hæstv. ráðherra skuldar ekki endilega okkur í stjórnarandstöðunni að ræða þessa hluti, hún skuldar fólkinu í landinu að svara fyrir stjórnvaldsaðgerðir sem hafa skilað fólkinu í landinu hækkun þegar búið var að lofa lækkun.