131. löggjafarþing — 133. fundur
 11. maí 2005.
framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, 2. umræða.
stjfrv., 723. mál (fráveituframkvæmdir einkaaðila). — Þskj. 1081, nál. 1389 og 1390.

[20:41]
Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

Í nefndarálitinu segir m.a.:

Í frumvarpinu er lagt til að sveitarstjórnir fái styrk til fráveituframkvæmda óháð því hvort sveitarfélögin fjármagna framkvæmdirnar beint eða farin er leið einkaframkvæmdar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að skuldbindingar sveitarfélaganna vegna slíkrar framkvæmdar komi fram í ársreikningum viðkomandi sveitarfélags. Þá leggur meiri hlutinn til að sett verði hámark á fjárhæð styrks og eru breytingartillögur þess efnis tilgreindar í nefndarálitinu.

Undir þetta skrifa hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Kristinn H. Gunnarsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, með fyrirvara, Mörður Árnason, með fyrirvara, Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara og Guðjón Hjörleifsson.



[20:43]
Frsm. minni hluta umhvn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hef skilað minnihlutaáliti í þessu máli. Þannig er mál með vexti að ég er í grundvallaratriðum ósátt við þau meginmarkmið frumvarpsins að stjórnvöld fái með því heimild til að styðja sveitarfélög, sem komið hafa fráveitukerfi sínu í hendur einkaaðila, fjárstuðning undir yfirskyni jafnræðisreglu. Ég sé ekki rökin fyrir því að sveitarfélög sem velja þetta form þurfi á grundvelli jafnræðisreglu að geta verið eins konar leppar fyrir fjárveitingu til einkaaðilans sem fær í hendurnar framkvæmdaféð. Það er alkunna að sveitarfélög hafa í auknum mæli farið inn á þær brautir að reka tiltekna þætti grunnþjónustu sinnar í formi einkaframkvæmdar. Þekkt dæmi eru byggingar skólahúsnæðis og íþróttahúsnæðis sem byggð eru og rekin af einkaaðilum en leigð sveitarfélögunum með langtímasamningi. Mér hefur ekki fundist þetta til fyrirmyndar, sannarlega ekki og ég er satt að segja ánægð með breytingartillögu meiri hlutans í þessu máli þar sem gert er ráð fyrir því að þessar fjárfestingar séu þó tilgreindar í ársreikningi og í bókhaldi sveitarfélaganna komi þær vel fram þannig að það má fagna þeirri breytingartillögu.

Virðulegi forseti. Grundvallaratriði málsins er þess eðlis að ég sé mér ekki fært að styðja það. Að öðru leyti vísa ég til þess nefndarálits sem liggur fyrir á þskj. 1390.



[20:44]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sá á þessu máli mikla annmarka við 1. umr. þess og fyrst og fremst þá að ekki væri einfalt að veita ríkisframlag til framkvæmdar þegar hún væri orðin í einkaframkvæmd og hefði þá í raun þá ekkert lengur að gera með framkvæmd sveitarfélags að öðru leyti en því að sveitarfélagið yrði leigjandi að framkvæmdinni. Það komu ekki almennileg svör við því hvernig menn sæju þetta fyrir sér.

Nú er búið að skoða þetta mál í nefndinni. Ég held að við hefðum þurft betri tíma. Það er í raun verið að ákveða að sveitarstjórn fái styrk til fráveituframkvæmda óháð því hvort sveitarfélögin fjármagna framkvæmdirnar beint eða fari í einkaframkvæmd. Niðurstaða nefndarinnar var sú að það væri alltaf sveitarfélagið sem fengi peninginn og sveitarfélagið þyrfti í raun að vera með skuldbindingar sínar vegna rekstrarleigunnar inni í ársreikningum. En við höfum ekki farið gegnum það hvernig hægt sé að gera þetta.

Ef ég reyni að yfirfæra þetta mál á venjulegt heimili þá vitum við að ríkið styður þá sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið og ætla að eiga það og stuðningurinn er í formi vaxtabóta. Ríkið styður líka þann sem er að leigja húsnæði en þá er ekki ríkið tilbúið að láta viðkomandi hafa vaxtabætur. Hann fær húsaleigubætur. Það er allt annað viðmið í að styðja við að leigja eitthvað eða styðja við að kaupa eitthvað. Þess vegna getum við varla verið með stofnkostnaðarstuðning við sveitarfélag sem ætlar ekkert að vera með fé að láni eða fjárfesta í stofnkostnaði. Þetta fannst mér vera vandi okkar sem fengum þetta mál til umfjöllunar. Mér finnst ekki að við höfum almennilega skýrt hvernig sveitarfélagið tekur við styrknum og setur hann inn í framkvæmdina. Því er ekki ætlað að gera það sem eignarhlut. Það er milligönguaðili. Það er einhvers konar ábyrgðaraðili og það á að setja skuldbindinguna inn í ársreikningana og ég er sannfærð um að þetta verður vandasamt.

Hins vegar vil ég ekki stoppa þetta mál eða leggja stein í götu þess vegna þess að ég er mjög meðvituð um að það er mjög mikilvægt að fara í framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Ég geri mér líka grein fyrir að það er flóknara þegar sveitarfélagið er inni í landi og getur ekki verið með beinar útrásir. Þess vegna hef ég valið að vera með fyrirvara og ég mun sitja hjá við málið með þessum ábendingum mínum.