131. löggjafarþing — 126. fundur
 9. maí 2005.
olíugjald og kílómetragjald, 1. umræða.
stjfrv., 807. mál (lækkun olíugjalds). — Þskj. 1365.

[14:05]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um olíugjald og kílómetragjald sem gengur út á það að koma til móts við þær breytingar sem orðið hafa á heimsmarkaðsverði á olíuvörum á undanförnum mánuðum og gera það að verkum að horfur eru á að dísilolía verði dýrari en bensín frá og með gildistöku laga um olíugjald og kílómetragjald 1. júlí nk. Af þessum sökum hefur verið talið óhjákvæmilegt að gera tillögu um að lækka olíugjaldið sem ákveðið er í lögum 45 kr. hver lítri. Er í frumvarpi þessu lagt til að olíugjaldið verði 41 kr. en það þýðir að útsöluverð dísilolíulítrans gæti orðið u.þ.b. 5 kr. lægra en ella hefði orðið að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Ekki þarf að hafa mörg orð um þetta frumvarp, virðulegi forseti. Við þekkjum öll að frá og með 1. júlí nk. tekur gildi nýtt gjaldtökukerfi á dísilbíla sem leysir af hólmi hið meingallaða þungaskattskerfi sem margir kannast við af eigin raun. Þetta kerfi, hið nýja olíugjaldskerfi, hefur marga kosti umfram þungaskattskerfið, ekki síst þann að með því er hvatt til aukinnar notkunar á dísilolíu og bílvélum sem nota dísilolíu til brennslu sem bæði eru almennt talað núorðið sparneytnari en bensínvélar og eru þar að auki minna mengandi fyrir umhverfið.

Af þessum sökum er það mikilvægt að mínum dómi, herra forseti, að olíugjaldskerfið byrji réttum megin við strikið ef svo mætti segja, með þeim hætti að olíulítrinn verði heldur ódýrari en bensínlítrinn eins og gert var ráð fyrir í upphafi og af þeim sökum er þetta frumvarp flutt. Við gerum það hins vegar með bráðabirgðaákvæði þannig að gert er ráð fyrir að þessi lækkun úr 45 kr. í 41 kr. gildi í sex mánuði, þ.e. til næstu áramóta, en í millitíðinni gefst vafalaust tóm til þess að stilla þau gjöld sem lögð eru á eldsneyti betur af innbyrðis þannig að það sé meira samræmi eða fullnægjandi samræmi í dísilgjaldinu, þ.e. olíugjaldinu sem svo heitir, í bensíngjaldi og svo einnig í kílómetragjaldi því sem lagt verður á þyngstu ökutækin, þ.e. þau sem eru þyngri en 10 tonn. Þessa vinnu þarf að fara í þegar nokkur reynsla er komin af olíugjaldskerfinu nýja, þ.e. á haustmánuðum.

Við gerum ráð fyrir að vegna þessara breytinga megi búast við að tekjutap ríkissjóðs geti orðið um 160 milljónir. Ég tel réttlætanlegt að taka á sig það tekjutap í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru og eru ófyrirsjáanlegar og óviðráðanlegar af okkar hálfu vegna utanaðkomandi aðstæðna.

Ég þakka liðsinni allra þeirra sem hafa greitt fyrir því að þetta mál komi hér fyrir með afbrigðum og treysti því að málið hljóti greiða og örugga leið í gegnum þingið.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar þingsins.



[14:08]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hæstv. fjármálaráðherra þarf að koma með frumvarp til Alþingis til að laga frumvarpið um olíugjald. Hann nefndi að þungaskattskerfið væri meingallað, ég veit þá ekki hvað kalla á væntanlegt olíugjaldskerfi.

Ég vil í þessu stutta andsvari spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það hvort ekki hafi komið til tals að taka virðisaukaskattinn sem hann ætlar að taka af olíugjaldinu og færa til Vegagerðarinnar líka sem þýddi ef olíugjaldið og virðisaukaskatturinn kæmi þangað að fara mætti með olíugjaldið ofan í 40,50 kr. með virðisaukaskatti og hafa áfram sömu tekjur til Vegagerðarinnar eða um 1.660 milljónir það sem eftir lifir þessa árs, þ.e. frá 1. júlí.

Virðulegi forseti. Það er nefnilega þannig að notendur borguðu ekki virðisaukaskatt af þungaskattskerfinu. Nú boðar hæstv. fjármálaráðherra, og það hefur verið samþykkt á Alþingi, að virðisaukaskattur komi ofan á þessar 45 kr. og þannig er það 1 milljarður á ári sem notendur olíu á bíla munu greiða aukalega sem fer beint í ríkissjóð eins og búið er að eyrnamerkja þetta núna.

Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra er þessi: Ef virðisaukaskatturinn og olíugjaldið færi allt til Vegagerðarinnar mætti fara með olíugjaldið ofan í rúmar 40 kr. og það mundi þýða að dísilolíuverð yrði í kringum 92–93 kr. núna og þá væri markmiðum þeirrar kerfisbreytingar náð sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir, þ.e. að hafa þennan mun á olíuverði og bensínverði. En þrátt fyrir þessa litlu breytingu verður dísilolían samt 3–5 kr. dýrari en bensín, sama hvort það er með fullri þjónustu eða á sjálfsafgreiðslustöðvum.



[14:10]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaðan hv. þingmaður hefur þær upplýsingar sem hann fór með síðast, en það sem gerist með þessu frumvarpi er að olíugjald plús virðisaukaskattur mun lækka úr 56 kr. á lítrann ofan í 51 kr. Síðan hafa menn það fyrir augum sér á hverjum degi á bensínstöðinni hvað dísilolían kostar í dag og síðan má gera ráð fyrir einhverri þóknun olíufélaganna á lítrann, geri ég ráð fyrir, sem ég veit þó auðvitað ekkert um hver verður.

Þingmaðurinn spurði: Væri ekki hægt að gera ýmislegt við þessa peninga hjá Vegagerðinni ef þetta væri fært þangað, olíugjaldið og virðisaukaskatturinn? Það má svara þessu eins og hverju öðru: Væri ekki hægt að gera ýmislegt ef menn væru aldrei að hugsa um hagsmuni ríkissjóðs? Væri ekki hægt að gera ýmislegt með því að taka þá peninga sem nú renna í ríkissjóð og setja þá í eitthvert annað? Auðvitað væri það hægt en það er ekki það sem við erum að gera hér og þetta frumvarp snýst ekki um það.

Það verður að hafa í huga, virðulegi forseti, að samhliða þessari breytingu sem samþykkt var í fyrra þegar olíugjaldskerfið var tekið upp, var gerð innbyrðis breyting á almenna bensíngjaldinu sem rennur í ríkissjóð og hinu sérstaka bensíngjaldi sem rennur til vegamála. Hvernig var sú breyting? Jú, hún var sú að almenna gjaldið var lækkað og sérstaka gjaldið til vegamála hækkað til þess að vegamálin, vegasjóður og Vegagerðin kæmu á sléttu út úr þessu þannig að olíugjaldskerfið hefði ekki áhrif á tekjuöflun Vegagerðarinnar, hún kæmi á sléttu út úr því og það er væntanlega það sem við öll viljum hér.

Hagsmunir Vegagerðarinnar eru náttúrlega annað mál en sú kerfisbreyting í gjaldtöku sem við erum að fara út í. Með olíugjaldinu erum við að taka upp skynsamlegri gjaldtöku, sem hefur tíðkast í nálægum löndum um margra ára skeið, og við eigum ekki að láta þá staðreynd að sumpart séu tekjur af umferð látnar renna til vegamála hafa áhrif á afstöðu okkar í því máli. Það er fullt af tekjum af umferðinni sem ekki renna til vegamála og þannig verður það auðvitað áfram eins og við vitum, þar á meðal er virðisaukaskatturinn.



[14:12]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með þetta svar vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra svaraði því ekki hvort skila ætti virðisaukaskattinum af olíugjaldinu, sem mun nema í kringum 1 milljarði kr. á ársgrundvelli, til baka til kaupenda olíu og lækka þar með olíugjaldið ofan í þá tölu sem ég nefndi og koma þar með dísilolíuverði niður fyrir bensínið þegar þetta kerfi tekur gildi. Því hefur ekki verið svarað.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um fimmkallinn sem hann ætlar að lækka þetta verð, eða 4 kr. plús vaskurinn sem gerir 5 kr. Hráolíuverð með fullri þjónustu mun verða tæpar 113 kr. eftir þessa breytingu meðan bensínverðið er 106 kr. Hver verður þá hvati fólks hér á landi til að skipta yfir í dísilbíla? Enginn.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að fjármálaráðherra upplýsi þingheim um hvort sá milljarður sem hann er að ná í ríkissjóð í formi virðisaukaskatts af olíugjaldinu — takið eftir, hv. þingmenn — sem ekki var greiddur af þungaskattinum, fari inn í þessa tölu eða ekki. Eða á það að vera þannig að skattheimta af þeim sem nota bíla með þessu eldsneyti muni aukast um 1 milljarð á ári eins og tillögurnar gera ráð fyrir?

Þetta er það sem þingheimur þarf að fá svar við, þetta er það sem efnahags- og viðskiptanefnd þarf að fjalla um og við þingmenn að svara, ef við ætlum að fá hin jákvæðu áhrif af olíugjaldinu sem fjallað hefur verið um. Ég ætla ekki að lengja 1. umr. með því að benda á tillögu sem Samfylkingin flutti við olíugjaldsfrumvarpið en var felld. Það voru sennilega bestu tillögurnar til að fjölga dísilbílum á Íslandi á kostnað bensínbíla og spara þjóðarbúinu, en það verður ekki gert, virðulegi forseti, með þessari skattheimtu og okurálagningu á dísilolíuverð, sama hvort það verður fimmkall til eða frá. Ég spyr, virðulegi forseti, um milljarðinn í virðisaukaskattinn. (Forseti hringir.) Verður honum skilað eður ei?



[14:15]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn virðist haldinn þeim misskilningi að virðisaukaskattur sé í einhverjum skilningi markaður tekjustofn til vegamála eða einhverra annarra þátta. Það er auðvitað ekki þannig. Við hljótum að vita það öll hér að virðisaukaskatturinn er almennur tekjustofn fyrir ríkið, almennur skattur sem lagður er á mjög breiðan gjaldstofn og rennur til hinna almennu þarfa ríkissjóðs. Þær eru nú ýmsar eins og við vitum og gerðar ríkar kröfur til útgjalda á öllum sviðum ríkisþjónustunnar.

Það sem auðvitað gerist í þessu eins og annars staðar er að til ákvörðunar kemur eitthvert útsöluverð án virðisaukaskatts og síðan er lagður á það virðisaukaskattur í þessu tilfelli eins og í öllum öðrum tilfellum. Það er bara nákvæmlega þannig og þetta er nákvæmlega eins gert og í bensíninu þar sem reiknað er út bensíngjald og aðrir kostnaðarþættir, innkaupsverð, álagning, flutningskostnaður o.s.frv., og síðan er lagður virðisaukaskattur ofan á það í lokin. Þetta er bara nákvæmlega eins. Ég veit því ekki alveg hvað þingmaðurinn — mér finnst hann vera á hálfgerðum villigötum með þessari spurningu sinni.

Það sem hann er hins vegar líka að halda fram, því að það eru tvö efnisatriði í þessu máli sem hann hefur bent á, er að lækkunin sem ég legg til og mæli fyrir, virðulegi forseti, sé ekki nægileg til þess að koma markmiðum málsins fram, þ.e. koma dísilolíulítranum í verði niður fyrir bensínlítrann. Ég andmæli því. Ég tel að miðað við núverandi forsendur séu allar líkur á því að það takist. En auðvitað vitum við ekki fyrir víst hvernig verðið sveiflast á næstu vikum fram til 1. júlí, það er alveg rétt, við vitum ekkert um það, hvorki ég né hv. þingmaður, það eru aðrir þættir sem þar hafa áhrif. En ég verð þó að segja að það eru frekar líkur á því að gasolíuverð lækki að tiltölu miðað við bensínið heldur en öfugt, vegna þess að nú fer í hönd sá tími á heimsmarkaði þar sem dregur úr eftirspurn eftir gasolíu, m.a. til húshitunar og annarra slíkra þátta. Þar fyrir utan vitum við að bensínið er meira unnin afurð, hún er unnin úr dísilolíu eða gasolíu þannig að það er mjög óeðlilegt að hún sé ódýrari en gasolían. En það er önnur saga, virðulegi forseti, sem ekki þarf að fara út í hér.