131. löggjafarþing — 133. fundur
 11. maí 2005.
loftferðir, 2. umræða.
stjfrv., 699. mál (EES-reglur). — Þskj. 1057, nál. 1275, brtt. 1276 og 1288.

[14:38]
Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá samgöngunefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um loftferðir sem miða að eflingu flugverndar og samræmingu flugreglna á Evrópska efnahagssvæðinu. Flugvernd hefur verið efld gríðarmikið eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001, bæði hjá einstökum ríkjum og á alþjóðavísu.

Meðal þess sem lagt er til í frumvarpinu er að ráðherra verði heimilt að veita leyfi fyrir því að vopnaður vörður verði um borð í flugvél komi ósk um slíkt frá flugrekanda. Það kom fram í umfjöllun í nefndinni að flugmenn og flugrekendur telja ólíklegt að þessi heimild verði nýtt við þær aðstæður sem ríkja í dag. Flestir gestir nefndarinnar voru þó þeirrar skoðunar að vegna breyttra öryggiskrafna í millilandaflugi sé nauðsynlegt að slík gæsla sé heimiluð samkvæmt lögum og að þar sé kveðið á um hvernig slík heimild skuli veitt. Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að slíkur vörður verði aðeins heimilaður af samgönguráðherra að framkominni beiðni flugrekanda sem um það biður að framkominni kröfu erlends ríkis og að leita verði meðmæla dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Nefndin telur þessa leið góða þar sem hún tryggir tiltekið samráð.

Þá er lagt til að öll smærri flugatvik, þ.e. þau sem ekki á að tilkynna til rannsóknarnefndar flugslysa, eigi að tilkynna til Flugmálastjórnar. Nefndin ræddi þetta ákvæði nokkuð og m.a. hvort ruglingur gæti myndast um hvaða atvik skuli tilkynna til hvors aðila. Nefndin leggur til orðalagsbreytingu á 5. gr. frumvarpsins til að takmarka slíkan rugling. Söfnun upplýsinga um flugatvik og úrvinnsla þeirra er mikilvægur þáttur í eflingu flugöryggis. Því er mikilvægt að allir sem að þeirri vinnu koma starfi í sátt að settu markmiði og að gagnkvæmt traust sé á milli aðila. Ákvæði um nafnleynd og refsileysi hafa þann tilgang að vernda þá sem tilkynna um flugatvik og þar með að auka líkur á að atvik verði tilkynnt. Í nefndinni var rætt hvort gera ætti tillögur um ítarlegri ákvæði í þessum efnum, m.a. um meðferð Flugmálastjórnar á tilkynningum, en frá því var fallið þar sem réttara var talið að þeir aðilar sem þessi mál snerta mest, flugmenn, flugrekendur og flugmálayfirvöld, ynnu að mótun reglna á grundvelli laganna sem sátt væri um.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

Gildissvið 57. gr. laganna taki einnig til skólastarfs á sviði flugleiðsöguþjónustunnar.

Ráðherra setji í reglugerð reglur um miðlun upplýsinga til eigenda farms um hvað flytja má inn á haftasvæði flugverndar líkt og til flugfarþega samkvæmt frumvarpinu.

Nýtt ákvæði bætist við þar sem lagt er til að orðin „og laga þessara“ verði felld brott úr 2. mgr. 101. gr. laganna þar sem ekki er rétt að binda gerðardóm að þessu leyti.

Ákvæði 12. gr. frumvarpsins verði gert almennara og rýmkað hvað sé refsilaust samkvæmt ákvæðinu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Björgvin G. Sigurðsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Kristján L. Möller og Guðjón A. Kristjánsson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið. Fyrirvari Guðjóns A. Kristjánssonar lýtur fyrst og fremst að 9. gr. frumvarpsins.

Jón Bjarnason sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.

Undir álitið skrifa hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, Einar Oddur Kristjánsson, Björgvin G. Sigurðsson, með fyrirvara, Bryndís Hlöðversdóttir, með fyrirvara, Birgir Ármannsson, Guðjón Arnar Kristjánsson, með fyrirvara, Una María Óskarsdóttir, Kristján L. Möller, með fyrirvara, og Magnús Stefánsson.



[14:43]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hv. formaður samgöngunefndar Guðmundur Hallvarðsson hefur mælt fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir. Ég sit sem áheyrnarfulltrúi í nefndinni fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en gat ekki stutt þetta nefndarálit. Ég flyt auk þess við það breytingartillögur.

Eins og þingmaðurinn gerði grein fyrir snýst frumvarpið um það að taka upp almennt hertari reglur á flugvöllum og í flugþjónustunni. Margt af því sem þarna er á ferðinni má segja að sé svo sem eðlilegt og annað tæknilegs eðlis. Það sem ég geri fyrst og fremst athugasemdir við er í 9. gr. frumvarpsins sem fjallar um hergögn og vopnaða verði.

Þar segir í 1. mgr.:

„Hergögn má eigi flytja í loftförum án leyfis samgönguráðherra eða þess sem hann felur leyfisveitinguna samkvæmt reglum þar um.“

Ég vek athygli á því að þarna er verið að rýmka þá heimild sem þegar er fyrir í lögum með því að gefa samgönguráðherra heimild til að framselja þetta vald þar sem bætt er við gildandi lög að fela megi leyfisveitinguna öðrum. Þessu er ég fullkomlega andvígur.

Síðan segir áfram: „Samgönguráðherra setur fyrirmæli um hvað telst hergögn og veitir almenna undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar í samráði við dómsmálaráðherra.“

Breytingartillaga mín lýtur að því, frú forseti, að hergögn megi ekki flytja með íslenskum loftförum, bann þetta eigi ekki við um loftför Landhelgisgæslu Íslands eða íslenskra lögregluyfirvalda og jafnframt setji samgönguráðherra fyrirmæli um hvað teljist hergögn. Ísland er herlaust land og það er skoðun mín að Ísland eigi með engum hætti að taka þátt í hernaði meðal annarra þjóða, það séu hvorki forsendur fyrir því að Ísland sem vopnlaust land, friðarland og boðberi friðar taki þátt í hernaði né hergagnaflutningum. Þess vegna legg ég fram breytingartillögu sem kveður á um að hergögn megi ekki flytja í íslenskum loftförum.

Hin breytingartillagan mín lýtur að vopnuðum verði um borð í íslensku loftfari. Hér er verið að festa enn frekar í lögum og rýmka ákvæði um að vopnaðir verðir geti verið um borð í íslenskum loftförum í almenningsflugi enda séu til þess brýnar ástæður, segir hér. Ég er fullkomlega andvígur því að með þessum hætti sé heimilað að vopnaðir verðir verði í íslenskum almenningsflugvélum. Komi til slíks með einhverjum hætti er það hluti af alþjóðlegum samningum, fjölþjóðasamningum sem Íslendingar eru þá aðilar að en með engum hætti er hægt að fallast á að íslensk stjórnvöld, samgönguráðherra eða dómsmálaráðherra, geti samþykkt það sérstaklega fyrir hönd íslenskra flugyfirvalda.

Á fund nefndarinnar komu m.a. flugstjórar úr Félagi atvinnuflugmanna sem bentu á að ekkert væri hættulegra fyrir flug og flugvél en að fá vopnaðan mann inn í vél þó að hann teldist vera vörður. Þeir bentu líka á að nú er gert ráð fyrir því að flugstjórinn sé yfirmaður loftfarsins á flugi. Vopnaður vörður einhvers staðar aftur í vél er í rauninni orðinn yfirmaður í fluginu, ekki flugstjórinn. Við munum eftir dæmi í fréttum nýverið frá Bandaríkjunum þar sem hryllilegt óhapp varð fyrir rétti þar sem vopnaður lögregluvörður var að leiða sakborning inn til réttarhalda. Sakborningurinn var hlekkjaður en engu að síður tókst honum að ná byssunni af hinum vopnaða verði sínum og skjóta dómarann og einhverja fleiri þar inni. Ef sá sem var að leiða sakborninginn inn hefði verið vopnlaus hefði þetta ekki komið fyrir. Þær röksemdir að til þess að mega fljúga til hinna byssuóðu Bandaríkja verði þeir að vera viðbúnir því að þeir geri þessar kröfur eru hæpnar. Þeir eru stöðugt uppi með þessar kröfur. Því yrði þessi heimild að vera inni hjá íslenskum ráðherrum en við höldum einmitt örygginu uppi með því að leyfa ekki byssur um borð. Það voru hin einlægu orð þessara flugstjóra og ég tek undir. Þess vegna flyt ég breytingartillögu sem lýtur að efnismálsgreininni sem hljóðar svo: „Samgönguráðherra getur ákveðið að vopnaðir verðir séu um borð í íslensku loftfari í almenningsflugi enda séu til þess brýnar ástæður, beiðni hafi borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis þess efnis og dómsmála- og utanríkisráðherra mæli með því.“ — Ég legg til að þessi heimild verði felld brott og að vopnaburður í íslensku almenningsflugi verði því aðeins heimill að það sé liður í einhverju víðtæku fjölþjóðlegu samstarfi um að gert skuli. Ég legg áherslu á að flugmennirnir ráði. Það á ekki að stilla þeim upp við vegg eins og hér er gert ráð fyrir og ég hafna því alfarið að vopn verði borin inn í íslenskt almenningsflug.

Síðan er það síðasta sem ég legg til, frú forseti, að líka sé óheimilt að flytja mjög hættuleg eiturefni með íslenskum loftförum sem eru í farþegaflugi, eiturefni sem eru hættuleg fólki og geta borist úr farangursgeymslum og farmgeymslum upp í farþegarými. Við heyrðum dæmi nýverið af flugi frá Bandaríkjunum með skordýraeitur sem lak út í flutningsrýminu. Eiturgufur af því gátu borist upp í farþegarýmið og valdið þar óbætanlegu tjóni og jafnvel dauða fólksins. Ég tel að setja þurfi miklu ákveðnari og strangari reglur um eiturefni sem geta verið hættuleg fólki og borist úr flutningsrými upp í farþegarými og vil að bannað verði að flytja slík efni í almennu farþegaflugi.

Frú forseti. Ég hef þá mælt fyrir þessum breytingartillögum mínum og hinum alvarlegu athugasemdum sem ég geri við þetta frumvarp sem hljóðar upp á að rýmka heimildir til að heimila vopnaburð í íslensku farþegaflugi. Í vopnalögum er kveðið á um að vopnaburður á almannafæri sé bannaður. Þetta er að mínu viti almannafæri, lögsaga íslenskra stjórnvalda. Samkvæmt almennum lögum er þessi vopnaburður bannaður og mér finnst að við eigum að fylgja því.



[14:53]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp um loftferðir, að mörgu leyti ágætt mál. Ég skrifa undir nefndarálit samgöngunefndar með fyrirvara og eins og segir í nefndarálitinu lýtur fyrirvari minn aðallega að 9. gr. frumvarpsins, sömu grein og hv. þm. Jón Bjarnason var að ræða áðan. Fyrirvari minn snýr aðallega að lokum 9. gr. sem hljóða svo, með leyfi forseta:

„Samgönguráðherra getur ákveðið að vopnaðir verðir séu um borð í íslensku loftfari í almenningsflugi enda séu til þess brýnar ástæður, beiðni hafi borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis þess efnis og dómsmála- og utanríkisráðherra mæli með því.

Samgönguráðherra er heimilt að banna eða setja reglur um flutning annars varnings en hergagna til að halda uppi allsherjarreglu og öryggi.“

Ég geri ekki athugasemd við þessa síðustu málsgrein heldur þá næstsíðustu, um að í íslensku farþegaflugi verði heimilað að hafa vopnaða verði, að heimilt sé að setja inn í lög að svo geti verið og að áðurnefndir ráðherrar geti tekið ákvörðun um það.

Ég er almennt séð andvígur því að vopnaburður sé leyfður í almennu farþegaflugi. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að svo kann að fara að um þetta verði á komandi árum settar alþjóðareglur eða reglur sem nái m.a. til Evrópska efnahagssvæðisins varðandi alþjóðaflug sem við þyrftum að undirgangast. Þá tökumst við á við það með samræmdum reglum og samræmdri útfærslu. Hér tel ég að verið sé að opna á sérákvæði er varðar Ísland án þess að um þetta hafi verið samið almennt á alþjóðavettvangi. Eins og ég gat um áður er ég andvígur þessu ákvæði. Það er trú mín að það bæti ekki öryggi eða ástand um borð í flugvélum almennt að menn gangi þar með skotvopn, enda sakna ég mjög umræðunnar um það að menn hafi reynt einhver önnur úrræði sem e.t.v. mætti heimila um borð í flugvélum til að bregðast við hugsanlegum aðilum sem þar væru til vandræða eða árásar þótt ekki væri beinlínis um skotvopn að ræða.

Ég held að mikil umræða eigi eftir að fara fram meðal þjóða á komandi árum um það hvernig þessum öryggisatriðum verði fyrirkomið og hvort vopnaburður almennt verði leyfður eða einhver önnur öryggistæki eða öryggisaðgerðir, og að áætlanir verði settar upp til að bregðast e.t.v. við árásum um borð í flugvélum. Almennt tel ég að það væri mjög til bóta ef ekki yrði í þeim reglum heimiluð meðferð skotvopna um borð í flugvélum. Það er bara mín skoðun og þess vegna er ég algerlega andvígur þessu ákvæði í 9. gr. og mun ekki greiða henni atkvæði mitt.



[14:57]
Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég met alveg afstöðu þeirra tveggja hv. þingmanna sem hér hafa talað, bæði Jóns Bjarnasonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Sérstaklega kemur þar 9. gr. inn í málið.

Nú er það svo að í nefndinni varð umræða um það hvort ekki væri rétt að bíða eftir alþjóðasamþykkt sem væntanleg hlýtur að vera um vopnaða verði um borð í flugvélum. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Hitt er annað mál að í ljósi þess að líklega eru 80 eða 90 þotur og breiðþotur skráðar í íslenska flugflotann í mjög margvíslegum verkefnum úti um allan heim er þetta mál sem gæti skipt verulegu máli hvað varðar skráningu flugvéla á Íslandi svo og líka flugreksturinn almennt. Auðvitað er enginn sáttur við það ástand að vopnaðir verðir verði um borð í flugvélum en það er þegar orðið í nokkrum löndum. Með því ákvæði sem hér er sett inn um að ekki verði frá því gengið nema í sátt og samlyndi við aðila eins og að þrjú ráðuneyti komi þar að, flugfélög óski eftir því — auðvitað koma þá flugmenn að þessu líka til að það megi verða — held ég að hér sé mjög varlega stigið til jarðar í þessu annars óskemmtilega máli sem við komumst því miður ekki hjá að hafa einhverjar reglur um ef til þessa óyndisúrræðis þyrfti að grípa. Ég tel að þetta sé nauðsynlegt ákvæði og vona hins vegar að til þess þurfi aldrei að grípa.



[14:59]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili áhyggjum með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni eins og hann lýsti þeim. Ég vil bara í andsvari mínu vekja athygli á því að öll uppbygging og sókn íslenskra aðila inn á flugrekstrarsviðið vítt og breitt í veröldinni hefur getað þróast án þess að þessi heimild væri fyrir í lögum. Ég geri mér vel grein fyrir því að til þess kunni að koma. Ég hefði hins vegar talið miklu nær að við fylgdum þar alþjóðlegum kröfum en tækjum ekki upp þetta frumkvæði að því er varðar íslensk loftför ein og sér. Ég sé ekki, eins og dæmin sanna með geysilega uppbyggingu okkar varðandi eign á flugvélum og í flugvélarekstri almennt í veröldinni, að þetta ákvæði sem nú er verið að lögleiða hafi verið okkur til trafala hingað til.



[15:00]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili þeim áhyggjum sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og sömuleiðis hv. þm. Jón Bjarnason lýstu um það að heimilað verði að í íslenskum loftförum beri áhafnir byssu, þ.e. verði byssumenn eins og það hefur verið orðað. Ég deili líka þeirri frómu hugsun að skynsamlegra hefði e.t.v. verið að bíða eftir alþjóðalögum.

Hins vegar er málið miklu flóknara en svo, eða einfaldara gætum við e.t.v. sagt, því að í mínum huga lýtur þetta fyrst og fremst að því hvort Flugleiðir eigi að geta flogið áfram til Bandaríkjanna sem er ákveðinn grundvöllur að tilveru Flugleiða. Það liggur nefnilega í loftinu að Bandaríkjamenn muni einhliða ákveða að loftför sem koma inn í bandaríska lofthelgi verði að hafa slíka heimild, verði að hafa vopnbæra menn um borð. Þá verðum við að svara grundvallarspurningunni: Ætlum við að leggja stein í götu Flugleiða? Ef þeir geta ekki flogið til Bandaríkjanna í áætlunarferðir sínar er grundvöllur að tilveru félagsins hreinlega hruninn. Það er það sem þetta mál snýst um núna. Ef raunveruleikinn væri annar ættum við auðvitað að bíða eftir einhverjum alþjóðaregum en það liggur í loftinu að Bandaríkjamenn muni einhliða setja þessi skilyrði fyrir flugi inn í bandaríska lofthelgi.



[15:02]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili áhyggjum með hv. þingmanni varðandi afstöðu Bandaríkjanna til vopnaburðar almennt og þeirrar kröfu þeirra að e.t.v. verði hún reist. Hins vegar geri ég ekki mikið með það þó að menn segi að eitthvað liggi í loftinu. Það lá í loftinu í fleiri ár að Bandaríkjamenn ætluðu að beita íslenska ríkið og íslensk fyrirtæki útflutningsþvingunum ef við hæfum hér hvalveiðar. Það var talað um það margsinnis í þessum ræðustól að það lægi í loftinu, menn yrðu að hafa allt slíkt í huga.

Ég held að við getum ekki verið að byggja löggjöf á einhverju sem liggur í loftinu, jafnvel þó að það sé í Bandaríkjunum. Þess vegna held ég að við hefðum átt að bíða með þetta mál.



[15:03]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður veit hafa alþjóðareglur, og ekki síst í Bandaríkjunum, breyst mjög eftir hörmungarnar 11. september árið 2001 og það meira en liggur í loftinu að gefnar hafa verið út yfirlýsingar, mjög alvarlegar, frá bandarískum stjórnvöldum um að þau muni taka slíkar reglur upp. Ég vek jafnframt athygli á því að hér er einungis verið að opna fyrir heimildarákvæði sem þá er hægt að grípa til ef bandarísk stjórnvöld setja þessa reglu sem ég hygg að muni gerast áður en langt um líður. Þetta er einungis heimildarákvæði og ég hef ekki trú á því að íslensk flugfyrirtæki muni nýta þessa heimild nema þau verði neydd til þess. Við erum einungis að opna fyrir þessa heimild og mér finnst skipta þar höfuðmáli fyrir samgöngur okkar Íslendinga að hafa þann sveigjanleika að okkar öflugustu flugfélög geti unnið á alþjóðamarkaði sínum. Þar eru Bandaríkin lykillinn að velgengni Flugleiða.