132. löggjafarþing — 10. fundur
 18. október 2005.
framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum, 1. umræða.
frv. JBjarn, 21. mál (beingreiðslur til kúabænda). — Þskj. 21.

[17:33]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Frumvarpið lýtur fyrst og fremst að því að markaður sé rammi í lögum um stærð framleiðslueininga, fyrst og fremst til að tryggja framleiðsluöryggið en einnig til að tryggja gæði framleiðslunnar og að þau markmið fari saman við stefnu stjórnvalda í landbúnaðarmálum og í takt við almannahag. Tillögugreinin hljóðar svo:

„Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 53. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sami aðili getur að hámarki verið handhafi réttar til beingreiðslna sem svara til 1% af heildargreiðslumarki. Einkahlutafélag getur því aðeins verið handhafi réttar til beingreiðslna samkvæmt greiðslumarki að ábúandi á viðkomandi lögbýli eigi að minnsta kosti 10% hlutafjár og fari með að minnsta kosti 50% atkvæða í félaginu.“

Þetta frumvarp var lagt fram á síðasta þingi en komst þá ekki á dagskrá. Það er því endurflutt.

Á árunum 1996–2004 fækkaði kúabúum á Íslandi úr 1.291 í 854 eða um 34%. Nýjustu tölur fyrir árið 2005 sýna að fjöldi kúabúa á landinu er kominn niður fyrir 800. Meðalframleiðsla á bú jókst á sama tíma um 67%. Þessari þróun hefur fylgt mikil tilfærsla á greiðslumarki í mjólkurframleiðslu og verð á greiðslumarki hefur að sama skapi hækkað gífurlega hin síðustu ár. Mesta hreyfingin á greiðslumarkinu er hjá stærri búunum, eins og sést á því að í árslok 2003 voru þau 140 kúabú sem höfðu hvorki keypt né selt greiðslumark frá árinu 1992 að meðaltali með rúmlega 65.000 lítra, sem er rétt rúmur helmingur af framleiðslu meðalbúsins árið 2003. Þá var enn um fjórðungur kúabænda í landinu með greiðslumark innan við 100.000 lítra. Af þessu sést greinilega að það eru stærri búin sem stækka mest.

Margar ástæður eru fyrir samþjöppun á greiðslumarki í mjólk undanfarin 10–12 ár. Þar má nefna kröfur um hagræðingu, ný viðhorf til aðbúnaðar búfjár, auknar gæðakröfur til mjólkurframleiðenda, fólksfækkun í sveitum, fækkun mjólkursamlaga, vélvæðingu í búskap og, síðast en ekki síst, hið geysiháa verð á greiðslumarki og hækkandi verð á bújörðum á frjálsum markaði.

Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að réttur til beingreiðslna, þ.e. greiðslna sem ríkið greiðir til framleiðenda vegna mjólkurframleiðslu er takmörkuð auðlind, þ.e. hún er bundin í samningum við ákveðið fjármagn miðað við ákveðinn fjölda lítra. Mikil eftirspurn og hátt verð hafa að undanförnu breytt miklu um möguleika þeirra sem vilja starfa við kúabúskap til að hasla sér völl í greininni. Ekki er einungis að nýliðun sé nær útilokuð, því svo mikið fjármagn þarf til að bæta verulega við greiðslumark hvers starfandi bús að sífellt færri eiga þess kost nema með mikilli skuldsetningu. Enda eru mörg kúabú nú á landinu orðin afar skuldsett. Þróunin minnir óneitanlega sífellt meira á framvindu mála í sjávarútvegi eftir að verslun með aflamark var gefin frjáls. Ekki þarf að tíunda hér þær harðvítugu deilur sem urðu og standa enn um eignarhald á veiðiheimildum í sjávarútvegi. Það mál er reyndar óleyst enn og við vitum að margar byggðir blæða fyrir þá stefnu sem þar ríkir.

Ljóst er að viðlíka ástand í landbúnaði mundi gerbreyta viðhorfum landsmanna til stuðnings við innlenda framleiðslu. Sú bærilega sátt sem hefur til þessa ríkt um íslenskan land búnað vegna atvinnu-, byggða- og öryggissjónarmiða hvílir fyrst og síðast á þeim grunni að framleiðslan sé á höndum fjölskyldubúa en ekki verksmiðjubúa, sem þekkt eru frá öðrum löndum. Stefnan hér hefur verið sú að búvöruframleiðslan haldist í fjölskyldurekstri í öllum meginatriðum.

Jafnframt liggur í augum uppi að þróun mjólkurframleiðslunnar í átt til færri og stærri búa fylgir vaxandi áhætta eftir því sem sú samþjöppun gengur lengra. Áföll af einhverju tagi hjá örfáum stórframleiðendum geta sett framboð á innlendum mjólkurvörum í uppnám þegar einstök bú standa undir mjög stórum hluta mjólkurframleiðslunnar í landinu.

Hér er því lagt til að sami handhafi geti að hámarki farið með 1% af heildargreiðslumarki. Velta má fyrir sér hversu hátt slíkt hlutfall á að vera. Markmið frumvarpsins er að takmarka samþjöppun á rétti til beingreiðslna og koma í veg fyrir að hátt verð á greiðslumarki geri minni framleiðendum ókleift að stækka við sig. Enn fremur að stuðla að því að þeir fjármunir sem ætlaðir eru til að treysta undirstöður búvöruframleiðslunnar, byggð og atvinnulíf í dreifbýli skili sér til starfandi bænda en séu ekki teknir til annarra nota af kaupsýslumönnum.

Þessi mál hafa mjög verið til umræðu meðal bænda og má í því sambandi benda á erindi Búnaðarsambands Skagfirðinga og Svínaræktarfélags Íslands til búnaðarþings árið 2004. Búnaðarþing ályktaði þá sérstaklega um ákveðna þætti þessa máls. Landssamband sauðfjárbænda ályktaði jafnframt um málið á aðalfundi sínum í vor.

Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna aðeins í þær ályktanir sem snerta þetta:

Í erindi til búnaðarþings í janúar 2004 ályktar Búnaðarsamband Skagfirðinga:

„Bændafundur haldinn í Svaðastöðum, 21. janúar 2004, beinir eftirfarandi til búnaðarþings og búgreinafélaga:

Nú liggur fyrir að gera og/eða endurskoða samninga um rekstrarumhverfi fyrir nautgriparækt, sauðfjárrækt og loðdýrarækt. Í þeirri samningagerð telur fundurinn að meginmarkmið eigi að vera:

1. Að það fjármagn sem ríkið leggur fram verði notað til að viðhalda og efla byggð í sveitum landsins.

2. Stuðla að því að fjármagnið renni til framleiðslunnar á hverjum tíma og verði raunverulegar tekjur fyrir starfandi bændur.“

Því er þessi ályktun sett fram að þær beingreiðslur sem renna, t.d. til mjólkurframleiðslunnar, eru bundnar við framleidda lítra. En þar er ekki nein takmörkun á stærð búa til þess að njóta réttarins til beingreiðslna. Við samþjöppun á framleiðsluréttinum verða framleiðendur bara færri og byggðin getur af þeim orsökum skroppið saman. Um þetta er Búnaðarsamband Skagfirðinga að álykta, að það geti ekki verið tilgangur ríkisins með beingreiðslum að setja bú með beinum eða óbeinum hætti í eyði.

Svínaræktarfélag Íslands ályktaði um þessi mál í mars 2004, en í svínaræktinni er framleiðslan komin á örfárra manna hendur. Mörgum kann að finnast það skondið en ég held að KB-banki sé langstærsti svínabóndi landsins. Það er í sjálfu sér umhugsunarvert þegar fjármálastofnanir stunda landbúnaðarframleiðslu árum saman og eru jafnvel í samkeppnisrekstri eins og í svínarækt. En þannig er þetta. Það hefur orðið gríðarlega hröð fækkun í framleiðslu svínakjöts og því ærin ástæða til að hafa af því áhyggjur út frá öryggissjónarmiði, ef við ætlumst til þess að innlend framleiðsla fullnægi innlendri eftirspurn eftir þeirri vöru.

Ályktun Svínaræktarfélags Íslands var svohljóðandi:

„Framleiðsluöryggi, samkeppni og sjálfbær þróun í íslenskum landbúnaði.

Búnaðarþing 2004 samþykkir að beina þeim tilmælum til stjórnvalda að skipuð verði nefnd til að kanna umgjörð og starfsskilyrði kjötframleiðslunnar í landinu. Markmiðið verði að leita leiða til að tryggja, eftir því sem unnt er, að íslensk kjötframleiðsla verði rekin á forsendum sjálfbærrar þróunar og að framleiðendur og neytendur búi við ákveðið framleiðsluöryggi og lágmarkssamkeppnisskilyrði. Reynt verði að finna leiðir til að hindra fákeppni í kjötframleiðslu hér á landi.

Sérstaklega verði hugað að eftirfarandi:

1. Að sett verði þak á hámarkshlutdeild hverrar framleiðslueiningar innan sömu framleiðslugreinar, í því skyni að ná fram markmiðum um framleiðsluöryggi og til að hindra fákeppni.“

Það er athyglisvert, herra forseti, að þarna er verið að benda á að framleiðslan geti verið komin á svo fáar hendur að öryggi hennar gagnvart neytendum geti verið í hættu. Það þarf ekki nema að upp komi veiki á einu búi sem er með stóran hluta af framleiðslunni og vara þaðan gæti ekki farið á markað. Þarna er því verið að benda á að öryggi neytenda þeirrar vöru geti verið ógnað ef hún er komin á of fárra manna hendur.

Í öðru lagi segir í ályktun Svínaræktarfélags Íslands:

„2. Að komið verði á fót sérstöku innra eftirliti með því að vara sé ekki seld langtímum saman undir sannanlegu kostnaðarverði. Jafnframt verði hugað að breytingum á samkeppnislögum í sama tilgangi.“

Við höfum rætt þetta atriði áður á Alþingi, þ.e. hvaða ógn getur stafað af því þegar framleiðsla ákveðinnar vöru er komin í hendur mjög fárra aðila. Þá er í rauninni ekki nein samkeppni lengur og ekki síst eins og við höfum mátt búa við þegar bankar og fjármálastofnanir hafa yfirtekið stór bú eins og í svínakjötsframleiðslunni og þess eru reyndar líka dæmi í kjúklinga- og eggjaframleiðslu að bankar og fjármálastofnanir hafi yfirtekið búin og rekið þau áfram í samkeppni við bændur sem reka bú sín á rekstrarlegum forsendum. Þessar fjármálastofnanir eða aðrir slíkir stóraðilar geta leyft sér að bjóða fram vöruna á undirverði í takmarkaðan tíma til þess að styrkja samkeppnisstöðu sína. Slíkt er afar óréttmætt og ætti náttúrlega ekki að vera heimilt enda eru víða erlendis skorður við því að það megi til lengri tíma undirbjóða vörur sem eru á samkeppnismarkaði eða selja þær undir framleiðslukostnaðarverði, eins og við máttum upplifa á kjötmarkaðnum fyrir nokkrum missirum. Þetta getur vofað yfir okkur hvenær sem er þegar framleiðslan er komin á örfárra manna hendur, í hendur örfárra fyrirtækja sem geta leyft sér að dumpa verðinu niður tímabundið til þess að ná markaði. Við þessu er varað í samþykkt Svínaræktarfélags Íslands.

Þar er einnig lögð áhersla á að öll kjötframleiðsla í landinu lúti sömu grundvallarskilyrðum varðandi starfsleyfi og að skilyrði verði sett í starfsleyfi bús um að það hafi yfir að ráða nægilega stóru landi til að dreifa á búfjáráburði í samræmi við íslenskar aðstæður.

Þarna er verið að vitna til gríðarlegs máls varðandi svínabúin og að einhverju leyti líka varðandi kjúklingabúin. En fyrst og fremst varðar þetta svínabúin þannig að verði þau mjög stór eiga að gilda reglur um hvernig farið skuli með mykjuna frá þeim. Erlendis er krafist að hvert bú hafi yfir að ráða það miklu landi til dreifingar eða hafi samninga um dreifingu á þessum búfjáráburði að engin hætta eða mengun geti stafað af. Slíkar reglur eru ekki til hér og engin eftirfylgni eftir að svo sé. Þetta er eitt af því sem þeir benda á að þurfi að huga að þegar búin eru orðin stór og þeir leggja til að tekin séu upp starfsleyfi þar sem m.a. er kveðið á um þessa þætti. Þetta hefur áður verið rætt í þingsölum varðandi svínabúin, um dreifingu eða meðferð á úrgangi, mykju og öðru frá þeim og mér vitanlega hafa ekki komið neinar viðhlítandi reglur um það né yfirlýsing um að fullnægjandi ástand sé á þeim búum sem núna eru rekin. Þetta bendir Svínaræktarfélag Íslands á varðandi hættuna sem verður við samþjöppun og fákeppni í framleiðslu landbúnaðarvara.

Í ályktun frá búnaðarþingi frá í mars árið 2004 segir eftirfarandi:

„Búnaðarþing árið 2004 beinir því til landbúnaðarráðherra að skipuð verði nefnd til að kanna umgjörð og starfsskilyrði landbúnaðarins. Markmiðið verði að tryggja, eftir því sem unnt er, að íslenskir framleiðendur og neytendur búi við ákveðið framleiðsluöryggi. Sérstaklega verði hugað að eftirfarandi:

„1. Að sett verði hámarkshlutdeild einstaka framleiðslueininga innan hverrar framleiðslugreinar, byggt á öryggis- og umhverfissjónarmiðum fyrir neytendur og framleiðendur.“

Það er viss stefnubreyting sem þarna er ýjað að í ályktun búnaðarþings, að fákeppni, stærð bús, hlutfallsleg stærð bús miðað við heildarframleiðsluna og þörf neytenda geti ógnað öryggi neytenda, geti líka ógnað gæðum vörunnar, geti líka ógnað umhverfisþáttum framleiðslunnar og að þessu þurfi landbúnaðarframleiðslan að huga en hefur gert mjög takmarkað til þessa. Það verður að segjast, því miður, herra forseti.

„2. Að opinbert eftirlit með búvöruframleiðslu verði samræmt um land allt. Einnig að skilyrði starfsleyfa verði samræmd í þeim greinum þar sem þeirra er krafist.“

Varðandi starfsleyfin til að reka bú þá er þarna aftur áréttað hversu veik umgjörð búrekstursins er að setja þurfi ákvæði um starfsleyfi þar sem kveðið er á um öryggi og gæði framleiðslunnar og síðan hina ýmsu umhverfisþætti sem verða að vera í lagi til að landbúnaðarframleiðslan falli að þeim kröfum sem við gerum. Við skulum líka vera minnug þess að Ísland og íslensk stjórnvöld hafa undirgengist skuldbindingar um að landbúnaðarframleiðslan sem og önnur framleiðsla lúti og sé gerð samkvæmt lögmálum um sjálfbæra þróun. Þetta höfum við undirritað en í þeim ályktunum sem ég er að lesa upp er bent mjög rækilega á að það skortir verulega á að sú umgjörð sem við höfum sett landbúnaðarframleiðslunni uppfylli þær reglur og kröfur sem sjálfbær þróun gerir til öryggissjónarmiða og umhverfisþátta framleiðslunnar. Enda segir líka áfram í ályktun búnaðarþings frá 2004:

„3. Að starfsleyfisskyld bú geti sýnt fram á að þau hafi nægilegt land til dreifingar á búfjáráburði, eða að þau geti ráðstafað honum á annan viðunandi hátt, í samræmi við íslenskar aðstæður og umhverfissjónarmið.“

Þarna áréttar einnig búnaðarþing og tekur undir ályktanir Svínaræktarfélags Íslands um þessi umhverfisskilyrði sem hvert bú verði að hafa til þess að hafa starfsleyfi.

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, 7.–8. apríl árið 2005, ályktar einnig um þetta mál en þar segir, með leyfi forseta:

„Skilyrði fyrir greiðslum úr sauðfjársamningi er að greiðsluþegi hafi fasta búsetu á svæðinu (innan 50 km) þar sem framleiðslan fer fram. Sé sauðfjárbú rekið af lögaðila skal einn af eigendum, sem á að lágmarki 25% af félaginu, hafa búsetu á svæðinu þar sem framleiðslan fer fram.“

Þarna eru Landssamtök sauðfjárbænda að hnykkja á nákvæmlega sömu atriðum og aðrir eins og t.d. í Svínaræktarfélag Íslands sem ég vitnaði í. Landssamtökin kalla eftir lögum og reglum til að starfa eftir varðandi þau atriði sem ég hef hér minnst á, framleiðsluöryggisatriði, búsetuatriði, umhverfisatriði og öryggi gagnvart neytendum.

Búnaðarþing ályktar einnig ítrekað um málið 6.–10. mars árið 2005. Í ályktun búnaðarþings stendur:

„Búnaðarþing 2005 beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að meta hvort setja eigi reglur, og þá hvers konar, um hámarkshlutdeild framleiðslueininga í beingreiðslum í landbúnaði. Hópurinn fái enn fremur það hlutverk að meta hvort þörf sé á aðgerðum sem beinast gegn samþjöppun á eignarhaldi bújarða. Stjórn Bændasamtaka Íslands leiti eftir því við Landssamband kúabænda, Landssamtök sauðfjárbænda og Samband garðyrkjubænda að þau tilnefni einn mann hvert í starfshópinn og að tveir komi frá stjórn Bændasamtaka Íslands.“

Búnaðarþing sem haldið var á síðastliðnum vetri ákvað að setja niður formlegan starfshóp í málið til að fara yfir þessi atriði, þessa umgjörð, hvort setja eigi reglur um hlutfallslegar hámarksstærðir á búum, hvort það sé verjandi og rétt að beingreiðslur ríkisins fari til framleiðslueininga í landbúnaði, mjólkur- og sauðfjárframleiðslu óháð bústærð, eða hvort setja eigi þar einhverjar skorður við. Ég er þeirrar skoðunar og hef heyrt það hjá fleirum að setja ætti ákveðnar skorður, beingreiðslur í landbúnaði ættu að miðast upp að einhverri ákveðinni bústærð en trappast síðan niður og hverfa þegar bústærð fer yfir ákveðið mark þannig að ríkið sé ekki að styðja við slíkan stórbúrekstur, það verði að vera innri hagkvæmni sem drífur það áfram. En að sjálfsögðu verður að setja öll önnur umhverfisatriði og öryggisatriði varðandi framleiðsluna í forgrunn.

Herra forseti. Það er því alveg augljóst að flestöll samtök bænda vilja að tekið verði á þessum málum og ég hef því í því frumvarpi sem ég legg hér fram lagt til að það verði gert. Ég legg til varðandi t.d. mjólkurframleiðsluna að mörkin séu að einn framleiðandi megi bara eiga 1% af heildargreiðslumarki í mjólkurframleiðslunni. Það þýðir að rúmlega ein milljón lítra á bú sé sett sem hámark. Það er mjög brýnt að setja slík mörk hvort sem það er sú stærð eða önnur sem mönnum finnst ásættanleg.

Við heyrum nú talað um að einstakir aðilar séu að kaupa upp framleiðslurétt bæði í mjólkurframleiðslu og sauðfjárframleiðslu og geti m.a. fært þá framleiðslu á milli búa. Ef sú aðgerð gengur of langt getur hún stefnt framleiðsluörygginu í hættu, hún getur stefnt þeim gæðakröfum sem gerðar eru í mjólkurframleiðslunni í hættu og hún getur einnig stefnt framleiðsluöryggi og gæðaöryggi á vörunni gagnvart neytendum í hættu. Ég tel mjög mikilvægt að tekið sé á þessum þremur atriðum.

Ýmis önnur atriði sem tengjast þessu væri vert að ræða. Það væri vert að ræða hversu rétt sú þróun sé að fyrirtæki eða einstaklingar kaupi upp jarðir og safni framleiðslurétti, t.d. ef sami aðili er kominn með verulega stóran hluta af framleiðslurétti í mjólk. Hann er þá ekki aðeins farinn að geta haft áhrif á framleiðsluöryggið heldur er hann þá einnig orðinn stærri eigandi í viðkomandi afurðasölufyrirtæki. Eins og við vitum eru afurðastöðvar bænda eins og mjólkurstöðvarnar efnuð og sterk fyrirtæki og hafa mjög sterka eiginfjárstöðu. Þannig geta einstaklingar sem komast yfir stóran hlut í mjólkurframleiðslunni aukið rétt sinn í því fyrirtæki og síðan farið að gera hærri arðsemiskröfur og óska eftir útgreiðslu á arði.

Ég ætla þó ekki að gera þetta að aðalumtalsefni hér heldur, eins og ég hef gert, það sem lýtur að öryggi gagnvart framleiðendum og neytendum og því að varan sé framleidd hér á landi í sátt við umhverfið samkvæmt lögmálum um sjálfbæra þróun sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.

Frú forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur einmitt flutt tillögur í þinginu varðandi landbúnaðinn sem lúta að þessum þáttum málsins. Ég nefni tillögu sem við fluttum um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar og stuðning við byggð í sveitum þar sem farið er inn á það að ríkið og samfélagið standi að öðrum stuðningsaðgerðum við atvinnulíf og búsetu í sveitum en magntengdum greiðslum. Í því frumvarpi sem ég legg fram er lögð áhersla á að marka þurfi þessum framleiðslugreinum í landbúnaði ákveðinn sess, ákveðinn ramma þar sem hagsmunir neytenda og þjóðarinnar eru hafðir í fyrirrúmi.

Frú forseti. Að lokinni umræðu óska ég eftir að frumvarpi mínu verði vísað til hv. landbúnaðarnefndar.



[18:01]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta frumvarp til laga um að setja skorður á beingreiðslur og stærð búa sé algjörlega ótímabært. Ég vil leiðrétta hv. þm. Jón Bjarnason þar sem hann segir að verð á mjólkurkvóta hafi farið mjög hækkandi. Það gerðist í nokkur ár en nú er svo komið að lítrinn í mjólkurkvóta hefur farið hraðlækkandi vegna þess að mikil eftirspurn er orðin eftir mjólk og það er miklu meiri sala á mjólk og mjólkurafurðum en var fyrir nokkrum árum. Ég tel að framboð og eftirspurn eigi að fá að ráða þarna og sá háttur sem hefur verið hafður á varðandi mjólkurframleiðsluna sé afskaplega mikilvægur. Það er alls ekki komið að þeim tímapunkti að það þurfi að fara að setja skorður við stærð búa. Ég held að það sé ekki eitt einasta bú í landinu sem er með eina milljón mjólkurlítra í framleiðslu. Ég held að hlutirnir verði bara að fá að þróast af sjálfu sér og ekki verði farið að setja lög um stærð búa fyrr en það verður í augsýn að þess þurfi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann ætli að setja líka stærðarskorður við fjárbú á landinu, fyrst hann vitnaði svona mikið í sauðfjárræktina, og eins á svínabú og hvaða stærðir hann sé þá með í huga í þeim greinum.



[18:03]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Lögmál framboðs og eftirspurnar óheft getur svo sem gilt um vöru sem hægt er að sækja á stóran markað. Við höfum hingað til gert ráð fyrir að Íslendingar verði sjálfum sér nógir um mjólk og mjólkurvörur, það þyrfti ekki að flytja þær inn, ekki a.m.k. dagvörurnar. Það þýðir að við erum með ákveðinn grunn hér sem við viljum byggja upp.

Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að það er alvarlegt núna ef framleiðslan annar ekki eftirspurn því að það ýtir þá undir að farið verði að kalla á innflutning á mjólkurafurðum. Ein ástæðan fyrir því einmitt hve erfiðlega gengur að aðlagast þessari aukningu núna er hve búin eru orðin fá. Stærstu búin sem standa undir mestu framleiðslunni hafa mjög litla möguleika til þess að auka framleiðsluna því að þau hafa þegar sett framleiðsluna í topp.

Ég tel ekki rétt og spyr þingmanninn hvort hún telji að ríkið eigi að koma með magntengdar beingreiðslur, óháð stærð búa, alveg út í hið óendanlega. Ég er ekki þeirrar skoðunar.

Ég var einmitt að vitna áðan í samtök bænda um að mjög nauðsynlegt sé að skoða þessi mál, fara yfir þau og hvort ekki sé rétt að setja þarna ákveðin mörk sem ekki er þá þegar búið að sprengja og þess vegna ætti að vera hægt að koma þeim til framkvæmda.

Ég tel, frú forseti, mjög mikilvægt að þetta mál fái vandaða meðferð og umfjöllun eins og samtök bænda kalla eftir.



[18:06]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að engin hætta sé á því að við þurfum að fara að flytja inn mjólk því að þannig hefur það verið að við höfum ekki getað framleitt meira en 105 milljónir mjólkurlítra á ári. Verið er að hækka það núna upp í 108 milljón lítra, að mig minnir, en það er ekki vegna þess að annars þurfi að kalla á innflutning. Eins og hv. þingmaður hlýtur að vita hafa menn haft einmitt þær þröngu skorður að hafa ekki getað framleitt eins mikið og þeir hafa viljað og hafa oft og tíðum orðið jafnvel að hella niður mjólk eða senda hana í mjólkurbúin án þess að fá nema lítinn hluta afurðaverðs fyrir mjólkina af því að ekki hefur verið beingreiðsla fyrir henni. Ég held því að hv. þingmaður þurfi ekki að óttast það.

Aðeins til að geta þess hvað varðar beingreiðslur í mjólk þá eru þær afskaplega gegnsæjar og þetta er gegnsætt og gott kerfi. Ríkið veit nákvæmlega hvað það er að kaupa og ég held að það væri ekki gæfuspor að fara í sömu spor og Evrópusambandið gerir, að greiða út á eitthvað ótilgreint. Þetta kerfi okkar hefur verið mjög gott og ég vil minna á að mjólkurafurðir hafa ekki hækkað í verði núna síðustu ár. Tvö til þrjú ár hefur verið sama verð á mjólk og mjólkurafurðum sem bendir til þess að mjólkuriðnaðurinn hefur ákveðið að taka þátt í því að halda við stöðugleika í landinu.



[18:08]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir er þá bara á annarri skoðun en samtök bænda sem telja að huga eigi að þessum málum og huga einmitt að hlutfallslegum stærðarmörkum og betra sé að gera það fyrr en seinna.

Mér kemur á óvart ef hv. þingmaður hefur ekki heyrt áhyggjuraddir úti um land yfir samþjöppun á greiðslumarki í bæði mjólk og sauðfé og uppkaup á jörðum, margar jarðir í hendur sama aðila. Mér kemur á óvart ef hv. þingmaður hefur ekki heyrt það.

Hér er verið að leggja til að út frá hagsmunum neytenda, hagsmunum framleiðenda og einnig samkvæmt pólitískum markmiðum stjórnvalda um byggð og búsetu í sveitum verði hugað að setningu laga sem takmarka hlutfallslega stærð búa. Ég bendi á, frú forseti, hvað gerðist ef mjólkurframleiðslan væri komin að stórum hluta á nokkur stór bú og síðan kæmu þar upp veikindi þannig að það þyrfti að loka. Ég bendi á að reglurnar núna eru þannig að komi upp eitthvað á búi getur búið ekki lagt inn í heila viku og það getur haft áhrif bæði á framboð vörunnar til neytenda og vinnslu viðkomandi mjólkurstöðvar.

Það er einmitt þetta öryggi neytenda sem ég tel að bændur og landbúnaðarframleiðsla eigi að hafa í fyrirrúmi. Þess vegna er þetta frumvarp flutt.



[18:10]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum berum hag hinna dreifðu byggða mjög fyrir brjósti og við teljum að þetta frumvarp eigi fullan rétt á sér og umræðan sem hér fer fram er mjög þörf, sérstaklega hvað það varðar hvað ríkið á að styrkja hvern og einn framleiðanda, hvað ríkið á að styrkja hvern og einn ábúanda mikið. Við teljum að þær skorður sem reistar eru í frumvarpi séu jafnvel of háar. Eitt prósent er að mínu viti nálægt 45 milljónum.

Ég botna ekkert í því sem kom fram hjá hv. formanni landbúnaðarnefndar að finnast það vera of miklar takmarkanir. Ég held einmitt að ef við ætlum að hafa sátt um þetta kerfi, styrktarkerfið í landbúnaði, þá þurfi það að vera markmiðið að það nái til sem flestra, að við höfum ekki búin það stór að fólki ofbjóði sem er að borga skatta og það fari jafnvel 45 milljónir á einstaka bú.

Þess vegna langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þm. Jóns Bjarnasonar hvort þetta ætti ekki að vera lægra en 1%, því mér sýnist þetta vera um 45 milljónir.



[18:12]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir stuðningsorð hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar og veit að hann í starfi sínu sem heilbrigðisfulltrúi þekkir líka þann aðbúnað sem þarf að vera við framleiðslu á matvörum og þau umhverfisatriði sem þar þarf að taka tillit til.

Það sem lagt er til varðandi mjólkurframleiðsluna er að eitt bú á einum stað fari ekki yfir nálægt 1% af heildargreiðslumarkinu sem núna er um 105 milljónir lítra. Reyndar er búið að auka heimildina núna upp í 114, en það er bara tímabundið, það er ekki hluti af samningnum við ríkið, heldur eru það afurðastöðvarnar sem greiða fyrir þá umframframleiðslu, þ.e. sem er umfram þann samning.

Það má vel vera að 1% sé of hátt eða of lágt. Ég er ekki hér að gefa neinn endanlegan dóm um það. Ég legg þetta til en færa má rök fyrir einhverju öðru, 1,1, 1,2, 1,5, 0,8, það má velta því fyrir sér. En meginmálið er: Til að uppfylla kröfur um öryggi gagnvart neytendum, um gæðaöryggi vörunnar, um öryggi á umhverfisþáttum í framleiðslu vörunnar og að tryggja byggð og búsetu í sveitum og þar með líka framleiðsluöryggið, þá þarf að setja þarna mörk.



[18:14]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka að þessi umræða á fullan rétt á sér. Ég sá það í Bændablaðinu fyrir ekki svo löngu að skorður eru reistar í Danmörku við því að menn geti verið að safna jörðum vegna þess að menn líta þar svo á, í því þéttbýla landi þó, að mikils virði sé að halda bújörðum í byggð. Þess vegna tel ég að hv. formaður landbúnaðarnefndar, sem mun flytja ræðu á eftir, ætti að endurskoða sitt mál.

Ég vil ítreka að mér finnst þetta 1% vera fullhátt, sérstaklega í ljósi þess að það skiptir svo miklu máli að friður sé um þetta kerfi og að þeir sem borgi slíkar beingreiðslur, skattgreiðendur, skynji að þetta fari í það að halda byggð í landinu. Ég er á því að það sé einmitt almennur vilji meðal skattborgara í Reykjavík að þessar greiðslur fari til þess en renni ekki til einhverra stórbúa. Það tel ég að endi með ósköpum. Ég er á því að bændur sjái einmitt þessa hættu að þegar beingreiðslur fara á einn stað, segjum eins og þetta frumvarp getur mögulega gert ráð fyrir, tugi milljóna á einn stað, komi upp þær raddir hjá skattgreiðendum í landinu: Hingað og ekki lengra. Við viljum líka fá hagræðingu sem verður á stórbúunum og viljum þá mögulega minnka greiðslur til landbúnaðarins.

Ég tel að menn eigi að skoða þetta og ræða þetta í fullri alvöru, frú forseti.



[18:16]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru tvö aðskilin atriði sem hv. þingmaður var að ræða um, annars vegar um stuðning ríkisins eða beingreiðslurnar, sem eru framleiðslutengdar, og hins vegar hvað rétt væri að binda í starfsleyfum um stærð búa á einum stað. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að magntengdar beingreiðslur af hálfu ríkisins til mjólkurframleiðslunnar ættu ekki að vera upp í milljón lítra, alls ekki. Ég hef nefnt að þar gætum við verið að tala um 200–300 þúsund lítra og síðan hyrfi það við einhvern ákveðinn lítrafjölda sem mönnum þætti henta miðað við hin pólitísku markmið sem sett eru. En framleiðslueining á sama stað ætti ekki að fara hærra en þetta og ég bendi á hversu varasamt þetta reyndist t.d. í svínaræktinni þegar svínabúin fóru á hausinn hvert á fætur öðru og bankar urðu að fara að reka þau til þess að tryggja kjöt á markaði við aðstæður sem við vorum heldur ekki ásátt með, þá fóru þeir að greiða niður kjötið.

Þessi mörk geta verið breytileg eftir búgrein. Það getur verið rétt að það sé einhver önnur prósentutala við sauðfjárframleiðslu, önnur prósentutala við svínakjötsframleiðslu o.s.frv. En það þarf að setja mörk til að tryggja hagsmuni neytenda, tryggja að þeir fái örugglega á hverjum tíma þessa vöru af sem bestum gæðum og á sem besta verðinu. Það er það sem þarf að tryggja, frú forseti.



[18:18]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það þarf enginn að efast um góðvilja hv. þm. Jóns Bjarnasonar til landsbyggðarinnar og til bænda og það er ekki þar sem okkur greinir á. Ég hef þann sama hug líka en ég vil hafa meira frelsi. Ég vil ekki binda fólk þannig að það geti ekki lifað af jörð sinni og það er mjög langt frá því að nokkurt bú sé komið í þann áhættuflokk sem hv. þm. Jón Bjarnason er með hér. Ég vil því segja enn og aftur: Þetta er ótímabært.

Það má líka segja, og er alveg rétt sem kom fram í máli hv. flutningsmanns Jóns Bjarnasonar hvað varðar svínabúin og það mikla stríð sem varð á kjötmarkaðinum ekki fyrir svo löngu, að sauðfjárræktin hafi þurft að líða fyrir það. Nú sjáum við í fyrsta skipti í mörg ár að það er ekkert kjötfjall til, það er ekkert uppsafnað lambakjöt í landinu og það er mjög gott. Staðan er allt önnur en verið hefur og við sjáum það líka að salan á lambakjöti hefur aukist. Ég vil minnast á það mikla og góða starf sem Baldvin Jónsson hefur verið að vinna í Bandaríkjunum með sölu lambakjöts í sérvaldar verslanir og þann ánægjulega árangur að nú er einnig farið að selja skyr og smjör til Bandaríkjanna í þessar sömu verslanir. Þarna er sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað fyrst þessar góðu vörur okkar eru farnar að seljast svona vel. Ég tel að það sé mjög bjart fram undan í íslenskum landbúnaði, virkilega bjartir dagar fram undan.

Það er oft talað um að það sé engin nýliðun í íslenskum landbúnaði, en samt sem áður er ótrúlega mikil nýliðun meðal kúabænda og jafnvel sauðfjárbænda líka. Þegar maður kemur á fund hjá Landssambandi kúabænda sér maður mikinn og stóran hóp af ungu fólki og það sama má segja um fund hjá Landssambandi sauðfjárbænda síðasta vor, þar var mikið af ungu fólki.

Ég er líka alveg sammála hv. þingmanni um öryggisþáttinn. Auðvitað skiptir hann miklu máli. Það skiptir miklu máli að öryggismál séu í lagi og ég get alveg tekið undir, og er hjartanlega sammála því sem kemur fram í fylgiskjali varðandi erindi sem Svínaræktarfélag Íslands lagði fram, að það skilyrði verði sett í starfsleyfi bús að það hafi yfir að ráða nægjanlega stóru landi. Það skiptir miklu máli, ég er alveg sammála því. Það skiptir líka máli að þeir sem eru með hesta eigi nægilegt beitiland og að hugað sé að þeim þáttum. Þegar ég var sveitarstjórnarmaður fyrir austan, í Rangárvallahreppi, flutti maður í þorpið með töluvert marga hesta og hann ætlaðist til þess að sveitarfélagið skaffaði sér land fyrir hrossin sín. Þannig á það náttúrlega ekki að vera. Auðvitað eiga menn að bera ábyrgð á því sem þeir eiga og hafa bæði nægilegt fóður og nægilegt landrými. Það er líka það sem hamlar því að búin verði mjög stór, það er vegna þess að þau þurfa landrými. Tökum stór kúabú sem dæmi, það er bannað hér á landi að loka kýr inni allt árið og kýrnar þurfa að fara út á beit og þær þurfa víðáttu til að hreyfa sig á og bíta gras.

Það sama á við um sauðfjárbúin. Það hefur oft verið talað um að þeir sem vilja hafa sem stærstu búin eigi að hafa svo og svo margt fjár en það eru landið og landgæðin sem takmarka það og ég hef þá trú að það sama sé upp á teningnum í mjólkurframleiðslunni. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að hafa marga gripi á hverju búi.

Sem betur fer er margt gott að gerast í landbúnaðinum og ég vil geta þess mikla og góða árangurs sem er orðinn í kornrækt. Það er verið að reyna að koma línræktinni áfram. Það er verið að byggja upp feygingarverksmiðju í Þorlákshöfn. Það er erfiður róður en ríkið er að reyna að hjálpa til við að koma þeirri verksmiðju upp. Það er eitt sóknarfærið fyrir bændur landsins og með aukinni kornrækt er hægt að brugga úr korninu og margir hugsa sér gott til þess og ég vona að hv. þm. Jón Bjarnason sé mér sammála um hvað það er mikilvægt.

Síðan er ég viss um að við erum ekki sammála um annað mál, en það er lyfjaframleiðsla úr genabreyttu korni sem gæti orðið milljarðahagnaður af ef vel tekst til. Síðan er náttúrlega margt annað gott að gerast og ég minnist þess að á síðasta vetri, þegar hv. landbúnaðarnefnd var að ræða um æðardúnsfrumvarpið, að nefndarmenn vildu leggja mikla áherslu á að dúnninn yrði nýttur sem best og það yrði sem mestur virðisauki frá honum í landinu. Svo má nefna aukna ferðamennsku og þá kröfu ferðaþjónustuaðila að geta farið að framleiða vöru á búum sínum til að selja til almennings, selja til ferðamanna. Ég veit að verið er að vinna í því í landbúnaðarráðuneytinu. Ég tel að það sé sátt um samninginn sem hefur verið gerður við bændur, mjólkursamninginn. Þó að hv. þm. Sigurjón Þórðarson telji að hætta sé á að landsmenn verði ósáttir við hann held ég að það sé sátt eins og þetta er í dag. Og ég er ekki hrædd við að samþjöppun verði svona mikil á búum, en ég er líka alveg tilbúin að skoða það að ef það lítur út fyrir að óhóflega miklar beingreiðslur fari á eitt bú þá verði halli á þeim greiðslum. Það hef ég alltaf sagt og mér finnst eðlilegt að það sé skoðað. En ég álít að það sé ekki tímabært að setja eina milljón lítra á hvert bú, þau eru þá ekkert mjög mörg búin eftir í landinu ef öll ættu að fara upp í þessa háu lítraframleiðslu.



[18:27]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Frumvarpið sem við erum að ræða snýst m.a. um það að ekki fari meira af fé skattborgaranna en 45 millj. kr. um það bil á hvern og einn stað, 45 millj. kr. Ég tel að ef sátt eigi að vera um þetta landbúnaðarkerfi sé það jafnvel of há tala. Þetta snýst ekkert um frelsi eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir virðist halda. Þetta snýst um það að takmörk séu á því hvað skattborgararnir eru að borga á einn stað. Það þarf að vera ákveðin pólitísk umræða um það. Það er mjög gott að hún fari fram, hún er mjög þörf. En vegna þess að hv. þingmaður talar svo mikið um frelsið og viðskiptafrelsið, þetta virðist snúast um það, þá væri fróðlegt að fá afstöðu hv. þingmanns til þess fyrirtækis sem hefur ákveðið að standa algerlega fyrir utan þennan stuðning frá ríkinu. Þá er ég að tala um Mjólku.



[18:28]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit alveg, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, um hvað þetta frumvarp fjallar nákvæmlega. Ég hef bara sagt að þetta sé ekki tímabært. Það er ekki í augsýn að nokkurt einasta bú komist í það að framleiða 1 milljón lítra af mjólk. Nú eru líka í gangi viðræður í WTO og það getur vel verið að það þurfi að breyta öllum þessum greiðslum í mjólkurframleiðslunni þannig að við vitum ekkert hvernig þetta verður.

Hvað varðar Mjólku, sem hv. þingmaður spurði mig um, þá tel ég það í góðu lagi ef þeir sem eiga Mjólku treysta sér til þess að reka það bú án ríkisstuðnings að þeir geri það. Það er mér að meinalausu.



[18:29]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að þingmaður Sjálfstæðisflokksins er mjög jákvæður í garð frelsisins en ég heyri enn fremur á máli hv. þingmanns að þetta sé ekkert í augsýn. En nú eru búin að stækka og hv. þingmanni finnst einmitt að þegar þessi bú eru komin upp í milljón lítra séu þau óþarflega stór. Þess vegna heyri ég ekki annað en hv. þingmaður, formaður landbúnaðarnefndar, sé einmitt mjög sammála frumvarpinu og telji þessa umræðu þarfa. Þó að hún segi í öðru orðinu að hún sé óþörf, þá má í hinu orðinu skilja að hún sé þörf og það sé ekki jákvæð þróun að 45 millj. kr. af skattfé fari á einn stað. Það getur einfaldlega splundrað þeirri sátt sem er um kerfið og landsbyggðin þarf einmitt á að halda meiri sátt um þennan stuðning, hún þarf að fá meiri hljómgrunn fyrir þessum stuðningi.



[18:31]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég endurtek það einu sinni enn að ég tel þetta ekki tímabært, m.a. vegna þess að nú stendur yfir lokaáfangi WTO-samninganna yfir. Við vitum ekki hvernig farið verður með þessar beingreiðslur eftir að sá samningur verður að veruleika. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson er að reyna að túlka mín orð. Ég hef aldrei sagt að ég teldi þetta vera of stór bú. Það er meira með greiðslurnar. Búin hafa verið að stækka. Þau hafa orðið hagkvæmari. Fólk getur lifað af þessum búum núna sem það gat kannski ekki áður og það er vegna þess að það hefur getað keypt og selt mjólkurkvóta. Bændur sem hafa selt mjólkurkvóta, kannski fullorðnir bændur, hafa fengið sæmilegt verð fyrir það. Þetta er kannski það sem þeir hafa eftir sitt lífsstarf. Það er bara ekkert að því að þeir hafi eitthvað fyrir sig.

Eins og ég sagði áðan þá held ég að það sé ekkert bú komið upp í þetta. Margir eiga meira að segja erfitt með að framleiða upp í þann mjólkurkvóta sem þeir hafa í dag. Síðan má ekki gleyma því að mjólkurframleiðslan er svo viðkvæm vegna náttúrunnar að ef það er grasleysi, ef það er kal, ef það er mikið rigningarsumar þá gengur bara erfiðlega að heyja og fóðrið verður ekki nógu gott og þar af leiðandi verður minni mjólk.

Síðan vil ég bara minna á að nú eru aftur að hefjast umræður um hvort eigi ekki að flytja inn nýtt kúakyn, t.d. norsku kúna.



[18:33]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg ekki í efa áhuga hv. þm. Drífu Hjartardóttur á landbúnaði og því að vilja styðja hann af öllum þeim mætti sem hún og við megum hér í þinginu. Ég vil þó spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki hin pólitíska stefna sem við höfum m.a. miðað ríkisþátttöku okkar við, að fjölskyldubú séu grunneiningin í landbúnaði, a.m.k. í nautgripa- og sauðfjárrækt.

Ég vil spyrja þingmanninn annarrar spurningar. Erum við ekki sammála um að hin pólitíska yfirlýsing um að fjölskyldubúskapurinn sé grunneining sé engin tilviljun? Er þetta ekki svo að teknu tilliti til hagsmuna neytenda, gæða og öryggis framleiðslunnar, hagsmuna framleiðenda, umhverfisþáttanna og byggða- og búsetutengdra atriða, þ.e. allra þessara atriða? Miðað við það sem ég þekki til þessa máls eru alla vega þessi atriði öll lögð til grundvallar hinni pólitísku stefnumörkun um að þau skuli vera fjölskyldubú. Hér er einmitt verið að leggja til að setja þessum markmiðum mörk með öryggissjónarmið neytenda og framleiðenda í huga.



[18:35]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er sjálfsagt mál að ræða hér hvað búin eiga að vera stór, hvort þau eiga að vera stór eða lítil. Þessi umræða er afskaplega eðlileg og sitt sýnist hverjum.

Fjölskyldubú eru mjög mismunandi. Það sem einn lætur sér nægja gerir annar ekki. Þetta er alltaf álitamál. Ég mundi gjarnan vilja spyrja hv. þingmann á móti um það hvaða stærðartakmörk hann vilji hafa á svínabúum og hvaða stærðartakmörk hann vilji hafa á fjárbúum. Ég held að það sé mjög varhugavert að setja svona stærðartakmarkanir þegar þess er ekki þörf. Ég tel að óþarft sé að gera þetta, ótímabært og að menn eigi ekki að vera með þessa takmörkun á þessari stundu. Það er langt frá því að það sé tímabært.



[18:36]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vitnaði í ræðu minni til tillagna og erinda hinna ýmsu samtaka bænda. Ég vitnaði til bændafundar í Skagafirði þar sem óskað var eftir að þessi mál yrðu skoðuð. Ég vitnaði til ályktunar frá Svínaræktarfélagi Íslands þar sem óskað var eftir að þessi mál yrðu skoðuð. Ég vitnaði til ályktunar búnaðarþings, bæði frá árinu 2004 og líka frá árinu 2005 þar sem óskað var eftir að þessi mál yrðu skoðuð. Ég vitnaði einnig til erindis Landssamtaka sauðfjárbænda þar sem líka var samþykkt að þessi mál yrðu skoðuð, þessi öryggismál, þessi stærðarmörk bæði hvað varðar öryggi neytenda, öryggi framleiðenda og þátttöku ríkisins. Öll þessi samtök hafa óskað eftir því að þessi mál yrðu skoðuð. Það er ég að leggja til í mínu frumvarpi. Ég legg þarna til ákveðna nálgun. En mál þetta fer til landbúnaðarnefndar og síðan til umsagnar hinna ýmsu aðila úti í samfélaginu, hagsmunaaðila bæði hjá framleiðendum og neytendum og þá fáum við fram sjónarmið þeirra. En öll samtök bænda telja tímabært að þetta sé tekið upp, frú forseti, og þess vegna er þetta frumvarp líka flutt. Ég styð reyndar þau sjónarmið samtaka bænda að brýnt sé nú þegar að skoða þetta. Þar er talað um að nú þegar eigi einhver lögaðili yfir milljón lítra í framleiðslurétti og er hann þar af leiðandi líka, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson nefndi, kominn með um 45–50 millj. kr. frá ríkinu í beingreiðslum, sami lögaðili. Þetta heyrist sagt.



[18:38]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þessi umræða hafi ekki átt sér stað nægilega mikið innan Bændasamtakanna og búnaðarþings eins og þyrfti að vera áður en þetta kemur inn á Alþingi. Ég held að þessi umræða verði að fara fram miklu meira í greininni sjálfri áður en sett eru lög um það hér hve miklar takmarkanir eigi að vera á hverju búi fyrir sig.

Ég hef ekki heyrt það fyrr að eitt bú væri orðið þetta stórt. Það væri nú fróðlegt að vita hvort þau hafi þá getað framleitt upp í allan þennan lítrafjölda sem þau eru með greiðslumark fyrir því beingreiðsla kemur ekki til nema fyrir framleiddan mjólkurlítra þannig að ef eitthvert bú á, segjum til að mynda, 250 þús. lítra beingreiðslurétt en framleiðir ekki nema 200 þús. þá dettur hitt niður. Við skulum líka halda því til haga.



[18:40]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Málið sem hér er til umræðu er býsna athyglisvert og gott að hv. þm. Jón Bjarnason tók þetta hér upp. Þetta var reyndar einnig flutt á síðasta þingi.

1. gr. frumvarpsins fjallar í rauninni um tvennt, þ.e. hámarksrétt til beingreiðslna sem einstakur aðili getur fengið og svo að öðru leyti skyldur einkahlutafélags eða réttindi einkahlutafélaga varðandi beingreiðslur. Hvort tveggja er í rauninni mjög athyglisvert og mikilvægt atriði.

Varðandi fyrri hlutann, þ.e. þar sem lagt er til að hámarksréttur til beingreiðslna megi ekki nema nema 1% þá þýðir það að ef þetta skiptist jafnt niður þá fengju 100 aðilar á Íslandi þennan styrk eða stuðning ríkisins við bændur, framleiðendur og neytendur því að í rauninni er verið að styrkja alla þessa aðila með þessum beingreiðslum. Þá fengju sem sagt 100 aðilar þennan styrk.

Nú er raunin sú, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að þetta skiptist niður á 854 aðila árið 2004. Það segir mér að verið sé að setja ansi rúm mörk með því hámarki sem þarna er sett. Ég get ekki betur séð. Ég tel að full ástæða sé til að setja hámark. Ég er ekki fylgjandi því að stefnt sé í einhver risabú sem ég held að muni leiða af sér ómanneskjulegra umhverfi ef svo má segja. Ég fullyrði reyndar ekki að þau verði ekki eins væn dýrunum og smærri bú. En í það minnsta er það þó þannig að eftir því sem búin verða stærri þeim mun erfiðara verður að koma gripunum í grashaga því kýr eru stórar og þungar skepnur sem troða mjög niður í kringum sig og þær geta heldur ekki gengið mjög langt í haga.

Það verður fróðlegt að fá þetta mál í hv. landbúnaðarnefnd og gott að það skuli hafa fengist til umræðu á hinu háa Alþingi. Það hefur verið allt of lítið af því þann tíma sem ég hef setið á Alþingi að þingmannamál komist til nefndar. En hér höfum við reyndar í byrjun vetrar séð talsvert af því.

Síðan vil ég, frú forseti, taka fram að ég er allsendis ósammála hv. formanni landbúnaðarnefndar eða því sem kom fram í máli hennar áðan, að það væri eðlilegra að stefnumótun í málefnum landbúnaðarins færi fram fyrst hjá bændum áður en hún væri tekin til umræðu á hinu háa Alþingi. Ég tel að hið háa Alþingi geti fullt eins vel haft skoðun á því hvernig málefnum landbúnaðarins sé hagað án þess að fara þurfi fram stefnumótun áður hjá samtökum bænda. Þegar málið er tekið til umræðu hér tökum við að sjálfsögðu alltaf til greina aðstæður í landinu og reyndar jafnframt aðstæður víðar því að við hljótum að líta til nágrannalanda og Evrópu, jafnvel víðar í heiminum þegar við ræðum málefni íslensks landbúnaðar.

Þetta mál verður núna sent til umsagnar og það verður mjög fróðlegt fyrir okkur nefndarmenn í landbúnaðarnefnd að sjá viðbrögð þeirra sem fá málið til umsagnar.



[18:45]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulega frú forseti. Ég vil þakka þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni um þetta mikilsverða mál sem lýtur að framleiðslu landbúnaðarafurða og tengdum þáttum, stuðningi ríkisins við byggð og búsetu í sveitum. Af umræðunni er ljóst að það er fyllilega tímabært, eins og hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir kom inn á, að málið sé rætt á þinginu og fari út til umsagnar. Þá getum við metið viðbrögðin sem það fær. Ýmis samtök bænda hafa ályktað um að taka beri á málinu.

Við höfum heyrt af ótta framleiðenda, neytenda og íbúa landsbyggðarinnar, við þá miklu samþjöppun sem nú á sér stað í þessum framleiðslugreinum: sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu, svínarækt. Menn óttast að sú samþjöppun geti komið neytendum illa með óöryggi um framleiðsluna og einnig pólitískum markmiðum um byggð og búsetu í sveitum, öfluga byggð og búsetu um allt land. Hin pólitísku markmið gætu líka orðið að víkja ef þetta heldur þannig áfram.

Í samfélaginu, úti um hinar dreifðu byggðir, er ótti við þá þróun sem á sér stað. Jafnframt er líka hægt að taka undir það sem hefur áður verið nefnt, að íslenskur landbúnaður á mörg sóknarfæri. Þau þurfum við líka að standa vörð um og gefa svigrúm. Þetta frumvarp miðar að því, frú forseti.