131. löggjafarþing — 124. fundur
 6. maí 2005.
útflutningur hrossa, 2. umræða.
stjfrv., 727. mál (hámarksaldur útflutningshrossa). — Þskj. 1085, nál. 1317.

[14:39]
Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá landbúnaðarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2002, um útflutning hrossa.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund B. Helgason og Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti og Halldór Runólfsson frá embætti yfirdýralæknis.

Þá bárust umsagnir frá embætti yfirdýralæknis, Bændasamtökum Íslands, héraðsdýralækni A-Skaftafellsumdæmis, héraðsdýralækni Suðurlandsumdæmis, héraðsdýralækni Austurlandsumdæmis, héraðsdýralækni Dalaumdæmis, Sigríði Björnsdóttur, dýralækni hrossasjúkdóma, Búnaðarsambandi Skagfirðinga, Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og Hagþjónustu landbúnaðarins.

Með frumvarpinu er lagt til að felld verði niður ákvæði um hámarksaldur hrossa sem leyfilegt er að flytja úr landi. Ákvæðið þykir ekki hafa neina þýðingu lengur þar sem ítarleg skoðun fer fram á öllum hrossum fyrir útflutning sem framkvæmd er af eftirlitsdýralækni.

Samkvæmt gildandi lögum er óheimilt að flytja út hross nema embættisdýralæknir meti það hæft til útflutnings m.a. með tilliti til dýraverndar og smitsjúkdóma. Nefndin telur með vísan til umsagna sem borist hafa að nauðsynlegt sé að sjónarmið dýraverndar séu tryggð og leggur því til þá breytingu að héraðsdýralækni verði falið að meta sérstaklega ástand útflutningshrossa þegar um eldri hross er að ræða.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu:

Við frumvarpið bætist ný grein er verði 2. gr. og orðist svo: Á eftir orðunum „hæft til útflutnings með tilliti til“ í 1. málsl. 2. gr. laganna kemur: aldurs.

Hv. landbúnaðarnefnd leggur þetta til eftir að hafa fengið ágætar ábendingar frá dýralæknum bæði frá Suðurlandi og Norðurlandi. Það er vegna þess að vitað er að flutningur hefur mikil áhrif á hross þó að þau séu flutt með flugvélum eins og gert er í dag en ekki með skipum eins og gert var áður fyrr, en þau eru líka flutt lengra nú en áður. Það má leiða líkur að því að eldri hross séu að jafnaði verr í stakk búin til að þola mikla flutninga og hafi minni aðlögunarhæfni gagnvart nýjum umhverfisaðstæðum en yngri hross. Einnig er hætta á sumarexemi mikil og hætta á alvarlegum smitsjúkdómum þó að ekki hafi verið hægt að sýna fram á að aldur við útflutning sé þar beinn orsakavaldur, en það er almennt svo að aðlögunarhæfni ónæmiskerfisins minnkar með aldrinum. Þessir flutningar eru því erfiðari fyrir eldri hross. Eins óttast dýralæknarnir að stressáhrif, bæði vegna flutnings og umhverfisbreytinga, hafi áhrif á óeðlilegan blóðstatus í hrossum. Því leggur hv. landbúnaðarnefnd til þessa breytingu.

Einar Oddur Kristjánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Drífa Hjartardóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Birkir J. Jónsson, Jón Bjarnason, Guðmundur Hallvarðsson og Dagný Jónsdóttir.



[14:42]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður og formaður landbúnaðarnefndar, Drífa Hjartardóttir, hefur mælt fyrir nefndaráliti landbúnaðarnefndar um frumvarp það sem hér liggur fyrir, um breytingu á lögum um útflutning hrossa. Þessi breyting felur í sér að verið er að heimila að flytja út eldri hross en áður hefur verið heimilt, þó með þeirri breytingu, áréttingu sem landbúnaðarnefnd gerir, um að hnykkja á með dýralæknisskoðun áður en þau fara úr landi.

Eins og þessi grein hljóðar fyrir þessa breytingu, frú forseti, ég ætla að lesa hér úr lögunum eins og þau standa nú áður en þessi breyting kemur inn, með leyfi forseta:

„Útflutningur á hrossum er heimill án sérstakra leyfa. Útflutningshross skulu vera á aldrinum fjögurra mánaða til fimmtán vetra. Þó má flytja úr landi eldri kynbótahross en þá einungis með flugvélum. Óheimilt er að flytja úr landi fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur.“

Svona hljóða lögin eins og þau eru núna en verið er að rýmka þau þannig að flytja megi líka út eldri hross en 15 vetra þó að ekki sé um kynbótahross að ræða, en landbúnaðarnefnd hnykkir á með dýralæknisskoðun áður en það er gert.

Landbúnaðarnefnd stendur öll að þessu nefndaráliti. Hins vegar held ég að rétt sé að fara aðeins í gegnum hvers vegna verið er að setja svona varúðarreglur í lög varðandi útflutning á eldri hrossum.

Útflutningur á hrossum og aðbúnaður hrossa í flutningi og erlendis hefur oft mjög verið til umræðu og sem betur fer er stöðugt verið að bæta flutningsmöguleikana hvort sem það er með flugi eða skipi. Aðbúnaður hrossanna í flutningi hefur því stöðugt orðið betri. Þetta eru önnur þau rök sem nefndin hefur til þess að heimila að þetta sé gert.

Hins vegar hefur það líka verið mjög rík tilfinningaleg afstaða meðal hrossaeigenda að ekki eigi almennt að þvæla eldri hrossum um langar vegalengdir kaupum og sölum, t.d. til útlanda. Hross sem eru orðin eldri en 15 vetra eru jú komin á seinni hluta æviskeiðs síns og þess vegna er ekki við því að búast að þau geti verið svo mikið til reiðar mörg ár í viðbót. Hesturinn hefur sem betur fer þá stöðu meðal hrossaeigenda að það er ríkt tilfinningasamband milli manns og hests og speglast það m.a. í þessum varúðarlögum sem sett eru.

Ég tel mig tala fyrir hönd nefndarinnar allrar þegar ég segi — alla vega er ég persónulega þeirrar skoðunar — að það er alls ekki ætlunin á nokkurn hátt að gera lítið úr þessari tilfinningalegu afstöðu til hrossa, því tilfinningasambandi sem er á milli manns og hests. Það er einmitt þetta tilfinningasamband sem er þá hin rökin sem nefndin færir fyrir því að heimila þetta með ströngum skilyrðum eða eins og kom fram í gögnum til nefndarinnar, að einstaklingar sem byggju hér á Íslandi eða hefðu verið hér um langan tíma og ættu fullorðin hross og flyttu svo utan langaði þá til þess að taka hrossin sín með sér. Á þessi tilfinningalegu rök er svo sem hægt að hlýða upp að vissu marki. Hér er ekki verið að gera því skóna að það eigi að verða sérstakur atvinnuvegur eða að styrkja eigi atvinnuveginn, verslun með hross, sem slíkan með því að stunda útflutning á eldri hrossum.

Ég held að það sé rétt að gera grein fyrir umsögnum sem koma frá aðilum um þetta því þetta er greinilega heitt mál og getur verið. Þess vegna er eins gott að brýna framkvæmdarvaldið sem fylgir lögunum eftir um að sýna mikla aðgát og varúð. Á það hefur verið bent líka að ekki hefur verið leitað almennrar umsagnar Dýraverndarfélags Íslands í þessu máli, sem hefði svo sem verið eðlilegt.

Ég ætla að rekja örstutt þau viðhorf sem komu fram gagnvart þessu máli. Í umsögn Katrínar Andrésdóttur, héraðsdýralæknis á Suðurlandi, segir t.d., með leyfi forseta:

„Undirrituð leggst gegn umræddri breytingu.

Ekki hefur verið sýnt fram á að eldri hross þoli flutninga og umhverfisbreytingar sem af þeim stafa jafn vel og yngri hross.

Ýmsar vísbendingar eru hins vegar til þess að flutningar á erlenda grund valdi talsverðu álagi á öll hross. T.d. berast fregnir frá Bandaríkjunum um að blóðstatus nýinnfluttra íslenskra hrossa bendi til álags.

Leiða má líkur að því að eldri hross séu að jafnaði verr í stakk búin til að þola mikla flutninga og hafi minni aðlögunarhæfni gagnvart nýjum umhverfisaðstæðum, enda minnkar aðlögunarhæfni ónæmiskerfisins með aldrinum.

Hættan á sumarexemi er mikil sem og hætta á alvarlegum smitsjúkdómum.“

Katrín segir áfram, með leyfi forseta:

„Ég vil því leyfa eldri hrossum að njóta vafans, legg til að felld verði niður undanþága sú sem er í núgildandi lögum varðandi kynbótahross.“

Katrín Andrésdóttir, héraðsdýralæknir á Suðurlandi, vill heldur ganga í hina áttina og þrengja heimild til þess að flytja út eldri hross. Hún bendir á að nauðsynlegt sé að rannsaka vísindalega hvernig hrossum reiðir af við komu á erlenda grund og sýni rannsóknir að aldur skipti þar litlu eða engu máli, sé tímabært að taka lög þessi til endurskoðunar.

Þetta er alveg tímabær og réttmæt ábending. Vert er að hafa í huga að umræðan um aðbúnað og heilsufar íslenskra hrossa sem hafa verið flutt út hefur mikla þýðingu fyrir markaðsmál íslenskra hrossa. Þess vegna ber okkur skylda til að sýna mikla varúð til að ganga ekki á það þanþol sem er gagnvart þessari stöðu því að það er einmitt það sem gagnrýnendur okkar eða samkeppnisaðilar erlendis tína til, að íslensk hross þoli illa þennan flutning og meðferð þegar erlendis kemur. Því megum við alls ekki ganga á það þanþol með því að leyfa útflutning á hrossum sem gæti skaðað útflutningsímyndina. Enda tekur Sigríður Björnsdóttir, embættisdýralæknir hrossasjúkdóma, í sama streng og héraðsdýralæknirinn á Suðurlandi Katrín Andrésdóttir og segir, með leyfi forseta:

„Ég tel að frekar þurfi að skerpa á ákvæðum um dýravernd í lögum um útflutning hrossa en slá af þeim. Hugmyndin sem liggur að baki þessum efri mörkum er sú að það sé mikið álag fyrir hrossin að koma í nýtt umhverfi og það sé því vafasamt að leggja þær breytingar á fullorðin hross, það taki því varla. Það er vitað að flutningurinn hefur mikil áhrif á hrossin, þó svo þau séu flutt með flugvélum. Þau eru líka flutt lengra en áður í sumum tilfellum. Leiða má líkur að því að eldri hross séu að jafnaði verr í stakk búin til að þola mikla flutninga og hafi minni aðlögunarhæfni gagnvart nýjum umhverfisaðstæðum. Hættan á sumarexemi er mikil sem og hætta á alvarlegum smitsjúkdómum og þó svo ekki hafi verið sýnt fram á að aldur við útflutning sé þar beinn orsakavaldur er það almennt svo að aðlögunarhæfni ónæmiskerfisins minnkar með aldrinum.“

Embættisdýralæknir hrossasjúkdóma bendir enn fremur á að komið hafi fram vísbendingar frá Bandaríkjunum um óeðlilegan blóðstatus í hrossum sem við óttumst að séu stressáhrif vegna langra flutninga. Svo segir í umsögn Sigríðar. Hún leggur til að frekar sé skerpt á undanþágunni varðandi eldri kynbótahross en að vera að auka heimildir.

Í sama streng tekur líka dýralæknirinn hjá embætti yfirdýralæknis, Björn Steinbjörnsson. Hann varar einnig við því að rýmka þessi ákvæði.

Frú forseti. Ég vildi bara geta þess hér að um þetta eru skiptar skoðanir út frá dýraverndarsjónarmiðum eins og ég hef hér rakið en einnig út frá markaðsmálum, þ.e. að ekki sé verið að flytja út hross að ástæðulausu sem geti á einhvern hátt skaðað markaðsímynd íslenskra hross á erlendri grundu. Hross sem eru 15 ára og eldri eiga ekki svo mikið eftir að leggja til eigenda sinna í reiðmennsku og því er alveg sjálfsagt að fara þarna að með gát.

Frú forseti. Ég tek mikið mark á þessum athugasemdum sem hafa komið frá þeim dýralæknum sem þarna þekkja gerst til af þeim sem rannsaka og koma að þessum málum. Bæði héraðsdýralæknirinn á Suðurlandi, Katrín Andrésdóttir, og embættissdýralæknir hrossasjúkdóma, Sigríður Björnsdóttir, slá mikla varnagla við þessu. Þess vegna vil ég í lokin ítreka afstöðu mína. Ég styð í sjálfu sér þetta frumvarp með þeirri breytingu sem var hér lögð fram og hv. formaður landbúnaðarnefndar gerði grein fyrir um að skerpa enn frekar á dýralæknisskoðun á eldri hrossum. En mín skoðun er sú að þarna sé einungis verið að koma til móts við afmörkuð, takmörkuð tilvik fyrst og fremst t.d. þar sem íslenskur eigandi hefur lifað með hrossunum sínum og finnst mikið sáluhjálparatriði að taka þau með sér út ef hann er að flytja úr landi og þá með þeim annmörkum og með þeim takmörkunum og með því eftirliti sem ég hef hér rakið af hálfu íslenskra heilbrigðisyfirvalda, þ.e. að það sé fyrst og fremst verið að horfa til þessa mjög afmarkað en alls ekki að það eigi að opna fyrir útflutning á eldri hrossum í atvinnuskyni. Ég vil bara láta það alveg koma skýrt fram í mínu máli að með stuðningi mínum við þetta mál er ég ekki að lýsa stuðningi við að þetta eigi að vera ráðandi viðhorf gagnvart eldri hrossum í almennum útflutningi og markaðsmálum, síður en svo.

Þetta vildi ég láta koma fram, frú forseti, um þetta mál.



[14:56]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja að þegar ég sá þetta frumvarp fyrst rak mig eiginlega í rogastans því mér fannst ákaflega einkennilegt að sjá á blaði að það væri leyft samkvæmt landslögum að flytja út gamlar hryssur sem hafa haft mikið fyrir lífinu, borið mörgum folöldum og gengið með þau og allt það á meðan ekki er leyft að flytja út geldinga 15 ára og eldri sem ekki hafa annað þurft fyrir lífinu að hafa en bera eigendur sína í einstaka reiðtúr. Þetta leit eiginlega út eins og hið argasta kynbundna misrétti við fyrstu sýn.

Svo þegar maður fer að velta því fyrir sér hvað geti eiginlega legið að baki svona löguðu þá virðist það blasa við að það sem ræður því að hryssur og graðhesta 15 ára og eldri má flytja er sennilega peningahlið málanna því að svoleiðis hesta er væntanlega hægt að selja sæmilegu verði ef um góða gripi er að ræða. En geldingar eru aftur á móti aðeins nýtanlegir eigandanum til ánægju og svo í mat ef einhver vill éta þá í lokin, sem ég held nú að sé reyndar fátítt með uppáhaldshestana.

En það sem veldur því væntanlega að verið er að fara fram á að lögin verði færð í það horf sem hér er gerð tillaga um, þ.e. að það megi líka flytja út 15 ára geldinga og eldri, er að Íslendingar eru talsvert að flytjast á milli landa og hestamenn vilja gjarnan taka með sér hestana sína þegar þeir fara. Það sem ræður þá þessari ósk sem birtist hér í rauninni í lögunum er tilfinningalegs eðlis, þ.e. að eigendurnir vilja ekki skilja eftir besta vininn heima á Íslandi þegar þeir flytja búferlum og ég get nú haft samúð með því sjónarmiði.

Hins vegar kemur fram í umsögnum dýralækna sem veittu okkur umsagnir sínar — því miður bárust þessar umsagnir frekar seint — að þetta er ekkert alveg einfalt mál vegna þess að flutningar og aðsetursskipti hafa mikil áhrif á hesta. Það kemur fram í einni umsögninni m.a. að eldri hestar þola oft og tíðum mjög illa aðsetursskipti, meira að segja á Íslandi, og til eru mjög margar sögur að fornu og nýju um hesta sem fara landshluta á milli, strjúka til fyrri heimkynna. Slík er tryggðin við hin gömul heimkynni, enda vitum við að hesturinn er félagsvera og myndar félagsleg tengsl við hópinn sem hann er í ekki síður en við eiganda sinn.

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Leiða mál líkur að því að eldri hross séu að jafnaði verr í stakk búin til að þola mikla flutninga og hafi minni aðlögunarhæfni gagnvart nýjum umhverfisaðstæðum. Hættan á sumarexemi er mikil sem og hætta á alvarlegum smitsjúkdómum og þó svo að ekki hafi verið sýnt fram á að aldur við útflutning sé þar beinn orsakavaldur er það almennt svo að aðlögunarhæfni ónæmiskerfisins minnkar með aldrinum.“

Hún segir jafnframt, frú forseti:

„Það hafa komið meldingar frá Bandaríkjunum um óeðlilegan blóðstatus í hrossum sem við óttumst að séu stressáhrif bæði vegna flutnings og umhverfisbreytinga. Það hefur því miður ekki gefist tækifæri til að rannsaka þetta nákvæmlega en á meðan tel ég rétt að hrossin njóti vafans og að þau aldurstakmörk sem eru í lögum verði virt.

Það má vel hugsa sér að undanþágan fyrir kynbótahross verði felld niður.“

Svoleiðis er nú það, frú forseti. Þessi nefndur dýralæknir sem er sérfræðingur í hrossasjúkdómum og málefnum hrossa leggst gegn því að þetta verði gert.

Björn Steinbjörnsson dýralæknir segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Ónæmiskerfi eldri hrossa er ekki jafn vel í stakk búið til að aðlaga líkama þeirra að breyttum umhverfisaðstæðum og yngri hrossa. Hætta er á að eldri hross veikist oftar og verr en yngri hross eftir komu á nýjar slóðir. Atferlisfræðilegar breytingar á högum hrossanna verða einnig miklar. Við þekkjum hérlendis hvað eldri hross taka það nærri sér að flytjast úr umhverfi þar sem þau hafa dvalið langdvölum.“

Katrín Andrésdóttir segir eftirfarandi, sem mér finnst einmitt mjög athyglisverð ábending, frú forseti:

„Ýmsar vísbendingar eru hins vegar til þess að flutningar á erlenda grund valdi talsverðu álagi á öll hross. T.d. berast fregnir frá Bandaríkjunum um að blóðstatus nýinnfluttra íslenskra hrossa bendi til álags.

Leiða má líkur að því að eldri hross séu að jafnaði verr í stakk búin til að þola mikla flutninga og hafi minni aðlögunarhæfni gagnvart nýjum umhverfisaðstæðum, enda minnkar aðlögunarhæfni ónæmiskerfisins með aldrinum.

Hættan á sumarexemi er mikil sem og hætta á alvarlegum smitsjúkdómum.“

Katrín segir að lokum í bréfi sínu:

„Nauðsynlegt er að rannsaka vísindalega hvernig hrossum reiðir af við komu á erlenda grund. Sýni rannsóknir að aldur skipti þar litlu eða engu máli, er tímabært að taka lög þessi til endurskoðunar.“ Þ.e. að leyfa líka útflutning á geldingum.

Í umsögnum annarra dýralækna við lagafrumvarpið eru ekki gerðar athugasemdir enda eru gerðar kröfur um heilbrigðisskoðun á hrossunum áður en þau eru flutt út. En ábendingar þeirra dýralækna sem ég hef vitnað í beinast að aðstæðum hrossanna og ástandi þeirra í nýjum heimkynnum. Það hlýtur að vera okkur umhugsunarefni, ekki síður en ástand þeirra hér á landi áður en til útflutnings kemur, ef við erum á annað borða að velta fyrir okkur dýraverndunarsjónarmiðum, og það er jú það sem við erum að veifa hér með því að láta dýralækna skoða hrossin og veita þeim vottorð áður en þau fara út.

Ég sagði fyrr í ræðu minni og ég tel að það hafi komið fram á fundum nefndarinnar að ástæðan fyrir því að verið er að fara fram á þessa breytingu sé sú að eigendur vilja fá að hafa með sér dýrin sín þegar þeir flytja út, því að það eru ekki sjáanlegir neinir fjárhagslegir hagsmunir í því að flytja út geldinga sem aftur á móti er þegar verið er að flytja út hryssur og graðhesta. Það hlýtur því eiginlega að vera ástæðan fyrir því að þessi ósk er komin fram og birtist hér í lagafrumvarpi. Ég hef ákveðna samúð með þessum tilfinningatengslum manns og hests og tel að það geti vegið upp á móti álaginu sem hesturinn verður fyrir við það að flytjast á milli landa og í nýtt umhverfi að hann væntanlega flytur með eiganda sínum. Ég stend því að þessu nefndaráliti sem hér birtist en ég geri það jafnframt eiginlega skilyrt þannig að teknar verði upp rannsóknir á afdrifum og líðan íslenskra hrossa erlendis eftir að til nýrra heimahaga er komið. Ég hef þá trú að slíkar rannsóknir séu í farvatninu og að einhverju leyti byrjaðar, því að eins og fram hefur komið hjá ræðumanni fyrr skiptir það máli, ekki bara fyrir dýrið, sem þó vissulega er mikilvægt að dýrinu líði vel eftir að það er komið út, heldur skiptir það líka máli fyrir markaðsmál íslenska hestsins að dýrunum líði sæmilega, bæði líkamlega og andlega. Við vitum t.d. að það hefur skaðað markaðsmál íslenska hestsins hversu illa haldinn hann er oft af sumarexemi eftir að hann er kominn á erlenda grund og við vitum að eldri hross eru verr í stakk búin en yngri hross til að takast á við það, þau hafa minni varnir gegn sjúkdómum, þar á meðal sumarexemi. Þetta eru allt saman veigamikil rök í málinu. Hins vegar kippa eigendur sér sjálfsagt ekki eins mikið upp við það þó að hrossin þeirra, uppáhaldsgripirnir, fái exem og nýir eigendur sem hafa séð þá í sínu fínasta formi heima á Íslandi.

Ég legg traust mitt á að gengið verði í að rannsaka afdrif íslenskra hesta með tilliti til aldurs á erlendri grund, þ.e. hvort í rauninni sé verjandi að flytja út 15 ára hross og eldri. Þrátt fyrir að þau geti verið við ágæta heilsu heima á Íslandi er ekki þar með sagt að heilsufarið verði jafngott eftir að komið er á erlenda grund í allt aðrar aðstæður, meiri hita oft og tíðum, allt aðra fánu, allt aðra flóru og svoleiðis getum við talið upp.

En ég sem sagt stend að þessu nefndaráliti ásamt öðrum nefndarmönnum í landbúnaðarnefnd.



[15:09]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hér upp og segja nokkur orð um það mál er varðar breytingar á lögum nr. 55/2002, um útflutning hrossa. Það vildi þannig til að ég gat ekki verið viðstödd á fundi hv. landbúnaðarnefndar í fyrradag þegar þetta mál var afgreitt. Þá hafði störfum þingsins verið hagað þannig að fundir voru í tveimur nefndum sem ég sit í, umhverfisnefnd og landbúnaðarnefnd, á sama tíma og ég mátti velja og í það skiptið valdi ég umhverfisnefndina. En það varð til þess að ég hafði ekki tækifæri til að fara yfir lokaumfjöllun nefndarinnar. Í raun hafði ekki verið mikið fjallað um málið í nefndinni, enda er það þar eins og annars staðar í nefndum hins háa Alþingis að mörg mál eru oft afgreidd á allra síðustu stundu, á elleftu stundu, og kannski gefst ekki sá tími til umfjöllunar sem þurfa þykir.

Þó að þetta mál, eins og komið hefur fram í umræðunni, láti ekki mikið yfir sér er hér þó um mjög mikilvægt mál að ræða vegna þess að við erum að fjalla um dýravernd, sem vill nú stundum verða afgangsstærð þegar aðrir hagsmunir sem fólki þykja brýnni eru teknir yfir. En í mínum huga snýst þetta mál fyrst og fremst um dýravernd.

Mig langar til að inna hv. formann landbúnaðarnefndar eftir því ef hún gæti gefið upp þær upplýsingar, því að þær eru ekki hér, hvorki í nefndaráliti né í annarri umfjöllun sem ég hef séð um málið í landbúnaðarnefnd, hver fjöldi hrossanna er sem fluttur er út á hverju ári frá Íslandi til annarra landa. Það væri fróðlegt að vita það. Ég hef grun um að þau séu ekki talin í hundruðum heldur jafnvel meira en það, en fróðlegt væri að vita hvað þau eru mörg og hvernig sá hópur skiptist, hvert þau fara helst, af því að eins og hefur komið fram í umræðunni, m.a. í máli hv. þm. Önnur Kristínar Gunnarsdóttur, skiptir þetta mjög miklu máli og við látum okkur varða afdrif hrossanna. Við hljótum að gera það, því að við erum ekki bara að flytja út einhverjar skepnur, við erum flytja út íslenska hestinn sem við erum stolt af og við hljótum að bera hag skepnanna fyrir brjósti jafnt hérlendis sem erlendis.

Ég tek því heils hugar undir þær ábendingar sem komið hafa frá héraðsdýralæknum m.a. um að okkur beri skylda til þess að rannsaka hvað verður um hrossin og í raun afdrif þeirra og líkamlegt ástand á erlendri grund til þess í raun að vita hvernig útflutningurinn fer með þau. Það gerist auðvitað ekki nema það sé rannsakað og til þess veitt fjármagn, en ég hefði haldið að hæstv. landbúnaðarráðherra og fleiri áhugamenn um íslenska hestinn hefðu fullan hug á því að fylgja þessum málum betur eftir.

Það eru auðvitað gífurlegir hagsmunir í húfi. Það eru ekki bara fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem flytja út hrossin heldur einnig orðspor íslenska hestsins á erlendri grund. En ég veit að þeir sem í þessum sal sitja þurfa svo sem ekki að fá neinar sérstakar predikanir um gildi þess hérlendis eða erlendis. Að sjálfsögðu eru líka miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi og þess vegna væri fróðlegt að vita um hvaða fjölda við erum að tala og hvernig það skiptist.

Þá skal þess getið við umræðuna að a.m.k. einn héraðsdýralæknir sem sendi umsögn til nefndarinnar, Björn Steinbjörnsson, héraðsdýralæknir fyrir austan, er alfarið á móti þessari breytingu, segir engin rök hníga til hennar. Annar héraðsdýralæknir, Katrín Andrésdóttir á Suðurlandi, bendir á þá miklu þörf sem er á að rannsaka afdrif hrossanna ef við í raun viljum vita hvað það þýðir eða hvernig það fer með dýrin að flytja þau flugleiðis í flestum tilvikum til útlanda. Aðrar ábendingar hafa svo sem komið fram eins og t.d. frá Sigríði Björnsdóttur, yfirlækni hrossasjúkdóma, um það sem kannski mætti teljast eitthvað sem ætti jafnt við um hross og menn að eftir því sem við eldumst þolum við oftast þvælinginn verr og ég tala nú ekki um að fara í ferðir langar leiðir eða yfir mörg tímabelti. Það á sama við um menn og hross í þeim efnum.

Um leið og ég virði og skil það sem hér hefur verið bent á um tilfinningatengsl mannsins og hestsins, eigandans og hrossins, og að í raun sé, að því er ég hef best skilið á þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag, ekki síst verið að veita heimild sem þessa svo eigendur hestanna fái það tilfinningalega svigrúm sem þeir þurfa að hafa, séu þeir fluttir til útlanda og vilji hafa hrossin sín með. Ég get haft fullan skilning á því, frú forseti, en fyrst og síðast hljótum við að hafa í huga vernd og velferð dýranna sjálfra, vernd og velferð hrossanna, og því tel ég nauðsynlegt að við athugum þetta mál betur þegar fram í sækir og tökum þeim tilmælum sem komið hafa, m.a. hjá héraðsdýralæknum, sem í raun hefur ekki unnist tími til að fara nógu vel yfir í landbúnaðarnefnd. En ég þykist viss um að við getum tekið þetta upp aftur að hausti og rætt betur í nefndinni undir stjórn okkar góða formanns og farið betur yfir dýraverndunarmálin og dýraverndunarhliðina á þessu mikilvæga máli.



[15:16]
Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu hér hefur farið fram um nefndarálit landbúnaðarnefndar og vil nota tækifærið og þakka nefndarmönnum fyrir afskaplega gott og skemmtilegt samstarf í vetur.

Ég fékk spurningu frá hv. þingmanni um það hve mörg hross væru flutt út. Árið 2004 voru þau 1.578 en fyrir aðeins níu árum voru þau miklu fleiri eða 2.609. Þess má geta að til Austurríkis voru flutt 55 hross, til Belgíu 4, Kanada 3, Sviss 98, Þýskalands 240, Danmerkur 327, Finnlands 121, Færeyja 9, Frakklands 3, Bretlands 16. Til Grænlands voru engin hross flutt núna en hafa verið flutt þangað, til Ítalíu 9, Hollands 19, Noregs 114, Svíþjóðar 450, enda eru Svíar mjög hrifnir af íslenskum hestum og margir Svíar koma hingað og læra að umgangast íslenska hestinn, til Bandaríkjanna 100 og Slóveníu 10.

Ég tek undir með hv. þingmanni að dýraverndarsjónarmiðin ber mjög að hafa í huga. Ég hef varpað því fram og við í landbúnaðarnefnd að auðvitað ættu öll dýraverndarmál að heyra undir sama ráðuneytið og ég tel að það væri mjög gott. En bara til að halda því til haga þá er miklu meira flutt út af ungum hrossum en gömlum. Það er ekki mikið um það heldur aðallega af tilfinningalegum tengslum sem það er gert, því eins og sagt var: „Milli manns og hests og hunds hangir leyniþráður.“



[15:18]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Drífu Hjartardóttur fyrir skýr og greinargóð svör sem hún hafði á reiðum höndum. Þetta þýðir í raun að verið er að flytja út fjögur eða fimm hross á dag. Þetta er gífurlegur útflutningur og umsvifin þá eftir því og auðvitað mjög brýnt að ýtrustu dýraverndarsjónarmiða sé gætt eins og fram hefur komið.

Eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir benti á á dýraverndin sem slík heima undir öðru ráðuneyti og fyrst að hún tók það upp við þessa umræðu bendir það náttúrlega enn og aftur á nauðsyn þess að samhæfa og samræma í Stjórnarráði Íslands.



[15:19]
Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að það eru líka gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi og þess er gætt í lögum að engin hross séu flutt út nema eftir nákvæma skoðun. Það er allt stimplað í bak og fyrir, meira að segja með upprunavottorði, hestavegabréfi svokölluðu sem við vorum með í okkar ágætu nefnd á sínum tíma. Við höfum í meðferð þessa frumvarps tekið tillit til ábendinga frá okkar ágætu dýralæknum sem sendu inn umsagnir og það var gert með því að bæta inn „hæft til útflutnings með tilliti til aldurs“, þannig að það er ekki neinn ákveðinn hámarksaldur heldur verður sérstaklega tekið tillit til aldurs. Ég held að við höfum með því komið til móts við þær gagnrýnisraddir sem bárust til okkar.



[15:20]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það verður auðvitað að hafa í huga vernd og velferð hestsins, vaka yfir velferð hans, hvernig um hann er hugsað og hvernig hann er kynntur.

Ég hygg að þetta sé mikið breytt frá fyrstu dögum útflutnings, að nú sé í rauninni enginn hestur seldur úr landi nema frá manni til manns. Þeir sem kaupa hesta, útlendingar, fá Íslendinga, okkar bestu hestamenn til að fara um allar heimsálfur og kynna hestinn og kenna fólki á hestinn og halda utan um hann. Þarna hefur orðið mikil breyting á. Hestar eru ekki lengur fluttir með skipum heldur í flugi og þar er önnur breyting.

Eitt er alveg ljóst að eigendur íslenskra hesta um allan heim eru alveg klárir á því að enginn hestur jafnast á við hesta sem fæddir eru á Íslandi. Þeir eru öðruvísi og þeir eru betri. Það sýnir að útflutningurinn heppnast í flestum tilfellum mjög vel.

Við höfum síðan glímt við þetta sumarexem sem okkar færu dýralæknar hafa verið að rannsaka og lagt mikla vinnu í og vonandi finnst mótefni við því. Yfir því þarf að vaka.

Hitt er svo annað mál að þetta er auðvitað alveg eins með manninn, ef ég fer á sólarströnd reynir það á mig í okkra daga, flug hefur áhrif á mig, jafnvel að fara norður í land, þó að það sé bara Skagafjörðurinn, hefur áhrif á mig svo dæmi sé tekið. (Gripið fram í.) Ja, ekkert alltaf til hins betra, þetta eru löng ferðalög. Það er alveg ljóst í huga hestamanna að kerruflutningar á milli landsfjórðunga geta haft áhrif. Hestamenn fara með hestana sína kannski viku áður en á að keppa á þeim. Þetta vita hestamenn í Evrópu sem þjóta með sína stóru hesta, eða hvers konar hesta sem þeir eiga, landa á milli. Þeir gera það í tíma því að allt reynir þetta á hestinn eins og manninn.

Yfir þessari velferð þarf að vaka eins og kemur fram í umsögnunum og auðvitað þarf að leggja í það bæði peninga og rannsóknir okkar færasta fólks.



[15:22]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem einvörðungu upp til að þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir viðbrögðin. Auðvitað er mikill metnaður hjá þeim sem stunda hrossarækt og flytja út hesta og við vitum að orðsporið er að veði. Kannski má til sanns vegar færa að hrossakaup séu ekki lengur þess eðlis sem þau voru einu sinni eða hafi ekki lengur þá merkingu í málinu sem einu sinn var lögð í það orð, þegar menn eru farnir að leggja allan sinn faglega metnað fyrir hönd íslenska hestsins í söluna til útlanda.



[15:23]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að menn leggja mikinn metnað í þetta starf og vanda sig í markaðssetningunni og það myndast mikið samband á milli kaupenda íslenskra hesta og þeirra bæja eða sölumanna sem selja hestana. Það er mjög mikilvægt. Það þarf ekki annað en að koma t.d. á heimsmeistaramótin — nú verður eitt slíkt haldið í Svíþjóð í sumar — heimsmeistaramót íslenska hestsins. Þar munu koma saman tugir þúsunda manna alls staðar að með hestinn sem þeir elska og fara vel með. Sem betur fer hafa Íslendingar sigrað þessi mót öll síðustu ár. Það sýnir að við erum fremstir með okkar hest enn þá og eigum frábæra knapa og stöndum vel að þessu. Það verða fluttir út hestar einhvern tíma á næstunni fyrir þetta mót, sem verður líklega í ágúst, og þeir standa sig þetta vel, þessir hestar.

Ég hef séð að hestamenn hér, sem óttast auðvitað þetta exem, gefa út mjög rækilegar leiðbeiningar til hestamanna sem eru að kaupa íslenska hestinn, hvernig fara á með hestinn á tíma flugunnar undir miðnættið o.s.frv., hvernig vaka þarf yfir því og taka hann þess vegna í hús o.s.frv. Ég hef komið í hesthús í Evrópu þar sem menn taka hestinn inn, eru með úðunarkerfi, þannig að menn vita þetta allt saman.

Ég ætla ekki að draga úr því sem kom fram hjá hv. þingmanni og fleirum að það þarf að vaka yfir þessari velferð, afla þarf þekkingar og gera þetta sem best úr garði, því að ég er sannfærður um að 1.500 hross flutt út í dag eru meira virði en þegar við fluttum út 3.000. Við fáum meiri peninga fyrir 1.500 en fyrir 3.000 áður. Við erum að selja úrvalshross sem við fáum hátt verð fyrir. Þannig ber auðvitað að þróa þetta starf. Áður fóru menn kannski með heilu hópana út á einhverjar sléttur og ætluðu að selja hrossin þar eins og í stóðréttum Íslands. Það er löngu liðin tíð, þetta er með allt öðrum hætti.