132. löggjafarþing — 5. fundur
 10. október 2005.
vaxtahækkun Seðlabankans.

[15:31]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Nú er því spáð að stýrivextir Seðlabankans geti farið í allt að 12% á næsta ári, jafnvel fyrr, m.a. vegna þess að verðbólguhorfur hafa versnað. Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa óhentuga hliðarverkun þar sem þær hvetja m.a. til frekari útgáfu á erlendum skuldabréfum í krónum talið.

Erlend skuldabréf í krónum eru nú að nálgast — ég hefði skrifað 70 milljarða í síðustu viku en sú upphæð hefur hækkað í nálægt 83 milljarða núna í vikubyrjun. Ef það gengur eftir sem hér hefur verið lýst, ásamt gegndarlausum innflutningi og áframhaldandi viðskiptahalla, þá getum við átt von á að gengisvísitalan fari í 100 stig, jafnvel neðar, með hrikalegum afleiðingum fyrir útflutningsfyrirtæki landsins. Það hefur komið fram, t.d. hjá fulltrúum útvegsmanna, að sjávarútvegsfyrirtækin muni mörg hver ekki þola þetta lengur og við taki frekari lokanir, uppsagnir og jafnvel gjaldþrot með tilheyrandi erfiðleikum, miklu atvinnuleysi og ógn við stöðugleika hjá því fólki sem missa mun atvinnuna. Þetta kemur sér auðvitað verr fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni, þar sem sjávarútvegur er höfuðatvinnuvegur, en hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem innflutningsfyrirtækin eru flest og græða sem aldrei fyrr.

Frú forseti. Seðlabankinn virðist einn eiga að standa verðbólguvaktina. Hann telur sig hafa aðeins eitt úrræði, þ.e. að hækka stýrivexti með tilheyrandi styrkingu krónunnar. Því langar mig, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. forsætisráðherra, ráðherra efnahagsmála, og fá álit hans á því hvort ekki sé ástæða til að huga að og skoða alvarlega að nota reglur um eiginfjárstöðu bankanna og annarra fjárfestingarsjóða meira sem hagstjórnartæki með því að hækka þau viðmið sem gilda og draga þar með úr þörf banka og sjóða til að lána fé.



[15:33]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég held að við verðum að hafa í huga að við búum við frjálsa fjármagnsflutninga. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þau skuldabréfakaup sem hafa átt sér stað undanfarið hafa styrkt gengið. Að mínu mati dregur það úr þörf Seðlabankans til að hækka stýrivexti á næstunni.

Ég hef áður lýst skoðunum mínum á að breyta eiginfjárhlutfalli bankanna við þessar aðstæður. Ég tel að það sé ekki mikilvægt. Ég tel að staða bankanna sé almennt góð og eiginfjárstaða þeirra mjög sterk. Hins vegar er ljóst að útlán bankanna hafa verið mikil að undanförnu vegna þess að það ríkir mikil bjartsýni í þjóðfélaginu. Það eru hins vegar merki um hjöðnun á húsnæðismarkaði. Eftirspurn eftir lánum hefur hjaðnað og eftir þeim upplýsingum sem ég hef hafa jafnvel stærstu eignir lækkað í verði upp á síðkastið. Ég tel því ekki jafnmikla ástæðu til þeirrar gífurlegu svartsýni sem virðist ríkja hjá stjórnarandstöðunni í þessum málum. Það ríkir mikil bjartsýni og er mikill hugur í landsmönnum. Það er af hinu góða. Við göngum í gegnum sveiflu í efnahagslífinu og það ætti öllum að vera ljóst. Ég tel að íslenskt efnahagskerfi hafi alla burði til að þola þá sveiflu og finnst að stjórnarandstaðan á Alþingi ætti að vera heldur bjartsýnni í samræmi við aðra landsmenn.



[15:35]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið þótt ég sé ekki sammála honum. Ég vil geta þess að ekki minni maður og fjármálaspekúlant en stjórnarformaður KB-banka lýsti því fyrir tæpu ári að það að hækka eiginfjárstöðu bankanna, breyta þeim reglum og nýta þær heimildir sem Fjármálaeftirlitið hefur í þessu sambandi, væri liður í að draga úr hinni óhóflegu þenslu og hinni miklu þörf bankanna fyrir að lána fé, að koma peningunum út.

Inn í þetta blandast líka, virðulegi forseti, önnur staða á peningamarkaði. Það var t.d. afar athyglisvert að heyra lýsingu á því hjá forráðamönnum Íbúðalánasjóðs að þegar bindiskylda bankans var minnkuð fyrir einu og hálfu ári síðan fylltust allar peningastofnanir af peningum sem þurfti að koma út á markaðinn. Það skyldi þó ekki vera að einhvers staðar væri brotalöm í þessu kerfi, t.d. með innborgunum til Íbúðalánasjóðs sem hafi haft áhrif á gengisvísitöluna og valdið verðbólguáhrifum í landinu.