131. löggjafarþing — 129. fundur
 10. maí 2005.
Merkingar á þorski, ufsa, skarkola og grálúðu.
fsp. SigurjÞ, 753. mál. — Þskj. 1118.

[11:51]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hún varðar endurheimtur á fiskmerkjum. Hvers vegna er ég að spyrja að því? Jú, endurheimtur á fiskmerkjum geta gefið mikilvægar upplýsingar um hversu stórt hlutfall fisks deyr af völdum veiða, en það kallast fiskveiðidánartala. Það hafa verið miklar deilur í þjóðfélaginu um hver fiskveiðidánartalan sé en samkvæmt aflareglu á hún að vera í kringum 25%. Þess vegna er mjög fróðlegt að bera saman hvort merkingar endurheimtist í einhverjum svipuðum mæli og menn telja að fiskveiðidánartalan sé. Ef það er sambærilegt sem endurheimtist af merkjum við fiskveiðidánartöluna þá ætti þetta að vera svipað. Þá ætti að endurheimtast 25% af merkjum. Til þess að fá upplýsingar um þetta hef ég beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra:

1. Hvaða merkingar hafa verið stundaðar á þorski, ufsa, skarkola og grálúðu frá árinu 1995? Hve mikið hefur verið merkt í hverju merkingarverkefni, hverjar eru niðurstöður þeirra verkefna sem lokið er og hverjar eru endurheimtur til dagsins í dag í verkefnum sem enn standa yfir?

2. Hvaða skýrslur og ritgerðir hafa birst um merkingar frá árinu 1995 til þessa dags og hvar er hægt að nálgast þær?

3. Er þess að vænta að niðurstöður birtist á vef Hafrannsóknastofnunarinnar í aðgengilegum gagnagrunni?

4. Hvernig miðla útibú Hafrannsóknastofnunarinnar upplýsingum til sjávarútvegsins ef þau senda ekki frá sér skýrslur?

Við höfum verið gagnrýndir í stjórnarandstöðunni með mjög ósanngjörnum hætti fyrir að vera á móti hafrannsóknum vegna þess að við viljum ekki að öllum fjármunum sem er varið til hafrannsókna sé eingöngu varið til Hafrannsóknastofnunar og viljum að sjálfstæðir vísindamenn hafi aðgang að gögnum og geti metið þær forsendur sem m.a. veiðiráðgjöf gengur út frá. En staðreyndin er að sú veiðiráðgjöf hefur ekki skilað þjóðinni miklu. Eftir að aflaregla sem ég nefndi fyrr í ræðunni var tekin upp þá er aflinn 100 þúsund tonnum minni í þorski en áður en aflareglan var tekin upp. Þessi regla var tekin upp til að byggja upp þorskstofninn. En alltaf fáum við skýrslur um að þorskstofninn sé á niðurleið og við viljum skoða þau gögn (Forseti hringir.) sem liggja þar til grundvallar, frú forseti.



[11:55]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er eiginlega að verða siður frekar en undantekning hjá hv. þingmanni að þegar hann ber fram fyrirspurnir ræðir hann um hin ýmsu málefni önnur en þau sem eru í fyrirspurninni sem hann er að bera fram. (SigurjÞ: Nú, hvað?) En það er sjálfsagt að svara fyrirspurninni sem er í fjórum liðum. Fyrsta spurningin er svohljóðandi:

„Hvaða merkingar hafa verið stundaðar á þorski, ufsa, skarkola og grálúðu frá árinu 1995? Hve mikið hefur verið merkt í hverju merkingarverkefni, hverjar eru niðurstöður þeirra verkefna sem lokið er og hverjar eru endurheimtur til dagsins í dag í verkefnum sem enn standa yfir?“

Á tímabilinu 1995–2004 hafa eftirtaldar merkingar verið gerðar: Á þorski, kynþroska, á tímabilinu 1995–2004 17.470 og endurheimtur hafa verið 19,5%. Það voru slöngumerki. Á þorski, kynþroska, 1995–2004, 2.210 einstaklingar, 450 merki endurheimt, þ.e. 20,4%, rafeindamerki. Þorskur, ókynþroska, 1995–2004, 9.799, endurheimtur 17,3%, slöngumerki. Ufsi 2000–2004, 16.897, 5,7% endurheimtur með slöngumerkjum. Ufsi á sama tímabili, 133 merki, endurheimtur 18%, rafeindamerki. Skarkoli 1997–1998, 3.664 merki, 55% endurheimtur, slöngumerki. Skarkoli 1998, 160, 76% endurheimtur með rafeindamerkjum. Grálúða 2001–2003, 2.138, 6,1% endurheimtur með slöngumerkjum.

Annar liður fyrirspurnarinnar er svohljóðandi:

„Hvaða skýrslur og ritgerðir hafa birst um merkingar frá árinu 1995 til þessa dags og hvar er hægt að nálgast þær?“

Á árinu 1995–2004 hafa alls verið birtar um 30 skýrslur og greinar þar sem stuðst er við gögn úr ofangreindum merkingum auk þriggja greina um neðansjávarmerkingar á karfa. Greinarnar hafa birst í ýmsum blöðum og ritum á bæði innlendum og erlendum vettvangi. Hægt er að nálgast greinarnar á bókasafni Hafrannsóknastofnunarinnar og margvíslegan fróðleik um merkingar er einnig að finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Þriðji liður er svohljóðandi:

„Er þess að vænta að niðurstöður birtist á vef Hafrannsóknastofnunarinnar í aðgengilegum gagnagrunni?“

Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að því að gera niðurstöður merkinga aðgengilegar á heimasíðu Hafrannsóknastofnunarinnar og þeirri vinnu verður fram haldið og væntanlega lokið árið 2006.

Fjórði liður er svohljóðandi:

„Hvernig miðla útibú Hafrannsóknastofnunarinnar upplýsingum til sjávarútvegsins ef þau senda ekki frá sér skýrslur?“

Starfsmenn útibúa Hafrannsóknastofnunarinnar hafa á undanförnum árum skrifað ýmsar skýrslur og greinar m.a. um merkingar á ýmsum vettvangi svo sem í tímaritið Ægi, Fiskifréttir, sjómannadagsblöð og víðar. Auk þess miðla starfsmenn útibúa ýmsum upplýsingum í fyrirlestrum, á kynningarfundum og í samtölum meðal fólks á umræðusvæði útibúanna. Í skýrslu um starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar er árlega gerð stuttlega grein fyrir helstu verkefnum útibúa.

Eins og ég nefndi áðan fer hv. þingmaður yfirleitt vítt og breitt um sviðið þegar verið er að ræða fyrirspurnir og enn einu sinni talar hann um stöðu þorskstofnsins. Það má kannski segja að sjaldan sé of mikið rætt um stöðu þorskstofnsins. En ég hef verið að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður geri sér grein fyrir því hvernig stofninn hefur þróast á undanförnum árum, hvort hann geri sér grein fyrir því hver hafi verið stærð veiðistofnsins miðað við skýrslu síðasta árs á síðasta ári og hver staða stofnsins var árið 1983 þegar kvótakerfið var tekið upp og hvort hann geri sér grein fyrir því hver stærð þorskstofnsins var tíu árum áður en kvótakerfið var tekið upp, þ.e. árið 1973. Það væri fróðlegt fyrir mig að heyra það hvort hann geri sér grein fyrir því hvernig þessi mál hafa þróast og kannski bæti við hvort hann geri sér grein fyrir því hver staða stofnsins var 1963, 20 árum áður en kvótakerfið var tekið upp.



[11:59]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það er greinilega viðkvæmt mál ef maður ræðir fiskveiðistjórn hér við hæstv. sjávarútvegsráðherra. En hvers vegna fer ég að ræða um fiskveiðistjórn út frá fiskmerkingum? Það er augljóst. Þetta tengist og ég hélt að hæstv. ráðherra ætti að gera sér grein fyrir því eftir að hafa verið í þessu ágæta ráðuneyti um árabil.

Hvort ég geri mér grein fyrir því hvernig fiskveiðistofninn var 1983 og hvernig hann er nú? Já, ég geri mér grein fyrir því. Það hefur verið hrein sorgarsaga hvernig hæstv. ráðherra og ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hefur tekist upp. Það er þannig að bæði hefur aflinn minnkað og viðmiðunarstofninn. Ég vona að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að menn eru ekki á réttri braut og að þeir verða að ræða það hér í alvöru hvernig þeir ætla að bregðast við. Menn hafa sífellt á öllu þessu árabili verið að gefa loforð um að handan við hornið muni aflinn aukast. En hvað gerist? Við fáum enn og aftur því miður dökka skýrslu frá Hafrannsóknastofnun og nú eigum við von á skýrslu skömmu eftir að þing verður sent heim, í júní ef ég þekki það rétt. Ég vonast til þess, og ég ætla að gera það að tillögu minni, að við hefjum þing næsta haust á því að ræða þessa skýrslu Hafrannsóknastofnunar og förum vel yfir málið. Mér finnst það vera mjög þörf umræða í framhaldi af þessari umræðu um hrakfarir fiskveiðistjórnar í tíð Sjálfstæðisflokksins og ég legg til að menn skoði það í alvöru og fordómalaust hvað hafi farið úrskeiðis og hvort þeir geti í rauninni ekki farið aðrar leiðir og reynt að tala opið um hlutina.



[12:02]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég tek því mjög vel að ræða skýrslu Hafrannsóknastofnunar næsta haust þegar þing kemur saman, mér finnst alveg sjálfsagt að ræða þetta opið og af hreinskilni. En til þess hins vegar að gera það verða menn að gera sér grein fyrir því hver þróunin hefur verið og ég var að vonast til að hv. þingmaður mundi gera okkur grein fyrir því að hann byggi yfir þeirri þekkingu að vita hver þróun þorskstofnsins hefur verið á þessu tímabili.

Staðreyndin er sú að á síðasta ári mældist veiðistofninn eða viðmiðunarstofninn — hann hefur gengið undir þessum tveimur nöfnum undanfarin rúmlega fjögur ár — ríflega 850 þúsund tonn. Þegar kvótakerfið var tekið upp árið 1983 var hann ríflega 800 þúsund tonn og 1973, tíu árum áður en kvótakerfið var tekið upp var hann líka ríflega 800 þúsund tonn. Hins vegar var hann 1963, og nú fer ég með þá tölu eftir minni, á milli 12 og 13 hundruð þúsund tonn, ef ég man rétt, en tæplega tíu árum fyrr var hann tæplega 2,3 milljónir tonna. Vandinn sem við eigum við að glíma, vandinn í veiðinni birtist í því að stofninn er veiddur niður á 20 ára tímabili á 6. og 7. áratugnum, ekki síðar. Vandinn sem síðan birtist í því að veiðin er minni en hún var kemur til af því að nýliðunin eftir 1985 er miklu minni en hún var á tímabilunum þar á undan og í þessu birtist vandinn. Hann tengist ekki þeim kerfum sem við höfum verið með því að kerfin snúast eingöngu um að gera okkur kleift að fara eftir ráðleggingum vísindamanna og veiða þann hluta stofnsins sem við teljum að sé skynsamlegt að veiða.