132. löggjafarþing — 11. fundur
 19. október 2005.
athugasemdir um störf þingsins.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:32]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins vegna nokkuð sérkennilegrar uppákomu sem varð á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og í framhaldi af þeim fundi. Mig langaði til að beina orðum mínum til hæstv. forsætisráðherra af því tilefni. Nú kann einhverjum að þykja það sérkennilegt að vilja tala við hæstv. forsætisráðherra um uppákomur á þingi sjálfstæðismanna sem hann ber auðvitað ekki ábyrgð á en ástæðan er sú að þetta sneri að fjölmiðlunum og þeirri sátt í fjölmiðlamálinu sem ég og, held ég, þingheimur allur og þjóðin hélt að hefði náðst í því máli síðasta vor.

Eins og menn rekur minni til varð mikið uppistand í þessu samfélagi á árinu 2004, og lék raunar allt á reiðiskjálfi út af fjölmiðlamálum. Mikið kapp var lagt á það þegar menntamálaráðherra setti niður nefnd um fjölmiðlamálið að menn næðu sátt og samstöðu í þeirri nefnd. Svo mikið kapp var á það lagt að nefndin sammæltist um að allar tillögur hennar skyldu koma til framkvæmda saman, það skyldi ekki vera þannig að það væri hægt að taka einhverjar þeirra út úr og setja í löggjöf, heldur væru þær allar fyrir eina og ein fyrir allar. Það var svo mikið kapp lagt á þessa sátt að ekki var einu sinni gert ráð fyrir bókunum í þessari nefnd. Um þetta sammæltumst við öll og því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þessi sátt standi eða hvort til standi að rjúfa hana, rjúfa þessa sátt núna á þessu þingi.

Stendur hún og mun fjölmiðlafrumvarp koma fram sem byggir á þessum tillögum eða er verið að rjúfa þessa sátt?



[13:34]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Engin sátt hefur verið rofin. Það er náttúrlega alveg ljóst að allir stjórnmálaflokkar í landinu verða að hafa svigrúm og tækifæri til að marka sína stefnu og koma með hana fram. Það er það sem hefur gerst á þessum fundi Sjálfstæðisflokksins og er ekkert við það að athuga.

Hins vegar hefur komið út skýrsla í þessu máli sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók þátt í að semja og vann þar ágætt starf. Ég tel að niðurstöður nefndarinnar séu mjög góðar og ég hef lýst því yfir áður að ég geng út frá því að áfram verði byggt á starfi hennar. Hæstv. menntamálaráðherra hefur gert það jafnframt þannig að ég vænti þess að það starf haldi áfram á þeim grundvelli og að við varðveitum þá sátt sem þar hefur verið. En auðvitað kann svo að vera að einstakir flokkar hafi eitthvað mismunandi áherslur í þessu máli eins og alltaf er. Það ætti samt ekki að koma í veg fyrir að menn geti náð saman í málinu.



[13:35]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mér þótti það nokkuð miður í morgun þegar ég skoðaði blöðin og sá að Morgunblaðið greindi frá því að hæstv. menntamálaráðherra teldi allt of hátt þetta tiltekna hlutfall eignaraðildar sem nefndin sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nefndi hér áðan komst að niðurstöðu um. Ég verð að viðurkenna að mér finnst að í þeim efnum hafi hæstv. ráðherra gert lítið úr ákveðinni sáttargjörð sem hún hafði miklar mætur á fyrir örfáum mánuðum og gerði mjög mikið úr. Mér þykir afar miður að hæstv. ráðherra skyldi ekki leyfa sér að standa með þeirri sáttargjörð sem hún kallaði svo sl. vor þegar komið var inn á landsfund flokks hennar, Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst að hæstv. ráðherra láti í það skína að hún hafi jafnvel alltaf haft þá skoðun að 25% hámarkseignarhlutfall sé of hátt. Mér finnst það skjóta skökku við ef skoðuð eru orð hennar í fjölmiðlum í fyrra þar sem hún sagði berum orðum að hún teldi að það bæri að líta á tillögur nefndarinnar sem eina heild og sagðist mundu leggja fram frumvörp til laga á Alþingi Íslendinga sem mundu byggja á tillögum fjölmiðlanefndarinnar.

Ég gerði grein fyrir þessum sjónarmiðum mínum á heimasíðu minni í morgun. Ég fer þar nánar í ummæli hæstv. ráðherra en mér þykir reyndar gott að heyra hæstv. forsætisráðherra segja það að hann telji þessa sátt þess virði að það þurfi að varðveita hana. Ég skil þá orð hans svo að hann vilji að áfram verði byggt á þeim sáttagrundvelli sem náðist í störfum fjölmiðlanefndarinnar þannig að ég tel svo sem að ekkert sé að brenna þó að hæstv. menntamálaráðherra hafi sagt það sem hún sagði. Ég treysti því bara enn að hæstv. ríkisstjórn standi við þann grundvöll sátta sem náðist í starfi fjölmiðlanefndarinnar.



[13:37]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér finnst afar leitt ef hæstv. menntamálaráðherra sem boðaði til sérstaks fundar þegar við lukum störfum í svokallaðri fjölmiðlanefnd hefur nú skipt um skoðun og lítur svo á að sú sáttargjörð sem hæstv. ráðherra kynnti með miklum fögnuði síðasta vor sé ekki sú sem byggja megi á, og eins að haft sé eftir henni í Morgunblaðinu að 25 prósentin sem náðist sátt um sé allt of hátt hlutfall.

Ég tek líka fram fyrir hönd okkar í Frjálslynda flokknum að við lögðum þeirri niðurstöðu lið, þessari tölu, til að ná sátt um málið og við teljum þá niðurstöðu sem þarna náðist varðandi takmörkun á eignarhaldi alveg viðunandi.

Mér virðist hins vegar, hæstv. forseti, að upp sé kominn enn einn ágreiningurinn milli ríkisstjórnarflokkanna eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins. Hér birtist skýr ágreiningur um öryrkjamálið, varðandi styrk fyrir hreyfihamlaða, eftir landsfundinn og nú hefur forsætisráðherra sagt hér að hann teldi að þetta væri sátt sem ætti að byggjast á. Tveir ráðherrar í ríkisstjórninni, hæstv. ráðherrar Geir Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, telja hins vegar svo ekki vera. Ég fagna þó þeirri afstöðu hæstv. forsætisráðherra að það eigi að byggja á þessari skýrslu en það hins vegar opinberar enn einn ágreininginn á ríkisstjórnarheimilinu þannig að alls ekki virðist vera ljóst að það sé nein sátt í þessu máli, því miður.



[13:39]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Var það ekki hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem sagði að útkominni fjölmiðlaskýrslunni að þarna hefði fengist söguleg sáttargjörð? Mig minnir það. En einn mann virðist hafa gleymst að sætta við þessa skýrslu, Davíð Oddsson, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Þegar Davíð Oddsson sagði á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að þessi skýrsla væri handónýt og öll sú vinna sem í hana hefði verið lögð, handónýt, og það þyrfti að taka þetta mál upp aftur, já, þá snerust tveir vindhanar í rétta átt. Þeir voru hæstv. utanríkisráðherra Geir Haarde, nýorðinn formaður Sjálfstæðisflokksins, og hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra hinnar sögulegu sáttargjörðar. Þá snerust þau 180° vegna þess að enn þá stjórnar Sjálfstæðisflokknum Davíð Oddsson.

Við í Samfylkingunni gerðum þær athugasemdir við þessa málamiðlun sem varð í fjölmiðlanefndinni að þessi prósenta væri sérkennileg. Ég vakti athygli á því að með þessari prósentu þyrfti að taka upp eignarhald Morgunblaðsins sem enginn hafði þangað til og hingað til gert athugasemdir við eignarhaldið á, það þyrfti að taka það upp, það þyrfti að segja eigendum Morgunblaðsins að skipta sér, fara í frumuskiptingu. Það er sérkennileg niðurstaða að við þyrftum að gera það, það hlýtur nú ráðherra hinnar sögulegu sáttargjörðar að taka undir. En nei, það á að fara enn lengra, það á að draga prósentuna enn lengra niður og forsvarsmaður þess, hinn nýi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að gera það meðan hún leggur fram frumvarp um það að hún ein, hæstv. ráðherra, fari með 100% vald í einum fjölmiðli á landinu, þeim sterkasta, Ríkisútvarpinu. Er hægt að taka mark á þessu fólki? (Gripið fram í: Nei.)



[13:41]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Fjölmiðlaskýrslan markaði tímamót, það er alveg rétt. Það voru ákveðnar sögulegar sættir sem fengust með fjölmiðlaskýrslunni en ég veit ekki betur en að einmitt til að mynda hv. þm. Mörður Árnason hafi lýst því yfir að það þyrfti að athuga þessa prósentu eitthvað betur. Ef hv. þm. Mörður Árnason má hafa sína persónulegu skoðun á því hvort þetta sé of há eða lág prósenta, af hverju má ég ekki hafa hana líka? Og ég hef alla tíð sagt það, það er mín skoðun, að þetta sé of há prósenta. Við byrjuðum með 5%, við fórum upp í 10% og síðan var þessu breytt.

Að sjálfsögðu tek ég undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði. Við munum leggja skýrsluna til grundvallar og við munum gera allt til þess að halda áfram þeirri sögulegu sátt sem náðist með fjölmiðlaskýrslunni og virkja alla flokka sem eru á þingi, alla þingflokka. (MÁ: Framsóknarflokkinn líka?) Menn sem þora að koma fram undir nafni koma að sjálfsögðu að því að mynda og móta þetta frumvarp sem við munum setja niður um fjölmiðla.

En ég verð að segja að það eru heldur kaldar kveðjur sem formaður stjórnmálaflokks sendir út til síns eigin flokksfólks. Hvað hefur gerst síðan fjölmiðlaskýrslan var samþykkt? Jú, eitt og annað hefur gerst í samfélaginu, m.a. landsfundur Sjálfstæðisflokksins, og hvernig forustumenn eru það í flokki sem eftir heilan landsfund sem fer í gegnum mjög mikla málefnavinnu, ætla síðan ekki að leggja við hlustir og ekki að útskýra hver stefna flokksins er? Eru það skilaboðin sem til að mynda formaður Samfylkingarinnar vill senda út til síns fólks þegar það er með aðalfund, að þegar Samfylkingin er með sinn landsfund eða flokksþing sé bara sagt: Nei, heyrðu, það sem þið ályktið, við ætlum ekkert að hlusta á ykkur? Þannig virkar þetta ekki í Sjálfstæðisflokknum. Við hlustum á það sem sagt er á landsfundi og við segjum fólki hver línan er.

Og hver er línan, með leyfi forseta?

„Koma þarf í veg fyrir samþjöppun og einokun á fjölmiðlamarkaði svo stórir aðilar á markaði fái ekki neytt aflsmunar til þess að hafa áhrif á fréttaflutning og skoðanamyndun í landinu.“ Þetta er sú skoðun sem landsfundur gaf út, fjölmennasti landsfundur sem sögur fara af.



[13:44]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð umræða sem hér fer fram. Þetta er umræða um hina sögulegu sáttargjörð sem talið var að tiltekin nefnd sem var skipuð af hæstv. menntamálaráðherra hefði komist að niðurstöðu um. Í þeirri nefnd sátu fulltrúar allra flokka, m.a. a.m.k. tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Það er merkilegt þegar verið er að leita að sátt í jafnstóru máli, máli sem hefur skekið samfélagið um langt skeið og verið var að leita að niðurstöðu í, ef nú á að hlaupast undan merkjum, ef Sjálfstæðisflokkurinn, þ.e. flokkurinn sem skipaði nefndina, flokkurinn sem hafði frumkvæði að því að koma þessari nefnd á laggirnar, ætlar við þessar aðstæður að hlaupast undan merkjum. Það eru athyglisverð skilaboð, skilaboð líka til stjórnarandstöðunnar þegar verið er að óska eftir samstarfi, ef sameiginleg niðurstaða er ekki virt lengur en það hentar.

Það er rétt sem hv. þm. Mörður Árnason sagði áðan. Auðvitað eru það fyrst og fremst áhrif verðandi seðlabankastjóra, fyrrverandi formanns flokksins, sem gera það að verkum að formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. ráðherrar, koma núna með gjörbreytta afstöðu frá því sem var fyrir viku. Þetta er mjög athyglisvert.

Ég vil um leið lýsa velþóknun minni á því að hæstv. forsætisráðherra virðist ekki hafa vikið af þeirri línu sem gefin var og sættir náðust um í vor. Ég lýsi sérstakri ánægju með það og það hefur komið skýrt fram í þessari umræðu að hæstv. forsætisráðherra er ekki á hlaupum eftir viðhorfum upprennandi seðlabankastjóra.



[13:46]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Samfylkingin hefur á síðustu árum talað mikið um lýðræði og reynt að uppmála sig sem helsta málsvara lýðræðis á Íslandi og hefur þar fremst farið í flokki núverandi formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Nú kemur hv. þingmaður hingað upp í ræðustól Alþingis og lýsir því að sérkennileg uppákoma hafi átt sér stað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og í kjölfar þess fundar, þ.e. að hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra lýsi því yfir að þeir séu samþykkir og sammála þeim ályktunum sem samþykktar eru á 2000 manna landsfundi flokksins.

Það er þannig á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og í skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins að það er landsfundur sem skapar stefnu okkar og við hlustum á fólkið í flokknum okkar. Það er það sem fær að búa til þá stefnu sem við störfum eftir og auðvitað koma ráðherrar okkar og þingmenn sem starfa samkvæmt ályktunum flokksins og tala í takt við það sem þar fer fram. Skárra væri það nú ef það væri ekki gert og það furðar mig að stjórnmálamanni sem talar fyrir lýðræði og gefur sig út fyrir að vera mikill lýðræðissinni þyki slíkt verklag vera sérkennilegt, að það sé sérkennileg uppákoma. Auðvitað er það ekki svo. Þetta eru eðlileg lýðræðisleg vinnubrögð sem við vinnum eftir.

Ég vil líka taka fram að það stendur ekki til að rjúfa neina sátt sem komist hefur verið að. En með fullri virðingu fyrir þeirri fjölmiðlanefnd sem sat hér og komst að niðurstöðu vil ég benda á að fjölmiðlanefndin setur engin lög. Það er Alþingi Íslendinga sem kemur til með að setja lög um fjölmiðla ef það verður niðurstaðan, ekki þessi fjölmiðlanefnd. Og það verður Alþingi en ekki nefndin sem mun segja sitt síðasta orð í því máli.



[13:49]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja það að mér finnst viðbrögð hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar æðisérkennileg í ljósi þess að fjölmiðlaumhverfið hefur verið til mikillar umræðu. Menn hafa rætt mismunandi lausnir í því sambandi.

Það er rétt sem fram hefur komið að þegar skýrsla menntamálaráðherra kom út á liðnu vori tóku þingmenn úr öllum flokkum jákvætt í þá niðurstöðu. Það lá hins vegar alltaf ljóst fyrir að sú niðurstaða sem þar varð var einungis grundvöllur undir væntanlegt lagafrumvarp og ég held að það sé enginn vafi í hugum manna að það frumvarp verður, eins og hæstv. menntamálaráðherra greindi frá áðan, byggt á niðurstöðu nefndarinnar, byggt á ákveðinni sátt um ákveðin grundvallarsjónarmið sem þar koma fram. Við vitum hins vegar að í meðförum þings og í umræðum sem munu fara fram í því sambandi skoða menn auðvitað ýmsa þætti varðandi útfærslu og þess háttar.

Nú er ég ekki að segja hver niðurstaðan verður, ekki hef ég hugmynd um það. Frumvarpið höfum við ekk séð og þess vegna eru umræður um væntanlegt frumvarp fullkomlega ótímabærar. Hins vegar er enginn vafi í huga mínum að það starf sem var unnið í nefndinni verður mikilvægur grundvöllur lagasetningar á þessu sviði jafnvel þótt menn hafi ólíkar skoðanir á útfærsluatriðum eins og oft hefur komið fram. Ég minni á að í umræðum um skýrsluna þegar hún var kynnt á liðnu vori þá var helst að heyra efasemdaraddir úr ranni Samfylkingarinnar. Ég minnist þess sérstaklega að hv. þm. Mörður Árnason var eini þingmaðurinn sem gerði verulegan fyrirvara við skýrsluna í þeim umræðum.



[13:51]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég talaði áðan um sérkennilegar uppákomur á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og ég var þar að sjálfsögðu ekki að vísa til þess að flokkurinn hefði markað sér stefnu í einu og öðru þó að auðvitað megi hafa um það einhver orð. Hin sérkennilega uppákoma var auðvitað ræða fráfarandi formanns flokksins og einnig hvernig eftir fundinn núverandi formaður og varaformaður runnu í þá slóð sem formaðurinn markaði áður en hann stóð upp úr formannsstólnum.

Ég skoða samþykktir landsfundar Sjálfstæðisflokksins af fullri alvöru. Ég hef ekki orðið vör við að þar standi neitt um neinar prósentur í samþykktum um eignarhald á fjölmiðlum. Ég varð ekki vör við að þar væri nefnd nein prósenta yfirleitt, ekki 25%, 10% eða 5%. Það er því algerlega túlkun þessara ráðamanna að 25% séu of há og að prósentan eigi að vera eitthvað lægri. Og núna stendur hæstv. menntamálaráðherra í þeim sporum að hún verður að gera annað tveggja, hlaupast undan merkjum sáttar sem náðist hér þvert á alla pólitíska flokka í vor og líka sátta við alla þá sem koma að fjölmiðlum í landinu eða hitt að hún verður að hlaupast undan merkjum þeirrar stefnu sem mörkuð var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins miðað við þá túlkun sem hún leggur í stefnuna í ræðustól Alþingis.

Ég lít hins vegar svo á að ég hafi orð hæstv. forsætisráðherra fyrir því að það frumvarp sem lagt verði fram byggi á tillögunum sem fjölmiðlanefndin kom sér saman um og voru samþykktar þar. Hvað gerist með það frumvarp í þinginu er svo önnur saga því að þingið tekur það auðvitað til umfjöllunar. En að frumvarpið verði lagt fram og byggi á tillögum fjölmiðlanefndar tel ég mig hafa orð hæstv. forsætisráðherra fyrir.



[13:53]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það hárrétt sem hefur komið fram í máli stjórnarþingmanna og hæstv. forsætisráðherra að frumvarpið verður byggt á fjölmiðlaskýrslunni sem var lögð fram í vor. Fjölmiðlaskýrslan sem slík gerir fólk hins vegar ekki skoðanalaust, a.m.k. ekki mig. Þetta er mín skoðun, mér finnst hlutfallið of hátt. En frumvarpið er á lista mínum um lagafrumvörp og mun verða lagt fyrir á þessu þingi. Ég hef þegar sagt að ég mun gera allt til þess að það verði sem mest sátt um það. Þess vegna hef ég sagt að ég tel mikilvægt að allir stjórnmálaflokkar komi að samningu frumvarpsins á einn eða annan hátt þannig að sem mest samstaða náist um það.

Afstaða mín er skýr og afstaða Sjálfstæðisflokksins er skýr. Menn eiga að setja lög um fjölmiðla sem fela í sér breytt eignarhald og skarpar línur í þá veru að tryggja sem fjölbreyttasta og frjálsasta fjölmiðlun hér á landi. Þetta mál er alveg skýrt hvað það varðar.

Ég ítreka einnig það sem ég sagði áðan: Mér finnst það mjög ankannalegt þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins er nýafstaðinn að við, formaður og varaformaður, segjum ekki hver stefna flokksins sé. Mér finnst það mjög skrýtin skilaboð ef það á algerlega að hunsa þau skilaboð sem þaðan koma. Mér finnst sjálfsagt að menn veki athygli á þeim. En fjölmiðlaskýrslan var lögð fyrir í vor og það mun verða byggt á henni. Síðan er annað mál hvað þingið mun gera í kjölfar þess frumvarps sem lagt verður fyrir.