131. löggjafarþing — 124. fundur
 6. maí 2005.
Skattskylda orkufyrirtækja, 3. umræða.
frv. GHH, 364. mál. — Þskj. 1258.

[20:00]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem við ræðum, frumvarp um skattskyldu orkufyrirtækja, er enn ein laumuskattahækkun ríkisstjórnarinnar sem lögð er á litla manninn í samfélaginu til að afla fjár í ríkissjóð til að standa undir þeim stórfelldu skattalækkunum sem stjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir gagnvart hátekjufólki og eignafólki í landinu. Hér á sem sagt að ná í nokkur hundruð milljónir í vasa fólksins í landinu, í vasa almennings, í vasa orkunotendanna, sem leggst nokkuð jafnt yfir allt fólkið í landinu óháð tekjum þeirra og óháð eignum, þannig að hinir skuldugu borga jafnmikið og hinir efnuðu og hinir lágt launuðu borga jafnmikið og hinir hátt launuðu og raunar borgar trúlega barnafólkið hvað mest, enda orkufrekustu heimilin. Ávinningurinn sem af þessu verður, nokkur hundruð milljónir, kannski upp undir milljarður þegar fram líða stundir á ári hverju, gengur svo til þess að fella niður eignarskattinn á eignafólkið, til þess að lækka hátekjuskattinn á hátekjufólkið og til þess að lækka tekjuskattinn flatt á alla þar sem sá sem er með milljón á mánuði græðir jú margfalt ef ekki hundraðfalt á við þá sem litlar hafa tekjurnar.

Nú væri það í sjálfu sér auðvitað framfaramál ef skattkerfið almennt í landinu væri einfaldað og alls kyns undanþágur í því felldar á brott og sömu reglurnar gerðar einfaldari og gagnsærri til að auka skilvirknina í skattkerfinu og réttlætið í skattheimtunni og einfalda alla tekjuöflun ríkissjóðs. Ef skattlagning á raforkuiðnaðinn væri hluti af einhverri slíkri kerfisbreytingu mætti e.t.v. styðja slíkt mál. Hér er hins vegar verið að taka alveg sérstaklega út úr fyrirtæki í almannaeigu, fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna í landinu að mestu leyti og leggja sérstakar skattálögur á þau. Það er auðvitað alveg ljóst hver borgar á endanum þær skattálögur, það er notandinn, það er sá sem borgar rafmagnsreikninginn, hitareikninginn og fyrir vatnið.

Það er kannski hitt atriðið sem er stórlega ámælisvert við þetta frumvarp, leyfi ég mér að segja. Það hófst með því að hér varð svokölluð samkeppnisvæðing í raforkuiðnaðinum á vegum hæstv. iðnaðarráðherra, því við bárum ekki gæfu til að setja fyrirvara við tilskipun Evrópusambandsins um samkeppni í raforkuiðnaðinum og þurftum því að innleiða hana hér, þó ekki nokkur maður utan Íslands hafi enn skilið hvað menn eiga við þegar talað er um samkeppni í raforkuiðnaði á eyju í Norður-Atlantshafi þar sem búa 0,29 milljónir manna. Það er nú einfaldlega þannig að markaður okkar á Íslandi, sem eins og flestir þingmenn þekkja er eyland, er ákaflega smár og ekkert rúm fyrir raunverulega samkeppni á þeim markaði að gagni. Þess vegna höfum við haft þá farsælu skipan að það hafa verið sveitarfélögin í landinu og ríkið með eignarhlut sínum í Landsvirkjun sem hinir opinberu aðilar, sem hafa rekið hér raforkukerfi og reynt að reka það sem almannaþjónustu á lágmarksverði. Nú er þetta sem sagt breytt og raforkuiðnaðurinn hefur verið samkeppnisvæddur. Þá þarf eðlilega að huga að skattlagningu á honum. Í þessu frumvarpi er hins vegar gengið miklu lengra því að inn í þá skattlagningu eru teknar hitaveiturnar og vatnsveiturnar en þau eru ekki samkeppnisfyrirtæki. Þetta eru einokunarfyrirtæki sem allir landsmenn verða að skipta við.

Þær skattálögur sem hér er verið að samþykkja á þessi fyrirtæki munu neytendurnir auðvitað borga, fólkið í landinu, vegna þess að það getur ekki sagt upp heita vatninu, kalda vatninu eða rafmagninu. Það verður einfaldlega að greiða þann reikning sem fyrir það kemur, því að í raun og sann er auðvitað takmörkuð samkeppni á raforkusviðinu þó það eigi að heita svo.

Frumvarpið er líka lagt fram í fullri andstöðu við sveitarfélögin. Það er ótrúlegt hvað ríkisstjórnin leyfir sér að ganga á þessum vetri langt gagnvart sveitarfélögunum. Það vita allir hvernig á fjárhag þeirra hefur verið gengið á undanförnum árum með því að auka álögurnar á sveitarfélögin frá ári til árs, fjölga verkefnum þeirra, draga úr skatttekjum með einkahlutafélagavæðingunni og þannig gætum við áfram talið. Við þessar aðstæður þegar sveitarfélögin eru rekin með umtalsverðum halla og ríkissjóður rekinn með bullandi hagnaði ár eftir ár ákveður ríkið að seilast nú enn í vasa sveitarfélaganna sem ekki standa undir rekstri sínum fyrir og eðlilegt að það mæti andstöðu hjá sveitarfélögunum. Auðvitað mun það bitna á grunnþjónustunni ef menn eru að auka álögur og draga úr möguleikum sveitarfélaganna á því að veita góða grunnþjónustu á meðal landsmanna.

Þessu frumvarpi hlýtur þó sérstaklega að vera beint gegn Reykjavík, því það er nú einu sinni þannig að Reykvíkingar höfðu næga fyrirhyggju á fyrri hluta síðustu aldar til þess að reisa hér hitaveitu sem hefur verið ákaflega hagkvæm í rekstri og það hefur tekist að standa þannig að rekstrinum að hann hefur allur verið hinn hagkvæmasti. Það hefur löngum verið kappsmál þeim sem hafa starfað að stjórnmálum fyrir Reykvíkinga að ekki yrðu af ríkissjóði lagðar sérstakar álögur á þá almannaþjónustu í Reykjavík, að ríkið færi ekki að setja krumlurnar í Hitaveitu Reykjavíkur og margir borgarfulltrúar og borgarstjórar hygg ég úr öllum flokkum sem talað hafa í þá veruna í gegnum tíðina.

Nú virðist það vera svo, virðulegur forseti, árið 2005 að kjördæmið Reykjavík eigi enga þingmenn. Það kemur út af fyrir sig ekki á óvart hvað Framsóknarflokknum viðvíkur, en það virðist ekki vera að neinir þingmenn séu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík, því hér hafa þeir ákveðið að leggja því lið að setja sérstakar skattálögur á orkufyrirtækin í landinu og þar með á Orkuveitu Reykjavíkur og augljóst að það verða notendur orkunnar í Reykjavík sem munu þurfa að borga fyrir þær álögur þó það fyrirtæki kunni að geta forðast þær í einhvern tíma með þeim fjárfestingum sem nú eru á þess vegum.

Ég verð við lok máls míns í umræðunni, virðulegur forseti, að fá að auglýsa eftir því hvort í stjórnarflokkunum séu einhverjir þingmenn fyrir kjördæmið Reykjavík og þá hvernig á því standi að þeir leggi lið sitt skattlagningarfrumvarpi á Reykvíkinga sérstaklega með þessum hætti, því það er alveg augljóst að hér er verið að afla fjármuna, kannski til þess að mæta hinum aukna kostnaði við niðurgreiðslur í raforkukerfinu úti á landi eftir hina misheppnuðu breytingar á raforkukerfinu sem ríkisstjórnin stóð fyrir fyrr í vetur og landsmenn þekkja af eindæmum, en þar hækkuðu raforkureikningar fjölmargra heimila langt umfram það sem ríkisstjórnin hafði boðað. Það varð að mæta því með sérstökum umframniðurgreiðslum úr ríkissjóði sem ríkisstjórnin ákvað. Kannski menn hafi ekki fundið önnur ráð til þess að fjármagna það en að fara inn með þennan skatt sem svo augljóslega leggst sérstaklega hart á hagkvæmt rekin orkufyrirtæki Reykvíkinga. Þess vegna er full ástæða til að auglýsa eftir því hvort það séu einhverjir þingmenn stjórnarliðsins sem eru fyrir kjördæmið Reykjavík.



[20:10]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var mjög ánægjulegt að heyra hjá hv. þingmanni að skattar á fyrirtæki auki kostnað almennings, því núverandi ríkisstjórn hefur gert ríkisstjórna mest í því að lækka skatta á fyrirtæki og þar með lækka kostnað á almenning með nákvæmlega sömu rökum.

Varðandi það hvort um sé að ræða atlögu að Reykvíkingum er það stefna núverandi ríkisstjórnar að hafa skattkerfin almenn og algild og sú stefna hefur skilað sér í því að atvinnulífið blómstrar sem aldrei fyrr og greiðir hærri laun sem aldrei fyrr, líka í Reykjavík. Það er sú stefna sem við fylgjum út í hörgul eins og hægt er. Það er sú stefna sem kemur fram í frumvarpinu sem menn hafa verið að auglýsa eftir. Ég gat þess reyndar í 1. umr. í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir málinu, í 1. umr. og líka í 2. umr. gat ég þess að þetta væri einmitt meginmarkmiðið, að hafa sambærilega skatta fyrir öll fyrirtæki, ekki bara matvöruverslanir.

Nú er það þannig að fólk verður að kaupa mat. Allir verða að kaupa mat. Af hverju skyldum við ekki með nákvæmlega sömu rökum lækka skatta á matvöruverslanir þannig að þær geti boðið ódýrari mat til almennings? Það mundi virka miklu betur. Svo hafa sumir þingmenn, samþingmenn hv. þingmanns, sagt að 18% skattur á fyrirtæki sé allt of lágur, það eigi að hækka hann. Hvernig fer þetta allt saman? Þetta fer bara ekkert saman.



[20:12]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vissulega hafa skattar á matvöru áhrif á matvöruverð, enda höfum við í Samfylkingunni lagt til að virðisaukaskattur á matvöru verði lækkaður, enda augljóst að hér er hæsta matvælaverð a.m.k. í Evrópu ef ekki í veröldinni allri, það er auðvitað afleiðing af álögunum.

Það sem við erum hér að fjalla um, hv. þingmaður, er ekki atvinnulíf í venjulegum skilningi þess orðs. Þetta er ekki fyrirtæki á markaði. Þetta er almannaþjónusta í opinberri eigu og einokunarstarfsemi. Um einokunarstarfsemi veit hv. þingmaður að það gildir að kostnaðarhækkanir á einokunarstarfsemi, eins og skattálögur þessar, fara beint út í verðlagið og beint til neytendanna. Í samkeppnisumhverfi, í frjálsri samkeppni á markaði, þarf það ekki að henda, slíkum kostnaðarhækkunum kunna menn að mæta með hagræðingu eða öðrum slíkum hlutum. En þegar um einokunarstarfsemi er að ræða verða svona kostnaðarhækkanir beint að verðhækkunum á neytendur.

Það sem er alvarlegt fyrir þingmann úr Reykjavík, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal er, er að hér er verið að refsa Reykvíkingum fyrir að hafa rekið orkufyrirtæki sín með afbrigðum vel, á hagkvæman og öflugan hátt, og þau hafa getað haldið orkuverði niðri áratugum saman. Hins vegar er verið að hygla lélegum rekstri víðs vegar annars staðar í þessu kerfi með sívaxandi niðurgreiðslum. Það ætti auðvitað að vera nóg til þess að formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Reykjavíkur, Pétur H. Blöndal, legði stein í götu þessa frumvarps og segði: Nei, ekki meiri skattahækkanir á Reykvíkinga, ekki meiri sérstakar skattahækkanir á Reykvíkinga, nóg er nú samt.



[20:14]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að þessi starfsemi væri ekki atvinnugrein í venjulegum skilningi. Ég minni á að fyrir svona tíu árum þá höfðu menn nákvæmlega sömu skoðun á bankastarfsemi. Hana væri ekki hægt að stunda nema opinberir starfsmenn ynnu við að afgreiða peninga yfir diskinn. Nú hefur komið í ljós að sú starfsemi gengur ljómandi vel án þess að vera ríkisrekin. Þetta er atvinnustarfsemi nákvæmlega eins og annað.

Varðandi það að verið sé að refsa Reykvíkingum þá fullyrði ég að þeir skattar sem Orkuveita Reykjavíkur kemur til með að borga vegna þessa frumvarps eru pínulitlir miðað við þá fjárfestingu sem sett var í Línu.net og kostnað við þá eðlisfræðitilraun að reyna að flytja tölvuboð eftir rafstrengjum. Í hana voru settar fleiri þúsund milljónir og það klikkaði.

Þetta nær ekki einu sinni kostnaði við risarækjueldið sem Orkuveita Reykjavíkur stendur í. Orkuveita Reykjavíkur stendur svona vel vegna þess að Reykjavík stendur á hitasvæði þar sem er eitt besta hitaveituvatn í landinu, mjög ódýrt í vinnslu og stendur á gömlum merg vegna framsýni manna sem lögðu hitaveituna, árið 1940 minnir mig. Aðrar hitaveitur þurfa að bora dýpra, fá kaldara vatn og eru ekki eins hagkvæmar. Þær þurfa að leiða vatnið langar leiðir, sem Hitaveita Reykjavíkur gerir reyndar líka, þ.e. frá Þingvöllum. Það að hún skilar hagnaði er vegna þess að hún fær þetta allt saman ókeypis.



[20:16]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur staðfest það sem ég sagði áður, að þegar kemur að orkufyrirtækjunum og hagnaði þeirra þá hefur eitt fyrirtæki sérstöðu umfram önnur, það er og hefur verið Hitaveita Reykjavíkur. Fyrir vikið hafa Reykvíkingar notið lágs orkuverðs í Reykjavík um áratugi. Þess vegna er hér um að ræða sérstakar skattálögur á Reykvíkinga, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal beitir sér fyrir á sama tíma og hann beitir sér fyrir því að moka skattpeningum Reykvíkinga í að bora í gegnum fjöll hingað og þangað út um landið, meðan hingað til Reykjavíkur fæst ekki fé til vegaframkvæmda. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefur líka verið ákaflega duglegur við að innleiða og auka hér gjaldtöku ríkissjóðs til þess að mæta þeim afslætti sem hátekju- og eignafólkið hefur fengið. Við sjáum t.d. stimpilgjöldin, hvernig tekjurnar af þeim hafa margfaldast á milli ára og hvernig ríkisstjórnin er ófáanleg til að lækka stimpilgjöldin, jafnvel á skuldsetta fólkinu þegar það er að skuldbreyta lánunum sínum. (Gripið fram í.) Við sjáum fasteignamatsgjöldin og ég heyri á hv. þingmanni Pétri H. Blöndal að hér er komið við viðkvæman streng í brjósti þingmannsins því að hann er farinn að kalla hér fram í aftur og aftur. Ég vona bara, virðulegur forseti, að ég fái að halda orðinu því að ég er að rifja upp skattahækkanir, laumuskattahækkanir og gjaldahækkanir ríkisstjórnarinnar, þar sem hver hækkunin hefur rekið aðra. Þetta frumvarp um skattskyldu orkufyrirtækja er bara skattlagning á litla manninn í landinu til að geta gefið hátekjufólki og eignafólki meiri skattafslátt.



[20:18]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja, frumvarp sem, ef að lögum verður, mun verða slæm sending til íslensku þjóðarinnar. Það er ávísun á hærra raforkuverð til almennra neytenda. Um það ber öllum saman sem að málinu koma og mál þetta snertir, þ.e. orkufyrirtækjum, sveitarfélögum í landinu, hagsmunasamtök almennings, m.a. verkalýðshreyfingunni.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum gert rækilega grein fyrir afstöðu okkar til þessa máls. Við teljum að eitt eigi að gilda um velferðarþjónustu og grunnþjónustu sem snýst um lífsnauðsynjar til almennings, eins og raforkan óneitanlega er, vatnið og annað af því tagi og hins vegar hitt sem er eðlileg markaðsvara. Út á það gengur þetta frumvarp, að gera rafmagnið að markaðsvöru.

Þeir sem trúa á markaðinn, hafa á honum ótakmarkaða trú, að hann lækni öll mein hvar sem þau er að finna, telja að samkeppni á þessu sviði muni leiða til lægra raforkuverðs, að fyrirtækin verði betur rekin og þegar þau keppi sín í milli þá muni það valda verðlækkunum á þeirri vöru sem menn vilja gera rafmagnið að.

Það er svo undarlegt að allar þær breytingar sem ráðist hefur verið í af þessu tagi hafa valdið hinu gagnstæða. Raforkuverð hefur hækkað. Raforkuverð fer hækkandi. Kerfisbreytingarnar sem þegar hafa átt sér stað, sem tóku gildi um síðustu áramót, hafa þegar valdið skattahækkunum. Rarik hækkaði gjaldskrá sína um 3,5% um síðustu áramót og síðan fylgdi enn hækkun um 6%, en þetta jafngildir 9,71% hækkun. Sú hækkun bliknar hins vegar í samanburði við nýja rafmagnsreikninga á Vestfjörðum. Þar var víða um að ræða um 40% hækkun. Það var þó breytilegt, sums staðar minna og sums staðar jafnvel heldur meira.

Hæstv. iðnaðarráðherra sem er ábyrg fyrir þessum kerfisbreytingum er hins vegar mjög ánægð með þessi afkvæmi sín, þessi frumvörp sem þegar hafa verið samþykkt og svo þetta sem bíður samþykktar þingsins. Hún sagði í ræðu 26. nóvember á síðasta ári, með leyfi forseta:

„Það er eiginlega alveg stórmerkilegt að það skuli þó hafa náð að verða að lögum“ — hún vísar þar í kerfisbreytingarfrumvarpið — „og vera komið á þann stað í stjórnsýslunni sem raun ber vitni. Ég er þó alltaf jafnhamingjusöm með frumvarpið og lögin og ég held að það hljóti að segja sína sögu.“

Ég hef rifjað þetta nokkrum sinnum upp vegna þess að þetta eru makalaus ummæli. Ráðherrann lýsir furðu yfir því að lagabreytingarnar skuli hafa náð fram að ganga, þá væntanlega vegna þess að þær séu svo vitlausar eða að svo mikil óeining hafi verið um þær en hún sé hins vegar afskaplega ánægð og hamingjusöm með breytingarnar. Nú er fólk að fá í hendur sannanir fyrir því, í formi rafmagnsreikninga, að varnaðarorð stjórnarandstöðunnar, ekki síst Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs því við einn flokka vöruðum mjög eindregið við þessum kerfisbreytingum. (JBjarn: Frá upphafi ferlisins alveg.) Frá upphafi þessa ferlis. Við vorum eini flokkurinn hér á Alþingi sem andmælti tilskipuninni þegar hún var fyrst fest í lög. Hún birtist reyndar fyrst sem þingsályktunartillaga, eins og tíðkast með tilskipanir frá hinu Evrópska efnahagssvæði, en þegar það mál kom inn í þingið þá andmæltum við því harðlega, gagnrýndum það og lögðum til að leitað yrði eftir því að Íslendingar fengju undanþágu frá tilskipuninni. Á það var ekki hlustað þótt margir vildu þá Lilju kveðið hafa síðar meir. Nefni ég þar annars vegar hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, varaformann Samfylkingarinnar, sem bentu á síðari stigum á að sennilega hefði verið hyggilegt að biðja um undanþágu frá þessari tilskipun, sem ég er sannfærður um að hefði gengið eftir.

Ég vek athygli á því að hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, hefur sagt að útilokað hefði verið að fá undanþágu frá tilskipuninni. Mér skilst að hann telji að eftir því hafi verið leitað. Ég hef ekki sannfærst um að svo hafi verið. Ég sat sjálfur í alllangan tíma í ráðgjafanefnd EFTA sem fór yfir þessi mál og varð aldrei var við að ríkisstjórnin eða nokkur á hennar vegum óskaði eftir undanþágu frá þessari tilskipun.

Hvað um það. Hún var samþykkt hér á landi og síðan var hafist handa við kerfisbreytingar um síðustu áramót sem hafa þegar leitt til umtalsverðrar hækkunar á rafmagnsverði. Nú bíður næsta skref okkar, þ.e. að færa orkufyrirtækin rækilega út á markaðinn, út á markaðstorgið. Þá skulu sömu reglur gilda um þau og önnur fyrirtæki í landinu og þau gjalda skatta samkvæmt sömu reglum og önnur fyrirtæki í landinu.

Hvað gerist þá? Málið er sent til umsagnar víðs vegar um þjóðfélagið. Það berast viðamikil gögn og álitsgerðir til þingsins og skiptist í tvö horn með umsagnirnar. Annars vegar er þunnur bunki, umsagnir Verslunarráðsins og Samtaka atvinnulífsins, sem voru mjög ánægð með þessar breytingar og töldu þær til góðs. Hins vegar var þykkur bunki, mjög þykkur bunki, ítarlegar álitsgerðir og röksemdir frá almannasamtökum í landinu, frá verkalýðshreyfingunni, frá ASÍ, frá BSRB, frá Neytendasamtökunum, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og orkufyrirtækjum. Í þeim bunka voru allir á móti. Þar voru undantekningalaust allir á móti, á mismunandi forsendum en allir engu að síður á móti málinu.

Verkalýðssamtökin leggja áherslu á að um sé að ræða lífsnauðsynjar, grunnþjónustu sem ekki eigi að skattleggja og vara við því að skattlagning á orkufyrirtækjum muni leiða til hækkunar á raforkuverði. Frá orkufyrirtækjunum barst síðan staðfesting á því að svo muni gerast. Þau senda frá sér ítarlegar álitsgerðir, t.d. Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja og fleiri aðilar.

Umsögn Orkuveitu Reykjavíkur er mjög ítarleg og þar er að finna margar röksemdir sem sýna fram á að skattlagning muni leiða til hærra verðs. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

„Skattlagning á orkufyrirtæki mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar verðs þar sem núverandi gjaldskrá gerir ekki ráð fyrir greiðslu tekju- og eignarskatta. Í athugasemdum við frumvarpið kemur ekki fram hvaða áhrif þessi skattlagning hefur á orkufyrirtækin og ekki kemur fram hvaða breytingar verða á gjaldskrám fyrirtækjanna verði frumvarpið að lögum.“

Í næstu efnisgrein er síðan vikið að langtímasamningum orkufyrirtækjanna. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Orkuveita Reykjavíkur er með samninga um orkusölu til stóriðju sem gilda í 20 ár. Samningar þessir hafa verið gerðir fyrir hvatningu ríkisins og engir fyrirvarar af þess hálfu um að gera þurfi ráð fyrir skattlagningu til framtíðar. Arðsemisútreikningar sem gerðir hafa verið í góðri trú vegna stórframkvæmda hafa ekki gert ráð fyrir greiðslu þessara skatta. Forsendur gerðra samninga um arðsemi þeirra raskast verulega verði frumvarp þetta að lögum.“

Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir umsögn Orkuveitu Reykjavíkur né annarra orkufyrirtækja. Ég gerði það við 2. umr. málsins og vísa í nefndarálit sem ég gerði þá um frumvarpið.

Einn efnisþátturinn enn sem vert er að halda til haga er skatturinn á heita vatninu. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að heita vatnið verði líka skattlagt. Það er nokkuð sem harðlega hefur verið gagnrýnt af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Bent er á að þar sé í raun ekki um samkeppnisvöru að ræða. Menn vilja líta á það í þessu samhengi vegna þess að þar sem heitt vatn er til staðar er raforka engan veginn samkeppnishæf. Heita vatnið er svo miklu hagkvæmari kostur. Heita vatnið er ekki flutt langa vegu til að keppa á fjarlægum slóðum og því er fráleitt, segir Samband íslenskra sveitarfélaga, að hafa heita vatnið þarna inni.

Hér segir í niðurlagi álitsgerðar sambandsins, með leyfi forseta:

„Að lokum vill sambandið vekja athygli Alþingis á því að breyting á skattalegri stöðu hitaveitna, sem ekki verður séð að styðjist við nein efnisleg rök, felur í raun í sér meiri háttar breytingu á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Slíkar breytingar þarfnast ítarlegri umræðu við sveitarfélög en farið hefur fram til þessa.“

Áður var gerð grein fyrir því hvers vegna fráleitt væri að skattleggja heita vatnið. Vikið er að því í þessum niðurlagsorðum og því bætt við að eðlilegt hefði verið að ganga frá samkomulagi við sveitarfélögin um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga áður en þessi breyting er gerð. En grunnhugsunin hjá sveitarfélögunum er sú að með því að skattleggja orkufyrirtækin sé verið að færa fjármuni frá sveitarfélögum til ríkisins. Ríkið kemur til með að taka tekjuskattinn til sín en sveitarfélögin nutu iðulega góðs af arði út úr orkufyrirtækjunum. Arðurinn var veittur inn í fjármögnun velferðarþjónustunnar í sveitarfélögunum eins og dæmi eru um í Reykjavík þar sem mikið fé hefur verið veitt frá Orkuveitunni inn í borgarsjóð til að fjármagna aðra starfsemi þar. Með skattlagningu verður minna til ráðstöfunar og þar af leiðandi segja sveitarfélögin að eðlilegt hefði verið að klára umræðuna um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga áður en þetta yrði lögfest.

Þegar málið var til umræðu við 2. umr. vísaði ég fyrst og fremst í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og Orkuveitu Reykjavíkur en síðan hefur borist bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík þar sem vikið er að þessum málum. Ætla ég að lesa það bréf, með leyfi forseta:

„Á fundi borgarráðs 28. þessa mánaðar“ — þetta er skrifað í lok apríl — „var ítrekuð andstaða Reykjavíkurborgar við áform um skattlagningu orkufyrirtækja eins og þau birtast í lagafrumvarpi um málið sem nú er fyrir Alþingi. Samkvæmt samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga hefði þessi skattlagning orkufyrirtækja sveitarfélaga numið um 1,1 milljarði kr. á árunum 2002 og 2003. Allar líkur eru á því að þessi fyrirhugaða skattlagning muni leiða til hækkunar á raforkuverði, heitu vatni og vatnsgjaldi í nánustu framtíð, en skipulagsbreytingar á raforkumarkaði hafa þegar leitt til hækkunar raforkuverðs. Borgarráð mótmælir því harðlega að ríkið fari fram með þessum hætti og krefst þess að viðræður fari fram milli ríkis og sveitarfélaganna áður en lagafrumvarp um skattlagningu orkufyrirtækja verður að lögum.“

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að tíunda frekar rök gegn því að samþykkja þetta frumvarp. Mig langar til að segja að það hefur komið mér á óvart við þessa umræðu hversu peningafrjálshyggjusinnuð sjónarmið hafa komið frá Framsóknarflokknum sem hefur dásamað einkavæðingu og markaðsvæðingu á þessu sviði sem öðrum með stjörnur í augunum út af einkavæðingu bankanna. Hann telur að þar hafi ekki verið stigin önnur skref en til góðs, þrátt fyrir þá miklu gagnrýni sem fram hefur komið á það hvernig einkavæðingin var framkvæmd, þá spillingu sem tengdist einkakvæðingunni á bönkunum þar sem menn tala fremur um gjöf en sölu á eðlilegum forsendum. Margir heiðarlegir hægri menn, frjálshyggjumenn, hafa gagnrýnt þetta, þeim hefur ofboðið sá máti sem hafður hefur verið á.

Framsóknarflokkurinn er greinilega líka hrifinn af markaðsvæðingu grunnþjónustunnar eins og raforkunnar án þess að nokkurn tíma hafi verið sýnt fram á hvað gott hún muni leiða af sér. Þess vegna hef ég líka spurt sjálfan mig hvað raunverulegir markaðssinnar, hægri menn, frjálshyggjumenn á borð við t.d. hv. þm. Pétur H. Blöndal, sjái því til hagsbóta að markaðsvæða þennan geira vegna þess að menn eiga svo erfitt með að koma auga á að þarna fari fram raunveruleg samkeppni. Staðreyndin er sú að ef litið er til Evrópu, reynslunnar af markaðsvæðingu raforkunnar í Evrópu, þá hefur hún yfirleitt leitt til hækkunar á rafmagni. Það hefur gerst á Norðurlöndunum og á meginlandinu er sífellt að verða meiri fákeppni á þessu sviði. Fyrirtækin eru að renna saman og í stóra risa sem skipta síðan markaðnum á milli sín.

Hér er mjög ólíklegt að um einhverja virka samkeppni verði að ræða og þess vegna hef ég furðað mig á hve lítil gagnrýnin umræða fer fram um þennan þátt, jafnvel af hálfu markaðssinna. Ég ber alveg virðingu fyrir því sjónarmiði, ég berst harðlega gegn því, ég vil ekki markaðsvæðingu á velferðarþjónustunni eða grunnþjónustu samfélagsins, en jafnvel ef við færðum okkur yfir á þennan hugmyndagrundvöll frjálshyggjumannanna finnst mér skorta á að þeir sýni fram á að það verði raunveruleg samkeppni sem muni færa verðlagið niður. Engu að síður er hægt er að skilja að Sjálfstæðisflokkurinn, sem er markaðshyggjuflokkur, vilji fara inn á þessar brautir, en erfiðara að skilja Framsókn nema þá í ljósi þess að hún hefur gerst undarleg hjálparhella, hækja undir Sjálfstæðisflokknum í einu og öllu og ekkert síður í því sem lýtur að markaðsvæðingu grunnþjónustunnar og velferðarþjónustunnar í landinu.

Þegar upp er staðið erum við hér með þingmál sem mun leiða til, ef það verður að lögum, aukinna álagna á almenning í landinu og það er miður.



[20:38]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið merkilegt sjónarmið hjá hv. þingmanni að skattar á fyrirtæki valdi kostnaði hjá einstaklingum og almenningi í landinu sem þýðir þá, ef við gagnályktum, að lækkun skatta á fyrirtæki niður í 18% úr 50 þýði þá bætt lífskjör almennings í stórum stíl. Það er mjög ánægjulegt því að það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar. En ég ætlaði að spyrja hv. þingmann, fyrst það er svona óskaplega erfitt fyrir orkufyrirtækin að borga 18% skatt á hagnað, er sá skattur of hár? Mundi hv. þingmaður vilja lækka hann niður í 15% eða 11% eins og ég lagði til á sínum tíma?



[20:39]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst er þessi furðulega staðhæfing hv. þingmanns að það sé undarlegt að við teljum að skattar á fyrirtæki leiði til hækkunar á vöru, og hvort lækkun tekjuskatta, var það ekki? (Gripið fram í.) muni ekki leiða til bættra lífskjara almennings.

Að sjálfsögðu er það svo að ef fyrirtæki eru skattlögð minna hafa þau meira til ráðstöfunar og það sama gildir um einstaklinga. Ef þeir borga enga skatta hafa þeir meira til ráðstöfunar. Þannig er málið, skoðað þröngt. Hins vegar er ekki hægt að slíta þetta úr samhengi við það sem skattarnir eru notaðir í. Þeir eru notaðir m.a. í að fjármagna velferðarþjónustuna í landinu. Ef það nú gerist, af því að væntanlega ætlum við að hafa áfram sjúkrahús og þá velferðarþjónustu og vatnið og rafmagnið, að vegna skattalækkana þurfi einstaklingurinn að borga meira þegar hann þarf á þessari þjónustu að halda, þá er vandséð að þetta leiði til kjarabóta. Það mun hins vegar hugsanlega gera það hjá þeim sem eru heilbrigðir og búa við góðar aðstæður en hjá hinum sem eru veikir og þurfa á velferðarþjónustunni að halda er þetta tekjuskerðing. Það er náttúrlega mergurinn málsins að skattar eru til þess fallnir og hugsaðir að jafna lífskjörin í landinu, fjármagna velferðarþjónustuna í stað þess að láta einstaklinginn borga beint.

Nú er ég búinn að gleyma spurningunni sem hv. þingmaður beindi til mín. (Gripið fram í: 18% …) 18%, ég vil ekki láta skattleggja þessa grunnþjónustu sem færir okkur lífsnauðsynjar.



[20:41]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Gefum okkur að orkufyrirtækin í landinu borgi skatta sem um munar, eins og menn eru að gefa í skyn, þá getum við notað þá til þess að bæta velferðarkerfið. Við getum byggt fyrir þá spítala, við getum reist fyrir þá hjúkrunarheimili fyrir aldraða, við getum hækkað bætur til öryrkja og ellilífeyrisþega, ekki satt? Er það þá alslæmt? Er ekki einmitt spurningin í hvað skattarnir eru notaðir?

Ég vildi spyrja hv. þingmann um þá ævintýramennska sem einkennt hefur fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur, að setja þúsundir milljóna í Línu.Net, eðlisfræðitilraun sem kostaði óhemju og klikkaði, eða ræktun á risarækju, eitthvað því um líkt, hvort ekki sé alveg eins skynsamlegt að skattleggja hagnaðinn þannig að hann renni til velferðarkerfisins frekar en í slík ævintýri.



[20:42]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ríkisstjórn eða stjórnarmeirihluti sem er ábyrgur fyrir stærstu áhættufjárfestingu Íslandssögunnar við Kárahnjúka ætti að fara varlega í að tala á þessum nótum. Spurningin í þessu tilviki snýst um margt. Í fyrsta lagi að verið er að færa fjármuni frá sveitarfélögum til ríkisins án þess að (Gripið fram í.) — sveitarfélögin reka líka velferðarþjónustu — málið sé gert upp í heild sinni.

Hv. þingmaður segir að spurningin sé til hvers skattarnir séu notaðir. Þetta snýst líka um hver er skattlagður. Á að skattleggja sjúkrahúsin? Nú eru þau komin með samkeppnisrekstur á ýmsum sviðum, á þá að láta eitt yfir alla ganga og skattleggja þau? Á að skattleggja skólana? Eigum við að fara með alla þessa þjónustu út á markaðstorg og láta almennar reglur sem þar eru við lýði gilda um alla? Ég held ekki.

Ég vil gera skýran greinarmun á almannaþjónustunni, velferðarþjónustunni og grunnþjónustunni í landinu, sem snýst um lífsnauðsynjar, og hins vegar samkeppnismarkaði. (Gripið fram í: Er maturinn ekki líka …?) Jú, en við höfum fært hann yfir á markaðstorg. Ég er hins vegar andvígur því að færa raforkuna þangað vegna þess að í matvörunni virkjast þó lögmál markaðarins. Á þessu sviði gerist það ekki. (Gripið fram í.) Reynslan sýnir okkur að þar sem farið hefur verið út á þessa braut gengur það dæmi ekki upp. Ykkur, fylgjendum markaðsvæðingarinnar, hefur ekki tekist að sýna fram á ágæti þessara kerfisbreytinga. Þið trúið bara blint á þessar lausnir.



[20:45]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja sem er hluti af breytingum sem urðu á raforkukerfi landsmanna eða sem eru að ganga yfir. Ég verð að lýsa því fyrst í ræðu minni að það er mjög óskynsamlegt að fara í þessar breytingar. Það er mjög óskynsamlegt frá mörgum sjónarhólum.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það að núna eru miklar breytingar sem hafa leitt til hækkunar á raforkuverði. Hvers vegna erum við þá að koma með enn einn óvissuþáttinn í viðbót? Mér finnst það mjög óskynsamlegt. Það er miklu meira vit í því að staldra við og reyna að átta sig á þeim breytingum sem eru að verða núna án þess að setja inn enn einn áhættuþáttinn sem mun að öllum líkindum leiða til hækkunar.

Mér finnst eitt athyglisvert í umræðunni. Það er að hér er enginn framsóknarmaður. En nú er þessi breyting á raforkukerfinu afleiðing stefnu Framsóknarflokksins. Ég furða mig á því að þeir skuli ekki koma og skýra út bæði fyrir okkur þingmönnum hvað er í gangi og síðast en ekki síst fyrir fólkinu í landinu sem er að fá hærri og hærri rafmagnsreikning. Hvað er í gangi? Hvers vegna koma þeir ekki og útskýra hér fyrir fólki hvað valdi þessari hækkun og hvers vegna menn eru að bæta enn einum þættinum við sem mun leiða til hækkunar? Í stað þess sitja sjálfstæðismenn einir uppi með að verja þessa vitleysu og sjálfur hv. þm. Pétur H. Blöndal sem fagnaði ógurlega þegar hér var verið að lækka skatta ekki fyrir svo löngu ... (Gripið fram í: Gerir enn.) já, og hér er hann settur í það að verja skattahækkun en þeir forða sér. Mér finnst það vera ákveðið hugleysi hjá framsóknarmönnum að geta ekki staðið fyrir máli sínu bæði gagnvart okkur þingmönnum en síðast en ekki síst gagnvart þjóðinni sem skilur ekkert í þessum reikningum sem hún er að fá inn um dyralúguna.

Ástæðan fyrir því að ég minni enn og aftur á þetta er sú að villandi upplýsingar hafa ítrekað verið gefnar þegar farið hefur verið í þessar breytingar. Um það má lesa að í upphafi var lofað verðlækkunum, 3% á ári. En síðastliðið vor þegar var verið að ganga frá breytingum á þessu sviði þannig að þessi breytta skipan gæti náð fram að ganga var spáð eilítilli hækkun sums staðar en jafnvel lækkun á öðrum stöðum. En raunin varð sú að það varð mikil hækkun alls staðar. Jú, því miður, og jafnvel tugprósenta hækkun. Það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir hv. þingmenn sem styðja breytt skipulag og markaðskerfi að þetta hefur ekki einungis leitt til hærra verðs á orkunni heldur til þess sem verra er, þ.e. það hefur leitt til þess að meira skattfé er notað til þess að áhrifin á reikningana verði ekki svo gífurleg að fólk segi bara: „Hingað og ekki lengra.“ Það er verið að hækka niðurgreiðslur á rafmagni til þess að fólk sjái ekki hvað þessi breyting hefur valdið mikilli hækkun. (Gripið fram í.)

Af því að maður reynir að sýna andstæðingum sínum í stjórnmálum sanngirni þá vil ég fara yfir rök þeirra. Það verður að segjast eins og er að í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja eru þau mjög fátækleg. Þar kemur fram að einn megintilgangur frumvarpsins sé að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði. Hverjir eru það sem ekki hafa setið við sama borð og aðrir í samkeppninni? Það eru raforkubændur. Ég skora á hv. þm. Pétur H. Blöndal að endurskoða þetta. Það hefði verið miklu nær — þá hefði hann líka getað fagnað ef farin hefði verið sú leið — að lækka einfaldlega skattana á raforkubændurna. Þá hefði hann getað notað tækifærið í vor og fagnað eins og hann fagnaði rétt fyrir jól. Í stað þess þarf hann að verja vita vitlaust frumvarp sem mun leiða til enn meiri hækkunar á almenning (Gripið fram í.) og það finnst mér vera slæm staða. Bæði er um að ræða hækkun á reikningnum og hækkun á sköttum til þess að að fólk verði ekki eins vart við áhrifin af vondu kerfi framsóknarmanna sem þeir bjuggu til og eru að búa til. Síðar kemur önnur röksemd, með leyfi forseta:

„Samkeppni í rekstri orkufyrirtækja hefur aukist á síðustu árum og það eru ekki aðeins ríki og sveitarfélög sem standa að slíkum fyrirtækjum heldur standa einnig einstaklingar að byggingu og rekstri orkuveitna.“

Þetta eru röksemdirnar. Raforkubændurnir eru notaðir sem skálkaskjól til þess að leggja álögur á landsmenn. Það hefur komið fram hér í umræðunni að þetta muni leiða til þess að um verða að ræða tilfærslur á fé frá sveitarfélögunum og til ríkisins, sem sagt úr einum vasanum í annan. Ég ítreka að það sem er virkilega slæmt við þetta er að í staðinn fyrir að menn sjái og einangri þessa þætti, þ.e. breytt skipulag á raforkumálum, þá rugla menn myndina og koma inn með skattlagningu í þokkabót. Maður skilur ekki hvað þeim gengur til.

Þegar menn eru að tala um samkeppni og eitt og annað á þessu sviði megum við ekki gleyma því og það verður að minna stjórnarþingmenn á það að raforkukerfinu er skipt í þrennt. Það er dreifing. Það er flutningur. Báðir þessir þættir eru einokunarþættir. Eini þátturinn í raforkukerfinu þar sem samkeppni ríkir er framleiðslan. Hún er mest á einni hendi og meginþáttur framleiðslunnar er seldur í föstum samningum. Frumvarpið sem við erum að ræða hér er því bara til óþurftar. Það er óskiljanlegt að menn skuli ekki draga þetta einfaldlega til baka.

Ég verð að virða það við einn hv. þingmann, Birki Jón Jónsson, að hann tók til máls þegar verið var að ræða raforkumálin af miklum krafti. En því miður hefur hann gufað upp. Ég hefði gjarnan viljað ræða við hann vegna þess að hann skammaði okkur í Frjálslynda flokknum fyrir að vera ekki nógu hægri sinnaðir. Ég veit eiginlega ekki hvað hv. þingmanni gengur til með að skamma okkur fyrir það vegna þess að þetta er ekki raunveruleg samkeppni fyrirtækja. Þetta er samkeppni opinberra fyrirtækja. Ég þekki marga framsóknarmenn í Skagafirðinum. Þeim finnst mjög sérstakt hvað Framsóknarflokkurinn gengur hart fram í einhverju markaðsæði og jafnvel þar sem opinberir aðilar eiga að fara í samkeppni. Ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal skilur örugglega lítið í þessari samkeppni þar sem opinber fyrirtæki eru að keppa og selja orku í föstum samningum. Það væri mjög fróðlegt að fá það fram hvernig þessi samkeppni virkar þar sem opinber fyrirtæki í eigu ríkisins og sveitarfélaganna eru í harðri samkeppni sín á milli við að selja 90% af orkunni í föstum samningum. Þetta skilur enginn. Ég er markaðssinni og það væri fróðlegt að fá einhver rök fram um hvernig þetta eigi að leiða til lægra verðs eins og var lofað í upphafi. Þegar var farið af stað með þessa breytingu á raforkukerfi landsmanna var því lofað. En raunin er hækkun. Fólk vill fá einhverjar skýringar á því hvers vegna verið er að hækka svona mikið raforkuna þegar það er búið að lofa lækkun. Ég skora á fólk sem er að fá háa rafmagnsreikninga inn um lúguna að minnast þess hver er að senda þeim þessa orkureikninga og þess einnig að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn sem eru að senda fólkinu þessa reikninga, lofuðu lækkun. En síðan er hækkun, herra forseti.

Ég vonast samt sem áður til þess að menn dragi þetta frumvarp til baka, þannig að raunveruleg áhrif til hækkunar sjáist einfaldlega á breyttu skipulagi í raforkumálum, en brengli ekki myndina með því að skattleggja fyrirtækin.



[20:55]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur verið merkileg og staðið yfir í nokkurn tíma bæði hvað varðar þetta tiltekna mál og önnur frumvörp hliðstæð eða hliðarfrumvörp sem hér eru á ferðinni og lúta að því að tryggja það markmið sem hér er að stefnt, þ.e. að skattleggja orkufyrirtæki. Þegar maður hefur reynt að leita eftir og finna röksemdir hv. þingmanna meiri hlutans á hinu háa Alþingi hafa helst komið upp hugmyndir um að það þurfi að tryggja jafnræði á þessum markaði. Það er ekki nema von að mönnum hafi brugðið við því að flestir þekkja það að ríki og sveitarfélög reka nánast raforkumarkaðinn frá a til ö. Það eru örfáar litlar virkjanir, sem vega nú ekki þungt í orkubúskap landsmanna, sem ekki heyra undir eignarhald annaðhvort ríkis eða sveitarfélaga. Því hljóta menn að spyrja: Af hverju þarf að jafna samkeppni annars vegar orkubúskapar landsmanna í heild sinni við nokkrar litlar virkjanir sem til eru hér á landi? Þessi röksemdafærsla stenst vitaskuld engan veginn. Miklu nær hefði verið að hugleiða þá þær hugmyndir sem komu fram í efnahags- og viðskiptanefnd þess eðlis að nær væri að afleggja skatt á þessar fáu virkjanir sem til eru í stað þess að skattleggja allan orkubúskap landsmanna. Og bróðurparturinn af hinu sem einnig á að skattleggja, þ.e. hita og vatni, er með einkaleyfi þannig að ekki er samkeppninni fyrir að fara þar. Niðurstaðan, virðulegi forseti, er því sú að þær röksemdir sem meiri hlutinn hefur komið fram með halda á engan hátt og ég held að flestir sem hafa hlýtt á þessa umræðu og sett sig inn í hana geri sér fyllilega grein fyrir því að hér er aðeins verið að undirbúa það og auðvelda að í framtíðinni verði hægt að selja þessi fyrirtæki.

Það hefði verið miklu ærlegra og miklu heiðarlegra að koma fram með þær röksemdir og segja frá því að menn vilji og telji að hlutverki sveitarfélaga og ríkisins á þessu sviði sé lokið og nú geti einkaaðilar tekið við. Menn hefðu getað sagt að á sínum tíma hafi engir verið til þess að fjármagna framkvæmdir af þessum toga nema opinberir aðilar, sem og er rétt. En það hefði verið miklu ærlegra og heiðarlegra að segja að hlutverki þeirra á þessu sviði sé lokið og nú sé rétt að fara að huga að breytingu á eignarhaldi í þessum fyrirtækjum í stað þess að koma með fráleitar röksemdir eins og þær sem hér hafa komið fram og hafa verið hraktar svo um munar og eftir hefur verið tekið.

Ég vildi aðeins segja þessi örfáu orð hér í lokin eftir að hafa hlýtt á þessa umræðu, eftir að hafa tekið þátt í henni og eftir að hafa setið í efnahags- og viðskiptanefnd og skrifað þar álit um þetta tiltekna mál. En það er vissulega athyglisvert og umhugsunarefni að hv. þm. Pétur Blöndal sem leiddi vinnuna í efnahags- og viðskiptanefnd, sá hinn sami og fagnaði ógurlega í þá tíð þegar skattalögum var breytt á þann veg að nú sér fyrir endann á eignarskatti, skuli nú leiða þá vinnu að skattleggja hvert einasta heimili í landinu, skattleggja lífsnauðsynjar, skattleggja í raun og veru það sem er svona grundvöllur og undirstaða þess að við fáum notið þess og getum lifað hér á landi við þær aðstæður sem Íslendingum eru oft búnar á veturna. Þetta er afar athyglisvert og vert að hafa í huga að á stundum er það nú þannig að það sem var sagt í gær á ekki endilega við í dag og það hefur vissulega verið dregið fram með mjög skýrum hætti í þessari umræðu.



[21:00]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra þegar mælt var fyrir málinu sagði ég eftirfarandi, með leyfi herra forseta:

„Þetta er í anda þeirrar stefnu að víkka út og breikka skattstofna og fækka undanþágum og þar með möguleikum til skattsvika, sem við ræddum um fyrr í dag.“

Meginmálið er einmitt þetta, að loka skattglufum hjá fyrirtækjum eins og t.d. Landsvirkjun, sem er í fjarskiptum og hefur verið í fjarskiptum í stórum stíl, og Orkuveitunni sem hefur verið í fjarskiptum, setti mörg þúsund milljónir af hagnaði sínum, hagnaði Reykvíkinga í tilraun á fjarskiptum, að flytja tölvuboð með raforkustreng, sem reyndar klikkaði. Það sama fyrirtæki er líka í risarækjueldi í samkeppni við fyrirtæki sem eru í fiskeldi annars staðar og borga skatta.

Það er einmitt þetta sem gerir það að verkum að við erum að loka glufum og komum með almenna löggjöf fyrir öll fyrirtæki og ég hélt að flokkur hv. þingmanns styddi svoleiðis stefnu, að hafa almenna löggjöf í skattamálum. (Gripið fram í: …Landsvirkjun …)

Varðandi það að selja fyrirtæki er ég ekki sá fyrsti með þá hugmynd. Ég veit ekki betur en að fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og R-listinn í Reykjavík hafi reynt að selja sinn hlut í Landsvirkjun.



[21:01]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var tvennt sem fram kom í máli hv. þingmanns sem var mjög athyglisvert. Í fyrsta lagi virðist vera sem þetta frumvarp sé fyrst og fremst sett Orkuveitu Reykjavíkur til höfuðs og Orkuveitan hafi verið að stunda starfsemi sem hv. þingmanni hugnast lítt, þ.e. hafi tekið þátt í þróun á fjarskiptamarkaði og fleiri atriðum sem hv. þingmaður telur ekki eiga að heyra til friðar Orkuveitu Reykjavíkur. Það er afar athyglisvert að þetta skuli koma fram og þetta voru röksemdirnar fyrir því að fara þessa leið.

Vert er að hafa í huga að skattlagning þessara fyrirtækja þýðir í raun og veru ekkert annað en að verið er að færa fé frá sveitarfélögum til ríkisins. Það er ekkert annað sem hér á sér stað og endurspeglar enn og aftur viðhorf ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á Alþingi til þeirra sem fara með stjórnina í Reykjavík. Hv. þingmaður staðfestir þetta einfaldlega í því andsvari sem hann veitti.

Hv. þingmaður nefndi það einnig að fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík hefði viðrað þá hugmynd að selja hluti í orkufyrirtæki. Við höfum aldrei tekið fyrir það eða útilokað að það sé mögulegt eða æskilegt. Það höfum við aldrei sagt. Við höfum hins vegar sagt að það hefði verið miklu ærlegra og miklu heiðarlegra af ríkisstjórnarflokkunum og þeim sem að þeim standa hér á hinu háa Alþingi að koma fram og segja þetta berum orðum í stað þess að skýla sér á bak við hin fráleitu rök að skattleggja þurfi orkubúskap landsmanna vegna jafnræðis við nokkrar virkjanir sem ekki heyra undir sveitarfélög eða ríki í landinu. Það var verið að kalla eftir því, verið var að kalla eftir sómasamlegum rökum en ekki þessu skjóli sem þeir hafa reynt að búa sér til í umræðunni.



[21:04]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Frumvarpinu er engan veginn beint gegn Orkuveitu Reykjavíkur. Ég nefndi aðeins þessi tvö dæmi um starfsemi hennar í fjarskiptageiranum og í risarækjueldi sem dæmi um hvernig starfsemin skarast við atvinnugreinar sem eru í samkeppni. Það sýnir einmitt hvernig myndast strax göt í kerfinu þegar skattstofninn er ekki heill í gegn og hvað það er mikilvægt að hafa engar gloppur í skattstofninum. Þetta veit hv. þingmaður enda veit ég ekki betur en flokkur hans hafi margoft lýst yfir stuðningi við slíkt.

Ég svaraði hv. þingmanni í 2. umr. í andsvari nákvæmlega eins, að einn megintilgangur frumvarpsins væri að tryggja jafnvægi í skattalöggjöf á þessu sviði. En svo er umræðan búin að ganga hérna í marga klukkutíma, í fjóra, fimm, sex, sjö klukkutíma, alltaf það sama, hring eftir hring eftir hring, að spyrja að því sama — sem búið er að svara, bæði í 1. og 2. umr. Ég veit ekki hvað á að þurfa að svara oft. Af hverju núna? Nú, til þess að loka glufunum.

Stóriðjan er föst í samningum sínum, segja menn. Það er ekki rétt. Landsvirkjunarsamningarnir fyrstu í Straumsvík eru að renna út. Þá þarf að semja upp á nýtt og örugglega með hærra verði. Það er samkeppni þar líka.

Auk þess hafa menn sagt að það séu svo miklar fjárfestingar sérstaklega hjá stóru fyrirtækjunum, Orkuveitu Reykjavíkur, að þeir muni ekki borga skatta á næstu árum vegna afskrifta. Hvar er þá vandi Orkuveitu Reykjavíkur? Auk þess sem við erum að tala um 18% skatt á hagnað og hagnaður er yfirleitt ekki nema 10% af veltu, og þykir gott, þannig að við erum að tala um 1,8% af verði, ef mjög vel gengur hjá orkufyrirtækjunum.



[21:06]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki nema von að tekið hafi talsverðan tíma fyrir hv. þingmenn að trúa því og kaupa þá röksemdafærslu að verið sé að skapa jafnræði milli orkubúskapar landsmanna annars vegar og nokkurra lítilla virkjana í landinu hins vegar og til að skapa þetta jafnræði þurfi að skattleggja hvert einasta heimili í landinu.

Það þarf heldur ekki að koma hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar á óvart, sem auðvitað hlýða á hv. þm. Pétur Blöndal og fleiri sem hingað ruddust inn á þing með það að vopni (Gripið fram í.) og undir þeim gunnfána að nú skuli lækka skatta, að hv. þingmaður skuli vera helsti talsmaður skattahækkana á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í.) Og ekki aðeins þetta, nú nýverið náðist samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu fjármuna frá ríkinu til sveitarfélaga, þótt ekki væri nema sanngjörn jöfnun. Ef þessar reglur hefðu verið við lýði undanfarin missiri væri nánast búið að hreinsa upp þá tilfærslu.

Það liggur einnig fyrir að þetta er gert algjörlega í andstöðu við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem hefur lýst þessu tiltekna máli sem hneyksli. En andúðin á Orkuveitu Reykjavíkur, andúðin á þeim sem fara með ferðina í Reykjavík er slík að það blindar sýn. Meiri hlutinn á hinu háa Alþingi er tilbúinn að ganga út í hvaða drullupoll sem er til þess eins að koma höggi á þá aðila. Það er einasti tilgangurinn með þessu tiltekna máli, virðulegi forseti.