131. löggjafarþing — 124. fundur
 6. maí 2005.
búnaðarlög, 2. umræða.
stjfrv., 725. mál (afnám mjólkurgjalds). — Þskj. 1083, nál. 1319.

[10:48]
Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum, frá landbúnaðarnefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund B. Helgason og Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti og Halldór Runólfsson frá embætti yfirdýralæknis. Þá bárust umsagnir frá embætti yfirdýralæknis og Bændasamtökum Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að felld verði úr gildi heimild búnaðarsambanda til þess að innheimta sérstakt gjald hjá mjólkurframleiðendum af allri innveginni mjólk í afurðastöð vegna sæðinga mjólkurkúa. Gjaldið er nú 1,7% og er lagt á alla framleiðendur án tillits til þess hvort þeir nýta sér þjónustuna. Telur nefndin mun heppilegra að þeir framleiðendur sem nýta sér þjónustuna greiði fyrir hana enda er séð fyrir framlagi til kynbóta og þróunarverkefna í nautgriparækt í nýgerðum samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðenda sem tekur gildi 1. september 2005.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Einar Oddur Kristjánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir þetta nefndarálit rita auk mín hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, Birkir J. Jónsson, Jón Bjarnason, Guðmundur Hallvarðsson og Dagný Jónsdóttir.



[10:49]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp um breytingu á búnaðarlögum sem hér er komið til 2. umr. felur í sér, eins og hv. framsögumaður landbúnaðarnefndar og formaður, Drífa Hjartardóttir, hefur greint frá, að afnema skuli gjald sem hefur verið lagt á alla innvegna mjólk í mjólkursamlögum sem hefur staðið undir eða verið stór hluti af stofn- og rekstrarkostnaði í kynbótastarfi í nautgriparækt og mjólkurframleiðslu, í því félagslega starfi sem þar hefur verið unnið.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið var þessu breytt í síðustu samningum milli ríkisins og mjólkurframleiðenda og framlag til kynbótastarfs í nautgriparækt er breytt með beinum hætti með þeim samningi og þess vegna er þetta gjald fellt niður.

En í greinargerðinni með frumvarpinu segir:

„Í nýjum samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu sem tekur gildi 1. september 2005 er gert ráð fyrir því að ákveðnum fjármunum sé ráðstafað til kynbóta- og þróunarverkefna í nautgriparækt.“

Þó að ég styðji það sem hér er lagt til vil ég þó undirstrika mikilvægi hins félagslega starfs sem mjólkurframleiðendur og nautgriparæktendur hafa staðið að um áratugi. Þar hafa allir lagt sitt af mörkum og er ekki síst þeirri miklu samstöðu bænda að þakka að náðst hafa gríðarlegar framfarir í mjólkurframleiðslu hér á landi, að íslenska kúakynið er fyllilega samkeppnisfært við önnur mjólkurkúakyn erlendis. Þetta kynbótastarf hefur ásamt öðru skilað sér í því að nú hafa verið lagðar á hilluna, vonandi um alla framtíð, hugmyndir um að flytja inn erlend mjólkurkúakyn. Mér finnst rétt að þetta komi fram í þessari umræðu, sú mikla samstaða bænda sem hefur verið um kynbótastarfið og það að þeir hafa samþykkt að ákveðið gjald væri lagt á hvern innveginn lítra mjólkur til að standa undir og styrkja og það starf.

Ég vil líka undirstrika, þó að hér sé lagt að þetta mjólkurgjald sé fellt niður, að ég legg ríka áherslu á að kynbótastarf í mjólkurframleiðslu og nautgriparækt er félagslegt starf sem allir þurfa að taka þátt í til að árangur náist. Þar hafa allir hag af. Ég legg áherslu á að það félagslega starf verði ekki veikt. Núna mun þetta færast yfir í samning við ríkið. Áður báru mjólkurframleiðendur sjálfir ábyrgð á þessu í gegnum gjaldtökuna. Ég dreg í efa að þetta sé rétt ráðstöfun. Samningar við ríkið eru jú bara tímabundnir. Með þessu er opnað fyrir að hægt sé að taka einstök gjöld, staðbundin gjöld fyrir þessa starfsemi. Það segir í lokamálsgreininni, sem ég vil setja vissa varnagla við:

„Þá er jafnframt talið eðlilegt að þeir sem nýta sér þjónustu búnaðarsambanda greiði í auknum mæli beint fyrir veitta þjónustu.“

Í þeirri þjónustu, sem felst í kynbótastarfinu og því að sæðingar á kúm hafi verið framkvæmdar af sæðingarmönnum, hefur kostnaðurinn verið jafn hvar sem félagsmenn eða bændur hafa búið. Þetta hefur verið hornsteinn þess að hið félagslega átak í kynbótastarfinu hefur virkað, að einstök bú væru ekki látin gjalda fjarlægðar frá sæðingarstöð eða þeim stað þar sem kynbótasæðinu er dreift frá. Þess vegna vil ég setja varnagla við áðurnefnda málsgrein í athugasemdunum, herra forseti, þar sem segir að talið sé eðlilegt að þeir sem nýta sér þjónustu búnaðarsambanda greiði í auknum mæli beint fyrir veitta þjónustu. Ég tel þessa grein varhugaverða.

Kynbótastarf gengur ekki nema allir geti starfað á jafnréttisgrunni og séu ekki dregnir í dilka eftir því hverjir teljast hagkvæmir eða óhagkvæmir í því starfi. Ég legg áherslu á að áfram verði unnið á þeim félagslega grunni að bændum og einstökum búum verði ekki mismunað, t.d. eftir staðsetningu eða öðru því sem menn mismuna eftir.

Þetta gjald, sem bændur ákváðu sjálfir að leggja á mjólkurframleiðsluna á félagslegan hátt, 1,7% af afurðastöðvaverði mjólkur, tryggði að verkefnið væri með félagslegum hætti á ábyrgð og í framkvæmd bænda. Núna er verið að breyta þessu þannig að þetta verði hluti af samningum við mjólkurframleiðendur um starfsskilyrði, veitt ákveðnu óskiptu fé til kynbóta og þróunarverkefna í nautgriparækt. Því verður engan veginn séð hvernig einstök bú koma út úr þeim kostnaði verði honum deilt ójafnt niður.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, að þetta félagslega átak bænda í afurðastöðvum, í ræktunarstarfi, hvort sem það er í nautgriparækt, sauðfjárrækt, hrossarækt eða öðru, þessi félagslega samstaða og félagslegi styrkur, hefur verið burðarás og drifið þessar framfarir áfram. Þess vegna er varhugavert að gera nokkuð sem veikir þá félagslegu samstöðu, sem felur m.a. í sér að búin og bændur hafa jafnan rétt til þeirrar félagslegu þjónustu sem þeir eru aðilar að, óháð búsetu og öðrum skilyrðum. Ég vil því slá varnagla við því sem hér gæti opnast fyrir.

Ég vil einnig vekja athygli á því að þessu máli þarf að fylgja eftir. Ef þetta gengur eftir þarf að gera breytingar á öðrum lögum sem ekki fylgja með í frumvarpinu. Skoða þarf lög um virðisaukaskatt þannig að greiðslur samkvæmt hinum nýja samningi um mjólkurframleiðslu rýri ekki möguleika búnaðarsambanda og sæðingarstöðva til endurgreiðslu innskatts í rekstri sínum. Búnaðarsamband Skagfirðinga sendi einmitt landbúnaðarnefnd ábendingar um að breyta þyrfti þessum lögum til að innleiða þar ekki misrétti eða aukna skattlagningu, eingöngu vegna þessara breytinga.

Með þessu, eins og segir í ályktun Búnaðarsambands Skagfirðinga, er verið að færa ríkisstuðning milli hólfa, úr hólfinu beingreiðslur, sem eru einstaklingstengdar greiðslur undanþegnar virðisaukaskatti, yfir í almennar niðurgreiðslur á sæðingum sem njóta ekki sérstakra niðurgreiðslna. Að þessu hefði þurft að huga um leið og verið er að breyta þessum lögum og vil ég hér með nota tækifærið og vekja athygli hæstv. landbúnaðarráðherra á því að þessar breytingar þurfa að gerast jafnframt til að ekki verði um mismunun að ræða.

Herra forseti. Þessi atriði vildi ég láta koma fram. Seint verður lögð nóg áhersla á hversu gríðarlegt átak íslenskir bændur hafa gert í kynbótum á búfé sínu, nautgripum og mjólkurkúm. Það hefur verið unnið með félagslegu átaki, allir eru með og allir njóta afrakstursins af góðu starfi. Þar er það ekki þannig að einn fleyti rjómann og hinir leggi hann til. Þetta hefur m.a. leitt til þess að íslenska mjólkurkúakynið er fyllilega samkeppnisfært við það besta sem gerist í öðrum löndum. Í upphafi ferils hæstv. landbúnaðarráðherra núverandi, Guðna Ágústssonar, var einmitt tekist á um hvort flytja ætti inn erlendar mjólkurkýr og hann var á vissan hátt að hluta til hallur undir það þá, lét a.m.k. umræðuna fara býsna langt. Síðan (Gripið fram í.) voru bæði bændur og öll þjóðin sem lét sig málið varða á þeirri skoðun að við ættum að búa að okkar íslenska kúakyni og hafna innflutningi á erlendum mjólkurkúakynum. Það var ekki síst vegna þess góða starfs sem unnið hefur verið. Ég vona að sú breyting sem við erum nú að gera verði ekki til þess að veikja þetta kynbótastarf, því það þarf að halda áfram því að íslenski mjólkurkúastofninn þarf náttúrlega að vera samkeppnisfær á alþjóðavettvangi eins og hann hefur nú unnið sig upp í.

Ég vona að það komi aldrei til að sú umræða fari aftur í gang að opnað verði á innflutning á erlendum mjólkurkúm sem mundi ef leyft yrði og út í það væri farið innan tíðar útrýma íslenska mjólkurkúakyninu, sem þjóðin sýndi í umræðunni sem varð á sínum tíma að hún var algjörlega andvíg og vildi halda í okkar góða íslenska mjólkurkúakyn.

Þó að ég styðji þessa breytingu dreg ég í efa að hún sé til bóta hvað það varðar að standa vörð um félagslegan samtakamátt bænda, landbúnaðarins og kúabænda í að stunda öflugt kynbótastarf í nautgriparæktinni þar sem engin mismunun er gerð á bændum eða búum hvar sem þau eru á landinu og allt gert á félagslegum grunni. Við megum á engan hátt leggja hér til aðgerðir sem veikja það, herra forseti, heldur frekar styrkja og efla og standa bak við hinn félagslega þátt og hið félagslega starf sem landbúnaðurinn byggir einmitt styrk sinn á.



[11:04]
Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður er nú stokkinn úr salnum en ég vil vekja athygli á því að hann ritar undir nefndarálitið með okkur. Ég vil bara koma því að að það er ekki verið að eyðileggja samstöðu bænda eða eyðileggja eitthvað fyrir kynbótunum. Það hafa verið innheimtar 80 millj. kr. á ári með þessu 1,7% gjaldi en í búvörusamningunum núna eiga 100 milljónir að fara í kynbóta- og þróunarstarf. Þetta er það sem bændurnir sjálfir hafa kallað eftir. Það má geta þess að t.d. í Vestur-Skaftafellssýslu sér dýralæknirinn um sæðingarnar þar í samstarfi og samvinnu við Búnaðarsamband Suðurlands. Þetta er því áfram og verður áfram í framkvæmd á ábyrgð bænda. Það komu engar neikvæðar umsagnir til okkar varðandi málið. Ég tel að þetta sé mjög gott mál og það er ekki verið að eyðileggja eitt eða neitt með því.



[11:06]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg af öll tvímæli um að ég stend að þessu nefndaráliti. Það sem ég er hins vegar að gera er að slá þá varnagla að þarna er á vissan hátt verið að færa til kostnað og félagslega uppbyggingu á mikilvægu starfi sem hefur verið ræktun íslenska kúakynsins, sem áður var að stórum hluta fjármagnað með ákveðinni hlutdeild af afurðastöðvaverði mjólkur en færist nú yfir í að verða hluti af samningi við ríkið.

Það er bara svo því miður, herra forseti, að á æ fleiri sviðum, m.a. líka fyrir tilverknað lagasetningar af hálfu ríkisins, er verið að veikja og brjóta niður félagslegan styrk, félagsleg verkefni sem m.a. landbúnaðurinn hefur byggt upp. Það hefur verið árátta núverandi ríkisstjórnar að brjóta það niður og veikja og þess vegna er ég að slá þessa almennu varnagla og jafnframt að gera grein fyrir hversu mikilvægt þetta gjald er. Þessi þátttaka allra bænda, allra mjólkurframleiðenda með því að greiða sérstakt gjald af innveginni mjólk hefur skipt grundvallarmáli fyrir uppbyggingu á kynbótastarfi í nautgriparæktinni og um það þurfum við að standa vörð.



[11:08]
Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hlutfallið var 1,7% af innveginni mjólk úr stóru kúabúi og not sama bús á sæðingu. Í dag er verið að greiða fyrir hverja sæðingu. Hvert bú sem notar sæðingu borgar fyrir hana. Núna er þetta samt sem áður þátttaka allra með því að úr búvörusamningnum er verið að taka 100 milljónir og setja í þetta kynbótastarf sem er meira en innheimtist af þessu 1,7% gjaldi af innveginni mjólk.



[11:08]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í þessu félagslega starfi hefur einmitt líka verið lögð áhersla á að bændur greiddu ekki misjafnt gjald fyrir þessa þjónustu eftir búsetu hversu langt sem þeir væru frá sæðingarstöðvum. Ég legg áherslu á að slíkt er einmitt grundvöllur fyrir félagslegt starf.

Síðan vakti ég líka athygli á því, herra forseti, sem þarf að skoða og það er einmitt að þessi breyting, að færa þessar greiðslur til, hefur áhrif á virðisaukaskattsskyldu og færslu á útskatti. Það þarf að huga að því jafnhliða þessum breytingum, ef þær verða samþykktar, sem ég dreg ekki í efa að þingið samþykki.



[11:09]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ágætri ræðu sinni um félagshyggjuna sem ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni sagði hann eitthvað á þá leið að íslenska kýrin væri orðin fullkomlega samkeppnisfær við aðra kúastofna. Við stjórnmálamennirnir verðum að segja það sem satt er og rétt. Ef hv. þingmaður á við að hún mjólki orðið jafnmikið og sterkustu kúastofnar heimsins þá er það rangt. Íslenska kýrin hefur bætt sig, bæði er það fóðurverkun og kynbætur sem hafa skipt miklu máli á síðustu árum, nú mjólkar hún yfir 5.000 lítra að meðaltali en það eru til kúastofnar sem mjólka yfir 10.000 og jafnvel upp í 12.000 lítra á ári að meðaltali. Það er því ekki rétt.

Hins vegar er það staðreynd málsins að eins og sagt var um hina snjöllu kaupmenn Silla og Valda, ef ég man rétt slagorðið ,,af gæðunum munuð þið þekkja þá“ þá snýr þetta að íslenskum landbúnaði. (Gripið fram í: Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá.) Já, af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá. Þess vegna á það kannski við íslenskan landbúnað að „af gæðunum skuluð þið þekkja þá“. Nú er það að gerast að það er ekki bara lambakjötið sem fer um heiminn, ekki bara hesturinn, ekki bara ullarvörurnar, nýjustu tíðindin í þessum efnum eru að Whole Foods búðirnar í Bandaríkjunum, menn á Ítalíu, í Danmörku, í dýrustu búðum heimsins eru að viðurkenna íslenskan landbúnað. Nú er osturinn, smjörið, ísinn, jógúrtin, að ég tali nú ekki um skyrið og skyrdrykkinn, að fara inn í þessar bandarísku búðir og þessir kaupmenn vilja viðurkenna íslenskan landbúnað og selja þessar vörur dýrt í búðum sínum. Meira að segja vilja þeir að auki fá inn í búðir sínar Nóa – Síríus súkkulaðið af því að það er mjólkurduft frá Blönduósi sem er notað í það súkkulaði.

Hér eru auðvitað stórtíðindi á ferðinni. Þess vegna verða íslenskir bændur alltaf að gera sér grein fyrir því, og Íslendingar, að það er á gæðunum sem við förum þetta, á þessu fjölskylduvæna samfélagi sem rekið (Forseti hringir.) er í sveitunum, í þessu hreina landi og við þær góðu aðstæður sem íslenskur landbúnaður hefur þróast.



[11:12]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú verð ég að hæla hæstv. landbúnaðarráðherra sem hinum góða bóndasyni frá Brúnastöðum. Nú þegar ráðherrann hefur áttað sig á mikilvægu gildi íslenska kúakynsins og er vonandi fullkomlega horfinn frá því að leyfa neins konar tilraunir í því að útrýma honum eða að veikja stöðu íslensku kýrinnar með því að fara að flytja inn erlendar mjólkurkýr. Hins vegar er það svo, herra forseti, af því við erum komin í svo mjög tæknilegar umræður um mjólkurkýr, þá er hagkvæmni hvers kúakyns einmitt háð því hvað það skilar mikilli mjólk og verðmætum fyrir hverja einingu sem lögð er á móti. Það er alls ekkert víst að stóru kýrnar, sem mjólka allmiklu meira, séu hagkvæmari og skili meiri mjólk fyrir hverja einingu fóðurs eða kostnað í húsum eða öðru því um líku, alls ekki. Þannig að það sem ég er m.a. að vitna til er að íslenska kýrin er fyllilega samkeppnisfær við mjólkurkýr annars staðar í heiminum, þó að þær séu miklu stærri og mjólki jafnvel meira, miðað við þann kostnað sem lagður er til og stendur að baki hvers mjólkurlítra, því að ef þetta er stór kýr krefst hún meira viðhaldsfóðurs o.s.frv. Íslenska kýrin hefur því sýnt sig að vera fyllilega samkeppnisfær þegar metinn er kostnaður, framleiðslukostnaður á hvern lítra mjólkur, að ég tali nú ekki um gæðin sem hafa líka sýnt sig að vera sértæk og skipta máli bæði í heilbrigði og læknavísindum.



[11:14]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt sem Whole Foods búðirnar og þeir menn sem eiga viðskipti við okkur þar viðurkenna er hve bragðgæðin á mjólkinni hér eru mikil og hvað náttúra Íslands er hrein, hvað landbúnaðurinn er fjölskylduvænn. Að þetta sé nokkurs konar „handmade“ hér, eins og glervörurnar í Kína eða eitthvað slíkt. Þetta viðurkenna menn og leggja áherslu á. Þess vegna þykir íslenska smjörið hvað gæði og bragð varðar alveg einstakt í hugum þessara sælkera. Hinn menntaði heimur, hinn hræddi heimur vegna verksmiðjubúanna er að leggjast á sveif með landbúnaði eins og hann er rekinn á Íslandi og reyndar víðar. Þarna liggja því tækifæri bændanna, í þessari sérstöðu.

Hins vegar hefur aldrei verið leyfður innflutningur eða skipti á kúakyni hér, það hefur aldrei komið til tals. Menn gera sér grein fyrir að íslenski kúastofninn er afar lítill af því að ef kýrnar fara að mjólka meira, þá fækkar í stofninum. Það getur orðið kynbótalega erfitt horft til framtíðar. Þess vegna ætluðu bændurnir á sínum tíma að gera tilraun og bera saman norska kú, íslenska kú og kannski blendingskú úr þessum tveimur kúakynum til að sjá hvað væri hagkvæmast. Ég var aldrei hræddur fyrir hönd íslensku kýrinnar. Ég tala ekki um þegar þessi heimur blasir nú við okkur.

Af tilrauninni varð ekki, en umræðan heldur auðvitað áfram. Mér finnst samt sem áður að það hafi áunnist á síðustu fimm, sex árum viðurkenning á íslenskum landbúnaðarvörum sem hágæðavörum um heim allan.



[11:16]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kom á vissan hátt að kjarna málsins. Það vistvæna, umhverfisvæna og fjölskylduvæna búskaparform sem við höfum lagt áherslu á hér á landi er einmitt að fá aukið vægi út um heim og við komum betur að síðar í umræðum í dag hvað varðar fjárhagslegan stuðning og annað sem er að færast í auknum mæli yfir á þá þætti í landbúnaði.

Þess vegna legg ég áherslu á að í þeim lögum sem við fjöllum um séu allir jafnréttháir, öll bú jafnrétthá í kynbótastarfinu þannig að ekki sé hægt að mismuna búum á nokkurn hátt eftir stærð, legu eða neitt þess háttar. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Ég er alltaf feginn þegar ég heyri hæstv. landbúnaðarráðherra lýsa stefnu sinni í ræðustól Alþingis þar sem hann varar við samþjöppun og stórbúarekstri, en síðan verður oft minna úr því þegar komið er út í aðgerðirnar, því ein mesta ógn við mjólkurframleiðsluna í landinu er einmitt uppkaup á greiðslumarki, beingreiðslur og samþjöppun. Það er ein mesta ógnunin sem hæstv. ráðherra þyrfti að taka betur á.



[11:18]Útbýting:

[11:18]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Frumvarpið sem við erum með fyrir framan okkur er ekki langt, örugglega stysta frumvarp sem ég hef séð, en ég hef reyndar ekki verið lengi á þingi. Ég held að það væri ekki hægt að gera það styttra nema ef númer greinarinnar sem á að falla brott væri á bilinu einn til níu og ef gildistími laganna væri maí. Frumvarpið er aðeins tvær greinar. Engu að síður er efni frumvarpsins mikilvægt, því verið er að fella úr gildi gjald af allri innveginni mjólk. Í staðinn eiga bændur að greiða beint fyrir þjónustu við sæðingar. Það er reyndar þróun sem er almennt í gangi á Íslandi að fólk borgi sem mest beint fyrir þá þjónustu sem það fær.

Í nýjustu búvörusamningum við mjólkurbændur er hins vegar gert ráð fyrir að þeir fái styrk til kynbótaverkefna, en eftir því sem mér skilst hefur hluti af gjaldinu einmitt farið til kynbótaverkefna. Það er gott mál, því sá stuðningur sem bændur fá á þann hátt flokkast undir grænan stuðning, sem er heimill af hálfu Evrópusambandsins, en eins og við vitum er ekki hvaða form sem er heimilt í stuðningi við bændur né aðrar atvinnugreinar.

Stuðningur við rannsóknir er ákaflega mikilvægur eins og fram hefur komið. Bændur sæða auðvitað ekki kýr sínar með sæði úr hvaða nauti sem er, ekki frekar en áður fyrr, heldur er verið að leita að tilteknum eiginleikum. Þeir eiginleikar verða kunnir með rannsóknum og eru ræktaðir upp með rannsóknum. Þar getur auðvitað verið um ýmislegt að ræða, bæði er reynt að rækta eiginleika kúa sem mjólka vel. Það eru líka ræktaðir nautgripir til kjötframleiðslu. Á sama hátt og leitast er við að fá fram mikla holdfyllingu í sauðfé með rannsóknum er hið sama gert með rannsóknum á nautgripum, auk þess sem við höfum flutt inn nautgripi til að fá fram gott kjöt og holdmikið, holdmikla gripi. Sæðingaþátturinn er því aðeins hluti af þessu dæmi, herra forseti.

Annað dæmi sem ég vil nefna í rannsóknum á nautgripum varðar kálfadauða. Kálfadauði hefur verið mjög alvarlegt vandamál og vaxandi vandamál á Íslandi undanfarin ár. Rannsakendur hafa beint sjónum sínum mjög að því vandamáli undanfarið, en ekki haft árangur sem erfiði, því miður. Það er því ljóst að beina þarf sjónum mjög að þeim þætti framvegis, jafnvel enn frekar en gert hefur verið hingað til, því það er ekki nóg að sæðing heppnist vel, heldur þarf kýrin að halda kálfinum til að markinu sé náð.

Það sem innheimtist með 1,7% gjaldinu á síðasta ári í það minnsta nam 80 millj. kr., en gert er ráð fyrir 100 millj. kr. framlagi á fjárlögum árið 2006 til kynbótaverkefna samkvæmt samningnum um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar sem tekur gildi í haust, frá og með 1. september, sama dag og frumvarpið á að taka gildi.

Ég skrifa undir frumvarpið eins og meiri hluti landbúnaðarnefndar, reyndar gerðu allir þeir fulltrúar í landbúnaðarnefnd sem voru viðstaddir þegar þetta var afgreitt úr nefndinni það. Ég tel því að málið sé í heildina gott. Mér þykir ánægjulegt að það er að koma aukið fjármagn til rannsókna á íslenskum nautgripum, því eins og ég sagði áðan bíða mörg verkefni og sum þeirra eru afar brýn.

Einnig koma upp ýmis álitaefni þegar verið er að breyta formi á hlutunum. Staða búnaðarfélaganna hefur nokkuð verið rædd í nefndinni, en ég tel heildarmarkmið laganna eðlilegt, að bændur greiði fyrir þá þjónustu sem þeir fá við sæðinguna og standi svo félagslega saman fyrir tilstuðlan ríkisins að rannsóknum.



[11:26]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið tengist málið ýmsum meginþáttum í skipan landbúnaðarmála. Óhætt er að halda því fram að þegar litið er yfir sviðið eru víða blikur á lofti hvað varðar framfarir og fyrirkomulag í málefnum landbúnaðarins. Við höfum áður rætt þá stöðu sem upp kom þegar tilteknir aðilar stofnuðu Mjólku og fóru að framleiða fyrir utan styrkjakerfi landbúnaðarins. Óhætt er að spyrja hvort hið gamla styrkjakerfi eins og við þekkjum það muni riða til falls með þessari þróun og ýmsu öðru því sem er að gerast á sviði landbúnaðarmála. Hvort við munum sjá það miklar meginbreytingar á skipan landbúnaðarmála og stuðningi við búvöruframleiðslu ýmiss konar á næstu árum að kerfið eins og við þekkjum það muni líða undir lok.

Margt styður þá þróun eins og himinhátt verð á mjólkurkvóta, sem gerir nýliðun í þeirri grein mjög erfiða og má segja að það sé ákveðið uppnám hvað varðar nýliðun í framleiðslu á mjólk. Þetta er að færast á miklu færri hendur. Búin eru að stækka feikilega mikið og þar á sér stað mjög hröð og ör þróun án þess að nokkur pólitísk stefnumörkun virðist liggja þar að baki af hálfu hæstv. landbúnaðarráðherra, sem hefur af og til nefnt að heppilegt væri að um væri að ræða lítil eða meðalstór fjölskyldubú en ekki þessar stóru verksmiðjueiningar.

Stjórnvöld hafa ekki staðið sig í að færa styrkjakerfi í landbúnaði til nútímans eða í hina pólitísku umræðu og má segja að með þeim sofandahætti hafi stjórnvöld að því leytinu brugðist bændum og landsbyggðinni. Til að landsbyggðin og landbúnaðargreinarnar séu styrktar með einhverjum hætti verður að viðhalda ákveðinni samfélagssátt um þann stuðning. Af og til hefur komið upp umræða hvort ekki sé eðlilegra og heppilegra að styrkja bændur og landsbyggðina með þeim hætti að binda þá við svokallaða byggðastyrki í stað framleiðslutengdra styrkja.

Þá umræðu hefur ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks aldrei tekið. Það hefur aldrei verið tekin heildstæð umræða um stöðu mála á sviði landbúnaðarmála, heldur göslast áfram í einu málinu og ekki öðru og horft fram hjá því hvað þarf raunverulega að gera, á meðan aðrar greinar eru lítið studdar.

Við sáum skrípaleikinn í kringum stofnun umboðsmanns íslenska hestsins. Fjármunir voru ekki veittir beint til greinarinnar, til hrossaræktenda, þannig að þeir gætu varið fénu eins og þeir teldu best til markaðsmála og kynningarstarfsemi fyrir íslenska hestinn á erlendri grund. Þetta var einhver skyndihugdetta hæstv. ráðherra sem var hrint í framkvæmd án þess að taka neitt tillit til þeirra sem standa í hrossaræktun og flytja út, enda kom strax fram mjög afgerandi gagnrýni á að verið væri að setja hið litla fjármagn sem væri til staðar til að styðja við greinina í þennan farveg, en ekki að styðja beint við þannig að greinin moði úr þar sem á þarf að halda.

Eins að þeir styrkir sem ég tel að samfélagið eigi að halda úti til að styðja við bakið á landsbyggðinni og landbúnaðinum, þá hljóti það að eiga að vera þannig að við eflum einkaframtak manna sjálfra, eflum einstaklingsframtak bændanna og fólksins sjálfs út um hinar dreifðu byggðir, í staðinn fyrir að njörva það einungis niður með þeim hætti sem hér þekkist og afleiðingarnar þær að sauðfjárræktin er að leggjast á hliðina, algjörlega. Fátækustu íbúar Íslands eru sauðfjárbændur með lítil bú, fyrir utan þá sem þurfa að draga fram lífið á bótum og ellilífeyri. Við þeirri alvarlegu stöðu hefur aldrei verið brugðist. Síðan er þróunin hinum megin sú hvað varðar mjólkurframleiðsluna að þar er framleiðslan að þjappast á örfá stór verksmiðjubú, sem getur vel verið að sé að sumu leyti viðunandi eða ágæt þróun að búin stækki og þeim fækki og framleiðslan verði hagkvæmari o.s.frv.

Menn hljóta einnig að bera þá skyldu gagnvart landsbyggðinni, bændunum og landbúnaðinum að um þá skipan mála sé tekin heildstæð pólitísk umræða og það rætt hér og reifað hvernig best sé að styðja við greinina. Ég er sannfærður um að við eigum með ýmsum hætti að styðja beint og óbeint við landbúnaðinn og landsbyggðina. Ég hefði viljað sjá hæstv. landbúnaðarráðherra, sem er mikill áhugamaður um uppgang og framgang landbúnaðarins almennt, taka einhver skref í þá átt í staðinn fyrir að viðhalda gömlu og að mörgu leyti handónýtu og úreltu kerfi hvað varðar stuðning við landbúnaðinn.

Við þurfum að styðja með öðrum hætti við þetta þannig að stutt sé við bakið á ungum bændum sem vilja hasla sér völl án þess að þurfa að taka tugmilljóna eða hundruð millj. kr. lán í bankastofnunum til að kaupa t.d. mjólkurkvóta á himinháu verði. Menn hljóta að spyrja sig spurninga um þróun mála þar, hvenær nóg sé komið og hvenær verð á mjólkurkvóta er orðið óeðlilega hátt, enda er kvótinn orðinn stærstur hluti af verðgildi bújarða þar sem mjólkurkvóti er til staðar.

Við hljótum því að setja ýmis spurningarmerki við stöðu landbúnaðarmála, þó margt sé þar að sjálfsögðu ágætlega gert og mikill hugur í bændum og mikill uppgangur víða í sveitum. Við ræddum fyrr í haust um ferðamál, ferðaþjónustuna, menningartengda ferðaþjónustu og hvernig margir bændur hafa haslað sér völl þar og náð frábærum árangri við erfiðar aðstæður hvað varðar ferðamál, bændagistingu og uppbyggingu á alls konar ferðatengdri þjónustu. Þar hafa menn unnið mikið og gott starf án þess að stjórnvöld hafi liðkað neitt sérstaklega til fyrir þeim, enda auðvelt að halda því fram að hin eiginlega landbúnaðarpólitík sé stöðnuð og stopp nokkra áratugi aftur í tímann. Það hefur í raun lítið gerst af hálfu stjórnarflokkanna, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, annað en að standa vörð um úrelt kerfi sem svarar með engum hætti kalli tímans, endurspeglar ekki með neinum hætti það ástand sem þarf að vera, þá þróun sem þarf að eiga sér stað, þannig að stutt sé almennt við þá sem vilja hasla sér völl í hinum dreifðu byggðum með byggðatengdum hætti en síður framleiðslutengdum, alla vega ekki eingöngu.

Um þetta vantar allan pólitískan stefnuramma af hálfu stjórnvalda. Ótrúlegt í rauninni að gera sér það í hugarlund að hæstv. landbúnaðarráðherra — segjum sem svo að Framsóknarflokkurinn gjaldi afhroð í næstu kosningum eins og flest bendir nú til að gerist nema eitthvað mikið breytist, — ætli að fara frá án þess að hafa reist sér þann minnisvarða að hafa endurnýjað sáttina um stuðninginn við landsbyggðina og búnaðarframleiðsluna og endurnýja með einhverjum hætti og fært til nútímans þann stuðning, þannig að um megi ríkja víðtæk sátt í samfélaginu, inn í tímann og um framtíð.

Þetta vona ég að hæstv. ráðherra skýri hér í dag og á næstu vikum og missirum, enda mörg mál sem tengjast landbúnaðinum til umræðu í dag, útflutningur hrossa og fleiri mál sem mörg hver eru alveg hreint ágæt og prýðileg, en beina að sjálfsögðu sjónum okkar að því hvernig staðan í greininni er raunverulega.

Eins og ég sagði áðan er hún að mörgu leyti alvarleg, að mörgu leyti góð, en þeir sem kannski hafa einmitt reitt sig hvað mest á stuðninginn, sem eru t.d. sauðfjárbændur, eru að fara mjög illa út úr því. Staðan þar er mjög alvarleg og þeir bera ekki mikið úr býtum.

Eins hljótum við að spyrja spurninga af hverju menn ganga ekki lengra í að styðja við grænu stóriðjuna, garðyrkjuna, með frekari niðurgreiðslu á rafmagni til greinarinnar eins og margoft hefur verið bent á að sé mjög hagkvæmt, enda um að ræða hollustugrein, gjaldeyrissparandi hollustugrein þegar kemur að grænu stóriðjunni, ylræktinni og grænmetisframleiðslunni. Mér er algjörlega hulin ráðgáta af hverju stjórnvöld hafa ekki gengið lengra og rösklegar fram í því að styðja við bakið á grænmetisiðnaðinum um leið og við erum að niðurgreiða stórkostlega rafmagn til erlendrar stóriðjuframleiðslu, þá hafa menn ekki gengið nærri því nógu langt í þessu efni.

Staðan í landbúnaðarmálum er efni í sjálfu sér í margra daga umræður á hinu háa Alþingi og seint sem þau mál verða rædd eða brotin að fullu til mergjar. Það hefur gengið á ýmsu í greininni á síðustu árum. Við sáum þær hremmingar sem hvítakjötsræktendur lentu í þegar bankastríðið stóð sem hæst í þeim málum öllum og hve margir fóru mjög illa út úr því, þó svo að jafnvægi sé að komast á aftur núna. Fyrir okkur sem erum áhugamenn og höfum pólitískan vilja til að styðja myndarlega við landbúnaðinn og hinar dreifðu byggðir til að Ísland allt haldist í byggð, þá verður að gera það með sanngjörnum og eðlilegum hætti þannig að sem flestir hafi aðgang að og það styðji við bakið á ungu og kraftmiklu fólki sem vill hasla sér völl í hinum dreifðu byggðum og um það sé sátt í samfélaginu, að stuðningurinn sé til staðar og stuðningurinn sé með þeim hætti sem um ræðir.

Mjög mikilvægt er að viðhalda sátt um stuðninginn við dreifbýlið en óhætt er að fullyrða að hún sé ekki til staðar í dag, þó svo að þess gæti ekki oft á hinum pólitíska vettvangi, þá kraumar undir niðri og þarf ekki að hlusta grannt eða lengi til að skynja að það er ólga og ekki langt í að neikvæð og harkaleg umræða geti brotist út um stuðninginn við landbúnaðinn. Þess vegna á hæstv. ráðherra og stjórnvöld að sjálfsögðu að hafa forgöngu um að endurnýja samfélagssáttina um nútímalegan stuðning við landbúnaðinn og dreifbýlið sem er sanngjörn og réttlát og geri það gagn sem ætlast er til af henni að hún geri. Ég treysti hæstv. ráðherra ágætlega til þess. Þegar hann settist á ráðherrastól fyrir nokkrum missirum var ég sannfærður um að þarna væri kominn maður sem vildi láta verkin tala og ganga þannig fram að landbúnaðurinn og dreifbýlið nyti þess um langa framtíð. Það getur vel verið að hann hafi fullan vilja til þess og aðgerðir en ég vona að hann noti þetta tækifæri hér í dag til að kynna fyrir okkur hvernig hann vilji sjá þessum málum fyrir komið í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt.

Það er að mörgu leyti mjög róttæk og ánægjuleg þróun að eiga sér stað í landbúnaðinum. Mikill uppgangur er t.d. að mörgu leyti í hrossarækt, í ferðaþjónustu og mörgum öðrum greinum, en það þarf að styðja enn þá frekar við bakið á því þannig að það sé auðvelt fyrir ungt og kraftmikið fólk að hasla sér völl.

Það var athyglisverð þróun hér fyrr í vetur þegar Mjólka var stofnuð og þeir tóku sig til og fóru að framleiða fyrir utan hið hefðbundna kerfi og verður fróðlegt að sjá hvernig rekstrargrundvöllurinn verður fyrir þeirri framleiðslu. Vonandi að sjálfsögðu verður hann til staðar og vonandi mun það ganga vel.

Hæstv. ráðherra hlýtur að ætla að skýra þessi mál fyrir okkur í umræðunni í dag og á næstu vikum og missirum, hvernig á að standa að stuðningi um langa framtíð við sveitirnar, dreifbýlið og landbúnaðinn og hvernig hann ætlar að endurnýja samfélagssáttina um þessi mál, af því þar erum við að sjálfsögðu bandamenn í því að styðja á við bakið á greininni, en það þarf að finna þeim stuðningi farveg sem sátt er um og sem mest gagn hljótist af.



[11:40]
Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ja, nú var eins og Ragnar Reykás væri kominn hér í þingsali. Það var eiginlega með ólíkindum að hlusta á ræðu hv. þingmanns þar sem hann talaði úr og í, annaðhvort var allt í kaldakoli eða allt í himnalagi. Ég vil bara ráðleggja hv. þingmanni … (BjörgvS: Vertu ekki að leggja mér eitthvað til sem ég ekki sagði.) Ég hlustaði á þig, þú sagðir að allt væri í kaldakoli og þetta væri alveg gjörlélegt kerfi og í annan stað var talað um að hér væri bara bullandi uppgangur.

Ef hv. þingmaður hefði mætt á fundi hjá Bændasamtökum Íslands núna í vor, bæði hjá Landssambandi kúabænda og sauðfjárbændum, þá hefði hann orðið var við það að töluverð mikil nýliðun er meðal íslenskra bænda í dag og þar ríkir mikil bjartsýni, því að sannast sagna gengur bara mjög vel víðast hvar í sveitum landsins. Ég hef ekki heyrt annað en að mjög víðtæk sátt væri í samfélaginu að styðja við íslenskan landbúnað, nema kannski einhverjar raddir hjá Samfylkingunni sem vilja það ekki, en segja má að þar séu þó margir sem betur fer líka sem vilja íslenskum landbúnaði allt gott.

Hvað varðar nýjan búvörusamning í mjólk ráðlegg ég hv. þingmanni að heimsækja bændurna í sínu nágrenni og spyrja þá hvort þeir séu ekki ánægðir með nýjan samning, því betri samningur hefur ekki verið gerður við íslenska bændur svo lengi sem maður man eftir. Núna er í farveginum samningur við sauðfjárbændur. Verið er að stíga skref í þá átt að semja við WTO. Allt er verið að gera til að bændur geti náð vopnum sínum til þess að vinna með þegar það kerfi þarf að taka yfir. Verið er að vinna að því og beingreiðslurnar eru mjög gegnsæjar og gegnsæjastur stuðningur sem til er.



[11:43]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var undarleg athugasemd þar sem ég gat ekki heyrt annað en hv. þingmaður væri með þessum orðum sínum að blessa þá stöðu sem uppi er t.d. í málefnum sauðfjárbænda. Grafalvarleg staða. Mjög vond staða. Hvort þingmaðurinn var með þeim orðum sínum og útúrsnúningum að verja það vonda fyrirkomulag og það slæma ástand sem uppi er hjá mörgum sauðfjárbændum, hv. þingmaður hlýtur að skýra það fyrir okkur hér á eftir. Er hv. þingmaður einnig að segja að styrkjakerfið eins og það er núna sé svo gott að ekki eigi að skoða að taka upp byggðatengdan stuðning við aðrar greinar eða þannig að menn hafi jafnvel sjálfval um í hvaða greinar þeir noti hann til að byggja upp atvinnu sína?

Það var alveg með ólíkindum að heyra hjá hv. þingmanni að allt væri í slíku himnalagi að það mætti bara ekki ræða málin á gagnrýnan hátt, sem er fráleitt, þó að margt sé mjög vel gert, eins og ég margsagði hérna áðan, og sérstaklega þar sem bændurnir eru ekki með neinum hætti undir oki framsóknaríhaldsins. En menn hljóta að skoða það hvernig styðja megi betur við bakið á dreifbýlinu og öðruvísi ef þess er kostur, ef svo vill horfa. Var hv. þingmaður virkilega að blessa þá stöðu sem uppi er t.d. í sauðfjárræktinni? Sem er hörmuleg á köflum og margir þeirra lepja dauðann úr skel, eiga mjög erfitt. Ég trúi því ekki að með þessari himnaríkisathugasemd sinni hafi þingmaðurinn verið að blessa það ástand sem þeir bændur búa við.



[11:44]
Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði einmitt áðan að nú væru sauðfjárbændur að vinna að nýjum búvörusamningi við ríkið. Auðvitað vitum við að það eru ekki allir sem hafa það gott en flestir hafa það ágætt. Staða sauðfjárbænda er mjög misjöfn. Sem betur fer hafa flestir sauðfjárbændur sem eru með fátt fé vinnu við annað. Staðan er því misjöfn eftir því á hvern er litið.

Þar sem ég var að ræða um mjólkurframleiðendur þá er staða þeirra góð. Þar hefur orðið töluverð nýliðun, en ég tek undir að auðvitað er það áhyggjuefni ef kvótaverðið er allt of hátt, ég get hjartanlega tekið undir það. Það er gríðarlega mikil nýliðun. Það er mikil uppbygging og þessi þróun hefur verið til góðs. Menn eru að stækka bú sín og þau eru þá lífvænlegri á eftir. Ég er alveg viss um að hv. þingmaður er mér sammála um það. Þegar hann lítur á þessi myndarlegu kúabú í kjördæmi okkar á Suðurlandi getur hann örugglega ekki annað en glaðst.

Gerður var í fyrsta skipti samningur við grænmetisbændur, gengið hefur verið til samninga við þá um lækkun á raforkuverðinu, en eins og fram kom hér í vetur greiða þeir mjög hátt raforkuverð. Síðan er mjög margt gott að gerast, t.d. hafa bara breytingarnar sem gerðar voru á jarða- og ábúðarlögunum í fyrra orðið til þess að mjög margir eru að kaupa jarðir, setjast að úti í sveit og vinna við eitthvað annað en borga sína skatta og skyldur til samfélagsins. Ég tel að sú þróun sé mjög góð og það er mikið fagnaðarefni að fá nýtt blóð í sveitirnar sem kemur í staðinn fyrir og meðfram hefðbundinni framleiðslu.



[11:47]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að fá nýtt blóð í sveitirnar sem byggir upp nýjar atvinnugreinar eins og til að mynda í kringum ferðaþjónustuna almennt þar sem mikill uppgangur er víða um land og einmitt rétt að skoða hvernig hægt er að standa myndarlega við bakið á því starfi.

Af því að hv. þingmaður dvaldi við mjólkurkvótaverð og þróun sem á sér stað þar þá er hún að mörgu leyti ágæt eins og ég sagði í ræðu minni áðan. Það var sjálfsögð og eðlileg þróun að búin stækkuðu og yrðu hagkvæmari en menn hljóta að taka eftir því, sérstaklega út af orðum hæstv. landbúnaðarráðherra sem er leiðtogi ríkisstjórnarflokkanna í landbúnaðarmálum, að hann vill ekki sjá þróunina með þeim hætti, heldur er framtíðarsýn hans að hér séu lítil eða meðalstór fjölskyldubú. Orð í þá veru hafa a.m.k. tvisvar ratað í fréttirnar, höfð eftir hæstv. landbúnaðarráðherra, en hv. þm. Drífa Hjartardóttir varði þessa þróun af nokkrum þrótti og á henni var að heyra að hún taldi hana nánast einungis til góðs og eins og ég sagði er hún að mörgu leyti ágæt og nauðsynleg. Menn hljóta samt að spyrja hvað eigi að ganga langt og hvenær er verð á mjólkurkvóta orðið of hátt, óeðlilega hátt.

Nú eru menn að skuldsetja sig jafnvel áratugi fram tímann til að greiða niður kvótakaupin, þannig að ábatinn af þeim skilar sér ákaflega seint. Bændur, kúabændur sem hafa verið að stækka við sig, byggja upp ný fjós og kaupa meiri kvóta, eru verulega skuldsettir. Það má því lítið út af bregða í greininni þannig að þeir lendi ekki í hremmingum.

Vegna þessarar þróunar, út af vanda og erfiðleikum sauðfjárbænda, út af öllum sprotagreinunum annars staðar úti á landi er kallað eftir framtíðarsýn stjórnvalda í skipan landbúnaðarmála og hvernig viðhalda eigi sáttinni um stuðninginn og hvernig koma eigi þeim stuðningi til greinanna þannig að fleiri njóti og á almennari hátt en nú er.



[11:49]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður má ekki verða reiður eða láta það fara í taugarnar á sér þó að ungur þingmaður tali hér eins og henti hv. þingmann. Maður finnur þó í öðru hverju orði mikinn velvilja til landbúnaðarins og sveitanna og fyrir það vil ég þakka og fagna. Ég minni hv. þingmann á á hvaða rót hann stendur, hann er í Samfylkingunni. Samfylkingin er byggð á Alþýðuflokknum gamla sem hafði það að pólitískri atvinnu að berja bændur undir belti og valda þeim miklum skaða í almenningsáliti í gegnum áratugi. Ég ætla ekki að rifja upp þá sorgarsögu heldur fagna hverjum liðsmanni og það er hv. þingmaður vissulega.

Ég minni hann á að ef hann fer um Suðurland þá sér hann nýja búgarða. Þau eru fleiri hundruð, ný lögbýli sem ég hef skrifað undir. Fólk er að flytja út á land, út af hrossum, trjám, ferðaþjónustu, í sveitina til að lifa þar í menningunni. Glæsileg þróun sem kemur á móts við fækkun og stækkun búa. Kúabúin eru ekki orðin stór á Íslandi að meðaltali, um 130 þúsund lítra bú. Hefði hv. þingmaður farið á landsfund sauðfjárbænda hefði hann fundið þar mikla bjartsýni. Sauðfjárbændur eru að meðaltali tekjulágir en þeir lifa á mörgu öðru, auðlindum, eru með kýr, eru með ferðaþjónustu og gera hitt og þetta annað. Sauðfjárræktin er í mikilli þróun. Þeir þökkuðu núna virkilega fyrir þann búvörusamning sem þeir fengu á sínum tíma og telja hann sitt tæki til þróunar. Lambakjötsneyslan hefur aukist verulega. Mér sýnist landbúnaðurinn vera í mikilli þróun þó að það sé auðvitað hárrétt að þar eru að verða breytingar.

Mér finnst oft að samfylkingarmenn vilji greiða mönnum svona hóla og hæðir, og jafnvel vinstri grænir einnig, fyrir að gera ekki neitt. Þess vegna er mikilvægt að taka ekki stuðninginn frá þeim sem eru að vinna og framleiða mat, en hins vegar liggur það fyrir, hv. þingmaður, og að því er verið að vinna í alþjóðasamningum, WTO-samningunum, að á þessu kerfi öllu verða breytingar. Á öllu þessu kerfi hafa orðið miklar breytingar í minni tíð og mikill stuðningur komið (Forseti hringir.) við nýjar búgreinar og mun ég fara yfir það í seinni ræðu minni.



[11:51]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að ég held að það sé heilmikill velvilji til sveitanna og dreifbýlisins, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Um það er ég ekki í neinum vafa. Þann velvilja hljótum við að vilja virkja til þess að vel sé staðið við bakið á þeim greinum sem blómstra eða geta blómstrað úti á landi.

Hvað varðar almenningsálitið til bænda þá held ég að enginn einn stjórnmálaflokkur hafi valdið því meiri skaða en Framsóknarflokkurinn í gegnum tíðina. Framganga hans í landbúnaðarmálum hefur oft og tíðum verið með þeim ólíkindum að margir hafa fyllst efa og tortryggni í garð réttmætis þess að standa með þeim hætti að landbúnaði sem hér er gert.

Ég tek fram að ég styð það að það eigum við að gera. Þess vegna kallaði ég eftir því að hæstv. ráðherra skýrði framtíðarsýn sína, því eins og ég sagði situr það svo í mér þegar hann galt mikinn varhug við þeirri þróun sem var eiga sér stað, a.m.k. að einhverju leyti hvað varðar samþjöppun mjólkurbúa og stærð þeirra. Hann nefndi til að mynda einhvern tíma þann möguleika að binda beingreiðslurnar við tiltekinn lítrafjölda, 500 þús. lítra eða 400 þús. lítra. Ætli meðalbúið framleiði ekki 150–200 þús. lítra á ár? (Landbrh.: 130.) 130 þús. lítra, já. Þetta er að breytast, það eru að koma upp bú sem framleiða 400–500 þús. lítra. Sú framtíðarsýn sem ég vil einmitt heyra frá hæstv. ráðherra er þessi: Telur hann að hætta eigi að styðja mjólkurframleiðsluna þegar tilteknum lítrafjölda er náð í framleiðslu? Telur hann að ekki komi til greina, eins og mér heyrist hann tala áðan, að byggðatengja styrkina? Að sjálfsögðu ekki við það að liggja í bælinu og sofa, heldur að binda þá við tiltekin verkefni sem menn þurfa þá að sýna fram á að séu í gangi og tiltekna uppbyggingu á nýrri atvinnu.



[11:53]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, vissulega kemur til greina að byggðatengja styrki að einhverju leyti og breyta þeim í græna styrki úr framleiðsluhvetjandi styrkjum.

Til að menn sjái hvað hv. ræðumaður var á rangri leið þá gerði hann garðyrkjuna, grænu stóriðjuna að máli. Ég var að rifja það upp og skoða að þegar ég byrjaði sem landbúnaðarráðherra voru eilífar deilur um grænmetisverð. Ég sat fleiri, fleiri Kastljóssþætti og reifst við menn um það. Síðan mörkuðum við stefnu og gerðum langtímasamning til 2011 við þessa stóriðju sem er nú í örri þróun. Í vetur var enn aukið til raforkuniðurgreiðslu vegna greinarinnar. Hún er í örri þróun í nánd við íbúðarhús hv. þingmanns og um allt Suðurland. Ég finn ekki annað en að friður sé um þennan atvinnuveg.

Hv. þingmaður sá ástæðu til að minnast á hestinn. Það var enginn opinber stuðningur við hestamennskuna þegar ég byrjaði sem landbúnaðarráðherra. Það náðust samningar um að í það færu 40 milljónir á ári. Hv. þingmaður sagði að hestamenn hefðu hvergi komið þar nálægt en Landssamband hestamanna, Félag hrossabænda, Félag tamningamanna og Bændasamtökin skiptu öllu þessu fjármagni í átaksverkefni, stjórn úr þeirra röðum. Sama má segja um Hestamiðstöð Íslands í Skagafirði. Það fór í átaksverkefni hestamennskunni til góða og greinin stjórnaði því eða sú stjórn sem þar var með sveitarfélaginu.

Svo vill hann gera lítið úr umboðsmanni hestsins, sem er samstarfsverkefni með Flugleiðum og KB-banka sem dregur hingað ferðamenn og viðskipti til landsins. Þessi umboðsmaður hefur starfað með Félagi hrossabænda, Félagi tamningamanna, komið að markaðssetningu erlendis og innan lands. Hann er auðvitað eins og stjórnmálamenn umdeildur og ber að vera það. Sitt sýnist hverjum í lífinu. Ég er klár á því að embættið hefur skilað heilmiklu og er að vinna að stórum verkefnum sem verður greininni til framdráttar. Nú er ég að vinna úr þeim stuðningi sem kom á fjárlögum, 25 milljónir. Það verður auðvitað greinin, atvinnugreinin, (Forseti hringir.) áhugamennirnir og aðrir sem koma að því og vinna að því með mér. Þannig að þetta var útúrsnúningur hjá hv. þingmanni.



[11:56]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. landbúnaðarráðherra lýsir því svo afdráttarlaust yfir að hann telji það vel koma til greina að byggðatengja frekar stuðninginn við landbúnaðinn en nú er gert (Gripið fram í.) og það sé hans pólitíski vilji að þau skref verði stigin.

Opinber stuðningur við hrossarækt upp á 40 millj. kr. er ákaflega lítill stuðningur en auðvitað á að þakka það sem gert er. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir því að stuðningur við hrossaræktina verði aukinn, enda er hann aðdáandi og njótandi íslenska hestsins sjálfur persónulega, og þekkir þar vel til og er velviljaður í garð hrossaræktarinnar. En auðvitað þarf að koma til miklu meiri stuðningur við greinina, sérstaklega af því útflutningur á hrossum hefur átt í töluverðum erfiðleikum á liðnum árum, þar hefur gengið á ýmsu þó svo að það sé að nást ákveðið jafnvægi núna. Mjög mikill fjöldi hrossa er á erlendri grund. Feikilegur fjöldi íslenskra hesta er úti um alla Evrópu og töluvert í Norður-Ameríku. Við eigum að ganga lengra þar.

Ég ítreka að það gleður mig að heyra að hæstv. ráðherra ætlar að stíga frekari og stærri skref í því að byggðatengja styrkina. Við hljótum að kalla eftir að sú framtíðarsýn verði dregin upp í dag, um leið og hæstv. ráðherra hlýtur að taka af allan vafa um hvernig hann ætlar að vinna að eða þá hamla gegn þeirri þróun sem á sér stað núna í mjólkuriðnaðinum þar sem hann hefur ítrekað gefið til kynna að sú þróun hugnist honum ekki, hann vilji sjá lítil og meðalstór fjölskyldubú en ekki stór verksmiðjubú í ríkum mæli.

Ég hlakka mjög til, virðulegi forseti, að hlýða á ræðuhöld hæstv. ráðherra hér í dag og á næstu vikum um framtíðarsýn hans í skipan landbúnaðarmála.



[11:58]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum.

Menn hafa farið út um víðan völl, út um skeiðvöll má segja, og hv. þm. Björgvin Sigurðsson fór á kostum, mér fannst hann fara upp af sprettinum en liggja ekki alveg. (Gripið fram í.) Það var ýmislegt sem hann kom inn á og allt annað en það frumvarp sem við ræðum hér, m.a. talaði hann um hestamennsku og má þá minna hv. landbúnaðarráðherra á að framlag ríkisins til hestamennsku er mun meira, vegna þess að það eru ýmsir sjóðir sem styðja við hestamennsku, eins og Framleiðnisjóður landbúnaðarins sem er búinn að leggja tugi milljóna í ákveðið verkefni sem er exemverkefni, en exem hefur háð útflutningi okkar á íslenskum hestum.

Ég ætla nú ekki að hafa fleiri orð um það, frú forseti, en snúa mér að því frumvarpi og nefndaráliti sem hér liggur fyrir varðandi gjald sem verið er að afnema, gjald sem lagt hefur verið á mjólkurframleiðendur. Eins og hér hefur komið fram þá er þetta 1,7% gjald og hefur verið lagt á framleiðendur innan hvers mjólkurbús eða mjólkursamlagssvæðis. Það hefur verið tengt svæðunum og lagt á alla, eins og fram kemur í nefndarálitinu. Það hefur verið lagt á alla þá er leggja inn mjólk þannig að þeir sem ekki hafa verið í sæðingunum hafa jafnframt greitt gjaldið. Ég tel að það hafi verið ofureðlilegt á sínum tíma. Þá var um að ræða nýja starfsemi og eðlilegt að allir tækju þátt í kynbótastarfinu. Það hafa auðvitað allir notið þess, jafnvel þeir sem hafa verið með heimanaut og farið aðrar leiðir. Ég held að það hafi ekki verið ósanngjarnt þótt sumir hafi haldið því fram.

Mig langar fyrst og fremst að spyrja um tvennt. Þetta gjald hefur verið innheimt, upp á 1,7% og á það verið lagður innskattur. Bændur hafa því borgað 1,7% og svo innskatt ofan á, sem þeir hafa þá getað notað í bókhaldi sínu og haft útskatt á móti.

Nú er spurningin, þegar þetta kemur beint til bændanna í gegnum búnaðarsamning, hvort það er með innskatti eða er sú upphæð sem nefnd er í tengslum við þetta, þ.e. 80 millj. kr., sambærileg með eða án innskatts þannig að bændur standi í raun jafn vel á eftir. Það skiptir máli og þetta vita örugglega formaður landbúnaðarnefndar eða hæstv. landbúnaðarráðherra. Þetta er í raun hliðstætt nefskattinum sem við erum að setja á með frumvarpi til nýrra útvarpslaga. Þar er innskattur en á því verður breyting út af nefskattinum, sem svo er kallaður. Þetta er því mjög hliðstæð breyting.

Seinni spurning mín er: Hvernig verður þessum fjármunum skipt? Eins og ég sagði áðan eru þessi 1,7% innheimt á viðkomandi mjólkursölusvæðum eða mjólkurbússvæðum og nýtt á þeim svæðum þannig að þeir mjólkurframleiðendur sem leggja inn á Suðurlandi, hjá Mjólkurbúi Flóamanna, fá það til rekstrar á kynbótastarfi sínu, á Kynbótastöð Suðurlands í því tilfelli. Hið sama á við á Eyjafjarðarsvæðinu o.s.frv. Mig langar því til að spyrja: Hvernig á að skipta þessum fjármunum? Er ljóst, þegar við samþykkjum þetta, hvernig þessum 100 millj. kr. verður skipt? Verður þeim skipt eftir innleggi eða öðrum reglum? Ég held að það verði að vera á hreinu hvernig þessum fjármunum verði skipt milli viðkomandi svæða.



[12:03]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki mjög stórt mál að vöxtum sem hér er til umræðu, um að fella niður gjald sem tekið er í afurðastöðvunum. Ég veit ekki hvað menn hafa kallað þetta, ætli þeir hafi ekki kallað það sæðingargjald eða eitthvað slíkt? Mér þykir það mjög líklegt miðað við textann. Mér finnst eðlilegt að farin sé sú leið sem hér lagt til og gjaldið fellt niður, enda sé ég á nefndarálitinu að enginn í landbúnaðarnefnd leggst í sjálfu sér gegn því.

Menn hafa rætt nokkuð vítt og breitt um landbúnaðinn í tengslum við málið og ég ætlaði að koma í stuttu máli inn á viðhorf mín í þeim efnum. Ég tel mjög mikilvægt, eins og ég hef reyndar mjög oft sagt í þessum ræðustól, að við horfum til þess í framtíðinni að efla og viðhalda byggð í landinu. Þátt í því tel ég m.a. að breyta greiðslu styrkja í landbúnaði og taka upp það sem ég hef viljað nefna búsetuvæna styrki og byggðastyrki. Þannig yrði breytt því greiðslufyrirkomulagi sem verið hefur í landbúnaðinum, þ.e. hinum svokölluðu beingreiðslum. Vísir að þessu er þegar til staðar í samningnum við mjólkurbændur. Þar koma til svokallaðar gripagreiðslur og grænar greiðslur í framtíðinni. Ég tel að það væri í rétta átt.

Hér hefur verið rætt um sauðfjársamninginn. Þar held ég að við þurfum einnig að horfa til þessara hluta. Ég tel mikilvægt að við reynum á einhvern hátt að útbúa styrki sem tengjast meira búsetu á jörðum í sveitum, tryggja jarðnýtinguna og viðhalda byggðamunstrinu. Eins og ég hef oft sagt held ég að það séu mikil verðmæti í því fólgin fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar að byggðin í sveitunum haldi velli og geti þróast. Ég tel að hluti af breytingu á stuðningi við búsetu í sveitum, með því að fara í slíkar útfærslur, sé hluti af þeirri þróun sem þarf að eiga sér stað og efli í raun nýsköpun í sveitum landsins, stuðli að því að fólk hafi frjálsari hendur og meiri möguleika til að finna sér ný og önnur atvinnutækifæri eða atvinnutækifæri til viðbótar við þá hefðbundnu framleiðslu sem við höfum styrkt á undanförnum árum.

Ég hvet til þess að menn hugi að því í framtíðinni að efla styrki sem snúa að viðhaldi byggðar og landnýtingu og þannig hafi bændur í raun nokkuð opnari heimildir til að fá ákveðna styrki til búsetunnar, án þess að þeir séu beinlínis bundnir við að framleiða ákveðið mörg kíló af lambakjöti eða ákveðið magn af mjólk. Þetta held ég að sé mjög æskilegt. Ég heyrði það á svörum hæstv. landbúnaðarráðherra áðan að hann tekur undir þessa hugsun, að þetta þurfi að gera, m.a. með hliðsjón af alþjóðasamningum. Í þeim samningum eru menn stöðugt að vinna og menn telja að þar muni slíkar áherslur koma inn í auknum mæli. Við komumst ekki hjá því að taka mið af því.

Ég held hins vegar að það sé mjög nauðsynlegt fyrir okkur að ákveða sjálf að láta þetta þróast á þennan veg, ákveða sjálf hvert við viljum stefna og efla þannig frumkvæði og möguleika fólks til að setjast að í sveitum landsins. Ég dreg mjög í efa að ofurverð á kvótum, t.d. á mjólkinni, stuðli að því að búsetan í sveitum landsins styrkist og eflist. Ég held að það sé ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af háu mjólkurkvótaverði. Hvernig bregðast menn þá við til að hafa einhver áhrif á að kvótaverðið fari ekki upp úr öllu valdi? Það mætti t.d. hafa áhrif á það með því að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að til stæði af hans hálfu að takmarka með einhverjum hætti beingreiðslur inn á bú þegar menn eru komnir yfir það að framleiða ákveðið mikið. Hvað eigum við að segja, 300–500 þús. lítra? Ég veit ekki hvar menn eiga að draga þá línu. En mér finnst alveg sjálfgefið að einhvers staðar dragi menn línu.

Það getur ekki verið svo að við ætlum að safna beingreiðslunum inn á tiltölulega mjög fá stórbú því að ég held að þá verði aldrei friður um útfærsluna. Það verður aldrei friður um það ef menn segja: Við erum á fullri ferð í hagræðingu og ætlum að ná miklum hagnaði út úr búrekstrinum með því að stækka þau. Eru þá einhver rök lengur til þess að þjóðin styrki slíkan hagnaðarrekstur? Ég held að þessi spurning hljóti að koma upp og þeir sem eru í forustu í ríkisstjórninni fyrir landbúnaðarmálum, hæstv. landbúnaðarráðherra og hv. þm. Drífa Hjartardóttir, hljóti að velta fyrir sér hvert við stefnum með þessu lagi og hvort æskilegt sé að í það stefni að til verði kúabú sem fari jafnvel að framleiða hálfa milljón lítra á ári. Eiga þau að hafa beinan aðgang að styrkjum út á það? Einhvers staðar munum við draga þessa línu, hæstv. ráðherra. Nákvæmlega hvar hún er veit ég ekki en það getur ekki verið svo að menn geti endalaust fengið ávísun úr ríkissjóði, hversu stór og öflug sem bú þeirra verða.

Þetta vildi ég sagt hafa um það sem við þurfum að skoða í landbúnaðinum og þróun hans til framtíðar. Við þurfum einnig að sjá til þess að hluti af styrkjum í landbúnaði verði til þess að styrkja búsetu í sveitum almennt, ekki eingöngu að fækka búum heldur einnig að fólk finni hjá sér hvöt til þess að finna möguleika til annarrar tekjuöflunar en að hluta tengist það jarðnýtingu og búsetu fólks í dreifðum byggðum landsins.



[12:11]
Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi frú forseti. Umræðan sem hér fer fram er sprottin af kerfisbreytingu sem verið er að gera á einum af félagslegu þáttunum í uppbyggingu kynbótastarfs í nautgriparækt. Sú uppbygging á að verða hluti af samningum milli ríkisins og mjólkurframleiðenda og það hefur leitt af sér umræðu um stöðu og horfur í landbúnaði almennt.

Hæstv. landbúnaðarráðherra lýsti þeirri lífsskoðun að það ættu að vera fjölskyldubú sem byggðu upp grunnatvinnuvegina, í mjólkurframleiðslu, sauðfjárrækt og öðrum aðallandbúnaðargreinunum. Hann taldi að í því fælist framleiðsluöryggi og gæðavottun vörunnar sjálfrar og einnig orðspor hennar og ímynd út á við. Þessu er ég sammála, hæstv. ráðherra.

Hann nefndi að þessi ímynd væri mikilvæg nú þegar við sækjum á erlenda markaði með dilkakjöt og jafnvel líka að menn geti vonandi sótt á erlenda markaði með sérhæfðar mjólkurvörur á grundvelli sértækra gæða íslensku mjólkurinnar. Ég held einmitt að í þessu séu sóknarfærin sem við höfum verið að undirbyggja.

Þá hefur spunnist í umræðuna breyting sem er í undirbúningi á opinberum stuðningi eða grunnstuðningi við landbúnað í ýmsum löndum á grundvelli alþjóðlegra samninga sem nú standa yfir. Ég held að við eigum sem allar fyrst að skoða hvaða áhrif þær hafa á framleiðslu í okkar landbúnaði. Þeir samningar sem hafa verið gerðir við bændur hafa nánast alfarið byggt á magnþátttöku, þ.e. að greitt sé fyrir hverja framleidda einingu. Sá stuðningur er að sjálfsögðu ekki bara til framleiðenda heldur skilar hann sér líka í lækkuðu verði til neytenda þannig að þar er á ferðinni samfélagssáttmáli. Við viljum hafa öflugan og góðan íslenskan landbúnað. Við viljum líka að þær landbúnaðarvörur séu á hóflegu verði til neytenda og með þátttöku ríkisins tryggjum við hvort tveggja. Þetta gera flestöll lönd, ég tala nú ekki um nágrannalönd okkar þar sem jafnvel er gengið enn lengra heldur en við gerum hér.

Í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið á viðhorfum almennings til þess að viss samfélagsleg ábyrgð sé á landbúnaði hefur sýnt að menn vilja hafa hana. Þetta varðar okkur öll. Það varðar alla íbúa landsins hvernig landbúnað við stundum hér á landi. Við viljum búa við matvælaöryggi og gæði, við viljum halda landinu í byggð og hafa búskapinn umhverfisvænan og sjálfbæran. Ég held að þetta sé sú grunnhugsun sem flestir ganga út frá.

Ég leyfi mér að velta þessu upp og spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra, úr því að hann sjálfur opnaði þá umræðu, hvað er að gerast hjá okkur. Ég man ekki hvort það var hæstv. ráðherra, hv. þm. Kjartan Ólafsson eða hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem minntist á kvótaverðið, þetta háa verð á mjólkurkvótanum. Það er eftir því sem mér hefur skilist af nýjustu fregnum komið yfir 400 kr. á lítrann, 420–430 kr. var mér sagt að lítrinn kostaði núna, sem bændur sem vilja ná í framleiðslurétt verða að greiða. Horfum til þess sem bændur fá fyrir lítrann greiddan frá afurðastöð. Hæstv. ráðherra man þetta ábyggilega miklu betur en ég, en eru það ekki milli 80 og 90 kr. eða þess háttar? Er það ekki eitthvað nálægt því? (Landbrh.: Nokkurn veginn.) Hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) liðlega 80 kr. sem þeir eru að fá fyrir lítrann. Hver er samsetningin í því verði? Hver er beingreiðslan og hvað er það sem afurðastöðin greiðir? Er það ekki hlutfallið 60 á móti 40 eða eitthvað þess háttar? Hæstv. ráðherra veit þetta eðlilega miklu betur.

Hverjir standa þá undir þessu háa kvótaverði, þessum 420–430 kr. á lítrann af mjólk? Hver er að greiða það? Hvernig ætlar bóndinn að ná inn þeim fjármagnskostnaði sem greiða verður í þeim kaupum? Hann verður að greiða af þessum 420–430 kr. á lítra og það er engin smávegis fjárfesting fyrir rekstrargrunninn. Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig hann meti samkeppnisstöðu íslenskrar mjólkurframleiðslu sem verður að greiða fjármagnskostnað af svo háu kvótaverði. Hver stendur straum af þessum kostnaði? Hver greiðir fjármagnskostnaðinn af þessu háa kvótaverði í mjólk? Það getur aldrei verið neinn nema neytandinn. Bóndinn getur yfir takmarkaðan tíma slegið lán og fjármagnað sig á lánum en þegar til kastanna kemur er það neytandinn sem borgar þetta háa kvótaverð. Það er ekki hægt að reka það öðruvísi. Hver er þá samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu með þessu áframhaldi?

Frú forseti. Mér finnst að landbúnaðarráðherra hafi ekki tekið á málunum að þessu leyti. Ég trúi því ekki að það hafi verið ætlun hans að við flytum áfram sofandi að þeim feigðarósi sem þetta kerfi hlýtur að bjóða upp á. Hefur ekki kvótaverð á mjólk hækkað um 100 kr. á lítrann eða meira á innan við ári? Það verður stöðugt erfiðara fyrir nýja bændur að kaupa framleiðslurétt. Það er hægt að slá lán en fjármagnskostnaðinn og afskriftirnar af þessum kvóta verður að borga. Hvert er kvótaverðið í Evrópu, í samkeppnislöndum okkar sem við erum að reyna að styrkja framleiðslu okkar til að vera samkeppnisfær við?

Frú forseti. Þetta er grundvallaratriði gagnvart í þeirri sátt, þeim samningi, sem ríkið, þjóðin, hefur gert með bændum um mjólkurframleiðsluna. Ég tel að þeir samningar sem þjóðin er sátt við að gera við bændur byggi á því að uppi verði haldið ákveðnu búskaparmunstri, byggt á fjölskyldubúum, því að landið sé í byggð og að hér sé framleidd góð og örugg vara.

Það sem gerst hefur upp á síðkastið er að einstakir stórir aðilar eru farnir að safna upp framleiðslurétti án þess að þeir nýti hann endilega á búum sínum. Þeir eiga orðið fleiri bú og safna framleiðslurétti, safna beingreiðslum, ríkisgreiðslum. Viðkomandi jarðir geta fallið úr ábúð og búskap þar hætt því að það er ekkert sem bannar, eftir að búið er að kaupa framleiðsluréttinn, að flytja hann á milli jarða. Til viðbótar koma síðan kerfisbundin uppkaup einstakra fjársterkra aðila á jörðum. Það er ekki verið að kaupa upp jörð eða jarðarpart fyrir frístundabústað eða til að stunda aðra starfsemi en landbúnað. Hér hafa orðið raðuppkaup á jörðum. Þegar þetta gerist hvort tveggja samtímis, jafnvel með íhlutun sömu aðila, þá er þeirri sátt ógnað, þeim samningi sem gerður var við mjólkurframleiðendur, við bændur. Mér finnst hæstv. ráðherra gera lítið í að bregðast við því.

Ég minni á að ég hef flutt tillögur á Alþingi sem lúta að þessum málum en þær hafa enn ekki verið teknar til umræðu. Þar hef ég lagt til, frú forseti, að sett væru takmörk við því hvað sami lögaðili geti verið handhafi mikils réttar til beingreiðslna. Ég held að það verði að setja þar einhver takmörk, eins og hæstv. ráðherra ýjaði reyndar sjálfur að. Það verður engin sátt um það ef stór hluti mjólkurframleiðslunnar fer á örfárra manna hendur. Við höfum séð hið sama gerast í svínaræktinni, þar sem svínakjötsframleiðslan var nánast komin á örfárra manna hendur. Öryggi neytenda og öryggi í framleiðslunni var orðið sáralítið og ef eitthvað kom fyrir í búrekstrinum og búin fóru á hausinn, ef kom upp sjúkdómur, þá var ekki hægt að afgreiða nægilegt magn framleiðslunnar á markaðinn. Út frá öryggissjónarmiðum og út frá búsetu- og framleiðslusjónarmiðum er þetta að mínu viti mjög hættuleg þróun. Ég hef lagt fram tillögu um að menn finni hámark þeirra beingreiðslna sem einn og sami lögaðili geti verið handhafi að þannig að ríkið fari ekki að senda beingreiðslur á örfáa bændur í landinu í mjólkurframleiðslu, með tilheyrandi óöryggi og áhættu í framleiðslunni.

Ég vil einmitt vitna til þess að búnaðarþing ályktaði nýverið og einnig í fyrra um þetta mál. Ég vildi nefna það, úr því að við erum komin út í þessa umræðu, að hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga var haldinn bændafundur á Svaðastöðum 21. janúar 2004. Sá fundur beindi, með leyfi forseta, eftirfarandi til búnaðarþings og búgreinafélaga, þar segir:

„Nú liggur fyrir að gera og/eða endurskoða samninga um rekstrarumhverfi fyrir nautgriparækt, sauðfjárrækt og loðdýrarækt. Í þeirri samningagerð telur fundurinn að megin markmið eigi að vera:

1. Að það fjármagn sem ríkið leggur fram verði notað til að viðhalda og efla byggð í sveitum landsins.

2. Stuðla að því að fjármagnið renni til framleiðslunnar á hverjum tíma og verði raunverulegar tekjur fyrir starfandi bændur.“

Í ályktun frá nýafstöðnu búnaðarþingi í mars 2005 var síðan áréttað enn skarpar að: „… sett verði hámarkshlutdeild einstaka framleiðslueininga innan hverrar framleiðslugreinar, byggt á öryggis- og umhverfissjónarmiðum fyrir neytendur og framleiðendur.“

Bændasamtökin hafa ítrekað lagt áherslu á að í þessa vinnu verði farið. Ég vil því spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra: Hvað líður því að landbúnaðarráðuneytið bregðist við ósk Bændasamtakanna um að finna hvar takmörk á bústærð eða rétti eins lögaðila til beingreiðslna eigi að vera? Það verður að gerast, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á áðan. Það verður engin sátt um það haldi áfram sem nú horfir. Þá sátt sem verið hefur megum við alls ekki rjúfa enda hefur þjóðin mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig landbúnað hún vill stunda.

Hið sama gildir líka um uppkaup á jörðum. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir var að hæla sér af því er keyrðar voru í gegn breytingar á ábúðar- og jarðalögum síðasta vor, keyrðar mjög hratt í gegn. Vissulega voru sumir þættir í þeim til bóta og eðlilegir en aðrir voru ekki ígrundaðir. (DrH: Það var ekkert keyrt, þetta mál.) Hv. þingmaður er eðlisrösk, hv. þm. Drífa Hjartardóttir, og það skal ekkert af hv. þingmanni skafið en engu að síður var málið um ábúðar- og jarðalögin keyrt áfram allt of hratt og ekki ígrunduð sú staða sem við stöndum frammi fyrir varðandi breytta búskaparhætti.

(Forseti (JóhS): Forseti vill geta þess að áform voru um að fresta fundi kl. 12.30. Þess vegna spyr forseti ræðumann hvort hann eigi langt í land með að ljúka ræðu sinni þannig að við mundum þá fresta henni til hálfþrjú.)

Það er helst, frú forseti, að ég hefði viljað fá svör frá hæstv. ráðherra, úr því að þessi atriði eru komin inn í umræðuna.

(Forseti (JóhS): Ég geri ráð fyrir því að hæstv. landbúnaðarráðherra svari því þegar þar að kemur.)

Þá fresta ég bara ræðu minni, frú forseti.