131. löggjafarþing — 133. fundur
 11. maí 2005.
almenn hegningarlög, 2. umræða.
frv. ÖJ o.fl., 67. mál (bann við limlestingu á kynfærum kvenna). — Þskj. 67, nál. 1273, brtt. 1274.

[21:17]
Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum, með síðari breytingum, mál sem gengið hefur undir heitinu bann við limlestingu á kynfærum kvenna.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga aðila, m.a. fulltrúa refsiréttarnefndar og Ingibjörgu Rafnar, umboðsmann barna, auk þess sem nefndinni bárust umsagnir frá fjölmörgum aðilum sem gögnuðust í störfum nefndarinnar við að vinna málið áfram.

Ég ætla að leyfa mér í öllum meginatriðum að vísa til þess nefndarálits sem liggur frammi á þskj. 1273. Þó vil ég geta þess í tilefni af því að nefndin leggur til þó nokkrar breytingar á þingmálinu að efnislega varða þær fyrst og fremst það sem ég leyfi mér að kalla lagatæknileg atriði, breytingar sem eru til þess fallnar að tryggja innbyrðis samræmi í löggjöfinni, að það sé samsvörun í þeirri hugtakanotkun sem þegar er til staðar í hegningarlögunum. Þess vegna leyfi ég mér að segja, þrátt fyrir þær breytingartillögur sem nefndin leggur til, að efnislega sé ekki verið að hreyfa við því máli sem fyrir þinginu lá.

Eitt af því sem sérstaklega var tekið til umræðu í störfum nefndarinnar var það hvort tryggja þyrfti að hugtakið „limlesting á kynfærum kvenna“ kæmist inn í lagatextann og þá sérstaklega í tilefni af því að sú hugtakanotkun hefur fengið nokkuð fastan sess í alþjóðlegri umræðu um það mál sem frumvarpið fjallar um, þann hrottalega verknað sem framinn er því miður enn í ákveðnum löndum, að umskera ungar konur, og frumvarpið fjallar fyrst og fremst um. Þar sem ákveðin hefð hefur skapast fyrir tiltekinni hugtakanotkun um þennan vanda í alþjóðlegri umræðu varð allnokkur umræða um það í nefndinni hvort sú hugtakanotkun þyrfti að rata alla leið inn í lagatextann. Það er sem sagt meginniðurstaða nefndarinnar að það sé óþarfi, enda kom skýrt fram í nefndaráliti nefndarinnar að ekki sé verið að hreyfa við þessu atriði málsins.

Ég vil líka taka það fram að við töldum mikilvægt að það væri alveg skýrt með þessu þingmáli að girt væri fyrir það að hægt væri að koma með ungar konur til Íslands, fremja verknaðinn hér á einhverju refsilausu svæði og fara síðan aftur af landi brott eftir að verknaðurinn hefði verið framinn. Fyrir allt þetta er girt í málinu. Þetta er okkar innlegg í þá alþjóðlegu baráttu sem á sér stað gegn glæpum af þessu tagi. Eins og menn þekkja er þetta mál stutt af formönnum allra þingflokka á þinginu. Nefndin var einhuga um að mæla með samþykkt málsins með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir í nefndarálitinu.

Ég legg því til að málið verði samþykkt með þeim breytingum.



[21:21]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs örstutt til að lýsa ánægju minni með það að Íslendingar skuli nú bætast í hóp þeirra landa sem hafa lögfest ákvæði sem banna limlestingu á kynfærum kvenna. Málið á sér nokkurn aðdraganda sem er óþarfi að rekja hér en það hefur verið sjónarmið mitt að það sé skylda Íslendinga í samfélagi þjóðanna að leggja sitt af mörkum til að þessi forna hefð verði aflögð og að komið verði í veg fyrir limlestingu fjölda stúlkubarna. Nú hillir undir að þetta frumvarp verði að lögum. Ég lít svo á að það sé fyrst og fremst fyrirbyggjandi aðgerð og skýr yfirlýsing um stuðning Íslendinga við baráttuna gegn þessum hroðalega verknaði, þessum hroðalegu misþyrmingum og mannréttindabrotum á konum og börnum í heiminum.

Ég lýsi mikilli ánægju með vinnu alþjóðanefndarinnar undir forustu hv. þm. Bjarna Benediktssonar við afgreiðslu þessa máls í nefndinni. Það eina sem ég átti erfitt með að sætta mig við í breytingartillögunum var það orðalag sem lagt var til í umsögn refsiréttarnefndar að í 3. gr. yrði sett inn orðið líkamsárás, þ.e. „hver sem með líkamsárás veldur tjóni“ o.s.frv. en hv. þm. Bjarni Benediktsson skýrði vel í ræðu sinni hvers vegna það var gert. Það er gert til samræmis við annan lagatexta og eins og ég segi felli ég mig við það enda gefur nefndin yfirlýsingu í nefndarálitinu um það að út frá samheiti frumvarpsins og greinargerðarinnar með því sé átt við verknað sem fellur undir það hugtak sem skammstafað hefur verið FGM og stendur fyrir upp á engilsaxnesku „female genital mutilation“ eða limlestingu á kynfærum kvenna. Hér er sem sagt fyrst og fremst um lagatæknilega breytingu að ræða og ég vildi segja að á þeim forsendum felli ég mig við hana.

Að lokum vil ég ítreka þakkir mínar til nefndarinnar og til þingflokksformanna allra þingflokka á Alþingi fyrir að hafa lagt málinu það lið sem þau hafa gert í vetur. Ég tel að Íslendingar geti borið höfuðið hátt með því að vera nú komin í hóp þeirra landa, t.d. með Danmörku, Noregi og Svíþjóð, sem lögfesta ákvæði af þessu tagi.